Author Archives: vefstjóri BÍL

Umsögn BÍL um tillögu um sóknaráætlun skapandi greina

Umsögn um þingmál 267 á þingskjali 503; um sóknaráætlun skapandi greina

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna hefur, að beiðni allsherjar- og menntamálanefndar, fjallað um ofangreinda tillögu og vill koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.

Í greinargerð með tillögunni er getið um tillögu Alþingis nr. 22 sem samþykkt  var á 139. löggjafarþingi hinn 7. apríl 2011. Sú tillaga var flutt af menntamálanefnd þingsins og hljóðar svo: 

Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að koma á formlegum samstarfsvettvangi með aðild fulltrúa allra stjórnmálaflokka, iðnaðarráðuneytis og fulltrúa skapandi greina sem hafi það hlutverk að ræða starfsumhverfi skapandi greina á Íslandi og móta tillögur um hvernig megi styrkja stöðu þeirra í íslensku atvinnulífi. Lagt verði mat á hvernig opinber stuðningur nýtist skapandi greinum, forsendur úthlutunar og eftirlit með ráðstöfun fjárveitinga. Sérstaklega verði leitað leiða til að bæta rekstrarskilyrði skapandi greina á Íslandi, fjölga menntaúrræðum og störfum auk þess að ýta undir nýsköpun innan skapandi greina. Niðurstöðum verði skilað til Alþingis fyrir 1. október 2011.

Tillagan var samþykkt samhljóða með atkvæðum fimmtíu og tveggja þingmanna allra flokka, þ.á.m. atkvæðum núverandi forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og núverandi formanns allsherjar- og menntamálanefndar Unnar Brár Konráðsdóttur. Á grundvelli tillögunnar var svo settur á laggirnar starfshópur sá sem vann skýrsluna Skapandi greinar – Sýn til framtíðar og í kjölfarið var skipað þverfaglegt teymi sem fékk það verkefni að yfirfara tillögur skýrslunnar með það að markmiði að innleiða þær og koma greinunum fyrir með formlegum hætti innan stjórnsýslunnar.  Eftir því sem stjórn BÍL kemst næst þá mun þetta teymi vera að stöfum undir forystu Karístasar Gunnarsdóttur skrifstofustjóra á menningarskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en það hefur því miður verið hljótt um störf þess frá því að það tók til starfa.

Í tillögum skýrslunnar Skapandi greinar – Sýn til framtíðar er komið inn á flesta þá þætti sem þingsályktunartillagan frá 2011 gerði ráð fyrir; þar má nefna formlegan samstarfsvettvang um málefni skapandi greina, einnig er í skýrslunni greinargott yfirlit yfir starfsumhverfi greinanna og tillögur um bætta stöðu þeirra í íslensku atvinnulífi. Þá hefur skýrslan að geyma greinargott yfirlit yfir opinberan stuðning við listir og tillögur að styrkingu þess kerfis sem unnið hefur verið eftir. Loks er komið inn á menntamálin og varpað fram hugmyndum um frekari aðgerðir í þágu bættrar menntunar í listum og skapandi greinum á öllum skólastigum, en sem fyrr segir þá eru allar þessar tillögur til meðferðar hjá samstarfshópi þeim sem settur var á laggirnar í framhaldi af útkomu skýrslunnar 2012.

Það er mat stjórnar BÍL að mikið starf hafi verið unnið til að  búa í haginn fyrir öfluga sókn í málefnum skapandi greina. Það var því mikið áfall þegar ljóst var að sameiginlegt átak geirans og stjórnvalda, sem staðið hafði í fjörgur ár, var ekki virt sem skyldi í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar 2014. Það er óþarfi að rekja hér rúmlega 600 milljóna niðurskurð á fjárveitingum til verkefnatengdra sjóða lista og skapandi greina á yfirstandandi ári, en látið nægja að benda á umsögn BÍL um fjárlagafrumvarp 2014, sem aðgengileg er á vef Alþingis og vefsíðu BÍL.

Stjórn BÍL leggur áherslu á mikilvægi þess að nú verði blásið til endurnýjaðrar sóknar í atvinumálum listafólks og skapandi fólks og lýsir einlægum vilja til samstarfs um það verkefni. Það er mikilvægt að teymi það sem sett var á laggirnar innan stjórnsýslunnar 2012 fái áframhaldandi umboð til að starfa á grundvelli tillagna skýrslunnar Skapandi greinar – Sýn til framtíðar.  Einnig er mikilvægt að haldið verði áfram þeirri vinnu sem komin var áleiðis undir hatti Hagstofu Íslands að finna leiðir til að skapandi atvinnugreinar verði sjálfsagður þáttur þjóðhagsreikninga, en það verkefni fór raunar að hiksta þegar ljóst var að fjármunir þeir, sem gert var ráð fyrir að kæmu inn í það verkefni í formi IPA-styrkja ESB, myndu ekki skila sér. Til frekari áréttingar því sem hér hefur verið nefnt fylgir umsögn þessari starfsáætlun BÍL, sem samþykkt var á aðalfundi BÍL 8. febrúar sl.

