Starfsemi Rithöfundasambands Íslands 2009

Fastir liðir eru eins og venjulega í Rithöfundasambandi Íslands sem hefur aðsetur í húsi sem Gunnar Gunnarsson rithöfundur lét reisa en Rithöfundasambandið fékk til afnota og umráða árið 1997. Félagsmenn eru um þessar mundir 378, inntökuskilyrði eru tvö verk sem hafi listrænt gildi – frumsamin eða þýdd, fræðirit eða leikverk – og árlega kosin inntökunefnd fjallar um.

Félagsgjöld eru kr. 17.600.

Stjórn sambandsins skipa fimm aðalmenn og tveir til vara. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Þeir eru um þessar mundir Pétur Gunnarsson, formaður, Rúnar Helgi Vignisson, varaformaður, meðstjórnendur Karl Ágúst Úlfsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Davíð A. Stefánsson, varamenn Jón Kalman Stefánsson og Sigurbjörg Þrastardóttir.

Helstu verkefni Rithöfundasambandsins eru nú sem fyrr margháttuð hagsmunagæsla félaganna, upplýsingamiðlun varðandi höfundarrétt og útgáfumál, gerð samninga og uppfærsla á þeim samningum sem fyrir eru. Sambandið rekur Höfundamiðstöð sem veitir upplýsingar um höfunda, skipuleggur og aðstoðar við bókmenntakynningar hefur milligöngu um upplestra og kemur að mótun á bókmenntadagskrám. Sérstaklega ber að tiltaka verkefnið “Skáld í skólum” sem notið hefur mikilla vinsælda, viðamikil bókmenntadagskrá er kynnt í grunnskólum landsins í byrjun skólaárs og síðan fara rithöfundar tveir og tveir á stúfana eftir því sem pantanir berast og kynna ýmist eigin verk eða annarra höfunda.

Á skrifstofu Rithöfundasambandsins starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi, en auk ofangreindra verkefna annast hann rekstur gestaíbúðar í kjallara hússins, svo og orlofshúsa sambandsins sem eru tvö að tölu, að Norðurbæ á Eyrarbakka og Sléttaleiti í Austur-Skaftafellssýslu.

Óhætt er að segja að þræðir Rithöfundasambandsins liggi víða. Á erlendum vettvangi störfum við með og sækjum árlega fundi í Norræna rithöfunda- og þýðendaráðinu, sem og Evrópuráði rithöfunda og eigum fulltrúa í nefndum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Á innlendum vettvangi tökum við þátt í fjölmörgum verkefnum sem tengjast bókmenntum og listum, eigum tvo af sex fulltrúum í Bókmenntasjóði, fulltrúa í Bókasafnssjóði, sæti í stjórnum Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri og Þórbergsseturs í Suðursveit. Þá eigum við fulltrúa í Fjölís en svo nefnast regnhlífasamtök sem hafa það hlutverk að standa vörð um hagsmuni rétthafa á tímum óðafjölföldunar þegar hugverk er orðið almenningseign í áður óþekktum mæli um leið og það lítur dagsins ljós. Þátttaka okkar í BÍL er sömuleiðis mikilvæg með áherslu á mótun þeirrar ásýndar og áru sem við viljum að listirnar hafi í þjóðlífinu. Það er sannfæring okkar að þær megni að blása landsmönnum hug í brjóst í yfirstandandi þrengingum og efla orðstír Íslands gagnvart umheiminum. Ekki síst er þá litið til Bókamessunnar í Frankfurt 2011 þar sem íslenskar bókmenntir verða í brennidepli, en um leið munu aðrar listgreinar njóta góðs af: myndlistarsýningar, tónleikar, leikverk verða leikin, kvikmyndir sýndar, erindi haldin, greinar skrifaðar og viðtöl tekin – allt í hinu æskilegasta ljósi.

Þetta litla dæmi ætti að sýn hver lífæð listirnar eru þessu landi og hve skammsýnt það er að skerða þeirra hlut í yfirstandandi þrengingum. En jafnframt ætti það að vera okkur listamönnum brýning um að vakna til vitundar um mikilvægi okkar og áskorun um að ganga opinskátt til leiks í viðreisn íslensks samfélags og tala þar máli listanna.

 

f.h. Rithöfundasambands Íslands,

Pétur Gunnarsson