Hver ertu? Hvaðan kemurðu? Hvert ætlarðu?

Þessar þrjár spurningar liggja til grundvallar mannlegri tilveru og því hljóta þær einnig að vera helsta viðfangsefni allra lista. Yfirleitt hvíla þær í djúpinu og þorri almennings þarf ekki hefja daginn á því að spyrja þeirra, þarf ekki að staldra við um hádegið og spyrja þeirra aftur, né þarf hann að spyrja þeirra fyrir svefninn. Hversdagurinn er þá stöðugur og hver iðjar við sitt. Samfélagið tifar áfram í sínum brokkgenga takti, með þeim friði og hvíld sem bjóðast og þeim rökræðum og átökum sem eðlileg eru, og engin krefjandi ástæða er til þess að þreyta sig á heilabrotum um þessar gömlu tilvistarspurningar. Við lifum með þeim jafn auðveldlega og við bægjum frá okkur meðvitundinni um dauðleika mannsins.

Um leið eru þær allt í kringum okkur frá morgni til kvölds. Það ómar af þeim í allri tónlist, við sjáum fólk á valdi þeirra í kvikmyndum og leikritum, lesum þær úr ljóðum og sögum, þær eru í þögninni milli ramma teiknimyndasögunnar, við erum umlukin þeim í verkum fatahönnuða og arkitekta, berum þær á fingrum okkar og berum þær að vörum okkar, við fylgjum þeim í hreyfingum dansarans og greinum mark þeirra á efniviði myndlistarmannsins, svo fáein dæmi séu tekin. Því listafólk kemst aldrei undan spurningunum þremur. Og tilraunir þess til að svara þeim eru jafn bundnar í verk þess og mannlífið sem þau eru hluti af. Þannig geyma öll listaverk minningu um hvernig það var að vera manneskja á þeim tíma sem þau voru sköpuð.

Svo haldið sé áfram með spurningar. Ein af þeim spurningum sem oft eru uppi þegar listirnar eru annars vegar er sú hvers virði þær séu í mannlegu samfélagi. En þvert á það sem maður gæti haldið þá er það listafólkið sjálft sem spyr hennar oftar en nokkrir aðrir. Glíman við efann um eigin tilgang og ágæti er eitt helsta eldsneyti þeirra sem fást við að skapa. Ég held því að margt listafólk sé snortið af hversu mikið hefur verið leitað í verk þess til afþreyingar og andlegs styrks á þeim erfiðleikadögum sem við lifum núna — að landsmenn mundu að þar var sjóður sem mátti sækja í.

Þegar hættan líður hjá verður það meðal annars í hreyfingum dansarans sem við munum þekkja aftur innilokunina, í hraða tölvuleiksins sem við rifjum upp óttann, í söngröddinni sem við syrgjum þá sem létust, í ljóðinu sem við finnum vonina.

Listirnar munu áfram hjálpa okkur að muna hvaðan við komum, hver við erum og hvert við ætlum. Þær eru sameiginlegt minni okkar um hvað það er að vera sú brothætta og sí spyrjandi lífvera, manneskjan.