Author Archives: vefstjóri BÍL

Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2015

Bandalag íslenskra listamanna hefur sent umsögn um fjárlagafrumvarpið 2015 til fjálaganefndar, nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar fengu umsögnina einnig senda.

Megininntak umsagnarinnar er eftirfarandi:

*  Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts í 12% er mótmælt

*  Innheimtu útvarpsgjaldi verði skilað að fullu til Ríkisútvarpsins

*  Endurnýjað verði samkomulag um kvikmyndagerð og settar 200 m. kr. til viðbótar í Kvikmyndasjóð

*  Framlag til annarra verkefnatengdra sjóða verði sem hér segir:

–         Myndlistarsjóður                                    45,0 m. kr

–         Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna       89,8 m. kr

–         Tónlistarsjóður                                        81,1 m. kr

–         Bókasafnssjóður höfunda                      42,6 m. kr

–         Barnamenningarsjóður                          8,0 m. kr

–         Listskreytingasjóður                                8,2 m. kr

*  Safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ verði 64,6 m. kr

* Menningarsamningar landshlutanna verði uppfærðir og ætlað sama framlag og á fjárlagaárinu 2013, þ.e. samt. 270,4 m kr. og menningarsamningur við Akureyrarbæ skoðaður m.t.t. umfangs verkefna

*  Verkefnið Handverk og hönnun fái endurnýjaðan samning til þriggja ára með 20 m. kr árlegu framlagi.

*  Málefni kynningarmiðstöðva listgreinanna verði skoðuð sérstaklega, lagt mat á fjárþörf þeirra og gerð áætlun um eflingu starfseminnar. Þangað til slík áætlun liggur fyrir verði framlag til Miðstöðvar íslenskra bókmennta hækkað í 92 m. kr og veitt sérstökum fjármunum til stofnunar Íslenskrar sviðslistamiðstöðvar

*  Kynning á menningu og listum í sendiráðum Íslands verði hækkuð í 12 m. kr

*  Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við áformaðan niðurskurð til listmenntunar á háskólastigi, óbreytt framlag til myndlistarnáms á framhaldsstigi auk þess sem fjárlaganefnd er hvött til þess að tryggja framtíð tónlistarskólanna með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum

* Þá er ítrekuð ósk um að stjórn BÍL fái áheyrn hjá fjárlaganefnd í tilefni af erindi þessu

Umsögn BÍL til fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlagafrumvarps 2015
BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, eru heildarsamtök listafólks í fjórtán aðildarfélögum og starfar bandalagið samkvæmt lögum samþ. 4. nóv. 2000 með síðari breyt. Þar kemur fram að BÍL sinni heildarhagsmunum þeirra listgreina og hönnunar sem mynda bandalagið. Á grunni laganna er gerður samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið þar sem nánar er kveðið á um hlutverk bandalagsins sem ráðgjafa stjórnvalda í málefnum menningar og lista. Áralöng hefð er fyrir því að BÍL sendi vandaða umsögn til fjárlaganefndar Alþingis um þá liði er varða listir og menningu í fjárlagafrumvarpi hvers árs og er það hluti af ráðgjafarhlutverki BÍL gagnvart stjórnvöldum. Sú hefð hefur skapast að fulltrúar BÍL fái áheyrn hjá nefndinni til að fylgja umsögn sinni eftir, en þegar eftir því var leitað 2013 var erindi BÍL um slíka heimsókn synjað. Það gerðist einnig nú í ár (sbr. t-póst frá starfsmanni nefndarinnar frá 8. okt. 2014).

Heildarmyndin
BÍL horfir til heildarhagsmuna listgreina og hönnunar í þessari umsögn og fagnar því að almennri aðhaldskröfu frumvarps til fjárlaga 2015 verði ekki beitt á verkefni sem falla undir menningarmál (bls. 272), en þar mun vera átt við einhvern hluta stofnana á menningarsviðinu frekar en stuðning við sjóði á borð við launasjóði listamanna og hönnuða eða verkefnatengda sjóði sem fjármagna verkefni sjálfstætt starfandi listamanna. BÍL mun því beina sjónum sérstaklega að þeim fjárlagaliðum sem ætlaðir eru sjóðum og miðstöðvum skapandi greina, ásamt þáttum sem lúta að aukinni tekjuöflun ríkissjóðs á kostnað menningar og lista, sbr. áform um hækkun virðisaukaskatts og skerðingu á mörkuðum tekjustofni Ríkisútvarpsins. Einnig eru gerðar alvarlegar athugasemdir við áformaðan niðurskurð til listmenntunar á háskólastigi og óbreytt framlag myndlistarnáms á framhaldsstigi auk þess sem fjárlaganefnd er hvött til þess að tryggja framtíð tónlistarskólanna með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum.

Hækkun virðisaukaskatts
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja til hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts úr 7% í 12% er með öllu óásættanleg. Hún fer ekki bara gegn öllum áformum um eflingu lestrarkunnáttu heldur lýsir hún atlögu að tungumálinu og mun hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir menningarlíf þjóðarinnar. Áhrifin munu ekki einungis birtast í verulegum samdrætti í bókaútgáfu heldur mun útgáfa tónlistar á geisladiskum og hljómplötum vart bíða þess bætur. BÍL styður heils hugar þær kröfur sem komnar eru fram frá fagfélögum rithöfunda og tónlistarmanna um að horfið verði frá þessum áformum. Nær væri að afnema virðisaukaskatt af útgáfu bóka og tónlistar með öllu í skynsamlegum skrefum og býðst BÍL til að leggja stjórnvöldum lið við gerð slíkrar  áætlunar, listum og menningu til hagsbóta um ókomna tíð.

Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið óskert
BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki í dvínandi gæðum bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Sú efnahagslega óvissa sem ríkir í málefnum RÚV eykur enn á þá kreppu sem kvikmyndagerð í landinu glímir við. Það er því eindregin krafa Bandalags íslenskra listamanna að Ríkisútvarpið fái hinn markaða tekjustofn útvarpsgjaldið óskipt inn í reksturinn. Auk þess leggur BÍL til að stjórnvöld taki tafarlaust til alvarlegrar skoðunar með hvaða hætti megi tryggja stöðu stofnunarinnar til framtíðar, svo sem fyrirheit eru gefin um í fjárlagafrumvarpinu, t.d. með því að létta  af stofnuninni þungum lífeyrisskuldbindingum.

Listmenntun í hættu
Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnvalda er að tryggja fjölbreytta menntun fyrir alla aldurshópa, m.a. með auknum hlut list- og verkmenntunar, fyrirheit þar um hafa stjórnvöld gefið í gildandi námsskrám fyrir öll skólastig og menningarstefnu Alþingis frá 2013 (kafli I, tl. 4). Þrátt fyrir það hefur ævinlega þurft að berjast fyrir hlut listkennslu og er það einnig svo nú. Í frumvarpi til fjárlaga 2015 er gert ráð fyrir óbreyttu framlagi ríkisins til tónlistarnáms á vegum sveitarfélaganna eða 520 milljónum. Í ljósi stöðunnar í kjarabaráttu tónlistarkennara telur BÍL einboðið að stjórnvöld skoði með hvaða hætti börnum og ungmennum verði tryggð áframhaldandi menntun í tónlist jafnt í tónlistarskólum sem og menntun í tónmennt sem hluta af almennu námi í grunnskólum landsins. Sama er að segja um myndlistarnám á framhaldsstigi, þar gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir óbreyttum framlögum milli ára. Loks má geta þess að enn vantar reglugerð fyrir nám í listdansi á grunn- og framhaldsstigi, sem veikir grundvöll náms í listdansi á þessum skólastigum. Stjórnvöld þurfa að átta sig á mikilvægi framhaldsnáms í listgreinunum ef þau meina eitthvað með yfirlýsingum um átak í atvinnusköpun í skapandi greinum. Slíkt átak verður ekki gert öðruvísi en með öflugu menntakerfi í listum og hönnun.

Háskóli listgreinanna
Listaháskóli Íslands, menntastofnun listgreinanna á háskólastigi, er eini háskólinn  (utan Landbúnaðarháskóla Íslands) sem ekki fær aðhaldskröfu fjárlaga bætta með auknum nemendaígildum. Auk þess fellur niður 20 milljóna króna tímabundið framlag til úrbóta í húsnæðismálum skólans. Þegar skólinn var stofnaður, fyrir hvatningu frá Bandalagi íslenskra listamanna og með viljayfirlýsingu stjórnvalda, var strax áformað að skólanum yrði fundinn samastaður þar sem listgreinarnar gætu auðgað hver aðra í skapandi sambýli. Enn er skólinn rekinn víðs vegar um borgina og að stórum hluta í húsnæði sem hvorki stenst öryggiskröfur eða kröfur um aðgengi, að ekki sé talað um plássleysi og faglegar kröfur starfseminnar. BÍL lýsir yfir vilja til að leggjast á árar með stjórnvöldum í baráttunni fyrir bættum húsakosti LHÍ, en innan skólans er að finna ýmsar skapandi hugmyndir til lausna. Þá er mikilvægt að gera skólanum kleift að efna til meistaranáms í sviðslistum, en leiklist og dans eru einu námsbrautirnar sem ekki bjóða þann möguleika. Einnig er mikilvægt að fjárlaganefnd Alþingis sé upplýst um áform LHÍ um háskólanám í kvikmyndagerð, sem hefur staðið vilji til að koma á en aldrei verið fjárhagslegt svigrúm til þess í fjárframlögum til skólans. Í ljósi velgengni íslenskra kvikmynda á seinni árum og jákvæðra efnahagslegra áhrifa kvikmyndagerðar á þjóðarbúið hvetur BÍL fjárlaganefnd til að skoða auknar fjárheimildir til LHÍ fyrir háskólanám í kvikmyndagerð í fjárlagafrumvarpi 2015.

Fjárfesting í skapandi greinum
Í umsögn BÍL til fjárlaganefndar 2013 var gagnrýnd sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hverfa alfarið frá fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, sem m.a. náði til fjárfestinga í skapandi atvinnugreinum. Sú ákvörðun gerir stöðu skapandi greina í frumvarpi til fjárlaga 2015 lítið betri en hún var í frumvarpinu 2014, þó lítillega hafi verið bætt úr við þriðju umræðu fjárlaga 20. og 21. desember 2014. Þ.a.l. verður í þessum kafla umsagnarinnar litið til fjárlaga 2013 og þeirrar áætlunar um eflingu skapandi greina, sem að mörgu leyti gekk eftir og sýndi sig í hækkuðu framlagi til verkefnatengdra sjóða listgreina og hönnunar á fjárlagaárinu 2013. Í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á eflingu skapandi greina í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar („Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styðja við skapandi greinar….“) og einnig í ljósi orða forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar um sókn í skapandi greinum („ Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs…“) lítur BÍL svo á að ákveðin mistök hljóti að hafa átt sér stað við gerð fjárlagafrumvarpsins 2015 og leggur því í umsögn sinni til nokkrar veigamiklar breytingar svo áform ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga.

Samspil launasjóða og verkefnasjóða
Í skýrslum sem gerðar hafa verið til að greina umfang skapandi atvinnugreina og starfsumhverfi þeirra, kemur fram að flestir listamenn og stór hluti hönnuða starfi í eigin atvinnurekstri eða sem einyrkjar og að starfsumhverfi þeirra sé ótryggt, m.a. vegna þess að störfin séu háð stuðningi úr verkefnasjóðum af ýmsu tagi. Á síðustu árum hefur BÍL tekið þátt í vinnu stjórnvalda við endurskipulagningu fjármögnunar verkefna á vettvangi skapandi greina. Í þeirri  vinnu hefur áhersla verið lögð á samhæft kerfi launasjóða og verkefnasjóða sem byggi á faglegu mati umsókna og reglu hæfilegrar fjarlægðar. Það er mat BÍL að vel hafi tekist til í þessari endurskipulagningu, nema hvað fjármunirnir hafa ekki skilað sér með þeim hætti sem lagt var upp með. Hér á eftir fylgja tillögur sem byggja á þeim hugmyndum sem liggja að baki endurskipulagningunni og eru forsenda þess að skapandi greinar eflist. Þar á meðal er tillaga um að nýtt samkomulag verði gert við kvikmyndagerðarmenn um framtíð Kvikmyndasjóðs með það að markmiði að framlag til sjóðsins hækki í einn og hálfan milljarð á þremur árum. Fyrsti áfanginn verði hækkun um 300 milljónir 2015:

Framlag til Kvikmyndasjóðs hækki úr                       724,7     í           924,7

Myndlistarsjóður hækki úr                                              15      í              45,0

Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna hækki úr            68,5     í              89,8

Tónlistarsjóður hækki úr                                               44,9     í              81,1

Bókasafnssjóður höfunda hækki úr                            30,0     í              42,6

Barnamenningarsjóður hækki úr                                 3,9      í                8,0

Listskreytingasjóður hækki úr                                       1,5      í                8,2

Styrkir á sviði listgreina hækki úr                                36,6      í              64,6

 

Menningarsamningar við landshlutana
Auk þess sem hér er talið hvetur Bandalag íslenskra listamanna fjárlaganefnd til að huga sérstaklega að menningarsamningum við landsbyggðina. Það menningarstarf sem unnið hefur verið á grundvelli samninganna hefur skipt sköpum í blómlegu menningarstarfi landsbyggðarinnar á undanförnum árum auk þess sem þeir eru grundvöllur þess að byggð verði upp atvinnutækifæri í skapandi greinum utan höfuðborgarsvæðisins (sjá grein forseta BÍL í Austurfrétt 27.10.14 ). Skv. frumvarpi til fjárlaga 2015 eru menningarsamningarnir óbreyttir að krónutölu frá fyrra ári, bæði sá hluti þeirra sem fjármagnaður er af fjárlagalið mennta- og menningarmálaráðuneytis (207,4) sem og sá hluti sem fjármagnaður er af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti (40,0). Þannig vantar 23 milljónir króna inn í samningana til að þeir standi í sömu krónutölu og þeir gerðu á fjárlagaárinu 2013. Samningurinn við Akureyrarbæ hefur einnig lækkað frá árinu 2013 og í ljósi erfiðleika í rekstri menningarstofnana á Akureyri er full þörf á að gefa gaum að þeim samningi líka. Þá er rétt að geta verkefnisins Handverk og hönnun, en það samningslaust um þessar mundir og þyrfti endurnýjaður samningur að fela í sér 8 milljóna króna hækkun á árlegu framlagi ef verkefnið á að geta sinnt áfram sínu mikilvæga hlutverki, sem er að auka gæði íslenska handverksins og gera sterkustu verkefnin hæfari til framleiðslu.

