Stjórnar-, sambandsráðs- og félagsfundir SÍM
Stjórnarfundir SÍM á starfsárinu 2013-2014 eru áætlaðir þrettán talsins, þar með talið tveir sambandsráðsfundir. Jafnframt voru haldnir tveir félagsfundir á árinu, en stjórn samþykkti þá ný breytni að halda næstu félagsfundi úti á landi og var sá fyrsti haldinn á Akureyri í byrjun júní 2013.

Helstu málefni SÍM á árinu 2013
Starfsumhverfi
Í starfsáætlun stjórnar SÍM er enn helsta baráttumálið að efla starfsumhverfi myndlistarmanna og kanna hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar.

Samingur milli Myndstefs og Listasafns Reykjavíkur
Á vormánuðum 2013 var undirritaður samningur milli Myndstefs og Listasafns Reykjavíkur um myndbirtingu á safneign sinni á netinu. Þar með var merkum áfanga náð og var gagnabanki safnsins formlega kynntur í vóvember s.l. Það er mikið framfaraskref að safneignin skuli nú vera aðgengileg á netinu og má Listasafn Reykjavíkur eiga hrós fyrir góða framsetningu. Greiðslan sem Listasafn Reykjavíkur og þar sem Reykjavíkurborg inna af hendi fyrir birtinguna renna til sameingnarsjóða Myndstefs, sem nýtist listamönnum í auknum styrkjum frá myndhöfundarsjóðnum.

Myndlistarlög, myndlistarráð og myndlistarsjóður
Þau gleðilegu tíðindi gerðust einnig á árinu að langþráð lög um Myndlistarráð og Myndlistarsjóð voru samþykkt á Alþingi sumarið 2012 og tók sjóðurinn því til starfa í byrjun árs 2013, með kr. 45 milljóna framlagi úr ríkissjóði. SÍM tilnefndi fulltrúa í stjórn ráðsins, þau Ásmund Ásmundsson og Ósk Vilhjálmsdóttur og úthlutaði Myndlistarsjóður verkefnastyrkjum tvisvar á árinu sem leið.

Frumvarp til fjárlaga nýrrar ríkisstjórnar var ekki eins gleðileg tíðindi þegar ljóst var að þeim var full alvara í að skera Myndlistarráð og þar með Myndlistarsjóðinn algerlega niður. Rökin bak því voru óskiljanleg og var þar sama við hvern var rætt, myndlistarmenn mættu lítils skilnings.Það var á síðustu stundu sem stjórn og félagsmenn SÍM, með sameiginlegu átaki, náðu að snúa vörn í sókn og unnu varnarsigur í málinu þegar kr. 25 milljónir voru settar í sjóðinn nóttina áður en frumvarpið var samþykkt sem lög. Í bréfi frá Svandísi Svavarsdóttur þakkaði hún okkur fyrir að þrýsta á þingmenn á lokasprettinum því það skipti máli. Stjórn SÍM vill einnig þakka BÍL fyrir samstöðuna sem félagið sýndi á samráðsfundi með þingmönnum daginn fyrir samþykkt laganna.

Fyrir utan niðurskurð til Myndlistarráðs var heildarniðurskurður til menningar og lista rúmar kr. 600 milljónir í fjárlögum ársins 2014 og er það nánast sama upphæð og bætt var við eitt tveggja milljarða verkefni í vegagerð. Verður það verkefni stjórnar SÍM og BÍL á þessu ári að vinna að því að fá stjórnvöld til að snúa þessari þróun við.

Launa og skoðanakönnun
Á þessu starfsári lagði stjórn SÍM grunn að því að gerð yrði launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum samtakanna, líkt og gert var árið 1995. Með slíkri könnun telur stjórn SÍM að félagið öðlist kröftugt tæki, sem nota megi í hagsmunabaráttunni sem og til grundvallar samningum við Mennta- og menningarráðherra um greiðslur til handa myndlistarmönnum vegna sýningarhalds í opinberum söfnum og sýningarstöðum. Nú er fjármögnun verkefnisins á lokasprettinum og vonast því stjórn til að könnunin verði gerð á fyrrihluta þessa árs.

Laun vegna sýningarhalds
Stjórn SÍM setti fyrir tveimur árum á starfsáætlun sína að félagið beiti sér fyrir því að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar í opinberum söfnum og sýningarsölum hérlendis. Stjórnin horfir þar til sænska samningsins ,,MU- Medverkans- och utställnings-ersättning,, sem samtök listamanna í Svíþjóð (KRO) og þarlend stjórnvöld gerðu með sér.

Stjórn SÍM óskaði eftir að Mennta- og menningarmálaráðuneytið og SÍM gerðu með sér viðlíka samning vegna vinnuframlags myndlistarmanna við sýningarhald, en ráðuneytið benti á að SÍM yrði að setja slíka gjaldskrá sjálft. Nú er í smíðum handbók með leiðbeiningum fyrir listamenn og jafnframt verða gerð rafræn samningseyðublöð fyrir listamenn til að nota þegar þeir sýna í opinberum söfnum og sýningarstöðum.

