Author Archives: vefstjóri BÍL

Blekkingar og staðrendir um framleiðslu íslenskra kvikmynda

Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður gerir grein fyrir stöðu fjármögnunar Kvikmyndasjóðs í Fréttablaðinu í dag:

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, heldur því fram í grein að Framsóknarflokkurinn hafi þegar efnt kosningaloforð sitt um að efla íslenska kvikmyndagerð. Málið sé afgreitt.
Þessi niðurstaða hefur vakið mikla furðu í röðum íslenskra kvikmyndaframleiðenda – svo ekki sé meira sagt.

1 Jóhannes segir að framlög til kvikmyndasjóða hafi aldrei verið hærri en þau verða 2015 (nema 2013). Meðfylgjandi línurit um framlög til kvikmyndasjóða á föstu verðlagi sýnir að þessi fullyrðing er ekki rétt.

2Núverandi ríkisstjórn lækkaði framlag til kvikmyndasjóða um 488 milljónir með því að afnema fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Jóhannes segir að það sé „einfaldlega ekki hægt að nota 2013 sem eðlilegt viðmið“ vegna þess að hækkunin það ár hafi verið „ófjármagnað risakosningaloforð“ fyrrverandi stjórnarflokka.

Jóhannes lokar augunum fyrir því að þessi fjárfesting var ákvörðun framkvæmdavaldsins með samþykki fjárveitingavaldsins. Þessir peningar runnu til framleiðslu íslenskra kvikmynda árið 2013. Fjárfestingin er því staðreynd – ekki loforð – sem ekki verður undan komist þegar rætt er um fjármögnun kvikmyndasjóða.

3 Jóhannes segir að fjárfestingaáætlunin hafi ekki verið „í neinu sambandi við raunveruleikann í ríkisfjármálum“ og „það var því aldrei innistæða fyrir sjálfkrafa framlengingu á þessu“…
Þessi fullyrðing stenst ekki skoðun.

Sá hluti fjárfestingaáætlunarinnar sem fór til að efla skapandi greinar eins og kvikmyndaframleiðslu var fjármagnaður með arði af hlut ríkisins í bönkunum. Ef arðurinn myndi minnka eða hverfa þá færu þessi framlög sömu leið. En arðurinn hefur hins vegar hækkað verulega. Arðgreiðslur bankanna til ríkisins árið 2013 námu 10 milljörðum en 21 milljarði árið 2014. Því er rangt að fjármögnunin hafi verið án sambands við raunveruleikann eða innistæða ekki fyrir hendi. Það er einfaldlega pólitísk ákvörðun stjórnarflokkanna að nota þessa peninga frekar til annarra verkefna og við þá ákvörðun eiga þeir að þora að standa.

4 Jóhannes segir að ríkisstjórnin hafi engu að síður „ákveðið“ að hækka framlög til kvikmyndasjóða.
Staðreyndin er sú að þessi hækkun milli ára er ekki „ákvörðun“ þessarar ríkisstjórnar heldur er hækkunin bundin í samningi sem gerður var við greinina árið 2011. Eina „ákvörðunin“ sem ríkisstjórnin tók í þessu sambandi var því sú að svíkja ekki samning sem hefur verið í gildi í nokkur ár.

5 Þegar ríkisstjórnin slátraði fjárfestingaáætluninni var það gríðarlegt högg fyrir kvikmyndaframleiðslu á Íslandi því fjárfesting hins opinbera í greininni (sem er forsenda annarrar fjármögnunar) dróst fyrirvaralaust saman um tæp 40%.
Jóhannes blæs á þá gagnrýni að aðgerðir stjórnarinnar valdi óvissu í greininni. Hann segir: „Það er einfaldlega ekki rétt. Óvissa myndi ríkja ef framlög til kvikmyndasjóða væru á miklu flakki upp og niður milli ára“.

Þetta línurit sýnir framlög til kvikmyndasjóða undanfarin 6 ár og til samanburðar eru framlög hins opinbera til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Lesendur geta sjálfir dæmt um hvort myndin sýni „mikið flakk upp og niður milli ára“ eða ekki.

Kvikm_Sinf

Mannræktarstarf RÚV

Friðrík Rafnsson ritstjóri og stjórnarmaður í stjórn Ríkisútvarpsins skrifar grein í Fréttablaðið í dag um mikilvægi þess að Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið óskipt svo stofnunin nái að halda sjó í rekstrarlegu tilliti, auk þess sem það er heiðarlegra gagnvart skattgreiðendum:

Allt frá stofnun RÚV árið 1930 hafa skoðanir verið skiptar meðal þjóðarinnar um hlutverk þess og stöðu. Það er bara eðlilegt í heilbrigðu lýðræðissamfélagi, ekkert væri verra en þögn og skeytingarleysi. Íslenska þjóðin, eigandi RÚV, gerir miklar kröfur til þess að vel sé farið með það fé sem til þess rennur og það skili sér í sem allra bestri þjónustu, góðri og vandaðri dagskrá í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum. Það er og verður síðan alltaf mats- og smekksatriði, en mestu skiptir að þjóðin treysti Ríkisútvarpinu og líti á það sem einn af burðarásum íslensks nútímasamfélags.

Traustið grundvallaratriði
Hlustenda- og notendakannanir eru bestu mælikvarðarnir á það traust sem fólk ber til fjölmiðla. Hér eru nokkrar beinharðar staðreyndir: Segja má að nánast allir landsmenn njóti dagskrár RÚV á einn eða annan hátt í viku hverri. 87% landsmanna horfa á RÚV að meðaltali í hverri viku, 30% hlusta á Rás 1 og 62% á Rás 2 í viku hverri. Vefurinn ruv.is er í 5. sæti í vefmælingu Modernus með 212 þúsund notendur í viku 41 (6. til 10. október s.l). Í viðhorfskönnun sem Capacent gerði september 2013 sögðust 70,5% landsmanna telja RÚV vera mikilvægasta fjölmiðilinn fyrir þjóðina og þrátt fyrir stöðugar umkvartanir stjórnmálamanna nýtur fréttastofa RÚV meira trausts en nokkur annar fjölmiðill. Í könnun sem MMR gerði í desember 2013 sögðust 76,5% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til Fréttastofu RÚV. Þetta sýnir glögglega að enda þótt RÚV eigi sér nokkra háværa og áhrifamikla óvildarmenn og -konur treystir íslenska þjóðin mjög vel þeim upplýsinga- og mannræktarmiðli sem RÚV er.

