Við erum að ljúka sérstöku ári. Við vorum að klára covid nánast allt árið, ítrekað að reima á okkur skóna, stóðum svo skamma stund í dyragættinni áður en við spörkuðum þeim af okkur aftur og hentum upp í skáp. Í upphafi þessa árs, 2021, vorum við búin að fá aukið fjármagn inn í bæði verkefnasjóði og starfslaun, koma á koppinn tekjufallsstyrkjunum sem við vonuðumst til að myndu brúa bilið yfir í endurreisn og bjartari tíma sem alltaf virtust á næsta leyti. Svo reyndist ekki vera og hver árstíðin leið án þess að opnað yrði fyrir samveru og viðburði, sem er vissulega ein grunnforsenda menningar og listsköpunar.

Þetta ár var líka kosningaár sem gerði úrvinnslu þessa flókna máls erfiða, tímasetning kosninga og afgreiðsla fjárlaga var á elleftu stundu eftir pólitískan þurrkatíma nánast frá vori og fram yfir kosningar með svo ákaflega löngum stjórnarmyndunarviðræðum.

En engu að síður var nóg að gera.

Þjóðarópera

Undir lok kjörtímabilsins kallaði ráðherra eftir fulltrúum BÍL í undirbúningsnefnd um Þjóðaróperu, verkefni sem hefur verið á dagskrá lengi og tónlistar- og sviðslistafólk hefur kallað eftir stöðugleika í umhverfi þessa listforms. Þetta hefur reynst flókið ferli og ýmis sjónarmið litað samtalið en það sem klauf álit fyrstu nefndarinnar var ágreiningur um rekstrarform Þjóðaróperu. BÍL og aðildarfélögin hafa haft þá skoðun, og um það var tekist, að stofnanir sem bera uppi grunnstarfsemi menningarinnar s.s. Þjóðleikhús, Listasafnið, Dansflokkurinn og RÚV eigi að vera ríkisstofnanir. Allar þær þjóðir sem við berum okkur saman við reka stofnanir sem mynda kjölfestu menningarlífs þeirra. Sé vel utan um þær haldið skapa þær þann stöðugleika sem okkar annars fljótandi og kvika umhverfi er nauðsynlegt. Þetta á vissulega við um listræna getu stofnananna, en ekki síður skapa þær grunninn að stöðugleika í kjörum og réttindum listamanna.

Það staðfestir kröfuna um stöðugleika enn frekar að á sama tíma eigi listamaður eigi í málaferlum við Íslensku óperuna, þar sem tekist er á um skilning á samningum og þeim réttindum sem þeir veita. Það er mjög mikilvægt, og mikið undir, að viðunandi niðurstaða fáist í þeim málferlum, því að um gríðarlegt réttindamál er að ræða fyrir allan þann fjölbreytta hóp listamanna sem vinnur tímabundið við stofnanir sem njóta ríkulegs framlags af opinberu fé en telja sig á sama tíma geta túlkað og boðið samninga nánast eftir eigin geðþótta og framhjá fagfélögum listamanna.

Þessi kafli sem hófst um Þjóðaróperu en farin að snúast um annað, en nú er sem sagt nefnd númer tvö að störfum sem skilar af sér áliti og útreikningum um starfsemi Þjóðaróperu og ber BÍL miklar væntingar til þess að með þeirri vinnu verði hægt að leggja grunninn að stofnun Þjóðaróperu sem byggi á faglegum forsendum þar sem okkar fjölhæfi og sístækkandi hópur óperufólks fái tækifæri til að vaxa og dafna. En BÍL leggur á það ríka áherslu að fagmennska og þekking á þessu flókna listformi verði leiðarljósið við allar ákvarðanatökur.

Undir lok síðast kjörtímabilsins  gekk ríkisstjórnin í að klára nokkur verkefni sem út af höfðu staði af verkefnalista tímabilsins, sem vissulega hafði gengið úr skorðum vegna covid. Á þessum lista voru verkefni eyrnamerkt skapandi greinum, langþráð ákvörðun um framtíðarhúsnæði LHÍ,  uppbyggingu rannsóknarseturs skapandi greina á Bifröst og útgáfu fyrstu hagvísa. Framtíð LHÍ hefur lengi verið á baráttulista BÍL svo vonandi sér fyrir endann á því með þessum ákvörðunum. Rannsóknarsetur er vissulega fagnaðarefni, þetta verkefni er að frumkvæði Bifrastar og vonandi verður það okkur til heilla ásamt fyllri og betri skráningum hagvísa sem líka var hluti af þessum síðustu aðgerðum sitjandi ríkisstjórnar.

