Author Archives: vefstjóri BÍL

Fundað með stjórn listamannalauna

Stjórn BÍL fundaði með stjórn Listamannalauna 27. janúar 2014. Frásögn af fundinum fer hér á efir: 

Mættir voru úr stjórn BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir forseti, Kristín Steinsdóttir RSÍ, Tinna Grétarsdóttir FÍLD, Jakob Frímann Magnússon FTT, Jón Páll Eyjólfsson FLÍ, Björn Th. Árnason FÍH, Kjartan Ólafsson TÍ, Gunnar Guðbjörnsson og Hallveig Rúnarsdóttir FÍT, Rebekka Ingimundardóttir FLB, Margrét Örnólfsdóttir FLH og Hrafnhildur Sigurðardóttir SÍM sem jafnframt var fundarritari.

Mættir voru fyrir hönd stjórnar Listamannalauna: Birna Þórðardóttir formaður, Margrét Bóasdóttir og Unnar Örn Jónasson Auðarson.

Kolbrún Halldórsdóttir setti fundinn og þakkaði fyrir tækifærið sem stjórnirnar fengju með þessum fundi til að eiga uppbyggileg samskipti um reynsluna af gildandi fyrirkomulagi og hugmyndir um það sem betur mætti fara.  Fyrir fundinum lá minnisblað sem stjórn listamannalauna hafði útbúið fyrir fundinn og gaf Kolbrún Birnu Þórðardóttur formanni stjórnar Listamannalauna orðið. Birna fór yfir skjöl sem stjórn lml hefur sent Kolbrúnu og Kolbrún hefur þegar áframsent til formanna aðildarfélaganna. Í þessum gagnapakka eru lög og reglur um listamannalaun, stjórnsýslulög og leiðbeiningar sem fulltrúar í úthlutunarnefndum fá í hendurnar í byrjun nefndarsetu.

