Bandalag íslenskra listamanna lýsir yfir eindregnum stuðningi við frumvarp til laga um breytingu á lögum um sviðslistir, sem felur í sér stofnun Þjóðaróperu. BÍL fagnar því fréttatilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, dags. 13. júní sl., um að frumvarpið verði lagt fram að nýju á komandi haustþingi og að starfsemi Þjóðaróperu sé að fullu fjármögnuð fyrir árið 2025.
BÍL ítrekar þá afstöðu sem kom fram í umsögn BÍL við meðferð málsins á Alþingi að lagafrumvarpið er mikilvægt skref í átt að mótun sviðlistastofnunar sem sameina mun þrjár greinar sviðslista: leiklist, dans og óperu. BÍL styður þá framtíðarsýn og hefur Menningar- og viðskiptaráðuneyti unnið faglega með öllum fagfélögum sviðslista við gerð frumvarpsins sem felur í sér stofnun Þjóðaróperu.
BÍL bindur miklar vonir við að frumvarpið verði að veruleika á haustþingi og muni þar af leiðandi styrkja íslenska óperulist í sessi sem eina af grunnstoðum menningar á Íslandi.