Author Archives: vefstjóri BÍL

BÍL hittir ráðherra sveitarstjórnarmála

Minisblað fyrir fund fulltrúa stjórnar BÍL með Jóni Gunnarssyni samgöngu- og sveitastjórnarráðherra  24. maí 2017

BÍL fagnar áherslu ríkisstjórnarinnar á uppbyggingu innviða samfélagsins m.a. í þágu kraftmikils atvinnulífs um land allt, en vekur jafnframt athygli á því að óljóst er hvort listirnar séu taldar með í menginu „skapandi greinar“.

Málefni lista og menningar heyra undir 4 ráðuneyti auk fjármálaráðuneytis. Undir sveitarstjórnarráðherra heyrir fjármögnun verkefna á vettvangi lista og menningar utan höfuðborgarinnar, uppbygging starfa í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og sóknaráætlanir landshlutanna. Minnt er á að menningarsamningarnir sem stofnað var til í upphafi sóknaráætlana hafa nú verið lagðir inn í uppbyggingasamninga og vísbendingar eru um að fjármunirnir sem úthlutað er til list- og menningartengdra verkefna séu í raun ferðaþjónustuverkefni.

Tilvitnun í skýrslu stýrihóps stjórnarráðsins, nóv. 2016:
Það sem vekur helst athygli í töflu 8 er fjöldi verkefna, bæði umsókna og styrkja, sem flokkast sem „menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi“. Undir þann atvinnugreinaflokk falla meðal annars skapandi listir og afþreying, starfsemi safna og önnur menningarstarfsemi. Ekki liggur fyrir fullnægjandi sundurliðun á verkefnunum fyrir árið 2015, en ætla má að mörg verkefni tengd ferðaþjónustu séu í þessum flokki.

BÍL á aðild að Austurbrú, sameinaðri stoðstofnun á vettvangi sveitarstjórnarmála á Austurlandi. Það samstarf hefur reynst farsælt og stendur hugur listamanna til að eiga svipaða aðild að uppbyggingarstarfi í öðrum landshlutum. Á döfinni er málþing um uppbyggingu starfa í skapandi greinum sem haldið verður í samstarfi við leiklistarhátíðina ACT ALONE á Suðureyri við Súgandafjörð 11. ágúst nk. Ráðherrann og embættismenn ráðuneytisins eru velkomnir.

Gera þarf átak í skráningu tölfræði lista og menningar um land allt. Í því sambandi þurfa stjórnvöld að beita sér fyrir því að sveitarfélögin og landshlutasamtökin samræmi skráningu sína. Einnig að Hagstofa Íslands fái skilgreint hlutverk við samantekt tölfræði skapandi greina og að tryggð sé úrvinnsla talnaefnis t.d. með því að fela rannsóknarsetri skapandi greina  við hagfræðideild Háskóla Íslands slíkt verkefni.

Menningarstefnan sem Alþingi samþykkti 2013 er góð og gild, en nauðsynlegt er að vinna aðgerðaáætlun til að innleiða alla þá uppbyggingu sem hún tilgreinir. BÍL hefur ýmislegt fram að færa í þeim efnum, t.d. reynsluna af stefnumótunarvinnu hjá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkur, og vill gjarnan taka þátt í slíkri vinnu með stjórnvöldum.

Ávarp forseta BÍL á samráðsfundi

Hér fer á eftir ávarp Kolbrúnar Halldórsdóttur forseta BÍL, sem hún hélt á samráðsfundi stjórnar BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra 16. maí sl.

Þó uppsetning fundarins gefi til kynna að hér séu komnar saman tvær fylkingar, sem sitji hvor sínu megin borðs (gráar fyrir járnum), þá lítur stjórn BÍL ævinlega svo á að samráðsfundir þessir séu samstarfsfundir, hugsaðir til að stilla saman strengi og blása til sameiginlegrar sóknar í málefnum lista og menningar. Á það leggjum við mikla áherslu.

Listir og menning eru mikilvægar heilbrigði samfélagsins og ein af máttarstoðum fjölbreytts atvinnulífs í landinu, auk þess sem listirnar skera úr um það hvort okkar aldagamla tungumál lifir eða deyr. Í því sambandi þarf að hafa hugfast að listir og menning þrífast einungis í virku samstarfi grasrótar, menningarstofnana og stjórnvalda.

Til að slíkt samstarf skili árangri þarf að móta stefnu og tímasetja aðgerðir á grundvelli hennar. Alþingi samþykkti í fyrsta sinn menningarstefnu vorið 2013. Enn hefur ekki verið unnin aðgerðaáætlun á grunni hennar. Úr því þarf að bæta. BÍL hefur lagt fram tillögu að sóknaráætlun, sem tekur mið af sambærilegum áætlunum í nágrannalöndum okkar og  við teljum raunhæfa. Þó stjórnvöld hafi aldrei brugðist við þeirri tillögu þá teljum við hana enn góðan samstarfsgrundvöll og myndum gjarnan vilja að ný ríkisstjórn tæki hana til skoðunar og kallaði til áframhaldandi vinnu við mótun hennar.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er þess getið að listir og menning séu meðal þess sem skiptir sköpum fyrir uppbyggingu þess fjölbreytta atvinnulífs sem stefna beri að og fyrir þá eflingu lífsgæða sem stjórnvöld vilja beita sér fyrir. BÍL vill leggja stjórnvöldum til starfskrafta og hugmyndir til að þessi áform gangi eftir. Meðal þess sem við höfum lagt til í þeim efnum er málþing sem haldið verður 11. ágúst nk. á Suðureyri við Súgandafjörð í samstarfi  við leiklistarhátíðina ACT ALONE og við vonum sannarlega að ráðherra taki boði forsvarsmanna hátíðarinnar um að vera þar með okkur og setji þingið.

Eins og minnisblaðið sem liggur til grundvallar þessum fundi gefur til kynna þá telur stjórn BÍL að ýmislegt megi betur fara í stjórnsýslu lista og skapandi greina, auk þess sem við teljum að samstarf ráðuneytis, menningarstofnana og grasrótar listamanna um hagsmunamál listgreinanna þurfi að vera virkara, -skila meiri árangri. Við vonum sannarlega að á grundvelli þess samtals, sem við nú hefjum við nýjan ráðherra, verði barið í brestina og blásið lífi í glæðurnar og lýsum yfir vilja og löngun til að takast á við þau verkefni sem við blasa og leiða þau til lykta í góðu samstarfi við ykkur.

Samráðsfundur BÍL og menningarmálaráðherra

Minnisblað fyrir samráðsfund BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra 16. maí 2017
Það sem hvílir þyngst á stjórn BÍL um þessar mundir er sú staðreynd að ekki hefur reynst unnt að ná samkomulagi um áframhaldandi samstarf ráðuneytisins og BÍL um málefni lista og menningar til næstu þriggja ára.  Stjórn BÍL telur mikilvægt að vita ástæður þessa og telur ekki fullnægjandi að slegið sé fram ótilgreindum breytingum á lögum um opinber fjármál, heldur óskar nánari skýringa með tilvísun til lagaákvæða, sbr. erindi sent ráðherra 18.04.2017.

