Author Archives: vefstjóri BÍL

Málþing um heiðurslaun

Bandalag íslenskra listamanna gengst fyrir málþingi um heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir árlega nokkrum hópi listamanna „sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþóðavettvangi“ [orðalag laga um heiðurslaun nr. 25/2012]. Málþingið fer fram í IÐNÓ, miðvikudaginn 27. maí nk. kl. 14:00 – 16:00

Kveikjan að fundinum er fengin frá meistaraprófsritgerð sem Guðni Tómasson listsagnfræðingur varði nýlega við Háskólann á Bifröst. Guðni verður frummælandi á fundinum og kallar hann erindi sitt

Heiður þeim sem heiður ber

Heiðurslaun listamanna, Alþingi Íslendinga og virðingin sem við sýnum afburðarólki í listum á Íslandi

Að loknu erindinu verða pallborðsumræður um málefnið. Gestir í pallborði, auk Guðna, verða:

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis

Pétur Gunnarsson, rithöfundur og formaður starfshóps BÍL um heiðurslaun 2010-2011

Mörður Árnason, íslenskufræðingur og fyrrv. alþingismaður.

Umræðum stýrir Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL.

BÍL hefur oftsinnis fjallað um fyrirkomulag heiðurslauna Alþingis til listamanna og reynt að benda á aðrar leiðir við framkvæmdina en tíðkast hafa. Til marks um þá vinnu er ályktun aðalfundar BÍL frá 2011, sem aðgengileg er á heimasíðu BÍL.  Á málþinginu gefst tækifæri til að ræða mismunandi sjónarmið um heiðurslaun, inntak þeirra og fyrirkomulag.

Málþingið er ætlað félögum í aðildarfélögum BÍL, stjórnmálamönnum og öðru áhugafólki um málefnið.

Dagur menningarlegrar fjölbreytni

Í dag er 21. maí alþjóðlegur dagur menningarlegrar fjölbreytni. BÍL hafði frumkvæði að því að ræða við íslensku UNESCO nefndina af því tilefni og sameinuðust þessir aðilar í að hvetja menningarstofnanir, skóla og félagasamtök til að gera deginum skil með einhverju móti. Inntak hvatningarinnar var eftirfarandi:

Árið 2002 staðfesti UNESCO að þann 21. maí ár hvert skyldi vakin athygli á þýðingu menningarlegrar fjölbreytni sem er sameiginleg arfleifð mannkyns og að hlúa beri að henni og varðveita í þágu allra manna.

Íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna hafa nú sameinast í því að vekja athygli á þessum Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni og hvetja sem flesta til þátttöku með fjölbreytilegum listviðburðum og umræðu í samfélaginu um gildi menningarlegrar fjölbreytni.

Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja athygli á því hversu fjölbreytt menning mannkyns er og minna á að aukinn skilningur á samspili ólíkra menningarheima eykur  umburðarlyndi, félagslegt réttlæti og gagnkvæma virðingu menningarsamfélaga.

Menningarleg fjölbreytni getur af sér fjölskrúðugan og fjölbreytilegan heim með margvíslegum möguleikum þar sem hlúð er að hæfileikum mannsins og gildum, auk þess sem hún hvetur til gagnkvæmrar virðingar milli ólíkra hópa og þjóða. Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um þessi málefni í þágu jafnvægis, jöfnuðar og friðar.

Í ár eru 10 ár liðin frá því UNESCO samþykkti samning um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform og skapa skilyrði til þess að menningarsamfélög nái að dafna og eiga með sér frjáls samskipti sem eru öllum aðilum til hagsbóta. Ísland undirritaði samninginn árið 2007 en alls eru 134 ríki búin að staðfesta hann. Í nafni markmiða samningsins hvetja íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna til þess að fjölmiðlar, menningarstofnanir, félagasamtök og áhugasamir einstaklingar sameinist í að beina sjónum að menningarlegri fjölbreytni í sinni víðustu mynd 21. maí nk.

Meðal þeirra sem brugðist hafa við hvatningunni eru Borgarbókasafnið í Grófarhúsi, en þar verður dagsins minnst með veglegum hætti.

 

 

Samband íslenskra myndlistarmanna 2014

Skýrsla stjórnar SÍM 2014

Giskað á fiska

SB-704019997Sigtryggur Baldursson tónlistarmaður og forstöðumaður ÚTÓN skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:

Undanfarin misseri hefur margt verið skrifað og ekki síður skrafað um skapandi greinar á Íslandi, enda ört vaxandi starfsgreinar sem velta miklu, skapa störf og afleidd störf og hafa raunveruleg hagræn áhrif.

Hönnun, tónlist, myndlist, tölvuleikir, bókmenntir, sviðslistir og kvikmyndir mynda kjarnann í þessum greinum og saman mynda þau samtök skapandi greina.

Í fersku minni er Hönnunarmars sem var nýlega haldinn með 140 sýningum úti um allar koppagrundir, yfir 300 hönnuðir sýndu eigin hönnun, allt frá minnstu skartgripum til borgarskipulags.

Bókmenntirnar dafna og sækja á nýja markaði og myndlistin líka, kvikmyndagerð á Íslandi er með miklum blóma þótt fjármagn þurfi oft að sækja út fyrir landsteinana. Þúsundir iðkenda EVE-online flykkjast árlega til landsins á „fanfest“ með tilheyrandi umstangi.

Þegar umfang greinanna eykst verður æ nauðsynlegra að taka saman hagtölur fyrir þær til þess að geta betur séð hvað er að gerast í heildarmyndinni. Við sjáum þetta glöggt með ferðaþjónustuna sem hefur verið að berjast fyrir rannsóknarmiðstöð sem komin er í gang á Akureyri og hefur verið að skila veigamiklum hagtölum fyrir greinina.

Hvað tónlistina varðar höfum við séð gífurlegar breytingar á umhverfi okkar síðustu árin, með minnkandi fjárfestingum frá plötufyrirtækjunum vegna minnkandi plötusölu, höfum við séð lifandi tónlistarflutning margfaldast og okkar listamenn streyma inn á stærra markaðssvæði. Milli áranna 2012 og 2013 tvöfaldaðist tónleikahald íslenskra tónlistarmanna erlendis, frá 718 tónleikum á ári í rúmlega 1460. Þetta eru sláandi tölur, en hvað þýða þær hagfræðilega? Hver er heildarveltan á öllu þessu tónleikahaldi? Mikill uppgangur er á íslenskum tónlistarhátíðum líka, Iceland Airwaves veltir meira en einum og hálfum milljarði á viku í nóvember, hefur áhrif á gengi krónunnar, það sjáum við vegna þess að ÚTÓN gerir könnun á því – en heildarmyndin fyrir skapandi greinar, það er erfitt að sjá. Hagstofan tekur ekki saman þessar tölur. Við erum enn að giska, og það eru ekki góð vísindi. Nú síðast að skapandi greinar velti meiru en ál á ársgrundvelli. Hér þarf einhverjar alvöru tölur. Ekki ágiskanir.

Í nýlegri grein í Iceland Review kemur fram að sú jákvæða ímyndarbreyting Íslands í Bandaríkjunum, sem rakin er til vinsælda íslenskrar tónlistar, hefur haft mjög jákvæð áhrif á sölu fiskafurða Íslendinga á Bandaríkjamarkaði. Hljómar lygilega, ekki satt? Það þarf að vera hægt að skoða þetta nánar og fleira sem væri mun auðveldara að mæla.

Merkilegt nokk þá er Rannsóknarmiðstöð skapandi greina til, en hún er ekki virk. Vegna þess að hana skortir rekstrarfé. R.S.G. (áður Rannsóknaráherslusvið menningar og lista) var stofnað innan Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2004.

Rannsóknum á skapandi greinum á Íslandi hafa verið takmörk sett vegna aðgengis að hagtölum. Með tilkomu fyrirtækjasviðs Hagstofu hefur aðgengi að gögnum um skapandi greinar þó batnað til muna, en þó er ekki nema hálf sagan sögð því greining og vöktun á gögnum í þágu þeirra sem vinna í skapandi greinum og einnig í þágu stjórnvalda verður ekki unnin hjá Hagstofu.  Með rannsóknarmiðstöð sem sérhæfir sig í rannsóknum á skapandi greinum verða upplýsingar um skapandi greinar á einum stað, greindar og gerðar aðgengilegar.

Nú er mál að drífa þetta í gang með sameiginlegu átaki ríkis, borgar og greina, öllum til hagsbóta. Hagstofan mælir vel allt sem lýtur að fiski og landbúnaði. Við hjá skapandi greinum þurfum að hætta að giska á fiska.

Alþjóðadagur menningarlegrar fjölbreytni 21. maí 2015

Árið 2002 staðfesti UNESCO að þann 21. maí ár hvert skyldi vakin athygli á þýðingu menningarlegrar fjölbreytni sem er sameiginleg arfleifð mannkyns og að hlúa beri að henni og varðveita í þágu allra manna.

Íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna hafa nú sameinast í því að vekja athygli á þessum Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni og hvetja sem flesta til þátttöku með fjölbreytilegum listviðburðum og umræðu í samfélaginu um gildi menningarlegrar fjölbreytni.

Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja athygli á því hversu fjölbreytt menning mannkyns er og minna á að aukinn skilningur á samspili ólíkra menningarheima eykur  umburðarlyndi, félagslegt réttlæti og gagnkvæma virðingu menningarsamfélaga.

Menningarleg fjölbreytni getur af sér fjölskrúðugan og fjölbreytilegan heim með margvíslegum möguleikum þar sem hlúð er að hæfileikum mannsins og gildum, auk þess sem hún hvetur til gagnkvæmrar virðingar milli ólíkra hópa og þjóða. Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um þessi málefni í þágu jafnvægis, jöfnuðar og friðar.

Í ár eru 10 ár liðin frá því UNESCO samþykkti samning um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform og skapa skilyrði til þess að menningarsamfélög nái að dafna og hafa með sér frjáls samskipti sem eru öllum aðilum til hagsbóta. Ísland undirritaði samninginn árið 2007 en alls eru 134 ríki búin að staðfesta hann. Í nafni markmiða samningsins hvetja íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna til þess að fjölmiðlar, menningarstofnanir, félagasamtök og áhugasamir einstaklingar sameinist í að beina sjónum að menningarlegri fjölbreytni í sinni víðustu mynd 21. maí nk.

