Til ráðherranefndar um viðbrögð við fjórðu bylgju kórónuveirunnar og
sjónarmið Bandalags íslenskra listamanna.

Bandalag íslenskra listamanna vill þakka fyrir þetta samráð við umhverfi listar og menningar nú í upphafi vetrar, við endurteknar aðstæður sem skapast af völdum kórónaveirufaraldursins. Minnug þess að fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að áhlaupið myndi eingöngu vara í nokkar vikur og allar aðgerðir miðuðu að því að viðsnúningurinn yrði sem eðlilegastur handan kófsins, er tímabært að leggja niður hinn þekkta frasa „fordæmalausir tímar“, því átökin síðasta ár hafa fært okkur reynslu sem mikilvgt er að horfa til þegar glímt er við fjórðu bylgju faraldursins.

Reynslan hefur kennt okkur hversu mikilvægt það er listalífinu að geta opnað og sýnt og starfað, þó ekki hafi verið nema í takmarkaðan tíma hverju sinni. Það að reglulega hefur verið hægt að opna fyrir viðburði hefur gefið, bæði stofnunum og einstaka listamönnum og hópum, líflínu. Jafnvel þó spottin hafi stundum verið stuttur og fyrirsjáanleikinn lítill hefur þetta haldið von í menningarrekstri og mögulega hindrað algjört hrun innviða. Þetta eru vissulega aðeins vangaveltur, en samanborið við nágrannalönd okkar, sem mörg hver fóru þá leið að loka alveg fyrir menningarstarfsemi, má færa rök fyrir þessu. Víða þar sem menningarstarfsemi var stöðvuð, eins og t.d. í Svíþjóð, er nú hafin vinna við enduruppbyggingu innviða menningarinnar sem bókstaflega hrundu saman á einum starfsvetri. Meðfylgjandi er frétt af heimasíðu Sænska menningarráðuneytisins þessa efnis.

https://www.regeringen.se/pressmeddelanden/2020/12/regeringen-tillsatter-utredning-for-kulturens-aterstart/

Líklega eru aðrir en Bandalag íslenskra listamanna til þess hæfari að tjá sig um tæknilegar útfærslur á sóttvörnum, en listamenn geta ekki nógsamlega bent á hversu dýru verði það er keypt ef listviðburðir verða áfram háðir jafnþungum takmörkunum og verið hefur. Forstöðumenn stofnana menningarhúsa hafa bent á að líklega sé óvíða jafn auðvelt að stýra umferð og skrá áhorfendur en á þeirra vettvangi og ef litið er til reynslu síðasta vetrar er sá málflutningur trúverðugur.

Það er aftur flóknara að ná utanum þá viðburði sem fara fram utan þessara húsa og eru bornir meira og minna uppi af sjálfstætt starfandi listamönnum eða minni viðburðaaðilum. Leita þarf leiða til að veita sem mest svigrúm svo sú starfsemi geti farið fram með skilyrðum, eins og t.a.m. skyndiprófum eða PCR-vottorðum, auk perónulegra sóttvarna, að sjálfsögðu. Þessi skilyrði, eins og skyndipróf, eru víða notuð í nágrannalöndum okkar til þess að viðburðir geti farið fram.

Framlenging fyrri aðgerða.

Aðrar aðgerðir sem gripið hefur verið til fram að þessu þarf að framlengja, s.s. hlutabótaleið og því að viðhalda tekjutengingu atvinnuleysisbóta, því þrátt fyrir að þau úrræði hafi ekki gagnast öllum fengu um 30% þeirra listamanna sem urði fyrir verulegu tekjufalli og sóttu til VMST úrlausn sinna mála þar.

Tekjufallsstyrkirnir reyndust stórum hópi einyrkja og listamönnum afar vel og mikilvægt að áfram verði opið fyrir það úrræði, með nauðsynlegum lagfæringum þó, þ.e. að viðmiðunarár tekna verði áfram 2019 og að fyrri greiðslur komi ekki til lækkunar því sem fengist greitt 2021.

Þá er mikilvægt að tryggja úrræði fyrir rekstraraðila/listhópa, sem skráðir eru sem félög án hagnaðar, þ.e. eru ekki ehf., sfl. eða einyrkjar. Mörg félög í menningarrekstri hafa ekki getað nýtt sér tekjufallsstyrkina og eru því ennþá með skuldbindingar vegna starfsemi sinnar og sokkinn kostnað frá fyrstu bylgju.

Augljóst er að þau úrræði sem gripið var til á fyrri stigum faraldursins hentuðu illa einyrkjum/listamönnum sem búa við flókið rekstrarumhverfi og hafa tekjur af blandaðri starfsemi. Það er mat Bandalags íslenskra listamanna að skoða þurfi hvort eitthvað í löggjöfinni hindri það að fólk í þessu flókna starfsumhverfi njóti almennra og sjálfsagðra réttinda vinnumarkaðarins. Sé svo þarf atbeina stjórnvalda til að breyta lögum.

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna