Fréttir

Alþjóðadagur menningarlegrar fjölbreytni 21. maí 2015

Árið 2002 staðfesti UNESCO að þann 21. maí ár hvert skyldi vakin athygli á þýðingu menningarlegrar fjölbreytni sem er sameiginleg arfleifð mannkyns og að hlúa beri að henni og varðveita í þágu allra manna.

Íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna hafa nú sameinast í því að vekja athygli á þessum Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni og hvetja sem flesta til þátttöku með fjölbreytilegum listviðburðum og umræðu í samfélaginu um gildi menningarlegrar fjölbreytni.

Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja athygli á því hversu fjölbreytt menning mannkyns er og minna á að aukinn skilningur á samspili ólíkra menningarheima eykur  umburðarlyndi, félagslegt réttlæti og gagnkvæma virðingu menningarsamfélaga.

Menningarleg fjölbreytni getur af sér fjölskrúðugan og fjölbreytilegan heim með margvíslegum möguleikum þar sem hlúð er að hæfileikum mannsins og gildum, auk þess sem hún hvetur til gagnkvæmrar virðingar milli ólíkra hópa og þjóða. Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um þessi málefni í þágu jafnvægis, jöfnuðar og friðar.

Í ár eru 10 ár liðin frá því UNESCO samþykkti samning um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform og skapa skilyrði til þess að menningarsamfélög nái að dafna og hafa með sér frjáls samskipti sem eru öllum aðilum til hagsbóta. Ísland undirritaði samninginn árið 2007 en alls eru 134 ríki búin að staðfesta hann. Í nafni markmiða samningsins hvetja íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna til þess að fjölmiðlar, menningarstofnanir, félagasamtök og áhugasamir einstaklingar sameinist í að beina sjónum að menningarlegri fjölbreytni í sinni víðustu mynd 21. maí nk.

Sjá nánar á heimasíðum www.unesco.is og www.bil.is

Reykjavík 24. mars 2015

Með bestu kveðjum,

Gunnar Haraldsson                                                       Kolbrún Halldórsdóttir

formaður íslensku UNESCO-nefndarinnar              forseti Bandalags íslenskra listamanna

 

 

 

 

 

Sjálfstæðisbarátta 21 aldarinnar – erindin komin á vefinn

Í tengslum við aðalfund BÍL 7. febrúar sl var haldið málþing sem bar yfirskriftina

Sjálfstæðisbarátta 21. aldrinnar
Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti? 

Málþingið tók til umfjöllunar stöðu lista og menningar í stjórnkerfinu, skoðaði aðgengi atvinnufólks í listum og hönnun að aðstöðu og opinberum fjármunum, auk þess sem velt var upp sjónarmiðum um afsöðu stjórnvalda til atvinnustarfsemi sem byggir á framlagi listafólks og hönnuða.  Þá var leitað svara við spurningunni um það hvort líklegt væri að sérstakt ráðuneyti menningarmála væri líklegt til að auka veg lista og menningar?

Nú hafa erindin, sem flutt voru á málþinginu verið sett á vefinn en fjórir framsöguerindi voru flutt auk þess sem mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson ávarpaði málþingið og tók þátt í pallborðsumræðum ásamt framsögumönnum.

Hér má sjá ernidin 

Charlotte Bøving leikari og leikstjóri,

Daði Einarsson listrænn stjórnandi,

Hulda Proppé sérfræðingur á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís

Þorleifur Arnarson leikstjóri

Málþinginu og pallborðsumræðum stýrði Magnús Ragnarsson

 

 

Danshöfundafélag Íslands bætist í hóp aðildarfélaga BÍL

Á stjórnarfundi stjórnar BÍL í dag var samþykkt aðildarumsókn Danshöfundafélags Íslands, DFÍ og eru aðildarfélög BÍL því orðin 15 talsins. Danshöfundafélagið var stofnað á Dansverkstæðinu, Skúlagötu 30 þann 22. nóvember sl. og er meginmarkmið þess að gæta hagsmuna danshöfunda á Íslandi. Félagið sinnir þessu hlutverki meðal annars með því að efla faglega samstöðu og samræðu, vinna að auknum sýnileika atvinnugreinarinnar og standa vörð um höfunda- og hugverkarétt danshöfunda.

Flestir danshöfundar starfa verkefnabundið fyrir stóru leikhúsin, Íslenska dansflokkinn og sjálfstæða dans- og leikhópa. Auk þess vinna þeir að verkefnum fyrir auglýsingar, dagskrá- og kvikmyndagerð, áhugaleikfélög og framhaldsskóla. Skortur á samningum, fjármagns- og aðstöðuleysi hefur verið dragbítur á greininni og heft þá þróun sem möguleg væri innan hennar. Nýtt fagfélag danshöfunda er því mikilvægt skref í þá átt að styrkja stöðu danslistarinnar hér á landi.

Stjórn DFÍ 2015 er þannig skipuð:
Formaður: Katrín Gunnarsdóttir danshofundar@gmail.com
Gjaldkeri: Katrín Ingvadóttir
Ritari: Ásrún Magnúsdóttir
Varamaður: Alexander Roberts

 

BÍL samþykkir sóknaráætlun skapandi greina

Á aðalfundi BÍL fyrr í dag var saþykkt tillaga stjórnar BÍL að sóknaráætlun skapandi greina Áætlunin byggir á skýrslu starfshóps, sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í byrjun árs 2011. Skýrsla hópsins Skapandi greinar – Sýn til framtíðar kom út í september 2012. Í febrúar 2013 var stofnaður samtarfshópur ráðuneytanna og fleiri aðila, sem fékk í það verkefni að vinna að samræmdri uppbyggingu skapandi greina í anda skýrslunnar, gera tillögur til stjórnvalda um nauðsynlegar aðgerðir og fylgja þeim eftir.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt tekið fram að leggja eigi áherslu á að styðja við skapandi greinar á kjörtímabilinu, gera listnám aðgengilegt og viðurkennt, auk þess sem gera eigi úttekt á starfsumhverfi skapandi greina með það að markmiði að þær eflist og sæki fram. Og í áramótaávarpi sínu, 31. desember 2013 sagði forsætisráðherra:  „Menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hafa að undanförnu unnið með markvissum hætti að sóknaráætlun fyrir listir, menningu og annað nýsköpunarstarf sem birtast mun á nýja árinu.  Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs,  þar sem hugvit og sköpunarkraftur fara saman.“

Bandalagi íslenskra listamanna er ekki kunnugt um að þessi sóknaráætlun sé í vinnslu, ekki hefur verið ráðgast við fagfélög listamanna um málið og tillögur BÍL um forgangsröðun í þágu listtengdra launa- og verkefnasjóða gengu ekki eftir við afgreiðslu fjárlaga 2015. Af þessum sökum hefur Bandalag íslenskra listamanna unnið eftirfarandi tillögu að sóknaráætlun fyrir skapandi greinar, sem send verður ríkisstjórninni ásamt yfirlýsingu um skýran vilja BÍL til að eiga samstarf við stjórnvöld um innleiðingu hennar.

Fjárhagslegur stuðningur og tölulegar upplýsingar
Opinber stuðningur við skapandi greinar verði kortlagður og skipulega gerð grein fyrir honum í fjárlagafrumvarpi hvers árs á grundvelli árlegrar efnahagsáætlunar fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Opinberar stofnanir í hinum skapandi geira verði skilgreindar í samræmi var skilgreiningu UNESCO. Upplýsingar um stofnanirnar, afkomu þeirra, útflutning og mannahald, verði teknar saman undir hatti Hagstofu Íslands og þeim miðlað á vef stofnunarinnar. Fyrirtæki í hinum skapandi geira verði skilgreind í samræmi við skilgreiningu UNESCO og tölulegum upplýsingum um afkomu, útflutning og mannahald verði safnað með sama hætti og gildir um fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum. Hagstofa Íslands annist samantekt upplýsinganna og miðlun þeirra.
Verkefnasjóðir listgreina og hönnunar verði skilgreindir, enda byggja skapandi greinar afkomu sína á sjóðunum. Fylgjast þarf með þróun verkefnasjóðanna og samspili þeirra við launasjóði listamanna og hönnuða. Upplýsingum um þau verkefni sem stuðning hljóta verði haldið saman og miðlað af Hagstofu Íslands. Sjóðirnir þurfa ekki allir að heyra undir sama ráðuneyti.
Opinberir samkeppnissjóðir á sviði rannsókna og nýsköpunar verði endurskilgreindir, t.d. rannsóknarsjóður, tækniþróunarsjóður og innviðasjóður, og þeir opnaðir fólki sem starfar í skapandi greinum. Slík aðgerð er til þess fallin að ýta undir fjölbreyttari möguleika á fjármögnun verkefna í geiranum. Ef bið verður á þeirri aðgerð þá verði stofnaður tímabundinn sjóður skapandi greina undir hatti Vísinda- og tækniráðs, mögulega í formi markáætlunar líkt og tíðkast hefur í öðrum greinum, sem brúar bilið þar til framtíðarskipan verður komin til framkvæmda.
Til hliðsjónar við þessa vinnu verði hugmyndir úr sóknaráætluninni Ísland 20/20, verkefna- og fjárhagsáætlanir stofnana á vettvangi lista, hönnunar og annarrar menningartengdrar starfsemi, t.d. kynningarmiðstöðva lista og hönnunar, auk sjónarmiða þeirra sem starfa sjálfstætt í geiranum.