Ráðstafanir gegn málverkafölsunum – Umsögn

Umsögn um þingmál 266 á þingskjali 499; um ráðstafanir gegn málverkafölsunum

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna hefur, að beiðni allsherjar- og menntamálanefndar, fjallað um ofangreinda tillögu og mælir með því að hún verði samþykkt.

Greinargerð tillögunnar er afar skýr um ástæður þess að mikilvægt er að hún nái fram að ganga. Það er dapurlegt að úrbætur þær sem mælt var fyrir um í skýrslu starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra frá 2005 skuli ekki hafa náð fram að ganga, þrátt fyrir tilraunir ráðherra til að koma afmörkuðum þingmálum þar að lútandi gegnum þingið. Það er líka umhugsunarefni að „stóra málverkafölsunarmálið“ skyldi hvorki hafa verið rannsakað né sótt á grundvelli höfundalaga, þrátt fyrir skýra lagaheimild þar um. Þá er það slæm tilhugsun að skilið hafi verið við það mál með þeim hætti að hvorki hafi verkin verið gerð upptæk, né þess krafist að falsaðar höfundarmerkingar væru fjarlægðar.

Stjórn BÍL tekur undir með flutningsmönnum tillögunnar að nauðsynlegt sé vernda íslenska menningararfleifð fyrir þeim spellvirkjum sem falsanir fela í sér og að mikilvægt sé að búa svo um hnúta að mál af þessu tagi séu leidd til lykta með sómasamlegum hætti og að lagaheimildir í fölsunarmálum sem upp kunna að koma í framtíðinni séu nýttar með þeim hætti sem löggjafinn hefur mælt fyrir um.

Notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni – umsögn

Umsögn um þingmál 268; aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni

Að beiðni allsherjar- og menntamálanefndar hefur stjórn BÍL fjallað um tillöguna og komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægt sé að hún nái fram að ganga. Nægir í því sambandi að benda á slæma útkomu íslenskunnar í Evrópuverkefni um stöðu tungumálanna innan tölvu- og upplýsingageirans þar sem íslenskan stóð næstverst að vígi af 30 Evróputungumálum, eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni.

Tillagan gerir ráð fyrir að skipuð verði nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem fái það hlutverk að gera aðgerðaáætlun um innleiðingu tiltekinna þátta í opinberri málstefnu, þ.e. notkun hennar í stafrænni upplýsingatækni. Auk þess verði nefndinni falið að kostnaðarmeta innleiðinguna og gera áætlun um fjármögnun hennar. Það síðastnefnda gæti bent til þess að allsherjar- og menntamálanefnd ætli nefndinni að sækja fjármagn til verkefnisins út fyrir ramma fjárlaga. Engu að síður er í greinargerð með tillögunni undirstrikað að ólíklegt sé að einkafyrirtæki sjái sér hag í að þróa máltæknibúnað á markaðsforsendum og því einnig haldið fram að ekki sé hægt að láta nauðsynlegar rannsóknir í þessum málaflokki ráðast af úthlutun samkeppnissjóða þar sem um sé að ræða rannsóknir sem leiði af lagaskyldu. Það er því vandséð að sérfræðinganefndin hafi aðra kosti varðandi tillögur að fjármögnun aðgerðanna en gegnum fjárlög.

Stjórn BÍL leyfir sér að leggja til að horft verði vítt yfir svið sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni þegar skipað verður í nefndina og nefnir í því sambandi mikilvægan þátt listamanna og hönnuða sem nýta sér stafræna tækni í störfum sínum. Með aukinni áherslu á akademíska nálgun í menntun hönnuða og listafólks og með stórstígum framförum í stafrænni tækni auglýsinga- og upplýsingafyrirtækja, fyrirtækja í leikjahönnun og fyritækja á sviði vöruhönnunar, hefur rutt sér til rúms ný þekking á hinum stafræna vettvangi, sem gæti reynst gagnleg við áætlanagerð þá sem sérfræðinganefndinni verður falin. Einnig er mikilvægt við vinnu af þessu tagi að leita til fólks sem hefur skapandi tök á tungumálinu.

Raunar er tíminn sem sérfræðinganefndinni er gefinn til starfans skv tillögunni orðinn afar knappur, svo líklegt er að rýmka þurfi þar eitthvað um, en engu að síður er mikilvægt að vinnan við áætlunina dragist ekki á langinn.

Listrænn metnaður eða markaðsfræði

Forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:

Í leiðara Friðriku Benónýsdóttur 11. febrúar er lýst áhyggjum af því að listamenn séu í auknum mæli hættir að trúa á gildi listarinnar og sé meira í mun að sanna að þeir skaffi peninga en skapi góða list. Hún rekur fyrir þessu tvær meginástæður, annars vegar aukna áherslu á hagræn áhrif skapandi greina og hins vegar neikvæða umfjöllun um listir almennt.