 1. Reynslan af breytingunum 2012.  Birna sagði frá tildrögum þess að launsjóðirnir voru opnaðir og gefið var tækifæri á því að sækja um laun þvert á sjóði. Með breytingunni hefur starf úthlutunarnefndanna orðið umfangsmeira, þær hafa orðið að hittast innbyrðis og bera saman bækur meira en áður var. Æskilegt væri ef reynslan af þessu breytta fyrirkomulagi væri rædd í hópi listamanna og miðlað til stjórnar lml, þannig gæti hún betur gert sér grein fyrir áhrifum breytinganna.
 2. Reynslan af yfirfærslu umsýslu sjóðanna til Rannís.  Á síðasta ári var umsýsla launasjóðanna og umsóknarferli fært til Rannís. Rannís hefur hingað til séð um umsóknir rannsóknarstyrkja og ljóst að sníða þarf einhverja vankanta af kerfinu til að það þjóni launasjóðum listamanna til fullnustu. T.d. þarf að breyta frágangi á umsóknareyðublöðunum og leysa nokkur tæknileg vandamál, sem upp komu við fyrstu úthlutun. RSÍ hefur þegar sent stjórn lml athugasemdir sem bárust frá félagsmönnum og eru þær til skoðunar. Ef fleiri félög hafa athugasemdir við tæknilega þætti umsóknanna þá vill stjórn lml gjarnan fá upplýsingar um það.
 3. Reynslan af tilfærslu umsóknarfrests fram í september, þannig að úthlutun geti farið fram strax eftir áramót. Aðildarfélög eru almennt ánægð með það að umsóknarfrestur hafi verið færður fram svo að umsóknarferli sé lokið fyrir jól og hægt sé að úthluta í byrjun árs.
 4. Hæfi/vanhæfi nefndarmanna. Eins og fjallað hefur verið um á stjórnarfundum BÍL áður þá er nokkuð um að nefndarmenn í úthlutunarnefndum launasjóðanna séu vanhæfir vegna tengsla við umsækjendur eða þeir eiga jafnvel sjálfir aðild að umsóknum. Birna benti á að í þessari umsóknarlotu hafi einungis verið tvær nefndir sem ekki þurfti að breyta vegna vanhæfis nefndarmanna. Stjórnir aðildarfélaganna, sem tilnefna í úthlutunarnefndirnar þurfa að ítreka hæfisreglur við sitt fólk í næsta tilnefningaferli. Æskilegt væri að fulltrúar félaganna í úthlutunarnefndum reyndu að átta sig á mögulegu vanhæfi sínu fyrirfram.  Stjórn lml telur ákjósanlegt að það myndaðist samfella í setu í nefndinni, þ.e. að ekki hverfi allir þrír nefndarmenn á braut á sama tíma.  Þá var nokkuð rætt um snautlega lága þóknun fyrir störf í úthlutunarnefndum, en þóknunarnefnd stjórnarráðsins ákveður þóknun nefndarmanna og hefur hún ekki hækkað í langan tíma. Nýverið ákvað nefndin að hækka greiðslur og meta vinnuframlag með sanngjarnari hætti en verið hefur. Það er því áríðandi að nefndarmenn skrifi niður alla sína vinnutíma og gott ef stjórnir aðildarfélaga brýni það fyrir sínum fulltrúum.
 5. Aðildarfélög BÍL þyftu að ræða eftirfarandi:
  Stjórn listamannalauna hefur fengið minnisblöð frá úthlutunarnefndum vegna síðustu úthlutunar og mun taka saman niðurstöður ábendinga sem þar er að finna. Þá hvetur stjórn lml stjórnir aðildarfélaga BÍL til að ræða þau atriði sem félögin telja að mættu betur fara, t.d. varðandi verkefni sem sækir í tvo eða fleiri sjóði, sérstaklega þarf að skoða sviðslistirnar í því sambandi. Þá bendir stjórn lml BÍL á að ræða hlut verkefnastjóra, framkvæmdastjóra og sýningarstjóra í umsóknum til verkefna. Stjórn lml hallast að því að slíkir ættu almennt ekki að teljast gjaldgengir til launa úr launasjóðum listamanna. Þá óskar stjórn lml eftir því að BÍL ræði eftirfarandi
  a. Launasjóður rithöfunda/myndlistarmanna – úthlutanir til barnabóka (þegar stór hluti efnisins er myndefni), skoða líka möguleika barnamenningarsjóðs,
  b. Launasjóður rithöfunda; sjónarmið varðandi fræðirit og námsefni,
  c. Launasjóður sviðslista (hópar) – óperuuppfærslur og söngleikir.
  c. Launasjóður tónlistarflytjenda – úthlutanir til verkefna- og framkvæmdastjóra.
  d. Launasjóður myndlistarmanna – úthlutanir til sýningarstjóra og myndskreytinga.
  e. Launasjóður hönnuða – úthlutanir til verkefna- og framkvæmdastjóra.
 6. Fá aðildarfélög BÍL upplýsingar frá úthlutunarnefndum? Stjórn lml óskar eftir samantekt frá nefndunum á hverju ári og bendir stjórn BÍL á að gott gæti verið fyrir aðildarfélögin ef þau fengju afrit af þeim samantektum, m.a. til að auka samfellu milli nefnda. Þá var nokkuð rætt um skýrslu/einkunnargjöf umsókna sem ekki er gerð opinber, enda ekki skylda samkvæmt stjórnsýslulögum. Breyting á því kallar á breytingu á stjórnsýslulögum.
 7. Bjóða aðildarfélög BÍL félagsmönnum upp á ráðgjöf eða aðstoð við gerð umsókna um starfslaun? Ýmis aðildarfélög BÍL hafa boðið uppá aðstoð við gerð umsókna. T.d. hefur FÍH ráðið ráðgjafa utan úr bæ og greiðir FÍH fyrsta klukkutímann í ráðgjöf. Félögin hugsi hvort þarna megi gera betur.
 8. Hver er skoðun aðildarfélaga BÍL á samráði/tengingu milli launasjóða og verkefnasjóða, sérstaklega með hliðsjón af þörfum sviðslistafólks? Kolbrún Halldórsdóttir skýrði út að það sé vilji innan sviðslistageirans að sameina launasjóð sviðslistafólks og sjóðinn sem styrkir starfsemi sjálfstæðu leikhúsanna. Mikilvægt er að sviðslistafélögin ræði saman og móti sameiginlega stefnu í þeim efnum. Þá minnti Kolbrún á kröfu BÍL um að ný þriggja ára áætlun um eflingu launasjóðanna verði að veruleika, þar sem kveðið verði á um fjölgun mánaðarlauna í hverjum sjóði. Þó eru árkveðnir varnaglar slegnir í þeim efnum, meðan vilji stjórnvalda hvað þetta varðar er óljós.

