Fréttir

Menningarstefna Reykjavíkur 2014 – 2020

19. janúar 2015 hélt menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur sérstakan fund til að kynna menningarstefnu Reykjavíkur 2014 – 2020. Forseti BÍL, Kolbrún Halldórsdóttir, hélt stutt erindi á fundinum og gerði að umræðuefni frumkvæði borgaryfirvalda í aðferðafræði við að móta menningarstefnu, fylgja henni eftir og viðhafa fagleg  vinnubrögð við úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna:

–        Menningarstefna Reykjavíkur er þróunarverkefni. Segja má að upphafið megi rekja til ársins 2000 þegar undirbúningur að fyrstu menningarstefnu Reykjavíkur hófst, en sú stefna var samþykkt í borgarráði í desember 2001.

–        Þar með tóku borgaryfirvöld ákveðna forystu hvað varðar stefnumótun í menningarmálum, sem oft og lengi hafði verið kallað eftir, en slíku ákalli hafði þó aðallega verið beint að landsstjórninni, sem lét undir höfuð leggjast að bregðast við því. En þá voru það boraryfirvöld sem tóku kyndilinn og hófu hann á loft.

–        Það var svo ekki fyrr en haustið 2012, sem ríkisstjórnin lagði fram tillögu til þingsályktunar um menningarstefnu, sem samþykkt var sem ályktun Alþingis fyrir tæpum tveimur árum, eða 6. mars 2013.

–        Þegar 4. útgáfa menningarstefnu borgarinnar (2009 – 2012) var í vinnslu, lagði Bandalag íslenskra listamanna það m.a. til mála að skynsamlegt væri að stefnunni fylgdi skilmerkileg og helst tímasett aðgerðaáætlun, til að tryggja eftirfylgni og framkvæmd stefnunnar.

–        Það er jú þekkt í stjórnunarfræðunum að stefna ein og sér gerir lítið fyrir eiginlega stöðu menningarmála. Þó hún sé góðra gjalda verð og í raun algerlega nauðsynleg, þá er hætt við að stefna verði marklaus nema henni fylgi sundurliðuð áætlun um eftirfylgni.

–        Menningarstefnunni sem Alþingi samþykkt fylgir t.d. engin áætlun um eftirfyglni, eða tímasett aðgerðaáætlun, enda hefur í sannleika sagt gengið afar hægt að hrinda nokkru af áformum hennar í framkvæmd. Jafnvel þó fleiri en einn starfshópur hafi verið settir á laggirnar til að semja tillögur á grundvelli stefnunnar þá er varla nokkuð sem búið er að hrinda í framkvæmd af þeim áformum sem stefnan hefur að geyma.

–        Svo aftur tók Reykjavík forystuna þegar nýjasta endurskoðun menningarstefnu borgarinnar hófst 2012/2013 og ákvörðun var tekin um að aðgerðaáætlun myndi fylgja stefnunni. Þetta var tímamótaákvörðun og í aðgerðaáætluninni getur að líta afskaplega skilmerkilegan lista yfir aðgerðir sem verður yfirfarinn árlega, þannig að kjörnir fulltrúar borgaranna og embættismenn sviðanna sem sjá um að framkvæma stefnuna, geti fylgst með framvindu hennar. Hér hafa þeir yfirlit yfir þær aðgerðir sem eru í farvegi, þær aðgerðir sem ber að fara í á yfirstandandi ári og (skv tillgöu Sjálfstæðismanna í menningar- og ferðamálaráði) lista yfir verkefni sem er lokið. Þannig er alltaf hægt að fylgjast með framvindu stefnunnar, hvað er í farvegi, hvað er u.þ.b. að fara í gang og hverju er lokið.

–        Enn eitt forystuhlutverk sem Reykjavíkurborg hefur axlað er að hanna aðferð og verklag til að tryggja faglega umfjöllun um fjármögnun menningartengdra verkefna.

–        Bandalag íslenskra listamanna hefur lengi verið í virku samstarfi við borgaryfirvöld um stefnu og ákvarðanir í málum er varða menningu og listir. Bandalagið á áheyrnaraðild að fundum menningar- og ferðamálaráðs og leggur ráðinu til sérfræðinga sem mynda fagráð það sem fjallar um umsóknir um stuðning við menningarviðburði, list- og menningartengdar hátíðir, og einstök list- og menningartengd verkefni.

–        Með þeirri aðferðafræði hafa borgaryfirvöld rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög. Sérstaklega æskilegt væri að menningarráð landshlutanna litu til borgarinnar í þessum efnum, en þau hafa menningarsamninga við ríkisvaldið á sinni könnu, þar sem ríkið fjármagnar menningarstarfsemi landshlutanna gegn því að sveitarstjórnir leggi sambærilegar upphæðir á móti til samninganna.

–        Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að borgaryfirvöld hafa tekið afgerandi forystu í aðferðafræðinni við að móta menningarstefnu, fylgja henni eftir og viðhafa fagleg vinnubrögð við úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna. Fyrir hönd Bandalags íslenskra listamanna óska ég borgarbúum til hamingju með nýju stefnuna, en ekki síður með aðgerðaáætlunina.

Aðalfundur BÍL 2015

Aðalfundur BÍL  2015 verður haldinn laugardaginn 7. febrúar og hefst hann kl. 11:00.  Í framhaldinu verður haldið málþing um ábyrgð hins opinbera gagnvart því að varðveita og viðhalda listsköpun á íslenskri tungu í þágu menningararfs framtíðarinnar. Málþingið hefst kl. 14:00 og yfirskrift þess verður:  Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar. Og undirtitillinn verður í formi spurningar: Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti?  Ekki liggur ljóst fyrir hvar fundurinn verður haldinn, þar sem Iðnó er ekki laust 7. febrúar, svo staðarval verður ákveðið og tilkynnt einhvern næstu daga.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum BÍL, sem eru aðgengileg á heimasíðu þessari.  Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Samkvæmt lögum BÍL ber félögum að senda inn greinargerð um störf aðildarfélaganna og tilkynna um aðalfundarfulltrúa a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund.  Þá er minnt á að allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að félögum sé kynnt dagsetning fundarins með góðum fyrirvara.

Dagskrá fundarins ásamt tillögu stjórnar að starfsáætlun 2015 verður send út a.m.k. tveimur vikum fyrir fundinn.

 

Af hverju viljiði ekki peningana okkar?

Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félags leikskálda og handritshöfunda skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:

MO_greinEkki ætla ég að þykjast vita hvernig á að stýra ríkisfjármálum, en eitt veit ég að peningar eru jafnverðmætir sama hvaðan þeir koma, svo fremi sem þeirra hefur verið aflað með heiðarlegum og virðingarverðum hætti. Og þó ég sé eins langt frá því að vera fjármálasnillingur og hugsast getur þá veit ég þó að það borgar sig að fjárfesta í arðvænlegum verkefnum.
Hvernig stendur þá á því að þrátt fyrir að stjórnvöldum hljóti að vera orðið löngu ljóst (nógu oft er nú búið að segja þeim það) að fjárfesting í kvikmyndagerð margborgar sig þá heykjast þau á að veita íslenskri kvikmyndagerð þann stuðning sem henni er nauðsynlegur eigi hún á annað borð að eiga sér einhverja alvöru framtíð. Viljiði ekki peningana okkar? Afhverju ekki?

Fimmfalt til baka
Eftir að hafa verið hafður í svelti árum saman hillti loks undir betri tíma þegar ákveðið var að stórauka framlag til Kvikmyndasjóðs árið 2013. Gerð var framtíðaráætlun um stigvaxandi aukningu til næstu ára, enda sýndu niðurstöður skýrslna sem gerðar höfðu verið um hagræn áhrif kvikmyndagerðar svart á hvítu að virðisauki íslenskrar kvikmyndagerðar er umtalsverður – hver króna sem ríkið veitir til kvikmyndagerðar skilar sér fimmfalt til baka sem hreinar tekjur. Beint í ríkiskassann. Þessar tölur eru meira að segja varlega áætlaðar.

Í síðustu fjárlögum var Kvikmyndasjóður skertur um 40% og nú, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fyrir, stendur til að halda honum áfram undir fátækramörkum. Það þarf ekki að tíunda hversu mikið áfall þetta er fyrir greinina og alveg ljóst að afleiðingarnar verða mjög slæmar. Strax í ágúst á þessu ári var Kvikmyndasjóður orðinn tómur.

Þeir sem eiga verkefni sem þegar eru til meðferðar hjá sjóðnum sem og þeir sem eru tilbúnir að sækja um styrki verða því að bíða fram yfir áramót eftir frekari afgreiðslu. Ef upphæðin sem Kvikmyndasjóði er ætluð samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður ekki lagfærð er alveg ljóst að fjöldi verkefna kemst ekki af stað. Sum munu kannski frestast um óákveðinn tíma en önnur daga uppi. Verkefni sem annars myndu skapa ríkinu framtíðartekjur. Bíómyndir og sjónvarpsþættir og heimildamyndir sem almenningur fær aldrei að sjá. Afhverju viljiði ekki þessa peninga? Ég bara skil það ekki.

Ég hef meðvitað haldið aftur af mér að minnast á menningarlegt gildi, heimildagildi (því við erum jú skrásetjarar sögunnar) og fleira sem stundum er kallað óáþreifanleg verðmæti. En nú er ég búin að gera það. Ástæðan fyrir því að ég gerði það ekki fyrr er sú að það er stundum eins og fólkið sem heldur um budduna hreinlega taki ekki mark á neinu nema það sé sett í efnahagslegt samhengi. Eins og að um leið og hugtök eins og menningarlegt gildi eða andleg verðmæti heyrist þá slái það skyndilegt og algert heyrnarleysi. Þess vegna endurtek ég spurninguna: Afhverju viljiði ekki peningana okkar?!

Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2015

Bandalag íslenskra listamanna hefur sent umsögn um fjárlagafrumvarpið 2015 til fjálaganefndar, nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar fengu umsögnina einnig senda.

Megininntak umsagnarinnar er eftirfarandi:

*  Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts í 12% er mótmælt

*  Innheimtu útvarpsgjaldi verði skilað að fullu til Ríkisútvarpsins

*  Endurnýjað verði samkomulag um kvikmyndagerð og settar 200 m. kr. til viðbótar í Kvikmyndasjóð

*  Framlag til annarra verkefnatengdra sjóða verði sem hér segir:

–         Myndlistarsjóður                                    45,0 m. kr

–         Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna       89,8 m. kr

–         Tónlistarsjóður                                        81,1 m. kr

–         Bókasafnssjóður höfunda                      42,6 m. kr

–         Barnamenningarsjóður                          8,0 m. kr

–         Listskreytingasjóður                                8,2 m. kr

*  Safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ verði 64,6 m. kr

* Menningarsamningar landshlutanna verði uppfærðir og ætlað sama framlag og á fjárlagaárinu 2013, þ.e. samt. 270,4 m kr. og menningarsamningur við Akureyrarbæ skoðaður m.t.t. umfangs verkefna

*  Verkefnið Handverk og hönnun fái endurnýjaðan samning til þriggja ára með 20 m. kr árlegu framlagi.