Umræðu um hagræn áhrif lista og skapandi greina má rekja til sameiginlegs áhuga listamanna og fræðimanna á því að vita efnahagslegt umfang listastarfsemi í landinu. Það var árið 2010 sem settir voru opinberir fjármunir í rannsókn, sem leiddi í ljós umtalsverð hagræn áhrif greinanna. Atvinnuvegir þjóðarinnar hafa áratugum saman verið kortlagðir og fyrir þeim gerð grein í árlegum þjóðhagsreikningum, en hingað til hefur þáttur listamanna og hönnuða verið nánast ósýnilegur í þessum reikningum.

Listamenn stíga fram
Þessu vilja listamenn breyta, sem er eflaust ein af ástæðum þess að þeir hafa sjálfir orðið sýnilegir í umræðunni um þátt skapandi greina í þjóðarhag. Friðrika virðist gagnrýnin á þá þátttöku þar sem hún segir að listamenn hafi hvað eftir annað beitt sér fyrir umræðum um þessi hagrænu áhrif, jafnvel haldið um þau málþing.

Bandalag íslenskra listamanna, sem samanstendur af fjórtán fagfélögum listafólks og arkitekta, hefur á undanförnum árum gengist fyrir málþingum í tengslum við aðalfund sinn. Umfjöllunarefnin hafa verið fjölbreytt en þingið 2013 fjallaði að sönnu um skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna. Þar var undirstrikað mikilvægi þess að listir og menning eignuðust fastan sess í þjóðhagsreikningum, en jafnframt komu fram svipaðar áhyggjur og lýst er í leiðara Friðriku, af aukinni áherslu á markaðssjónarmið í umfjöllun um listir og þeirri hættu að eigið gildi listanna gæti horfið í skuggann af yfirþyrmandi umfjöllun um þjóðhagslegt vægi þeirra.

Von um aukið vægi skapandi greina
Umræðan um hin hagrænu áhrif er ný af nálinni, hún helst í hendur við þörf á fjárhagslegri endurskipulagningu samfélagsins eftir hrun og speglar áætlanir nágrannalanda okkar um uppbyggingu starfa í skapandi greinum. Hún á sér líka rætur í breyttu munstri listmenntunar, sem hefur á seinni árum verið að færast til í kerfinu með þróun listnáms á háskólastigi.
Einnig eru skýr merki um breytingar á uppbyggingu fagfélaga listafólks og meðvitund listamanna um kjör sín, t.d. með inngöngu æ fleiri félaga í Bandalag háskólamanna. Þá eru ótalin áform stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna um að hefja sókn í uppbyggingu atvinnutækifæra innan hins skapandi geira, en slíkar yfirlýsingar kveikja von meðal listamanna um aukið vægi greinanna. Með þetta í huga væri beinlínis undarlegt ef listamenn leiddu þessa umræðu hjá sér.

Friðrika veltir hins vegar fyrir sér hvort niðrandi umfjöllun um störf listamanna sé farin að skjóta rótum í hugskoti þeirra sjálfra og verði þess beinlínis valdandi að þeim sé meira í mun að skaffa peninga en skapa góða list. Það dreg ég í efa. Vissulega þykir listamönnum oft nóg um þegar fjölmiðlar og samskiptamiðlar fyllast af athugasemdum á borð við þær að leggja beri niður Þjóðleikhúsið eða Sinfóníuhljómsveit Íslands, að misráðið hafi verið að ljúka byggingu Hörpu eða að listamenn ættu að fá sér eðlilega vinnu eins og venjulegt fólk. Satt að segja óttast ég fremur að gusur af þessu tagi hafi áhrif á tiltrú stjórnvalda og þeirra sem halda utan um opinbera fjármuni en að þær ógni listrænum metnaði listamannanna.

Ég vil leyfa mér að ljúka þessu greinarkorni með því að þakka Friðriku Benónýsdóttur fyrir leiðarann og viðurkenna að áhyggjur hennar eru ekki tilefnislausar, en á sama tíma langar mig að hvetja hana og aðra áhugamenn um menningarumfjöllun að hefja til vegs umræðu sem vegur upp á móti möntrunni um að listin sé fyrst og fremst markaðsvara. Mín gæfa er fólgin í því að starfa daglega með listafólki sem hefur fulla trú á gildi listarinnar sem byltandi afls í samfélaginu og hefur ekki í hyggju að selja Satan sál sína.

Hringlaga box! Komið á vefinn

Í tengslum við aðalfund  BÍL 8. febrúar sl. var haldið málþing með yfirskriftinni

Hringlaga box
– hlutverk listanna og þátttaka listamanna í innri endurskoðun og endursköpun samfélagsins 

Tekið var til skoðunar með hvaða hætti sköpun auðgar samfélagið, ekki einungis gegnum listræna túlkun og átök heldur ekki síður með skapandi og gagnrýnni nálgun við lausn hvers konar verkefna. Í nýjustu kenningum stjórnunarfræðanna er fjallað um mikilvægi skapandi nálgunar við lausn fjölbreytilegustu  viðfangsefna og bent á aðferðir listamanna sem eftirsóknarverðar í því sambandi. Þetta hefur leitt til þess að kallað er eftir kröftum listafólks í þverfaglegu samtali og samstarfi langt út fyrir lista- og menningargeirann;  a.m.k. þegar glímt er við heftandi ramma viðtekinna hefða. Listin leitast við að gera kosmos úr kaosi en í samtímanum virðast aðrar greinar menningarinnar, ekki síst fræðin, frekar njóta trausts til markvissrar endurskoðunar og endursköpunar samfélagsins. Nálgun listanna er ekki síður meðvituð, gagnrýnin, greinandi, spurul og speglandi, þótt hún sé vissulega dularfyllri og óræðari. En hví ætti hlutverk og erindi listarinnar sjálfrar að virðast svo framandi hinni almennu orðræðu? Hvað eru mýtur og hvað veruleiki um skapandi vinnubrögð?

