Þær fréttir bárust frá Alþingi að ekki stæði til að skipa nýja heiðurslaunahafa í stað þeirra tveggja sem létust á árinu, en það voru söngvararnir Guðmundur Jónsson og Kristinn Hallsson. Bandalagið brást skjótt við og útkoman varð meðfylgjandi áskorun til alþingis.
Áskorun frá Bandalagi íslenskra listamanna
Stjórn Bandalags íslenskra listamanna lýsir yfir undrun og vanþóknun á þeirri ákvörðun menntamálanefndar alþingis aþ fækka heiðurslistamönnum um tvo. Þetta gerist þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og tilmæli listamanna um brýna fjölgun, bæði í samtölum við nefndarmenn svo og áskorunum sem nefndinni hafa borist frá samtökum listamanna. Það er til hróplegs vansa hvernig meirihluti menntamálanefndar alþingis kýs ítrekað að sniðganga listamenn sem eru við lok sinnar starfsævi og hafa lagt drjúgan skerf af mörkum til íslenskrar menningar.
Um leið og við mótmælum þessum vinnubrögðum förum við þess á leit við alþingi og þá sérstaklega menntamálanefnd, að málið verði tekið til nýrrar skoðunar.
Fyrir hönd stjórnar BÍL
Ágúst Guðmundsson