Bandalag íslenskra listamanna hefur sent fjárlaganefnd umsögn sína um frumvarp til fjárlaga 2023

 

Bandalag íslenskra listamanna (BÍL) eru heildarsamtök allra fagfélaga listamanna í landinu og hefur það hlutverk að gæta hagsmuna listamanna og styðja vöxt og viðgang íslenskra lista, bæði innan lands og utan.

BÍL hefur undanfarin ár sent inn umsögn við framlagningu fjárlaga og lagt áherslu á þá heildarmynd sem birtist í fjárlögum og stefnu stjórnvalda í málaflokki menningar sem lesa má út úr þeim ákvörðunum. Í fjárlagagerðinni er málaflokki menningar og lista skipt upp í þrjá kafla:

  • 1 Safnamál
  • 2 Stofnanir
  • 3 Samninga til menningar og listsköpunar.

Allir þessir flokkar eru starfsumhverfi listamanna mikilvægir og snerta störf þeirra með ýmsum og fjölbreyttum hætti. Í þessari umsögn mun BÍL þó sérstaklega beina sjónum sínum að flokki 18.3 Samningar til menningar og listsköpunar.

Það er vissulega tilefni til að hafa áhyggjur af stöðu stofnanna hins opinbera í menningargeiranum. Þær hafa allar orðið fyrir miklum búsifjum á Covid tímanum og sá halli sem þar myndaðist mun hafa veruleg áhrif á starfsemi þeirra um nokkurt skeið. Í því sambandi má benda á þá staðreynd að grunnstofnanir menningarinnar hér á landi reiða sig á stærra hlutfall sjálfsaflafés en almennt þekkist í okkar helstu samanburðarlöndum, svo ekki er óvarlegt að álykta að áhrif langvarandi samkomubanns hafi haft umtalsverð áhrif á rekstur þeirra. Innan þessarra menningarstofnanna starfar eingöngu lítill hluti listamanna á samningum við stöðug kjör, mun stærri hópur listamanna er tímabundið ráðinn til verkefna við þessar stofnanir. Þær reiða sig þannig á þetta fljótandi vinnuafl einyrkja – hóp vel menntaðs hæfileikfólks, sjálfstætt starfandi listamanna sem myndar hinn stóra vettvang frumsköpunar og iðandi mannlífs sem við erum svo hreikin af og sett hefur Ísland á kortið sem einn af þessum heitu reitum í samtímalistinni. Fyrir þennan hóp sjálfstætt starfandi listamanna eru verkefnasjóðirnir og starfslaunin kjarninn í því að koma verkefnum sínum í framkvæmd. Það eru því kaldar kveðjur að fá, svona skömmu eftir þurrkatíma samkomubanns, að þeir sjóðir skuli dragast svo harkalega saman eins og raun ber vitni í þessum fjárlögum.

18.3 Samninga til menningar og listsköpunar.

Verulega er gengið á sjóði menningar og listsköpunar í þessari fjárlagagerð, svo vægt sé til orða tekið. Frá árinu 2021 eru sjóðirnir skornir niður sem nemur á bilinu 5-30% í hreinni krónutölu, án þess að vístala sé tekin inn í myndina, sem gerir samdráttinn vissulega enn harkalegri. Þá eru ekki reiknuð inn sérstök framlög sem sett voru í sjóðina til úthlutunar vegna Covid, eingöngu er um að ræða fjárlögin eins og þau voru lögð fyrir á þessum árum.

Sem dæmi er niðurskuðurinn á Tónlistarsjóði, Myndlistarsjóði og Sviðslistasjóði, að jafnaði um 20%, samaborði við árið 2021. Allir þessir sjóðir eru mjög þýðingarmiklir fyrir viðkomandi greinar og úr þeim er úthlutað til flestra verka sjálfstæðrar listsköpunar í leiklist, myndlist og tónlist. Þetta er því mikið högg fyrir listirnar í heild sinni. Það hversu þessir sjóðir eru litlir fyrir og upphæðirnar lágar endurspeglar ekki með sanngjörnum hætti mikilvægi þeirra fyrir greinarnar. Þessar greinar mega einfaldlega ekki við svona skerðingum.

Kvikmyndasjóður verður fyrir hvað mestum búsifjum í þessum fjárlögum, er skorinn niður um 30% á milli ára og er það í hróplegri andstöðu við nýsamþykkta kvikmyndastefnu. Það er í raun alveg óskiljanleg ákvörðun að láta það gerast í kjölfar velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar og mikilvægi listgreinarinnar í fyrirsjánlegri framtíð. Sjálfstæð íslensk kvikmyndagerð hefur mikla þýðingu fyrir okkur hér heima fyrir, við að skrásetja okkar eigin samtíma og endurspegla hann okkur til gleði og aukins skilnings. En ekki síður gerir öflug íslensk kvikmyndagerðin okkur kleift að taka þátt í alþjóðlegu umhverfi á okkar eigin forsendum og skapa okkur sjálfstæða rödd í alþjóðlegu umhverfi. Óskiljanleg ákvörðun.

