Reykjavík 12. Ágúst 2020

 

Opið bréf Bandalags íslenskra listamanna

Vegna COVID – haustið 2020

Haustið markar jafnan upphaf starfsárs flestra listamanna – sýningarýmin, tónleikastaðirnir, leikhúsin og menningarstofnanir opna og hefja starfsemi sína. Síðastliðið vor litum við listamenn með nokkurri eftirvæntingu til þessa hausts. Í huga okkar, og flestra landsmanna, var þessi vísindaskáldsögulegi veruleiki sem við vorum þá að upplifa eingöngu tímabil, og það stutt tímabil. Allar aðgerðir stjórnvalda miðuðu að því að að innan skamms kæmist líf okkar aftur í fyrra horf og að lendingin handan þessarar hindrunar yrði sem mýkst og við gætum spyrnt frá af endurnýjuðum krafti þegar rofaði til í kófinu. Listamenn hafa þetta sumarið aðlagað starf sitt því ástandi, frestað viðburðum eða fellt niður og reynt eftir fremsta megni að sýna ábyrgð. Listamenn hafa ekki farið fram á undanþágur eða að horn regluverksins væru rúnuð af með einhverjum hætti til að halda úti listsköpun. Listamenn hafa einfaldlega beðið þolinmóðir og treyst því að með skynsemi munum við komast sem fyrst fyrir vind og geta tekið upp fyrri störf.

Við getum vissulega yljað okkur við verk genginna kynslóða og ólíkt flestum mannana verkum er listin eilíf og því af nógu af taka, en listin í samtímanum, hér og nú, er sú sem skiptir okkur máli. Það er hún sem bindur okkur saman, skilgreinir okkur sem manneskjur, tengir okkur og vekur með okkur gleði. Listin er ein grunnstoð samfélagsins.

Samfélagslegt gildi og hlutverk listarinnar er vissulega mjög mikilvægt en efnahagslegur skaði af þessu ástandi er ekki síður gríðarlegur. Tæplega 8% vinnandi fólks í landinu vinnur við listsköpun og skapandi greinar. Mörg þeirra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á starfi listamanna róa nú lífróður til að halda rekstri sínum gangandi. Listamenn sjálfir hafa fengið að reyna á eigin skinni hversu regluverk vinnumarkaðarins er þeim óhagstætt og hvernig úrræðin gagnast þeim ekki til jafns við aðra á vinnumarkaði. Svo nú þegar listamenn voru að vonast til að geta farið að reima á sig skóna og hefja störf blasir við sá veruleiki að næstu mánuðir, jafnvel ár, verði alvarlega skilyrtir af reglum sem hindrar allt þeirra starf. Þetta er grafalvarleg staða fyrir listamenn og fjölskyldur þeirra, sem beðið hafa þolinmóð eftir því að geta hafið störf að nýju.

Listamenn geta illa haft skoðun á því hvort ákvarðanir um opnun landamæra eða tilslakanir í ferðaþjónustu, félags- eða íþróttastarfi séu æskilegar út frá efnahagslegu- eða lýðheilsusjónarmiði. Undanþágur um nálægðartakmarkanir er þó jafn sjálfsagt að veita listamönnum sem íþróttamönnum, því slík undanþága er forsenda vinnu margra greina, sérstaklega sviðlista og tónlistarmanna. Listamenn eiga heimtingu á að störf þeirra séu metin að jöfnu í heildarmyndinni og við ákvarðanir í þessum efnum. Hæfileikar, menntun og þekking þessa fólks leggur þau verðmæti til samfélagsins að það er sjálfsögð krafa að það framlag sé tekið inn í reikninginn við ákvarðanir í framhaldinu. Á þessari stundu er erfitt að átta sig á hvort þeirri kröfu ber að beina til pólitískra valdhafa eða þeirra sem fara með ráðgjöf í sóttvörnum.

Rætt hefur verið um samstarfsvettvang vegna ástandsins þar sem ákvarðanir verði teknar og aðgerðir skipulagðar. Það er mikilvægt að allar stoðir samfélagsins séu hluti af þeim vettvangi, menning og listsköpun, bæði sem drifkraftur sjálfsmyndar okkar, en ekki síður sem gríðarlega stór atvinnugrein með miklum efnahagslegum áhrifum hlýtur að vera partur af þeim vettvangi.

Virðingarfyllst

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna