Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna lýsir yfir stuðningi við SÍM Residency og skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir því í samstarfi víð Samband íslenskra myndlistarmanna að starfssemin fái varanlegt húsnæði. Mikilvægt er að undirstrika að SÍM Residency hýsir alþjóðlega listamenn úr öllum áttum og listgreinum: arkitekta, dansara, danshöfunda, sviðshöfunda, hönnuði, rithöfunda, lagahöfunda, sýningarstjóra, myndlistarmenn, kvikmyndaleikstjóra, leikara og rannsakendur.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að taka höndum saman við SÍM við að finna nýtt húsnæði undir gestavinnustofur og laga það að núverandi þörfum alþjóðlegra höfunda.
Gestavinnustofurnar eru staðsettar á tveimur stöðum í Reykjavík; á Seljavegi og á Korpúlfsstöðum. Seljavegur hefur alltaf verið mikilvægt aðsetur listamanna þar sem staðsetningin er nauðsynleg fyrir alþjóðlega listamenn í að ná öflugra samstarfi við samfélagið, listamiðstöðvar og söfn, ásamt því að eiga greiðan aðgang að bókasafni og rannsóknarmiðstöðvum. Í ár er síðasta starfsár gestaíbúðarinnar á Seljavegi, en loka þarf íbúðinni í desember 2024.
Mikilvægt er að SÍM residency geti þróast í takt við tímann, og að starfseminni sé tryggður örugg húsnæðisaðstaða og rekstrargrundvöllur.
Til þess að SÍM Residency standi undir nafni sem alþjóðlegar vinnustofur í Ryeykjavík þarf
- Húsnæði miðsvæðis í Reykjavík sem gæti hýst allt að 20 alþjóðlega listamenn samtímis.
- Húsnæði sem ekki aðeins nýtist sem aðsetur fyrir alþjóðlega listamenn, heldur einnig vinnuaðstaða og vinnustofurými, miðstöð þar sem samfélaginu á staðnum er boðið að taka þátt og upplifa skapandi starfsemi með ýmsum viðburðum, vinnustofum, fyrirlestrum o.s.frv.
- – Fjárhagsstuðningur til að reka gestaíbúðina, standa straum af húsnæðiskostnaði og laun starfsmanna sem taka þátt í að móta og leiða starfssemina