Sjá nánar á heimasíðum www.unesco.is og www.bil.is

Reykjavík 24. mars 2015

Með bestu kveðjum,

Gunnar Haraldsson                                                       Kolbrún Halldórsdóttir

formaður íslensku UNESCO-nefndarinnar              forseti Bandalags íslenskra listamanna

 

 

 

 

 

Sjálfstæðisbarátta 21 aldarinnar – erindin komin á vefinn

Í tengslum við aðalfund BÍL 7. febrúar sl var haldið málþing sem bar yfirskriftina

Sjálfstæðisbarátta 21. aldrinnar
Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti? 

Málþingið tók til umfjöllunar stöðu lista og menningar í stjórnkerfinu, skoðaði aðgengi atvinnufólks í listum og hönnun að aðstöðu og opinberum fjármunum, auk þess sem velt var upp sjónarmiðum um afsöðu stjórnvalda til atvinnustarfsemi sem byggir á framlagi listafólks og hönnuða.  Þá var leitað svara við spurningunni um það hvort líklegt væri að sérstakt ráðuneyti menningarmála væri líklegt til að auka veg lista og menningar?

Nú hafa erindin, sem flutt voru á málþinginu verið sett á vefinn en fjórir framsöguerindi voru flutt auk þess sem mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson ávarpaði málþingið og tók þátt í pallborðsumræðum ásamt framsögumönnum.

Hér má sjá ernidin 

Charlotte Bøving leikari og leikstjóri,

Daði Einarsson listrænn stjórnandi,

Hulda Proppé sérfræðingur á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís

Þorleifur Arnarson leikstjóri

Málþinginu og pallborðsumræðum stýrði Magnús Ragnarsson

 

 

Danshöfundafélag Íslands bætist í hóp aðildarfélaga BÍL

Á stjórnarfundi stjórnar BÍL í dag var samþykkt aðildarumsókn Danshöfundafélags Íslands, DFÍ og eru aðildarfélög BÍL því orðin 15 talsins. Danshöfundafélagið var stofnað á Dansverkstæðinu, Skúlagötu 30 þann 22. nóvember sl. og er meginmarkmið þess að gæta hagsmuna danshöfunda á Íslandi. Félagið sinnir þessu hlutverki meðal annars með því að efla faglega samstöðu og samræðu, vinna að auknum sýnileika atvinnugreinarinnar og standa vörð um höfunda- og hugverkarétt danshöfunda.

Flestir danshöfundar starfa verkefnabundið fyrir stóru leikhúsin, Íslenska dansflokkinn og sjálfstæða dans- og leikhópa. Auk þess vinna þeir að verkefnum fyrir auglýsingar, dagskrá- og kvikmyndagerð, áhugaleikfélög og framhaldsskóla. Skortur á samningum, fjármagns- og aðstöðuleysi hefur verið dragbítur á greininni og heft þá þróun sem möguleg væri innan hennar. Nýtt fagfélag danshöfunda er því mikilvægt skref í þá átt að styrkja stöðu danslistarinnar hér á landi.

Stjórn DFÍ 2015 er þannig skipuð:
Formaður: Katrín Gunnarsdóttir danshofundar@gmail.com
Gjaldkeri: Katrín Ingvadóttir
Ritari: Ásrún Magnúsdóttir
Varamaður: Alexander Roberts

 

Ársskýsla forseta BÍL starfsárið 2014

Stjórn BÍL hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu, auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir um afmörkuð málefni, t.d. listamannalaun og málefni Ríkisútvarpsins.
Aðildarfélög BÍL eru fjórtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum þeirra stjórnarmanna, sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:
Arkitektafélag Íslands, AÍ, – formaður: Sigríður Ólafsdóttir
Félag íslenskra leikara; FÍL, – formaður: Birna Hafstein (varamaður Hilmar Guðjónsson)
Félag íslenskra listdansara; FÍLD, – formaður: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir (varamenn Tinna Grétarsdóttir og Ásgeir Helgi Magnússon)
Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT, – formaður: Gunnar Guðbjörnsson (varamaður Hallveig Rúnarsdóttir)
Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH, – formaður: Björn Th. Árnason
Félag kvikmyndagerðarmanna FK, – formaður: Hrafnhildur Gunnarsdóttir (varamaður Stefanía Thors)
Félag leikstjóra á Íslandi FLÍ, – formaður: Jón Páll Eyjólfsson (varamaður Gunnar Gunnsteinsson)
Rithöfundasamband Íslands RSÍ, – formaður: Kristín Steinsdóttir/Kristín Helga Gunnarsdóttir  (varamaður Jón Kalman Stefánsson)
Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM, – formaður: Hrafnhildur Sigurðardóttir/Jóna Hlíf Halldórsdóttir (varamaður Erla Þórarinsdóttir)
Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL, – formaður: Friðrik Þór Friðriksson
Tónskáldafélag Íslands; TÍ, – formaður: Kjartan Ólafsson
Félag tónskálda og textahöfunda; FTT, – formaður: Jakob Frímann Magnússon
Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB, – formaður: Rebekka Ingimundardóttir
Félag leikskálda og handritshöfunda; – formaður: Margrét Örnólfsdóttir

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2015):
Menningar- og ferðamálaráð       Kolbrún Halldórsdóttir                 áheyrnarfulltrúi
Reykjavíkur                                      Jóna Hlíf Halldórsdóttir               áheyrnarfulltrúi
Jakob Frímann Magnússon           varamaður
Gunnar Guðbjörnsson                   varamaður

Fulltrúar í faghópi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur 2014:
Katrín Hall danshöfundur og listrænn stjórnandi, formaður
Ólöf Nordal myndlistarmaður
Magnea J. Matthíasdóttir rithöfundur og þýðandi
Bragi Valdimar Skúlason tónlistarmaður
Hörður Lárusson grafiskur hönnuður

Kvikmyndaráð                                Kristín Jóhannesdóttir    febrúar 2013 – febrúar 2016
Bergsteinn Björgúlfsson                varamaður

Stjórn Barnamenningarsjóðs       Gunnar Gunnsteinsson   15.10.2013 – 14.10.2015
Kristín Mjöll Jakobsdóttir             varamaður

Fulltrúaráð Listahátíðar                Kolbrún Halldórsdóttir

Stjórn listamannalauna                 Margrét Bóasdóttir          10.10.2012 til 01.10.2015
Randver Þorláksson        varamaður

Stjórn Skaftfells                              Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir  varamaður

Menningarfánaverkefni                Karen María Jónsdóttir
Reykjavíkurborgar

List án landamæra                         Edda Björgvinsdóttir

Stjórn Gljúfrasteins                        Kolbrún Halldórsdóttir  23. apríl 2012 – 22. apríl 2016

Umsagnarnefnd v/heiðurslauna  Pétur Gunnarsson           17. des. 2012

Höfundarréttarráð                         Kolbrún Halldórsdóttir  1. ágúst 2014 – 1. ágúst 2018

Sérfræðinganefnd KKN                 Margrét Jónasdóttir         Janúar 2014 – janúar 2017
(ferðastyrkjanefnd)

Starfshópur um                               Kolbrún Halldórsdóttir  Október 2014
málverkafalsanir                            Jón B. Kjartansson Ransu

Forseti BÍL er fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Listaháskóla Íslands, formaður þar síðan 16. desember 2011. Forseti BÍL hefur gegnt starfi forseta ECA – European Council of Artists síðan í árslok 2011 og situr í norræna listamannaráðinu Nordisk Kunstnerråd. Fyrir hönd ECA tekur hún þátt í starfi European Creative Alliance um höfundarréttarmál listamanna og er fulltrúi Nordisk Kunstnerråd í stjórn Norrænu menningarmiðstöðvarinnar Circolo Scandinavo í Róm. Önnur trúnaðarstörf forseta eru eftirfarandi: forseti er formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands, kjörin af fulltrúaráði safnsins, hún er fulltrúi BÍL í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar.  Þá er hún er ritari í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi, í samninganefnd félagsins síðan 2011.

Á árinu var breytt um fyrirkomulag í starfsemi Austurbrúar, en BÍL er einn stofnaðila hennar, fagráð Austurbrúar var lagt niður en þess í stað verða stofnaðilar kallaðir til árlegs fundar til að ræða starfsemina. Forseti sagði á árinu af sér setu í framkvæmdanefnd vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og lauk störfum sem formaður  fagráðs Íslandsstofu í skapandi greinum en á áfram sæti í fagráðinu.

Stjórn BÍL hefur skipt með sér verkum á árinu þannig að Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda hefur gegnt starfi ritara og Gunnar Guðbjörnsson formaður Félags íslenskra tónlistarmanna (klassískrar deildar FÍH) tók við starfi gjaldkera af Hrafnhildi Sigurðardóttur á vordögum.

Stjórn BÍL hefur komið saman til reglulegra funda 10 sinnum á árinu, þar að auki hélt stjórnin sérstakan fund með nýjum stjórnendum Ríkisútvarpsins um stefnu þeirra í málefnum stofnunarinnar. Þá bauð stjórn nokkrum sinnum gestum til fundar við sig á reglulegum fundartíma, þannig kynnti Jón Ólafur Ólafsson arkitekt lokaverkefni sitt í námi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík, sem fjallaði um hönnun og byggingu Hörpu. Einnig var haldinn sérstakur fundur með Margréti Bóasdóttur um málefni launasjóða listamanna.

Nýr samningur við mennta- og menningarmálaráðuneyti
Samningur BÍL við mennta- og menningarmálaráðuneytið rann út í árslok 2013 og hafði stjórn BÍL lagt þunga áherslu á að fá framlagið hækkað þegar samningurinn yrði endurnýjaður. Á aðalfundi BÍL 2014 lá á borðinu samningstillaga frá ráðuneytinu sem gerði ráð fyrir óbreyttu framlagi, þ.e. 2,4 millj. á ári, en eftir miklar samningaumleitanir var undirritað nýtt samkomulag  5. maí 2014 þar sem gert er ráð fyrir að framlagið hækki í áföngum í 3,5 milljónir til 2016.
Samningur BÍL við Reykjavíkurborg gildir til loka árs 2015 og er árlegt framlag borgarinnar til starfsemi BÍL á samningstímanum kr. 1.060.000.-  Stjórn BÍL stefnir áfram að því að ná fram hækkun á opinberu framlagi til starfseminnar, þannig að það jafnist að lágmarki á við verðgildi upphaflegra samninga, 2007 í tilfelli borgarinnar, sem þá var ein milljón og 2009 í tilfelli ríkisins, sem þá var 2,3 milljónir.

