Stjórn FÍLD: Formaður: Irma Gunnarsdóttir. Gjaldkeri: Guðmundur Helgason. Ritari: Guðmunda Pálmadóttir. Meðstjórnandi: Hildur Ólafsdóttir. Meðstjórnandi: Sandra Ómarsdóttir. Varamaður: Inga Maren Rúnarsdóttir. Varamaður: Sigurður Andrean Sigurgeirsson.

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum stofnunum/bandalögum:

  • Bandalag Íslenskra Listamanna: Irma Gunnarsdóttir.
  • SAFAS – Samráðsvettvangur fagfélaga í sviðslistum: Irma Gunnarsdóttir.             Samráðsvettvanginn SAFAS skipa formenn eftirtalinna fagfélaga; Danshöfundafélag Íslands, Félag íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum, Félag ísl. listdansara, Félag leikmynda – og búningahöfunda, Félag leikskálda og handritshöfunda, Félag leikstjóra á Íslandi og Félag tæknifólks. Tilgangur SAFAS er að uppfylla skyldur laga um sviðslistir auk þess að styðja við sameiginleg hagsmunamál til aukinnar fagmennsku í sviðslistum.
  • SSÍ – Sviðslistasamband Íslands: Irma Gunnarsdóttir. Varamaður: Guðmunda Pálmadóttir.
  • Gríman – Íslensku Sviðslistaverðlaunin: Einn fulltrúi í Grímunefnd.
  • Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík: Irma Gunnarsdóttir. Varamaður: Ólöf Ingólfsdóttir.
  • Bakland Listaháskóla Íslands: Sveinbjörg Þórhallsdóttir situr í stjórn Baklandsins f.h. fagfélaga í sviðslistum (SAFAS). Sandra Ómarsdóttir er fulltrúi FÍLD í fulltrúaráðinu.
  • FÍLD er jafnframt hagsmunaaðili að Sviðslistamiðstöð Íslands.

Fulltrúar í Listdansráði Íslenska dansflokksins skipaðir af SAFAS

Aðalfulltrúar: Ólöf Ingólfsdóttir og Guðmundur Helgason. Varafulltrúar: Katrín Johnson og Ólafur Darri Ólafsson. Formaður listdansráðs, skipaður af menningarmálaráðherra: Sigríður Soffía Níelsdóttir.

Aðalfundur FÍLD var haldinn 27.febrúar 2022.

Stjórnarkjör: Fráfarandi stjórnarmeðlimir voru Sigrún Ósk Stefánsdóttir meðstjórnandi og Lovísa Ósk Gunnarsdóttir varamaður. Guðmundur Helgason var endurkjörinn sem galdkeri. Hildur Ólafsdóttir var kjörin í stjórn sem meðstjórnandi og Sigurður Andrean Sigurgeirsson sem varamaður.

 

Stjórnarfundir á árinu

Stjórnarfundir voru haldnir mánaðarlega og gekk stjórnarsamstarfið vel. Ýmis verkefni voru á borði stjórnar og skipti stjórn með sér verkum er kom að skipulagningu viðburða og verkefna en sú vinna fór að miklu leiti fram á milli stjórnarfunda. Helstu viðburðir á árinu voru  75 ára afmælishátíð FÍLD, Dagur listdansskólanna 27.mars, SOLO undankeppni PRIX DU NORD,  Alþjóðlegi dansdagurinn 29.apríl, Hátíðarsýning listdansskólanna á Barnamenningarhátíð, undirbúningur og útgáfa á DANSSTEFNU 22/32 auk eftirfylgni á útgáfu dansstefnunnar með kynningum og viðræðum við ríki, borg og helstu hagsmuna- og samstarfsaðila. Stjórn ákvað einnig að koma félagsskírteinum FÍLD í nýtt form en gefin voru út rafræn félagsskírteini sem send hafa verið út til allra skuldlausra meðlima í félaginu.

FÍLD á vettvangi SSÍ og SAFAS

Fundarseta formanns jókst á árinu en með tilkomu SAFAS og verkaskiptingar á milli SSÍ og SAFAS eru fundir orðnir fleiri en áður var. Irma var kosin í stjórn SSÍ á aðalfundi SSÍ í október síðastliðnum og verður hún í stjórn SSÍ fram að næsta aðalfundi sambandsins sem haldinn verður í október næstkomandi. Málefni SSÍ snúa að miklu leiti að Grímunni og öllu sem við kemur fyrirkomulagi á íslensku sviðslistaverðlaununum. SSÍ vekur árlega athygli á alþjóðlegum degi leiklistar sem haldinn er 27.mars ár hvert. Auk þess að þýða erlent ávarp sem gefið er út af alþjóða leikhúsmálastofnun UNESCO í tilefni dagsins er einnig fenginn íslenskur sviðslistamaður til að semja ávarp í tilefni dagsins. Í ár var það Sveinbjörg Þórhallsdóttir danslistakona sem samdi og flutti ávarp alþjóðlega leiklistardagsins. Hún flutti ávarpið við hátíðlega athöfn á 75 ára afmælishátíð FÍLD og var það einkar viðeigandi þar sem afmælisdagur FÍLD og alþjóðlegi leiklistardagurinn ber upp á sama degi. SSÍ kom einnig að undirbúningi málþings um samfélagsleg áhrif birtingarmynda í listum. Málþingið fór fram í Þjóðleikhúsinu en að málþinginu stóðu Bandalag íslenskra listamanna, Landssamtökin Þroskahjálp, Listaháskóli Íslands, Sviðslistasamband Íslands, Þjóðleikhúsið og ÖBÍ-réttindasamtök. Framundan er vinna við gerð opinberrar sviðslistastefnu og hefur menningarmálaráðuneytið fengið Orra Huginn Ágústsson forseta SSÍ, til að leiða vinnu við gerð sviðslistastefnunnar fyrir ráðuneytið. Stefnan verður unnin í samstarfi við fagfélög sviðslista og alla hagaðila sviðslista í landinu.

Á vettvangi SAFAS voru kjaramál sviðslistafólks mikið til umræðu á árinu en einnig form á samstarfsverkefnum milli ríkisrekinna sviðslistastofnanna og sjálfstæðra sviðslistahópa. SAFAS hefur áhyggjur af neikvæðum áhrifum vaxandi fjölda samstarfsverkefna við ríkisreknar sviðslistastofnanir. Málin eru nú til skoðunar hjá SAFAS en þörf er á frekari skilgreiningu og regluramma um samstarfsverkefni frá hinu opinbera, með það að markmiði að  skapa betra starfsumhverfi fyrir sjálfstætt starfandi listamenn innan sviðslista.

FÍLD á vettvangi BÍL

Formaður FÍLD sækir mánaðarlega stjórnarfundi BÍL en Hildur Ólafsdóttir meðstjórnandi í FÍLD tók að sér fundarsetu f.h. FÍLD frá hausti 2022 – áramóta 22/23 þar sem formaður átti ekki heimangengt sökum vinnu. Meðal málefna á borðum BÍL á árinu voru umhverfi starfslaunasjóða listamanna og þróun á starfsumhverfi listamanna og listgreina, kjaramál listamanna í samstarfsverkefnum og störfum fyrir RUV, stuðningur við stofnun Þjóðaróperu, aðkoma að opinberri umræðu og stefnumótun er varða opinberar stefnur í listum og margt fleira. Í janúar síðastliðnum var haldinn fundur með BÍL í menningarmálaráðuneytinu er snéri að sviðsmyndum tengdum Þjóðaróperu. Á þeim fundi voru ræddar hugmyndir um sameiningu Íslenska dansflokksins við aðrar ríkisreknar sviðslistastofnanir. Til umræðu voru hugmyndir um sameiningu ÍD og Þjóðleikhússins, önnur hugmynd að sviðsmynd er sameining ÍD, Þjóðaróperu og Sinfó, þá staðsett í Hörpu. Þessar hugmyndir snúa að því að styrkja smærri sviðslistastofnanir er kemur að ríkisrekstri og aðstöðu. Eitt er víst að hugmyndin um danshús er ekki inni í þessum sviðsmyndum og aðstöðuleysi fyrir sjálfstætt starfandi danslistafólk til sýningarhalds batnar ekki með þessum áformum. Spurning er hvort sameining ríkisrekinna sviðslistastofnanna verði til þess að danslistin glati enn frekar sjálfstæði sínu en vissulega getur sameining og samstarf stofnanna verið af hinu góða ef vel er að sameiningu staðið og öllum stofnunum gert jafn hátt undir höfði er kemur að aðbúnaði og aðstöðu. Hugmyndirnar verða áfram til umræðu á næstunni í tengslum við stofnun Þjóðaróperu og mótun nýrrar Sviðslistastefnu sem gefin verður út af ráðuneytinu á næstunni. BÍL vinnur mjög yfirgripsmikið starf f.h. allra listamanna og listgreina, þar sem heildarhagsmunir listanna eru í forgrunni. Mikilvægt er fyrir danslistamenn að eiga sér talsmann á vettvangi BÍL en þar á dansinn tvo fulltrúa, formann FÍLD og formann DFÍ.

FÍLD 75 ára á árinu

Haldið var upp á 75 ára afmæli félagsins laugardaginn 26.mars í Tjarnarbíó þar sem blásið var til veislu og hátíðarsýningar. Veislustjóri hátíðarinnar var Lovísa Ósk Gunnarsdóttir. Boðið var upp á veglegar veitingar í forsal og hátíðardagskrá á sviði þar sem formaður hélt hátíðarræðu. Frumflutt var íslenskt ávarp alþjóðlega leiklistardagsins í flutningi höfundar, Sveinbjargar Þórhallsdóttur og sýnd voru brot úr dansverkum. Sýnd voru brot úr verkunum ROF eftir Sveinbjörgu Þórhallsdóttur, dansað af Höllu Þórðardóttur og Baby blaze eftir Ingu Maríu Olsen 3ja árs nema við Samtímadansbraut LHÍ, dansað af henni sjálfri ásamt Karitas Lottu Tuliníus. Í tilefni dagsins færði Íslenski dansflokkurinn félaginu afmælsigjöf í formi sýningar og sýndu dansarar ÍD brot úr verkinu Hvíla Sprungur eftir Ingu Maren Rúnarsdóttur, dansarar voru Emilía Benedikta Gísladóttir og Ásgeir Helgi Magnússon. Auk sýninga á verkum fékk félagið óvænta bókargjöf frá Unni Guðjónsdóttur en hún kom færandi hendi með 30 dansbækur úr einkaeigu og gaf félaginu.

Síðast en ekki síst voru nýjir heiðursfélagar FÍLD heiðraðir á sviði og var athöfnin mjög hátíðleg en stjórn FÍLD ákvað í tilefni tímamótanna að fjölga heiðursfélögum í félaginu. Þrír af okkar eldri félögum voru heiðraðir á afmælishátíðinni fyrir ómetanlegt ævistarf í þágu listdans á Íslandi. Nýjir heiðursfélagar FÍLD eru þær Guðbjörg Astrid Skúladóttir, Guðbjörg Björgvinsdóttir og María Gísladóttir. Flutt voru æviágrip þeirra á sviði og þeim afhent heiðursskjal FÍLD og blóm frá félaginu. Afmælishátíðin var í alla staði hátíðleg og hafði fólk á orði hve gaman væri að hittast og gleðjast saman  loksins gafst tækifæri til að halda mannamót án grímu og Covid takmarkana, kærkomið eftir langvarandi Covid tímabil.

Dagur Listdansskólanna

Félag íslenskra listdansara stofnaði til dags listdansskólanna í tengslum við afmælisdag FÍLD.              Með deginum vill FÍLD auka sýnileika á mikilvægi listdansskólanna og það frábæra uppeldisstarf sem skólarnir gegna í samfélaginu. Frumraun okkar í að halda Dag Listdansskólanna fór vel af stað.  Stofnaður var sérstakur instagram reikningur „Dagur listdansskólanna“ en hann mun virkjast árlega 27.mars og dagana þar í kring. Hugmyndin er að allt sem skólar gera og birta á Degi Listdansskólanna verði að stórri samfélagsmiðlabylgju í netheimum. Ætlunin er að endurtaka leikinn í ár og hefur skólum nú þegar verið boðin þátttaka. Dagurinn mun án efa varpa ljósi á það frábæra starf sem fram fer í listdansskólum landins en það er mjög þarft að auka sýnileika og vekja athygli á gildum listdansmenntunar og starfsemi listdansskólanna. Í landinu eru starfræktir 13 einkareknir listdansskólar en auk þeirra hafa sjálfstætt starfandi danslistarmenn og ýmis dansstudio staðið fyrir fjölbreyttu námskeiðahaldi í gegnum árin.

Alþjóðlegi dansdagurinn 29.apríl

FÍLD lét þýða ávarp alþjóðlega dansdagsins sem gefið er út af alþjóða leikhúsmálastofnun UNESCO ár hvert. Það var Guðmundur Helgason sem tók að sér að þýða ávarpið í ár. FÍLD birti það á samfélagsmiðlum og sendi út á félagsmenn í tilefni dagsins.

Samstarfsverkefni Dansverkstæðisins og FÍLD

Í desember síðastliðnum fór af stað samstarfsverkefni Dansverkstæðisins og FÍLD er snýr að námskeiðahaldi fyrir dansara í kennsluaðferðum dansins. Ætlunin er að halda þrjú stutt workshop og fór það fyrsta af stað í desember síðastliðnum. Gríðarleg ánægja var með fyrsta námskeiðið meðal þeirra sem mættu en það var Meeri Susanna Mäkinen frá Finnlandi sem sá um námskeiðið. Hún hefur í hyggju að bjóða tvö námskeið til viðbótar en þetta eru stutt 3ja tíma námskeið um kennsluaðferðir í dansi. Námskeiðin eru niðurgreidd fyrir meðlimi Dansverkstæðisins og FÍLD þ.a.um að gera fyrir félagsmenn að nýta sér það. Næstu námskeið verða auglýst þegar nær dregur.

DANSSTEFNA 22/32 gefin út í nóvember

Í ágúst síðastliðnum skilaði dansstefnuteymið af sér vinnu við gerð dansstefnu 22/32 en vinnuferlið tafðist nokkuð vegna Covid. Stjórn tók við dansstefnunni og farið var í að fínpússa skjalið og gera það tilbúið til útgáfu. Farið var yfir allan texta, gerðar nokkrar textabreytingar, farið í að finna myndefni til birtingar með textanum og því næst fór stefnan í hönnunarferli hjá grafískum hönnuði. Ákveðið var að gefa stefnuna út í rafrænu formi en einnig í takmörkuðu prentupplagi. Lokaútkoman er glæsilegt plagg með framtíðarsýn og stefnu til næstu 10 ára. Það var Neil John Smith, grafískur hönnuður sem sá um uppsetningu og grafíska hönnun á skjalinu. FÍLD þakkar honum sérstaklega fyrir vandaða og flotta vinnu, Pixel prentþjónusta sá um að prenta. Þess má geta að Neil á líka heiðurinn af hönnun á nýjum félagsskírteinum FÍLD.

Útgáfuteiti og opnun Dansbókasafns FÍLD

Á Reykjavík Dance Festival sem haldin var dagana 16.-20.nóvember var DANSSTEFNA 22/32 loks kynnt til leiks. Haldið var útgáfuteiti á Dansverkstæðinu en einnig kynnt til sögunnar Dansbókasafn FÍLD.    Stjórn FÍLD ákvað að koma bókargjöfinni frá Unni Guðjónsdóttur fyrir á Dansverkstæðinu í fallegum glerskáp ásamt nokkrum öðrum góðum bókum úr eigu FÍLD og Dansverkstæðisins. Gestum hátíðarinnar gafst hér tækifæri á að skoða dansbókasafnið, spjalla saman yfir léttum veitingum og kynna sér nýútkomna dansstefnu.

Dreifing og kynning á DANSSTEFNU 22/32

Dreifing og kynning á dansstefnunni hófst í lok árs 2022 og stendur enn yfir. Dansstefnan verður leiðarljós í vinnu FÍLD næstu árin en hugmyndin er að stefnan geti nýst stjórn í opinberum viðræðum og hagsmunabaráttu við hið opinbera. Stefnan mun vafalaust nýtast sem innlegg í opinbera stefnu um sviðslistir en allir hagsmunaaðilar sviðslista hafa nú fengið DANSSTEFNU 22/32 senda auk þess sem stefnan hefur verið send á menningar- og viðskiptamálaráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og til allra aðila hjá Reykjavíkurborg sem hafa með málefni sviðslista og listnám að gera.

 

Fréttir af bókinni um íslenskan listdans

Eins og félagsmönnum er kunnugt hefur Ingibjörg Björnsdóttir unnið að bókinni um íslenskan listdans undanfarin ár. Hið íslenska bókmenntafélag hefur samþykkt að gefa bókina út með þeim skilyrðum að textinn verði styttur um helming. Það er mat bókaútgefanda að gefa þurfi meira rými fyrir myndmál auk þess sem styttri texti og aukið myndmál geri bókina söluvænlegri. Ingibjörg er langt komin með að stytta ritið og mun verkið fara aftur til bókaútgefanda með vorinu og staðan þá metin aftur á handritinu.

Óstytt útgáfan verður þó prentuð út í ritgerðarformi sem heimildarrit fyrir dansstofnanir og skóla.    Ingibjörg er búin að vinna mjög yfirgripsmikila heimildarvinnu, til að glata ekki niður öllum þeim sögulegu staðreyndum sem óstytt útgáfa geymir ákvað hún að varðveita allan texta sem skrifaður hefur verið. Óstytt heimildarútgáfan verður bundin inn á látlausan hátt á næstunni, án myndefna í örfáum eintökum.

SOLO – undankeppni PRIX DU NORD

SOLO einstaklingskeppnin í klassískum listdansi fór fram sunnudaginn 12.mars á Nýja sviði Borgarleikhússins. FÍLD stóð að keppninni í samstarfi við þátttökuskólana og var þátttaka nemenda mjög góð í ár. SOLO er undankeppni fyrir norrænu ballettkeppnina PRIX DU NORD sem til stóð að halda í Gautaborg um miðjan júní. Því miður varð ekkert af aðalkeppninni þetta árið en vegna skipulagsbreytinga og fleiri þátta var aðalkeppninni því miður aflýst í ár. Nú er hinsvegar búið að gefa út að Prix Du Nord verður haldin í Gautaborg um miðjan mars næstkomandi. Íslensku keppendurnir geta því tekið gleði sína á ný en keppnisrétturinn þeirra frá 2022 færist yfir til ársins í ár og munu 7 íslenskir dansnemar spreyta sig í PRIX DU NORD í næsta mánuði, keppnin fer fram dagana 16.-19.mars. Nánar um aðalkeppnina er hægt að nálgast á heimasíðu keppninnar https://prixdunord.org/ .

Hátíðarsýning listdansskólanna á Barnamenningarhátíð

Félag íslenskra listdansara stendur árlega fyrir hátíðarsýningu listdansskólanna í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur. Barnamenningarhátið lá að mestu niðri í tvö ár vegna Covid, það var því mikil gleði og ánægja þegar ljóst varð að hægt yrði að halda hátíðina vorið 2022. Hátíðarsýningin fór fram í Eldborgarsal Hörpu mánudaginn 4.apríl. Um 200 nemendur frá 10 listdansskólum tóku þátt í sýningunni og tókst sýningin mjög vel. Stjórnendur Barnamenningarhátíðar eru mjög stoltir af þessum dansviðburði og þykir sýningin mikil lyftistöng fyrir nemendur, listdansskólanna aðstandendur og áhugafólk um dans og barnamenningu.

Úttekt á grunnnámi í listdansi

FÍLD hefur lengi kallað eftir lagaramma og auknu fjármagni með grunnnámi í listdansi. Lítið hefur verið aðhafst hjá menntamálarðauneytinu í málinu þrátt fyrir ítrekuð erindi frá FÍLD til ráðuneytisins um stöðu grunnnáms í listdansi. Á árinu tók þó ráðuneytið sig til og framkvæmdi útttekt á grunnnámi í listdansi. Úttektin náði til þeirra listdansskóla sem bjóða grunnnám skv. aðalnámssskrá fyrir listdansskóla og fengið hafa styrk frá ráðuneytinu í þeim tilgangi. Það er vonandi að útttektin leiði til þess að fjármagn verði aukið til námsins sem og að komið verði á regluramma utan um kennslu og greiðslufyrirkomulag með náminu. Það er mikil þörf á heilsteyptri og opinberri skólastefnu frá yfirvöldum er kemur að listdansnámi. Grunnnám skv. aðalnámsskrá listdansskóla er einungis brotabrot af því dansnámi sem fram fer í landinu og því ekki rétt að líta einungis til þess hluta listdansnáms. Til að framfylgja DANSSTEFNU 22/32 í menntamálum dansins þarf að koma til samtals og samstarfs á milli ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að styðja heildrænt við starfsemi listdansskóla í landinu og efla uppbyggingu á skólaumhverfi dansins. Eins væri gagnlegt að virkja betur samtal og samstarf listdansskólanna um uppbyggingu á skólaumhverfi dansins. Það er hægt í gegnum okkar sameiginlega fagvettvang FÍLD og hvetur formaður FÍLD listdansskólana og  skólastjórnendur til meira samstarfs í framtíðinni.

Framhaldsskólastig í listdansi                                                                                                          Samningar eru lausir á árinu og endurskoðun á fyrirkomulagi námsins fyrirhuguð                 

Samkvæmt upplýsingum úr menntamálaráðuneytinu stendur til að gera útttekt á námi framhaldsskólastigs í listdansi á næstunni og fyrirhuguð er endurskoðun á fyrirkomulagi námsins. Samningar vegna kennslu á framhaldsskólastigi  listdansins eru lausir í lok sumars og óljóst á þessari stundu hvernig staðið verður að næstu samningum.

