Ársskýrslur

Ársskýrsla stjórnar FLÍ starfsárið 2019-20

 

 

Skýrsla stjórnar FLÍ starfsárið 2019 – 2020

Í stjórn FLÍ á starfsárinu sátu Kolbrún Halldórsdóttir formaður, Ástbjörg Rut Jónsdóttir gjaldkeri og Tryggvi Gunnarsson ritari. Varamenn í stjórn voru Agnar Jón Egilsson, Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir og Harpa Arnardóttir. Stjórn hélt alls 7 fundi á starfsárinu, á tímabilinu frá framhaldsaðalfundi 7. október 2019 og fram að aðalfundi 22. júní 2020, og eru fundargerðir vistaðar í stafrænni skjalageymslu félagsins, auk þess sem þær eru aðgengilegar félagsmönnum á aðalfundi félagsins.

 

Nýir félagar á árinu

Þrír leikstjórar sóttu um félagsaðild á þessu starfsári (frá aðalf. 2019 og til aðalf. 2020) og voru umsóknir þeirra jafnharðan afgreiddar á stjórnarfundum. Þeir félagar sem bættust í félagatal FLÍ frá síðasta aðalfundi eru: Aron Martin Ásgerðarson, Stefán Ingvar Vigfússon og Íris Stefanía Skúladóttir. Um þessar mundir eru skráðir 104 félagar í félagatal FLÍ, 27 af þeim eru 67 ára og eldri.

 

Samningamál

Til grundvallar starfi stjórnar á starfsárinu hefur legið starfsáætlun samþykkt á framhaldsaðalfundi 7. október 2019. Tekist hefur að þoka áfram nokkrum fjölda mála, endurnýjaðir samningar við samningsaðila FLÍ hafa þar vegið þyngst. Í því sambandi ber að geta þeirra sjónarmiða sem samninganefnd FLÍ hefur reynt að ná fram varðandi aðstoðarleikstjóra og dramatúrga, en í starfsáætlun er getið um þau áform að ræða við yngri kynslóð leikstjóra um skynsamlega nálgun við kjaramál tengd þessum störfum. Samninganefndin hefur lagt góðan grunn að því samtali með því að berjast fyrir bókunum starfskjör aðstoðarleikstjóra og dramatúrga, sem lið í þeim áformum að lyfta þessum störfum og um leið auka fagmennsku við uppsetningu leiksýninga hjá samningsaðilum FLÍ. Samninganefndina hafa skipað þau Páll Baldvin Baldvinsson, Hjálmar Hjálmarsson og Ástbjörg Rut Jónsdóttir, en Hjálmar baðst undan setu í nefndinni þegar leið á starfsárið og hefur formaður félagsins hlaupið í skarðið eftir því sem þörf hefur verið.

 

Leikfélag Reykjavíkur

Í janúar var undirritaður nýr samningur við Leikfélag Reykjavíkur, og byggja launatölur samningsins á svokölluðum lífskjarasamningum, sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði á vordögum 2019. Samningurinn er heildarsamningur þar sem náðust fram nokkur nýmæli auk þess sem honum fylgja bókanir um hlutverk leikstjórans, um verktöku, störf dramatúrgs og aðstoðarleikstjóra, ásamt bókun um höfundarréttarsamninga fyrir samsköpunarverk. Samningurinn gildir til 1. nóvember 2022.

 

Þjóðleikhúsið

Í byrjun maí var undirritað samkomulag við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna starfa leikstjóra við Þjóðleikhúsið. Það felur í sér launahækkanir sem eru í samræmi við lífskjarasamningana frá vorinu 2019. Þó náðist fram hækkun á framlagi atvinnurekanda í styrktarsjóð BHM og það nýmæli að frá september 2020 greiðir atvinnurekandi 0,7% af launum í Starfsþróunarsetur háskólamanna hjá BHM, sem gerir kleift að sækja um fjárstuðning til starfsþróunar og endurmenntunar. Viðræður við Þjóðleikhúsið um breytingar á stofnanasamningi standa enn yfir, en þar munu verða sérstakar bókanir um störf dramatúrga og aðstoðarleikstjóra, ásamt skilgreiningum á hlutfalli höfundaréttar leikstjóra í samsköpunarverkefnum.

 

Menningarfélag Akureyrar

Nú er það Menningarfélag Akureyrar sem gerir samninga um störf leikstjóra hjá Leikfélagi Akureyrar. Til grundvallar nýjum samningi FLÍ við MAK liggur samningurinn við Leikfélag Reykjavíkur frá því í janúar og hafa viðræður gengið vel. Allt sem náðist í samningunum við LR fer inn í nýjan samning við MAK og telst samningaviðræðum lokið. Samningurinn verður undirritaður á næstu dögum.

