Fréttir

Aðalfundur BÍL haldinn í Iðnó  13. febrúar 2016

Þann 12. janúar sl. var aðildarfélögum BÍL sent boð um aðalfund BÍL 2016. Fundurinn verður haldinn laugardaginn 13. febrúar nk. í Iðnó og hefst kl. 13:00.  Í samræmi við ákvörðun stjórnar BÍL verður málþinginu, sem síðustu ár hefur verið haldið í tengslum við aðalfundinn, frestað fram í mars og verður boðað til þess sérstaklega. Ráðgert er að það muni fjalla um málefni tengd höfundarrétti.

Dagskrá aðalfundarins verður sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritaraLögmæti fundarins kannað og staðfes
 2. Fundargerð síðasta aðalfundar
 3. Skýrsla forseta um starf BÍL 2015
 4. Ársreikningar 2015
 5. Kosning forseta
 6. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 7. Starfsáætlun 2016
 8. Önnur mál
 9. Erindi um höfundarrétt

Í lok fundarins er gert ráð fyrir að fundarmenn fái kynningu á lagafrumvörpum þeim sem liggja fyrir Alþingi um þessar mundir og fjalla um höfundarrétt. Meiningin er að slík innsýn geti verið gagnlegur undirbúningur undir málþing BÍL um höfundarrétt, sem nefnt er í inngangi þessa fundarboðs.

Ekki liggja neinar tillögur að lagabreytingum fyrir fundinum og samkvæmt 10. gr. laga BÍL þarf að senda út með fundarboði veigamiklar tillögur, sem bera á undir atkvæði á fundinum. Engar slíkar tillögur hafa borist stjórn og því ekki gert ráð fyrir dagskrárliðnum „ályktanir“.  Annað hvert ár fer fram á aðalfundi kosning forseta Bandalagsins auk þess sem þá eru kjörnir skoðunarmenn reikninga.  Framboð/tillögur til þessara embætta þurfa að hafa borist stjórn eigi síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund.

Um aðalfund fer skv. lögum BÍL, sem eru aðgengileg á heimasíðu BÍL. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa með atkvæðisrétt til setu á fundinum, þannig að hvert aðildarfélag fer með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Samkvæmt lögum BÍL ber félögum að senda inn greinargerð um störf aðildarfélaganna og tilkynna um aðalfundarfulltrúa a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund.  Þá er minnt á að allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að félögum sé kynnt dagsetning fundarins með góðum fyrirvara. Formenn eru minntir á að senda þátttökulista í síðasta lagi viku fyrir aðalfund, þ.e. 6. febrúar nk.

Ályktun stjórnar BÍL um málefni RÚV

Stjórn BÍL hefur sent menningarmálaráðherra eftirfarandi ályktun um málefni Ríkisútvarpsins:

Bandalag íslenskra listamanna beinir þeim eindregnu tilmælum til menningarmálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að Ríkisútvarpið verði styrkt svo sem verða má, jafnt í rekstrarlegu sem menningarlegu tilliti, svo tryggt verði að það fái staðið af metnaði undir lagalegu hlutverki sínu á vettvangi almannaþjónustu og menningar. Listamenn líta svo á að RÚV sé hornsteinn menningar og  lista í margbreytilegri fjölmiðlaflóru landsmanna og því nauðsynlegt að stjórnvöld standi við bakið á stjórnendum RÚV í viðleitni þeirra við að bæta rekstrarskilyrði stofnunarinnar. Stjórnvöld þyrftu sannarlega einnig að beita sér fyrir málefnanlegri og faglegri umræðu um framtíð og heill þessarar lífæðar íslenskrar menningar.

Rétt eins og siðmenntað samfélag deilir ekki um gildi og mikilvægi þjóðarbókhlöðu, þjóðminjasafns, þjóðleikhúss og þjóðarlistasafns ættu tilvist og gildi þjóðarútvarps ekki að vera sífellt þrætuepli ráðamanna sem koma og fara. Bandalag íslenskra listamanna krefst þess að stjórnvöld meti RÚV út frá menningarlegum og þjóðfélagslegum gildum og búi stofnuninni þá fjárhagsumgjörð sem tryggir vöxt og viðgang mennta- og menningarmiðstöðvarinnar sem RÚV var er og verður.

Ríkisútvarpið er eini fjölmiðillinn sem sinnir íslenskri listsköpun á markvissan og skipulagðan hátt í öllum sínum miðlum og eini fjölmiðillinn sem samofinn er menningarsögu þjóðarinnar í bráðum 90 ár. RÚV býr yfir ómetanlegum heimildum um þá sögu, sem nú er leitast við að varðveita ásamt því að auðvelda aðgengið með því að miðla henni til þjóðarinnar á rafrænu formi.

Allt frá því RÚV var breytt í opinbert hlutafélag hefur RÚV mátt berjast fyrir tilverurétti sínum. RÚV er í raun eini fjölmiðillinn sem er óháður peningaöflum einkaframtaksins hvað eignarhald varðar og hefur m.a. þess vegna sérstakan sess í hugum þjóðarinnar. Þrátt fyrir áralanga baráttu hefur RÚV lagt sig fram um að sinna skyldum sínum gagnvart íslenska tungumálinu og hefur þannig lagt lóð á vogarskálarnar í menntun þjóðarinnar. RÚV sinnir þannig baráttumálum mennta- og menningarmálaráðuneytis, sinnir skyldum sínum samkvæmt lögum um fjölmiðil í almannaþjónustu og leitast við að starfa í samræmi við menningarstefnu stjórnvalda sem samþykkt var á Alþingi 2013.

RÚV hefur fyrir löngu sannað sig sem ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar allt frá upphafi, uppeldisstofnun okkar mestu lista- og fræðimanna, stofnun sem verðskuldar vernd og virðingu þeirra sem tímabundið halda á stjórnartaumum. Nú er mál að linni. RÚV er þjóðareign. Stjórnvöldum ber að meðhöndla þjóðareignir af virðingu.

Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2016

Erindi Bandalags íslenskra listamanna til fjárlaganefndar Alþingis

Umsögn um liði á sviði lista og skapandi greina í fjárlagafrumvarpi 2016

Megininntak umsagnarinnar er eftirfarandi:

 • Endurnýjað verði samkomulag um kvikmyndagerð og settar 355,3 m. kr. til viðbótar við það sem frv. áætlar í Kvikmyndasjóð 2016 auk þess sem gerð verði áætlun um hækkun í 2 milljarða á næstu fimm árum.
 • Framlag til annarra verkefnatengdra sjóða verði sem hér segir:
 • Myndlistarsjóður  52 m. kr
 • Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna 107 m. kr
 • Tónlistarsjóður  81,1 m. kr
 • Barnamenningarsjóður     8 m. kr
 • Listskreytingasjóður   10 m. kr
 • Safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ verði 64,6 m. kr
 • Gerð verði ný þriggja ára áætlun um eflingu launasjóða listamanna
 • Framtíð tónlistarskólanna verði tryggð með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum
 • Listdansnám á framhaldsstigi verði eflt og fjárframlag verði í samræmi við kröfur í námsskrá
 • Ríkisútvarpinu verði bættar þær 173,2 m kr, sem það missir, m.a. vegna lækkunar útvarpsgjalds
 • Menningarsamningar landshlutanna verði uppfærðir og ætlað sama framlag og á fjárlagaárinu 2013, þ.e. samt. 270,4 m kr. og samningurinn við Akureyrarbæ verði skoðaður m.t.t. umfangs verkefna
 • Málefni kynningarmiðstöðva listgreinanna verði skoðuð, mat lagt á fjárþörf þeirra, gerð áætlun um eflingu starfseminnar og stofnuð Kynningarmiðstöð sviðslista í samvinnu við SSÍ með 10 m kr framlagi
 • Kynning á menningu, listum og skapandi greinum í sendiráðum Íslands fái 12 m. kr framlag
 • Þá er ítrekuð ósk um að stjórn BÍL fái áheyrn hjá fjárlaganefnd í tilefni af erindi þessu

