Author Archives: vefstjóri BÍL

Félag leikskálda og handritshöfunda 2014

Stjórn FLH 2014:
Margrét Örnólfsdóttir, formaður
Hrund Ólafsdóttir, gjaldkeri
Ólafur Egill Egilsson, ritari
Salka Guðmundsdóttir, meðstjórnandi
Ármann Guðmundsson, meðstjórnandi

Félagar í Félagi leikskálda og handritshöfunda voru í árslok 87 talsins en á árinu 2014 voru alls 23 nýjar aðildarumsóknir samþykktar.

IHM og aðstöðuleysi FLH
Stjórn hefur á árinu 2014 farið í mikla vinnu við að reyna að leita félaginu rekstrartekna, meðal annars með því að kanna möguleika á því að FLH fái aðild að IHM, en FLH er eina hagsmunafélag höfunda sem ekki situr við það borð þó það eigi óumdeilanlega mikilla hagsmuna að gæta. Á öllum hinum Norðurlöndunum eiga sambærileg félög aðild að innheimtumiðstöðvum landa sinna og því ljóst að verulega hallar á handritshöfunda hér á landi hvað þetta varðar.  Sömuleiðis sótti FLH um rekstrarstyrk til Mennta- og menningamálaráðuneytisins en þeirri umsókn var hafnað á þeim grundvelli að Rithöfundasambandið væri heildarhagsmunafélag allra sem stunda ritstörf á Íslandi og ráðuneytið veiti RSÍ nú þegar rekstrarstyrk. Þessi yfirlýsing ráðuneytisins er grafalvarleg fyrir FLH þar sem í henni felst ógilding á hlutverki FLH sem aðalhagsmunafélags leikskálda og handritshöfunda. Verið er að skoða með hvaða hætti verður brugðist við þessari afgreiðslu Mennta- og menningamálaráðuneytisins, en það verður í það minnsta gert.

Samningar
Engir samningar voru gerðir á árinu. Brýnasta verkefni FLH er að koma á heildstæðum samningum vegna handritaskrifa við Samtök kvikmyndaframleiðenda. Eins og staðan er eru samningar næstum jafn margir og verkefnin og höfundar eiga mjög í vök að verjast gegn oft ósanngjörnum og óhagstæðum samningum. Áætlað er að ráðast í þessi mál af fullum krafti á nýju ári.
Sömuleiðis er löngu tímabært að endurskoða samninga við RÚV vegna leikins sjónvarpsefnis en sá samningur sem er í gildi hefur árum saman ekki verið notast við þar sem RÚV kaupir að langstærstum hluta leikið efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Skoða þarf hver aðkoma og hlutur RÚV er, og á að vera, í þróun leikins efnis.

Nemendaleikhús
FLH vakti máls á því við Sviðslistadeild LHÍ að endurvekja þá hefð sem lengi var við líði að Nemendaleikhús frumflytti nýtt íslenskt verk sem sérstaklega væri skrifað fyrir útskriftarhópinn. FLH og LHÍ vinna nú í sameiningu að því að finna þessu viðhlítandi form og vonir standa til að hægt verði að sjá afraksturinn strax vorið 2016.

Launasjóðir og leikskáld
Sú tilfinning er ríkjandi meðal félagsmanna að leikskáld eigi almennt minni möguleika á úthlutunum úr rithöfundasjóði en aðrir rithöfundar og fái jafnan færri mánaðarlaunum úthlutað. Formaður tók málið upp á fundi BÍL með stjórn listamannalauna þar sem í ljós kom að svo virðist sem leikskáld séu í raun milli vita í starfslaunaumhverfinu, eigi hvergi almennilega heima. Formaður gerði einnig athugasemd við það að FLH hefur enga aðkomu að því að tilnefna í úthlutunarnefnd rithöfundasjóðs, heldur aðeins RSÍ.

FSE og Heimsráðstefna handritshöfunda í Varsjá
Heimsráðstefna handritshöfunda, World Conference of Screenwriters 2014, var haldin í Varsjá um mánaðarmótin september/október, en þetta er stærsta ráðstefna sinnar tegundar í heiminum. Formaður og tveir félagar úr stétt handritshöfunda að auki sóttu ráðstefnuna sem vel heppnuð í alla staði. Sérstakur fókus var á Skandinavíu og þá sérstaklega gríðarleg velgengni dansks leikins sjónvarpsefnis. Ljóst er að áhugi umheimsins er mikill á okkar hluta heimsins um þessar mundir og mikil sóknartækifæri í framleiðslu vandaðs sjónvarps- og kvikmyndaefnis fyrir alþjóðlegan markað.
Í framhaldi af ráðstefnunni sótti formaður aðalfund FSE (Federation of Screenwriters in Europe), þar sem einn Sveinbjörn I. Baldvinsson, félagi í FLH, gegnir starfi forseta. Mikil samstaða er meðal evrópskra handritshöfunda og mörg sameiginleg og brýn hagsmunamál, ekki síst hvað varðar dreifingu höfundaréttarvarins efnis á internetinu og hvernig tryggja á höfundum sanngjarnar tekjur af verkum þeirra.

Norrænt samstarf
Formaður sótti aðalfund NDU í Osló í ágúst. Ýmislegt var rætt, samningamál og höfundaréttur tóku stóran part, ekki síst fyrrnefnd þróun í aukinni dreifingu á internetinu sem er bæði mikið áhyggjuefni en felur á sama tíma í sér nýja og spennandi möguleika.

 

 

 

Málþingið: Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar

Í tengslum við aðalfund sinn býður BÍL – Bandalag íslenskra listamanna til málþings í Þjóðleikhúskjallaranum laugardaginn 7. febrúar kl. 14:00 undir yfirskriftinni

Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar  –  Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti?

Málþingið tekur til umfjöllunar stöðu lista og menningar í stjórnkerfinu, skoðar aðgengi atvinnufólks í listum og hönnun að aðstöðu og opinberum fjármunum, auk þess að hugleiða afstöðu stjórnvalda til atvinnustarfsemi sem byggir á framlagi listafólks og hönnuða.  Markmið umræðunnar er að leita leiða til að listirnar geti sinnt því hlutverki sínu að framleiða menningararf framtíðarinnar og halda lífi í tungumálinu, íslenskunni.

Stjórnvöld hafa lengi haft uppi áform um að efla skapandi greinar, auka hlut þeirra í atvinnulífinu og fjölga atvinnutækifærum í greinunum um land allt. Erfitt hefur reynst að hrinda þeim áformum í framkvæmd og mikið skortir á að listir og menning hafi endurheimt þann styrk sem var til staðar í umhverfi þeirra fyrir hrun. Þar kemur margt til, bæði viðkvæmur fjárhagsgrunnur menningarstofnana en ekki síður afkoma ýmissa sjóða sem gegna hlutverki við list- og menningartengd verkefni og uppbyggingu skapandi greina. Síðast en ekki síst hefur atvinnulífið dregið úr stuðningi sínum sem hafði aukist verulega á árunum 2000 – 2008.

Fjórar framsögur verða fluttar af listamönnum, eldhugum og sérfræðingum, sem öll hafa reynslu af því að takast á við fjölbreytt verkefni á vettvangi skapandi atvinnugreina.  Sérstakur gestur málþingsins verður mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, sem ávarpar þingið og tekur þátt í umræðum.