Markaðssetning innan lands sem utan
Formlegu samstarfi verði komið á við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Samtök skapandi greina um hlutdeild þeirra í eflingu greinanna, t.d. um aukna fjárfestingu í fyrirtækjum á sviði greinanna og um markaðssókn innanlands.
Samstarf um markaðssókn skapandi greina erlendis verði eflt með aðkomu Íslandsstofu, Samtaka atvinnulífsins og þeirra ráðuneyta sem eiga aðild að stjórn Íslandsstofu (utanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneyti).
Greina þarf vægi skapandi greina í ferðaþjónustu í samstarfi við aðila í ferðaþjónustu, slíkt má einnig gera undir hatti Íslandsstofu. Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga komi að þeirri vinnu.
Opna þarf skapandi greinum aðkomu að átaksverkefni stjórnvalda og ferðaþjónustunnar „Ísland allt árið“ sem Íslandsstofa hýsir.
Gera þarf átak í miðlun upplýsinga um hátíðir og aðra menningartengda viðburði um land allt í þágu menningartengdrar ferðaþjónustu. Verkið verði unnið jafnt með miðlun innan lands sem utan í huga. Greina verður ólíkar þarfir innlendra ferðamanna og erlendra. Skynsamlegt væri að leita til Sambands íslenskra sveitarfélaga (landshlutasamtaka sveitarfélaga) og Reykjavíkur-borgar um samstarf við verkið.
Fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum komi með beinum hætti að mótun tillagna þeirra sem getið er í þessum kafla, auk þess sem hafa þarf sendiráð Íslands með í ráðum.

Skapandi greinar verði hluti þjóðhagsreikninga
Gera þarf tillögur um reglubundna mælingu á hlut skapandi greina í verðmætasköpun hagkerfisins og ákveða með hvaða hætti þeim upplýsingum verður fundinn staður í þjóðhagsreikningum. Verkinu verði stjórnað af Hagstofu Íslands, sem leiti samstarfs við rannsóknarsetur skapandi greina við Háskóla Íslands og Samtök skapandi greina. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þyrfti einnig að koma að málinu fyrir hönd stjórnvalda.
Gera þarf áætlun um reglulegan sambanburð opinberrar skráningar við nágrannalönd okkar, sérstaklega Norðurlöndin nokkur vel valin ríki innan ESB, sem standa framarlega í slíkri skráningu. Fylgjast þarf með framgangi áætlunar um Skapandi Evrópu (Creative Europe) og þróun aðferðafræði UNESCO, með það að markmiði að auka samanburðarhæfni skráningarinnar.

Staðsetning innan stjórnsýslunnar
Gera þarf tillögur um samræmda stjórnsýslu skapandi greina. Við það verk verði höfð hliðsjón af reynslu hinna Norðurlandanna og unnið í samræmi við áherslur stýrihóps KreaNord, sem starfar undir Norrænu Ráðherranefndinni. Leitað verði samstarfs við stjórnsýslufræðinga og sérfræðinga í listum og skapandi greinum innan háskólasamfélagsins við gerð tillagnanna.

