Í ljósi fréttaflutnings af málefnum Íslensku óperunnar og umræðum um kjaramál óperusöngvara og annarra listamanna sem þar starfa, vill stjórn Bandalags íslenskra listamanna koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld og fjölmiðla.

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna telur að stjórnvöldum beri að búa óperustarfsemi á Íslandi sömu umgjörð og rekstrarskilyrði og öðrum opinberum sviðslistastofnunum. Slíkt verður einungis tryggt með því að stofna þjóðaróperu með stoð í lögum um sviðslistir nr. 165/2019. Lagagrundvöllur þjóðaróperu þarf að vera sambærilegur þeim sem gildir um Þjóðleikhús og Íslenska dansflokkinn, þar sem hlutverkið er skýrt og fagmennska tryggð.

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna telur það löngu tímabært að koma óperustarfsemi á traustan kjöl opinbers rekstrar, enda ljóst að rekstrarform einkaréttarlegs eðlis hentar ekki jafn viðamikilli menningarstarfsemi og hér um ræðir.

Stjórn BÍL er þess sannfærð að stofnun þjóðaróperu yrði mikið gæfuspor sem tryggt geti heilbrigt starfsumhverfi fyrir óperusöngvara og aðra listamenn sem koma að óperuflutningi á Íslandi.

Virðingarfyllst

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna