Stjórn BÍL fordæmir ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs um framtíð menningarstofnanna bæjarins

Það er merkilegt að lesa skýrslu þá sem bæjarstjóri Kópavogs lét gera fyrir sig og byggir svo ákvarðanir sínar um breytingar á skipulagi menningarrekstrar í bænum á. Farin er frumstæð og nánast barnaleg leið í mati á rekstri menningarstofnana bæjarins og engu skeytt um hið raunverulega gildi og tilgang starfsins fyrir samfélagið. Rekstur menningarstofnana og ávinningur samfélagsins af þeim er gríðarlega fjölbreyttur og flókinn og úr því að bæjarfélagið leggur í þá vegferð að gera hagræna úttekt á starfseminni er undarlegt að ekki skuli leitað til aðila sem þekkingu hafa á menningarrekstri og hagrænum áhrifum af menningarstarfi. Engum myndi detta í hug að leggja í rekstrarlega greiningu á öðrum stoðkerfum samfélagsins, eins og mennta- eða heilbrigðiskerfi, án þess að leita eftir sérþekkingu á því sviði.

Í skýrslunni er ekki vikið í neinu að þeim almannagæðum sem liggja til grundvallar þátttöku sveitarfélags og stjórnvalda í menningu, hvorki leggur skýrslan sjálfstætt mat á það, né vitnar í þann fjölda rannsókna sem sýna fram á hlutverk og virði menningar og listsköpunar fyrir samfélög. Svo við höldum okkur við hugtök markaðarins, þá er afleiða listsköpunar aukin velferð, þroski og lífsgæði hin raunverulega „vara“ – ávinningurinn af framlagi sveitarfélaga til menningar og listsköpunar.

Þessi úttekt KPMG telur því eingöngu baunirnar kostnaðarmegin við jafnaðarmerki jöfnunar sem síðan er notað af stjórnvöldum til að draga saman og réttlæta niðurskurð til málaflokksins og skemmdarverk á heilum stofnunum. Auk þess hafa stjórnendur stofnana Kópavogsbæjar þurft að leiðrétta fjöldann allan af rangfærslum í skýrslunni.

Bandalag íslenskra listamanna harmar að annað stærsta sveitarfélag landsins sem hingað til hefur sýnt metnað við uppbyggingu menningarstofnana sinna skuli umgangast starf þeirra af jafn mikilli vanþekkingu og lítilsvirðingu og raun ber vitni.