Skýrsla stjórnar starfsárið 2020 – 2021

Í stjórn FLÍ á starfsárinu sátu Kolbrún Halldórsdóttir formaður, Ástbjörg Rut Jónsdóttir gjaldkeri og Tryggvi Gunnarsson ritari. Varamenn í stjórn voru Andrea Elín Vilhjálmsdóttir, Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir og Harpa Arnardóttir.

Aðalfundur var haldinn óvenju seint á árinu vegna samkomutakmarkana. Hann átti upphaflega að fara fram í maí en var frestað til 22. júní 2020.

Fyrsti fundur eiginlegs starfsárs sitjandi stjórnar var því ekki haldinn fyrr en 27. ágúst en um fjarfund að ræða. Þetta nýja fundarfyrirkomulag reyndist vera nýja normið hjá stjórn, eins og svo mörgum öðrum. Stjórnin hittist sjö sinnum á starfsárinu og voru flestir fundir fjarfundir, einnig afgreiddi stjórn ýmis mál í tölvupóstum milli funda. Fundargerðir stjórnarfunda eru vistaðar í stafrænni skjalageymslu félagsins, auk þess sem þær eru aðgengilegar félagsmönnum á aðalfundi félagsins.

Nýir félagsmenn

Eftirtaldir aðilar sóttu um aðild að félaginu á starfsárinu og samþykkti stjórn allar umsóknir: Ágústa Skúladóttir, Adolf Smári Unnarsson, Kristín Eysteinsdóttir, Arnbjörg María Danielsen, Ragnar Bragason og Pétur Ármannsson. Stjórn vill nota tækifærið og bjóða þessa nýju félaga velkomna í félagið.

Innheimta félagsgjalda

Síðasti aðalfundur samþykkti tillögu um að hækka árlegt félagsgjald úr 25 þúsund krónum í 27 þúsund krónur fyrir starfsárið 2021-2022. Ljóst er að fjárhagsstaða félagsmanna hefur eðli málsins samkvæmt versnað á árinu sökum samkomutakmarkana og þess að sviðslistir hafa þurft að lúta ströngum sóttvarnarreglum og hafa á tímabilum verið beinlínis bannaðar. Þrátt fyrir það hafa heimtur félagsgjalda sjaldan verið betri. Stjórn hefur leyft sér að draga þá ályktun að mótlætið kunni að hafa eflt stéttarvitund leikstjóra, enda fjölgar erindum sem berast stjórn og varða réttindamál einstakra leikstjóra, ekki síst álitamálum varðandi réttindi félaga FLÍ í sjóðum BHM, t.d. sjúkrasjóði og starfsmenntunarsjóði.

Samningamál

Í samninganefnd fyrir hönd félagsins sátu Páll Baldvin Baldvinsson, Kolfinna Nikulásdóttir og Ástbjörg Rut Jónsdóttir. Stærstu mál samninganefndar á starfsárinu vour þau að haustið 2020 var gengið var frá nýjum stofnanasamningi við Þjóðleikhúsið sem undirritaður var 4. september 2020, auk þess sem leitað var leiða til að draga RÚV að samningaborðinu. Þungt hefur verið undir fæti í þeim umleitunum, en á síðustu vikum hafa mál verið að þokast í átt að formlegum samningaviðræðum. Stærstu álitaefnin í þeim viðræðum verða tengd greiðslum leikstjóra fyrir leikið efni í sjónvarpi, ásamt störfum leikstjóra fyrir útvarpsleikhúsið, sem virðist nú ekki með miklu lífsmarki sem stendur, og endurflutningi eldra efnis.

Á árinu hafa formenn sjö fagfélaga listamanna, sem hafa samninga við RÚV, aukið samstarf sín í milli með það að markmiði að binda endi á samningsbrot af hálfu RÚV, sem virðast hafa viðgengist árum saman og snerta listamenn úr öllum félögunum meira eða minna. RÚV hefur gripið til varna, en þó benda síðustu vendingar til þess að forsvarsmenn stofnunarinnar séu tilbúnari en áður að viðurkenna bortin og bæta fyrir þau. Félögin sem um ræðir eru FLÍ, FÍL, FÍH, FLH, FLB, RSÍ og TÍ. Á fundi sem haldinn var í ágúst 2020 með útvarpsstjóra og framkvæmdastjórum RÚV voru gefin fyrirheit um að öll félögin yrðu komin með endurnýjaða samninga um mitt ár 2021. Ekki er líklegt að það gangi eftir, enda mörg flókin mál sem þarf að leysa úr, t.d. mál tengd misnotkun RÚV á höfundaréttarvörðu efni, réttindum til endurflutnings og notkun RÚV á efni úr svokallaðri „gullkistu“.

