Author Archives: vefstjóri BÍL

Aðalfundur BÍL

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna var haldinn í Landnámssetrinu í Borgarnesi þann 20. janúar 2007. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum hélt Ágúst Einarsson rektor á Bifröst innblásinn fyrirlestur undir fyrirsögninni: Hvers vegna á að styðja við listir út frá hagrænu sjónarmiði?

 

Ályktanir aðalfundar BÍL,

Bandalags íslenskra listamanna,

í Borgarnesi 20. janúar 2007

 

Ályktun um nauðsyn þess að fjölga starfslaunum listamanna.

Í heilan áratug hefur fjöldi starfslauna listamanna staðið í stað. Á sama tíma hefur flest annað tekið stórfelldum breytingum, til dæmis hefur þjóðinni fjölgað um 16% og landsmenn búið við hagvöxt og vaxandi velmegun. Bandalag íslenskra listamanna skorar á alþingismenn að ráða á þessu bót.

 

Ályktun um menningarráðuneyti

Aðalfundur BÍL leggur til að stofnað verði sérstakt menningarráðuneyti. Margt bendir til þess að verðmætasköpun framtíðarinnar verði hvað mest í hinum skapandi atvinnugreinum – en alveg burtséð frá því er löngu tímabært að mikilvægi lista í íslensku samfélagi verði viðurkennt..

 

Ályktun um skattprósentu á tekjur af hugverkum

Bandalag íslenskra listamanna skorar á stjórnvöld að viðurkenna hugverk sem eign, er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir á borð við húsnæði, hlutabréf og kvóta og beri samkvæmt því 10% fjármagnstekjuskatt.

 

Ályktun um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins

Aðalfundur BÍL vill enn og aftur benda á menningarhlutverki Ríkisútvarpsins og hve mikilvægt það er að á vegum þess fari fram fjölbreytt íslensk dagskrárgerð og þá ekki síst vandað leikið efni.

Brýnt er einnig að Ríkisútvarpið leitist við að bregða ljósi á þá grósku sem ríkir í listsköpun landsmanna, og í því sambandi ber að fagna glæsilegum þáttum um íslenska tónlistarmenn sem nýlega hafa verið á dagskrá sjónvarpsins, auk stuttra þátta um myndlistarmenn. En betur má ef duga skal og það er ekki vansalaust að eini fasti þáttur sjónvarpsins um listir skuli hafa verið lagður niður og brýnt að ráðin verði bót á því sem bráðast.

Aðalfundurinn lýsir ánægju sinni með að sérstakur fréttamaður skuli nú sjá um menningarfréttir á rás eitt  í útvarpinu.

 

Ályktun um tónlistarhús

Aðalfundur BÍL lýsir yfir ánægju sinni með að hafin sé bygging tónlistarhúss í Reykjavík, sem víst er að muni enn efla hið blómlega tónlistarlíf í borginni.

Samráðsfundur með menntamálaráðherra

Þann 15. febrúar 2007 sat stjórn BÍL afar gagnlegan fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, og fulltrúum úr menntamálaráðuneytinu. Fundurinn stóð í hátt á þriðju klukkustund.

Málefnaskrá fyrir árlegan samráðsfund bandalagsins og menntamálaráðherra.

15. febrúar 2007.

 

Starfslaun listamanna.

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun þar sem skorað er á Alþingi að fjölga starfslaunum listamanna.

“Í heilan áratug hefur fjöldi starfslauna listamanna staðið í stað. Á sama tíma hefur flest annað tekið stórfelldum breytingum, til dæmis hefur þjóðinni fjölgað um 13% og landsmenn búið við hagvöxt og vaxandi velmegun.”

 

Menningarmálaráðuneyti

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun um að stofnað verði sérstakt menningarráðuneyti.

“Margt bendir til þess að verðmætasköpun framtíðarinnar verði hvað mest í hinum skapandi atvinnugreinum – en alveg burtséð frá því er löngu tímabært að mikilvægi lista í íslensku samfélagi verði viðurkennt”.

 

Menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og skilgreining hugtaka.

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun um “mikilvægi menningarhlutverks Ríkisútvarpsins og hve mikilvægt það er að á vegum þess fari fram fjölbreytt íslensk dagskrárgerð og þá ekki síst vandað leikið efni.”

BÍL bendir á nauðsyn þess að sameiginlegur hugtakaskilningur ríki og vísar til þjónustusamnings Menntamálaráðuneytis og RÚV ohf.

1. Skilgreining á því hvað telst vera íslenskt dagskrá og hvað telst vera innlent sjónvarpsefni, sbr. útvarpslög nr.53/2000, 7.gr. og svar menntamálaráðherra við fyrirspurn skv. þingskjali 485.

2. Skilgreining á hugtakinu sjálfstæður framleiðandi sbr. 3. gr. Samnings um útvarpsþjónustu í almannaþágu (s.k. þjónustusamningur) þar sem fjallað er um nýsköpun í dagskrárgerð.

3. Skilgreining á leiknu efni sbr. svar Bjarna Guðmundssonar framkv.stjóra RÚV til SÍK í okt. 2006.

 

Heiðurslaun listamanna.

BÍL telur mikilvægt að fagnefnd komi að veitingu slíkra launa. Fram hefur komið sú hugmynd að skilgreina þau að hluta til sem eftirlaun. Mikill vansi er að bágum kjörum aldinna listamanna sem hafa lagt þjóðinni til ómetanleg listaverk.

 

Skattprósenta á tekjur af hugverkum.

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun um “að skora á stjórnvöld að viðurkenna hugverk sem eign er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir á borð við húsnæði, hlutabréf og kvóta og beri samkvæmt því 10% fjármagnstekjuskatt.”

 

Skattlagning verðlaunafjár

BÍL álítur að lagabreytingar sé þörf og bendir á að verðlaun eru frekar hagnaður en tekjur, og ættu þau þ.a.l. að bera 10% skatt. Einnig er bent á að lottó- og happdrættismiðar eru skattfrjálsir.

Verðlaunafé í samkeppnum um byggingar og skipulag ber 24.5% virðisaukaskatt. Jafnræði þarf að vera með verðlaunafé arkitekta og verðlaunum annarra listamanna.

 

Byggingalistarstefna.

Þetta er vonandi síðasta árið sem Arkitektafélag Íslands þarf á samráðsfundi að ítreka

margra ára baráttumál sitt um mótun opinberrar byggingalistarstefnu. Heyrst hefur að nefndin hafi skilað verkinu af sér, svo að nú er beðið eftir útgáfu ritsins.  Vinna þarf næst að því að opinberri byggingalistastefnu verði framfylgt á metnaðarfullan hátt.

 

Endurskoðun grunnskólalaga – þáttur listuppeldis og samvinna skóla og listamanna.

Fulltrúar BÍL komu sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndarmenn á fundi sl. vor. Flestir virðast sammála um mikilvægi listkennslu og nauðsyn sköpunar og frumkvæðis innan grunnskólans. Kennslustundafjöldi í listgreinum er takmarkaður og finna þarf farveg fyrir samvinnu skóla og listamanna.

 

Lagasetning um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla og skipting skólastiga í listnámi.

Tónlistarskólar hafa fóstrað miklar auðlindir þjóðarinnar og hefur tónlistarfólk átt drjúgan þátt í að skapa ímynd Íslands meðal annarra þjóða. Sú óvissa og átthagafjötrar sem tónlistarnemar búa við, grefur undan framtíðarsýn þeirra og þjóðarinnar.

Skipting listnáms í skólastig er einn þáttur þessa vanda.

 

Um nám í listdansi.

stjórn Félags íslenskra listdansara vill leggja eftirfarandi spurningar fyrir  menntamálaráðherra:

1. Síðastliðið haust tóku þrír skólar að starfa eftir nýrri aðalnámskrá í listdansi á framhaldsskólastigi. Hvenær verður lögð fram skýr reglugerð varðandi rekstrarfyrirkomulag þessa náms þ.e. varðandi fjárhagslegan stuðning við listdansnám á framhaldsskólastigi?

Menntamálaráðuneytið hefur nú þegar tjáð fulltrúum FÍLD að verið sé að vinna að slíkri reglugerð. En sú vinna hefur staðið í tæpt ár og nú eru kosningar í nánd. Hvað verður gert til þess að koma í veg fyrir að málið lendi aftur á byrjunarreit ef t.d. til ríkisstjórnarskipta kemur? Verða sett einhver bráðabirðalög til þessa? Skólarnir þurfa nú að huga að skipulagi náms og inntökuprófum fyrir næsta ár og ríkir mikið óöryggi um hvort einhver grundvöllur sé til þess að starfa áfram.

2. Hvar er umræðan stödd milli ríkisins og sveitafélaganna varðandi breytt rekstrarfyrirkomulag listdansnáms í landinu sem og skiptingu skólastiga innan listdansins í menntakerfinu?

Í fyrra tjáði ráðherra fulltrúa FÍLD um að listdansnámið mundi fá sömu meðferð og annað listnám hjá sveitarfélögum, búið væri að funda með sambandi íslenskra sveitarfélaga um málið en ekki væri búið að ræða við einstök sveitarfélög að svo stöddu. Svo virðist sem hvorki gangi né reki í málinu þar sem enn er engin lausn í sjónmáli: af hverju og hver eru ykkar næstu skref í þessu máli?

3. Hvernig sér ráðherra fyrir sér uppbyggingu sjálfstæða dansgeirans svo kraftur hans geti nýst landinu frekar sem afl til  uppbyggingar og umbóta?

Íslenski dansflokkurinn er eini starfandi dansflokkurinn á föstum fjárframlögum frá ríkinu. Fyrir stuttu jókst framlag ríkissjóðs til dansflokksins til muna og nú starfa innan hans 12 dansarar í fastri stöður.  Fjöldi sýninga Íslenska dansflokksins á íslenskri og erlendri grundu eru nú orðinn svipaður og fjöldi sýninga sjálfstætt starfandi danshópa, dansara og danshöfunda.

Innan þessa hóps sjálfstætt starfandi aðila eru okkar fremstu danslistamenn, þeir sem aukið hafa hróður greinarinnar á innlendum og erlendum vettvangi svo um munar. Verkin á verkefnadagskrá þessara aðila eru afar fjölbreytt og ólík og býður þessi hópur listamanna íslenskum og erlendum leikhúsgestum upp á fjölbreytta íslenska dansmenningu,  menningu á heimsmælikvarða.  Ekki þarf að taka fram að aðbúnaður þessara sjálfstæðu aðila er mjög slakur og möguleikar á hinum ýmsu sviðum þar af leiðandi vannýttir.

 

Nám í kvikmyndagerð á háskólastigi.

Kvikmyndagerð er ein mikilvægasta listgrein samtímans. Listaháskólinn hefur lagt fram tillögur að námsbraut við skólann en fjármagn skortir til að byggja upp slíka deild. Mikilvægt er að slíkt nám geti hafist sem fyrst.

 

Sjálfstæðir Atvinnuleikhópar.

Starfsumhverfi sviðslistamanna hefur breyst umtalsvert. Stöðugildi ótímabundið ráðinna sviðslistamanna í stofnanaleikhúsunum hefur fækkað um 50% á undanförnum 5 árum.

Á sama tíma hefur starfsemi atvinnuleikhópa eflst til muna. Það er því mikilvægt að Menntamálaráðuneytið beiti sér fyrir auknum fjárframlögum til þeirra.

 

Fjárhagur listastofnana, s.s. Þjóðleikhúss og Listaháskóla.

Mikilvægt er að stofnunum sé tryggt fjármagn til eðlilegs viðhalds og þróunar.

 

Byggingamál Listaháskóla Íslands.

Við stofnun skólans var fyrirheit gefið um fullbúið húsnæði sem síðan hefur oft verið staðfest. Ein bygging sem hýsir alla starfsemi Listaháskólans er forgangsmál til að samlegðaráhrif listanna fái notið sín. Brýnt er að ákvarða í þessu máli.

 

Tónlistarhús

Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun og “lýsti yfir ánægju sinni með að hafin sé bygging tónlistarhúss í Reykjavík, sem víst er að muni enn efla hið blómlega tónlistarlíf í landinu.”

 

Tónlistarsjóður

Fjármagn sjóðsins hefur ekki aukist frá stofnun hans, en stórum verkefnum fjölgað. Framlag úr sjóðnum til stofnunar Útflutningsskrifstofu tónlistar, tekur afar stóra hlutdeild.

Umsóknareyðublöð eru mjög efnismikil þegar sótt er til smærri verkefna.

 

IHM sjóður

Mikil nauðsyn er að gjald leggist á harða diska, eins og á myndbönd og geisladiska.

 

Vinnuaðstaða myndlistarmanna og vinnustofur fyrir erlenda listamenn.

Mikilvæg aðstaða er fengin fyrir myndlistarmenn en leigukjör á ,,markaðsverði” eru afar erfið. Mikilvægt að fá stuðning við rekstur vinnustofa fyrir erlenda listamenn en slíkur rekstur virðist falla vel að markmiðum norrænu ráðherranefndarinnar og hins nýja ,,residency- og mobilitetsprógrams”.

 

Listskreytingasjóður ríkisins og list í opinberum byggingum.

Mikilvægi myndlistar í opinberum byggingum  er hér með undirstrikað.

 

Staða sjónvarpsins – frá fundi BÍL 30.9.

Frá fundi BÍL 30. september 2006

Dagur Kári:

Staða sjónvarpsins

 

Þegar ég var beðinn um að halda lítið erindi um stöðu Ríkissjónvarpsins, þá fannst mér sjálfsagt að verða við þeirri bón. Taldi það bæði ljúft og skylt að taka þessa stofnun og valta yfir hana í örfáum orðum. Létt verk og löðurmannlegt að hakka hana í spað fyrir hlálega frammistöðu og algera vanrækslu á skyldum sínum? En ég var rétt búinn að bretta upp ermarnar og spýta í lófana, þegar þau tíðindi bárust að samningur hefði verið rissaður upp milli RÚV og Menntamálaráðuneytis, þar sem Ríkisútvarpið skuldbindur sig til að auka vægi innlends efnis um 50% á næstu 5 árum? Óneitanlega pirrandi fréttir fyrir mann sem er nýbúinn að brýna hnífana og kominn með blóðbragð á tunguna? Mér kom ósjálfrátt í þegar Ragnar Reykás hefur rétt náð sér á flug í sínum innblásnu niðurrifsræðum þegar nýjar upplýsingar berast sem verða til þess að hann neyðist til að taka U-beygju og söðla algerlega um. Eða hvað?… Kannski ætti maður bara halda sínu striki eins og ekkert hafi í skorist, því það er einhverra hluta vegna svo miklu auðveldara að vera neikvæður en jákvæður. Og í þeim anda ætla ég hérmeð að segja að mín fyrstu viðbrögð við þessum samningi eru eiginlega “So what?”. Auðvitað eru það gleðitíðindi að menn ætli að taka sig á, en miðað við kalt mat á stöðunni í dag, þá virkar 50% aukning á innlendu efni dálítið eins og dropi í hafið, nema hvað í þessu tilfelli þá er ekkert haf til að setja dropann í. Þótt ég viðurkenni fúslega að vera arfaslakur í reikningi þá óttast ég satt best að segja að þessi munur verði vart greinanlegur miðað við þá tölu sem þessi 50% eiga að leggjast ofaná. Í samningnum kemur fram að á næstu fimm árum skuldbindi Ríkisútvarpið sig til að verja meiri fjármunum til kaupa á innlendu dagskrárefni þannig að í lok samningstímans verði sú upphæð komin í 250 milljónir. Af hverju ekki 2,5 milljarða? Nú er að vísu hugtakið um peninga og fjárhæðir orðið svo hrottalega abstrakt eftir að Ísland varð aftur víkingaþjóð og hóf sína margumtöluðu útrás, að þegar ég heyri upphæðina 250 milljónir þá ímynda ég mér að svipað magn af klinki myndi hrynja á gólfið ef Björgúlfur hvolfdi úr buxnavösum sínum? En þetta er náttúrulega ósanngjarn og algerlega gagnslaus samanburður, en engu að síður þá svimar mig ekki við að heyra þessa tölu. En ég er þess fullviss að það þurfi einmitt svimandi upphæðir til að koma Sjónvarpinu á réttan kjöl. Og þessi sannfæring mín er ekki afsprengi græðgi eða vanþakklætis, því eins og heimurinn er að þróast þá er alveg ljóst að við verðum að berjast með kjafti og klóm fyrir menningu okkar og tungu. Við blöktum eins og kertalogi í ofsaroki og það verða allir að leggja fram lófa sína til að skýla þessari týru svo hún slokkni ekki. Þarna spilar Ríkisútvarpið stóra rullu og mín skoðun er sú að það eigi að leggja niður alla aðra starfsemi en þá að framleiða innlent dagskrárefni. Ríkissjónvarpið hefur í alltof langan tíma reynt af miklum vanefnum að þóknast öllum og þókast þar með engum. Landslag fjölmiðlunar hefur breyst gríðarlega á undanförnum áratugum, en í stað þess að endurskilgreina sig og marka sér sérstöðu, hefur Ríkissjónvarpið reynt að eltast við alla og dreift kröftum sínum alltof víða. Áðurfyrr var Sjónvarpið eina sjónvarpið og þurfti því að spanna allt sviðið, en í dag er staðan önnur. Ef þú hefur áhuga á íþróttum þá kaupir þú þér aðgang að íþróttarás. Ef þú kýst að horfa á Hollywood myndir þá kaupir þú þér aðgang að bíómyndarás… Fyrir mér þá þjónar Ríkisútvarpið bara einum tilgangi í dag og það er að vera fýsibelgur íslenskrar menningar. Að verja fjármunum og kröftum í annað eru ekki bara peningar út um gluggann, heldur líka vatn á myllu kölska.

