Ársskýrsla BÍL
Stjórn Bandalag íslenskra listamanna hélt tíu stjórnarfundi á árinu 2023 og efni þessarar skýrslu endurspeglar þau mál sem hæst báru á dagskrá þeirra funda og þau verkefni sem hæst risu hjá stjórn á árinu 2023.
Samningur við ráðuneytið
Undirritaður var samningur við ráðuneyti menningar og viðskipta í upphafi árs, þann 10. janúar 2023. Samningurinn er til þriggja ára og kveður á um samstarf ráðuneytisins og ráðgjöf BÍL til handa ráðuneytinu um málefni listamanna og menningar. Á grunni þessa samnings eiga fulltrúar stjórnar BÍL reglulega fundi með ráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins þar sem farið er yfir stöðu þeirra mála er varða listamenn og umhverfi listarinnar. Slíkir fundir voru alls sex á síðasta ári. Óhætt er að segja að stofnun Þjóðaróperu hafi verið það mál sem mestan tíma tók á þessum fundum, en vissulega voru mörg önnur mál eins og endurgreiðslukerfin, gagnaöflun og hagvísar, starfslaunin og höfundaréttarmálin rædd.
Starfslaunafrumvarp og framtíðar hugmyndir um skipan launamála
Saga endurskoðunar starfslaunanna er farin að telja nokkur bindi. Vissulega varð hlé á þeirri vinnu á meðan við tróðum marvaðann í gegnum heimsfaraldurinn. Starfslaunafrumvarpið er nú komið á málaskrá vorþings, svo vonandi fer að hilla undir lok þessa kafla í sögunni. Þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvernig frumvarpið lítur út í endanlegri mynd. Það byggir engu að síður á fyrri lögum, þó með nokkrum breytingum, s.s. sérstakri gátt fyrir yngri og eldri listamenn og verulegri fjölgun mánaða.
Á undanförnum mánuðum og sérstaklega í kjölfar reynslu okkar af ástandinu í covid hafa vaknað spurningar um hvort ekki þurfi að nálgast þessa launaumræður með öðrum hætti eða með nýrri nálgun og það má til sanns vegar færa. Árangurshlutfall úthlutana hefur lækkað jafnt og þétt enda fjölgar listamönnum eins og öðrum íbúum landsins og því eru listamenn hlutfallslega að fá færri mánuði úthlutaða. Það leiðir til þess að stöðugleiki afkomu og vinnu er lítill sem enginn, en því er vert að halda til haga að stöðugleikinn var einn helsti tilgangur listamannalaunanna, þ.e. að listamenn hefðu tryggari afkomu og einhvern fyrirsjáanleika í störfum sínum og tekjum. Það má líka færa fyrir því gild rök að öflugt starfslauna umhverfi sé mikilvægara en áður þar sem hefðbundin tekjumodel listamanna eru að rakna upp svo að segja fyrir framan nefið á okkur.
Það er mikilvægt þegar þessi aukning og lög eru næstum í hendi, að hefja strax vinnu við næsta fasa og áframhaldandi þróun launakerfisins. Hvort það verður einhvers konar útfærsla á borgaralaunakerfi svipað og farið var að á Írlandi eða alliance-kerfið sem tekið hefur var upp víða á Norðurlöndum, eða einhverskonar tekjufallsstyrkjakerfi eða sambland. Reynsla okkar undanfarin ár ætti að hvetja okkur til að endurskoða kerfið með opnum huga með hagsmuni allra listamanna að leiðarljósi. En fyrst þurfum við að landa þessum nýju lögum áður en við hefjum vinnu við þetta endurmat. Við höfum líka beðið eftir því að fá gagnlega tölfræði til að hægt sé að hefja samtal með upplýstum hætti, hvernig best væri farið að því að tryggja listamönnum afkomu og réttindi á vinnumarkaði á pari við aðra.