Umsögn BÍL til fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlagafrumvarps 2015

BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, eru heildarsamtök listafólks í fimmtán aðildarfélögum og starfar bandalagið samkvæmt lögum samþ. 4. nóv. 2000 með síðari breyt.: http://bil.is/um-bil/log-fyrir-bil. Þar kemur fram að BÍL sinni heildarhagsmunum þeirra listgreina og hönnunar sem mynda bandalagið. Á grunni laganna er gerður samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið þar sem nánar er kveðið á um hlutverk bandalagsins sem ráðgjafa stjórnvalda í málefnum menningar og lista. Áralöng hefð er fyrir því að BÍL sendi vandaða umsögn til fjárlaganefndar Alþingis um þá liði er varða listir og menningu í fjárlagafrumvarpi hvers árs og er það hluti af ráðgjafarhlutverki BÍL gagnvart stjórnvöldum. Sú hefð hefur skapast að fulltrúar BÍL fái áheyrn hjá nefndinni til að fylgja umsögn sinni eftir, en þegar eftir því var leitað 2013 og 2014 var erindi BÍL um slíka heimsókn synjað. Stjórn BÍL leyfir sér að ítreka vonbrigði sín með þessa niðurstöðu nefndarinnar og lýsir sig sem fyrr reiðubúna til að senda fulltrúa á fund nefndarinnar til frekari samræðu um efni þessarar umsagnar.

Listirnar eru grundvöllur skapandi greina
Þriðja árið í röð gerir BÍL sóknaráætlun í listum og skapandi greinum að umtalsefni í umsögn sinni til fjárlaganefndar Alþingis. Frá því að fjárlagafrumvarp 2014 leit dagsins ljós hefur BÍL gagnrýnt þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hverfa alfarið frá fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, sem m.a. náði til fjárfestinga í listum og skapandi atvinnugreinum. Sú ákvörðun hefur leitt til þess að listirnar sitja eftir á sama tíma og  lagðir eru fjármunir í eflingu annarra greina á borð við ferðaþjónustu, markaðssetningu íslenskrar matvöru erlendis og ýmislegt annað nýsköpunarstarf undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er lýst vilja til að efla skapandi greinar, en þau áform hafa ekki skilað sér nema að litlu leyti og alls ekki í nægilegum mæli til listgreinanna, sem þó hljóta að teljast grunnur undir skapandi atvinnugreinar. Eitt af því mikilvægasta sem þarf til að efla listgreinarnar er ný þriggja ára áætlun um fjölgun launamánaða í launasjóðum listgreinanna, sambærileg við áætlunina sem gilti á árunum 2009 – 2012. En mánaðafjöldinn hefur staðið í stað síðan þeirri áætlun lauk og er enn 1600 mánuðir. Á sama tíma hafa hundruð nýrra listamanna og hönnuða lokið námi bæði frá Listaháskóla Íslands og erlendum háskólum. Sjálfstæðu leikhúsin hafa sýnt fram á með sannfærandi útreikningum, sem sendir hafa verið fjárlaganefnd, að einungis launasjóður sviðslistafólks þurfi að stækka um 90 launamánuði, eða úr 190 mánuðum í 280.

Samspil launasjóða og verkefnasjóða
Í skýrslum sem gerðar hafa verið til að greina umfang skapandi atvinnugreina og starfsumhverfi þeirra sem starfa á þeim vettvangi, kemur fram að flestir listamenn og stór hluti hönnuða starfi í eigin atvinnurekstri eða sem einyrkjar og að starfsumhverfi þeirra sé ótryggt, m.a. vegna þess að störfin séu háð stuðningi úr verkefnasjóðum af ýmsu tagi. Á síðustu árum hefur BÍL tekið þátt í vinnu stjórnvalda við endurskipulagningu fjármögnunar verkefna á vettvangi lista og skapandi greina. Meðal þess sem BÍL hefur lagt til í þeirri vinnu er að komið verði á samhæfðu kerfi launasjóða og verkefnasjóða sem byggi á faglegu mati umsókna og reglu hæfilegrar fjarlægðar. Sú  vinna hefur leitt til þess að RANNÍS hefur verið falið utanumhald um launasjóði listamanna og verkefnatengdu sjóðina, sem hefur tekist með ágætum, nema hvað auknir fjármunirnir hafa ekki skilað sér með þeim hætti sem lagt var upp með. Hér á eftir fylgja tillögur sem byggja á þeim hugmyndum sem liggja að baki endurskipulagningunni og eru forsenda þess að listirnar eflist og verði það bakbein skapandi greina sem stjórnvöld telja eftirsóknarvert. Þar á meðal er tillaga um að nýtt samkomulag verði gert við kvikmyndagerðarmenn um framtíð Kvikmyndasjóðs með það að markmiði að framlag til sjóðsins hækki í tvo milljarða á  næstu fimm árum. Fyrsti áfanginn verði hækkun um 355,3 milljónir 2016.

Eftirfarandi er tillaga BÍL um hækkanir fjárlagaliða verkefnatengdara sjóða í fjárlagafrumvarpi 2016:

Framlag til Kvikmyndasjóðs hækki úr                       844,7     í           1.200

Myndlistarsjóður hækki úr                                            35,0     í              52,0

Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna hækki úr            78,5     í              107,0

Tónlistarsjóður hækki úr                                          64,9     í              81,1

Barnamenningarsjóður hækki úr                                 [3,9]    í                8,0       (nánari skýring fylgir)

Listskreytingasjóður hækki úr                                       1,5      í              10,0

Styrkir á sviði listgreina hækki úr                                37,7      í              64,6

Barnamenning og Barnamenningarsjóður
BÍL hefur árum saman lagt það til í umsögnum sínum til fjárlaganefndar að gert verði átak til að hækka framlagið til Barnamenningarsjóðs. Þeirri kröfu hefur verið fylgt eftir í úthlutunarstarfinu, enda á BÍL fulltrúa í sjóðsstjórninni. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram komu í ljós áform mennta- og menningarmálaráðuneytis um að leggja Barnamenningarsjóð niður en leggja þess í stað fjármuni í aðgerðaáætlun um menningu barna og ungmenna í samræmi við menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 6. mars 2013. BÍL hefur verið þátttakandi í þeirri vinnu sem aðgerðaáætlunin felur í sér og fagnar því að nú skuli því mikilvæga starfi markaðir fjármunir í fjárlögum. Það er hins vegar álitamál hvort það starf sem sú áætlun gerir ráð fyrir geti alfarið komið í stað Barnamenningarsjóðs, um það er BÍL ekki sannfært og leggur því til að Barnamenningarsjóður fái áfram sjálfstæða fjárveitingu í fjárlögum upp á 8 milljónir króna, sem er hækkun úr 3,9 á fjárlögum yfirstandandi árs.