Brugðist við vandanum
Ég hef setið í stjórn RÚV frá því í byrjun þessa árs og þekki því nokkuð vel til mála þar. Magnús Geir Þórðarson tók við starfi útvarpsstjóra um miðjan mars, kynnti breytingar í rekstrinum sem hann taldi nauðsynlegar og hlaut til þess fullt umboð stjórnar RÚV. Meðal þess var að stokka upp í framkvæmdastjórn, minnka yfirbyggingu og einfalda allar boðleiðir. Með öðrum orðum, minna bákn og meiri skilvirkni í rekstrinum og starfseminni, allt í þágu betri þjónustu við þjóðina.

Útvarpsstjóri og framkvæmdastjórn hafa síðan unnið sleitulaust að því undanfarna fimm mánuði að hagræða í rekstri RÚV og fá skýrari mynd af fjárhagnum. Eins og fram hefur komið hjá útvarpsstjóra og formanni stjórnar RÚV er nú unnið hörðum höndum í að koma skikk á fjármál RÚV, leigja út hluta hússins, selja lóð og/eða húsnæði, en ekki síst að fá Alþingi til að samþykkja þá eðlilegu beiðni að RÚV fái þann markaða tekjustofn sem því er ætlað, útvarpsgjaldið, óskert. Hluta af útvarpsgjaldinu hefur ríkið notað í önnur verkefni. Þessar skertu tekjur duga ekki fyrir óbreyttri starfsemi, en verði það látið renna óskert til RÚV, sem er líka heiðarlegra gagnvart skattgreiðendum, ætti það að duga til að koma rekstrinum í jafnvægi.

Stöðugt ræktarstarf
Staðan er sannarlega ekki góð, það hefur verið vitað lengi, og á m.a. rætur sínar að rekja til þess að RÚV var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007 og látið taka á sig óheyrilegar skuldbindingar. En nú er loks verið að gera eitthvað í málinu. Þess vegna er hann heldur hjárænulegur, sá heilagi vandlætingartónn sem nokkrir fjölmiðla- og stjórnmálamenn hafa sent RÚV undanfarið. Þeir minna einna helst á foreldri sem hundskammar unglinginn á heimilinu fyrir að drattast loks til að taka til í herberginu sínu.
„RÚV á að rækta mann,“ segir góð kona stundum í mín eyru. Það er hárrétt, en þá þurfum við líka að rækta RÚV, hlúa að því og efla það til að geta tekist á við ýmis verkefni sem markaðsfyrirtæki ræður ekki við. Þá munum við öll, íslenska þjóðin, uppskera ríkulega í enn fjölbreyttara, umburðarlyndara og betra mannlífi.

Að naga af sér fótinn

Kirstín Helga Gunnarsdóttir skrifar grein í Fréttablaðið í dag, um áform stjórnvalda að hækka virðisaukaskatt á bækur:

Yfirvaldið boðar enn þyngri bókaskatt á heimsins minnsta bókamarkað – skattahækkun á afurðina sem bókaþjóðin kennir sig við og skilgreinir sig út frá. Skattheimta á bækur skal nú hækka úr sjö prósentum í tólf. Þetta ku yfirvaldið gera til að einfalda kerfin og tilvistina. Engar rannsóknir liggja að baki, engar hugmynda- og hagfræðilegar úttektir á því hvort menning, tungumál og bókaþjóð þoli aukið skattaálag. Aðeins einföld hugmynd um einföldun sem er pússuð og potað á blað. Svo veltist blaðið manna á milli þar til einhver grípur og meitlar í stein. Orð eru lögð á borð og verða að lögum. Enginn veit alveg af hverju ekki var gripið í tauma áður en það var of seint. Ferli ákvarðana virðist oft á þessa lund á sögueyjunni.

Þó er löngu vitað að undirstaða þess að viðhalda þjóðtungu er öflug útgáfa á prentuðu máli. Sú barátta er töpuð ef stjórnvöld snúa ekki vörn í sókn og beita sértækum aðgerðum til að auðvelda sem allra mest og víðast aðgengi að rituðu máli – fjölbreyttum bókmenntum á auðugri tungu. Afnám bókaskatts væri liður í slíkri varnarbaráttu. Bókaútgáfa í landinu stendur nú þegar höllum fæti og minni forlög berjast í bökkum. Barnabókatitlum fækkar og nýliðun í þeirri stétt er lítil. Útgáfa myndskreyttra íslenskra barnabóka heyrir nú þegar nær sögunni til. Aukin skattlagning á greinina gæti veitt náðarhögg.

Sjálfsmynd þjóðar
Fótgönguliðar fara þessa dagana frá Pontíusi til Pílatusar til að biðja bókinni griða. Áheyrn hjá menntamálaráðherra hefur skilað skilningi og samúð ásamt óljósum vangaveltum um mótvægisaðgerðir í formi styrkja. Áheyrn hjá viðskiptanefnd hefur skilað skilningi og samúð ásamt fyrirspurnum um mótvægisaðgerðir. En læsi og þjóðtunga er ekki einkamál rithöfunda og bókaútgefenda heldur hagsmunamál og sjálfsmynd heillar þjóðar. Því skýtur skökku við að ráðherra menntamála ferðist nú eyjuna þvera og endilanga og boði læsi og málrækt um leið og hann leggur harkalega til atlögu gegn bókaútgáfu. Það er skrítinn skottís.

Enska er okkar mál
Með ört vaxandi rafmenningu þrengir mjög að bókinni, læsi og tungumáli. Kynslóðir vaxa sem beita í auknum mæli fyrir sig enskri tungu í daglegum tjáskiptum. Sú þróun er ógnvænleg. Um það votta framhaldsskólakennarar og háskólakennarar sem lýsa hraðri þróun í eina átt. Ein öflugasta mótvægisaðgerðin gegn þeirri þróun er að auðvelda sem mest aðgengi að rituðu móðurmáli, meðal annars með því að afnema bókaskatt. Það er jafnframt viðurkennd og meðvituð aðgerð í nágrannalöndum sem hafa metnað fyrir menningu og framtíðarvon fyrir tungumál.

Meistaradeild í bókaskatti
Fimm Evrópulönd leggja ekki virðisaukaskatt á bækur þar sem slíkt stríðir gegn menningar- og menntastefnum þessara þjóða. Meðal þeirra landa eru Bretland, Írland og Noregur sem þó eru ekki örsmá málssvæði líkt og Ísland og að auki með margfalt stærri bókamarkað en okkar litla samfélag. Tuttugu lönd eru með lægri en 7% bókaskatt og aðeins fjögur lönd Evrópu eru með 12% virðisaukaskatt á bókum eða meira. Við skipum okkur á bekk með þeim Evrópumeisturum í bókaskattheimtu ef af hækkun verður.