Miðstöðvar listgreinanna og rýrir safnliðir
Varðandi safnliði mennta- og menningarmálaráðuneytis; Kynningarmiðstöðvar listgreina (99,8 m kr) og Styrkir á sviði listgreina (36,6 m kr) þá væri gagnlegt ef þeir væru betur sundurliðaðir í skýringum við frumvarpið. BÍL hvetur nefndarmenn í fjárlaganefnd til að óska eftir sundurliðunum frá ráðuneytinu til þess að auka skilning á þeirri mikilvægu starfsemi sem þessum liðum er ætlað að fjármagna. Undir hatti safnliðarins um kynningarmiðstöðvarnar eru nú Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, Íslensk tónverkamiðstöð og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, sú síðasttalda er skemmst á veg komin og þarf verulega á hvatningu frá opinberum aðilum að halda til að komast almennilega á legg. Miðstöðvarnar gegna lykilhlutverki í kynningu lista og menningar á erlendri grund, m.a. með því að veita faglega ráðgjöf ráðuneytum, sveitarfélögum, sendiskrifstofum Íslands, Íslandsstofu og markaðsskrifstofum útflutningsfyrirtækja. Forstöðumenn þeirra sitja t.d. í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum og vinna þar náið með fagráði ferðaþjónustunnar í að samþætta aðgerðir í menningartengdri ferðaþjónustu fyrir erlenda ferðamenn og markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Hluti af fjármögnum slíkra kynningarverkefna kemur gegnum fjárlagalið utanríkisráðuneytis Kynning á menningu, listum og skapandi greinum á erlendri grund, en sá liður er lægri í fjárlagafrumvarpinu 2015 en hann var á yfirstandandi fjárlagaári og vantar raunar 2 milljónir króna til að ná þeim 12 milljónum sem varði var til hans á fjárlagaárinu 2013. Þá vantar Miðstöð íslenskra bókmennta enn 20,4 milljónir króna til að ná því 92ja milljóna króna framlagi sem hún hafði á fjárlögum 2013.

Hönnunin hefur vistaskipti
Þær breytingar hafa orðið á fjárlagafrumvarpinu milli ára að Hönnunarmiðstöð, hönnunarsjóður og aðgerðaáætlun á grundvelli hönnunarstefnu hafa haft vistaskipti. Fram að þessu hefur það verið sameiginlegt verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytis að fjármagna rekstur Hönnunarmiðstöðvar og hönnunarsjóð. En þegar hönnunarstefna fyrir Ísland (http://lhi.is/news/honnunarstefna-2014-2018/) var samþykkt í janúar á þessu ári voru málefni hönnunar flutt alfarið til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Það kann að hafa verið skynsamlegt með tilliti til þess hversu erfiðlega hefur gengið að skapa samhenta stjórnsýslu um málefni skapandi atvinnugreina, í öllu falli kemur Hönnunarsjóður einna best út af verkefnatengdum sjóðum í fjárlagafrumvarpi 2015. Hann kemst aftur í sitt fyrra horf (sbr. fjárlög 2013), þ.e. fær hækkun upp í 45 milljónir (er 25m kr í fjárlögum 2014) auk þess sem aðgerðaáætlun á grundvelli hönnunarstefnu fær 10 milljónir og Hönnunarmiðstöð 15 milljónir í rekstrarstyrk (bls. 324, 328 og 337). Undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er einnig að finna sjóðinn sem fjármagnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sem hækkar milli ára um 300 milljónir króna. Það kann því að vakna sú spurning hvort lykillinn að hærra fjárframlagi í verkefni skapandi greina sé að færa þau úr menningarmála-ráðuneytinu og til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis?

Raunhæfar væntingar
Bandalag íslenskra listamanna gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir erfiðri stöðu ríkissjóðs og virðir tilraunir stjórnvalda til að koma böndum á opinber útgjöld. Það er hins vegar bjargföst sannfæring okkar, sem gætum hagsmuna listamanna og hönnuða, að þau tæki sem stjórnvöld hafa í höndunum á hverjum tíma til að tryggja fjölbreytt atvinnulíf í landinu öllu, séu ekki nægilega vel nýtt ef tillögur fjárlagafrumvarpsins ná fram að ganga. Lægri virðisaukaskattur á bækur og tónlist, ásamt eflingu verkefnatengdra sjóða á listasviðinu jafngildir fjárfestingu í hugviti og sköpunarkrafti, sem mun skila sér margfalt bæði með beinum hætt í ríkissjóð en ekki síður í bættum lífsgæðum og fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna. Þessi sjónarmið eru studd gildum rökum í ýmsum skýrslum og rannsóknum um hagræn áhrif lista og menningar. Þau fara líka saman við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar, þess vegna telur Bandalag íslenskra listamanna sig í erindi þessu hafa fjallað um fjárveitingar til skapandi greina af þekkingu og fagmennsku, ásamt því sem við teljum tillögur okkar vera fullkomlega raunhæfar.

Að lokum leyfum við okkur að setja fram ósk um fund með fjárlaganefnd Alþingis um málefni þau sem hér hafa verið reifuð,

Virðingarfyllst,
f.h. Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

Við erum menningarþjóð

Jónas Sen skrifar í Fréttablaðið í dag:

AR-141109848Á Íslandi er áberandi gróska í tónlistarlífinu. Í hverjum mánuði er haldinn fjöldi tónleika, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Tónlistarskólar eru afar margir. Sjálfsagður hlutur þykir að senda börn í tónlistarnám. Slíkt nám getur borið ríkulegan ávöxt. Það sannaðist er Björk Guðmundsdóttir kom Íslandi á sínum tíma á kort tónlistarheimsins svo um munaði. Aðrir hafa fetað í fótspor hennar. Þar á meðal er Sigur Rós og Of Monsters and Men. Airwaves-hátíðin vekur líka mikla athygli og þegar hún er haldin koma hingað erlendir umboðsmenn og blaðafólk í leit að stjörnum morgundagsins.
Íslendingar eru því montnir af tónlistarmenningu sinni. Í gamla daga höfðum við bara fornbókmenntirnar til að státa okkur af og landslagið sem málararnir okkar kepptust við að mæra. Nú er það hins vegar að stórum hluta tónlistarfólkið sem ber hróður landsins um víðan völl. Hverjum skyldi það vera að þakka? Jú, tónlistarkennurum. Flestir af okkar frægu músíköntum lærðu í tónlistarskólum.
Þessir skólar eru því mikilvæg undirstaða tónlistarmenningarinnar.
Nú eru tónlistarkennarar sem eru innan Kennarasambandsins í verkfalli. Sveitarfélög og ríkið sömdu nýverið við kennara framhaldsskóla, grunnskóla og leikskóla. Við þessa samninga hafa tónlistarkennarar miðað svo árum skiptir. Þeir vilja núna sanngjarna leiðréttingu á launum sínum til samræmis við aðrar kennarastéttir. Þessa kröfu hefur samninganefnd sveitarfélaganna hunsað síðustu ellefu mánuði.
Að sveitarfélögin skuli ekki bera meiri virðingu fyrir tónlistarkennurum er dapurlegt þegar haft er í huga mikilvægi tónlistarkennslu. Ímyndum okkur að það væri ekki tónlistarkennsla hér. Það þýddi að aðeins ómenntaðir tónlistarmenn héldu uppi tónlistarlífinu. Þeir allra metnaðargjörnustu kynnu vinnukonugripin á gítar, héldu takti á trommusettið, gætu glamrað einhverja hljóma á píanó, spilað á greiðu og kannski sög í leiðinni. Engin sinfóníuhljómsveit eða ópera væri starfandi. Björk, Sigur
Rós, Of Monsters and Men – hvaða lið er nú það? Orgelleikur þekktist ekki í jarðarförum eða brúðkaupum, kirkjutónlist væri kórsöngur þar sem hver syngi með sínu nefi. Áhugamannakórar væru til en ekki menntaður kórstjóri til að stjórna þeim. Eina tónlistin sem þjóðin hefði aðgang að væri á erlendum geisladiskum og Spotify. Íslensk tónlist væri óþekkt fyrirbæri og íslenskir tónlistarmenn líka.
Hvernig menning væri það? Þið hjá sveitarfélögunum, hafið þið hugleitt þetta? Með því að samþykkja ekki eðlilegar launakröfur tónlistarkennara eruð þið að stuðla að því að tónlistarkennsla verði miklu lakari en hún hefur áður verið. Við viljum ekki slíkt samfélag. Við erum menningarþjóð og þar skiptir tónlistin gríðarlegu máli. Ekki eyðileggja hana.