Nýstúdent af listdansbraut MH fékk viðurkenningu frá FÍLD fyrir framúrskarandi námsárangur í listdansgreinum

Síðastliðið vor fór fram útskrift frá MH að venju. Fjölmörg fagfélög veita nýstúdentum bókarverðlaun og viðurkenningar fyrir námsárangur á stúdentsprófi og hefur FÍLD veitt slík verðlaun undanfarin ár. Það var Anja Amelia Miriam Sverrisson nýstúdent af listdansbraut MH sem hlaut viðurkenningu FÍLD í ár. Fékk hún ævisögu Helga Tómassonar að gjöf fyrir framúrskarandi námsárangur í listdansgreinum og heillaóskir frá félaginu.

FÍLD sendi STEF erindi vegna stefgjalda sem nú eru innheimt af listdansskólum

Árið 2019 ákvað stjórn STEFs að innheimta skyldi stefgjöld af listdansskólum vegna tónlistarnotkunar í danstímum. Innheimtan er hafin og eru listdansskólar afar ósáttir með gjaldheimtu STEFs, leitað var til FÍLD vegna málsins. FÍLD sendi STEF erindi í kjölfarið með ósk um að stefgjöld á listdansskóla yrðu endurskoðuð en gjöldin eru í engu samræmi við stefgjöld sem innheimt eru af annarri barna- og unglingastarfsemi. T.d. greiða dansíþróttafélög og fimleikafélög innan ÍSÍ mikið lægri stefgjöld en þar er tónlist mikið notuð við kennslu. Hér er um mikið jafnræðismál að ræða og hefur STEF samþykkt að skoða málið í kjölfar athugasemdanna. Irma Gunnarsdóttir og Guðmundur Helgason áttu fund með forsvarsmönnum STEFs í upphafi árs 2023 þar sem farið var yfir málið. STEF tók athugasemdir FÍLD til greina og ákveðið var að taka stefgjöld á listdansskóla til endurskoðunar. Fyrirhugaður er annar fundur um málið. Nánar um stefgjöld má lesa hér https://stef.is/vidskiptavinir/ .

Sigríður Soffía Níelsdóttir danslistakona hlýtur Íslensku Bjartsýnisverðlaunin 2022

Sigríður Soffía Níelsdóttir danslistakona hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2022 sem afhent voru við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin, sem eru áletraður gripur úr áli frá ISAL í Straumsvík og ein og hálf milljón króna í verðlaunafé. Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Tvisvar áður hefur dansari hlotið þennan heiður en það var árið 1984 þegar Helgi Tómasson hlaut bjartsýnisverðlaunin og árið 1989 var það Hlíf Svavarsdóttir. Í umsögn dómnefndar segir að Sigríður Soffía sé sannur fulltrúi listamanna sem vinna þvert á lönd og viðföng og bera verk hennar vitni um öflugan sköpunarkraft þar sem sífellt er leitað á ný viðmið og ókunnar lendur. Í dómnefnd Íslensku bjartsýnisverðlaunanna eru Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Sif Gunnarsdóttir og Rannveig Rist. FÍLD óskar Sigríði Soffíu innilega til hamingju með þennan verðskuldaða heiður. Það er virkilega gaman þegar danslistafólkið okkar skarar framúr svo tekið sé eftir, innilegar hamingjuóskir!

Spennandi tímar framundan 

Íslenskur listdans stendur á fjölbreyttum tímamótum um þessar mundir, FÍLD 75 ára, RDF 20 ára, elsti listdansskóli landsins 70 ára og Íslenski dansflokkurinn 50 ára. Sviðslistamiðstöð Íslands hóf starfsemi á nýju ári en með tilkomu hennar hafa opnast ný og fleiri tækifæri fyrir danslistafólk er kemur að alþjóðlegu samstarfi og sýningaferðum erlendis. Í burðarliðnum er opinber sviðslistastefna þar sem ný framtíðarsýn og stefna verður sett fram til næstu 10 ára. FÍLD í samstarfi við danssamfélagið og hagsmunaaðila sviðslista í landinu getur haft mikil áhrif og tekið þátt í mótun á framtíðaráformum er varða starfsumhverfi danslistafólks. Það er allt í senn krefjandi, skapandi og gefandi samstarf sem býður nýrrar stjórnar FÍLD og sendum við nýrri stjórn baráttukveðjur,

Áfram íslenskur listdans!

Dags.5.02 2023

f.h. stjórnar
Irma Gunnarsdóttir
formaður FÍLD