Óskað er eftir framboðum til stjórnar Listaháskóla Íslands.

Bakland Listaháskóla Íslands auglýsir eftir framboðum til stjórnar Listaháskóla Íslands. Bakland Listaháskóla Íslands skipar þrjá fulltrúa af fimm í stjórn Listaháskólans og kjörtímabil hvers stjórnarmanns er þrjú ár. Kosið er um eitt sæti stjórnarmanns og eins til vara ár hvert.

Stjórnin stendur vörð um hlutverk skólans og gætir þess að starfsemin þjóni settum markmiðum. Hún ber ábyrgð á rekstri, fjárhag, eignum og ákvarðar skólagjöld. Stjórnin ræður jafnframt í stöðu rektors. Stjórnarfundir eru að jafnaði mánaðarlega og er stjórnarsetan launuð.

Við ákvörðun um fulltrúa í stjórn LHÍ skal haft í hávegum að téðir fulltrúar skuli vera starfandi og/eða viðurkenndir lista- eða fræðimenn á fagsviðum LHÍ. Fulltrúar menningarstofnana og atvinnulífs eru jafnframt gjaldgengir til setu í stjórn LHÍ.

Æskilegt er að umsækjendur hafi reynslu af stjórnun eða stjórnarsetu.

Frambjóðendur skulu ekki hafa hagsmuni af rekstri skólans, sbr. skipulagsskrá Listaháskóla Íslands og starfsreglur stjórnar Listaháskóla Íslands. Að jafnaði skal ráð fyrir því gert, að stjórnarmenn sitji að hámarki tvö kjörtímabil í röð í stjórn LHÍ. Leitast skal við eins og kostur er að fulltrúar Baklandsins í stjórn LHÍ endurspegli fræðasvið skólans.

Framboð skulu berast á netfangið baklandsstjorn@lhi.is með upplýsingum um menntun og fyrri störf fyrir 20. apríl 2018

Núverandi stjórn skipa Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri miðlunar og markaða hjá Símanum, stjórnarformaður og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi sem skipuð eru af menntamálaráðherra og Halla Helgadóttir hönnuður, varaformaður, Rúnar Óskarsson, tónlistarmaður og Ólafur S. Gíslason myndlistamaður sem eru fulltrúar Baklandsins.

Kjörtímabili Höllu er að ljúka. Varamenn Baklandsins í stjórn eru Tinna Lind Gunnarsdóttir, leikkona, Þuríður Jónsdóttir, tónlistarmaður og Sindri Páll Sigurðsson, iðnhönnuður.