Author Archives: vefstjóri BÍL

Fundur með Vinstri-grænum

Frambjóðendurnir Kolbrún Halldórsdóttir og Jóhann Björnsson sátu fund með stjórn BÍL í hádeginu, föstudaginn 4. maí. Vegna jarðarfarar var aðeins fundað í eina klukkustund. Kolbrún hafði forsögu um stefnu Vinstri-grænna í menningarmálum. Í umræðunum var einkum dvalið við heiðurslaun listamanna, list í skólum og stuðning við opinberar menningarstofnanir, sem Vinstri-grænir telja vera sveltar af ásetningi – til að þröngva þeim til að leita til einkageirans um stuðning.

 

Fundur með Samfylkingu

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Mörður Árnason, frambjóðandi í Reykjavík, sátu hádegisverðarfund með stjórn BÍL mánudaginn 30. apríl. Fundurinn var vel sóttur og umræður stóðu í tvær klukkustundir.

Í upphafi fundar lýsti Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL, ánægju sinni yfir að sjá í stefnuskrá Samfylkingarinnar að hún vilji skattleggja tekjur af hugverkum með svipuðum hætti og fjármagnstekjur. Ingibjörg Sólrún tæpti á öðrum atriðum í menningarstefnunni. Báðir gestirnir komu inn á tillögur Samfylkingarinnar um skattaívilnanir vegna gjafa og framlaga til mannúðar- og menningarmála og Mörður útdeildi tillögu þeirra til þingsályktunar um þau mál. Svo var vitaskuld, meðal margs annars, rætt um Ríkisútvarpið, sem fundarmenn voru almennt á að væri enn ekki orðin sú menningarstofnun sem vonir hefðu staðið til.

 

Reykjavík fjárfestir í BÍL

Árlegur fundur BÍL með borgarstjóra var haldinn í Höfða 23. apríl sl. Í upphafi fundar rituðu Ágúst Guðmundsson forseti BÍL og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri undir nýjan samstarfssamning þar sem BÍL eru tryggðar milljón krónur árlega næstu þrjú árin, en á móti kemur ýmis þjónusta sem BÍL lætur borginni í té.

Formenn aðildarfélaganna komu á framfæri ýmsum af sínum hjartans málum og umræður voru fjörugar. Auk borgarstjóra sátu nokkrir borgarstarfsmenn fundinn, auk Menningar og ferðamálaráðs.

Í samantekt sinni í lok fundarins hafði borgarstjóri góð orð um að ýmislegt gæti ræst af óskalista BÍL, m.a. ráðstefna um byggingarstefnuna í Kvosinni eftir brunann um daginn, húsnæði fyrir myndlistarmenn úti á Granda og að fundi yrði komið á við Samband íslenskra sveitarfélaga um listkynningu í skólum. Hann lýsti yfir eindregnum áhuga sínum á að setja upp skilti til að gera menningarsögu Reykjavíkur sýnilega. Sama gerði Kjartan Magnússon, formaður Menningar og ferðamálaráðs.

Jón Kristinn Snæhólm rakti undirbúningsstarf að kvikmyndaborginni Reykjavík. Hann og borgarstjóri ræddu ennfremur um framtíð Tjarnarbíós, þar sem fyrirhugað er að Sjálfstæðu leikhúsin verði til húsa ásamt Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.

 

Umræðupunktar fyrir fund borgarstjórans í Reykjavík með Bandalagi íslenskra listamanna

Á stjórnarfundi BÍL 18. apríl 2007 var ákveðið að leggja fram eftirtalin umræðuefni fyrir fund okkar með borgarstjóra og öðrum fulltrúm borgarinnar:

 

1.

Sé menningarstefna Reykjavíkurborgar skoðuð, er eðlilegt að spurt sé hvort framlög til lista og menningar séu í rauninni nægilega há til að metnaðarfull áform nái fram að ganga. Almennt er stjórn BÍL þeirrar skoðunar að þeir fjármunir, sem til hinna ýmsu listgreina fara, nýtist vel og að afurðirnar skili sér til samfélagsins með margvíslegum hætti. Á þessu sviði er borgin að fá mikið fyrir lítið, að okkar áliti. Yrðu framlög til menningar og lista aukin, mætti búast við enn magnaðri afrakstri.

Stundum hendir það okkur að bera stuðning við listir saman við stuðning við íþróttirnar. Mun fleiri sækja listsýningar ýmiskonar en íþróttaleiki. Langvinsælasta íþróttagreinin, knattspyrnan, dregur að þriðjung af þeim fjölda sem sækir leiksýningar í borginni, svo dæmi sé tekið.

 

2.

Við höfum hug á að brúa bilið milli listamanna og skóla. Það sem sagt er um hinar ýmsu listgreinar í aðalnámsskrá grunnskólanna virðist ekki vera uppfyllt. Við höfum hug á að vinna að hentugri og hagkvæmri lausn á málinu og stuðla að auknu samstarfi listamanna og skólafólks.

 

3.

Sjálfstæðu leikhúsin hafa, í samvinnu við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík, lagt fram tillögur að breyttu Tjarnarbíói. Stjórn BÍL styður þesssar tillögur heilshugar og telur að fyrir tiltölulega lítið fé mætti gera úr Tjarnarbíói eftirsóttan menningarstað í miðbænum.