 

Íslenska óperan

FLÍ hefur lengi leitað eftir því að gerður verði samningur um störf leikstjóra hjá Íslensku óperunni, það hefur ekki reynst auðsótt fram að þessu en nú hefur sá árangur náðst að samningaviðræður eru hafnar og bindur stjórn vonir við að hægt verði að ganga frá samningi við ÍÓ fyrir haustið. Rétt er að greina hér frá samstarfi fagfélaga í sviðslistum og tónlist, sem staðið hefur allt undangengið starfsár, og sprottið er af óánægju listamanna sem starfað hafa fyrir Íslensku óperuna undanfarið. Málið snertir bæði kjaramál og aðkomu fagfélaganna að nýstofnuðu fulltrúaráði ÍÓ. Hafa félögin átt í samskiptum við mennta- og menningarmálaráðuneytið af þessum sökum og freistað þess að fá skýringar á tilteknum þáttum í rekstri ÍÓ, m.a. stofnun fulltrúaráðsins, breyttu stjórnarfyrirkomulagi og áformum um endurnýjun samnings ráðuneytisins við ÍÓ.

 

Ríkisútvarpið ohf

Langtum erfiðasti samningsaðili félagsins er Ríkisútvarpið ohf. Þar á bæ hefur ekki verið vilji til að endurnýja samninga við leikstjóra og raunar gildir það sama um öll félög sem semja fyrir hönd listamanna við stofnunina, þau eru öll með útrunna samninga. Nú hafa formenn þessara félaga ákveðið að setjast niður og skoða hvort möguleiki sé á að sameina kraftana, þ.e. leita eftir sameiginlegum viðræðum við RÚV. Slíkt gæti aukið þrýstinginn á forsvarsmenn RÚV og með góðum vilja mætti hugsa sér að á endanum næðist að skilgreina sambærilegan starfsgrundvöll þeirra listamanna sem koma til starfa hjá RÚV tímabundið eða til lengri tíma. Þessar hugmyndir eru einungis á umræðustigi enn sem komið er, en augljós vilji formanna félaganna að velta upp þessum möguleika.

 

Félagsgjöld

Í starfsáætlun ársins er fjallað um félagsgjöld og fyrirkomulag innheimtu þeirra. Þetta atriði hefur verið til umaræðu á stjórnarfundum og á grundvelli laga félagsins ákvað stjórn að innheimta lágmarksfélagsgjaldið fyrir aðalfund með gjalddaga 4. maí og eindaga 4. júní, svo uppfyllt séu skilyrði 7. og 10. gr. laganna, sem kveða á um það að félagsmaður sem ekki greiðir gjaldfallin félagsgjöld sín fyrir aðalfund teljist ekki lengur fullgildur félagi, heldur aukafélagi og hafi því ekki atkvæðisrétt á aðalfundi. Þá hefur stjórn ákveðið að heimila félögum að dreifa greiðslum lágmarksfélagsgjaldsins og hefur félögum verið kynnt sú ákvörðun, einungis þarf að hafa samband við gjaldkera til að fá greiðslunni skipt upp í 2 – 4 greiðslur. Slík skipting gjaldsins hefur þó engin áhrif á réttindin sem skapast, því félagsskírteinin verða send út strax við fyrstu greiðslu og eigi síðar en 1. ágúst. Loks staðfesti stjórn eldri ákvörðun um að leggja ekki dráttarvexti á ógreidd lágmarksfélagsgjöld, allt til hagsbóta fyrir félaga. Annað sem stjórn hefur tekist á við á tímabilinu frá síðasta aðalfundi, er lagabreytingin sem samþykkt var á þeim fundi, þar sem ákveðið var að innheimta lágmarksfélagsgjald af öllum félögum, líka þeim sem eru 67 ára og eldri. Sú ákvörðun mæltist einkar illa fyrir hjá félögum í þeim aldurshópi og óskaði nokkur fjöldi þeirra að ganga frekar úr félaginu en að fara að greiða félagsgjaldið núna. Þetta leiddi til þess að stjórn leggur fram breytingu inntaki lagaákvæðisins á þessum aðalfundi.

 

Ný sviðslistalög

Á árinu fögnuðu þau sem starfa innan sviðslista á Íslandi nýjum sviðslistalögum sem samþykkt voru á Alþingi 17. desember 2019 og taka gildi 1. júlí nk. Má segja að mikið hafi mætt á forystu sviðslistafólks meðan lögin voru að fara gegnum þingið, því þó að í frumvarpinu hafi margt verið til bóta þá voru þar líka atriði sem samstaða var um meðal félaganna að þyrfti að breyta. Umsagnir félaganna voru undirbúnar á samráðsfundum og voru allar nokkuð samhljóða. Með í því samráði voru fulltrúar Sjálfstæðu leikhúsanna. Þegar gestir höfðu verið kallaðir fyrir allsherjar- og menntamálanefnd þingsins og álit nefndarinnar lá fyrir kom í ljós að vel hafði verið hlustað á ábendingar fagfélaganna og SL. Flestar tillögur okkar skiluðu sér í endanlegan lagatexta, t.d. sú sem varðar fyrirkomulag tilnefninga faggeirans í þjóðleikhúsráð og listdansráð, tillögur um tilnefningar í sviðslistaráð og tillögur um fyrirkomulag sviðslistasjóðs. Þá var einnig lögð sú skylda á herðar mennta- og menningarmálaráðherra að setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista og stofna nefnd sem falið verður að gera tillögur um stofnun þjóðaróperu.