*  Málefni kynningarmiðstöðva listgreinanna verði skoðuð sérstaklega, lagt mat á fjárþörf þeirra og gerð áætlun um eflingu starfseminnar. Þangað til slík áætlun liggur fyrir verði framlag til Miðstöðvar íslenskra bókmennta hækkað í 92 m. kr og veitt sérstökum fjármunum til stofnunar Íslenskrar sviðslistamiðstöðvar

*  Kynning á menningu og listum í sendiráðum Íslands verði hækkuð í 12 m. kr

*  Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við áformaðan niðurskurð til listmenntunar á háskólastigi, óbreytt framlag til myndlistarnáms á framhaldsstigi auk þess sem fjárlaganefnd er hvött til þess að tryggja framtíð tónlistarskólanna með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum

* Þá er ítrekuð ósk um að stjórn BÍL fái áheyrn hjá fjárlaganefnd í tilefni af erindi þessu

Umsögn BÍL til fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlagafrumvarps 2015
BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, eru heildarsamtök listafólks í fjórtán aðildarfélögum og starfar bandalagið samkvæmt lögum samþ. 4. nóv. 2000 með síðari breyt. Þar kemur fram að BÍL sinni heildarhagsmunum þeirra listgreina og hönnunar sem mynda bandalagið. Á grunni laganna er gerður samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið þar sem nánar er kveðið á um hlutverk bandalagsins sem ráðgjafa stjórnvalda í málefnum menningar og lista. Áralöng hefð er fyrir því að BÍL sendi vandaða umsögn til fjárlaganefndar Alþingis um þá liði er varða listir og menningu í fjárlagafrumvarpi hvers árs og er það hluti af ráðgjafarhlutverki BÍL gagnvart stjórnvöldum. Sú hefð hefur skapast að fulltrúar BÍL fái áheyrn hjá nefndinni til að fylgja umsögn sinni eftir, en þegar eftir því var leitað 2013 var erindi BÍL um slíka heimsókn synjað. Það gerðist einnig nú í ár (sbr. t-póst frá starfsmanni nefndarinnar frá 8. okt. 2014).

Heildarmyndin
BÍL horfir til heildarhagsmuna listgreina og hönnunar í þessari umsögn og fagnar því að almennri aðhaldskröfu frumvarps til fjárlaga 2015 verði ekki beitt á verkefni sem falla undir menningarmál (bls. 272), en þar mun vera átt við einhvern hluta stofnana á menningarsviðinu frekar en stuðning við sjóði á borð við launasjóði listamanna og hönnuða eða verkefnatengda sjóði sem fjármagna verkefni sjálfstætt starfandi listamanna. BÍL mun því beina sjónum sérstaklega að þeim fjárlagaliðum sem ætlaðir eru sjóðum og miðstöðvum skapandi greina, ásamt þáttum sem lúta að aukinni tekjuöflun ríkissjóðs á kostnað menningar og lista, sbr. áform um hækkun virðisaukaskatts og skerðingu á mörkuðum tekjustofni Ríkisútvarpsins. Einnig eru gerðar alvarlegar athugasemdir við áformaðan niðurskurð til listmenntunar á háskólastigi og óbreytt framlag myndlistarnáms á framhaldsstigi auk þess sem fjárlaganefnd er hvött til þess að tryggja framtíð tónlistarskólanna með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum.

Hækkun virðisaukaskatts
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja til hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts úr 7% í 12% er með öllu óásættanleg. Hún fer ekki bara gegn öllum áformum um eflingu lestrarkunnáttu heldur lýsir hún atlögu að tungumálinu og mun hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir menningarlíf þjóðarinnar. Áhrifin munu ekki einungis birtast í verulegum samdrætti í bókaútgáfu heldur mun útgáfa tónlistar á geisladiskum og hljómplötum vart bíða þess bætur. BÍL styður heils hugar þær kröfur sem komnar eru fram frá fagfélögum rithöfunda og tónlistarmanna um að horfið verði frá þessum áformum. Nær væri að afnema virðisaukaskatt af útgáfu bóka og tónlistar með öllu í skynsamlegum skrefum og býðst BÍL til að leggja stjórnvöldum lið við gerð slíkrar  áætlunar, listum og menningu til hagsbóta um ókomna tíð.

Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið óskert
BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki í dvínandi gæðum bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Sú efnahagslega óvissa sem ríkir í málefnum RÚV eykur enn á þá kreppu sem kvikmyndagerð í landinu glímir við. Það er því eindregin krafa Bandalags íslenskra listamanna að Ríkisútvarpið fái hinn markaða tekjustofn útvarpsgjaldið óskipt inn í reksturinn. Auk þess leggur BÍL til að stjórnvöld taki tafarlaust til alvarlegrar skoðunar með hvaða hætti megi tryggja stöðu stofnunarinnar til framtíðar, svo sem fyrirheit eru gefin um í fjárlagafrumvarpinu, t.d. með því að létta  af stofnuninni þungum lífeyrisskuldbindingum.

Listmenntun í hættu
Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnvalda er að tryggja fjölbreytta menntun fyrir alla aldurshópa, m.a. með auknum hlut list- og verkmenntunar, fyrirheit þar um hafa stjórnvöld gefið í gildandi námsskrám fyrir öll skólastig og menningarstefnu Alþingis frá 2013 (kafli I, tl. 4). Þrátt fyrir það hefur ævinlega þurft að berjast fyrir hlut listkennslu og er það einnig svo nú. Í frumvarpi til fjárlaga 2015 er gert ráð fyrir óbreyttu framlagi ríkisins til tónlistarnáms á vegum sveitarfélaganna eða 520 milljónum. Í ljósi stöðunnar í kjarabaráttu tónlistarkennara telur BÍL einboðið að stjórnvöld skoði með hvaða hætti börnum og ungmennum verði tryggð áframhaldandi menntun í tónlist jafnt í tónlistarskólum sem og menntun í tónmennt sem hluta af almennu námi í grunnskólum landsins. Sama er að segja um myndlistarnám á framhaldsstigi, þar gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir óbreyttum framlögum milli ára. Loks má geta þess að enn vantar reglugerð fyrir nám í listdansi á grunn- og framhaldsstigi, sem veikir grundvöll náms í listdansi á þessum skólastigum. Stjórnvöld þurfa að átta sig á mikilvægi framhaldsnáms í listgreinunum ef þau meina eitthvað með yfirlýsingum um átak í atvinnusköpun í skapandi greinum. Slíkt átak verður ekki gert öðruvísi en með öflugu menntakerfi í listum og hönnun.

Háskóli listgreinanna
Listaháskóli Íslands, menntastofnun listgreinanna á háskólastigi, er eini háskólinn  (utan Landbúnaðarháskóla Íslands) sem ekki fær aðhaldskröfu fjárlaga bætta með auknum nemendaígildum. Auk þess fellur niður 20 milljóna króna tímabundið framlag til úrbóta í húsnæðismálum skólans. Þegar skólinn var stofnaður, fyrir hvatningu frá Bandalagi íslenskra listamanna og með viljayfirlýsingu stjórnvalda, var strax áformað að skólanum yrði fundinn samastaður þar sem listgreinarnar gætu auðgað hver aðra í skapandi sambýli. Enn er skólinn rekinn víðs vegar um borgina og að stórum hluta í húsnæði sem hvorki stenst öryggiskröfur eða kröfur um aðgengi, að ekki sé talað um plássleysi og faglegar kröfur starfseminnar. BÍL lýsir yfir vilja til að leggjast á árar með stjórnvöldum í baráttunni fyrir bættum húsakosti LHÍ, en innan skólans er að finna ýmsar skapandi hugmyndir til lausna. Þá er mikilvægt að gera skólanum kleift að efna til meistaranáms í sviðslistum, en leiklist og dans eru einu námsbrautirnar sem ekki bjóða þann möguleika. Einnig er mikilvægt að fjárlaganefnd Alþingis sé upplýst um áform LHÍ um háskólanám í kvikmyndagerð, sem hefur staðið vilji til að koma á en aldrei verið fjárhagslegt svigrúm til þess í fjárframlögum til skólans. Í ljósi velgengni íslenskra kvikmynda á seinni árum og jákvæðra efnahagslegra áhrifa kvikmyndagerðar á þjóðarbúið hvetur BÍL fjárlaganefnd til að skoða auknar fjárheimildir til LHÍ fyrir háskólanám í kvikmyndagerð í fjárlagafrumvarpi 2015.

Fjárfesting í skapandi greinum
Í umsögn BÍL til fjárlaganefndar 2013 var gagnrýnd sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hverfa alfarið frá fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, sem m.a. náði til fjárfestinga í skapandi atvinnugreinum. Sú ákvörðun gerir stöðu skapandi greina í frumvarpi til fjárlaga 2015 lítið betri en hún var í frumvarpinu 2014, þó lítillega hafi verið bætt úr við þriðju umræðu fjárlaga 20. og 21. desember 2014. Þ.a.l. verður í þessum kafla umsagnarinnar litið til fjárlaga 2013 og þeirrar áætlunar um eflingu skapandi greina, sem að mörgu leyti gekk eftir og sýndi sig í hækkuðu framlagi til verkefnatengdra sjóða listgreina og hönnunar á fjárlagaárinu 2013. Í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á eflingu skapandi greina í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar („Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styðja við skapandi greinar….“) og einnig í ljósi orða forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar um sókn í skapandi greinum („ Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs…“) lítur BÍL svo á að ákveðin mistök hljóti að hafa átt sér stað við gerð fjárlagafrumvarpsins 2015 og leggur því í umsögn sinni til nokkrar veigamiklar breytingar svo áform ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga.

Samspil launasjóða og verkefnasjóða
Í skýrslum sem gerðar hafa verið til að greina umfang skapandi atvinnugreina og starfsumhverfi þeirra, kemur fram að flestir listamenn og stór hluti hönnuða starfi í eigin atvinnurekstri eða sem einyrkjar og að starfsumhverfi þeirra sé ótryggt, m.a. vegna þess að störfin séu háð stuðningi úr verkefnasjóðum af ýmsu tagi. Á síðustu árum hefur BÍL tekið þátt í vinnu stjórnvalda við endurskipulagningu fjármögnunar verkefna á vettvangi skapandi greina. Í þeirri  vinnu hefur áhersla verið lögð á samhæft kerfi launasjóða og verkefnasjóða sem byggi á faglegu mati umsókna og reglu hæfilegrar fjarlægðar. Það er mat BÍL að vel hafi tekist til í þessari endurskipulagningu, nema hvað fjármunirnir hafa ekki skilað sér með þeim hætti sem lagt var upp með. Hér á eftir fylgja tillögur sem byggja á þeim hugmyndum sem liggja að baki endurskipulagningunni og eru forsenda þess að skapandi greinar eflist. Þar á meðal er tillaga um að nýtt samkomulag verði gert við kvikmyndagerðarmenn um framtíð Kvikmyndasjóðs með það að markmiði að framlag til sjóðsins hækki í einn og hálfan milljarð á þremur árum. Fyrsti áfanginn verði hækkun um 300 milljónir 2015:

Framlag til Kvikmyndasjóðs hækki úr                       724,7     í           924,7

Myndlistarsjóður hækki úr                                              15      í              45,0

Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna hækki úr            68,5     í              89,8

Tónlistarsjóður hækki úr                                               44,9     í              81,1

Bókasafnssjóður höfunda hækki úr                            30,0     í              42,6

Barnamenningarsjóður hækki úr                                 3,9      í                8,0

Listskreytingasjóður hækki úr                                       1,5      í                8,2

Styrkir á sviði listgreina hækki úr                                36,6      í              64,6

 

Menningarsamningar við landshlutana
Auk þess sem hér er talið hvetur Bandalag íslenskra listamanna fjárlaganefnd til að huga sérstaklega að menningarsamningum við landsbyggðina. Það menningarstarf sem unnið hefur verið á grundvelli samninganna hefur skipt sköpum í blómlegu menningarstarfi landsbyggðarinnar á undanförnum árum auk þess sem þeir eru grundvöllur þess að byggð verði upp atvinnutækifæri í skapandi greinum utan höfuðborgarsvæðisins (sjá grein forseta BÍL í Austurfrétt 27.10.14 ). Skv. frumvarpi til fjárlaga 2015 eru menningarsamningarnir óbreyttir að krónutölu frá fyrra ári, bæði sá hluti þeirra sem fjármagnaður er af fjárlagalið mennta- og menningarmálaráðuneytis (207,4) sem og sá hluti sem fjármagnaður er af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti (40,0). Þannig vantar 23 milljónir króna inn í samningana til að þeir standi í sömu krónutölu og þeir gerðu á fjárlagaárinu 2013. Samningurinn við Akureyrarbæ hefur einnig lækkað frá árinu 2013 og í ljósi erfiðleika í rekstri menningarstofnana á Akureyri er full þörf á að gefa gaum að þeim samningi líka. Þá er rétt að geta verkefnisins Handverk og hönnun, en það samningslaust um þessar mundir og þyrfti endurnýjaður samningur að fela í sér 8 milljóna króna hækkun á árlegu framlagi ef verkefnið á að geta sinnt áfram sínu mikilvæga hlutverki, sem er að auka gæði íslenska handverksins og gera sterkustu verkefnin hæfari til framleiðslu.

