Bandalag íslenskra listamanna (BÍL) varar við þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum árum er kemur að rekstri tónlistarskóla í Reykjavíkurborg. Þörf er á viðsnúningi og viðspyrnu til að styrkja stöðu skólanna.
Á undanförnum árum hafa talsverðar breytingar orðið vegna reksturs tónlistarskóla í Reykjavíkurborg. Vegna aðhalds- og niðurskurðarkrafna hafa aldurstakmörk verið sett á nemendur tónlistarskóla í Reykjavík. Fyrir utan að vekja upp spurningar um jafnræðisreglur hefur þessi aðgerð þegar haft áhrif á fjölda nemenda í skólum. Jafnframt vakna upp frekari spurningar vegna þessara aðgerða, bæði um aðsókn í viðkomandi skóla í náinni framtíð og rekstrargrundvöll þeirra. Mikilvægt er að þeim spurningum sé svarað og það rætt fyrir opnum tjöldum hvort stefnubreyting hafi orðið um rekstur tónlistarskóla í Reykjavík. Að mati BÍL þarf slík umræða meðal annars að taka mið af Menningarstefnu Reykjavíkurborgar, þar sem eitt af markmiðunum er að árið 2030 hafi allir íbúar jöfn tækifæri til þess að njóta lista, menningar og menningararfs bæði sem þátttakendur og neytendur. Lista- og menningarlíf borgarinnar á ekki að vera einsleitt heldur endurspegla hið fjölbreytta mannlíf borgarinnar.
Að mati BÍL er jafnframt ljóst að á undanförnum árum hefur verið gripið til aðgerða sem hafa þrengt að grunnnámi í tónlistarkennslu hér á landi. Til að styrkja stöðu tónlistarskóla og tónlistarkennslu innan Reykjavíkur telur BÍL þörf á að auka framlög til tónlistarkennslu almennt og aukna samhæfingu milli ríkis og Reykjavíkurborgar. Tilfærsla á kennslukvóta milli skóla án aukinna framlaga vegna fjölgunar nemenda hefur þegar þrengt að starfsumhverfi nokkurra skóla í Reykjavíkurborg. Þetta sýnir sig meðal annars í fækkun tónmenntakennara í grunnskólum í höfuðborginni. Á sama tíma hefur skipting kostnaðar milli ríkis og borgar vegna tónlistarnáms þróast með óæskilegum hætti. Þannig hefur framlag frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem er ætlað að styðja við hljóðfæranemendur í framhaldsnámi og söngnemendur í mið- og framhaldsnámi, staðið í stað. Fjárhæðir hafa haldist óbreyttar um nokkurra ára skeið þrátt fyrir kjarahækkanir og að nemendum á efri stigum í borginni sem og á landsvísu hafi fjölgað.
Verði ekki við þessu brugðist stefnir í óefni. Tónlistarkennslan er undirstaða tónlistar, eins mikilvægasta hluta menningar hér á landi, rétt eins og almenna skólakerfið er undirstaða þjóðfélagsins. Því er að mati BÍL þörf á viðspyrnu í þessum málaflokki, til að styrkja stöðu tónlistarskólanna. Ísland hefur búið að öflugu tónlistarstarfi og frábærri tónlistarkennslu á undanförnum áratugum. Það starf hefur aukið hróður þjóðarinnar langt út fyrir landsteinana.
Það er ein af skyldum þjóðfélags sem býr við hagsæld að leggja rækt við menningu og listir. Það segir ýmislegt, ekki bara um ríkidæmi í samfélagi, heldur menningarstig þess. Að mati BÍL er óbreytt ástand óviðunandi. Við þessu þarf að bregðast, þetta þarf einfaldlega að laga. Hér er verk að vinna og BÍL er reiðubúið að vinna að umbótum með borginni og viðeigandi fagfélögum BÍL.