Stjórn SÍM hefur ákveðið að gjaldskrá um Verkefnis- og sýningarlaun eða VS-samningurinn muni taka gildi þann 1. Janúar 2015. Með tilkomu slíks samnings yrði listamönnum greitt fyrir leigu á verkum vegna sýningarhalds, þeir myndu fá eingreiðslu vegna sýningarþáttöku og verktakalaun yrðu greidd vegna uppsetningu eigin verka sem og annars starfs sem óskað er eftir af viðkomandi stofnun.

Dagur myndlistar 2. nóvember 2013
Dagur myndlistar var að þessu sinni haldinn hátíðlegur þann 5. nóvember og hafði Gunnhildur Þórðardóttir veg og vanda að deginum. Skólum og myndlistasrmönnum var boðið að skrá sig til þáttöku í gegnum heimasíðu Dags myndlistar á www.dagurmyndlistar.is.

Að þessu sinni fóru kynningar fram í 17 grunn- og framhaldsskólum á öllu landinu, og voru það tólf listamenn sem sáu um kynningarnar á starfi sínu og heppnuðust þær mjög vel. Um 100 myndlistarmenn skráðu sig til leiks og opnuðu vinnustofur sínar fyrir almenningi.

Vinnustofur myndlistarmanna
SÍM hefur leigt út vinnustofur til listamanna um árabil. Þannig eru rúmlega 50 félagsmenn með vinnuaðstöðu á Seljavegi, á Korpúlfsstöðum eru um 60 starfandi listamenn og hönnuðir ásamt því að þar eru staðsett verkstæði Leirlistarfélags og Textílfélags. Á Lyngási í Garðabæ eru um 20 listamenn starfandi þar í sextán vinnustofum. Á Nýlendugötu eru um 25 félagsmenn með vinnustofur ásamt veitingahúsinu Forréttarbarnum á fyrstu hæð og nýjasta viðbótin eru vinnustofur í Súðavogi í gömlu timbursölu Húsasmiðjunnar, en þar eru nú 20 félagsmenn SÍM með vinnuaðstöðu. SÍM sér því um 175 félagsmönnum fyrir vinnustofum á viðráðanlegu verði.

Gestavinnustofur SÍM á Íslandi og styrkur KKNord – Kulturkontakt Nord
Framkvæmdastjóri SÍM sótti um styrk til KulturKontakt Nord vegna gestavinnustofa SÍM á Seljavegi og að Korpúlfsstöðum. Fekk umsóknin jákvæðan stuðning KKNord að þessu sinni. Felst hann í því að SÍM býður fjórum norrænum og baltneskum listamönnum á ári til tveggja mánaða dvalar í senn sér að kostnaðarlausu auk ferða- og dvalarstyrks.

Á árinu sem er að líða hafa um 250 listamenn komið til landsins til dvalar í gestavinnustofum okkar á Seljavegi, Korpúlfsstöðum og hér í Hafnarstrætinu. Það eru listamenn frá um 30 löndum víðs vegar úr heiminum. Í hverjum mánuði setja þau upp sýningu hér í SÍM húsinu í lok dvalarinnar og eru allir listamenn á landinu hvattir til að mæta á þær opnanir.

Gestavinnustofur SÍM í Berlín
SÍM hefur til skamms tíma haft á leigu fjórar íbúðir með vinnuaðstöðu í Neue Bahnhofstrasse í Friedrichshein í Berlín, en á þessu ári fækkuðum við þeim í tvær. Þar gefst félagsmönnum SÍM tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið. Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestavinnu-stofunum þegar plássrúm leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

Skrifstofa SÍM
Á skrifstofu SÍM starfa nú fjórir starfskraftar í rúmum þremur stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM stýrir skrifstofunni að sinni alkunnu snilld og Þórólfur Árnason sem sér um bókhaldið. Hrafnhildur Sigurðardóttir sér um formennsku og Friðrik Weishappel sér um viðhald vinnustofuhúsa. Á skrifstofunni starfa Hildur Ýr Jónsdóttir, sem sér um gestavinnustofur SÍM, og tók hún við af Gunnhildi Þórðardóttur, sem lét af störfum og óskum við henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi. Arna Óttarsdóttir stýrir skrifstofu og afgreiðslu SÍM og heldur utan um félagsmenn.

Alþjóðlegt samstarf:

Fundur hjá IAA – International Artist Association
Samband íslenskra myndlistarmanna hefur frá upphafi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi ýmiskonar og er SÍM aðili að alþjóðasamtökunum myndlistarmanna IAA – International Artist Association sem stofnuð voru í skjóli Unesco árið 1954. Evrópudeild IAA fundar árlega og sátu formaður SÍM Hrafnhildur Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Ingibjörg Gunnlaugsdóttir fund samtakanna í Osló í byrjun október.

Reykjavík 7. febrúar 2014
Hrafnhildur Sigurðardóttir