Hlutverk miðstöðva lista og hönnunar og menningarráða sveitarfélaganna
Skerpa þarf á hlutverki miðstöðva lista og hönnunar. Skilgreina þarf þátt þeirra í stefnumótun og fjármögnun verkefna. Mikilvægt er að treysta lagastoð þeirra og tryggja þeim sess í fjárlögum.
Gera þarf áætlun um þróun menningar- og vaxtasamninga við landsbyggðina. Í því sambandi þarf að skoða sérstaklega hlutverk menningarráða landshlutanna. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi forgöngu um verkið fyrir hönd stjórnvalda.
Tryggja þarf faglega úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna, ekki síst á landsbyggðinni og koma á samræmdri skráningu framlaga til að auðvelda samanburð. Sambandi íslenskra sveitarfélaga verði falin forysta í verkefni þessu og sérstaklega verði horft til árangurs Reykjavíkurborgar í þessum efnum.
Gera þarf áætlun um fjölgun starfa í skapandi greinum á landsbyggðinni. Við það verkefni verði leitað samstarfs milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kannaður verði vilji Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka skapandi greina til þátttöku.
Auka þarf hlut frumsköpunar í listum, hönnun og annari menningarstarfsemi á landsbyggðinni, til að tryggja stoðir atvinnulífsins og auka fjölbreytni þess. Sérstaklega verði horft til árangurs verkefna á borð við Handverk og hönnun, auk þess sem leitað verði í smiðju Reykjavíkurborgar sem hefur verið í fararbroddi sveitarfélaga í þessum efnum.
Móta þarf formlegt samstarf milli ríkis og höfuðborgarinnar í málefnum menningar, lista og hönnunar. Mikilvægt er að koma á formlegum ferlum sem eru til þess fallnir að miðla upplýsingum um það sem vel hefur verið gert í þessum efnum hvar sem er á landinu. Verkefninu sé ætlað að byggja brýr milli höfuðborgar og landsbyggðar og efla hugmyndir um samstarf. Verkefnið verði samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fyrir hönd ríkisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tryggja þarf landshluta-samtökum sveitarfélaga aðkomu að þeirri vinnu.

Menntunarmál og rannsóknarstarf
Gera þarf úttekt á list- og starfsmenntun í skapandi greinum í framhaldskólum og móta í kjölfarið framtíðarstefnu um listmenntun á framhaldsskólastigi.
Gerð verði áætlun um eflingu meistaranáms við Listaháskóla Íslands og stofnuð kvikmyndabraut við skólann.
Greitt verði fyrir samstarfi milli háskóla um þverfaglegt meistaranám t.d. listgreina, tæknigreina, viðskiptagreina og ýmissa fræðigreina.
Gera þarf áætlun um rannsóknir í listum og skapandi greinum við Listaháskóla Íslands, auk almennra rannsókna á stöðu greinanna, veltu þeirra, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu.

Skattaleg staða, aðgangur að hinu félagslega kerfi og höfundarréttur
Tryggja þarf að starfsumhverfi skapandi greina sé sambærilegt við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Í því sambandi þarf að bæta skattalega stöðu greinanna, þ.m.t. að tryggja samræmda skattalega meðferð launatekna og tekna sem aflað er með afnotum eða leigu af hugverkaeign.
Gera þarf áætlun um sanngjarnar greiðslur til rétthafa fyrir eintakagerð hugverka til einkanota í gegnum tölvur og farsíma, auk þess sem ákvæðum höfundarréttarlaga verði breytt með tilliti til stöðugt nýrrar tækni við eintakagerð og geymslu efnis sem varið er af höfundarrétti.
Þá þarf að tryggja stöðu þeirra sem starfa innan skapandi greina gagnvart opinberu kerfi atvinnuleysistrygginga, fæðingarorlofs, sjúkratrygginga og annarra slíkra þátta hins almenna vinnumarkaðar.

Samstarf við fagfélög listafólks
Við endanlegan frágang sóknaráætlunar þessarar, útfærslu hennar, tímasetningar og fjármögnun verði fagfélög listamanna höfð með í ráðum, m.a með reglulegum fundum með stjórnvöldum um framvindu og síðan eftirfylgni áætlunarinnar.