 

Íslenskt barnasjónvarp í skúffum – frá fundi BÍL 30.9.

Frá fundi BÍL 30. september 2006

Kristín Helga Gunnarsdóttir:

Íslenskt barnasjónvarp í skúffum

Íslenskt sjónvarp fagnar nú fjörutíu ára afmæli. það þýðir að það verða bráðum fjörutíu ár síðan ég laumaðist út úr húsi á náttkjólnum eldsnemma á laugardagsmorgnum og hljóp á gúmmístígvélunum upp götuna heim til vinkonu minnar. Þar hittust syfjuð börn héðan og þaðan við sjónvarpstækið og horfðu saman á Köttinn Felix í svart/hvítu í boði kanans á Keflavíkurflugvelli. Við, þessi sem vorum svo ólukkuleg að búa í húsum herstöðvaandstæðinga, nutum þá góðs af ópólitískari foreldrum vina okkar.

Þannig liðu árin og uppistaðan í barnaefni sem glænýtt ríkissjónvarp bauð upp á árum saman var hin ævaforna Stundin Okkar. Mikið var maður þá þakklátur fyrir helgistundina með Rannveigu og Krumma.

Og nú langar mig svo að segja:

En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.

Því miður get ég ekki sagt það án þess að svelgjast á. Það litla sem hefur breyst hingað til að mínu mati er að Rannveig og Krummi urðu Birta og Bárður og afkomendur kattarins Felix eru talsettir í lit. Á afmælisdegi sjónvarpsins kl 16:40 var sýnd á RÚV upptaka Sjónvarpsins á Karíusi og Baktusi. Upptaka þessi er frá 1970. Á vef RÚV var auglýst að í tilefni af 40 ára afmæli Sjónvarpsins væri allt barnaefni í morgunsjónvarpinu íslenskt. Og íslenskt skal það vera – af því að það er afmæli. Og til þess að gera þetta kleift varð að fara í safnið gamla, góða og draga fram flest það sem gert hefur verið fyrir börn frá því að ég var að elta köttinn Felix á milli húsa á náttkjólnum.

Eitt og annað hefur verið í boði fyrir börn á RÚV í fjörutíu ár, svo sem tilviljanakennd jóladagatalaframleiðsla, samnorrænar og samevrópskar barnamyndir sem RUV hefur átt aðild að. Það vil ég þó ekki kalla innlent efni með öllu þar sem myndum er á stundum ritstýrt að utan og tungumálið má alls ekki heyrast. Vandaðir þættir hafa þó ratað inn í dagskrána á löngum tíma, s.s. þættir um börn í dagsins amstri eftir Lindu Ásgeirsdóttur á liðnu ári.

Forvitnilegt er að skoða könnun Kristínar Atladóttur, kvikmyndaframleiðanda, á frumsýndu íslensku barnaefni á RUV fyrir árið 2001. Stundin okkar er þar með talin. Á heilu ári var þá frumsýnt innlent barnaefni í rúmar nítján klukkustundir. Það þýðir 22 mínútur á viku eða rétt rúmlega 3 mínútur á dag.

Ekki sýnist mér í fljótu bragði ástandið hafa batnað til muna á þeim fimm árum sem liðin eru síðan Kristín gerði sína könnun.

Barnssál í mótun þarf örvun og hvatningu. Hún þarf að geta speglað sig í veruleika sínum og séð sjálfa sig í öðrum. Hún þarf að máta sig við jafnoka sína í svipuðum aðstæðum. Hún þarf að leita samnefnara og samkenndar í samhengi hlutana, jafnvel langt aftur í tímann. Hún þarf að leita hugrekkis og frelsis. Hún leitar og finnur, velur og hafnar. Og til þess að geta gert allt þetta á leið til þroska þarf  barnið að hafa fyrir augunum veruleika sem það kannast við, umber og skilur. Það þarf að horfa í spegil sem ýkir, skopast, umfaðmar og skelfir. Ef við viljum ala börnin upp í íslensku menningarumhverfi þurfa menningarmiðlar að taka duglega við sér. Þessi spegill, sjónvarpið sem barnið horfir meira í en við þorum að viðurkenna, verður að endurspegla sameiginlega upplifun okkar litla samfélags. Hann verður að sýna okkur raunveruleika þar sem fortíð kennir nútíð að takast á við ókomna framtíð. Þessi tenging er hverfandi.

Í okkar samfélagi er það staðreynd að uppalendur barnsins eru þrír: aðstandendur, skólakerfi og þriðji uppalandinn er sjónvarp og hin rafræna veröld.

Þegar Ágúst Guðmundsson bað mig að fara í þennan erfiða ratleik, sem heitir:  Hvar er íslenskt sjónvarp fyrir börn? vissi ég að það yrði flókin leit sem myndi leiða mig eftir krákustígum og krókaleiðum á ólíklegustu staði. Hvar er spegillinn sem börnin okkar spegla sig í? Hvar er þriðji uppalandinn? Ég hef þegar tíundað fátæklegt barnaefni ríkissjónvarpsins og nenni ekki að taka þátt í því að tilgreina talsettar teiknimyndir sem innlent efni sem þeir ku gera á RÚV. Þá er rétt eins hægt að kalla Bráðavaktina innlent efni af því að búið er að þýða allan textann.

Og ég ákvað að leita víðar, enda á íslensk sjónvarpsflóra að hafa aukið mjög á fjölbreyttni sína með tilkomu hinna svokölluðu frjálsu sjónvarpsstöðva. Skjár einn framleiddi í árdaga barnaefni. Það lagðist fljótlega af og ekkert kom í staðinn. Hjá 365 eða Stöð tvö var farið af stað með fögur fyrirheit og brotið lítið blað í íslensku barnasjónvarpi með tilkomu Afa  á laugardagsmorgnum.  Þáttur þessi var ódýr í framleiðslu, hóf göngu sína árið 1987, en flestum að óvörum var hann aflagður nú á vordögum. Þar með lauk hinum litlu afskiptum 365 af framleiðslu barnaefnis í sjónvarpi í bili. En afi karlinn fylgdi nokkuð mörgum árgöngum barna inn á fullorðinsárin á þessum tæpu tuttugu árum. Búbbarnir eru framleiðsla stöðvar tvö sem ku vera svar stöðvarinnar við Prúðuleikurunum. Ég hef ekki séð þá en hef heyrt að markhópurinn sé öll fjölskyldan.

