Ágúst Guðmundsson:

 

Heiðurslaun listamanna eiga sér undarlega sögu. Sú saga heldur áfram að vera undarleg á meðan þau mál eru eingöngu í höndum stjórnmálamanna. Í vali sínu á topplistamönnum hafa þeir átt erfitt með að víkja úr skotgröfum flokkspólitíkur. Í rauninni er það ofureðlilegt, starf þeirra felst í að sjá veröldina út frá stefnu síns flokks. Daglega standa alþingismenn í stappi við andstæðingana, eru daglega felldir til þess eins að rísa aftur á lappirnar daginn eftir til að berjast meira, eins og einherjar í Valhöll.

Í flokki listamanna sem hljóta heiðurslaunin eru nú 28. Voru 30 í fyrra. Erfitt er að sönnu að fylla það skarð sem stórsöngvararnir sem létust á árinu skildu eftir sig, en ég get ekki samþykkt að ekki sé hægt að finna tvo núlifandi listamenn sem eigi skilinn þann heiður að vera í þessum hópi. Ég gæti talið upp tuttugu og tvo og raunar talsvert fleiri, ef það hefði eitthvað upp á sig. – Ég legg áherslu á heiðurinn, peningaupphæðin er ekki há. Ætli árslaunin séu ekki rúmleg mánaðargreiðsla til eftirlauna ráðherra? Með því vil ég þó ekki segja að upphæðin skipti ekki máli. Flestir heiðurslistamannanna eru tekjulítið fólk sem munar verulega um þessa fjárhæð.

Þessi afgreiðsla er Alþingi náttúrulega til skammar. Þó að ég sé ekki alltaf sammála vali alþingismanna á heiðurslistamönnum, get ég þó fullyrt að allir sem til þess hafa valist hafi til þess unnið og vel það. Minn listi hefði litið öðruvísi út, listi ykkar, lesendur góðir, væntanlega líka. Um það skal ekki deilt, heldur horft á meginmálið hér: sköpunarstarf listamanna er almennt mjög illa launað, sama hvaða listgrein þeir stunda. Það er eðlilegt að þjóðfélagið finni leiðir til að greiða fyrir þau störf, hvort sem er í starfslaunum fyrir margvísleg verkefni eða í heiðurslaunum fyrir vel unnin störf. Og þau heiðurslaun ættu faglegir aðilar að fjalla um, ekki amatörar á Alþingi.

Ennþá hefur Alþingi ekki fundið aðra leið til að umbuna öldnum listamönnum þessa lands en að veita nokkrum þeirra heiðurslaun. Eftirlaun listamanna eru ekki til. Eftirlaun alþingismanna eru hins vegar til, um það vitum við öll.

Enda er auðvelt að sjá vandamálin sem eru næst manni í skotgröfunum.

Um daginn kom fram menntastefna og var af mörgum vel tekið. Nú má öllum vera ljós þörfin á að fram komi menningarstefna, þar sem stjórnvöld lýsi því hvernig hlúð verði að listum og menningu þessa lands. Afgreiðsla Alþingis á heiðurslistamönnum er skýrt dæmi um stefnuleysið í þessum efnum og því miður eitthvað sem sælasta þjóð heims ætti að haga á allt annan og stórmannlegri veg.

 

(Birtist í Morgunblaðinu í desember 2007)