Hagvísar

Fyrstu birtu tölur Hagstofu Íslands á hagvísum vöktu blendnar tilfinningar og gáfu ekki greinagóða mynd af stöðunni, en mjór er mikils vísir og þau gögn sem hafa verið að birtast í kjölfarið eru ítarlegri og hefur BÍL, ásamt fleiri hagaðilum, verið í virku samtali við HÍ um að fylla betur upp í myndina. Skömmu fyrir áramót birtust tölur yfir stöðu einyrkja sem skráðir eru í menningarstarfsemi og samkvæmt þeim hefur orðið mikill atgervisflótti úr umhverfinu á árinu, tæplega 20 % einyrkjar hafa sagt upp skrásetningu sinni hjá RSK sem þýðir að þeir hafa farið yfir í önnur störf eða í það minnsta lokað rekstrarformi sínu. Þetta er í samræmi við niðurstöður systurfélaga okkar á Norðurlöndum og þýðir í raun að innviðirnir okkar hafa veikst, í þeirri merkingu að við töpum breidd í landslaginu. Okkar innviðir eru mannaflið og þekkingin svo þetta eru ekki góð tíðindi. BÍL hefur verið í góðu samtali við Hagstofuna ásamt fjölda félaga og stofnana sem hagsmuna eiga að gæta og vonandi á þetta eftir að verða listamönnum öflugt verkfæri í sínu samtali við alla þá aðila sem með menningu véla.

Atvinnumálin

BÍL hélt málþing um atvinnumálin og þá mynd sem hefur birst okkur á undanförnum tveimur árum, þá helst hversu allt okkar fljótandi og brotakennda umhverfi rúmast illa innan veggja hefðbundins regluverks vinnumarkaðar. Í öllum þeim gögnum sem við höfum safnað, aðildarfélög okkar og stærri samböndin eins og BHM, virðist um 70% þess fólks sem tilheyrir starfsvettvangi menningar og lista, einyrkjar að mestu, falla milli skips og bryggju sé þeim beint inn í hin hefðbundnu úrræði þegar gefur á. Á málþinginu kom margt fram; Lítil þekking á umhverfinu, skortur á gögnum, skortur á samningum og virðingarleysi gagnvart fagfélögum og samningum þeirra, bæði hjá stofnunum hins opinbera og þeim sem hljóta ríkulegt fjármagn til rekstrar sinnar starfsemi. Réttindaleysi, því  listamenn ná illa að vinna sér inn réttindi og viðhalda  þeim. En líklega er mikilvægasti þátturinn og grunnurinn lágar tekjur! Þetta umhverfi er ekki bundið við Ísland, þetta er sama  sagan víðast í okkar samanburðarlöndum og með mikilli breytingu á alþjóðlegum vinnumarkaði verður þetta að einhverju leyti umræða og barátta sem mun ná langt út fyrir okkar raðir. Dæmi um það eru tekjufallsstyrkirnir sem búnir voru til í samtali stjórnvalda og listamanna og voru með eins breiðvirka sýn og mögulegt var til þess að ná til sem flestra, greiddu út 11,3 milljarða á líftíma sínum af þeim runnu 552 milljónir til menningar og æskulýðsstarfsemi.

Kosningar

Kosningar voru haldnar í haust, 25. September, og BÍL reyndi eftir fremsta megni að koma málefnum menningar og listsköpunar á dagskrá umræðunnar og tóks það að mörgu leyti vel. Málefni listamanna og menningar voru framar í umræðunni en oft áður. Áferð pólitískrar umræðu þegar að listunum kemur er gjarnan áferð hagstjórnar og fjármagns. Í aðdraganda kosninganna fundum við fyrir þessari áherslu, og samtalið snerist gjarnan um framtíðarauðlindina, mannsandinn og hið hugverkadrifna samfélag væri framtíðartónlistin. Þetta er allt hið besta mál og við getum alveg stolt tekið þátt í þeirri umræðu en skapandi greinar er ekki annað hugtak yfir list, einhverstaðar í kjarna þessarrar hugmyndar er listin, skáldskapurinn  sem geymir þessar launhelgar  mannlífsins, það sem á eftir að lifa allar stefnur og pólitíska hugmyndafræði.

