Frétta tilkynning Þóru Einarsdóttir í kjölfar dóms í máli hennar gegn ÍÓ.

Landsréttur staðfesti með dómi sínum, sem kveðinn var upp 27. maí 2022, að Íslenska Óperan braut kjarasamning sem hún gerði við stéttarfélög FÍH og FÍL árið 2000 með því að greiða söngvurum lægri greiðslur en þær lágmarksgreiðslur sem kjarasamningurinn segir til um á æfingatímabili, virða ekki vinnuverndarákvæði samningsins, neita að greiða yfirvinnu samkvæmt kjarasamningi og neita að greiða launatengd gjöld. Gunnar Ingi Jóhannsson hrl. flutti málið í Landsrétti fyrir hönd Þóru.

Forsaga þessa máls er sú að við æfingar á uppsetningu á Brúðkaupi Fígarós 2019 tók Íslenska Óperan að boða einsöngvara sýningarinnar á æfingar langt umfram vinnuverndarákvæði í kjarasamningi stéttarfélags þeirra við ÍÓ. Æfingaálag varð það mikið að söngvarar höfðu áhyggjur af raddheilsu sinni og heilsu almennt. Áhyggjum af þessu var ítrekað lýst við óperustjóra. Þrátt fyrir það var ekki dregið úr æfingaboðum og álagi. Söngvararnir leituðu til stéttarfélags síns um útreikning á greiðslum fyrir yfirvinnutímana. Óperustjóri hafnaði því hins vegar að greiða fyrir yfirvinnu og fullyrti að samningur stéttarfélags FÍH við óperuna hefði ekkert gildi.

Þóra Einarsdóttir höfðaði þá mál fyrir Héraðsdómi þar sem hún stefndi Íslensku Óperunni fyrir brot á kjarasamningi. Hún byggði á því að hún hefði fengið of lágar greiðslur á æfingatímabili, Óperunni bæri að greiða yfirvinnu og launatengd gjöld eins og tilgreint er í kjarasamningnum. Héraðsdómur taldi hins vegar að um frjálsan verksamning væri að ræða og að aðilum hefði verið frjálst að semja undir lágmarksviðmiðum kjarasamningsins. Íslenska Óperan gaf í kjölfarið út fréttatilkynningu þar sem því var lýst yfir að löglegt hafi verið að greiða söngvurum lægri greiðslur en samkvæmt kjarasamningi.

 Í kjölfarið lýsti Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi, KlassÍs, vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, „vegna stjórnunarhátta stofnunarinnar á undanförnum árum.“ Klassískir söngvarar á Íslandi hefðu sýnt langlundargeð varðandi ófagmannlega stjórnunarhætti sjálfseignarstofnunarinnar Íslensku óperunnar um langt skeið“ sem nú væri þrotið.

 Dómur Héraðsdóms setti alla samninga um verkefnaráðningar sviðslistafólks í uppnám og skapaði mikla óvissu meðal söngvara um hver réttarstaða þeirra væri gagnvart Íslensku Óperunni. Sótti Þóra Einarsdóttir um áfrýjunarleyfi til Landsréttar með stuðningi vinnuréttarsérfræðinga, Bandalags íslenskra listamanna, KlassÍs og stéttarfélaganna FÍH, FÍL og BHM. En sérstakt leyfi þurfti til vegna þess að fjárhæðin sem deilt var um í málinu var undir lágmarks áfrýjunarfjárhæð, þótt ljóst væri að málið hefði fordæmisgildi fyrir fjölmarga aðra.

Nú liggur fyrir niðurstaða Landsréttar í málinu. Í stuttu máli staðfesti Landsréttur að Íslenska Óperan fór ekki að lögum við samningsgerð við söngvara og féllst Landsréttur á rök og kröfur Þóru Einarsdóttur í málinu að öllu leyti.

 Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að Íslensku Óperunni var óheimilt að semja um lægri greiðslur en kjarasamningur ÍÓ, FÍH og FÍL frá 2000 kveður á um. Fullyrðing ÍÓ  um að samningurinn næði aðeins til fastráðinna söngvara er ekki rétt. Í samningnum kemur beinlínis fram að að hann eigi við um þá sem eru ráðnir „í viðkomandi verkefni“ og vísað til hans sem samnings um „kaup og kjör lausráðinna söngvara“. Það hvernig greiðslur fara fram þ.e. í formi verklauna hefur enga þýðingu varðandi það hvort fara eigi eftir kjarasamningunum. Réttarsambandið er hefðbundið vinnuréttarsamband. Þá ber Íslensku Óperunni samkvæmt kjarasamningnum að greiða launatengd gjöld ofan á öll laun. Óperan getur ekki losnað undan skuldbindingum sínum með því að semja um greiðslu í formi verklauna. Íslensku Óperunni ber að fara eftir vinnuverndarákvæðum samningsins og greiða fyrir yfirvinnu. Í greinargerð til Landsréttar mótmælti Íslenska Óperan því sérstaklega að taka bæri tillit til launatengdra gjalda í dómkröfu. Dómurinn féllst ekki á þau rök. Einnig mótmælti Íslenska Óperan sönnunargildi samantektar á æfingatíma og æfingaboðunum sem ÍÓ sendu út og því að farið hefði verið yfir þau mörk sem kveðið var á um í kjarasamningnum (24 tíma á viku). Landsréttur sagði hins vegar að ÍÓ þyrfti að sýna fram á að æfingar hafi ekki farið umfram 24 tíma, eins og stofnunin héltfram, í ljósi þess að margir hafi staðfest mikið æfingaálag. ÍÓ gat ekki sýnt fram á neitt í því sambandi. Íslensku Óperunni ber að greiða dómkröfu Þóru Einarsdóttur auk lögmannskostnaðar.

 Eins og sjá má á niðurstöðu þessa máls snýst það um mun meiri hagsmuni en aðeins þá dómkröfu sem tekist var á um í þessu máli. Málið er mikilvægt réttindamál fyrir söngvara og niðurstaðan sýnir að söngvarar líkt og aðrar starfsstéttir eiga rétt á að njóta lágmarkskjara.