Skál fyrir myndlistinni!

Í dag er dagur myndlistarinnar og af því  tilefni skrifar Ragnar Kjartansson í Fréttablaðið:

AR-711019973Í kaffi, bjór, djús eða kampavíni, eða bara Egils Kristal ef maður vill vera betri en hinir. Já, bræður og systur, í dag er dagur myndlistar. Dagur listformsins sem mótar sjónrænan veruleika okkar niður í minnstu smáatriði. Myndlistin er nefnilega mamma hönnunar, auglýsinga, tísku og eiginlega bara útlits alls þess manngerða sem við sjáum nú til dags. Já, hyllum þetta stórkostlega form mannlegrar tilvistar. Ég vinn sem myndlistarmaður en fyrst og fremst er ég myndlistaráhugamaður. Myndlistin er svo víðfeðm, það er vonlaust að skilgreina hana. Hún er alltaf að kanna nýjar formlausar lendur og umbreyta þeim í form, listaverk. Myndlistin er alltaf skrefi framar í hugmyndum en allt annað. Pönkið byrjaði í myndlistinni 1913. Já, skál fyrir myndlist.

Hér á Íslandi er kvik og brjáluð myndlistarsena. Hún hefur verið að springa út undanfarið og nú er rætt um íslenska myndlistarmenn á kaffihúsum Parísar og diskóbörum New York-borgar. Ég er þakklátur fyrir að búa á landi sem er iðandi af myndlistarlífi. Hér er allt fullt af listamönnum og áhorfendum. Hér er fólk á útkjálka sem lætur sig framþróun mannsandans einhverju varða. Skál. Myndlist er frelsi. Ég veit ekki um neinn bransa sem gengur jafn mikið út á frelsi í hugsun, frelsi til að gera nákvæmlega það sem maður vill og þá virki það.

Ég hef einu sinni grátið fyrir framan listaverk. Það var „Merda d’artista“ eftir Piero Manzoni. Þetta eru litlar niðursuðudósir með mannaskít listamannsins frá 1961. Þegar ég sá verkið var dósin að verða 50 ára gömul. Listamaðurinn löngu dáinn. Eftir stóð þessi bjarti, prakkaralegi og magnaði hlutur. Það er ómögulegt að útskýra fyrir einhverjum ruddum af hverju ég grét, en ég gerði það.

Gullgerðarlist
Manzoni var svo frábær, dó svo ungur og þetta verk á eftir að lifa um aldir, hvað sem á dynur. Þetta var hans niðurstaða um hvað það er að lifa, vera til og vera listamaður – hvað listin er. Hún er nefnilega hin eiginlega gullgerðarlist. Að gera gull úr skít. Magnað. Ég nenni samt ekki að tala um efnahagslegan ávinning samfélagsins af listinni, afleidd störf, styrkingu ferðamannaiðnaðarins og allt hitt sem óhjákvæmilega fylgir frábærri listasenu. Það er bara afskaplega jákvæð hliðarverkun. Myndlistin er svo mikil andans gjöf fyrir hvern og einn einasta sem setur sig inn í hana. Að njóta myndlistar eru mikil lífsgæði sem standa öllum til boða. Góðir hálsar, myndlist er að finna til. Við verðum að elska listaverk, þá skiljum við það. Við verðum að elska listina þá skiljum við hana. Þannig að þeir sem bölva listinni og listamönnum eru örgustu vitleysingar sem kunna ekki að elska. Æ, ég tala bara svona af því að það er dagur myndlistar og þá má ég taka blaðið frá munninum. Lyftum kaffibollanum hátt á loft og hvíslum „skál fyrir myndlistinni og elskum þetta helvíti“.

Myndlist og hugsun

Katrín Jakobsdóttir fyrrv. mennta- og menningarmálaráðherra, skrifar pistil á heimasíðu SÍM í tilefni af degi myndlistar:

bildeCAPDOE5JHvaða áhrif hefur listin á það hvernig við tökum ákvarðanir í okkar daglega lífi? Í heimi þar sem sjónrænt áreiti er endalaust er það eigi að síður svo að góð listaverk geta haft jákvæð áhrif á líðan okkar og hugsanir sem beint og óbeint eru forsendur allrar ákvarðanatöku. Myndlistin og sjónlistirnar hafa þróast mikið seinustu áratugi. Listgreinar renna saman í margháttuðum gjörningum og stundum skiljum við, sem eigum til að vera föst í hefðbundnum og gömlum skilgreiningum á listgreinum, ekki nákvæmlega hvað gerir myndlist að myndlist. Og gleymum því að það skiptir kannski ekki öllu máli, mestu skiptir sú upplifun sem verkið veitir okkur, sá innblástur sem það getur orðið okkur.

Flest hengjum við upp myndir í kringum okkur og þær geta skýrt fyrir sjálfum okkur og öðrum hver við erum. Myndir barnanna okkar, myndir jafnvel eftir okkur sjálf eða látna ættingja, myndir sem okkur þykir vænt um því þær eru fallegar, vekja með okkur tilfinningar eða styðja við okkur í daglega lífinu. Daglega horfi ég á verk eftir Ólaf Ólafsson og Libiu Castro sem minnir mig á hve auðvelt það getur verið að svipta fólk réttindum. Daglega horfi ég á skúlptúr eftir Erling Jónsson myndhöggvara sem minnir mig á að dramb er falli næst. Daglega horfi ég á styttuna af Jóni Sigurðssyni sem minnir mig á að við erum sjálfstæð þjóð og verk Santiago Sierra sem minnir mig á mikilvægi borgaralegrar óhlýðni. Ég horfii líka á skip pabba Línu Langsokks og stóran ruslafugl sem minnir mig á að ímyndunaraflinu virðast lítil takmörk sett.

Listin og mennskan

Öll góð list í umhverfinu hjálpar okkur að muna af hverju við erum menn. Listamenn fást við mennskuna og samspil hennar við náttúru og tækni, og með verkum sínum dýpka þeir skilning okkar á umheiminum og styrkja sjálfsþekkingargreind okkar. Þess vegna er myndlistin mikilvæg því hún gerir okkur að betri og meiri mönnum.

