Author Archives: vefstjóri BÍL

MENNINGARTÖLFRÆÐI

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 27. september 2016:

Í grein sem Fréttablaðið birti 21.09.16 gerir aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra athugasemdir við ummæli sýningarstjóra Listasafns Íslands um skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart menningarmálum og við það að leiðarahöfundur Fréttablaðsins skuli skömmu síðar taka undir ummælin og samsinna þeim. Í grein aðstoðarmanns ráðherra er ummælunum mótmælt og þau hrakin með því að gera samanburð á framlögum ríkisins til tiltekinna menningarstofnana í tíð tveggja ríkisstjórna, á sex ára bili, þ.e. frá fjárlögum 2010 til fjárlaga yfirstandandi fjárlagaárs 2016.

Bandalag íslenskra listamanna hefur gegnum árin fylgst með framlögum til lista og menningar og átt um þau mál samtöl við stjórnvöld, bæði löggjafarvaldið á Alþingi og framkvæmdavaldið. Í þeim umsögnum sem BÍL hefur sent fjárlaganefnd Alþingis og í ráðgjöf til stjórnvalda eftir að fjárhagur ríkisins hrundi, hefur verið lögð áhersla á að viðmiðunarár alls samanburðar sé fjárlagaárið 2009, í ljósi þess að það voru síðustu marktæku fjárlög sem Alþingi samþykkti.
Vegna þessa er nauðsynlegt að gera athugasemd við þá ákvörðun aðstoðarmanns ráðherra að nota fjárlög 2010 sem viðmið í sínum samanburði, árið sem ríkissjóður var nánast gjaldþrota og stjórnvöld skáru niður framlög til allrar opinberrar starfsemi svo undan sveið. Það er almennt viðurkennt að listir og menning hafi orðið mjög harkalega úti í þeim niðurskurði og að hægast hafi gengið að bæta menningargeiranum áfallið af niðurskurðinum.

Það eru ýmsar aðferðir færar til að reikna samanburð af því tagi sem hér um ræðir, þ. á m. sú sem notuð er í grein aðstoðarmanns ráðherra, að bera saman framlög á verðgildi hvers árs en vísa til hækkunar á verðlagsforsendum fjárlaga á tímabilinu, sem var 25,5% á milli áranna 2010 og 2016. En ef viðmiðunarárið hefði verið 2009 hefði hækkunin orðið 31,7%, sem gefur allt aðra niðurstöðu.

Í útreikningum sem BÍL leggur til grundvallar sínum samanburði hefur viðmiðunarárið verið fjárlagaárið 2009 og tölurnar framreiknaðar með verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands. Þá lítur dæmið svona út (allar upph. í millj. kr.):
Þjóðleikhúsið 2009 719,8 – framreiknað 920,9 – 2016 982,6 – hækkun 6,7%
Sinfóníuhljómsveit Íslands 2009 534,8 – framreiknað 684,2 – 2016 929,2 – hækkun 35,8%
Kvikmyndasjóður 667,7 – framreiknað 854,2 – 2016 844,7 – lækkun 1,1%
Íslenska óperan 175,7 – framreiknað 224,8 – 2016 195,9 – lækkun 12,8%
Bókmenntasjóður 50 – framreiknað 63,9 – 2016 96,6 – hækkun 51,1%
Þjóðminjasafn 463,6 – framreiknað 593,1 – 2016 687,7 – hækkun 15,9%
Listasafn Íslands 165,4 – framreiknað 211,6 – 2016 211,5 – lækkun 0,1%

Varðandi Listasafn Íslands er nauðsynlegt að gera þá athugasemd að fjárlagaárið 2013 var fjárframlag Listasafns Sigurjóns Ólafssonar (tæpar 30 milljónir) sett undir fjárlagalið Listasafns Íslands, tölurnar milli áranna 2010 og 2016 eru því ekki sambærilegar, í útreikningnum hér að framan hefur framlagið til LSÓ verið undanskilið. Varðandi hækkað framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður að hafa í huga flutning sveitarinnar í Hörpu 2011 þar sem húsaleiga er margfalt stærri útgjaldaliður en áður var og varðandi Bókmenntasjóð er rétt að taka fram að 2013 var stofnuð Miðstöð íslenskra bókmennta sem hefur önnur og fjölbreyttari verkefni en bókmenntasjóður áður og er hún fjármögnuð af sama fjárlagalið.

Hagsmunasamtök og stofnanir í menningargeiranum hafa árum saman þrýst á um nákvæmari skráningu opinberra upplýsinga um listir og skapandi greinar. Því miður hefur ekki tekist að fylgja þróuninni í nágrannalöndum okkar eftir varðandi skráningu menn­ingar­tölfræði. Skoðanaskipti af því tagi sem hér fara fram eru til marks um þörfina á reglulegri miðlun slíkra útreikninga og samræmdri aðferðafræði.

BÍL á Fundi fólksins!

Bandalag íslenskra listamanna  tekur þátt í FUNDI FÓLKSINS 2. og 3. september 2016 með því að efna til fjögurra sjálfstæðra funda um málefni sem eru ofarlega á baugi í list- og hönnunargeiranum um þessar mundir, en að auki hefur BÍL aðkomu að fundum um málefni höfundarréttar sem samtök höfundarrétthafa gangast fyrir. Hér verður gerð nánari grein fyrir þessum fundum:

Föstudagur kl. 12:00

Kasettugjaldið – Framtíð höfundaréttar
Hvar: Salurinn (streymt verður frá fundinum)
Umsjón:  STEF, SFH, RSÍ, SÍK, MYNDSTEF og FJÖLÍS
Þátttakendur:  Fulltrúar allra þingflokka á Alþingi;  Björt Ólafsdóttir fyrir Bjarta framtíð, Katrín Jakobsdóttir fyrir VG, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fyrir Samfylkingu, Vilhjálmur Bjarnason fyrir Sjálfstæðisflokk, Guðrún Ásta Helgadóttir fyrir Pírata og Líneik Anna Sævarsdóttir fyrir Framsóknarflokk.
Fyrir hönd Stefs: Jakob Frímann Magnússon formaður STEFs, Helga Sigrún Harðardóttir framkvæmdastjóri Fjölís, Ragnar Th. Sigurðsson formaður Myndstefs, Ragnheiður Tryggvadóttir framkvæmdastjór RSÍ og Tómas Þorvaldsson lögmaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda – SÍK
Fundarstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL

Lýsing:  Verulegar breytingar í tækniumhverfi og aukið aðgengi að höfundaréttarvörðu efni hafa kallað á umræður um hvernig höfundarétturinn verður varinn í þessu nýja umhverfi. Í því sambandi hefur t.d. ekki verið breytt ákvæðum höfundalaga um eintakgerð til einkanota þrátt fyrir að eintakagerð eigi sér nú aðallega stað í snjallsímum og spjaldtölvum. Viðstöddum gefst kostur á að koma að spurningum til bæði stjórnmálamanna og annarra þátttakenda í pallborðsumræðum.

Föstudagur kl. 13:00 

Listamenn eru líka “aðilar vinnumarkaðarins“
Hvar: Alvar Aalto herbergið
Umsjón: BÍL – Bandalag íslensra listamanna
Þátttakendur:
Almar Guðmundsson frá Samtökum iðnaðarins,  Hörður Vilberg frá Samtökum atvinnulífsins, Ragnhildur Zoëga frá Rannís, Berglind Hallgrímsdóttir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Þórunn Sveinbjarnardóttir frá Bandalagi háskólamanna

Lýsing: Störfum í list- og menningargeiranum fjölgar hraðar en störfum í öðrum geirum atvinnulífsins. Sex milljónir Evrópubúa starfa við skapandi greinar eða tæp 3% vinnuaflsins. Listamenn og hönnuðir sinna 30% starfa innan menningargeirans og stór hluti afleiddra starfa byggir á verkum þeirra. En hvar standa listamenn í vinnumarkaðslegu tilliti? Eru þeir þátttakendur í samtali stjórnvalda og „aðila vinnumarkaðarins“ um kaup og kjör í landinu? Og er horft til þeirra í tengslum við rannsóknir, nýsköpun og frumkvöðlastarf?

 

Föstudagur kl. 14:00  

Hvar er menningarstefna stjórnmálaflokkanna?
Hvar: Alvar Aalto herbergið
Umsjón: BÍL – Bandalag íslenskra listamanna
Þátttakendur: Fulltrúar flestra þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis 2016
Fundarstjóri: Halla Margrét Jóhannesdóttir leikari og rithöfundur

Lýsing: Alþingi samþykkti menningarstefnu í fyrsta sinn 7. mars 2013. Flest sveitarfélög setja sér menningarstefnu og hefur Reykjavík rutt brautina þar sem borgaryfirvöld samþykktu fyrstu formlegu  menningarstefnuna 2001. Landshlutasamtök sveitarfélaga gera samning við ríkið um framlög til menningarmála á grundvelli menningarstefnu. En hvernig er háttað stefnumótun stjórnmálaflokkanna í menningarmálum? Hafa stjórnmálaflokkarnir, sem bjóða fram krafta sína og hugmyndir til að stjórna ríki og sveitarfélögum, sett sér menningarstefnu?

Laugardagur kl. 13:00

Sýnileiki lista í fjölmiðlum
Hvar: Umræðutjald I
Umsjón: SÍM f.h. BÍL
Þátttakendur: Fulltrúar fjölmiðlanna og
Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarmaður, gagnrýnandi og aðjúnkt við HÍ
Ásgerður Gunnarsdóttir frá Danshöfundafélagi Íslands
Aðalheiður Atladóttir formaður Arkitektafélags Íslands
Helga Óskarsdóttir, myndlistarkona og ritstjóri Artzine
Fundarstjóri: Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður SÍM

Lýsing: Listir og fjölmiðlar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta hvað varðar umfjöllun um listir og menningu. Þó einkennist menningarumfjöllun í íslenskum fjölmiðlum örðu fremur af þörf menningarstofnana og listamanna til að auglýsa list- og menningartengda viðburði, en síður af metnaði fjölmiðlanna til að bjóða upp á faglega umfjöllun um mál tengd listum og menningu almennt. Jafnt innan listageirans sem fjölmiðlageirans býr löngun til að auka og dýpka faglega umræðu um listir og menningu. Hvernig geta listamenn og fjölmiðlamenn tekið höndum saman í baráttunni fyrir dýpri umfjöllun og auknum sýnileika lista í fjölmiðlum.

Laugardagur kl. 14:00

Lifað af listinni
Hvar: Salur
Umsjón: STEF, SFH, RSÍ, SÍK, MYNDSTEF og FJÖLÍS
Þátttakendur:  Gunnar Helgason, Felix Bergsson ásamt fulltrúum mismunandi listgreina, m.a. Sigtryggi Baldurssyni tónhöfundi, flytjanda og framkvæmdastjóra ÚTÓN, Kristni Þórðarsyni kvikmyndaframleiðanda og formanni SÍK, Kristínu Helgu Gunnarsdóttur rithöfundi og formanni RSÍ og Ólöfu Norðdal myndlistarmanni
Fundarstjóri:  Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs

Lýsing:  Gunnar og Felix sýna beitta og skemmtilega leikþætti um líf listamannsins.  Þeir munu einnig bregða sér í hlutverk spyrla og spyrja fulltrúa mismunandi listgreina um hvernig þeir lifi af listinni og hver séu þeirra forgangsmál þegar kemur að höfundarétti. Þarna gefst öllum sem áhuga hafa á að fá innsýn inn í líf rithöfundarins, kvikmyndagerðarmannsins og tónhöfundarins og ljósmyndarans og hvernig höfundarétturinn hefur áhrif á störf þeirra.   

Laugardagur kl. 15:00

Samspil lista og ferðaþjónustu
Hvar: Umræðutjald I
Umsjón: AÍ, FÍL og DFÍ f.h. BÍL
Þátttakendur: Karen María Jónsdóttir upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík
Hannes Pálsson frá Pink Iceland
Kari Viðar frá Frystiklefanum Rifi
Kristinn Vilbergsson forstjóri Kex Hostel
Fundarstjóri: Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar

Lýsing: Ísland verður sífellt vinsælli áfangastaður ferðamanna enda hefur gríðarlegur kraftur verið settur í markaðssetningu landsins sem ferðamannalands. En hvað er það í raun sem dregur ferðafólk til landsins annað en óspillt og spennandi íslensk náttúra?  Kannanir sýna að þar spila saga og menning þjóðarinnar mikilvægt hlutverk. Kveikjan að Íslandsferðinni kemur oftar en ekki til af því að fólk sér íslenska kvikmynd, les íslenskar bókmenntir eða dáist að íslenskri tónlist. En hvernig stöndum við okkur í því að sýna erlendum gestum okkar það sem hæst ber í listum og menningu þegar hingað er komið?

Samráðsfundur BÍL og menningarmálaráðherra

Minnisblað fyrir árlegan samráðsfund stjórnar BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra 26.04.16

Punktarnir eru að mestu unnir upp úr fundargerðum síðustu samráðsfunda og sóknaráætlun BÍL fyrir skapandi greinar. Þeir eru settir fram í formi spurninga, en jafnframt vísað til ítarefnis til frekari skýringa. Í ljósi þess hversu umfangsmikil málefni tengd listmenntun og barnamenningu hafa verið á fyrri samráðsfundum, hefur stjórn BÍL ákveðið að óska eftir sérstökum fundi um þau mál.

Í ljósi breyttra laga um opinber fjármál[1], telur BÍL tilefni til að ráðuneytið leiti eftir ráðgjöf BÍL varðandi þá þróun sem vænta má í list- og menningartengdri starfsemi, en spyr jafnframt hvers sé að vænta varðandi 3ja – 5 ára áætlun í ríkisfjármálum m.t.t. fjárframlaga til lista og menningar?

Hvað hefur áunnist varðandi skráningu tölulegra upplýsinga í list- og menningargeiranum?[2] Hverjar voru niðurstöður málþingsins Menningarlandið 2015 og til hvaða aðgerða var gripið að málþinginu loknu til að bæta skráningu og umsýslu talnagagna?

Nú liggur fyrir fyrsta alþjóðlega kortlagningin á skapandi greinum í heiminum[3]. Hagræn áhrif greinanna er meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni, en BÍL hefur lengi óskað eftir áætlun um samanburð skapandi greina hér á landi og í nágrannalöndum okkar. BÍL þætti mikils virði að fá samtal við ráðuneytið um innihald skýrslunnar og spyr hvort hugsanlegt sé að ráðuneytið efni til málþings í samtarfi við BÍL um innihald hennar og niðurstöður?

Síðan 2012 hefur BÍL kallað eftir því að ráðherra mæli svo fyrir að á hverjum tíma sé í gildi áætlun um eflingu launasjóða listamanna, t.d. til þriggja ára í senn. Ekki hefur verið brugðist við þessu ákalli og því ástæða til að árétta það hér. Hvað þarf til að slík áætlun verði gerð?