Ríkisútvarpið verði eflt
BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki, auk þess sem veikur rekstrargrunnur RÚV eykur á þá kreppu sem kvikmyndagerð í landinu glímir við. Bandalag íslenskra listamanna fagnar því að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að hverfa frá enn frekari lækkun útvarpsgjaldsins, svo sem áformað hafði verið, og að RÚV muni fá hinn markaða tekjustofn óskiptan inn í reksturinn. En það dugir ekki til að endurreisa innlenda dagskrárgerð eða auka samstarf RÚV við kvikmynda- og sviðslistageirann í landinu. BÍL telur nauðsynlegt að styrkja stöðu RÚV hvað þetta varðar og telur að það verði best gert með tvennum hætti; annars vegar með því að hækka útvarpsgjaldið á næstu árum, þannig að það jafnist á við það sem gengur og gerist í samanburðarlöndunum (Norðurlöndunum og Bretlandi) og að áætlun verði gerð um að létta af stofnuninni lífeyrisskuldbindingum sem ólíklegt er að hún muni nokkurn tíma standa undir. Þá telur BÍL rétt að upplýsa fjárlaganefnd um stuðning BÍL við tillögu þess efnis að RÚV fái formlega aðkomu að samkomulaginu sem nú er unnið að milli ríkisins og kvikmyndagerðarmanna. Í samræmi við það sem að framan greinir leggur BÍL til að fjárlaganefnd leiti leiða til að bæta RÚV upp þær 173,2 millj. króna sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að skornar verði af rekstrargrunni stofnunarinnar.

Tónlistarskólar í hættu
Í frumvarpi til fjárlaga 2016 er enn eitt árið gert ráð fyrir óbreyttu framlagi ríkisins til tónlistarnáms á vegum sveitarfélaganna eða 520 m kr. Í ljósi þeirrar baráttu, sem tónlistarskólar hafa háð á síðustu árum og markast m.a. af vonbrigðum með framkvæmd samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 2011 um bætta stöðu þeirra, telur BÍL mjög mikilvægt að ríki, samtök sveitarfélaga og ráðuneytin sem koma að málefnum skólanna, kveði uppúr um það hvar ábyrgðin á rekstri þeirra liggur svo hægt verði að fara að lögum í rekstri tónlistarskóla landsins. BÍL fagnar því að frumvarpið skuli sýna 187,4 milljóna króna hækkun á framlagi til nýjunga í skólastarfi, sem gert er ráð fyrir að skili sér að einhverju marki til stefnumótunar um fyrirkomulag tónlistarnáms í landinu (eins og segir í frumvarpinu), en ekki verður séð að það framlag nýtist þeim skólum sem glíma við langvarandi rekstrarvanda vegna skorts á eftirfylgni laga um tónlistarnám. BÍL er reiðubúið til þátttöku í vinnu stjórnvalda við stefnumótun þá sem framundan er og telur það geta verið farsælt skref að opna þá vinnu fyrir listamönnum og fulltrúum tónlistarskólanna.

Listdansnám á bláþræði
Mikil óvissa ríkir innan listdansskólanna varðandi listdansnám á framhaldsskólastigi. Fyrirhugaðar breytingar menntamálaráðuneytis á starfsumhverfi skólanna hafa ekki verið kynntar skólastjórnendum og þeir horfa nú fram á gífurlegan hallarekstur, m.a. vegna fyrirsjáanlegra og eðlilegra hækkana á kjarasamningum starfsfólks. Lág framlög frá ríki eru í fullkomnu ósamræmi við þann kostnað sem liggur að baki hverjum nemanda og taka ekkert mið af þeim skyldum sem listdansskólunum er gert að uppfylla samkvæmt námsskrá. Nú er svo komið að margir tugir nemenda eru í algjörri óvissu um hvort að þeir geti lokið listnámi sínu til stúdentsprófs. Það er mat BÍL að staða skólanna sé orðin það alvarleg að ekki megi bíða degi lengur að grípa í taumana, en það verður ekki gert án atbeina stjórnvalda. Aðgerðir fjárlaganefndar nú í aðdraganda fjárlaga 2016 munu því skipta sköpum fyrir þennan þátt listmenntunar barna og ungmenna í landinu. Þá hefur BÍL af því áhyggjur að enn skuli ekki hafa verið sett reglugerð fyrir nám í listdansi á grunn- og framhaldsstigi, en sú staðreynd veikir grundvöll náms í listdansi á þessum skólastigum. Stjórnvöld þurfa að átta sig á mikilvægi framhaldsnáms í listgreinunum ef þau meina eitthvað með yfirlýsingum um átak í atvinnusköpun í skapandi greinum. Slíkt átak verður ekki gert öðruvísi en með öflugu menntakerfi í listum og hönnun.

Menningarsamningar við landshlutana
Auk þess sem hér er talið hvetur Bandalag íslenskra listamanna fjárlaganefnd til að huga sérstaklega að menningarsamningum við landsbyggðina. Nú hefur orðið breyting á framkvæmd samninganna og þeir innlimaðir í vaxtasamninga þá sem sinnt er af Byggðastofnun undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, eða öllu heldur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis. BÍL hefur gert athugasemdir við þessar breytingar og telur að menningarstarfi á landsbyggðinni stafi hætta af þessu nýja fyrirkomulagi, þrátt fyrir að fjármunir til menningarstarfs í landshlutunum fari inn í samningana af skilgreindum fjárlagaliðum mennta- og menningarráðuneytis. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2016 er framlag til samningsins við Akureyrarbæ um menningarstarf óbreytt að krónutölu frá yfirstandandi fjárlagaári, sem Bandalag íslenskra listamanna telur óásættanlegt í ljósi aukinna skuldbindinga Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Hofs – menningarhúss. Og þó samningar landshlutasamtaka sveitarfélaga við ríkið um menningarmál hækki milli ára um rúmar 19 milljónir (sem er hlutur mennta- og menningarmáalráðuneytis, -erfitt er að ráða af frumvarpinu hversu mikla fjármuni anr leggur á móti), þá nægir það ekki til að efla menningarstarfið á landsbyggðinni að því marki sem sóknaráætlanir landshlutanna gera ráð fyrir. Því leggur BÍL til að framlagið til menningarsamninga landshlutanna verði hækkað og að þeir verði eigi lægri en sem nemur framlaginu á fjárlagaárinu 2013 að viðbættum verðbótum, eða 270,4 m kr.