 

4.

Tónlistarþróunarmiðstöð hefur verið starfrækt í borginni með prýðisárangri. Nú eru blikur á lofti. Stjórn BÍL hvetur til aðgerða svo að starfsemin leggist ekki með öllu af.

 

5.

Ásýnd borgarinnar mætti stórum bæta með átaki í því að setja skildi á hús sem tengjast menningarsögu Reykjavíkur. Tvö dæmi: “Hér bjó Sigvaldi Kaldalóns.” “Hér skrifaði Þórbergur Þórðarson Bréf til Láru.”

 

6.

Sjórn Félags Íslenskra Listdansara (FÍLD) hefur farið yfir Menningarstefnu Reykjavíkurborgar: meginmarkmið og leiðir, með tilliti til listdans og uppbyggingu hans innan borgarinnar.

Niðurstaða er eftirfarandi: af þeim 8 markmiðum sem sett eru fram í menningaráætluninni og 44 leiðum sem útlistaðar eru innan þeirra, eru aðeins tvær leiðir sem jákvæðar eru í garð listdansins.  Ljóst er að markmiðum menningarstefnunnar verður ekki náð meðan þessa ójafnvægis gætir í áætluninni.

FÍLD leggur til að farið verði í markvissa uppbyggingu á stefnumótun fyrir listdans í borginni og búin verði til áætlanagerð með skýrum markmiðum. Tilefnið er sterkt og býður FÍLD menningarmálanefnd því faglega aðstoð sína svo að vel megi til takast.

 

7.

Byggingarlist

Stjórn BÍL vill enn á ný þrýsta á borgina að ljúka vinnu við gerð umhverfisgæða-  og byggingalistastefnu Reykjavíkurborgar. Drög að gerð hennar lágu fyrir í mars 2004, en endanlegri gerð er enn ólokið. BÍL hvetur borgina til að sem víðtækast samráð verði haft um þá stefnu svo hún verði metnaðarfull og hafi auk þess hljómgrunn í samfélaginu. Við hvetjum til að stefna borgarinnar endurspegli metnaðarfullt samfélag sem vill að í allri

umhverfismótun borgarinnar komi fram jákvæð og skapandi manngildi.

Stjórn BÍL leggur til að borgin taki upp þá stefnu að líta á byggingar sem umhverfislistaverk og setji sér markmið í samræmi við það. Byggingar á hennar vegum uppfylli þannig hæstu gæðakröfur hvað varðar formsköpun, notagildi og efnisval.

Þá leggur stjórn BÍL til að almenn og opin samkeppni með hæfum dómendum og viðurkenndum leikreglum, þar sem leitað er eftir því besta sem samtíminn getur skapað, verði haldið um öll veigamikil umhvefislistaverk, þar með taldar allar byggingar, sem borgin  stendur fyrir.

Stjórn BÍL hvetur einnig til þess að stuðlað verði að því í auknum mæli að kennsla á grunnskólastigi um umhverfis- og byggingarlist verði efld í grunnskólum borgarinnar, en útgáfa kennslubókar þess efnis, “Byggingarlist í augnhæð”, er fyrirhuguð í ágúst 2007.

 

8.

Tónlistarhús

Aðalfundur BÍL, 24. janúar 2007, samþykkti ályktun þar sem fundurinn “lýsti yfir ánægju sinni með að hafin sé bygging tónlistarhúss í Reykjavík, sem víst er að muni enn efla hið blómlega tónlistarlíf í landinu.”

 

Fundur með Framsókn

Fulltrúar úr hópi frambjóðenda Framsóknarflokksins komu til fundar við stjórn BÍL þann 25. apríl 2007, Jón Sigurðsson, formaður og iðnaðarráðherra, og Sæunn Stefánsdóttir, ritari flokksins. Umræður voru fjörugar og opinskáar.

 

Punktar fyrir fund bandalagsins og frambjóðenda Framsóknarflokksins

Í Iðnó klukkan tólf á hádegi miðvikudaginn 25. april 2007.

Helstu mál sem stjórn Bandalagsins óskar að ræða um við frambjóðendur Framsóknarflokksins:

 

1. Starfslaun listamanna.

24. janúar sl. samþykkti aðalfundur BÍL ályktun þar sem skorað er á Alþingi að fjölga starfslaunum listamanna.

“Í heilan áratug hefur fjöldi starfslauna listamanna staðið í stað. Á sama tíma hefur flest annað tekið stórfelldum breytingum, til dæmis hefur þjóðinni fjölgað um 13% og landsmenn búið við hagvöxt og vaxandi velmegun.”

 

2. Stefna Framsóknarflokksins í menningarmálum.

s.s. fjárfestingar í listum, listuppeldi og listmenntun, nýsköpun í listum og atvinnulífi, skattamál s.s. höfundaskattur, skattaívilnanir til fyrirtækja v. framlaga til menningarmála.

 

3. Ýmis mál sem formenn hinna 14 aðildarfélag BÍL munu vilja nefna.

 

Fundur með sjálfstæðismönnum

Stjórn BÍL átti hádegisfund með þremur frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins, mánudaginn 16. apríl 2007. Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, var í fararbroddi, en auk hennar komu Dögg Pálsdóttir og Sigurður Kári Kristjánsson á fundinn.