Í málefnum höfundaréttar hefur náðst mikilvægur áfangi með samþykkt þriggja lagafrumvarpa á því málasviði á yfirstandandi þingi. Enn skortir þó á úrbætur sem BÍL hefur kallað eftir og eru tilgreindar í opinberri menningarstefnu (kafli VI, tl. 5)[4]. BÍL telur að stjórnvöldum beri að verja þennan eignarrétt höfunda, ella verði gengið úr skugga um hvort ríkið kunni að hafa bakað sér skaðabótaábyrgð. Í því sambandi spyr BÍL um áform ráðherra varðandi frumvarp til laga um eintakagerð til einkanota, sem hefur verið tilbúið til framlagningar í langan tíma?

Í sjötta kafla hinnar opinberu menningarstefnu er fjallað um stafræna menningu og mikilvægi þess að menningararfurinn verði gerður aðgengilegur í stafrænu formi. Óskað er upplýsinga um hvar þessi áform eru stödd og hvað líði samningum við höfundarétthafa um slíkan aðgang á öllum sviðum menningararfs?

Á nýafstöðnu málþingi BÍL o.fl. um höfundarétt komu fram upplýsingar sem varða jákvæðar athafnaskyldur ríkisins um innheimtu gjalds af höfundavörðu efni, sem leigt er út á  bókasöfnum. BÍL fýsir að vita hvort ráðuneytið hyggist beita sér fyrir því að höfundagreiðslur af tónlist og kvikmyndum, sem leigðar eru út á bókasöfnum, skili sér með sama hætti og höfundagreiðslur til rithöfunda vegna útlána bóka?

BÍL hefur sett fram hugmyndir um opnara samráð um markaðssetningu Íslands sem ákjósanlegs áfangastaðar ferðamanna, þar sem lista- og menningargeirinn hafi skilgreint hlutverk (sjá punkt 2 í sóknaráætlun BÍL). Hér er um þverfaglegt verkefni a.m.k. þriggja ráðuneyta að ræða[5] og eftirsóknarvert að heyra um aðkomu og áhrif mennta- og menningarmálaráðuneytis á þá stefnu sem starfað er eftir eða er í mótun.

Ferðamálastefna til 2020 gerir ráð fyrir að fimm ráðherrar fari með skilgreint hlutverk[6] við innleiðingu hennar, mennta- og menningarmálaráðherra er ekki einn þeirra.  BÍL telur að list- og menningargeirinn hafi mikilvægu hlutverki að gegna varðandi mótun og framkvæmd ferðamálastefnu innanlands og óskar liðsinnis mennta- og menningarmálaráðuneytis um skýrari aðkomu menningarstofnana og listamanna að Stjórnstöð ferðamála og framkvæmd stefnunnar.

Menningarsamningar við landshlutasamtök sveitarfélaga hafa verið innlimaðir í uppbyggingarsamninga sem Byggðastofnun annast undir hatti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. BÍL gagnrýndi þessi áform á sínum tíma og nú þegar breytingarnar hafa gengið í garð virðast verstu spár BÍL vera að ganga eftir, t.d. er búið að breyta starfssviði menningarfulltrúa landshlutanna og þeim jafnvel verið sagt upp. BÍL spyr hvort ráðuneytið sé tilbúið að beita sér í þágu eflingar list- og menningartengdrar starfsemi á landsbyggðinni með því að endurheimta yfirráð yfir menningarsamningunum?

Miðstöðvar lista og hönnunar gegna lykilhlutverki í umsýslu lista og skapandi greina. BÍL hefur lagt áherslu á mikilvægi þeirra með því að óska eftir auknum stuðningi við þær á fjárlögum, án mikils árangurs. BÍL telur nauðsynlegt að ráðuneytið beiti sér fyrir bættum hag þessara miðstöðva, í samræmi við samþykkta menningarstefnu frá 2013, og spyr hvar slík áform séu á vegi stödd?

Gegnum tíðina hefur BÍL gagnrýnt handahófskenndan stuðning fjárlaganefndar eða ríkisstjórnar við list- og menningartengd verkefni og hvatt til þess að allur stuðningur hins opinbera við einstök verkefni fari gegnum formlegt úthlutunarferli með faglegum úthlutunarnefndum. Í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur átt það til að úthluta fjármunum framhjá því kerfi sem er við líði, vill BÍL árétta nauðsyn þess að hækka fjárframlög til verkefnatengdra sjóða á menningarsviðinu, svo jafnræðis og fagmennsku sé gætt varðandi framlög til verkefna.

BÍL hefur kallað eftir tillögum um samræmda stjórnsýslu lista og skapandi greina. Í því skyni hefur BÍL lagt til að leitað verði til stjórnsýslufræðinga og annarra sérfræðinga innan háskóla-samfélagsins og mótuð stefna um stjórnsýslu greinanna. Telur ráðherra koma til greina að setja á laggirnar starfshóp eða annars konar samstarf í þessu skyni?

Aðildarfélög BÍL fara með samningsrétt fyrir félagsmenn sína en á seinni árum hefur borið á tilhneigingu samningsaðila okkar, sem í flestum tilfellum eru stofnanir reknar fyrir opinbert fé, til að útvista verkefnum og fela þau aðilum sem telja sig ekki bundna af gildandi samningum, ellegar að stofnanirnar færa launagreiðslur yfir í verktakagreiðslur án þess að greiða eðlilegt álag vegna launatengdra gjalda. Stjórn BÍL óskar viðbragða af hálfu ráðherra við þeirri sjálfsögðu kröfu listamanna að fyrir verkefni, sem stofnað er til af menningar- og listastofnunum sem reknar eru að stærstum hluta fyrir opinbert fé, sé greitt samkvæmt þeim lágmarkssamningum sem í gildi eru um viðkomandi störf.

[1] Lög um opinber fjármál http://www.althingi.is/altext/145/s/0675.html

[2] Sóknaráætlun BÍL http://bil.is/soknaraaetlun-skapandi-greina-samthykkt-a-adalfundi-bil

[3] Cultural times http://www.ey.com/Publication/vwLUAssets/ey-cultural-times-2015/$FILE/ey-cultural-times-2015.pdf

[4] Menningarstefna https://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/7499

[5] Þau sem skipa stjórnarmenn í stjórn Íslandstofu (Utn, anr og mmrn)

[6] Ferðamálastefna 2015 – 2020 http://stjornstodin.is/stjornstod-ferdamala

RSÍ Ársskýrsla 2015

Rithöfundasamband Íslands telur vel á fimmta hundrað félagsmenn, ritlistamenn sem skrifa allar tegundir ritverka fyrir alla miðla. Sambandið veitir upplýsingum til félagsmanna um réttindamál á sviði höfunda- og útgáfuréttar auk þess að sjá um endurnýjun og breytingar á gildandi samningum um notkun á verkum íslenskra rithöfunda. Hagsmunagæsla RSÍ fyrir höfunda er víðtæk og þá fer sambandið einnig með umsýslu og úthlutun á greiðslum frá Fjölís, IHM, Hljóðbókasafni og Námsgagnastofnun. Skrifstofa RSÍ sér líka um úthlutun á greiðslum úr Bókasafnssjóði höfunda. RSÍ rekur Höfundamiðstöð sem er innheimtumiðstöð höfunda og þá er verkefnið Skáld í skólum rekið á vegum RSÍ, en það er víðtæk og metnaðarfull bókmenntadagskrá höfunda fyrir öll grunnskólastig á landsvísu.

Formaður RSÍ er Kristín Helga Gunnarsdóttir og hefur hún sinnt því embætti í tvö ár nú á vordögum 2016. Í stjórn RSÍ sitja: Jón Kalman Stefánsson, varaformaður, Hallgrímur Helgason, Andri Snær Magnason, Vilborg Davíðsdóttir og varamennirnir Gauti Kristmannsson og Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Framkvæmdastjóri RSÍ er Ragnheiður Tryggvadóttir. Auk hennar starfa verkefnisstjórar á vegum sambandsins.

Eitt af stærri verkefnum liðins starfsárs hefur verið baráttan fyrir hækkun Bókasafnssjóðs höfunda. Bókasafnssjóður var fyrirvaralaust skertur um nær helming á milli áranna 2013 og 2014, fór þá úr 42,6 milljónum króna í 23 milljónir króna. Hann náði fyrri stærð um áramótin 2015 og eftir þrotlaus samtöl og fundahöld með hlutaðeigandi hefur tekist að koma sjóðnum upp í ríflega 70 milljónir á yfirstandandi fjárlagaári. Það verður að teljast stór áfangasigur fyrir höfunda, en markmiðið er þó að þessi sjóður nái 300 milljónum króna á núgildandi verðlagi, enda um að ræða afnot almennings af sköpunarverki höfunda.

Stjórn RSÍ hefur líka unnið að því í samvinnu við ráðuneyti að tryggja þessum sjóði lagalegt umhverfi svo hann komist út úr þeim aðstæðum að stækka og minnka eftir geðþótta stjórnmálamanna á milli ára. Sambærilegir sjóðir nágrannalandanna eru byggðir á sameiginlegum samningum höfunda og stjórnvalda og er það markmið okkar að sjóðurinn fái slíkt umhverfi. Samstarfshópur RSÍ og ráðuneytis hafa komist að viðunandi niðurstöðu og unnið er að tæknilegri úrlausn.

Þá stóð RSÍ á liðnu ári, ásamt útgefendum og bókasöfnum, að rafbókaþingi, og kallaði þar saman alla þá hagsmunaaðila sem standa eiga vörð um höfundarétt og miðlun á rafrænu formi. Þetta samstarf lofar góðu og ákveðið var að efna reglulega til slíkra þinga og kalla stjórnvöld til samstarfs.

RSÍ lét sig varða um afdrif Gröndalshúss í Grjótaþorpi á liðnu ári. Þau gleðitíðindi bárust í desember að húsið verður áfram í eigu Reykjavíkurborgar og starfrækt í þágu bókmenntanna. Reykjavík – Bókmenntaborg UNESCO mun annast rekstur og gestaíbúð fyrir skáld og fræðimenn verður starfrækt í kjallara hússins.

Árlegt upphlaup vegna listamannalauna er nýafstaðið. Það var með harkalegasta móti að þessu sinni og veist að æru og heiðri einstaka höfunda á opinberum vettvangi. Rithöfundar bera að jafnaði hita og þunga af þessari árlegu umræðu, sem er í senn ígrunduð og yfirveguð, ofsafengin og illa upplýst. RSÍ hefur í einu og öllu farið að lögum frá ráðuneyti varðandi tillögur í úthlutunarnefndir en í kjölfar ábendinga kallaði stjórn RSÍ strax eftir aðstoð frá aðildarfélögum BÍL við að bæta verkferla og ná fram armslengd frá stjórnum. Önnur aðildarfélög BÍL eru enda í svipaðri aðstöðu og RSÍ í þessum efnum. Forseti BÍL brást vasklega við kalli frá RSÍ um að mynda starfshóp um bætt verklag og samhæfðar vinnureglur fyrir aðildarfélögin.

Alþjóðlegt samstarf Rithöfundasambands Íslands er talsvert og er sambandið í nánu samstarfi við systurfélög á Norðurlöndum og þátttakandi í Evrópusamstarfi. Rithöfundasambandið á aðild að Norræna rithöfunda- og þýðendaráðinu, Evrópska rithöfundaráðinu og starfar með Baltneska rithöfundaráðinu. Auk þess sendir sambandið fulltrúa sína til þátttöku á námskeiðum og ráðstefnum víðsvegar um heim, aðallega þó innan Evrópu. Rithöfundasamband Íslands hefur aðsetur í eigin húsnæði, Gunnarshúsi, að Dyngjuvegi 8, Reykjavík.  Þar er skrifstofa sambandsins ásamt skáldaskjóli, og íbúð á neðri hæð sem ætluð er erlendum rithöfundum, þýðendum og handritshöfundum sem sækja Ísland heim til að vinna að tímabundnum verkefnum. Íbúðin er mikið notuð af erlendum kollegum. Auk þess er boðið upp á vinnustofu höfunda í Gunnarshúsi, en þar er vinnuaðstaða fyrir fjóra til fimm listamenn til að sinna verkum sínum.

RSÍ á og rekur tvö hús á landsbyggðinni, Norðurbæ á Eyrarbakka og Sléttaleiti í Suðursveit. Þar er einnig góð vinnuaðstaða fyrir félagsmenn ásamt því að félagsmenn hafa aðgang að annarri aðstöðu hérlendis og erlendis í gegnum Rithöfundasambandið og systursamtök þess.

FLÍ ársskýrsla 2015

Innra starf FLÍ – Stjórn
Í stjórn FLÍ á starfsárinu sátu Sara Martí Guðmundsdóttir, formaður, Kolbrún Halldórsdóttir, gjaldkeri og Una Þorleifsdóttir, ritari. Varamenn í stjórn voru Páll Baldvin Baldvinsson, Tryggvi Gunnarsson og Agnar Jón Egilsson.
Stjórn hélt alls 12 fundi á árinu í tengslum við daglega umsýslu félagsins. Þá voru haldnir tveir félagsfundir, annar til að fjalla um og samþykkja nýja kjarasamninga FLÍ við Þjóðleikhúsið og hinn til að fjalla um og samþykkja nýja kjarasamninga félagsins við Borgarleikhúsið.

Árið í heild-  

 • Samningar við Þjóðleikhúsið endurnýjaðir.
 • Samningar við Borgarleikhúsið endurnýjaðir.
 • Ný og skilvirkari heimasíða leit dagsins ljós.
 • Nú geta félagsmenn gerst meðlimir í BHM á mjög einfaldan hátt í gegnum nýja heimasíðu félagsins.
 • Í vinnslu eru nýjar verklagsreglur við Borgarleikhúsið vegna undirbúningsvinnu leikstjóra.
 • Undirbúningur fyrir stofnun Kynningarmiðstöðvar íslenskra sviðslista.
 • Kannaður vilji fagfélaga í sviðslistum á auknu samstarfi félaganna.
 • Breytingar á lögum félagsins (félagsgjöld).
 • Utanumhald um fulltrúa FLÍ í nefndum, ráðum og stjórnum utan félagsins.
 • Tókum þátt að stýra árlegum leikaraprufum FÍL, FLÍ og leikhúsanna.
 • Umsóknir nýrra félaga.
 • Regluleg samskipti við félaga FLÍ með t-pósti.

Fyrir utan að sinna daglegum rekstri félagsins og vera til staðar fyrir þá leikstjóra sem hafa þurft að leita til félagsins á árinu, fólst vinnan á árinu að mestu í endurnýjun samninga við Þjóðleikhús og Borgarleikhús, uppfærslu félagatalsins, gerð nýrrar og skilvirkari heimasíðu, frumvkæði að því að koma Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista á laggirnar og vinna að bættri framtíð félagsins, með því að hefja undirbúningsvinnu sem gæti mögulega leitt af sér sameiningu fagfélaga í sviðslistum í náinni framtíð.