Miðstöðvar listgreinanna og rýrir safnliðir
Varðandi safnliði mennta- og menningarmálaráðuneytis; Kynningarmiðstöðvar listgreina  (102,4  m kr) og Styrkir á sviði listgreina (37,7 m kr) þá væri gagnlegt ef þeir væru betur sundurliðaðir í skýringum við frumvarpið. Þetta er athugasemd sem BÍL hefur sett fram áður, en þar sem úrbætur láta á sér standa hefur BÍL óskað eftir sundurliðun frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar kemur í ljós að af safnliðnum um kynningarmiðstöðvarnar á yfirstandandi fjárlagaári hafa þær fengið úthlutað fjármunum sem hér segir: Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur fengið kr. 37 m kr (þ.a. 12 m kr vegna Feneyjatvíærings), Útón hefur fengið 23 m kr, Hönnunarmiðstöð hefur fengið 10 m kr (til viðbótar við 15 m kr, frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti), Íslensk tónverkamiðstöð hefur fengið 13,5 m kr, verkefnið Handverk og hönnun hefur fengið 14 m kr en ekki er getið um að Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista hafi fengið framlag af liðnum, enda er sú miðstöð ekki enn formlega stofnuð þó Sviðslistasamband Íslands [SSÍ] sinni kynningarverkefnum á vettvangi sviðslista. Vonandi tekst að koma nýjum sviðslistalögum gegnum Alþingi á þessu þingi og þá um leið að tryggja að Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista verði komið á fót.
Miðstöðvarnar gegna mun mikilvægara hlutverki er stjórnvöld virðast gera sér grein fyrir. Hlutverkið felst ekki einungis í öflugu kynningarstarfi innanlands og utan, heldur leggja þær líka mikið á sig við að bæta starfs- og stuðningsumhverfi listamanna, hönnuða og fyrirtækja sem starfa á þeirra  verksviði. Þá sinna miðstöðvarnar tilteknu rannsóknar- og menntunarhlutverki, sem verður æ mikilvægara eftir því sem greinarnar eflast og sækja fram. Allar hafa miðstöðvarnar komið sér upp virku neti samstarfsaðila, bæði innanlands og utan sem veitir aðgang að „mörkuðum“ með afurðir listamanna og hönnuða. Slík tengslanet  væru óhugsandi án aðkomu miðstöðvanna en eru ómetanleg t.d. aðilum á borð við Íslandsstofu, sem hefur formleg tengsl við forstöðumenn allra miðstöðvanna gegnum fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Þá veita miðstöðvarnar einnig ráðgjöf ráðuneytum, sveitarfélögum, sendiskrifstofum Íslands og markaðsskrifstofum útflutningsfyrirtækja.
Hluti af fjármögnum kynningarverkefna á sviði lista og menningar kemur gegnum fjárlagalið utanríkisráðuneytis Kynning á menningu, listum og skapandi greinum á erlendri grund, en sá liður  hefur lækkað um 2 m kr eftir 2013, er nú 10 m kr í stað 12 áður, auk þess sem sameiginlegur sjóður mennta- og menningarmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, sem áður naut við, finnst ekki lengur á fjárlögum. Staðan í kynningarmálum lista og menningar erlendis er virkilega bágborin og rétt væri að fjárlaganefnd Alþingis færi ofan í saumana á þeim málum. Nú nýlega veitti ríkisstjórnin 400 m kr til að kynna íslenska matvöru erlendis, sem verður sinnt undir hatti Íslandsstofu, sem hingað til hefur skort fjármagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu gagnvart listum og menningu. BÍL beinir því til fjárlaganefndar Alþingis að málefni kynningarmiðstöðvanna verði skoðuð sérstaklega, lagt mat á fjárþörf þeirra og gerð áætlun um eflingu starfseminnar. Þá leggur BÍL til að fjárlaganefnd styðji Sviðslistasamband Íslands með fjárframlagi að upphæð 10 m kr til að sambandið geti komið á fót Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista.

Raunhæfar væntingar
Bandalag íslenskra listamanna gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir erfiðri stöðu í ríkisfjármálum og virðir tilraunir stjórnvalda til að koma böndum á opinber útgjöld. Það er hins vegar bjargföst sannfæring okkar, sem gætum hagsmuna listamanna og hönnuða, að þau tæki sem stjórnvöld hafa í höndunum á hverjum tíma til að tryggja fjölbreytt atvinnulíf í landinu öllu, séu ekki nægilega vel nýtt ef tillögur fjárlagafrumvarpsins 2016 ná fram að ganga. Efling kynningarmiðstöðva og verkefnatengdra sjóða á listasviðinu jafngildir fjárfestingu í hugviti og sköpunarkrafti, sem mun skila sér margfalt bæði með beinum hætti í ríkissjóð en ekki síður í bættum lífsgæðum og fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna. Þessi sjónarmið eru studd gildum rökum í ýmsum skýrslum og rannsóknum um hagræn áhrif lista og menningar, auk þess sem þau fara saman við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar. Bandalag íslenskra listamanna telur sig í erindi þessu hafa fjallað um fjárveitingar til lista og skapandi greina af þekkingu og fagmennsku, ásamt því sem við teljum tillögur okkar vera sanngjarnar og raunhæfar. Að lokum leyfum við okkur að setja fram ósk um fund með fjárlaganefnd Alþingis um málefni þau sem hér hafa verið reifuð,

Virðingarfyllst,
f.h. Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

BÍL skorar á íslensk stjórnvöld

Stjórn BÍL skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því að íslenski skálinn á Feneyjatvíæringnum verði opnaður á ný.

Stjórn BÍL – Bandalags íslenskra listamanna ályktar í tilefni af lokun íslenska skálans á Feneyja-tvíæringnum og tekur undir með með SÍM – Samtökum íslenskra myndlistarmanna um nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld bregðist við og fái skálann opnaðan á ný hið allra fyrsta.

Aðdragandi þess að skálanum var lokað er rakinn í meðfylgjandi greinargerð og eru þær upplýsingar komnar frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM), sem hefur umsjón með framlagi Íslands til Feneyjatvíæringsins.

Stjórn BÍL telur að lögregluyfirvöld í Feneyjum hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar skálanum var lokað og að íslensk stjórnvöld þurfi að bregðist við til að fá skálann opnaðan að nýju. Þar þarf að koma til sameiginlegt átak utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar og mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar, enda varðar málið samskipti milli ríkja og því nauðsynlegt að utanríkisráðuneytið beiti sér í málinu.

Stjórn BÍL lítur svo á að með lokun skálans sé vegið að tjáningarfrelsi listamannsins Christoph Büchel og í ljósi þess að tjáningarfrelsið er verndað samkvæmt stjórnarskrá og í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að, sé það hlutverk íslenskra stjórnvalda að bregðast við þegar að því er vegið með þeim hætti sem hér um ræðir.