 

SAFAS – Samráðsvettvangur fagfélaga í sviðslistum innan SSÍ

Mikilvægt ákvæði var sett í frumvarp að nýjum sviðslistalögum, sem gerði ráð fyrir að fagfélög í sviðslistum fái að tilnefna meiri hluta fulltrúa í bæði þjóðleikhúsráð og listdansráð. Hins vegar var ekki tekið fram hvaða sviðslistafélög væri átt við eða nokkuð annað er varðaði framkvæmd þessara tilnefninga. Í umsögnum fagfélaganna til þingnefndarinnar var þess óskað að tekið yrði fram í lagatextanum að það væru fagfélög innan Sviðslistasambands Íslands, sem hefðu þetta hlutverk. Við því var orðið og því nauðsynlegt fyrir þau félög að stofna með sér formlegan vettvang sem tæki að sér að tilnefna þrjá fulltrúa í þjóðleikhúsráð til fimm ára og þrjá til vara, tvo fulltrúa í listdansráð til fimm ára og tvo til vara og loks tvo fulltrúa í sviðslistaráð til þriggja ára og tvo til vara. Þegar þetta lá ljóst fyrir gengu fagfélögin innan Sviðslistasambandsins, sem eru sjö talsins, í það að stofna með sér formlegan vettvang, sem tæki að sér þetta hlutverk ásamt því að styðja við sameiginleg hagsmunamál félaganna í þágu aukinnar fagmennsku í sviðslistum. Vettvangurinn var stofnaður 28. maí sl. með undirritun stofnyfirlýsingar og í framhaldinu var unnið að tilnefningum í ráðin þrjú, sem lokið var 9. júní sl. Þar með er uppfyllt ákvæði í starfsáætlun FLÍ sem kveður á um samráðsnefnd Sviðslitasambandsins.

 

Tilnefningar í ráðin þrjú

Á fundi SAFAS 5. júní sl. var fjallað um tilnefningar í þau ráð sem getið er í nýju sviðslistalögunum, þ.e. þjóðleikhúsráð, listdansráð og sviðslistaráð. Formenn sex félaga sátu fundinn, formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði sendi fundinum þau skilaboð að stjórn hans teldi eðlilegt að þau héldu sig til hlés í þessari fyrstu tilnefningu fulltrúa og þau myndu styðja þær tillögur sem hin félögin sex kæmu sér saman um. Nokkur fjöldi nafna var lagður fram og var talsvert um að sömu nöfnin væru nefnd af ólíkum stjórnum. Formennirnir ræddu sig svo að niðurstöðu og samþykktu samhljóða að senda eftirfarandi tilnefningar til mennta- og menningarmálaráðherra sem skipar í ráðin:

Sviðslistráð (þrjú ár):

Aðalmenn: Agnar Jón Egilsson – Vigdís Másdóttir

Varamenn: Hjálmar Hjálmarsson – Karen María Jónsdóttir (sem eiga líka sæti í úthlutunarnefnd launasjóðs sviðslistafólks)

Listdansráð (fimm ár):

Aðalmenn: Ólöf Ingólfsdóttir – Guðmundur Helgason

Varamenn: Katrín Johnson – Ólafur Darri

Þjóðleikhúsráð (fimm ár):

Aðalmenn: Sjón – Kolbrún Halldórsdóttir– Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir

Varamenn: Sigmundur Örn Arngrímsson – Ragnheiður Maísól Sturludóttir- María Ellingsen

 

Starfandi leikstjórar

Fyrri formaður FLÍ var iðinn við að halda utan um fjölda þeirra félagsmanna sem störfuðu á samningum félagsins og ekki ástæða til annars en að halda því starfi áfram. En það er af ýmsum ástæðum sem þessu starfi hefur verið vikið til hliðar síðastliðið starfsár, nægir þar að nefna tímafreka vinnu við að bregðast við stöðvun allra viðburða á vettvangi sviðslista af völdum heimsfaraldurs covid-19, sem nánar verður fjallað um síðar í skýrslu þessari. En af þessum sökum leggur stjórn til að á komandi leikári verði stjórn falið það verkefni að fylgjast vel með því hvaða leikstjórar starfa hjá samningsaðilum FLÍ og ganga eftir skilum á samningum og félagsgjöldum til félagsins. Markmiðið með slíku starfi er að hafa yfirsýn yfir störf þau sem eru í boði fyrir félagsmenn ásamt því að tryggja að greiðslur af launum þeirra skili sér í félagssjóð, sem stendur undir rekstri félagsins, en ekki síður til að tryggja eftirfylgni þeirra ákvæða samninga er varða kjör leikstjóra.