Fjárlög 2015
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir fjárlagaárið 2015 var lagt fram í september og olli miklum vonbrigðum í hópi listamanna, ekki síður en frumvarpið 2014, enda lagt til að haldið yrði áfram niðurskurði til verkefnatengdra sjóða á vettvangi listanna. Megininntak umsagnar stjórnar BÍL til fjárlaganefndar var það að mótmælt var hækkun lægra þreps virðisaukaskatts, lögð áhersla á nýtt samkomulag um kvikmyndagerð og hvatt til þess að strax yrðu settar 200 m. kr. til viðbótar í Kvikmyndasjóð auk þess sem þess var krafist að innheimtu útvarpsgjaldi verði skilað að fullu til Ríkisútvarpsins. Þá var mótmælt atlögunni að öðrum verkefnatengdum sjóðum listgreinanna og þess krafist að Myndlistarsjóður verði ekki lægri en 45 m. kr, framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna ekki lægra en 89,8 m. kr, framlag til Tónlistarsjóðs ekki lægra en 81,1 m. kr, Bókasafnssjóður höfunda ekki lægri en 42,6 m. kr, Barnamenningarsjóður ekki lægri en 8,0 m. kr og Listskreytingasjóður ekki lægri en 8,2 m. kr.  Þá var lagt til að safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ verði 64,6 m. kr, menningarsamningar landshlutanna verði uppfærðir og ætlað sama framlag og á fjárlagaárinu 2013, þ.e. samt. 270,4 m kr. auk þess sem þess var óskað að framlög til kynningarmiðstöðva listgreinanna yrðu skoðuð sérstaklega, lagt mat á fjárþörf þeirra og gerð áætlun um eflingu starfseminnar. Þangað til slík áætlun komi til verði framlag til Miðstöðvar íslenskra bókmennta hækkað í 92 m. kr., veitt sérstökum fjármunum til stofnunar Íslenskrar sviðslistamiðstöðvar og auknir fjármunir settir til kynningar á menningu og listum í sendiráðum Íslands. Þá voru gerðar alvarlegar athugasemdir við áformaðan niðurskurð til listmenntunar á háskólastigi, óbreytt framlag til myndlistarnáms á framhaldsstigi auk þess sem fjárlaganefnd var hvött til þess að tryggja framtíð tónlistarskólanna með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum. Endanleg niðurstaða fjárlaganna var svo einhvers konar varnarsigur, þar sem allir sjóðirnir hækkuðu lítillega nema Barnamenningarsjóður, Listskreytingasjóður og safnliður ráðuneytisins. Stjórn BÍL sendi fjárlaganefnd tvö erindi meðan fjárlögin voru til umfjöllunar í nefndinni og gerði athugasemdir við það að annað árið í röð var forsvarsmönnum listamanna meinað um fund með nefndinni og bent á að snúa sér til ráðuneytisins með sín mál.

Áframhaldandi barátta
Það er mat stjórnar BÍL að mikið skorti á að þingmenn og ráðherrar sýni málefnum listanna tilhlýðilega virðingu og skilning. Í ársskýrslu forseta BÍL á síðasta aðalfundi var ítarleg umfjöllun um meðferð þingsins á list- og menningartengdum liðum í fjárlagafrumvarpi fyrir 2014. Þá var því lýst hversu mikið bakslag hafði orðið í fjárframlögum til list- og menningartengdra sjóða á fjárlögum ríkisins milli áranna 2013 og 2014, en niðurskurðurinn til sjóðanna þá var 626 milljónir. Varnarsigurinn nú, þ.e. fyrir 2015 er einna helst fólginn í því að Kvikmyndasjóður hækkar frá tillögum frumvarpsins um 100 milljónir, framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna um 10 milljónir, Bókasafnssjóður höfunda um 15 milljónir og Tónlistarsjóður um 10 milljónir. En mikið skortir á að upphæðum fjárlaga 2013 sé náð. Það er því ljóst að barátta listafólks fyrir bættum hag listanna á fjárlögum íslenska ríkisins heldur áfram. Liður í þeirri baráttu er efni málþingsins sem haldið verður í tengslum við þennan aðalfund nú, þar sem spurt er hvort þörf sé á sjálfstæðu menningarmálaráðuneyti.

Umsagnir um þingmál
Á árinu hafa færri þingmál á vettvangi lista og menningar borist stjórn BÍL til umsagnar en oft áður. Einungis þrisvar sinnum hefur stjórn borist ósk um umsögn frá Alþingi og í öllum tilfellum hefur verið brugðist við með efnislegri umsögn. Þau mál sem um ræðir eru tillaga til þingsályktunar frá formönnum stjórnarandstöðuflokkanna um sóknaráætlun í skapandi greinum. Sú tillaga byggði að ýmsu leyti á skýrslu starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytis frá 2012 Skapandi greinar – Sýn til framtíðar. Stjórn BÍL gaf tillögunni eðlilega jákvæða umsögn, en málið var aldrei afgreitt frá Alþingi, jafnvel þó ríkisstjórnarflokkarnir hafi sett í stjórnarsáttmálann áform um að gera slíka áætlun.
Önnur þingsályktunar tillaga sem BÍL fékk til umfjöllunar varðaði aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni og var hún flutt af allsherjar- og menntamálanefnd sjálfri. Það voru því góðar líkur á að tillagan næði fram að ganga. BÍL gaf tillögunni jákvæða umsögn, en lagði áherslu á nauðsyn þess að nefnd sú sem tillagan gerði fyrir að semdi aðgerðaáætlunina, yrði ekki einungis skipuð sérfræðingum í málvísindum og upplýsingatækni, svo sem tillagan gerði ráð fyrir, heldur yrði horft á mikilvægan þátt listamanna og hönnuða sem nýta sér stafræna tækni í störfum sínum og til þeirra sem hefðu skapandi tök á tungumálinu. BÍL lagði því til að leitað yrði eftir slíku fólki til að taka sæti í nefndinni. Alþingi samþykkti tillöguna án þess að tekið væri tillit til umsagnar BÍL um málið. Stjórn BÍL er ekki kunnugt um að búið sé að skipa sérfræðinganefndina, sem þó átti að skila tillögum sínum í síðasta lagi 1. september sl.
Þriðja tillagan sem Alþingi óskaði eftir að BÍL skoðaði varðaði ráðstafanir gegn málverkafölsunum. BÍL gaf umsögninni jákvæða umsögn og taldi nauðsynlegt að Alþingi samþykkti hana með það að markmiði að vernda íslenska menningararfleifð fyrir þeim spellvirkjum sem málvarkafalsanir hafa í för með sér. Tillagan var samþykkt við lok þings í maí 2014 og í haust fékk BÍL ósk frá ráðuneytinu um að skipa fulltrúa í starfshóp þann, sem tillagan gerði ráð fyrir að stofnaður yrði til vinna tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum. Fulltrúar BÍL í hópnum eru Kolbrún Halldórsdóttir og Jón B. K. Ransu myndlistarmaður. Hópurinn hefur enn ekki verið kallaður saman.

