Starfsemi Rithöfundasambandsins var með hefðbundnu sniði á árinu 2013. Helstu verkefni þess eru upplýsingamiðlun varðandi réttindamál á sviði höfunda- og útgáfuréttar, endurnýjun og breytingar á gildandi samningum um notkun á verkum íslenskra rithöfunda og ýmiskonar hagsmunagæsla. Ennfremur umsýsla og úthlutun greiðslna sem RSÍ tekur við frá Fjölís, IHM, Blindrabókasafni og Námsgagnastofnun. Þá rekur sambandið Höfundamiðstöð en hún annast verkefnið Skáld í skólum og Skáld í leikskólum, auk þess að veita ýmsar upplýsingar um höfunda. Skáld í skólum eru bókmenntadagskrár fyrir ólík stig grunskólanna og hafa þær notið mkilla vinsælda bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Skáld í leikskólum byrjaði haustið 2013 og gaf góða raun. Vonir standa til að hægt verði að halda því áfram fáist fjármagn.

Á skrifstofunni í Gunnarshúsi starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi og hefur umsjón með daglegum rekstri. Undir hann Fellur einnig rekstur gestaíbúðar í kjallara hússins, þangað sem erlendir höfundar og þýðendur sækja fast og er íbúðin ævinlega bókuð langt fram í tímann. Rithöfundabústaðirnir Norðurbær á Eyrarbakka og Sléttaleiti í Suðursveit eru líka á verksviði framkvæmdastjóra. Ennfremur hefur hann umsjón með Bókasafnssjóði höfunda. Auk daglegrar starfsemi RSÍ í Gunnarshúsi eru þar fundir og samkomur á vegum Rithöfundasambandsins, Félags leikskálda og handritshöfunda, Góanna og IBBY á Íslandi.

Rithöfundasambandið tekur þátt í starfi Norræna rithöfunda- og þýðendaráðsins, Evrópska rithöfundaráðsins og Baltneska rithöfundaráðsins. Rithöfundasambandinu býðst auk þessa á hverju ári að senda fulltrúa og taka þátt í námskeiðum og ráðstefnum víða um heim (þó aðallega í Evrópu). Sambandið hefur með tímanum orðið sjálfsagður gestgjafi erlendra rithöfunda, þýðenda og bókmenntafrömuða sem sækja Ísland heim.

Í apríl sóttu formaður og framkvæmdastjóri ársfund Evrópuráðsins á Möltu og í maí ársfund Norrænu rithöfundasambandanna í Danmörku. Á báðum þessum fundum voru umræðuefnin mjög. Þau tengdust rafrænni útgáfu, hverskyns niðurhali, skönnun og greiðslum fyrir ljósritanir svo eitthvað sé nefnt.

Á árinu voru Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs veitt í fyrsta sinn í flokki barnabóka. Þá var í fyrsta sinn tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í sama flokki. Segja má að þarna sé verið að rétta hlut barnabókmennta og er það vel.

Margir höfundar sóttu bókamessuna í Gautaborg en hún var haldin á haustdögum. Sama má segja um bókamessur í London, Leipzig og Frankfurt. Þótt fjöldi höfunda á faraldsfæti sé ekki í líkingu við það sem var árið 2011 eru bækur þeirra að koma út vítt og breitt og töluvert um ferðalög. Bókamessa var haldin Ráðhúsinu í nóvember. Að henni stóð Reykjavík Bókmenntaborg ásamt Félagi íslenskra bókaútgefenda. Fjölmargir höfundar tóku þátt í henni með upplestrum, umræðum og áritunum nýrra bóka.

Eftir viðræður sem stóðu í sex mánuði undirrituðu samninganefndir Rithöfundasambandsins og Félags íslenskra bókaútgefenda nýjan útgáfusamning sem samþykktur var á félagsfundi í nóvember. Gamli samningurinn var frá 1999.

Félugum í Rithöfundasambandinu fjölgar milli ára og eru nú 420. Konur eru rúmur þriðjungur. Elsti höfundurinn verður 100 ára á árinu en sá yngsti er 20 ára.

Stjórn sambandsins fundar fyrsta mánudag í mánuði nema í júlí og ágúst, boðað er til aukafunda gerist þess þörf en samskipti eru líka virk í tölvupóstum.

Á aðalfundi í apríl s.l. gaf Kristín Helga Gunnarsóttir ekki kost á sér til endurkjörs og var Úlfhildur Dagsdóttir kjörin meðstjórnandi. Í stjórn Rithöfundambandsins sátu því að kosningum loknum eftirfarandi höfundar:

Kristín Steinsdóttir, formaður, Jón Kalman Stefánsson, varaformaður, Davíð Stefánsson, Úlfhildur Dagsdóttir og Sölvi Björn Sigurðsson meðstjórnendur. Varamenn: Gauti Kristmannsson og Oddný Eir Ævarsdóttir.

Framkvæmdastjóri félagsins er Ragnheiður Tryggvadóttir.