Önnur mál:
a. Opinber umræða. Stjórn listamannalauna blandar sér yfirleitt ekki í umræðuna um launasjóðinn, en gerði undantekningu á því síðasta sumar þegar umræðan á alþingi um launasjóðinn fór fram úr hófi. Þá ritaði stjórn lml bréf til stjórnvalda til að árétta reglur og vinnulag kringum sjóðina.

Stjórn BÍL mun í framhaldi af þessum fundi ræða nánar málefni launasjóðanna, m.a. kröfur BÍL um nýja þriggja ára áætlun um eflingu sjóðanna.

Kolbrún Halldórsdóttir þakkaði stjórn listamannalauna fyrir komuna og fundmarmönnum öllum fyrir gagnlegar umræður.  

Aðalfundur BÍL – Dagskrá

Aðalfundur BÍL verður haldinn í Iðnó  8. febrúar 2014

Þann 8. janúar sl. var sent út boð á aðalfund Bandalags íslenskra listamanna 2014.  Fundurinn verður haldinn laugardaginn 8. febrúar 2014 í Iðnó við Tjörnina kl. 11:00 – 13:30.

Dagskrá aðalfundarins verður sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
 3. Skýrsla forseta um starf BÍL 2013
 4. Ársreikningar 2013
 5. Kosning skoðunarmanna reikninga (til tveggja ára)
 6. Kosning forseta (til tveggja ára)
 7. Lagabreytingartillaga, 8. grein laganna
 8. Starfsáætlun 2014
 9. Ályktanir
 10. Önnur mál

Stjórn BÍL leggur fram eftirfarandi tillögu til breytinga á 8. grein laganna:
Sérhverju aðildarfélagi ber að innheimta hjá félagsmönnum árstillag, sem nemur kr. 450.- m.v. verðlag í janúar 2014, til sameiginlegrar sterfsemi BÍL. Árstillagið tekur breytingum m.v. vísitölu neysluverðs.

Forseti verður kjörinn til næstu tveggja ára og hefur Kolbrún Halldórsdóttir ákveðið að gefa kost á sér til endurkjörs. Skoðunarmenn reikninga hafa verið Ragnheiður Tryggvadóttir og Sigurgeir Sigmundsson.

Þegar fundinum lýkur verður borin fram hádegishressing og kl. 14:00 hefst málþing sem fjallar um það með hvaða hætti listafólk getur auðgað samfélagið, ekki einungis gegnum listræna sköpun heldur með skapandi nálgun fjölbreyttra verkefna í öðrum greinum atvinnulífs. Málþinginu lýkur kl. 16:00 með móttöku í boði BÍL. Málþingið er öllum opið og verður sérstök tilkynning send formönnum aðildarfélaganna til dreifingar á félagsmenn.

Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt. Formenn eru minntir á að senda inn þátttökulista í síðasta lagi viku fyrir aðalfund, þ.e. 1. febrúar nk.

Nýr tíðarandi

Dóri DNA skrifar eftirfarandi pistil í vefritið Kjarnann í dag:
Á einhverjum tímapunkti hefði ég talið að söngvarinn Bono væri einn frægasti og dáðasti maður í heimi. Hann eyddi áramótunum í Reykjavík. Út úr því komu nokkrar sjálfsmyndir sem voru teknar niðri í bæ. Svona álíka margar og Steindi Jr. þarf að taka með fólki þegar hann fer út í Sorpu. Hins vegar voru hér tveir hæfileikagrannir lúðar í Smáralind á sunnudaginn og ungt fólk hélt að selfie–dómsdagurinn væri runninn upp.

Þetta er tíðarandinn að öskra til okkar að nú séu tímarnir breyttir. Geggjuð byrjun á árinu. Auðvitað er tíðarandinn að breytast. Það breyttist ógurlega margt árið 2013. Öllum er drullusama um sjávarútveginn og Decode og álver og sæstreng til Bretlands. Nú snýst þetta um Plain Vanilla. Gæja í nettum jakkafötum að gera tölvuspil fyrir snjallsíma og hanga í San Francisco.

