Þann 15. janúar sl. var aðildarfélögum BÍL sent boð um aðalfund BÍL 2018. Fundurinn verður haldinn laugardaginn 17. febrúar nk. í Iðnó og hefst kl. 11:00. Það er ákvörðun stjórnar að í þetta sinn skuli ekki haldið málþing í tengslum við fundinn heldur stefnt að málþingi um málefni höfunda- og flytjendaréttar í mars nk.

Dagskrá aðalfundarins verður sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
  3. Fundargerð síðasta aðalfundar
  4. Skýrsla forseta um starf BÍL 2017
  5. Ársreikningar 2017
  6. Lagabreytingar
  7. Kosning forseta
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  9. Starfsáætlun 2018
  10. Önnur mál

Stjórn BÍL leggur fyrir fundinn tillögur að lagabreytingum sem fylgja dagskrá þessari, en samkvæmt 10. gr. laga BÍL þarf að senda slíkar tillögur út með dagskrá og eigi síðar en tveimur vikum fyrir fundinn.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum Bandalagsins, sem eru aðgengileg á heimasíðunni. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag fer með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Þess er óskað að tilkynningar um fulltrúa með atkvæðisrétt séu sendar forseta a.m.k. viku fyrir fundinn. Til áréttingar þá eiga allir félagsmenn aðildarfélaganna rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að almennum félögum sé kynnt dagsetning og dagskrá fundarins með góðum fyrirvara og hann auglýstur á heimasíðum aðildarfélaganna.

Lagabreytingartillögur stjórnar eru eftirfarandi:

6. grein um aðalfund BÍL

2. mgr. 6. gr. laga BÍL er svohljóðandi:
Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. febrúar ár hvert, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

Tillaga að breyttri 2. mgr. 6. gr. er eftirfarandi:
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok febrúar ár hvert, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

6.mgr. 6. greinar laga BÍL er svohljóðandi:
Atkvæðisréttur aðildarfélaga er háður því að félag hafi greitt árstillag (sbr. 8. gr.) vegna nýliðins árs fyrir boðaðan aðalfund

Tillaga að breyttri 6. mgr. 6. greinar er eftirfarandi:
Atkvæðisréttur aðildarfélaga er háður því að félag hafi greitt árstillag starfsársins (sbr. 8. gr.) fyrir boðaðan aðalfund.

8. mgr. 6. gr. laga BÍL er svohljóðandi:
Hvert aðildarfélag skal skila skriflegri greinargerð um starfsemi sína og tilnefningu fulltrúa a.m.k. hálfum mánuði fyrir aðalfund, ásamt félagatali.

Tillaga að breyttri 8. mgr. 6. gr. laga BÍL í ljósi breyttra starfshátta:
Viku fyrir aðalfund tilnefnir hvert aðildarfélag atkvæðisbæra fulltrúa til setu á aðalfundi.

10. mg. 6. gr. laga BÍL er svohljóðandi:
Á aðalfundi skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar BÍL, ásamt skýrslum formanna og forseta um starfið á liðnu ári.

Tillaga að breyttri 10. mg. 6. gr. laga BÍL er eftirfarandi:
Á aðalfundi skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar BÍL og skýrsla forseta um starfið á liðnu ári.

6. grein breytt mun því hljóða svo:
Aðalfundur BÍL fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum BÍL.
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok febrúar ár hvert, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.
Aðalfund skal boða skriflega með a.m.k. mánaðar fyrirvara og dagskrá skal send út eigi síðar en tveim vikum fyrir boðaðan aðalfund.
Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði.
Þegar um sambandsfélög er að ræða, geta þau auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan síns sambands.
Atkvæðisréttur aðildarfélaga er háður því að félag hafi greitt árstillag starfsársins (sbr. 8. gr.) fyrir boðaðan aðalfund.
Allir félagsmenn aðildarfélaganna hafa rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt.
Viku fyrir aðalfund tilnefnir hvert aðildarfélag atkvæðisbæra fulltrúa til setu á aðalfundi.
Tillögur að lagabreytingum skulu berast stjórn a.m.k. þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.
Á aðalfundi skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar BÍL og skýrsla forseta um starfið á liðnu ári.
Þá leggur stjórnin fyrir aðalfund tillögu að starfsáætlun BÍL fyrir næsta starfsár og ályktanir til samþykktar.
Forseti og tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn.
Forseti skal kosinn sérstaklega, bundinni kosningu og skal tillaga að forsetaefni berast stjórn a.m.k. viku fyrir boðaðan aðalfund.
Fái enginn hreinan meirihluta greiddra atkvæða, skal kjósa aftur milli þeirra sem flest atkvæði hlutu.
Kosningin skal vera skrifleg.
Aðalfundur telst löglegur, ef löglega er til hans boðað og að minnsta kosti helmingur aðildarfélaganna sendir fulltrúa á fundinn.

7. grein um stjórn BÍL

Ný mgr. bætist við 7. gr og verður 11. mgr.:
Hver stjórnarmaður skilar árlega greinargerð um starfsemi síns félags til birtingar á heimasíðu BÍL.

7. grein breytt mun því hljóða svo:
Stjórnin starfar í umboði aðildarfélaganna og fer með öll sameiginleg mál.
Forseti boðar til og stjórnar almennum stjórnarfundum og leggur fyrir þau mál, sem ræða skal.
Almennir stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. fjórum sinnum á ári.
Stjórnin kýs ritara og gjaldkera, en að öðru leyti skiptir hún með sér verkum.
Stjórn hefur heimild til að ráða sérstakan framkvæmdastjóra og skal hún þá setja honum starfsreglur.
Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins og er henni heimilt að leggja út í hvern þann kostnað sem þurfa þykir á hverjum tíma, og fjárhagur BÍL leyfir.
Forseti kemur fram fyrir hönd BÍL út á við og gagnvart stjórnvöldum.
Forseti getur tilnefnt hvern, sem er úr stjórn sem sinn staðgengil og til að sinna einstökum málum, að fengnu samþykki stjórnar.
Geti stjórnarmaður ekki sótt stjórnarfund skal hann boða varamann í sinn stað.
Ef tveir eða fleiri stjórnarmenn fara fram á almennan stjórnarfund og tilgreina ástæðu, skal forseti boða hann svo fljótt sem við verður komið.
Hver stjórnarmaður skilar árlega greinargerð um starfsemi síns félags til birtingar á heimasíðu BÍL.

8. grein um árstillag aðildarfélaga

8.gr. er núna svona:
Sérhverju aðildarfélagi ber að innheimta hjá félagsmönnum árstillag, sem nemur kr. 450.- m.v. verðlag í janúar 2014, til sameiginlegrar starfsemi BÍL. Árstillagið tekur breytingum m.v. vísitölu neysluverðs.

Tillaga að breyttri 8. grein:
Sérhverju aðildarfélagi ber að innheimta hjá greiðandi félagsmönnum árstillag, sem nemur kr. 500.- m.v. verðlag í janúar 2018, til sameiginlegrar starfsemi BÍL. Árstillagið tekur breytingum m.v. vísitölu neysluverðs.

8. grein breytt mun því hljóða svo:
Sérhverju aðildarfélagi ber að innheimta hjá greiðandi félagsmönnum árstillag, sem nemur kr. 500.- m.v. verðlag í janúar 2018, til sameiginlegrar starfsemi BÍL. Árstillagið tekur breytingum m.v. vísitölu neysluverðs.