 

Punktar fyrir fund bandalagsins og frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins

Í Iðnó klukkan tólf á hádegi 23. april 2007.

Þetta tvennt var Bandalagi íslenskra listamanna efst í huga á fundinum með frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins:

 

1. Starfslaun listamanna.

24. janúar sl. samþykkti aðalfundur BÍL ályktun þar sem skorað er á Alþingi að fjölga starfslaunum listamanna.

“Í heilan áratug hefur fjöldi starfslauna listamanna staðið í stað. Á sama tíma hefur flest annað tekið stórfelldum breytingum, til dæmis hefur þjóðinni fjölgað um 13% og landsmenn búið við hagvöxt og vaxandi velmegun.”

 

2. Framlög til lista og menningarmála.

Ber að styðja íslenskar listir og menningu? Sé svarið jákvætt, þá hvernig?

 

Fundur með útvarpsstjóra

Páll Magnússon útvarpsstjóri sat hádegisfund með stjórn BÍL mánudaginn 19. mars. Hann útskýrði skipulagsbreytingar stofnunarinnar fyrir fundinum og svaraði spurningum um framtíðaráætlanir sínar.

Umræðupunktar á fundi Bandalags íslenskra listamanna með Útvarpsstjóra í Iðnó, mánudaginn 19. mars 2007, kl. 12.00

 

1. Sjónvarp

a) menning og listir

Formleg samskipti við kvikmyndageirann

Heimildamyndir frá sjálfstæðum framleiðendum

Aukning á leiknu efni

Útboð á leiknu efni

Talsetningar; aukning og útboð

Dansmyndagerð verði sjálfsagður þáttur í innlendri dagskrá

Fastir þættir um listir og menningu; víðtækari og dýpri umfjöllun um allar greinar

Vandaðir og fjölbreyttir þættir um tónlist

Þættir um íslenskt mál og málfar

 

b) Dagskrárstefna Sjónvarpsins í menningarmálum

Nýtt fyrirkomulag RUV; áhersluatriði þeirra sem helst koma að dagskrárstefnu

Viðhorf RUV til frumkvæðis utanaðkomandi aðila

Fréttamaður með (sér)þekkingu á menningarmálum

Listir og menning í Kastljósi

Viðhorfskannanir um hvað almenningur vill sjá – ekki aðeins áhorfsmælingar

Jafnræði með höfundum; Greint sé frá arkitekt bygginga þegar um þær er fjallað,     sbr. höfunda að bókum, myndum og tónlist

Listflutningur í lok frétta og kreditlistinn

 

2. Hljóðvarp

a) Rás 1

Útvarpsleikhúsið og framtíð þess

Tónleikar og upptökur með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Upptökur af tónleikum

Stúdíóupptökur með íslenskri tónlist og eða ísl. flytjendum

Vandaðir þættir um tónlist

 

c) Rás 2

Íslensk tónlist leikin á Rás 2

Umfjöllun um íslenska tónlist

 

c) Dagskrárstefna Hljóðvarps  í menningarmálum

Nýtt fyrirkomulag RUV; áhersluatriði þeirra sem helst koma að dagskrárstefnu

Fréttamaður með sérþekkingu á menningarmálum

 

Aðalfundur BÍL

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna var haldinn í Landnámssetrinu í Borgarnesi þann 20. janúar 2007. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum hélt Ágúst Einarsson rektor á Bifröst innblásinn fyrirlestur undir fyrirsögninni: Hvers vegna á að styðja við listir út frá hagrænu sjónarmiði?

 

Ályktanir aðalfundar BÍL,

Bandalags íslenskra listamanna,

í Borgarnesi 20. janúar 2007

 

Ályktun um nauðsyn þess að fjölga starfslaunum listamanna.

Í heilan áratug hefur fjöldi starfslauna listamanna staðið í stað. Á sama tíma hefur flest annað tekið stórfelldum breytingum, til dæmis hefur þjóðinni fjölgað um 16% og landsmenn búið við hagvöxt og vaxandi velmegun. Bandalag íslenskra listamanna skorar á alþingismenn að ráða á þessu bót.

 

Ályktun um menningarráðuneyti

Aðalfundur BÍL leggur til að stofnað verði sérstakt menningarráðuneyti. Margt bendir til þess að verðmætasköpun framtíðarinnar verði hvað mest í hinum skapandi atvinnugreinum – en alveg burtséð frá því er löngu tímabært að mikilvægi lista í íslensku samfélagi verði viðurkennt..

 

Ályktun um skattprósentu á tekjur af hugverkum

Bandalag íslenskra listamanna skorar á stjórnvöld að viðurkenna hugverk sem eign, er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir á borð við húsnæði, hlutabréf og kvóta og beri samkvæmt því 10% fjármagnstekjuskatt.

 

Ályktun um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins

Aðalfundur BÍL vill enn og aftur benda á menningarhlutverki Ríkisútvarpsins og hve mikilvægt það er að á vegum þess fari fram fjölbreytt íslensk dagskrárgerð og þá ekki síst vandað leikið efni.