Innleggin flytja:
Charlotte Bøving leikari og leikstjóri,
Daði Einarsson listrænn stjórnandi,
Hulda Proppé sérfræðingur á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís og
Þorleifur Arnarson leikstjóri.
 

Málþingsstjóri verður Magnús Ragnarsson leikari og framkvæmdastjóri. 

Fyrirkomulag málþingsins verður þannig að innleggin verða kvikmynduð og sett á vefinn að málþinginu loknu, með það að markmiði að umræðan geti haldið áfram á vefmiðlum og samskiptasíðum.

Málþingið hefst kl. 14:00 og stendur til kl. 16:00. Því lýkur með léttum veitingum og óformlegu spjalli um efni málþingsins. Málþingið er öllum opið.

Menningarstefna Reykjavíkur 2014 – 2020

19. janúar 2015 hélt menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur sérstakan fund til að kynna menningarstefnu Reykjavíkur 2014 – 2020. Forseti BÍL, Kolbrún Halldórsdóttir, hélt stutt erindi á fundinum og gerði að umræðuefni frumkvæði borgaryfirvalda í aðferðafræði við að móta menningarstefnu, fylgja henni eftir og viðhafa fagleg  vinnubrögð við úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna:

–        Menningarstefna Reykjavíkur er þróunarverkefni. Segja má að upphafið megi rekja til ársins 2000 þegar undirbúningur að fyrstu menningarstefnu Reykjavíkur hófst, en sú stefna var samþykkt í borgarráði í desember 2001.

–        Þar með tóku borgaryfirvöld ákveðna forystu hvað varðar stefnumótun í menningarmálum, sem oft og lengi hafði verið kallað eftir, en slíku ákalli hafði þó aðallega verið beint að landsstjórninni, sem lét undir höfuð leggjast að bregðast við því. En þá voru það boraryfirvöld sem tóku kyndilinn og hófu hann á loft.

–        Það var svo ekki fyrr en haustið 2012, sem ríkisstjórnin lagði fram tillögu til þingsályktunar um menningarstefnu, sem samþykkt var sem ályktun Alþingis fyrir tæpum tveimur árum, eða 6. mars 2013.

–        Þegar 4. útgáfa menningarstefnu borgarinnar (2009 – 2012) var í vinnslu, lagði Bandalag íslenskra listamanna það m.a. til mála að skynsamlegt væri að stefnunni fylgdi skilmerkileg og helst tímasett aðgerðaáætlun, til að tryggja eftirfylgni og framkvæmd stefnunnar.

–        Það er jú þekkt í stjórnunarfræðunum að stefna ein og sér gerir lítið fyrir eiginlega stöðu menningarmála. Þó hún sé góðra gjalda verð og í raun algerlega nauðsynleg, þá er hætt við að stefna verði marklaus nema henni fylgi sundurliðuð áætlun um eftirfylgni.

–        Menningarstefnunni sem Alþingi samþykkt fylgir t.d. engin áætlun um eftirfyglni, eða tímasett aðgerðaáætlun, enda hefur í sannleika sagt gengið afar hægt að hrinda nokkru af áformum hennar í framkvæmd. Jafnvel þó fleiri en einn starfshópur hafi verið settir á laggirnar til að semja tillögur á grundvelli stefnunnar þá er varla nokkuð sem búið er að hrinda í framkvæmd af þeim áformum sem stefnan hefur að geyma.

–        Svo aftur tók Reykjavík forystuna þegar nýjasta endurskoðun menningarstefnu borgarinnar hófst 2012/2013 og ákvörðun var tekin um að aðgerðaáætlun myndi fylgja stefnunni. Þetta var tímamótaákvörðun og í aðgerðaáætluninni getur að líta afskaplega skilmerkilegan lista yfir aðgerðir sem verður yfirfarinn árlega, þannig að kjörnir fulltrúar borgaranna og embættismenn sviðanna sem sjá um að framkvæma stefnuna, geti fylgst með framvindu hennar. Hér hafa þeir yfirlit yfir þær aðgerðir sem eru í farvegi, þær aðgerðir sem ber að fara í á yfirstandandi ári og (skv tillgöu Sjálfstæðismanna í menningar- og ferðamálaráði) lista yfir verkefni sem er lokið. Þannig er alltaf hægt að fylgjast með framvindu stefnunnar, hvað er í farvegi, hvað er u.þ.b. að fara í gang og hverju er lokið.

–        Enn eitt forystuhlutverk sem Reykjavíkurborg hefur axlað er að hanna aðferð og verklag til að tryggja faglega umfjöllun um fjármögnun menningartengdra verkefna.

–        Bandalag íslenskra listamanna hefur lengi verið í virku samstarfi við borgaryfirvöld um stefnu og ákvarðanir í málum er varða menningu og listir. Bandalagið á áheyrnaraðild að fundum menningar- og ferðamálaráðs og leggur ráðinu til sérfræðinga sem mynda fagráð það sem fjallar um umsóknir um stuðning við menningarviðburði, list- og menningartengdar hátíðir, og einstök list- og menningartengd verkefni.

–        Með þeirri aðferðafræði hafa borgaryfirvöld rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög. Sérstaklega æskilegt væri að menningarráð landshlutanna litu til borgarinnar í þessum efnum, en þau hafa menningarsamninga við ríkisvaldið á sinni könnu, þar sem ríkið fjármagnar menningarstarfsemi landshlutanna gegn því að sveitarstjórnir leggi sambærilegar upphæðir á móti til samninganna.

–        Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að borgaryfirvöld hafa tekið afgerandi forystu í aðferðafræðinni við að móta menningarstefnu, fylgja henni eftir og viðhafa fagleg vinnubrögð við úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna. Fyrir hönd Bandalags íslenskra listamanna óska ég borgarbúum til hamingju með nýju stefnuna, en ekki síður með aðgerðaáætlunina.

Aðalfundur BÍL 2015

Aðalfundur BÍL  2015 verður haldinn laugardaginn 7. febrúar og hefst hann kl. 11:00.  Í framhaldinu verður haldið málþing um ábyrgð hins opinbera gagnvart því að varðveita og viðhalda listsköpun á íslenskri tungu í þágu menningararfs framtíðarinnar. Málþingið hefst kl. 14:00 og yfirskrift þess verður:  Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar. Og undirtitillinn verður í formi spurningar: Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti?  Ekki liggur ljóst fyrir hvar fundurinn verður haldinn, þar sem Iðnó er ekki laust 7. febrúar, svo staðarval verður ákveðið og tilkynnt einhvern næstu daga.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum BÍL, sem eru aðgengileg á heimasíðu þessari.  Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Samkvæmt lögum BÍL ber félögum að senda inn greinargerð um störf aðildarfélaganna og tilkynna um aðalfundarfulltrúa a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund.  Þá er minnt á að allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að félögum sé kynnt dagsetning fundarins með góðum fyrirvara.

Dagskrá fundarins ásamt tillögu stjórnar að starfsáætlun 2015 verður send út a.m.k. tveimur vikum fyrir fundinn.

 

Af hverju viljiði ekki peningana okkar?

Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félags leikskálda og handritshöfunda skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:

MO_greinEkki ætla ég að þykjast vita hvernig á að stýra ríkisfjármálum, en eitt veit ég að peningar eru jafnverðmætir sama hvaðan þeir koma, svo fremi sem þeirra hefur verið aflað með heiðarlegum og virðingarverðum hætti. Og þó ég sé eins langt frá því að vera fjármálasnillingur og hugsast getur þá veit ég þó að það borgar sig að fjárfesta í arðvænlegum verkefnum.
Hvernig stendur þá á því að þrátt fyrir að stjórnvöldum hljóti að vera orðið löngu ljóst (nógu oft er nú búið að segja þeim það) að fjárfesting í kvikmyndagerð margborgar sig þá heykjast þau á að veita íslenskri kvikmyndagerð þann stuðning sem henni er nauðsynlegur eigi hún á annað borð að eiga sér einhverja alvöru framtíð. Viljiði ekki peningana okkar? Afhverju ekki?

Fimmfalt til baka
Eftir að hafa verið hafður í svelti árum saman hillti loks undir betri tíma þegar ákveðið var að stórauka framlag til Kvikmyndasjóðs árið 2013. Gerð var framtíðaráætlun um stigvaxandi aukningu til næstu ára, enda sýndu niðurstöður skýrslna sem gerðar höfðu verið um hagræn áhrif kvikmyndagerðar svart á hvítu að virðisauki íslenskrar kvikmyndagerðar er umtalsverður – hver króna sem ríkið veitir til kvikmyndagerðar skilar sér fimmfalt til baka sem hreinar tekjur. Beint í ríkiskassann. Þessar tölur eru meira að segja varlega áætlaðar.

Í síðustu fjárlögum var Kvikmyndasjóður skertur um 40% og nú, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fyrir, stendur til að halda honum áfram undir fátækramörkum. Það þarf ekki að tíunda hversu mikið áfall þetta er fyrir greinina og alveg ljóst að afleiðingarnar verða mjög slæmar. Strax í ágúst á þessu ári var Kvikmyndasjóður orðinn tómur.

Þeir sem eiga verkefni sem þegar eru til meðferðar hjá sjóðnum sem og þeir sem eru tilbúnir að sækja um styrki verða því að bíða fram yfir áramót eftir frekari afgreiðslu. Ef upphæðin sem Kvikmyndasjóði er ætluð samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður ekki lagfærð er alveg ljóst að fjöldi verkefna kemst ekki af stað. Sum munu kannski frestast um óákveðinn tíma en önnur daga uppi. Verkefni sem annars myndu skapa ríkinu framtíðartekjur. Bíómyndir og sjónvarpsþættir og heimildamyndir sem almenningur fær aldrei að sjá. Afhverju viljiði ekki þessa peninga? Ég bara skil það ekki.

Ég hef meðvitað haldið aftur af mér að minnast á menningarlegt gildi, heimildagildi (því við erum jú skrásetjarar sögunnar) og fleira sem stundum er kallað óáþreifanleg verðmæti. En nú er ég búin að gera það. Ástæðan fyrir því að ég gerði það ekki fyrr er sú að það er stundum eins og fólkið sem heldur um budduna hreinlega taki ekki mark á neinu nema það sé sett í efnahagslegt samhengi. Eins og að um leið og hugtök eins og menningarlegt gildi eða andleg verðmæti heyrist þá slái það skyndilegt og algert heyrnarleysi. Þess vegna endurtek ég spurninguna: Afhverju viljiði ekki peningana okkar?!

Ríkisútvarp okkar allra – til framtíðar

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, segir árangur almannaútvarps eins og RÚV mældan af trúverðugleika hans og trausti þjóðarinnar. Hann kynnti framtíðarsýn sína fyrir Ríkisútvarpið í grein sem birtist á samfélagsmiðlum og í Fréttablaðinu í dag:

magnus01Ríkisútvarp okkar allra – til framtíðar
Útvarpið á að vera háskóli alþýðunnar, leikhús hennar, kirkja og sönghöll, heimild nýrra tíðinda og sannrar frásögu, skemmtistaður hennar og athvarf úr einveru og fásinni.“  Svo mælti Helgi Hjörvar, formaður útvarpsráðs, í árdaga útvarpsins fyrir meira en áttatíu árum . Þessi grundvallarmarkmið Ríkisútvarpsins hafa í grunninn ekkert breyst þrátt fyrir gífurlegar tækniframfarir og samfélagsbreytingar frá fyrstu útsendingu árið 1930.

Hvers vegna Ríkisútvarp?
Ríkisútvarpið hefur frá upphafi notið víðtæks stuðnings almennings sem ein helsta menningar- og lýðræðisstofnun þjóðarinnar og það hefur fylgt henni á mikilvægustu stundunum í sögu hennar. Hlustunar-, áhorfs- og traustsmælingar sýna að staða Ríkisútvarpsins er sem fyrr sterk, sama hvort borið er saman við fjölmiðla hérlendis eða erlendis. Þjóðir Evrópu hafa valið að hafa almannafjölmiðil líkt og við. Almenn sátt ríkir um mikilvægi slíkra fjölmiðila, ekki síður nú en fyrir næstum hundrað árum. Hvers vegna? Jú, almannafjölmiðlar, líkt og Ríkisútvarpið, hafa ákveðnum skyldum að gegna umfram einkarekna fjölmiðla, skyldum við hlustendur og áhorfendur. Allir samfélagsþegnar eiga rétt á þjónustu Ríkisútvarpsins, jöfnu aðgengi að óhlutdrægum fréttum, gagnrýninni umræðu og gæðaefni á íslensku  sem erindi á við samtímann. Öflugt Ríkisútvarp er enn jafn mikilvægt þrátt fyrir blómlega flóru nýrra samskiptaforma og einkarekna fjölmiðla á markaði. Ríkisútvarpið þjónar almenningi og stuðlar að jöfnuði, sanngirni og samkennd í  stóru sem og smáu. Við viljum að Ríkisútvarpið sé sameinandi afl í æ sundurleitara þjóðfélagi.

Hvert stefnum við?
Framtíðarsýn stjórnar og starfsfólks er að Ríkisútvarpið verði áfram öflugur almannamiðill í þjónustu þjóðarinnar allrar, með aukinni áherslu á menningar- og samfélagshlutverk hans. Við viljum vera virkur þátttakandi í að byggja upp og styrkja samfélag okkar, styðja  og auka þekkingu, hæfni og lífsgæði einstaklinga og þjóðfélagshópa. Við viljum sinna menningu þjóðarinnar enn betur en gert hefur verið,  í útvarpi,  sjónvarpi og á vef. Við erum staðráðin í að efla innlenda dagskrárgerð. Sér í lagi þarf að bæta framboð á íslensku leiknu efni og gæðaefni fyrir börn á íslensku enda verður á næstu árum gerð enn ríkari krafa um að Ríkisútvarpið bjóði nýjum kynslóðum Íslendinga upp á vandað íslenskt efni þegar erlent afþreyingarefni á erlendum tungumálum er á hverju strái. Einnig er nauðsynlegt  að gera átak í varðveislu þjóðararfsins og miðlun hans úr gullkistu Ríkisútvarpins. Þar er samtímasaga Íslendinga skráð og að henni verður að hlúa. Við höfum þegar hafið undirbúning að úrbótum á þjónustu við landsbyggðina og stefnum að auknum fréttaflutningi og dagskrárgerð utan höfuðborgarsvæðisins samhliða öflugri svæðismiðlun. Þannig styrkjum við hlutverk RÚV sem útvarp allra landsmanna. Þegar hafa verið stigin stór skref í átt til meira jafnréttis í starfseminni – en betur má ef duga skal enda viljum við að Ríkisútvarpið sé í fararbroddi í jafnréttismálum.