Alþjóðlegu við
Við erum orðin svo alþjóðleg. Hér er allt troðfullt af út­lenskum ferðamönnum og öllum er alveg sama. Opna ekki einu sinni matvöruverslun yfir hátíðirnar eða skafa stéttina á Gullfoss og Geysi. Kannski tengist það staðreyndinni að utanríkisráðherra kann hvorki að bera fram Kasakstan, né benda á það á landakorti. Á meðan Össur og Jón Baldvin skrifuðu færsluna um Kasakstan á Wikipediu. Ég vona svo innilega að við tökum upp gjaldtöku á ferðamannastöðum sem fyrst, bara svo hægt sé að bjóða ferðamönnum viðeigandi aðbúnað og þjónustu.

Sakleysið er hægt og bítandi að hverfa. Allar sjoppur á höfuðborgarsvæðinu selja nú kannabistengdan varning og vatnslón í hauskúpuformi eru til sölu við útganginn á Hagkaupum bæði í Smáralind og á Eiðistorgi. Börn og unglingar stela öllu afþreyingar­efni sem þau hafa áhuga á og lögreglan skaut mann til bana í fyrsta skipti á árinu. Sam­félaginu virtist nákvæmlega sama hvort það hafi verið nauðsynlegt eða ekki. En hins vegar vildu allir vita; með hvers konar byssu banaði lögreglan manninum, gæti verið að þetta séu eins byssur og hægt er að velja í Call of Duty?

Sjálfsmyndir sjálfhverfra
Sjálfhverfa kynslóðin tók svo ógeðslega mikið af sjálfs­myndum á árinu og hélt meira að segja úti eigin hraðfréttatíma í Ríkissjónvarpinu, þar sem gamli góði eineltis­húmorinn úr Verslunarskólanum hlaut loks ríkisvottun. Hvað get ég sagt? Ég er bara lítill og nettur og fíla Gísla Rúnar og Eddu Björgvins og mögulega vandaðan frétta­flutning af erlendum fréttum og ætti því bara að þegja.

Áramótaskaupið hefur glatað öllum tengslum við sína karnivalísku fyrirmynd. Við erum hætt að nota þessar mínútur til að gera grín að valdhöfum í samfélaginu. Og viljum heldur hafa bara einn góðan grínþátt, eins og alla hina daga ársins, og gerum grín að fólkinu í landinu í staðinn. Með lágmarkskvenkvóta – auðvitað, eins og allt, alltaf, alls staðar.
Gillzenegger sneri aftur úr útlegð sinni á árinu við dynjandi lófatak. Sjónvarpsþættir hans um lífsleikni verða svo sýndir í kvikmyndahúsum á fyrsta ársfjórðungi. Loksins, loksins, segi ég. Enda eru allir búnir að gleyma því hvernig á að tala við blökkumann, koma fram við prinsessu eða stinga upp í femínista.

Á árinu dóu hugsjónir
Flugvöllurinn er á förum, hvernig sem horft er á dæmið, og Jón Gnarr líka. Eftir stendur fólk með sömu hugsjón undir nýju nafni. Stjórnmála­skýrendur kalla lista þess veikan. Líklegast af því að hann inniheldur ekki neinn pólitískan þungavigtarmann sem er lunkinn við að þrífa blóð af höndum sínum. En ég hvet fólk til að skoða listann. Þarna er skynugt og klárt fólk sem á það sameiginlegt að elska Reykjavík. Þar á meðal er konan mín og hún er algjört æði.

Á árinu dóu hugsjónir. Næstum allar. Við erum hætt að fara á íslenskar myndir í bíó. Leggjum Þjóðleikhúsið að jöfnu við fæðingardeild í Vestmannaeyjum. Grátum aura og krónur sem ganga til myndlistarmanna og rithöfunda, skerum undan Kvikmyndasjóði. Afhöfðum Ríkisútvarpið, klippum á þróunaraðstoð. En á sama tíma dælum við peningum í iðnað sem við vitum að er illa rekinn, höldum leyndófundi með útgerðinni og görgum á umhverfissinna að náttúruvernd sé allt of dýrt apparat. Hvað var þetta aftur kallað um árið, fépynd eða blackmail?

Við erum heldur ekki hætt að hugsa um hrunið. Erum eiginlega bara rétt að byrja á því núna.