Þá var talsvert unnið í fjármálum félgasins í samstarfi við endurskoðunarskirfstofu félagsins og BHM, keyptur aðgangur að hugbúnaðarkerfi (dk-hugbúnaður) sem auðveldar félaginu að fylgjast með stöðunni gagnvart sjóðum BHM og einfaldar ársuppgjör. Eitt af verkefnum síðasta árs var að gera það eins einfalt og hægt væri fyrir leikstjóra að verða hluti af BHM og með nýrri heimasíðu er þetta orðið mjög þægilegt, einfalt og skilvirkt.

Nokkrir leikstjórar leituðu til félagsins vegna skorts á verklagsreglum þegar kemur að samningsferli við Borgarleikhúsið. Félagið lagði til að gerðar yrðu skýrar verklagsreglur sem Borgarleikhússtjóri tók mjög vel í. Nú eru þessar verklagsreglur í vinnslu. Voru drög að reglunum send til kynningar Ara Matthíassyni þjóðleikhússtjóra að hans ósk, enda eðlilegt að sambærilegar reglur verði í gildi við alla samningsaðila FLÍ.

Talsverðar breytingar eru að verða á starfsemi Sviðslistasambands Íslands og tók FLÍ þátt í að vinna að þeim breytingum. Áfram hefur verið unnið að framgangi frumvarps til laga um sviðslistir, sem enn á eftir að vinna frekar og einnig hefur verið unnið að nýjum  reglum um Grímuna. Þá var ákveðið að skipa dómnefnd sem færi á allar sýningar og fengi greitt fyrir. Þessi dómnefnd myndi ekki vera “leynileg” og hún yrði valin af fagfélögunum.

Loks má nefna starf við endurnýjun Félags um Listaháskóla Íslands, en á árinu tók til starfa nýr samstarfsvettvangur listgreinanna og skólans, Bakland LHÍ, og á  FLÍ aðild að Baklandinu fyrir hönd leikstjóra. Þá mætti stjórnarmaður FLÍ á  opinn dag sviðslistanemenda LHÍ og gerði grein fyrir starfi og mikilvægi félagsins.

Nýir félagar á árinu – Einn félagi bættist í félagahópinn árinu, Halla Margrét Jóhannesdóttir.

Kjaramál  –  Samningar við fjármálaráðuneytið um kjör leikstjóra við Þjóðleikhúsið voru framlengdir með samkomulagi  til febrúarloka 2015 en ekki var gert nýtt samkomulag um kaupliði fyrr en í nóvember. Hækkuðu taxtar um 9,65% frá 1. mars 2015. Skyldu þeir svo hækka um 6,5% 1. júní 2016, um 4,5% 1. júní 2018. 1. febrúar 2019 kemur eingreiðsla, 70.000, til þeirra leikstjóra sem eru í fullu starfi í desember 2018. Þá inniber samkomulagið hlutfall fyrir leikstjóra af persónuuppbót og orlofsuppbót.

Samninganefnd félagsins undirritaði samninga við RÚV hjá sáttasemjara 26. sept. 2014 og samþykkti félagsfundur, þá hafa þeir legið á vef félagsins síðan. Ekki tókst að ljúka gerð samkomulags um verk sem RÚV á í safni sínu, þar sem RÚV átti ekki skrá þeirra í gagnagrunni en gerð bókun um að stofnuninni væri skylt að leggja slíka skrá fram. Næstu misseri var margítrekað skriflega að Ríkisútvarpið yrði að standa við skil á fullnægjandi gögnum um verk leikstjóra í fórum útvarpsins og síðast við ráðningu Þorgerðar E. Sigurðardóttur í starf forstöðumanns útvarpsleikhússins. Brást hún snarlega við en torvelt reyndist að samræma skrár, bæði úr tölvukerfum og af eldri skrám. Barst skrá ekki frá safnadeild útvarpsins fyrr en 13. apríl sl. á pappír og var ekki mögulegt að fá hana í stafrænu formi. Við skoðun reyndist hún meingölluð: þar vantaði erlent heiti verka, nafn höfundar, útsendingardag, endurtekningar, nöfn leikstjóra, þýðenda, höfunda og leikara. Skráin tók einungis til þeirra verka sem nú finnast í safni RUV en ekki allra útvarpsleikrita sem hafa verið flutt frá 1930 til 2016 en talið er frá 1940. Fullkomin skrá er forsenda þess að hægt sé að hefja viðræður við RUV, ásamt FÍL, Rithöfundasambandi og Leikskáldafélagi, um ný viðmið sem geti leitt til þess að hlutur leiklistar á dagskrá og í vefmiðlum RUV verði meiri.

Viðræður hófust við stjórn Leikfélags Reykjavíkur þann 7. desember 2015 um hækkun á kaupliðum kjarasamnings. Á þeim fundi kom fram að framkvæmdastjóri LR hafði reiknað hækkun á taxta frá mars 2015, sem fjármálaráðuneytið hafði uppreiknað á laun frá 1. nóvember 2014. Samningaviðræður við stjórn LR voru erfiðar og stóð stjórn LR staðföst á því að engar hækkanir yrðu á samningi leikstjóra á borð við þær sem fjármálaráðuneyti hafði samþykkt. Var ekki boðað til framhaldsfundar af hálfu stjórnar LR að tillögu formanns hennar, Þorgerðar Gunnarsdóttur lögfræðings.

Þann 4. febrúar var stjórninni sent tilboð sem gerði ráð fyrir að Leikfélag Reykjavíkur greiddi sömu laun og Fjármálaráðuneytið samþykkti. Þess var krafist að LR greiddi ábót á samninga frá 1. mars sem næmi hækkun. Var gengist við þeim kröfum og samningur undirritaður þann 25. febrúar. Gerir hann ráð fyrir sömu hækkun og fyrri samningurinn við Fjármálaráðuneytið og Þjóðleikhús en þrem mánuðum síðar: 6,5% þann 1. september í haust, 4,5% hækkun 1. september 2017, 3% hækkun 1. september 2018. Breyting var gerð á skilgreiningu verkefna í 1.2.2.og fellt burt orðið “Venjuleg”

Í lok árs 2015 og upphafi árs 2016 var ákveðið að vara félagsmenn skriflega við ítrekuðum vanefndum af hálfu forráðamanna Leikfélags Reykjavíkur sem kölluðu félaga til vinnu en vildu síðan ekki greiða þeim laun þegar hætt var við verkefnin. Að því gerðu óskaði leikhússtjóri LR, Kristín Eysteinsdóttir; eftir fundi og voru henni send drög að verklagsreglum sem getið er um hér að ofan. Standa vonir til að sú bókun við kjarasamning verði afgreidd og samþykkt fyrir vorið

Þá hefur samninganefnd lýst nauðsyn þess við stóru leikhúsin að gerð verði starfslýsing aðstoðarleikstjóra, samin launatafla fyrir lausráðna og fastráðna starfsmenn sem sinni því starfi, rétt eins aðstoðarmanns leikstjóra og dramaturgs. Hafa stjórnendur þeirra lýst vilja sínum að skoða þau drög með jákvæðum hug.

Ljóst er að það er enn þá langhlaup framundan í samningamálum FLÍ. Þeir samningar sem unnið var að á liðnu starfsári eru varnarsamningar og krefjast þess að þeir leikstjórar sem sóst er eftir haldi fast fram þeirri staðreynd að taxtar samninganna eru lágmarkstaxtar. Þá er nauðsynlegt að hvetja leikstjóra til að uppfæra ferilsskrár sínar jafnharðan og gæta vel að réttindum sínum. Enn eru brögð að því að félagsmenn geri samninga í nafni einkafyrirtækja, eða sem verktakar á eigin kennitölu  og mikilvægt að í slíkum tilfellum gleymist ekki að reikna 40% álag vegna verktöku eða að greiða félagsgjald til FLÍ af reiknuðu endurgjaldi.

Samninganefnd FLÍ skipa nú:

Páll Baldvin Baldvinsson formaður,
Sara Marti Guðmundsdóttir
Tryggvi Gunnarsson

Menningarsjóður – Tilgangur sjóðsins er að stuðla að þróun íslenskrar leiklistar með því að veita leikstjórum styrki til  a) framhaldsnáms, b) rannsóknarstarfa, c) ferðalaga erlendis til að kynna sér það sem efla mætti listþroska þeirra

Menningarsjóður FLÍ úthlutanir 2015  – Stjórn menningarsjóðs FLÍ, er skipuð Kolbrúnu Halldórsdóttur gjaldkera stjórnar FLÍ, Rúnari Guðbrandssyni kjörinn á aðalfundi FLÍ 2015 og Ara Matthíassyni þjóðleikhússtjóra, sem tilnefndur er af stjórn SSÍ. Samtals var á árinu 2015 úthlutað kr. 400.000.- til fimm félaga, þeirra Steinunnar Knútsdóttur, Sveins Einarssonar, Elfars Loga Hannessonar, Stefáns Jónssonar og Hörpu Arnardóttur. Tilkynnt verður um fyrri úthlutun 2016 á aðalfundi FLÍ 2016.

Menningarsjóður 2015-2016
Gjaldkeri FLÍ: Kolbrún Halldórsdóttir
Fulltrúi Leiklistarsambands Íslands: Ari Matthíasson
Fulltrúi FLÍ:  Rúnar Guðbrandsson


Bandalag íslenskra listamanna
Formaður FLÍ er fulltrúi leikstjóra í stjórn BÍL. Stjórn BÍL fundar að jafnaði einu sinni í mánuði og sinnir heildarhagsmunum listamanna. Helstu baráttumál BÍL á árinu voru:

–  að koma á framfæri við stjórnvöld Sóknaráætlun fyrir listir og skapandi greinar;
–  baráttan fyrir skráningu tölulegra upplýsinga um listir og skapandi greinar;
–  efling launasjóða listamanna, með áherslu á nýja þriggja ára áætlun um fjölgun mánaðarlauna og hækkun mánaðargreiðslu;
–  listmenntun á öllum skólastigum, ekki síst efling Listaháskóla Íslands og baráttan fyrir verkefninu “List fyrir alla” (áður nefnt Menningarbakpokinn);
–  samstarf við heildarsamtök listamanna á Norðurlöndunum um sameiginleg málefni;
–  endurbætur lagaumhverfis listgreinanna, ekki síst varðandi löggjöf á vettvangi höfundarréttar, í því skyni hélt BÍL nýverið málþing um höfundarrétt í samstarfi við höfundarréttarsamtökin;
–  fjölgun atvinnutækifæra listamanna og þeirra sem starfa innan skapandi greina, með áherslu á landsbyggðina og menningarsamninga landshlutasamtaka sveitarfélaga, auk baráttu fyrir því að samningarnir verði færðir frá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og aftur undir ráðuneyti menningarmála;
– samstarf við Reykjavíkurborg undir hatti menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, m.a. vinna faghóps við  tillögur að styrkveitingum til list- og menningartengdra verkefna;
-auk umsagna um lagafrumvörp til Alþingis, þar vegur nú sem fyrr þyngst umsögn BÍL um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Fulltrúi FLÍ í stjórn BÍL 2015-16
Aðalmaður: Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður:  Una Þorleifsdóttir

Fulltrúaráð IHM
Aðal tilgangur IHM er að annast innheimtu gjalda af tækjum, diskum, plötum og öðrum hlutumsem henta til hliðrænnar eða stafrænnar upptöku.

Þau tíðindi urðu á Alþingi þann 16. febrúar 2016 að öll þrjú frumvörpin um höfundarrétt, sem voru komin fram, voru samþykkt sem lög frá Alþingi. Þessi mál varða samningskvaðaleyfi, munaðarlaus verk og lengdan verndartíma hljóðrita.

Þetta eru að sjálfsögðu góðar fréttir en ekki er baráttan unnin þar sem mikilvægasta frumvarpið, um eintakagerð til einkanota, hefur enn ekki verið lagt fram á þinginu. Meðan ekki fæst fram breyting á þeim gjöldum sem lögð eru á tæki og tól sem henta til eintakagerðar til einkanota, halda tekjur höfunda og flytjenda áfram að dragast saman, en innheimta IHM-gjalda hefur dregist umtalsvert saman á síðustu árum.Þær tekjur sem FLÍ fær úthlutað úr sjóði IHM renna í Menningarsjóð FLÍ og voru á árinu komnar niður í 100.000.- krónur.

Aðilar að IHM eru STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar), SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), RSÍ (Rithöfundasamband Íslands), Hagþenkir, (Félag höfunda fræðirita og kennslugagna), (Blaðamannafélag Íslands), SKL (Samtök kvikmyndaleikstjóra),  F-SÍK (Framleiðendafélagið – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda), FÍL (Félag íslenskra leikara), FK (Félag kvikmyndagerðamanna), Myndstef og FLÍ (Félag leikstjóra á Íslandi).

Aðalfundur kýs einn  aðalmann og einn varamann í fulltrúaráð IHM. Kjörtímabil þeirra er í eitt ár.

Fulltrúar FLÍ í fulltrúarráði IHM 2015-2016
Aðalmaður: Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður: Kolbrún Halldórsdóttir

Fulltrúaráð Listahátíðar  –
Formaður hefur setið í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík. Stjórn FLÍ hefur beitt sér fyrir því á vettvangi fulltrúaráðsins að hlutverk Listahátíðar í Reykjavík verði endurskoðað og það greint hvort þróunin í hátíðarhaldi innan borgarinnar kalli á breytingar á því fyrirkomulagi sem Listahátíð hefur verið rekin eftir.

Á ársfundi fulltrúaráðsins 8. október 2014 lagði formaður FLÍ fram tillögu um starfshóp sem fengi það hlutverk að skoða stöðu Listahátíðar og framtíðarhorfur. Tillagan mælti fyrir um að hópurinn hefði eftifarandi atriði til hliðsjónar við vinnu sína:

 • Fyrir liggur að fjárhagsstaða hátíðarinnar er sveiflukennd og ótrygg.
 • Listahátíð þarf að keppa um fjármagn við hinar nýju hátíðir, sem sækja stuðning til sömu aðila og Listahátíð.
 • Sérstaða hátíðarinnar er orðin óljósari en áður, með tilkomu nýrra, sérhæfðra hátíða í borginni.
 • Listafólk hefur gagnrýnt launastefnu Listahátíðar og telur að hún búi innlendum listamönnum önnur kjör en erlendum.
 • Hátíðin hefur glímt við sveiflur í starfsmannahaldi, sem draga úr krafti starfseminnar.
 • Starfshópurinn  skal leggja mat á ofangreinda þætti og geri tillögur til stjórnar um úrbætur. 

Fulltrúaráðið samþykkti tillöguna og fól mennta- og menningarmálaráðherra stjórn Listahátíðar að skipa starfshópinn. Á fulltrúaráðsfundi 2015 kom svo í ljós að stjórninni hafði láðst að skipa hópinn með þeim hætti sem tillagan gerði ráð fyrir. Þegar nýr stjórnarformaður tók til starfa í stjórn Listahátíðar haustið 2015, var ráðist í það að koma hópnum á laggirnar og hefur hann fundað reglulega frá í janúar 2016. Fulltrúar í hópnum eru auk formanns stjórnar Listahátíðar Þórunn Sigurðardóttir, Svanhildur Konráðsdóttir frá menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar, Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL og Margrét Norðdal varaformaður stjórnar Listahátíðar, sem er ritari hópsins.