IHM – Innheimtumiðstöð gjalda

Sagan endalausa, um hvernig skipta eigi því fjármagni, sem kemur til félaga höfunda, flytjenda og framleiðenda í gegnum IHM, hélt áfram á starfsárinu. Deilt hefur verið um hvort kannanir, sem gerðar hafa verið og byggja á norsku módeli um sambærilega skiptingu fjármuna vegna eintakagerðar til einkanota, gefi yfirhöfuð það góða mynd að raunverulegri eintakagerð, að þær séu tækar til að nota sem andlag skiptingarinnar. Samkvæmt þeim könnunum, og heimfærslu norska módelsins upp á okkar aðstæður, átti hlutur FLÍ af heildinni að lækka úr 2,5% í 0,28%. Stjórn FLÍ mótmælti og gerði alvarlega fyrirvara við aðferðafræðina og þessa niðurstöðu. Einnig hefur fulltrúi FLÍ í trúnaðarráði IHM mótmælt kröfu framleiðenda- og flytjendafélaga um þriðjungaskiptingu og hefur í því efni átt samleið með öðrum rétthafasamtökum sem standa vörð um hagsmuni höfunda.

Kaflaskil urðu í framvindu IHM-mála, þegar samþykkt var að skipa sáttamann, sem falið var að leggja fram miðlunartillögu skv. reglum IHM. Skipaður var hæstaréttardómari til starfans, Viðar Már Matthíasson, og skilaði stjórn FLÍ kröfugerð til hans sem fól í sér að hlutur FLÍ af heildinni yrði hækkaður úr 2,5% í 3%. Það var m.a. rökstutt með því að nýjar verktegundir hafi komið til sögunnar á seinni árum (frá því síðasti gerðardómur var upp kveðinn 1999) sem félagsmenn FLÍ eigi hlutdeild í og að ekki sé lengur til staðar það starfsöryggi, sem í síðasta gerðardómi að skiptingu, var talið nægja til að lækka hlut félagsmanna FLÍ m.v. eldri gerðardóm (frá 1993) úr 4% í 2,5%.

Í lok mars sl. skilaði sáttamaður svo tillögu sinni að skiptingu, sem fól í sér að hlutur FLÍ yrði hækkaður í 3%. Það var ánægjuefni fyrir okkur, en málið er þó ekki í höfn, því enn á eftir að fjalla endanlega um tillögu sáttamanns í trúnaðarmannaráðinu og er viðbúið að henni verði mótmælt. Ef ekki næst sátt eða sameiginleg niðurstaða í málið á vettvangi trúnaðarmannaráðs, er viðbúið að málið endi fyrir gerðardómi, sem er endanlegt úrræði skv. reglum IHM, en er bæði þungt í vöfum og kostnaðarsamt. Það má því spyrja hvort fjármunum, sem stjórnvöld greiða til rétthafasamtakanna í formi bóta til eiginlegra rétthafa, sé vel varið með því að greiða himinháar upphæðir til hæstaréttardómara, sem kallaðir yrðu saman til að skipa gerðardóminn. Málið verður að líkindum afgreitt á fundi trúnaðarmannaráðs á næstunni.

Lokið var við að deila út bótum til leikstjóra fyrir árið 2019 en gríðarmikil vinna fór í að endurskoða útdeilikerfi okkar. Ýmis álitamál komu upp og ber þar helst að nefna hvort hægt sé að útdeila þessum peningum á fyrirtæki einstaklinga eða félagasamtök, í stað einstaklinganna sjálfra. Þetta á sér í lagi við verk þar sem unnið var með flatan strúktúr og leikstjórn er í höndum margra einstaklinga. Niðurstaðan var sú að gerð var undantekning í ár og greitt til fyrirtækja/félagasamtaka, hafi þess verið sérstaklega óskað, en líklegt er að það fyrirkomulag þurfi að endurskoða svo fylgt sé ítrustu fyrirmælum um það að greiðslurnar eigi að skila sér til einstakra rétthafa með beinum hætti. Stjórn mun huga sérstaklega að þessu atriði í framtíðinni.

Þó mikil vinna hafi farið í að leita upp alla þá sem með réttu áttu kröfu í greiðslu úr þeim potti sem kom í hlut FLÍ að úthluta, þá var einkar ánægjulegt að ná sambandi við leikstjóra sem ekki höfðu formlega lýst kröfu í kjölfar auglýsingar þar um og þó mikið þyrfti að hafa fyrir að koma peningum til sumra, þá tókst þetta allt vel að lokum.

BHM

FLÍ hefur notið góðs af samstarfinu við BHM á starfsárinu, ekki síst hvað varðar verkefni það sem mælt er fyrir um í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um skráningu menningartölfræði, en til að ýta því verkefni áfram hefur hagfræðingur BHM, verið dyggur stuðningsmaður listamannafélaganna undir regnhlíf BHM. Þann stuðning má að miklu leyti skýra með aðkomu BHM að sameiginlegri framvarðasveit listageirans í tengslum við ráðstafanir stjórnvalda í Covid-ástandinu og aukinni áherslu formanna félaga listamanna á samstarfið við heildarstamtökin.

Lengi hefur verið knúð á um breytingar á fyrirkomulagi innheimtu aðildagjalda BHM. Þau félög, sem hafa farið í broddi fylkingar, eru fjölmennari félögin og hafa listamannafélögin (og önnur fámenn félög innan BHM) verið á varðbergi gagnvart þeim hugmyndum, enda hefur hugmyndafræði jöfnuðar ekki verið í forgrunni í þeim tillögum sem til skoðunar hafa verið. Eftir talsverð átök um tillögu starfshóps BHM um breytt fyrirkomulag aðildargjalda samþykkti meirihluti aðildarfélaga á aukaaðalfundi BHM í nóvember að fella niður árlegt fastagjald aðildarfélaga (150.000.-) og taka upp persónugjald í staðinn (11.500.- á haus m.v. 2021) og lækka á móti hlutfallið sem fer af launum félaga til BHM úr 0,17% í 0,034%. Með þessum breytingum lækkar heildargreiðsla FLÍ til BHM á ársgrundvelli, en þó þarf að athuga að persónugjaldið hækkar milli ára og tekur mið af verðlagsþróun. Breytingarnar koma því ekki illa við FLÍ fjárhagslega, en prinsippið í útreikningunum er stjórn ekki að skapi, þar sem aðferðafærðin byggir á afli fjölmennari félaga, sem telja ekki sanngjarnt að þau greiði niður hluta þjónustunnar sem önnur félög nýta sér. Mögulega er þetta ósanngjörn framsetning, en engu að síður þá er þetta ein leið til að líta á málin og varð til þess að listamannafélögin sátu hjá við atkvæðagreiðslu um málið á vettvangi BHM. Í framtíðinni er mikilvægt að þau fimm félög listamanna og hönnuða, sem eiga aðilda að BHM, skoði hvort borgi sig að fjárfesta í sameiginlegum starfsmanni í höfuðstöðvum BHM Í Borgartúni, með það að markmiði að hagsmuna einstakra félaga verði þannig betur gætt en með því fyrirkomulagi sem nú ríkir.

Frá og með september 2020 hafa leikstjórar, sem starfa á samningum FLÍ hjá Þjóðleikhúsinu, fengið 0,7% af heildarlaunum greitt inn í Starfsþróunarsetur BHM, en það veitir félögum fjölþætt tækifæri til endurmenntunarstyrkja. Hins vegar uppgötvaðist á árinu að í síðustu gerð samkomulagsins sem liggur til grundvallar launaútreikningi leikstjóra hjá Þjóðleikhúsinu, höfðu orðið þau mistök að starfsmenntunar-sjóður BHM er ekki inni sem einn af þeim sjóðum sem atvinnurekanda ber að greiða í af launum leikstjóra. Þetta stafar af því að á tímabili síðasta samkomulags hafði orðið breyting á sjóðakerfi BHM sem ekki skilaði sér með réttum hætti inn í nýjasta samkomulagið. Stjórn og samninganefnd eru sér meðvitaðar um mikilvægi þess að þetta verði lagað, en óvíst er að það gangi fyrr en að gildistíma samkomulagsins loknum, þ.e. 31. mars 2023.