Skilaboð frá sögueyju
Hækkun virðisaukaskatts á bækur sendir sterk skilaboð til landsmanna og nágrannalanda um þá menningarstefnu sem stjórnvöld vilja standa fyrir. Skattahækkun á bækur sýnir framtíðarsýn fyrir bókmenntir, tungu og læsi í landinu. Alþjóðlegi bókmenntaheimurinn er ekki stór og það fregnast fljótt ef stjórnvöld á sögueyju leggjast af fullum þunga á bókaútgáfu með skattaálögum. Slík tilraun hefur langvarandi afleiðingar, rétt eins og að naga af sér fótinn. Útgefendur fækka fljótt titlum, aðgengi ungra höfunda minnkar enn. Nýjum höfundum, einkum barnabókahöfundum fækkar hratt og kostnaðarsamasta og metnaðarfyllsta útgáfan hverfur af sjónarsviðinu.

Stjórn Rithöfundasambands Íslands krefst þess að bókaskattur verði aflagður með öllu og þar með snúið af þeirri ógæfuleið sem sligað gæti stóran hluta bókaútgáfu í landinu og haft hraðvirk hrunáhrif á viðkvæma menningu bókaþjóðar.

Fríverslunarsamningar ESB og USA – TTIP

Í dag sendi BÍL eftirfarandi fréttatilkynningu til íslenskra fjölmiðla:

Fyrir hönd norrænna listamannasamtaka* sendir Bandalag íslenskra listamanna íslenskum fjölmiðlum  hjálagða ályktun. Ályktunin hefur verið send yfirmanni viðskiptamála í framkvæmdastjórn ESB, Ceciliu Malmström. Efni ályktunarinnar varðar möguleg áhrif fríverslunarsamninga Evrópusambandsins og Bandaríkjanna (TTIP) á menningarmál, sérstaklega hljóð- og myndmiðlunargeirann (audiovisual sector). Ályktunin er samin í framhaldi af fundi sem norrænu listamannasamtökin héldu 2. september sl. í Kaupmannahöfn, en þar fjölluðu sérfræðingar um ýmsa þætti yfirstandandi viðræðna og það sem vitað var um samningsmarkmið samninganefndar ESB. Meðal þess sem listamannasamtökin hafa gagnrýnt er leyndin sem hvílt hefur yfir samningaviðræðunum. Nokkrum dögum áður en hjálögð ályktun átti að birtast voru samningsmarkmið samninganefndar ESB gerð opinber, svo segja má að áhrif þessarar vinnu séu þegar farin að skila sér. Ályktunin er send fjölmiðlum á íslensku og ensku:

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins**
Stjórnarsvið viðskiptamála
Cecilia Malmström
TTIP-samninganefndir
Brussel, Belgíu 

Áhrif TTIP á menningarmál og  hljóð-  og myndmiðlunargeirann
Við – samtök norrænna listamanna*, fulltrúar meira en 90.000 atvinnumanna í ólíkum listgreinum á Norðurlöndum – lýsum yfir þungum áhyggjum af þeim viðræðum um fríverslunarsamning sem nú fara fram á milli Evrópusambandsins (ESB) og Bandaríkjanna um TTIP – Transatlantic Trade and Investment Partnership[1].

Samtök norrænna listamanna hvetja samninganefnd framkvæmdastjórnar ESB** til að hafa í huga skyldurnar sem felast í UNESCO-samningnum frá 2005 um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform (UNESCO-samningurinn) sem ESB hefur fullgilt og tryggja að markmið samningsins verði að fullu virt í TTIP-samningaviðræðunum.

Við krefjumst þess að samninganefndir TTIP:

 • gæti þess að markmið og skyldur UNESCO-samningsins um menningarlega fjölbreytni verði að fullu virt í TTIP-samningaviðræðunum;
 • tryggi að ekki verði gengist undir neinar skuldbindingar í menningargeiranum – sem er ekki undanskilinn skýrum orðum í samningaviðræðunum – um lokagerð samningsins;
 • sýni hljóð- og myndmiðlunarundanþáguna á fullnægjandi hátt með því að tryggja víðtæka og ótímabundna undanþágu hljóð- og myndmiðlunarþjónustu óháð tækni og verkvangi þar sem netþjónusta er talin með; og
 • auki gagnsæki í samningaferlinu með því að gera samningaviðræðugögnin aðgengileg evrópskum borgurum í meira mæli.

Menningarleg fjölbreytni
Markmið UNESCO-samningsins er að vernda og styðja við fjölbreytileika menningarlegra tjáningarforma, eins og lýst er yfir í grein 1(a) og grein 4.1 í samningnum. Í grein 5.1 (Almenn regla um réttindi og skyldur) árétta samningsaðilar rétt sinn sem fullvalda þjóða til að móta og framkvæma eigin stefnu í menningarmálum og til að gera ráðstafanir í því skyni að vernda og styðja við fjölbreytileika menningarlegra tjáningarforma. Í 6. grein (Réttur samningsaðila á innlendum vettvangi) er tilgreint hvað kann að falla undir slíka menningarmálastefnu og ráðstafanir.

Samtök norrænna listamanna hvetja samninganefndir TTIP til að virða þau markmið og skyldur sem felast í UNESCO-samningnum og ekki síst að taka tillit til 20. greinar samningsins, þar sem samningsaðilar gangast undir að uppfylla í góðri trú skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum og öllum öðrum sáttmálum sem þeir eiga aðild að. Af því leiðir að þjóðríkin eiga ekki að setja UNESCO-samninginn skör lægra en nokkurn annan samning við túlkun og framfylgd annarra sáttmála sem þau eiga aðild að eða þegar þau taka á sig aðrar alþjóðlegar skuldbindingar, heldur taka fullt tillit til þeirra ákvæða samningsins sem málið varða.

Þar sem megintilgangur fríverslunarsamninga (þar á meðal TTIP), til dæmis ákvæða um frjálst aðgengi að mörkuðum, landsbundna meðferð og bestu kjör, er að draga úr allri mismunun í reglugerðum og innlendum styrkjakerfum aðildarríkja samninganna, er augljós hætta á að menningarleg fjölbreytni Evrópu sé í húfi í TTIP-viðræðunum.

Ef ofangreind áhyggjuefni eru ekki tekin alvarlega gæti TTIP haft áhrif á lands- og svæðisbundna styrki og styrkjakerfi, skaðað innlend og svæðisbundin störf innan menningargeirans og spillt evrópsku höfundarréttarkerfi. Allar þessar mögulegu afleiðingar af TTIP vinna gegn því að styrkja aðstæður og vinnuskilyrði listamanna og menningargeirans í Evrópu.

