Aðalfundur BÍL 2022 fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að þjóðaróperu skuli komið á laggirnar á kjörtímabilinu. Undirbúningur þarfagreiningar er þegar kominn í farveg þar sem ráðherra menningarmála Lilja D. Alfreðsdóttir skipaði starfshóp um málið 27. september 2021. Bandalag íslenskra listamanna á aðild að þeirri vinnu með því að hafa tilnefnt einn fulltrúa í hópinn. Í ljósi þessa telur BÍL að vangaveltur um staðsetningu væntanlegrar þjóðaróperu séu ótímabærar meðan starfshópurinn hefur ekki skilað ráðherra tillögum sínum, en hann hefur til loka febrúar til að ljúka störfum.
BÍL telur mikilvægt að væntanleg þjóðarópera verði stofnuð svo fljótt sem verða má, en þó ekki þannig að kastað verði til höndum, heldur standi stjórnvöld að stofnun hennar af stórhug og faglegur metnaður fái að ráða för. Þannig eru mestar líkur á að þjóðarópera verði sú öfluga stofnun sem vænst er, stofnun sem séð getur þjóðinni allri fyrir óperusýningum í hæsta gæðaflokki. Til að auka líkurnar á að vel fari leggur BÍL áherslu á að starfshópurinn fái ráðrúm til að ljúka störfum og að yfirveguð umræða fari fram á grundvelli tillagna hans þegar þær liggja fyrir.
Samþykkt á aðalfundi BÍL 19.febrúar 2022