Covid-ráðstafanir stjórnvalda

Mikið af störfum formanns á liðnu starfsári fóru í að gæta hagsmuna leikstjóra, og sviðslistamanna almennt, þegar kom að ráðstöfunum stjórnvalda vegna Covid-faraldursins. Gríðarleg vinna fór í að sníða úrræði sem hentað gætu listafólki og reyndist það þrautin þyngri. Þó náðist ýmislegt fram, og með harðfylgi forseta BÍL og samstarfi þvert á listgreinarnar, tókst að ná fram aukaúthlutun úr launasjóðum listmanna 2020 að upph. kr. 550 millj. og einnig að fjölga úthlutuðum mánuðum 2021, úr 1600 í 2150. Því miður tókst ekki að sannfæra stjórnvöld um mikilvægi þess að þetta fyrirkomulag yrði varanlegt, en þó ber að fagna niðurstöðunni hvað varðar 2021, en þá verður úthlutað úr sjóðunum sem hér segir:

  1. Starfslaun og styrkir hönnuða árið 2021 skulu svara til 75 mánaðarlauna.
    b. Starfslaun og styrkir myndlistarmanna árið 2021 skulu svara til 526 mánaðarlauna.
    c. Starfslaun og styrkir rithöfunda árið 2021 skulu svara til 646 mánaðarlauna.
    d. Starfslaun og styrkir sviðslistafólks árið 2021 skulu svara til 307 mánaðarlauna.
    e. Starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda árið 2021 skulu svara til 315 mánaðarlauna.
    f. Starfslaun og styrkir tónskálda árið 2021 skulu svara til 281 mánaðarlauna.

Hart var barist fyrir því að stjórnvöld bættu listafólki upp tekjutap ársins, með einhvers konar sérsniðnu úrræði. Það gekk ekki en á endanum náðist þó sá árangur að sjálfstætt starfandi og einyrkjar í blandaðri starfsemi áttu að geta sótt um atvinnuleysisbætur. Það gekk þó ekki eins vel og vonast hafði verið eftir þegar allt kom til alls, en gagnaðist einhverjum. Svo, þegar tekjufallsstyrkirnir voru kynntir, þá áttu þeir líka að ná til sjálfstætt starfandi og smæstu fyrirtækja, t.d. einkahlutafélaga og samlagsfélaga. Það sem gekk þó verst og er í raun ekki leyst enn, eru vandkvæðin við að laga stöðu leikhópanna og sjálfstæðra sviðlistahúsa, sem eru rekin sem menningarfélög. Fjölgun mánaða í launasjóðunum gagnaðist sviðslistafólki og tónlistarfólki ekki nógu vel, þar sem samkomubann kom í veg fyrir að hægt væri að bjóða áhorfendum á leiksýningar eða tónleika. Þó verður að segja að allir verkefnasjóðirnir hafa verið sveigjanlegir varðandi nýtingu þeirra styrkja sem hafa verið veittir, svo fjármunirnir munu gagnast þó það verði eitthvað síðar en upphaflega hafði verið ráð fyrir gert.

Ljóst er að listgreinarnar tóku á sig mikið högg í heimsfaraldrinum, sér í lagi sviðslistirnar, og virðist sem nýjustu upplýsingar Hagstofunnar leiði í ljós að höggið á menningargeirann hafi verið fimm sinnum þyngra en á aðra geira samfélagsins.