Fjármálaáætlun 2018 – 2022
Í nýrri fjármálaáætlun 2018 – 2022 eru gerðar þær breytingar á málaflokki 18 að íþrótta og æskulýðsmál eru færð undir málaflokkinn, en upphæðirnar til lista og menningar breytast lítið. Það er áhyggjuefni þegar litið er til þeirra list- og menningartengdu verkefna sem áætlunin gerir ráð fyrir:

– auðvelda öllum landsmönnum, konum og körlum, að njóta menningar og list
– jafna og bæta aðstöðu til menningar- og listastarfsemi í landinu
– efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu með viðeigandi hætti á grundvelli íslenskrar málstefnu
– stuðla að því að íslensk tunga verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags með sérstakri áherslu á máltækniverkefni og í listum og menningarstarfi
– endurskoða stofnana- og stuðningskerfi ríkisins í málefnum menningar og lista
– einfalda stjórnsýslu og efla þjónustu safna, menningarstofnana, miðstöðva listgreina og sjóða á málefnasviðinu og búa þeim hagstæð skilyrði til að sinna verkefnum sínum svo landsmenn og gestir eigi óháð búsetu aðgang að öflugu menningar- og listalífi sem byggir á menningarlegri fjölbreytni
– stuðla enn frekar að því að efla og jafna tækifæri til nýsköpunar innan allra sjóða sem veita styrki til verkefna á sviði menningar og lista, einkum með aðgengi ungs listafólks í huga
– lögð er áhersla á að nýsköpun á sviði menningar og lista búi við hagstæð fjárhagsleg skilyrði og eigi möguleika á að ná til almenning
– greina stöðu og þörf menningarstofnana fyrir húsnæði og búnað og gera áætlun um uppbyggingu
– útfæra og hrinda í framkvæmd ánægjuvog, könnun á nýtingu þeirrar þjónustu sem sótt er til menningarstofnana
– bjóða upp á listviðburði í grunnskólum sem og í menningarhúsum víða um land
– skilgreina árangursvísa og setja viðmið í samráði við hagsmunaaðila
– skapa betri skilyrði fyrir fjölbreytni, nýsköpun og frumkvæði í íslenskum listum og menningu. Umgjörð stuðnings við menningu og listir verður einfölduð með sameiningu og samhæfingu sjóða og stuðningskerfa. Stuðningsumhverfi listafólks verði eins gott og kostur er. Tækifæri til nýsköpunar innan allra listgreina verða jöfnuð og efld með mótun stefnu um skiptingu framlaga til launa- og verkefnasjóða og slíkri stefnu hrint í framkvæmd. Í henni verði staða ungs listafólks, kvenna og karla, í stoðkerfi listanna skoðuð sérstaklega
– efla íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu. Stuðlað verður að því að konur og karlar fái jöfn tækifæri á sviði kvikmyndagerðar. Um stuðning við kvikmyndagerð er m.a. vísað til markmiðs um innlenda dagskrárgerð og framboð af íslensku barna- og menningarefni í málaflokknum fjölmiðlun.

BÍL spyr hvort líta beri á fjármálaáætlunina sem aðgerðaáætlun á grunni menningarstefnu  sem Alþingi samþykkti í mars 2013, eða hvort vænta megi samstarfs um slíka aðgerðaáætlun sem samrýmdist betur nútímalegri aðferðafræði við stefnumótun.

Stefnuyfirlýsing stjórnarflokkanna
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að forgangsraðað verði í þágu innviða samfélagsins. Meðal þess sem þar er nefnt er kraftmikið og samkeppnishæft atvinnulíf fyrir íbúa um land allt. BÍL fýsir að vita með hvaða hætti stjórnvöld hyggjast styrkja atvinnugrundvöll listamanna utan höfuðborgarsvæðisins?

Þá eru yfirlýsingunni áform um að móta sérstaka höfuðborgarstefnu í samvinnu við Reykjavík og önnur sveitarfélög. Hvar er það verkefni á vegi statt?

Óljóst er af orðalagi yfirlýsingarinnar hvort „listir“ séu með í menginu „skapandi greinar“, það þarf að skýra með einhverjum hætti. Hvaða sjónarmið hefur ráðherrann í þeim efnum?

Í kaflanum um menntamál er gengist við því að listir og menning séu meðal þess sem skiptir sköpum fyrir uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða í landinu, einnig er því heitið að öll skólastig verði efld í þágu þessara meginmarkmiða. Hvernig má þá skýra skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart háskólamenntun í listum, sem einungis er hægt að stunda gegn háum skólagjöldum, auk þess sem aðstaðan sem listnemum er búin er óviðunandi?

BÍL hefur barist fyrir því að stjórnvöld viðurkenni hlut rannsókna í listum og að hlutur lista innan Vísinda- og tækniráðs verði aukinn, einnig að rannsóknarþátturinn í starfsemi Listaháskóla Íslands verði fullfjármagnaður með sama hætti og innan annarra háskóla. Hvernig er unnið að þessum málum innan ráðuneytisins, hvenær er ný stefna Vísinda- og tækniráðs væntanleg og hver verður staða listanna í henni?

Frá árinu 2006 hefur staðið til að breyta fyrirkomulagi listdansnáms innan skólakerfisins. Hvað líður reglugerð um nám í listdansi og hvaða breytinga er að vænta á næstunni varðandi fyrirkomulag listdansnámsins á grunn- og framhaldsstigi?

Tölfræði skapandi greina
Nú eru bráðum sjö ár síðan ráðuneytið birti skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina (des. 2010). Talsvert vantaði uppá að sú skýrsla veitti fullnægjandi upplýsingar og þá strax voru gefin fyrirheit um áframhaldandi þróun slíkrar kortlagningar, sem ekki hafa gengið eftir. Hvers er að vænta í þessum efnum?

Ný sænsk skýrsla um stöðu listgreinanna þar í landi sýnir að 35.000 listamenn starfa í Svíþjóð, kortlagningin nær til 29 þús. þeirra, þ.a. eru 25 þús. á aldrinum 20 – 66 ára.,  stærsti hluti eldri listamanna starfar innan myndlistar og ritlistar, 50% listamanna býr í Stokkhólmi og 70% í þremur stærstu þéttbýlisstöðunum (Stokkhólmi, Gautaborg og Málmey), kynjaskiptingin innan geirans er nánast jöfn, 48% konur og 52% karlar, 3,8 listamenn eru á hverja 1000 íbúa í Svíþjóð og 16% þeirra eru af erlendum uppruna, menntunarstig listamanna er hærra en landsmeðaltal en tekjurnar lægri. Upplýsingar af þessu tagi liggja fyrir á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi. Telur ráðherra norrænnar samvinnu tímabært að Ísland verði með í tölfræði af þessu tagi og hvenær má gera ráð fyrir að svo verði?