En listin eykur líka fegurðina í lífi okkar, sem oft er vanmetin. Við gerum okkur hugsanlega ekki grein fyrir því dags daglega hve umhverfið skiptir okkur miklu. Að lifa í eilífu skammdegi grárra bygginga þar sem ekkert brýtur upp umhverfið, ekki sést stingandi strá eða eitt listaverk, hlýtur að hafa önnur áhrif á sálina en að hafa græn lungu í þéttbýlinu; fjölbreyttan og framsækinn arkitektúr og að almenningur hafi aðgang að spennandi og ögrandi listaverkum.

Í tilefni af Degi myndlistar hvetur Samband íslenskra myndlistarmanna okkur öll til að hugsa um mikilvægi myndlistar og myndlistarmanna í samfélagi okkar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að myndlist getur haft gríðarleg áhrif á líðan og geð okkar allra, getur hjálpað okkur að öðlast dýpri skilning og þekkingu á tilvistinni og gert okkur öll að betri mönnum.

Þetta mætti Alþingi hafa í huga nú þegar þar er fjallað um fjárlagafrumvarp ársins 2015 en þar er lagt til að skera niður myndlistarsjóð í 15 milljónir sem er þriðjungur þess framlags sem hann fékk við stofnun 2013. Þessi litli sjóður hefur haft jákvæð áhrif eftir að hann kom til og má vart vera minnni. Sú ráðstöfun að skera hann niður hlýtur að hafa neikvæð áhrif á umhverfi okkar og lífsgæði og kannski meiri en við áttum okkur á við fyrstu sýn. Markmið okkar allra ætti að vera þveröfugt; að efla þessa listgrein eins og aðrar.

Fréttir af akri allsnægtanna

Í tilefni af degi myndlistar, sem er á morgun 1. nóvember, skrifar Edda K. Sigurjónsdóttir grein í Fréttablaðið:

AR-141039836Hugrekki og gagnrýnin, skapandi hugsun eru undirstaðan í starfi myndlistarmannsins. Að njóta myndlistar nærir og örvar gagnrýna hugsun, sem sennilega er það sem okkur skortir einna mest. Finnum við hvað við raunverulega trúum á í hjartanum og fylgjum því – án þess að miðla sífellt málum, samþykkjum það sem síðasti ræðumaður sagði eða erum við hálfdofin og látum yfir okkur ganga framkvæmdir drifnar af skammsýni og eiginhagsmunum?

Myndlistin getur hjálpað okkur á margan hátt. Með því að njóta myndlistar má virkja ímyndunaraflið og næra gagnrýna hugsun. Og með því að fjárfesta í myndlist má nýta ótalmörg ónýtt sóknarfæri, efla stóran atvinnuveg og meira að segja skapa fullt af tekjum fyrir land og þjóð. Þó tekjurnar séu ekki í öllum tilfellum beinar eru nefnilega líka stunduð alvöru viðskipti í myndlist.

Það eru alltaf kyndilberar í hverri grein sem halda ótrauðir inn í óvissuna. Með músuna sér við hlið geta þau við góðar aðstæður verið neistinn og sprekið sem hleypa af stað ofsakröftugu báli, hverfa svo sjálf inn í eldhafið en þjóna lykilhlutverki í heildarsamhenginu. Mér finnst eins og ég sé daglega umkringd mörgum svona hugrökkum manneskjum með skýra sýn og mig langar oft til að margfalda og magna upp raddir þeirra og gjörðir svo allir heyri, en finnst um leið eins og það nenni eiginlega enginn að hlusta – að súrefnismagnið til að glæða bálið sé sífellt minnkað.

Ég held að óþægilega mörgum í samfélaginu okkar, allsnægtarsamfélaginu, líði langt í frá vel og séu óafvitandi með banana í eyrunum. Það er skrýtið til þess að hugsa að við virðumst oft velja að dvelja í vondu ástandi og leyfa því að versna, þótt við höfum öll tromp á hendi til að prófa aðra leið. Við erum umvafin safaríkum efnivið hér á akri allsnægtanna og við erum umkringd ævintýralegum óravíddum, urmli hugmynda og tækifæra og ónýttra sóknarfæra. Í fjarska kunna þessar óþekktu leiðir að virðast aðeins fyrir djarfa eldhuga að halda inn á. En mikið væri gott að finna hugrekkið og fara saman, kynda bálið og virkja eigin skilningarvit, finna hvað hjartað kallar á og finna ónýtta kraftinn sem við eigum sjálf.

Mér þætti gaman ef við myndum nýta skapandi titringinn og eldmóðinn í myndlistarlandslaginu hér, virkja hann og margefla. Það er fyrir menninguna og náttúruna sem fólk vill heimsækja Ísland og upp á þær þurfum við að passa. Virkjum menninguna og verndum náttúruna. Þetta ætti að vera augljóst mál hvort sem litið er á það frá sjónarmiði andlegra eða veraldlegra gæða.

Undirrituð hefur á undanförnum árum framleitt ýmis verkefni og fengið ágæta innsýn inn í innviði hinna ýmsu menningarstofnana, listamannareknu rýma, safna og gallería og inn í líf og þróun verka fjölmargra myndlistarmanna, hönnuða og annarra sem byggja afkomu sína á sköpunarkraftinum. Ég held að peningar séu á fáum sviðum eins vel nýttir og í menningunni en tækifærin eru ótalmörg vannýtt. Mótframlag listamanna er líka ómælt enda alkunnugt að mikils ósamræmis gætir á milli vinnuframlags og tekna.

Starfsumhverfi myndlistarmanna og margra þeirra sem starfa í menningargeiranum er óstöðugt og verulega takmarkað fjármagn virðist vera í nánast öllum verkefnum. Af þessu lærist sitthvað um útsjónarsemi, nýjar leiðir og að með samtakamætti og í trausti manna á milli má koma ótrúlegustu hlutum í framkvæmd. Eilíf blóðtaka er þó þreytandi og lítil næring er í teiknuðum kartöflum og burtflognum hænsnum til lengdar. Það er nóg til af góðum hugmyndum og auðæfum sem deila mætti bróðurlegar á milli þó misjafnt séu þau metin til fjár.

Valdið og ábyrgðin eru okkar, gefum það ekki frá okkur og hugsum vandlega hvert við stefnum. Ég held að innst inni séum við í raun öll á sömu leið. Leiðinni heim, heim til míns hjarta – þar sem ríkir frelsi og öryggi og allt er vaðandi í ást og hamingju. Getum við nýtt samtakamátt okkar, horft langt fram á veginn og nýtt okkur listina til alls hins besta? Mikið væri það frábært.

Greinin er birt í tilefni Dags Myndlistar 2014

Sjónvarp í almannaþágu

Ragnar Bragason kvikmyndaleikstjóri og fyrrv. formaður Samtaka kvimyndaleikstjóra skrifar grein í Fréttablaðið í dag:

AR-710319955Víðast hvar erlendis þegar Danmörku ber á góma eru leiknu þáttaraðir danska ríkissjónvarpsins það fyrsta jákvæða sem kemur upp í huga fólks. Þessi mikilvægi samfélagsspegill danskra er einnig þeirra mikilvægasta útflutningsvara síðustu ára. Víðtæk jákvæð áhrif þessa þarf ég ekki að tíunda hér. En gæði dansks sjónvarpsefnis er ekki tilviljun. Metnaðarfull þróun og þroski þess var menningarpólitísk og fjárhagsleg ákvörðun tekin fyrir rúmum áratug út frá einföldum spurningum; Hver erum við sem einstaklingar og sem samfélag? Hvernig viljum við sjá okkur í okkar sjónvarpi?