Menningarmál og hljóð- og myndmiðlunargeirinn
Upphafleg áform TTIP um aukið frjálsræði, jafnt af hálfu evrópsku og bandarísku aðilanna, fólust í víðtæku fríverslunarsamkomulagi sem ætlað var að ná til allra þátta samfélagsins, þar á meðal menningar- og hljóð- og myndmiðlunarþjónustu. Þessi fyrirætlan vakti efasemdir menningarmálaráðherra 14 aðildarríkja ESB og Evrópuþingsins, þar sem mikill meirihluti vildi að menningar- og hljóð- og myndmiðlunarþjónusta yrði afdráttarlaust útilokuð frá samningsumboðinu. Eftir langar viðræður á fundi ráðherranefndarinnar í júní 2013 samþykkti nefndin loks að hljóð- og myndmiðlunarþjónusta yrði fyrst um sinn undanskilin.

9. atriði í umboðinu sem ráðherranefndin veitti TTIP-samninganefndinni í júní 2013 (en trúnaði var létt af því í október 2014) er skref í rétta átt. Með þessari samnorrænu yfirlýsingu viljum við tryggja að framkvæmdastjórnin virði 9. striði í samningsumboðinu og taki það til greina í TTIP-samingaviðræðunum í samræmi við kröfur okkar.

Að mati samtaka norrænna listamanna þarf undanþágan um hljóð- og myndmiðlun að endurspeglast á fullnægjandi hátt í samningnum sjálfum í því skyni að vernda og styðja við menningarlega fjölbreytni og fjölhyggju fjölmiðla í Evrópu. Því viljum við leggja áherslu á mikilvægi víðtækrar og ótímabundinnar undanþágu hljóð- og myndmiðlunarþjónustu, óháð tækni og verkvangi, sem nær til helstu hljóð- og myndmiðlunarþjónustu sem stendur til boða á Internetinu. Hljóð- og myndmiðlunarþjónusta sem er boðin sem hluti af pakkalausnum ætti einnig að falla undir það.

Við viljum ennfremur hvetja samninganefndirnar til að tryggja að í lokagerð TTIP-samningsins verði engar skuldbindingar settar á menningargeirann, sem ekki er skýrt undanskilinn í viðræðununum. Til að svo megi verða þarf að taka það skýlaust fram í samningnum að menningarþjónusta sé undanskilin honum og við hvetjum samninganefndirnar því til að nota breiðari skírskotun UNESCO-samningsins. Tilvísun í skyldurnar sem fylgja UNESCO-samningnum þarf einnig að koma fram í formála TTIP.

Gagnsæi
Skortur á gagnsæi er mikið lýðræðislegt vandamál í TTIP-viðræðunum. Leyndin sem hvílir á samningaviðræðunum stangast einnig á við 11. grein UNESCO-samningsins sem kveður á um að samningsaðilar hans viðurkenni mikilvægi borgaralegs samfélags við að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform. Samningsaðilar ættu því að hvetja til virkrar þátttöku borgaralegs samfélags í viðleitni sinni til að ná fram markmiðum samningsins.

Norrænu listamannasamtökin hvetja því samninganefndir TTIP til að leggja sitt af mörkum til að samningstextinn verði aðgengilegri í meira mæli og til að bæta upplýsingastreymi til borgaralegs samfélags um framgang samningaviðræðnanna í því skyni að borgarar og listamenn í Evrópu hafi aðgang að þeim málum sem eru rædd í TTIP-samningaviðræðunum. Opið og lýðræðislegt samningaferli skiptir meginmáli ef TTIP á yfirleitt að komast á. 

28. október 2014
Fyrir hönd samtaka norrænna listamanna*

Mats Söderlund, KLYS – the Swedish Council of Artists

Lena Brostrøm Dideriksen, Council of Danish Artists

Ilkka Niemeläinen, Forum Artis – the Joint Organization of Associations of Finnish Artists

Kolbrún Halldórsdóttir, BIL – Federation of Icelandic Artists

Anders Hovind, Kunstnernetverket – Norwegian Artist Network

Leif Saandvig Immanuelsen, EPI – Greenland Organization of Creative and Performing Artists

Bárður Dam, LISA – Faroese Council of Artists,

Brita Kåven, Sami Artists Council

* Bandalag íslenskra listamanna, Bandalag norskra listamanna, Bandalag sænskra listamanna og rithöfunda, Danska listamannaráðið, Forum Artis – bandalag finnskra listamannasamtaka, Færeyska listamannaráðið, Listamannaráð Sama og Samband grænlenskra listamanna.

* Þessi útgáfa er ætluð Stjórnarsviði viðskiptamála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Svipuð yfirlýsing verður send Evrópuþinginu, Stjórnarsviði mennta- og menningarmála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og ríkisstjórna og þjóðþinga Norðurlandanna.

[1] Samstarf um viðskipti og fjárfestingar yfir Atlantsála

 

Skapandi greinar; fjölbreytni og þverfagleg nálgun

Forseti BÍL skrifaði grein um skapandi greinar sem birtist í Austurfrétt í dag:

Það verður ekki framhjá því litið að listirnar eru hluti af atvinnulífi þjóðarinnar. Þannig hefur það verið alla síðustu öld án þess að sá skilningur hafi verið almennur eða afgerandi í hinum pólitíska veruleika, þ.e. meðal stjórnmálamanna og stofnana samfélagsins. Í áraraðir hafa yfirvöld menntamála lýst yfir vilja til að auka hlut listgreina í skólastarfi og við höfum komið okkur saman um að reka menntakerfi þar sem listnámsbrautir eru hluti af framhaldsskólanum og á háskólastigi eigum við Listaháskóla, sem útskrifar listafólk og hönnuði til starfa í samfélaginu. Aukinnar meðvitundar um þróun menntunartækifæra fyrir skapandi ungmenni gætir jafnt í atvinnulífinu sem og stjórnkerfinu. En fullorðnir hafa líka sótt í auknum mæli í framhaldsnám innan menningargeirans, nægir þar að nefna fjölgun menntaðra menningarstjórnenda og fjölgun listgreinakennara. Allt styður þetta við uppbyggingu þess hluta atvinnulífsins sem í daglegu tali kallast skapandi greinar.