Hvaða líður starfi Myndigheden for kulturanalys í Svíþjóð, sem samið hefur verið við um að safna upplýsingum um tölfræði norrænna menningarmála?

Hvers vegna hefur skýrsla um Menningarlandið 2015, sem fjallaði um tölfræði skapandi greina, ekki verið birt á vef ráðuneytisins og hvaða áform eru uppi um vinnu á grundvelli ráðstefnunnar og áframhald slíkra ráðstefna?

Eru einhver áform uppi um að styrkja hlut lista og menningar undir hatti sóknaráætlana landshlutanna? Í skýrslu starfshóps byggðastofnunar um sóknaráætlanirnar frá 2015 kemur fram að skráningu verkefna og tölfræði sá ábótavant, t.d. sé líklegt að fjöldi verkefna, bæði umsókna og styrkja, sem flokkast sem „menningarstarfsemi“ séu í raun ferðaþjónustuverkefni. Eru uppi áform um að bæta úr þessum vanköntum?

Myndlist, sviðslistamiðstöð og ferðaþjónusta
Myndlistarmenn hafa staðið í baráttu fyrir því að opinber söfn greiði myndlistarmönnum vinnuframlag og sanngjarna þóknun þegar verk þeirra eru tekin til sýninga. Hreyft hefur veirð hugmynd um sérstakan „þóknunarsjóð“. Þar að auki hafa myndlistarmenn sett fram hugmyndir um breytingar á myndlistarsjóði, m.a. að hann verði einungis opinn fyrir umsóknir frá myndlistarmönnum en ekki stofnunum á borð við söfn. Hvers er að vænta af hálfu ráðuneytisins varðandi þessi baráttumál?

Listskreytingasjóður hefur verið óstarfhæfur síðan 2011 þegar framlög til hans voru skorin úr 7 milljónum í 1,5. Hvenær er þess að vænta að sjóðurinn verði endurreistur og gerður fær um að sinna lögbundnu hlutverki sínu?

Myndlistarráð sendi ráðherra menningarmála tillögu að stefnu í málefnum myndlistarinnar 2015, sambærilega við gildandi hönnunarstefnu. Enn hafa engin viðbrögð borist við tillögunni. Er hún enn til skoðunar í ráðuneytinu eða hafa áform um hana verið lögð á ís?

Miðstöðvar listgreina og hönnunar vinna mikilvæg  störf í þágu sinna greina þegar kemur að kynningu og markaðssetningu erlendis. Sviðslistirnar eru einar um að eiga ekki bakland í slíkri miðstöð, sem þó hefur verið lengi í undirbúningi að stofna. Slíkt verður þó ekki gert án fulltingis stjórnvalda. Á hverju stendur?

Í inngangi að menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 6. mars 2013 segir: Menningarlífið er […] lykilþáttur í uppbyggingu ferðaþjónustu. Undir það sjónarmið tekur BÍL en telur að móta þurfi stefnu um samstarf skapandi greina og ferðaþjónustunnar. BÍL á sæti í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum, sem er mikilvægt en hefur sáralítið vægi í heildarsamhenginu. Hvernig sér ráðherrann fyrir sér samstarf menningarmálaráðuneytis og ferðamálaráðuneytis í þessu augnamiði?

Það sem út af stendur eftir síðasta samráðsfund
Í samskiptum stjórnar BÍL við ráðuneytið í framhaldi af síðasta samráðsfundi með ráðherra komu fram nokkur atriði sem óskað er frekari upplýsinga um. Því er haldið fram í bréfi ráðuneytisins til BÍL [MMR 16030181/12.11.0-] að áformað sé að skoða heildarstuðning ríkisins til tónlistarmála. Hvaða áform er um að ræða í því sambandi?

Í sama bréfi er sagt frá verkefnastjórn sem starfar á vegum ráðuneytisins með það að markmiði að gera tillögur um kvikmyndanám í grunn- og framhaldsskólum og að efla hlut kvenna í íslenskri kvikmyndagerð, sem er hluti  af samkomulagi kvikmyndagerðarmanna og stjórnvalda.  Mikilvægt er að stjórnvöld átti sig á því að þetta mikilvæga verkefni verður ekki leitt til lykta nema að auknu fjármagni verði veitt til Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasjóður efldur. Það er því nauðsynlegt að óska upplýsinga um hvar er þessi vinna er á vegi stödd og hverjir skipa verkefnastjórnina?

Í fyrrgreindu erindi er fjallað um drög að skilagrein samstarfshóps sem starfar á grundvelli skýrslunnar frá 2012 „Skapandi greinar – sýn til framtíðar“. Hvenær er þess að vænta að skilagreinin verði tilbúin til dreifingar?

Að lokum; þrjú mikilvæg mál
Tæp 20 ár eru síðan BÍL sendi stjórnvöldum fyrst bænaskjal um breytingar á skattlagningu höfundagreiðslna, sem miðuðu við að slíkar greiðslur fengju sambærilega skattalega meðferð og fjármagnstekjur, enda um sambærilegar greiðslur að ræða. Mikilvægt er fyrir BÍL að vita hvort vænta megi stuðnings við þá kröfu hjá núverandi ríkisstjórn?

Í umsögn BÍL til fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlagafrumvarps 2017 er því haldið fram með nokkrum rökum að málaflokkurinn listir- og menning sé stórlega undirfjármagnaður. Gerð er nákvæm grein fyrir stöðu og fjárþörf helstu menningarstofnana og sjóða sem mynda grundvöll að starfsskilyrðum listafólks. Stjórn BÍL þykir mikilvægt að fá viðbrögð ráðherra við þeim sjónarmiðum sem þar er lýst.

Á síðustu árum hefur stjórnsýsla málaflokksins „listir og menning“ dreifst mikið og verið skipt niður á ólík ráðuneyti, þannig heyra málefni listanna nú undir 5 ráðherra, mennta- og menningarmála, atvinnuvega- og nýsköpunar, samgöngu- og byggðamála, utanríkis og fjármála. BÍL hefur sett fram óskir um að menningarmálin verði sameinuð undir nýtt ráðuneyti menningarmála, en ekki fengið hljómgrunn fyrir slíkri breytingu. Meðan sú staða er uppi leggur stjórn BÍL til að ráðherra hafi forgöngu um að hefja markvisst starf til efla samstarf milli ráðuneyta um málaflokkinn. Stjórn BÍL lýsir sig reiðubúna til að koma að slíku starfi og er raunar tilbúin að taka þátt í hverju því verkefni sem ráðherra myndi vilja hrinda af stað í þágu bættrar stjórnsýslu í málefnum lista og menningar með öflugt lista- og menningarlíf að leiðarljósi.