Greinargerð:

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) sendi fjölmiðlum eftirfarandi upplýsingar (27. maí sl.) þar sem leiðréttar voru villandi upplýsingar um lokun Moskunnar, íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum. Stjórn BÍL telur mikilvægt að undirstrika þau sjónarmið sem hér koma fram:

1. Fulltrúar Feneyjatvíæringsins hafa veitt upplýsingar um með hvaða hætti þeir hafi stutt íslenska skálann og Moskuna gagnvart embættismönnum borgarinnar. Starfsmaður kynningarskrifstofu tvíæringsins hélt því fram í skriflegri yfirlýsingu til fjölmiðla að fulltrúar frá tvíæringnum hafi setið „ótal fundi með borgaryfirvöldum og fulltrúum frá íslenska skálanum og á þeim unnið ötullega að því að finna lausn sem myndi gera það mögulegt að íslenski skálinn fengi að starfa með eðlilegum hætti.“

Leiðrétting:
Einn fulltrúi Feneyjatvíæringsins (ásamt lögfræðingi frá tvíæringnum) sat einungis tvo fundi fulltrúa íslenska skálans og borgaryfirvalda; annar þessara funda var haldinn á skrifstofu embættis sýslumanns í Feneyjum þann 21. apríl 2015 og hinn fundurinn var haldinn á skrifstofu borgarstjórnar Feneyja þann 6. maí 2015, tveimur dögum fyrir opnun skálans.
– Á þessum fundum samsinnti fulltrúi tvíæringsins kröfum borgaryfirvalda um að ritskoða bæri þann hluta sýningarinnar sem fyrirhugaður var utan á skálanum, þar á meðal tillögur um arabískar og ítalskar áletranir (s.s. orðið „misericordia“ sem merkir miskunn eða vægð) sem embættismenn borgarinnar héldu fram að almenningi gæti staðið  ógn af. Fulltrúi Feneyjatvíæringsins tók einnig undir þá skoðun embættismanna borgarinnar að samfélagi múslima bæri að hætta virkri þátttöku sinni í verkefninu til að þar yrði aðeins um „hefðbundna“ myndlistarsýningu að ræða.

2. Á undanförnum vikum hafa borgaryfirvöld í Feneyjum haldið því fram opinberlega að kirkjan Santa Maria della Misericordia sé helgur staður.

Leiðrétting:
Gögn sem KÍM hefur látið borgaryfirvöldum í té sýna glögglega að kirkjan er í einkaeigu og var formlega afhelguð – og þar með ætluð til almennra nota – árið 1973 af þáverandi patríarka Feneyja, Albino Luciani (sem síðar varð Jóhannes Páll páfi fyrsti). KÍM leigði kirkjuna af núverandi eiganda hennar sérstaklega í þeim tilgangi að hýsa þetta tiltekna sýningarverkefni, Moskuna, í íslenska skálanum á sýningartíma tvíæringsins.

3. Því hefur verið haldið fram að starfsemi Moskunnar á þessum stað, í Santa Maria della Misericordia-kirkjunni, brjóti í bága við skipulagslög borgarinnar.

Leiðrétting:
Á heimasíðu Feneyjaborgar (http://sit.comune.venezia.it/cartanet/) er kirkjan Santa Maria della Misericordia skráð sem „Unità edilizia speciale preottocentesca a struttura unitaria“ (þ.e. í svonefndum SU-flokki). Samkvæmt reglugerðum borgarskipulags Feneyjaborgar er heimilt að nota byggingar í SU-flokki sem „söfn, sýningarrými, bókasöfn, skjalasöfn, aðstöðu fyrir samtök, leikhús, félagsmiðstöðvar, stað fyrir trúariðkun, að því gefnu að öll byggingin sé notuð í einum af áðurnefndum tilgangi eingöngu eða að mestum hluta, og þar sem önnur notkun er viðbótar- og/eða hliðarstarfsemi.“

– Ljóst er af þessum upplýsingum frá Feneyjaborg að kirkjan sem KÍM leigir undir skálann samræmist fyllilega skilgreiningu á byggingu í SU-flokki sem sýningarrými og félagsmiðstöð, sem einnig má nota til trúariðkunar. Þrátt fyrir fullyrðingar sem yfirvöld Feneyjaborgar og aðrir hafa sent til fjölmiðla hefur KÍM í einu og öllu fylgt lögum og reglum við notkun Santa Maria della Misericordia-kirkjunnar fyrir íslenska skálann.

4. Þrátt fyrir að KÍM hafi fært sönnur á lögmæti sýningarverkefnis íslenska skálans og þannig svarað öllum fullyrðingum Feneyjaborgar um að ekki hafi verið farið eftir lögum og reglum hafa fulltrúar borgarinnar komið fram með nýjar fullyrðingar annars eðlis: t.d. um fjölda gesta inni í íslenska skálanum. Að undanförnu hafa borgaryfirvöld haldið því fram – og notað sem réttlætingu fyrir lokun skálans – að fjöldi gesta inni í íslenska skálanum hafi á ákveðnum tímum hafi farið yfir leyfileg mörk.

Leiðrétting:
Þó athygli almennings að listviðburðum sé lofsverð er KÍM sammála því að fjöldatakmarkanir þurfi að vera við lýði af öryggisástæðum. Starfsfólk skálans hefur fylgst verið samviskusamlega með gestafjöldi í byggingunni og eftir opnunardaginn hefur tala þeirra aldrei farið yfir 100 í einu.

– Á meðan á opnunarathöfn skálans stóð voru vissulega fleiri en 100 manns inni í skálanum í einu, en slík undantekning er í fullu samræmi við reglur. Á opnunarathöfnum eru gerðar undanþágur frá fjöldatakmörkunum og slík frávik hafa verið látin viðgangast án athugasemda við opnun annarra þjóðarskála tvíæringsins í ár.

5. Borgaryfirvöld í Feneyjum hafa haldið því fram við fjölmiðla að KÍM og listamaðurinn sem er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum hafi ekki komið upplýsingum um Moskuna á framfæri við borgina eða tvíæringinn með tilskildum fyrirvara.

Leiðrétting:
KÍM kynnti verkefnið fyrir fulltrúum Feneyjatvíæringsins á fundum í janúar og febrúar sl. og skilaði jafnframt inn nákvæmri verkefnislýsingu á Moskunni í janúar sl., bæði til fulltrúa tvíæringsins og til Don Gianmatteo Caputo, menningarfulltrúa patríarksins í Feneyjum. Sama verkefnislýsing var jafnframt send á sama atíma til opinbers fulltrúa starfandi borgarstjóra Feneyja, Vittorio Zappalorto. Upplýsingar um Moskuna og eðli sýningarverkefnisins voru því borgaryfirvöldum, tvíæringnum og kirkjunni að fullu kunnar, og KÍM lagði sig fram um tryggja að allar upplýsingar væru uppi á borðum í öllu ferlinu.

Þann 26. febrúar 2015 fékk KÍM síðan sendar ábendingar frá Feneyjatvíæringnum þar sem fram kom að endurskoða þyrfti hugmynd listamannsins að tímabundinni mosku utandyra, sem hluta af verkefninu í heild, þar sem „yfirvöld hafi ekki samþykkt verkefnið af öryggisástæðum. Yfirvöld lögðu til að fundinn yrði annar og lokaður staður (fyrir verkefnið).“

– Í kjölfar þessara ábendinga fann KÍM einmitt slíkan stað; Santa Maria della Misericordia-kirkjuna í Cannaregio.

Vegna annarra fullyrðinga í fjölmiðlum um málið áréttaði KÍM eftirfarandi atriði:

6.
Gestum Moskunnar er hvorki skylt að fara úr skóm né hylja höfuð sitt með slæðu. Sem hluti af sýningunni og innsetningunni og til að virða hreinlæti staðarins, er hins vegar inni í sýningarskálanum skilti þar sem lagt er til að gestir fari úr skóm, sem hluta af upplifun sinni af innsetningunni. Jafnframt er boðið upp á slæður fyrir þá sem vilja, og er notkun þeirra valfrjáls.

– Það er því algjörlega undir gestum komið hvort þeir fari úr skóm eða noti slæður í heimsókn sinni í íslenska sýningarskálann.

7. Moskan er listaverk eftir listamanninn Christoph Büchel, sem búsettur er á Íslandi, og var tilnefnt af KÍM til að taka þátt í 56. Feneyjatvíæringnum. Innsetningin er listaverk og fullyrðingar um að svo sé ekki eru rangar. Skoðanir um listræn verkefni geta eðli málsins samkvæmt verið misjafnar og eru gestir hvattir til þess að mynda sér sjálfstæða skoðun á listaverkinu, en slík tjáning er einmitt mikilvægur hluti af verkefninu.

– En skoðanir eru ekki staðreyndir.

8. Lokun Moskunnar, íslenska skálans á 56. Feneyjatvíæringnum, var einhliða ákvörðun feneyskra yfirvalda sem halda því statt og stöðugt fram að Moskan sé ekki listsýning heldur staður fyrir trúariðkun og að KÍM ætti því að sækja um leyfi til að starfrækja tilbeiðslustað (en slík leyfi eru veitt eftir öðrum reglum).

– KÍM hafnar þessari skilgreiningu borgaryfirvalda alfarið og ítrekar að innsetningin er tímabundin myndlistarsýning og framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins 2015.

Málþing um heiðurslaun

Bandalag íslenskra listamanna gengst fyrir málþingi um heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir árlega nokkrum hópi listamanna „sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþóðavettvangi“ [orðalag laga um heiðurslaun nr. 25/2012]. Málþingið fer fram í IÐNÓ, miðvikudaginn 27. maí nk. kl. 14:00 – 16:00

Kveikjan að fundinum er fengin frá meistaraprófsritgerð sem Guðni Tómasson listsagnfræðingur varði nýlega við Háskólann á Bifröst. Guðni verður frummælandi á fundinum og kallar hann erindi sitt

Heiður þeim sem heiður ber

Heiðurslaun listamanna, Alþingi Íslendinga og virðingin sem við sýnum afburðarólki í listum á Íslandi

Að loknu erindinu verða pallborðsumræður um málefnið. Gestir í pallborði, auk Guðna, verða:

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis

Pétur Gunnarsson, rithöfundur og formaður starfshóps BÍL um heiðurslaun 2010-2011

Mörður Árnason, íslenskufræðingur og fyrrv. alþingismaður.

Umræðum stýrir Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL.

BÍL hefur oftsinnis fjallað um fyrirkomulag heiðurslauna Alþingis til listamanna og reynt að benda á aðrar leiðir við framkvæmdina en tíðkast hafa. Til marks um þá vinnu er ályktun aðalfundar BÍL frá 2011, sem aðgengileg er á heimasíðu BÍL.  Á málþinginu gefst tækifæri til að ræða mismunandi sjónarmið um heiðurslaun, inntak þeirra og fyrirkomulag.

Málþingið er ætlað félögum í aðildarfélögum BÍL, stjórnmálamönnum og öðru áhugafólki um málefnið.

Dagur menningarlegrar fjölbreytni

Í dag er 21. maí alþjóðlegur dagur menningarlegrar fjölbreytni. BÍL hafði frumkvæði að því að ræða við íslensku UNESCO nefndina af því tilefni og sameinuðust þessir aðilar í að hvetja menningarstofnanir, skóla og félagasamtök til að gera deginum skil með einhverju móti. Inntak hvatningarinnar var eftirfarandi:

Árið 2002 staðfesti UNESCO að þann 21. maí ár hvert skyldi vakin athygli á þýðingu menningarlegrar fjölbreytni sem er sameiginleg arfleifð mannkyns og að hlúa beri að henni og varðveita í þágu allra manna.

Íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna hafa nú sameinast í því að vekja athygli á þessum Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni og hvetja sem flesta til þátttöku með fjölbreytilegum listviðburðum og umræðu í samfélaginu um gildi menningarlegrar fjölbreytni.

Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja athygli á því hversu fjölbreytt menning mannkyns er og minna á að aukinn skilningur á samspili ólíkra menningarheima eykur  umburðarlyndi, félagslegt réttlæti og gagnkvæma virðingu menningarsamfélaga.

Menningarleg fjölbreytni getur af sér fjölskrúðugan og fjölbreytilegan heim með margvíslegum möguleikum þar sem hlúð er að hæfileikum mannsins og gildum, auk þess sem hún hvetur til gagnkvæmrar virðingar milli ólíkra hópa og þjóða. Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um þessi málefni í þágu jafnvægis, jöfnuðar og friðar.

Í ár eru 10 ár liðin frá því UNESCO samþykkti samning um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform og skapa skilyrði til þess að menningarsamfélög nái að dafna og eiga með sér frjáls samskipti sem eru öllum aðilum til hagsbóta. Ísland undirritaði samninginn árið 2007 en alls eru 134 ríki búin að staðfesta hann. Í nafni markmiða samningsins hvetja íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna til þess að fjölmiðlar, menningarstofnanir, félagasamtök og áhugasamir einstaklingar sameinist í að beina sjónum að menningarlegri fjölbreytni í sinni víðustu mynd 21. maí nk.

Meðal þeirra sem brugðist hafa við hvatningunni eru Borgarbókasafnið í Grófarhúsi, en þar verður dagsins minnst með veglegum hætti.

 

 

Alþjóðadagur menningarlegrar fjölbreytni 21. maí 2015

Árið 2002 staðfesti UNESCO að þann 21. maí ár hvert skyldi vakin athygli á þýðingu menningarlegrar fjölbreytni sem er sameiginleg arfleifð mannkyns og að hlúa beri að henni og varðveita í þágu allra manna.

Íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna hafa nú sameinast í því að vekja athygli á þessum Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni og hvetja sem flesta til þátttöku með fjölbreytilegum listviðburðum og umræðu í samfélaginu um gildi menningarlegrar fjölbreytni.

Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja athygli á því hversu fjölbreytt menning mannkyns er og minna á að aukinn skilningur á samspili ólíkra menningarheima eykur  umburðarlyndi, félagslegt réttlæti og gagnkvæma virðingu menningarsamfélaga.

Menningarleg fjölbreytni getur af sér fjölskrúðugan og fjölbreytilegan heim með margvíslegum möguleikum þar sem hlúð er að hæfileikum mannsins og gildum, auk þess sem hún hvetur til gagnkvæmrar virðingar milli ólíkra hópa og þjóða. Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um þessi málefni í þágu jafnvægis, jöfnuðar og friðar.

Í ár eru 10 ár liðin frá því UNESCO samþykkti samning um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform og skapa skilyrði til þess að menningarsamfélög nái að dafna og hafa með sér frjáls samskipti sem eru öllum aðilum til hagsbóta. Ísland undirritaði samninginn árið 2007 en alls eru 134 ríki búin að staðfesta hann. Í nafni markmiða samningsins hvetja íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna til þess að fjölmiðlar, menningarstofnanir, félagasamtök og áhugasamir einstaklingar sameinist í að beina sjónum að menningarlegri fjölbreytni í sinni víðustu mynd 21. maí nk.

Sjá nánar á heimasíðum www.unesco.is og www.bil.is

Reykjavík 24. mars 2015

Með bestu kveðjum,

Gunnar Haraldsson                                                       Kolbrún Halldórsdóttir

formaður íslensku UNESCO-nefndarinnar              forseti Bandalags íslenskra listamanna

 

 

 

 

 

Sjálfstæðisbarátta 21 aldarinnar – erindin komin á vefinn

Í tengslum við aðalfund BÍL 7. febrúar sl var haldið málþing sem bar yfirskriftina

Sjálfstæðisbarátta 21. aldrinnar
Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti? 