 

Heimsfaraldur covid-19

Heimsfaraldur kórónuveirunnar og covid-19 sjúkdómsins, sem braust út um mánaðamót feb./mars, hefur óhjákvæmilega haft mikil áhrif á sviðslistirnar ekki síður en aðrar atvinnugreinar. Með góðum rökum má jafnvel halda því fram að faraldurinn hafi haft meiri áhrif á sviðslista- og tónlistarfólk en fólk í ýmsum öðrum atvinnugreinum, í ljósi samkomubanns sem sett var á hér á landi 15. mars sl. Mikill tími forsvarsmanna fagfélaga þessara greina hefur því farið í að bregðast við þeim neikvæðu áhrifum sem félagsmenn hafa orðið fyrir. Það hefur verið gert í þéttu samstarfi félaganna með þátttöku BÍL – Bandalags íslenskra listamanna og BHM. Samskiptin hafa bæði verið við fulltrúa ríkisvaldsins, ríkisstjórn og Alþingi, og stofnanir á vegum þess, t.d. Vinnumálastofnun. Fylgst hefur verið með aðgerðum stjórnvalda, sem öllum hafa fylgt frumvörp til lagabreytinga af ýmsu tagi, og hafa fagfélög listamanna gefið umsagnir um þau til að freista þess að sníða úrræðin að þörfum listafólks, sem oft er í blandaðri starfsemi, þ.e. að hluta launþegar og að hluta í sjálfstæðri starfsemi. Einnig er algengt meðal listafólks að það geri upp opinber gjöld, skatt og tryggingagjald, einu sinni á ári, sem allt gerir það að verkum að það fellur illa að kerfi Vinnumálastofnunar. Þetta hefur gert stofnuninni erfitt fyrir við að sinna þörfum listafólks, enda hefur álagið á stofnunina farið langt fram úr því sem ætlað var, og þrátt fyrir það að bæði þingmenn og ráðherrar hafi tjáð forsvarsmönnum listafólks að úrræðin eigi að henta okkar fólki og Vinnumálastofnun eigi að laga sig að þeim vilja stjórnvalda, þá eru síðustu skilaboð stofnunarinnar þau að umsækjendur sem ekki falla að kerfinu þurfi að bíða fram á haustið eftir úrlausn. Þetta er að sjálfsögðu óásættanlegt, en lítið sem hægt er að gera umfram það sem reynt hefur verið og enn er verið að vonast til að einhverju verði þokað á næstu vikum, án þess að nokkuð verði fullyrt um að það gangi eftir.

 

Fjárhagsstaða

Staða fjármála félagsins er svipuð og verið hefur síðustu ár, þ.e. eignastaðan er góð, en þó er sífellt gengið á eigið fé, sem endurskoðendur hafa kvatt stjórn til að taka á, en til þess eru engin önnur tól en að hækka félagsgjöld, sem stjórn hefur metið óframkvæmanlegt. Þegar þetta er ritað hefur ekki verið gengið endanlega frá ársreikningum og því ekki hægt að rita kafla um fjárhagsstöðu félagsins með réttu talnaefni. Því er brugðið á það ráð að gefa félagsmönnum mynd af stöðunni með því að birta kafla úr ársskýrslu 2016 (sem var einnig birtur í skýrslunni fyrir starfsárið 2018-2019), en þar getur að líta útskýringar á stöðunni sem hefur lítið breyst, þó tölurnar kunni að vera aðrar:

“Á aðalfundi FLÍ 2015 kom fram að fjárhagsstaða félagsins hefur farið versnandi á síðustu árum. Fyrst kom hrunið, sem veikti eignastöðuna nokkuð og við það bættist fremur lág ávöxtun á sjóðum félagsins eftir hrun. Svo hefur það haft áhrif að ákvörðun var tekin 2014 um að auka greiðslur til stjórnar félagsins vegna aukins álags af veru félagsins í BHM. Þá hefur það líka áhrif að á síðustu þremur árum hefur verið gerð gangskör að því að endurnýja alla samninga félagsins og hefur samninganefnd FLÍ fengið greitt fyrir fundarsetur. Af þessum ástæðum var ákveðið á aðalfundi 2015 að hækka lágmarksgjald það sem félagar greiða til félagsins úr kr. 15.000.- í kr. 24.000.- […] Niðurstaða rekstrarins 2015 er sú að tapi hefur nú verið snúið í hagnað, þ.e. á árinu er tekjuafgangur að upphæð kr. 949.471.- en á árinu 2014 tapaði félagið tæpum 3,7 milljónum króna. Staðan er þó ekki betri en svo að fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld er staðan neikvæð sem nemur kr. 1.390.654.- Þetta þýðir að tekjur félagsins duga ekki fyrir nema broti af rekstrinum og að ávöxtun sjóða félagsins, sem nam kr. 2.559.257.- er það sem heldur heildarniðurstöðunni réttu megin við núllið. Vegna taps áranna 2013 og 2014 benda endurskoðendur félagsins stjórn á það í áritun sinni að nauðsynlegt sé að brugðist verði við ójöfnuðu eigin fé, sem var í árslok tæpar 4,7 milljónir króna. Eiginfjárstaðan er þó eilítið betri en 2014, hún er nú jákvæð sem nemur 22,7 milljónum króna (var 22,0 árið 2014). Ástæður neikvæðrar rekstrarstöðu FLÍ eru þær hversu fáir félagar greiða gjöld til félagsins. Á árinu voru 104 félagar á félagaskrá, af þeim greiddu einungis 7 félagar gjöld til félagsins alla mánuði ársins. 13 greiddu flesta mánuði ársins. Á fyrstu mánuðum ársins 2016 eru einungis 19 félagar að skila gjöldum gegnum innheimtukerfi BHM. Við þetta bætist að 39 félagar eru 60 ára og eldri, en samkvæmt lögum FLÍ eru þeir undanþegnir félagsgjaldi. Sumir þeirra eru þó að greiða af launum sem þeir afla fyrir verkefni sem unnin eru á samningum félagsins. Af 104 skráðum félögum 2015 voru 15 sem hvorki greiddu lágmarksfélagsgjaldið né af launum sínum gegnum BHM. Það hefur verið meginmarkmið stjórnar síðan að halda í horfinu og freista þess að reka félagið án þess að ganga á eignir félagsins, en það er erfitt. Mun gjaldkeri gera grein fyrir stöðu félagsins á fundinum.“

Tekið skal fram að seinagangurinn við að ganga frá ársreikningunum skrifast að hluta á endurskoðunarskrifstofu félagsins, engu að síður þarf stjórn að taka sig á hvað varðar skil á reikningum, þar sem sambærileg staða hefur komið upp oftar en einu sinni undanfarin ár.

 

BHM – Bandalag háskólamanna

Síðan covid-19 falaldurinn skall á hefur BHM verið virkur aðili í samtalinu við stjórnvöld um úrræði til handa félagsmönnum aðildarfélaganna. Formenn fagfélaga listamanna hafa tekið þátt í því samtali, svo sem að framan greinir. Annað sem hefur útheimt vinnu á árinu er að ræða tillögur starfshóps innan BHM um hækkuð félagsgjöld að Bandalaginu. Tillaga hópsins hentar listamannafélögunum í BHM afar illa, þar er um að ræða FLÍ, FÍL, FÍH og SÍM, og hafa formenn þessara félaga fundað með fulltrúum starfshópsins og með forystu BHM til að freista þess að afstýra því að tillagan verði samþykkt. Nú er staðan sú að afgreiðslu tillögunnar hefur verið frestað til framhaldsaðalfundar BHM sem haldinn verður 9. september nk. og binda formenn listamannafélaganna vonir við að þar verði hægt að leggja fram breytingartillögu sem verði okkar félögum í hag. Fundum um málið verður fram haldið á næstunni. Aðrir þættir í starfi BHM hafa verið á vettvandi sjúkrasjóðs BHM, en nú hafa komið í ljós vankantar á réttindum fólks, sem greiðir reglulegt mánaðagjald í sjóðinn, en getur ekki sýnt fram á samsvarandi launatekjur. Reglur sjóðsins kveða á um það að sjóðsaðild byggist á því að greitt sé lögákveðið, kjarasamningsbundið eða ráðningarsamningsbundið sjúkrasjóðsframlag 1% af heildarlaunum, sem þýðir að sá sem sækir um stuðning frá sjóðnum þarf að sýna fram á samræmi milli heildarlauna og greiðslunnar í sjóðinn. Þetta er ekki í samræmi við skilning forystu listamannafélaganna sem áttu þátt í að koma félögunum undir regnhlíf Bandalagsins. Á þeim tíma teljum við að það hafi verið sameiginlegur skilningur að listamönnum með óreglulegar tekjur væri heimilt að standa skil á greiðslum í sjóðinn, þótt engar eða minni tekjur lægju þar að baki. Nú standa mál þannig að FÍH hefur tekið að sér að reka mál fyrir dómi, sem myndi geta hnekkt niðurstöðu sjóðsstjórnarinnar í máli tiltekins félagsmanns þess félags. Einnig er í undirbúningi að formenn listamannafélaganna fundi með fulltrúum sjóðsstjórnarinnar. Loks má geta þess að formaður FÍH hefur tekið sæti í starfshópi sem undirbýr nýja stefnumótun fyrir BHM og mun þar halda fram sértækum þörfum félaga listamannafélaganna. Gert er ráð fyrir að fjallað verði um tillögu hópsins á framhaldsaðalfundi BHM 9. sept. nk.