Samráðsfundur borgarstjóra og stjórnar BÍL í Höfða 8. maí 2017

Bandalag íslenskra listamanna hitti borgarstjóra á samráðsfundi í Höfða. Stjórn BÍL var nánast fullskipuð og stærsti hluti fulltrúa menningar- og ferðamálaráðs og starfsmanna sviðsins sat fundinn. Nýr sviðsstjóri menningar- og ferðamálaráðs Arna Schram, sat sinn fyrsta fund með stjórn BÍL og fundinn sat einnig sviðsstjóri skóla- og fríðstundasviðs, Helgi Grímsson, enda talsverð áhersla á stöðu listmenntunar í borginni hjá stjórn BÍL, ekki síst stöðu dansmenntunar og myndlistarmenntunar.

Fyrir fundinum lá minnisblað unnið á grundvelli menningarstefnu borgarinnar og aðgerðaáætlunar hennar og fer það hér á eftir. Kaflaheitin vísa til menningarstefnu Reykjavíkur sem er aðgengileg á vef borgarinnar ásamt aðgerðaáætlun.

  1. kafli – aðgerð í farvegi: Reykjavíkurborg hvetur til og hefur samstarf um rannsóknir á hagrænum áhrifum menningar og skapandi greina. Til framtíðar verði hagræn, menningarleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif metin, vægi hvers þáttar og samspil þeirra á milli.

BÍL telur að grundvallaratriði í kortlagningu á áhrifum lista og menningar í borginni sé að gera úttekt á þróun framlaga til lista og menningar. Greint verði hvernig framlög hafa skipst milli stofnana og sjálfstæðrar starfsemi, milli hópa og einstakra listamanna,  milli hátíða og annars konar verkefna. BÍL telur frekari rannsóknir á vægi greinanna byggja á slíkri kortlagningu og að miða beri úttektina við árabilið 2009 – 2016.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Verklagsreglur fyrir menningarstofnanir Reykjavíkurborgar mótaðar í samvinnu forstöðumanna þeirra og Bandalags íslenskra listamanna sem miða að því að réttur listamanna til launa fyrir vinnuframlag sitt sé virtur og höfundaréttur þeirra hafður í hávegum.

BÍL hefur sent erindi til Listasafns Reykjavíkur og óskað eftir að hafnar verði formlegar viðræður um verklagsreglur af því tagi sem hér um ræðir, með það að markmiði að hægt verði að innleiða þær á næstu tveimur árum. Skv. áætlunum Listasafns Reykjavíkur er gert ráð fyrir að tekjur af aðgangseyri nemi 60 milljónum 2017, en til að greiða myndlistarmönnum í samræmi við framlagssamning SÍM þyrfti einungis 6,5 milljónir vegna sýningardagskrár 2017. SÍM hefur sett fram hugmynd um sérstakan þóknunarsjóð, sem notaður verði til að standa straum af kostnaði við fjármögnun framlagssamnings. Mögulega mætti skoða samtarf ríkis, borgar og stærri sveitarfélaga um að koma á slíkum sjóði.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Hvatt til áherslu á menningaruppeldi með því að efla fræðslustarfsemi menningarstofnana borgarinnar og að auka samstarf listamanna og skólafólks innan grunnskólans í nánu samstarfi við skóla- og frístundasvið.

Hér er lögð áhersla á samstarf listamanna og skólafólks. Á nýliðnum vetri var komið á laggirnar langþráðu verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins „List fyrir alla“. Markmið verkefnisins fellur vel að þessum áherslum borgarinnar. Því vill stjórn BÍL leggja til að borgaryfirvöld leiti eftir samstarfi við ríkisvaldið um útvíkkun verkefnisins, til að tryggja reykvísku skólafólki (nemendum og kennurum) aðgang að því.

Stefna um tónlistarfræðslu – Tillögur starfshóps maí 2011: Tónlistarnám í Reykjavík tekur mið af þremur meginmarkmiðum aðalnámskrár tónlistarskóla: Uppeldislegum markmiðum, leikni- og skilningsmarkmiðum og samfélagslegum markmiðum. […] Gæðaviðmið taka mið af viðurkenndum gæðastuðlum, s.s. aðalnámskrá og öðrum sambærilegum alþjóðlegum viðmiðum. […] Reykjavíkurborg greiðir framlag til tónlistarkennslu samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla 75/1985.

Tímamót eru nú í málefnum tónlistarnáms. Með stofnun menntaskóla tónlistarinnar og breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er mikilvægt að Reykjavík nýti það svigrúm, sem skapast við það að ríkið tekur að sér dýrustu nemendurna, til þess að endurreisa  kerfið og slá öflugum stoðum undir starfsemi þeirra skóla sem starfa innan þess. Mikilvægt er að greiðslur borgarinnar til skólanna haldist í hendur við umsamin laun og að skólunum sé gert kleift að standa við ákvæði aðalnámskráar varðandi það sem lítur að bóklegri kennslu og samspili meðfram einkakennslu. Fram til þessa hafa skólarnir þurft að hækka skólagjöld frá ári til árs til að brúa bilið milli framlaga borgarinnar og launa kennara. Þetta hefur m.a. leitt til þess að skólagjöld eru hærri í Reykjavík en í öðrum sveitarfélögum, sem fer á svig við forystuhlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar.

  1. kafli – Aðgerðir í farvegi: Fjölbreytt aðstaða til listsköpunar, listflutnings, sýninga og annarrar menningarstarfsemi hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu borgarinnar eða annarra. Auk nýrra möguleika til aðstöðu gætu ýmis opin rými borgarinnar einnig komið til móts við þarfir listalífsins.

Samtök um Danshús hafa síðustu 7 ár rekið Dansverkstæðið – vinnustofur danshöfunda við Skúlagötu í Reykjavík. Nú stendur til að breyta skipulagi á svæðinu, sem verður til þess að í sumar missa samtökin húsnæði sitt. Dansverkstæðið hefur sinnt gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir danslistina síðustu ár og verið bæði vinnustaður, vinnuveitandi og félagsmiðstöð. Dansverkstæðið er eina æfingarýmið fyrir atvinnufólk í sviðslistum og bara á síðasta ári voru þar unnin og þróuð 16 ný íslensk verk. Auk þess er þar ávallt góður hópur gestalistamanna við rannsóknir og styður starfsemin þannig við mikilvæga uppbyggingu greinarinnar. Markmið Samtaka um Danshús er, eins og nafnið gefur til kynna, að koma á laggirnar  Danshúsi hér í borg sem sameinar alla atvinnustarfsemi í dansi; starfsemi grasrótarinnar, sjálfstæða geirans, Íslenska dansflokksins, hátíða og félagasamtaka í dansi. Þær breytingar sem óhjákvæmilega eru framundan í húsnæðismálum danslistamanna eru tækifæri til að finna framtíðarlausn – stofnun Danshúss í Reykjavík.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Aukin aðkoma listamanna að skipulagi og mótun mannvirkja á vegum borgarinnar, í samræmi við markmið í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, ásamt áherslu á samþættingu lista við skipulag hverfa utan miðborgarinnar.