Samráðsfundir BÍL og menningarmálaráðherra
Í samræmi við samkomulag BÍL og mennta- og menningarmálaráðuneytisins hitti stjórn BÍL mennta- og menningarmálaráðherra ásamt starfsfólki ráðuneytisins sem sinnir listum og menningu á árlegum samráðsfundi 2. apríl 2014 og lá minnisblað frá stjórn BÍL til grundvallar umræðunni. Fyrir fundinn var ljóst að ekki yrði tími til að ræða öll þau mál sem minnisblaðið hafði að geyma og að ósk ráðherrans var málum sem tengdust listmenntun slegið á frest og því lofað að fljótlega yrði efnt til annars fundar um þau mál.  Helstu áhersluatriði BÍL á fundinum voru: Höfundarréttarmál og internetið, verkefnasjóðir og kynningamiðstöðvar á listasviðinu, hlutur lista í erlendu markaðsstarfi, uppbygging danslistarinnar, málefni óperuflutnings, gjaldskrá vegna sýninga myndlistarmanna í opinberum söfnum, málefni Ríkisútvarpsins og málefni safna á vettvangi listgreina og hönnunar. Í þessari upptalningu er sleppt því er varðar menntun í listgreinum á öllum skólastigum og mögulegri aðkomu listamanna að skólastarfi, t.d. undir hatti „menningarbakpoka“ eða „listakistu“.  Þegar líða tók á fundinn var ljóst að ekki ynnist heldur tími til að ræða málefni höfundarréttar og internetsins til hlítar. Fundinum lauk því með áréttingu um að haldinn yrði annar fundur um þau mál ásamt mennntamálunum við fyrstu hentugleika. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir BÍL varð ekki af þeim fundi fyrr en 1. október sl. Sá fundur var haldinn í ráðuneytinu og var farið yfir höfundarréttarmálefni og stöðu listmennta á öllum skólastigum. Áhersluatriði BÍL varðandi höfundarréttarmálin snerust um mikilvægi þess að stjórnvöld sýndu í verki að þau væru bandamenn listafólks í baráttunni fyrir réttlátum hlut rétthafa af miðlun efnis sem nýtur verndar skv. höfundalögum, sérstaklega því sem miðlað er á netinu. Í því sambandi þyrftu stjórnvöld að beita sér fyrir því að komið verði á samstarfi við gagnaveitur og símafyrirtæki um fyrirkomulag innheimtu þóknunar til rétthafa. Stjórnvöld yrðu að beita löggjöf  til að tryggja innheimtu gjalda af öllum tækjum sem nota má til afritunar höfundavarins efnis. Þá bæri stjórnvöldum að standa vörð um menningarlega fjölbreytni og í því skyni að beita sér fyrir því að undanskilja list- og menningartengdar „afurðir“ og þjónustu í TTIP-samningum um fríverslun ESB og USA (meira um þá samninga síðar í þessari skýrslu). Loks lagði BÍL áherslu á mikilvægi þess að innheimt yrði gjald vegna útleigu bókasafna á kvikmyndum og tónlist.
Áhersluatriði BÍL varðandi menntunarþáttinn voru helst þau að leysa þyrfti bráðavanda í húsnæðismálum Listaháskóla Íslands, efla meistaranámið í skólanum og tryggja fé til rannsókna í listum. Einnig að nauðsynlegt væri að móta stefnu um nám í kvikmyndagerð á háskólastigi í samræmi við fyrri yfirlýsingar stjórnvalda.  Komið var á framfæri gagnrýni BÍL á það að ekki skuli minnst á listtengdar rannsóknir í nýrri áætlun Vísinda- og tækniráðs 2014 – 2016 og þar með væri aðgangur listamanna að rannsóknarsjóðum afar takmarkaður, auk þess sem tækniþróunarsjóður og innviðasjóður væru lokaðir listafólki.  Þá var kallað eftir ábyrgri afstöðu stjórnvalda til listnáms á framhaldsskólastigi og að ríkið axlaði ábyrgð sína í fjármögnun listnáms á því skólastigi. Sérstaklega var fjallað um málefni tónlistarskólanna og kallað eftir því að lokið yrði endurskoðun laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarfræðslu og að gerðar yrðu lagfæringar á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun tónlistarnáms frá 13. maí 2011.  Málefni listdansins voru líka reifuð og lögð áhersla á nauðsyn þess að staða dansskólanna verði sambærileg við tónlistarskólana þegar þeirra mál  væru komin í höfn. Mikilvægi kvikmynda- og myndlæsis í almenna skólakerfinu var undirstrikað og kallað eftir úrbótum varðandi stöðu sviðslistanna, t.d. að stofnuð yrði sviðslistamiðstöð með þátttöku ríkisins, meistaranámi í sviðslistum við LHÍ yrði komið á og nauðsynlegar úrbætur gerðar í húsnæðismálum sviðslistadeildar LHÍ við Sölvhólsgötu. Loks var fjallað um hugmyndir starfshóps ráðuneytisins um „menningarbakpoka“ eða „listakistu“ og verkefnin Tónlist fyrir alla, Skáld í skólum og Litróf listanna, sem öll varða listuppeldi og möguleika grunnskólanema og skólafólks á samstarfi við listamenn úr öllum listgreinum (meira um það síðar í skrýslu þessari). Varðandi árangur þessara umræðna eða niðurstöður í einstökum málum þá verður að segjast að stjórn BÍL fór ekki út með nein loforð um úrbætur eða aðra efnislega þætti fasta í hendi. Tilfinning stjórnarmanna var sú að ekki væri mikilla framfara að vænta í opinberri umsýslu menningarmála þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála. Þess ber að geta að minnisblöð stjórnar BÍL fyrir þessa samráðsfundi eru birt í heild sinni á heimasíðu BÍL.
Umsýsla verkefnasjóða á listasviði og kynningamiðstöðvar
Eitt þeirra mála sem stjórn BÍL hefur rætt við mennta- og menningarmálaráðherra er þróun mála varðandi aðgang listamanna að verkefnatengdu fé úr vel skipulögðum opinberum sjóðum og hlutverk kynningamiðstöðva á listasviðinu í því ferli. Sagt var frá því í skýrslu forseta BÍL 2014 að starfshópur um verkefnasjóði og kynningarmiðstöðvar hafi skilað vinnu sinni sem byggð var á hinni nýju menningarstefnu Alþingis (samþykkt í mars 2013) þar sem segir að framlög ríkisins til verkefna á sviði menningarmála skuli fara í gegnum lögbundna sjóði með faglegum úthlutunarnefndum sem byggja úthlutun á vönduðu jafningjamati. Í stjórnum sjóða séu viðhafðir góðir stjórnunarhættir, regla um hæfilega fjarlægð virt og almennum hæfisreglum fylgt. Starfslaunasjóðir og verkefnasjóðir verði vel skilgreindir og endurspegli fjölbreytni og þróun menningarlífsins, m.a. er varðar samstarfsverkefni.  Í framhaldi af skýrslu hópsins hefur Rannís verið falin umsýsla hinna verkefnatengdu sjóða og hafði raunar áður tekið við umsýslu starfslaunasjóðanna. Sú breyting hefur ekki verið alveg hnökralaus, en unnið er að lagfæringum á fyrirkomulaginu og ljóst að mikil fagþekking er til staðar hjá Rannís í utanumhaldinu. Vinnan við að efla miðstöðvar lista og hönnunar, sem ætlað er að sjá um hina faglegu ráðgjöf og kynningu að örðu leyti, hefur ekki verið jafn skilvirk. Enn er ekki búið að stofna sviðslistamiðstöð og ekki búið að leggja fram frumvarp til sviðslistalaga, auk þess sem framlög til kynningarmiðstöðvanna hafa haldið áfram að dragast saman.  Hönnunarmiðstöð, nýtur þó sérstöðu hvað það varðar, hennar málefni hafa að stærstum hluta  verið sett undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, þar er hönnunarsjóðurinn vistaður og aðgerðaáætlun hönnunar,  ásamt stórum hluta rekstrarframlags til miðstöðvarinnar. Ekki fengust nein skýr svör frá ráðherra eða embættismönnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins á fyrrnefndum samráðsfundi um samhent átak í uppbyggingu kynningarmiðstöðva og sambærilegrar aðstöðu allra listgreinanna hvað ráðgjöf varðar.

Ný stefna Vísinda- og tækniráðs til 2016
Á árinu var gefin út ný stefna Vísinda- og tækniráðs 2014 – 2016. Stjórn BÍL yfirfór stefnuna og furðaði sig á hróplegri fjarveru menningar, lista og skapandi greina og því að Listaháskóla Íslands skuli þar í engu getið eða rannsókna í listum almennt. Í Vísinda og tækniráði sitja fjórir ráðherrar auk fulltrúa háskóla og ýmissa stofnana og er því ætlað að móta stefnu um rannsóknir, tækni og nýsköpun. Sú staðreynd að listir eða skapandi greinar skuli ekki fá sérstaka umfjöllun í stefnunni fer gegn fyrri stefnumótun sem gefin var út af Rannís í sérstakri skýrslu 2012 undir yfirskriftinni „Ný sýn – Breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu“.  Stjórn BÍL nefndi þetta við mennta- og menningarmálaráðherra á síðari samráðsfundi ársins og sagðist hann ætla að skoða með hvaða hætti væri hægt að bæta úr þessu. Í því skyni að auka þekkingu listamanna á vísinda- og nýsköpunarkerfinu og kynna möguleika þeirra gagnvart aðkomu að rannsóknarsjóðum Vísinda- og tækniráðs hefur stjórn boðið Huldu Proppé sérfræðingi á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís að halda erindi á málþingi BÍL í tengslum við aðalfund 2015.

Samstarf BÍL og borgaryfirvalda
Í þjónustusamningi BÍL og borgaryfirvalda um samvinnu á sviði menningarmála, er áskilið að halda skuli samráðsfund að vori ár hvert og var það eitt af síðustu embættisverkum Jóns Gnarr sem borgarstjóra að kalla stjórn BÍL til slíks fundar í Höfða 12. maí 2014 þegar tvær vikur voru í kosningar til borgarstjórnar. Á fundinum var eitt dagskrármál, þ.e. ný menningarstefna Reykjavíkur og aðgerðaáætlun á grundvelli hennar, en BÍL hafði tekið þátt í að móta stefnuna, bæði með setu áheyrnarfulltrúa á fundum menningar- og ferðamálaráðs og einnig með ítarlegri umsögn stjórnar BÍL til ráðsins. Það er á engan hallað þó Einari Erni Benediktssyni, sem gegndi formennsku í menningar- og ferðamálaráði allt kjörtímabilið, sé hrósað sérstaklega fyrir virkt samráð við heildarsamtök listafólks og það leyfði stjórn BÍL sér að undirstrika á samráðsfundinum. Einnig var stjórnvöldum menningarmála hjá Reykjavíkurborg hrósað fyrir að leggja fram vel skilgreinda aðgerðaáætlun með stefnunni, sem á að gilda til 2020 og ber yfirskriftina „Menning er mannréttindi“.  Þegar eldri menningarstefna borgarinnar var samþykkt 2009 hafð BÍL einmitt gagnrýnt það að markmiðum stefnunnar fylgdu engin fyrirheit eða áætlun um efndir. Það má því segja að ábendingar BÍL á þeim tíma hafi skilað sér í breyttri nálgun nú.
Stefnan er aðgengileg á vef borgarinnar ásamt aðgerðaáætluninni, sem verður lifandi plagg, tekið til endurskoðunar árlega, þar sem hægt verður að sjá stöðu aðgerða, þ.e. hvaða aðgerðir eru í farvegi, hvaða nýjar aðgerðir verði settar á oddinn á yfirstandandi ári og hvaða aðgerðum stefnunnar sé lokið. Rétt er að hvetja til þess að listamenn kynni sér stefnuna og aðgerðaáætlunina, með það að markmiði að hafa uppbyggileg áhrif á þróun mála í list- og menningarlífið í borginni.

Menningar- og ferðamálaráð og faghópur BÍL
Svo sem áður er getið þá á BÍL tvo áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins, sem haldnir eru tvisvar í mánuði. Þar að auki tekur stjórn BÍL þátt í að tilnefna fulltrúa í ráðgefandi faghóp um úthlutanir fjármuna til list- og menningartengdra verkefna í borginni, sem auglýst er eftir á hverju hausti og úthlutað í janúar. Þar með hafa borgaryfirvöld unnið eftir fyrrnefndri meginreglu opinberrar menningarstefnu að mat á umsóknum til list- og menningartengdra verkefna skuli vera unnið á faglegum grunni með reglu hæfilegrar fjarlægðar að leiðarljósi. Undnafarin ár hefur sá háttur verið hafður á að BÍL tilnefnir 15 nöfn listamana, sem eru hæfir og fúsir til að fara yfir umsóknirnar, meta verkefnin og gera tillögur til ráðsins um úthlutun fjármunanna. Menningar- og ferðamálaráð fer yfir lista stjórnar BÍL og velur af honum 5 nöfn, sem taka sæti í faghópnum. Sl. haust var gerð sú breyting á þessu fyrirkomulagi að Hönnunarmiðstöð Íslands var falið að tilnefna 3 nöfn á listann, til að tryggja aðkomu hönnuða að faghópnum. Núna velur því ráðið úr 18 nöfnum í stað 15. Framar í þessari skýrslu má sjá hvernig faghópurinn 2014 var skipaður.  Tilkynnt var um úthlutun fyrir 2015 þ. 19. janúar sl. og hafði faghópurinn þá skoðað 193 umsóknir um tæpar 400 milljónir króna til margvíslegra verkefna. Faghópurinn gerði tillögur til ráðsins um að vilyrði yrðu gefin til 104 verkefna fyrir samtals 91,3 milljónir króna á árinu og að tíu þeirra hlytu samninga til fleiri ára í viðbót við þá sem fyrir njóta slíkra samninga.
Auk þessara úthlutana þá er hægt að sækja um skyndistyrki til borgarinnar fyrir verkefni sem koma upp eftir að umsóknarfrestur rennur út að hausti. Slíkur stuðningur er afgreiddur í febrúar, maí, september og nóvember. Faghópurinn fyrrnefndi fjallar ekki um þær umsóknir heldur er það falið sérstökum starfshópi starfsmanna á menningar- og ferðamálasviði borgarinnar. Stjórn BÍL hefur fjallað um þetta fyrirkomulag og er þeirrar skoðunar að rétt sé að  óska eftir því við menningar- og ferðamálaráð að gerð verði sú breyting að auglýst verði eftir umsóknum tvisvar á ári og að faghópnum verði falið að fjalla um allar umsóknir, en ekki bara þær sem berast að hausti og eru til úthlutunar í janúar.

Menningar(bak)poki eða listakista
Í ágúst 2013 skipaði mennta- og menningarmálaráðuneytið starfshóp til að gera tillögur um aðgerðaáætlun um menningu barna og ungmenna á grundvelli menningarstefnunnar sem samþykkt var á Alþingi 6. mars 2013. Eitt af fjórum meginmarkmiðum stefnunnar er þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu og var hópurinn settur á laggirnar til að útfæra tillögur um með hvaða hætti væri best að nálgast það verkefni. BÍL átti fulltrúa í hópnum, sem var Agnar Jón Egilsson, formaður Félags leikstjóra á Íslandi (FLÍ) og Elfa Lilja Gísladóttir framkvæmdastjóri verkefnisins Tónlist fyrir alla stýrði vinnu hópsins.  Hópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra 1. október og var hún sett á vef ráðuneytisins skömmu síðar. Önnur kynning fór ekki fram á skýrslunni og ekkert hefur heyrst um að til standi að hrinda tillögum hópsins í framkvæmd í náinni framtíð. Tillögur hópsins voru tvíþættar, annar hlutinn sneri að menningu og listum í skólastarfi og hinn hlutinn að menningarstofnunum og þeirra þætti í menningu barna og ungmenna. Leiðarljós hópsins var að yfirvöld, menningarstofnanir og skólar þyrftu að sjá til þess að auka framboð og jafna aðgengi yngri kynslóðarinnar að menningu og listum, þannig að hún gæti jafnt notið sem tekið þátt í list- og menningartengdu starfi. Þannig lagði hópurinn til að settur yrði á laggirnar Menningarpoki (eða listakista) að norrænni fyrirmynd og sem tryggt yrði fjármagn á fjárlögum. Þá lagði hópurinn til að leiðandi ríkisreknar menningarstofnanir á sviði lista (s.s. Sinfóníuhljómsveitin, RÚV, Þjóðleikhús, Listasafn Íslands o.s.frv.) mynduðu með sér formlegan faglegan samráðsvettvang þar sem menning fyrir börn og ungmenni væri til umfjöllunar.
BÍL hefur lengi talað fyrir hugmyndum um menningarpoka að norrænni fyrirmynd og í ársskýrslu BÍL 2013 er greint frá hugmyndum um samstarf við mennta- og frístundasvið Reykjavíkur um slíkt verkefni. Einnig er fjallað um stuðning menningar- og ferðamálaráðs við hugmyndina í aðgerðaáætlun með menningarstefnu borgarinnar til 2020 (sjá 2. kafla stefnunnar).  Þar var áformað að menningarpokinn yrði innleiddur á árinu 2014 í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, en það gekk ekki eftir. Þeir fjármunir sem Reykjavíkurborg hafði sett til hliðar í verkefnið (4 milljónir) voru því nýttir með öðrum hætti, en fóru þó allir í að efla menningar- og listatengt starf með börnum og ungmennum í borginni.

Starfshópur um málefni ungs fólks
Rétt er að geta um það hér að 2013 lauk störfum starfshópur um málefni ungs fólks. Hópurinn var skipaður af velferðarráðherra í tíð Guðbjarts Hannessonar og átti BÍL fulltrúa í hópnum, það var Agnar Jón Egilsson og Oddný Sen var hans varamaður. Í síðustu ársskýrslu BÍL var ekki ljóst hvort eitthvað yrði gert með tillögur hópsins eða hvort hann yrði kallaður saman til frekari eftirfylgni svo þessa var ekki getið í skýrslunni fyrir starfsárið 2013. En tillögum hópsins með drögum að aðgerðaáætlun í málefnum ungs fólks var sem sagt skilað til ráðuneytisins og haldinn var einn fundur með hópnum þar sem upplýst var um að ekki yrði hægt að ljúka vinnunni við aðgerðaáætlunina vegna umfangs verkefnisins og því líka borið við að ríkisstjórnarskipti væru í vændum. Eftir að ný ríkisstjórn tók við sendi hópurinn tillögur sínar á nýjan ráðherra og lagði til að vinnunni við áætlunina yrði haldið áfram.  Svörin sem hópnum bárust voru þau að ákveðið hefði verið að leggja hópinn niður en boðað að stofnuð yrði sérstök nefnd um málefni fjölskyldunnar og henni yrðu fengin drögin að aðgerðaáætluninni til frekari úrvinnslu. Ekki er að finna neinar upplýsingar á vef velferðarráðneytisins um fjölskyldunefnd eða afdrif þessarar vinnu.

Sóknaráætlun í skapandi greinum
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er þess sérstaklega getið að ríkisstjórnin leggi áherslu á að styðja við skapandi greinar og vilji að á Íslandi verði listnám aðgengilegt og viðurkennt. Þá eru gefin fyrirheit um að gerð verði úttekt á starfsumhverfi skapandi greina með það að markmiði að þær eflist og sæki fram. Í skýrslu forseta BÍL til aðalfundar 2013 var þessa getið með tilvitnun í áramótaræðu forsætisráðherra þar sem hann sagði að lokið yrði við sóknaráætlun fyrir listir, menningu og annað nýsköpunarstarf á árinu 2014, enda hefðu skapandi greinar til framtíðar litið alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs þar sem hugvit og sköpunarkraftur færu saman.
Árið leið áður en slík áætlun leit dagsljósið og ekki hefur heyrst neitt af starfi samráðsvettvangs ráðuneytanna, sem komið var á í kjölfar skýrslunnar Skapandi greinar – sýn til framtíðar, sem út kom í september 2012. Til upprifjunar á tillögum skýrslunnar þá er hér kafli úr skýrslu forseta BÍL frá aðalfundi 2013: Megintillögur skýrslunnar ganga út á  að stjórnskipuleg ábyrgð skapandi greina verði skýr, samráð við skapandi geirann verði styrkt og upplýsingaflæði aukið.  Áhersla er lögð á það að ráðuneytin auki þekkingu sína á geiranum og að innan ráðuneytanna verði til sérfræðingar, sem hafi það skilgreinda hlutverk að sinna skapandi atvinnugreinum. Lagt er til að settur verði á stofn þverfaglegur hópur ráðuneyta og geirans, sem fái það hlutverk að vinna að samræmdri uppbyggingu greinanna á grundvelli skýrslunnar. Í skýrslunni eru einnig tillögur um styrkingu miðstöðva lista og hönnunar, þær verði miðstöð þekkingar á geiranum og virki sem brú milli stjórnsýslunnar og þeirra sem starfa innan geirans. Þá er lögð áhersla á að skapandi greinar verði skilgreind stærð í þjóðhagsreikningum og að söfnun tölulegra upplýsingar verði stórefld t.a.m. undir hatti Hagstofunnar. Einnig að ríki og sveitarfélög samræmi skráningu sína og upplýsingagjöf um tölfræði greinanna, t.d. upplýsingar um fjárhagslegan stuðning en ekki síður um framlag greinanna til hagkerfisins. Í skýrslunni er lögð mikil áhersla á fagmennsku í framlögum opinberra styrkja til skapandi greina og sérstök áhersla lögð á frumsköpun. Undir frumsköpun falla störf listamanna, sem eru bæði hluti af skapandi atvinnugreinum en líka sjálfstæð starfsemi, sem ekki er heppilegt að hneppa um of í bönd stjórnsýslulegs aga.
Í ljósi þess að stjórnvöld hafa ekki kynnt eða opinberað boðaða sóknaráætlun fyrir listir og skapandi greinar, hefur stjórn BÍL ákveðið að leggja þeim lið með því að leggja slíka áætlun fram á þessum aðalfundi og færa hana stjórnvöldum til að stýra eftir málefnum lista og menningar til 2020.

Launasjóðir listamanna
Í byrjun janúar 2015 var tilkynnt um úthlutun úr launasjóðum listamanna. Þetta ár var sótt um meira en 10 þúsund mánuði en til úthlutunar voru 1600 mánaðalaun. Niðurstaðan var sú að veita 267 einstaklingum laun, af þeim 1296 einstaklingum sem stóðu að þeim 769 umsóknum sem til umfjöllunar  voru. Mánaðarlaunin eru verktakagreiðslur sem fyrr og nema kr. 321.795.-.
Stjórnar BÍL bíður það verkefni að útfæra hugmyndir um styrkingu launasjóðanna, en fram að þessu hefur stjórnin óskað eftir því við mennta- og menningarmálaráðherra að unnin verði ný þriggja ára áætlun um eflingu launasjóðanna, sambærileg þeirri sem í gildi var 2009 – 2012.
Þá hefur stjórn listamannalauna lagt til við stjórn BÍL að formlega verði fjallað um tiltekin atriði í framkvæmdinni, sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem urðu þegar heimilað var að sækja um í tvo eða fleiri sjóði. Þar er m.a. um að ræða eftirfarandi álitaefni:
a. Launasjóður rithöfunda/myndlistarmanna – úthlutanir til barnabóka (þegar stór hluti efnisins er myndefni), skoða líka möguleika barnamenningarsjóðs,
b. Launasjóður rithöfunda; sjónarmið varðandi fræðirit og námsefni,
c. Launasjóður sviðslista (hópar) – óperuuppfærslur og söngleikir.
c. Launasjóður tónlistarflytjenda – úthlutanir til verkefna- og framkvæmdastjóra.
d. Launasjóður myndlistarmanna – úthlutanir til sýningarstjóra og myndskreytinga.
e. Launasjóður hönnuða – úthlutanir til verkefna- og framkvæmdastjóra.
Þessi atriði verða tekin til umfjöllunar á vettvangi BÍL á næstunni og verður nýr fulltrúi BÍL í stjórn listamannalauna, sem væntanlega verður skipaður með haustinu, nestaður með umræðu stjórnar og aðildarfélaganna um þessi mikilvægu atriði.