Aðalfundur kýs einn aðalmann og einn varamann í fulltrúaráð Listahátíðar. Kjörtímabil þeirra er í eitt ár.

Fulltrúar FLÍ í fulltrúaráði Listahátíðar 2015-2016
Aðalmaður: Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður: Una Þorleifsdóttir

Þjóðleikhúsráð  –
Þjóðleikhúsráð fundaði með u.þ.b. mánaðar millibili á s.l. leikári. Framan af voru skýrslur af rekstar- og leikhússtjórn á hendi leikhússtjóra þar sem skipuritsbreytingar hafa átt sér stað og staða rekstarstjórnunarhluta hússins er í endurskilgreiningu með aukinni aðkomu leikhússtjóra.

Aðalfundur FLÍ kýs einn aðalmann og einn varamann í Þjóðleikhúsráð. Kjörtímabil þeirra er í 3 ár. Á kjörtímabili fulltrúa í þjóðleikhúsráði hafa orðið breytingar á fulltrúum á starfsárinu 2015-16.

Agnar Jón Egilsson var aðalfulltrúi og Una Þorleifsdóttir varafulltrúi fram að sumarfríi ráðsins 2015 en þá var beðið eftir að mennamálaráðherra skipaði nýja fulltrúa FLÍ í ráðið út frá tilnefningum félagsins. Skipun menntamálaráðherra dróst á langinn og þar af leiðandi einnig seta fyrrnefndra fulltrúa FLÍ í ráðinu. Sara Martí  formaður FLÍ tók svo við sem aðalfulltrúi FLÍ í þjóðleikhúsráði þegar ráðherra að lokum skipaði nýtt ráð. Páll Baldvin Baldvinsson var þá skipaður varafulltrúi. Nýr fulltrúi FLÍ hefur aðeins setið tvo fundi þar sem tekin voru fyrir öryggismál hússins eftir stórslys sem einn leikari hússins varð fyrir í febrúar sl.

Fulltrúar FLÍ í Þjóðleikhúsráði 2015-2016
Aðalmaður: Agnar Jón Egilsson/ Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður: Páll Baldvin Baldvinsson

Sviðslistasamband Íslands –
Sviðslistasamband Íslands  er sameiginlegur vettvangur allra þeirra starfsgreina og stofnana sem vinna að málefnum sviðslista á Íslandi. Á starfsárinu hafa meginverkefni SSÍ verið eftirfarandi:

 • Breytingar á lögum SSÍ: Helstu breytingar eru þær að enginn á lengur beina aðild að sambandinu og fækkar því í fulltrúaráðinu frá 40 manns niður í 13.  Enn er í skoðun hvort sviðslistahátíðir ættu að eiga fulltrúa í ráðinu.
 • Gríman: Á fulltrúaráðsfundi í september 2015 var samþykkt að setja af stað starfshóp til að endurskoða reglur Grímunnar og koma með tillögur að úrbótum. Allir hagsmunaaðilar SSÍ eiga fulltrúa í þessum starfshóp sem hefur nú hafist handa og er að vinna að nýjum reglum Grímunnar.
 • Ekki fór frumvarp um sviðslitir fyrir Alþingi og enn hefur ekki náðs sátt um alla þætti þess innan fulltrúaráðsins. Aftur verður farið í að vinna að þessu frumvarpi á næsta starfsári.
 • Stofnun Kynningamiðstöðvar. Hugmyndin er að miðstöðin verði sjálfseignarstofnun sem allir helstu hagsmunaaðilar sviðslista stofna.

Marta Nordal verður áfram formaður SSÍ. Ari Matthíasson og Steinunn Birna Ragnarsdóttir eru fulltrúar SAVÍST. Birna Hafstein er fulltrúi fagfélaga, varamaður hennar er Páll Baldvin Baldvinsson. Orri Huginn Ágústsson verður áfram fulltrúi SL.

Formaður FLÍ hverju sinni er sjálfkjörinn í fulltrúaráð SSÍ. Aðalfundur kýs einn varamann í fulltrúaráð LSÍ sem situr í eitt ár.

Fulltrúar FLÍ í fulltrúaráði LSÍ 2015-2016
Aðalmaður: Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður: Una Þorleifsdóttir

Valnefndir Grímunnar –
Í  ár tilnefnir FLÍ fulltrúa í valnefndir Íslensku sviðslistaverðlaunanna Grímunnar. Skipa þarf í þrjár valnefndir;
Aðalvalnefnd sviðsverka 2 fulltrúa
Valnefnd barnaverka 2 fulltrúa
Valnefnd útvarpsverka 1 fulltrúa

Nú í ár verður í síðasta sinn tilnefnt með því sniði sem hefur verið undanfarið ár. Nefnd á vegum SSÍ hefur verið að vinna að nýjum reglum Grímunnar til að auka á trúverðugleika verðlaunanna. Ákveðið hefur verið að á næsta ári muni 9 manna Grímunefnd sjá allar sýningar og fá greitt fyrir. Þessi nefnd verður ekki leynileg eins og áður hefur verið.

Leikminjasafn Íslands  –
FLÍ á fulltrúa í fulltrúaráði Leikminjasafns Íslands sem boðað er til fundar einu sinni á ári. Aðalfundur Leikminjasafns Íslands var haldinn í Iðnó 13. maí 2015 og var þar gerð grein fyrir starfsemi safnsins á árinu. Safnið hefur lagt áherslu á að endurnýja gagnabanka um leiksýningar á Íslandi frá 1887 til dagsins í dag og gerð nýrrar heimasíðu. Hvort tveggja var kynnt á fundinum. Fulltrúar sviðslistastofnana hafa nú skipað “skrásetjara” sem hafa fengið það hlutverk að fylla upp í eyður í grunninum og annast skráningu á nýjum frumsýningum. Þannig er gert ráð fyrir að grunnurinn muni viðhalda sjálfum sér án beinnar aðkomu safnsins og það verði á ábyrgð þeirra sem hafa skráningarleyfi í grunninn að upplýsingarnar í honum séu ávallt uppfærðar. Þá er vinna hafin við að koma hluta safnkostsins, þ.e. bókum, handritum, leikskrám, tímaritum og öðru pappírskyns í varanlegar geymslur og skráningu í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Þannig verður sá hluti leiklistararfsins gerðu aðgengilegur fræðimönnum og almenningi. Þá er unnið að nýrri stefnu fyrir safni, endurnýjun stofnskrár þess og grisjunarstefnu.

Aðalfundur kýs einn  aðalmann og einn varamann í fulltrúaráð Leikminjasafns Íslands. Kjörtímabil þeirra er í eitt ár.

Fulltrúar FLÍ í stjórn Leikminjasafns Íslands starfsárið 2015-2016
Aðalfulltrúi FLÍ:  Jakob S. Jónsson
Varafulltrúi FLÍ: Ásdís Þórhallsdóttir

Talía-loftbrú –
Talía er sjóður í eigu Félags íslenskra leikara, Félags leikskálda og handritshöfunda, Félags leikstjóra á Íslandi og Reykjavíkurborgar. Markmið og tilgangur sjóðsins er að styðja við sýningu og kynningu á íslenskri sviðslist erlendis og er sjóðurinn ætlaður sjálfstætt starfandi listamönnum. Staða sjóðsins er ágæt en ekki hefur náðst að koma á samtali um áætlanir um að auka burði hans og tryggja að hann geti vaxið, starfað og stutt íslenskt sviðslistafólk til frambúðar.

Stjórn skipar einn áheyrnarfulltrúa í stjórn Talíu. Kjörtímabil þeirra er í eitt ár.

Fulltrúi FLÍ í stjórn Talíu 2015-2016
Sara Martí Guðmundsdóttir

Samráðsnefnd fagfélaga í sviðslistum –
Samráðsnefndin vinnur á grundvelli samþykktar fulltrúaráðs SSÍ. Þar er henni falið það hlutverk að standa að tilnefningum í nefndir og ráð fyrir hönd SSÍ samkvæmt samþykktum verklagsreglum SSÍ. Samráðsnefndin hefur á undanförnum árum kastað óformlega á milli sín hugmyndum um stofnun stærra fagfélags eða stéttarfélags sem innibæri allt starfsfólk sviðslistanna en málið er á byrjunarstigi.

Á liðnu ári var ekki mikil virkni í samráðsnefndinni og hélt hún enga fundi.Þá var hún ekki  virkjuð af formanni SSÍ við vinnu að tilnefningum í ráð og nefndir. Félag leikstjóra hefur verið drifkraftur í þessu samtali milli fagfélaganna en nefndin virðist ekki virka sem skildi og því þyrfti að leita nýrra leiða til að virkja hana til góðra verka ef vilji er til að nefndin starfi áfram.

Í samráðsnefndinni sitja formenn allra fagfélaganna eða fulltrúar þeirra.

Fulltrúar FLÍ 2015-2016
Aðalmaður: Una Þorleifsdóttir
Varamaður: Agnar Jón Egilsson

BHM –
Nokkur reynsla er nú komin á veru FLÍ í heildarsamtökum háskólamanna BHM. Góður fundur átti sér stað á árinu með stjórnarmönnum FLÍ og formanni og framkvæmdastjóra BHM. Fundurinn einkenndist af velvilja og jákvæðni. Hugmyndir eru uppi um að félög listamanna innan raða BHM gætu sameinast um starfsmann sem mögulega gæti haft vinnuaðstöðu í höfuðstöðvum BHM. Þau mál verða til frekari skoðunar á starfsárinu framundan. Á starfsárinu 2014-15 einsetti stjórn FLÍ sér að gera úrbætur í kynningu á réttindum félagsmanna í sjóði BHM. Á síðasta ári hefur sú vinna skilað þeim árangri að nú eru fleiri félagar sem nýta sér þau réttindi sem fylgja því að greiða í sjóði BHM. Þó er ljóst að betur má ef duga skal og enn er hlutfall FLÍ félaga sem greiða í BHM of lágt.

Félagsmenn hafa upplifað hátt flækjustig varðandi skilagreinar og þær skyldur sem fylgja aðild en stjórn hefur reynt að bæta úr því með bættu upplýsingaflæði og fræðslu til félaga. Mikilvægt er að halda áfram þeirri vinnu að kynna BHM fyrir félagsmönnum.

Nauðsynleg einföldun á greiðlsuferli í sjóði BHM hefur verið unnin og er nú mjög einfalt fyrir félagsmenn að byrja að afla sér réttinda með því að greiða sjóðsgjöld af leikstjóratekjum sínum. Inni á heimasíðu FLÍ eru nú greinargóðar og einfaldar upplýsingar um BHM og hlekkur inn á heimasíðu BHM þar sem félagar geta gengið frá einföldum skilagreinum.

Formaður FLÍ hverju sinni á sæti í formannaráði BHM. Stjórn skal tilnefna varamann formanns.  Varamaður FLÍ í formannaráði  BHM er Tryggvi Gunnarsson.

Aðalfundur BHM
Stjórn hverju sinni skal tilnefna fulltrúa á aðalfund BHM. Fjöldi fulltrúa veltur á fjölda félagsmanna í FLÍ.

Fulltrúaráð Sjúkrasjóðs BHM
Stjórn hverju sinni skal tilnefna fulltrúa Í fulltrúaráð Sjúkrasjóðs BHM. Er hann skipaður til eins árs. Fulltrúi FLÍ í fulltrúaráði Sjúkrasjóðs BHM var Kolbrún Halldórsdóttirog varamaður Tryggvi Gunnarsson á starfsárinu 2015-16.

Fulltrúaráð Orlofssjóðs BHM
Stjórn hverju sinni skal tilnefna fulltrúa Í fulltrúaráð Orlofssjóðs BHM. Er hann skipaður til eins árs. Fulltrúi FLÍ í fulltrúaráði Orlofsjóðs BHM var Kolbrún Halldórsdóttir og varamaður var Tryggvi Gunnarsson á starfsárinu 2015-16.

Norrænt samstarf – NSIR
FLÍ er aðili að NSIR, Sambandi Norrænna leikstjórafélaga. Noregur tók við formennsku í sambandinu 2014 og breytist formennskan ár hvert eftir því í hvaða landi fundurinn verður haldinn. NSIR er samræðuvettvangur leikstjóra á Norðurlöndum og mjög gagnlegur þegar kemur að því að bera saman bækur um kaup og kjör leikstjóra og breytingar innan leikhúsheimsins í Skandinavíu.

Á þessum fundum eru fluttar skýrslur allra félaga þar sem farið er yfir það helsta sem gerst hefur hjá félögunum.  Síðasti fundur var haldinn í Kaupmannahöfn  í júní 2015 og voru fulltrúar FLÍ á þeim fundi tveir, þau Sara Martí og Gunnar I Gunnsteinsson.   Næsti fundur verður haldinn í Finnlandi í Október  2016.

Fulltrúar FLÍ 2015-2016:
Sara Martí Guðmundsdóttir

Rekstur FLÍ –
Á aðalfundi FLÍ 2015 kom fram að fjárhagsstaða félagsins hefur farið versnandi á síðustu árum. Fyrst kom hrunið, sem veikti eignastöðuna nokkuð og við það bættist fremur lág ávöxtun á sjóðum félagsins eftir hrun. Svo hefur það haft áhrif að ákvörðun var tekin 2014 um að auka greiðslur til stjórnar félagsins vegna aukins álags af veru félagsins í BHM. Þá hefur það líka áhrif að á síðustu þremur árum hefur verið gerð gangskör að því að endurnýja alla samninga félagsins og hefur samninganefnd FLÍ fengið greitt fyrir fundarsetur. Af þessum ástæðum var ákveðið á aðalfundi 2015 að hækka lágmarksgjald það sem félagar greiða til félagsins úr kr. 15.000.-  í kr. 24.000.- Um leið var gerð sú breyting á lögum félagsins að allir skyldu greiða lágmarksgjaldið, einnig þeir sem greiða til félagsins af tekjum sem þeir afla gegnum verkefni sem unnin eru á samningum félagsins.

Niðurstaða rekstrarins 2015 er sú að tapi hefur nú verið snúið í hagnað, þ.e. á árinu er tekjuafgangur að upphæð kr. 949.471.-  en á árinu 2014 tapaði félagið tæpum 3,7 milljónum króna.  Staðan er þó ekki betri en svo að fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld er staðan neikvæð sem nemur kr. 1.390.654.- Þetta þýðir að tekjur félagsins duga ekki fyrir nema broti af rekstrinum og að ávöxtun sjóða félagsins, sem nam kr. 2.559.257.-  er það sem heldur heildarniðurstöðunni réttu megin við núllið.