Stjórn BÍL hefur áður gert athugasemdir við það með hvaða hætti borgin framkvæmir samkeppnir í arkitektúr og skipulagi, þ.e. að undangengnu forvali. Það er mat AÍ að framkvæmd forvalsins hafi verið gölluð, m.a. vegna þess að ákvörðun um hverjir valdir eru til endanlegrar þátttöku byggir ekki á faglegu mati heldur heppni, þar sem dregin eru nöfn úr hatti en ekki tekið mið af faglegri hæfni þeirra sem þó standast matið. AÍ hefur rætt þessi mál formlega við borgaryfirvöld og telur að ákveðin skref hafi verið stigin í rétt átt. Þannig hafa sjónarmið AÍ um breyttar kröfur í forvalskeppnum náð eyrum borgaryfirvalda og þóknanir til keppenda í þeim virðast frara hækkandi, þó þær endurspegli ekki enn eiginlegt vinnuframlag. AÍ ítrekar þó mikilvægi þess að borgaryfirvöld bjóði upp á fleiri opnar samkeppnir til að auka jafnræði meðal keppenda og auka gagnsæi í ferlinu. Þá er mikilvægt að viðunandi verðlaunafé sé í boði, en það hefur mikil áhrif á þátttöku og leiðir á endanum til faglegri tillagna. Þátttaka í samkeppni kallar á a.m.k. 200 klst. vinnu arkitekts og allt upp í 6-700 klst., eftir umfangi verks. Hugmyndin að viðurkenningu er sú að upphæð fyrstu verðlauna dugi a.m.k. fyrir vinnu við tillögugerðina. Stjórn BÍL telur skynsamlegt að tekið sé mið af því þegar verðlaunafé í arkitektasamkeppnum borgarinnar er ákvarðað.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Tekið verði mið af 14. grein myndlistarlaga nr. 64 2012 um framlag til listaverka í nýbyggingum þar sem verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar.

Myndlistarlög mæla fyrir um að opinberar byggingar ásamt umhverfi þeirra, svo og önnur útisvæði í opinberri eigu, séu fegruð með listaverkum og að verja eigi a.m.k. 1% af heildarbyggingarkostnaði nýbygginga til að uppfylla þessa lagaskyldu. Lögin gera ráð fyrir að listaverkin séu þáttur í þeirri heildarmynd sem byggingu og umhverfi hennar er ætlað að skapa. Þá er í lögunum ákvæði um að Alþingi veiti árlega fé í listskreytingasjóð til listaverka í opinberum byggingum (ríkis og sveitarfélaga) sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999.  Staðreyndin er sú að ríkið hefur forsómað Listskreytingasjóð síðustu sex árin, þar sem framlagið til hans var skorið eftir hrun úr kr. 7,1 milljón 2010 í 1,5 milljónir, sem gerir sjóðnum ókleift að starfa. SÍM, AÍ og BÍL hafa gert alvarlegar athugasemdir við þessa niðurstöðu ríkisins í sjö ár og leggur nú til við borgaryfirvöld að þau gangi í lið með listamönnum og kanni hvernig borgin sinnir þeirri lagaskyldu sem á henni hvílir, með það að markmiði að auka hlut myndlistar í opinberum byggingum og umhverfi þeirra. Slíkar aðgerðir myndu auka þrýsting á ríkið og vonandi auka það fjármagn sem Alþingi ákvarðar Listskreytingasjóði í fjárlögum framtíðarinnar.

Stjórn BÍL fagnar nýrri aðgerðaáætlun á grundvelli ferðamálastefnu Reykjavíkur
BÍL hefur um árabil lagt áherslu á aukið samtal ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina, m.a. með starfi innan Íslandsstofu en einnig innan menningar- og ferðamálaráðs. Það er því sérstakt fagnaðarefni að ný aðgerðaáætlun á grundvelli ferðamálastefnu Reykjavíkur skuli hafa litið dagsins ljós. Áheyrnarfulltrúar BÍL í menningar- og ferðamálaráði tóku þátt i mótun áætlunarinnar og settu sitt mark á hana.  Í þessu sambandi telur stjórn BÍL mikilvægt að Reykjavíkurborg komi aðferðafræði þeirri, sem unnið hefur verið eftir í stefnumótun borgarinnar, á framfæri á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Slíkt væri liður í almennri framþróun stefnumótunar og eftirfylgni. Þá telur stjórn BÍL fullt tilefni til að borgin þrýsti á ríkið og Hagstofu Íslands um skráningu talnaefnis tengt þeim atvinnugreinum sem styðja við ferðaþjónustuna með þeim hætti sem skapandi greinar gera.

Viðvarandi mannréttindabrot gegn myndlistarmönnum

Í tengslum við ráðstefnu SÍM um starfskjör myndlistarmanna, sem haldin var sl. föstudag, birtist þessi áhugaverða grein Kristínar Oddsdóttur lögmanns, sem hélt erindi á ráðstefnunni um það hvernig réttindi myndlistarmanna eru fyrir borð borin þegar þeim er ekki greitt fyrir vinnu sína við sýningar. Greinin birtist á visir.is

http://www.visir.is/g/2017170429405/vidvarandi-mannrettindabrot-gegn-myndlistarmonnum

Umsögn um þingmál – hegningarlög

Stjórn BÍL hefur sent allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis svohljóðandi umsögn við 101. þingmál:

Bandalag íslenskra listamanna hefur fengið til umsagnar 101. þingmál á 146. löggjafarþingi, frumvarp um breytingu á 95. grein almennra hegningarlaga, sem fjallar um viðurlög við móðgun við erlenda þjóðhöfðingja, smánun þjóðartákna á borð við fána og eignaspjöll á sendiráðum og lóðum þeirra.

BÍL eru heildarsamtök íslenskra listamanna og sem slík eiga þau aðild að alþjóðlegu samtökunum ARTSFEX, sem helga sig baráttunni fyrir tjáningarfrelsi listamanna um heim allan. Þó vestrænar þjóðir gætu talið slíka baráttu léttvæga eða jafnvel óþarfa, þá er raunin sú að þörfin hefur sjaldan verið jafn mikilvæg.

Í ljósi þess að BÍL er málsvari tjáningarfrelsis er það mat stjórnar BÍL að Alþingi beri að samþykkja tillögu þá sem hér er til umfjöllunar.