Brýnt er einnig að Ríkisútvarpið leitist við að bregða ljósi á þá grósku sem ríkir í listsköpun landsmanna, og í því sambandi ber að fagna glæsilegum þáttum um íslenska tónlistarmenn sem nýlega hafa verið á dagskrá sjónvarpsins, auk stuttra þátta um myndlistarmenn. En betur má ef duga skal og það er ekki vansalaust að eini fasti þáttur sjónvarpsins um listir skuli hafa verið lagður niður og brýnt að ráðin verði bót á því sem bráðast.

Aðalfundurinn lýsir ánægju sinni með að sérstakur fréttamaður skuli nú sjá um menningarfréttir á rás eitt  í útvarpinu.

 

Ályktun um tónlistarhús

Aðalfundur BÍL lýsir yfir ánægju sinni með að hafin sé bygging tónlistarhúss í Reykjavík, sem víst er að muni enn efla hið blómlega tónlistarlíf í borginni.

Samráðsfundur með menntamálaráðherra

Þann 15. febrúar 2007 sat stjórn BÍL afar gagnlegan fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, og fulltrúum úr menntamálaráðuneytinu. Fundurinn stóð í hátt á þriðju klukkustund.

Málefnaskrá fyrir árlegan samráðsfund bandalagsins og menntamálaráðherra.

15. febrúar 2007.

 

Starfslaun listamanna.

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun þar sem skorað er á Alþingi að fjölga starfslaunum listamanna.

“Í heilan áratug hefur fjöldi starfslauna listamanna staðið í stað. Á sama tíma hefur flest annað tekið stórfelldum breytingum, til dæmis hefur þjóðinni fjölgað um 13% og landsmenn búið við hagvöxt og vaxandi velmegun.”

 

Menningarmálaráðuneyti

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun um að stofnað verði sérstakt menningarráðuneyti.

“Margt bendir til þess að verðmætasköpun framtíðarinnar verði hvað mest í hinum skapandi atvinnugreinum – en alveg burtséð frá því er löngu tímabært að mikilvægi lista í íslensku samfélagi verði viðurkennt”.

 

Menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og skilgreining hugtaka.

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun um “mikilvægi menningarhlutverks Ríkisútvarpsins og hve mikilvægt það er að á vegum þess fari fram fjölbreytt íslensk dagskrárgerð og þá ekki síst vandað leikið efni.”

BÍL bendir á nauðsyn þess að sameiginlegur hugtakaskilningur ríki og vísar til þjónustusamnings Menntamálaráðuneytis og RÚV ohf.

1. Skilgreining á því hvað telst vera íslenskt dagskrá og hvað telst vera innlent sjónvarpsefni, sbr. útvarpslög nr.53/2000, 7.gr. og svar menntamálaráðherra við fyrirspurn skv. þingskjali 485.

2. Skilgreining á hugtakinu sjálfstæður framleiðandi sbr. 3. gr. Samnings um útvarpsþjónustu í almannaþágu (s.k. þjónustusamningur) þar sem fjallað er um nýsköpun í dagskrárgerð.

3. Skilgreining á leiknu efni sbr. svar Bjarna Guðmundssonar framkv.stjóra RÚV til SÍK í okt. 2006.

 

Heiðurslaun listamanna.

BÍL telur mikilvægt að fagnefnd komi að veitingu slíkra launa. Fram hefur komið sú hugmynd að skilgreina þau að hluta til sem eftirlaun. Mikill vansi er að bágum kjörum aldinna listamanna sem hafa lagt þjóðinni til ómetanleg listaverk.

 

Skattprósenta á tekjur af hugverkum.

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun um “að skora á stjórnvöld að viðurkenna hugverk sem eign er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir á borð við húsnæði, hlutabréf og kvóta og beri samkvæmt því 10% fjármagnstekjuskatt.”

 

Skattlagning verðlaunafjár

BÍL álítur að lagabreytingar sé þörf og bendir á að verðlaun eru frekar hagnaður en tekjur, og ættu þau þ.a.l. að bera 10% skatt. Einnig er bent á að lottó- og happdrættismiðar eru skattfrjálsir.

Verðlaunafé í samkeppnum um byggingar og skipulag ber 24.5% virðisaukaskatt. Jafnræði þarf að vera með verðlaunafé arkitekta og verðlaunum annarra listamanna.

 

Byggingalistarstefna.

Þetta er vonandi síðasta árið sem Arkitektafélag Íslands þarf á samráðsfundi að ítreka

margra ára baráttumál sitt um mótun opinberrar byggingalistarstefnu. Heyrst hefur að nefndin hafi skilað verkinu af sér, svo að nú er beðið eftir útgáfu ritsins.  Vinna þarf næst að því að opinberri byggingalistastefnu verði framfylgt á metnaðarfullan hátt.

 

Endurskoðun grunnskólalaga – þáttur listuppeldis og samvinna skóla og listamanna.

Fulltrúar BÍL komu sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndarmenn á fundi sl. vor. Flestir virðast sammála um mikilvægi listkennslu og nauðsyn sköpunar og frumkvæðis innan grunnskólans. Kennslustundafjöldi í listgreinum er takmarkaður og finna þarf farveg fyrir samvinnu skóla og listamanna.

 

Lagasetning um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla og skipting skólastiga í listnámi.

Tónlistarskólar hafa fóstrað miklar auðlindir þjóðarinnar og hefur tónlistarfólk átt drjúgan þátt í að skapa ímynd Íslands meðal annarra þjóða. Sú óvissa og átthagafjötrar sem tónlistarnemar búa við, grefur undan framtíðarsýn þeirra og þjóðarinnar.

Skipting listnáms í skólastig er einn þáttur þessa vanda.

 

Um nám í listdansi.

stjórn Félags íslenskra listdansara vill leggja eftirfarandi spurningar fyrir  menntamálaráðherra:

1. Síðastliðið haust tóku þrír skólar að starfa eftir nýrri aðalnámskrá í listdansi á framhaldsskólastigi. Hvenær verður lögð fram skýr reglugerð varðandi rekstrarfyrirkomulag þessa náms þ.e. varðandi fjárhagslegan stuðning við listdansnám á framhaldsskólastigi?

Menntamálaráðuneytið hefur nú þegar tjáð fulltrúum FÍLD að verið sé að vinna að slíkri reglugerð. En sú vinna hefur staðið í tæpt ár og nú eru kosningar í nánd. Hvað verður gert til þess að koma í veg fyrir að málið lendi aftur á byrjunarreit ef t.d. til ríkisstjórnarskipta kemur? Verða sett einhver bráðabirðalög til þessa? Skólarnir þurfa nú að huga að skipulagi náms og inntökuprófum fyrir næsta ár og ríkir mikið óöryggi um hvort einhver grundvöllur sé til þess að starfa áfram.

2. Hvar er umræðan stödd milli ríkisins og sveitafélaganna varðandi breytt rekstrarfyrirkomulag listdansnáms í landinu sem og skiptingu skólastiga innan listdansins í menntakerfinu?

Í fyrra tjáði ráðherra fulltrúa FÍLD um að listdansnámið mundi fá sömu meðferð og annað listnám hjá sveitarfélögum, búið væri að funda með sambandi íslenskra sveitarfélaga um málið en ekki væri búið að ræða við einstök sveitarfélög að svo stöddu. Svo virðist sem hvorki gangi né reki í málinu þar sem enn er engin lausn í sjónmáli: af hverju og hver eru ykkar næstu skref í þessu máli?

3. Hvernig sér ráðherra fyrir sér uppbyggingu sjálfstæða dansgeirans svo kraftur hans geti nýst landinu frekar sem afl til  uppbyggingar og umbóta?

Íslenski dansflokkurinn er eini starfandi dansflokkurinn á föstum fjárframlögum frá ríkinu. Fyrir stuttu jókst framlag ríkissjóðs til dansflokksins til muna og nú starfa innan hans 12 dansarar í fastri stöður.  Fjöldi sýninga Íslenska dansflokksins á íslenskri og erlendri grundu eru nú orðinn svipaður og fjöldi sýninga sjálfstætt starfandi danshópa, dansara og danshöfunda.

Innan þessa hóps sjálfstætt starfandi aðila eru okkar fremstu danslistamenn, þeir sem aukið hafa hróður greinarinnar á innlendum og erlendum vettvangi svo um munar. Verkin á verkefnadagskrá þessara aðila eru afar fjölbreytt og ólík og býður þessi hópur listamanna íslenskum og erlendum leikhúsgestum upp á fjölbreytta íslenska dansmenningu,  menningu á heimsmælikvarða.  Ekki þarf að taka fram að aðbúnaður þessara sjálfstæðu aðila er mjög slakur og möguleikar á hinum ýmsu sviðum þar af leiðandi vannýttir.

 

Nám í kvikmyndagerð á háskólastigi.

Kvikmyndagerð er ein mikilvægasta listgrein samtímans. Listaháskólinn hefur lagt fram tillögur að námsbraut við skólann en fjármagn skortir til að byggja upp slíka deild. Mikilvægt er að slíkt nám geti hafist sem fyrst.

 

Sjálfstæðir Atvinnuleikhópar.

Starfsumhverfi sviðslistamanna hefur breyst umtalsvert. Stöðugildi ótímabundið ráðinna sviðslistamanna í stofnanaleikhúsunum hefur fækkað um 50% á undanförnum 5 árum.

Á sama tíma hefur starfsemi atvinnuleikhópa eflst til muna. Það er því mikilvægt að Menntamálaráðuneytið beiti sér fyrir auknum fjárframlögum til þeirra.

 

Fjárhagur listastofnana, s.s. Þjóðleikhúss og Listaháskóla.

Mikilvægt er að stofnunum sé tryggt fjármagn til eðlilegs viðhalds og þróunar.

 

Byggingamál Listaháskóla Íslands.

Við stofnun skólans var fyrirheit gefið um fullbúið húsnæði sem síðan hefur oft verið staðfest. Ein bygging sem hýsir alla starfsemi Listaháskólans er forgangsmál til að samlegðaráhrif listanna fái notið sín. Brýnt er að ákvarða í þessu máli.

 

Tónlistarhús

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun og “lýsti yfir ánægju sinni með að hafin sé bygging tónlistarhúss í Reykjavík, sem víst er að muni enn efla hið blómlega tónlistarlíf í landinu.”