Vilji til að efla menningarlíf um land allt hefur verið sýnilegur innan stjórnkerfinsins um nokkurt skeið. Hann birtist m.a. í skilvirkara samstarfi ríkis og landshlutasamtaka sveitarfélaga á seinni árum, t.d. með tilkomu  menningarsamninga við landshlutana. Sveitarfélög hafa líka í auknum mæli sett sér menningarstefnu, sem tilgreinir áform um fjölgun atvinnutækifæra í hinum skapandi geira, má þar t.d. nefna nýsamþykkta menningarstefnu Reykjavíkur 2014 – 2020. Í mars 2013 samþykkti svo Alþingi menningarstefnu, sem hefur það að leiðarljósi að fjölbreytt menningarstarfsemi sé mikilvægur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar sem hlúa beri að. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um mikilvægi þess að skapandi greinar eflist og sæki fram. Þar er einnig heitið aukinni áherslu á nám í hönnunar- og listgreinum og undirstrikuð þörfin á öflugum tengslum þeirra við atvinnulífið í landinu.

Síðla árs 2010 kynntu stjórnvöld skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina, sem afhjúpaði áður óskilgreindar burðarstoðir atvinnulífsins. Þar var sýnt fram á umtalsverðan efnahagslegan ávinning af starfi innan list- og menningargeirans, sem áður hafði verið hulinn. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sem lá að baki skýrslunni voru þær að virðisaukaskattskyld velta í hinum skapandi geira hafi verið 189 milljarðar króna árið 2009, ársverk í geiranum það ár hafi verið 9371 og að greinarnar hafi staðið undir 3% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar eða sem nam 24 milljörðum króna. Rétt er að geta þess að aðstandendur rannsóknarinnar töldu nokkra annmarka vera á öflun og greiningu gagna í tengslum við listirnar m.a. í ljósi þess að hluti þeirra er undanþeginn virðisaukaskatti (t.d. aðgöngumiðar í leikhús og myndlist að hluta) auk þess sem í tölfræði hins opinbera hafi skapandi greinar ekki verið aðgreindar með skýrum hætti fram til þessa. Af þessum sökum hafa listamenn og atvinnurekendur í skapandi geiranum þrýst á um breytingar á skráningu  tölulegra upplýsinga innan hins opinbera kerfis,  jafnt hjá ríki og sveitarfélögum.

Í kjölfar skýrslunnar um hagrænu áhrifin skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp sem var falið að meta hvernig bæta mætti starfsumhverfi skapandi greina, nýta þau tækifæri sem þar væru til staðar og efla umgjörð greinanna, t.d. rannsóknir, menntun og stefnumótun. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni, Skapandi greinar – Sýn til framtíðar í september 2012. Þar eru lagðar fram margvíslegar tillögur til eflingar greinunum og á grundvelli þeirra starfar nú innan stjórnarráðsins skilgreint teymi sem m.a. skoðar hvernig samræma má umsýslu með greinunum og styrkja umgjörð þeirra.

Í nágrannalöndum okkar hefur verið unnið athyglisvert starf á síðustu árum til að greina umfang skapandi atvinnugreina og eru Íslendingar þátttakendur í því starfi að ákveðnu marki. Dæmi um það er norræna samstarfið undir hatti KreaNord sem fram fer á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og hefur það að markmiði að efla skapandi atvinnugreinar á Norðurlöndunum, bæta stuðningsumhverfi þeirra og auka alþjóðleg tengsl m.a. með tilliti til fjárfestingarmöguleika. Í Bretlandi hafa stjórnvöld sett kraft í að greina starfsumhverfi geirans með það að markmiði að styrkja það og hefur sú vinna verið nýtt í áætlunum Evrópusambandsins um Skapandi Evrópu. Með þeirri nýjustu, sem gildir til næstu sjö ára, þ.e. 2014 – 2020, er mörkuð stefna um samstarf milli stofnana og einstaklinga í menningar- og listageiranum þvert á landamæri og einnig þvert á greinar innan skapandi geirans. Á sjö ára tímabili mun ESB verja tæplega einnum og hálfum milljarði evra til verkefna í nafni áætlunarinnar, með það að markmiði að auka samstarf, efla nýsköpun og þverfaglega nálgun við uppbyggingu atvinnutækifæra innan skapandi greina .

Af því sem hér hefur verið upp talið má sjá að stjórnmálamenn álfunnar hafa sýnt aukinn skilning á mikilvægi sköpunar og uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir skapandi einstaklinga. Þó má sega að markalínur hins skapandi geira séu enn nokkuð óljósar og þær verða það kannski alltaf. En það sem einkennir geirann umfram annað er hin sameiginlega ábyrgð hins opinbera og einkageirans á fjármögnun, uppbyggingu og þróun.  Þannig heyra störf þau sem unnin eru innan opinberra menningarstofnana til skapandi greina og öll störf listamanna sem fjármögnuð eru að hluta gegnum verkefnasjóði listgreinanna og launasjóði listamanna. Öll söfn, setur og sýningar, kvikmyndir, sjónvarps- og útvarpsefni, leikhús, óperur og listdanssýningar tilheyra hinum skapandi geira, en það gerir líka framleiðsla tölvuleikja og stór hluti síma- og netþjónustufyrirtækja. Stór hluti nýsköpunarstafs sem fjármagnað er að miklu leyti af hinu opinbera fellur undir skapandi greinar og það gerir líka sá hluti skólakerfisins sem menntar fólk í listum og skapandi greinum, að hluta einkarekinn og að hluta opinber. Þar með erum við komin aftur að þeim punkti sem byrjað var á, þ.e. menntakerfinu.

Niðurstaða þessarar lauslegu skoðunar er nokkurn veginn sú að uppbygging atvinnutækifæra í skapandi greinum sé margslungið ferli, þar sem fjöldi fólks og stofnana þarf að leggja hönd á plóg, með ólíka sérfræðiþekkingu og fjölbreytta reynslu. Einnig þarf að leiða saman hið fastmótaða opinbera kerfi og margslungið eilítið sundurleitt kerfi atvinnulífsins. Aðilar þurfa að koma sér saman um stefnu og skilgreiningar og auka þannig smám saman við þekkinguna á því hvernig afmarka beri störfin innan geirans og með hvaða hætti stoðkerfi greinanna þarf að vera, að sumu leyti sameignlegt en að sumu leyti frábrugðið stoðkerfi annarra atvinnugreina. Með samstilltu átaki ættum við öll, sem hlut eigum að máli, að geta sameinast um markmið aðalnámsskrár framhaldsskóla frá 2011[viii], þar sem lögð er áhersla á að uppfylla beri ólíkar þarfir nemenda og gera þeim kleift að velja sér fjölbreyttar námsleiðir sem veita margs konar undirbúning og réttindi á sviði almenns náms, listnáms, bóknáms og starfsnáms. 

Málefni listmenntunar og höfundarréttar rædd við ráðherra

Stjórn BÍL hitti mennta- og menningarmálaráðherrra í morgun, ásamt völdum embættismönnum, til að ræða þau mál sem útaf stóðu eftir samráðsfundinn með ráðherranum 2. apríl í vor. Það voru málefni listmenntunar og höfundarréttar, sem eru mikilvægir þættir í starfsumhverfi listafólks. Fyrir fundinum lá minnisblað frá stjórn BÍL sem fer hér á eftir:

Á samráðsfundi stjórnar BÍL og mennta- og menningarmálaráðherra, sem haldinn var 2. apríl 2014, náðist ekki að ræða tvö málefni til hlítar:

a)     málefni höfundarréttar
b)     málefni tengd listmenntun á öllum skólastigum og aðkomu listamanna að listuppeldi barna og ungmenna.

Höfundarréttur:

 • Höfundarréttur; mikilvægt er að stjórnvöld séu bandamenn listafólks í baráttunni fyrir réttlátum hlut rétthafa af miðlun efnis sem nýtur verndar skv. höfundalögum
  –  tryggja þarf rétthöfum sanngjarna þóknun fyrir það efni sem miðlað er um netið
  –  komið verði á samstarfi við gagnaveitur og símafyrirtæki um fyrirkomulag innheimtu

–  leggja gjöld á öll tæki sem nota má til afritunar og breyta reglugerðum/lögum í því skyni

–  tryggja að löggjöf endurspegli framfarir í regluverki ESB um greiðslur til rétthafa
–  standa vörð um menningarlega fjölbreytni t.d. með því að undanskilja list- og    menningartengdar „afurðir“ og þjónustu í TTIP-samningum um fríverslun ESB og USA
– tryggja innheimtu vegna útleigu bókasafna á kvikmyndum og tónlist (sbr. bókasafnssjóður)
–  reglur um fylgiréttargjald fylgi þróun í ESB, sbr. samkomulag þar um frá feb. 2014 

Málefni tengd listmenntun og listuppeldi barna og ungmenna:

 • Listaháskóli Íslands – lykill að frumsköpun, samlegð listgreinanna mikilvæg, leysa þarf bráðavanda í húsnæðismálum skólans, efla meistaranám, tryggja fé til rannsókna, móta stefnu um nám í kvikmyndagerð á háskólastigi (sbr. skýrslur mmrn og LHÍ)
 • Rannsóknir í listum – ekki minnst á listtengdar rannsóknir í áætlun Vísinda- og tækniráðs 2014 – 2016, aðgangur listamanna að rannsóknarsjóðum afar takmarkaður, tækniþróunarsjóður og innviðasjóður lokaðir listafólki
 • Skólastigin þrjú –  mismunandi ábyrgð eftir skólastigum;  grunn-, mið- og framhaldsstig, hvað varð um umræðuna um að ríkið bæri ábyrgð á fjármögnun framhaldsstigsins? Listnám á framhaldsstigi er víða með miklum blóma en nýtur ekki viðurkenningar sem skyldi
 • Málefni tónlistarskólanna – endurnýjuð lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarfræðslu nr. 75/1985, hvað varð um tillögu nefndar frá í janúar 2013? Eða lagfæringar samkomulagsins frá 13. maí 2011?
 • Listdansinn –hálfstigið skref frá 2005,  staða dansskólanna verði sambærileg við tónlistarskólana, bráðabirgðastyrkir ófullnægjandi, samtalið við sveitarfélögin flókið án aðkomu ráðuneytisins, dansinn þarf svipaða úrlausn og tónlistarfræðslan.
 • Kvikmyndanám á framhaldsstigi –  sinna þarf kvikmynda- og myndlæsi í almenna skólakerfinu, Bíó Paradís hefur fræðsluhlutverk sem eðlilegt er að nýta.
 • Sviðslistirnar – sviðslistalögin, sviðslistamiðstöð sú eina sem enn er óstofnuð, meistaranám í sviðslistum og nauðsynlegar úrbætur í húsnæðismálum sviðslistadeildar LHÍ við Sölvhólsgötu.
 • Ópera – fræðslustarf ÍÓ, hlutverk óperustúdíós, ótal tækifæri sem nýta má betur.
 • Listir og skóli – námsskrá, Tónlist fyrir alla, Skáld í skólum, Litróf listanna, Menningar-bakpokinn, samstarf við Reykjavíkurborg og Samb.sveitarfélaga, hvenær er að vænta niðurstöðu starfshóps ráðuneytisins um barnamenningu?
 • Gæði náms – hvaða vinna er í gangi til að tryggja gæði þess listnáms sem veitt er á grunn- og framhaldsstigi?

Hláleg saga

Pétur Gunnarsson rithöfundur og fyrrv. formaður Rithöfundasambands Íslands skrifar grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hann fjallar um ólíka afstöðu ráðamanna  til bókaskatts frá árinu 1990 til dagsins í dag. Greinin fylgir hér:

Nú þegar enn einn ganginn upphefst orðræða um bókaskattinn er vert að rifja upp sögu sem helst má ekki gleymast. Það var árið 1990. Íslensk bókaútgáfa var að sligast undan 25% skatti á bækur, þeim hæsta á byggðu bóli. Þeir sem létu sig bókaútgáfu varða með rithöfunda í broddi fylkingar voru óþreytandi að vekja athygli á þeirri mótsögn að minnsti bókamarkaður veraldar skyldi búa við hæstu skattlagningu í heimi. Í miðri þeirri orrahríð barst liðstyrkur sem um munaði: Landsfundur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér ályktun þar sem skattinum var mótmælt og lagt til afnám hans (en fjármálaráðherra þá var Ólafur Ragnar Grímsson).

Hvort þetta var kornið sem fyllti mælinn eða dropinn sem holaði steininn skal ósagt látið, en haustið 1990 urðu þau stórtíðindi að söluskattur á bækur var afnuminn. Við erum enn á dögum nokkur sem tókum þátt í sigurhátíðinni af því tilefni, haldinni í Norræna húsinu við húsfylli þar sem ræður voru fluttar, sungið og spilað að ógleymdum maraþonupplestri úr völdum bókmenntaverkum. Hámarkið var svo þegar þingheimur fór út á hlað og féllst í faðma meðan flugeldum var skotið á loft. Í hönd fóru þrjú hamingjusöm ár, þar til haustið 1993, þegar eins og þruma úr heiðskíru lofti skattinum var aftur komið á (fjármálaráðherra þá var Friðrik Klemenz Sophusson).

Af þessari sögu má sjálfsagt draga ýmsa lærdóma, en í hug koma orð ófeimnu löggunnar í Atómstöðinni: „Fólk hefur ekki ímyndunarafl til að skilja stjórnmálamenn.“ Þeir fara yfirleitt óaðfinnanlega með rulluna um bókmenntirnar sem hryggjarstykkið í íslenskri menningu, mikilvægi þeirra fyrir tunguna, mikilvægi tungunnar fyrir tilveru þjóðarinnar, nauðsynina að bregðast við hrakandi læsi… Ég held að þeir skilji líka margir, a.m.k. þeir sem eiga vasareikni, að kostnaður við að prenta íslenska bók er borinn uppi af sárafáum eintökum, en dreifist á tugi þúsunda eintaka hjá „þjóðum sem við viljum bera okkur saman við“. Og stilla þær þó ýmist söluskatti á bækur mjög í hóf eða hafa hann engan, samanber Breta og Íra sem þó geta tungumálsins vegna dreift bókum í hundruðum milljóna eintaka. Núverandi stjórnvöld á Íslandi búast aftur á móti til að slá Evrópumet í skattlagningu á bækur.

Nú þegar enn eina ferðina þarf að biðja íslenskum bókmenntum griða, koma í hug orðin sem Árni prófastur Þórarinsson hafði um Guð: að það dygði ekki að tala við hann eins og vitiborna manneskju, heldur miklu fremur eins og barn eða jafnvel óvita. Án þess að ég vilji beinlínis færa meirihluta þingmanna undir þann flokk, hvet ég þá til að hverfa frá fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á bækur og hverfa aftur til sæludaga áranna 1990–1993 með því að nema hann alfarið af.

Frelsi til að taka eigur annarra

Ágúst Guðmundsson kvikmyndaleikstjóri og fyrrv. forseti Bandalags íslenskra listamanna skrifar áleitna grein í Fréttablaðið í dag um baráttu listafólks gegn ólöglegri dreifingu höfundarréttarvarins efnis á netinu. Greinin fylgir hér:

Ég brást skjótt við þegar ég varð þess var á öndverðum sólmánuði, að kvikmynd mín, Ófeigur gengur aftur, væri komin á YouTube. Ég sendi fyrirtækinu kvörtun í tölvupósti, sagði skýrt og skorinort að réttur eigandi myndarinnar væri mótfallinn þessari birtingu. Þessu var vel tekið, og 2. júlí fékk ég tilkynningu um að myndin hefði verið fjarlægð af vefnum.

Ekki hafði ég hugsað mér að gera meira í málinu, þar til ég fékk, í ágúst að áliðnum slætti, annað bréf frá YouTube. Þar sagði að sá sem upphaflega hefði sett myndina á vefinn skildi bara ekki af hverju hún væri þar ekki áfram, hún hlyti að hafa verið tekin þaðan fyrir einhvern misskilning. Í næstu málsgrein var mér uppálagt að fara í mál við manninn, væntanlega til að fá úr því skorið hvor okkar ætti réttinn á myndinni!

Ég á því ekki annarra kosta völ en að lögsækja einhvern ungan mann í Njarðvíkunum, sem ég þekki ekkert til. Enn síður veit ég hvað veldur þessum mikla áhuga hans á að sýna á opinberum vettvangi kvikmynd sem hann á ekkert í. Ég veit bara að hann varði ekki tveimur árum ævi sinnar í að gera þessa kvikmynd, hann veðsetti ekki húsið sitt fyrir tíu milljónir hennar vegna og hann tók hvorki við lofi né lasti þegar myndin náði loksins upp á silfurtjaldið.

Svona stendur þetta með YouTube. Í onálag hefur myndin verið sett á ólöglegar vefsíður þar sem henni hefur verið dreift af mikilli rausn ókeypis. Það byrjaði strax vikuna eftir að hún kom út á geisladiskum (DVD). Á sama tíma var hægt að leigja myndina hjá bæði Skjánum og Vodafone fyrir nokkra hundraðkalla, en samt sáu nokkur þúsund manns sér hag í að hlaða henni niður ólöglega.

Nú eru við völd stjórnmálaöfl sem almennt gera eignarréttinum hátt undir höfði. Á því er þessi eina undantekning: það má stela kvikmyndum og tónlist. Er nú ekki kominn tími til að gera eitthvað í þessu? Öll viljum við frelsi til sem flestra hluta, en hingað til höfum við ekki samþykkt frelsi til lögbrota.

Fjölmargir listamenn hafa kvartað undan stuldi á höfundarverkum sínum, og má þar nefna Ladda og Baltasar Kormák, að ónefndum fjölda tónlistarmanna. Samtök listamanna þurfa að stíga fram til að verja réttindi síns fólks á þessu sviði. Veitufyrirtækin geta með einföldum hætti komið í veg fyrir þessar gripdeildir. Það má hins vegar ekki heyra á það minnst að sú kvöð sé lögð þeim á herðar. Í staðinn koma athugasemdir um tjáningarfrelsi eða netfrelsi eða alls konar frelsi. Í mínum eyrum hljómar það eins og ákall um frelsi til að taka frá mér það sem ég á.

Stjórn BÍL hittir nýja forystu Ríkisútvarpsins

Stjórn BÍL hitti nýja stjórnendur Ríkisútvarpsins á fundi í Iðnó í dag þar sem skipst var á skoðunum um það mikilvæga menningarhlutverk sem hvílir á Ríkisútvarpinu ohf – fjölmiðli í almannaþágu. Til fundarins kom nýráðinn útvarpsstjóri Magnús Greir Þórðarson, ásamt skrifstofustjóra RÚV Margréti Magnúsdóttur og dagskrárstjórum Rásar 1 og sjónvarps, þeim Þresti Helgasyni og Skarphéðni Guðmundssyni. Á fundinum fóru fram málefnanleg skoðanaskipti um það sameiginlega hagsmunamál listafólks og stjórnenda Ríkisútvarpsins  að þannig sé búið að Ríkisútvarpinu að það fái staðið undir þessu mikilvæga og margslungna menningarhlutverki af myndugleik og voru sjónarmið skýrð á báða bóga. Sammæltust fundarmenn um að skapa skilyrði fyrir áframhaldandi samtal þessara aðila í þágu menningararfsins, tungunnar, sögunnar, listarinnar og lífsins í landinu.

 

Síðasta lag fyrir fréttir

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifar grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hann fjallar um samhengið í menningarsögunni og intróvertana sem hlustendur rásar eitt eru:

Hlustendur Rásar eitt eru svo miklir intróvertar að þeir koma ekki einu sinni fram í hlustendakönnunum. Þar með er ekki sagt að þeir séu ekki til: öðru nær. Gott ef þetta er ekki fólkið sem hlustar á útvarp – hlustar en lætur það ekki vera þarna eins og hvern annan skarkala og nið í bakgrunni. Þetta er ekki endilega gamalt fólk og ekki einu sinni endilega gamaldags; en það hefur sterkar skoðanir á því hvernig Rás eitt skuli vera, en þó einkum og sérílagi: hvernig hún skuli ekki vera.