Rökstuðningurinn kemur skilmerkilega fram í greinargerð tillögunnar og vega þar þyngst eftirfarandi rök:

  • Sýnileg tilhneiging stjórnvalda víða um heim til að þrengja að tjáningarfrelsinu, m.a. dæmið um Jan Böhmermann sem þýsk stjórnvöld heimiluðu að yrði sóttur til saka fyrir að flytja háðsádeilu um Tyrklandsforseta í þýsku sjónvarpi.
  • Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Le Monde um að vernd af þessu tagi sé ónauðsynleg í lýðræðisríkjum.
  • Dómarnir tveir sem íslenskir rithöfundar Þórbergur Þórðarson og Steinn Steinarr hlutu á sínum tíma á grundvelli lagagreinarinnar.
  • Eignir sendiráða á Íslandi eru varðar að lögum þó 95. grein almennra hegningarlaga verði felld úr lögunum.

List fyrir alla – Auglýst eftir verkefnum

Barnamenningarverkefnið LIST FYRIR ALLA auglýsir nú eftir umsóknum um verkefni sem gætu hentað markmiðum verkefnisins næsta skólaár.

Umsögn um þingmál – Jóns Árnasonar minnst

Stjórn BÍL hefur sent allsherjar og menntamálanefnd Alþingis svohljóðandi umsögn um þingmál nr 65

Bandalag íslenskra listamanna hefur fengið til umsagnar 65. þingmál á 146. löggjafarþingi, þingsályktunartillögu um minningu tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar með því að gerðar verði tvær lágmyndir af honum og haldin ráðstefna um störf hans.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að áætlaður kostnaður við gerð og uppsetningu tveggja lágmynda af Jóni sé um 2 milljónir króna. Ekki er ljóst hvað liggur til grundvallar þessu kostnaðarmati en þó kemur fram að lágmyndunum virðist hugsaður staður innandyra og þá sem skildir í vegg, en ekki frístandandi brjóstmyndir. Einnig er ljóst að flutningsmenn sjá fyrir sér „mynd“ á skildinum en ekki einungis texta. Það þarf því augljóslega að gera ráð fyrir efniskostnaði, vinnulaunum og höfundalaunum myndlistarmanns við gerð lágmyndanna. Það er mat stjórnar BÍL að kostnaður við gerð og uppsetningu tveggja einfaldra lágmynda í formi skjalda í vegg innandyra, geti rúmast innan þeirra marka sem tillagan gerir ráð fyrir þó upphæðin hljóti að teljast í knappasta lagi.

Þá telur stjórn BÍL að koma hefði mátt fram í tillögunni hvort hún er unnin í samráði við Háskóla Íslands og Landsbókasafn, en slíkt samráð hlýtur að teljast forsenda fyrir því að sjálfstæðar mennta- og menningarstofnanir taki að sér að framkvæma hugmyndir af því tagi sem hér um ræðir.

Loks mætti allsherjar- og menntamálanefnd huga að því hvort sagan hafi að geyma upplýsingar um merkiskonu, sem mögulega mætti minnast með svipuðum hætti, til að vega upp á móti þeim kynjahalla sem viðgengst í opinberum ákvörðunum um að gerðar séu lágmyndir, brjóstmyndir og styttur af körlum sögunnar.

Starfsáætun BÍL 2017

1. Sóknaráætlun.
BÍL þróar áfram „Sóknaráætlun skapandi greina“ með því að halda málþing og hugarflugsfundi þar sem áherslur verða greindar og forgangsröðun aðgerða ákveðin. Skrifaðar verða greinar um einstaka þætti áætlunarinnar og efnt til almennrar umræðu um hana við stjórnvöld, almenning og aðra hagsmunaaðila atvinnulífs og menningar. Með þessu móti tekur BÍL forystu í stefnumótun á vettvangi skapandi atvinnugreina sem tekur m.a. mið af menningarstefnu samþykktri á Alþingi vorið 2013, tillögum skýrslunnar Skapandi greinar – Sýn til framtíðar og stefnumótun í menningarmálum á vettvangi sveitarfélaga t.d. Reykjavíkur.

2. Menningarstefnu framfylgt.
Markvisst starf þarf til að framfylgja menningarstefnu Alþingis frá 2013, mikilvægt er að
a) auka aðgengi að listum og menningu fyrir alla landsmenn
b) greina hlutverk lista og menningar við uppbyggingu lífvænlegra samfélaga
c) skilgreina hlut lista og menningar í ferðaþjónustu og tryggja sanngjarna hlutdeild í opinberum framlögum til greinarinnar
d) viðurkenna mikilvægi menntunar í listum og skapandi greinum,
e) skrá tölfræði lista og menningar með markvissum hætti og tryggja rannsóknir í þágu lista og skapandi atvinnugreina
f) vinna langtímastefnu um starfsgrundvöll menningarstofnana, þ.m.t. húsnæðismál.
BÍL mun á árinu gangast fyrir vinnu við að kortleggja þá stefnu sem starfað er eftir í list- og menningartengdum greinum, leggja mat á eftirfylgni stefnunnar og leitast við að benda á mögulegar úrbætur.

3. Samstarf & samráð.
Stefnt verði að því að útvíkka samstarf og samráð það sem stjórn BÍL á í með stjórnvöldum og helstu þverfaglegu menningarstofnunum okkar; mennta- og menningarmálaráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor Listaháskóla Íslands, útvarpsstjóra og yfirstjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. BÍL telur mikilvægt að fjölga samráðsfundum með þeim sem fara með yfirstjórn list- og menningartengdra málefna, t.d. sé þörf á efna til formlegra samskipta milli forystu listamanna og stjórnvalda sveitarstjórnarmála með reynsluna af samstarfi BÍL og Reykjavíkurborgar til hliðsjónar. Opin samskipti og samstarf BÍL og stjórnvalda í Reykjavík hefur verið með ágætum og er árangur þess starfs til marks um að ráðgjöf um uppbyggingu atvinnutækifæra og faglega úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna, hefur skilað sér. Sú reynsla er gagnleg til viðmiðunar þegar samtalið verður breikkað og fært yfir á vettvang sveitarstjórnarmálanna almennt. Eftirsóknarvert markmiðið væri að efla list- og menningartengda starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins og þar með fjölga atvinnutækifærum fyrir listamenn í dreifðari byggðum. BÍL vill rækta sambandið við stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa, það verður best gert með því að efla samtalið sem hafið var í aðdraganda Alþingiskosninga 2016, eiga fundi með fulltrúum flokkanna í málaflokkum sem tengjast listum og menningu. Slíkt samtal getur farið fram á vettvangi málefnanefnda flokkanna en einnig á vettvangi þingflokka eða tiltekinna fastanefnda Alþingis. Einnig verður leitað eftir samstarfi við stýrihóp stjórnarráðsins í byggðamálum og aðra sem starfa að sóknaráætlunum landshlutanna. Þá ræktar BÍL samstarf við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök skapandi greina, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og aðra þá sem hagsmuni hafa af uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir skapandi fólk.

