Ágúst Guðmundsson:

 

Það merkilegasta við samning Ríkisútvarpsins við Ólafsfell um leikið sjónvarpsefni er sá metnaður sem þar kemur fram. “Samingsaðilar eru sammála um að beita sér fyrir því að sjónvarpsefni sem framleitt er fái sem mesta og breiðasta kynningu og sölu erlendis”. Hér á ekki eingöngu að framleiða efni fyrir íslensk augu ein og sér, heldur felst í þessu hugur til útrásar.

Nú hefur Sjónvarpið ekki beinlínis verið að framleiða leikið efni í stórum stíl – sum undanfarin ár hefur Spaugstofan og Stundin okkar verið nánast eina leikna innlenda efnið þar á bæ. Árum saman hefur stofnunin sniðgengið það hlutverk sitt að vinna leikið sjónvarpsefni, en ætlar nú að taka stórt stökk til að framleiða seríur sem ætlað er að heilla fólk í öðrum löndum. Eina til tvær á ári, samkvæmt samningnum.

Gagnvart Ólafsfelli er þetta náttúrulega alls ekkert spaug. Fyrirtækið gengur vafalaust að samningnum af bjartsýni og trú á íslenska sköpunargáfu, og framlag þess er þakkarvert. Hvernig Sjónvarpið ætlar hins vegar að uppfylla samninginn fyrir þá peninga sem í boði eru, 200-300 milljónir króna yfir þriggja ára tímabil – það er stóra spurningin.

Ríkisútvarpið hefur einnig gert samstarfssamning við Menntamálaráðuneytið og lofar auk margs annars að “hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi”, ennfremur “að vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð”. Settur hefur verið á stofn sérstakur Sjónvarpssjóður þessu til fulltingis, og þar opnast auðvitað ýmsir kostir, en takmarkaðir þó Til að framleiða vandað sjónvarpsefni sem jafnast á við það sem í boði er á alþjóðlegum markaði þarf ekki lægri upphæðir en þær sem fara í íslenskar bíómyndir. Að reyna að stytta sér leið í gegnum fjárhagsáætlanirnar kemur einfaldlega niður á gæðunum.

Metnaðurinn er hins vegar af hinu góða. Það er jákvætt að Ríkisútvarpið ætli sér loksins að rétta úr kútnum og fara að sinna leiknum sjónvarpsmyndum. Það virðist hugur í mönnum, þeir ætla sér eitthvað stórt og magnað, og þá er ekki nema sjálfsagt að veita þeim stuðning og leita með þeim leiða að markmiðunum.

Eðlilegt er að líta til nágrannaþjóðanna, einkum Dana, en frammistaða þeirra hefur vakið athygli víða um lönd. Þeim hefur líka auðnast að koma upp hópi atvinnufólks á öllum sviðum kvikmyndagerðar, einkum er áberandi hve vel hefur tekist til með handrit og framleiðslu.

Sjónvarpið gæti líka lært ýmislegt af þeim sem standa að íslenskum bíómyndum, en þær hafa oft ratað út fyrir landsteinana. Tilvalið væri að byrja á víðtækri hugmyndavinnu með þeim sem mestum árangri hafa náð á því sviði. Í samningnum við Menntamálaráðuneytið er beinlínis gert ráð fyrir auknu samstarfi við sjálfstæð kvikmyndafyrirtæki.

Athyglisvert er að í þessum tilltölulega gagnorða samningi skuli sérstaklega minnst á “frumkvæði” – sem ætti raunar að vera of sjálfsagt til að nefna það. Sjónvarpið á einmitt að sýna frumkvæði. Þar á að taka til framleiðslu og sýningar þau verkefni sem fýsilegust þykja, ekki bara þau sem aðrir borga fyrir með einum eða öðrum hætti. En til þess að það takist þarf Ríkisútvarpið að seilast í eigin vasa og finna þar verulegt fjármagn í dagskrárgerðina – til viðbótar við það sem fæst annars staðar.

Einungis þannig verður staðið við báða ofangreinda samning og útkoman í samræmi við metnaðinn.

 

Birtist í Morgunblaðinu í janúar 2008