Og nú vil ég vitna í kollega minn, Andra Snæ Magnason, sem hefur furðað sig á því að ekki skuli meðvitað reynt að nýta stofur þessa lands á laugardags og sunnudagsmorgnum til þess að ná til litlu arftakanna með vandaða íslenska framleiðslu. Hefur hann orðað það svo að hér sé um að ræða stærstu kennslustofu landsins.

Þessi kennslustofa er troðfull af smáfólki, en kennarar og leiðbeinendur eru hvergi nærri og talsettri fjöldaframleiðslu er sturtað yfir mannskapinn á meðan foreldrarnir sofa.

Og hvar er þá íslenskt sjónvarp fyrir börn? Örlítið brotabrot af því býr í Stundinni okkar og því sáralitla innlenda efni sem er sýnt, endursýnt og endurendursýnt. Stundin okkar sinnir þriggja til sjö ára. Efni fyrir átta til þrettán ára sem markhóp er ekki fyrir hendi.

En samt fann ég börnin við sjónvarpstækin út um allt því miðillinn heldur áfram að vera uppalandi hvort sem hann veldur því eður ei. Á meðan framleiðsla á íslensku barnaefni fyrir sjónvarp er í algjöru lágmarki halda börnin áfram að leita. Þau leita og þau finna sitt af hverju. Ég fann íslensk sjónvarpsbörn í Los Angeles með Skjá einum hjá Magna á sviði í Rockstar-Supernova. Ég fann þau í Ædoli stöðvar tvö, bandarísku sjónvarpsefni aðlöguðu að íslenskum aðstæðum. Ég fann sjónvarpsbörnin hjá Strákunum á Stöð tvö, sem áttu sína dyggustu áhorfendur meðal grunnskólabarna. Ég fann þau fyrir framan Ameríska toppfyrirsætuþáttinn, Sörvævor og Batsjélor.

Í fjölmiðlafræði, sem ég lærði fyrir löngu í Ameríku, er mér minnisstætt hugtakið LOP- least objectionable programming, en því var mikið hampað þar vestra. Það vísar til þess að meðal áhorfandi horfir á sjónvarp hvað svo sem er í boði. Hann velur ávallt það sem honum finnst skást. Þannig neyta börn einnig sjónvarps og mörg hver eftirlitslaust. Skásti kosturinn verður alltaf fyrir valinu. Með það í huga er enn mikilvægara að vanda til verks og bjóða aðeins það besta fyrir börn.

Við erum búin að finna börnin við sjónvarpið, en hvar er þá íslenskt sjónvarp fyrir börn? Ég fann það ofan í skúffum. Ég fann það í skúffum og í tölvuskjölum um allar trissur. Það er á hörðum diskum, í skrifborðsskúffum, í möppum og rykföllnum handritum í vinnustofum listamanna og fagfólks um allt land.

Frá og með árinu 2008 lofar RÚV að framleiða innlent efni fyrir árlega viðbót upp á 150 milljóna króna. Kannski verður þessum auka 150 milljónum veitt að hluta til í gerð vandaðs innlends efnis fyrir börn. Kannski verður hann smíðaður þessi stóri íslenski barnaspegill sem sárlega vantar fyrir sjónvarp í dag og hefur í raun alltaf vantað. Fyrir mér er þetta þó sýnd veiði, en alls ekki gefin.

 

Fjörtíu tommu plasma – frá fundi BÍL 30.9.

Frá fundi BÍL 30. september 2006

Sigurbjörg Þrastardóttir:

Fjörtíu tommu plasma

Ef eitt stykki sjónvarp – og þá er ég ekki að meina gamalt svarthvítt Nordmende, segjum heldur glænýr plasmaskjár með útsendingu Ríkissjónvarpsins – ef þannig sjónvarp væri eina heimild grandalauss útlendings um lífið sem lifað er í þessu landi, er hætt við að hann fylltist furðulegum hugmyndum. Jafnvel verulegum ranghugmyndum. Jú, hann myndi fljótt átta sig á því að konur á Íslandi eru almennt yngri en karlar, og betur tenntar. Hann myndi sjá að íþróttir eru stundaðar í miklum mæli, allan ársins hring og oft í viku. Sér í lagi kappakstur. Hann myndi læra að hér er í gildi hamingjustuðull sem heitir úrvalsvísitala og mikilvægt að vita daglega hvort hann fer upp eða niður. Hann myndi fræðast um bankakerfið, hestamennsku, lífið í sveitum, veðrið, hann myndi skilja gildi leiðinlegra stjórnmála og læra að á Íslandi er helst ekki hlegið og helst ekki spilað á píanó nema um helgar. Hann myndi gera sér ljósa grein fyrir mikilvægi námsmanna, klósetthreinsa og vatnsdrykkja – þ.e. ef hann horfði líka á auglýsingarnar – og af lokaorðum valinna fréttatíma myndi hann sjá að leikrit eru stöku sinnum æfð á Íslandi, en aldrei sýnd.

Nefnilega. Í íslensku sjónvarpi er meira og minna aldrei sýnt frá, né rætt af viti um, þær 30 leiksýningar sem að meðaltali lifa á íslenskum fjölum á hverjum tíma, ef frá er talin handahlaupsgagnrýni í Kastljósi, sem í vetur hefur þó ekki enn verið efnt til, og er þó starfsemi allra leikhúsa komin í gang. Samkvæmt sjónvarpinu er varla lögð hér nokkur stund á myndlist, hér er engin nútímatónlist samin, vídeó-list, sem beinlínis er gerð fyrir sjónvarpsskjái, er óþekkt og sama gildir um grafíska hönnun, arkitektúr og aðrar sjónrænar greinar. Sem einmitt ættu svo vel heima, og kæmu svo ágætlega út, í sjónvarpi. Og bækur? Einmitt, góðir hálsar, gesturinn ímyndaði, sem aðeins hefði svarthvítt Ríkissjónvarpið, nei fyrirgefiði, sem aðeins hefði hánútímalegan plasma-Ríkis-kassann sem heimild um líf okkar, hann fengi ekki með nokkru móti séð að hér væru skrifaðar bækur. Þótt hann sæti allur af vilja gerður við skjáinn í nokkra daga, heila viku, já, þótt hann horfði á sjónvarpið í 11 mánuði samfleytt, væri fullkomlega mögulegt að hann heyrði aldrei minnst á ljóð, skáldsögur, smásögur, skáldævisögur, sagnaþætti, bloggbókmenntir, ferðabækur, glæpasögur, myndasögur eða annan skáldskap. Hann myndi ekki heyra hvar orðsnilld fólksins eflist, hvar máltilfinningin skerpist, hann myndi vita næstum ekki neitt um túlkun samtímans, hvaðan hugmyndir að kvikmyndum og málsháttum koma, hvernig þjóðin varðveitir sögur og kortleggur sjálfa sig. Hann myndi standa upp frá sjónvarpinu í sínu ónefnda útlandi, labba sig inn í eldhús og segja yfir borðið: skrýtið, þarna uppi á látlausum hólma býr læs og vel hirt þjóð, með kauphöll og hvaðeina, en það er skrýtið, hún á engar bækur.

 

Gott og vel. Kannski hugsa einhverjir sem svo að plasmasjónvarpið sé einfaldlega komið í stað sófamálverksins, að listin sé úreld og einfeldni yfirborðsins hafi tekið völdin. Flatskjárinn, í bókstaflegri merkingu. En sú rökfærsla gengur samt ekki upp, því sköpunarkrafturinn í þessu landi er svo yfirþyrmandi að hér er næstum því freistandi að fara út í tölur til að undirstrika sannleikann. Á að giska þrjú þúsund manns hafa beina atvinnu af því að skrifa og gefa út bækur, skapa myndlist, reka gallerí, semja tónlist og aðra list eða koma henni í umferð. Þá eru ótaldir allir þeir sem af ástríðu njóta verkanna, og væru til í að heyra um fleiri verk, sjá umræður um þau, dæmi, túlkun og almennar pælingar. Þetta grunar mig að gætu verið hátt í þrjú hundruð þúsund manns. Hvar er þá samræmið í eftirspurn og framboði? Eða hefur manni ekki verið innprentað að slíkt lögmál sé heilagt og stýri fjölmiðlamarkaði? Ég veit það ekki, ég var bara boðin hér í afmæli og veit ekki hvað mér leyfist að segja mikið.

Maður hefði allavega haldið að ef sjónvarp í eigu fólksins ætti að gera eitthvað, þá væri það að tjá lífið eins og það er. Sýna það jafnvel í fersku ljósi. Eða endurspeglar RÚV kannski bara lífið eins og við vildum að það væri? Varla. Slagsíða morða, vaxtafrétta og Disneyhunda er of mikil til þess að nokkur gæti óskað sér þannig tilveru.

 

Fyrir skömmu hitti ég frægan mann og við fórum að ræða þessa sorgarsögu: skort á umfjöllun um menningu og listir í sjónvarpinu. Mósaík leystur upp og horfinn af dagskrá, ekki haldið áfram með Regnhlífarnar í New York, jafnvel einfaldur þáttur eins og Tónlistinn, umfjöllun um rokk og popp, fékk ekki að halda plássi sínu á þeirri forsendu að „annar unglingaþáttur” væri þegar á dagskrá. Eins og tónlist sé bara fyrir tvo árganga. En jafnvel unglingaþættirnir, At, Óp og Ok, þættir um menningu og margvíslega krafta ungs fólks, eru ekki lengur inni í myndinni. Og sá ágæti, ódýri þáttur Tvípunktur á Skjá einum, sá eini í íslensku sjónvarpi sem á þeim tíma var helgaður bókmenntum, hefði hann ekki átt skilið lengri lífdaga? Gat hann a.m.k. ekki verið fyrirmynd að samskonar þáttum á öðrum stöðvum, eða um aðrar listgreinar? Eini þátturinn sem ég man eftir nýlega er Taka tvö, upplýsandi spjall um íslenskar kvikmyndir, en það er ekki nóg. Við viljum samhengi, samfellda umræðu um það sem er að gerast á hverjum tíma í íslenskum hugmyndaheimi, menningu, í því hvernig ein þjóð sér sig og tjáir sig. Og þá dettur mér í hug að nota tækifærið og óska útvarpsþættinum Víðsjá til hamingju með 10 ára afmælið, og missa jafnvel út úr mér að margt gæti nú sjónvarpið lært af útvarpinu.

Nema hvað, ég gleymdi að halda áfram með söguna, ég hitti sumsé þennan fræga mann þarna á barnum – já, þetta var á bar og ég legg sérstaka áherslu á frægð hans svo þið leggið áreiðanlega við hlustir – og þá varð honum að orði:

Kannski, sagði maðurinn, kannski er staðreyndin sú að einfeldnin og yfirborðið í sjónvarpi hafa sigrað. Sjónvarp, sem slíkt, telur sig greinilega ekki lengur fært um að endurvarpa neinu nema síbylju, sýndarveruleika og skrumi, og þá skulum við bara láta því það eftir. Í stað þess að fjargviðrast skulum við einbeita okkur að því að halda öllu sem okkur er kært, öllu sem hefur dýpt og vigt, utan við sjónvarp svo það skemmist ekki. Allt sem skiptir okkur máli, menning, list og líf, nærum það á öðrum vettvangi en á skjánum.

 

Ég verð að viðurkenna að þarna og þá, á barnum, þegar allir í kringum okkur voru nýkomnir af frumsýningu á íslensku listaverki, glaðir og reifir og bjartsýnir, hljómaði þetta viðhorf svolítið flott. Hættum þessu eymdarvæli. Látum sjónvarpið bara eiga sig.

Um leið laust niður í huga minn hvernig ég gæti endað þetta erindi í dag. Ég gæti sagt sem svo: Það var nógu slæmt þegar okkur var tjáð, á okkar einkennilegu pó-mó-tímum, að Guð væri dauður. Svo vöndumst við því. En fjárinn hafi það, er sjónvarpið dautt líka?!

Mér fannst þetta soldið flottur endir, en í húsi Rithöfundasambandsins daginn eftir var mér snarlega kippt niður á jörðina: Þetta er fullkomin og ótímabær uppgjöf, sagði formaðurinn, og hann er vanur að hafa rétt fyrir sér.

En hvað á maður samt að halda, þegar þúsundir lifa fyrir ný sjónarhorn og frjóa túlkun veruleikans, en nær engu af því er endurvarpað. Hvað á maður að halda, þegar hugmynd að tónlistarþætti, og ekki bara hugmynd heldur heilt tökuplan, hefur að sögn legið inni á sjónvarpsdeild í nokkur misseri en ekki sinnt, ekki einu sinni svarað. Og hvað á maður ennfremur að halda, þegar áhugasamt fyrirtæki úti í bæ býðst til að halda áfram með vel heppnaðan bókaþátt, en er afþakkað.

 

Góðir hálsar. Þá á maður ekki að halda neitt sérstakt, heldur bara hinkra augnablik. Og sjá, í gegnum þokuna sem myndast hefur yfir og allt um kring, fer allt í einu að móta fyrir samningi. Rétt eins og yfirvöld ríkis og sjónvarps hafi loksins fundið á sér að sjónvarpið væri að deyja. Og maður tekur samningsdrögin í hendurnar, lítur yfir þau og hver er þar sögð fyrsta skylda almannasjónvarps? Áhersla skal lögð á að miðla íslenskri menningu og skal RÚV vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu. Nefnilega. Og hvað segir í 2. grein? RÚV ber að uppfylla menningarlegar, þjóðfélagslegar og lýðræðislegar þarfir í íslensku samfélagi… Og hvað meira? RÚV skal hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi.

Og þá hlýtur maður að hvísla: sagði ég ekki!

 

Við vissum þetta allan tímann, við í samtökum plasmasjúklinga, eðlisávísunin sagði okkur að á þessu ættum við heimtingu, en það var alltaf minna og minna ljóst á sjálfum skjánum. Þangað til enginn menningarþáttur var eftir.

Í öllum alvöru útlöndum er slíkum þáttum haldið úti af metnaði, hefð og framsýni í sjónvarpi og sífellt verið að vitna í þá á öðrum vettvangi, sem segir sitt um slagkraftinn. Og hér?  Ég ætla ekki að bæta við að hér skulu samt Formúluáhugamennirnir fimmtán alltaf fá hringinn sinn sýndan, því þetta er ekki þannig stríð. Þetta erum við, með hvítan fána.

 

Í stuttu máli: Sjónvarp gefur möguleika á tvenns konar efni, minnst, þegar kemur að menningu. Annars vegar er miðillinn opinn fyrir tjáningu (listræna, sjónræna), þá erum við að tala um kvikmyndir, leikna þætti og annað efni með sögu, inntaki og merkingu í sjálfu sér. Hins vegar dokúmenterar sjónvarp það sem er gert og hugsað í umhverfinu, í öðrum miðlum og öllum listgreinum, háum, lágum, dægurbundnum og tímalausum. Á hvorugum vettvangnum, finnst mér, sinnir íslenskt sjónvarp brýnu hlutverki sínu sem skyldi. Og er þá engin stöð undanskilin.

Í dag á nefnilega ekki bara Ríkissjónvarpið afmæli, í sömu andrá á íslenskt sjónvarp yfirhöfuð afmæli, og því er full ástæða til að brýna allar stöðvar, stórar sem smáar. Þær eiga allar sjens.

Því hvorki hingað til, né hér eftir, snýst málið um peninga eina saman. Það getur ekki verið dýrara að fjalla um leikhús en hesthús. Það getur ekki verið erfiðara að tala við heimspekinga en fegurðardrottningar. Íslensk dagskrárgerð hlýtur alltaf að snúast um hugmyndaauðgi, forgangsröðun og hugrekki; þá fyrst verða peningar vandamál þegar þeim er sóað í einsleitni.