Vegna taps áranna 2013 og 2014 benda endurskoðendur félagsins stjórn á það í áritun sinni að nauðsynlegt sé að brugðist verði við ójöfnuðu eigin fé, sem var í árslok tæpar 4,7 milljónir króna. Eiginfjárstaðan er þó eilítið betri en 2014, hún er nú jákvæð sem nemur 22,7 milljónum króna (var 22.06 2014).

Ástæður neikvæðrar rekstrarstöðu FLÍ eru þær hversu fáir félagar greiða gjöld til félagsins, en félagsgjöldin eru einu tekjur félagsins. Á árinu voru 104 félagar á félagaskrá, af þeim greiddu einungis 7 félagar gjöld til félagsins alla mánuði ársins. 13 greiddu flesta mánuði ársins.  Á fyrstu mánuðum ársins 2016 eru einungis 19 félagar að skila gjöldum gegnum innheimtukerfi BHM. Við þetta bætist að 39 félagar eru 60 ára og eldri, en samkvæmt lögum FLÍ eru þeir undanþegnir félagsgjaldi. Sumir þeirra eru þó að greiða af launum sem þeir afla fyrir verkefni sem unnin eru á samningum félagsins. Af 104 skráðum félögum 2015 voru 15 sem hvorki greiddu lágmarksfélagsgjaldið né af launum sínum gegnum BHM.

Höfundarréttarráð
Höfundaréttarráð er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um þau málefni höfundaréttar sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á listir og samfélag. FLÍ á rétt til setu í höfundaréttarráði. Menntamálaráðherra eða sá sem hann nefnir í sinn stað skal vera í forsæti á fundum höfundaréttarráðs. Boða skal til fundar í höfundaréttarráði einu sinni á ári, að jafnaði.

Á liðnu ári hafa fagfélög listamanna tekið þátt í að fjalla um þrjú frumvörp til laga um breytingar á höfundalögum, þau fjölluðu um einkaréttindi höfunda og samningskvaðir, munaðarlaus verk og lengri verndartími hljóðrita. Þau urðu öll að lögum fyrir jól 2015. Hins vegar hefur ákall fagfélaganna um að mennta- og menningarmálaráðherra legði fram fjórða frumvarpið, um eintakagerð til einkanota, engu skilað og enn er það mál ekki komið fram á Alþingi. Til að þrýsta á ráðherra um framlagningu frumvarpsins gekkst BÍL fyrir málþingi um höfundarrétt í mars sl. ásamt höfundarréttarsamtökunum STEF, Fjölís, Myndstef og IHM. Málþingið bar yfirskriftina “Lifað af listinni” og til þess var boðið fulltrúum þingflokkanna á Alþingi. Umræðan snerist um ýmsa þætti höfundarréttar þó mestur þungi hafi verið í umfjjöll síðasttalda frumvarpið, – eintakagerð til einkanota, enda skiptir það frumvarp mestu fyrir hagsmuni höfunda og flytjenda.  Á því frumvarpi veltur framhaldslíf IHM-sjóðsins sem hefur hrunið á síðustu árum. Á árinu 2004 skilaði IHM-sjóðurinn um 94 milljónum (þ.e. 174 milljónum framreiknað til 2016) en á árinu 2015 innheimti sjóðurinn einungis rúmar 7 milljónir króna, af því komu einungis 102 þúsund krónur í hlut FLÍ.

Fulltrúi FLÍ í höfundarréttarráði 2015 – 2016
Sara Martí Guðmundsdóttir

Ávarp formanns  –
Á undanförnu ári var gerð allsherjar tiltekt hjá félaginu. Við hreinsuðum til í félagatalinu og tókum til í fjármálum félagsins. Þegar staða félagsins tók að skýrast, kom í ljós að félagið getur ekki haldið úti starfsemi (þó einungis séu greidd alger lágmarkslaun fyrir störf stjórnar og samninganefndar) til lengdar án þess að tæma sjóði félagsins á örfáum árum. Verkefnið framundan er því að skoða til hlítar þá möguleika sem eru í stöðunni. Við gætum t.d. skoðað möguleikana á því að sameinast öðrum fagfélögum og myndað stærra fagfélag fyrir sviðslistamenn. Slíkt kynni að verða hagstætt þegar til lengri tíma er litið og gæti gert okkur kleift  að ráða starfsmann til að sinna félögum sviðslistanna  innan sjóðakerfis BHM.  Önnur leið væri að hækka enn frekar félagsgjöld, sem er ekki líklegt til vinsælda, sérstaklega þegar skoðað er hversu fáir félagar standa undir því að greiða þau.  Í þessu sambandi má líka nefna hugmyndir núverandi stjórnar um að félögum beri að greiða fasta félagsgjaldið til 67 ára aldurs. Þá mætti hugsa sér enn frekari sparnað, t.d. mætti segja upp skrifstofuhúsnæðinu og leggja skrifstofu FLÍ niður. Nú eða hætta að greiða þær þóknanir sem eru greiddar til stjórnar og samninganefndar, en þar með er líklegt að það sem hefur áunnist á síðustu árum í formfestu og utanumhaldi fari forgörðum. Það er því mjög erfitt að taka til í svo flóknu batteríi, sem þetta félag er, þegar ekki er neinn í að minnsta kosti hálfu starfi til þess að sinna því. Stjórnin sinnir daglegum rekstri skrifstofu og heimasíðu og hefur líka gengt hlutverki  samninganefndar auk þess að sinna leikstjórum sem þurfa á aðstoð að halda. Svo skiptir stjórn á sig embættum í ýmsum nefndum og ráðum, sem félagið hefur skuldbundið sig til að sinna. Mikið meira er ekki á bætandi. Ég trúi því að ef fagfélögin sameinist í eitt félag, væri hægt að ráða manneskju til að sinna stóru verkefnunum og um leið hefjist betra og prógressívara samtal um framtíð sviðslista á Íslandi, þar sem ein samninganefnd getur komið saman og unnið að bættum samningum fyrir alla sem starfa við sviðslistir. Nú er búið að stofna Kynningarmiðstöð Íslenskra sviðslista og held ég að það verði til þess að bæta samtalið og samskiptin innan geirans. Allt þetta gerir sviðslistamenn sterkari gagnvart stjórnvöldum, gagnvart launagreiðendum, gagnvart áhugasömum bókurum erlendis og ég trúi því að við getum tekið meira pláss á Íslandi og beðið um meira ef við stöndum saman sem heild. Ég legg til að starfsáætlun næsta árs verði stutt og hnitmiðuð og ráðist verði í stóru verkefnin sem verði að sameina fagfélögin í sviðslistum og að endurnýja samninga við MAk og RÚV og hefja samningaviðræður við ÍÓ og  LHÍ. Starfsáætlunin er stefnumótandi skjal og gefur almennum félögum tækifæri til þess að móta starf og stefnu félagsins. Mörg af markmiðunum sem sett eru í starfsáætlun eru augljóslega framtíðar-markmið sem nást jafnvel ekki á starfsárinu en að þeim er unnið jafnt og þétt. Á síðasta starfsári vour t.a.m. endurnýjaðir samningar við Þjóðleikhús og Borgarleikhús  og vill formaður koma á framfæri þökkum fyrir hönd félagsmanna til samninganefndar FLÍ fyrir mikið og óeigingjarnt starf sem hún hefur innt af hendi.
Sara Martí Guðmundsdóttir
formaður FLÍ

SÍM ársskýrsla 2015

Stjórn og sambandsráð SÍM
Stjórn SÍM skipuðu frá 15. apríl 2015 Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður, Erla Þórarinsdóttir varaformaður, Gunnhildur Þórðardóttir ritari, Steingrímur Eyfjörð og Sindri Leifsson meðstjórnendur, Helga Óskarsdóttir og Sigurður Valur Sigurðsson varamenn. Stjórnarfundir voru 12 talsins, þar með talið þrír sambandsráðsfundir. Jafnframt voru haldnir fjórir félagsfundir.

Stjórn SÍM vinnur að hagsmunamálum listamanna. Á starfsárinu 2015-2016 hefur stjórn SÍM lagt áherslu á herferðina VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM. Tilgangur hennar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Þungamiðja herferðarinnar er að kynna drög að framlagssamningi.

Við borgum myndlistarmönnum
Helsta baráttumál þessa starfsárs og komandi ára snýr að starfsumhverfi myndlistarmanna og hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar. Að frumkvæði Sambands íslenskra myndlistarmanna var ákveðið að setja saman starfshóp í byrjun árs 2015 í samstarfi við Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Hafnarborg menningar- og listamiðstöð, Nýlistasafnið, Listasafn Árnesinga og Listasafn Akureyrar. Í starfshópnum sátu fyrir hönd SÍM, Ilmur Stefánsdóttir og Úlfur Grönvold, myndlistarmenn. Fyrir hönd safnanna sátu Þorgerður Ólafsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, og dr. Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands. Verkefnastjóri starfshópsins var Ásdís Spanó, myndlistarmaður.

Starfshópnum var ætlað að móta tillögu að launasamningum fyrir listamenn sem sýna í söfnum á Íslandi og eru rekin eða styrkt af ríki eða sveitarfélögum. Starfshópurinn skilaði inn drögum að framlagssamningi ásamt greinargerð í byrjun október og var haldinn félagsfundur þann 14. október til þess að kynna drög að samningi fyrir félagsmönnum SÍM. Við gerð draganna leit starfshópurinn til sænska MU (Medverkande og utstallningsersattning) samningsins, en sænska ríkið skrifaði árið 2009 undir samning um þóknun til listamanna sem sýna verk sín í opinberum listasöfnum í Svíþjóð. Slík þóknun er viðbót við greiðslur fyrir flutning, uppsetningu og útgáfu á efni fyrir sýningar listamannsins. Í samningnum er kveðið á um að greiða þurfi sérstaklega fyrir alla vinnu sem listamenn taka að sér í tengslum við sýningar, bæði fyrir, eftir og meðan á sýningu stendur. Gera skal skriflegan samning um þau atriði sem greiða þarf laun fyrir, samkvæmt taxta samningsins, ásamt því að greiða þóknun fyrir sýnd verk. MU-samningurinn hefur verið fyrirmynd sambærilegra samninga í Noregi og Danmörku. Unnið er að gerð samninga í Finnlandi og Austurríki, með MU samninginn að leiðarljósi.

Herferðin VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM var sett formlega af stað 20. nóvember 2015 í Norræna húsinu. Tilgangur hennar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Þungamiðja herferðarinnar er samningur um þátttöku og framlag listamanna til sýningahalds. Á fundinum héldu erindi þau Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur, Ósk Vilhjálmsdóttir, myndlistarmaður og stjórnarmaður í Myndlistarráði, og Ástríður Eggertsdóttir, arkitekt og stjórnarmaður í Listskreytingarsjóði. Steinunn Eldflaug Harðardóttir var með tónlistaratriði fyrir og eftir fundinn. Á fundinum gátu gestir nálgast drög að Framlagssamningnum ásamt rauðri tösku sem var myndskreytt af Lóu Hjálmtýsdóttur.

Á fundinum opnaði formlega heimasíðan www.vidborgummyndlistarmonnum.info. Helga Óskarsdóttir setti upp síðuna og þar er að finna greinaskrif, myndbönd, ársskýrslur listasafna, launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum SÍM sem var gerð árið 2014, drög að Framlagssamningnum og einnig áhugaverða tengla sem snúast um hagsmuni myndlistarmanna víðs vegar um heiminn. Stjórn SÍM fagnar mikilvægum áfanga með drögum að Framlagssamningi sem listasöfn og listamenn munu geta stuðst við. Söfnin sem unnu að drögunum með SÍM unnu á síðasta ári að kostnaðargreiningu sem byggði á sýningarhaldi aftur í tímann. Áætlað er að kostnaður við að fara eftir framlagssamningum sé tæplega 90 milljónir, sem skiptist niður á ríkið og sveitarfélög.

Kynning á drögum að framlagssamningi stendur nú sem hæst og hefur formaður SÍM ásamt Ásdísi Spanó verkefnastjóra verið með kynningar hjá Listasafni Íslands, FÍSOS, Menningar og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar, Vinstri Grænum, Akureyrarbæ, Mennta- og menningarmálaráðaneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Formaður SÍM hélt m.a. erindi um herferðina á málþinginu „Menntun til framtíðar“ sem ReykjavíkurAkademían og BHM stóðu fyrir.

Stjórn SÍM þakkar starfshópnum sem unnið hefur að gerð samningsins fyrir frábært starf og þakkar listasöfnunum fyrir samvinnuna og árangursríkt samstarf. Að lokum þakkar SÍM öllum þeim sem komið hafa að vinnu herferðarinnar „VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM“. Sérstakar þakkir fá Ásdís Spanó, Helga Óskarsdóttir, Berglind Helgadóttir, Björk Guðnadóttir, Habby Osk og Lóa Hjálmtýsdóttir.

Næstu mánuði verður afar mikilvægt að listamenn standi saman, berjist fyrir hagsmunum sínum og tryggi að framlagssamningurinn hljóti brautargengi hjá ríki og sveitarfélögum. Einungis þannig verða starfsaðstæður hér á landi sambærilegar við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.

Fundur fólksins
Fundur fólksins var haldinn 11. til 13. júní 2015 og var þriggja daga hátíð um samfélagsmál í Norræna húsinu. Hátíðin var vettvangur fyrir samfélagsumræður og var öllum opinn. Hátíðin er sjálfstæð og ekki tengd neinum hagsmunaöflum á Íslandi eða annars staðar, markmið hennar er að auka tiltrú á stjórnmál og styrkja uppbyggjandi pólitíska umræðu.

SÍM tók þátt í hátíðinni og stóð fyrir samtali milli einstaklinga sem starfa við myndlist og áhorfenda, um starfsumhverfi myndlistarmanna. Var þetta liður í undirbúningi á herferðinni „Við borgum myndlistarmönnum“. Formaður SÍM, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, stjórnaði samtalinu og bauð eftirtöldum fulltrúum einstaklinga sem starfa við myndlist að taka þátt: Hafþóri Yngvasyni, þáverandi safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, Ragnhildi Jóhanns og Önnu Fríðu Jónsdóttur, myndlistarmönnum og ritstjórum 4. tbl. Endemis, Jóni Óskari myndlistarmanni og Ásdísi Spanó sem var þá verkefnastjóri starfshópsins sem vann að tillögum að gjaldskrá vegna þóknunar til myndlistarmanna sem sýna í opinberum söfnum á Íslandi og rekin eru eða styrkt af ríki eða sveitarfélögum. SÍM bauð Svanhildi Konráðsdóttur, sviðstjóra Menningar- og ferðamálasviðs, og Illuga Gunnarsyni að taka þátt en þau voru því miður fráverandi. Eiríkur Þorláksson sérfræðingur mætti fyrir hönd Illuga. 