 

IHM – Innheimtumiðstöð rétthafa

Í apríl sl. framkvæmdi fyrirtækið Maskína viðamikla könnun fyrir IHM þar sem kannað var umfang eintakagerðar til einkanota meðal Íslendinga. Könnunin er gerð til að fylgja eftir fyrri könnun, sem framkvæmd var í maí 2018 og er hún að norskri fyrirmynd eins og sú fyrri. Ástæður þess að ný könnun var sett af stað má rekja til þess að niðurstöður þeirrar fyrri þóttu ekki í samræmi við íslenskan veruleika og samþykkti fulltrúaráð IHM því að láta framkvæma nýja könnun. Hún hafði að geyma 23 spurningar sem skiptust þannig:

 1. a) 1-7 um hljóð- og hljóðverk, t.d. tónlist, útvarpsdagskrá, hljóðbækur etc.
 2. b) 8-16: um kvikmyndir, sjónvarpsefni og annað myndefni, sem nálgast má af Internetinu, hörðum drifum, geisladiskum, DVD-diskum eða af tölvuskýi
 3. c) 17-23: um texta og myndir, t.d. úr bók, tímariti/vikutímariti, dagblaði, netmiðli, öðrum stöðum á netinu, nótnablöðum, söngtexta eða örðum tegundum útgefinna texta.

Það voru 1562 sem fengu könnunina og var svarhlutfallið misjafnt eftir spurningum, en talið að það hafi verið tæplega 92% að meðaltali. Þegar niðurstöðurnar lágu fyrir var ljóst að þær voru ekki til að leysa ágreining um hlutfallsskiptingu rétthafagreiðslna, sem er orðinn ansi langvinnur og erfiður úrlausnar, svo líkurnar aukast á því að kalla verði saman gerðadóm til að skera úr um skiptingu greiðslnanna. Til glöggvunar þá eru verkefni IHM skv. gildandi samþykktum eftirfarandi:

Innheimta, umsýsla og úthlutun fjármuna á grundvelli þeirra fjárhagslegu réttinda sem undir samþykktir þessar falla eða hafa verið framseld IHM með samkomulagi við aðra rétthafa en sem aðild eiga að IHM, nánar tiltekið er um eftirfarandi fjárhagsleg réttindi að ræða: a) Bætur vegna eftirgerðar verka til einkanota skv. 3. mgr. 11.gr. höfundalaga nr. 73/1972. b) Endurvarp á óbreyttu útvarps- og sjónvarpsefni til almennings um kapalkerfi samtímis hinni upphaflegu útsendingu sbr. 23. gr. a. í höfundalögum nr. 73/1972. c) Ólínulegt endurvarp útvarps- og sjónvarpsefnis til almennings, þ.m.t. vegna heimildar til að nálgast verndað efni á mismunandi tímum og með mismunandi móttökutækjum. d) Endurnot og endurútsendingar eldra efnis úr safni útvarpsstöðva sbr. 23. gr. b höfundalaga nr. 73/1972. e) Önnur innheimta og umsýsla fyrir aðildarfélög IHM og/eða aðra rétthafa, sem samtökunum hefur verið falið með sérstökum samningum þar að lútandi.

Samkvæmt gildandi hlutfallsskiptingu tekur FLÍ á móti 2,5% heildargreiðslna f.h. félagsmanna FLÍ. Þeim fjármunum er svo úthlutað skv. auglýsingu til þeirra leikstjóra sem gera tilkall til greiðslna. Við síðustu tvær útborganir hefur IHM haldið eftir 20% af greiðslunum í von um að samið verði um nýja hlutfallsskiptingu. Stjórn FLÍ taldi skynsamlegt að bíða með að auglýsa eftir kröfum frá félagsmönnum sínum þar til heildargreiðsla hefði borist. Nú er ljóst að það dregst enn lengur en ráð hafði verið fyrir gert, sem kallar á það að stjórn FLÍ auglýsi eftir umsóknum frá þeim rétthöfum, sem eiga tilkall til greiðslna vegna 2017 og 2018. Það verður gert í framhaldi af þessum aðalfundi.