Samningur við Hagstofuna
Talandi um gögn og gagnreynda nálgun í ákvarðanatöku. BÍL og Hagstofa Íslands gerðu með sér gagnaskilasamning í lok árs 2022 en í þeim samningi fólst að aðildarfélög BÍL leggðu í skjóðu Hagstofunnar félagatal sitt með kennitölum svo hægt væri að greina og keyra saman upplýsingar um vinnumarkaðstekjur og í rauninni fjölbreyttar upplýsingar sem varpað gætu skýrara ljósi á vinnumarkað listamanna. BÍL hefur allt frá því að Hagstofan fór að birta tölfræði um menningarlandslagið lagt áherslu á að koma þessu verkefni á koppinn og eins og ástæða þessarar nálgunar er okkur, sem störfum í þessum greinum augljós, virðist vera djúpt á skilningi á hagnýti hennar þegar kemur að þeim sem sinna hefðbundnum greiningum talnagagna.
Hagstofan lagði þetta verkefni til hliðar upp á sitt einsdæmi, þar sem þetta taldist ekki til forgangsverkefna í áætlunum um skráningu menningartölfræði. Við sem vitum að menning og listsköpun er að stærstum hluta borin uppi af einstaklingum í sjálfstæðum rekstri með flókinni samsetningu launa og starfssambanda, áttum okkur á að hausatalning út úr þeim örfáu menningarstofnunum sem fastráða listamenn, segja meira til um hverjir sinna markaðssetningu og þrifum, en því hverjir sinni listsköpuninni í viðkomandi stofnunum, hvað þá að hefðbundnar greiningar nái til þeirrar starfsemi sem fram fer utan stofnana.
OECD og Evrópusambandið hafa hvatt opinberar stofnanir sem halda utan um tölfræði til að mæla dýpra og sækja gögn nær gólfinu og á það sérstaklega við listsköpun og skapandi greinar.
Ráðuneytið, bæði starfsmenn og ráðherra, hafa lagt áherslu á að Hagstofan standi við þennan samning, því ef við ætlum okkur að skoða hvernig við getum bætt afkomu og vinnuumhverfi okkar fólks þurfum við að hafa gögn. Þessi gögn væru lykilverkfæri t.d. í endurskoðun launakerfisins eins og nefnt er hér ofar. BÍL hefur fyrir sitt leyti haldið samninginn og aðildarfélögin skila gögnunum í annað sinn núna með von um að Hagstofan gefi eftir og taki til við að greina þau.
Reykjavíkurborg
BÍL og Reykjavíkurborg undirrituðu samning um ráðgjöf og samráð á vettvangi menningar og listsköpunar í borginni. Að þessu sinni náði samningurinn bara til eins árs. Ástæða þess hvað samningur er stuttur að þessu sinni, orsakaðist bæði af því að miklar hreyfingar voru á menningarsviði borgarinnar á þessum tíma og, eins og fólki er í fersku minni, mikilli umræðu um erfiða fjárhagsstöðu borgarinnar. Því var ákveðið, í samráði við borgina, að gera stuttan samning með von um meira svigrúm á þessu ári, því samstarfið og hlutverk BÍL í samvinnu við borgina hefur aukist til muna á undanförnum árum. BÍL var þátttakandi í mettnaðrafullri vinnu við menningarstefnu borgarinnar árið 2021 og í kjölfar þeirrar vinnu hafa BÍL og starfsmenn menningarsviðsins átt reglulega fundi til að fylgja eftir áformum stefnunnar. Það var ekki bjart yfir þeim málum framan af þar sem fjárhagsstaða borgarinnar og fyrstu skref aðgerðaráætlunar stefnunnar gengu ekki í takt. En samtalinu var haldið áfram og með miklu og góðu samstarfi við starfsfólk borgarinnar tókst að fá hækkun á menningarpottinn sem hafði rýrnað töluvert og áform eru um stigvaxandi hækkun á honum næstu þrjú árin. Þá fengu flest listamannareknu rýmin og húsin nokkra leiðréttingu með nýjum samningum sem undirritaðir voru rétt fyrir áramótin. Margir þeir samninganna höfðu rýrnað verulega svo horfði til nokkurra vandræða.