SÍM aðildarfélag BHM, Bandalag háskólamanna
Stjórn SÍM sendi haustið 2014 inn umsókn um að verða aðildarfélag að Bandalagi Háskólamanna (BHM). Var umsóknin tekin fyrir á aðalfundi BHM þann 22. apríl 2015 og samþykkt. Umsóknin var liður í hagsmunabaráttu SÍM í gegnum fyrrnefndan framlagssamning. BHM er bandalag hagsmunatengdra félaga eða stéttarfélaga sem starfa að fag- og vinnumarkaðslegum málefnum félagsmanna sinna. BHM styður við starf aðildarfélaga, eflir þekkingu félagsmanna á kjara- og réttindamálum og gætir hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum. Stjórn SÍM fagnar því að félagsmenn hafi loksins aðgang að sjúkrasjóði, styrktarsjóði og orlofssjóði og telur það vera lið í að styrkja kjarabaráttu listamanna. Haldinn var félagsfundur 5. september þar sem Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM, kynnti hvaða skyldur og kjör felast í því fyrir félagsmenn SÍM að vera innan vébanda BHM.

Stara  /  vefrit – Útgáfa SÍM
STARA er rit Sambands íslenskra myndlistarmanna og leitast við að efla umræðu og þekkingu á myndlist ásamt því að segja frá starfsemi SÍM. STARA er birt bæði á íslensku og ensku og höfðar jafnt til fagfólks sem og áhugafólks um myndlist. Útgáfur STARA voru þrjár á árinu, 3. tbl kom út 16. apríl 2015, 4. tbl kom út 5. september 2015 og 6. tbl. kom út 14. nóvember 2015 og var íslenski hlutinn í 6. tbl. prentaður í fyrsta skipti í 500 eintökum og dreift frítt. Hægt er að nálgast STARA á heimasíðu SÍM og timarit.is.

Ritnefnd STARA skipa Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, Elísabet Brynhildardóttir, hönnuður og myndlistarmaður, Jón B. K. Ransu, myndlistarmaður, Auður Aðalsteinsdóttir, ritstjóri hjá Hugrás – vefriti Hugvísindasviðs, og Margrét Elísabet Ólafsdóttir, doktor í list- og fagurfræði og lektor við Háskólann á Akureyri. STARA er að hluta til fjármagnað af auglýsingatekjum og er það von stjórnar SÍM að í framtíðinni mun auglýsingatekjur standa straum af kostnaði blaðsins.

Myndlistarsjóður og Listskreytingasjóður
Stjórn SÍM setti af stað undirskriftasöfnun í október 2015 þar sem harðlega var mótmælt þeirri aðför sem gerð hefur verið að Myndlistarsjóði og Listskreytingasjóði undanfarin ár. Við skoruðum á Alþingi að sýna stórhug og framsýni með því að veita 52 milljónum króna í Myndlistarsjóð og 10 milljónum króna í Listskreytingasjóð fyrir árið 2016. Rúmlega 700 manns skrifuðu undir og skoruðu á þingmenn að snúa þessari þróun við og standa vörð um sjóðina. Áætlað var að afhenda undirskriftalistann til Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, við setningu herferðarinnar Við borgum myndlistarmönnum sem var haldin í Norræna húsinu 20. nóvember 2015 en hún afþakkaði og sagði málefnið ekki vera undir hatti fjárlaganefndar. Í ljósi þess að í landinu starfaði þingbundin ríkisstjórn, þ.e. þingið setur lögin og framkvæmdavaldið framkvæmir þau, og í ljósi þess að þegar afhending undirskriftarlistans átti að eiga sér stað var fjárlagafrumvarpið í þinglegri meðferð, sem þýðir að löggjafinn er að leggja línur fyrir framkvæmdavaldið varðandi eyrnamerkingu fjármuna hins opinbera fyrir árið 2016, var mikilvægt að fjárlaganefndin tæki á móti undirskriftalistanum og vegna þess fór formaður SÍM með undirskriftalistann til fjárlaganefndar mánudaginn 23. nóvember 2015.

Það voru nokkur vonbrigði þegar tilkynnt var að einungis 35 milljónir voru settar í Myndlistarsjóð og 1.5 milljónir í Listskreytingasjóð í lokagerð fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2016. Stjórn SÍM telur þó að öll vinnan sem var unnin hafi sáð fræjum og nýtist í áframhaldandi baráttu fyrir fjárlagaárið 2017.

Laun stundakennara
Formenn félagasamtaka listamanna á Íslandi hafa fundað vegna launa stundakennara. Í lok apríl 2015 var send út könnun til félagsmanna til þess að fá heildarmynd yfir stöðu stundakennara. Ákveðið var að setja saman starfshóp sem mun meta stöðu stundakennara og hvernig væri hægt að ná betri kjörum. Stjórn SÍM tilnefndi Eirúnu Sigurðardóttur og ásamt henni sitja Páll Baldvin Baldvinsson, Hörður Lárusson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal. Starfshópurinn hefur fundað fimm sinnum og er áætlað að stofna hagsmunafélag kennara við Listaháskóla Íslands. Starfshópurinn hefur skrifað drög að reglum fyrir félagið og er lögfræðingur frá BHM að fara yfir þau. Áætlað er að bjóða öllum kennurum Listaháskóla Íslands á fund og þar mun hagsmunafélag kennara verða stofnað og skipuð stjórn. Hagsmunafélagið mun hafa umboð til þess að þrýsta á um kjör og semja fyrir hönd kennara við Listaháskóla Íslands.

Dagur myndlistar
Dagur myndlistar var haldinn hátíðlegur laugardaginn 31. október 2015.  Verkefnastjóri, Berglind Helgadóttir, lagði áherslu á að efla vitund almennings á fagstarfi myndlistarmannsins og á aukið aðgengi að upplýsingum um myndlist til að bæta þekkingu á faginu. Með Degi myndlistar er leitast við að efla myndlistarhugsun og stuðla að dreifingu og aðgengi myndlistar svo almenningur geti bæði skilið og nýtt sér hana til að auðga líf sitt með ýmsum hætti. Skapandi og gagnrýnin hugsun eru hornsteinar listar og umfram allt jákvæðir eiginleikar í samfélagi manna.

Ný vefsíða var sett í loftið um miðjan október. Efnið var gert aðgengilegra og forsíðan skilmerkilegri en um leið einfaldari. Bætt var við textum um verkefnið og skráningarblöð fyrir listamenn gerð aðgengileg. Upplýsingar um Dag myndlistar fyrri ára voru einnig gerðar aðgengilegri og skýrari. Hönnun vefsíðu var í höndum Elísabetar Brynhildardóttur.

Ein mikilvægasta hlið verkefnisins eru kynningar myndlistarmanna í grunn- og framhaldsskólum landsins enda fágætt tækifæri til að ná til mikilvægs fólks. Myndlistarmenn kynntu í 24 skólum og héldu eftirfarandi listamenn kynningar:

Rúrí, Sara Riel, Hulda Hákon, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir, Habby Ósk, Valgerður Hauksdóttir, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Auður Ómarsdóttir, María Kjartans, Kristín Rúnarsdóttir, Kristbergur Óðinn Pétursson, Monika Frycova, Arnar Ómarsson, Arna Valsdóttir, Ólöf Dómhildur Jónsdóttir, Gunnar Jónsson, Jón Sigurpálsson og Ágúst Bjarnason. Þau fengu öll greidd 18.000 krónur fyrir hverja kynningu.

Opnar vinnustofur myndlistarmanna voru á deginum sjálfum, greinaskrif birtust í Fréttablaðinu og á visir.is vikuna fyrir Dag myndlistar og voru greinahöfundar Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, Libia Castro og Ólafur Ólafsson, listamenn, og Berglind Helgadóttir, verkefnastjóri Dags myndlistar.

Útbúin voru fjögur myndbönd þar sem áhersla var lögð á fjölbreytta miðla. Myndböndin voru gerð með það að markmiði að fræða almenning, þá sérstaklega ungt fólk á elstu stigum grunnskóla og í framhaldsskóla. Þeir viðmælendur sem tóku þátt voru Rakel McMahon, Halla Birgisdóttir, Bjarki Bragason og Guðjón Ketilsson.

Ákveðið var að auka sýnileika Dags myndlistar með því að stofna til samstarfs við bókasöfn í landinu. Fjölmörg söfn á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni tóku þátt og var fjölbreytileikinn í framsetningu þó nokkur; allt frá sýningum, þátttöku safngesta í skoðun á málverkum, námskeiðum og síðast en ekki síst, til framstillingar myndlistarbóka.

Berglind verkefnastjóri sótti um styrk í Samfélagssjóð Landsbanka Íslands og var lögð áhersla á kynningar listamanna í framhaldsskólum á landsbyggðinni. Verkefnið fékk 250.000 kr. til þessarar framkvæmdar fyrir árið 2016 og því verður hægt að senda listamenn af höfuðborgarsvæðinu víðsvegar um landsbyggðina til að halda kynningar í framhaldsskólum.

Stjórn SÍM þakkar öllum þeim sem tóku þátt í Degi myndlistar og Berglindi Helgadóttur verkefnastjóra fyrir vel unnin störf.

UMM
SÍM hefur umsjón með og rekur umm.is – Upplýsingavef um myndlist og myndhöfunda á Íslandi – en vefurinn er byggður á gögnum frá Upplýsingamiðstöð myndlistar sem starfrækt var um 10 ára skeið með stuðningi íslenska ríkisins. Gagnagrunnurinn er gríðarlega stór og margþættur og hefur reynst ómissandi fyrir ýmsar menningarstofnanir, myndlistarmenn, fræðimenn, kennara og erlenda sýningarstjóra.

Því miður er ekki hægt að uppfæra grunninn eins og er, þar sem kerfið (Dísill) að baki grunninum er orðið úrelt.

SÍM fékk verðtilboð varðandi uppfærslu gagnagrunnsins frá fyrirtækinu Skapalón sem hljóðaði upp á átta miljónir kr. SÍM lét Skapalón hanna forsíðu og fyrsta útlit síðunnar, til þess að geta farið og kynnt framtíðaráform gagnagrunnsins fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

 1. apríl 2015 áttu Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM, mjög góðan kynningarfund með Karítas Gunnarsdóttur, skrifstofustjóra, og Ragnheiði Þórarinsdóttur, deildarstjóra hjá mennta og menningarmálaráðaneytinu. Þar gáfu þær fyrirheit um að SÍM gæti fengið styrk fyrir helmingskostnaði við uppfærslu UMM eða fjórar milljónir kr. Þær ráðlögðu SÍM að senda inn umsókn strax eftir kynningarfundinn þar sem óskað væri eftir stofnstyrk fyrir nýjum upplýsingavef um íslenska myndlist og myndlistarmenn.
 2. maí 2015 óskaði ráðuneytið eftir ráðgjöf frá myndlistarráði vegna umsóknar SÍM um stofnstyrk. Myndlistarráð gaf neikvæða umsögn til ráðherra 22. júní 2015 og barst SÍM synjun á umsókn sinni þann 23. júlí 2015. Stjórn SÍM varð fyrir vonbrigðum vegna niðurstöðu málsins og óskaði eftir að fá afrit af umsögn myndlistarráðs.

Stjórn SÍM varð fyrir vonbrigðum með að myndlistarráð eða fulltrúar SÍM í myndlistarráði hafi ekki haft samráð við SÍM og óskað eftir kynningu á umsókninni áður en ráðið skrifaði umsögn til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þótt orðið hafi breytingar á miðlun upplýsinga um myndlist á netinu kemur það ekki í staðinn fyrir UMM því UMM er gagnagrunnur um íslenska myndlistarmenn þar sem upplýsingar koma meðal annars beint frá myndlistarmönnunum. Gagnagrunnurinn felur í sér bæði innri og ytri vef þar sem búið er að safna saman miklu magni af upplýsingum frá myndlistarmönnum seinustu 20 árin. Þær stofnanir sem myndlistarráð telur upp í umsögn sinni munu ekki geta veitt sömu upplýsingar og UMM.

Stjórn SÍM telur mikilvægt að allir aðilar sem koma að hagsmunabaráttu myndlistarmanna viðhafi gott samráð og hefur í hyggju að boða til fundar til þess að ræða um framtíð UMM. Er það von stjórnar að hægt verði að fjármagna verkefnið á næstkomandi starfsári.

Aðalfundur IAA / AIAP
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM, fóru á aðalfund IAA / AIAP (alþjóðasamtaka myndlistarmanna) sem var haldinn í Pilzen dagana 14. – 18. október 2015.  Formaður SÍM óskaði eftir stuðningsyfirlýsingu frá IAA og AIAP vegna lokunar á íslenska skálanum í Feneyjartvíæringnum. Því miður vildu fulltrúar þjóðanna fá meiri tíma til þess að kynna sér málið og var ákveðið að það yrði kosið um stuðningsyfirlýsinguna á netinu. Hins vegar skorti á eftirfylgni af hálfu IAA / AIAP vegna málsins og slík kosning hefur enn ekki farið fram.

Haldið var málþing um stöðu myndlistarmanna í heiminum. Katarina Jönsson, formaður KRO, heildarsamtaka myndlistarmanna í Svíþjóð, var með mjög áhugaverðan og gagnlegan fyrirlestur um innleiðingu MU samningsins og eftirfylgni hans. Joseph Young myndlistarmaður sagði frá herferðinni „Paying artists“ sem er í gangi í Bretlandi og formaður SÍM var með erindi um fyrirhugaða herferð SÍM, „Við borgum myndlistarmönnum“ sem vakti mikla jákvæða athygli.

Skrifstofa SÍM
Á skrifstofu SÍM starfa nú sex starfsmenn í rúmum fjórum stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM, Guðrún Helgadóttir bókari, Hildur Ýr Jónsdóttir umsjónarmaður gestavinnustofa, Friðrik Weisshappel umsjónarmaður fasteigna, og Sigríður Björnsdóttir skrifstofustjóri.

Ný heimasíða SÍM var sett í loftið 5. september 2015. Efni var gert aðgengilegra og forsíðan skilmerkilegri en um leið einfaldari. Mikil vinna var lögð í textagerð og leitað var eftir góðu myndefni fyrir heimasíðuna. Hönnun vefsíðu var í höndum Elísabetar Brynhildardóttur og Auður Aðalsteinsdóttir sá um prófarkalestur. Stjórn SÍM þakkar þeim fyrir frábært samstarf og vel unnin störf.

Í framhaldi nýrrar heimasíðu var ákveðið að fá Elísabetu Brynhildardóttur til að hanna kynningarbækling, þar sem helstu upplýsingar um starfsemi og hlutverk SÍM kæmi fram á íslensku og ensku.

Vinnustofur
Í byrjun janúar 2016 rann út leigusamningur við Landsbankann um húsnæði í Súðavogi. Var það mikill missir fyrir félagsmenn SÍM. Skrifstofa SÍM hefur leitað að vinnustofuhúsnæði allt árið og lítur markaðurinn ekki vel út. Eftir mikla leit bauðst SÍM húsnæði til leigu við Auðbrekku í Kópavogi. Þar eru 15 vinnustofur og meirihlutinn stórar. SÍM hefur leigt út vinnustofur til listamanna um árabil. Nú leigja um 200 félagsmenn vinnustofur hjá SÍM en vinnustofurnar eru á Seljavegi, Nýlendugötu, Korpúlfsstöðum, Lyngási og Auðbrekku.