 

Mér finnst ægilega vænt um Ríkissjónvarpið. Og ég óska því til hamingju með afmælið. Og mér finnst sem við værum fátækari án þess.

En það er ekki lengur forsvaranlegt að íslenskir sjónvarpsáhorfendur fari á mis við svona furðulega margt. Nú, þegar við höfum loks uppgötvað til fulls hvað sjónvarp er sniðugt og áhrifaríkt, á þessum tímum óvenjumargra stöðva og forvitnilegrar tækni, já, á tímum efnahagslegrar kátínu – þá reynir loks á frumleika og forystu RÚV. Og keppnisskap allra hinna.

 

Því til hvers að fá sér plasmaskjá, en hann virkar ekki sem spegill? Til hvers að fá sér 40 tommu skjá, ef hann stækkar ekki lífið? Til hvers að fara á bar, ef þar eru einungis fyrir frægir menn sem spá sjónvarpinu dauða?

 

Ég veit það ekki, en happí ending hlýtur að vera í nánd.

 

Ég horfi aldrei á sjónvarp – frá fundi BÍL 30.9.

Frá fundi BÍL 30. september 2006

Sigurjón Kjartansson:

Ég horfi aldrei á sjónvarp

 

Einu sinni var ég að undirbúa grínskets fyrir gamanþátt á Ríkissjónvarpinu og var að reyna að útskýra hvað mig langaði að gera fyrir starfsmanni sem hafði starfað þar síðan 1966. Ég reyndi að vísa í þekkt minni úr sjónvarps úr kvikmyndasögunni til að gera honum betur grein fyrir hvað ég væri að meina. Þá hristi hann hausinn, brosti, horfði stoltur á mig og sagði: “Ég horfi aldrei á sjónvarp”.

Ég hef ansi oft heyrt  þessa setningu: “Ég horfi aldrei á sjónvarp”. Þessu fylgir vanarlega svipur sem er blanda af stolti og meðaumkun og segir: “Sjáðu hvað ég er nú sniðugur. Ég er sjálfstæður og óháður og læt ekki mata mig”. Þetta er alltsaman gott og blessað, enda ber ég fulla virðingu fyrir fólki sem lætur ekki mata sig.

Þegar ég horfi svo yfir það sem gert hefur verið í íslensku sjónvarpi þau 40 ár sem það hefur verið við lýði hugsa ég oft um hvað það er útbreitt meðal íslenskra listamanna að þeir horfa aldrei á sjónvarp. Það hefur nefnilega þótt liggja beinast við þegar sjónvarpið vill framleiða leikið íslenskt sjónvarpsefni að leita einmitt til listamanna, oftast rithöfunda sem hafa náð góðum árangri við ritun góðbókmennta. Ég ætla ekki að fullyrða um það en ég hef á tilfinningunni að stundum hafi rithöfundar tekið verkin að sér í bríaríi, milli annara og merkilegri verka, hent einhverju saman í hálfgerðum pirringi og niðurstaðan hefur oftar en ekki verið hörmung.

Enda hafa rithöfundar þessa lands ekki haft neinar forsendur til að skrifa fyrir sjónvarp. Sú rithöfundastétt sem enn ræður ríkjum hér á landi er að mestu fædd uppúr seinna stríði og fæstir þeirra ólust upp við sjónvarp á sínu heimili. Þegar sjónvarpið kom loksins árið 1966 var það landlægt innan listamannaelítunnar að fordæma sjónvarp eins og hægt var. Íslenskir rithöfundar hafa flestir drukkið í sig það virðhorf að sjónvarp sé lágmenning með móðurmjólkinni.

Þessvegna er það varla nema von að leikið íslenskt sjónvarpsefni hafi verið hörmung í áratugi, þegar ofaná kemur að flestir leikstjórar og leikarar landsins hafa alist upp við það viðhorf að sjónvarp komist ekki í hálfkvisti við listræna kvikmynd og að ég tali nú ekki um leikhús. Meðal  íslenskra listamanna hefur virðingin fyrir miðlinum ekki verið uppá marga fiska.

En á seinni árum höfum við horft til Danmerkur og séð að þar er eitthvað að gerast í gerð leikins sjónvarpsefnis. Svakalega gengur dönum vel að búa til brilljant sjónvarp, segjum við. Afhverju ætli það sé? Spyrja menn og svara um leið, jú, það er útaf því að danska ríkissjónvarpið hefur eytt svo miklum peningum í þarlenda dagskrárgerð öfugt við þetta níska íslenska RÚV batterí sem aldrei tímir neinu. Með þessu svari halda menn að þeir hafi hitt naglann á höfuðið, en staðreyndin er sú að þetta er aðeins að hluta til rétt. Það er jú alveg rétt að RÚV hefur ekki eytt nógu miklum pening í íslenska dagskrárgerð en ef svo væri mundi þá  kunnáttan vera fyrir hendi? Kunnum við að búa til svona góða þætti eins og framleiddir eru í Danmörku?

Mundu menningarvitar ekki fá sjokk þegar þeir heyra að frumkvöðlar þessarar dönsku sjónvarpsbylgju hafa óhikað sótt þekkingu sína til mekka lágmenningar í heiminum, Bandaríkjanna. Dönsku dramaþættirnir eru unnir með sama verklagi og  þekkst hefur í áratugi í bandaríkjunum og í danmörku er enginn feiminn við að viðurkenna það.

Ég hef mikla trú á því að hér geti í framtíðinni starfað höfundar sem hafa viðurværi sitt eingöngu af því að skrifa leikna sjónvarpsþætti fyrir íslendinga. En ekki bara íslendinga, heldur líka útlendinga. Dramaþættir sem gerast á Íslandi og fjallar um líf, ástir og glæpi íslendinga eiga alveg jafn mikið erindi við fólk í öðrum löndum eins og dramaþættir um líf, ástir og glæpi útlendinga eiga við okkur. Ef við stöndum svipað að framleiðslu íslenskra sjónvarpsþátta og við höfum framleitt allar þessar íslensku bíómyndir sem hafa farið sigurför um evrópu,  þá eru leiknir íslenskir sjónvarpsþættir framtíðin.

En ef við ætlum að búa til gott leikið sjónvarpsefni verðum við líka að nálgast miðilinn hrokalaust og afla okkur þekkingar og menntunar í skrifum á slíku efni. Við höfum orðið mjög fært fagfólk sem getur annast alla tæknilegu framleiðsluhliðina en það sem okkur vantar enn er grunnurinn,  góð handrit. Gott sjónvarpsefni er ekki hrist fram úr erminni og að handritsskrifum á vel heppnuðum sjónvarpsþáttum kemur yfirleitt hópur fólks sem vinnur nótt og dag að sama marki. Til að búa til gott sjónvarp verðum við að hafa ást á miðlinum. Rétt eins og höfundur bóka elskar bækur, eða bíómyndaleikstjóri elskar bíómyndir. Ef ástin er ekki til staðar verður engin nýsköpun. Því langar mig að spyrja þig rithöfundur góður, sem hefur hug á að skrifa fyrir sjónvarp: Elskar þú sjónvarp, eða ert þú kannski einn af þeim sem stæra sig af því að horfa aldrei á sjónvarp? Ef sú er raunin þá legg ég til að þú snúir þér að einhverju öðru.

 

Ræða þessi var flutt í Norræna húsinu, laugardaginn 30 september,  á samkomu Bandalags íslenskra listamanna í tilefni 40 ára afmælis Ríkissjónvarpsins. Höfundur hefur skrifað leikið sjónvarpsefni í rúman áratug.

 

Fundur BÍL um íslenskt sjónvarp

BÍL hélt almennan fund í Norræna húsinu um íslenskt sjónvarp. Tilefnið var 40 ára afmæli íslenskra sjónvarpsútsendinga. Í auglýsingu sem birt var í Fréttablaðinu gat að líta yfirlýsingu sem stjórn BÍL hafði samþykkt á stjórnarfundi.