Miðstöðvar listgreinanna og rýrir safnliðir
Varðandi safnliði mennta- og menningarmálaráðuneytis; Kynningarmiðstöðvar listgreina (99,8 m kr) og Styrkir á sviði listgreina (36,6 m kr) þá væri gagnlegt ef þeir væru betur sundurliðaðir í skýringum við frumvarpið. BÍL hvetur nefndarmenn í fjárlaganefnd til að óska eftir sundurliðunum frá ráðuneytinu til þess að auka skilning á þeirri mikilvægu starfsemi sem þessum liðum er ætlað að fjármagna. Undir hatti safnliðarins um kynningarmiðstöðvarnar eru nú Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, Íslensk tónverkamiðstöð og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, sú síðasttalda er skemmst á veg komin og þarf verulega á hvatningu frá opinberum aðilum að halda til að komast almennilega á legg. Miðstöðvarnar gegna lykilhlutverki í kynningu lista og menningar á erlendri grund, m.a. með því að veita faglega ráðgjöf ráðuneytum, sveitarfélögum, sendiskrifstofum Íslands, Íslandsstofu og markaðsskrifstofum útflutningsfyrirtækja. Forstöðumenn þeirra sitja t.d. í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum og vinna þar náið með fagráði ferðaþjónustunnar í að samþætta aðgerðir í menningartengdri ferðaþjónustu fyrir erlenda ferðamenn og markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Hluti af fjármögnum slíkra kynningarverkefna kemur gegnum fjárlagalið utanríkisráðuneytis Kynning á menningu, listum og skapandi greinum á erlendri grund, en sá liður er lægri í fjárlagafrumvarpinu 2015 en hann var á yfirstandandi fjárlagaári og vantar raunar 2 milljónir króna til að ná þeim 12 milljónum sem varði var til hans á fjárlagaárinu 2013. Þá vantar Miðstöð íslenskra bókmennta enn 20,4 milljónir króna til að ná því 92ja milljóna króna framlagi sem hún hafði á fjárlögum 2013.

Hönnunin hefur vistaskipti
Þær breytingar hafa orðið á fjárlagafrumvarpinu milli ára að Hönnunarmiðstöð, hönnunarsjóður og aðgerðaáætlun á grundvelli hönnunarstefnu hafa haft vistaskipti. Fram að þessu hefur það verið sameiginlegt verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytis að fjármagna rekstur Hönnunarmiðstöðvar og hönnunarsjóð. En þegar hönnunarstefna fyrir Ísland (http://lhi.is/news/honnunarstefna-2014-2018/) var samþykkt í janúar á þessu ári voru málefni hönnunar flutt alfarið til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Það kann að hafa verið skynsamlegt með tilliti til þess hversu erfiðlega hefur gengið að skapa samhenta stjórnsýslu um málefni skapandi atvinnugreina, í öllu falli kemur Hönnunarsjóður einna best út af verkefnatengdum sjóðum í fjárlagafrumvarpi 2015. Hann kemst aftur í sitt fyrra horf (sbr. fjárlög 2013), þ.e. fær hækkun upp í 45 milljónir (er 25m kr í fjárlögum 2014) auk þess sem aðgerðaáætlun á grundvelli hönnunarstefnu fær 10 milljónir og Hönnunarmiðstöð 15 milljónir í rekstrarstyrk (bls. 324, 328 og 337). Undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er einnig að finna sjóðinn sem fjármagnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sem hækkar milli ára um 300 milljónir króna. Það kann því að vakna sú spurning hvort lykillinn að hærra fjárframlagi í verkefni skapandi greina sé að færa þau úr menningarmála-ráðuneytinu og til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis?

Raunhæfar væntingar
Bandalag íslenskra listamanna gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir erfiðri stöðu ríkissjóðs og virðir tilraunir stjórnvalda til að koma böndum á opinber útgjöld. Það er hins vegar bjargföst sannfæring okkar, sem gætum hagsmuna listamanna og hönnuða, að þau tæki sem stjórnvöld hafa í höndunum á hverjum tíma til að tryggja fjölbreytt atvinnulíf í landinu öllu, séu ekki nægilega vel nýtt ef tillögur fjárlagafrumvarpsins ná fram að ganga. Lægri virðisaukaskattur á bækur og tónlist, ásamt eflingu verkefnatengdra sjóða á listasviðinu jafngildir fjárfestingu í hugviti og sköpunarkrafti, sem mun skila sér margfalt bæði með beinum hætt í ríkissjóð en ekki síður í bættum lífsgæðum og fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna. Þessi sjónarmið eru studd gildum rökum í ýmsum skýrslum og rannsóknum um hagræn áhrif lista og menningar. Þau fara líka saman við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar, þess vegna telur Bandalag íslenskra listamanna sig í erindi þessu hafa fjallað um fjárveitingar til skapandi greina af þekkingu og fagmennsku, ásamt því sem við teljum tillögur okkar vera fullkomlega raunhæfar.

Að lokum leyfum við okkur að setja fram ósk um fund með fjárlaganefnd Alþingis um málefni þau sem hér hafa verið reifuð,

Virðingarfyllst,
f.h. Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

Myndlist og hugsun

Katrín Jakobsdóttir fyrrv. mennta- og menningarmálaráðherra, skrifar pistil á heimasíðu SÍM í tilefni af degi myndlistar:

bildeCAPDOE5JHvaða áhrif hefur listin á það hvernig við tökum ákvarðanir í okkar daglega lífi? Í heimi þar sem sjónrænt áreiti er endalaust er það eigi að síður svo að góð listaverk geta haft jákvæð áhrif á líðan okkar og hugsanir sem beint og óbeint eru forsendur allrar ákvarðanatöku. Myndlistin og sjónlistirnar hafa þróast mikið seinustu áratugi. Listgreinar renna saman í margháttuðum gjörningum og stundum skiljum við, sem eigum til að vera föst í hefðbundnum og gömlum skilgreiningum á listgreinum, ekki nákvæmlega hvað gerir myndlist að myndlist. Og gleymum því að það skiptir kannski ekki öllu máli, mestu skiptir sú upplifun sem verkið veitir okkur, sá innblástur sem það getur orðið okkur.

Flest hengjum við upp myndir í kringum okkur og þær geta skýrt fyrir sjálfum okkur og öðrum hver við erum. Myndir barnanna okkar, myndir jafnvel eftir okkur sjálf eða látna ættingja, myndir sem okkur þykir vænt um því þær eru fallegar, vekja með okkur tilfinningar eða styðja við okkur í daglega lífinu. Daglega horfi ég á verk eftir Ólaf Ólafsson og Libiu Castro sem minnir mig á hve auðvelt það getur verið að svipta fólk réttindum. Daglega horfi ég á skúlptúr eftir Erling Jónsson myndhöggvara sem minnir mig á að dramb er falli næst. Daglega horfi ég á styttuna af Jóni Sigurðssyni sem minnir mig á að við erum sjálfstæð þjóð og verk Santiago Sierra sem minnir mig á mikilvægi borgaralegrar óhlýðni. Ég horfii líka á skip pabba Línu Langsokks og stóran ruslafugl sem minnir mig á að ímyndunaraflinu virðast lítil takmörk sett.

Listin og mennskan

Öll góð list í umhverfinu hjálpar okkur að muna af hverju við erum menn. Listamenn fást við mennskuna og samspil hennar við náttúru og tækni, og með verkum sínum dýpka þeir skilning okkar á umheiminum og styrkja sjálfsþekkingargreind okkar. Þess vegna er myndlistin mikilvæg því hún gerir okkur að betri og meiri mönnum.

En listin eykur líka fegurðina í lífi okkar, sem oft er vanmetin. Við gerum okkur hugsanlega ekki grein fyrir því dags daglega hve umhverfið skiptir okkur miklu. Að lifa í eilífu skammdegi grárra bygginga þar sem ekkert brýtur upp umhverfið, ekki sést stingandi strá eða eitt listaverk, hlýtur að hafa önnur áhrif á sálina en að hafa græn lungu í þéttbýlinu; fjölbreyttan og framsækinn arkitektúr og að almenningur hafi aðgang að spennandi og ögrandi listaverkum.

Í tilefni af Degi myndlistar hvetur Samband íslenskra myndlistarmanna okkur öll til að hugsa um mikilvægi myndlistar og myndlistarmanna í samfélagi okkar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að myndlist getur haft gríðarleg áhrif á líðan og geð okkar allra, getur hjálpað okkur að öðlast dýpri skilning og þekkingu á tilvistinni og gert okkur öll að betri mönnum.

Þetta mætti Alþingi hafa í huga nú þegar þar er fjallað um fjárlagafrumvarp ársins 2015 en þar er lagt til að skera niður myndlistarsjóð í 15 milljónir sem er þriðjungur þess framlags sem hann fékk við stofnun 2013. Þessi litli sjóður hefur haft jákvæð áhrif eftir að hann kom til og má vart vera minnni. Sú ráðstöfun að skera hann niður hlýtur að hafa neikvæð áhrif á umhverfi okkar og lífsgæði og kannski meiri en við áttum okkur á við fyrstu sýn. Markmið okkar allra ætti að vera þveröfugt; að efla þessa listgrein eins og aðrar.

Fríverslunarsamningar ESB og USA – TTIP

Í dag sendi BÍL eftirfarandi fréttatilkynningu til íslenskra fjölmiðla:

Fyrir hönd norrænna listamannasamtaka* sendir Bandalag íslenskra listamanna íslenskum fjölmiðlum  hjálagða ályktun. Ályktunin hefur verið send yfirmanni viðskiptamála í framkvæmdastjórn ESB, Ceciliu Malmström. Efni ályktunarinnar varðar möguleg áhrif fríverslunarsamninga Evrópusambandsins og Bandaríkjanna (TTIP) á menningarmál, sérstaklega hljóð- og myndmiðlunargeirann (audiovisual sector). Ályktunin er samin í framhaldi af fundi sem norrænu listamannasamtökin héldu 2. september sl. í Kaupmannahöfn, en þar fjölluðu sérfræðingar um ýmsa þætti yfirstandandi viðræðna og það sem vitað var um samningsmarkmið samninganefndar ESB. Meðal þess sem listamannasamtökin hafa gagnrýnt er leyndin sem hvílt hefur yfir samningaviðræðunum. Nokkrum dögum áður en hjálögð ályktun átti að birtast voru samningsmarkmið samninganefndar ESB gerð opinber, svo segja má að áhrif þessarar vinnu séu þegar farin að skila sér. Ályktunin er send fjölmiðlum á íslensku og ensku:

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins**
Stjórnarsvið viðskiptamála
Cecilia Malmström
TTIP-samninganefndir
Brussel, Belgíu 

Áhrif TTIP á menningarmál og  hljóð-  og myndmiðlunargeirann
Við – samtök norrænna listamanna*, fulltrúar meira en 90.000 atvinnumanna í ólíkum listgreinum á Norðurlöndum – lýsum yfir þungum áhyggjum af þeim viðræðum um fríverslunarsamning sem nú fara fram á milli Evrópusambandsins (ESB) og Bandaríkjanna um TTIP – Transatlantic Trade and Investment Partnership[1].

Samtök norrænna listamanna hvetja samninganefnd framkvæmdastjórnar ESB** til að hafa í huga skyldurnar sem felast í UNESCO-samningnum frá 2005 um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform (UNESCO-samningurinn) sem ESB hefur fullgilt og tryggja að markmið samningsins verði að fullu virt í TTIP-samningaviðræðunum.

Við krefjumst þess að samninganefndir TTIP:

 • gæti þess að markmið og skyldur UNESCO-samningsins um menningarlega fjölbreytni verði að fullu virt í TTIP-samningaviðræðunum;
 • tryggi að ekki verði gengist undir neinar skuldbindingar í menningargeiranum – sem er ekki undanskilinn skýrum orðum í samningaviðræðunum – um lokagerð samningsins;
 • sýni hljóð- og myndmiðlunarundanþáguna á fullnægjandi hátt með því að tryggja víðtæka og ótímabundna undanþágu hljóð- og myndmiðlunarþjónustu óháð tækni og verkvangi þar sem netþjónusta er talin með; og
 • auki gagnsæki í samningaferlinu með því að gera samningaviðræðugögnin aðgengileg evrópskum borgurum í meira mæli.

