Author Archives: vefstjóri BÍL

Forsetaskipti


Á aðalfundi BÍL 17. febrúar fór fram forsetakjör, svo sem lög gera ráð fyrir, en forseti BÍL er kjörinn á aðalfundi til tveggja ára í senn.  Kolbrún Halldórsdóttir, sem gegnt hefur embætti forseta síðan í janúar 2010, gaf að þessu sinni ekki kost á sér til endurkjörs. Tveir voru í framboði Erling Jóhannesson og Hlín Agnarsdóttir. Það var Erling sem hlaut kosningu sem næsti forseti BÍL. Þakkaði hann stuðninginn og hét trúmennsku í störfum sínum fyrir BÍL. Þá þakkaði Kolbrún stjórn BÍL fyrir samstarfið sl. átta ár. Var gerður góður rómur að orðum forsetanna tveggja og þeim klappað lof í lófa.

Ársskýrsla forseta BÍL starfsárið 2017

Stjórn BÍL skipa formenn aðildarfélaga BÍL. Stjórnin hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu, auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir um afmörkuð málefni, sem gerð verður sérstaklega grein fyrir í skýrslu þessari. Aðildarfélög BÍL eru fimmtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum annarra stjórnarmanna sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:

 • Arkitektafélag Íslands; AÍ – formaður Aðalheiður Atladóttir / Helgi Steinar Helgason
 • Danshöfundafélag Íslands; DFÍ – formaður Katrín Gunnarsdóttir, varamaður Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir
 • Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH –formaður Björn Th. Árnason
 • Félag íslenskra leikara; FÍL – formaður Birna Hafstein, varamaður Erling Jóhannesson
 • Félag íslenskra listdansara; FÍLD – formaður Irma Gunnarsdóttir, varamaður Guðmundur Helgason / Anna Norðdahl
 • Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT – formaður Hlín Pétursdóttir Behrens, varamaður Hallveig Rúnarsdóttir
 • Félag kvikmyndagerðarmanna; FK – formaður Hrafnhildur Gunnarsdóttir / Fahad Jabali, varamenn: Anna Þóra Steinþórsd / Jóhannes Tryggvas.
 • Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB – formaður Rebekka Ingimundardóttir
 • Félag leikskálda og handritshöfunda; FL – formaður Margrét Örnólfsdóttir, varamaður: Salka Guðmundsdóttir
 • Félag leikstjóra á Íslandi; FLÍ – formaður Páll Baldvin Baldvinsson
 • Félag tónskálda og textahöfunda; FTT – formaður Jakob Frímann Magnússon / Bragi Valdimar Skúlason
 • Rithöfundasamband Íslands; RSÍ – formaður Kristín Helga Gunnarsdóttir, varamaður Bjarni Bjarnason / Vilborg Davíðsdóttir
 • Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM – formaður Jóna Hlíf Halldórsdóttir, varamaður Eirún Sigurðardóttir / Steingrímur Eyfjörð
 • Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL – formaður Friðrik Þór Friðriksson
 • Tónskáldafélag Íslands; TÍ – formaður Þórunn Gréta Sigurðardóttir, varamaður: Þuríður Jónsdóttir

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2018):
Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir
varamenn Bragi Valdimar Skúlason og Birna Hafstein

Fulltrúar í faghópi MOFR 2017 :
Jón Bergmann Kjartans Ransu myndlistarmaður, form.
Sólveig Aðalsteinsdóttir myndlistarmaður, varam.
Lára Rúnarsdóttir tónlistarmaður
Hlín Pétursdóttir Behrens söngkona, varam.
Hávar Sigurjónsson rithöfundur og leikskáld
Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur, varam.
Erling Jóhannesson leikari
Aino Freyja Järvelä leikari
Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt fulltr. Hönnunarmiðst.

Kvikmyndaráð: Margrét Örnólfsdóttir
varamaður Bergsteinn Björgúlfsson

Fulltrúaráð Listahátíðar: Kolbrún Halldórsdóttir

Stjórn listamannalauna: Hlynur Helgason
varamaður Hlín Gunnarsdóttir

Stjórn Skaftfells:  Jóna Hlíf Halldórsdóttir
varamaður Kolbrún Halldórsdóttir

Fagráð Íslandsstofu í li stum og skapandi greinum: Kolbrún Halldórsdóttir

Menningarfánaverkefni Reykjavíkur:  Karen María Jónsdóttir

List án landamæra: Edda Björgvinsdóttir

Stjórn Gljúfrasteins: Kolbrún Halldórsdóttir

Listráð Hörpu: Ásmundur Jónsson

Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis: Páll Baldvin Baldvinsson
varamaður Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Höfundarréttarráð: Kolbrún Halldórsdóttir

Sérfræðinganefnd KKN  (verkefni):   Signý Pálsdóttir
(ferðastyrkir):  Sigtryggur Magnason

Starfshópur um málverkafalsanir: Jón B. Kjartanss. Ransu
varamaður Kolbrún Halldórsdóttir

Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins:  Kolbrún Halldórsdóttir

„List fyrir alla“ – samráðshópur:  Hildur Steinþórsdóttir og Davíð Stefánsson
„List fyrir alla“ – valnefnd:  Agnes Wild og Áslaug Jónsdóttir
varamaður  Benedikt Hermannsson

Austurbrú – fagráð menningar: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Starfshópur mmrn um starfsemi miðstöðva listgreina og hönnunar: Kolbrún Halldórsdóttir

Forseti BÍL situr fyrir hönd BÍL í Norræna listamannaráðinu Nordisk Kunstnerråd og er fulltrúi ráðsins í stjórn Circolo Scandinavo (varaforseti stjórnar síðan í mars 2015). Önnur trúnaðarstörf forseta eru eftirfarandi: forseti er fulltrúi BÍL í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar. Þá er hún ritari í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi. Á árinu var formlega lögð niður starfsemi ECA – European Council of Artists, en þar hafði forseti BÍL gengt embætti forseta síðan 2011.

Stjórn BÍL hefur skipt með sér verkum á árinu þannig að Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda hefur gegnt starfi ritara og Björn Th. Árnason formaður Félags íslenskra hljómlistamanna – FÍH er gjaldkeri. Það er hins vegar fjármálastjóri FÍH, Friðgeir Kristinsson sem nú annast bókhald BÍL og skil á uppgjöri til endurskoðanda Helgu Þorsteinsdóttur. Skoðunarmenn reikninga 2017 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.

Stjórn BÍL hefur komið saman til reglulegra funda 10 sinnum á árinu, þar að auki fundaði stjórnin með fulltrúum stjórnmálaflokkanna í aðdraganda þingkosninga og sat samráðsfundi með fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Einnig átti stjórn samráðsfund með stjórn listamannalauna og rektor Listaháskóla Íslands.

Starfið litað af stjórnmálaástandinu
Annað árið í röð einkenndist starf BÍL af atburðum á vettvangi stjórnmálanna, þar sem ríkisstjórnin Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem tók við völdum 11. janúar 2017, sprakk átta mánuðum síðar eða um miðjan september. Í kjölfarið var ákveðið að boða til nýrra kosninga og fóru þær fram 28. október eða réttu ári eftir að síðast var kosið. Ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók svo við völdum mánuði eftir kosningar 30. nóvember. Þá þegar var ljóst að annað árið í röð yrði fljótaskrift á afgreiðslu fjárlaga, en sú undarlega staða hafði komið upp ári áður að þing var kallað saman til að afgreiða fjárlög án þess að ný ríkisstjórn hefði verið mynduð. Fjárlagafrumvarpið 2018 kom fram í þinginu tveimur vikum eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafði verið mynduð, fyrsta umræða fór fram 15. des., önnur umræða 22. des. og þriðja ekki fyrr en milli jóla og nýárs. Fjárlög 2018 voru svo samþykkt 29. desember 2017 eða 15 dögum eftir að þau voru lögð fram. Það þarf vart að fjölyrða um hversu erfitt það var fyrir hagsmunasamtök á borð við BÍL að ná tali af fjárlaganefnd við þessar aðstæður, enda fór það svo að þó BÍL sendi inn efnismikla umsögn um frumvarpið, þar sem allur list- og menningargeirinn var undir að undanskildum söfnunum, þá fékkst ekki fundur með nefndinni og engin af breytingartillögum BÍL náði fram að ganga. En meira um það síðar í skýrslunni.

Samstarfið við landsstjórnina
Grunnstoð í samstarfi ríkisstjórnar og BÍL er stefna stjórnvalda í málefnum lista og menningar eins og hún birtist í stjórnarsáttmála og þingmálum ríkisstjórnar á hverjum tíma. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var talsvert fjallað um eflingu skapandi greina, en þegar grannt var skoðað náðu þau áform einungis til nýsköpunar og þróunar í tæknigreinum og þekkingariðnaði, listir voru nefndar á einum stað í sáttmálanum, það var í kaflanum um menntamál. Þetta olli stjórn BÍL nokkrum áhyggjum, ekki síst vegna þess að fundað hafði verið með fulltrúum flokkanna í aðdraganda þingkosninga um málefni lista og menningar þar sem sett voru á dagskrá helstu áherslumál BÍL. Þegar þessar áherslur ríkisstjórnarinnar voru ljósar óskaði stjórn BÍL eftir fundum með þeim ráðherrum sem skv. forsetaúrskurði höfðu á sínu forræði mál tengd listum og menningu. Samráðsfundur með mennta- og menningarmálaráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni var haldinn 16. maí, fundur með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Jóni Gunnarssyni fór  fram 24. maí, fundur með fjármálaráðherra 12. júní og fundað var með ráðherra nýsköpunar, ferðamála og hönnunar Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur 30. ágúst. Engin viðbrögð bárust við beiðni BÍL um fund með utanríkisráðherra Guðlaugi Þ. Þórðarsyni. Minnisblöð sem lágu til grundvallar samtalinu við þessa ólíku ráðherra eru öll aðgengileg á heimasíðu BÍL.

Samningsbundinn samráðsfundur og endurnýjun samnings
Eðli máls samkvæmt er samráðsfundur BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra sá sem mest er lagt í, enda er ákvæði um hann bundið í samstarfssamning þessara aðila og til hans mæta allir helstu samstarfsmenn ráðherrans á málasviðinu, þ.m.t. allir starfsmenn menningarskrifstofu ráðuneytisins og fulltrúar fjármálaskrifstofu. Um leið og ríkisstjórn hafði verið mynduð óskaði stjórn BÍL eftir að samráðsfundinum með nýjum mennta- og menningar-málaráðherra (KÞJ, erindi 19. janúar) yrði flýtt, í ljósi þeirrar óvissu sem hafði ríkt um forystu í málaflokknum frá þingkosningum haustið 2016. Við þeirri málaleitan fékkst það svar (8. febrúar) að til fundarins yrði boðað í apríl. Það voru stjórn BÍL nokkur vonbrigði ekki síst í ljósi þess að samstarfssamningur BÍL við ráðuneytið hafði runnið út um áramótin 2016/2017 og ekkert bólaði á nýjum samningi, þrátt fyrir eftirgangsmuni allt frá haustdögum 2016. Þegar staðið hafði í stappi við menningarskrifstofu ráðuneytisins um nokkurra mánaða skeið ritaði stjórn BÍL ráðherra bréf (18. mars) með ósk um að hann beitti sér í málinu og tryggði endurnýjun samningsins til næstu þriggja ára. Þá komst loks hreyfing á málið og var farið að vinna texta samningsins, sú vinna stöðvaðist þó óvænt þann 8. apríl þegar ráðuneytið tilkynni BÍL að „vegna flókinna samningsskilyrða eftir samþykkt laganna um opinber fjármál yrði samningurinn hafður til eins árs“.  Stjórn BÍL gat ekki fallist á þetta og ritaði ráðherra á ný (18. apríl) og óskaði eftir tafarlausri lausn á málinu, enda hafði BÍL þá ekki fengið greitt framlag til rekstrar í rúmlega hálft ár. Þegar kom að samráðsfundinum, sem á endanum var ekki haldinn í apríl heldur 16. maí, þá var BÍL enn án samnings við ráðuneytið. Það fór þó á endanum svo að í lok samráðsfundarins var samningurinn lagður fram og ljóst að breytingatillögur BÍL á orðalagi samingsins höfðu náð fram að ganga, en samningurinn skyldi renna út 31. desember 2017 eða 7 ½ mánuði eftir undirritun. Þetta voru mikil vonbrigði ekki síst í ljósi þess að í hönd fór nítugasta afmælisár BÍL (2018) en fyrsti samstarfssamningurinn var einmitt undirritaður þegar haldið var upp á 70 ára afmælið (1998), svo stjórn BÍL hafði gert sér vonir um að ráðherra og ráðuneyti myndu sýna starfi BÍL meiri skilning á þeim  tímamótum sem framundan eru í starfi heildarsamtaka listafólks á Íslandi.

Megináherslur BÍL á samráðsfundinum
Í minnisblaði BÍL fyrir fundinn var áhersla lögð á innleiðingu menningarstefnunnar sem Alþingi samþykkti vorið 2013 sem enn hefur ekki verið innleidd með neinum formlegum hætti. Spurt var hvort líta mætti á fjármálaáætlun ríkis-stjórnarinnar 2018 – 2022 sem aðgerðaáætlun í því skyni að innleiða menningarstefnuna, enda ýmis metnaðarfull áform að finna í fjármálaáætluninni, en gallinn var sá að þau áform voru ekki fjármögnuð að neinu leyti í nýjum fjárlögum og ekki heldur í áætluninni sjálfri. Þá var spurt út í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem gerði ráð fyrir innviðauppbyggingu í þágu kraftmikils atvinnulífs um allt land, sameiginlegri stefnu um málefni höfuðborgarsvæðisins, eflingu skapandi greina og auknum hlut lista og menningar í skólastarfi. Allt verkefni sem Bandalagið hefur vakið máls á við stjórnmálamenn gegnum tíðina og er reiðubúið að styðja. Því óskaði stjórn BÍL eftir áætlun um efndir þessara áforma en lýsti jafnframt áhyggjum yfir augljósri fjarveru listanna, ekki síst úr menginu „skapandi greinar“.

Enn sem áður lagði BÍL til að skráning tölfræði lista og menningar verði með svipuðum hætti og á öðrum Norðurlöndum, að hlutur listrannsókna verði viðurkenndur undir hatti Vísinda og tækniráðs og að menningarsamningar ríkisins undir sóknaráætlun landshlutanna verði virkjaðir á ný.. Önnur atriði sem BÍL vakti máls á tengdust baráttumálum einstakra listgreina, til dæmis má nefna átak SÍM „Borgum myndlistarmönnum“ og ákall um endurreisn Listskreytingasjóðs, kröfu sviðslistafélaganna um Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, áralanga baráttu dansara fyrir stefnu í málefnum listdanskennslu á grunn- og framhaldsstigi, kröfuna um uppbyggingu skólabókasafna, starfið á vettvangi verkefnisstjórnar um málefni kvikmyndageirans þ.m.t. um nám í kvikmyndagerð og þverfaglegt samráð um málefni menningar og ferðaþjónustu.

Loks var minnt á þrjú mikilvæg atriði sem BÍL hefur oft tekið upp við stjórnvöld og vill gjarnan eiga samstarf um;

-sanngjarna skattlagningu höfundarréttargreiðslna, að þær verði skattlagðar með sama hætti og fjármagnstekjur

-að nákvæm grein verði gerð fyrir stöðu og fjárþörf helstu menningarstofnana og sjóða sem starf listamanna grundvallast á, með það að markmiði að fullfjármagna geirann og

-að ráðist  verði í nauðsynlegar úrbætur á stjórnsýslu málaflokksins þannig að ráðuneytin fimm, sem nú fara með tiltekna þætti hennar, stofni formlegan samstarfsvettvang í þágu bættrar stjórnsýslu lista og menningar a.mk. þar til hugmyndir BÍL um sjálfstætt ráðuneyti menningar ná fram að ganga.

Sjónarmið ráðherra á samráðsfundinum
Í fundargerð samráðsfundarins koma fram sjónarmið ráðherra og til að stikkla á stóru má nefna eftirfarandi atriði:

Ráðherra þykir málefnasviðið einkennast af fjölda smárra og stórra eininga, ótrúlega mörgum sjóðum og mismunandi verkefnum stórum og smáum. Hann muni setja af stað vinnu við forgangsröðun og nefnir í því sambandi stöðu íslenskrar tungu og máltækniverkefnið, ásamt málefnum bókaútgáfu og bókmenningar. Þá lýsir hann áhuga á  hugmyndum SÍM sem koma fram í átaksverkefninu „Borgum myndlistarmönnum“ en af málefnum tónlistar sýnist honum nauðsynlegt að kanna möguleika á sameiningu tónlistartengdra sjóða, raunar vill hann skoða sameiningar stofnana og sjóða á sviði menningar og lista almennt. Skv. nýlegu svari hans við fyrirspurn á Alþingi séu sjóðir ætlaðir listsköpun 17 talsins að launasjóðunum meðtöldum og hann telji skynsamlegra að einfalda kerfið fremur en að flækja það, með það að markmiði að fjármunirnir nýtist sem best. Hann hafi ekki í hyggju að skerða fjárveitingarnar heldur einungis að endurskipuleggja kerfið.

Talsverð áhersla var lögð á að útskýra breytt vinnubrögð vegna nýrra laga um opinber fjármál, þannig þurfi stjórnvöld að marka stefnu til fimm ára í senn og mikil áhersla sé lögð á skýrslugjöf ráðherra til Alþingis þar sem greint verði frá fjárveitingum til einstakra ríkisaðila og verkefna og metinn ávinningur af ráðstöfun fjárveitinga með tilliti til settra markmiða. Verklag sem þetta kalli á allt aðra hugsun og muni bæta verulega vinnuna við fjárlagagerð. Þá greindi hann fundinum frá því að ástæða þess að ekki hafi verið hægt að gera þriggja ára samning við Bandalags íslenskra listamanna að þessu sinni væri sú að fjármálaráðuneytið hafi ekki samþykkt samninginn með tilliti til nýrra laga.

Ráðherra svaraði því til varðandi stjórnsýslu lista- og menningar að vissulega væri samráð milli ráðuneyta og við sveitarstjórnarstigið mikilvægt til að fylgja eftir hinum ýmsu verkefnum en engar ákvarðanir hafi verið teknar um stórfelldar breytingar á núverandi fyrirkomulagi og til að taka af allan vafa, þá stæði ekki til að brjóta upp skiptingu stjórnarráðsins með því að stofna annað ráðuneyti og bað fundarmenn að eyða ekki talanda og orku í að ræða það fram og til baka (tilvitnun í fundargerð samráðsfundar 16. maí 2017).

Það var mat stjórnar BÍL að árangur þessa fundar hafi ekki verið mikill, enda einungis tvær vikur eftir af vorþingi. Svo fór sem fór um haustið; þegar haldnir höfðu verið þrír fundir á haustþingi, slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu og boðað var til kosninga á ný.

Þingkosningar 2017
Annað árið í röð undirbjó BÍL samtal við frambjóðendur stjórnmálaflokkanna í aðdraganda Alþingiskosninga. Í þetta sinn voru ekki haldnir málefnafundir með fulltrúum hvers flokks fyrir sig, heldur var skipulagður einn fundur þar sem óskað var eftir þátttöku talsmanna flokkanna í málefnum lista og menningar. Eftirtaldir flokkar sendu þátttakendur til fundarins; frá Bjartri framtíð – Guðlaug Kristjánsdóttir, frá Framsóknarflokki – Lárus Lárusson, frá Pírötum – Snæbjörn Brynjarsson, frá Samfylkingu – Margrét Tryggvadóttir, frá Sjálfstæðisflokki – Vilhjálmur Bjarnason, frá Viðreisn -Páll Rafnar Þorsteinsson og frá Vinstri-grænum – Halla Gunnarsdóttir. Stjórn BÍL ákvað að byggja samtalið á því sem rætt hafði verið í aðdraganda kosninganna 2016 en fækkaði áherslupuntum í minnisblaðinu sem lá til grundvallar úr tíu (2016) í þrjú. Fundurinn var haldinn 9. október í húsnæði FÍH við Rauðagerði og í aðdraganda hans voru þeim sem höfðu tilkynnt þátttöku sendar eftirfarandi spurningar:

Hver er afstaða þins flokks til eftirfarandi mála:

 1. Sjálfstætt ráðuneyti lista og menningar og ef það nær ekki fram að ganga þá áætlun um samræmda stjórnsýslu í málefnum lista og skapandi greina með formlegum samráðsvettvangi þeirra ráðuneyta sem sinna málefnum hins skapandi geira.
 2. Formlegt samstarf um stefnumótun í málefnum lista og menningar til 2022, sbr. tillögur í sóknaráætlun BÍL frá 2015 og áform stjórnvalda í fjármálaáætlun 2018 – 2022, með megináherslu á eflingu máttarstólpa í list- og menningartengdu starfi jafnt stofnanir, sjóði og einstök verkefni.
 3. Skatthlutfall tekna vegna höfundagreiðslna verði hið sama og vegna annarra eignatekna t.d. fjármagnstekna, enda er höfundaréttur eignarréttur og því um sambærilegar greiðslur að ræða.

Svör stjórnmálamannanna voru nokkurn vegin á einn veg, þeir sýndu kröfu BÍL um sameinaða stjórnsýslu málefna lista og menningar skilning og höfðu ýmsar vangaveltur um úrbætur í þeim efnum. Þá töldu allir sem einn mikilvægt að stjórnvöld hefðu náið og gott samráð við geirann við stefnumótun, og allir lýstu sig reiðubúna til að tryggja sanngjarnari skattlagningu höfundarréttargreiðsla. Svo segja má að niðurstaða fundarins hafi verið jákvæð og nú heyri það upp á stjórn BÍL að fylgja þessum málum eftir við nýtt Alþingi sem kosið var 28. október.

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar
Niðurstaða kosninganna var sú að fyrri ríkisstjórn missti meirihluta sinn og mánuði eftir kosningar var ný ríkisstjórn mynduð undir forystu Vinstri-grænna, með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Endurnýjun var mikil í þingliðinu, annað árið í röð, þó ekki eins mikil og í kosningunum árið áður þegar yfir 50% þingmanna voru nýir, nú komu 19 nýir til leiks, en helmingur þeirra hafði setið áður á þingi um lengri eða skemmri tíma.

Það heyrir til tíðinda að listanna, listamanna og listnáms er getið með einhverjum hætti átta sinnum í stjórnarsáttmála Vinstri-grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Af innihaldi hans hljóta eftirfarandi efnisþættir að teljast markverðastir fyrir listageirann:

 • Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi. Þess vegna skiptir máli að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Hlutverk stjórnvalda er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs. Unnin verður aðgerðaáætlun á grundvelli samþykktrar menningarstefnu.
 • Ríkisstjórnin ætlar að leggja sérstakra áherslu á listnám og aukna tækniþekkingu sem gera mun íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu.
 • Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins fyrir árið 2020 og Norðurlanda árið 2025 í samræmi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs sem mun skipta sköpum fyrir bæði kennslu og rannsóknir í íslenskum háskólum. Unnið verður að lausn á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands á kjörtímabilinu.
 • Hugað verður að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla. Fyrsta skref verður að afnema virðisaukaskatt á bókum. Ráðist verður í gerð hagvísa fyrir menningu, listir og skapandi greinar. Áfram verður unnið að því að efla skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg á Íslandi. Höfundagreiðslur sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta verða skattlagðar sem eignatekjur. Áfram verður unnið að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna.
 • Lögð verður áhersla á þátt hins opinbera í að auka kraft og fjölbreytni atvinnulífs um land allt og mikilvægi þess að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum. Þeim munu fylgja nýjar kröfur um menntun og hæfni starfsfólks og að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum, þ.m.t. hjá hinu opinbera og í rótgrónum greinum.
 • Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs mun renna til verkefna á þessu sviði.
 • Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki á fjölbreyttum málasviðum sem mikilvægt er að styðja við.

Umsögn BÍL um fjárlög 2018
Löng hefð er fyrir því að stjórn BÍL gefi fjárlaganefnd Alþingis umsögn um þá liði fjárlaga er varða listir og menningu. Framsetning umsagnarinnar hefur þróast þannig á undanförnum árum að ekki einasta er horft til stöðu launasjóða listamanna og verkefnatengdra sjóða heldur er horft til heildarmyndarinnar og skoðuð fjármögnun ríkisins á lykilstofnunum sem telja verður burðarstoðir í starfsumhverfi listafólks.  Mikilvægt samstarf hefur því skapast við list- og menningartengdar stofnanir ríkisins við gerð umsagnarinnar með það sameiginlega markmið að leiðarljósi að beina sjónum þingmanna að afkomu listageirans í heild sinni. Í þessu samstarfi felst að stjórn BÍL talar óbeint máli stofnananna á vettvangi fjárlaganefndar, en forstöðumenn stofnananna reka sín mál frekar á vettvangi ráðuneytanna. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og verið litið svo á að það sé hagur beggja, stofnananna og sjálfstæða geirans.

Megininntak umsagnar BÍL við fjárlögin á seinustu árum hefur verið það að list- og menningargeirinn sé sárlega undirfjármagnaður og hafi verið það um margra ára skeið. Rökstuðningurinn er helst sá að niðurskurður opinberra fjárframlaga til bæði sjóða og stofnana á listasviðinu í kjölfar efnahagshrunsins hafi ekki skilað sér nema að litlu leyti til baka. Einnig bendir BÍL á að á árunum fyrir hrun hafi stjórnvöld þegar verið farin að draga úr fjárframlögum til menningarstofnana og talið það réttlætanlegt í ljósi þess að einkaaðilar og fyrirtæki á markaði höfðu á þeim tíma komið með umtalsvert fjármagn inn í geirann.  Því er það mat BÍL að hraustlegrar leiðréttingar sé þörf á opinberum framlögum til list- og menningartengdra stofnana, launasjóða listafólks og verkefnasjóða. Slík leiðrétting sé forsenda þess að starfskjör listafólks lagist og störfum í listageiranum fjölgi. Það verður að segjast um þennan rökstuðning BÍL að hvergi í opinbera kerfinu er aðgengilegt talnaefni sem staðfestir þessar fullyrðingar eða hrekur, sem undirstrikar þörfina fyrir opinbera menningartölfræði. Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið er aðgengileg á vef  BÍL.

Vinnulag við fjárlagagerðina
Á síðustu árum, eða allt frá 2013, hefur fjárlaganefnd Alþingis látið sér nægja að taka við umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið en ekki veitt okkur beina áheyrn, eins og tíðkast hafði um langt árabil þar áður, þrátt fyrir það óskar stjórn BÍL árlega eftir fundi með nefndinni eða fulltrúum hennar. Það var einnig gert nú, en eins og fram kemur framar í ársskýrslunni, var þeirri beiðni ekki sinnt og er það fimmta árið í röð sem nefndin neitar BÍL um fund. Þegar endanleg afgreiðsla fjárlaga lá fyrir, sendi stjórn BÍL formanni fjárlaganefndar erindi og óskaði eftir áheyrn um niðurstöðu fjárlaga, og til að ræða stöðu listanna og helstu menningarstofnana með tilliti til þess hversu lengi þessi viðkvæmi geiri hefur verið undirfjármagnaður. Það sem olli þó mestum kurr í baklandi listafólks var sú niðurstaða nefndarinnar að bæta 150 milljónum við málaflokkinn „listir og menning“ og úthluta af eigin hvötum og geðþótta til nokkurra list- og menningartengdra verkefna (eitthvað á annan tug verkefna), eftir því sem best var vitað án verklagsreglna og án þess að auglýsa eftir umsóknum. Slík vinnubrögð eru ófagleg með öllu og voru formlega aflögð 2012 í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sbr. frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis 15.11.2013 og reglur mmrn. um úthlutun styrkja útg. 10.10.2014.

Þann 17. janúar sl. hitti forseti BÍL formann og 1. varaformann fjárlaganefndar á fundi, þá Willum Þór Þórsson og Harald Benediktsson. Á fundinum voru ofangreind málefni rædd ásamt almennum vandkvæðum við innleiðingu nýju laganna um opinber fjármál, t.d. benti forseti á að ársfjórðungsskýrslur ráðherra hafi ekki enn litið dagsins ljós og komið á þriðja ár frá því lögin tóku gildi, yfirlit fylgiritsins hafi enn ekki verið uppfært þó tveggja vikna fresturinn frá samþykkt fjárlaga sé liðinn auk þess sem ekkert hafi heyrst af ráðstöfun varasjóða lista og menningar 2016 eða 2017. Þessum sjónarmiðum BÍL var að mestu leyti vel tekið af þingmönnunum tveimur og því lofað af formanninum að BÍL fengi annað tækifæri síðar á vorþinginu til að halda þessu samtali áfram og ræða framtíðarsamskipti BÍL og nefndarinnar.

Varðandi fylgirit fjárlagafrumvarps 2018, sem nefnt er hér að framan, þá er það lykilgagn þeirra sem fylgjast vilja með opinberum fjármálum, þar sem einungis stærstu drættir fjárlaga koma fram í sjálfum frumvarpstextanum eftir að ný lög um opinber fjármál gengu í gildi 01.01.2016. Sá kafli fylgiritsins, sem fjallar um menningu og listir hefur verið ófullkominn að því leyti að í flestum tilfellum eru þar einungis birtar samtölur liða, en sundurliðanir eru af skornum skammti. Þetta hefur reynst BÍL bagalegt í allri vinnu með fjárlagafrumvarpið, einkum vegna fjárlagaársins 2018 þar sem ráðuneytið lét undir höfuð leggjast að birta nauðsynlega sundurliðun á vefsíðu sinni, nokkuð sem hafði verið gert samviskusamlega árið áður. Vegna þessarar tregðu við að afla upplýsinga og vegna þess dráttar sem orðið hefur á uppfærslu fylgiritsins hefur stjórn BÍL ritað bréf til skrifstofustjóra opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneyti, sem á endanum ber ábyrgð á uppfærslu fylgiritsins. Svar við því erindi hefur ekki borist þegar þetta er ritað. Ljóst er að ástandið sem kallað var „ófremdarástand“ í ársskýrslu forseta BÍL 2016 hefur ekki lagast og erfiðleikar stjórnsýslunnar við að innleiða ný lög um opinber fjármál koma víða niður. 

Samstarfssamningurinn 2018 – 2020
Svo sem að framan greinir þá fékkst samstarfssamningur BÍL og ráðuneytisins ekki framlengdur á síðasta ári nema til ársloka 2017, en samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir því að gert sé viðvart fyrir lok september óski annar hvor samningsaðila eftir því að samningurinn verði endurnýjaður. Eftir þessu ákvæði var farið og óskaði stjórn BÍL eftir endurnýjun samningsins 13. september. Vel var brugðist við og forseti boðaður til fundar í ráðuneytinu 5. október til að ræða inntak nýs samnings. Fundinn sátu tveir embættismenn menningarskrifstofu ásamt skrifstofustjóra og á fundinum kom fram að ráðuneytið myndi leggja til að þriggja ára samningur yrði gerður við BÍL og árleg upphæð myndi hækka nokkuð frá því sem nú er (upphæðin 2017 var 4,5 millj.). Þ. 4. desember ítrekaði BÍL erindið þar sem ekkert hafði heyrst frá ráðuneytinu í tvo mánuði. Viðbrögð voru engin, þá var aftur send ítrekun 19. desember, sem varð til þess að svar barst um að nú myndu samningsdrög berast „alveg á næstunni“. Síðasta vinnudag ársins, föstudaginn  29. desember, hafði ekkert svar borist og var þá send ítrekun og afrit af samskiptunum á ráðuneytisstjóra. Skömmu eftir áramót þ. 5. janúar bárust loks samningsdrög, sem ollu verulegum vonbrigðum þar sem árleg hækkun, sem okkur hafði áður verið tjáð að yrði rífleg, var einungis kr. 500.000.-. Viðbrögð BÍL við þeim pósti voru eðlilega nokkuð afundin. Þá barst um hæl afsökunarbeiðni og sagt að mistök hafi orðið í ritun samningsdraganna og lofað leiðréttingu, sem barst svo 8. janúar. Þar var staðfest að árlegt framlag ráðuneytisins yrði 6 milljónir, sem sagt  hækkun um 1,5 milljón á ári fram til 2020. Stjórn BÍL þakkaði fyrir það en gerði þó nokkrar athugasemdir við texta samningsdraganna, sérstaklega við þá tillögu ráðuneytisins að þrengja málasviðið sem samningurinn og þar með ráðgjöf BÍL næði til. Við þeim tillögum hafa ekki borist formleg viðbrögð, en samtalið við ráðuneytið stendur yfir og vonir standa til að nýr samningur verði undirritaður áður en kemur að aðalfundi BÍL 17. febrúar.

Nýr mennta- og menningarmálaráðherra
Þann 4. desember, tíu og hálfum mánuði eftir að stjórn BÍL hafði boðið velkominn til starfa Kristján Þór Júlíusson, var ritað annað samskonar bréf það sem mennta- og menningarmálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar, Lilja Alfreðsdóttir, var boðin velkomin til starfa og þess óskað, í ljósi þess að annað árið í röð væri skipt um ráðherra á miðjum vetri, að flýtt yrði árlegum samráðsfundi stjórnar BÍL með ráðherra og hennar starfsliði. Erindið var ítrekað 11. janúar og óskaði ráðherra þá eftir að hitta forseta BÍL með það að markmiði að kynna sér störf og sjónarmið BÍL áður en hinn samningsbundni samráðsfundur yrði haldinn. Á þeim fundi, sem haldinn  var 24. janúar, voru ráðherra afhent helstu gögn um starfsemi BÍL, ársskýrslu og ársreikninga 2016, ásamt starfsáætlun og tillögu BÍL að sóknaárætlun í listum og skapandi greinum frá 2015.  Einnig umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2018 og hugmyndir BÍL um skráningu tölfræði menningar. Þá gerði forseti ráðherra grein fyrir tregðunni við að fá nýjan þriggja ára samstarfssamning og kynnti jafnframt athugasemdirnar sem stjórn BÍL hefur gert við orðalag samningsdragana og þrengingu málasviðsins. Ráðherra lét í ljósi vilja til að flýta samráðsfundi BÍL og er þess að vænta að dagsetning hans verði ákveðin á næstunni.

Samráðsfundir með öðrum ráðherrum
Á seinustu árum hefur BÍL sóst eftir formlegum fundum með fleiri ráðherrum en mennta- og menningarmálaráðherra, þ.e. þeim ráðherrum, sem samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna, hafa skilgreint hlutverk gagnvart einhverjum þáttum lista og hönnunar.

 • Þetta eru utanríkisráðherra, sem fer með málefni tengd kynningu á Íslandi og því sem íslenskt er, m.a. með starfi sendiráða Íslands erlendis og Íslandsstofu, sem annast kynningarmál erlendis og markaðsetningu landsins, m.a. kynningu á list og menningu skv. lögum um stofnunina.
 • Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sem fer með málefni nýsköpunar, hönnunar og hönnunarstefnu, endurgreiðslur á sviði kvikmyndagerðar og tónlistarupptöku, ásamt hugverkastefnu á sviði iðnaðar.
 • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en undir hann heyra menningarsamningar landshlutasamtaka sveitarfélaga og Byggðastofnun sem fer með málefni samninganna. Raunar hafa menningarsamningarnir verið felldir inn í „uppbyggingarsjóði“ landsbyggðarinnar en eru þó fjármagnaðir af fjárlagalið mennta- og menningarmálaráðuneytis.
 • Fjármálaráðherra, sem hefur með framkvæmd laganna um opinber fjármál að gera, framsetningu fjármálaáætlunar og ber ábyrgð á framsetningu fjárlagafrumvarpsins.

Á nýliðnu starfsári tóku eftirtaldir ráðherrar þessara málaflokka á móti fulltrúum stjórnar BÍL: Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðar og nýsköpunarráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, öll úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Síðan ný ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tók við hafa fultrúar BÍL fundað með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Minnisblöð frá öllum þessum fundum eru aðgengileg á vefsíðu BÍL.

Samstarfið við menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
Samstarf BÍL og MOFR hefur verið í föstum skorðum síðasta árið, BÍL á tvo áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins og leggur til fjóra af fimm fulltrúum í faghóp ráðsins, sem hefur það hlutverk að gera tillögur um úthlutun styrkja til list- og menningartengdra verkefna, bæði til einstakra verkefna en tekur líka þátt í vinnunni við útnefningu borgarhátíða og langtímasamninga. Reykjavík hefur verið að auka stuðning sinn við list- og menningartengd verkefni. Í ár fjallaði faghópurinn um 179 umsóknir sem í heildina hljóðuðu upp á 282 m.kr. en úthlutað var til 103 verkefna rúmum 66 m.kr. – 8 listhópar, hátíðir og samtök fengu nýjan samning við borgina til þriggja ára en fyrir voru 20 hópar með samninga í gildi og Gjörningaklúbburinn var útnefndur listhópur Reykjavíkur 2018.

Á árinu lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina í menningar- og ferðamálaráði fram tillögu þess efnis að tveir ráðsmenn fengju aðkomu að fundum faghópsins sem fjallar um umsóknir um list- og menningartengda styrki og gerir tillögur til ráðsins um úthlutun. Stjórn BÍL var beðin um umsögn um tillöguna og mælti ekki með samþykkt hennar enda færi slík breyting gegn menningarstefnu borgarinnar þar sem áskilin er vönduð stjórnsýsla og áhersla lögð á samstarf út á við og inn á við. Fyirkomulagið byggi líka á reglunni um „hæfilega fjarlægð“ og standist ákvæði menningarstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2013 þar sem fjalllað er um faglega úthlutun til menningarstarfs sem byggi á vönduðu jafningjamati. Þess utan eigi ráðsmenn góðan aðgang að faghópnum sem fundar með ráðinu öllu um niðurstöðu sína áður en ráðið afgreiðir hana formlega. Það fór svo að ráðið felldi tillöguna.