Annað sem hefur verið í umræðunni og tæpt er á í menningarstefnunni er nýting á rýmum til listsköpunar. Listamenn hafa viljað fá aðgang að rýmum sem eru einhverra hluta vegna í biðstöðu og hagkvæm til listsköpunar. BÍL hefur lagt á það áherslu að ákvarðanir um rými og uppbyggingu svæða séu teknar á sviði menningarskrifstofu og af pólitísku ráði menningarmála svo tryggt sé að slíkum ákvörðunum fylgi ábyrgð til framtíðar og uppbyggingu starfsemi menningar og listsköpunar sem svo er um búið. Við höfum allt of mörg dæmi um að eignaumsýsla borgarinnar hryndi af stað svona hugmyndum og svo þegar verkefnin fara að taka á sig mynd er fólki vísað á dyr með bæði fjárhagslegu og menningarlegu tapi.
Söguritun BÍL og vinna vegna afmælisársins
Gengið var frá samningi við Pál Baldvin Baldvinsson á vormánuðum um ritun sögu BÍL. BÍL mun fagna 100 ára afmæli árið 2028 og ekki seinna vænna en koma þessari ritun í faglegan farveg. Það er öllum ljóst að saga BÍL er rækilega samofin hugmyndasögu okkar samfélags á þeim umbrotatímum sem síðustu 100 ár eru. Því er mikilvægt að söguþráður listarinnar á þessum umbrotatímum verði bæði staðfestur í samhangandi frásögn sem varpi ljósi á hlutverk listarinnar í umbreytingu íslensks samfélags til þess nútíma sem við þekkjum. Enn er von til þess að við getum gert sjónvarpsseríu sem sýnd verði á afmælisárinu, en það er verk sem flóknara er að fjármagna en BÍL er í góðu samtali við framleiðslufyrirtækið Republik um það verkefni.
LHÍ og baklandið – fundur með ráðherra háskólamála
BÍL hefur átt fulltrúa í stjórn Baklands LHÍ og var því fyrirkomulagi komið á árið 2022. Nokkuð hefur verið rætt um aðkomu BÍL að baklandi Listaháskólans og þá vegna þeirrar stöðu sem fagfélög listamanna eru í gagnvart samningum félaga sinna sem kenna við skólann. Engu að síður hefur stjórn talið mikilvægt að BÍL sé hluti Baklandsins. Bakland LHÍ á þrjá fulltrúa í stjórn LHÍ og myndar þannig meirihluta stjórnar og það er mikilvægt að samtök listamanna hafi áhrif á það hverjir sitji í stjórn LHÍ og móti þannig stefnu fagnáms í listum í landinu.
Eitt af aðalmarkmiðum BÍL til margra ára hefur verið að jafna stöðu listnáms á háskólastigi við annað háskólanám, þá með því að fella niður þungan bagga skólagjalda Listaháskólans og það markmið rataði inn í síðasta málefnasamnings ríkisstjórnar. Það gerðist svo nú eftir áramót að ráðherra opnaði fyrir þennan möguleika og góðu heilli greip stjórn LHÍ þetta tækifæri og nú hafa skólagjöld í LHÍ verið færð til samræmis við Háskóla íslands sem er mikið og jákvætt skref til jöfnunar listnáms við aðrar háskólagreinar. Á þessum tímum sem við lifum núna, þar sem félagsleg aðgreining er líklega að verða stærra vandamál en við kærum okkur um að viðurkenna, er þetta mikið réttlætismál. Við sem samfélag rökstyðjum ráðstöfun almannafjár til listsköpunar gjarnan með félagslegum rökum og þetta er viðurkennt módel, á okkar norræna menningarsvæði veljum við að skilgreina list og menningu sem almannagæði og í orði kveðnu skuli hindranir af efnahagslegum eða félagslegum toga vera sem minnstar. Því hefur verið hrópandi þversögn í því að listnám á háskólastigi skuli hafa verið verðlagt með þessum hætti, það eitt og sér býður hættunni um félagslega og menningarlega aðgreiningu heim. Þetta var því mikilvæg og ánægjuleg ákvörðun.
Þjóðarópera
Líklega hefur fátt verið meira rætt á vettvangi BÍL en stofnun Þjóðaróperu, um það vitnar fjöldi álita og samþykkta aðalfunda undanfarin ár og nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um stofnun Þjóðaróperu í fyrsta sinn. Fyrsta formlega erindi BÍL til ráðuneytis menningarmála um stofnun Þjóðaróperu er frá haustmánuðum 2020, og var þess efnis að tímabært væri að koma óperuflutningi undir sama lagalega ramma og aðra sviðslistastofnanir. Með sviðslistalögum sem samþykkt voru í lok árs 2019 varð Íslenska dansflokknum fyrst sniðinn rammi í lögunum á pari við Þjóðleikhús en ákvæði um óperuflutning voru frekar rýr og vísuðu til þess að óbreytt staða skyldi verða á óperurekstri í landinu. Áform um stofnun Þjóðaróperu voru síðan staðfest í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar haustið 2021 og hefur BÍL fylgt því fast eftir að stofnuninni verði komin á legg í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta er eins og við er að búast flókin fæðing og eðlilegt að sitt sýnist hverjum um þennan áfanga. BÍL hefur í öllu þessu ferli litið á það sem sitt hlutverk að halda faglegum sjónarmiðum að borðinu og átt sína fulltrúa í undirbúningsnefndum, sem eru búnar að vera þrjár frá upphafi þessa ferlis. Það er mikilvægt og í anda þeirra sjónarmiða sem lagt var af stað með í upphafi að stofnunin geti staðið undir nafni sem sjálfstæð menningarstofnun á pari við systurstofnanir sínar í sviðslistum. Það kann því að skjóta skökku við að niðurstaðan sé að þjóðaróperan skuli vera svo tengd rekstri Þjóðleikhúss, stofnunnar sem hún ætti að vera á jöfnu við í laga- og regluverki. En þetta er flókið ferli og mörg sjónarmið og margar pólitískar og praktískar ákvarðanir að taka. Sjálfstæða stofnun er erfitt að sækja til stjórnmálanna núna og þessi biðleikur er sátt sem færir okkur vonandi nær þeirri mynd sem dregin er upp í umfjöllunarkafla frumvarpsins; Þ.e. stofnun með yfirstjórn praktískra mál og undir henni sjálfstæðir listrænir stjórnendur þriggja sviðslistastofnana; leikhúss, óperu og listdans. Vonandi verður þetta fyrsta skrefið í farsælu starfi þjóðaróperu og þrátt fyrir ákveðnar áhyggjur af naumt skömmtuðu fjármagni til starfsins óskar BÍL þess að þeir frumkvöðlar sem í lok áttunda áratugar síðustu aldar lyftu grettistaki í þessa baráttu geti litið stoltir til þessa áfanga sem nú næst. Þetta er áfangi, en það býður alltaf ný orrusta handan við hólinn.
Barnamenningarmiðstöð
BÍL átti sinn fulltrúa í Aðgerðaráætlun um Barnamenningu, þingsályktunartillögu forsætisráðherra um aðgerðaáætlun barnamenningar, sem meðal annars kveður á um stofnun barnamenningar-miðstöðvar, sem mun hafa umsjón með Barnamenningarsjóði og verkefninu List fyrir alla. Það er góður áfangi í að koma því góða verkefni List fyrir alla í örugga höfn undir Barnamenningar-miðstöð.