Samstarf fagfélaga listafólks og SAFAS

Í þessu erfiða ári hefur reynt á samstöðu fagfélaga listafólks og það verður að segjast að í þeim efnum hefur margt lukkast ljómandi vel, til viðbótar við það sem að ofan er talið. T.d. hafa sjö fagfélög staðið að sameiginlegu samtali við RÚV um réttindi listafólks, sem vinnur hjá stofnuninni, en öll hafa þessi félög verið með lausa samninga við RÚV um lengri eða skemmri tíma. Einnig hafa félögin staðið saman í deilum um framgöngu Íslensku óperunnar í kjaramálum listamanna hjá ÍÓ og staðið sameiginlega í því að knýja á um stofnun þjóðaróperu. Loks má geta um samstarfsvettvang fagfélaga sviðslistafólks undir hatti Sviðslistasambands Íslands- SAFAS, en hann var stofnaður í maí 2020, í samræmi við ný sviðslistalög, sem kveða á um að fagfélög sviðslistafólks undir hatti SSÍ – Sviðslistasambands Íslands, skuli tilnefna fulltrúa í sviðslistaráð, þjóðleikhúsráð og listdansráð. Á árinu hefur SAFAS því tilnefnt fulltrúa í þessi ráð og í úthlutunarnefnd launasjóðs sviðslistafólks. Talsmaður SAFAS er Kolbrún Halldórsdóttir formaður Félags leikstjóra á Íslandi.

Framundan eru kosningar til Alþingis og stefnir stjórn BÍL á að gangast fyrir sameiginlegu samtali fagfélaga listafólks við stjórnmálamenn um málefni menningar og lista. Eitt er víst að nauðsynlegt er að listafólk láti vel í sér heyra í aðdraganda kosninga ef ná á að styrkja starfsumhverfi listafólks svo einhverju nemi.

Menningarsjóður og félagssjóður

Menningarsjóður FLÍ hefur legið í dvala á starfsárinu, þar sem lítið hefur verið um námskeiðahald og utanlandsferðir leikstjóra, en framundan er vor-úthlutun 2021 þar sem engu var úthlutað 2020 verður hún ríflegri en síðustu úthlutanir. Þá hefur stjórn menningarsjóðsins verið að skoða reglur sjóðsins með tilliti til nauðsynlegra breytinga, sem kynntar verða á aðalfundi 2021. Loks má geta þess að stjórn hefur ákveðið að tryggja stöðu sjóðsins betur til frambúðar, með því að greina hann betur frá félagssjóði FLÍ og tryggja þannig að hann þjóni hlutverki sínu, en sé ekki notaður til að reka félagið. Til að það gangi eftir er þarf stjórn að kanna alla möguleika til að efla félagssjóðinn, sem ætlað er að standa undir rekstri skrifstofu félagsins.

FLÍ hefur áfram aðsetur á Lindargötu 6 í FÍL húsinu og hefur framleigt leikhópnum Sóma þjóðar aðstöðu þar og mun gera áfram út árið 2021. Það fyrirkomulag er þó til skoðunar, en ekki þótti ráðlegt að breyta fyrirkomulaginu í ár í ljósi yfirstandandi samkomutakmarkana og góðs samstafs við Sóma þjóðar.

Fjárhagsstaða

Staða fjármála félagsins er svipuð og verið hefur síðustu ár, þ.e. gengið hefur verið á eigið fé félagsins til að halda rekstrarniðurstöðu réttu megin við núllið. Endurskoðendur hvetja stjórn, nú sem fyrr, til að leita leiða til að styrkja fjárhagsgrunninn, með það að markmiði að ekki þurfi að ganga á eigið fé. Á síðustu árum hefur orðir hægfara viðsnúningur í rétta átt, en betur má ef duga skal. Jákvæðu fréttirnar eru þær að félagsgjöld innheimtast betur en áður og greiðslur í menningarsjóð hafa líka vaxið. Þegar þetta er ritað hefur ekki verið gengið endanlega frá ársreikningum og því ekki hægt að rita kafla um fjárhagsstöðu félagsins með réttu talnaefni, en það verður kynnt á aðalfundinum framundan .

Hljóðvarp Þjóðleikhússins o.fl.