Síðla árs var gengið frá því að borgin tæki virkan þátt í að bæta úr húsnæðisvanda Dansverkstæðisins með því að leigja húsnæði við Hjarðarhaga, sem gert verður upp svo það henti þörfum starfseminnar. Einnig voru á árinu gerðir nýir samstarfssamningar við Nýlistasafnið og Kling og Bang, en bæði söfnin hafa fengið góða aðstöðu í endurbyggðu Marshallhúsi á Granda. Það sem þó verður að telja til mestra tíðinda á list- og menningarsviðinu og er til vitnis um gott samstarfi borgar og BÍL, er sú niðurstaða Borgarráðs að auka fjárveitingar til Listasafns Reykjavíkur til að tryggja sanngjarnar greiðslur til myndlistarmanna sem sýna í safninu og samþykkja verklagsreglur þar um. Þriggja manna starfshópur á vegum borgarinnar vann tillögu að verklagsreglunum, í honum sátu Ólöf K. Sigurðardóttir safnstjóri Listasafnsins, Signý Pálsdóttir skrifstofustjóri menningar á menningar- og ferðamálasviði og Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL. Þannig hefur Reykjavíkurborg nú gengið fram fyrir skjöldu og brugðist við kalli SÍM sem hefur af miklum krafti  haldið úti baráttu undir slagorðinu „Borgum myndlistarmönnum“. Líklegt er að nú verði pressan á ríkið aukin og einnig má telja líklegt að önnur listasöfn á vegum sveitarfélaga fylgi fordæmi borgarinnar á næstunni.

Eitt af nýmælum í stjórnsýslu borgarinnar, í þágu opinnar stjórnsýslu, er að nú hefur verið opnaður aðgangur að fundargerðum af ölllum sviðum og í öllum málaflokkum, þannig að fundargerðir menningar- og ferðamálaráðs eru nú aðgengilegar á vefnum.

Samráðsfundur með borgarstjóra
Árlegur samráðsfundur BÍL og borgarstjóra var haldinn í Höfða 8. maí og lagði BÍL upp með að ræða nokkur afmörkuð atriði menningarstefnu Reykjavíkur ásamt atriðum úr menntastefnu er varða listmenntun. Til grundvallar umræðunni lágu skilgreindar aðgerðir sem finna má í aðgerðaáætlun menningarstefnu borgarinnar:

1.kafli – aðgerð í farvegi: Reykjavíkurborg hvetur til og hefur samstarf um rannsóknir á hagrænum áhrifum menningar og skapandi greina. Til framtíðar verði hagræn, menningarleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif metin, vægi hvers þáttar og samspil þeirra á milli.

BÍL telur að grundvallaratriði í kortlagningu á áhrifum lista og menningar í borginni sé að gera úttekt á þróun framlaga til lista og menningar. Greina þarf hvernig framlög hafa skipst milli stofnana og sjálfstæðrar starfsemi, milli hópa og einstakra listamanna, milli hátíða og annars konar verkefna. BÍL telur frekari rannsóknir á vægi greinanna byggja á slíkri kortlagningu og að miða beri úttektina við árabilið 2009 – 2016.

 1. kafli – 5 ára áætlun: Verklagsreglur fyrir menningarstofnanir Reykjavíkurborgar mótaðar í samvinnu forstöðumanna þeirra og Bandalags íslenskra listamanna sem miða að því að réttur listamanna til launa fyrir vinnuframlag sitt sé virtur og höfundaréttur þeirra hafður í hávegum.

Þessu ákalli var svarað með auknum fjármunum til Listasafns Reykjavíkur og verklagsreglum um greiðslur til myndlistarmanna (sjá framar í skýrslu þessari).

 1. kafli – 5 ára áætlun: Hvatt til áherslu á menningaruppeldi með því að efla fræðslustarfsemi menningarstofnana borgarinnar og að auka samstarf listamanna og skólafólks innan grunnskólans í nánu samstarfi við skóla- og frístundasvið.

Hér er lögð áhersla á samstarf listamanna og skólafólks og BÍL hvatti borgaryfirvöld til að tengjast langþráðu verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins „List fyrir alla“ með það að markmiði að reikvísk grunnskólabörn og kennarar þeirra fái notið þess sem verkefnið hefur að bjóða.

Stefna um tónlistarfræðslu – Tillögur starfshóps maí 2011: Tónlistarnám í Reykjavík tekur mið af þremur meginmarkmiðum aðalnámskrár tónlistarskóla: Uppeldislegum markmiðum, leikni- og skilningsmarkmiðum og samfélagslegum markmiðum. […] Gæðaviðmið taka mið af viðurkenndum gæðastuðlum, s.s. aðalnámskrá og öðrum sambærilegum alþjóðlegum viðmiðum. […] Reykjavíkurborg greiðir framlag til tónlistarkennslu samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla 75/1985.

Varðandi þennan þátt þá hvatti BÍL borgaryfirvöld til að nýta svigrúmið, sem skapast með stofnun menntaskóla tónlistarinnar og breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, til að endurreisa kerfið og slá öflugum stoðum undir starfsemi þeirra skóla sem starfa innan þess. Mikilvægt er að greiðslur borgarinnar til skólanna haldist í hendur við umsamin laun og að skólunum sé gert kleift að standa við ákvæði um bóklega kennslu og samspil meðfram einkakennslu svo sem námskrá kveður á um.

 1. kafli – Aðgerðir í farvegi: Fjölbreytt aðstaða til listsköpunar, listflutnings, sýninga og annarrar menningarstarfsemi hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu borgarinnar eða annarra. Auk nýrra möguleika til aðstöðu gætu ýmis opin rými borgarinnar einnig komið til móts við þarfir listalífsins.

Í ljósi þessa hvatti BÍL borgaryfirvöld til að taka þátt í að leysa húsnæðisvanda Dansverkstæðis, sem þau og gerðu fyrir árslok (sjá framar í skýrslu þessari) en einnig var minnt á framtíðarmarkmið danslistarinnar, þ.e. stofnun Danshúss í Reykjavík.

 1. kafli – 5 ára áætlun: Aukin aðkoma listamanna að skipulagi og mótun mannvirkja á vegum borgarinnar, í samræmi við markmið í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, ásamt áherslu á samþættingu lista við skipulag hverfa utan miðborgarinnar.

Stjórn BÍL ítrekaði fyrri athugasemdir sínar varðandi þörfina á fleiri opnum samkeppnum um arkitektúr og skipulag ásamt ákalli um aukna fagmennsku við framkvæmd þeirra.

 1. kafli – 5 ára áætlun: Tekið verði mið af 14. grein myndlistarlaga nr. 64/ 2012 um framlag til listaverka í nýbyggingum þar sem verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar.

Myndlistarlög mæla fyrir um að opinberar byggingar ásamt umhverfi þeirra, svo og önnur útisvæði í opinberri eigu, séu fegruð með listaverkum og að verja eigi a.m.k. 1% af heildarbyggingarkostnaði nýbygginga til að uppfylla þessa lagaskyldu. Þá er í lögunum ákvæði um að Alþingi veiti árlega fé í listskreytingasjóð til listaverka í opinberum byggingum (ríkis og sveitarfélaga) sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999.  Staðreyndin er sú að ríkið hefur forsómað Listskreytingasjóð síðustu sex árin, þar sem framlagið til hans var skorið eftir hrun úr kr. 7,1 milljón 2010 í 1,5 milljónir, sem gerir sjóðnum ókleift að starfa. SÍM, AÍ og BÍL hafa gert alvarlegar athugasemdir við þessa niðurstöðu ríkisins í sjö ár og leggja nú til við borgaryfirvöld að þau gangi í lið með listamönnum og kanni hvernig borgin sinnir þeirri lagaskyldu sem á henni hvílir, með það að markmiði að auka hlut myndlistar í opinberum byggingum og umhverfi þeirra. Slíkar aðgerðir myndu auka þrýsting á ríkið og vonandi auka það fjármagn sem Alþingi ákvarðar Listskreytingasjóði í fjárlögum framtíðarinnar.

Stjórn BÍL fagnaði á fundinum nýrri aðgerðaáætlun á grundvelli ferðamálastefnu Reykjavíkur, en BÍL hefur um árabil lagt áherslu á aukið samtal ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina, m.a. með starfi innan Íslandsstofu en einnig innan menningar- og ferðamálaráðs þar sem áheyrnarfulltrúar BÍL hafa tök á að koma með tillögur og sjónarmið. Þá hvatti stjórn BÍL borgaryfirvöld til að þrýsta á ríkið og Hagstofu Íslands varðandi skráningu talnaefnis tengt þeim atvinnugreinum sem styðja við ferðaþjónustuna þ.m.t. listir og skapandi greinar.

Launasjóðirnir
Úthlutun úr launasjóðunum fór fram 1600 mánaðalaun til úthlutunar úr launasjóðum listamanna. Sótt var um 9.053 mánuði, svo munurinn er 7.453  mánuðir! Í þetta sinn var ekki úthlutað neinum ferðastyrkjum. Alls bárust 852 umsóknir um starfslaun frá einstaklingum og hópum. Umsækjendur voru samtals 1.529. Úthlutun fengu 370 listamenn. 2016 setti BÍL fram ákall til stjórnvalda, og raunar til stjórnmálaflokkanna sem rætt var við í aðdraganda þingkosninga það ár, um að gerð yrði þriggja ára áætlun um fjölgun mánaðarlauna í starfslaunasjóðum listamanna, þ.e. að þeim fjölgi úr 1600 í 2000 á þremur árum og um hækkun mánaðarlegrar greiðslu úr 350 þús. í 450 þús. strax 2017. Að auki yrði gerð áætlun um eflingu verkefnatengdra sjóða, ekki síst kvikmyndasjóðs og sviðslistasjóðs. Þessu ákalli var ekki sinnt af síðustu ríkisstjórn, en mögulega eru hagfelldari skilyrði uppi núna, þar sem ný ríkisstjórn heitir því í stjórnarsáttmála að efla bæði starfslaunasjóðina og verkefnatengda sjóði. Rétt er að taka fram að mánaðargreiðsla úr launasjóðunum um þessar mundir er kr.  377.402.-, framreiknað væru 450 þúsundirnar því rúmlega 485 þúsund.  Greiðslurnar úr launasjóðunum eru verktakagreiðslur, svo þegar skoðað er hver launaliðurinn er í mánaðagreiðslu að upph. kr. 377.402.- , ef gert er ráð fyrir að 32% greiðslunnar fari í launatengd gjöld, er niðurstaðan tæpl. 256.633.- fyrir skatt. Það þarf ekki að fjölyrða um það hvort einhverri annarri háskólamenntaðri stétt í landinu sé boðið upp á sambærileg kjör. Til áréttingar má geta þess að árlega brautskráir Listaháskóli Íslands 110 – 120 með bakkalár- eða meistaragráðu í listum og hönnun. Það segir sig sjálft að krafa BÍL um áætlun um eflingu launasjóðanna er bæði eðlileg og sanngjörn.

Í mars hélt stjórn BÍL samráðsfund með stjórn listamannalauna og ræddi málefni sjóðanna og framtíðarþróun. Voru fundarmenn sammála um að halda áfram baráttunni fyrir því að launasjóðir listafólks á Íslandi verði fjármagnaðir með sambærilegum hætti og gert er á hinum Norðurlöndunum. Til þess að svo megi verða þarf að gera samanburð á kerfum landanna, sem BÍL hefur því miður ekki fengið ráðuneyti mennta- og menningar til að framkvæma, þrátt fyrir nokkrar tilraunir í þá átt. Stjórn BÍL telur að með samstilltu átaki og samstarfi við stjórn listamanna launa megi færa sönnur á það hversu undirfjármagnað okkar launasjóðakerfi er og hvernig okkar launasjóðir hafa átt undir högg að sækja, sem er alls ekki raunin á hinum Norðurlöndunum. Í ljósi þess að stjórnvöld virðast loks hugsa sér til hreyfings í þessum efnum er mikilvægt að málefnanlegt samtal eigi sér áfram stað milli stjórnar BÍL og stjórnar listamannalauna.

Á vettvangi samstarfs regnhlífarsamtaka listamanna á Norðurlöndunum verður áfram þrýst á um að gerður verði yfirgripsmikill og marktækur samanburður á starfskjörum listamanna í löndunum fimm og á sjálfstjórnarsvæðunum. Þessi brýna þörf var aðalumræðuefni samráðsfundar Norræna listamannaráðsins (Nordisk Kunstnerråd) sem haldinn var í Stokkhólmi 20. mars 2017 en næsti fundur í þessu norræna samstarfi verðu haldinn í Osló 23. mars nk.

Heiðurslaun Alþingis
Um miðjan ágúst sagði Pétur Gunnarsson rithöfundur sig frá setu í umsagnarnefnd heiðurslauna Alþingis, en hann hafði verið skipaður í nefndina af hálfu BÍL í desember 2012. Skipan Péturs hafði verið með fyrirvara, sem forseta Alþingis var gerð grein fyrir, þess efnis að stjórn BÍL felli sig ekki við fyrirkomulagið á heiðurslauna-útdeilingum Alþingis, telji annmarka á lögunum frá 2012 og tilefni sé til að eiga samtal um breytingar á inntaki og framkvæmd. Meðal þess sem Pétur gerði stjórn BÍL grein fyrir þegar hann sagði sig frá setu í nefndinni var t.d. að nefndin var einungis kölluð saman einu sinni á tímabilinu sem skipan Péturs stóð, þ.e. 21. desember 2016  og var gert að skila umsögn sinni um tillögur sem óljóst var hvernig voru til komnar fyrir kl. 19:00 þann sama dag. Pétur sendi stjórn BÍL hugleiðingar sínar um heiðurslaunin og „Íslenska akademíu“, sem lýst er í ályktun aðalfundar BÍL 2012. Hugleiðingar Péturs eru aðgengilegar á vef BÍL. Niðurlag þeirra hefur að geyma eftirfarandi hugmynd:  Á komandi ári eru 100 ár liðin síðan Ísland hlaut sjálfstæði. „Íslensk akademía“ væri verðug gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín af því tilefni. Það kann að vera fullt tilefni til að ræða þessi mál við nýjan forseta Alþingis, þar sem samtalið við fyrverandi forseta skilaði engu.

Listmenntun
Eitt af meginmarkmiðum opinberrar menningarstefnu (frá 2013) er að efla listfræðslu og listkennslu í skólakerfinu öllu, m.a. með því að byggja áfram upp háskólanám í listum og efla rannsóknir á sviði menningar og lista. Þrátt fyrir þessa áherslu hefur BÍL ekki tekist að fá sérstakt samtal við menntamálaráðherra síðustu tveggja ríkisstjórna um listmenntun, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þó verður að þakka það sem vel er gert og á aðalfundi BÍL 2017 var sérstaklega fagnað þeim áfanga að stofnaður hafði verið framhaldsskóli á sviði tónlistarinnar með samningi við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík, einnig höfðu verið gerðar nokkrar breytingar á samkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna sem lengi hafði verið knúið á um. Það breytir ekki því að langt er í land með að tryggja öllum börnum á öllum skólastigum hvar sem er á landinu nægilega kennslu í listum og öðrum skapandi greinum.

Í kaflanum um menntamál í menningarstefnunni er því heitið að öll skólastig verði efld í þágu þess háleita markmiðs að listir og menning séu meðal þess sem skiptir sköpum fyrir uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða í landinu. Í því sambandi hefur BÍL spurt: Hvernig má þá skýra skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart háskólamenntun í listum, sem einungis er hægt að stunda gegn háum skólagjöldum, auk þess sem aðstaðan sem listnemum er búin óviðunandi aðstaða í ónýtu húsnæði? Baráttan fyrir bættri aðstöðu Listaháskóla Íslands hefur staðið árum saman, eiginlega allt frá stofnun skólans, og BÍL hefur beitt sér í samtali við stjórnvöld, en það er ekki fyrr en núna, þegar heilbrigðisyfirvöld hafa beinlínis lokað stærstum hluta af húsnæði skólans við Sölvhólsgötu, sem virðist hilla undir aðgerðir til að laga það versta. Enn hafa stjórnvöld ekki lagt fram hugmyndir um fjármögnun framtíðarhúsnæðis fyrir skólann. Ekki hefur heldur mótuð stefna um rannsóknir í listum eða ákveðið með hvaða hætti hlutur lista innan Vísinda- og tækniráðs verði aukinn. Ekki bólar heldur á fjármagni á fjárlögum sem tryggir að rannsóknarþátturinn í starfsemi Listaháskóla Íslands sé fjármagnaður með sama hætti og innan annarra háskóla. Og ekki hefur verið tekin ákvörðun um með hvaða hætti háskólanámi í kvikmyndagerð verður komið á legg.

BÍL hefur lagt sig fram við að beina sjónum ráðamanna, bæði ríkis og sveitarfélaga, að þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að efna fyrirheit um að námi í listdansi verði eflt og fái staðið jafnfætis tónlistarnámi í skólakerfinu. Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins við skólana um kennslu á framhaldsstigi rennur út í lok þessa skólaárs og erfitt hefur verið að fá svör frá ráðuneytinu um áform þeirra í framhaldinu. Úttekt skólanna stendur yfir og þrýst er á ráðuneytið um að eyða óvissu um rekstrarskilyrði þeirra. Annað atriði sem mikilvægt er að lokið verði við í mennta- og menningarmálaráðuneyti er að semja reglugerð um fjármögnun og skipan nám í listdansi sem geri viðurkenndum dansskólum kleift að sinna starfi sínu af þeim myndugleik sem efni standa til. Í því sambandi hafa fagfélög dansgeirans verið í samtali við samtök sveitarfélaga og reyna nú til þrautar að fá ráðuneytið með í það samtal. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og samstöðu BÍL, Félags íslenskra listdansara og Danshöfundafélags Íslands, hefur því miður ekki enn tekist að vekja stjórnvöld af dvala í málefnum danslistarinnar, en vonir standa til að hreyfing komist á málin með vorinu.

Umsagnir um þingmál
BÍL fékk þrjú þingmál til umsagnar á árinu;

 • þingsályktunartillögu um minningu tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar, landsbókavarðar og þjóðsagna-safnara, þar sem lagt er til að gerðar verði tvær lágmyndir af Jóni og haldin ráðstefna um störf hans. Umsögn BÍL var á þá leið að mikilvægt sé að vinna tillögur af þessu tagi í samstarfi við þá aðila sem gert er ráð fyrir að framkvæmi þær, í þessu tilfelli Háskóla Íslands og Landsbókasafn, en hvergi er tekið fram í tillögutexta að slíkt samráð hafi farið fram. Þá dró BÍL í efa að kostaðarmatið sem lá til grundvallar tillögunni væri alls kostar rétt. Loks stakk BÍL upp á því að allsherjar- og menntamálanefnd hugaði að því hvort sagan hafi að geyma upplýsingar um merkiskonu, sem mögulega mætti minnast með svipuðum hætti til að vega upp á móti þeim kynjahalla sem viðgengst í opinberum ákvörðunum um að gerðar séu lágmyndir, brjóstmyndir og styttur af körlum sögunnar. Málið náði ekki fram að ganga.
 • frumvarp um að 95. grein almennra hegningarlaga falli brott, en greinin fjallar um viðurlög við móðgun við erlenda þjóðhöfðingja, smánun þjóðartákna á borð við fána og eignaspjöll á sendiráðum og lóðum þeirra. Stjórn BÍL taldi rétt að mæla með samþykkt frumvarpsins, í ljósi þess að BÍL er málsvari tjáningarfrelsis og á aðild að alþjóðlegu samtökunum ARTSFEX sem helga sig baráttunni fyrir tjáningarfrelsi listamanna um heim allan. Málið náði ekki fram að ganga.
 • þingsályktunartillögu um framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskóla Íslands. Í samræmi við stefnu BÍL í málefnum listmenntunar á háskólastigi og áralanga þátttöku í baráttu LHÍ fyrir viðunandi húsnæði fyrir allar deildir skólans, mælti stjórn BÍL með samþykkt tillögunnar. BÍL rökstuddi þá afstöðu sína m.a með því að vitna til menningarstefnu samþykktir á Alþingi 2013 og leyfði sér að gagnrýna stjórnvöld fyrir að leggja fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára án þess að gera ráð fyrir fjármunum til úrbóta á húsnæði LHÍ. Tillagan náði ekki fram að ganga.