Norrænt samstarf
Að venju hefur verið nokkuð þétt samband við systursamtök okkar á Norðurlöndunum. Það sem hæst hefur risið er barátta Norræna listráðsins (Nordisk kunstnerråd) fyrir því að ekki verði sá samdráttur á fjármagni á sviði menningarmála innan Norrænu ráðherranefndarinnar sem fyrirhugaður er. Sá niðurskurður hefur verið yfirvofandi um nokkurra ára skeið en frestast jafnan. Rökin eru tilfærsla á fjármagni vegna áherslu á sjálfbærni og grænar lausnir í samstarfi Norðurlanda. Listamenn setja sig síður en svo upp á móti þeim áherslum en telja að bæði séu til breiðari bök til að kosta þær og líklega aðrar atvinnugreinar sem beri meiri ábyrgð og hafi jafnvel haft nokkuð ríflegri tekjur af þeim rekstri sem veldur því að nú þarf að grípa til aðgerða í loftslags- og umhverfismálum.
Circolo Scandinavo, Norræna listamannavinnustofan í Róm, hefur verið starfrækt í 170 ár og notið framlags frá norrænu ráðherranefndinni. Nú hefur sá stuðningur verið lagður niður en Norræna listráðið hefur reynt allt til að hafa áhrif á þessa ákvörðun en það hefur ekki borið árangur ennþá. Circolo þarf nú að sækja um í samkeppnissjóð á vegum Ráðherranefndarinnar á hverju ári en það er fugl í skógi og mikil hætta á því að þarna sé menningarslys í uppsiglingu.
Formenn norrænu ráðanna hittust á einum fundi síðastliðið haust í Finnlandi þar sem þessi mál voru til umræðu ásamt fleiru. Einna helst mátti heyra á kollegum okkar á Norðurlöndum ótta við uppgang öfga og popúlískra stjórnmálaafla. Síðast liðið haust gat forseti stoltur sagt á þeim fundi að þau öfl væru ekki að fá mikin hljómgrunn hér á landi og ekki að ná inn í meginstraum íslenskra stjórnmála, við værum ekki að takast á við þau viðhorf að neinni alvöru, þetta væru almennt taldar jaðarskoðanir hér á landi. Margt bendir nú til að næsti forseti geti ekki talað með jafn afslöppuðum hætti um uppgang popúlískra og jafnvel rasískar sjónarmiða á næsta samráðsfundi norrrænu samtakanna sem áformaður er næsta vor á Skagen í Danmörku.
RÚV og höfundaréttur
RÚV virðist alltaf ná sér í kafla í þessu ársuppgjöri og að þessu sinni vegur hæst samningur RÚV við Öldu Music um dreifingu á öllu efni RÚV. Þetta var ekki orðað með skýrari hætti en þetta í fréttatilkynningu frá ohf.-stofnuninni. Því fóru nokkur fagfélög innan BÍL og hagsmunasamtök höfundarréttarhafa fram á að fá aðgang að samningnum sem RÚV hafnaði. BÍL ritaði því RÚV bréf ásamt STEF-i og bað um aðgang að samningnum en því var hafnað. Þessi höfundaréttarmál eru svo kannski angi af almennu sinnuleysi um höfundarétt almennt í landinu. Velta má fyrir sér að ef þau mál hefðu skýrari ramma í lögum hvort svona gerningur gæti yfirleitt átt sér stað? Þar sem svo augljóst virðist vera að um þríhliða samning ætti að vera að ræða?