BÍL hélt úti hlaðvarpi í aðdraganda kosninga og fékk til sín alla forystumenn flokkanna og var prýðileg hlustun á það og reyndist vel að fá fólk til samtals á þessu opinbera trúnaðarstigi sem hlaðvörpin eru. Áherslan í kosningasamtalinu var töluverð á framtíðarsýn, kjaramál og eflingu og skýrari stjórnsýslu.

Nýtt ráðuneyti

Nýtt ráðuneyti var stofnað í kjölfar kosninganna, það tók nokkuð langan tíma að mynda stjórn en þegar hún birtist voru þau tíðindi að menningunni var búið nýtt ráðuneyti, ásamt ferðamálum og viðskiptum. Það var alveg smá skellur fyrst, við skulum vera alveg hreinskilinn með  það, þessir tveir átakapólar viðskipta og menningar voru skyndilega komin í eina sæng. En þegar rykið tók að setjast og yfirsýnin að skýrast er ekki hægt að segja annað en að það séu margir möguleikar í þessari uppstokkun. Fyrir það fyrsta, að stokka upp og endurmeta hugtökin og boðleiðirnar innan stjórnsýslunnar er öllum hollt. Við erum í ferðalagi með endurskipulag allra miðstöðvanna og stefnur allra listgreina með það að markmiði að sjálfstæði þeirra og hlutverk sé eflt. Að koma miðstöðvunum öllum í svipað form og með skýrar boðleiðir við yfirstjórn menningarmála og þeirra á milli gerir vonandi ákvarðanir bæði faglegri og skýrari. Ráðherra hefur sett upp hundrað daga áætlun um þau verkefni sem hún vill koma í framkvæmd á þessum tíma og á þeim lista eru verkefni sem allt of lengi hafa dregist. Búið er að skipuleggja samtalið við ráðuneytið út árið með dagsettum fundum og fyrstu verkefnin hafa verið sett í gang. Varðandi áhyggjur af þessu nýja sambúðarformi, þessarra málaflokka innan ráðuneytisins þá er það að segja að menning og listsköpun hefur alla tíð verið hliðarmálaflokkur í alltof uppteknu ráðuneyti og ofan í kaupið deilt skrifstofu með íþróttum og tómstundum. Í nýju ráðuneyti sem ber auk þess menningu í fyrri hluta nafns síns deilum við málaflokki sem keppir hvorki við okkur um athygli né fjármagn – menning og listsköpun er stærsti útgjaldaliður nýs ráðuneytis og fær athygli og rými í samræmi við það. Það má  alveg bera þá ósk í brjósti að ef að vel til tekst á næstu 100 dögum muni okkur takast það sem við lögðum upp með í aðdraganda kosninganna að efla stjórnsýslu lista, menningar og skapandi greina.

Fjárlög og framlög

Fjárlög voru samin í lok árs og í nokkurs konar pólitísku tómarúmi og því varð nokkuð kapphlaup að ná fram breytingum og umræðu um þau við glænýja þingmenn. Málaflokkurinn var í rauninni keyrður í gegnum reiknivélar með sjálfvirkri aðhaldskröfu sem lækkaði alla sjóði. Það gekk sem betur fer ekki eftir og í meðförum nýs menningarmálaráðherra fengu flestir verkefnasjóðirnir verulega hækkun og starfslaunin sömuleiðis ágæta krónutöluhækkun. Í kjölfarið var ráðist í viðspyrnuaðgerðir til handa tónlistargreinum og sviðslistum vegna, segi og skrifa!  lokaáfanga covid. Vinna okkar verður til þess gerð að auka rými innan fjármálaáætlunar næstu árin fyrir aukninguna í starfslaunsjóðinn, fjármögnun Þjóðaróperu og svo er fjöldi verkefna sem bíða eins og uppbygging húsnæðis LHÍ, aðstöðuleysi Listasafns íslands og fleira.

Menningarstefnur

Lagt var í vinnu við menningarstefnu bæði Reykjavíkurborgar og ríkisins með þátttöku hagaðila í feltinu. Menningarstefna ríkisins breyttist í menningarsókn til 2030, einskonar verkáætlun á grunni gildandi menningarstefnu og er ágætis vegvísir í vinnunni og samtali greina menningar, lista og stjórnsýslu. Í rauninni var alltof hratt farið í þessari vinnu til þess að hægt væri að gera þær kröfur að hún gæti gert einhvern heildaruppskurð á menningarstefnunni. En með þetta ágætis manifesto sem menningarstefna frá 2013 er má gera sér væntingar um að menningarsóknin sé ágætis eldsneyti fram á við.

Menningarstefna Reykjavíkurborgar var mjög fín vinna, þar sem reynt var að fletta við flestum steinum í menningarlandslaginu í mjög breiðu samtali og var hún samþykkt í borgarstjórn á haustmánuðum, og er prýðisverkfæri til að nýta í samtalið sem fram fer núna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Annað

Ýmsu fleiru má tæpa á og hefur verið á borði BÍL þetta árið. Samtök skapandi greina var endurvakið á árinu og BÍL gerðist aðili að þeim samtökum. Höfundaréttarmál eru alltaf að verða fyrirferðameiri og flóknari málaflokkur og hefur að mestu verið á hendi þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta, s.s. aðildarfélagana. Með nýrri tilskipun Evrópusambandsins þarf að fara fram nokkuð umfangsmikil og flókin vinna þar sem líklegt er að listamenn og samtök þeirra þurfi að standa vel saman. BÍL blandaði sér í undarlegt mál í Hafnarborg þar sem hluti sýningar fór svo fyrir brjóstið á bæjarstjóra sveitarfélagsins að hann lét fjarlægja hann og taldi sig í fullum rétti til þess sem formaður stjórnar safnsins þar sem heimild til þess vantaði í skipulagsráði.  Þetta hljómar saklaust en það er nákvæmlega svona sem ritskoðun fer fram. Valdhafinn á alltaf einhver spil úr búnka skrifræðisins til að minna fjórða valdið á sig. Hvort sem það er nú spil úr bunka  skipulagsnefndar eða sýslumaður í leit að týndum síma.

Lokaorð

Þetta hefur verið enn eitt tíðindaárið, eða samt ekki, við búin að bíða eftir því að rofi til. En við höfum náð að lyfta gólfinu, við eygjum betri tíð með eflingu stjórnsýslu og miðstöðva listgreinanna. Endurskoðun launasjóðsins, efling tölfræðigrunna og fleira. En fyrst og fremst megum við vera stolt af listamönnunum okkar sem hafa sýnt úthald og útsjónarsemi til að gera þó það sem hægt er. Við höldum áfram að skila af okkur verkum og starfi sem fylla mann stolti alla daga.

 

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna – starf og trúnaðarstörf

Stjórn BÍL er skipuð formönnum aðildarfélaga bandalagsins. Eftirtalin skipuðu stjórn BÍL í umboði síns félags á árinu 2020 og í kjölfarið er listi þeirra einstaklinga sem sinntu trúnaðarstörfum fyrir BÍL á liðnu ári.

Arkítektafélag Íslands – AÍ, Sigríður Maack, formaður,  varamaður: Hildur Steinþórsdóttir

Danshöfundafélag Íslands – DFÍ, Katrín Gunnarsdóttir, formaður, varamaður: Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir

Félag íslenskra hljómlistarmanna – FÍH, Gunnar Hrafnsson, formaður

Félag íslenskra leikara – FÍL,  Birna Hafstein, formaður

Félag íslenskra listdansara – FÍLD, Irma Gunnarsdóttir, formaður, varamaður: Guðmundur Helgason / Anna Norðdahl

Félag íslenskra tónlistarmanna – FÍ,  Hallveig Rúnarsdóttir, formaður, varamaður: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.