Samhent stjórnsýsla – samráðsgátt
Á undanförnum árum hefur stjórn BÍL lagt hart að stjórnmálamönnum að bæta stjórnsýslu lista og menningar, bæði vegna þess hversu dreifður málaflokkurinn er orðinn um stjórnkerfið, en ekki síður vegna ónógra samskipta og erfiðleika við að fá svör við innsendum erindum. Það sem stjórn BÍL hefur talið að bæta myndi ástandið er sjálfstætt ráðuneyti menningar að norrænni fyrirmynd, en þangað til slík ákvörðun verður tekin þyrfti að gera áætlun um samræmda stjórnsýslu í málefnum lista, menningar og skapandi greina með formlegum samráðsvettvangi þeirra ráðuneyta sem sinna málefnum hins skapandi geira. Mikilvægt er að halda þessari hugmynd vakandi enda er hún í samræmi við niðurstöðu rannsókna sem gerðar hafa verið innan stjórnsýslufræða og skýrslur sem stjórnvöld hafa látið vinna á undanförnum árum, sérstaklega má nefna skýrslu starfshóps um samhenta stjórnsýslu frá desember 2010. En til að því sé til haga haldið sem vel er gert skal hér vakin athygli á nýung í kynningu á lagafrumvörpum sem eru í vinnslu í ráðuneytunum. En nýverið var opnuð „samráðsgátt“ á heimasíðu stjórnarráðsins, þar sem kynnt eru stjórnarfrumvörp sem eru í undirbúningi og til stendur að leggja fyrir Alþingi. Þar eru einnig kynntar breytingar á reglugerðum sem ráðherrar hyggjast gera. Gegnum þessa samráðsgátt er hægt að senda inn athugasemdir og hugmyndir, sem gætu ratað inní frumvörpin þegar þau verða lögð fram í endanlegri mynd. Ástæða er til að þakka þetta framtak og hvetja fagfélög listafólks til að fylgjast vel með „gáttinni“. Um þessar munir eru þar í kynningu 3 lagafrumvörð sem varða listir og menningu; drög að frumvarpi til breytingar á kvikmyndalögum, frumvarp um skil á menningarverðmætum til annarra landa og frumvarp um sameiginlega umsýslu höfundaréttar. Þá er von á að kynnt verði frumvarp til nýrra sviðslistalaga innan skamms. https://samradsgatt.island.is/

List um allt land
Leiklistarhátíðin ACT ALONE og BÍL leiddu saman hesta sína í ágúst og héldu málþing um atvinnutækifæri listamanna utan höfuðborgarinnar. Málþingið var haldið í tengslum við hátíðina sem fram fór á Suðureyri við Súgandafjörð  föstudaginn. Frummælendur voru þau Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar, Karna Sigurðardóttir forstöðumaður​ Menningarstofu Fjarðabyggðar og  Einar Þór Gunnlaugsson leikstjóri. Þá var  boðið upp á pallborðsumræður um inntak málþingsins, þar tóku þátt Teitur Björn Einarsson alþingismaður og Elfar Logi Hannesson leikari og stjórnandi hátíðarinnar Act Alone. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar Gísli H. Halldórsson setti málþingið og forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir var fundarstjóri. Segja má að málþingið hafi heppnast vel og fékk það talsverða umfjöllun í landsbyggðatengdum fjölmiðlum, en erfiðara var að vekja áhuga annarra fjölmiðla. Ástæður þess kunna að vera skortur á skilningi á mikilvægi þess að listir á atvinnugrundvelli fái þrifist utan höfuðborgarsvæðisins, en eitt af mikilvægum verkefnum BÍL er að freista þess að vekja áhuga fjölmiðla á málefnum listanna í víðum skilningi.

Úr kynningartexta málþingsins: Þegar fjallað er um atvinnulífið í opinberum skýrslum eða rannsóknum félagsvísindanna koma oftar en ekki í ljós veikleikar sem flestir virðast sammála um að þurfi að lagfæra. Meðal þeirra er áberandi einhæfni atvinnulífsins, sérstaklega á dreifbýlli svæðum, og lögð er áhersla á mikilvægi þess að aukið verði við fjölbreytnina, enda almennt talið að kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf sé grundvöllur þess að ungt fólk vilji setjast að á landsbyggðinni. En viðleitni stjórnvalda til að hafa áhrif á kraftinn og fjölbreytnina í atvinnulífinu hefur ekki skilað ásættanlegum árangri fram til þessa. Ýmsar leiðir til úrbóta hafa verið kannaðar og undanfarið hefur mátt greina sameiginlegar áherslur stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, þar sem horft hefur verið til möguleika nýsköpunar, rannsókna og þróunar. Í því sambandi er oftar en ekki vísað til þess geira atvinnulífsins sem kallaður hefur verið „skapandi greinar“. Listamenn hafa staldrað við framsetningu stjórnvalda á hugmyndum um eflingu „skapandi greina“ og telja oft á tíðum óljóst hvort listir tilheyri því mengi sem þar er vísað til, enda virðist áherslan oft vera á framleiðslu eða þjónustu sem andlag viðskipta.

Lifað af listinni – málþing um höfundarréttarstefnu
BÍL gekkst fyrir þriðja málþinginu um höfundarrétt, í samstarfi við Höfundaréttarráð, STEF, RSÍ, IHM og Myndstef, og var í þetta sinn fjallað um þörfina á opinberri stefnu í málefnum höfundarréttar. Málþingið var haldið í Norræna húsinu 22. september og var fundarstjóri Rán Tryggvadóttir formaður Höfundaréttarráðs. Kveikjan að málþinginu var sú að haustið 2014 skipaði ráðherra iðnaðar- og viðskipta starfshóp sem fékk það verkefni að móta framtíðarsýn um hugverkaréttindi á Íslandi. Hópurinn skilaði tillögu að fullbúinni stefnu um hugverkaréttindi og var hún gefin út í júní 2016 sem opinber Hugverkastefna 2016-2022 undir heitinu „Hugverkaréttindi sem verðmæti og viðskiptatæki“.

Það er mat Höfundaréttarráðs og samstarfshóps höfundarréttarsamtaka að nauðsynlegt sé að halda áfram á þessari braut og hefja vinnu við að móta svipaða framtíðarsýn um höfundarétt. Fyrirkomulag málþingsins var þannig að haldin voru tvö innlegg um grundvallaratriði höfundaréttarstefnu og leitað rökstuðnings fyrir mikilvægi slíkrar stefnu, auk þess sem kynnt var vinnan við hugverkastefnuna. Síðan var boðið upp á vinnu í hópum, þar sem þátttakendur skiptu sér á borð eftir listgreinum og gafst kostur á að setja sitt mark á væntanlega stefnu, bæta við rökstuðningi og sjónarmiðum. Markmiðið var að málþingið skilaði efniviði sem Höfundaréttarráð gæti byggt á endanlega tillögu að Höfundaréttarstefnu 2018 – 2024. Greinargerð málþingsins, sem m.a. hefur að geyma efniviðinn sem varð til í hópavinnunni, var sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu í lok nóvember og er aðgengileg á vefsíðu BÍL.

Staða fagfélaga listafólks innan BHM
Í maí hafði stjórn BÍL frumkvæði að því að haldinn var fundur með formanni og framkvæmdastjóra BHM um stöðu fagfélaga listafólks innan samtakanna. Þær Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM og Erna Guðmundsdóttur framkvæmdastjóri upplýstu fundarmenn um að staða félaganna innan BHM væri nokkuð mismunandi, að hluta til vegna þess að sum félögin hafa átt aðild að BHM lengur en önnur, en mikilvægt væri að hefja vinnu við að jafna þessa stöðu með einhverju móti. Áhugi var meðal félaganna að halda þessari umræðu áfram og kanna þá hvort mögulegt væri að félögin fengju til liðs ráðgjafa til leiðsagnar, sem launaður yrði gegnum starfsþróunasetur BHM. Könnun á því er ekki lokið og óvíst hvernig mál þróast, en þó er mikilvægt að finna áhuga hjá forystu BHM á því að styrkja stöðu fagfélaga listafólks innan heildarsamtaka háskólamenntaðs launafólks.

BÍL og utanríkismálin
BÍL á ekki í miklu beinu erlendu samstarfi ef undan er skilið samstarfið við norrænu systursamtökin: Dansk Kunstnerråd, KLYS í Svíþjóð, Kunstnernettverket í Noregi, Forum Artis í Finnlandi, Lisa í Færeyjum, Sámi Dáiddárráðði í Samalandi og Grønlandsk Kunstnerråd. BÍL átti aðild að ECA – European Council of Artists, sem voru samtök sem stofnuð voru 1995 fyrir danskt frumkvæði, en smám saman dvínaði þörfin fyrir það samstarf og endaði með því að þau voru formlega lögð niður á síðasta ári. Forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir var forseti samtakanna síðustu árin eða frá 2011.

Þau málefni lista og menningar er helst varða erlent samstarf og utanríkismál tengjast starfi Íslandsstofu og kynningarmiðstöðvum lista og hönnunar. Frá því Íslandsstofa var stofnuð og stofnuð fagráð innan hennar hefur BÍL átt fulltrúa í fagráði um listir og skapandi greinar. Starf fagráðanna hefur þróast talsvert og smám saman opnast samstarfsmöguleikar við önnur fagráð, ekki síst fagráð ferðaþjónustunnar. Nú stendur til að breyta lögunum um Íslandsstofu og skv. frumvarpi sem hefur verið til kynningar á heimasíðu utanríkisráðuneytis verða fagráðin lögð niður. Það hefur ekki lagst vel í forstöðumen kynningarmiðstöðvanna sem eru hryggjarstykkið í fagráði lista og skapandi greina. Á fundi forseta BÍL með utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni um miðjan janúar sl. voru áhyggjur geirans af þessum breytingum reifaðar. Þar var lögð áhersla á hlut listanna í ímynd Íslands og þann veigamikla þátt sem þær leika sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Í fagráði lista og skapandi greina koma saman þeir aðilar sem skipuleggja þátttöku íslenskra listamanna og hönnuða í hátíðum, messum og kaupstefnum lista- og menningargeirans, innan lands sem utan. Einnig sitja í fagráðinu fulltrúar þriggja ráðuneyta sem koma að málefnum lista og menningar (utn, mrn og anr). Þannig hefur fagráðið um átta ára skeið greitt fyrir samstarfi listageirans og opinberra aðila, enda fundar það reglulega og er upplýst um starfsáætlanir kynningarmiðstöðvanna, sem tryggir að stuðningur Íslandsstofu við kynningu lista og menningar á erlendri grund er á forsendum miðstöðanna, sem enda búa yfir sérfræðikunnáttu og fagþekkingu geirans. Það er mat stjórnar BÍL að uppbygging fagráða Íslandssofu sé enn í mótun og þurfi lengri tíma til að festast í sessi. Stjórnin leyfði sér því á fundinum með ráðherra að vara við áformum um að leggja fagráðin niður og hvatti þess í stað til að samtal list- og menningargeirans við fulltrúa stjórnvalda yrði eflt enn frekar t.d. með því að stofna á ný embætti menningarfulltrúa utanríkisráðuneytisins, en slík staða er ekki skilgreind innan ráðuneytisins um þessar mundir. Þá hvatti stjórn BÍL ráðherra til að leggjast á sveif með kynningarmistöðvunum, efla fjárhagsgrundvöll þeirra og gera þær að virkari þátttakanda í utanríkisstefnu stjórnvalda.

Kínversk sendinefnd á ný
Sumarið 2016 tók BÍL á móti opinberri sendinefnd kínverskra listamanna undir hatti CFLAC – China Federation of Literary and Art Circles. BÍL bauð til fundar í Iðnó þar sem ræddir voru möguleikar á auknum samskiptum listamanna frá þessum löndum, en eins og kunnugt er þá er mikill áhugi á Íslandi í Kína og fjöldi kínverskra ferðamanna hér vex hratt. Nú hefur borist nýtt erindi frá CFLAC, sem hyggst koma með sendinefnd til Íslands í júní og býður m.a. til tónleika í Hörpu. Þess hefur verið óskað að BÍL hitti sendinefndina og að undirrituð verði viljayfirlýsing um frekara samstarf. Ekki er ólíklegt að ítrekuð verði ósk um þátttöku Íslands í listahátíð í Kína 2019, 11th China International Folk Arts Festival (eða einhverri annarri sambærilegri hátíð) og boð til forseta BÍL um að heimsækja Kína. Slíkt boð var þegið 2016, en með þeim fyrirvara þó að tækist að fjármagna slíka ferð.

BÍL 90 ára
Bandalag íslenskra listamanna á 90 ára afmæli í ár 2018, það var stofnað 6. september 1928 og er elsta starfandi listamannasamband á norðurlöndunum. Stjórn BÍL hefur reifað hugmyndir að viðburðum af þessu tilefni, m.a. þá hugmynd að halda „Listamannaþing“ í anda hins sögufræga þings sem BÍL hélt síðla í nóvember 1942. Það stóð í 8 daga og afgreiddi, með afar vönduðum hætti, fjölda harðorðra ályktana um stöðu og starfskjör listamanna. Blöðin fjölluðu í löngu máli um ályktanirnar og var sérstaklega fjallað um hversu litla virðingu ríkisstjórnin sýndi þinginu, með því að einungis einn ráðherra var viðstaddur setningu þess, það var menntamálaráðherra. Í þessu sambandi hefur stjórn BÍL rætt mögulega skráningu sögu Bandalagsins í tilefni afmælisins, sem mögulega væri hægt að framkvæma í áföngum á næstu 10 árum, þannig að hún teldist fullbúin á 100 ára afmælinu. Slíka sagnaritun mætti  vinna með ýmsum hætti, t.d. með því að hugsa hana sem vefútgáfu, sem hægt  væri að prjóna við eftir því sem fjármunir og starfskraftar leyfa. Þá hefur einnig verið orðað hvort BÍL geti með einhverjum hætti tengt 90 ára afmælið við hátíðarhöldin í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands, sem standa munu allt árið.

Harpa
Af öðrum málum sem BÍL sinnti á starfsárinu má nefna málefni Hörpu, en í Listráði Hörpu sitja formenn allra fjögurra fagfélaga tónlistarmanna auk Ásmundar Jónssonar sem er fulltrúi BÍL og formaður ráðsins. Innan ráðsins hefur verið kallað eftir því að skerpt verði á hlutverki þess, það virkjað betur og fái meira að segja um fyrirkomulag starfsemi tónlistarhússins. Snemma árs kom nýr forstjóri til starfa í Hörpu, Svanhildur Konráðsdóttir, og í júní funduðu forseti BÍL og fulltrúi BÍL í listráðinu með henni til að freista þess að koma hreyfingu á stefnumótunarvinnu og setningu starfsreglna fyrir listráðið. Til að hreyfa þessum málum þarf atbeina stjórnar Hörpu, en þar hafa verið nokkuð tíð mannaskipti og á endanum var talið ráðlegt að bíða með fundahöld þar til ljóst yrði hvernig ný ríkisstjórn myndi skipa málum varðandi Hörpu, bæði hvað varðar stjórnarmenn en ekki síður varðandi rekstrargrundvöllinn. Á fjárlögum 2018 voru gerðar ráðstafanir til að rétta fjárhagsstöðu Hörpu að einhverju marki og raunar var einnig bætt við framlagið 2017, í heildina nam viðbótin 2 x 243 milljónum króna. Það má sjá á ummælum meiri hluta fjárlaganefndar í nefndaráliti með fjárlögum 2018 að aukið framlag er ekki óumdeilt, þar segir:

Framlög til menningarmála hafa á undanförnum árum aukist nokkuð. Í fjárlagafrumvarpinu er til að mynda veruleg hækkun á framlagi til Hörpu í Reykjavík sem er mikilvæg menningarbygging. Það er álit meiri hlutans að rýna verði rekstur hússins og mögulega endurskoða tekjugrunn. Á það er bent að meðan framlög hækka jafn ríflega og raunin er, þá er á sama tíma ekki það sama um menningarmál annars staðar á landinu að segja. Við ákvörðun um byggingu Hörpu var horft til eflingar á menningarlífi víða um land og ætlunin var að styðja við menningarhús eða -sali. Vegna efnahagshruns var þeim áætlunum slegið á frest. Því er mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðherra marki stefnu um framtíð þeirra áætlana. Enn hefur ekki verið lokið við menningarsali eða hús á Sauðárkróki, Egilsstöðum og Selfossi. Víðar voru áætlanir um stuðning við minni áform. Það er því eindreginn vilji meiri hlutans að samhliða stórhækkuðum framlögum til Hörpu verði tekin ákvörðun um framtíð þessara áforma.

Varðandi áformaðan fund formanns listráðs Hörpu og forseta BÍL með stjórnarformanni og forstjóra Hörpu, þá er hann enn á dagskránni en hefur ekki verið dagsettur.

Ný stefna RÚV, Iðnó og meiri Lennon
BÍL hefur gegnum tíðina litið á Ríkisútvarpið sem eina af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og hafa þau sjónarmið m.a. komið fram í umsögn BÍL um fjárlög, en einnig hefur stjórn BÍL fundað reglulega með útvarpsstjóra og hans nánasta samstarfsfólki um menningarhlutverk RÚV og skyldur þess við listirnar í landinu. Í maí sl. var kynnt ný stefna RÚV „RÚV okkar allra – Til framtíðar“ og á grunni hennar aðgerðaáætlun. Opinn kynningarfundur var haldinn og stefnunni dreift á vef RÚV. Þegar líða tók á árið mat stjórn BÍL það svo að fresta bæri árlegum samráðsfundi með útvarpsstjóra í ljósi þess að treglega hefur gengið í samningamálum Ríkisútvarpsins og fagfélaga listafólks, en stjórn BÍL hefur einungis haft sjónarmið um stóru drættina í stefnu RÚV en gætt þess að blanda sér ekki með beinum hætti í þætti er varða kaup og kjör listamanna eða samningsmarkmið fagfélaganna. BÍL bíður því átekta með samráðsfund þar til ljóst verður hvort úr samningamálum rætist.

Þann 1. október var skipt um rekstraraðila í Iðnó og kvaddi stjórn BÍL Möggu Rósu af alúð og þakkaði henni áralangt samstarf, góðan stuðning og endalaust dekur við stjórn og forseta. Óhjákvæmilega verða einhverjar breytingar með nýjum rekstraraðilum, sem eru Gómsætt ehf, þeir sömu og reka Bergsson Mathús. BÍL væntir góðs af samstarfinu við nýja rekstraraðila og hafa þeir lýst vilja til að hýsa áfram stjórnarfundi BÍL og aðalfund, en rýmið sem BÍL hafði til umráða í risinu hefur verið sett undir annað. Því hafa Þjóðskjalasafni verið afhent þau gögn sem þar höfðu safnast fyrir síðustu árin og bíður það fræðimanna framtíðarinnar að fara í gegnum söguna sem þar hefur verið komið fyrir.