Leitað var til stjórnar FLÍ þegar Þjóðleikhúsið ákvað að nýta starfskrafta hússins með óhefðbundnum hætti í Covid-faraldri og hljóðrita nokkur útvarpsleikrit sem aðgengileg yrðu á vef hússins. Stjórn FLÍ og samninganefnd samþykktu að ekki þyrfti að koma til sérstök greiðsla til félagsmanna vegna verkefnisins, bæði í ljósi aðstæðna og þar sem um var að ræða leikstjóra sem þegar voru á launum hjá húsinu en án verkefna, með einni undantekningu þó, en í því tilfelli var gerður sjálfstæður samningur um verkið. Samið var um að útvarpsleikrit þessi verði aðgengileg á vefnum út leikárið en verði áframhald á starfsemi af þessu tagi þarf að setjast niður og endurskoða málið, m.t.t. samninga við leikstjóra.

Bæði stóru leikhúsin þurftu að sýna mikinn sveigjanleika og hugmyndaauðgi í Covid-faraldrinum þegar endalaust var verið að breyta reglum um nándarmörk og fjöldatakmarkanir. Smærri sýningarrými fóru verr út úr faraldrinum en húsin sem eiga sterka fjárhagslega bakhjalla á borð við ríki og borg, en þó er ekki séð fyrir endann á afleiðingunum þar sem ekki er að fullu ljóst hvernig stjórnvöld munu koma til móts við tekjumissi og breyttar rekstrarforsendur á árinu 2021. Þá eru áhrifin á listamenn húsanna ekki að fullu komin fram heldur, margir urðu af störfum á þessu tímabili auk þess sem mörgum verkefnum hefur verið frestað til næsta leikárs. Það er því viðbúið að áhrifa faraldursins gæti enn um sinn, a.m.k. til loka þessa árs, auk þess sem óvissa ríkir um vilja fólks til að sækja leiksýningar og tónleika þegar allt opnast á ný. Sviðslistastofnanir, tónlistarhús, tónleikastaðir og sýningarými leikhópanna, eiga því eftir að glíma við erfiðar aðstæður enn um sinn ef að líkum lætur.

Sviðslistamiðstöð og þjóðarópera

Tvö mál, sem tekið hafa til sín orku og tíma á árinu, sviðslistamiðstöð og þjóðarópera, tengjast breyttum lögum um sviðslistir sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2019 og tóku gildi 1. júlí 2020. Samkvæmt þeim ber ráðherra að setja á laggirnar kynningarmiðstöð sviðslista til að kynna íslenskar sviðslistir bæði innan lands og utan, auk þess sem lögin gera ráð fyrir að stofnuð verði nefnd um þjóðaróperu, sem skili af sér tillögum eigi síðar en í árslok 2020. Sú nefnd var stofnuð og átti FLÍ einn fulltrúa í nefndinni, Arnbjörgu Maríu Danielsen, auk þess sem fyrrv. formaður stjórnar FLÍ, Páll Baldvin Baldvinsson, var fenginn til að leiða nefndina, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra. Nefndin var skipuð einhverjum vikum seinna en lögin gerðu ráð fyrir og skilaði því tillögum sínum þegar fáeinar vikur voru liðnar af árinu 2021, en ráðherra hefur hvorki birt tillögur nefndarinnar né óskað eftir samtali við fagfélög sviðslista- eða tónlistarfólks um þær, sem er undarlegt þar sem forysta félaganna þrýsti mjög á um þessa vinnu. Að baki þeim þrýstingi lá sú staðreynd að samningur ríkisins við sjálfseignarstofnunina Íslensku óperuna rann út í árslok 2019 auk þess sem ásakanir fjölda söngvara um samningsbrot ÍÓ og málaferli því tengd höfðu sitt að segja. Það sem vitað er um vinnu nefndarinnar er að niðurstaðan var ekki einróma og að einhver áhöld voru uppi um fjölda fulltrúa þegar kom að verklokum, en hluti af skilagrein nefndarinnar var tillaga að frumvarpi um þjóðaróperu, sem fagfélögin í geiranum hafa kallað eftir að verði birt í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem hægt væri að senda inn umsagnir og búa í haginn fyrir frumvarpi sem lagt yrði fram á Alþingi í haust. Ráðuneytið hefur ekki brugðist við þeirri ósk.

