Bandalag íslenskra listamanna skorar á menningar- og viðskiptaráðherra, fjármála- og
efnahagsráðherra og Alþingi að draga til baka fyrirhugaðan niðurskurð á framangreindum
menningarsjóðum. Heildarskerðing á sviði menningarmála milli áranna 2024 til 2025 nemur
365,4 milljónum króna. Bandalag íslenskra listamanna vill koma á framfæri að ef þessi þróun
verður að veruleika mun það hafa neikvæðar afleiðingar á starfsumhverfi listamanna til
frambúðar. Umræddum menningarsjóðum er ætlað að styðja við frumsköpun sem er kjarni
alls menningarstarfs.
Þann 4. október sl. kom út skýrsla menningar- og viðskiptaráðherra um verðmætasköpun
skapandi greina. Í skýrslunni kemur m.a. fram að opinber fjárfesting einnar krónu í menningu
og skapandi greinum verður að þremur krónum í hagkerfinu. Einnig kemur fram í skýrslunni
að það þurfi að líta á menningu og skapandi greinar sem efnahagslega, samfélagslega og
félagslega fjárfestingu fyrir framtíðina en ekki sem kostnað líðandi stundar. Mikilvægt er að
viðurkenna hagræna þýðingu menningar og skapandi greina og stjórnvöld þurfa að búa til
hagfellt umhverfi sem hvetur til þróunar og aukinna umsvifa menningar og skapandi greina.
Menning, listir og sköpun hafa að sjálfsögðu einnig gildi í sjálfu sér og mikilvægi þeirra þátta
fyrir félagslega samheldni, þekkingarleit, ögrun, nýsköpun, vellíðan og hamingju verða seint
metin til fulls.
Kvikmyndasjóður
Kvikmyndasjóður Íslands er eina opinbera stofnunin hér á landi sem markað er sérstakt
hlutverk á sviði kvikmyndagerðarlistar. Sjóðurinn var stofnaður árið 1979 og er skilgreint
hlutverk hans að styðja við íslenska kvikmyndaframleiðslu, þróun íslenskrar kvikmyndamenningar
og að kynna íslenskar kvikmyndir erlendis. Að auki sér Kvikmyndasjóður um
starfsemi Kvikmyndasafns Íslands sem einnig gegnir mikilvægu hlutverki á sviði skráningar, varðveislu, rannsókna og uppfræðslu um kvikmyndaarf okkar.
Árið 2020 var samþykkt á Alþingi ný kvikmyndastefna til ársins 2030 og er markmið hennar
að skapa auðuga kvikmyndamenningu, sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar og eflir íslenska
tungu, bjóða fjölbreyttari og metnaðarfyllri kvikmyndamenntun, styrkja samkeppnisstöðu
greinarinnar og að Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvikmyndagerðar. Með
henni fylgir aðgerðaráætlun og þar kemur fram að það á að styrkja sjóðakerfið sem styður
við fjölbreyttari kvikmyndaverk með því að efla Kvikmyndasjóð og stofna nýjan fjárfestingarsjóð
fyrir sjónvarpsefni.
* Niðurskurður Kvikmyndasjóð á milli áranna 2024 og 2025 nemur 8,2%.
* Niðurskurður frá árinu 2021 er 49,8% og ef við tökum viðbætur 2021 og 2022 vegna Covid frá er niðurskurður á milli áranna 2021 og 2025 27,3%.
Ef ekki verða gerðar breytingar á frumvarpinu mun Kvikmyndasjóður árið 2025 verða
helmingur af því sem hann var árið 2021 á núvirði. Mikilvægt er að benda á að efni sem er
framleitt með stuðningi Kvikmyndasjóðs er á íslensku og að meðaltali er opinber stuðningur
við íslenska kvikmynd innan við 40%. Það sem eftir stendur kemur frá forsölu, fjárfestum,
erlendum sjóðum og erlendum samframleiðendum. Vilyrði um fjárfestingu í Kvikmyndasjóð
er hins vegar forsenda þess að aðrir aðilar fjárfesti í verkefninu, sérstaklega þegar kemur að
erlendum kvikmyndasjóðum og samframleiðendum. Ef niðurskurður ríkisins raungerist mun það leiða til þess að störfum í greininni fækkar, nýliðun skapandi starfa í greininni munu vera í mikilli hættu og ljóst er að íslensk menning á íslensku og væntingar um aukna framleiðslu á gæða barnaefni muni hverfa.
Bandalag íslenskra listamanna telur mikilvægt að Alþingi leiðrétti framlag til Kvikmyndasjóðs í
fjárlagafrumvarpinu og að hann verði að lágmarki 1.522 milljónir króna að núvirði og að 400
milljónum króna verði bætt við í sjónvarpssjóðinn svo hægt sé að fylgja aðgerðaráætluninni
sem fylgdi kvikmyndastefnunni.
Bókasafnssjóður höfunda
Hlutverk Bókasafnssjóð höfunda er að styrkja við bókmenningu á Íslandi með því að umbuna
höfundum vegna útlána þeirra á bókasöfnum.
* Niðurskurður Bókasafnssjóðs á milli áranna 2024 og 2025 er 22,8%.
Bókasafnssjóður höfunda greiðir höfundum og þýðendum fyrir hvert útlán á bókasafni. Þeir
höfundar sem fá hæstar greiðslur úr bókasafnssjóði fá fæstir listamannalaun. Niðurskurður á
Bókasafnssjóði höfunda hefur þess vegna mest áhrif á barnabókahöfunda, þýðendur og
höfunda afþreyingarbókmennta en sjóðurinn er mikilvægur í tekjumyndun þeirra.
Bandalag íslenskra listamanna telur mikilvægt að leiðrétta framlag til sjóðsins og að hann
haldist óbreyttur að viðbættum verðbótum eða nær 200 milljónum króna.
Sviðslistasjóður
Hlutverk sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og standa straum af öðrum verkefnum
sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til
atvinnuleikhópa.
* Niðurskurður vegna starfsemi atvinnuleikhópa á milli áranna 2024 og 2025 er 20,7%.
Bandalag íslenskra listamanna telur mikilvægt að leiðrétta framlag til sjóðsins og hann haldist
óbreyttur frá árinu 2023 að viðbættum verðbótum eða nær 130.000.000 kr.
Myndlistarsjóður
Myndlistarsjóður var stofnaður árið 2013. Hlutverk myndlistarsjóðs er að efla íslenska
myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu
og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Í myndlistarstefnunni er gert ráð fyrir að sjóðurinn
hækki a.m.k. um 5% árlega. Það er mikilvægt að sjóðurinn haldi áfram að stækka og að þær
aðgerðir sem kveðið er á um í myndlistarstefnu verði fjármagnaðar að fullu.
*Niðurskurður Myndlistasjóðs á milli áranna 2024 og 2025 er 17,6%.
Bandalag íslenskra listamanna telur mikilvægt að leiðrétta framlag til sjóðsins og hann aukist
um 5% og að auki viðbættum verðbótum og verði nær 120 milljónum króna.
Listamannalaun
Bandalag íslenskra listamanna telur nauðsynlegt að uppfæra þá fjárhæð sem liggur til grundvallar
starfslaunum listamanna. Upphæðin hefur rýrnað verulega í samanburði við
launaþróun á undanförnum árum. Á árunum 2011-2024 hækkuðu starfslaun listamanna um
96% meðan launavísitalan hækkaði um 160%. Hefðu starfslaun ársins 2011 verið verðtryggð
með þróun launavísitölu væri upphæð þeirra 32% hærri en nú eða kr. 713.000. BÍL bendir á
að sem stendur er mánaðarleg fjárhæð listamannalauna töluvert lægri en reiknað endurgjald
skattsins fyrir vinnu listafólks.
Að lokum vill Bandalag íslenskra listamanna benda á að eðlilegra væri að framlög til
menningar og lista væru ekki sett í sama flokk og framlög til íþrótta- og æskulýðsmála í
fjárlagafrumvörpum. Út frá málefnaflokkum og skyldleikum við aðra starfsemi er eðlilegra að
sameina framlög til menningar og lista með öðrum skapandi greinum. Sú framsetning styður
betur við málefnaskiptingu stjórnarráðsins, sem meðal annars hlýtur stuðning af framangreindri
skýrslu menningar- og viðskiptaráðherra. BÍL óskar eftir að framvegis verði gerðar
breytingar á framsetningu umræddra liða í fjárlagafrumvörpum stjórnarráðsins.