Í þessum flokki sjóða er einn sjóður sem hækkar í krónutölu en það er starfslaunasjóður listamanna. Það helgast af því að mánaðarleg greiðsla var hækkuð á árinu, enda hafði hún dregist verulega aftur úr launavísitölu. Greiðslan er í dag 490.000 kr. verktakagreiðsla. Hefði mánaðargreiðslan haldið í við launavísitölu frá þeim tíma sem lögin voru sett 2009 ættu launin að standa í 560.000 kr. í dag. Fjölgun mánaða sem kom inn í sjóðinn 2021 er feld brott í þessum fjárlögum og mánaðafjöldi listamannlauna því aftur kominn niður í 1.600 mánuði, sem er óbreyttur fjöldi frá 2014. BÍL hefur í samvinnu við menningarmálaráðuneytið bent á að eigi starfslaunin að halda hlutfalli miðað við umfang listgeirans í dag þyrftu mánuðirnir að verða 2.700. Listamannalaunin hafa því dregist verulega aftur úr.

Til útskýringar er hér mynd af ráðstöfun fjármagns í flokknum 18.3 og á henni má glöggt sjá að nokkrar listgreinar láta sér nægja litla sneið af ráðstöfunarfé þessa kafla málaflokksins.  Það er athyglisvert að stærsti útgjaldaliður þessa kafla er „andlitslaust“ ráðstöfunarfé ráðuneytisins. Það er liður sem hækkar um 10% á milli ára. BÍL hefur óskað eftir greiningu á þessum útgjöldum en sú eftirgrennslan hefur ekki borið árangur. Þessi útgjaldaliður er tæplega 1,2 milljarður í fjárlögum.

 

Þjóðarópera

Áætlun um Þjóðaróperu er ekki að finna í þessari fjárlagagerð. Nefndir á vegum ráðuneytisins hafa á undanförnum árum unnið að undirbúningi Þjóðaróperu og stofnun hennar er á verkefnalista menningarmálaráðuneytisins sem kynntur var í Hörpu í upphafi starfstíma ríkisstjórnarinnar. Sú staðreynd að óperan sem listform skuli ekki eiga stöðugri starfsgrundvöll en raun ber vitni gerir mennngarlandslag okkar fátæklegra en ásættanlegt er. Við eigum gríðarlegan fjölda hæfileikafólks í greininni sem flest starfar erlendis, því tækifærin og óperuumhverfið hér heima býður ekki upp á að þeir listamenn starfi hér nema stöku sinnum. Fyrir liggja hugmyndir og vinna í ráðuneytinu til að hrinda þessu í framkvæmd og því þarf að skapa rými í fjárlögum ríkisins.

Samantekt:

  • Bæta þarf fagsjóðum listgreina upp það tap sem fyrirhugað er í fjárlögum og færa þeim sjóðum í það minnsta það sem þeir höfðu til ráðstöfunar 2021. Sé visitala reiknuð inn í þessum niðurskurði eru sjóðirnir á pari við það sem þeir höfðu til rástöfunar 2014.
  • Listamannalaunin þurfa að hækka í 560.000 kr. Til þess að halda í við launavísitölu og mánuðum þarf að fjölga í 2700 mánuði úr þeim 1600 mánuðum sem hefur verið óbreyttur fjöldi frá 2014. Þetta er aukning í sjóðinn um 450 milljónir
  • Draga þarf til baka áætlun um skerðingu Kvikmyndasjóðs um 30% sem er í andstöðu við samþykkta kvikmyndastefnu.
  • Gera þarf grein fyrir því fjármagni sem í dag er stærsti útgjaldaliður samninga og styrkja við listir og menningu.
  • Eyrnamerkja þarf fé til undibúning stofnunar Þjóðaróperu.

Lokaorð

Í kjölfar Covid og þeirrar viðspyrnu sem efnahagskerfið og mannlífið þarf að takast á við er fjármagni til menningar og listsköpunar mikilvæg og skynsamleg ráðstöfun. Listamenn komu margir illa undan þeim samkomutakmörkunum sem faldurinn sett á störf þeirra, en eru líklega sá hópur sem fljótastur er að ná vopnum sínum vegna þess hve akur listarinnar er kvikur og lifandi. Allar greinar listarinnar eru ekki bara verkfæri í öflugu framtíðarhagkerfi, þar sem verðmætasköpun mun byggja á hugmyndum og mannviti, laða að ferðamenn og hvetja til nýjunga og efla frjósama hugsun – listin er fyrst og fremst okkar dýmætasta verkfæri til að auðga mannlíf, dýpka skilning og tala máli mennskunnar. Á því er ekki vanþörf á þessum tímum.

Virðingarfyllst

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[1] https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit–skyrslur-og-skrar/Kvikmyndastefna%20til%20%c3%a1rsins%202030.pdf