Stofnunar sviðslistamiðstöðvar hefur verið beðið í á annan áratug, það var því fagnaðarefni að ákvæði um atbeina stjórnvalda í því máli, skyldi ná inn í nýju sviðslistalögin. Það hefur hins vegar tekið tíma að þoka málinu áfram í ráðuneyti mennta- og menningarmála, en hita og þunga af því starfi hefur stjórn Sviðslistasambands Íslands borið, en FLÍ er einn stofnaðila miðstöðvarinnar. Málið er þar statt núna að búið er að ganga frá samþykktum fyrir miðstöðina og búið að fá staðfestingu sýslumanns á þeim. Fagfélögin hafa tilnefnt fulltrúa í stjórn miðstöðvarinnar og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir fjármunum til að reka hana. Það eina sem vantar upp á er að ráðuneytið skipi sína fulltrúa í stjórnina.

NSIR og norrænt menningarsamstarf

Norrænt samstarf félaga leikstjóra hefur legið niðri í Covid-faraldrinum, samstarfsvettvangurinn hefur ekki komið saman, þó auðvitað hefði verið hægt að halda rafrænan fund, en það hefur ekki verið stemning fyrir því og fólk frekar viljað bíða eftir að samkomutakmörkunum yrði aflétt. Nú er hins vegar stefnt að rafrænum fundi í júní, þar sem ljóst má telja að enn verði bið á því að hægt verði að funda í raunheimum.

Þrátt fyrir kröftugar mótbárur stendur menningargeirinn á Norðurlöndunum frammi fyrir miklum niðurskurði til norræns menningarsamstarfs, en í byrjun síðasta árs var tilkynnt um áform Norrænu ráðherranefndarinnar um að flytja fjármuni úr verkefnum tengdum listum og menningu til verkefna á vettvangi umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Þetta kom einkar illa niður á norrænu residensíunni Circolo Scandinavo í Róm, sem hafði fengið loforð um styrkari fjárhagsgrunn, en þau loforð voru tekin til baka með stefnubreytingu norrænna stjórnvalda. Formaður FLÍ, sem jafnframt gegnir formennsku í stjórn Circolo Scandinavo, átti á árinu í samskiptum við innlenda ráðherra, bæði ráðherra norrænnar samvinnu og ráðherra menningarmála, til að reyna að fá áformum um niðurskurðinn breytt, án árangurs. Hins vegar hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið veitt formanni FLÍ styrk til að geta sinnt starfi fyrir residensíuna með sómasamlegum hætti, fyrir það ber að þakka. Meðal þess sem starfið fól í sér á síðasta ári var að ráða nýjan forstöðumann, þar sem Ingólfur Níels Árnason, fyrrum formaður FLÍ, sem gegnt hefur starfinu sl. átta ár, lætur nú af störfum. Nýr forstöðumaður hefur verið ráðinn, Marie Kraft, sænskur arkitekt og leikmyndahönnuður.

Nýjustu fréttir af baráttu gegn niðurskurði til norrænnar menningarsamvinnu eru þær að Nordisk Kunstnerråd hefur nú ritað bréf til menningarmálaráðherra Norðurlandanna, sem tekið verður fyrir á fundi þeirra 4. maí nk., þar sem niðurskurðinum er harðlega mótmælt og þess óskað að fjárveitingum verði snúið til fyrra horfs.

Hagvísar menningar

Stjórnvöld hafa markað þá stefnu að ráðist skuli í gerð hagvísa fyrir menningu, listir og skapandi greinar, því má finna stað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2017. Verkefnið var falið Hagstofu Íslands, en það fór hægt af stað og hefur eiginlega lullað í hægagangi frá byrjun. BHM hefur þó lagt fagfélögum listamanna lið við að halda Hagstofunni við efnið, þannig rituðu forseti BHM og hagfræðingur BHM bréf til hagstofustjóra í upphafi árs 2021, þar sem óskað var svara við ítarlegum spurningum um verkefnið. Svör bárust í byrjun febrúar og í kjölfarið var haldinn fundur um málið, þar sem línur skýrðust nokkuð, en ljóst er að verkefnið kann að lognast út af ef félög listamanna og miðstöðvar lista og hönnunar eru ekki vakandi fyrir því að þrýsta á um framkvæmdir.