Oft koma góðar hugmyndir upp á fundum stjórnar BÍL sem eru þess virði að þeim sé haldið vakandi. Ein slík kom inn á borð stjórnar frá áhugsömum Lennon-aðdáanda, sem vill hvetja BÍL til að beita sér fyrir því að friðarsúla Yoko Ono í Viðey verði betur nýtt, en nú er gert, bæði í þágu lista og menningar en líka sem aðdráttarafl fyrir  ferðamenn. Slíkt mætti t.d. gera með því að kynna hugmyndirnar að baki friðarsúlunni og störf Yoko og Johns að friðarmálum fyrir áhugasömum Íslendingum á öllum aldri, en einnig mætti nýta hana sem vettvang til að fjalla um framlag þessara merku listamanna Yoko og Johns til heimsmenningarinnar. Hugmyndinni hefur verið komið á framfæri við nýjan sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur Örnu Schram og Guðbrand Benediktsson forstöðumann Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem hefur yfirumsjón með allri starfsemi í Viðey, en það bíður nýs forseta að fylgja henni eftir á þeim vettvangi.

Lokaorð
Nú er komið að tímamótum hjá þeim forseta sem þetta ritar, því eftir átta ára starf í þágu BÍL skal nú þakkað fyrir sig og haldið á önnur mið, en baráttumálin á vettvangi BÍL verða þau sömu:

 • Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti – öflugur talsmaður lista og menningar í ríkisstjórn.
 • Listamannalaun – áætlun um fjölgun mánaðarlauna og hækkun mánaðargreiðslna.
 • Menningartölfræði – regluleg skráning upplýsinga um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífi og framlagi greinanna til þróunar efnahagslífsins, með sambærilegum hætti og aðrar atvinnugreinar eru skráðar.
 • Menningarstefna – aðgerðaáætlun á grundvelli menningarstefnu með tímasettum markmiðum.
 • Listaháskóli Íslands –fullfjármögnuð starfsemi skólans og bindandi áætlun um hvar og hvernig hann verður byggður upp til frambúðar.
 • Listmenntun – alvöru átak verði gert til að auka hlut listmenntunar í skólakerfinu, stefnumótun varðandi grunn- og framhaldsnám í listgreinunum, verkefnið „list fyrir alla“ vaxi og dafni.
 • Rannsóknir í listum – viðurkenna hlut rannsókna í listum, efla hlut þeirra innan Vísinda- og tækniráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar og fjármagna rannsóknarþátt Listaháskólans til jafns við aðra háskóla.
 • Miðstöðvar lista og skapandi greina – stofna sviðslistamiðstöð og vinna langtímaáætlun um kynningu á listum og skapandi greinum utan landssteinanna í samstarfi við miðstöðvarnar, tryggja rekstargrundvöll þeirra og styrkja rödd þeirra innan utanríkisþjónustunnar.
 • Starfsumhverfi listamanna – fjölgun atvinnutækifæra listamanna, öflugri menningarstofnanir og skattprósenta á greiðslum til rétthafa fylgi skattprósentu fjármagnstekna.
 • Menningarsamningar við landshlutasamtök – koma samningunum aftur undir stjórnsýslu menningarmála og byggja upp raunhæf atvinnutækifæri fyrir listafólk á landsbyggðinni.
 • Fagleg úthlutun fjármuna til lista og menningar – á grundvelli samninga og sjóða þar sem faglega skipaðar úthlutunarnefndir gera tillögur um úthlutun á grunni jafningjamats.

Aðalfundur BÍL 2018 – Dagskrá

Þann 15. janúar sl. var aðildarfélögum BÍL sent boð um aðalfund BÍL 2018. Fundurinn verður haldinn laugardaginn 17. febrúar nk. í Iðnó og hefst kl. 11:00. Það er ákvörðun stjórnar að í þetta sinn skuli ekki haldið málþing í tengslum við fundinn heldur stefnt að málþingi um málefni höfunda- og flytjendaréttar í mars nk.

Dagskrá aðalfundarins verður sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
 3. Fundargerð síðasta aðalfundar
 4. Skýrsla forseta um starf BÍL 2017
 5. Ársreikningar 2017
 6. Lagabreytingar
 7. Kosning forseta
 8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 9. Starfsáætlun 2018
 10. Önnur mál

Stjórn BÍL leggur fyrir fundinn tillögur að lagabreytingum sem fylgja dagskrá þessari, en samkvæmt 10. gr. laga BÍL þarf að senda slíkar tillögur út með dagskrá og eigi síðar en tveimur vikum fyrir fundinn.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum Bandalagsins, sem eru aðgengileg á heimasíðunni. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag fer með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Þess er óskað að tilkynningar um fulltrúa með atkvæðisrétt séu sendar forseta a.m.k. viku fyrir fundinn. Til áréttingar þá eiga allir félagsmenn aðildarfélaganna rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að almennum félögum sé kynnt dagsetning og dagskrá fundarins með góðum fyrirvara og hann auglýstur á heimasíðum aðildarfélaganna.

Lagabreytingartillögur stjórnar eru eftirfarandi:

6. grein um aðalfund BÍL

2. mgr. 6. gr. laga BÍL er svohljóðandi:
Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. febrúar ár hvert, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

Tillaga að breyttri 2. mgr. 6. gr. er eftirfarandi:
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok febrúar ár hvert, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

6.mgr. 6. greinar laga BÍL er svohljóðandi:
Atkvæðisréttur aðildarfélaga er háður því að félag hafi greitt árstillag (sbr. 8. gr.) vegna nýliðins árs fyrir boðaðan aðalfund

Tillaga að breyttri 6. mgr. 6. greinar er eftirfarandi:
Atkvæðisréttur aðildarfélaga er háður því að félag hafi greitt árstillag starfsársins (sbr. 8. gr.) fyrir boðaðan aðalfund.

 8. mgr. 6. gr. laga BÍL er svohljóðandi:
Hvert aðildarfélag skal skila skriflegri greinargerð um starfsemi sína og tilnefningu fulltrúa a.m.k. hálfum mánuði fyrir aðalfund, ásamt félagatali.

Tillaga að breyttri 8. mgr. 6. gr. laga BÍL í ljósi breyttra starfshátta:
Viku fyrir aðalfund tilnefnir hvert aðildarfélag atkvæðisbæra fulltrúa til setu á aðalfundi.

10. mg. 6. gr. laga BÍL er svohljóðandi:
Á aðalfundi skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar BÍL, ásamt skýrslum formanna og forseta um starfið á liðnu ári.

Tillaga að breyttri 10. mg. 6. gr. laga BÍL er eftirfarandi:
Á aðalfundi skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar BÍL og skýrsla forseta um starfið á liðnu ári.

6. grein breytt mun því hljóða svo:
Aðalfundur BÍL fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum BÍL.

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok febrúar ár hvert, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.
Aðalfund skal boða skriflega með a.m.k. mánaðar fyrirvara og dagskrá skal send út eigi síðar en tveim vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði.
Þegar um sambandsfélög er að ræða, geta þau auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan síns sambands.
Atkvæðisréttur aðildarfélaga er háður því að félag hafi greitt árstillag starfsársins (sbr. 8. gr.) fyrir boðaðan aðalfund.
Allir félagsmenn aðildarfélaganna hafa rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt.

Viku fyrir aðalfund tilnefnir hvert aðildarfélag atkvæðisbæra fulltrúa til setu á aðalfundi.
Tillögur að lagabreytingum skulu berast stjórn a.m.k. þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Á aðalfundi skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar BÍL og skýrsla forseta um starfið á liðnu ári.
Þá leggur stjórnin fyrir aðalfund  tillögu að starfsáætlun BÍL fyrir næsta starfsár og ályktanir til samþykktar.

Forseti og tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn.
Forseti skal kosinn sérstaklega, bundinni kosningu og skal tillaga að forsetaefni berast stjórn a.m.k. viku fyrir boðaðan aðalfund.
Fái enginn hreinan meirihluta greiddra atkvæða, skal kjósa aftur milli þeirra sem flest atkvæði hlutu.
Kosningin skal vera skrifleg.
Aðalfundur telst löglegur, ef löglega er til hans boðað og að minnsta kosti helmingur aðildarfélaganna sendir fulltrúa á fundinn.

7. grein um stjórn BÍL

Ný mgr. bætist við 7. gr og verður 11. mgr.:
Hver stjórnarmaður skilar árlega greinargerð um starfsemi síns félags til birtingar á heimasíðu BÍL.

7. grein breytt mun því hljóða svo:
Stjórnin starfar í umboði aðildarfélaganna og fer með öll sameiginleg mál.

Forseti boðar til og stjórnar almennum stjórnarfundum og leggur fyrir þau mál, sem ræða skal.
Almennir stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. fjórum sinnum á ári.
Stjórnin kýs ritara og gjaldkera, en að öðru leyti skiptir hún með sér verkum.
Stjórn hefur heimild til að ráða sérstakan framkvæmdastjóra og skal hún þá setja honum starfsreglur.
Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins og er henni heimilt að leggja út í hvern þann kostnað sem þurfa þykir á hverjum tíma, og fjárhagur BÍL leyfir.
Forseti kemur fram fyrir hönd BÍL út á við og gagnvart stjórnvöldum.
Forseti getur tilnefnt hvern, sem er úr stjórn sem sinn staðgengil og til að sinna einstökum málum, að fengnu samþykki stjórnar.
Geti stjórnarmaður ekki sótt stjórnarfund skal hann boða varamann í sinn stað.
Ef tveir eða fleiri stjórnarmenn fara fram á almennan stjórnarfund og tilgreina ástæðu, skal forseti boða hann svo fljótt sem við verður komið.
Hver stjórnarmaður skilar árlega greinargerð um starfsemi síns félags til birtingar á heimasíðu BÍL.

8. grein um árstillag aðildarfélaga 

8.gr. er núna svona:
Sérhverju aðildarfélagi ber að innheimta hjá félagsmönnum árstillag, sem nemur kr. 450.- m.v. verðlag í janúar 2014, til sameiginlegrar starfsemi BÍL. Árstillagið tekur breytingum m.v. vísitölu neysluverðs.

Tillaga að breyttri 8. grein:
Sérhverju aðildarfélagi ber að innheimta hjá greiðandi félagsmönnum árstillag, sem nemur kr. 500.-  m.v. verðlag í janúar 2018, til sameiginlegrar starfsemi BÍL. Árstillagið tekur breytingum m.v. vísitölu neysluverðs.

8. grein breytt mun því hljóða svo:
Sérhverju aðildarfélagi ber að innheimta hjá greiðandi félagsmönnum árstillag, sem nemur kr. 500.-  m.v. verðlag í janúar 2018, til sameiginlegrar starfsemi BÍL. Árstillagið tekur breytingum m.v. vísitölu neysluverðs.

Aðalfundur BÍL 2018

Aðalfundur BÍL – Bandalags íslenskra listamanna 2018, verður haldinn laugardaginn 17. febrúar í Iðnó og hefst hann kl. 11:00.  Í þetta sinn verður ekki haldið málþing í tengslum við fundinn heldur er stefnt að málþingi um málefni höfunda- og flytjendaréttar í mars.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum Bandalagsins, sem eru aðgengileg á heimasíðunni. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag fer með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Þess er óskað að tilkynningar um fulltrúa með atkvæðisrétt séu sendar forseta a.m.k. viku fyrir fundinn. Til áréttingar þá eiga allir félagsmenn aðildarfélaganna rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að almennum félögum sé kynnt dagsetning fundarins með góðum fyrirvara og hann auglýstur á heimasíðum aðildarfélaganna.

Dagskrá fundarins ásamt tillögu stjórnar að lagabreytingum og starfsáætlun 2018 verður send út a.m.k. tveimur vikum fyrir fundinn.

Minnisblað vegna fundar með utanríkisráðherra 15.01.2018

Bandalag íslenskra listamanna eru heildarsamtök fagfélaga listafólks og hafa sem slík samstarfssamning við stjórnvöld um samstarf í málefnum lista og menningar. Stjórn BÍL hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að styrkja stjórnsýslu málaflokksins og hvatt til þess að stofnað verði sjálfstætt ráðuneyti menningarmála að norrænni fyrirmynd í stað þess að dreifa stjórnsýslulegri ábyrgð á fjögur ólík ráðuneyti eins og nú er gert. Þau sjónarmið hafa ekki hlotið hljómgrunn stjórnmálanna, svo stjórn BÍL hefur undanfarið lagt kapp á að funda með öllum ráðherrum sem hafa skilgreint hlutverk gagnvart listum og menningu og fagnar því þessum fyrsta fundi með utanríkisráðherra. Þau málefni lista og menningar sem varða utanríkismál tengjast hvers kyns markaðssetningu landsins á erlendum mörkuðum, kynningarmál lista og menningar á alþjóðlegum vettvangi með sérstakri áherslu á samstarf Norðurlandaþjóða, málefni Íslandsstofu sem fagfélög listamanna hafa tekið virkan þátt í að móta og stjórnvöld hafa nú áform um að breyta.

Svo sem kunnugt er vega listir og menning þungt í mótun ímyndar Íslands og eiga, ásamt mikilfenglegri náttúrunni, stærstan þátt í draga erlenda ferðamenn til landsins og vekja athygli á landi og þjóð á alþjóðlegum vettvangi. Kynningarmiðstöðvar lista og menningar eru lykilstofnanir í þessu starfi og hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu Íslandsstofu. Þar hefur fagráð í listum og skapandi greinum skipt sköpum, enda koma þar saman þeir aðilar sem skipuleggja þátttöku íslenskra listamanna og hönnuða í hátíðum, messum og kaupstefnum lista- og menningargeirans, innan lands sem utan. Einnig sitja í fagráðinu fulltrúar þriggja ráðuneyta sem koma að málefnum lista og menningar (utn, mrn og anr). Þannig hefur fagráðið um átta ára skeið greitt fyrir samstarfi listageirans og opinberra aðila, enda fundar það reglulega og er upplýst um starfsáætlanir kynningar-miðstöðvanna, sem tryggir að stuðningur Íslandsstofu við kynningu lista og menningar á erlendri grund er á forsendum miðstöðanna, sem enda búa yfir sérfræðikunnáttu og fagþekkingu geirans.

Það er mat stjórnar BÍL að uppbygging fagráða Íslandssofu sé enn í mótun og þurfi lengri tíma til að festast í sessi, t.a.m. þarf að efla samtalið milli einstakra fagráða með það að markmiði að auka samlegð og tryggja heildarsýn. Stjórnin varar þ.a.l. við áformum um að leggja fagráðin niður. Nær væri að efla enn frekar samtal list- og menningargeirans við fulltrúa stjórnvalda, t.d. með því að ráða sérfræðing í listum og menningu til að sinna starfi menningarfulltrúa utanríkisráðuneytisins. Slíkur fulltrúi sæti í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum, auk þess sem hann annaðist tengsl lista og menningar, fyrir milligöngu kynningarmiðstöðvanna, við sendiskrifstofur Íslands og viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar. Þá mætti hugsa sér að menningarfulltrúi ráðuneytisins hefði hlutverki að gegna í tengslum við starf Norðurlandaskrifstofu ráðuneytisins og væri tengiliður við mennta- og menningarmálaráðuneytið, en mikil þörf er á að byggja brú milli þessara tveggja ráðuneyta um málefni lista og menningar.

BÍL eru grasrótarsamtök 15 fagfélaga listamanna, sem öll eiga beina aðild að kynningarmiðstöðvum sinna listgreina. Samstarfsnet fagfélaganna og mistöðvanna er lifandi og skilvirkt. Það eina sem vantar er styrkari fjárhagsgrundvöllur, skilgreind tenging við stjórnvöld ásamt viðurkenningu stjórnkerfisins á mikilvægu hlutverki mistöðva listgreina og hönnunar. Stjórn BÍL hvetur utanríkisráðherra til að treysta hlutverk miðstöðvanna í framkvæmd utanríkisstefnu stjórnvalda.

Ársskýrsla FÍLD 2017-2018

Ársskýrsla FÍLD 2017-2018

Fjárlagafrumvarpið eftir fyrstu umræðu

Til upplýsingar fyrir fjölmiðla

Bandalag íslenskra listamanna hefur m.a. það skilgreinda hlutverk skv. samstarfssamningi við stjórnvöld, að veita ráðgjöf um opinber málefni menningar og lista. Meðal árvissra verkefna stjórnar BÍL er að veita fjárlaganefnd Alþingis umsögn um fjárlagafrumvarp hvers árs og til skamms tíma hefur BÍL fengið að hitta fulltrúa nefndarinnar á fundi áður en frumvarpið er afgreitt.

Nú háttar svo til að afar lítill tími hefur gefist til umfjöllunar um frumvarpið í nefndinni og stjórn BÍL er ekki kunnugt um að efnisinnihald umsagnarinnar hafi verið rætt í nefndinni, a.m.k. var ekki að sjá breytingar á menningar- og listtengdum liðum frumvarpsins í breytingartillögum nefndarinnar við aðra umræðu, að undanskildum nokkrum tilgreindum verkefnum, sem almennt hefur verið gert ráð fyrir að sæki um stuðning til safnliða:

Safnamál
Gerð er tillaga um samtals 17,8 millj. kr. hækkun á framlagi til safnamála sem skiptist í tvennt. Annars vegar 4 millj. kr. tímabundið framlag til Flugsafns Íslands. Hins vegar 13,8 millj. kr. tímabundið framlag til Hollvinasamtaka varðskipsins Óðins vegna viðhalds skipsins sem er hluti af Sjóminjasafni Reykjavíkur.

Menningarstofnanir
Samtals er lögð til 74 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokks menningarstofnana sem skiptist sem hér segir: – 25 millj. kr. tímabundið framlag til áframhaldandi viðgerðar og uppbyggingar mannvirkja á lóð Kvennaskólans á Blönduósi, – 30 millj. kr. tímabundið framlag til Vínlandsseturs í Dalabyggð, – 3 millj. kr. tímabundið framlag til Fischerseturs, – 5 millj. kr. tímabundið framlag til Söguseturs íslenska hestsins, – 3 millj. kr. tímabundið framlag til Fræðaseturs um forystufé, – 8 millj. kr. tímabundið framlag til Sigurhæðar ses.

Og af liðnum menningarsjóðir veitir nefndin tímabundnum fjármunum til nokkurra tilgreindra verkefna:

Samtals er lögð til 41 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokks menningarsjóða sem skiptist sem hér segir: – 15 millj. kr. tímabundið framlag til RIFF, kvikmyndahátíðar í Reykjavík, – 10 millj. kr. tímabundið framlag til Skaftfells, myndlistarmiðstöðvar á Austurlandi, – 6 millj. kr. tímabundið framlag til Handverks og hönnunar, – 5 millj. kr. tímabundið framlag til Dansverkstæðisins, – 5 millj. kr. tímabundið framlag til Skáksögufélagsins vegna útgáfu skákævisögu Friðriks Ólafssonar og minnismerkis um hann.