Höfundaréttarráð, sem er samráðshópur allar þeirra sem hafa hagsmuni að höfundarétti, hefur ekki verið kallað saman síðan í byrjun árs 2022, höfundaréttarnefnd hefur ekki verið starfandi við ráðuneytið síðan 2022 þegar síðasta nefnd lauk sínum skipunartíma. DSM-tilskipun Evrópu-sambandsins sem samþykkt var þar árið 2019 hefur en ekki verið lögfest en frestur til þess rann út árið 2021. Höfundaréttarmál eru ekki mál sem við leiðum til lykta í eitt skipti fyrir öll, leikreglunum er breytt nánast ársfjórðungslega. DSM-tilskipunin var samþykkt á vettvangi Evrópusambandsins fyrir fimm árum síðan og á þessum tíma hefur heilmikið breyst; við erum raunar í stökkbreyttu umhverfi. Höfundaréttarmál eru viðfangsefni sem þurfa stöðugt að vera undir radarnum og í litlu samfélagi eins og okkar verðum við að njóta varna af regluverki og lögum, við eigum ekki séns í þessi öfl sem halda um fjármagnið á þessum leikvelli og breyta reglunum eftir eigin geðþótta í takt við tækni sem sömu fyrirtæki finna upp og koma í umferð.
Lokaorð
Síðustu misseri hafa verið áhugaverðir tímar í menningarumræðu. Umræðan um birtingarmyndir jaðarhópa í listgreinum hefur verið áleitin og umræða um aðgengi fólks að listaheiminum og samfélagi listanna hefur verið gagnrýnd. Þær raddir heyrast að umhverfið sé varið af hliðvörðum frændhyglinnar og eigendur hins félagslega auðmagns sitji á því, sjálfum sér og sínum til framgangs. Þetta er erfiður biti að kyngja fyrir flest okkar sem sitjum í þessum sal, eða gefum okkur tíma til að lesa þetta, því við erum líklega hluti þeirra sem eiga ríflega innistæðu í félagsauðnum sem ber uppi íslenskan listheim og menningarpólitík. En ágengasta spurningin í þessari umræðu er, og henni verðum við að svara heiðarlega og óttalaust; Hverjir eru ekki hér og afhverju?
Tilgangur listarinnar er að skerpa sýn og opna inn í dýpri kima þess heims sem við lifum og reyna að koma auga á það sem dylst undir yfirborðinu. Mennskan og mannúðin er grunntónninn í þessari leit og verkfærið óttaleysi. Líklega er þessi umræða, sem flaut upp á yfirborðið einfaldlega tákn þess að okkar litla menningarþorp sé að stækka og standi því frammi fyrir flóknari spurningum og úrlausnarefnum en áður og auðvitað fögnum við því og sjáum nýja áskorun í þeim ásetningi að listin bæti heiminn, sé það verkfæri sem sameini og opni óttalaust fyrir nýja strauma og fjölbreyttara samfélag án aðgreiningar.
Stjórn Bandalags íslenskra listamanna – 2022 og trúnaðarstörf.
Stjórn BÍL er skipuð formönnum aðildarfélaga bandalagsins. Eftirtalin skipuðu stjórn BÍL í umboði síns félags á árinu 2023. Í kjölfarið er listi þeirra einstaklinga sem sinntu trúnaðarstörfum fyrir BÍL á liðnu ári.
Arkítektafélag Íslands – AÍ, Sigríður Maack, formaður, varamaður: Hildur Steinþórsdóttir
Danshöfundafélag Íslands – DFÍ, Katrín Gunnarsdóttir, formaður, varamaður: Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir
Félag íslenskra hljómlistarmanna – FÍH, Gunnar Hrafnsson, formaður
Félag íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum – FÍL, Birna Hafstein, formaður
Félag íslenskra listdansara – FÍLD, Lilja Björk Haraldsdóttir, formaður
Félag íslenskra tónlistarmanna – FÍ, Hallveig Rúnarsdóttir, formaður, Margrét Hrafnsdóttir tók ví mars. varamaður: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.
Félag kvikmyndagerðarmanna – FK, Steingrímur Dúi Másson, formaður, varamaður: Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Félag leikskálda og handritshöfunda – FLH, Margrét Örnólfsdóttir, formaður, varamaður: Huldar Breiðfjörð
Félag tónskálda og textahöfunda – FTT, Bragi Valdimar Skúlason, formaður.