Forsjálir hugsjónamenn stóðu að stofnun Ríkisútvarpsins fyrir meira en áttatíu árum. Þá var byggt upp viðamikið dreifikerfi sem síðan hefur gegnt lykilhlutverki í miðlun dagskrárefnis auk þess sem það hefur verið mikilvægur hlekkur í almannavörnum þjóðarinnar. Á næstu árum þarf að gera úrbætur á dreifikerfinu til að það geti þjónað nýjum kynslóðum. Jafnhliða tæknilegri uppbyggingu þarf að huga að faglegum vinnubrögðum og starfsháttum RÚV og opna samtalið við þjóðina um Ríkisútvarp okkar allra.

Útvarpsgjaldið stendur undir rekstrinum
Ríkisútvarpið er eign þjóðarinnar og allir landsmenn hafa skoðun á því hvernig það getur best þjónað skyldum sínum. Allt frá stofnun Ríkisútvarpsins hefur reglulega verið tekist á um rekstrar- og tilvistargrundvöll þess á vettvangi stjórnmálanna. Árleg óvissa um fjármögnun hefur sett mark sitt á reksturinn, tækniþróun og stefnumótun til langs tíma. Mikið hefur verið hagrætt í starfsemi Ríkisútvarpsins á síðustu árum og á þessu ári hefur verið leitað leiða til að létta á skuldsetningu félagsins sem á rætur sínar m.a. í gömlum lífeyrissjóðsskuldbindingum. Stjórn RÚV hefur talið að samræmi þurfi að vera á milli þeirrar þjónustu sem vænst er af félaginu og þeirra þjónustutekna sem er ætlað að standa undir þeirri þjónustu.

Á undanförnum árum hefur ríkið árlega tekið til sín hluta af útvarpsgjaldinu og nýtt í óskyld verkefni þrátt fyrir óbreyttar lagakvaðir um víðtæka þjónustu og skuldbindingar RÚV. Útvarpsgjaldið sem hver einstaklingur greiðir er nú sambærilegt að krónutölu við það sem  þekkist hjá öðrum norrænum ríkisfjölmiðlum. Það er nokkru lægra en hjá BBC og fleiri sambærilegum ríkisstöðvum í Evrópu. Stjórn RÚV hefur óskað eftir því að félagið fái útvarpsgjaldið óskert eins og kveðið er á um í útvarpslögum. Þannig mætti tryggja áframhaldandi öflugt Ríkisútvarp, með sambærilegar skyldur og hlutverk og verið hefur. Óbreytt útvarpsgjald dugir til að standa undir enn öflugri dagskrá og til að bæta dreifikerfið svo það nái til alls landsins. Ekki er þörf á að hækka útvarpsgjaldið frá því sem nú er eða veita sérstök fjárframlög til RÚV.

Traust og metnaður
Aðhald og ábyrgð í rekstri, samhliða vönduðum starfsháttum, er eitthvað sem við ætlumst til af öllum opinberum fyrirtækjum. Árangur almannafjölmiðils eins og Ríkisútvarpsins verður hins vegar á endanum mældur af trúverðugleika hans og því dýrmæta trausti sem þjóðin, eigendurnir, ber til hans. Til að viðhalda því trausti þarf Ríkisútvarpið að eiga daglegt samtal við þjóðina, efna til stórhuga og metnaðarfullra verka og standa ávallt vaktina þegar mikið liggur við. Ríkisútvarpið á að virkja samtakamátt þjóðarinnar á stórum stundum, setja ný viðmið og skara fram úr, leiða nýsköpun og taka áhættu, og síðast en ekki síst á Ríkisútvarpið að vera forvitin, gagnrýnin, gagnvirk og sjálfstæð stofnun. Tilgangurinn er í raun enn hinn sami og útvarpsstjóri, Vilhjálmur Þ. Gíslason, lýsti við upphaf útsendinga Sjónvarpsins fyrir fjörutíu og átta árum, „að tengja þjóðir og einstaklinga í skilningi og friði, vera vettvangur heilbrigðra skoðanaskipta, leiksvið margra lista, verkstæði fjölbreyttra framkvæmda, staður stórra drauma.“ Svo að þessi sýn megi lifa þurfum við að standa áfram vörð um Ríkisútvarp okkar allra.

Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2015

Bandalag íslenskra listamanna hefur sent umsögn um fjárlagafrumvarpið 2015 til fjálaganefndar, nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar fengu umsögnina einnig senda.

Megininntak umsagnarinnar er eftirfarandi:

*  Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts í 12% er mótmælt

*  Innheimtu útvarpsgjaldi verði skilað að fullu til Ríkisútvarpsins

*  Endurnýjað verði samkomulag um kvikmyndagerð og settar 200 m. kr. til viðbótar í Kvikmyndasjóð

*  Framlag til annarra verkefnatengdra sjóða verði sem hér segir:

–         Myndlistarsjóður                                    45,0 m. kr

–         Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna       89,8 m. kr

–         Tónlistarsjóður                                        81,1 m. kr

–         Bókasafnssjóður höfunda                      42,6 m. kr

–         Barnamenningarsjóður                          8,0 m. kr

–         Listskreytingasjóður                                8,2 m. kr

*  Safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ verði 64,6 m. kr

* Menningarsamningar landshlutanna verði uppfærðir og ætlað sama framlag og á fjárlagaárinu 2013, þ.e. samt. 270,4 m kr. og menningarsamningur við Akureyrarbæ skoðaður m.t.t. umfangs verkefna

*  Verkefnið Handverk og hönnun fái endurnýjaðan samning til þriggja ára með 20 m. kr árlegu framlagi.

