Útflutningsráð Íslands í samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna stóð fimmtudaginn, 14. febrúar, fyrir fundi undir yfirskriftinni „Út vil ek – er íslensk list í útrás?”. Meðal þeirra málefna sem tekin voru fyrir á fundinum var möguleikinn á því að stefna viðskipta- og listalífi betur saman til að mynda hagstæð útrásartækifæri, enda er það skoðun fróðra manna að hvorugt geti án annars verið. Málþingið stóð frá kl. 15-17.

Framsögumaður á fundinum var frú Darriann Riber sem er ráðgjafi á alþjóðasviði listastofnunar danska ríkisins, en svið hennar vinnur markvisst að því að koma danskri list á framfæri í öðrum löndum. Sjá nánar um starfsemina á www.kunst.dk .

Þá fluttu einnig stutt erindi Einar Bárðarson tónlistarfrömuður, Tinna Gunnlaugsdóttir Þjóðleikhússtjóri, Kristján Björn Þórðarson myndlistarmaður, Halldór Guðmundsson bókaútgefandi og rithöfundur ásamt fulltrúa frá viðskiptalífinu. Að erindum loknum voru pallborðsumræður.

Fundurinn fór fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 6. hæð. Að fundi loknum var boðið upp á léttar veitingar. Fundarstjóri var Jón Karl Helgason, en einnig talaði Bergur Ebbi Benediktsson verkefnisstjóri hjá Útflutningsráði.