 

Tónlistarsjóður

Fjármagn sjóðsins hefur ekki aukist frá stofnun hans, en stórum verkefnum fjölgað. Framlag úr sjóðnum til stofnunar Útflutningsskrifstofu tónlistar, tekur afar stóra hlutdeild.

Umsóknareyðublöð eru mjög efnismikil þegar sótt er til smærri verkefna.

 

IHM sjóður

Mikil nauðsyn er að gjald leggist á harða diska, eins og á myndbönd og geisladiska.

 

Vinnuaðstaða myndlistarmanna og vinnustofur fyrir erlenda listamenn.

Mikilvæg aðstaða er fengin fyrir myndlistarmenn en leigukjör á ,,markaðsverði” eru afar erfið. Mikilvægt að fá stuðning við rekstur vinnustofa fyrir erlenda listamenn en slíkur rekstur virðist falla vel að markmiðum norrænu ráðherranefndarinnar og hins nýja ,,residency- og mobilitetsprógrams”.

 

Listskreytingasjóður ríkisins og list í opinberum byggingum.

Mikilvægi myndlistar í opinberum byggingum  er hér með undirstrikað.

 

Staða sjónvarpsins – frá fundi BÍL 30.9.

Frá fundi BÍL 30. september 2006

Dagur Kári:

Staða sjónvarpsins

 

Þegar ég var beðinn um að halda lítið erindi um stöðu Ríkissjónvarpsins, þá fannst mér sjálfsagt að verða við þeirri bón. Taldi það bæði ljúft og skylt að taka þessa stofnun og valta yfir hana í örfáum orðum. Létt verk og löðurmannlegt að hakka hana í spað fyrir hlálega frammistöðu og algera vanrækslu á skyldum sínum? En ég var rétt búinn að bretta upp ermarnar og spýta í lófana, þegar þau tíðindi bárust að samningur hefði verið rissaður upp milli RÚV og Menntamálaráðuneytis, þar sem Ríkisútvarpið skuldbindur sig til að auka vægi innlends efnis um 50% á næstu 5 árum? Óneitanlega pirrandi fréttir fyrir mann sem er nýbúinn að brýna hnífana og kominn með blóðbragð á tunguna? Mér kom ósjálfrátt í þegar Ragnar Reykás hefur rétt náð sér á flug í sínum innblásnu niðurrifsræðum þegar nýjar upplýsingar berast sem verða til þess að hann neyðist til að taka U-beygju og söðla algerlega um. Eða hvað?… Kannski ætti maður bara halda sínu striki eins og ekkert hafi í skorist, því það er einhverra hluta vegna svo miklu auðveldara að vera neikvæður en jákvæður. Og í þeim anda ætla ég hérmeð að segja að mín fyrstu viðbrögð við þessum samningi eru eiginlega “So what?”. Auðvitað eru það gleðitíðindi að menn ætli að taka sig á, en miðað við kalt mat á stöðunni í dag, þá virkar 50% aukning á innlendu efni dálítið eins og dropi í hafið, nema hvað í þessu tilfelli þá er ekkert haf til að setja dropann í. Þótt ég viðurkenni fúslega að vera arfaslakur í reikningi þá óttast ég satt best að segja að þessi munur verði vart greinanlegur miðað við þá tölu sem þessi 50% eiga að leggjast ofaná. Í samningnum kemur fram að á næstu fimm árum skuldbindi Ríkisútvarpið sig til að verja meiri fjármunum til kaupa á innlendu dagskrárefni þannig að í lok samningstímans verði sú upphæð komin í 250 milljónir. Af hverju ekki 2,5 milljarða? Nú er að vísu hugtakið um peninga og fjárhæðir orðið svo hrottalega abstrakt eftir að Ísland varð aftur víkingaþjóð og hóf sína margumtöluðu útrás, að þegar ég heyri upphæðina 250 milljónir þá ímynda ég mér að svipað magn af klinki myndi hrynja á gólfið ef Björgúlfur hvolfdi úr buxnavösum sínum? En þetta er náttúrulega ósanngjarn og algerlega gagnslaus samanburður, en engu að síður þá svimar mig ekki við að heyra þessa tölu. En ég er þess fullviss að það þurfi einmitt svimandi upphæðir til að koma Sjónvarpinu á réttan kjöl. Og þessi sannfæring mín er ekki afsprengi græðgi eða vanþakklætis, því eins og heimurinn er að þróast þá er alveg ljóst að við verðum að berjast með kjafti og klóm fyrir menningu okkar og tungu. Við blöktum eins og kertalogi í ofsaroki og það verða allir að leggja fram lófa sína til að skýla þessari týru svo hún slokkni ekki. Þarna spilar Ríkisútvarpið stóra rullu og mín skoðun er sú að það eigi að leggja niður alla aðra starfsemi en þá að framleiða innlent dagskrárefni. Ríkissjónvarpið hefur í alltof langan tíma reynt af miklum vanefnum að þóknast öllum og þókast þar með engum. Landslag fjölmiðlunar hefur breyst gríðarlega á undanförnum áratugum, en í stað þess að endurskilgreina sig og marka sér sérstöðu, hefur Ríkissjónvarpið reynt að eltast við alla og dreift kröftum sínum alltof víða. Áðurfyrr var Sjónvarpið eina sjónvarpið og þurfti því að spanna allt sviðið, en í dag er staðan önnur. Ef þú hefur áhuga á íþróttum þá kaupir þú þér aðgang að íþróttarás. Ef þú kýst að horfa á Hollywood myndir þá kaupir þú þér aðgang að bíómyndarás… Fyrir mér þá þjónar Ríkisútvarpið bara einum tilgangi í dag og það er að vera fýsibelgur íslenskrar menningar. Að verja fjármunum og kröftum í annað eru ekki bara peningar út um gluggann, heldur líka vatn á myllu kölska.