Höfundarréttur
Eitt af stærstu hagsmunamálum listamanna eru málefni höfunda- og flutningsréttar, ekki síst í ljósi þess hversu lítið skilar sér til eigenda þessara réttinda af notkun höfundarvarins efnis á netinu. Eitt af meginverkefnum heildarsamtaka listamanna á Íslandi er að leita leiða til að listafólk hér fái sambærilegan hluta tekna sinna af slíkri notkun og listamenn í nágrannalöndum okkar. Það gerist samt einungis með vilja og virkri aðkomu stjórnvalda. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að koma því til leiðar að gjald verði lagt á fleiri tegundir afritunarbúnaðar en hingað til hefur tíðkast, svo sem harða diska, tölvur, síma og önnur tæki sem notuð eru til löglegrar eintakagerðar til persónulegra nota. Þá hefur komið á daginn að gloppa er í höfundalögunum hvað varðar hljóð- og myndmiðlunargeirann, þar sem við sinnum ekki nægilega innheimtu rétthafagjalda fyrir hann. Evrópskir kollegar hafa innheimtusamtök sem heita SAA (Society of Audiovisual Authors) en engin sambærileg samtök eru til hér á land og því enginn sem sinnir innheimtu gjalda í hljóð- og myndmiðlunargeirannum, það á líka við um innheimtu fyrir erlenda aðila í þessum geira. Þá hafa réttindi sviðslistafólks, sem tekur þátt í beinum sjónvarps-útsendinum af leiksýningum líka verið til umfjöllunar enda nauðsynlegt að tryggja þau betur en gert hefur verið. Síðan má nefna að ekkert greitt til rétthafa vegna útlána bókasafna á tónlist og kvikmyndaefni sambærilegt við þær greiðslur sem ritöfundar fá gegnum bókasafnssjóð höfunda, sem fjármagnaður er á fjárlögum. Það er í þágu heildarhagsmuna listafólks að lagaumgjörð höfundarréttar verði með þeim hætti að spornað verði gegn ólöglegu niðurhali og streymi með það að markmiði að íslenskir listamenn fái sambærilegan hluta tekna sinna eftir þeim leiðum og kollegarnir í nágrannalöndum okkar.
BÍL hefur átt gott samstarf við höfundarréttarsamtök á borð við STEF á síðustu árum og eftir samráðsfundinn sem stjórn BÍL átti með mennta- og menningarmálaráðherra í október, hefur verið reynt að halda góðu sambandi við lögfræðisvið ráðuneytisins varðandi málefni tengd höfundarrétti. Nú nýverið voru lögð fram á vef ráðuneytisins til kynningar drög að frumvarpi til breytinga á höfundalögum, raunar um mjög afmarkaðan þátt, þ.e. svokölluð munaðarlaus verk. Stjórnar BÍL bíður nú það verkefni að fara yfir drögin og skoða hvort þeim kröfum sem settar hafa verið fram á fundum með ráðuneytinu hefur verið mætt og ef ekki hvort hægt verði að koma fleiri atriðum að í þessari lotu úr því lögin eru opnuð á annað borð. Reyndar láðist ráðuneytinu að láta BÍL vita af því þegar frumvarpið var gert opinbert á vefsíðu ráðuneytisins (sett í opið samráðsferli) og stjórn var ekki kunnugt um það fyrr en í síðustu viku, en vonandi tekur ráðuneytið mark á umsögn frá BÍL þó hún berist eitthvað seinna en fresturinn sem gefinn er segir til um, en hann rennur út 12. febrúar.

Íslandsstofa og hlutur listanna í markaðsstarfi
Breytingar eru að verða á fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Forseta BÍL barst um það tilkynning frá stjórn Íslandsstofu um áramótin að nýtt fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum hefði verið skipað og formaður þess væri Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Aðrar breytingar á ráðinu eru þær að mennta- og menningarmálaráðuneytið á ekki lengur fulltrúa í ráðinu, heldur einungis utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, sem er undarlegt þar sem mennta- og menningarmálaráðherra skipar einn stjórnarmann í stjórn Íslandsstofu skv. lögum um stofuna.
Stjórn BÍL hefur á árinu fjallað um stöðu lista og menningar í markaðsstarfi því sem heyrir undir Íslandsstofu, en samkvæmt lögum ber stofunni að sinna þeim þáttum í starfi sínu og var það breyting frá því sem verið hafði meðan Útflutningsráð sinnti opinberu markaðsstarfi. Íslandsstofa hélt málþing um ferðaþjónustu og skapandi greinar 20. maí 2014 með það að markmiði að sýna fram á tækifærin í aukinni samvinnu og samlegð þessara greina. Fagráð lista og skapandi greina ásamt fagráði ferðaþjónustunnar hafði undirbúið málþingið, sem var svo vel sótt að fólk varð frá að hverfa. Það var talið til marks um mikilvægi þess að leiða greinarnar saman og að skilningur á mikilvægi þéttara samstarfs þeirra væri að aukast. Í framhaldi af málþinginu samþykkti fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum á fundi sínum í ágúst að sett yrði á laggirnar teymi innan Íslandsstofu til að vinna hugmyndir um næstu skref í þessu mikilvæga samstarfi fagráðanna tveggja. Teymið hefur ekki verið kallað saman.
Stjórn BÍL hefur ákveðið að fjalla nánar um málefni markaðsstarfs Íslandsstofu og hvernig skapandi greinum verði best sinnt undir þeim hatti. Í mars nk er áformaður fundur stjórnar með fulltrúum Íslandsstofu til að ræða það nánar.

ECA – European Council of Artists
Evrópusamstarf listamannasamtaka hefur barist fyrir tilveru sinni undanfarin ár og um þessar mundir virðast meiri líkur en minni á að það verði lagt niður. Forseti BÍL var kjörinn forseti ECA 2011 og hefur á þeim tíma stjórnað vinnu við styrkumsóknir til ESB um rekstrarstyrki til samtakanna, en þeir hafa ekki fengist. Hins vegar hefur verkefnastjóri ECA, Guðrún Gísladóttir, ljósmyndari búsett í Kaupmannahöfn, kynnst evrópskum styrkjaleiðum afar vel í starfi sínu fyrir samtökin, sem leiddi til þess að 2013 sótti hún um styrk til Norrænu menningaráætlunarinnar fyrir myndlistartengt verkefni með alþjóðlegum vinkli og styrkurinn var veittur. Aðilar að verkefninu voru myndlistarmenn frá Íslandi, Skotlandi, Noregi, Finnlandi, Litháen og Svíþjóð, en markmiðið var að safna saman og breiða út þekkingu um MU-samninginn sænska, sem er lögbundinn í Svíþjóð og tryggir myndlistarmönnum greiðslur fyrir vinnu við að koma upp sýningum í söfnum og sýningarsölum, sem rekin eru fyrir opinbert fé. Núna er verkefninu formlega lokið og hefur verið opnuð heimasíða sem miðlar upplýsingum um niðurstöður vinnunnar „European Artists‘ Rights
Önnur verkefni sem BÍL og íslenskir listamenn hafa notið góðs af gegnum ECA tengjast samstarfi höfundaréttarsamtaka í Evrópu, sem hafa myndað samstarfshóp „European Creative Alliance“ um höfundaréttarmál þar sem markvisst hefur  verið fylgst með öllum hugmyndum þrýstihópa og stjórnmálamanna á tilskipunum ESB varðandi höfunda- og flytjendabundin réttindi. Einnig hefur verið fylgst með starfi Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar ESB varðandi málefni tengd höfundarrétti.
Loks má nefna viðræður um fríverslun ESB og Bandaríkjanna (TTIP), sem mikið hefur verið fjallað um á þessum vettvangi. Upplýsingum um þetta starf hefur verið miðlað til íslenskra stjórnvalda, þ.e. til forstöðumanns lögfræðisviðs mennta- og menningarmálaráðuneytisins og einnig til íslenskra höfundaréttarsamtaka. Nánar er fjallað um tiltekna þætti þessarar umræðu á öðrum stað í skýrslu þessari.

KKN – Kultur Kontak Nord
30. september 2014 barst stjórn BÍL beiðni frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um að tilnefna fulltrúa í sérfræðingahópa Norrænu menningarmálaáætlunarinnar (KKN), en svo sem kunnugt er þá hefur oftar enn ekki verið eftir því sóst af hálfu ráðuneytisins að BÍL legði til hugmyndir við skipan sérfræðinganna.  Að þessu sinni stakk BÍL upp á fjórum einstaklingum sem voru tilbúnir að taka sæti í einhverjum af þessum fjórum sérfræðinganefndum sem starfa á vettvangi áætlunarinnar. Niðurstaðan varð sú að einn af þeim hlaut skipun, Margrét Jónasdóttir kvikmyndagerðarmaður var tilnefnd til setu í sérfræðinganefndinni sem metur umsóknir um ferðastyrki. Þar hafði áður setið Gunnar Gunnsteinsson leikstjóri. Margrét er því núna eini fulltrúinn sem BÍL hefur átt þátt í að tilnefna í sérfræðinganefndirnar. Stjórn BÍL hefur hvatt aðilarfélögin til að fylgjast vel með málefnum KKN á heimasíðu áætlunarinnar og gegnum rafrænt fréttabréf, sem gefið er út reglulega.

Áhrif TTIP á menningarmál
(Skammstöfunin TTIP stendur fyrir Transatlantic Trade and Investment Partnership). Í september 2014 héldu heildarsamtök listamanna á Norðurlöndunum (og BÍL þar á meðal) ráðstefnu um möguleg áhrif fríverslunarsamninga ESB og Bandaríkjanna á menningarmál ekki síst hljóð-  og myndmiðlunargeirann. Það voru dönsku samtökin sem áttu frumkvæðið og sóttu um styrk til Norrænu menningaráætlunarinnar (KKN). Styrkurinn var veittur og fjölmenn ráðstefna haldin í Kaupmannahöfn 2. september 2014. Margir athyglisverðir fyrirlesarar reifuðu málið, sem í grundvallaratriðum snýst um kröfu Bandaríkjamanna um að „vörur og þjónusta“ á list- og menningarsviðinu heyri undir hinn væntanlega samning og verði þá sett undir sömu lögmál og hvaða framleiðsluvara og þjónusta á markaði sem er. Mikil leynd hafði hvílt yfir samningaviðræðunum og samningsmarkmið framkvæmdastjórnar ESB höfðu ekki verið birt. Á ráðstefnunni kom fram hörð en málefnanleg gagnrýni á þetta fyrirkomulag og rétt áður en fréttatilkynning með yfirlýsingu ráðstefnunnar var send til fjölmiðla kom tilkynning frá ESB um að ákveðið hefði verið að birta samningsmarkmiðin.
Fréttatilkynning með yfirlýsingu þeirra fimm samtaka sem stóðu að ráðstefnunni var svo birt fyrir lok október og er hún aðgengileg á vef BÍL í íslenskri þýðingu. Stjórn BÍL bárust ekki fréttir af því að nokkur íslenskur fjölmiðill hafi birt tilkynninguna eða tekið upp umfjöllun um efni hennar. Inntakið í yfirlýsingunni er þetta;  Samtök norrænna listamanna hvetja samninganefnd framkvæmdastjórnar ESB til að hafa í huga skyldurnar sem felast í UNESCO-samningnum frá 2005 um vernd og stuðning við menningarlega fjölbreytni og tryggja að markmið samningsins verði að fullu virt í TTIP-samningaviðræðunum. Samtökin krefjast þess að samningarnefndin gæti þess að markmið og skyldur UNESCO-samningsins verði að fullu virt, og að hljóð- og myndmiðlunargeirinn verði undanskilinn samningsákvæðunum á fullnægjandi hátt með því að tryggð verði víðtæk og ótímabundin undanþága hljóð- og myndmiðlunarþjónustu að meðtalinni netþjónustu frá ákvæðum samningsins og loks að gagnsæi í samningaferlinu verði aukið með því að gera samningaviðræðugögnin aðgengileg evrópskum borgurum í meira mæli.
Mál af þessu tagi er kannski ekki árennilegt fyrir þá sem ekki hafa sérfræðiþekkingu á utanríkisviðskiptum, en er engu að síður afar mikilvægt baráttumál þeirra sem starfa við skapandi greinar. 