Innlegg voru flutt af skapandi fólki með reynslu af því að takast á við fjölbreytt verkefni vítt og breitt um samfélagið.  Sérstakur gestur málþingsins var borgarstjórinn í Reykjavík Jón Gnarr. Stutt erindi fluttu  Sólrún Sumarliðadóttir tónlistarmaður, Kjartan Pierre Emilsson leikjahönnuður hjá CCP, Sigrún Birgisdóttir deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ og Saga Garðarsdóttir leikkona.

Málþingsstjóri var Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt.

Nú eru upptökur af erindunum á málþinginu aðgengilegar á vefnum:

Inngangsorð og erindi Sólrúnar Sumarliðadóttur tónlistarmanns

Erindi Kjartans P. Emilssonar leikjahönnuðar

Erindi Sigrúnar Birgisdóttur deildarforseta hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ

Erindi Sögu Garðarsdóttur listamanns

Erindi borgarstjórans í Reykjavík Jóns Gnarr

Sígild í sjónvarpi

Gunnar Guðbjörnsson, formaður FÍT skrfar grein í Fréttablaðið í dag:

Aðdáendur sígildrar tónlistar fengu óvæntan glaðning í upphafi ársins 2014. Á sjónvarpsskjánum hefur klassískri tónlist verið gert hærra undir höfði en áður svo að eftir því er tekið.

Raunar hófst sjónvarpsveturinn á RÚV með sjónvarpsþáttunum Útúrdúr þar sem þau Halla Oddný Magnúsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson buðu sjónvarpsáhorfendum í ferðalag um heima tónlistarinnar. Þetta ferðalag reyndist bæði fjölbreytt og fróðlegt. Þau nálguðust viðfangsefnið á þann hátt að jafnt atvinnumenn, áhugafólk og þeir sem ekki höfðu áður gefið sig að sígildri tónlistgátu notið.

RÚV á þakkir skildar fyrir framleiðslu þáttanna en nú hefur Ríkissjónvarpið gefið í og boðið upp á frekari dagskrá af svipuðum toga en þar má nefna upptökur af tónleikum úr Hörpu og Salnum í Kópavogi, þátt um stórkostlegt tónlistarverkefni Hallfríðar Ólafsdóttur, Maxímús Músíkus, auk aðkeyptra tónlistarþátta á borð við upptöku á Zarzúelatónleikum með Placido Domingo, frá tónlistarhátíðinni í Salzburg.

Ekki háð tískusveiflum
Menningarefnið virðist nú hafa hellst yfir sjónvarpið því þar til um miðjan febrúar verður sérstök næturdagskrá allar nætur, sem tileinkuð er myndlist og stendur veislan fram undir morgun.

Allt bætist þetta við ágæta dagskrárliði sem þegar eru til staðar: Kiljuna, Hljómskálann og Djöflaeyjuna.

Ástæða er til að færa RÚV sérstakar þakkir fyrir þessar nýársgjafir enda má lesa á samskiptamiðlum mikinn fjölda jákvæðra viðbragða þess fólks sem notið hefur. Sumir hafa bent á að eitthvað af hinu ágæta efni sé reyndar ekki það allra nýjasta á markaðnum en þá ber að nefna að einn helsti kosturinn við sígilda tónlist er að hún er yfirleitt ekki háð tískusveiflum. Klassískar tónleikaupptökur eldast yfirleitt fádæma vel en lækka þó í verði með aldrinum. Ólíklegt má því teljast að hoggið verði stórt skarð í sjóði Ríkisútvarpsins við innkaupin. Sú staðreynd ætti að vera dagskrárstjóra Sjónvarps ástæða til að halda áfram þessari janúarstefnu og gleðja okkur enn frekar með vönduðu sígildu tónlistarefni.

Hver veit nema að okkar bíði fastur þáttur í vetrardagskránni um allt það helsta sem er á döfinni í sígildri tónlist heima og erlendis, þáttur í ætt við Hovedscenen hjá NRK?