4. Launasjóðirnir.
BÍL mótar tillögur um uppbyggingu launasjóða listamanna, sem miði að því að fjölga launamánuðum og hækka mánaðargreiðsluna svo hún taki mið af meðallaunum félaga í BHM. Verkið verði unnið í samvinnu við stjórn listamannalauna, mennta- og menningarmálaráðuneyti og þingflokka á Alþingi. Endurskoðun laga um listamannalaun nr. 57/2009 kallar á ákvörðun um breytingar á launasjóði sviðslistafólks og mun BÍL standa vörð um sjónarmið félaga sviðslistafólks í þeim efnum.

5. Menningartölfræði.
BÍL vinni áfram að því að fá helstu stærðir hagrænna áhrifa list- og menningartengdrar starfsemi skráðar sem hluta af reglulegri samantekt Hagstofu Íslands (og/eða þeirra aðila sem best væru til þess fallnir að sinna slíku starfi). Í því skyni fundi stjórn BÍL með stjórnendum Hagstofunnar og leggist á sveif með þeim í viðleitni sinni við að auka samstarf við nágrannalöndin varðandi skráningu menningartölfræði. Meðal aðkallandi verkefna er að safna saman þeim tölulegu gögnum um listir og menningu, sem þegar eru til, koma þeim fyrir í sameiginlegum gagnagrunni, sem mögulega yrði vistaður á vef Hagstofunnar. Síðan þyrfti að vinna úr gögnunum með skipulegum hætti, með það að markmiði að greina „götin“ í menningartölfræðinni, gera þau sýnileg og auðveldari viðfangs og loks ákvarða með hvaða hætti fyllt verður í „götin“. Meðal þess sem þegar er til skráð að einhverju marki er fjöldi þeirra sem starfa innan greinanna, fjöldi félaga í fagfélögum listamanna og hönnuða, fjöldi gesta í söfn, í leikhús, á myndlistarsýningar etc, aldursgreining, kynjaskipting, þjóðerni etc. Liður í þessu starfi er að auka sérfræðiþekkingu á listum og skapandi greinum innan Hagstofunnar. Slíka þekkingu þarf til að greina hvaða upplýsingum ber að safna, hvernig þær verði matreiddar og gerðar aðgengilegar þeim sem vilja stunda rannsóknir í list- og menningargeiranum. Safna þarf upplýsingum um „best practices“ hjá nágrannalöndum okkar hvað fyrirkomulag og aðferðafræði varðar. Ráðast þarf í þetta verkefni án tafar.

6. Alþjóðlegt samstarf.
BÍL þróar áfram alþjóðlegt samstarf listamanna með áherslu á tjáningarfrelsi listamanna um allan heim. Í því skyni leitar BÍL eftir samstarfi við Íslandsnefnd UNESCO, Artsfex og önnur alþjóðleg samtök sem sinna slíkum málum. Þá verður áfram unnið að öflugu samstarfi systursamtaka BÍL á Norðurlöndunum með áherslu á kortlagningu starfsumhverfis og stuðningskerfis listanna á Norðurlöndunum. Einnig verður leitast við að eiga uppbyggileg samskipti við stjórnmálamenn á Norðurlöndunum gegnum Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina. Þá leggur BÍL áfram rækt við norrænt og alþjóðlegt samstarf á vettvangi höfundarréttarmála.

7. Rannsóknir í listum og menningu.
BÍL efnir til aðgerða til að auka skilning stjórnvalda á mikilvægi rannsókna í listum. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2014 – 2016 er gengið út frá öflugri sókn í nýsköpun á næstu árum, m.a. verði skattkerfið virkjað í þágu nýsköpunar og rannsókna. Það er galli á stefnunni að hvergi skuli gerð grein fyrir þætti listrannsókna eða nýsköpunar í listum. BÍL mun leitast við að hafa áhrif á mótun nýrrar stefnu Vísinda- og tækniráðs með það að markmiði auka vægi lista og menningar í rannsóknum og vísindastarfi. Leitað verður eftir samstarfi við Listaháskóla Íslands við þetta verkefni.

8. Listmenntun.
BÍL leiti eftir sjálfstæðu samtali um listmenntun á öllum skólastigum við yfirvöld menntamála. Það samtal fari fram á grunni menntastefnu sveitarfélaga og menningarstefnunnar sem Alþingi samþykkti 2013, þar sem kveðið er á um að listfræðsla og listkennsla verði efld í skólakerfinu öllu. Í þeim efnum þarf að huga að samspili sérskóla í listum og annars listnáms/listfræðslu í almenna skólakerfinu. Brýnt er að finna lausn á málefnum listdansskólanna í landinu, treysta þarf stöðu þeirra í kerfinu og tryggja fjármögnun þeirra til framtíðar. Slíkt verður best gert með því að hraða vinnu við reglugerð um nám í listdansi, ásamt því að koma á samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu milli grunn- og framhaldsstigs. Listnám á háskólastigi hefur dafnað og eflst þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem Listaháskóla Íslands eru búnar. Mikilvægt er að vinda bráðan bug húsnæðisvanda Listaháskóla Íslands og tryggja rekstrargrundvöll hans til frambúðar. Þá ber að tryggja að skólinn fái sambærileg framlög til listrannsókna og aðrir háskólar fá til rannsóknarstarfs á sínum fagsviðum.

Ársskýrsla FÍLD 2016 – 2017

Stjórn FÍLD var þannig skipuð:
Arndís Benediktsdóttir, formaður
Heba Eyr Keld, varaformaður
Kara Hergils/Tinna Grétarsdóttir, gjaldkeri
Halla Þórðardóttir, ritari
Guðmundur Helgason, meðstjórnandi
Varamenn stjórnar: Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og Bryndís Einarsdóttir

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum ráðum og stjórnum:
Bandalag íslenskra listamanna: Guðmundur Helgason
Íslenski dansflokkurinn: Marta Nordal (Varamaður: Stefán Jónsson)
Sviðslistarsamband Íslands: Arndís Benediktsdóttir
Fulltrúaráð listahátíðar í Reykjavík: Kara Hergils
Gríman – Íslensku Sviðlistarverðlaunin: Einn fulltrúi (og einn varamaður)

Aðalfundur félagsins 2016 var haldinn 10.janúar og voru þá skipti á stjórnarmeðlimum. Ásgeir Helgi Magnússon lét af formannastörfum eftir eitt ár vegna anna og tók Arndís Benediktsdóttir við til eins árs. Katrín Ingvadóttir hætti sem varaformaður og tók Heba Eir Keld við til tveggja ára. Kara Hergils tók við gjaldkerastarfinu af Tinnu Grétarsdóttur til tveggja ára (skiptin hafa þó ekki formlega átt sér stað en Kara hefur samt sem áður tekið þátt í stjórnarstörfum). Guðmundur Helgason kom inn í stjórn sem meðstjórnandi  til eins árs í stað Lovísu Gunnarsdóttur sem tók sæti varamanns.