 

 

 

Sviðslistasamband Íslands

Eftir covid-19 faraldur og samkomubann, voru áhöld um það hvort halda ætti Grímuhátíð í vor, af augljósum ástæðum. Fresta hafði þurft nokkrum fjölda frumsýninga auk þess sem meðlimir í Grímunefndinni náðu ekki að sjá allar sýningarnar fyrir samkomubann. Loks var ákveðið að halda hátíðina og veita Grímuverðlaun 2020, en sýningarnar í „pottinum“ voru mun færri en stefnt hafði verið að, þær einskorðuðust við þær sýningar sem meirihluti nefndarinnar hafði náð að sjá. Hátíðin var haldin 15. júní sl. og var hún með nokkuð öðru sniði en vanalega, t.d. fengu Heimilistónar það hlutverk að tengja saman atriðin og kynna nánast öll verðlaunin, fyrir vikið þéttist dagskráin og varð heilsteyptari. Grímunefndinni var boðið í teiti á vegum SSÍ 5. júní og henni þakkað fyrir störfin, ný Grímunefnd hefur svo verið valin til að sinna verkefninu fyrir leikárið 2020 – 2021. Innan SSÍ stendur nú yfir vinna við endurskoðun fyrirkomulags Grímunnar, svo vænta má frekari breytinga á hátíðinni næsta vor.

 

BÍL – Bandalag íslenskra listamanna

Samstarf fimmtán fagfélaga listamanna innan BÍL hefur litast mjög af covid-19 faraldrinum, en þó hefur stjórn hist á reglulegum fundum. Meðal þess sem BÍL hefur sinnt á starfsárinu er samtalið við stjórnvöld um covid-19 áhrifin og einnig samtalið við Hagstofu Íslands um tölfræði menningar og lista. Það verkefni var sett á laggirnar af stjórnvöldum með sáttmála núverandi ríkisstjórnar. Þeim sem starfa í lista- og menningargeiranum finnst verkinu hafa miðað nokkuð hægt, en 5. júní sl. barst greinargerð frá Hagstofunni með upplýsingum um stöðu verkefnisins. Þar kemur fram hversu umfangsmikið og flókið verkefnið er í raun, en jafnframt að upplýsingar innan úr geiranum sjálfum skipti verulegu máli í framvindu þess. Það er því mikilvægt að halda góðum tengslum við Hagstofuna í þessu viðamikla og mikilvæga verkefni. Hér er einnig rétt að geta um listaþing, sem BÍL gekkst fyrir í Hörpu 11. janúar sl. þar sem fjallað var um „Tungutak listarinnar og tungutakið um listina“. Var málþingið vel sótt og ágætar umræður urðu um málefnið, sérstaklega skemmtilegt var að heyra listamenn úr ólíkum listgreinum bera saman umfjöllun um greinarnar í fjölmiðlum og var það mál manna að gagnlegt væri að skiptast á skoðunum innanvert í listageiranum í tiltölulega öruggu rými.

 

Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista

Eins og fram kemur hér að framan þá náðist sá árangur í nýjum sviðslistalögum að ráðherra er gert skylt að stofna Kynningarmiðstöð sviðslista, en í ársskýrslu stjórnar FLÍ var farið yfir stöðu mála eftir að tveir starfshópar höfðu freistað þess að móta stefnu um miðstöðvar lista og hönnunar án sýnilegs árangurs. Hefur Sviðslistasamband Íslands haft forystu við að þrýsta á ráðuneytið um stofnun miðstöðvarinnar og er að vænta frekari frétta af málinu þegar lögin hafa gengið í gildi 1. júlí nk.

 

Menningarsjóður

Frá því í október 2019 hefur einungis einn félagi hlotið styrk úr Menningarsjóði félagsins, Andrea Vilhjálmsdóttir. Stjórn Menningarsjóðsins ákvað að auglýsa enga úthlutun sl. vor vegna covid-19, enda ekki líklegt að nokkrir félagar hyggi á ferðalög fyrr en með haustinu. Ekki var heldur úthlutað ferðastyrkjum úr Talíu á tímabilinu.

 

NSIR og norrænt menningarsamstarf

Áform voru uppi um að formenn systursamtaka FLÍ hittust á fundi í Osló í júní, en ekkert varð af því vegna heimsfaraldursins og til athugunar er að hittast með haustinu. Annars er það að frétta af norrænu menningarsamstarfi að það hefur stöðvast að miklu leyti vegna faraldursins og munu Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin taka afleiðingarnar og möguleg úrræði til umfjöllunar í haust. FLÍ mun fylgjast vel með því sem þar verður ákveðið, m.a. í tengslum við rekstur Norrænu residensíunnar í Róm, Circolo Scandinavo, sem tæmdist í mars sl. og hyggst ekki taka á móti listamönnum á ný fyrr en í haust. Rekstrarstaða residensíunnar verður því ekki ljós fyrr en með haustinu.