Menningarlegur fjölbreytileiki
Í framhaldi af þessari umfjöllun um UNESCO og samninginn um menningarlega fjölbreytni er rétt að geta þess að stjórn BÍL hefur hug á að beina athygli listamanna, menningarstofnana og almennings að mikilvægi menningarlegs fjölbreytileika í tengslum við alþjóðlegan dag menningarlegs fjölbreytileika 21. maí nk. Í því skyni hefur BÍL sent íslensku UNESCO-nefndinni erindi þar sem þess er farið á leit að samstarfsmöguleikar um viðburði dagsins verði kannaðir, enda fagnar UNESCO 70 ára afmæli í ár og viðbúið að landsnefndir UNESCO hvarvetna verði með viðburði af því tilefni. Hugmyndin er raunar fengin frá systursamtökum BÍL á norðurlöndunum þar sem þekkt er samvinna við landsnefndir UNESCO í tengslum við viðburði dagsins, en forseti BÍL sótti ráðstefnu 21. maí 2014 í Stokkhólmi sem systursamtök BÍL skipulögðu í samvinnu við sænsku UNESCO-nefndina, þar sem mikilvægi menningarlegs fjölbreytileika var í brennidepli og það hvernig menningastofnanir og listamenn gætu lagt markmiðum samningsins lið.

Menningaráætlun Evrópu
BÍL hefur í auknum mæli fylgst með og miðlað upplýsingum til aðildarfélaganna um möguleika á stuðningi við samstarfsverkefni með listafólki í öðrum löndum. Þar vegur þungt aukið upplýsingaflæði frá RANNÍS, sem annast upplýsingamál fyrir menningaráætlun ESB – Creative Europe. Á árinu 2014 gekk í gildi endurnýjuð menningaráætlun ESB og var framlag til áætlunarinnar aukið um 37% frá fyrri áætlun. Áætlunin gildir til 2020 og mun í heildina kosta ESB 1.8 milljarða Evra. Ýmsar tölulegar upplýsingar frá ESB koma sér vel fyrir hagsmunabaráttu listamanna á Íslandi, til dæmis létu Evrópusamtök höfundaréttarsamtaka nýverið vinna rannsókn á gildi skapandi greina og hafa niðurstöðurnar vakið mikla athygli.  Samkvæmt þeim er ljóst að atvinnugreinar sem byggja á listum og menningu hafa verið í stöðugum vexti þrátt fyrir efnahagslegar þrengingar undanfarinna ára. Þessar atvinnugreinar veita nú 7 milljónum manna í ESB-löndunum atvinnu og er skapandi geirinn þar með orðinn þriðji stærsti „vinnunveitandi“ innan ESB. Ekki þarf að fjölyrða um hin efnahagslegu áhrif en ljóst að þau eru gríðarleg. Hægt er að hlaða rannsókninni niður á þessari slóð:   http://www.creatingeurope.eu/

Fjölbreytt starfsemi aðildarfélaga BÍL
Aðildarfélög BÍL haft mörg járn í eldinum þetta árið að gæta hagsmuna listamanna hvert í sinni listgrein. Þar ber auðvitað hæst samninga um kaup og kjör í þeim tilfellum sem félögin annast slíkt en til að gefa innsýn í önnur verk sem aðildarfélögin hafa sinnt á árinu má nefna nýja heimasíðu Félags íslenskra leikara og eflingu tengslanets félagsins jafnt hér heima sem erlendis. Þá hefur FÍL átt í virku samtali við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands um sameiginlega hagsmuni. Samband íslenskra listamanna hefur unnið að því að sækja um aðild að BHM og gefa út vefriðið STARA bæði á íslensku og ensku, þá hefur SÍM sett saman starfshóp ásamt listasöfnum landsins til að undirbúa launasamning fyrir listamenn sem sýna í söfnum sem styrkt eru af ríki og sveitarfélögum. Félag leikmynda og búningahöfunda sinnir þátttöku í Prague Quadrennial 2015, sem er  stærsta alþjóðlega hönnunarsýning leikmynda- og búningahöfunda í heiminum og er haldin fjórða hvert ár í Prag í Tékklandi. Fulltrúi Íslands að þessu sinni er Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir en Ísland hefur tekið þátt í fjóræringum síðan 1989. Síðast þegar hann var haldinn tók formaður félagsins þátt, Rebekka Ingimundardóttir, og var hún í framhaldinu ráðin sem einn af listrænum ráðunautum þessarar virtu og metnaðarfullu heimssýningar. Félag kvikmyndagerðarmanna hefur á árinu unnið að því að fá lögum um skattfrelsi norrænna verðlauna breytt, en samkvæmt núgildandi lögum eru þau verðlaun sem njóta skattfrelsis talin upp (bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, Norrænu leikskáldaverðlaunin og Nóbelsverðlaunin), en þar vantar Norrænu kvikmyndaverðlaunin og Norrænu heimildamyndaverðlaunin.
Margt annað markvert hefur borið á góma á fundum stjórnar BÍL 2014 sem hægt er að kynna sér nánar í fundargerðum stjórnar BÍL og bréfamöppum sem liggja frammi á aðalfundinum.

BÍL samþykkir sóknaráætlun skapandi greina

Á aðalfundi BÍL fyrr í dag var saþykkt tillaga stjórnar BÍL að sóknaráætlun skapandi greina Áætlunin byggir á skýrslu starfshóps, sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í byrjun árs 2011. Skýrsla hópsins Skapandi greinar – Sýn til framtíðar kom út í september 2012. Í febrúar 2013 var stofnaður samtarfshópur ráðuneytanna og fleiri aðila, sem fékk í það verkefni að vinna að samræmdri uppbyggingu skapandi greina í anda skýrslunnar, gera tillögur til stjórnvalda um nauðsynlegar aðgerðir og fylgja þeim eftir.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt tekið fram að leggja eigi áherslu á að styðja við skapandi greinar á kjörtímabilinu, gera listnám aðgengilegt og viðurkennt, auk þess sem gera eigi úttekt á starfsumhverfi skapandi greina með það að markmiði að þær eflist og sæki fram. Og í áramótaávarpi sínu, 31. desember 2013 sagði forsætisráðherra:  „Menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hafa að undanförnu unnið með markvissum hætti að sóknaráætlun fyrir listir, menningu og annað nýsköpunarstarf sem birtast mun á nýja árinu.  Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs,  þar sem hugvit og sköpunarkraftur fara saman.“

Bandalagi íslenskra listamanna er ekki kunnugt um að þessi sóknaráætlun sé í vinnslu, ekki hefur verið ráðgast við fagfélög listamanna um málið og tillögur BÍL um forgangsröðun í þágu listtengdra launa- og verkefnasjóða gengu ekki eftir við afgreiðslu fjárlaga 2015. Af þessum sökum hefur Bandalag íslenskra listamanna unnið eftirfarandi tillögu að sóknaráætlun fyrir skapandi greinar, sem send verður ríkisstjórninni ásamt yfirlýsingu um skýran vilja BÍL til að eiga samstarf við stjórnvöld um innleiðingu hennar.

Fjárhagslegur stuðningur og tölulegar upplýsingar
Opinber stuðningur við skapandi greinar verði kortlagður og skipulega gerð grein fyrir honum í fjárlagafrumvarpi hvers árs á grundvelli árlegrar efnahagsáætlunar fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Opinberar stofnanir í hinum skapandi geira verði skilgreindar í samræmi var skilgreiningu UNESCO. Upplýsingar um stofnanirnar, afkomu þeirra, útflutning og mannahald, verði teknar saman undir hatti Hagstofu Íslands og þeim miðlað á vef stofnunarinnar. Fyrirtæki í hinum skapandi geira verði skilgreind í samræmi við skilgreiningu UNESCO og tölulegum upplýsingum um afkomu, útflutning og mannahald verði safnað með sama hætti og gildir um fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum. Hagstofa Íslands annist samantekt upplýsinganna og miðlun þeirra.
Verkefnasjóðir listgreina og hönnunar verði skilgreindir, enda byggja skapandi greinar afkomu sína á sjóðunum. Fylgjast þarf með þróun verkefnasjóðanna og samspili þeirra við launasjóði listamanna og hönnuða. Upplýsingum um þau verkefni sem stuðning hljóta verði haldið saman og miðlað af Hagstofu Íslands. Sjóðirnir þurfa ekki allir að heyra undir sama ráðuneyti.
Opinberir samkeppnissjóðir á sviði rannsókna og nýsköpunar verði endurskilgreindir, t.d. rannsóknarsjóður, tækniþróunarsjóður og innviðasjóður, og þeir opnaðir fólki sem starfar í skapandi greinum. Slík aðgerð er til þess fallin að ýta undir fjölbreyttari möguleika á fjármögnun verkefna í geiranum. Ef bið verður á þeirri aðgerð þá verði stofnaður tímabundinn sjóður skapandi greina undir hatti Vísinda- og tækniráðs, mögulega í formi markáætlunar líkt og tíðkast hefur í öðrum greinum, sem brúar bilið þar til framtíðarskipan verður komin til framkvæmda.
Til hliðsjónar við þessa vinnu verði hugmyndir úr sóknaráætluninni Ísland 20/20, verkefna- og fjárhagsáætlanir stofnana á vettvangi lista, hönnunar og annarrar menningartengdrar starfsemi, t.d. kynningarmiðstöðva lista og hönnunar, auk sjónarmiða þeirra sem starfa sjálfstætt í geiranum.