Starfsáætlun 2015

Á aðalfundi BÍL, sem haldinn var í dag í Þóðleikhúskjallaranum, var samþykkt eftirfarandi starfsáætlun fyrir árið 2015:

° BÍL vinnur að því að koma í framkvæmd „Sóknaráætlun skapandi greina“. Það verður gert með því að koma henni í opinbera umræðu og á framfæri við stjórnvöld.  Þannig sinnir BÍL þátttöku í stefnumótun á vettvangi skapandi atvinnugreina og tekur m.a. mið af menningarstefnu samþykktri á Alþingi vorið 2013, tillögum skýrslunnar Skapandi greinar – Sýn til framtíðar og stefnumótun í menningarmálum á vettvangi sveitarfélaga t.d. Reykjavíkur.  Í samræmi við sóknaráætlunina leggur BÍL áherslu á þátt listanna í þróun skapandi atvinnugreina um land allt og mikilvægt samspil lista, menningar og atvinnulífs.

° Samstarfssamningar BÍL við mennta- og menningarmálaráðuneytið og borgaryfirvöld eru forsenda þess að BÍL geti veitt stjórnvöldum nauðsynlega ráðgjöf í málefnum listanna. Mikilvægt er að framlag opinberra aðila til starfsemi BÍL nægi til að sinna því hlutverki. BÍL vinnur að því að fá framlag ríkisins hækkað þannig að við næstu endurnýjun samningsins verði það ekki lægra að raunvirði en 2008 þegar það var 2,3 millj. Einnig verði leitast við að fá framlag Reykjavíkurborgar hækkað þannig að það jafnist á við verðgildi upphaflega samkomulagsins við borgina 2007.  Á sama tíma leiti BÍL nýrra leiða til að styrkja fjárhagslega stöðu sína með það að markmiði að ráða til sín starfskraft til að auka slagkraftinn í hagsmunabaráttu listamanna.

° BÍL stefnir að því að þróa heimasíðu BÍL þannig að hún geti orðið öflugur vettvangur skoðanaskipta um listir, auk þess sem hún miðli greinum frá listafólki og samtökum þeirra. Einnig þarf síðan að miðla upplýsingum um BÍL á erlendum tungumálum og það alþjóðlega samstarf sem BÍL tekur þátt í. BÍL er orðið sýnilegt á samskiptamiðlum og þann sýnileika þarf að efla enn frekar. Aukið rekstrarfé er forsenda þess að áform um öflugri upplýsingamiðlun gangi eftir.

° BÍL vinni að uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir listafólk um land allt, m.a. með þátttöku í verkefnum á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga í samstarfi við menningarráð landshlutanna. Þá leggi BÍL rækt við samstarf við Samtök skapandi greina, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og aðra þá sem hagsmuni hafa af uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir skapandi fólk. Þá beiti BÍL sér í baráttunni fyrir bættri listmenntun á öllum skólastigum, með því að auka samskipti við yfirvöld menntamála jafnt á vettvangi ríkis sem og sveitarstjórna.

° BÍL leggi rækt við norrænt og alþjóðlegt samstarf, m.a. á vettvangi höfundarréttarmála í samstarfi við systursamtök á Norðurlöndunum og innan ESB. Þá leggi BÍL sig eftir samstarfi við söfn og aðrar stofnanir sem sunda miðlun og rannsóknir á listum og menningararfi.

Vel heppnaður aðalfundur og málþing

Í dag var haldinn aðalfundur BÍL og málþing í tengslum við hann. Allt heppnaðist þetta funda- og þinghald afar vel. Framsögumenn á málþingi um Sjálfstæðisbarátu 21. aldarinnar, voru hver öðrum betri í glímunni við að svara spurningunni um það hvort listirnar, menningin og þjóðin þörfnuðust sjálfstæðs menningarmálaráðuneytis? Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, tók þátt í málþinginu og taldi hugmyndina vel þess virði að gefa henni gaum. Erindin á málþinginu voru kvikmynduð og verða aðgengileg á síðunni innan skamms.

Aðalfundur BÍL samþykkti starfsáætlun fyrir árið 2015 og tillögu að sóknaráætlun í skapandi greinum, sem stjórn BÍL lagði fyrir fundinn. Þessi skjöl eru aðgengiðleg á síðunni og verða kynnt stjórnvöldum formlega á næstu dögum.