*  Málefni kynningarmiðstöðva listgreinanna verði skoðuð sérstaklega, lagt mat á fjárþörf þeirra og gerð áætlun um eflingu starfseminnar. Þangað til slík áætlun liggur fyrir verði framlag til Miðstöðvar íslenskra bókmennta hækkað í 92 m. kr og veitt sérstökum fjármunum til stofnunar Íslenskrar sviðslistamiðstöðvar

*  Kynning á menningu og listum í sendiráðum Íslands verði hækkuð í 12 m. kr

*  Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við áformaðan niðurskurð til listmenntunar á háskólastigi, óbreytt framlag til myndlistarnáms á framhaldsstigi auk þess sem fjárlaganefnd er hvött til þess að tryggja framtíð tónlistarskólanna með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum

* Þá er ítrekuð ósk um að stjórn BÍL fái áheyrn hjá fjárlaganefnd í tilefni af erindi þessu

Umsögn BÍL til fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlagafrumvarps 2015
BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, eru heildarsamtök listafólks í fjórtán aðildarfélögum og starfar bandalagið samkvæmt lögum samþ. 4. nóv. 2000 með síðari breyt. Þar kemur fram að BÍL sinni heildarhagsmunum þeirra listgreina og hönnunar sem mynda bandalagið. Á grunni laganna er gerður samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið þar sem nánar er kveðið á um hlutverk bandalagsins sem ráðgjafa stjórnvalda í málefnum menningar og lista. Áralöng hefð er fyrir því að BÍL sendi vandaða umsögn til fjárlaganefndar Alþingis um þá liði er varða listir og menningu í fjárlagafrumvarpi hvers árs og er það hluti af ráðgjafarhlutverki BÍL gagnvart stjórnvöldum. Sú hefð hefur skapast að fulltrúar BÍL fái áheyrn hjá nefndinni til að fylgja umsögn sinni eftir, en þegar eftir því var leitað 2013 var erindi BÍL um slíka heimsókn synjað. Það gerðist einnig nú í ár (sbr. t-póst frá starfsmanni nefndarinnar frá 8. okt. 2014).

Heildarmyndin
BÍL horfir til heildarhagsmuna listgreina og hönnunar í þessari umsögn og fagnar því að almennri aðhaldskröfu frumvarps til fjárlaga 2015 verði ekki beitt á verkefni sem falla undir menningarmál (bls. 272), en þar mun vera átt við einhvern hluta stofnana á menningarsviðinu frekar en stuðning við sjóði á borð við launasjóði listamanna og hönnuða eða verkefnatengda sjóði sem fjármagna verkefni sjálfstætt starfandi listamanna. BÍL mun því beina sjónum sérstaklega að þeim fjárlagaliðum sem ætlaðir eru sjóðum og miðstöðvum skapandi greina, ásamt þáttum sem lúta að aukinni tekjuöflun ríkissjóðs á kostnað menningar og lista, sbr. áform um hækkun virðisaukaskatts og skerðingu á mörkuðum tekjustofni Ríkisútvarpsins. Einnig eru gerðar alvarlegar athugasemdir við áformaðan niðurskurð til listmenntunar á háskólastigi og óbreytt framlag myndlistarnáms á framhaldsstigi auk þess sem fjárlaganefnd er hvött til þess að tryggja framtíð tónlistarskólanna með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum.

Hækkun virðisaukaskatts
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja til hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts úr 7% í 12% er með öllu óásættanleg. Hún fer ekki bara gegn öllum áformum um eflingu lestrarkunnáttu heldur lýsir hún atlögu að tungumálinu og mun hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir menningarlíf þjóðarinnar. Áhrifin munu ekki einungis birtast í verulegum samdrætti í bókaútgáfu heldur mun útgáfa tónlistar á geisladiskum og hljómplötum vart bíða þess bætur. BÍL styður heils hugar þær kröfur sem komnar eru fram frá fagfélögum rithöfunda og tónlistarmanna um að horfið verði frá þessum áformum. Nær væri að afnema virðisaukaskatt af útgáfu bóka og tónlistar með öllu í skynsamlegum skrefum og býðst BÍL til að leggja stjórnvöldum lið við gerð slíkrar  áætlunar, listum og menningu til hagsbóta um ókomna tíð.

Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið óskert
BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki í dvínandi gæðum bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Sú efnahagslega óvissa sem ríkir í málefnum RÚV eykur enn á þá kreppu sem kvikmyndagerð í landinu glímir við. Það er því eindregin krafa Bandalags íslenskra listamanna að Ríkisútvarpið fái hinn markaða tekjustofn útvarpsgjaldið óskipt inn í reksturinn. Auk þess leggur BÍL til að stjórnvöld taki tafarlaust til alvarlegrar skoðunar með hvaða hætti megi tryggja stöðu stofnunarinnar til framtíðar, svo sem fyrirheit eru gefin um í fjárlagafrumvarpinu, t.d. með því að létta  af stofnuninni þungum lífeyrisskuldbindingum.

Listmenntun í hættu
Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnvalda er að tryggja fjölbreytta menntun fyrir alla aldurshópa, m.a. með auknum hlut list- og verkmenntunar, fyrirheit þar um hafa stjórnvöld gefið í gildandi námsskrám fyrir öll skólastig og menningarstefnu Alþingis frá 2013 (kafli I, tl. 4). Þrátt fyrir það hefur ævinlega þurft að berjast fyrir hlut listkennslu og er það einnig svo nú. Í frumvarpi til fjárlaga 2015 er gert ráð fyrir óbreyttu framlagi ríkisins til tónlistarnáms á vegum sveitarfélaganna eða 520 milljónum. Í ljósi stöðunnar í kjarabaráttu tónlistarkennara telur BÍL einboðið að stjórnvöld skoði með hvaða hætti börnum og ungmennum verði tryggð áframhaldandi menntun í tónlist jafnt í tónlistarskólum sem og menntun í tónmennt sem hluta af almennu námi í grunnskólum landsins. Sama er að segja um myndlistarnám á framhaldsstigi, þar gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir óbreyttum framlögum milli ára. Loks má geta þess að enn vantar reglugerð fyrir nám í listdansi á grunn- og framhaldsstigi, sem veikir grundvöll náms í listdansi á þessum skólastigum. Stjórnvöld þurfa að átta sig á mikilvægi framhaldsnáms í listgreinunum ef þau meina eitthvað með yfirlýsingum um átak í atvinnusköpun í skapandi greinum. Slíkt átak verður ekki gert öðruvísi en með öflugu menntakerfi í listum og hönnun.

Háskóli listgreinanna
Listaháskóli Íslands, menntastofnun listgreinanna á háskólastigi, er eini háskólinn  (utan Landbúnaðarháskóla Íslands) sem ekki fær aðhaldskröfu fjárlaga bætta með auknum nemendaígildum. Auk þess fellur niður 20 milljóna króna tímabundið framlag til úrbóta í húsnæðismálum skólans. Þegar skólinn var stofnaður, fyrir hvatningu frá Bandalagi íslenskra listamanna og með viljayfirlýsingu stjórnvalda, var strax áformað að skólanum yrði fundinn samastaður þar sem listgreinarnar gætu auðgað hver aðra í skapandi sambýli. Enn er skólinn rekinn víðs vegar um borgina og að stórum hluta í húsnæði sem hvorki stenst öryggiskröfur eða kröfur um aðgengi, að ekki sé talað um plássleysi og faglegar kröfur starfseminnar. BÍL lýsir yfir vilja til að leggjast á árar með stjórnvöldum í baráttunni fyrir bættum húsakosti LHÍ, en innan skólans er að finna ýmsar skapandi hugmyndir til lausna. Þá er mikilvægt að gera skólanum kleift að efna til meistaranáms í sviðslistum, en leiklist og dans eru einu námsbrautirnar sem ekki bjóða þann möguleika. Einnig er mikilvægt að fjárlaganefnd Alþingis sé upplýst um áform LHÍ um háskólanám í kvikmyndagerð, sem hefur staðið vilji til að koma á en aldrei verið fjárhagslegt svigrúm til þess í fjárframlögum til skólans. Í ljósi velgengni íslenskra kvikmynda á seinni árum og jákvæðra efnahagslegra áhrifa kvikmyndagerðar á þjóðarbúið hvetur BÍL fjárlaganefnd til að skoða auknar fjárheimildir til LHÍ fyrir háskólanám í kvikmyndagerð í fjárlagafrumvarpi 2015.

Fjárfesting í skapandi greinum
Í umsögn BÍL til fjárlaganefndar 2013 var gagnrýnd sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hverfa alfarið frá fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, sem m.a. náði til fjárfestinga í skapandi atvinnugreinum. Sú ákvörðun gerir stöðu skapandi greina í frumvarpi til fjárlaga 2015 lítið betri en hún var í frumvarpinu 2014, þó lítillega hafi verið bætt úr við þriðju umræðu fjárlaga 20. og 21. desember 2014. Þ.a.l. verður í þessum kafla umsagnarinnar litið til fjárlaga 2013 og þeirrar áætlunar um eflingu skapandi greina, sem að mörgu leyti gekk eftir og sýndi sig í hækkuðu framlagi til verkefnatengdra sjóða listgreina og hönnunar á fjárlagaárinu 2013. Í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á eflingu skapandi greina í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar („Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styðja við skapandi greinar….“) og einnig í ljósi orða forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar um sókn í skapandi greinum („ Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs…“) lítur BÍL svo á að ákveðin mistök hljóti að hafa átt sér stað við gerð fjárlagafrumvarpsins 2015 og leggur því í umsögn sinni til nokkrar veigamiklar breytingar svo áform ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga.

Samspil launasjóða og verkefnasjóða
Í skýrslum sem gerðar hafa verið til að greina umfang skapandi atvinnugreina og starfsumhverfi þeirra, kemur fram að flestir listamenn og stór hluti hönnuða starfi í eigin atvinnurekstri eða sem einyrkjar og að starfsumhverfi þeirra sé ótryggt, m.a. vegna þess að störfin séu háð stuðningi úr verkefnasjóðum af ýmsu tagi. Á síðustu árum hefur BÍL tekið þátt í vinnu stjórnvalda við endurskipulagningu fjármögnunar verkefna á vettvangi skapandi greina. Í þeirri  vinnu hefur áhersla verið lögð á samhæft kerfi launasjóða og verkefnasjóða sem byggi á faglegu mati umsókna og reglu hæfilegrar fjarlægðar. Það er mat BÍL að vel hafi tekist til í þessari endurskipulagningu, nema hvað fjármunirnir hafa ekki skilað sér með þeim hætti sem lagt var upp með. Hér á eftir fylgja tillögur sem byggja á þeim hugmyndum sem liggja að baki endurskipulagningunni og eru forsenda þess að skapandi greinar eflist. Þar á meðal er tillaga um að nýtt samkomulag verði gert við kvikmyndagerðarmenn um framtíð Kvikmyndasjóðs með það að markmiði að framlag til sjóðsins hækki í einn og hálfan milljarð á þremur árum. Fyrsti áfanginn verði hækkun um 300 milljónir 2015:

Framlag til Kvikmyndasjóðs hækki úr                       724,7     í           924,7

Myndlistarsjóður hækki úr                                              15      í              45,0

Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna hækki úr            68,5     í              89,8

Tónlistarsjóður hækki úr                                               44,9     í              81,1

Bókasafnssjóður höfunda hækki úr                            30,0     í              42,6

Barnamenningarsjóður hækki úr                                 3,9      í                8,0

Listskreytingasjóður hækki úr                                       1,5      í                8,2

Styrkir á sviði listgreina hækki úr                                36,6      í              64,6

 

Menningarsamningar við landshlutana
Auk þess sem hér er talið hvetur Bandalag íslenskra listamanna fjárlaganefnd til að huga sérstaklega að menningarsamningum við landsbyggðina. Það menningarstarf sem unnið hefur verið á grundvelli samninganna hefur skipt sköpum í blómlegu menningarstarfi landsbyggðarinnar á undanförnum árum auk þess sem þeir eru grundvöllur þess að byggð verði upp atvinnutækifæri í skapandi greinum utan höfuðborgarsvæðisins (sjá grein forseta BÍL í Austurfrétt 27.10.14 ). Skv. frumvarpi til fjárlaga 2015 eru menningarsamningarnir óbreyttir að krónutölu frá fyrra ári, bæði sá hluti þeirra sem fjármagnaður er af fjárlagalið mennta- og menningarmálaráðuneytis (207,4) sem og sá hluti sem fjármagnaður er af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti (40,0). Þannig vantar 23 milljónir króna inn í samningana til að þeir standi í sömu krónutölu og þeir gerðu á fjárlagaárinu 2013. Samningurinn við Akureyrarbæ hefur einnig lækkað frá árinu 2013 og í ljósi erfiðleika í rekstri menningarstofnana á Akureyri er full þörf á að gefa gaum að þeim samningi líka. Þá er rétt að geta verkefnisins Handverk og hönnun, en það samningslaust um þessar mundir og þyrfti endurnýjaður samningur að fela í sér 8 milljóna króna hækkun á árlegu framlagi ef verkefnið á að geta sinnt áfram sínu mikilvæga hlutverki, sem er að auka gæði íslenska handverksins og gera sterkustu verkefnin hæfari til framleiðslu.

Miðstöðvar listgreinanna og rýrir safnliðir
Varðandi safnliði mennta- og menningarmálaráðuneytis; Kynningarmiðstöðvar listgreina (99,8 m kr) og Styrkir á sviði listgreina (36,6 m kr) þá væri gagnlegt ef þeir væru betur sundurliðaðir í skýringum við frumvarpið. BÍL hvetur nefndarmenn í fjárlaganefnd til að óska eftir sundurliðunum frá ráðuneytinu til þess að auka skilning á þeirri mikilvægu starfsemi sem þessum liðum er ætlað að fjármagna. Undir hatti safnliðarins um kynningarmiðstöðvarnar eru nú Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, Íslensk tónverkamiðstöð og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, sú síðasttalda er skemmst á veg komin og þarf verulega á hvatningu frá opinberum aðilum að halda til að komast almennilega á legg. Miðstöðvarnar gegna lykilhlutverki í kynningu lista og menningar á erlendri grund, m.a. með því að veita faglega ráðgjöf ráðuneytum, sveitarfélögum, sendiskrifstofum Íslands, Íslandsstofu og markaðsskrifstofum útflutningsfyrirtækja. Forstöðumenn þeirra sitja t.d. í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum og vinna þar náið með fagráði ferðaþjónustunnar í að samþætta aðgerðir í menningartengdri ferðaþjónustu fyrir erlenda ferðamenn og markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Hluti af fjármögnum slíkra kynningarverkefna kemur gegnum fjárlagalið utanríkisráðuneytis Kynning á menningu, listum og skapandi greinum á erlendri grund, en sá liður er lægri í fjárlagafrumvarpinu 2015 en hann var á yfirstandandi fjárlagaári og vantar raunar 2 milljónir króna til að ná þeim 12 milljónum sem varði var til hans á fjárlagaárinu 2013. Þá vantar Miðstöð íslenskra bókmennta enn 20,4 milljónir króna til að ná því 92ja milljóna króna framlagi sem hún hafði á fjárlögum 2013.