Starfsáætlun BÍL 2014

Á nýafstöðnum aðalfundi BÍL var samþykkt svohljóðandi starfsáætlun fyrir árið 2014:                                                                      

 • BÍL verður áfram virkur þátttakandi í stefnumótun á vettvangi skapandi atvinnugreina innan stjórnkerfis ríkis og sveitarfélaga sem og atvinnulífsins. Talsverð vinna hefur verið lögð í stefnumótun einstakra listgreina og mikilvægt að heildarsamtök listamanna þrýsti á um innleiðingu og eftirfylgni þeirrar stefnu sem mótuð hefur verið, t.d. menningarstefnu samþykktri á Alþingi 6.03.2013. BÍL mun leggja áherslu á þátt listanna í þróun skapandi atvinnugreina um land allt og mikilvægt samspil lista, menningar og atvinnulífs.
 • BÍL standi vörð um þá uppbyggingu sjóðakerfis sem unnið hefur verið að á undanförnum árum, leggi áherslu á lifandi samspil launasjóða og verkefnatengdra sjóða og haldi áfram góðu samstarfi við stjórn listamannalauna um þau mál. Þróaðar verði hugmyndir um eflingu launasjóða listafólks og lögð áhersla á aukna fagmennsku við úthlutun opinberra fjármuna til lista og menningar.
 • BÍL beiti sér fyrir því að töluleg gögn Hagstofu Íslands um störf listafólks og annarra í skapandi geiranum gefi sem gleggsta mynd af stöðu greinanna, með það að markmiði að listir og menning verði sjálfsagður hluti þjóðhagsreikninga. BÍL leggi sitt af mörkum til að listafólk sé rétt skráð í atvinnugreinaflokka hjá skattinum, m.a. til að tryggja að stjórnvöld hafi sem réttastar upplýsingar um störf innan geirans. Þannig verður auðveldara að meta þjóðhagslegt vægi lista og menningar.
 • BÍL vinni áfram að sameiginlegum hagsmunum listafólks varðandi skattlagningu. BÍL endurnýi áherslur sínar í skattamálum og beiti sér í baráttunni fyrir sem sanngjarnastri skattlagningu á störf og afurðir listamanna. Einnig þarf BÍL að sinna hagsmunum listamanna hjá samfélagsstofnunum á borð við Vinnumálastofnun og Tryggingarstofnun.
 • Samningur BÍL við mennta- og menningarmálaráðuneytið er forsenda þess að BÍL geti veitt stjórnvöldum nauðsynlega ráðgjöf í málefnum listanna. Mikilvægt er að framlag ríkisins til starfsemi BÍL haldi verðgildi sínu milli ára og sé ekki lægra að raunvirði en það var í upphafi samningstímans 2010. Til að svo megi verða þarf að auka skilning stjórnvalda á því þýðingarmikla starfi sem listafólk gegnir í samfélaginu.
 • BÍL leiti einnig nýrra leiða til að styrkja fjárhagslega stöðu sína með það að markmiði að ráða starfskraft til að slagkraftinn í hagsmunabaráttu listamanna. Í ljósi vaxandi áhuga á uppbyggingu skapandi atvinnugreina, jafnt meðal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, er mikilvægt að BÍL hafi bolmagn til að taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu með heildarhagsmuni listamanna að leiðarljósi.
 • Það þjónar heildarhagsmunum listamanna að heimasíða BÍL verði þróuð áfram og hún gerð að vettvangi skoðanaskipta um listir, auk þess sem hún miðli greinum frá listafólki og samtökum þeirra, auk upplýsinga um BÍL á erlendum tungumálum og það alþjóðlega samstarf sem BÍL á þátt í. BÍL er orðið sýnilegt á samskiptamiðlum og þann sýnileika þarf að efla enn frekar, en til að áform um öflugri heimasíðu gangi eftir þarf aukið rekstrarfé.
 • BÍL beiti sér í baráttunni fyrir bættri listmenntun á öllum skólastigum, með því að auka samskipti við yfirvöld menntamála jafnt á vettvangi ríkis sem og sveitarstjórna. Í því skyni leiti BÍL leiða til að styrkja verkefni sem byggja á samspili listar og skólastarfs með norska „menningar-bakpokann“ til viðmiðunar. Þá taki BÍL þátt í eflingu háskólanáms í listum og stuðli að virkara samtali listamanna og Listaháskóla Íslands m.a. með þátttöku í uppbyggingu formlegs samráðsvettvangs á vettvangi LHÍ.
 • BÍL taki virkan þátt í að bæta lagaumhverfi á sviði lista lista og menningar. Fylgja þarf eftir hugmyndum aðildarfélaga BÍL um styrkari stöðu lista og menningar innan RÚV ohf, í því sambandi er ályktun ársfundar BÍL 2011 enn í fullu gildi. Mikilvægt er að Ríkisútvarpið axli ábyrgð sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar með því að veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá og að tryggja vandaða umfjöllun um störf listamanna.
 • BÍL vinni að uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir listafólk um land allt, m.a. með þátttöku í verkefnum á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þá leggi BÍL rækt við samstarf við Samtök skapandi greina, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og aðra þá sem hagsmuni hafa af uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir skapandi fólk.
 • BÍL leggi rækt við norrænt og alþjóðlegt samstarf, m.a. á vettvangi höfundarréttarmála í samstarfi við systursamtök á Norðurlöndunum og innan ESB. Þá leggi BÍL sig eftir samstarfi við söfn og aðrar stofnanir sem sunda miðlun og rannsóknir á listum og menningararfi. Mikilvægt er að fagfélög listamanna verði sýnileg á þeim vettvangi, m.a. með því að taka þátt í fundum og málþingum. Þá undirbúi BÍL málþing á árinu um ólíka stöðu kynjanna innan listgreinanna.