 

Íslenskt barnasjónvarp í skúffum – frá fundi BÍL 30.9.

Frá fundi BÍL 30. september 2006

Kristín Helga Gunnarsdóttir:

Íslenskt barnasjónvarp í skúffum

Íslenskt sjónvarp fagnar nú fjörutíu ára afmæli. það þýðir að það verða bráðum fjörutíu ár síðan ég laumaðist út úr húsi á náttkjólnum eldsnemma á laugardagsmorgnum og hljóp á gúmmístígvélunum upp götuna heim til vinkonu minnar. Þar hittust syfjuð börn héðan og þaðan við sjónvarpstækið og horfðu saman á Köttinn Felix í svart/hvítu í boði kanans á Keflavíkurflugvelli. Við, þessi sem vorum svo ólukkuleg að búa í húsum herstöðvaandstæðinga, nutum þá góðs af ópólitískari foreldrum vina okkar.

Þannig liðu árin og uppistaðan í barnaefni sem glænýtt ríkissjónvarp bauð upp á árum saman var hin ævaforna Stundin Okkar. Mikið var maður þá þakklátur fyrir helgistundina með Rannveigu og Krumma.

Og nú langar mig svo að segja:

En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.

Því miður get ég ekki sagt það án þess að svelgjast á. Það litla sem hefur breyst hingað til að mínu mati er að Rannveig og Krummi urðu Birta og Bárður og afkomendur kattarins Felix eru talsettir í lit. Á afmælisdegi sjónvarpsins kl 16:40 var sýnd á RÚV upptaka Sjónvarpsins á Karíusi og Baktusi. Upptaka þessi er frá 1970. Á vef RÚV var auglýst að í tilefni af 40 ára afmæli Sjónvarpsins væri allt barnaefni í morgunsjónvarpinu íslenskt. Og íslenskt skal það vera – af því að það er afmæli. Og til þess að gera þetta kleift varð að fara í safnið gamla, góða og draga fram flest það sem gert hefur verið fyrir börn frá því að ég var að elta köttinn Felix á milli húsa á náttkjólnum.

Eitt og annað hefur verið í boði fyrir börn á RÚV í fjörutíu ár, svo sem tilviljanakennd jóladagatalaframleiðsla, samnorrænar og samevrópskar barnamyndir sem RUV hefur átt aðild að. Það vil ég þó ekki kalla innlent efni með öllu þar sem myndum er á stundum ritstýrt að utan og tungumálið má alls ekki heyrast. Vandaðir þættir hafa þó ratað inn í dagskrána á löngum tíma, s.s. þættir um börn í dagsins amstri eftir Lindu Ásgeirsdóttur á liðnu ári.

Forvitnilegt er að skoða könnun Kristínar Atladóttur, kvikmyndaframleiðanda, á frumsýndu íslensku barnaefni á RUV fyrir árið 2001. Stundin okkar er þar með talin. Á heilu ári var þá frumsýnt innlent barnaefni í rúmar nítján klukkustundir. Það þýðir 22 mínútur á viku eða rétt rúmlega 3 mínútur á dag.

Ekki sýnist mér í fljótu bragði ástandið hafa batnað til muna á þeim fimm árum sem liðin eru síðan Kristín gerði sína könnun.

Barnssál í mótun þarf örvun og hvatningu. Hún þarf að geta speglað sig í veruleika sínum og séð sjálfa sig í öðrum. Hún þarf að máta sig við jafnoka sína í svipuðum aðstæðum. Hún þarf að leita samnefnara og samkenndar í samhengi hlutana, jafnvel langt aftur í tímann. Hún þarf að leita hugrekkis og frelsis. Hún leitar og finnur, velur og hafnar. Og til þess að geta gert allt þetta á leið til þroska þarf  barnið að hafa fyrir augunum veruleika sem það kannast við, umber og skilur. Það þarf að horfa í spegil sem ýkir, skopast, umfaðmar og skelfir. Ef við viljum ala börnin upp í íslensku menningarumhverfi þurfa menningarmiðlar að taka duglega við sér. Þessi spegill, sjónvarpið sem barnið horfir meira í en við þorum að viðurkenna, verður að endurspegla sameiginlega upplifun okkar litla samfélags. Hann verður að sýna okkur raunveruleika þar sem fortíð kennir nútíð að takast á við ókomna framtíð. Þessi tenging er hverfandi.

Í okkar samfélagi er það staðreynd að uppalendur barnsins eru þrír: aðstandendur, skólakerfi og þriðji uppalandinn er sjónvarp og hin rafræna veröld.