Menningarleg fjölbreytni
Markmið UNESCO-samningsins er að vernda og styðja við fjölbreytileika menningarlegra tjáningarforma, eins og lýst er yfir í grein 1(a) og grein 4.1 í samningnum. Í grein 5.1 (Almenn regla um réttindi og skyldur) árétta samningsaðilar rétt sinn sem fullvalda þjóða til að móta og framkvæma eigin stefnu í menningarmálum og til að gera ráðstafanir í því skyni að vernda og styðja við fjölbreytileika menningarlegra tjáningarforma. Í 6. grein (Réttur samningsaðila á innlendum vettvangi) er tilgreint hvað kann að falla undir slíka menningarmálastefnu og ráðstafanir.

Samtök norrænna listamanna hvetja samninganefndir TTIP til að virða þau markmið og skyldur sem felast í UNESCO-samningnum og ekki síst að taka tillit til 20. greinar samningsins, þar sem samningsaðilar gangast undir að uppfylla í góðri trú skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum og öllum öðrum sáttmálum sem þeir eiga aðild að. Af því leiðir að þjóðríkin eiga ekki að setja UNESCO-samninginn skör lægra en nokkurn annan samning við túlkun og framfylgd annarra sáttmála sem þau eiga aðild að eða þegar þau taka á sig aðrar alþjóðlegar skuldbindingar, heldur taka fullt tillit til þeirra ákvæða samningsins sem málið varða.

Þar sem megintilgangur fríverslunarsamninga (þar á meðal TTIP), til dæmis ákvæða um frjálst aðgengi að mörkuðum, landsbundna meðferð og bestu kjör, er að draga úr allri mismunun í reglugerðum og innlendum styrkjakerfum aðildarríkja samninganna, er augljós hætta á að menningarleg fjölbreytni Evrópu sé í húfi í TTIP-viðræðunum.

Ef ofangreind áhyggjuefni eru ekki tekin alvarlega gæti TTIP haft áhrif á lands- og svæðisbundna styrki og styrkjakerfi, skaðað innlend og svæðisbundin störf innan menningargeirans og spillt evrópsku höfundarréttarkerfi. Allar þessar mögulegu afleiðingar af TTIP vinna gegn því að styrkja aðstæður og vinnuskilyrði listamanna og menningargeirans í Evrópu.

Menningarmál og hljóð- og myndmiðlunargeirinn
Upphafleg áform TTIP um aukið frjálsræði, jafnt af hálfu evrópsku og bandarísku aðilanna, fólust í víðtæku fríverslunarsamkomulagi sem ætlað var að ná til allra þátta samfélagsins, þar á meðal menningar- og hljóð- og myndmiðlunarþjónustu. Þessi fyrirætlan vakti efasemdir menningarmálaráðherra 14 aðildarríkja ESB og Evrópuþingsins, þar sem mikill meirihluti vildi að menningar- og hljóð- og myndmiðlunarþjónusta yrði afdráttarlaust útilokuð frá samningsumboðinu. Eftir langar viðræður á fundi ráðherranefndarinnar í júní 2013 samþykkti nefndin loks að hljóð- og myndmiðlunarþjónusta yrði fyrst um sinn undanskilin.

9. atriði í umboðinu sem ráðherranefndin veitti TTIP-samninganefndinni í júní 2013 (en trúnaði var létt af því í október 2014) er skref í rétta átt. Með þessari samnorrænu yfirlýsingu viljum við tryggja að framkvæmdastjórnin virði 9. striði í samningsumboðinu og taki það til greina í TTIP-samingaviðræðunum í samræmi við kröfur okkar.

Að mati samtaka norrænna listamanna þarf undanþágan um hljóð- og myndmiðlun að endurspeglast á fullnægjandi hátt í samningnum sjálfum í því skyni að vernda og styðja við menningarlega fjölbreytni og fjölhyggju fjölmiðla í Evrópu. Því viljum við leggja áherslu á mikilvægi víðtækrar og ótímabundinnar undanþágu hljóð- og myndmiðlunarþjónustu, óháð tækni og verkvangi, sem nær til helstu hljóð- og myndmiðlunarþjónustu sem stendur til boða á Internetinu. Hljóð- og myndmiðlunarþjónusta sem er boðin sem hluti af pakkalausnum ætti einnig að falla undir það.

Við viljum ennfremur hvetja samninganefndirnar til að tryggja að í lokagerð TTIP-samningsins verði engar skuldbindingar settar á menningargeirann, sem ekki er skýrt undanskilinn í viðræðununum. Til að svo megi verða þarf að taka það skýlaust fram í samningnum að menningarþjónusta sé undanskilin honum og við hvetjum samninganefndirnar því til að nota breiðari skírskotun UNESCO-samningsins. Tilvísun í skyldurnar sem fylgja UNESCO-samningnum þarf einnig að koma fram í formála TTIP.

Gagnsæi
Skortur á gagnsæi er mikið lýðræðislegt vandamál í TTIP-viðræðunum. Leyndin sem hvílir á samningaviðræðunum stangast einnig á við 11. grein UNESCO-samningsins sem kveður á um að samningsaðilar hans viðurkenni mikilvægi borgaralegs samfélags við að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform. Samningsaðilar ættu því að hvetja til virkrar þátttöku borgaralegs samfélags í viðleitni sinni til að ná fram markmiðum samningsins.

Norrænu listamannasamtökin hvetja því samninganefndir TTIP til að leggja sitt af mörkum til að samningstextinn verði aðgengilegri í meira mæli og til að bæta upplýsingastreymi til borgaralegs samfélags um framgang samningaviðræðnanna í því skyni að borgarar og listamenn í Evrópu hafi aðgang að þeim málum sem eru rædd í TTIP-samningaviðræðunum. Opið og lýðræðislegt samningaferli skiptir meginmáli ef TTIP á yfirleitt að komast á. 

28. október 2014
Fyrir hönd samtaka norrænna listamanna*

Mats Söderlund, KLYS – the Swedish Council of Artists

Lena Brostrøm Dideriksen, Council of Danish Artists

Ilkka Niemeläinen, Forum Artis – the Joint Organization of Associations of Finnish Artists

Kolbrún Halldórsdóttir, BIL – Federation of Icelandic Artists

Anders Hovind, Kunstnernetverket – Norwegian Artist Network

Leif Saandvig Immanuelsen, EPI – Greenland Organization of Creative and Performing Artists

Bárður Dam, LISA – Faroese Council of Artists,

Brita Kåven, Sami Artists Council

* Bandalag íslenskra listamanna, Bandalag norskra listamanna, Bandalag sænskra listamanna og rithöfunda, Danska listamannaráðið, Forum Artis – bandalag finnskra listamannasamtaka, Færeyska listamannaráðið, Listamannaráð Sama og Samband grænlenskra listamanna.

* Þessi útgáfa er ætluð Stjórnarsviði viðskiptamála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Svipuð yfirlýsing verður send Evrópuþinginu, Stjórnarsviði mennta- og menningarmála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og ríkisstjórna og þjóðþinga Norðurlandanna.

[1] Samstarf um viðskipti og fjárfestingar yfir Atlantsála

 

Málefni listmenntunar og höfundarréttar rædd við ráðherra

Stjórn BÍL hitti mennta- og menningarmálaráðherrra í morgun, ásamt völdum embættismönnum, til að ræða þau mál sem útaf stóðu eftir samráðsfundinn með ráðherranum 2. apríl í vor. Það voru málefni listmenntunar og höfundarréttar, sem eru mikilvægir þættir í starfsumhverfi listafólks. Fyrir fundinum lá minnisblað frá stjórn BÍL sem fer hér á eftir:

Á samráðsfundi stjórnar BÍL og mennta- og menningarmálaráðherra, sem haldinn var 2. apríl 2014, náðist ekki að ræða tvö málefni til hlítar:

a)     málefni höfundarréttar
b)     málefni tengd listmenntun á öllum skólastigum og aðkomu listamanna að listuppeldi barna og ungmenna.

Höfundarréttur:

 • Höfundarréttur; mikilvægt er að stjórnvöld séu bandamenn listafólks í baráttunni fyrir réttlátum hlut rétthafa af miðlun efnis sem nýtur verndar skv. höfundalögum
  –  tryggja þarf rétthöfum sanngjarna þóknun fyrir það efni sem miðlað er um netið
  –  komið verði á samstarfi við gagnaveitur og símafyrirtæki um fyrirkomulag innheimtu

–  leggja gjöld á öll tæki sem nota má til afritunar og breyta reglugerðum/lögum í því skyni

–  tryggja að löggjöf endurspegli framfarir í regluverki ESB um greiðslur til rétthafa
–  standa vörð um menningarlega fjölbreytni t.d. með því að undanskilja list- og    menningartengdar „afurðir“ og þjónustu í TTIP-samningum um fríverslun ESB og USA
– tryggja innheimtu vegna útleigu bókasafna á kvikmyndum og tónlist (sbr. bókasafnssjóður)
–  reglur um fylgiréttargjald fylgi þróun í ESB, sbr. samkomulag þar um frá feb. 2014 

Málefni tengd listmenntun og listuppeldi barna og ungmenna:

 • Listaháskóli Íslands – lykill að frumsköpun, samlegð listgreinanna mikilvæg, leysa þarf bráðavanda í húsnæðismálum skólans, efla meistaranám, tryggja fé til rannsókna, móta stefnu um nám í kvikmyndagerð á háskólastigi (sbr. skýrslur mmrn og LHÍ)
 • Rannsóknir í listum – ekki minnst á listtengdar rannsóknir í áætlun Vísinda- og tækniráðs 2014 – 2016, aðgangur listamanna að rannsóknarsjóðum afar takmarkaður, tækniþróunarsjóður og innviðasjóður lokaðir listafólki
 • Skólastigin þrjú –  mismunandi ábyrgð eftir skólastigum;  grunn-, mið- og framhaldsstig, hvað varð um umræðuna um að ríkið bæri ábyrgð á fjármögnun framhaldsstigsins? Listnám á framhaldsstigi er víða með miklum blóma en nýtur ekki viðurkenningar sem skyldi
 • Málefni tónlistarskólanna – endurnýjuð lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarfræðslu nr. 75/1985, hvað varð um tillögu nefndar frá í janúar 2013? Eða lagfæringar samkomulagsins frá 13. maí 2011?
 • Listdansinn –hálfstigið skref frá 2005,  staða dansskólanna verði sambærileg við tónlistarskólana, bráðabirgðastyrkir ófullnægjandi, samtalið við sveitarfélögin flókið án aðkomu ráðuneytisins, dansinn þarf svipaða úrlausn og tónlistarfræðslan.
 • Kvikmyndanám á framhaldsstigi –  sinna þarf kvikmynda- og myndlæsi í almenna skólakerfinu, Bíó Paradís hefur fræðsluhlutverk sem eðlilegt er að nýta.
 • Sviðslistirnar – sviðslistalögin, sviðslistamiðstöð sú eina sem enn er óstofnuð, meistaranám í sviðslistum og nauðsynlegar úrbætur í húsnæðismálum sviðslistadeildar LHÍ við Sölvhólsgötu.
 • Ópera – fræðslustarf ÍÓ, hlutverk óperustúdíós, ótal tækifæri sem nýta má betur.
 • Listir og skóli – námsskrá, Tónlist fyrir alla, Skáld í skólum, Litróf listanna, Menningar-bakpokinn, samstarf við Reykjavíkurborg og Samb.sveitarfélaga, hvenær er að vænta niðurstöðu starfshóps ráðuneytisins um barnamenningu?
 • Gæði náms – hvaða vinna er í gangi til að tryggja gæði þess listnáms sem veitt er á grunn- og framhaldsstigi?