Stóru liðirnir eru hins vegar óbreyttir milli umræðna, sem veldur samtökum listamanna talsverðum áhyggjum, þar sem BÍL telur sig hafa sýnt fram á í umsögn sinni að list- og menningargeirinn sé undirfjármagnaður þegar horft er til heildarinnar og þeirra stofnana sem eru burðarstoðir í starfsumhverfi listafólks.

Fjárlagafrumvarpið 2018 – Umsögn BÍL

Bandalag íslenskra listamanna býður nýja fjárlaganefnd velkomna til starfa og væntir góðs samstarfs við nefndina um fjárframlög til málaflokksins menning og listir. Með nýjum lögum um opinber fjármál og breyttri framsetningu fjárlagafrumvarpsins breytist samtalið þó óhjákvæmilega, enda gera nýju lögin ráð fyrir að ábyrgðin á skiptingu fjárframlaga á einstök viðföng hvíli í ríkari mæli á ráðherra málaflokksins en verið hefur. Engu að síður treystir BÍL því að ný fjárlaganefnd taki vel ábendingum heildarsamtaka fagfélaga listamanna og samþykki að eiga opið og hreinskiptið samtal um afkomu og starfsumhverfi listamanna á komandi árum.  Í því ljósi hefur BÍL tekið saman þá umsögn sem hér fylgir. 

Heildarmyndin
Umsögnin er yfirgripsmikil og nær til málaflokksins í heild, jafnt stofnana sem sjálfstæða geirans. Þetta er annað árið í röð sem BÍL horfir svo vítt yfir sviðið í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp enda er það í samræmi við nýtt lagaumhverfi opinberra fjármála sem ætlað er að móta stefnu í málaflokkunum til lengri tíma en áður. BÍL telur slíka yfirsýn einnig mikilvæga í ljósi aukinnar áherslu stjórnvalda á uppbyggingu innviða atvinnulífs í víðum skilningi, en opinberar menningarstofnanir eru einmitt burðarstoðir starfsvettvangs listamanna. Þær, ásamt launasjóðum og verkefnatengdum sjóðum á listasviðinu, mynda þann starfsgrundvöll sem við blasir að loknu háskólanámi í listum. Með því að vekja athygli fjárlaganefndar á þessum tengslum leggur BÍL áherslu á mikilvægi þess að menningarstofnunum í eigu þjóðarinnar sé gert kleift að standa undir hlutverki sínu með reisn og skapa umhverfi fyrir framsækna listsköpun um leið og sígildri list og menningu er sinnt af alúð. 

Opinber menningarstefna
Það er sérstakt ánægjuefni að ríkisstjórnin skuli hafa uppi áform um að semja aðgerðaáætlun á grundvelli menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013 og væntir BÍL þess að fá formlega aðkomu að þeirri vinnu. Í opinberri menningarstefnu er kveðið á um ábyrgð ríkisins gagnvart menningarstofnunum.  Þar segir að Alþingi beri að skapa nauðsynleg skilyrði til að stofnanirnar fái risið undir lagalegu hlutverki sínu og framkvæmt stefnu Alþingis í menningarmálum. Þetta þýðir í raun tvennt; að stjórnvöldum beri að styðja við hlutverk og starfsemi stofnananna með öflugri stjórnsýslu á vettvangi ráðuneyta en einnig að tryggja nægilegt fjármagn til að þær geti uppfyllt skyldur sínar hver og ein. Þá kveður stefnan á um skyldu stjórnvalda til að setja langtímastefnu í húsnæðismálum menningarstofnana, sem er sannarlega eitt af því sem stendur starfsumhverfi listamanna fyrir þrifum. Í því sambandi lýsir BÍL sérstakri ánægju með að í stjórnarsáttmála skuli gefin fyrirheit um að tekið skuli á alvarlegum húsnæðisvanda æðstu menntastofnunar í listum Listaháskóla Íslands og væntir þess að fjármagn fáist til að hefja það starf strax á næsta ári. 

Ráðuneyti menningar og lista
Allir stjórnmálaflokkar hafa verið upplýstir um þau sjónarmið BÍL að fullt tilefni sé til að stjórnsýsluleg staða lista og menningar verði endurskoðuð. Málaflokknum hefur verið tvístrað ótæpilega á síðustu árum en hann heyrir nú orðið undir fimm ráðuneyti [ráðuneyti mennta- og menningarmála, atvinnuvega- og nýsköpunar, samgöngu- og sveitarstjórnarmála, utanríkis og fjármála]. Það er mat BÍL að listir og menning verðskuldi að stofnað verði sjálfstætt menningarmálaráðuneyti, með talsmann við ríkisstjórnarborð sem er óbundinn af öðrum jafn viðamiklum og vandmeðförnum málaflokki og skólamálin eru. Þó ný ríkisstjórn hafi ákveðið að menningarmál skuli áfram heyra undir menntamálaráðuneyti mun BÍL enn sem fyrr halda á lofti sjónarmiðum um sameiningu menningar og lista undir einn hatt sjálfstæðs menningarmála-ráðuneytis en þangað til af því gæti orðið er mikilvægt að komið verði í kring áætlun um samræmda stjórnsýslu í málefnum lista og skapandi greina með formlegum samráðsvettvangi þeirra ráðuneyta sem í hlut eiga.  BÍL kýs að fá tækifæri til að ræða slíkar hugmyndir nánar við þingmenn á kjörtímabilinu sem í hönd fer.  Meðal þeirra mála sem skoða þarf í þessu sambandi eru möguleikar listafólks til að nýta stoðkerfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til rannsókna og sköpunar,  staða og hlutur listgreinanna undir hatti Vísinda- og tækniráðs m.t.t. rannsókna í listum, uppbygging atvinnutækifæra fyrir listamenn utan höfuðborgarinnar og mikilvægi skráningar tölulegra gagna um listir og menningu sem skrá verður með mun markvissari hætti en nú er gert. Skráning menningartölfræði hefur verið baráttumál BÍL árum saman og er sérstaklega ánægjulegt að sjá í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar áform um að taka á því máli.

Launasjóðir listamanna
Mikilvægasti stuðningur hins opinbera við listsköpun er án efa öflugt kerfi launasjóða, sem í samspili við verkefnatengdu sjóðina er grundvöllur nýsköpunar í listum. Kerfið er sambærilegt við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum og hefur skipt sköpum í lífsafkomu listamanna. Í raun má rekja upphaf kerfisins aftur til ársins 1891 þegar Alþingi veitti „skáldalaun“ í fyrsta sinn, þó það hafi ekki fengið lagastoð fyrr en á sjöunda áratug síðustu aldar. Kerfið í núverandi mynd rekur sig aftur til ársins 1991 og þó það hafi þróast nokkuð síðustu 25 árin hefur gengið treglega að ná fram hækkunum á mánaðargreiðslunum og enn erfiðara hefur reynst að fá stjórnvöld til að tryggja eðlilega fjölgun mánaða milli ára. BÍL hefur árum saman barist fyrir því að í gildi sé, á hverjum tíma, áætlun um fjölgun mánaða í sjóðunum og í ljósi áforma ríkisstjórnarinnar nú um eflingu bæði starfslaunasjóða og verkefnasjóða standa vonir til að bjartari tímar séu framundan hvað þetta varðar. Til þess að svo verði þarf að endurskoða lög um launasjóði listamanna nr. 57/2009 og telur BÍL inntak breytinganna þurfa að vera fjölgun launamánuða að lágmarki í 2000 og að mánaðargreiðslan taki mið af meðallaunum háskólamenntaðra stétta. Síðast var lögunum breytt 2009 þegar launamánuðum var fjölgað úr 1200 í 1600 á árabilinu 2010 – 2012. Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar eru uppi áform um styrkingu starfslaunasjóða listamanna sem BÍL fagnar og treystir að slík vinna fari fram í samstarfi við samtök listafólks.

Verkefnatengdir sjóðir
Framlag til verkefnatengdra sjóða á listasviðinu er tilgreint í einni tölu í fjárlagafrumvarpinu og þó okkur hafi skilist að birta eigi á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis samantekt um safnliði með sundurliðun ráðuneytisins til einstakra sjóða, þá er engar slíkar upplýsingar að finna fyrir fjárlagaárið 2018. Þetta er óásættanlegt sérstaklega í ljósi yfirlýstra markmiða nýrra laga um opinber fjármál þar sem gagnsæi er eitt af lykilhugtökunum.

Hugmyndir BÍL um þróun opinberra framlaga til verkefnatengdra sjóða eru eftirfarandi:

 • Hér að framan er lýst hugmyndum BÍL um breytingu á lögum um launasjóði listamanna. Við þær breytingar telur BÍL eðlilegt að farið verði að kröfu sviðslistafólks um að launasjóður sviðslistafólks verði sameinaður verkefnatengdum sjóði sviðslista og fái í heildina tvöfalt framlag á við það sem nú er, enda hafa sviðslistirnar setið eftir í þeim úrbótum sem annars hafa verið gerðar á starfsumhverfi listafólks upp á síðkastið. Samkvæmt því þyrfti sameinaður sjóður sviðslista að hafa úr að spila 320 milljónum króna árlega.
 • Framlag til Kvikmyndasjóðs er bundið í samningi, sem gerður var 26. október 2016. honum ætti framlagið í sjóðinn 2018 að vera kr. 994,7 milljónir auk 125 milljóna króna viðbótarframlagi, sem hvergi sér stað í fyrirliggjandi frumvarpi. Það er mat BÍL að nauðsynlegt sé að gera nýja áætlun um eflingu Kvikmyndasjóðs þannig að framlagið til hans nái 2 milljörðum króna 2020.
 • Í samræmi við átakið „Borgum myndlistarmönnum“, sem gengur út á að söfn og sýningarými, sem rekin eru alfarið eða að stórum hluta fyrir opinbert fé, greiði myndlistarmönnum sanngjarna þóknun fyrir að sýna, verði framlagið til þeirra safna og sýningarýma sem í hlut eiga, aukið um kr. 100 milljónir. Til viðbótar við þetta er nauðsynlegt að  framlagið til Myndlistarsjóðs verði hækkað í 100 milljónir króna.
 • Á síðustu tveimur árum hafa orðið nokkrar úrbætur á starfsumhverfi tónlistarmanna, þar sem stofnaðir hafa verið tveir nýjir sjóðir; Útflutningssjóður og Hljóðritunarsjóður, auk þess sem samþykkt hefur verið endurgreiðsluáætlun vegna upptöku tónlistar í hljóðverum hér á landi. En sá verkefnasjóður sem settur var á með lögum nr. 76/2004, Tónlistarsjóður, hefur ekki þróast með þeim hætti sem æskilegt væri, því hefur BÍL lagt til að framlag til hans verði hækkað í 80 milljónir króna.
 • Mikilvægt er að stjórnvöld taki þátt í að auka veg nýsköpunar á vettvangi tónlistarleikhúss og óperu, sem skortir fjárhagslegan grundvöll. Hvorki tónlistarsjóður né sviðslistasjóður hafa getað sinnt þessu listformi, þar sem hér er um kostnaðarsöm verkefni að ræða og fjárhagur sjóðanna afar takmarkaður. Mögulega þarf að endurskilgreina hlutverk þessara sjóða og auka fjármagn til þeirra til muna eða stofna nýjan sjóð og byggja hann vel upp svo sterkur grundvöllur skapist fyrir þetta listform sem er vanrækt þannig að flestir íslenskir listamenn sem innan þess starfa þurfa að sækja störf utan landssteinanna.
 • Hönnunarsjóður var stofnaður 2013 og vistaður í mennta- og menningarmálaráðuneyti en þá höfðu hönnuðir og arkitektar barist lengi fyrir auknu fjármagni til þróunar, verkefna og útflutnings. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var sjóðurinn fluttur yfir til atvinnuvega – og nýsköpunarráðuneytis og hækkaður í 50 milljónir. Hópurinn, sem sækir fé í sjóðinn vinnur á breiðu sviði hönnunar og arktiektúrs og eru gild rök fyrir því að með auknum fjölda verkefna þurfi framlag til sjóðsins að hækka í 150 milljónir.
 • Áhersla menningarstefnu Alþingis er á barnamenningu, engu að síður var Barnamenningarsjóður lagður niður 2015, þvert ofan í mótmæli fagfélaga listafólks. BÍL telur eðlilegt að Barnamenningarsjóður verði endurreistur, hann starfræktur með sjálfstæðri stjórn og í hann lagðar 18 milljónir króna árlega. Slíkt væri í anda stefnunnar og myndi bæði auka fjölbreytni verkefna og mæta þörfinni fyrir stuðning við verkefni sem unnin eru með og af börnum.
 • Listskreytingarsjóður hefur aldrei haft nægilegt bolmagn til að sinna hlutverki sínu með reisn, en eftir hrun lækkaði framlag til sjóðsins úr 7,1 millj í 1,5 millj og hefur ekki hækkað síðan. BÍL hefur um árabil hvatt til þess að þörfin fyrir listskreytingar í því húsnæði sem fellur undir lögin um listskreytingasjóð verði metin og framlagið til sjóðsins verði hækkað til að mæta þeirri þörf.

Bandalag íslenskra listamanna
BÍL hefur síðan 1998 gert samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið, til þriggja ára í senn, um ráðgjöf á vettvangi lista og menningar. Þegar endurnýja átti samninginn 2017 taldi mennta- og menningarmálaráðuneyti ný lög um opinber fjármál hamla því að hægt væri að gera nýjan þriggja ára samning svo 16. maí 2017 var undirritaður samningur til eins árs og var greiðslan á árinu ákveðin 4,5 milljónir. Skv. samningnum er aðilum gert að tilkynna um vilja sinn til endurnýjunar fyrir lok september 2017 og gerði BÍL ráðuneytinu viðvart 13. september sl. um sinn vilja í þeim efnum.  Enn hefur BÍL ekki borist formleg staðfesting á vilja ráðuneytisins til endurnýjunar samningsins eða upplýsingar um fjárhæð væntanlegs samnings. Til að efla starfsemi BÍL og gera samtökunum kleift að sinna verkefnum sínum af þeim krafti sem þörf er á þyrfti að lágmarki 6 milljónir króna í árlegt framlag. Með því myndu stjórnvöld sýna BÍL fram á að starf bandalagsins sé metið að verðleikum og gera BÍL kleift að halda upp á 90 ára afmæli sitt 2018, en það hyggst BÍL gera með veglegum hætti, t.d. er í skoðun að hefja undirbúning að útgáfu á sögu BÍL í áföngum.

Menningarstofnanir
Svo sem að framan greinir beinir BÍL sjónum að list- og menningartengdum stofnunum í umsögn sinni, enda um að ræða burðarstoðir lista og menningar sem skipta sköpum fyrir listamenn í atvinnulegu tilliti. Yfirlit yfir helstu stofnanir fylgir hér á eftir, þó er sneytt hjá söfnum, setrum og sýningum, sem engu að síður eru hluti þess vettvangs sem listafólk og hönnuðir starfar við. Megininntak þeirra ábendinga sem BÍL vill koma á framfæri við stjórnvöld fjallar um það hversu undirfjármagnaður list- og menningargeirinn er þegar á heildina er litið og þó reynt hafi verið að verja stofnanirnar að einhverju marki gegn alvarlegum afleiðingum langvarandi niðurskurðar, þá hníga gild rök að því að mikið skorti á að þeim hafi verið bættur að fullu sá niðurskurður sem átti sér stað í kjölfar efnahagshrunsins. Í því sambandi ber að hafa í huga samdrátt í opinberum framlögum til þeirra í aðdraganda hrunsins, þar sem stjórnvöld á þeim tíma hvöttu mjög til þess að stofnanirnar sæktu sér aukið fjármagn til fyrirtækja í einkageiranum, sem stofnanirnar gerðu samviskusamlega. Af þessum sökum varð skellurinn við niðurskurðinn eftir hrun hálfu verri þar sem einkafjármagnið hvarf úr geiranum á einni nóttu og a.m.k. 20% flatur niðurskurður á opinbera framlaginu fylgdi í kjölfarið, og af því að ekki er haldið með nægilega skilvirkum hætti utan um skráningu menningartölfræði er erfitt að sannreyna þessar „kenningar“, en líka ómögulegt að hafna þeim.

Íslenski dansflokkurinn
Íslenski dansflokkurinn er eini ríkisrekni dansflokkurinn á Íslandi og skv. árangurstjórnunar-samningi frá 2012 ber honum að þjóna svipuðu hlutverki ganvart danslistinni og Þjóðleikhús gagnart leiklist og Sinfóníuhljómsveit Íslands gagnvart tónlist; -að vera faglega leiðandi, stuðla að nýsköpun í innlendri listdanssköpun og efla þekkingu á danslistinni. Til að geta sinnt þessu hlutverki sínu þarf flokkurinn fjárhagslega burði, sem hann hefur ekki í dag. Á skrifstofu dansflokksins eru þrír starfsmenn, listrænn stjórnandi, framkvæmdastjóri og markaðsstjóri. Fastráðnir dansarar eru sjö talsins ásamt æfingastjóra, það er þremur færri en þegar flokkurinn var stofnaður 1973. Hjá erlendum sambærilegum dansflokkum (t.d. í Bergen) eru 15 dansarar á föstum samningum og 14 starfsmenn á skrifstofu. Til að geta fjölgað uppsetningum, tekið þátt í fleiri samstarfsverkefnum og sinnt fræðslustarfi þyrfti flokkurinn að lámarki 10 fastráðna dansara, tæknistjóra í fullu starfi auk verkefnastjóra á skrifstofu en til þess þyrfti að auka fjárveitingu Íd að lágmarki um 35 m.kr. á ári. Dansflokkurinn hefur alla tíð haft lítið svigrúm til að greiða listamönnum, t.d. danshöfundum, tónskáldum, búninga- og leikmyndahönnuðum, markaðslaun fyrir vinnu við uppfærslur flokksins og hefur greitt talsvert lægri laun en aðrar stofnanir greiða fyrir slíka þætti. Til að bæta úr þessu þyrfti að auka fjárveitingu Íd um 15 m.kr. að lágmarki. Starfsaðstaða flokksins í Borgarleikhúsinu er ekki ákjósanleg; skrifstofa og búningsherbergi eru í dimmu og óloftræstu rými í kjallara hússins, æfingasalur er á fjórðu hæð og þarf að ganga gegnum hann til að komast í búningageymslu Borgarleikhússins. Þá er skipulag sýninga algjörlega háð skipulagi leiksýninga í húsinu og mæta oft afgangi. Flokkurinn á fulltrúa í vinnuhópi sem kannar nú möguleika á stofnun danshúss og er það von flokksins að hagsmunaaðilar samtímadans á höfuðborgarsvæðinu nái að fjármagna sérútbúið húsnæði fyrir flutning dansverka með æfingaaðstöðu með það að markmiði að efla danslistina og framþróun hennar hér á landi.