Skýrsla SÍM – Starfsárið 2013

Stjórnar-, sambandsráðs- og félagsfundir SÍM
Stjórnarfundir SÍM á starfsárinu 2013-2014 eru áætlaðir þrettán talsins, þar með talið tveir sambandsráðsfundir. Jafnframt voru haldnir tveir félagsfundir á árinu, en stjórn samþykkti þá ný breytni að halda næstu félagsfundi úti á landi og var sá fyrsti haldinn á Akureyri í byrjun júní 2013.

Helstu málefni SÍM á árinu 2013
Starfsumhverfi
Í starfsáætlun stjórnar SÍM er enn helsta baráttumálið að efla starfsumhverfi myndlistarmanna og kanna hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar.

Samingur milli Myndstefs og Listasafns Reykjavíkur
Á vormánuðum 2013 var undirritaður samningur milli Myndstefs og Listasafns Reykjavíkur um myndbirtingu á safneign sinni á netinu. Þar með var merkum áfanga náð og var gagnabanki safnsins formlega kynntur í vóvember s.l. Það er mikið framfaraskref að safneignin skuli nú vera aðgengileg á netinu og má Listasafn Reykjavíkur eiga hrós fyrir góða framsetningu. Greiðslan sem Listasafn Reykjavíkur og þar sem Reykjavíkurborg inna af hendi fyrir birtinguna renna til sameingnarsjóða Myndstefs, sem nýtist listamönnum í auknum styrkjum frá myndhöfundarsjóðnum.

Myndlistarlög, myndlistarráð og myndlistarsjóður
Þau gleðilegu tíðindi gerðust einnig á árinu að langþráð lög um Myndlistarráð og Myndlistarsjóð voru samþykkt á Alþingi sumarið 2012 og tók sjóðurinn því til starfa í byrjun árs 2013, með kr. 45 milljóna framlagi úr ríkissjóði. SÍM tilnefndi fulltrúa í stjórn ráðsins, þau Ásmund Ásmundsson og Ósk Vilhjálmsdóttur og úthlutaði Myndlistarsjóður verkefnastyrkjum tvisvar á árinu sem leið.

Frumvarp til fjárlaga nýrrar ríkisstjórnar var ekki eins gleðileg tíðindi þegar ljóst var að þeim var full alvara í að skera Myndlistarráð og þar með Myndlistarsjóðinn algerlega niður. Rökin bak því voru óskiljanleg og var þar sama við hvern var rætt, myndlistarmenn mættu lítils skilnings.Það var á síðustu stundu sem stjórn og félagsmenn SÍM, með sameiginlegu átaki, náðu að snúa vörn í sókn og unnu varnarsigur í málinu þegar kr. 25 milljónir voru settar í sjóðinn nóttina áður en frumvarpið var samþykkt sem lög. Í bréfi frá Svandísi Svavarsdóttur þakkaði hún okkur fyrir að þrýsta á þingmenn á lokasprettinum því það skipti máli. Stjórn SÍM vill einnig þakka BÍL fyrir samstöðuna sem félagið sýndi á samráðsfundi með þingmönnum daginn fyrir samþykkt laganna.

Fyrir utan niðurskurð til Myndlistarráðs var heildarniðurskurður til menningar og lista rúmar kr. 600 milljónir í fjárlögum ársins 2014 og er það nánast sama upphæð og bætt var við eitt tveggja milljarða verkefni í vegagerð. Verður það verkefni stjórnar SÍM og BÍL á þessu ári að vinna að því að fá stjórnvöld til að snúa þessari þróun við.

Launa og skoðanakönnun
Á þessu starfsári lagði stjórn SÍM grunn að því að gerð yrði launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum samtakanna, líkt og gert var árið 1995. Með slíkri könnun telur stjórn SÍM að félagið öðlist kröftugt tæki, sem nota megi í hagsmunabaráttunni sem og til grundvallar samningum við Mennta- og menningarráðherra um greiðslur til handa myndlistarmönnum vegna sýningarhalds í opinberum söfnum og sýningarstöðum. Nú er fjármögnun verkefnisins á lokasprettinum og vonast því stjórn til að könnunin verði gerð á fyrrihluta þessa árs.

Laun vegna sýningarhalds
Stjórn SÍM setti fyrir tveimur árum á starfsáætlun sína að félagið beiti sér fyrir því að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar í opinberum söfnum og sýningarsölum hérlendis. Stjórnin horfir þar til sænska samningsins ,,MU- Medverkans- och utställnings-ersättning,, sem samtök listamanna í Svíþjóð (KRO) og þarlend stjórnvöld gerðu með sér.