Stjórn BÍL hittir nýja forystu Ríkisútvarpsins

Stjórn BÍL hitti nýja stjórnendur Ríkisútvarpsins á fundi í Iðnó í dag þar sem skipst var á skoðunum um það mikilvæga menningarhlutverk sem hvílir á Ríkisútvarpinu ohf – fjölmiðli í almannaþágu. Til fundarins kom nýráðinn útvarpsstjóri Magnús Greir Þórðarson, ásamt skrifstofustjóra RÚV Margréti Magnúsdóttur og dagskrárstjórum Rásar 1 og sjónvarps, þeim Þresti Helgasyni og Skarphéðni Guðmundssyni. Á fundinum fóru fram málefnanleg skoðanaskipti um það sameiginlega hagsmunamál listafólks og stjórnenda Ríkisútvarpsins  að þannig sé búið að Ríkisútvarpinu að það fái staðið undir þessu mikilvæga og margslungna menningarhlutverki af myndugleik og voru sjónarmið skýrð á báða bóga. Sammæltust fundarmenn um að skapa skilyrði fyrir áframhaldandi samtal þessara aðila í þágu menningararfsins, tungunnar, sögunnar, listarinnar og lífsins í landinu.

 

Að loknum samráðsfundi

Í dag var haldinn árlegur samráðsfundur stjórnar BÍL og mennta- og menningarmálaráðherra. Fyrir fundinn var ljóst að minnisblað það sem stjórn BÍL hafði sent ráðherranum og birt var hér á síðunni 17. mars sl. væri svo efnismikið að ekki yrði hægt að koma öllum efnisatriðunum fyrir á tveggja klukkustunda fundi. Það var því að beiðni ráðuneytisins að menntamálin voru tekin út af dagskránni. Þá var minnisblaðið endurnýjað og tekið tillit til óska ráðuneytisins og fylgt dagskrá sem send var út fyrir fundinn. Hér fer á eftir stytt útgáfa af minnisblaðinu (en jafnvel þó flest það er laut að menntamálum hafi verið tekið út af dagskránni, þá náðist ekki að fjalla um alla þætti minnisblaðsins).

Í inngangsorðum forseta kom fram að BÍL hefði fullan skilning á því að ráðherra skyldi hafa gert athugasemdir við upphaflegt minnisblað, þótt það full yfirgripsmikið fyrir tveggja klst fund, en gerðar voru athugasemdir við það að  málefni menntunarar skyldu ekki komast að á fundinum og var þess óskað að BÍL fengi sérstakan fund um þau mál með ráðherra innan fárra vikna. Þá gat forseti um fjármál BÍL og lýsti því að stjórn BÍL væri ósátt við það að í fyrirlyggjandi drögum að samstarfssamningi BÍL og ráðuneytisins skuli ekki vera grert ráð fyrir neinni hækkun á árlegu framlagi, upphæðin sé m.a.s. lægri, í krónum talið, en hún var fyrir hrun. Einnig undirstrikaði forseti hvatningu BÍL til stjórnvalda varðandi þörfina á að komið verði til móts við listamenn og hönnuði í markvissri uppbyggingu starfsumhverfis skapandi atvinnugreina í samræmi við yfirlýstan vilja og samþykkta stefnu Alþingis, enda sameiginlegt hagsmunamál að efla fjölbreytni í atvinnulífi um land allt. BÍL hefur áhyggjur af þeirri uppgjöf sem virðist gæta innan stjórnarráðsins með að sinna málefnum greinanna þvert á ráðuneyti, svokölluð þverfagleg nálgun, sbr málefni hönnunar og menningarsamninga landshlutanna. BÍL vill undirstrika mikilvægi frumsköpunar í listum, sem í augum listamanna er forsenda þess að atvinnugreinar verði til á grundvelli listsköpunar. Þess vegna er kallað eftir aðgerðaáætlun á grundvelli skýrslunnar frá 2012 Skapandi greinar; sýn til framtíðar.

Ríkisútvarpið
Tryggja þarf Ríkisútvarpinu nægilegt rekstrarfé svo það geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu, í því sambandi er eðlileg krafa að nefskatturinn sem almenningur greiðir skili sér að fullu til stofnunarinnar. BÍL hefur ævinlega litið á Ríkisútvarpið sem einn af máttarstólpum menningar í landinu. Hlutverk þess er skilgreint í lögum og mikilvægt að stefna stofnunarinnar endurspegli lögin. Þá þarf sjálfstæði Ríkisútvarpsins að vera tryggt og því gert kleift að rækja almannaþjónustuhlutverk sitt með reisn. Það er mat BÍL að nokkuð skorti á hvað varðar innlenda framleiðslu dagskrárefnis í útvarpi og sjónvarpi, forgangsatriði er að auka hlut þess í dagskránni hvort sem það er gert með aukinni eiginframleiðslu eða með kaupum af sjálfstæðum framleiðendum. BÍL hefur átt samtal við stjórnendur Ríkisútvarpsins með reglubundnum hætti og mun halda því áfram með nýjum stjórnendum, en óskar jafnframt eftir atbeina og stuðningi stjórnvalda.

Verkefnasjóðir og kynningarmiðstöðvar á listasviðinu
Síðastliðið vor skilaði starfshópur um verkefnasjóði og kynningarmiðstöðvar á listasviðinu ráðherra skýrslu með greiningu á starfsumhverfi sjóðanna og miðstöðvanna ásamt tillögum að samræmingu í tengslum við umsýslu þeirra.  Í framhaldinu var Rannís falið aukið hlutverk  hvað umsýsluna varðar, en fátt hefur heyrst af öðrum tillögum hópsins.  BÍL lítur svo á að stjórnvalda bíði það verkefni að tryggja að í hverri listgrein sé til staðar sjóður með skilgreint hlutverk og stoð í lögum, auk þess sem starfsumhverfi miðstöðva listgreina og hönnunar verði samræmt. Slíkt er forsenda þess að jafnræði ríki milli einstakra listgreina varðandi aðgang að opinberum stuðningi. Því telur BÍL mikilvægt að yfirfara einstakar tillögur úr skýrslu starfshópsins með það að markmiði að ljúka innleiðingu skilvirkara stuðningskerfis við listgreinar og hönnun. Sú vinna tæki einnig mið af skýrslunni Skapandi greinar – sýn til framtíðar.

Bókasafnssjóður höfunda
Bókasafnssjóður höfunda starfar skv. lögum nr. 91/2007 sem mæla m.a. fyrir um greiðslur fyrir afnot bóka á bókasöfnum og gera þau ráð fyrir að Alþingi ákveði fjárveitingu til sjóðsins í fjárlögum ár hvert. Hvergi er þó mælt fyrir um hvað liggur til grundvallar framlaginu og virðist það háð geðþótta yfirvalda hverju sinni. Þannig fær höfundur t.d. 32 kr fyrir útlán bókar eitt árið en 17 kr. það næsta. Mikilvægt er að tryggja meira jafnvægi í greiðslum þessum milli ára svo tilgangi sjóðsins og laganna sé fullnægt.

Hönnunarsjóður/Hönnunarstefna
Sama var uppi á teningnum í fjárlagaferlinu varðandi Hönnunarsjóð og Myndlistarsjóð, hann var ekki að finna í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir 2014, en fór inn í lögin með breytingartillögu fjárlaganefndar með 25 m.kr. framlag, sem var niðurskurður frá fyrra ári um 20 m. eða 45%.   Sjóðurinn gegnir lykillutverki sem verkefnasjóður fyrir ariktektúr og aðrar hönnunargreinar og er ætlað hlutverk varðandi eftrifylgni nýsamþykktrar hönnunarstefnu með því að veita þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki auk ferðastyrkja.  Hönnunarstefnan var unnin í nánu samstarfi stjórnvalda og fagaðila en með henni hverfur umsjón Hönnunarsjóðs úr mennta- og menningarmálaráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Mikilvægt er að verkefnatengdir sjóðir á sviði lista og hönnunar þróist með svipuðum hætti og því eðlilegt að fylgjast náið með því hvernig Hönnunarsjóði reiðir af í nýju ráðuneyti. Slíkt verður í höndum stýrihóps ráðuneytanna tveggja sem fær það hlutverk að vakta innleiðingu stefnunnar. Óljóst er hvort ábyrgð á Menningarstefnu í mannvirkjagerð fylgir með í þessari nýju verkaskiptingu, en mikilvægt er að henni verði tryggður nauðsynlegur sess í tengslum við opinberar framkvæmdir.

Kvikmyndasjóður/Endurskoðað samkomulag
Enn einu sinni er slegið á frest eflingu Kvikmyndasjóðs, en niðurskurður til sjóðsins milli áranna 2013 og 2014 var tæpar 400 milljónir (og raunar enn meiri ef miðað er við samkomulag það sem gert var um eflingu Kvikmyndasjóðs í des. 2011). Til að milda áfallið sem niðurskurðurinn veldur er nauðsynlegt að endurskoða tafarlaust samkomulag ríkisins við kvikmyndagerðarmenn til næstu fimm ára, koma þannig á stöðugleika í greininni og tryggja áframhaldandi öfluga framleiðslu íslenskra kvikmynda, sjónvarpsefnis og heimildamynda. Liður í þessu starfi er að gera formlega greiningu á störfum í kvikmyndagerð og skilgreina hæfniskröfur þeirra sem þeim sinna, en það verður einungis gert með atbeina mennta- og menningarmálaráðuneytis í nánu samstarfi við fagfólk í greininni.

Myndlistarsjóður/Feneyja-tvíæringurinn
Myndlistarsjóður var stofnaður með lögum nr. 64/2012 og hóf starfsemi með 45 milljóna króna framlagi á fjárlögum 2013. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 var sjóðurinn strikaður út, en eftir mikla baráttu samþykkti fjárlaganefnd að veita kr. 25 m. sjóðinn (45% niðurskurður).  Eftir stofnun sjóðsins gera stjórnvöld þá kröfu að þátttaka Íslands í Feneyja-tvíæringnum sé fjármögnuð úr sjóðnum, en þáttakan kostar um 50 milljónir (árleg fjárþörf kr. 25 m).  Ef stuðningur við Feneyja-tvíæringinn á að fara gegnum Myndlistarsjóð er nauðsynlegt að auka árlegt framlag í sjóðinn svo hann geti gert hvort tveggja í senn; að veita myndlistarmönnum verkefnatengda styrki eins og lögin gera ráð fyrir og fjármagna þátttökuna í Feneyja-tvíæringnum.

Sviðslistasjóður/Sviðslistalög
Kallað er eftir því að frumvarp til sviðslistalaga verði lagt fram á ný á Alþingi, þar sem lögfest yrði stofnun sviðslistasjóðs, sem og sviðslistamiðstöðvar, hlutverk Leiklistarráðs endurskilgreint og fyrirkomulag framlaga til sviðslista verði komið í svipað horf og nú tíðkast í Kvikmyndasjóði. Slík breyting myndi án efa efla íslenska frumsköpun í sviðslistum og hvetja til fjölbreyttrar nýsköpunar í greininni t.d. með því að fleiri leikskáld, danshöfundar, hönnuðir, mynd- og tónhöfundar fengju tækifæri til að starfa. Einnig er mikilvægt að endurskoða hlutverk Þjóðleikhússins og efla fjárhagsgrundvöll þess, svo þessum máttarstólpa sviðslista verði kleift að rækja lögbundið hlutverk sitt með reisn.

Uppbygging  danslistarinnar
Mikilvægt er að ráðherra hlutist til um grunnmenntun í listdansi á Íslandi og ákveði kostnaðarskiptingu grunnnáms milli ríkis og sveitarfélaga með reglugerð. Grunndeildir þeirra skóla sem kenna samkvæmt námsskrá hafa undanfarið einungis fengið málamyndagreiðslur frá ríkinu og sjá ekki fram á að geta haldið rekstri deildanna áfram án þess að aukið fjármagn komi til.  Einnig verður að tryggja stöðugleika opinbers framlags viðurkenndra listdansskóla, ekki verður við það unað að málefnanlegar væntingar skólanna um árlegt framlag séu svo langt frá því að ganga eftir sem raun ber vitni (allt að 30% niðurskurður milli ára ef t.d. viðurkenndum skólum fjölgar).
Þá leggur BÍL til að stjórnvöld skoði möguleika þess að tvinna saman starfsemi Dansverkstæðisins og Íslenska dansflokksins og komi þeirri starfsemi fyrir í Danshúsi, eins og kallað er eftir í dansstefnu FÍLD 10/20. Slíkt fyrirkomulag myndi auka sýnileika danslistarinnar og auka aðgengi að listdansi á Íslandi.

Málefni óperuflutnings
Málefni óperuflutnings á Íslandi þarfnast tafarlausrar endurskoðunar. Á það við jafnt við um málefni Íslensku óperunnar sem og hverskyns grasrótarstarfsemi í listgreininni.  Úrlausnarefnin eru tvenns konar og mikilvægt að skoða þau í samhengi. Annars vegar er það staða og framtíð Íslensku óperunnar og hins vegar styrkjaumhverfi þeirra sem vilja gefa sig að óperuflutningi í víðum skilningi, allt frá barokki til frumsköpunar. Þar sem ópera er í eðli sínu þverfagleg listgrein kallar hún á málefnanlegt samtal stjórnvalda og listamanna, sem mikilvægt er að hafið verði með formlegum hætti við fyrstu hentugleika.

Tónlistarsjóður
Um Tónlistarsjóð gilda lög nr. 7/2004 og reglugerð nr. 125/2005. Ljóst er að tilgangur laganna hefur aldrei verið uppfylltur og er ástæðan nánast eingöngu sú að aldrei hefur verið veitt nauðsynlegum fjármunum í sjóðinn til að geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu. Þó má segja að framlagið 2013 hafi nálgast það að uppfylla þarfir sjóðsins, því er niðurstaða fjárlaga 2014 mikil vonbrigði. Til að eðlileg framþróun  verði í tónsköpun næstu ára er frumskilyrði að efla Tónlistarsjóð, enda stendur lagaskylda til þess.

Útgáfusjóður íslenskrar  tónlistar
Mikill samdráttur hefur orðið í tekjum höfunda og flytjenda af sölu hljómplatna síðasta áratuginn.  Meginástæðan er umfangsmikil ólögleg not á netinu án greiðslu til rétthafa. Með nýjum lögmætum dreifingarþjónustum sem nú bjóða upp á streymi í stað niðurhals hefur hlutfall íslenskrar tónlistar breyst úr því að vera um 84% af heildarsölu geisladiska yfir í að vera um 15% af heildarstreymi sem er hið nýja dreifingarform. Fjölbreytileikinn í íslenskri tónlist, íslensk menning og íslensk tunga fer hér halloka í hinu nýja landslagi í harðri samkeppni við erlenda tónlist.  Þessar umbreytingar krefjast þess að komið verði til móts við íslenskt tónlistarlíf í formi tímabundinna fjárframlaga eða með stofnun sérstaks útgáfusjóðs sem styddi við bakið á íslenskri tónlistarútgáfu.  Í húfi er að íslenska verði áfram mál íslenskrar tónlistar. 

Launasjóðir listamanna
Samhliða eflingu verkefnatengdra sjóða listgreinanna er mikilvægt að stjórnvöld geri áætlun um fjölgun mánaðalauna í launasjóðum listamanna á næstu árum auk þess sem brýnt er að endurskoða upphæð mánaðalaunanna.  Til glöggvunar þá er mánaðagreiðsla úr launasjóðunum nú kr. 311.000.- en Ríkisskattstjóri flokkar sjálfstætt starfandi listamenn með tilliti til reiknaðs endurgjalds þannig að þeim beri að telja fram að lágmarki kr. 597.000.-  á mánuði (flokkur A-4). Einnig hefur BÍL lagt áherslu á að fólk eigi val um það hvort greiðslur úr launasjóðunum eru verktakagreiðslur eða launagreiðslur. Þá er orðið tímabært að gera úttekt á forsendum sjóðanna, t.d. stærð þeirra miðað við fjölda starfandi listamanna.

Hlutur lista í íslensku markaðsstarfi
Mikilvægt er að fylgja eftir tillögum í skýrslunni Skapandi greinar; Sýn til framtíðar, hvað varðar hlut lista og skapandi atvinnugreina í markaðsstarfi erlendis. Það starf ber að vinna gegnum miðstöðvar listgreina/hönnunar og Íslandsstofu. Í áætlanagerð Íslandsstofu þarf að vera skýrt hversu miklum fjármunum skuli varið til lista og menningar og að fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum hafi áhrif á forgangsröðun og skiptingu fjármuna á einstök verkefni. Mikilvægt er að fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum beiti sér í þeim efnum.

Heiðurssæti á Eurosonic
Íslensk hryntónlist nýtur í dag á heimsvísu viðlíka virðingar og áhuga almennings og bresk bít-tónlist gerði undir lok sjöunda áratugarins og fram eftir þeim níunda; Billboard hefur lýst íslenska hryntónlist þá heitustu í heimi árið 2014 og Íslandi hefur verið boðinn virðingarsess á hinni risastóru Eurosonic tónlistarhátíð í Hollandi í janúar 2015. Það er sanngjörn krafa að stuðningur hins opinbera við þátttöku í Eurosonic verði sambærilegur við stuðning sem látinn var í té þegar Ísland  var heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt 2011. Með öflugum stuðningi við markaðssókn íslenskrar tónlistar á erlenda markaði opnast tækifæri til að gera íslenskan tónlistariðnað að sjálfbærri búgrein á alþjóðavísu.

Höfundaréttarmál og internetið
Höfundar verða fyrir gríðarlegu tekjutapi samfara sívaxandi aðgengi og dreifingu höfundarréttarvarnis efnis á netinu á sama tíma og ýmis fyrirtæki, sem selja aðgang að efnisveitum hvers konar, hagnast sífellt meira. Nauðsynlegt er að auka umræðu um höfundarréttarmál tengd internetinu, efla rannsóknir og móta stefnu með það að markmiði að bæta höfundum upp viðvarandi tekjumissi. Nauðsynlegt er að mennta- og menningarmálaráðuneytið beiti sér með markvissum hætti í þessum efnum, t.d. er nauðsynlegt að breyta reglum um gjald á afritunarbúnað til samræmis við tækni- og neysluþróun auk þess sem mikilvægt er að skilgreina ábyrgð þeirra sem selja aðgang að efni sem á að vera varið af lögum um höfundarrétt.

Gjaldskrá vegna sýninga myndlistarmanna í opinberum söfnum ofl.
Sérstakt baráttumál myndlistarmanna og myndhöfunda er krafan um að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt við uppsetningu sýninga á söfnum og í sýningarsölum sem njóta opinbers stuðnings. Stjórn SÍM vinnur um þessar mundir að útfærslu slíks kerfis og er miðað við að gjaldskrá og samningseyðublað vegna sýningarhalds verði tilbúin síðar á árinu og verður það í framhaldinu kynnt fyrir hagsmunaaðilum. Samningur af þessum toga mun efla sýningarhald í opinberum söfnum og sýningarsölum um leið og hann leggur grunn að bættum kjörum myndlistarmanna. Það er hins vegar ljóst að slíkur samningur verður ekki gerður nema með stuðningi og aðkomu stjórnvalda.  BÍL hvetur stjórnvöld til að fara að dæmi Svía og tryggja myndlistarmönnum og myndhöfundum þessa sjálfsögðu kjara- og réttarbót.
Einnig er mikilvægt að stjórnvöld semji við myndlistarmenn um höfundarréttarþóknun vegna útlána safna á verkum úr safneign. Hraða þarf gerð slíks samnings við Myndstef á grundvelli 25.gr. höfundalaga, en Myndstef hefur þegar sent ráðuneytinu drög að slíkri gjaldskrá.

Löggjöf um lifandi tónleikastaði
Meðal baráttumála tónlistarmanna er að stofnað verði  til samráðs við stjórnvöld um ný atvinnutækifæri fyrir hryntónlistarmenn, þar sem valdir tóneikastaðir fá stuðning til að halda úti lifandi tónlistarflutningi af hæstu gæðum. Hugmyndafræðin á upphaf sitt í danskri löggjöf frá 1996, sem hefur skilað góðum árangri þar og m.a. stuðlað að skattalegri skilvirkni í rekstri tónleikastaða. Hugmyndin var kynnt fyrir fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, lögð fram ítarleg gögn með útfærslu sem tekur mið af íslenskum aðstæðum og sýnir menningarlegan og fjárhagslegan ávinning fyrir íslenskt samfélag.  

….fleira komst ekki fyrir á fundinum og þökkuðum við fyrir okkur með ósk um að fá að hitta ráðherrann fljótlega aftur til að ræða um menntun og listir.

 

Samráðsfundur með mennta- og menningarmálaráðherra

Stjórn BÍL hittir mennta- og menningarmálaráðherra á árlegum samráðsfundi í ráðehrrabústaðnum 2. apríl nk. Hér fylgir minnisblað stjórnar, sem sent hefur verið ráðuneytinu og lagt verður til grundvallar umræðunni:

Bandalag íslenskra listamanna hvetur stjórnvöld til að koma af alefli til liðs við listamenn og hönnuði í markvissri uppbyggingu starfsumhverfis skapandi atvinnugreina í samræmi við yfirlýstan vilja og samþykkta stefnu Alþingis, enda sameiginlegt hagsmunamál að efla fjölbreytni í atvinnulífi um land allt. Með samstilltu átaki verði athygli beint að þýðingu greinanna fyrir þjóðarhag um leið og mikilvægi frumsköpunar í listum er undirstrikað, enda er frumsköpunin grunnurinn sem skapandi greinar byggja á. Forsenda þess samstarfs er fólgin í eftirfylgni skýrslunnar Skapandi greinar; sýn til framtíðar, en tillögur skýrslunnar miða allar að innleiðingu skilvirkari stjórnsýslu um málefni greinanna, með hagsmuni beggja að leiðarljósi; -greinanna sem þurfa skilvirkt stuðningskerfi og stjórnvalda sem þurfa greiðan aðgang að faglegri ráðgjöf í málefnum greinanna.

Höfundaréttarmál og internetið
Höfundar verða fyrir gríðarlegu tekjutapi samfara sívaxandi aðgengi og dreifingu höfundarréttarvarnis efnis á netinu á sama tíma og ýmis fyrirtæki, sem selja aðgang að efnisveitum hvers konar, hagnast sífellt meira. Nauðsynlegt er að auka umræðu um höfundarréttarmál tengd internetinu, efla rannsóknir og móta stefnu með það að markmiði að bæta höfundum upp viðvarandi tekjumissi. Nauðsynlegt er að mennta- og menningarmálaráðuneytið beiti sér með markvissum hætti í þessum efnum, t.d. er nauðsynlegt að breyta reglum um gjald á afritunarbúnað til samræmis við tækni- og neysluþróun auk þess sem mikilvægt er að skilgreina ábyrgð þeirra sem selja aðgang að efni sem á að vera varið af lögum um höfundarrétt.

Verkefnasjóðir og kynningarmiðstöðvar á listasviðinu
Síðastliðið vor skilaði starfshópur um verkefnasjóði og kynningarmiðstöðvar á listasviðinu ráðherra skýrslu með greiningu á starfsumhverfi sjóðanna og miðstöðvanna ásamt tillögum að samræmingu í tengslum við umsýslu þeirra.  Í framhaldinu var Rannís falið aukið hlutverk  hvað umsýsluna varðar, en fátt hefur heyrst af öðrum tillögum hópsins.  BÍL lítur svo á að stjórnvalda bíði það verkefni að tryggja að í hverri listgrein sé til staðar sjóður með skilgreint hlutverk og stoð í lögum, auk þess sem starfsumhverfi miðstöðva listgreina og hönnunar verði samræmt. Slíkt er forsenda þess að jafnræði ríki milli einstakra listgreina varðandi aðgang að opinberum stuðningi. Því telur BÍL mikilvægt að yfirfara einstakar tillögur úr skýrslu starfshópsins með það að markmiði að ljúka innleiðingu skilvirkara stuðningskerfis við listgreinar og hönnun. Sú vinna tæki einnig mið af skýrslunni Skapandi greinar – sýn til framtíðar.