 

Eflum íslenskt sjónvarp!

Varla blandast neinum hugur um að sjónvarpið er áhrifamesti miðill okkar tíma. Það sem er, er í sjónvarpinu, það sem er ekki í sjónvarpinu á erfitt uppdráttar.

Áður skipuðu aðrir miðlar þennan sess, bækur með prentverkinu, útvarp með útvarpstækninni, filmur með hreyfimyndatækninni og nú um hálfrar aldar skeið sá miðill sem sameinar þetta þrennt: útvarp, kvikmynd og texta – sjónvarpið.

Þegar þetta er haft í huga blasir við hve óheyrilegt það er að Íslendingar skuli eftir 40 ára sjónvarpsrekstur ekki enn hafa náð á sannfærandi hátt að miðla þjóðlífi sínu og menningu í sjónvarpi. Eða geta menn ímyndað sér ástandið ef íslenskir höfundar hefðu ekki treyst sér til að fjalla um íslensk efni, nema að takmörkuðu leyti? Og útvarpið hefði ekki talið sig hafa bolmagn til að sinna íslenskum málum, nema í framhjáhlaupi? Hætt er við að þjóðin hefði fyrir löngu flosnað upp frá sjálfri sér og vafamál að hér byggi einusinni þjóð.

Um leið og Bandalag íslenskra listamanna fagnar framkomnum samstarfssamningi um að auka hlut íslensks efnis í sjónvarpi, leggur það áherslu á að menn hætti að líta á sjónvarpið sem léttvægan afþreyingarmiðil og veiti til þess fjármagni sem dugi til dagskrárgerðar sem geri skil draumum okkar jafnt sem daglegu lífi. Þetta er þeim mun brýnna sem sjónvarp er einmitt sá miðill sem beinast skírskotar til barna og unglinga og því ekki að litlu leyti ábyrgt fyrir andlegu byggingarefni sem þeim er lagt til. Og varðar að sjálfsögðu heill landsmanna allra.

 

Fundur í Norræna húsinu laugardaginn 30. september kl. 14:00

Vitundarvakning um innlenda dagskrá í sjónvarpi

Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL, setur fundinn

Kristín Jóhannesdóttir: Áratugum síðar.

Sigurjón Kjartansson: Ég horfi aldrei á sjónvarp.

Ómar og Óskar Guðjónssynir leika nokkur kynningarstef úr bandarískum sjónvarpsþáttum.

Sigurbjörg Þrastardóttir: Fjörtíu tommu plasma

Ólafur Haukur Símonarson: Seríumorð

Kona deyr við skjáinn. Þorsteinn Guðmundsson les úr Roklandi eftir Hallgrím Helgason

Kristín Helga Gunnarsdóttir: Barnasjónvarp í skúffum

Táknmynd nútímans í íslensku sjónvarpi? Auglýsingastef nokkurra íslenska stórfyrirtækja í flutningi Jóns Jóseps Snæbjörnssonar og Jakobs Frímanns Magnússonar

Dagur Kári Pétursson: Staða Sjónvarpsins.

Páll Magnússon: Sjónvarpið og samstarfssamningurinn

 

Fundarstjóri: Margrét Bóasdóttir, ritari BÍL

 

Frá fundi BÍL 30. september 2006

BÍL hélt fund í Norræna húsinu þann 30. september 2006, þegar minnst var 40 ára afmælis íslensks sjónvarps.

 

Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL, ávarpaði fundarmenn:

 

Einn stjórnarmaður bandalagsins sagði mér litla sögu í gær. Það var þegar miklar umræður voru í Frakklandi um fóstureyðingar, hvort þær skyldi leyfa. Útifundir voru haldnir og mikil ólga – og svo samþykkti þingið allt í einu löggjöf sem leyfði fóstureyðingar, öllum að óvörum. Og þá á Simone de Beauvoir að hafa sagt: Og ég sem var búin að skrifa grein!

Einhvern veginn þannig leið okkur í fyrradag, eftir að tilkynning kom um þjónustusamning á milli ríkis og ríkisútvarps. Undanfarnar vikur höfum við verið að undirbúa átak til að auglýsa eftir íslensku sjónvarpi – og svo virðist það allt í einu fundið, áður en leitin er hafin.

Það fer ekki á milli mála að í þjónustusamningnum felst mikilvægt skref í rétta átt. Auka skal hlutfall innlends efni upp í 65 %, úr 44 % af útsendu efni, en það er sú tala sem Ríkisútvarpið gefur upp. Við þurfum að vísu að spyrja hvernig sú prósentutala sé fengin, en samt er vissulega ánægjuefni að hlutfall þetta eigi að breytast á næstunni, innlendri dagskrá í hag. Á tímum fjölbreytni í sjónvarpsrekstri er innlend dagskrá reyndar eina ástæðan fyrir tilvist Ríkissjónvarps, og það virðist vera að daga upp á stjórnendur stofnunarinnar.

Ekki er síður mikilvægt að stofnunin skuldbindur sig til að kaupa meira efni af innlendum framleiðendum en nú er gert. Hingað til hefur eina breytanlega stærðin í fjárhagsáætlunum RÚV verið það fé sem fer til innlendrar dagskrárgerðar. Þarna er þó bundin ákveðin lágmarksupphæð og hún skal fara í innkaup frá aðilum utan stofnunarinnar. Þetta er sömuleiðis í samræmi við heilbrigða skynsemi, því að yfirleitt tekst sjálfstæðum fyrirtækjum að framleiða efnið með hagkvæmari hætti en stofnunin sjálf.

En þó að hækkunin verði veruleg í prósentum séð næstu fimm árin, má reyndar spyrja að því hvort upphæðirnar séu nægilega háar til að valda verulegum breytingum í dagskrárstefnunni. Hvaða byltingu er hægt að gera í þessum efnum fyrir 150 milljónir á næsta ári? Þegar Þorgerður Katrín tók við Menntamálaráðuneytinu, kallaði hún eftir breytingum á Ríkisútvarpinu. Ég fékk það á tilfinninguna að hún hefði horft á töluna sem fæst fyrir afnotagjöldin – árið 2004 var það 2.4 milljarðar  – og spurt: Í hvað fer þetta?

Það virðist stundum vera meginhlutverk Ríkisútvarpsins að viðhalda sjálfu sér. Nú þarf það að horfast í augu við ofangreinda spurningu af alvöru. Í hvað fer þetta? Ótrúlegasta fólk stingur niður penna til að kvarta undan ástandinu. Jafnvel hófsamir jafnaðarmenn vilja leggja stofnunina niður, og það ætti að hringja viðvörunarbjöllum alveg upp á efstu hæð í Efstaleiti. Þegar þeir sem helst ættu að veita stofnuninni lið eru farnir að tala um að hafa í staðinn sjónvarpssjóð sem allar stöðvar gætu sótt í til að framleiða gott innlent efni, þá ætti stofnunin – sem eðli málsins samkvæmt er helst umhugað um eigin velferð – að fara að skoða sinn gang.

Enn eitt fannst mér sérstaklega athyglisvert í þjónustusamningnum. “Ríkisútvarpið skal hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi. Félagið skal leitast við að virkja aðra til samstarfs með það að markmiði að efla slíka miðlun.”

Það er gott að þetta með frumkvæðið skuli vera nefnt, vegna þess að okkur hefur fundist talsvert á það vanta upp á síðkastið. Það er mikil gróska í íslensku leikhúsi, það er líka mikil gróska í kvikmyndagerðinni, en það sama verður ekki sagt um íslenskt sjónvarp. Ríkisútvarpinu hefur staðið til boða að vera þátttakandi í þessari grósku, en áhugann til þess hefur vantað hjá forráðamönnum þess. Þeim finnst mikilvægara að sinna öðrum málum – og gera margt vel, á því er enginn vafi. Fréttir eru vel unnar og kastljósi varpað á fréttatengt efni dag hvern. Ennfremur gerist fátt í íþróttaheiminum sem fer framhjá Ríkisútvarpinu. Samt er langt frá því að Ríkisútvarpið sinni lögbundnu hlutverki sínu sem menningarstofnun.