Stjórn SÍM óskaði eftir að Mennta- og menningarmálaráðuneytið og SÍM gerðu með sér viðlíka samning vegna vinnuframlags myndlistarmanna við sýningarhald, en ráðuneytið benti á að SÍM yrði að setja slíka gjaldskrá sjálft. Nú er í smíðum handbók með leiðbeiningum fyrir listamenn og jafnframt verða gerð rafræn samningseyðublöð fyrir listamenn til að nota þegar þeir sýna í opinberum söfnum og sýningarstöðum.

Stjórn SÍM hefur ákveðið að gjaldskrá um Verkefnis- og sýningarlaun eða VS-samningurinn muni taka gildi þann 1. Janúar 2015. Með tilkomu slíks samnings yrði listamönnum greitt fyrir leigu á verkum vegna sýningarhalds, þeir myndu fá eingreiðslu vegna sýningarþáttöku og verktakalaun yrðu greidd vegna uppsetningu eigin verka sem og annars starfs sem óskað er eftir af viðkomandi stofnun. 

Dagur myndlistar 2. nóvember 2013
Dagur myndlistar var að þessu sinni haldinn hátíðlegur þann 5. nóvember og hafði Gunnhildur Þórðardóttir veg og vanda að deginum. Skólum og myndlistasrmönnum var boðið að skrá sig til þáttöku í gegnum heimasíðu Dags myndlistar á www.dagurmyndlistar.is.

Að þessu sinni fóru kynningar fram í 17 grunn- og framhaldsskólum á öllu landinu, og voru það tólf listamenn sem sáu um kynningarnar á starfi sínu og heppnuðust þær mjög vel. Um 100 myndlistarmenn skráðu sig til leiks og opnuðu vinnustofur sínar fyrir almenningi. 

Vinnustofur myndlistarmanna
SÍM hefur leigt út vinnustofur til listamanna um árabil. Þannig eru rúmlega 50 félagsmenn með vinnuaðstöðu á Seljavegi, á Korpúlfsstöðum eru um 60 starfandi listamenn og hönnuðir ásamt því að þar eru staðsett verkstæði Leirlistarfélags og Textílfélags. Á Lyngási í Garðabæ eru um 20 listamenn starfandi þar í sextán vinnustofum. Á Nýlendugötu eru um 25 félagsmenn með vinnustofur ásamt veitingahúsinu Forréttarbarnum á fyrstu hæð og nýjasta viðbótin eru vinnustofur í Súðavogi í gömlu timbursölu Húsasmiðjunnar, en þar eru nú 20 félagsmenn SÍM með vinnuaðstöðu. SÍM sér því um 175 félagsmönnum fyrir vinnustofum á viðráðanlegu verði. 

Gestavinnustofur SÍM á Íslandi og styrkur KKNord – Kulturkontakt Nord
Framkvæmdastjóri SÍM sótti um styrk til KulturKontakt Nord vegna gestavinnustofa SÍM á Seljavegi og að Korpúlfsstöðum. Fekk umsóknin jákvæðan stuðning KKNord að þessu sinni. Felst hann í því að SÍM býður fjórum norrænum og baltneskum listamönnum á ári til tveggja mánaða dvalar í senn sér að kostnaðarlausu auk ferða- og dvalarstyrks. 

Á árinu sem er að líða hafa um 250 listamenn komið til landsins til dvalar í gestavinnustofum okkar á Seljavegi, Korpúlfsstöðum og hér í Hafnarstrætinu. Það eru listamenn frá um 30 löndum víðs vegar úr heiminum. Í hverjum mánuði setja þau upp sýningu hér í SÍM húsinu í lok dvalarinnar og eru allir listamenn á landinu hvattir til að mæta á þær opnanir. 

Gestavinnustofur SÍM í Berlín
SÍM hefur til skamms tíma haft á leigu fjórar íbúðir með vinnuaðstöðu í Neue Bahnhofstrasse í Friedrichshein í Berlín, en á þessu ári fækkuðum við þeim í tvær. Þar gefst félagsmönnum SÍM  tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið. Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestavinnu-stofunum þegar plássrúm leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

Skrifstofa SÍM
Á skrifstofu SÍM starfa nú fjórir starfskraftar í rúmum þremur stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM stýrir skrifstofunni að sinni alkunnu snilld og Þórólfur Árnason sem sér um bókhaldið. Hrafnhildur Sigurðardóttir sér um formennsku og Friðrik Weishappel sér um viðhald vinnustofuhúsa. Á skrifstofunni starfa Hildur Ýr Jónsdóttir, sem sér um gestavinnustofur SÍM, og tók hún við af Gunnhildi Þórðardóttur, sem lét af störfum og óskum við henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi. Arna Óttarsdóttir stýrir skrifstofu og afgreiðslu SÍM og heldur utan um félagsmenn.

Alþjóðlegt samstarf:

Fundur hjá IAA – International Artist Association
Samband íslenskra myndlistarmanna hefur frá upphafi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi ýmiskonar og er SÍM aðili að alþjóðasamtökunum myndlistarmanna IAA – International Artist Association sem stofnuð voru í skjóli Unesco árið 1954. Evrópudeild IAA fundar árlega og sátu formaður SÍM Hrafnhildur Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Ingibjörg Gunnlaugsdóttir fund samtakanna í Osló í byrjun október.