Málþingið: Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar

Í tengslum við aðalfund sinn býður BÍL – Bandalag íslenskra listamanna til málþings í Þjóðleikhúskjallaranum laugardaginn 7. febrúar kl. 14:00 undir yfirskriftinni

Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar  –  Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti?

Málþingið tekur til umfjöllunar stöðu lista og menningar í stjórnkerfinu, skoðar aðgengi atvinnufólks í listum og hönnun að aðstöðu og opinberum fjármunum, auk þess að hugleiða afstöðu stjórnvalda til atvinnustarfsemi sem byggir á framlagi listafólks og hönnuða.  Markmið umræðunnar er að leita leiða til að listirnar geti sinnt því hlutverki sínu að framleiða menningararf framtíðarinnar og halda lífi í tungumálinu, íslenskunni.

Stjórnvöld hafa lengi haft uppi áform um að efla skapandi greinar, auka hlut þeirra í atvinnulífinu og fjölga atvinnutækifærum í greinunum um land allt. Erfitt hefur reynst að hrinda þeim áformum í framkvæmd og mikið skortir á að listir og menning hafi endurheimt þann styrk sem var til staðar í umhverfi þeirra fyrir hrun. Þar kemur margt til, bæði viðkvæmur fjárhagsgrunnur menningarstofnana en ekki síður afkoma ýmissa sjóða sem gegna hlutverki við list- og menningartengd verkefni og uppbyggingu skapandi greina. Síðast en ekki síst hefur atvinnulífið dregið úr stuðningi sínum sem hafði aukist verulega á árunum 2000 – 2008.

Fjórar framsögur verða fluttar af listamönnum, eldhugum og sérfræðingum, sem öll hafa reynslu af því að takast á við fjölbreytt verkefni á vettvangi skapandi atvinnugreina.  Sérstakur gestur málþingsins verður mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, sem ávarpar þingið og tekur þátt í umræðum.

Innleggin flytja:
Charlotte Bøving leikari og leikstjóri,
Daði Einarsson listrænn stjórnandi,
Hulda Proppé sérfræðingur á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís og
Þorleifur Arnarson leikstjóri.
 

Málþingsstjóri verður Magnús Ragnarsson leikari og framkvæmdastjóri. 

Fyrirkomulag málþingsins verður þannig að innleggin verða kvikmynduð og sett á vefinn að málþinginu loknu, með það að markmiði að umræðan geti haldið áfram á vefmiðlum og samskiptasíðum.

Málþingið hefst kl. 14:00 og stendur til kl. 16:00. Því lýkur með léttum veitingum og óformlegu spjalli um efni málþingsins. Málþingið er öllum opið.

Menningarstefna Reykjavíkur 2014 – 2020

19. janúar 2015 hélt menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur sérstakan fund til að kynna menningarstefnu Reykjavíkur 2014 – 2020. Forseti BÍL, Kolbrún Halldórsdóttir, hélt stutt erindi á fundinum og gerði að umræðuefni frumkvæði borgaryfirvalda í aðferðafræði við að móta menningarstefnu, fylgja henni eftir og viðhafa fagleg  vinnubrögð við úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna:

–        Menningarstefna Reykjavíkur er þróunarverkefni. Segja má að upphafið megi rekja til ársins 2000 þegar undirbúningur að fyrstu menningarstefnu Reykjavíkur hófst, en sú stefna var samþykkt í borgarráði í desember 2001.

–        Þar með tóku borgaryfirvöld ákveðna forystu hvað varðar stefnumótun í menningarmálum, sem oft og lengi hafði verið kallað eftir, en slíku ákalli hafði þó aðallega verið beint að landsstjórninni, sem lét undir höfuð leggjast að bregðast við því. En þá voru það boraryfirvöld sem tóku kyndilinn og hófu hann á loft.

–        Það var svo ekki fyrr en haustið 2012, sem ríkisstjórnin lagði fram tillögu til þingsályktunar um menningarstefnu, sem samþykkt var sem ályktun Alþingis fyrir tæpum tveimur árum, eða 6. mars 2013.

–        Þegar 4. útgáfa menningarstefnu borgarinnar (2009 – 2012) var í vinnslu, lagði Bandalag íslenskra listamanna það m.a. til mála að skynsamlegt væri að stefnunni fylgdi skilmerkileg og helst tímasett aðgerðaáætlun, til að tryggja eftirfylgni og framkvæmd stefnunnar.

–        Það er jú þekkt í stjórnunarfræðunum að stefna ein og sér gerir lítið fyrir eiginlega stöðu menningarmála. Þó hún sé góðra gjalda verð og í raun algerlega nauðsynleg, þá er hætt við að stefna verði marklaus nema henni fylgi sundurliðuð áætlun um eftirfylgni.

–        Menningarstefnunni sem Alþingi samþykkt fylgir t.d. engin áætlun um eftirfyglni, eða tímasett aðgerðaáætlun, enda hefur í sannleika sagt gengið afar hægt að hrinda nokkru af áformum hennar í framkvæmd. Jafnvel þó fleiri en einn starfshópur hafi verið settir á laggirnar til að semja tillögur á grundvelli stefnunnar þá er varla nokkuð sem búið er að hrinda í framkvæmd af þeim áformum sem stefnan hefur að geyma.

–        Svo aftur tók Reykjavík forystuna þegar nýjasta endurskoðun menningarstefnu borgarinnar hófst 2012/2013 og ákvörðun var tekin um að aðgerðaáætlun myndi fylgja stefnunni. Þetta var tímamótaákvörðun og í aðgerðaáætluninni getur að líta afskaplega skilmerkilegan lista yfir aðgerðir sem verður yfirfarinn árlega, þannig að kjörnir fulltrúar borgaranna og embættismenn sviðanna sem sjá um að framkvæma stefnuna, geti fylgst með framvindu hennar. Hér hafa þeir yfirlit yfir þær aðgerðir sem eru í farvegi, þær aðgerðir sem ber að fara í á yfirstandandi ári og (skv tillgöu Sjálfstæðismanna í menningar- og ferðamálaráði) lista yfir verkefni sem er lokið. Þannig er alltaf hægt að fylgjast með framvindu stefnunnar, hvað er í farvegi, hvað er u.þ.b. að fara í gang og hverju er lokið.

–        Enn eitt forystuhlutverk sem Reykjavíkurborg hefur axlað er að hanna aðferð og verklag til að tryggja faglega umfjöllun um fjármögnun menningartengdra verkefna.

–        Bandalag íslenskra listamanna hefur lengi verið í virku samstarfi við borgaryfirvöld um stefnu og ákvarðanir í málum er varða menningu og listir. Bandalagið á áheyrnaraðild að fundum menningar- og ferðamálaráðs og leggur ráðinu til sérfræðinga sem mynda fagráð það sem fjallar um umsóknir um stuðning við menningarviðburði, list- og menningartengdar hátíðir, og einstök list- og menningartengd verkefni.

–        Með þeirri aðferðafræði hafa borgaryfirvöld rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög. Sérstaklega æskilegt væri að menningarráð landshlutanna litu til borgarinnar í þessum efnum, en þau hafa menningarsamninga við ríkisvaldið á sinni könnu, þar sem ríkið fjármagnar menningarstarfsemi landshlutanna gegn því að sveitarstjórnir leggi sambærilegar upphæðir á móti til samninganna.

–        Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að borgaryfirvöld hafa tekið afgerandi forystu í aðferðafræðinni við að móta menningarstefnu, fylgja henni eftir og viðhafa fagleg vinnubrögð við úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna. Fyrir hönd Bandalags íslenskra listamanna óska ég borgarbúum til hamingju með nýju stefnuna, en ekki síður með aðgerðaáætlunina.

Aðalfundur BÍL 2015

Aðalfundur BÍL  2015 verður haldinn laugardaginn 7. febrúar og hefst hann kl. 11:00.  Í framhaldinu verður haldið málþing um ábyrgð hins opinbera gagnvart því að varðveita og viðhalda listsköpun á íslenskri tungu í þágu menningararfs framtíðarinnar. Málþingið hefst kl. 14:00 og yfirskrift þess verður:  Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar. Og undirtitillinn verður í formi spurningar: Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti?  Ekki liggur ljóst fyrir hvar fundurinn verður haldinn, þar sem Iðnó er ekki laust 7. febrúar, svo staðarval verður ákveðið og tilkynnt einhvern næstu daga.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum BÍL, sem eru aðgengileg á heimasíðu þessari.  Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Samkvæmt lögum BÍL ber félögum að senda inn greinargerð um störf aðildarfélaganna og tilkynna um aðalfundarfulltrúa a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund.  Þá er minnt á að allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að félögum sé kynnt dagsetning fundarins með góðum fyrirvara.

