Félag leikstjóra á Íslandi telur í dag 93 félaga. Í stjórn félagsins sitja Kolbrún Halldórsdóttir, ritari, Gunnar Gunnsteinsson gjaldkeri og undirrituð, Steinunn Knútsdóttir formaður. Varastjórn skipa Kristín Eysteinsdóttir, Jón Gunnar Þórðarson og Stefán Jónsson en varastjórn situr alla stjórnarfundi.

Síðastliðið vor gerðust þau tíðindi að FLÍ fékk inngöngu í Bandalag háskólamanna. Þau stakkaskipti hafa haft í för með sér þörfina á endurskoðun á starfi leikstjórans. Nýjir samningar eru í smíðum sem taka mið af kjörum háskólamanna útfrá endurskilgreiningu á skyldum og ábyrgð leikstjórans og greiningu á vinnuumhverfi hans. Allir samningar hafa verið lausir síðan 2004 og engar horfur eru á að sviðslistastofnanir hafi tök á að bæta launakjör leikstjóra í bráð. Það hefur gefið ákveðið svigrúm til endurskoðunar á öðrum þáttum sem samningar taka á ss.vinnuumhverfi, skilgreiningum og mati á verkefnum, ábyrgð og skyldum launþega og launagreiðanda o.s.frv. Er það vilji FLÍ að sviðslistastofnanir taki virkan þátt í þessari endurskoðun og hefur FLÍ boðað samningsaðila til samtals, þar sem ekki verður boðið uppá að karpa um krónur heldur verður áhersla á að ræða um hag listarinnar frekar en einstakra hagsmunaaðila samkomulagsins. Stærstu hagsmunirnir í málinu eru að mati FLÍ, hagsmunir áhorfandans og stefnir FLÍ að því að samningarnir stuðli að metnaðarfyllri sviðslistum á Íslandi, það verður best tryggt með því að búa listinni sem fjósamast umhverfi.Það er markmið og von FLÍ að nýjir samningar verði samþykktir af öllum sviðslistastofnunum í vor.

Á síðastliðnu ári átti sér stað vitundarvakning hjá leikstjórum og er gengst félagið nú fyrir allsherjar endurskoðun á ímynd, starfi og hlutverki félagsins.

Hluti af þeirra ímyndarbreytingu er ný ásýnd félagsins á veraldarvefnum og verður ný heimasíða tekin í notkun í byrjun febrúar 2010. Þar verður m.a. að finna umboðssíðu leikstjóra. Umboðssíðan verður metnaðarfull kynning á einstökum leikstjórum félagsmönnum FLÍ á íslensku og ensku og verður síðan auglýst í nágrannalöndum okkar. Það hefur verið markmið Norrænna leikstjóra að Norðurlöndin verði eitt atvinnusvæði og er þessi umboðsíða svar við þörf á aðgengilegum upplýsingum um framboð á íslenskum leikstjórum. Það er von FLÍ að þessi síða verði til þess að styðja við íslenska leikstjóra sem starfa á alþjóðlegum vettvangi.

Félagið gaf út handbók leikstjórans í nóvember. Handbókin er hugsuð sem hjálpargagn eða gátlisti fyrir þá aðila sem koma að leiklistarstarfsemi hjá áhugaleikfélögum. Hún tekur á helstu þáttum leikstjórnar og hefur það að markmiði að stuðla að upplýsingu um eðli, ábyrgð og skyldur leikstjórans. Handbókin var kynnt á haustþingi Bandalags íslenskra leikfélaga í nóvember, haldinn var kynningarfundur með leikfélögum framhaldsskólanna auk þess sem FLÍ bauð leikurum sem stunda leikstjórn hjá áhugaleikfélögum, að kynna sér handbókina. Það er von FLÍ að handbókin verði til þess að áhugaleikfélög leiti frekar til atvinnuleikstjóra þegar ráða á leikstjóra til starfa.

Veitt var úr menningarsjóði FLÍ tvisvar á árinu og hlutu alls 9 félagar styrk úr sjóðnum.

Tvö fagleg örnámskeið voru í boði félagsins í haust annarsvegar var kynnt greingaraðferð sem liggur til grundvallar leiktúlkunarkennslu leiklistardeildar LHÍ sem Stefán Jónsson og Ásdís Þórhallsdóttir leiddu og hins vegar var í boði námskeið í námskeiðahaldi í umsjón Vigdísar Jakobsdóttur, fræðslustjóra Þjóðleikhússins og kennara við kennardeild LHÍ.

Í vor er fyrirhuguð menningarferð til Berlínar, sem félagið mun niðurgreiða fyrir félagsmenn.

FLÍ er aðili að NSIR Sambandi Norrænna leikstjórafélaga og sótti formaður árlegan fund sambandsins sem haldinn var í Helsinki í Nóvember. Fundurinn fjallaði m.a. um breytingar á starfi leikstjórans með nýmiðlum og fjölbreyttari vinnuaðferðum leikhússins. Rætt var um sameiginlega umboðssíðu Norrænna leikstjóra, uppeldishlutverk leikhússins og höfundarrétt leikstjórans. Ísland tekur við formennsku í sambandinu 2010 og verður fyrsti fundurinn á formennskuári Íslands haldinn í Reykjavík í vor.

Félag leikstjóra á Íslandi er hlaðið ögrandi, spennandi og verðugum verkefnum. Á tímum veraldlegrar kreppu er andinn öflugur.

 

Steinunn Knútsdóttir, formaður FLÍ