Reykjavík 7. febrúar 2014
Hrafnhildur Sigurðardóttir

 

Skýrsla AÍ – Starfsárið 2013

Starfsemi Arkitektafélags Íslands síðastliðið starfsár hefur verið fjölbreytt eins og lesa má í ársskýrslu stjórnar en hana má finna á vef félagsins www.ai.is . Þar er gerð grein fyrir starfsemi og rekstri félagsins, stiklað á stóru um nokkur helstu mál sem hafa verið til umfjöllunar stjórnar og starfshópa AÍ.

Félagsmenn í Arkitektafélagi Íslands eru 370  og þar af greiða 245 félagar árgjald.  Heiðursfélagar eru þrír.

Á síðasta aðalfundi Arkitektafélags Íslands, sem haldinn var 28. nóvember 2013 voru eftirfarandi fulltrúar kjörnir í stjórn:
Sigríður Ólafsdóttir, formaður
Hildur Gunnlaugsdóttir, gjaldkeri og varaformaður
Indró Indriði Candi, ritari

REKSTUR OG SKRIFSTOFA
Á skrifstofunni starfa framkvæmdastjóri AÍ, Hallmar Sigurðsson í hálfu starfi og gjaldkeri/ritari í 70% hlutastarfi.

Tekjustofnar félagsins eru félagsgjöldin og styrkir annars vegar og samkeppnir hins vegar. Tekjur af samkeppnum fer eftir umfangi og fjölda samkeppna og eru breytilegar á milli ára. Á árinu 2012 var samkeppnishald með því mesta sem það nokkurn tíma hefur verið og talsvert minna 2013.

ÚTGÁFA
Arfkitektafélag Íslands í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta gefur út tímaritið Arkitektúr – tímarit um umhverfishönnun. Á síðasta ári var gefið út eitt tölublað en þar var m.a. athyglinni beint að samkeppnum og samkeppnismálum.

FÉLAGSSTÖRF
Á vegum félagsins starfa 9 fastanefndir, auk þess starfa starfshópar um sérstök málefni sem unnið er að hverju sinni. Nefndirnar starfa með framkvæmdastjóra og í samráði við stjórn félagsins. Á síðasta aðalfundi var Jes Einar Þorsteinsson kjörinn heiðursfélagi AÍ.

HELSTU MÁLEFNI, ÁHERSLUR OG TÍÐINDI
Á undanförnu ári hefur Arkitektafélagið leitað ýmissa leiða til að styrkja stöðu sína og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Félagið hefur haldið áfram samstarfi við önnur fagfélög í byggingargeiranum og við Mannvirkjastofnun. Rætt var við umhverfis- og auðlindaráðherra og m.a. óskað eftir því að mannvirkjalög verði endurskoðuð. Rætt hefur verið um samruna eða samstarf við Félag Landslagsarkitekta og Samtök arkitektastofa,  og um aukið samstarf við systurfélög okkar á Norðurlöndum. Við höfum aukið samstarf við Hönnunarmiðstöð og deilum nú húsnæði með henni. Síðast en ekki síst og með hagsmuni félaga fyrir brjósti hefur AÍ sótt um aðild að BHM .

Í júní undirrituðu  AÍ og Mannvirkjastofnun viljayfirlýsingu um áframhaldandi samráð við úrbætur á byggingarreglugerð. Vinna við frekari endurbætur er nú hafin og það er von okkar að hún leiði til þess að lágmarkskröfur um algilda hönnun verði í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru á hinum Norðurlöndunum.

Þau merku tíðindi urðu á þessu ári að íslenskt mannvirki, Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík,hlaut hin virtu verðlaun Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist, kennd við Mies van der Rohe, fyrir árið 2013. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Barcelona þann 7. júní 2013.

 

Skýrsla FLÍ – Starfsárið 2013

Í stjórn FLÍ á starfsárinu sátu Jón Páll Eyjólfsson, formaður, Gunnar Gunnsteinsson, gjaldkeri og Kolbrún Halldórsdóttir, ritari, Varamenn í stjórn voru Rúnar Guðbrandsson, Agnar Jón Egilsson og Una Þorleifsdóttir.

 

Greiðandi félagar eru 50.  Stjórn fundar einu sinni í mánuði að jafnaði . Stjórn sér um daglega umsýslu félagsins og ritstjórn vefsíðu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að vefsíðan miðli vel upplýsingum til félaganna um ráðstefnur, fundi, vinnustofur og annað sem eflir þekkingu og fagvitund félagsmanna.

Meðal mála sem stjórn vann að  á árinu voru:

 • o Tillögur um fulltrúa FLÍ í nefndir, ráð og stjórnir utan félagsins.
 • o Tillögur að starfsáætlun 2013-2014 .
 • o Umsóknir nýrra félaga
 • o Tillögur að lagabreytingum
 • o Samninga viðræður við RÚV og LA
 • o Ný heimasíða og nýtt merki félagsins í smíðum og verður afhjúpað á komandi aðalfundi félagssins í maí.

Jón Páll Eyjólfsson
Formaður FLÍ

 

Page 10 of 38« First...89101112...2030...Last »