Samhengið í menningarsögunni
Þetta fólk býr í okkur flestum, en er þar ekki einrátt. Það hlustar ekki endilega alltaf á Rás eitt heldur líka Bylgjuna til að heyra þjóðmálaumræðu eða vinsæla músík; Sögu til að heyra hvað sixpensurunum liggur á hjarta; Rás tvö til að heyra skemmtilega morgun- og síðdegisþætti, íslenska poppmúsík og rokk utan kassans – og þar fram eftir götunum – en þegar fólk hlustar á Rás eitt væntir það tiltekins hljóðumhverfis, það væntir yfirvegunar og rósemi. Við ólumst mörg upp við þessa rás og skynjum hana sem ákveðna nærveru, vissa samfellu í lífi okkar og samfélagsins; og verðum við vör við grundvallarbreytingar á henni finnst okkur sem sjálfur lífsgrundvöllurinn sé farinn að rása undir okkur.

Kúnstin er sú að þróa rásina og breyta henni í samræmi við tíðarandann hverju sinni með hægð og án þess að við verðum þess beinlínis vör. Auðvitað nær það engri átt hvernig við látum stundum í íhaldsseminni, en það er vegna þess að okkur finnst mörgum sem hjarta Ríkisútvarpsins slái þarna í þessari rás sem á sér samfellda sögu frá árinu 1930. Þar með er ekki sagt að við heimtum að fá aftur Tómstundaþáttinn, Ingimar Óskarsson að tala um sjaldgæfar bjöllur, Victor Silvester og hljómsveit og Laxfoss lestar í Bremerhaven á leið til Tingmíarmíút … En við viljum hafa á tilfinningunni að þetta sé sama stöðin og færði okkur þetta allt saman; við séum þar með enn Íslendingar og ekki sé búið að selja Esjuna – ekki enn.

Hlustendur Rásar eitt eru intróvertar en ekki þröngsýnt fólk. Það umber ýmislegt og alls konar. Einkennilega hljómaklasa og óræða fléttuþætti; þreytulega þuli að tína út úr sér dagskrárkynningar morgundagsins; óskiljanlegar leikfimileiðbeiningar og afundna veðurfréttalesara að tala um gráð og veðrið klukkan austan sjö í morgun á Garðskagavita. Hlustendur Rásar eitt umbera það gamla með brosi án þess að fyrirverða sig; fagna því nýja af heilbrigðri forvitni þess sem þekkir sig og sitt. Þetta fólk vill hafa útvarpið sitt hversdagslegt eins og súldina utandyra og uppvaskið í vaskinum – en líka nærandi. Rás eitt á að miðla rósemi hugans og láta vera að hlaupa á eftir „ærustu og afþreyingaráþján“ eins og góðum manni varð tíðrætt um. Hún á að vera aldurslaus og flippuð eins og íslenskar kerlingar hafa alltaf verið. Hún er í peysufötum og með pípuhatt; hún rær fram í gráðið með tifandi prjóna segjandi sei sei en hún hefur alveg áhuga á tólftónakerfinu og stríðinu í Úkraínu; rannsóknum á hitakærum örveirum og lífi fólks á Djúpavogi eða Malaví … Hún kann alveg á græjurnar sínar – hún er víðsýn.

Ég lít í anda liðna tíð …
Hlustendur Rásar eitt eru svo sem til í sprell en þetta er samt fólk sem er viðkvæmt fyrir áreiti. Það þolir ekki hávaða – þetta eru intróvertar með viðkvæm eyru og þetta fólk fær hausverk þegar það heyrir leiknar auglýsingar, þar sem allt er keyrt upp. Þannig er það bara því miður. Og um leið og leiknar auglýsingar eru farnar að hljóma á Rás eitt þá er hún ekki lengur Rás eitt heldur Rás tvö sem er ágæt líka fyrir sinn hatt – en er sem sé Rás tvö með sínum sérstöku eiginleikum. Að spila leiknar auglýsingar á Rás eitt er eins og að fara að útvarpa dánarfregnum og jarðarförum á Rás tvö; með gítarmallinu undir. Leiknar auglýsingar jafngilda árás á Rás eitt.

Mæri rásanna liggja meðal annars þarna – og það mega alveg vera mæri; allt þarf ekki að vera eins og renna saman. Þá verður bara til grá súpa. Þegar við stillum á Rás eitt klukkan korter yfir tólf í hádeginu þá er það beinlínis til þess að þurfa ekki að heyra leiknar auglýsingar þar sem smeðjuleg rödd reynir að fá okkur til að kaupa einhvern skrattann, heldur til þess að spreyta okkur í þeim indæla samkvæmisleik sem felst í því að geta giskað á söngvarann í síðasta lagi fyrir fréttir. Stundum eru þetta nokkuð umdeilanlegir söngvarar að syngja hálfsúldarleg lög í drungalegum tóntegundum – gömul íslensk einsöngslög eru sérstök tegund af sorg og minna á soðna ýsu bernskuáranna og móðu á gluggum – en stundum er söngurinn fagur og lyftir hug til hæða. Í þessum lögum er alltaf einhver innileiki, hátíðlegt fas. Þetta er íslensk menning. Þetta er samfellan í sögu okkar. Þarna niðri í hvelfingunum í Efstaleitinu eru geymdar ótal upptökur með ótal söngvurum, gleymdum og ógleymanlegum, þeir liggja þarna í kassanum varðveittir á segulbandinu, lifa þar sínu lífi, og svo heyra þeir í henni þar sem hún kemur gangandi niður stigann hún Una Margrét og fara að hvísla sín á milli: hvern okkar skyldi hún velja núna – verður það Svala Nielsen eða er komið að Sigurði Skagfield? – en hún er í hátíðarskapi og dregur fram spólu með Stefáni Íslandi og fer með upp aftur; og einn gamall og gullinn söngvari fær að ljóma um stund eins og sú liðna tíð sem við lítum í anda áður en þulur afkynnir og segir: Nú verða sagðar fréttir.
Og þá verða sagðar fréttir af því sem er helst að gerast og nýjast – strax á eftir því sem er einmitt ekki að gerast og er elst. Hin liðna tíð tengist líðandi stund á gullnu augnabliki: Síðasta lag fyrir fréttir.

Page 10 of 39« First...89101112...2030...Last »