Þessi stofnun fær tæpan  tvo og hálfan milljarð á ári hverju frá notendum sínum í eins konar forgjöf á keppinauta sína á markaði, en notar ekki þá peninga til að hafa lögbundið menningarlegt forskot á þessa sömu keppinauta.

Sú var tíð að Ríkisútvarpið var eitt stærsta leikhús landsins. Sú tíð er liðin. Samt halda íslenskir rithöfundar áfram að skrifa fyrir sjónvarp, framleiðendur halda áfram að leggja handritin fyrir dagskrárstjóra og leikstjórar halda áfram að lýsa fjálglega fyrirætlunum sínum með viðkomandi verkefni. En þó er eins og enginn sé að hlusta. Ég veit um fimm sjónvarpsseríur sem liggja í handriti hjá Sjónvarpinu – og þær eru vafalaust fleiri. Þá eru ótalin styttri verk. Þetta getur ekki allt verið svo vont að ekki sé ástæða til að framleiða eitthvað af því.

Sá sem hér talar vill sjá Ríkisútvarpið blómstra. Þess vegna tekur hann þátt í þessari umræðu. Hann vill vel. Því sá er vinur er til vamms segir.

 

Enskan í íslenskunni

24. júlí birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ágúst Guðmundsson, þar sem hann fjallaði um dagskrárgerð, íslenska menningu og málvernd.

Á miðjum níunda áratugnum átti ég leið til Filipseyja. Á hótelherbergi mínu kveikti ég gjarnan á sjónvarpinu og horfði af sérstakri forvitni á þarlendar sápuóperur, vegna þess hve enskuskotið málið var. Innan um óskiljanlegan orðaflaum komu stök orð og stundum heilar setningar á ensku – og oft var skondið að heyra hverju var slett og sagði ýmislegt um þjóðarkarakterinn og þá ekki síður um bandarísk áhrif á íbúana.

En það sem mér þótti framandi fyrir tuttugu árum ætti ekki að vera það lengur. Íslendingar eru farnir að blanda ensku inn í mál sitt í mun ríkara mæli en áður gerðist. Áður fyrr voru öll blótsyrði tengd trúnni, þ.e.a.s. helvíti og húsbónda þess, en nú er bölvað upp á ensku og ýmist vísað til úrgangsefna mannsins eða kynlífs. Þessa nýung er erfitt að þýða á það ylhýra og því er enskan notuð hrá. Nöfn fyrirtækja eru hætt að vera íslensk, sömuleiðis bíómyndir og sjónvarpsþættir. Af hverju kallast Ædol og Baddselor þessum ónefnum – í landi þar sem nýyrðasmíð er vinsæl iðja, raunar svolítil listgrein sem fjölmargir stunda? Hingað til hefur beygingakerfi íslenskunnar hindrað aðgang erlendra orða að henni og neytt menn til að finna upp nýyrði við hæfi, en nú er jafnvel sú vörn að bresta. Almennt stefnir ástandið í álíka faraldur og dönskusletturnar voru fyrir tveim öldum. Komin þörf á að hóa Fjölnismönnum saman á ný!

Áhrifavaldinn má einkum finna í kvikmyndum og sjónvarpsefni. Það heyrir til undantekninga ef kvikmyndir frá öðrum löndum en Bandaríkjunum eru teknar til almennra sýninga í kvikmyndahúsum hér, og mikill meirihluti sjónvarpsefnis kemur úr sömu átt. Það eru einmitt sjónvarpsstöðvarnar sem hafa verið virkastar í þessari óumbeðnu enskukennslu. Sterkasti fjölmiðillinn bregður oftar fyrir sig amerískunni en öðrum tungumálum, að íslenskunni ekki undanskilinni. Það er meira kanasjónvarp á Íslandi nú en á dögum sjálfs Kanasjónvarpsins.

Í Bandaríkjunum er kvikmyndagerð iðnaður, raunar stóriðja, og afþreyingarefni er framleitt þar af meiri fagmennsku en annars staðar. Sölutölur ráða öllu. Efnið er gott ef áhorfið er mikið. Frumleiki eru ekkert keppikefli. Metnaðurinn liggur allur í vinsældunum. Kerfið í heild er magnað og hefur náð heimsyfirráðum. Innan um finnast svo óumdeilanleg listaverk, kvikmyndir sem eru með þeim merkustu í heiminum.

Þar með er ekki sagt að ekki eigi að sýna neitt annað. Þeir sem dreifa bíómyndum hér sýna evrópskri kvikmyndagerð meira áhugaleysi en hægt er að meðtaka. Ég trúi því einfaldlega ekki að áhorfendur fáist ekki til að sjá eina og eina franska, spænska eða þýska mynd, að ég tali nú ekki um gæðamyndir frá Norðurlöndum. Bíógestir flykkjast að þegar haldnar eru hér kvikmyndahátíðir. Lifir sá áhugi bara í hálfan mánuð í senn? Vel má vera að ágóðinn af slíkum sýningum sé minni en af hasarmynd með Tom Cruise. En kvikmyndadreifing er menningarstarf og því fylgja ákveðnar skyldur við neytendurna. Það á ekki að þurfa að lögfesta þær skyldur í formi kvótakerfis. En kannski þess fari að þurfa hér?

Menningarkvóta ber oftar á góma þegar rætt er um sjónvarp. Um alla Evrópu fá sjónvarpsstöðvar leyfi til útsendinga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði geta varðað framleiðslu á innlendu efni, bæði magn og gæði. Þá nægir ekki að telja saman innlenda dagskrá í mínútum, heldur þarf ákveðinn hluti hennar að vera vandað leikið efni eða heimildarmyndir sem mikið er lagt í. Stundum eru einfaldlega sett mörk á það ameríska efni sem stöðvunum leyfist að senda út. – Reyndar er viljinn til þess greinilega fyrir hendi hjá löggjafa vorum. Í Útvarpslögum segir: “Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.”

Sjónvarpsrásir eru gæði sem meta má til fjár. Hérlendis hefur gilt sú regla um auðlindir að þær eru gefnar þeim sem fyrstir nýta þær. Í sjávarútvegi hefur þetta fyrirkomulag sætt nokkurri gagnrýni, og nú er rétt að endurskoða það hvað varðar öldur ljósvakans. Víða í Evrópu er innheimt hátt leyfisgjald af þeim sjónvarpsstöðvum sem fá að nota rásirnar. Hér í fámenninu ættum við þó að fara aðra leið. Í stað auðlindagjalds ættum við að gera þá kröfu á hendur sjónvarpsstöðvunum að þær sinni innlendri dagskrá svo sómi sé að.

Fyrirtæki sem fá útsendingarleyfi frá Útvarpsréttarnefnd eignast ekki rásirnar. Leyfin er veitt til ákveðins tíma, 5 ára fyrir hljóðvarp og 7 fyrir sjónvarp. það þarf ekki miklu að breyta í Útvarpslögum til að koma á skilyrðum um innlenda dagskrá. E.t.v nægir lítil reglugerð. Hugmyndin er einföld: til að fá að sjónvarpa á Íslandi þarf að sýna innlent efni – að einhverju marki og kosta til þess ákveðnum fjármunum.

Umræðan um fjölmiðlalög hefur einkum verið um eignarhald á fjölmiðlum. Er ekki kominn tími til að víkka þessa umræðu aðeins og skoða innihaldið um stund, velta því fyrir sér hvort sjónvarpsstöðvar geti stuðlað að bættri íslenskri menningu í stað þess að vera helsti skaðvaldur íslenskrar tungu?

 

Áskorun til Alþingismanna

Á stjórnarfundi Bandalags íslenskra listamanna 2. júní 2006 var eftirfarandi ályktun samþykkt:

 

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna skorar á Alþingi að ljúka umræðu um Ríkisútvarpið og afgreiða málið fyrir þinglok.

Núverandi óvissuástand er skaðlegt stofnuninni og menningarhlutverki þess.

 

Page 38 of 40« First...102030...3637383940