Svo rekur landið alltaf fjær Evrópu. En við erum ekki að reka til helvítis, þvert á móti. Við erum á leiðinni til Bandaríkjanna og þaðan til Kína og Rússlands. Svo hugsanlega, ef það verður eitthvað bensín eftir, förum við til andskotans

Menntun og menning

Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari skrifar grein í Fréttablaðið í dag:
Margir hafa áhyggjur af ástandi menntunarmála. Lesskilningur, stærðfræðilæsi og náttúrulæsi íslenskra skólabarna fer versnandi líkt og PISA könnun hefur gefið til kynna síðustu ár. Sé horft til allra PISA mælinga frá upphafi þá hefur nemendum hrakað sem nemur um hálfu skólaári á síðasta áratug. Í samfélaginu er talað um mikilvægi þess að standa vörð um skóla- og vísindastarf. Ég er sammála því. Kennslustofnanir og menntamálayfirvöld þurfa að leita svara við því hvað er að og finna leiðir til þess að snúa þessari þróun við.

Hins vegar þarf að passa sig á því að hugsa ekki bara um menntun í samhengi prófgráða, rannsóknastiga og annarra titla. Menntun er dýpra hugtak en svo. Einn einstaklingur getur verið menntaðri en annar í einhverjum mikilvægum skilningi þótt hann hafi styttri skólagöngu að baki eða aflað sér færri rannsóknastiga í háskóla. Íslendingur sem er með doktorsgráðu í verkfræði en hefur aldrei farið á tónleika eða í leikhús, horft á kvikmyndir eða rýnt í samfélagið okkar í gegnum spegla listamanna eða annarra upplýsenda, er í einhverjum skilningi ómenntaður, skilur ekki samfélag sitt.

Samfélagsleg umræða
Menntun snýst ekki síst um að vera læs á sjálfan sig, umhverfi sitt og annað fólk. Að vera ekki mataður heldur kynna sér málin sjálfur og þroska ímyndunaraflið. Leita að svörum við spurningum lífsins, þótt þær komi e.t.v. aldrei á prófi í skólanum.

Umfangsmikil skerðing á starfsemi menningarstofnana hefur ekki bara slæm áhrif á menningarlífið heldur líka menntastigið. Það er nefnilega einmitt í slíkum stofnunum þar sem fram fer samfélagsleg umræða, tekist er á við áleitnar spurningar um lífið og tilveruna. Gagnrýnin umræða um samfélagsmál og tjáning og túlkun okkar í gegnum listköpun er bæði flutt og varðveitt. Og er því bæði fræðandi fyrir okkur í dag sem og komandi kynslóðir. Allt stuðlar þetta að ígrundaðri og upplýstari einstaklingum. Menntaðra samfélagi.

Við eigum að standa vörð um menningarstofnanir okkar. Hér hrundi fjármálakerfið og vissulega þarf að bregðast við því, sýna ráðdeild og byggja upp skilvirkara kerfi. En viðbrögð okkar við fjármálahruni mega ekki leiða til mennta- og menningarlegs hruns.

Aðalfundur BÍL 2014

Aðalfundur BÍL – Bandalags íslenskra listamanna 2014 verður haldinn laugardaginn 8. febrúar í Iðnó við Tjörnina og hefst hann kl. 11:00.  Í framhaldinu verður haldið málþing um málefni sem eru ofarlega á baugi í samfélagi listamanna um þessar mundir, frekari útlistun á efni þess og fyrirlesurum verður kynnt á næstunni.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum BÍL, sem eru aðgengileg á heimasíðu Bandalagsins.

Dagskrá fundarins ásamt tillögu stjórnar að starfsáætlun 2014 verður send út a.m.k. tveimur vikum fyrir fundinn. Ein lagabreytingartillaga liggur fyrir fundinum, sem varðar 8. grein laganna, þar sem lögð er til hækkun á árstillagi því sem aðildarfélög innheimta hjá félagsmönnum sínum til að standa straum af sameiginlegum kostnaði við starfsemi Bandalagsins.

Í beinu framhaldi af aðalfundinum verður efnt til opins fundar/málþings, sem undirbúið er af teymi skipuðu af stjórn BÍL og verður efni málþingsins endanlega ákveðið á stjórnarfundi BÍL 13. janúar nk. Málþingið verður öllum opið og verður sérstök tilkynning send formönnum aðildarfélaganna til dreifingar á félagsmenn á næstunni.

Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Samkvæmt lögum BÍL ber félögum að senda inn greinargerð um störf aðildarfélaganna og tilkynna um aðalfundarfulltrúa a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund.  Þá er minnt á að allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að félögum sé kynnt dagsetning fundarins með góðum fyrirvara.

 

Umsögn BÍL um frv um þjóðfánann

Bandalag íslenskra listamanna hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fánans).

Stjórn Bandalagsins hefur fjallað um málið og ákveðið að fylgja sömu sjónarmiðum og Hönnunarmiðstöð Íslands hefur þegar lýst í umsögn til stjórnskipunar- og eftirlistnefndar Alþingis.  Þau sjónarmið koma jafnframt fram í hjálagðri grein sem birtist í Fréttablaðinu 12. desember sl. og er skrifuð af Höllu Helgadóttur framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvar.

Meginsjónarmið BÍL eru að d-liður 1. gr. frv. sé ófullnægjandi enda kæmi sú skilgreining sem þar er að finna í veg fyrir að fjöldi fyrirtækja, sem framleiða og selja íslenska hönnunarvöru, gætu notað fánann á afurðir sínar. Þá tekur stjórn BÍL undir nauðsyn þess að aðgreina hönnun frá handverki í lagasetningunni. Loks vill BÍL sjá að gerð verði tilraun til að setja gæðastaðla á þær vörur sem fá heimild til að nota fánann í markaðssetningu.

Umsögn BÍL um frv um þjóðfánann

Bandalag íslenskra listamanna hefur sent Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis eftirfarandi umsögnn um þingmál nr 13:

Bandalag íslenskra listamanna hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fánans).

Stjórn Bandalagsins hefur fjallað um málið og ákveðið að fylgja sömu sjónarmiðum og Hönnunarmiðstöð Íslands hefur þegar lýst í umsögn til stjórnskipunar- og eftirlistnefndar Alþingis.  Þau sjónarmið koma jafnframt fram í hjálagðri grein sem birtist í Fréttablaðinu 12. desember sl. og er skrifuð af Höllu Helgadóttur framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvar.

Meginsjónarmið BÍL eru að d-liður 1. gr. frv. sé ófullnægjandi enda kæmi sú skilgreining sem þar er að finna í veg fyrir að fjöldi fyrirtækja, sem framleiða og selja íslenska hönnunarvöru, gætu notað fánann á afurðir sínar. Þá tekur stjórn BÍL undir nauðsyn þess að aðgreina hönnun frá handverki í lagasetningunni. Loks vill BÍL sjá að gerð verði tilraun til að setja gæðastaðla á þær vörur sem fá heimild til að nota fánann í markaðssetningu.

Virðingarfyllst….

Yfirlýsing norrænna listamannasamtaka

Systursamtök Bandalags íslenskra listamanna á Norðurlöndum sendu í dag mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni og formanni stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. Ingva Hrafni Óskarssyni yfirlýsingu vegna nýlegra aðgerða stjórnenda Ríkisútvarpsins, sem vega að grunnstoðum þeirrar merku menningarstofnunar sem Ríkisútvarpið er. Yfirlýsingunni hefur verið komið á framfæri við fjölmiðla. Hún birtist hér í íslenskri þýðingu: 

Systursamtök Bandalags íslenskra listamanna á Norðurlöndum lýsa þungum áhyggjum vegna þeirra gagngeru breytinga sem gerðar hafa verið á almannaþjónustu Ríkisútvarpsins á Íslandi – RÚV.

Uppsagnir 39 starfsmanna af  tónlistar- og menningarsviðum stofnunarinnar, munu hafa alvarlegar afleiðingar á dagskrána og draga úr gæðum hennar. Ráðstafanir þær sem gripið hefur verið til eru ekki einungis til komnar vegna erfiðrar fjárhagsstöðu heldur bera þær vott um forgangsröðun stjórnenda Ríkisútvarpsins.

Séð að utan standa listir og menning á Íslandi í miklum blóma. Tjáningin er kraftmikil og vitnar  um stolt þeirra sem trúað er fyrir dýrmætri norrænni tungu. Útvarp í almannaþágu ætti að standa vörð um slíkan auð.