Sviðslistasjóður/Sviðslistalög
allað er eftir því að frumvarp til sviðslistalaga verði lagt fram á ný á Alþingi, þar sem lögfest yrði stofnun sviðslistasjóðs, sem og sviðslistamiðstöðvar, hlutverk Leiklistarráðs endurskilgreint og fyrirkomulag framlaga til sviðslista verði komið í svipað horf og nú tíðkast í Kvikmyndasjóði. Slík breyting myndi án efa efla íslenska frumsköpun í sviðslistum og hvetja til fjölbreyttrar nýsköpunar í greininni t.d. með því að fleiri leikskáld, danshöfundar, hönnuðir, mynd- og tónhöfundar fengju tækifæri til að starfa. Einnig er mikilvægt að endurskoða hlutverk Þjóðleikhússins og efla fjárhagsgrundvöll þess, svo þessum máttarstólpa sviðslista verði kleift að rækja lögbundið hlutverk sitt með reisn.

Myndlistarsjóður/Feneyja-tvíæringurinn
Myndlistarsjóður var stofnaður með lögum nr. 64/2012 og hóf starfsemi með 45 milljóna króna framlagi á fjárlögum 2013. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 var sjóðurinn strikaður út, en eftir mikla baráttu samþykkti fjárlaganefnd að veita kr. 25 m. sjóðinn (45% niðurskurður).  Eftir stofnun sjóðsins gera stjórnvöld þá kröfu að þátttaka Íslands í Feneyja-tvíæringnum sé fjármögnuð úr sjóðnum, en þáttakan kostar um 50 milljónir (árleg fjárþörf kr. 25 m).  Ef stuðningur við Feneyja-tvíæringinn á að fara gegnum Myndlistarsjóð er nauðsynlegt að auka árlegt framlag í sjóðinn svo hann geti gert hvort tveggja í senn; að veita myndlistarmönnum verkefnatengda styrki eins og lögin gera ráð fyrir og fjármagna þátttökuna í Feneyja-tvíæringnum.

Kvikmyndasjóður/Endurskoðað samkomulag
Enn einu sinni er slegið á frest eflingu Kvikmyndasjóðs, en niðurskurður til sjóðsins milli áranna 2013 og 2014 var tæpar 400 milljónir (og raunar enn meiri ef miðað er við samkomulag það sem gert var um eflingu Kvikmyndasjóðs í des. 2011). Til að milda áfallið sem niðurskurðurinn veldur er nauðsynlegt að endurskoða tafarlaust samkomulag ríkisins við kvikmyndagerðarmenn til næstu fimm ára, koma þannig á stöðugleika í greininni og tryggja áframhaldandi öfluga framleiðslu íslenskra kvikmynda, sjónvarpsefnis og heimildamynda. Liður í þessu starfi er að gera formlega greiningu á störfum í kvikmyndagerð og skilgreina hæfniskröfur þeirra sem þeim sinna, en það verður einungis gert með atbeina mennta- og menningarmálaráðuneytis í nánu samstarfi við fagfólk í greininni.

Bókasafnssjóður höfunda
Bókasafnssjóður höfunda starfar skv. lögum nr. 91/2007 sem mæla m.a. fyrir um greiðslur fyrir afnot bóka á bókasöfnum og gera þau ráð fyrir að Alþingi ákveði fjárveitingu til sjóðsins í fjárlögum ár hvert. Hvergi er þó mælt fyrir um hvað liggur til grundvallar framlaginu og virðist það háð geðþótta yfirvalda hverju sinni. Þannig fær höfundur t.d. 32 kr fyrir útlán bókar eitt árið en 17 kr. það næsta. Mikilvægt er að tryggja meira jafnvægi í greiðslum þessum milli ára svo tilgangi sjóðsins og laganna sé fullnægt.

Hönnunarsjóður/Hönnunarstefna
Sama var uppi á teningnum í fjárlagaferlinu varðandi Hönnunarsjóð og Myndlistarsjóð, hann var ekki að finna í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir 2014, en fór inn í lögin með breytingartillögu fjárlaganefndar með 25 m.kr. framlag, sem var niðurskurður frá fyrra ári um 20 m. eða 45%.   Sjóðurinn gegnir lykillutverki sem verkefnasjóður fyrir ariktektúr og aðrar hönnunargreinar og er ætlað hlutverk varðandi eftrifylgni nýsamþykktrar hönnunarstefnu með því að veita þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki auk ferðastyrkja.  Hönnunarstefnan var unnin í nánu samstarfi stjórnvalda og fagaðila en með henni hverfur umsjón Hönnunarsjóðs úr mennta- og menningarmálaráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Mikilvægt er að verkefnatengdir sjóðir á sviði lista og hönnunar þróist með svipuðum hætti og því eðlilegt að fylgjast náið með því hvernig Hönnunarsjóði reiðir af í nýju ráðuneyti. Slíkt verður í höndum stýrihóps ráðuneytanna tveggja sem fær það hlutverk að vakta innleiðingu stefnunnar. Óljóst er hvort ábyrgð á Menningarstefnu í mannvirkjagerð fylgir með í þessari nýju verkaskiptingu, en mikilvægt er að henni verði tryggður nauðsynlegur sess í tengslum við opinberar framkvæmdir.

Tónlistarsjóður
Um Tónlistarsjóð gilda lög nr. 7/2004 og reglugerð nr. 125/2005. Ljóst er að tilgangur laganna hefur aldrei verið uppfylltur og er ástæðan nánast eingöngu sú að aldrei hefur verið veitt nauðsynlegum fjármunum í sjóðinn til að geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu. Þó má segja að framlagið 2013 hafi nálgast það að uppfylla þarfir sjóðsins, því er niðurstaða fjárlaga 2014 mikil vonbrigði. Til að eðlileg framþróun  verði í tónsköpun næstu ára er frumskilyrði að efla Tónlistarsjóð, enda stendur lagaskylda til þess.

Málefni óperuflutnings
Málefni óperuflutnings á Íslandi þarfnast tafarlausrar endurskoðunar. Á það við jafnt við um málefni Íslensku óperunnar sem og hverskyns grasrótarstarfsemi í listgreininni.  Úrlausnarefnin eru tvenns konar og mikilvægt að skoða þau í samhengi. Annars vegar er það staða og framtíð Íslensku óperunnar og hins vegar styrkjaumhverfi þeirra sem vilja gefa sig að óperuflutningi í víðum skilningi, allt frá barokki til frumsköpunar. Þar sem ópera er í eðli sínu þverfagleg listgrein kallar hún á málefnanlegt samtal stjórnvalda og listamanna, sem mikilvægt er að hafið verði með formlegum hætti við fyrstu hentugleika.

Útgáfusjóður íslenskrar  tónlistar
Mikill samdráttur hefur orðið í tekjum höfunda og flytjenda af sölu hljómplatna síðasta áratuginn.  Meginástæðan er umfangsmikil ólögleg not á netinu án greiðslu til rétthafa. Með nýjum lögmætum dreifingarþjónustum sem nú bjóða upp á streymi í stað niðurhals hefur hlutfall íslenskrar tónlistar breyst úr því að vera um 84% af heildarsölu geisladiska yfir í að vera um 15% af heildarstreymi sem er hið nýja dreifingarform. Fjölbreytileikinn í íslenskri tónlist, íslensk menning og íslensk tunga fer hér halloka í hinu nýja landslagi í harðri samkeppni við erlenda tónlist.  Þessar umbreytingar krefjast þess að komið verði til móts við íslenskt tónlistarlíf í formi tímabundinna fjárframlaga eða með stofnun sérstaks útgáfusjóðs sem styddi við bakið á íslenskri tónlistarútgáfu.  Í húfi er að íslenska verði áfram mál íslenskrar tónlistar.

Launasjóðir listamanna
Samhliða eflingu verkefnatengdra sjóða listgreinanna er mikilvægt að stjórnvöld geri áætlun um fjölgun mánaðalauna í launasjóðum listamanna á næstu árum auk þess sem brýnt er að endurskoða upphæð mánaðalaunanna.  Til glöggvunar þá er mánaðagreiðsla úr launasjóðunum nú kr. 311.000.- en Ríkisskattstjóri flokkar sjálfstætt starfandi listamenn með tilliti til reiknaðs endurgjalds þannig að þeim beri að telja fram að lágmarki kr. 597.000.-  á mánuði (flokkur A-4). Einnig hefur BÍL lagt áherslu á að fólk eigi val um það hvort greiðslur úr launasjóðunum eru verktakagreiðslur eða launagreiðslur. Þá er orðið tímabært að gera úttekt á forsendum sjóðanna, t.d. stærð þeirra miðað við fjölda starfandi listamanna.

Hlutur lista í íslensku markaðsstarfi
Mikilvægt er að fylgja eftir tillögum í skýrslunni Skapandi greinar; Sýn til framtíðar, hvað varðar hlut lista og skapandi atvinnugreina í markaðsstarfi erlendis. Það starf ber að vinna gegnum miðstöðvar listgreina/hönnunar og Íslandsstofu. Í áætlanagerð Íslandsstofu þarf að vera skýrt hversu miklum fjármunum skuli varið til lista og menningar og að fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum hafi áhrif á forgangsröðun og skiptingu fjármuna á einstök verkefni. Mikilvægt er að fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum beiti sér í þeim efnum.

Heiðurssæti á Eurosonic
Íslensk hryntónlist nýtur í dag á heimsvísu viðlíka virðingar og áhuga almennings og bresk bít-tónlist gerði undir lok sjöunda áratugarins og fram eftir þeim níunda; Billboard hefur lýst íslenska hryntónlist þá heitustu í heimi árið 2014 og Íslandi hefur verið boðinn virðingarsess á hinni risastóru Eurosonic tónlistarhátíð í Hollandi í janúar 2015. Það er sanngjörn krafa að stuðningur hins opinbera við þátttöku í Eurosonic verði sambærilegur við stuðning sem látinn var í té þegar Ísland  var heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt 2011. Með öflugum stuðningi við markaðssókn íslenskrar tónlistar á erlenda markaði opnast tækifæri til að gera íslenskan tónlistariðnað að sjálfbærri búgrein á alþjóðavísu.

Löggjöf um lifandi tónleikastaði
Meðal baráttumála tónlistarmanna er að stofnað verði  til samráðs við stjórnvöld um ný atvinnutækifæri fyrir hryntónlistarmenn, þar sem valdir tóneikastaðir fá stuðning til að halda úti lifandi tónlistarflutningi af hæstu gæðum. Hugmyndafræðin á upphaf sitt í danskri löggjöf frá 1996, sem hefur skilað góðum árangri þar og m.a. stuðlað að skattalegri skilvirkni í rekstri tónleikastaða. Hugmyndin var kynnt fyrir fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, lögð fram ítarleg gögn með útfærslu sem tekur mið af íslenskum aðstæðum og sýnir menningarlegan og fjárhagslegan ávinning fyrir íslenskt samfélag.

Gjaldskrá vegna sýninga myndlistarmanna í opinberum söfnum ofl.
Sérstakt baráttumál myndlistarmanna og myndhöfunda er krafan um að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt við uppsetningu sýninga á söfnum og í sýningarsölum sem njóta opinbers stuðnings. Stjórn SÍM vinnur um þessar mundir að útfærslu slíks kerfis og er miðað við að gjaldskrá og samningseyðublað vegna sýningarhalds verði tilbúin síðar á árinu og verður það í framhaldinu kynnt fyrir hagsmunaaðilum. Samningur af þessum toga mun efla sýningarhald í opinberum söfnum og sýningarsölum um leið og hann leggur grunn að bættum kjörum myndlistarmanna. Það er hins vegar ljóst að slíkur samningur verður ekki gerður nema með stuðningi og aðkomu stjórnvalda.  BÍL hvetur stjórnvöld til að fara að dæmi Svía og tryggja myndlistarmönnum og myndhöfundum þessa sjálfsögðu kjara- og réttarbót.
Einnig er mikilvægt að stjórnvöld semji við myndlistarmenn um höfundarréttarþóknun vegna útlána safna á verkum úr safneign. Hraða þarf gerð slíks samnings við Myndstef á grundvelli 25.gr. höfundalaga, en Myndstef hefur þegar sent ráðuneytinu drög að slíkri gjaldskrá.