Markaðssetning innan lands sem utan
Formlegu samstarfi verði komið á við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Samtök skapandi greina um hlutdeild þeirra í eflingu greinanna, t.d. um aukna fjárfestingu í fyrirtækjum á sviði greinanna og um markaðssókn innanlands.
Samstarf um markaðssókn skapandi greina erlendis verði eflt með aðkomu Íslandsstofu, Samtaka atvinnulífsins og þeirra ráðuneyta sem eiga aðild að stjórn Íslandsstofu (utanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneyti).
Greina þarf vægi skapandi greina í ferðaþjónustu í samstarfi við aðila í ferðaþjónustu, slíkt má einnig gera undir hatti Íslandsstofu. Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga komi að þeirri vinnu.
Opna þarf skapandi greinum aðkomu að átaksverkefni stjórnvalda og ferðaþjónustunnar „Ísland allt árið“ sem Íslandsstofa hýsir.
Gera þarf átak í miðlun upplýsinga um hátíðir og aðra menningartengda viðburði um land allt í þágu menningartengdrar ferðaþjónustu. Verkið verði unnið jafnt með miðlun innan lands sem utan í huga. Greina verður ólíkar þarfir innlendra ferðamanna og erlendra. Skynsamlegt væri að leita til Sambands íslenskra sveitarfélaga (landshlutasamtaka sveitarfélaga) og Reykjavíkur-borgar um samstarf við verkið.
Fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum komi með beinum hætti að mótun tillagna þeirra sem getið er í þessum kafla, auk þess sem hafa þarf sendiráð Íslands með í ráðum.

Skapandi greinar verði hluti þjóðhagsreikninga
Gera þarf tillögur um reglubundna mælingu á hlut skapandi greina í verðmætasköpun hagkerfisins og ákveða með hvaða hætti þeim upplýsingum verður fundinn staður í þjóðhagsreikningum. Verkinu verði stjórnað af Hagstofu Íslands, sem leiti samstarfs við rannsóknarsetur skapandi greina við Háskóla Íslands og Samtök skapandi greina. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þyrfti einnig að koma að málinu fyrir hönd stjórnvalda.
Gera þarf áætlun um reglulegan sambanburð opinberrar skráningar við nágrannalönd okkar, sérstaklega Norðurlöndin nokkur vel valin ríki innan ESB, sem standa framarlega í slíkri skráningu. Fylgjast þarf með framgangi áætlunar um Skapandi Evrópu (Creative Europe) og þróun aðferðafræði UNESCO, með það að markmiði að auka samanburðarhæfni skráningarinnar.

Staðsetning innan stjórnsýslunnar
Gera þarf tillögur um samræmda stjórnsýslu skapandi greina. Við það verk verði höfð hliðsjón af reynslu hinna Norðurlandanna og unnið í samræmi við áherslur stýrihóps KreaNord, sem starfar undir Norrænu Ráðherranefndinni. Leitað verði samstarfs við stjórnsýslufræðinga og sérfræðinga í listum og skapandi greinum innan háskólasamfélagsins við gerð tillagnanna.

Hlutverk miðstöðva lista og hönnunar og menningarráða sveitarfélaganna
Skerpa þarf á hlutverki miðstöðva lista og hönnunar. Skilgreina þarf þátt þeirra í stefnumótun og fjármögnun verkefna. Mikilvægt er að treysta lagastoð þeirra og tryggja þeim sess í fjárlögum.
Gera þarf áætlun um þróun menningar- og vaxtasamninga við landsbyggðina. Í því sambandi þarf að skoða sérstaklega hlutverk menningarráða landshlutanna. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi forgöngu um verkið fyrir hönd stjórnvalda.
Tryggja þarf faglega úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna, ekki síst á landsbyggðinni og koma á samræmdri skráningu framlaga til að auðvelda samanburð. Sambandi íslenskra sveitarfélaga verði falin forysta í verkefni þessu og sérstaklega verði horft til árangurs Reykjavíkurborgar í þessum efnum.
Gera þarf áætlun um fjölgun starfa í skapandi greinum á landsbyggðinni. Við það verkefni verði leitað samstarfs milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kannaður verði vilji Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka skapandi greina til þátttöku.
Auka þarf hlut frumsköpunar í listum, hönnun og annari menningarstarfsemi á landsbyggðinni, til að tryggja stoðir atvinnulífsins og auka fjölbreytni þess. Sérstaklega verði horft til árangurs verkefna á borð við Handverk og hönnun, auk þess sem leitað verði í smiðju Reykjavíkurborgar sem hefur verið í fararbroddi sveitarfélaga í þessum efnum.
Móta þarf formlegt samstarf milli ríkis og höfuðborgarinnar í málefnum menningar, lista og hönnunar. Mikilvægt er að koma á formlegum ferlum sem eru til þess fallnir að miðla upplýsingum um það sem vel hefur verið gert í þessum efnum hvar sem er á landinu. Verkefninu sé ætlað að byggja brýr milli höfuðborgar og landsbyggðar og efla hugmyndir um samstarf. Verkefnið verði samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fyrir hönd ríkisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tryggja þarf landshluta-samtökum sveitarfélaga aðkomu að þeirri vinnu.

Menntunarmál og rannsóknarstarf
Gera þarf úttekt á list- og starfsmenntun í skapandi greinum í framhaldskólum og móta í kjölfarið framtíðarstefnu um listmenntun á framhaldsskólastigi.
Gerð verði áætlun um eflingu meistaranáms við Listaháskóla Íslands og stofnuð kvikmyndabraut við skólann.
Greitt verði fyrir samstarfi milli háskóla um þverfaglegt meistaranám t.d. listgreina, tæknigreina, viðskiptagreina og ýmissa fræðigreina.
Gera þarf áætlun um rannsóknir í listum og skapandi greinum við Listaháskóla Íslands, auk almennra rannsókna á stöðu greinanna, veltu þeirra, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu.

Skattaleg staða, aðgangur að hinu félagslega kerfi og höfundarréttur
Tryggja þarf að starfsumhverfi skapandi greina sé sambærilegt við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Í því sambandi þarf að bæta skattalega stöðu greinanna, þ.m.t. að tryggja samræmda skattalega meðferð launatekna og tekna sem aflað er með afnotum eða leigu af hugverkaeign.
Gera þarf áætlun um sanngjarnar greiðslur til rétthafa fyrir eintakagerð hugverka til einkanota í gegnum tölvur og farsíma, auk þess sem ákvæðum höfundarréttarlaga verði breytt með tilliti til stöðugt nýrrar tækni við eintakagerð og geymslu efnis sem varið er af höfundarrétti.
Þá þarf að tryggja stöðu þeirra sem starfa innan skapandi greina gagnvart opinberu kerfi atvinnuleysistrygginga, fæðingarorlofs, sjúkratrygginga og annarra slíkra þátta hins almenna vinnumarkaðar.

Samstarf við fagfélög listafólks
Við endanlegan frágang sóknaráætlunar þessarar, útfærslu hennar, tímasetningar og fjármögnun verði fagfélög listamanna höfð með í ráðum, m.a með reglulegum fundum með stjórnvöldum um framvindu og síðan eftirfylgni áætlunarinnar.

Starfsáætlun 2015

Á aðalfundi BÍL, sem haldinn var í dag í Þóðleikhúskjallaranum, var samþykkt eftirfarandi starfsáætlun fyrir árið 2015:

° BÍL vinnur að því að koma í framkvæmd „Sóknaráætlun skapandi greina“. Það verður gert með því að koma henni í opinbera umræðu og á framfæri við stjórnvöld.  Þannig sinnir BÍL þátttöku í stefnumótun á vettvangi skapandi atvinnugreina og tekur m.a. mið af menningarstefnu samþykktri á Alþingi vorið 2013, tillögum skýrslunnar Skapandi greinar – Sýn til framtíðar og stefnumótun í menningarmálum á vettvangi sveitarfélaga t.d. Reykjavíkur.  Í samræmi við sóknaráætlunina leggur BÍL áherslu á þátt listanna í þróun skapandi atvinnugreina um land allt og mikilvægt samspil lista, menningar og atvinnulífs.

° Samstarfssamningar BÍL við mennta- og menningarmálaráðuneytið og borgaryfirvöld eru forsenda þess að BÍL geti veitt stjórnvöldum nauðsynlega ráðgjöf í málefnum listanna. Mikilvægt er að framlag opinberra aðila til starfsemi BÍL nægi til að sinna því hlutverki. BÍL vinnur að því að fá framlag ríkisins hækkað þannig að við næstu endurnýjun samningsins verði það ekki lægra að raunvirði en 2008 þegar það var 2,3 millj. Einnig verði leitast við að fá framlag Reykjavíkurborgar hækkað þannig að það jafnist á við verðgildi upphaflega samkomulagsins við borgina 2007.  Á sama tíma leiti BÍL nýrra leiða til að styrkja fjárhagslega stöðu sína með það að markmiði að ráða til sín starfskraft til að auka slagkraftinn í hagsmunabaráttu listamanna.

° BÍL stefnir að því að þróa heimasíðu BÍL þannig að hún geti orðið öflugur vettvangur skoðanaskipta um listir, auk þess sem hún miðli greinum frá listafólki og samtökum þeirra. Einnig þarf síðan að miðla upplýsingum um BÍL á erlendum tungumálum og það alþjóðlega samstarf sem BÍL tekur þátt í. BÍL er orðið sýnilegt á samskiptamiðlum og þann sýnileika þarf að efla enn frekar. Aukið rekstrarfé er forsenda þess að áform um öflugri upplýsingamiðlun gangi eftir.

° BÍL vinni að uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir listafólk um land allt, m.a. með þátttöku í verkefnum á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga í samstarfi við menningarráð landshlutanna. Þá leggi BÍL rækt við samstarf við Samtök skapandi greina, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og aðra þá sem hagsmuni hafa af uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir skapandi fólk. Þá beiti BÍL sér í baráttunni fyrir bættri listmenntun á öllum skólastigum, með því að auka samskipti við yfirvöld menntamála jafnt á vettvangi ríkis sem og sveitarstjórna.

° BÍL leggi rækt við norrænt og alþjóðlegt samstarf, m.a. á vettvangi höfundarréttarmála í samstarfi við systursamtök á Norðurlöndunum og innan ESB. Þá leggi BÍL sig eftir samstarfi við söfn og aðrar stofnanir sem sunda miðlun og rannsóknir á listum og menningararfi.

Page 10 of 42« First...89101112...203040...Last »