Íslenska óperan
Íslenska óperan er lykilstofnun í flutningi óperutónlistar á Íslandi. Óperan hefur undanfarið glímt við talsverða fjárhagserfiðleika og eftir hrun var niðurskurður hins opinbera fjárframlags til ÍÓ meiri dæmi voru um hjá öðrum stofnunum í listageiranum. Enn er lækkunin ekki gengin til baka að fullu. Óperan flutti úr eigin húsnæði í Gamla bíó í Hörpu árið 2011 að frumkvæði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Andvirði Gamla bíós sem var selt hefur verið greitt sem meðlag með ÍÓ í Hörpu en nú er það upp urið og mikilvægt að opinber stuðningur við starfsemina verði efldur svo hægt sé að mæta skuldbindingum stofnunarinnar og þeim væntingum sem til hennar eru gerðar, gera langtímaáætlanir og halda þeim listrænu gæðum sem stofnunin hefur sýnt undanfarin ár en flestar sýningar hennar hafa fengið 5 stjörnu dóma bæði í innlendum og erlendum miðlum.  Íslenska óperan flutti starfsemi sína í Hörpu í trausti þess að henni yrði skapaður rekstrargrundvöllur í húsinu en stór hluti framlagsins fer nú í að greiða háa húsaleigu á kostnað listrænnar starfsemi. Mikilvægt er að hækka opinbert framlag til Óperunnar í 250 m kr sem er sambærilegt við raunvirði framlagsins fyrir hrun. Þá er algjört lykilatriði að vísitölutengja framlagið þar sem bæði leigukostnaður Óperunnar í Hörpu og öll laun eru vísitölutengd en ekki framlagið sem lækkar þá að raungildi frá ári til árs.

Listasafn Íslands
Sem þjóðarlistasafni Íslendinga og höfuðsafni á sviði myndlistar ber Listasafni Íslands að safna íslenskri myndlist, frá öllum tímum, af eins mikilli kostgæfni og því er unnt hverju sinni – varðveita hana, rannsaka og miðla upplýsingum og fræðslu um hana innanlands sem utan. Þessu lögbundna hlutverki hafa löngum verið settar skorður af þrenns konar völdum: Skorti á raunhæfum fjárframlögum, takmörkuðum mannafla og naumum húsakosti. Húsnæði safnsins við Fríkirkjuveg var tekið í notkun fyrir rúmum 30 árum og þótti stórglæsilegt. Í dag þarfnast húsnæðið endurbóta í takt við nýja tíma. Köfur til öryggismála safna hafa aukist og breyst gríðarlega, vaxandi eftirspurn er eftir fræðslu og miðlun til almennings  sem er mikilvægur þáttur í endurskilgreindu þjónustuhlutverki safnsins. Þetta ásamt breyttum áherslum í sýningahaldi kallar á gagngera endurskoðun á þeirri aðstöðu sem safnið býr við. Í raun þyrfti fjárframlag hins opinbera til Listasafns Íslands að vera að minnsta kosti tvöfalt hærra en tíðkast hefur undanfarin ár. Ef mæta á óskum safnsins um mikilvægar úrbætur á húsakostinum þyrfti framlagið að þrefaldast og nema þá tæpum 800 milljónum. Áætlað framlag samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2018, 266,3 milljónir, hrekkur ekki fyrir föstum kostnaðarliðum á borð við öryggiskerfi, gagnavarðveislu, né heldur sýningum, útgáfum, fræðsluefni eða kynningarmálum fyrir þær fjórar starfstöðvar sem safnið rekur. Héraðslistasafnið Aros í Árósum hefur verið fyrirmynd í faglegri umsýslu og stefnumótun Listasafns Íslands, enda þjónar það samfélagi sem er að mörgu leyti sambærilegt. Sýningar og viðburðardagskrá Aros vekur mikla athygli og dregur að sér fjölda gesta á hverju ári. En þegar opinber framlög til Aros eru borin saman við framlög til Listasafns Íslands er samanburðurinn verulega óhagstæður. Sóknartækifæri Listasafns Íslands blasa við, fái safnið aukna fjármuni, íslenskri myndlist til vegsemdar og virðingar, innanlands sem utan.

Ríkisútvarpið
BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Á undanförnum árum hefur útvarpsgjald ítrekað verið skorið niður og nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki. Forsvarsmenn RÚV hafa eftir getu forgangsraðað í þágu innlendrar dagskrár, menningarefnis, dagskrárgerðar fyrir börn og vinna nú að því að stórauka þátttöku í íslenskri kvikmyndagerð. Ljóst er að öflugri þátttaka RÚV í kvikmyndagerð getur haft margþætt margfeldisáhrif. Til að áform RÚV nái fram að ganga telur BÍL nauðsynlegt að útvarpsgjaldið verði hækkað þannig að það verði samanburðarhæft við það sem gengur og gerist hjá frændþjóðum okkar, Norðurlöndunum og Bretlandi. Einnig telur BÍL tímabært að skoðað verði hvort létta mætti af stofnuninni lífeyrisskuldbindingum, sem ólíklegt er að hún muni nokkurn tíma geta staðið undir. Í samræmi við það sem að framan greinir leggur BÍL til að fjárlaganefnd leiti leiða til að hluti þeirrar skerðingar sem RÚV hefur þurft að sæta á undanförnum árum gangi til baka í fjárlagafrumvarpi ársins 2017 og fjárveiting til RÚV verði hækkuð um 250 millj. króna. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands
Sinfóníuhljómsveit Íslands starfar við kjöraðstæður eftir að hljómsveitin fluttist í Hörpu fyrir sex árum. Frá árinu 2005, þegar hljómsveitin starfaði í Háskólabíói hefur fjöldi tónleikagesta ríflega tvöfaldast eða úr 40.894 í 86.256 árið 2016. Umfang starfseminnar hefur jafnframt aukist og nú stendur hljómsveitin að jafnaði fyrir um 100 tónleikum og öðrum viðburðum sem er um 23% aukning í starfsemi hljómsveitarinnar frá því í Háskólabíói. Þetta er í samræmi við þær auknu kröfur sem gerðar eru til hljómsveitarinnar í nýju starfsumhverfi. Þá hefur ímynd SÍ styrkst umtalsvert á síðustu árum sem kemur m.a. fram í góðri útkomu úr mælingum Gallup. Þrátt fyrir þetta hefur flutningur hljómsveitarinnar í Hörpu haft töluverð áhrif á rekstur hljómsveitarinnar. Þótt að aðsókn og áskriftarsala hafi aukist mikið hefur nýtt rekstrarumhverfi einnig haft í för með sér aukinn kostnað. Frá upphafi var gert ráð fyrir því að framlag ríkisins myndi aukast í samræmi við hærri húsaleigu en nú er komið í ljós að annar kostnaður jókst um tugi prósenta, svo sem tækni- og miðasölukostnaður. Stærsti hluti rekstrakostnaðar hljómsveitarinnar er fastur kostnaður á borð við launakostnað og húsaleigu. Hlutfall launakostnaðar í heildar rekstrarkostnaði hefur aukist hægt og bítandi síðustu ár þrátt fyrir að fjöldi starfsmanna hafi haldist svipaður.  Breytilegur kostnaður hljómsveitarinnar snýr nær eingöngu að framleiðslukostnaði við tónleika. Eina leiðin til að spara í rekstri er því að draga úr kostnaði við tónleika og stýra verkefnavali þannig að ekki þurfi að stækka hljómsveitina. Þetta má glöggt sjá á rekstrarreikningi hljómsveitarinnar. Árið 2010 var kostnaður við tónleika töluvert hærri en húsaleigan. Síðan hljómsveitin flutti í Hörpu hefur hlutfallið hins vegar snúist við þannig að kostnaður við tónleika er um helmingur af kostnaðinum við húsaleiguna í Hörpu.
Að endingu er nauðsynlegt að nefna að launaumhverfi hljómsveitarinnar er í engu samræmi við þær gríðarlegu listrænu kröfur sem gerðar eru til hennar. Því er nauðsynlegt að hljómsveitin fái fjárhagslegt svigrúm til að endurnýja kjarasamninga við hljóðfæraleikara. Sinfóníuhljómsveit Íslands starfar í alþjóðlegu umhverfi og stenst fyllilega samanburð við bestu þjóðarhljómsveitir, sem er sterkur vitnisburður Íslendingum í hag. Það er hins vegar afar mikilvægt að viðhalda þeirri stöðu og skapa hljómsveitinni þannig rekstrarumhverfi að hún geti haldið áfram að vaxa og dafna sem eitt helsta flaggskip þjóðarinnar.

Þjóðleikhúsið
Fjárveiting til starfsemi Þjóðleikhússins hefur allt frá opnun þess verið ákvörðuð frá ári til árs í fjárlögum. Í kjölfar efnahagshrunsins var fjárveiting til leikhússins skorin verulega niður þrjú ár í röð (2010, 2011 og 2012). Brugðist var við því með samstilltu átaki starfsfólks, skapandi hugsun og hugviti ásamt ýmsum rekstrarlegum aðgerðum. Rekstur leikhússins hefur því verið í járnum og mikið álag einkennt allt starfið á síðustu árum. Eðlilegar sveiflur í aðsókn leiksýninga eru byggðar inn í áætlanagerð leikhússins, en á rekstrarárinu 2014 dalaði aðsókn meira en gert hafði verið ráð fyrir og nam rekstrarhalli það ár 53 millj.kr. sem greiða þurfti niður 2015 og 2016 sem jók enn á álagið.  Meðan þetta ástand varir er starfsemi hússins í raun háð því að hver einasta sýning sem frumsýnd er laði til sín áhorfendur í ríkum mæli og það þótt leikhúsið hafi tæplega burði til að auglýsa sýningarnar. Slíkt er óraunhæft, ekki síst þegar horft er til þess mikilvæga hlutverks sem leikhúsinu er falið með lögum; að stunda frumsköpun og sýna listrænan metnað í listsköpun sinni. Þjóðleikhúsið hefur fengið tímabundna hækkun á fjárlögum síðustu tveggja ára til að hefja bráðnauðsynlega endurnýjun tækjabúnaðar, verkefni sem mun kosta að lágmarki 300 milljónir króna. En til að gera Þjóðleikhúsinu kleift að standa undir lögbundnu hlutverki sínu sem burðarstoð íslenskrar leiklistar þyrfti almennt rekstrarframlag á fjárlögum að hækka sem nemur 100 milljónum á ári næstu þrjú ár, þar til það næði 1.200 milljónum króna 2020. Þjóðleikhúsið er leiðandi stofnun á sviði leiklistar í landinu og leitast við að vera til fyrirmyndar hvað listrænan metnað varðar. Leikhúsið hefur alla burði til að sinna þessu forystuhlutverki sínu en með styrkari fjárhagsgrunni væri því gert kleift að standa betur undir þeim kröfum sem til þess eru gerðar af samfélaginu, listamönnum og stjórnkerfinu.

Kvikmyndamiðstöð Ísland
Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur sérstöðu samanborið við aðrar miðstöðvar listgreina og hönnunar því um hana gilda lög nr. 137/2001 og hefur hún því stöðu ríkisstofnunar. Verksvið miðstöðvarinnar hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og hafa framlög til hennar ekki fylgt auknu álagi sem hlýst af þeirri athygli sem íslenskar myndir, ekki síst sjónvarpsefni, hafa notið að undanförnu samhliða niðurskurði í rekstri í kjölfar hrunsins. Verksvið KMÍ er víðtækt svo sem sjá má í 1. gr. laganna, auk þess að vera umsýslustofnun Kvikmyndasjóðs, sem er þungamiðja starfseminnar, þá gegnir hún lykilhlutverki við að koma kvikmyndum íslenskra höfunda á framfæri á erlendum hátíðum og mörkuðum. Hún sinnir skráningarhlutverki varðandi innlendar kvikmyndir, hönnun kynningarefnis og heldur úti öflugri heimasíðu um íslenskar myndir (þó hún sé úr sér gengin tæknilega). Þá veitir hún ráðgjöf á vettvangi kvikmynda, bæði til innlendra kvikmyndagerðarmanna og erlendra dreifingaraðila íslenskra mynda. Loks annast KMÍ umsýslu umsókna um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar samkv. samningi við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Hjá KMÍ starfa 5 starfsmenn í u.þ.b. 4,5 stöðugildum og hefur það umfang verið óbreytt frá 2003 (kvikmyndaráðgjafar eru verktakar í hlutastörfum sem leggja listrænt mat á styrkumsóknir, sbr. reglugerð og ekki taldir með hér). Á síðasta ári fjallaði KMÍ um rúmlega 200 umsóknir um styrki úr Kvikmyndasjóði. Umsóknirnar eru viðamiklar, oft um og yfir 200 bls. hver og í samræmi við 11. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð þarf að leggja nákvæmt mat á um 25 efnisþætti í hverri umsókn. Á síðasta ári voru íslenskar myndir sendar á 425 hátíðir auk þess sem íslenskar myndir voru í sérstökum brennidepli á átta hátíðum. Til marks um álagið á starfsmenn KMÍ má geta þess að í sambærilegum stofnunum í Eistlandi og Lettlandi eru 11 starfsmenn og 15 í Litháen, þó eru umsvif þessara miðstöðva ekki eins mikil og hjá KMÍ sem skýrist aðallega af minni velgengni, enn sem komið er. Norðurlöndin standa svo enn betur að vígi og óraunhæft að nota þau til samanburðar, enda hver stofnun þar með um og yfir 150 starfsmenn sem sinna mun burðugra styrkjakerfi en okkar. Finnar eru þó nálægt okkur hvað uppbyggingu varðar en þar eru 26 starfsmenn sem sjá um styrkveitingar og kynningar. Málefni KMÍ þarfnast sérstakrar skoðunar af hálfu stjórnvalda og nægir viðleitni fjárlagafrumvarpsins 2018 engan veginn í því efni. 

Miðstöð Íslenskra bókmennta
Starfsemi Miðstöðvar íslenskra bókmennta er hornsteinn bókmenningar og bókaútgáfu í landinu, en eitt af meginhlutverkum hennar samkvæmt lögum er að úthluta styrkjum til útgáfu innanlands sem og þýðinga á íslensku og erlend mál. Auk þess styður miðstöðin við kynningu og útbreiðslu íslenskra bókmennta erlendis og rennir þannig um leið styrkari stoðum undir innlenda bókmenningu. Miðstöð íslenskra bókmennta er eini sjóðurinn sem útgefendur geta leitað í vegna útgáfu innlendra ritverka og skiptir meðal annars miklu að styrkir vegna útgáfu á stórvirkjum bókmenntanna og bókum sem hafa ótvírætt menningarlegt gildi verði efldir verulega. Fjárhagslega hefur miðstöðinni verið afar þröngur stakkur skorinn, en framlag á fjárlögum er sama krónutala í ár og þegar miðstöðin var sett á stofn árið 2013 (92 mkr). Til að tryggja íslenskri bókaútgáfu og bókmenningu traustari grunn og til að mæta auknum kröfum og umsvifum miðstöðvarinnar á öllum sviðum, sem birtist m.a. í eftirspurn eftir íslenskum bókmenntum erlendis, ört vaxandi fjölda styrkumsókna í öllum flokkum og fleira, þarf nauðsynlega að efla miðstöðina með að minnsta kosti 50% hækkun á árlegu framlagi til hennar.

Miðstöðvar lista og skapandi greina
Kynning á íslenskri list og hönnun utan landssteina er að stórum hluta sinnt af miðstöðvum sem starfræktar eru af hverjum geira fyrir sig. Þær leika lykilhlutverk í að koma listamönnum og hönnuðum í samband við alþjóðlegan markað, t.d. gegnum hátíðir og margskonar tengslanet. Þær sinna jafnframt mikilvægu ráðgjafarhlutverki, bæði innanvert hver á sínu sviði en einnig út á við gagnvart stjórnvöldum og erlendum systurstofnunum. Miðstöðvarnar gegna mikilvægu hlutverki í hnattvæddu samfélagi, bæði beint og óbeint. Þær auðvelda listamönnum og hönnuðum að koma sköpun sinni á framfæri, en einnig virkar starfsemi þeirra sem segull á ferðamenn, þar sem kveikjan að Íslandsferðum er oft forvitni fólks um listir og hönnun. Rekstrarform miðstöðvanna og staða er ólík innbyrðis, sérstaða Kvikmyndamiðstöðvar og Miðstöðvar íslenskra bókmennta er nokkur en rekstur þeirra byggir á lögum, en hinar byggja á samningum við stjórnvöld, þó að undanskilinni sviðslistamiðstöð sem enn hefur ekki verið stofnuð þrátt fyrir áralöng áform þar um. Á yfirstandandi fjárlagaári fengu miðstöðvarnar samanlagt framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneyti að upphæð kr. 83,4 milljónir (sbr svar frá mmrn til BÍL 29.09.17, en að auki voru flestar þeirra með einhvers konar samninga við önnur ráðuneyti um tiltekin verkefni. Þar er helst um að ræða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Af þessum sökum er hvergi að finna upplýsingar um heildarframlög hins opinbera til miðstöðvanna og framsetning fjárlagafrumvarpsins hjálpar ekki í þeim efnum.

Hönnunarmiðstöð Íslands
Hönnunarmiðstöð er rekin samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Framlag til Hönnunarmiðstöðvar á fjárlögum 2017 er að finna undir hatti þessara tveggja ráðuneyta; kr. 30 milljónir í rekstrarframlag auk 15 milljóna í innleiðingu hönnunarstefnu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og 10 milljóna króna rekstrarframlag frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Hönnunarsjóður að upphæð kr. 50 milljónir er vistaður undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og skv. samningi annast Hönnunarmiðstöð umsýslu hans. Þá annast Hönnunarmiðstöð innleiðingu hönnunarstefnu, en kostnaður við það verkefni hefur ekki verið greindur með fullnægjandi hætti enn sem komið er. Til að treysta mikilvægar stoðir Hönnunarmiðstöðvar þyrfti  að gera nýjan samning til fimm ára, sem væri í anda nýrra laga um opinber fjármál. Framlagið til málaflokksins þyrfti að taka mið af þeim árangri sem náðst hefur, umfangi starfseminnar og möguleikum til atvinnusköpunar. Hönnunarmiðstöð hefur fært rök fyrir því að árlegt rekstrarframlag þyrfti að vera 50 milljónir króna auk þess sem tryggja þyrfti svipaða upphæð í verkefnafé fyrir innlend verkefni og alþjóðleg. Þá þyrft Hönnunarsjóður að hafa til ráðstöfunar fjárhæð sem næmi 150 milljónum, slíkt mætti framkvæma í áföngum á næstu árum.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar – KÍM
KÍM sinnir kynningu á íslenskri myndlist erlendis þ.m.t. þátttöku íslenskra myndlistarmanna á fjölbreytilegum sýningum stórum sem smáum, auk þess er hún í samstarfi við sendiráð Íslands erlendis um kynningu á samtímalist í sendiráðum og sendiherrabústöðum og skipuleggur sýningar þar með verkum eftir íslenska myndlistarmenn. Stærsta einstaka verkefni KÍM er að annast þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum, sem hefur vakið verðskuldaða athygli á íslenskum listamönnum og menningu þjóðarinnar á undanförnum árum. Kostnaður við þátttöku í Feneyjatvíæringnum er um 50 milljónir og þyrfti KÍM því árlegt framlag að upphæð 25 milljónir króna til að standa undir þeim kostnaði, en fær einungis 12 milljónir. Rekstrarframlagið sem KÍM fær með samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið er 25 milljónir, en þyrfti að hækka í 35 milljónir til að geta staðið undir þremur stöðugildum þar sem 15% af rekstrarframlagi menntamálaráðuneytisins fer skv. stofnskrá KÍM í styrki til myndlistarmanna.