Uppbygging  danslistarinnar
Mikilvægt er að ráðherra hlutist til um grunnmenntun í listdansi á Íslandi og ákveði kostnaðarskiptingu grunnnáms milli ríkis og sveitarfélaga með reglugerð. Grunndeildir þeirra skóla sem kenna samkvæmt námsskrá hafa undanfarið einungis fengið málamyndagreiðslur frá ríkinu og sjá ekki fram á að geta haldið rekstri deildanna áfram án þess að aukið fjármagn komi til. Einnig verður að tryggja stöðugleika opinbers framlags viðurkenndra listdansskóla, ekki verður við það unað að málefnanlegar væntingar skólanna um árlegt framlag séu svo langt frá því að ganga eftir sem raun ber vitni (allt að 30% niðurskurður milli ára ef t.d. viðurkenndum skólum fjölgar).
Þá leggur BÍL til að stjórnvöld skoði möguleika þess að tvinna saman starfsemi Dansverkstæðisins og Íslenska dansflokksins og komi þeirri starfsemi fyrir í Danshúsi, eins og kallað er eftir í dansstefnu FÍLD 10/20. Slíkt fyrirkomulag myndi auka sýnileika danslistarinnar og auka aðgengi að listdansi á Íslandi.

Kvikmynda- og myndmiðlalæsi
Í samræmi við endurnýjaðar námsskrár ber stjórnvöldum að tryggja kennslu í kvikmynda- og myndmiðlalæsi í grunn og framhaldsskólum. Myndmál er orðið jafn mikilvægt og ritmál í nútímasamfélagi og því mikilvægt að börn og ungmenni fái tæki til að meta það og greina. Gríðarleg þörf er fyrir námsefni, bæði til að mennta kennara og nemendur til að við náum að fylgja þróuninni í nágrannalöndum okkar. Heimili kvikmyndanna í Bíó Paradís er kjörinn samstarfsaðili um slík markmið.
Þá verður æ brýnna að hefja nám í kvikmyndagerð á háskólastigi við Listaháskóla Íslands í samræmi við tillögur stýrihóps á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis frá 2012.

Tónlistarskólarnir
Listafólk vænti mikils af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga, sem gert var í maí 2011. Nú er ljóst að vankantar eru á framkvæmd samkomulagsins. Stjórn BÍL hvetur yfirvöld til að skoða vel ábendingar skólastjóra tónlistarskólanna í Reykjavík, sem telja að aðferð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við skiptingu framlaganna sé ábótavant, framlagið þurfi að taka mið af raunkostnaði skólanna svo þeir geti áfram boðið upp á nám sem stenst gæðakröfur og námsskrá.

Skáld í skólum/Tónlist fyrir alla
Um árabil hafa verkefni úr menningarbakpoka listamanna staðið skólafólki (nemendum og kennurum) til boða. Tónlistarmenn hafa boðið tugþúsundum grunnskólabarna upp á tónleika undir hatti verkefnisins Tónlist fyrir alla og rithöfundar hafa heimsótt grunn- og framhaldsskóla með verkefnin Skáld í skólum og nú nýverið leikskólana með Skáld í leikskólum. Það markast af fjárhag einstakra skóla hvort börnin fá notið þessara verkefna, en rétt er að geta þess að skólar greiða sama gjald óháð fjarlægð frá Reykjavík. Verkefnin hafa fyrir löngu skapað sér sess í skólastarfinu, en skilyrði fyrir að þau haldi áfram að blómstra er markviss fjárhagsstuðningur hins opinbera, án hans er hætt við að þau leggist af. Slík niðurstaða gengur þvert á áform stjórnvalda um eflingu menningarstarf fyrir og með börnum og ungmennum.

Framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskóla Íslands
Við stofnun Listaháskóla Íslands var gengið út frá því að listræn samlegð ólíkra listgreina sem sinnt væri undir einu og sama þaki myndi móta námið og marka sérstöðu skólans. Eftir rösk 15 ár eru starfsstöðvarnar þó enn þrjár og af þeim tvær sem ekki standast fagleg viðmið eða kröfur um aðgengi fatlaðra. BÍL leggur þunga áherslu á að stjórnvöld komi til liðs við skólann og tryggi honum tafarlaust hentugra húsnæði til að bæta úr brýnustu þörfinni en jafnframt að tekin verði ákvörðun um framtíðarstaðsetningu nýbyggingar svo hægt verði að gera raunhæfar áætlanir um byggingu  framtíðarhúsnæðis.
Meistaranám í sviðslistum meðan ekki verða gerðar úrbætur á húsakosti LHÍ er meistaranám í sviðslistum í biðstöðu, en eftir að grunnám í sviðslistum var stytt um eitt ár er virkileg þörf fyrir að bjóða upp á nám í sviðslistum til meistaraprófs.
Kvikmyndanám á háskólastigi – í samræmi við tillögur skýrslu stýrihóps um kvikmyndamenntun á Íslandi frá 2012 hefur mennta- og menningarmálaráðherra lýst vilja til að stofnað verði til kvikmyndanáms á BA stigi við Listaháskóla Íslands. Þau áform gengu hins vegar ekki eftir í fjárlagatillögum fyrir 2014. Listaháskólinn er reiðubúinn til að hefja námið svo nú veltur allt á því að fjármunirnir skili sér 2015.

Fjárhagsleg afkoma BÍL
Ríkið hefur stutt starfsemi BÍL með rekstrarframlagi, sem hefur skipt sköpum varðandi vinnu að hagsmunamálum listamanna. Um þann stuðning hafa verið gerðir samningar til þriggja ára í senn og rann síðasti samningur út 31. desember sl. Drög að nýjum samningi liggja fyrir í ráðuneytinu og er tillaga ráðuneytisins að samningsupphæð óbreytt frá því sem verið hefur eða kr. 2,4 milljónir árlega, þrátt fyrir að á þessum vettvangi (samráðsfundi með ráðherra 2013) hafi verið höfð uppi góð orð um að leitað yrði leiða til að hækka framlagið á nýju samningstímabili. Ef framlagið frá 2008 (2,3 mill.) væri framreiknað til 2016 (lok samningstíma) þá ætti það að vera tæpar 4 millj króna m.v. neysluvísitölu en rúmar 4 millj m.v. launavísitölu, skv aðferðum Seðlabankans. Það er mikilvægt fyrir störf BÍL að framlag hins opinberra  haldi verðgildi sínu frá ári til árs, því er þess óskað að framlagið í nýjum samningi verði sambærilegt að verðgildi og var fyrir hrun. Minnt er á að BÍL samanstendur af 14 fagfélögum listafólks, sem hafa innan sinna vébanda um 4 þúsund listamenn og BÍL er einn af lykilráðgjöfum stjórnvalda á sviði lista og menningar.

Akademía og heiðurslaun
Sjónarmið BÍL um akademíu listamanna eru þau sömu og áður. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji þá grunnhugmynd að reynsla og færni eldri listamanna, þeirra sem á hverjum tíma njóta heiðurslauna Alþingis, verði nýtt með skipulögðum hætti og að þeim verði falin ábyrgð á að velja nýja meðlimi akademíunnar. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að loksins skuli hafa verið sett lög um heiðurslaun listamanna  (lög nr. 66/2012), en mikilvægt er að breyta þeim lagaramma sem fyrst, þannig að fagleg sjónarmið ráði því hverjir njóta heiðurslauna en ekki pólitísk.

Safnamál
Áríðandi er að gera átak í safnastarfi tengt listum og skapandi greinum. Gera þarf úttekt á stöðu þeirra safna sem um ræðir, tryggja tengsl þeirra  við geirann, höfuðsöfn og háskólaumhverfið.
Kvikmyndasafn. Nú eru framköllunarverkstæði í Evrópu að hætta störfum, þá er hætt við að frumgerðir margra íslenskra kvikmynda glatist. Mikilvægt er að bregðast hratt við til að bjarga þeim og koma á stafrænt form til varðveislu. Þær 10 milljónir sem tilgreindar eru í samkomulagi greinarinnar við stjórnvöld til stafrænnar yfirfærslu duga skammt. BÍL leggur til að Kvikmyndamiðstöð og Kvikmyndasafni Íslands verði falið að gera áætlun um með hvaða hætti sé hægt að bjarga þessum verðmætum og tryggja varðveislu kvikmyndarfsins til frambúðar. Einnig að skoðaðar verði hugmyndir um breytingar á starfssemi Kvikmyndasafns sem hafi í för með sér sterkari tengsl við Kvikmyndamiðstöð Íslands. Loks er brýnt að hugað  verði strax að varðveislumálum þeirra mynda sem teknar eru á stafrænt form, því enginn veit hversu lengi þær geymslur endast sem nú er notast við.
Leikminjasafn. Opinber framlög til Leikminjasafns hafa dregist saman og eru nú mun lægri en til sambærilegra safna. Stjórnendur safnsins höfðu gert sér vonir um að koma því fyrir í húsnæði Loftskeytastöðvarinnar við Brynjólfsgötu, en þau áform hafa ekki gengið eftir vegna rakaskemmda í húsinu, sem ekki hefur reynst unnt að fjármagna viðgerð á. Þó safnið hafi getað staðið straum af kostnaði við rafrænan gagnagrunn um leksýningar á Íslandi og haldið úti lágmarks sýningahaldi þá er ljóst að atbeina stjórnvalda þarf til að tryggja viðunandi varðveislu og miðlun safnkostsins, mögulega með formlegum samningum við höfuðsöfn eða varðveislustofnanir hins opinbera.
Safn RÚV. Mikilvægt er að tryggja skráningu þess menningararfs sem safn RÚV hefur að geyma. Safnið þarf að vera aðgengilegt og að stunda öfluga miðlun þessa mikilvæga arfs. Slík miðlun getur farið fram í samstarfi við Landsbókasafn og önnur söfn tengd listum og skapandi greinum, en vilja og fjármuni virðist hafa skort innan stofnunarinnar. Það er vilji listafólks í landinu að þessi mikilvægi hluti menningararfsins verði gerður aðgengilegur og honum sýndur sá sómi sem eðlilegt er.
Byggingalistarsafn. Mikill fjársjóður teikninga og annarra skjala / líkana o.fl. er á hrakhólum þar sem ekki hefur fundist samastaður fyrir nema hluta af þeim arfi sem safnað hefur verið gegnum tíðina. Það ástand er að hluta tilkomið vegna ákvörðunar Listasafns Reykjavíkur að leggja niður byggingalistadeild safnsins en safnið og mennta- og menningarmálaráðuneytið studdu Arkitektafélag Íslands í því að skrá safnkostinn og koma honum í viðunandi geymslur.  Merkileg gögn, t.d. stór einkasöfn bíða þess nú að vera skráð og vernduð við viðunandi aðstæður. Slíkt verkefni verður ekki unnið án atbeina stjórnvalda.

Ríkisútvarpið
Tryggja þarf Ríkisútvarpinu nægilegt rekstrarfé svo það geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu, í því sambandi er eðlileg krafa að nefskatturinn sem almenningur greiðir skili sér að fullu til stofnunarinnar. BÍL hefur ævinlega litið á Ríkisútvarpið sem einn af máttarstólpum menningar í landinu. Hlutverk þess er skilgreint í lögum og mikilvægt að stefna stofnunarinnar endurspegli lögin. Þá þarf sjálfstæði Ríkisútvarpsins að vera tryggt og því gert kleift að rækja almannaþjónustuhlutverk sitt með reisn. Það er mat BÍL að nokkuð skorti á hvað varðar innlenda framleiðslu dagskrárefnis í útvarpi og sjónvarpi, forgangsatriði er að auka hlut þess í dagskránni hvort sem það er gert með aukinni eiginframleiðslu eða með kaupum af sjálfstæðum framleiðendum. BÍL hefur átt samtal við stjórnendur Ríkisútvarpsins með reglubundnum hætti og mun halda því áfram með nýjum stjórnendum, en óskar jafnframt eftir atbeina og stuðningi stjórnvalda.

Page 5 of 25« First...34567...1020...Last »