Hönnunin hefur vistaskipti
Þær breytingar hafa orðið á fjárlagafrumvarpinu milli ára að Hönnunarmiðstöð, hönnunarsjóður og aðgerðaáætlun á grundvelli hönnunarstefnu hafa haft vistaskipti. Fram að þessu hefur það verið sameiginlegt verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytis að fjármagna rekstur Hönnunarmiðstöðvar og hönnunarsjóð. En þegar hönnunarstefna fyrir Ísland (http://lhi.is/news/honnunarstefna-2014-2018/) var samþykkt í janúar á þessu ári voru málefni hönnunar flutt alfarið til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Það kann að hafa verið skynsamlegt með tilliti til þess hversu erfiðlega hefur gengið að skapa samhenta stjórnsýslu um málefni skapandi atvinnugreina, í öllu falli kemur Hönnunarsjóður einna best út af verkefnatengdum sjóðum í fjárlagafrumvarpi 2015. Hann kemst aftur í sitt fyrra horf (sbr. fjárlög 2013), þ.e. fær hækkun upp í 45 milljónir (er 25m kr í fjárlögum 2014) auk þess sem aðgerðaáætlun á grundvelli hönnunarstefnu fær 10 milljónir og Hönnunarmiðstöð 15 milljónir í rekstrarstyrk (bls. 324, 328 og 337). Undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er einnig að finna sjóðinn sem fjármagnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sem hækkar milli ára um 300 milljónir króna. Það kann því að vakna sú spurning hvort lykillinn að hærra fjárframlagi í verkefni skapandi greina sé að færa þau úr menningarmála-ráðuneytinu og til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis?

Raunhæfar væntingar
Bandalag íslenskra listamanna gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir erfiðri stöðu ríkissjóðs og virðir tilraunir stjórnvalda til að koma böndum á opinber útgjöld. Það er hins vegar bjargföst sannfæring okkar, sem gætum hagsmuna listamanna og hönnuða, að þau tæki sem stjórnvöld hafa í höndunum á hverjum tíma til að tryggja fjölbreytt atvinnulíf í landinu öllu, séu ekki nægilega vel nýtt ef tillögur fjárlagafrumvarpsins ná fram að ganga. Lægri virðisaukaskattur á bækur og tónlist, ásamt eflingu verkefnatengdra sjóða á listasviðinu jafngildir fjárfestingu í hugviti og sköpunarkrafti, sem mun skila sér margfalt bæði með beinum hætt í ríkissjóð en ekki síður í bættum lífsgæðum og fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna. Þessi sjónarmið eru studd gildum rökum í ýmsum skýrslum og rannsóknum um hagræn áhrif lista og menningar. Þau fara líka saman við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar, þess vegna telur Bandalag íslenskra listamanna sig í erindi þessu hafa fjallað um fjárveitingar til skapandi greina af þekkingu og fagmennsku, ásamt því sem við teljum tillögur okkar vera fullkomlega raunhæfar.

Að lokum leyfum við okkur að setja fram ósk um fund með fjárlaganefnd Alþingis um málefni þau sem hér hafa verið reifuð,

Virðingarfyllst,
f.h. Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

Við erum menningarþjóð

Jónas Sen skrifar í Fréttablaðið í dag:

AR-141109848Á Íslandi er áberandi gróska í tónlistarlífinu. Í hverjum mánuði er haldinn fjöldi tónleika, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Tónlistarskólar eru afar margir. Sjálfsagður hlutur þykir að senda börn í tónlistarnám. Slíkt nám getur borið ríkulegan ávöxt. Það sannaðist er Björk Guðmundsdóttir kom Íslandi á sínum tíma á kort tónlistarheimsins svo um munaði. Aðrir hafa fetað í fótspor hennar. Þar á meðal er Sigur Rós og Of Monsters and Men. Airwaves-hátíðin vekur líka mikla athygli og þegar hún er haldin koma hingað erlendir umboðsmenn og blaðafólk í leit að stjörnum morgundagsins.
Íslendingar eru því montnir af tónlistarmenningu sinni. Í gamla daga höfðum við bara fornbókmenntirnar til að státa okkur af og landslagið sem málararnir okkar kepptust við að mæra. Nú er það hins vegar að stórum hluta tónlistarfólkið sem ber hróður landsins um víðan völl. Hverjum skyldi það vera að þakka? Jú, tónlistarkennurum. Flestir af okkar frægu músíköntum lærðu í tónlistarskólum.
Þessir skólar eru því mikilvæg undirstaða tónlistarmenningarinnar.
Nú eru tónlistarkennarar sem eru innan Kennarasambandsins í verkfalli. Sveitarfélög og ríkið sömdu nýverið við kennara framhaldsskóla, grunnskóla og leikskóla. Við þessa samninga hafa tónlistarkennarar miðað svo árum skiptir. Þeir vilja núna sanngjarna leiðréttingu á launum sínum til samræmis við aðrar kennarastéttir. Þessa kröfu hefur samninganefnd sveitarfélaganna hunsað síðustu ellefu mánuði.
Að sveitarfélögin skuli ekki bera meiri virðingu fyrir tónlistarkennurum er dapurlegt þegar haft er í huga mikilvægi tónlistarkennslu. Ímyndum okkur að það væri ekki tónlistarkennsla hér. Það þýddi að aðeins ómenntaðir tónlistarmenn héldu uppi tónlistarlífinu. Þeir allra metnaðargjörnustu kynnu vinnukonugripin á gítar, héldu takti á trommusettið, gætu glamrað einhverja hljóma á píanó, spilað á greiðu og kannski sög í leiðinni. Engin sinfóníuhljómsveit eða ópera væri starfandi. Björk, Sigur
Rós, Of Monsters and Men – hvaða lið er nú það? Orgelleikur þekktist ekki í jarðarförum eða brúðkaupum, kirkjutónlist væri kórsöngur þar sem hver syngi með sínu nefi. Áhugamannakórar væru til en ekki menntaður kórstjóri til að stjórna þeim. Eina tónlistin sem þjóðin hefði aðgang að væri á erlendum geisladiskum og Spotify. Íslensk tónlist væri óþekkt fyrirbæri og íslenskir tónlistarmenn líka.
Hvernig menning væri það? Þið hjá sveitarfélögunum, hafið þið hugleitt þetta? Með því að samþykkja ekki eðlilegar launakröfur tónlistarkennara eruð þið að stuðla að því að tónlistarkennsla verði miklu lakari en hún hefur áður verið. Við viljum ekki slíkt samfélag. Við erum menningarþjóð og þar skiptir tónlistin gríðarlegu máli. Ekki eyðileggja hana.

Skál fyrir myndlistinni!

Í dag er dagur myndlistarinnar og af því  tilefni skrifar Ragnar Kjartansson í Fréttablaðið:

AR-711019973Í kaffi, bjór, djús eða kampavíni, eða bara Egils Kristal ef maður vill vera betri en hinir. Já, bræður og systur, í dag er dagur myndlistar. Dagur listformsins sem mótar sjónrænan veruleika okkar niður í minnstu smáatriði. Myndlistin er nefnilega mamma hönnunar, auglýsinga, tísku og eiginlega bara útlits alls þess manngerða sem við sjáum nú til dags. Já, hyllum þetta stórkostlega form mannlegrar tilvistar. Ég vinn sem myndlistarmaður en fyrst og fremst er ég myndlistaráhugamaður. Myndlistin er svo víðfeðm, það er vonlaust að skilgreina hana. Hún er alltaf að kanna nýjar formlausar lendur og umbreyta þeim í form, listaverk. Myndlistin er alltaf skrefi framar í hugmyndum en allt annað. Pönkið byrjaði í myndlistinni 1913. Já, skál fyrir myndlist.