Hvað almenna félagsmenn áhrærir og þátt okkar í að bæta tölfræðina, þá er mikilvægt að hver og einn fylgist með skráningu sinni í atvinnugreinaflokka hjá skattinum, því ein af kröfunum sem gerðar eru til Hagstofunnar eru að gefin verði raunsönn mynd af fjölda þeirra sem starfa í listum og menningu, en til þess að tölurnar gefi rétta mynd er mikilvægt að hver og einn fylgist með sinn eigin skráningu í kerfi skattsins, því þaðan koma upplýsingar Hagstofunnar.

Menningarstefna

Stjórn hefur fylgst með vinnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins við gerð nýrrar menningarstefnu, sem ráðherra vildi að ráðist yrði í á þessum síðasta vetri kjörtímabilsins. Í því skyni var stofnaður fjölmennur starfshópur, sem fékk það verkefni að vinna drög að slíkri stefnu, en einhverra hluta vegna var ekki beðið eftir því að hópurinn lyki störfum heldur voru kynnt drög að stefnu, sem samin hafði verið í ráðuneytinu og hún sett í samráðsgátt stjórnvalda. Stjórn FLÍ sendi inn umsögn um drögin og taldi að byrjað hafi verið á vitlausum enda í málinu, enda liggur ekki fyrir með hvaða hætti menningarstefnan sem Alþingi samþykkti 2013 hefur verið innleidd, raunar var aldrei gerð heildstæð aðgerðaáætlun á grundvelli hennar, heldur einungis mörkuð áætlun um menningu barna og ungmenna, en jafnvel sú áætlun hefur ekki enn verið innleidd nema að litlu leyti. Það er því mat stjórnar FLÍ að aðferðafræði ráðuneytisins í þessu máli hafi verið stórlega ábótavant. Raunar voru flestar umsagnir um drögin þess eðlis að líklegt er að málið verði sett á ís, a.m.k. þar til eftir kosningar, en stjórnir fagfélaga listafólks munu þurfa að fylgjast með málinu áfram. Umsagnir málsins eru aðgengilegar í samráðsgátt stjórnvalda.


Lokaorð

Störf stjórnar hafa um margt litast af ástandinu sem Covid-faraldurinn hefur skapað í samfélaginu, fundir hafa verið haldnir á netinu og ekki mörg tækifæri gefist til að hitta félagana til skrafs og ráðagerða. Stjórn hefur þó eftir fremsta megni reynt að hafa augun á starfsáætlun 2020 – 2021. Eitt af verkefnum starfsáætlunar var að koma saman drögum að starfsreglum stjórnar og á aðalfundi 2021 er kynntur afrakstur af þeirri vinnu. Vinnan við endurnýjun heimasíðunnar hefur hins vegar ekki gengið eftir og ekki heldur verkefni um lifandi samtal við leikstjóra eða starfskjör hjá sjálfstæðu leikhúsunum, svo líklegt er að tekið verði til við þá þætti á því starfsári sem nú fer í hönd. Það sama má segja um ákvæði starfsáætlunar um að stjórn haldi skrá yfir verkefni félagsmanna hjá samningsaðilum FLÍ, það verkefni er á byrjunarstigi, mikið til í ljósi þess hversu verkefnaskrá leikhúsanna breyttist ört vegna faraldursins, sem varð til þess að fjöldi verkefna frestaðist um lengri eða skemmri tíma. Þessi staða kemur fram í því að starfsáætlun næsta árs verður keimlík þeirri sem gilti á liðnu ári, enda standa vonir til þess að faraldurinn sé á undanhaldi og þó áhrifa hans gæti eitthvað fram eftir árinu, þá má vænta þess að mannlíf og leikhúslíf verði komið í sitt fyrra horf þegar líður á leikárið 2021 – 2022.

Á aðalfundi FLÍ 2021 hverfur Tryggvi Gunnarsson úr stjórn FLÍ, en hann hefur setið í stjórninni síðan 2016 og bæði gegnt embætti gjaldkera og ritara, og úr samninganefnd félagsins hverfur Kolfinna Nikulásdóttir. Eru þeim færðar alúðarþakkir fyrir mikilvæg störf í þágu félagsins.