Ríkisútvarpið hefur gegnt mikilvægu hlutverki í lista- og menningarlífi Íslendinga í meira en 80 ár. Við erum sannfærð um að á tímum efnahagslegra þrenginga skiptir virkur stuðningur við skapandi starf innan menningarstofnana meira máli en nokkru sinni. Félagar okkar í Bandalagi íslenskra listamanna (BÍL) líta á Ríkisútvarpið sem máttarstólpa listar og menningar og hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem RÚV stendur frammi fyrir. Við lýsum fullum stuðningi við þeirra mikilvægu baráttu.

Virðingarfyllst,

Henrik Petersen, forseti Bandalags danskra listamanna, Danmörku
Bárður í Baiansstovu, forseti Bandalags færeyskra listmanna (LISA), Færeyjum
Ilkka Niemeläinen, forseti Samstarfsnefndar listamanna – Forum Artis, Finnlandi
Leif Saandvig Immanuelsen, forseti Listamannasamtaka Grænlands (EPI), Grænlandi
Anders Hovind, varaforseti Félags norskra hljómlistarmanna, Noregi
Brita Kåven, framkvæmdastjóri Bandalags samískra listamanna, Samalandi
Mats Söderlund, forseti Samstarfsnefndar listamanna og rithöfunda (KLYS), Svíþjóð

 

Ljótur afleikur í Efstaleiti

Eina Falur Ingólfsson , ljósmyndari og blaðamaður, skrifar eftirfarandi pistil í Morgunblaðið í morgun:

Nú er sorglegt að kveikja á Rás 1. Helgi Pétursson er mættur í þularstofu og snýr skífum milli þess sem kynntur er endurflutningur á þáttum sem minna á hvað hefur verið gert á þessum merka miðli – og hvað á að gera þar.

Rás 1 á að vera sú lifandi menntastofnun sem ég hef elst og gránað með, þar sem líf og saga þjóðarinnar, í fortíð og nútíð, er skráð og miðlað á upplýstan, fjölbreytilegan og vandaðan hátt. Rás 1 hefur hjálpað okkur að uppfylla þá grunnskyldu hvers hugsandi manns, að vita við lok dags að hann hafi lært eitthvað nýtt og þekki heiminn betur en þegar hann vaknaði.

Vitaskuld þurfa fyrirtæki og stofnanir að sýna aðhald. Ríkisútvarpið þarf að skera niður og spara eins og aðrir. En hvernig farið er að því nú er einfaldlega galið. Að segja upp helmingi starfsfólks Rás 1, sem er rekin fyrir minna en tíu prósent rekstrarfjárins, sendir út efni sem enginn annar ljósvakamiðill sinnir og er rótin í menningunarmiðlun til þjóðarinnar er óskiljanlegt og einfaldlega skammarlegt.

Það hefur valdið vonbrigðum að menntamálaráðherra skuli ekki hafa stigið fram, fyrir hönd okkar eigenda Ríkisútvarpsins, og lýst því yfir að svona geri menn ekki.

Íslensk hönnun, handverk og föndur?

Fréttablaðið birtir í morgun grein eftir Höllu Helgadóttur framkvæmdastjóra hönnunarmiðstöðvar:

Nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um notkun þjóðfána Íslendinga á íslenskum vörum.

Í frumvarpinu er hönnun, handverki og jafnvel föndri ruglað saman eins og er nokkuð algengt hér á landi. Íslensk hönnunarvara er í frumvarpinu skilgreind sem vara hönnuð og framleidd á Íslandi. Það er ekki rétt skilgreining. Verði fumvarpið samþykkt óbreytt mun það koma í veg fyrir að flest fyrirtæki sem raunverulega selja og framleiða íslenska hönnunarvöru geti notað fánann á sínar vörur.

Hönnunarvara
Hönnunarvara er búin til af menntuðum hönnuðum sem flestir hafa háskólanám að baki. Margir hönnuðir stofna fyrirtæki, hanna vörur og láta framleiða þær fyrir sig, markaðssetja og selja. Þessar vörur eru ýmist framleiddar í verksmiðjum hér á landi eða erlendis og stundum handgerðar að hluta eða öllu leyti af handverksfólki. Handverkið sjálft er sjaldnast aðalatriði hönnunarvöru en gæði og stöðugleiki í framleiðslu eru mjög mikilvæg.