Málþingið tók til umfjöllunar stöðu lista og menningar í stjórnkerfinu, skoðaði aðgengi atvinnufólks í listum og hönnun að aðstöðu og opinberum fjármunum, auk þess sem velt var upp sjónarmiðum um afsöðu stjórnvalda til atvinnustarfsemi sem byggir á framlagi listafólks og hönnuða.  Þá var leitað svara við spurningunni um það hvort líklegt væri að sérstakt ráðuneyti menningarmála væri líklegt til að auka veg lista og menningar?

Nú hafa erindin, sem flutt voru á málþinginu verið sett á vefinn en fjórir framsöguerindi voru flutt auk þess sem mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson ávarpaði málþingið og tók þátt í pallborðsumræðum ásamt framsögumönnum.

Hér má sjá ernidin 

Charlotte Bøving leikari og leikstjóri,

Daði Einarsson listrænn stjórnandi,

Hulda Proppé sérfræðingur á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís

Þorleifur Arnarson leikstjóri

Málþinginu og pallborðsumræðum stýrði Magnús Ragnarsson

 

 

Danshöfundafélag Íslands bætist í hóp aðildarfélaga BÍL

Á stjórnarfundi stjórnar BÍL í dag var samþykkt aðildarumsókn Danshöfundafélags Íslands, DFÍ og eru aðildarfélög BÍL því orðin 15 talsins. Danshöfundafélagið var stofnað á Dansverkstæðinu, Skúlagötu 30 þann 22. nóvember sl. og er meginmarkmið þess að gæta hagsmuna danshöfunda á Íslandi. Félagið sinnir þessu hlutverki meðal annars með því að efla faglega samstöðu og samræðu, vinna að auknum sýnileika atvinnugreinarinnar og standa vörð um höfunda- og hugverkarétt danshöfunda.

Flestir danshöfundar starfa verkefnabundið fyrir stóru leikhúsin, Íslenska dansflokkinn og sjálfstæða dans- og leikhópa. Auk þess vinna þeir að verkefnum fyrir auglýsingar, dagskrá- og kvikmyndagerð, áhugaleikfélög og framhaldsskóla. Skortur á samningum, fjármagns- og aðstöðuleysi hefur verið dragbítur á greininni og heft þá þróun sem möguleg væri innan hennar. Nýtt fagfélag danshöfunda er því mikilvægt skref í þá átt að styrkja stöðu danslistarinnar hér á landi.

Stjórn DFÍ 2015 er þannig skipuð:
Formaður: Katrín Gunnarsdóttir danshofundar@gmail.com
Gjaldkeri: Katrín Ingvadóttir
Ritari: Ásrún Magnúsdóttir
Varamaður: Alexander Roberts

 

BÍL samþykkir sóknaráætlun skapandi greina

Á aðalfundi BÍL fyrr í dag var saþykkt tillaga stjórnar BÍL að sóknaráætlun skapandi greina Áætlunin byggir á skýrslu starfshóps, sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í byrjun árs 2011. Skýrsla hópsins Skapandi greinar – Sýn til framtíðar kom út í september 2012. Í febrúar 2013 var stofnaður samtarfshópur ráðuneytanna og fleiri aðila, sem fékk í það verkefni að vinna að samræmdri uppbyggingu skapandi greina í anda skýrslunnar, gera tillögur til stjórnvalda um nauðsynlegar aðgerðir og fylgja þeim eftir.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt tekið fram að leggja eigi áherslu á að styðja við skapandi greinar á kjörtímabilinu, gera listnám aðgengilegt og viðurkennt, auk þess sem gera eigi úttekt á starfsumhverfi skapandi greina með það að markmiði að þær eflist og sæki fram. Og í áramótaávarpi sínu, 31. desember 2013 sagði forsætisráðherra:  „Menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hafa að undanförnu unnið með markvissum hætti að sóknaráætlun fyrir listir, menningu og annað nýsköpunarstarf sem birtast mun á nýja árinu.  Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs,  þar sem hugvit og sköpunarkraftur fara saman.“

Bandalagi íslenskra listamanna er ekki kunnugt um að þessi sóknaráætlun sé í vinnslu, ekki hefur verið ráðgast við fagfélög listamanna um málið og tillögur BÍL um forgangsröðun í þágu listtengdra launa- og verkefnasjóða gengu ekki eftir við afgreiðslu fjárlaga 2015. Af þessum sökum hefur Bandalag íslenskra listamanna unnið eftirfarandi tillögu að sóknaráætlun fyrir skapandi greinar, sem send verður ríkisstjórninni ásamt yfirlýsingu um skýran vilja BÍL til að eiga samstarf við stjórnvöld um innleiðingu hennar.

Fjárhagslegur stuðningur og tölulegar upplýsingar
Opinber stuðningur við skapandi greinar verði kortlagður og skipulega gerð grein fyrir honum í fjárlagafrumvarpi hvers árs á grundvelli árlegrar efnahagsáætlunar fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Opinberar stofnanir í hinum skapandi geira verði skilgreindar í samræmi var skilgreiningu UNESCO. Upplýsingar um stofnanirnar, afkomu þeirra, útflutning og mannahald, verði teknar saman undir hatti Hagstofu Íslands og þeim miðlað á vef stofnunarinnar. Fyrirtæki í hinum skapandi geira verði skilgreind í samræmi við skilgreiningu UNESCO og tölulegum upplýsingum um afkomu, útflutning og mannahald verði safnað með sama hætti og gildir um fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum. Hagstofa Íslands annist samantekt upplýsinganna og miðlun þeirra.
Verkefnasjóðir listgreina og hönnunar verði skilgreindir, enda byggja skapandi greinar afkomu sína á sjóðunum. Fylgjast þarf með þróun verkefnasjóðanna og samspili þeirra við launasjóði listamanna og hönnuða. Upplýsingum um þau verkefni sem stuðning hljóta verði haldið saman og miðlað af Hagstofu Íslands. Sjóðirnir þurfa ekki allir að heyra undir sama ráðuneyti.
Opinberir samkeppnissjóðir á sviði rannsókna og nýsköpunar verði endurskilgreindir, t.d. rannsóknarsjóður, tækniþróunarsjóður og innviðasjóður, og þeir opnaðir fólki sem starfar í skapandi greinum. Slík aðgerð er til þess fallin að ýta undir fjölbreyttari möguleika á fjármögnun verkefna í geiranum. Ef bið verður á þeirri aðgerð þá verði stofnaður tímabundinn sjóður skapandi greina undir hatti Vísinda- og tækniráðs, mögulega í formi markáætlunar líkt og tíðkast hefur í öðrum greinum, sem brúar bilið þar til framtíðarskipan verður komin til framkvæmda.
Til hliðsjónar við þessa vinnu verði hugmyndir úr sóknaráætluninni Ísland 20/20, verkefna- og fjárhagsáætlanir stofnana á vettvangi lista, hönnunar og annarrar menningartengdrar starfsemi, t.d. kynningarmiðstöðva lista og hönnunar, auk sjónarmiða þeirra sem starfa sjálfstætt í geiranum.

