Tilkynnt hefur verið um niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu ohf. og er ljóst að menning og listir verða þar afar illa úti.
Hætt verður að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið verður stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum. Beinum útsendingum frá stórum viðburðum eins og Grímunni og íslensku tónlistarverðlaununum verður hætt. Ljóst er að hlutverk Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar verðu stórlega skert gangi allur þessi niðurskurður eftir. Eðliegt er að spurt sé hvort ekki hefði mátt forgangsraða með öðrum hætti, t.d. stytta dagskrána, innleiða á ný einn sjónvarpslausan dag í viku eða draga stórlega úr beinum útsendingum frá íþróttaviðburðum. Það er líka umhugsunarefni að stjórn Ríkisútvarpsins ohf skuli standa að baki útvarpsstjóra í þessum áherslum, en stjórnin er skipuð fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Í stefnu beggja ríkisstjórnarflokkanna hefur verið löðg áhersla á að standa beri vörð um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, ekki verður annað séð en að þessar tillögur sem nú hafa verið kynntar fari gegn þeim stefnumiðum. Ljóst er að samtök listamanna eiga eftir að láta í sér heyra varðandi tillögur þessar á næstu dögum.