Þegar Ágúst Guðmundsson bað mig að fara í þennan erfiða ratleik, sem heitir:  Hvar er íslenskt sjónvarp fyrir börn? vissi ég að það yrði flókin leit sem myndi leiða mig eftir krákustígum og krókaleiðum á ólíklegustu staði. Hvar er spegillinn sem börnin okkar spegla sig í? Hvar er þriðji uppalandinn? Ég hef þegar tíundað fátæklegt barnaefni ríkissjónvarpsins og nenni ekki að taka þátt í því að tilgreina talsettar teiknimyndir sem innlent efni sem þeir ku gera á RÚV. Þá er rétt eins hægt að kalla Bráðavaktina innlent efni af því að búið er að þýða allan textann.

Og ég ákvað að leita víðar, enda á íslensk sjónvarpsflóra að hafa aukið mjög á fjölbreyttni sína með tilkomu hinna svokölluðu frjálsu sjónvarpsstöðva. Skjár einn framleiddi í árdaga barnaefni. Það lagðist fljótlega af og ekkert kom í staðinn. Hjá 365 eða Stöð tvö var farið af stað með fögur fyrirheit og brotið lítið blað í íslensku barnasjónvarpi með tilkomu Afa  á laugardagsmorgnum.  Þáttur þessi var ódýr í framleiðslu, hóf göngu sína árið 1987, en flestum að óvörum var hann aflagður nú á vordögum. Þar með lauk hinum litlu afskiptum 365 af framleiðslu barnaefnis í sjónvarpi í bili. En afi karlinn fylgdi nokkuð mörgum árgöngum barna inn á fullorðinsárin á þessum tæpu tuttugu árum. Búbbarnir eru framleiðsla stöðvar tvö sem ku vera svar stöðvarinnar við Prúðuleikurunum. Ég hef ekki séð þá en hef heyrt að markhópurinn sé öll fjölskyldan.

Og nú vil ég vitna í kollega minn, Andra Snæ Magnason, sem hefur furðað sig á því að ekki skuli meðvitað reynt að nýta stofur þessa lands á laugardags og sunnudagsmorgnum til þess að ná til litlu arftakanna með vandaða íslenska framleiðslu. Hefur hann orðað það svo að hér sé um að ræða stærstu kennslustofu landsins.

Þessi kennslustofa er troðfull af smáfólki, en kennarar og leiðbeinendur eru hvergi nærri og talsettri fjöldaframleiðslu er sturtað yfir mannskapinn á meðan foreldrarnir sofa.

Og hvar er þá íslenskt sjónvarp fyrir börn? Örlítið brotabrot af því býr í Stundinni okkar og því sáralitla innlenda efni sem er sýnt, endursýnt og endurendursýnt. Stundin okkar sinnir þriggja til sjö ára. Efni fyrir átta til þrettán ára sem markhóp er ekki fyrir hendi.

En samt fann ég börnin við sjónvarpstækin út um allt því miðillinn heldur áfram að vera uppalandi hvort sem hann veldur því eður ei. Á meðan framleiðsla á íslensku barnaefni fyrir sjónvarp er í algjöru lágmarki halda börnin áfram að leita. Þau leita og þau finna sitt af hverju. Ég fann íslensk sjónvarpsbörn í Los Angeles með Skjá einum hjá Magna á sviði í Rockstar-Supernova. Ég fann þau í Ædoli stöðvar tvö, bandarísku sjónvarpsefni aðlöguðu að íslenskum aðstæðum. Ég fann sjónvarpsbörnin hjá Strákunum á Stöð tvö, sem áttu sína dyggustu áhorfendur meðal grunnskólabarna. Ég fann þau fyrir framan Ameríska toppfyrirsætuþáttinn, Sörvævor og Batsjélor.

Í fjölmiðlafræði, sem ég lærði fyrir löngu í Ameríku, er mér minnisstætt hugtakið LOP- least objectionable programming, en því var mikið hampað þar vestra. Það vísar til þess að meðal áhorfandi horfir á sjónvarp hvað svo sem er í boði. Hann velur ávallt það sem honum finnst skást. Þannig neyta börn einnig sjónvarps og mörg hver eftirlitslaust. Skásti kosturinn verður alltaf fyrir valinu. Með það í huga er enn mikilvægara að vanda til verks og bjóða aðeins það besta fyrir börn.

Við erum búin að finna börnin við sjónvarpið, en hvar er þá íslenskt sjónvarp fyrir börn? Ég fann það ofan í skúffum. Ég fann það í skúffum og í tölvuskjölum um allar trissur. Það er á hörðum diskum, í skrifborðsskúffum, í möppum og rykföllnum handritum í vinnustofum listamanna og fagfólks um allt land.

Frá og með árinu 2008 lofar RÚV að framleiða innlent efni fyrir árlega viðbót upp á 150 milljóna króna. Kannski verður þessum auka 150 milljónum veitt að hluta til í gerð vandaðs innlends efnis fyrir börn. Kannski verður hann smíðaður þessi stóri íslenski barnaspegill sem sárlega vantar fyrir sjónvarp í dag og hefur í raun alltaf vantað. Fyrir mér er þetta þó sýnd veiði, en alls ekki gefin.

 

Page 38 of 40« First...102030...3637383940