Rithöfundasamband Íslands – RSÍ, Margrét Tryggvadóttir varaformaður, varamaður: Vilborg Davíðsdóttir
Samband íslenskra myndlistarmanna – SÍM, Anna Eyjólfsdóttir, formaður, varamaður: Hlynur Helgason.
Samtök kvikmyndaleikstjóra – SKL, Ragnar Bragason / Dögg Mósesdóttir tók við í sept. formaður, varamaður: Ása Helga Hjörleifsdóttir
Tónskáldafélag Íslands – Páll Ragnar Pálsson formaður, varamaður: Þuríður Jónsdóttir
Félag leikstjóra á Íslandi – FLÍ, Kolbrún Halldórsdóttir, Ólafur Egill Egilsson formaður tók við í ágúst varamaður: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir
Félag leikmynda og búningahöfunda – FLB, Eva Signý Berger, formaður
Margrét Tryggvadóttir RSÍ hefur gengt starfi ritara stjórnar, Gunnar Hrafnsson hefur sinnt stöðu gjaldkera. Lúðvík Júlíusson hefur séð um bókhald BÍL og endurskoðandi er Helga Björk Þorsteinsdóttir. Skoðunarmenn reikninga 2022 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.
Fulltrúar Bandalags íslenskra listamanna í nefndum og ráðum:
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar. Áheyrnarfulltrúi: Erling Jóhannesson. Varamaður: Anna Eyjólfsdóttir
Fulltrúar BÍL í faghópi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.
Elvar Bragi Kristjónsson, tónlistarmaður. Varamaður: Björg Brjánsdóttir, tónlistarmaður
Víkingur Kristjónsson, sviðslistamaður. Varamaður: Júlíana Kristín Liborius Jónsdóttir , sviðslistamaður
Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur. Varamaður: Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur
Freyja Eilíf Logadóttir, myndlistarmaður. Varamaður: Pétur Thomsen, myndlistarmaður
Kvikmyndaráð – Bergsteinn Björgúlfsson – 29.11.19–29.11.23 – Varamaður: Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Fulltrúaráð Listahátíðar – Erling Jóhannesson
Stjórn listamannalauna – Ásgerður Júníusdóttir, varamaður: Guðmundur Helgason
Stjórn Skaftfells – Anna Eyjólfsdóttir, varamaður: Erling Jóhannesson
List án landamæra – Margrét Pétursdóttir, varamaður: Erling Jóhannesson
Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis – Páll Baldvin Baldvinsson – 09.10.17, varamaður: Þórunn Gréta Sigurðardóttir
Höfundarréttarráð – Erling Jóhannesson – 01.08.20–01.08.24
Barnamenningarmiðstöðvar – Vigdís Jakobsdóttir, varamaður: Felix Bergsson
Fulltrúi BÍL í nefnd um endurskoðun Barnamenningarsjóðs. – Erling Jóhannesson
List fyrir alla – valnefnd, Rebekka A. Ingimundardóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson
Austurbrú, fagráð menningar – Hlín Pétursdóttur Behrens – maí 2019.
Fagráð Sláturhússins á Egilsstöðum – Wioleta Anna Ujazdowska
Menningarsjóður Guðjóns Samúelssonar – Erling Jóhannesson
Nordisk kunstnerråd – Erling Jóhannesson
Stjórn Gljúfrasteins – Erling Jóhannesson
Valnefnd Kjarvalstofu í París – Sindri Freysson, Eyrún Sigurðardóttir
Fulltrúar í þriðju undirbúningsnefnd fyrir stofnun Þjóðaróperu. Þóra Einarsdóttir og Þórunn Gréta Sigurðardóttir.
Fulltrúi BÍL í sjálfbærniráði – Erling Jóhannesson, varamaður Sigríður Rósa Bjarnadóttir