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar – ÚTÓN
ÚTÓN er í raun viðskipta- og markaðsskrifstofa Íslenskrar tónlistar í víðum skilningi. Tilgangur hennar er að leita tækifæra til að efla og skapa sóknarfæri til handa rétthöfum íslenskrar tónlistar innanlands sem utan og auka möguleika íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í tónlistarútrás til að ná árangri í alþjóðlegum viðskiptum með tónlist. Þá sinnir ÚTÓN fjölbreyttu ráðgjafarhlutverki og tengslamyndun innan tónlistargeirans en einnig gagnvart stjórnvöldum ÚTÓN annast umsýslu útflutningsjóðs tónlistarinnar, heldur úti tveimur heimasíðum, heldur fræðslukvöld og gefur út fréttabréf. Starfsemi ÚTÓN er rekin fyrir fé frá samtökum tónlistarfélaga á Íslandi og samning við mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og utanríkis-ráðuneyti. Framlag ráðuneytanna til rekstrarins er 28 milljónir á yfirstandandi fjárlagaári. Í ljósi þess hversu mikill árangur hefur náðst í starfi skrifstofunnar er orðin veruleg þörf fyrir fleiri hendur á dekk, en til að geta bætt við stöðugildi þyrfti árlegt rekstrarframlag til ÚTÓN að vera 38 milljónir króna.

Tónverkamiðstöð
Hlutverk tónverkamiðstöðvar snýr aðallega að tónhöfundum þar sem miðstöðin safnar öllum íslenskum tónverkum, skannar þau, skráir og gengur frá þeim til varðveislu í Landsbókasafni Íslands. Í safni miðstöðvarinnar eru nú um 10.000 tónverk, sem hægt er að skoða á vef miðstöðvarinnar. Tónverkamiðstöð hefur því sambærilegu hlutverki að gegna gagnvart tónlist og Listasafn Íslands gegnir fyrir myndlist. Nú er svo komið að mun meira berst til miðstöðvarinnar af tónverkum en hún annar að skrá, t.d. liggja nú óskráð um 400 tónverk Atla Heimis Sveinssonar og fleiri stór söfn mætti nefna sem bíða skráningar. Tónverkamiðstöð sinnir einnig kynningarmálum sígildrar- og samtímatónlistar og veitir tónskáldum og flytjendum á Íslandi stuðning eftir bestu getu með miðlun fræðslu og ráðgjöf.  Ef miðstöðin ætti að geta annað eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem hún veitir þyrfti hún að geta bætt við sig tveimur stöðugildum, en nú eru stöðugildin 1,6 á launum langt undir því sem teljast eðlileg dag. Til að bæta úr því þyrfti að hækka framlagið til miðstöðvarinnar um helming að lágmarki. Samningur Tónverkamiðstöðvar við mennta- og menningarmálaráðuneyti gildir til 2018 og gerir ráð fyrir 15 milljóna króna árlegu framlagi, en ef vel ætti að vera þyrfti framlagið að vera helmingi hærra eða 30 milljónir.

Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista – KÍS
Íslensk sviðslistamiðstöð er óstofnuð enn, en Sviðslistasamband Íslands hefur stefnt að stofnun slíkrar miðstöðvar um árabil. Á vordögum árið 2016 skilaði starfshópur af sér skýrslu með stefnumótun ásamt tillögum að rekstrarumhverfi og starfsreglum. Fjárhagsáætlun hópsins gerir ráð fyrir stofnframlagi frá ríkinu og árlegu rekstarframlagi til ársins 2020. Þó ekki hafi enn orðið af stofnun miðstöðvarinnar, bindur Sviðslistasamband Íslands miklar vonir við að þetta verði að veruleika 2018.   Ef fjárhagsáætlunin frá 2016 er uppfærð til núverandi verðlags þarf stofnframlag ríkisins að vera kr. 22.000.000.- og árlegt framlag vegna reksturs til ársins 2022 kr. 27.500.000.-. Stofnun Kynningarmiðstöðvar íslenskra sviðslista helst í hendur við nýja löggjöf um sviðslistir, sem hefur verið kynnt á Alþingi nokkrum sinnum á undanförnum árum og er á málaskrá nýrrar ríkisstjórnar, eins og hún hefur raunar verið hjá síðustu þremur ríkisstjórnum. Einnig hefur verið settur á laggirnar starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem fengið hefur það verkefni að yfirfara hlutverk og samstarf miðstöðva lista og hönnunar, þ.m.t. sviðslista þó sú miðstöð sé enn óstofnuð. Það bendir því allt til þess að ríkir vilji sé fyrir því að stofna miðstöð íslenskra sviðslista, en fjármagn til þess verkefnis hefur ekki enn fengist og því miður eru engin merki um að það sé að finna í fjárlagafrumvarpi 2018.

Dansverkstæðið
Frá stofnun Dansverkstæðisins árið 2010 hefur það gegnt mikilvægu og vaxandi hlutverki sem húsnæði fyrir sjálfstætt starfandi danshöfunda og dansara auk þess sem aðrir sviðslistamenn hafa nýtt sér aðstöðuna. Dansverkstæðið hefur verið heimili danslistarinnar, vettvangur fyrir skapandi vinnu, þjálfun, félagsstarf, fundi og ráðstefnur um fagið. Starfsemin var rekin í lélegu húsnæði við Skúlagötu fram á mitt ár 2017, en þurfti þá að fara þaðan vegna byggingarframkvæmda á reitnum. Fyrir milligöngu Reykjavíkurborgar hefur tekist að tryggja starfseminni nýtt húsnæði á Hjarðarhaga 47-49, þar sem öll aðstaða verður til fyrirmyndar. Þar með verður bætt úr brýnni þörf danslistamanna og sviðslistahópa fyrir æfinga- og þjálfunarhúsnæði auk þess sem Íslenska óperan áformar að nýta það sem æfingahúsnæði. Nýja húsnæðið er þrisvar sinnum stærra en það gamla og að sama skapi dýrara, en Reykjavíkurborg gerir þetta kleift með því að hækka árlegt framlag sitt úr 2 milljónum í 15 milljónir. Það dugar þó ekki til og hafa forsvarsmenn Dansverkstæðis óskað eftir því við mennta- og menningarmála-ráðuneytið að framlagið frá ríkinu verði hækkað úr núverandi 2 milljónum í 7 milljónir á ári og að gerður verði samstarfsamningur til ársins 2020.

 List fyrir alla
List fyrir alla er barnamenningarverkefni á vegum mennta og menningarmálaráðuneytisins, stofnsett 2016. Verkefninu er ætlað að miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum. Á síðastliðnum vetri 2016 – 2017 heimsóttu 12 listverkefni 107 grunnskóla og sýndu fyrir samtals 6325 börn auk þess sem boðið var upp á kennsluvefefni á vegum Norræna hússins sem var aðgengilegt öllum grunnskólum landsins rafrænt. Um 60 verkefni sóttu um þátttöku síðastliðið vor og voru 17 verkefni valin til að heimsækja alla grunnskóla landsins yfir veturinn. Þó verkefninu sé ætlað að ná til allra grunnskólanema þá er langt í land að því marki verði náð, en tölur benda til að verkefni Listar fyrir alla hafi náð til 15% grunnskólabarna sl. vetur. Hugmyndir um þróun verkefnisins eru skýrar en til að þær nái fram að ganga þarf að koma til aukið framlag. Til að tryggja að öll börn og ungmenni á Íslandi (líka leikskólabörn og ungmenni á framhaldsskólaaldri) hafi aðgang að listviðburðum í hæsta gæðaflokki óháð búsetu og efnahag þarf að hækka framlagið til verkefnisins úr 18,5 milljónum sem það fær 2017 í 45 milljónir á næstu fimm árum. Það mætti gera með því að hækka framlagið um 5 milljónir á ári fram til 2022, eða sem nemur gildistíma fyrirliggjandi fjármálaáætlunar.

Listaháskóli Íslands
Sú menntastofnun á háskólastigi, sem ber uppi menntun listamanna og hönnuða, er Listaháskóli Íslands, sem hefur þá sérstöðu í flóru listaháskóla að ein og sama stofnunin sinnir menntun á fræðasviði lista ólíkt því sem tíðkast í löndunum sem við berum okkur saman við. Hugmyndin með stofnun skólans á grunni gömlu sérskólanna (Leiklistarskóla Íslands og Myndlista- og handíðaskóla Íslands) var sú framsækna hugsun að framfara væri að vænta í háskólastofnun þar sem ólíkar list- og hönnunargreinar nytu nálægðar hver við aðra. Því miður hefur orðið bið á að sú hugmynd samlegðar næði fram að ganga þar sem skólinn er enn, tæpum tuttugu árum síðar, rekinn á fimm stöðum í borginni. Húsnæði skólans er í slæmu ástandi, sumar byggingarnar eru heilsuspillandi en aðrar óhentugar, engin þeirra er byggð sem skólahúsnæði. Þrátt fyrir þær aðstæður sem listnámi á háskólastigi eru búnar fékk LHÍ hæstu mögulegu einkunn í síðustu úttekt gæðaráðs íslenskra háskóla, sem fór fram 2015. Skólinn hefur glímt við rekstrarerfiðleika, eins og allir háskólar í landinu og í frumvarpi til fjárlaga 2018 er nokkur hækkun á rekstrarframlagi til skólans, sem ber að fagna. Einnig er það ánægjuefni að áform um úrbætur á húsnæðismálum skólans skuli að finna í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Það er von BÍL að ekki þurfi að bíða eftir að vinna við þau mál fari af stað og mikilvægt að ríkisstjórn og Alþingi leggist saman á árarnar við að fjármagna það verk.

Lokaorð
Eitt mikilvægasta verkefnið sem list- og menningargeirinn stendur  frammi fyrir er að hefja vinnu við kortlagningu list- og menningartengdrar starfsemi. Afla þarf upplýsinga um fjármögnun og efnahagsleg áhrif lista og menningar, en ekki síst þurfum við að átta okkur á starfsumhverfi listamanna. Eins og stendur getum við ekki tekið þátt í Norrænum rannsóknum um listageirann t.d. varðandi samanburð á starfsumhverfi norrænna listamanna, vegna þess að tölfræðin hér á landi er svo ófullkomin. Af þessum sökum fagnar BÍL sérstaklega áformum sem fram koma í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um gerð hagvísa lista og menningar og lýsir yfir vilja til að koma að því verki.

Af öðru því sem sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar nefnir og BÍL horfir til er ákvörðun um niðurfellingu virðisaukaskatts af bókum og tónlist. Vissulega olli það nokkrum vonbrigðum að þess skyldi ekki sjá stað í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi, en vonir BÍL standa til þess að strax á nýju ári verði gerð áætlun um það með hvaða hætti stjórnvöld ætla að nálgast það verkefni og að framkvæmdin verði ekki dregin úr hömlu. Einnig má nefna áform nýrrar ríkisstjórnar um eflingu starfslaunasjóða listamanna og verkefnatengdra sjóða. Það er mikilvægt að stjórnvöld þekki sjónarmið fagfélaga listamanna þegar vinnan við það langþráða verkefni hefst og að áætlun um þá eflingu verði kynnt sem fyrst á nýju ári.

Að lokum er þess óskað, þó skammur tími sé þar til þingið þarf að afgreiða fjárlög, að stjórn BÍL fái að senda fulltrúa á fund fjárlaganefndar til að svara spurningum þeim sem nefndarmenn kunna að hafa um málefni þau sem hér eru til umfjöllunar.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar BÍL – Bandalags íslenskra listamanna

Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

Lifað af listinni – greinargerð málþings

Grg_lifad_af_listinni_22.09.17

22. september sl. gekkst BÍL fyrir þriðja málþinginu um höfundarrétt, í samstarfi við Höfundaréttarráð, STEF, RSÍ, IHM og Myndstef. Var í þetta sinn fjallað um þörfina á opinberri stefnu í málefnum höfundarréttar. Málþingið var haldið í Norræna húsinu og var fundarstjóri Rán Tryggvadóttir formaður Höfundaréttarráðs.

Kveikjan að málþinginu var sú að haustið 2014 skipaði ráðherra iðnaðar- og viðskipta starfshóp sem fékk það verkefni að móta framtíðarsýn um hugverkaréttindi á Íslandi. Hópurinn skilaði tillögu að fullbúinni stefnu um hugverkaréttindi og var hún gefin út í júní 2016 sem opinber Hugverkastefna 2016-2022 undir heitinu „Hugverkaréttindi sem verðmæti og viðskiptatæki“.

Það er mat Höfundaréttarráðs og samstarfshóps höfundarréttarsamtaka að nauðsynlegt sé að halda áfram á þessari braut og hefja vinnu við að móta svipaða framtíðarsýn um höfundarétt. Fyrirkomulag málþingsins var þannig að haldin voru tvö innlegg um grundvallaratriði höfundaréttarstefnu og leitað rökstuðnings fyrir mikilvægi slíkrar stefnu, auk þess sem kynnt var vinnan við hugverkastefnuna. Síðan var boðið upp á vinnu í hópum, þar sem þátttakendur skiptu sér á borð eftir listgreinum og gafst kostur á að setja sitt mark á væntanlega stefnu, bæta við rökstuðningi og sjónarmiðum. Markmiðið var að málþingið skilaði efniviði sem Höfundaréttarráð gæti byggt á endanlega tillögu að Höfundaréttarstefnu 2018 – 2024. Greinargerð málþingsins, sem m.a. hefur að geyma efniviðinn sem varð til í hópavinnunni, var sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu í lok nóvmber og er aðgengileg hér í pdf-skjali.

Listirnar og lög um opinber fjármál

Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL ritar grein í nýjasta hefti tímarits SÍM – STARA 2. tbl. 2017:

Nú eru liðnir rúmir 20 mánuðir síðan lög nr. 123/2015 um opinber fjármál voru samþykkt á Alþingi. Lögin breyta í grundvallaratriðum framsetningu fjáragafrumvarpsins og því sjónarmiði verður lýst í þessari grein að breytingin geri almenningi og ýmsum hagsmunaaðilum mun erfiðara fyrir við að kynna sér það sem liggur að baki fjárlögum ríkisins en var í tíð eldri laga um ríkisfjármál. Það stríðir gegn einu af yfirlýstum markmiðum laganna, sem er að tryggja virkt eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár.

Bandalag íslenskra listamanna hefur það hlutverk að gæta hagsmuna listamanna og hefur í því augnamiði sérhæft sig í að skoða fjárlög íslenska ríkisins m.t.t. framlaga til lista og menningar. Í því sambandi hefur BÍL átt árleg samskipti bæði við fjárlaganefnd Alþingis og við framkvæmdavaldið um mikilvægi þess að opinber framlög til list- og menningartengdra stofnana, sjóða og verkefna séu með þeim hætti að áform um eflingu lista og menningar gangi eftir. Umsagnir BÍL til fjárlaganefndar má finna á heimasíðu BÍL.

Áform um öfluga list- og menningartengda starfsemi eru ekki einasta hagsmunamál listamanna og félaga þeirra, heldur koma þau skýrt  fram í menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013. Það atriði stefnunnar sem BÍL leggur mesta áherslu á varðar mikilvægi fjölbreytts listalífs og frumkvæðis á vettvangi listsköpunar. Til að þessir eiginleikar sköpunar fái notið sín í raun þurfa fjárframlög ríkisins til list- og menningarstofnana að endurspegla áformin, en ekki síður þarf að sinna af afli starfsemi utan stofnana, sem fjármögnuð er að stórum hluta gegnum opinbera sjóði og skilgreind verkefni.

Hvort tveggja á heima í fjárlögum íslenska ríkisins; framlög til stofnana, sem byggja framboð sitt á listviðburðum á framlagi listamana, og framlög til list- og meningartengdra sjóða þar sem listamenn sækja um starfslaun eða framlög til tilgreindra verkefna. Flestir sjóðirnir eru lögbundnir, t.d. starfslaunasjóðir listamanna, myndlistarsjóður, tónlistarsjóður, kvikmyndasjóður, bókasafnssjóður höfunda o.fl. Kerfi þetta er sambærilegt við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar og ekkert alvarlegt að athuga við uppbyggingu þess eða hugmyndafræði, hins vegar hefur kerfinu verið haldið í spennitreyju takmarkaðra fjárframlaga allt of lengi.

Því hefur verið haldið fram af ábyrgum aðilum í stjórnkerfinu að framlög til lista og menningar hafi verið skorin um a.m.k. 20% eftir hrunið 2009 og hagsmunaaðilar innan listgreinanna hafa haldið því fram að niðurskurðurinn hafi ekki enn verið bættur nema að litlu leyti. Því sjónarmiði hefur ekki verði andmælt af stjórnvöldum. Að vísu má halda því fram að erfitt sé að afla upplýsinga um tölfræði lista og menningar þar sem henni er illa sinnt af opinberum aðilum á borð við stjórnarráðið og Hagstofu Íslands. Þar er gríðarlegt verk að vinna sem stjórnvöld og listamenn eru sammála um án þess að það hafi skilað sér í nægilega afgerandi aðgerðum stjórnvalda eða að fjárframlög hafi fylgt þeim vilja til úrbóta sem stjórnvöld hafa þó látið í veðri vaka.

Nýju lögin um opinber fjármál tóku gildi 1. janúar 2016 og þó markmiðið með þeim sé bætt stefnumótun til lengri tíma og tímasett töluleg markmið í fjármálum hins opinbera og efnahagsmálum almennt, þá hefur ekki tekist sérlega vel til með framsetningu þess hluta fjármálaáætlunar eða frumvarps til fjárlaga sem lítur að listum og menningu. Í fyrsta lagi eru áformin um eflingu lista og menningar, sem sett eru fram í fjármálaáætlun 2018 – 2022, ekki fjármögnuð að neinu marki í frumvarpi til fjárlaga 2018 auk þess sem upplýsingar um upphæðir til smærri stofnana, sjóða og tilgreindra verkefna,  sem fram koma í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu eru svo gloppóttar að furðu sætir. Þegar rennt er yfir yfirlitin í fylgiritinu virðist sem í tilfelli lista og menningar séu þau gloppóttari en í öðrum málaflokkum. Í öllu falli þá gagnast engan veginn þeim hagsmunaaðilum sem vilja veita stjórnvöldum hið virka eftirlit, sem skrifað er inn í lög um opinber fjármál.

Breytingarnar sem nýju lögin um opinber fjármál hafa í för með sér snerta Alþingi, ráðuneyti, stofnanir og almenning, og eru breytingarnar svo umfangsmiklar að líklegt er að þær þurfi nokkurn aðlögunartíma, en það er óásættanlegt að grundvallarupplýsingar um þennan brotakennda og viðkvæma málaflokk  listir og menning skuli ekki betur framsett en raun ber vitni. Það hlýtur að vera krafa hagsmunafla listamanna að úr þessu verði bætt á næstu vikum og hefur BÍL þegar sent erindi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem óskað er upplýsinga um sundurliðun, sem ætti að vera til staðar í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu en er þar ekki. Þessi skilaboð eru einnig ætluð fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem hefur haft yfirumsjón með innleiðingu laganna og lýsir því yfir í texta fjárlagafrumvarps 2018 (bls. 80) hversu víðtækt samráð þurfi að hafa við innleiðingu laganna um opinber fjármál ef vel eigi að takast. Bandalag íslenskra listamanna skorast ekki undan þeirri áskorun, við svörum erindum á netfanginu bil@bil.is

 

Page 5 of 42« First...34567...102030...Last »