Íslensk þjóð gladdist í vor þegar nýr útvarpsstjóri var ráðinn, maður sem hafði unnið kraftaverk í leikhúsum landsins. Tilfinningin var að nú ætluðu stjórnvöld að styrkja og efla menningarhlutverk RÚV, það yrði blásið í lúðra og fánar reistir. En í dag mæla misvitrir enn og aftur fyrir frekari niðurskurði og harmonera þannig við stefnu sem framfylgt er í löndum sem okkur langar ekki að bera okkur saman við.

RÚV er meginvettvangur íslenskrar menningar, útvarp og sjónvarp í almannaþágu. Þar opnast okkur fjölbreytt heimsýn, ólíkar raddir, straumar og stefnur öllum aðgengilegar, sama á hvaða aldri, hvar sem er á landinu.

RÚV er einnig stærsti spegill þjóðarinnar, þar hljómar og birtist fjölbreytileiki hennar og andi. Sé andinn sem þar birtist fátæklegur verðum við enn fátækari í anda.

Við erum rétt rúmlega 320.000 sem tölum þetta einstaka tungumál og hvað gerir hóp að þjóð annað en tungan og menningin?
Styrkja þarf sérstöðu RÚV með áherslu á metnaðarfulla dagskrárgerð, sérstaklega er það mikilvægt þegar kemur að leiknu efni. Þar eru fræ mörg í jörð en spíra ekki nema hlúð sé að og vökvað.

Skammsýni
Mikill niðurskurður hefur orðið á RÚV á síðustu árum með aðhaldsaðgerðum og uppsögnum í kjölfarið. Aðhald er gott þegar skórinn kreppir en líta ber upp og hugleiða þegar skerðing verður að skaða.

Staðreyndin er sú að hið lögbundna útvarpsgjald, sem við öll greiðum og er sambærilegt við löndin í kringum okkur, rennur stórskert til sjónvarps allra landsmanna. Það var kannski skiljanlegt korteri eftir hrun en ekki í dag.

Ofan á niðurskurð og skert framlög hefur RÚV lengi verið að sligast undan eldgömlum lífeyrisskuldbindingum sem ríkið hefur fyrir löngu aflétt af öðrum menningarstofnunum.

Framkvæmdastjóri Sambands útvarps og sjónvarpsstöðva í Evrópu benti nýlega á að flestar siðmenntaðar menningarþjóðir í kringum okkur tryggja sínum almannafjölmiðlum stöðugleika með traustu fjármagni bundnu til lágmark fjögurra ára í senn. RÚV getur hinsvegar ekki sett sér langtímamarkmið vegna þeirrar óvissu sem skapast ár hvert þegar framlög eru háð geðþóttaákvörðunum fjárlagaárs.

Allt tal um frekari niðurskurð í einstrengingslegri hugsun um hallalaus fjárlög ber merki um skammsýni. Ég skora á stjórnvöld að búa þannig um hnútana að RÚV verði eflt þjóðinni til hagsbóta og í framhaldi spyrjum við svo; Hver erum við sem einstaklingar og sem samfélag? Hvernig viljum við sjá okkur í okkar sjónvarpi?

Dönsk sjónvarpssería um Bráðamóttökuna?

Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda skrifar grein í Fréttablaðið í dag: 

MO_greinSvarið er nei. Danir eru ekki að framleiða íslenskt sjúkrahúsdrama. Það eru yfirhöfuð ekki stórkostlegar líkur á því að útlendingar hafi áhuga á að gera íslensku samfélagi eða menningararfi skil í formi kvikmynda nema í litlum mæli. Ef á að segja þessar sögur þá verðum við að gera það sjálf. Og við eigum að gera það – við eigum nægt sagnaefni og mannskap til að framleiða gott sjónvarpsefni, eftirspurnin er til staðar því það er staðreynd að það sem áhorfendur vilja helst sjá er innlend framleiðsla – það eina sem vantar er vettvangurinn og stuðningurinn.

Að blóðmjólka niðurskorna kú
Ef RÚV væri mjólkurkýr væri löngu búið að ávíta húsbændurna fyrir illa meðferð og líklega stefndi allt í að þeir yrðu dæmdir óhæfir til að annast skepnuna. Erfið fjárhagsstaða ríkisfjölmiðilsins hefur staðið þróun íslensks sjónvarpsefnis fyrir þrifum um langa hríð. Það sem helst er að sliga RÚV eru íþyngjandi lífeyrisskuldbindingar, há fasteignagjöld og sú skammarlega staðreynd að útvarpsgjaldið skilar sér ekki til fulls. Forsvarsmenn RÚV hafa sagt að bara sú ráðstöfun, að Ríkisútvarpið fengi útvarpsgjaldið óskert, nægði til þess að komast á réttan kjöl. Ef stjórnvöld bregðast ekki við með því eina rétta í stöðunni, að hætta að klípa af þessum skatti, þá er ljóst að viljinn til að mæta vandanum er hreinlega ekki til staðar. RÚV hefur nú boðað metnaðarfull markmið um að stórauka hlut íslensks efnis í dagskránni, enda á sérstaða ríkisfjölmiðils að liggja í vandaðri og fjölbreyttri sjónvarpsdagskrá þar sem nýtt leikið sjónvarpsefni er skrautfjöðrin. Það er kominn tími á bætta búskaparhætti og að stjórnvöld átti sig á þeim miklu verðmætum og möguleikum sem felast í sterku Ríkisútvarpi.

Skandinavíska æðið
Skandinavískt sjónvarpsefni vinnur nú hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Sérstaklega hafa danskar þáttaraðir náð áður óþekktum vinsældum og útbreiðslu og merki eru um að Norðmennirnir séu að skríða yfir alþjóðaþröskuldinn líka. Athygli umheimsins er núna á þessum heimshluta – okkar heimshluta. Einhver gæti komið með þau mótrök að við getum ekki borið okkur saman við stóru frændþjóðirnar, aðstöðumunurinn sé of mikill. En það er rangt. Það er talsverð eftirspurn eftir íslensku sjónvarpsefni í útlöndum. Fjölmörg verkefni í þróun hafa þegar verið seld til norrænna sjónvarpsstöðva og erlend framleiðslufyrirtæki sýna íslenskri kvikmyndagerð mikinn áhuga. Þessi verkefni gætu þannig átt greiðan aðgang að stærri mörkuðum hjá nágrannaþjóðunum en til þess þarf að sjálfsögðu að vera hægt að framleiða efnið. Allt strandar á hversu baklandið hér heima er veikt, á meðan bæði RÚV og Kvikmyndasjóður eru höfð í svelti. Við gætum svo hæglega nýtt okkur þann mikla meðbyr sem Skandinavía hefur um þessar mundir en ef RÚV verður skorið meira niður getum við gleymt því. Þá getum við bara haldið áfram að horfa á dönsku þættina sem við erum öll svo hrifin af.

Hvað þarf til?
Af hverju skyldu Danir hafa náð svona langt? Það skyldi þó aldrei vera að í Danmörku ríki talsvert meiri skilningur á mikilvægi danskrar kvikmyndagerðar og sterkum ríkisfjölmiðli sem leggur rækt við menningarlega sérstöðu? Danirnir eru búnir að finna sína olíu, sjónvarpsþáttagerð, sem í augnablikinu skapar gríðarleg verðmæti, bæði menningarleg og efnahagsleg. Við sitjum hér á vannýttri endurnýjanlegri orkulind og RÚV er virkjun sem er að drabbast niður. Það er mín einlæg ósk að stjórnvöld átti sig á því hversu mikils við förum á mis ef þróuninni með RÚV verður ekki snúið við hið snarasta. Gerið nú það eina rétta – í upphafi árs var boðuð stórsókn í íslenskri kvikmyndagerð, sýnið það í verki áður en Áramóta-skaupið brestur á!