Nýja stjórnin byrjaði með miklum eldmóð og fundaði reglulega. Þau byrjuðu að skoða stöðu félagsins, kynna sér málefnin og forgangsraða. Vefsíðan dance.is og facebook hópurinn “Fíld félagsmenn” var áhugaefni og var reynt að uppfæra þá liði og hreinsa. Það þyrfti að vinna mun betur í því og leggur stjórn til að annar meðstjórnandi taki að sér að halda um þessar síður þar sem sá aðili er einnig virkur á stjórnarfundum.

Fyrir utan hefðbundna stjórnarfundi sækja stjórnarmeðlimir fundi í fulltrúaráði SSÍ og Listahátíðar í Reykjavík og mánaðarlega stjórnarfundi BÍL.
Á liðnu starfsári hafa ófá mál verið á döfinni hjá félaginu auk þess sem félagar hafa leitað til stjórnar með hagsmuna og réttindamál.

Barnamenningarhátíðin var haldin 21.-26. apríl í glæsilega Eldborgarsal Hörpu. Þetta er í fimmta sinn sem þessi hátið var haldin og erum við stolt að taka að okkur opnunarkvöldið. Fíld var í góðu sambandi við hátíðarstjórnendur, skólana sem tóku þátt og skipulögðu allt sem við kom kvöldinu. Kara Hergils stóð sig reglulega vel þar og gékk hátiðin glimrandi vel. Í ár verður opnunardagur Barnamenningarhátíðarinnar 25.apríl og hefur Harpa Rut verkefnastjóri Barnamenningar nú þegar haft samband og lýst því hversu mikilvægur liður við erum orðin í hátíðinni.

Sviðslistasamband Íslands (SSÍ) endurskoðuðu heildarfyrirkomulag Grímunar. Núna virkar það þannig að aðeins 9 aðilar skipa Grímunefnd og þurfa þessir aðilar að sjá allar sýningar yfir árið. Funda þessir 9 svo saman þar sem þeir geta rökrætt sínar ákvarðanir um verkin og samræmt þannig betur ákvarðanir sínar. Haldnir eru 2 fundir til að ræða tilnefningar og síðan er kosið fyrst innan nefndar og svo er seinni kosningin opin þeim sem tryggja sér atkvæðisrétt.
Fíld er með einn meðlim og Danshöfundarfélagið annan
Félag íslenskra leikara (FÍL): 2
Félag leikstjóra á Íslandi (FLÍ): 1
Félag leikmynda- og búningahönnuða 1
Félag leikskálda og handritshöfunda (FLH): 1
Félag tæknimanna í rafiðnaði (FTR): 1
Stjórn Sviðslistasambands Íslands (SSÍ): 1

Um vorið 2016 var haft samband við Fíld frá dansara Mamma Mía. Sá dansari hafði áhyggjur af samningi sínum við Borgarleikhúsið og vildi fá aðstoð. Arndís fór á fund með þeim dansara og var málið alvarlegt þar sem þessir samningar reyndust vera ólöglegir. Enn og aftur erum við “dansarar” að fá svona óviðeigandi viðurkenningu. Þetta mál var í vinnslu til lok ágúst. Margir fundir voru haldnir til að vinna úr þessu, til að mynda við fleiri dansara, Borgarleikhússtjóra og framkvæmdastjóra, lögfræðing BHM, Fíl og fl.

Einnig sendi Fíld formlegt bréf til Borgarleikhússtjóra þar sem hún var vinsamlegast beðin um að svara dönsurum eftir langan biðtíma eftir svari um framtíð þeirra í sýningunni. Að lokum voru gerðir nýjir samningar þar sem þau fengu betri kjör en voru samt sem áður langt fyrir neðan leikaralaunin. Þetta er mál sem minnir okkur á hversu mikilvægt það er að Fíld nái samningum við leikhúsin í framtíðinni.

Árlega Sólókeppnin var haldin 16. október síðastliðinn. Alls tóku 9 dansarar þátt og gekk keppnin vonum framar. Guðbjörg Astrid Skúladóttir var búin að bjóða fram húsnæði Klassíska Listdansskólans fyrir keppnina þar sem að síðastliðin ár hefur keppnin verið haldin í Listdansskóla Íslands. Því miður kom upp sú staða rétt fyrir keppnina að ekki var hægt að halda hana þar og hún því færð í Listdansskóla Ísland og þurfti því að leigja áhorfendapalla. Listdansskóli Íslands lagði út fyrir þeim kostnaði ásamt ýmsu öðru smálegu. Þær þrjár sem voru valdar til að fara út til Falun stunda nú æfingar á fullu en keppnin fer fram 17.-18. mars næstkomandi.

Á starfsárinu 2015-2016 var unnið flott verkefni þar sem Fíld meðlimir fengu aðgang að BHM. Hér er smá klausa sem fram kom í ársskýrslunni það árið:

“Allir sjálfsstættstarfandi dansarar geta greitt í BHM ef þeir kjósa svo og notið þeirra fríðinda sem þar bjóðast. Sem stendur greiða fjórir félagar í BHM. Aðildagjöld FÍLD að Bandalagi háskólamanna er 150.000 og það er nokkuð ljóst að það er félaginu þungur baggi að halda uppi þessari þjónustu ef ekki fleiri félagar kjósa að nýta sér hana”.

Ákveðið var fyrir starfsárið 2016-2017 að sjá hvernig þetta mál myndi þróast og hvort fleiri meðlimir myndu nýta sér þetta. Að okkar bestu vitund eru enn aðeins fjórir meðlimir að greiða, því er þetta mikilvægt mál sem framtíðar stjórn þarf að skoða vel.

Staða Listdansskólanna hefur lítið breyst á þessu ári.

SSÍ boðaði til fundar í desembermánuði. Á þeim fundi sátu formenn Fíld, DFÍ, FÍL, FLÍ og RSÍ. Var lögð sú tillaga að búa til regnhlífasamtök fyrir fagfélögin til að auðvelda til að mynda samningsviðræður við opinberar stofnanir.  Félagsmenn hefðu aðgang að alls kyns sjóðum, gætu leitað til einstaklinga sem væru á launum samtakanna og fl. Ársgjaldið yrði í það minnsta 24.þúsund á ári, töluverð hækkun fyrir Fíld meðlimi en myndi hugsanlega veita þeim betri kjör en þau hafa í dag.
Einnig hefur Birna Hafsteins (FÍL) lýst eftir áhuga að fá sjálfstætt starfandi dansara aftur inn í FÍL og berjast fyrir betri samningum fyrir þá hjá opinberu leikhúsunum. Nú er það í okkar höndum að sameinast og finna þá bestu leið fyrir félagið okkar.

Formaður Félags íslenskra listdansara,
Arndís Benediktsdóttir

Page 4 of 39« First...23456...102030...Last »