SÍM salurinn
SÍM salurinn, sem staðsettur er í höfuðstöðvum okkar í Hafnarstræti 16, stendur félagsmönnum til boða til sýningarhalds. Auglýst er eftir umsóknum einu sinni á ári og eru sýningartímabil oftast miðuð við einn mánuð. Sýningarnar hafa verið vel sóttar og hægt er að fylgjast með því hvað er á dagskrá bæði á heimasíðu og Facebook-síðu félagsins.

Árið 2014 voru settar upp sýningar af ýmsum toga og má þar á meðal nefna samsýninguna Mara auk einkasýninga Steinunnar Önnudóttur, Soffíu Sæmundsdóttur, Diddu H. Leaman, Georgs Óskars, Gunnhildar Þórðardóttur, Ólafar Bjarkar Bragadóttur, Matthíasar Rúnars Sigurðssonar, Ránar Jónsdóttur, Ólafs Þórðarsonar og Pálínu Guðmundsdóttur.
Aðventusýning með verkum félagsmanna var svo haldin í desember við góðar undirtektir. 

SÍM gestavinnustofur í Reykjavík
123 erlendir listamenn dvöldu í gestavinnustofum SÍM 2015. Bætt var við tveimur herbergjum ásamt sameiginlegri vinnustofu á Seljavegi. Í hverjum mánuði heldur hópurinn listamannaspjall í SÍM salnum og í lok hvers mánaðar er einnig samsýning í SÍM salnum.

SÍM fékk styrk frá KK nord fyrir sex mánaða gestavinnudvöl fyrir árið 2015. SÍM auglýsti eftir umsóknum fyrir tveggja mánaða dvöl með KKnord styrk og hlaut Sebastian Mugge dvalarstyrkinn.

Stjórn SÍM hafði samband við Nýlistasafnið og bauð þeim að velja listamann til þess að koma í boði SÍM. Á þeirra vegum kom Emil Magnúsarson Borhammer frá Svíþjóð og var hann með einkasýningu í Nýlistasafninu.

Stjórn SÍM ákvað að bjóða sýningastjórum að koma í tilraunaskyni og var leitað til Birtu Guðjónsdóttur varðandi val á sýningastjórum. SÍM bauð Malene Dam, sýningastjóra frá Danmörku, og Virginija Januskevicite og Valentinas Klimasauskas, sýningastjórum frá Litháen. Sýningastjórarnir fóru í um það bil 24 vinnustofuheimsóknir og vonar stjórn SÍM að félagsmenn hafi átt við þá gott samtal og gefið þeim tækifæri á spennandi verkefnum.

SÍM átti í vinnustofuskiptum við París í Frakklandi og Vaanta í Finnlandi. Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir dvaldi í Vaanta og Anna Hrund Másdóttir dvaldi í París. 


SÍM gestavinnustofur í Berlín
Frá árinu 2010 hefur SÍM haft gestavinnustofu í Berlín á leigu fyrir félagsmenn SÍM. Gestaherbergin eru tvö, Askja og Hekla. Gestavinnustofan er staðsett í Friedrichshain sem er lifandi hverfi. Þar býr fjöldi listamanna og hönnuða. Hverfið er iðandi af börum, kaffihúsum, veitingastöðum og skemmtilegum verslunum. Þar gefst félagsmönnum SÍM tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið.

Stjórn SÍM ákvað að setja af stað tilraunaverkefni til tveggja ára og bjóða tveimur ungum félagsmönnum að dvelja frítt í gestavinnustofu SÍM í Berlín á hverju ári. Stjórn SÍM óskar Freyju Eilíf og Úlfi Karlssyni til hamingju með mánaðar dvalarstyrk í gestavinnustofu SÍM í Berlín. Freyja og Úlfur munu segja frá dvöl sinni í STARA ásamt því að gefa lesendum innsýn í listsköpun sína.

Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestavinnustofunum þegar pláss leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

Árið 2015 hefur verið mjög viðburðaríkt. Stjórn SÍM þakkar öllum nefndarmönnum sem hafa unnið gott starf fyrir SÍM á árinu og öllum þeim sem hafa komið að þeim mikilvægu verkefnum sem SÍM hefur unnið að.

Fyrir hönd stjórnar,

Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Lifað af listinni – upptökur

Netsamfélagið sá um að streyma málþinginu “Lifað af listinni” sem haldið var í Iðnó 18. mars sl. Hér er hægt að nálgast upptökur af málþinginu:

http://netsamfelag.is/index.php/extensions/s5-tab-show/bandalag-islenskra-listamanna-bil

 

Lifað af listinni

lal

 

 

BÍL, FJÖLÍS, STEF, MYNDSTEF og IHM boða til málþings um höfundarrétt í Iðnó 18. mars nk. Boðið verður upp á kaffi, te og með því. Málþingið byggir á stuttum erindum um nokkra veigamikla þætti höfundaréttar, sem eru ofarlega á baugi um þessar mundir. Einnig verða umræður á borðum og í pallborði í lok dags.

 1. Eintakagerð til einkanota
  Gunnar Guðmundsson, formaður IHM og framkvæmdastjóri SFH.
 1. Virði verka á vefnum
  Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs
 1. Samningskvaðir – frábær leið til aukins aðgengis
  Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri FJÖLÍS
 1. Ný tilskipun Evrópusambandsins um umsýslu með höfundarétti
  Vigdís Sigurðardóttir lögmaður
 1. Menningararfurinn og mikilvægi fræðslu um höfundarétt
  Knútur Bruun, fyrrv. stjórnarformaður MYNDSTEFs
 1. Hringborðsumræður með fulltrúum þingflokkanna
  – sýn löggjafans á framtíð höfundaréttar.

Málþingsstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL

Gunni og Felix krydda umræðuna með innskotum um inntak höfundaréttar og það hvernig listafólki gengur að lifa af listinni.

Helga Páley teiknari mun mynd-túlka (teikna) málþingið, túlka helstu lykilsetningarnar og stemninguna. Hægt verður að kynna sér afraksturinn í kaffihléi og að málþinginu loknu.

Þá munu gestir taka virkan þátt í málþinginu, því að erindum loknum verða umræður á borðum.

Aðalfundur BÍL 2016 – Fundargerð

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2016 var haldinn í Iðnó laugardaginn 13. febrúar 2016 kl. 13:00

Fundarmenn voru 39 samkvæmt viðveruskrá

Dagskrá aðlafundarins:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest.
 3. Fundargerð síðasta aðalfundar.
 4. Skýrsla forseta um starf BÍL 2015.
 5. Ársreikningar 2015.
 6. Kosning forseta.
 7. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
 8. Starfsáætlun 2016.
 9. Önnur mál.
 10. Erindi um höfundarrétt
 11. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Kosning fundarstjóra og fundarritara
Kolbrún Halldórsdóttir setti fundinn og lagði til að fundarstjóri aðalfundar yrði skipaður Markús Þór Andrésson og Margrét Örnólfsdóttir yrði skipuð ritari. Fundurinn samþykkti það einróma.

Lögmæti fundarins kannað og staðfest
Markús Þór kannaði lögmæti fundarins. Aðalfundur BÍL var boðaður með fundarboði 12. janúar og ítrekað fundarboð ásamt dagskrá sent út 30. janúar. Fulltrúar eru til staðar frá öllum aðildarfélögum BÍL og lögmæti fundarins var staðfest.

Fundargerð síðasta aðalfundar
Markús Þór bar aðalfundargerð frá 7. febrúar 2015 upp til samþykktar, en fundargerðin var send út með tölvupósti 14. febrúar 2015. Engar athugasemdir bárust og fundargerðin telst því samþykkt.

Skýrsla forseta um starf BÍL 2015
Kolbrún Halldórsdóttir flutti ársskýrslu sína. Sjá skýrsluna í heild í viðauka með þessari fundargerð. Stjórn hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu en auk þess voru haldnir sérstakir fundir um afmörkuð málefni, s.s. starfslaun listamanna, málefni Listaháskólans og málefni RÚV. Eitt nýtt aðildarfélag bættist í hópinn á árinu, Danshöfundafélag Íslands. Í skýrslu forseta má sjá tæmandi lista yfir fulltrúa BÍL í stjórnum, nefndum og ráðum, en Kolbrún fór yfir helstu breytingar sem orðið hafa þar á frá fyrra ári. Á þessum lista sést að starfsemi og aðkoma BÍL að hinum margvíslegu póstum menningarlífsins er mjög víðtæk og umfangsmikil. Á síðasta starfsári tók Björn Th. Árnason við starfi gjaldkera en það fyrirkomulag var jafnframt innleitt að dagleg umsýsla verkefna gjaldkera var færð til fjármálastjóra FÍH og þykir sú tilhögun hafa reynst vel. Kolbrún Halldórsdóttir lýkur nú sínu þriðja tímabili í embætti forseta og hefur tilkynnt að hún gefi kost á sér eitt tímabil enn. Samkomulag milli BÍL og Reykjavíkurborgar var endurnýjað í nóvember og olli vonbrigðum að fjárhæðin sem Reykjavíkurborg leggur til starfsemi BÍL fékkst ekki hækkuð. Samkomulag milli BÍL og ríkisins rennur út 2016 svo fyrir liggur að endurnýja það. Í tilfelli þess samkomulags fékkst örlítil hækkun á framlagi ríkisins til BÍL. Stærsta viðfangsefni BÍL ár hvert er að fara yfir fjárlögin. Sá háttur er hafður á að aðildarfélögin skoða hvert fyrir sig það sem snýr að þeirra geira, félögin gefa sjálfstæða umsögn sem BÍL dregur svo saman og samræmir í eina umsögn sem er send fjárlaganefnd og þingmönnum. Þar sem niðurstaða fjárlaga var nánast óbreytt frá upphaflegu frumvarpi virðist ekki mikið mark hafa verið tekið á umsögn eða tillögum BÍL. Niðurstaða fjárlaganna er því talsverð vonbrigði fyrir listalífið í landinu. BÍL hefur ítrekað lagt Sóknaráætlun í skapandi greinum fyrir stjórnvöld, stefnumótandi leiðarvísi í málefnum skapandi greina. Stjórnvöld hafa þó enn ekki séð hag sinn í að nýta sér þessa skýrslu, að því er séð verður. BÍL hefur alltaf þá kröfu á lofti að úthlutun opinberra fjármuna til skapandi greina sér fagleg. Í ljósi umfjöllunar um fyrirkomulag á úthlutunum starfslauna listamanna sem var óvenju harkaleg og ómálefnanleg í ár má benda á að BÍL hefur aldrei skorast undan að endurskoða og meta fyrirkomulagið og að frumkvæði Tónskáldafélags Íslands og Rithöfundasambands Íslands var skipaður faghópur til að fara yfir málið og meta hvort eitthvað væri við núverandi fyrirkomulag að athuga. Niðurstaða faghópsins var að ekkert væri við tilhögun og verklag fagfélaga að athuga og í einu og öllu sé farið að lögum og reglum. Kolbrún lagði til að í framhaldi yrði stjórn falið að setja saman siðareglur um hvernig staðið skuli að tilnefningum í úthlutunarnefndir. Kolbrún þakkaði Tónskáldafélaginu og Rithöfundasambandinu fyrir að hafa frumkvæði að því að setja í gang vinnu starfshópsins og þakkaði jafnframt starfshópnum fyrir gott starf. Kolbrún gerði grein fyrir samstarfi við Menningar og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar en sú breyting hefur orðið á að varamenn BÍL sem sitja fundi MFMR fá nú aukið vægi og er sú breyting til góðs. Kolbrún minnti á að fólk kynnti sér menningarstefnu borgarinnar vel því útfrá henni sé hægt að krefja borgina um efndir. Þegar Kolbrún lauk flutningi skýrslu sinnar þakkaði Markús Þór henni fyrir og opnaði fyrir viðbrögð fundarmanna. Jakob Magnússon, tónlistarmaður og formaður FTT, bað um orðið og þakkaði forseta fyrir góð störf og vísaði til ársreiknings BÍL því til staðfestingar að velta þessara „höfuðstöðva skapandi greina“ á Íslandi væri 6 milljónir. Jakob lagði til að fengið yrði leyfi til að afla greininni frekari tekna með einhverjum hætti, s.s. lottói og benti á að í nágrannalöndum séu dæmi um að allt að 50% lottótekna renni til skapandi greina. Með auknum tekjum gæti BÍL haft 1-3 starfsmenn í fullu starfi. Jakob gagnrýnir einnig það fókusleysi sem hlýst af því að málefni skapandi greina dreifist á mörg ráðuneyti og ítrekaði kröfuna um sérstakt ráðuneyti skapandi greina. Kolbrún Halldórsdóttir svaraði Jakobi og sagði hugmyndina um hlutdeild BÍL í lottótekjum oft hafa borið á góma. Það væri hins vegar mikil vinna fólgin í því að koma þessari hugmynd í framkvæmd og viðbrögðin þegar viðraður hefur verið sá möguleiki að listirnar fái aðkomu að lottóinu hafi hingað til verið afar neikvæð. BÍL hefur ekki fundið aðra möguleika á tekjuöflun. Í sambandi við ráðuneytismálin þá hefur BÍL ítrekað bent á að það hversu málefnum lista er dreift á mörg ráðuneyti geri málaflokkinn hornreka við ríkisstjórnarborðið, enginn einn ráðherra hefur okkar mál á oddinnum. Kolbrún tók því undir kröfuna um sérstakt ráðuneyti skapandi greina. Bjargey Ólafsdóttir myndlistarmaður bar fram spurninguna hvort það væri stemning fyrir því að hækka listamannalaunin. Kolbrún svaraði því að á stefnuskrá BÍL sé ófrávíkjanleg krafa að efla listamannalaunin, bæði með fjölgun mánaða og hækkun launanna. Hákon Már Oddsson kvikmyndagerðarmaður bar fram hugleiðingu vegna “Moskumálsins” í Feyneyjum þar sem farið var í málarekstur gegn Feneyjarborg. Einnig að IHM skyldi fara í mál til að fá lokað vefsíðum og setti spurningamerki við hvort nota ætti peninga listamanna í lögfræðikostnað og málarekstur af þessu tagi eða hvort hægt væri að nota aðrar leiðir. Hákon Már setti líka spurningamerki við að verið væri að verja rétt eigenda flutningsréttar og hvort rétt væri að listamenn væru hagsmunaverðir fyrir þann hóp. Kolbrún svaraði því til að höfundaréttarmál væru flókin og erfið en BÍL væri stöðugt að takast á við þau. Baráttan liggi fyrst og fremst hjá höfundaréttarsamtökum eins og Stefi og Myndstefi þó BÍL fylgist með þá hefur það ekki bolmagn til að beita sér mikið í þessum málum. Kolbrún benti á að eigendur flutningsréttar væru einnig m.a. leikarar, hljóðfæraleikarar og dansarar sem eru innan vébanda BÍL. Gauti Kristmannsson þýðandi og stjórnarmaður í RSÍ bar upp hugmyndina að stofnun íslenskrar efnisveitu til að tryggja að listamenn fái greitt eðlilega fyrir sína „vöru“ í stað þess að vera upp á erlendar efnistveitur komnir, sem borgi listamönnum skammarlega lítið. Kolbrún svaraði því að humyndin um íslenska efnisveitu hafi ekki verið rædd í stjórn BÍL en hvatti formann RSÍ til að taka málið upp.