Hér á Íslandi er kvik og brjáluð myndlistarsena. Hún hefur verið að springa út undanfarið og nú er rætt um íslenska myndlistarmenn á kaffihúsum Parísar og diskóbörum New York-borgar. Ég er þakklátur fyrir að búa á landi sem er iðandi af myndlistarlífi. Hér er allt fullt af listamönnum og áhorfendum. Hér er fólk á útkjálka sem lætur sig framþróun mannsandans einhverju varða. Skál. Myndlist er frelsi. Ég veit ekki um neinn bransa sem gengur jafn mikið út á frelsi í hugsun, frelsi til að gera nákvæmlega það sem maður vill og þá virki það.

Ég hef einu sinni grátið fyrir framan listaverk. Það var „Merda d’artista“ eftir Piero Manzoni. Þetta eru litlar niðursuðudósir með mannaskít listamannsins frá 1961. Þegar ég sá verkið var dósin að verða 50 ára gömul. Listamaðurinn löngu dáinn. Eftir stóð þessi bjarti, prakkaralegi og magnaði hlutur. Það er ómögulegt að útskýra fyrir einhverjum ruddum af hverju ég grét, en ég gerði það.

Gullgerðarlist
Manzoni var svo frábær, dó svo ungur og þetta verk á eftir að lifa um aldir, hvað sem á dynur. Þetta var hans niðurstaða um hvað það er að lifa, vera til og vera listamaður – hvað listin er. Hún er nefnilega hin eiginlega gullgerðarlist. Að gera gull úr skít. Magnað. Ég nenni samt ekki að tala um efnahagslegan ávinning samfélagsins af listinni, afleidd störf, styrkingu ferðamannaiðnaðarins og allt hitt sem óhjákvæmilega fylgir frábærri listasenu. Það er bara afskaplega jákvæð hliðarverkun. Myndlistin er svo mikil andans gjöf fyrir hvern og einn einasta sem setur sig inn í hana. Að njóta myndlistar eru mikil lífsgæði sem standa öllum til boða. Góðir hálsar, myndlist er að finna til. Við verðum að elska listaverk, þá skiljum við það. Við verðum að elska listina þá skiljum við hana. Þannig að þeir sem bölva listinni og listamönnum eru örgustu vitleysingar sem kunna ekki að elska. Æ, ég tala bara svona af því að það er dagur myndlistar og þá má ég taka blaðið frá munninum. Lyftum kaffibollanum hátt á loft og hvíslum „skál fyrir myndlistinni og elskum þetta helvíti“.

Myndlist og hugsun

Katrín Jakobsdóttir fyrrv. mennta- og menningarmálaráðherra, skrifar pistil á heimasíðu SÍM í tilefni af degi myndlistar:

bildeCAPDOE5JHvaða áhrif hefur listin á það hvernig við tökum ákvarðanir í okkar daglega lífi? Í heimi þar sem sjónrænt áreiti er endalaust er það eigi að síður svo að góð listaverk geta haft jákvæð áhrif á líðan okkar og hugsanir sem beint og óbeint eru forsendur allrar ákvarðanatöku. Myndlistin og sjónlistirnar hafa þróast mikið seinustu áratugi. Listgreinar renna saman í margháttuðum gjörningum og stundum skiljum við, sem eigum til að vera föst í hefðbundnum og gömlum skilgreiningum á listgreinum, ekki nákvæmlega hvað gerir myndlist að myndlist. Og gleymum því að það skiptir kannski ekki öllu máli, mestu skiptir sú upplifun sem verkið veitir okkur, sá innblástur sem það getur orðið okkur.

Flest hengjum við upp myndir í kringum okkur og þær geta skýrt fyrir sjálfum okkur og öðrum hver við erum. Myndir barnanna okkar, myndir jafnvel eftir okkur sjálf eða látna ættingja, myndir sem okkur þykir vænt um því þær eru fallegar, vekja með okkur tilfinningar eða styðja við okkur í daglega lífinu. Daglega horfi ég á verk eftir Ólaf Ólafsson og Libiu Castro sem minnir mig á hve auðvelt það getur verið að svipta fólk réttindum. Daglega horfi ég á skúlptúr eftir Erling Jónsson myndhöggvara sem minnir mig á að dramb er falli næst. Daglega horfi ég á styttuna af Jóni Sigurðssyni sem minnir mig á að við erum sjálfstæð þjóð og verk Santiago Sierra sem minnir mig á mikilvægi borgaralegrar óhlýðni. Ég horfii líka á skip pabba Línu Langsokks og stóran ruslafugl sem minnir mig á að ímyndunaraflinu virðast lítil takmörk sett.

Listin og mennskan

Öll góð list í umhverfinu hjálpar okkur að muna af hverju við erum menn. Listamenn fást við mennskuna og samspil hennar við náttúru og tækni, og með verkum sínum dýpka þeir skilning okkar á umheiminum og styrkja sjálfsþekkingargreind okkar. Þess vegna er myndlistin mikilvæg því hún gerir okkur að betri og meiri mönnum.

En listin eykur líka fegurðina í lífi okkar, sem oft er vanmetin. Við gerum okkur hugsanlega ekki grein fyrir því dags daglega hve umhverfið skiptir okkur miklu. Að lifa í eilífu skammdegi grárra bygginga þar sem ekkert brýtur upp umhverfið, ekki sést stingandi strá eða eitt listaverk, hlýtur að hafa önnur áhrif á sálina en að hafa græn lungu í þéttbýlinu; fjölbreyttan og framsækinn arkitektúr og að almenningur hafi aðgang að spennandi og ögrandi listaverkum.

Í tilefni af Degi myndlistar hvetur Samband íslenskra myndlistarmanna okkur öll til að hugsa um mikilvægi myndlistar og myndlistarmanna í samfélagi okkar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að myndlist getur haft gríðarleg áhrif á líðan og geð okkar allra, getur hjálpað okkur að öðlast dýpri skilning og þekkingu á tilvistinni og gert okkur öll að betri mönnum.

Þetta mætti Alþingi hafa í huga nú þegar þar er fjallað um fjárlagafrumvarp ársins 2015 en þar er lagt til að skera niður myndlistarsjóð í 15 milljónir sem er þriðjungur þess framlags sem hann fékk við stofnun 2013. Þessi litli sjóður hefur haft jákvæð áhrif eftir að hann kom til og má vart vera minnni. Sú ráðstöfun að skera hann niður hlýtur að hafa neikvæð áhrif á umhverfi okkar og lífsgæði og kannski meiri en við áttum okkur á við fyrstu sýn. Markmið okkar allra ætti að vera þveröfugt; að efla þessa listgrein eins og aðrar.

Page 10 of 41« First...89101112...203040...Last »