Markaðssetning innan lands sem utan
Formlegu samstarfi verði komið á við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Samtök skapandi greina um hlutdeild þeirra í eflingu greinanna, t.d. um aukna fjárfestingu í fyrirtækjum á sviði greinanna og um markaðssókn innanlands.
Samstarf um markaðssókn skapandi greina erlendis verði eflt með aðkomu Íslandsstofu, Samtaka atvinnulífsins og þeirra ráðuneyta sem eiga aðild að stjórn Íslandsstofu (utanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneyti).
Greina þarf vægi skapandi greina í ferðaþjónustu í samstarfi við aðila í ferðaþjónustu, slíkt má einnig gera undir hatti Íslandsstofu. Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga komi að þeirri vinnu.
Opna þarf skapandi greinum aðkomu að átaksverkefni stjórnvalda og ferðaþjónustunnar „Ísland allt árið“ sem Íslandsstofa hýsir.
Gera þarf átak í miðlun upplýsinga um hátíðir og aðra menningartengda viðburði um land allt í þágu menningartengdrar ferðaþjónustu. Verkið verði unnið jafnt með miðlun innan lands sem utan í huga. Greina verður ólíkar þarfir innlendra ferðamanna og erlendra. Skynsamlegt væri að leita til Sambands íslenskra sveitarfélaga (landshlutasamtaka sveitarfélaga) og Reykjavíkur-borgar um samstarf við verkið.
Fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum komi með beinum hætti að mótun tillagna þeirra sem getið er í þessum kafla, auk þess sem hafa þarf sendiráð Íslands með í ráðum.

Skapandi greinar verði hluti þjóðhagsreikninga
Gera þarf tillögur um reglubundna mælingu á hlut skapandi greina í verðmætasköpun hagkerfisins og ákveða með hvaða hætti þeim upplýsingum verður fundinn staður í þjóðhagsreikningum. Verkinu verði stjórnað af Hagstofu Íslands, sem leiti samstarfs við rannsóknarsetur skapandi greina við Háskóla Íslands og Samtök skapandi greina. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þyrfti einnig að koma að málinu fyrir hönd stjórnvalda.
Gera þarf áætlun um reglulegan sambanburð opinberrar skráningar við nágrannalönd okkar, sérstaklega Norðurlöndin nokkur vel valin ríki innan ESB, sem standa framarlega í slíkri skráningu. Fylgjast þarf með framgangi áætlunar um Skapandi Evrópu (Creative Europe) og þróun aðferðafræði UNESCO, með það að markmiði að auka samanburðarhæfni skráningarinnar.

Staðsetning innan stjórnsýslunnar
Gera þarf tillögur um samræmda stjórnsýslu skapandi greina. Við það verk verði höfð hliðsjón af reynslu hinna Norðurlandanna og unnið í samræmi við áherslur stýrihóps KreaNord, sem starfar undir Norrænu Ráðherranefndinni. Leitað verði samstarfs við stjórnsýslufræðinga og sérfræðinga í listum og skapandi greinum innan háskólasamfélagsins við gerð tillagnanna.

Hlutverk miðstöðva lista og hönnunar og menningarráða sveitarfélaganna
Skerpa þarf á hlutverki miðstöðva lista og hönnunar. Skilgreina þarf þátt þeirra í stefnumótun og fjármögnun verkefna. Mikilvægt er að treysta lagastoð þeirra og tryggja þeim sess í fjárlögum.
Gera þarf áætlun um þróun menningar- og vaxtasamninga við landsbyggðina. Í því sambandi þarf að skoða sérstaklega hlutverk menningarráða landshlutanna. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi forgöngu um verkið fyrir hönd stjórnvalda.
Tryggja þarf faglega úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna, ekki síst á landsbyggðinni og koma á samræmdri skráningu framlaga til að auðvelda samanburð. Sambandi íslenskra sveitarfélaga verði falin forysta í verkefni þessu og sérstaklega verði horft til árangurs Reykjavíkurborgar í þessum efnum.
Gera þarf áætlun um fjölgun starfa í skapandi greinum á landsbyggðinni. Við það verkefni verði leitað samstarfs milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kannaður verði vilji Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka skapandi greina til þátttöku.
Auka þarf hlut frumsköpunar í listum, hönnun og annari menningarstarfsemi á landsbyggðinni, til að tryggja stoðir atvinnulífsins og auka fjölbreytni þess. Sérstaklega verði horft til árangurs verkefna á borð við Handverk og hönnun, auk þess sem leitað verði í smiðju Reykjavíkurborgar sem hefur verið í fararbroddi sveitarfélaga í þessum efnum.
Móta þarf formlegt samstarf milli ríkis og höfuðborgarinnar í málefnum menningar, lista og hönnunar. Mikilvægt er að koma á formlegum ferlum sem eru til þess fallnir að miðla upplýsingum um það sem vel hefur verið gert í þessum efnum hvar sem er á landinu. Verkefninu sé ætlað að byggja brýr milli höfuðborgar og landsbyggðar og efla hugmyndir um samstarf. Verkefnið verði samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fyrir hönd ríkisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tryggja þarf landshluta-samtökum sveitarfélaga aðkomu að þeirri vinnu.

Menntunarmál og rannsóknarstarf
Gera þarf úttekt á list- og starfsmenntun í skapandi greinum í framhaldskólum og móta í kjölfarið framtíðarstefnu um listmenntun á framhaldsskólastigi.
Gerð verði áætlun um eflingu meistaranáms við Listaháskóla Íslands og stofnuð kvikmyndabraut við skólann.
Greitt verði fyrir samstarfi milli háskóla um þverfaglegt meistaranám t.d. listgreina, tæknigreina, viðskiptagreina og ýmissa fræðigreina.
Gera þarf áætlun um rannsóknir í listum og skapandi greinum við Listaháskóla Íslands, auk almennra rannsókna á stöðu greinanna, veltu þeirra, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu.

Skattaleg staða, aðgangur að hinu félagslega kerfi og höfundarréttur
Tryggja þarf að starfsumhverfi skapandi greina sé sambærilegt við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Í því sambandi þarf að bæta skattalega stöðu greinanna, þ.m.t. að tryggja samræmda skattalega meðferð launatekna og tekna sem aflað er með afnotum eða leigu af hugverkaeign.
Gera þarf áætlun um sanngjarnar greiðslur til rétthafa fyrir eintakagerð hugverka til einkanota í gegnum tölvur og farsíma, auk þess sem ákvæðum höfundarréttarlaga verði breytt með tilliti til stöðugt nýrrar tækni við eintakagerð og geymslu efnis sem varið er af höfundarrétti.
Þá þarf að tryggja stöðu þeirra sem starfa innan skapandi greina gagnvart opinberu kerfi atvinnuleysistrygginga, fæðingarorlofs, sjúkratrygginga og annarra slíkra þátta hins almenna vinnumarkaðar.

Samstarf við fagfélög listafólks
Við endanlegan frágang sóknaráætlunar þessarar, útfærslu hennar, tímasetningar og fjármögnun verði fagfélög listamanna höfð með í ráðum, m.a með reglulegum fundum með stjórnvöldum um framvindu og síðan eftirfylgni áætlunarinnar.

Page 5 of 26« First...34567...1020...Last »