Kosning forseta
Kolbrún Halldórsdóttir tilkynnti stjórn á fundi 11. janúar að hún gæfi kost á sér áfram. Ekkert mótframboð barst og var Kolbrún því sjálfkjörin til áframhaldandi setu í embætti forseta BÍL.

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga. Ragnheiður Tryggvadóttir og Sigurgeir Sigmundsson samþykktu að gefa kost á sér áfram til næstu tveggja ára.

Ársreikningar 2015
Björn Th. Árnason skýrði ársreikninga BÍL. Afkoma ársins er jákvæð, tekjur hafa aukist og gjöld og kostnaður lækkað. Laun hafa staðið í stað. Stjórn hefur staðfest reikningana. Björn benti á að annar skoðunarmaður, Ragnheiður Tryggvadóttir, væri erlendis en hefði fengið ársreikninginn sendan og myndi staðfesta hann með undirskrift sinni innan skamms. Engar athugasemdir bárust við þann fyrirvara eða  ársreikningana í heild og teljast þeir samþykktir.

Starfsáætlun 2016
Kolbrún Halldórsdóttir kynnti starfsáætlun BÍL, en hana má finna í heild sinni í viðauka með þessari fundargerð. Starfsáætlunin byggir sem fyrr á Sóknaráætlun skapandi greina en samþykkt hefur verið að leggja sóknaráætlunina sem upplegg fyrir stefnu BÍL. Lögð er áhersla á hvernig fjárhagslegur stuðningur við skapandi greinar ætti að þróast. Krafa um að tölulegum upplýsingum sé safnað saman skipulega, þar eru nágrannaþjóðir okkar eru komnar vel á veg en við erum eftirbátar. Sóknaráætlun í markaðs- og kynningarmálum innanlands sem utan er kynnt í starfsáætluninni og bent á nauðsyn þess að skapandi greinar fái sanngjarnan skerf af þeim fjármunum sem settir eru í kynningu á landinu sem ferðamannalandi, ekki síst þegar verið er að markaðsetja Ísland sem lista- og menningarland. Ferðaþjónustan hefur í auknum mæli sótt inn á svið menningarinnar en aftur á móti hefur óskum BÍL um samstarf innan ferða- og kynningargeirans, ekki verið nægilega vel tekið, t.d. náðu sjónarmið listafólks ekki inn í nýjan Vegvísi í ferðaþjónustu sem SAF og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið kynntu fyrir skemmstu. Mikilvægt er að efla kynningarmiðstöðvar listgreina og hönnunar, en þar er mikið verk fyrir höndum. Barátta LHÍ um að skólinn fái markaða fjármuni í öflugan rannsóknasjóð heldur áfram. Í þeim efnum má benda á að háskólarnir fá allt upp í 43% opinberra framlaga eyrnamerkt rannsóknum en hjá LHÍ er hlutfallið einungis 6%. Áfram verður unnið í að bæta skattalega stöðu listamanna. Til stendur að móta tillögur um hvernig uppbygging launasjóðanna til langs tíma ætti að líta út. Heimasíða BÍL. Kolbrún benti á að heimasíðan þyrfti á uppfærslu að halda og kallaði eftir tillögum að úrbótum og ef einhverjir væru áhugasamir um að þróa hugmyndir um þessi mál þá yrði því vel tekið. Kolbrún lauk kynningu sinni á starfsáætluninni og Markús Þór kallaði eftir að fundurinn samþykkti hana, var starfsáætlun samþykkt með handauppréttingum

Önnur mál
Kolbrún gerði grein fyrir skýrslu starfshóps um endurskoðun á verklagi við tilnefningar aðildarfélaga BÍL í úthlutunarnefndir launasjóðanna. Formaður starfshópsins var Margrét Bóasdóttir og aðrir í hópnum voru Birna Þórðardóttir og Rúnar Helgi Vignisson. Niðurstaða starfshópsin var sú að ekkert væri við verkferla og vinnulag fagfélaganna að athuga og að farið hafi í einu öllu verið eftir lögum og reglum. Starfshópurinn benti þó á leiðir til að bæta ferlana frekar m.a. með því að fagfélögin skipuðu sérstakar uppstillingarnefndir til að tilnefna í úthlutunarnefndirnar. Sömuleiðis lagði hópurinn til að BÍL setji saman siðareglur fyrir aðildarfélögin um verklag. Kolbrún lagði til að aðalfundur feli stjórn BÍL að smíða tillögu að starfsreglum um val í úthlutunarnefndir, sú tillaga yrði síðan send aðildarfélögunum til samþykktar. Markús Þór opnaði fyrir umræður. Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambandsins fór yfir atburðarás síðustu vikna þar sem rithöfundar sérstaklega fengu á sig mikla gagnrýni og hin árvissa umræða um listamannalaunin varð mun heiftarlegri en áður. Stjórn RSÍ fór strax í að skoða verklagið og sjá hvort þar væri eitthvað athugavert. Fjölmiðlaumfjöllun var villandi og full af rangfærslum og því enginn áhugi sýndur þegar á það var bent. Kristín benti á mikilvægi BÍL sem sameiningar- og samstöðutákns þegar upp kæmi staða sem þessi, enda beindist atlagan gegn öllum listamönnum en ekki bara rithöfundum. Kristín þakkaði Kolbrúnu fyrir að bregðast fljótt og vel við tillögu RSÍ og Tónskáldafélags Íslands að setja á stofn starfshópinn. Í lok umræðu um önnur mál kynnti Kolbrún fyrir fundinum ákvörðun stjórnar um að bjóða ekki upp á málþing samhliða aðalfundinum að þessu sinni eins og venja er, hins vegar verður sjálfstætt málþing um höfundarrétt haldið í mars. Til að undirbúa umræðu þess málþings væri nú boðið upp á erindi um grundvallaratriði lagasetningar um höfundarrétt og bauð Kolbrún velkomna Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra STEFs.

Erindi um höfundarréttarfrumvörp
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdstjóri STEFs flutti erindi sitt undir yfirskriftinni „Fyrir hverju erum við nú að berjast?“ Gerði hún grein fyrir þeim þremur frumvörpum um breytingar á höfundalögum sem liggja inni í þinginu 1) Munaðarlaus verk – sem er innleiðing á tilskipun ESB og fjallar um verk sem ekki finnast höfundar að. Þessi lög hjálpa til við að miðla verkum sem ekki finnast höfundar að og er því almennt fagnað. Guðrún sagði frá því að áður en verk gætu talist munaðarlaus þyrfti að fara fram ítarleg leit en almennt væri þetta frumvarp ekki umdeilt og virtist sem hagsmuna allra aðila væri gætt. 2) Verndartími hljóðrita. Aðalmarkmið þessa frumvarps er að bæta stöðu flytjenda svo þeir geti t.a.m. öðlast rétt á hljóðriti ef það hefur ekki verið gefið út lengi. 3) Samningskvaðir – hafa með að gera umboð rétthafasamtaka til að innheimta og útdeila rétthafagreiðslum. Þarf að aðlaga að EBS tilskipun. Frumvarpið bætir við fleiri möguleikum á að nota þetta kerfi og bætt er inn almennri grein til að mæta mögulegri þróun í framtíðinni, t.d. á tæknibúnaði.  Frumvarp um eintakagerð til einkanota er enn ekki komið fram, en það frumvarp er þó fullbúið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hefur verið kynnt á vef ráðuneytisins. Það er mikilvægt fyrir hagsmuni listamanna að það verði lagt fram, en líkir eru á að um það skorti pólitíska samstöðu. Þó ber að hafa í huga að ríkinu ber að bæta höfundum upp tekjumissi vegna eintakagerðar til einkanota og þar sem ákvæði núgildandi laga um eintakagerð til einkanota eru orðin úrelt og algert hrun hefur orðið á rétthafatekjunum síðustu 10 árin sagði Guðrún Björk að mögulega hafi ríkið skapað sér skaðabótaskyldu með því að bregðast ekki við. Guðrún sagði tvennt í stöðunni, annað hvort að halda áfram að þrýsta á um að málið verði klárað og gjaldstofninn útvíkkaður með því að leggja gjöld á fleiri tæki og búnað til afritunar eða að skipta um kúrs og krefjast þess að verði settur á stofn sjóður sem færi þá inn á fjárlög. Guðrún kynnti einnig að tilskipun ESB um rétthafasamtök væri á næsta leiti en með henni á að tryggja meira gagnsæi og auka traust á rétthafasamtökum. Hún viðraði jafnframt þá skoðun sína að tilskipunin gengi of langt hvað varðar fámenn lönd eins og Ísland, væri íþyngjandi og of ýtarlegar reglur fylgdu henni, sem myndu gera innleiðinguna hér á landi dýra og erfiða. Guðrún ræddi einnig um ýmis tengd áhyggjuefni rétthafa, eins og þá staðreynd að með aukinni netvæðingu og vaxandi dreifingu höfundarréttarvarins efnis í gegnum stórar efnisveitur á borð við Spotify og Netlix, lendi rétthafar neðst í goggunarröðinni og fái ekki nema brot af því sem þeir ættu að fá. Auk þess sé stór hluti veitna, eins og Facebook, Google og Youtube sem borga ekki fyrir notkun á efni. Guðrún ræddi um vanda rétthafa vegna tilskipunar frá 2001 þar sem innleitt var ákvæði um ábyrgðarleysi milliliða, eins og til að mynda fjarskiptafyrirtækja. Þetta geri að verkum að rétthafar eiga erfitt með að sækja þær greiðslur sem þeim ber. Nú sé hins vegar barist fyrir því að þetta ákvæði verði skýrt betur og nái aðeins til þeirra sem sannanlega geti talist hlutlausir milliliðir, það myndi þá opna fyrir möguleikann á því að semja um leyfisgjöld.

Fleira var ekki gert og sleit forseti fundinum rétt fyrir klukkan 16:00

FLH ársskýrsla 2015

SKÝRSLA FLH – STARFSÁRIÐ 2015

Félag leikskálda og handritshöfunda er aðalhagsmunafélag höfunda leikins efnis á Íslandi. Skráðir félagar í árslok 2015 voru 104, þar af greiðandi 70.

Félagið stendur vörð um hagsmuni leikskálda og handritshöfunda einkum hvað viðkemur höfundarétti, samningamálum, kjörum og starfsumhverfi stéttarinnar. Félagið gerir heildarsamninga við leikhúsin í landinu og við kvikmyndaframleiðendur og hefur samskipti við stjórnvöld og stofnanir um hvaðeina sem viðkemur málefnum leikskálda og handritshöfunda. Sömuleiðis beitir félagið sér fyrir því að auka veg og hróður íslenskrar leikritunar, hér á landi sem og annars staðar og tekur þátt í margvíslegu starfi sem miðar að því að koma íslenskum leikverkum og leikskáldum á framfæri. FLH á í nánu samstarfi við systurfélög sín á norðurlöndunum og formaður situr í stjórn Norrænu leikskáldasamtakanna. FLH er aðili að Evrópsku handritshöfundasamtökunum, FSE, og tekur virkan þátt í starfi þeirra. FLH er einnig aðili að Sviðslistasambandi Íslands.

SKIPULAG
Í stjórn FLH sitja: Margrét Örnólfsdóttir formaður, Salka Guðmundsdóttir gjaldkeri, Ólafur Egill Egilsson ritar, Ármann Guðmundsson meðstjórnandi og Nanna Kristín Magnúsdóttir meðstjórnandi.

Stjórnin fundar að jafnaði einu sinni í mánuði, nema yfir hásumarið, en mun meiri samskipti eiga sér stað með tölvupósti, auk þess sem aðkallandi verkefni kalla stundum á aukafundi. Stjórn starfar öll í sjálfboðavinnu og reynir að skipta með sér verkum eins og kostur er, einnig er eftir föngum leitað til almennra félaga að taka að sér verkefni þegar við á. Félagið leigir skrifstofu- og fundaaðstöðu í FÍL húsinu, Lindargötu 6.

HELSTU VERKEFNI OG VIÐBURÐIR 2015:

Undirbúningur viðræðna við SÍK um heildarsamninga milli handritshöfunda og sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda.

Umsókn FLH um aðild að Kvikmyndaráði – Samskipti við Kvikmyndaráð og Mennta- og menningamálaráðuneyti.

Samstarf við LHÍ – leikritunarsamkeppni fyrir útskriftarhóp 2016.

Samstarf við Borgarleikhúsið og Listahátíð í Reykjavík vegna höfundasmiðju sem haldin verður í maí 2016.

Norrænt samstarfsverkefni, undirbúningur – nordicDRAMA platform þar sem fjögur íslensk leikskáld verða hluti af 16 manna hópi höfunda frá fjórum norðurlöndum. (ágúst 2016– júní 2017)

Nordic Drama Now, september 2015 – Kynning á nýrri norrænni leikritun á vegum norrænu sendiráðanna í London með leiklestrum. Okkar fulltrúi var Brynhildur Guðjónsdóttir með verk sitt Brák. Viðburðurinn var gríðarvel sóttur og heppnaður í alla staði og hefur þegar stóraukið áhuga og eftirspurn eftir íslenskum leikverkum. Á næstu mánuðum er von á hópi ungra breskra leikstjóra til að kynna sér íslenskt leikhús nánar og hitta höfunda.

Stockfish kvikmyndahátíð, FLH er einn þeirra aðila sem stendur á bak við Stockfish og á fulltrúa í stjórn hátíðarinnar. Í tengslum við hátíðina er staðið fyrir handritasmiðju MIDPOINT auk masterclass um handritsskrif.

Aðalfundur NDU í Svíþjóð, september 2015 – þrír stjórnarmenn FLH sóttu aðalfund Norrænu leikskáldasamtakanna í Stokkhólmi.

Aðalfundur FSE og Evrópsku handritshöfundaverðlaunin – Formaður sótti aðalfund Evrópsku handritshöfundasamtakanna í Brussel og var jafnframt viðstaddur afhendingu fyrstu Evrópsku handritshöfundaverðlauna FSE.

Ný heimasíða félagsins er í smíðum og kemst vonandi í gagnið á næstu vikum.

Önnur reglubundin störf: 

Samningamál – leikhússamningar, RÚV samningar og samningar vegna handritsskrifa fyrir sjónvarp og kvikmyndir.

Upplýsingagjöf og samskipti um hvaðeina sem viðkemur málefnum leikskálda og handritshöfunda.

Leiðbeiningar og aðstoð við félagsmenn.

Margrét Örnólfsdóttir, formaður

Page 6 of 40« First...45678...203040...Last »