Blekkingar og staðrendir um framleiðslu íslenskra kvikmynda

Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður gerir grein fyrir stöðu fjármögnunar Kvikmyndasjóðs í Fréttablaðinu í dag:

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, heldur því fram í grein að Framsóknarflokkurinn hafi þegar efnt kosningaloforð sitt um að efla íslenska kvikmyndagerð. Málið sé afgreitt.
Þessi niðurstaða hefur vakið mikla furðu í röðum íslenskra kvikmyndaframleiðenda – svo ekki sé meira sagt.

1 Jóhannes segir að framlög til kvikmyndasjóða hafi aldrei verið hærri en þau verða 2015 (nema 2013). Meðfylgjandi línurit um framlög til kvikmyndasjóða á föstu verðlagi sýnir að þessi fullyrðing er ekki rétt.

2Núverandi ríkisstjórn lækkaði framlag til kvikmyndasjóða um 488 milljónir með því að afnema fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Jóhannes segir að það sé „einfaldlega ekki hægt að nota 2013 sem eðlilegt viðmið“ vegna þess að hækkunin það ár hafi verið „ófjármagnað risakosningaloforð“ fyrrverandi stjórnarflokka.

Jóhannes lokar augunum fyrir því að þessi fjárfesting var ákvörðun framkvæmdavaldsins með samþykki fjárveitingavaldsins. Þessir peningar runnu til framleiðslu íslenskra kvikmynda árið 2013. Fjárfestingin er því staðreynd – ekki loforð – sem ekki verður undan komist þegar rætt er um fjármögnun kvikmyndasjóða.

3 Jóhannes segir að fjárfestingaáætlunin hafi ekki verið „í neinu sambandi við raunveruleikann í ríkisfjármálum“ og „það var því aldrei innistæða fyrir sjálfkrafa framlengingu á þessu“…
Þessi fullyrðing stenst ekki skoðun.

Sá hluti fjárfestingaáætlunarinnar sem fór til að efla skapandi greinar eins og kvikmyndaframleiðslu var fjármagnaður með arði af hlut ríkisins í bönkunum. Ef arðurinn myndi minnka eða hverfa þá færu þessi framlög sömu leið. En arðurinn hefur hins vegar hækkað verulega. Arðgreiðslur bankanna til ríkisins árið 2013 námu 10 milljörðum en 21 milljarði árið 2014. Því er rangt að fjármögnunin hafi verið án sambands við raunveruleikann eða innistæða ekki fyrir hendi. Það er einfaldlega pólitísk ákvörðun stjórnarflokkanna að nota þessa peninga frekar til annarra verkefna og við þá ákvörðun eiga þeir að þora að standa.

4 Jóhannes segir að ríkisstjórnin hafi engu að síður „ákveðið“ að hækka framlög til kvikmyndasjóða.
Staðreyndin er sú að þessi hækkun milli ára er ekki „ákvörðun“ þessarar ríkisstjórnar heldur er hækkunin bundin í samningi sem gerður var við greinina árið 2011. Eina „ákvörðunin“ sem ríkisstjórnin tók í þessu sambandi var því sú að svíkja ekki samning sem hefur verið í gildi í nokkur ár.

5 Þegar ríkisstjórnin slátraði fjárfestingaáætluninni var það gríðarlegt högg fyrir kvikmyndaframleiðslu á Íslandi því fjárfesting hins opinbera í greininni (sem er forsenda annarrar fjármögnunar) dróst fyrirvaralaust saman um tæp 40%.
Jóhannes blæs á þá gagnrýni að aðgerðir stjórnarinnar valdi óvissu í greininni. Hann segir: „Það er einfaldlega ekki rétt. Óvissa myndi ríkja ef framlög til kvikmyndasjóða væru á miklu flakki upp og niður milli ára“.

Þetta línurit sýnir framlög til kvikmyndasjóða undanfarin 6 ár og til samanburðar eru framlög hins opinbera til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Lesendur geta sjálfir dæmt um hvort myndin sýni „mikið flakk upp og niður milli ára“ eða ekki.

Kvikm_Sinf

Mannræktarstarf RÚV

Friðrík Rafnsson ritstjóri og stjórnarmaður í stjórn Ríkisútvarpsins skrifar grein í Fréttablaðið í dag um mikilvægi þess að Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið óskipt svo stofnunin nái að halda sjó í rekstrarlegu tilliti, auk þess sem það er heiðarlegra gagnvart skattgreiðendum:

Allt frá stofnun RÚV árið 1930 hafa skoðanir verið skiptar meðal þjóðarinnar um hlutverk þess og stöðu. Það er bara eðlilegt í heilbrigðu lýðræðissamfélagi, ekkert væri verra en þögn og skeytingarleysi. Íslenska þjóðin, eigandi RÚV, gerir miklar kröfur til þess að vel sé farið með það fé sem til þess rennur og það skili sér í sem allra bestri þjónustu, góðri og vandaðri dagskrá í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum. Það er og verður síðan alltaf mats- og smekksatriði, en mestu skiptir að þjóðin treysti Ríkisútvarpinu og líti á það sem einn af burðarásum íslensks nútímasamfélags.

Traustið grundvallaratriði
Hlustenda- og notendakannanir eru bestu mælikvarðarnir á það traust sem fólk ber til fjölmiðla. Hér eru nokkrar beinharðar staðreyndir: Segja má að nánast allir landsmenn njóti dagskrár RÚV á einn eða annan hátt í viku hverri. 87% landsmanna horfa á RÚV að meðaltali í hverri viku, 30% hlusta á Rás 1 og 62% á Rás 2 í viku hverri. Vefurinn ruv.is er í 5. sæti í vefmælingu Modernus með 212 þúsund notendur í viku 41 (6. til 10. október s.l). Í viðhorfskönnun sem Capacent gerði september 2013 sögðust 70,5% landsmanna telja RÚV vera mikilvægasta fjölmiðilinn fyrir þjóðina og þrátt fyrir stöðugar umkvartanir stjórnmálamanna nýtur fréttastofa RÚV meira trausts en nokkur annar fjölmiðill. Í könnun sem MMR gerði í desember 2013 sögðust 76,5% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til Fréttastofu RÚV. Þetta sýnir glögglega að enda þótt RÚV eigi sér nokkra háværa og áhrifamikla óvildarmenn og -konur treystir íslenska þjóðin mjög vel þeim upplýsinga- og mannræktarmiðli sem RÚV er.

Brugðist við vandanum
Ég hef setið í stjórn RÚV frá því í byrjun þessa árs og þekki því nokkuð vel til mála þar. Magnús Geir Þórðarson tók við starfi útvarpsstjóra um miðjan mars, kynnti breytingar í rekstrinum sem hann taldi nauðsynlegar og hlaut til þess fullt umboð stjórnar RÚV. Meðal þess var að stokka upp í framkvæmdastjórn, minnka yfirbyggingu og einfalda allar boðleiðir. Með öðrum orðum, minna bákn og meiri skilvirkni í rekstrinum og starfseminni, allt í þágu betri þjónustu við þjóðina.

