Ágæti ritstjóri,
Á Íslandi er og hefur verið öflugt menningarstarf. Fjöldi tónleika, leiksýninga, myndlistarsýninga og útgáfu hvers kyns menningarefnis er mun blómlegra en höfðatala landsins segir til um. Allt er þó hverfult.
Íslensk menning hefur aldrei staðið í harðari samkeppni við aðra möguleika til afþreyingar og nú. Þá hefur menningarstarf ekki náð sér á strik eftir heimsfaraldurinn og aðsókn á t.a.m. tónleika er aðeins um 60-70% af því sem var áður, svo dæmi sé nefnt. Vegna þessa hefur menningarumfjöllun aldrei verið mikilvægari. Minni umfjöllun verður til þess að færri sækja menningarviðburði, kaupa bækur eða njóta menningar á annan hátt.
Á síðustu árum hefur umfjöllun um menningu og listir dalað nokkuð frá því sem verið hefur. Fækkun hefðbundinna fjölmiðla hefur haft þau áhrif að verulega hefur dregið úr umfangi menningarumfjöllunar og að faglega sé að henni staðið. Við hjá BÍL og aðildarfélögum bandalagsins teljum hins vegar að í samfélaginu sé mikill áhugi og að eftirspurn sé eftir vönduðu og fjölbreyttu menningarefni í fjölmiðlum og fjölmörg tækifæri til þess að gera betur á þeim vettvangi.
Listir og menning fela í sér leið til að upplifa veröldina frá nýjum sjónarhornum. Umfjöllun um menningu og listir getur kennt fólki að meta listsköpun og gildi listaverka. Umfjöllun er þannig mikilvægur hluti af menningarstarfinu því samtal um listaverk og gildi þess eru hluti af verkinu sjálfu. Menning sem ekki fær umfjöllun er týnd menning og á ekki í samtali við neitt.
Rétt eins og jurtir þurfa vökvun og umhyggju til að blómstra þurfa listir og menning umfjöllun til að dafna.
Því viljum við, stjórn Bandalags íslenskra listamanna, hvetja þig og þann fjölmiðil sem þú stýrir til að sinna menningarumfjöllun á faglegan hátt í vetur í meira mæli. Við viljum líka vekja athygli á að ávalt má leita ráðgjafar hjá BÍL og einstökum aðildarfélögum.