Félag kvikmyndagerðarmanna – FK, Sigríður Rósa Bjarnadóttir, formaður, varamaður: Steingrímur Dúi  Másson

Félag leikskálda og handritshöfunda – FLH, Margrét Örnólfsdóttir, formaður, varamaður: Huldar Breiðfjörð

Félag tónskálda og textahöfunda – FTT, Bragi Valdimar Skúlason, formaður.

Rithöfundasamband Íslands – RSÍ, Karl Ágúst Úlfsson, formaður, varamaður:  Vilborg Davíðsdóttir

Samband íslenskra myndlistarmanna – SÍM, Anna Eyjólfsdóttir, formaður, varamaður: Hlynur Helgason.

Samtök kvikmyndaleikstjóra – SKL, Dagur Kári Pétursson, formaður, varamaður: Ása Helga Hjörleifsdóttir

Tónskáldafélag Íslands – Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður, varamaður: Þuríður Jónsdóttir

Félag leikstjóra á Íslandi – FLÍ, Kolbrún Halldórsdóttir, formaður, varamaður: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir

Félag leikmynda og búningahöfunda – FLB, Eva Signý Berger, formaður

 

Margrét Örnólfsdóttir hefur gengt starfi ritara stjórnar, Gunnar Hrafnsson hefur sinnt stöðu gjaldkera. Lúðvík Júlíusson hefur séð um bókhald BÍL og endurskoðandi er Helga Björk Þorsteinsdóttir. Skoðunarmenn reikninga 2021 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.

 

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum:

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar. Áheyrnarfulltrúi: Erling Jóhannesson. Varamaður: Anna Eyjólfsdóttir

Fulltrúar BÍL í faghópi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Snorri Sigurðsson, tónlistarmaður. Varamaður: Samúel Jón Samúelsson, tónlistarmaður

Gunnar Gunnsteinsson, sviðslistamaður. Varamaður: Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, sviðslistamaður

Sigurlín Bjarney Gísladóttir, rithöfundur. Varamaður: Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur

Freyja Eilíf Logadóttir, myndlistarmaður. Varamaður: Haukur Páll Björnsson, myndlistarmaður

Kvikmyndaráð – Bergsteinn Björgúlfsson – 29.11.19–29.11.23 – Varamaður: Sigríður Rósa Bjarnadóttir

Fulltrúaráð Listahátíðar – Erling Jóhannesson

Stjórn listamannalauna – Ásgerður Júníusdóttir, varamaður: Guðmundur Helgason

Stjórn Skaftfells – Anna Eyjólfsdóttir, varamaður: Erling Jóhannesson

List án landamæra – Margrét Pétursdóttir, varamaður: Erling Jóhannesson

Listráð Hörpu – Ásmundur Jónsson

Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis – Páll Baldvin Baldvinsson – 09.10.17, varamaður: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Höfundarréttarráð – Erling Jóhannesson – 01.08.18–01.08.22

Stjórn Barnamenningarsjóðs – Áslaug Jónsdóttir, varamaður: Erling Jóhannesson

Starfshópur um málverkafalsanir – Jón B. Kjartanss. Ransu – okt. 2014, varamaður: Kolbrún Halldórsdóttir

Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins – Erling Jóhannesson

List fyrir alla – samráðshópur Hildur Steinþórsdóttir, Felix Bergsson

List fyrir alla – valnefnd, Rebekka A. Ingimundardóttir, Samúel Jón Samúelsson

Austurbrú, fagráð menningar – Hlín Pétursdóttur Behrens – maí 2019.

Menningarsjóður Guðjóns Samúelssonar – Erling Jóhannesson

Nordisk kunstnerråd – Erling Jóhannesson

Stjórn Gljúfrasteins – Erling Jóhannesson

Fulltrúar í undirbúningsnefnd fyrir stofnun Þjóðaróperu, Fyrri nefnd. – Hjálmar H. Ragnarsson, Arnbjörg María Daníelssen, Þóra Einarsdóttir.  Varamenn,      Hallveig Rúnarsdóttir, Oddur Arnþór Jónsson, Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Fulltrúar í undirbúningsnefnd fyrir stofnun Þjóðaróperu, seinni nefnd. Arnbjörg María Daníelsen, varmaður, Bjarni Thor Kristinsson