Útvarpsstjóri og framkvæmdastjórn hafa síðan unnið sleitulaust að því undanfarna fimm mánuði að hagræða í rekstri RÚV og fá skýrari mynd af fjárhagnum. Eins og fram hefur komið hjá útvarpsstjóra og formanni stjórnar RÚV er nú unnið hörðum höndum í að koma skikk á fjármál RÚV, leigja út hluta hússins, selja lóð og/eða húsnæði, en ekki síst að fá Alþingi til að samþykkja þá eðlilegu beiðni að RÚV fái þann markaða tekjustofn sem því er ætlað, útvarpsgjaldið, óskert. Hluta af útvarpsgjaldinu hefur ríkið notað í önnur verkefni. Þessar skertu tekjur duga ekki fyrir óbreyttri starfsemi, en verði það látið renna óskert til RÚV, sem er líka heiðarlegra gagnvart skattgreiðendum, ætti það að duga til að koma rekstrinum í jafnvægi.

Stöðugt ræktarstarf
Staðan er sannarlega ekki góð, það hefur verið vitað lengi, og á m.a. rætur sínar að rekja til þess að RÚV var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007 og látið taka á sig óheyrilegar skuldbindingar. En nú er loks verið að gera eitthvað í málinu. Þess vegna er hann heldur hjárænulegur, sá heilagi vandlætingartónn sem nokkrir fjölmiðla- og stjórnmálamenn hafa sent RÚV undanfarið. Þeir minna einna helst á foreldri sem hundskammar unglinginn á heimilinu fyrir að drattast loks til að taka til í herberginu sínu.
„RÚV á að rækta mann,“ segir góð kona stundum í mín eyru. Það er hárrétt, en þá þurfum við líka að rækta RÚV, hlúa að því og efla það til að geta tekist á við ýmis verkefni sem markaðsfyrirtæki ræður ekki við. Þá munum við öll, íslenska þjóðin, uppskera ríkulega í enn fjölbreyttara, umburðarlyndara og betra mannlífi.

Að naga af sér fótinn

Kirstín Helga Gunnarsdóttir skrifar grein í Fréttablaðið í dag, um áform stjórnvalda að hækka virðisaukaskatt á bækur:

Yfirvaldið boðar enn þyngri bókaskatt á heimsins minnsta bókamarkað – skattahækkun á afurðina sem bókaþjóðin kennir sig við og skilgreinir sig út frá. Skattheimta á bækur skal nú hækka úr sjö prósentum í tólf. Þetta ku yfirvaldið gera til að einfalda kerfin og tilvistina. Engar rannsóknir liggja að baki, engar hugmynda- og hagfræðilegar úttektir á því hvort menning, tungumál og bókaþjóð þoli aukið skattaálag. Aðeins einföld hugmynd um einföldun sem er pússuð og potað á blað. Svo veltist blaðið manna á milli þar til einhver grípur og meitlar í stein. Orð eru lögð á borð og verða að lögum. Enginn veit alveg af hverju ekki var gripið í tauma áður en það var of seint. Ferli ákvarðana virðist oft á þessa lund á sögueyjunni.

Þó er löngu vitað að undirstaða þess að viðhalda þjóðtungu er öflug útgáfa á prentuðu máli. Sú barátta er töpuð ef stjórnvöld snúa ekki vörn í sókn og beita sértækum aðgerðum til að auðvelda sem allra mest og víðast aðgengi að rituðu máli – fjölbreyttum bókmenntum á auðugri tungu. Afnám bókaskatts væri liður í slíkri varnarbaráttu. Bókaútgáfa í landinu stendur nú þegar höllum fæti og minni forlög berjast í bökkum. Barnabókatitlum fækkar og nýliðun í þeirri stétt er lítil. Útgáfa myndskreyttra íslenskra barnabóka heyrir nú þegar nær sögunni til. Aukin skattlagning á greinina gæti veitt náðarhögg.

Sjálfsmynd þjóðar
Fótgönguliðar fara þessa dagana frá Pontíusi til Pílatusar til að biðja bókinni griða. Áheyrn hjá menntamálaráðherra hefur skilað skilningi og samúð ásamt óljósum vangaveltum um mótvægisaðgerðir í formi styrkja. Áheyrn hjá viðskiptanefnd hefur skilað skilningi og samúð ásamt fyrirspurnum um mótvægisaðgerðir. En læsi og þjóðtunga er ekki einkamál rithöfunda og bókaútgefenda heldur hagsmunamál og sjálfsmynd heillar þjóðar. Því skýtur skökku við að ráðherra menntamála ferðist nú eyjuna þvera og endilanga og boði læsi og málrækt um leið og hann leggur harkalega til atlögu gegn bókaútgáfu. Það er skrítinn skottís.

Enska er okkar mál
Með ört vaxandi rafmenningu þrengir mjög að bókinni, læsi og tungumáli. Kynslóðir vaxa sem beita í auknum mæli fyrir sig enskri tungu í daglegum tjáskiptum. Sú þróun er ógnvænleg. Um það votta framhaldsskólakennarar og háskólakennarar sem lýsa hraðri þróun í eina átt. Ein öflugasta mótvægisaðgerðin gegn þeirri þróun er að auðvelda sem mest aðgengi að rituðu móðurmáli, meðal annars með því að afnema bókaskatt. Það er jafnframt viðurkennd og meðvituð aðgerð í nágrannalöndum sem hafa metnað fyrir menningu og framtíðarvon fyrir tungumál.

Meistaradeild í bókaskatti
Fimm Evrópulönd leggja ekki virðisaukaskatt á bækur þar sem slíkt stríðir gegn menningar- og menntastefnum þessara þjóða. Meðal þeirra landa eru Bretland, Írland og Noregur sem þó eru ekki örsmá málssvæði líkt og Ísland og að auki með margfalt stærri bókamarkað en okkar litla samfélag. Tuttugu lönd eru með lægri en 7% bókaskatt og aðeins fjögur lönd Evrópu eru með 12% virðisaukaskatt á bókum eða meira. Við skipum okkur á bekk með þeim Evrópumeisturum í bókaskattheimtu ef af hækkun verður.

Skilaboð frá sögueyju
Hækkun virðisaukaskatts á bækur sendir sterk skilaboð til landsmanna og nágrannalanda um þá menningarstefnu sem stjórnvöld vilja standa fyrir. Skattahækkun á bækur sýnir framtíðarsýn fyrir bókmenntir, tungu og læsi í landinu. Alþjóðlegi bókmenntaheimurinn er ekki stór og það fregnast fljótt ef stjórnvöld á sögueyju leggjast af fullum þunga á bókaútgáfu með skattaálögum. Slík tilraun hefur langvarandi afleiðingar, rétt eins og að naga af sér fótinn. Útgefendur fækka fljótt titlum, aðgengi ungra höfunda minnkar enn. Nýjum höfundum, einkum barnabókahöfundum fækkar hratt og kostnaðarsamasta og metnaðarfyllsta útgáfan hverfur af sjónarsviðinu.

Stjórn Rithöfundasambands Íslands krefst þess að bókaskattur verði aflagður með öllu og þar með snúið af þeirri ógæfuleið sem sligað gæti stóran hluta bókaútgáfu í landinu og haft hraðvirk hrunáhrif á viðkvæma menningu bókaþjóðar.

Page 10 of 40« First...89101112...203040...Last »