Í einhverjum tilfellum framleiða hönnuðir sjálfir sínar vörur en ástæðan er oftast sú að það er mjög erfitt að finna framleiðendur hér á Íslandi. Markmið hönnuða er yfirleitt nýsköpun, að búa til nýja hluti, finna nýjar lausnir eða leiðir sem ekki hafa verið farnar áður. Hugmyndin er það sem skiptir mestu máli en ekki aðferðin við framleiðslu hennar.

Aðrir hönnuðir hanna vörur og selja hugmyndir sínar til fyrirtækja sem sérhæfa sig í framleiðslu, sölu og markaðssetningu á hönnunarvörum. Í þeim tilfellum er varan stundum markaðssett sem vara eftir viðkomandi hönnuð (s.b. IKEA sem markaðssetur vörur undir nafni ákveðinna hönnuða) en stundum er varan einungis markaðssett undir nafni fyrirtækisins.

Margir hönnuðir ráða sig til starfa hjá fyrirtækjum og hanna vörur eða sérhæfða þjónustu sem seld er undir nafni fyrirtækjanna s.b. íslensku fyrirtækin Össur, 66North og Cintamani.

Handverk
Handverk er unnið af list- og iðnmenntuðu handverksfólki og fólki sem hefur sérhæft sig í ákveðnu handverki. Handverksfólk vinnur yfirleitt eitt að sínum verkum og framleiðslugetan takmarkast af afköstum hvers og eins. Handverkið sjálft er aðalatriði og aðferðin og efnið hefur afgerandi áhrif á hugmyndina sem unnið er með og útkomu hennar. Handverksfólk og hönnuðir vinna oft saman. Sumt handverk getur fallið undir skilgreininguna hönnun en flest handverk gerir það ekki.

Föndur
Föndur er það sem fólk gerir þegar það er að búa eitthvað til án þess að hafa til þess sérstaka menntun eða sérhæfða handverkskunnáttu. Flest okkar föndrum og notum þá uppskriftir eða fyrirmyndir sem við finnum í blöðum, á netinu eða annars staðar. Föndur er ekki hönnun og ekki listhandverk.

Hönnunarmiðstöð Íslands hefur gert athugasemd fyrir hönd íslenskra hönnuða og fyrirtækja á því sviði varðandi skilgreiningu á íslenskri hönnun í frumvarpinu. Einnig er gerð athugasemd við að ekki er gert ráð fyrir gæðaeftirliti vegna notkunar fánans á vörur. Miklar líkur eru á því að fáninn verði settur á vörur sem eru mjög misjafnar að gæðum. Það getur leitt til þess að hann verði ekki talinn eftirsóknarvert tákn og framleiðendur hannaðrar gæðavöru og matvæla muni alls ekki vilja nýta hann sér og vörum sínum til framdráttar.

Á Íslandi er fjöldi fyrirtækja á sviði hönnunar, íslensk fyrirtæki sem eru stolt af því að markaðssetja sig sem slík og bera þannig hróður Íslands víða um lönd. Framleiðslugeta á Íslandi er afar takmörkuð þannig að flest fyrirtæki á þessu sviði verða að leita út fyrir landsteinana eftir framleiðendum, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Verði frumvarpið samþykkt í óbreyttri mynd mættu okkar helstu fyrirtæki á sviði hönnunar ekki nýta fánann á vörur sínar. Þar skiptir íslenskt hráefni ekki máli en framleiðslan öllu. Þetta eru fyrirtæki eins og STEiNUNN, Farmers Market, 66North, Geysir, KronKron, Vík Prjónsdóttir, Ígló&Indí, ELLA, JÖR, Færið, Bility og mörg fleiri.
Föndrari sem býr til dúkkur úr innfluttum perlum eftir fyrirmynd úr blaði gæti aftur á móti hengt íslenska fánann á þær og selt.

Hönnunarmiðstöð Íslands er í eigu Arkitektafélags Íslands, Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, Félags íslenskra landslagsarkitekta, Félags vöru- og iðnhönnuða, Leirlistafélags Íslands, Fatahönnunarfélags Íslands, Textílfélagsins, Félags íslenskra gullsmiða og Félags íslenskra teiknara.

Page 10 of 37« First...89101112...2030...Last »