Dagskrá fundarins ásamt tillögu stjórnar að starfsáætlun 2015 verður send út a.m.k. tveimur vikum fyrir fundinn.

 

Af hverju viljiði ekki peningana okkar?

Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félags leikskálda og handritshöfunda skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:

MO_greinEkki ætla ég að þykjast vita hvernig á að stýra ríkisfjármálum, en eitt veit ég að peningar eru jafnverðmætir sama hvaðan þeir koma, svo fremi sem þeirra hefur verið aflað með heiðarlegum og virðingarverðum hætti. Og þó ég sé eins langt frá því að vera fjármálasnillingur og hugsast getur þá veit ég þó að það borgar sig að fjárfesta í arðvænlegum verkefnum.
Hvernig stendur þá á því að þrátt fyrir að stjórnvöldum hljóti að vera orðið löngu ljóst (nógu oft er nú búið að segja þeim það) að fjárfesting í kvikmyndagerð margborgar sig þá heykjast þau á að veita íslenskri kvikmyndagerð þann stuðning sem henni er nauðsynlegur eigi hún á annað borð að eiga sér einhverja alvöru framtíð. Viljiði ekki peningana okkar? Afhverju ekki?

Fimmfalt til baka
Eftir að hafa verið hafður í svelti árum saman hillti loks undir betri tíma þegar ákveðið var að stórauka framlag til Kvikmyndasjóðs árið 2013. Gerð var framtíðaráætlun um stigvaxandi aukningu til næstu ára, enda sýndu niðurstöður skýrslna sem gerðar höfðu verið um hagræn áhrif kvikmyndagerðar svart á hvítu að virðisauki íslenskrar kvikmyndagerðar er umtalsverður – hver króna sem ríkið veitir til kvikmyndagerðar skilar sér fimmfalt til baka sem hreinar tekjur. Beint í ríkiskassann. Þessar tölur eru meira að segja varlega áætlaðar.

Í síðustu fjárlögum var Kvikmyndasjóður skertur um 40% og nú, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fyrir, stendur til að halda honum áfram undir fátækramörkum. Það þarf ekki að tíunda hversu mikið áfall þetta er fyrir greinina og alveg ljóst að afleiðingarnar verða mjög slæmar. Strax í ágúst á þessu ári var Kvikmyndasjóður orðinn tómur.

Þeir sem eiga verkefni sem þegar eru til meðferðar hjá sjóðnum sem og þeir sem eru tilbúnir að sækja um styrki verða því að bíða fram yfir áramót eftir frekari afgreiðslu. Ef upphæðin sem Kvikmyndasjóði er ætluð samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður ekki lagfærð er alveg ljóst að fjöldi verkefna kemst ekki af stað. Sum munu kannski frestast um óákveðinn tíma en önnur daga uppi. Verkefni sem annars myndu skapa ríkinu framtíðartekjur. Bíómyndir og sjónvarpsþættir og heimildamyndir sem almenningur fær aldrei að sjá. Afhverju viljiði ekki þessa peninga? Ég bara skil það ekki.

Ég hef meðvitað haldið aftur af mér að minnast á menningarlegt gildi, heimildagildi (því við erum jú skrásetjarar sögunnar) og fleira sem stundum er kallað óáþreifanleg verðmæti. En nú er ég búin að gera það. Ástæðan fyrir því að ég gerði það ekki fyrr er sú að það er stundum eins og fólkið sem heldur um budduna hreinlega taki ekki mark á neinu nema það sé sett í efnahagslegt samhengi. Eins og að um leið og hugtök eins og menningarlegt gildi eða andleg verðmæti heyrist þá slái það skyndilegt og algert heyrnarleysi. Þess vegna endurtek ég spurninguna: Afhverju viljiði ekki peningana okkar?!

Page 4 of 25« First...23456...1020...Last »