Útflutningsráð sendi frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu:

Yfir hundrað manns mættu á „Út vil ek“ málþing Útflutningsráðs og Bandalags íslenskra listamanna sem fjallaði um útrás íslenskra lista. Sýnir þessi áhugi, svo ekki verði um villst, að mikill hugur er í íslenskum listamönnum til að koma list sinni á framfæri í öðrum löndum.

Megin umræðuefni fundarins var hvernig hægt sé að gera íslenska list að útflutningsgrein sem skila myndi áþreifanlegum fjárhagslegum hagnaði. Darriann Riber ráðgjafi hjá alþjóðasviði dönsku listastofnunarinnar flutti erindi um málið og benti á hvernig málum er háttað í Danmörku. Hún vakti athygli á því að til þess að gera list að útflutningsgrein þurfi ávallt að koma til styrkir, bæði frá hinu opinbera og einkaaðilum, en styrkveitingar þurfi að vera markvissar og háðar ákveðnu skipulagi. Ljóst var af máli frú Riber að danskir listamenn virðast búa við skipulagðara umhverfi þegar kemur að opinberum styrkjum og samhæfðum aðgerðum.

Í kjölfar erindisins fjallaði Einar Bárðarson tónlistarfrömuður um reynslu sína af því að fá fjárfesta til að setja peninga í listaútrásarverkefni. Hefur Einar náð að safna miklu fé fyrir verkefni sitt sem snýr að útgáfu og kynningu á Garðari Thor Cortes söngvara í Bretlandi. Þá fór Halldór Guðmundsson bókaútgefandi og rithöfundur yfir mál sem snúa að kynningu og sölu á íslenskum bókum í útlöndum, og benti hann réttilega á að íslenskar bækur séu í mikilli sókn á erlendum mörkuðum nú, en ákveðinn ládeyða ríkti í þeim efnum allt frá lokum seinna stríðs og fram á 8. og 9. áratuginn.

Kristján Björn Þórðarson myndlistarmaður flutti einnig stutta tölu um reynslu sína af rekstri gallerís og listasmiðju og um þátttöku einkaaðila í því verkefni. Nefndi hann að varla sé hægt að finna betri kynningu fyrir stórfyrirtæki heldur en að veita listalífi drjúga styrki. Þá fór Tinna Gunnlaugsdóttir yfir það helsta sem Þjóðleikhúsið mun taka sér fyrir hendur á erlendri grund og um möguleika og takmarkanir á útflutningi íslenskra leiksýninga.

Í kjölfar þessara innslaga brutust svo fram umræður meðal fundargesta um takmörk og leiðir fyrir íslenska list í hinum stóra heimi. Voru flestir sammála því að þrátt fyrir að mikið og gott starf sé unnið vanti hugsanlega upp á markmiðasetningu til lengri tíma og hnitmiðaðra og heildrænna skipulag þegar kemur að styrkveitingum og aðkomu stórra fyrirtæka.