 

Skrifstofa FLÍ

Félagið leigir skrifstofuaðstöðu af Félagi íslenskra leikara að Lindargötu 6, en í ljósi þess hversu lítið aðstaðan nýtist félaginu hefur það tíðkast að leigja hana út til sviðslistamanna sem vantar vinnuaðstöðu, með það í huga að lækka rekstrarkostnað félagsins. Leikhópurinn Sómi þjóðar hefur leigt aðstöðuna síðustu mánuði og mun gera það áfram út árið.

 

Starfsáætlun 2020 – 2021

 • Stjórn setur sér starfsreglur, skiptir með sér verkum og deilir ábyrgð af starfinu. Slíkar reglur gætu m.a. kveðið á um dagskrá og fjölda stjórnarfunda, utanumhald stjórnarsamþykkta, þátttöku varamanna í stjórnarstörfum, skil á upplýsingum um einstaka þætti starfsins og reglulegar upplýsingar til félagsmanna um það helsta í starfinu s.s. upplýsingar um samningsbundnar launahækkanir.
 • Endurnýja heimasíðu félagsins og auka umferð um hana, m.a. með því að miðla þar upplýsingum um störf stjórnar og hvetja félaga til að uppfæra upplýsingar um sig á rafrænu félagatali. Einnig að virkja félaga til að deila skoðunum sínum og áhugaverðu efni á fb-síðu félagsins.
 • Halda skrá yfir verkefni félagsmanna hjá samningsaðilum FLÍ, með það að markmiði að tryggja samningsbundin réttindi og skil á félagsgjöldum, sem standa undir rekstri FLÍ.
 • Vinna upplýsingar fyrir leikstjóra sem kjósa að starfa sem verktakar, þar sem fram koma hlutfallstölur sem rétt er að miða við þegar verktakaálag er reiknað, ásamt áminningu um að standa skil á gjöldum til FLÍ til varðveislu félagsréttinda.
 • Samtal við yngri félaga í FLÍ um störf og starfskjör leikstjóra, aðstoðarleikstjóra og dramatúrga með það að markmiði að styrkja kjörin og auka fagmennsku í listgreininni.
 • Kanna áhuga félagsmanna á frekara samtali um fagmennsku í leikstjórn og í sviðslistum almennt, t.d. með því halda úti virkum hópum á samfélagsmiðlum eða með málþingum, mögulega í samstarfi við stofnanir í geiranum.
 • Hefja viðræður við Sjálfstæðu leikhúsin og Bandalag íslenskra leikfélaga um launaviðmið og önnur starfskjör leikstjóra.
 • Gera könnun á eftirlaunastöðu félagsmanna og lífeyrisréttindum, leita eftir samstafi við önnur stéttarfélög listamanna t.d. FÍL, FÍH og SÍM. Verkefnið gæti mögulega hentað sem samstarfsverkefni undir hatti BÍL.
 • Kanna leiðir til að tryggja kjör og réttindi erlendra leikstjóra sem ráðnir eru til starfa hjá íslenskum leikhússtofnunum, t.d. með því að útbúa bréf með útdrætti um helstu samningskjör og senda þeim. Einnig með samtali við systurfélög á Norðurlöndunum.

 

ÁRSSKÝRSLA STJÓRNAR BÍL STARFSÁRIÐ 2019

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna starf og trúnaðarstörf

Sjórn Bandalags íslenskra listamanna hélt 10 stjórnarfundi á árinu. Stjórn BÍL er skipuð formönnum aðildarfélaga bandalagsins. Eftirtalin skipuðu stjórn BÍL í umboði síns félags á árinu og í kjölfarið er listi þeirra einstaklinga sem sinntu trúnaðarstörfum fyrir Bandalagið á liðnu ári.

Karl Kvaran, formaður Arkitektafélags Íslands – AÍ (tók við af Helga Steinari Helgasyni í upphafi árs)

Katrín Gunnarsdóttir, formaður Danshöfundafélags Íslands – DFÍ

Varamaður: Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir

Gunnar Hrafnsson, formaður Félgs íslenskra hljómlistamanna –FÍH

Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara – FÍL

Irma Gunnarsdóttir, formaður Félags íslenskra listdansara – FÍLD

Varamaður: Guðmundur Helgason / Anna Norðdahl

Hallveig Rúnarsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna – FÍT (tók við af Hlín Pétursdóttur Behrens á vormánuðum)

Sigríður Rósa Bjarnadóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna – FK (tók við af Fahad Jabali á miðju ári)

Varamenn: Anna Þóra Steinþórsdóttir / Jóhannes Tryggvason

Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félag leikskálda og handritshöfunda – FLH

Varamaður: Huldar Breiðfjörð

Bragi Valdimar Skúlason, formaður Félag tónskálda og textahöfunda – FTT

Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands – RSÍ

Varamaður: Vilborg Davíðsdóttir

Anna Eyjólfsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna – SÍM

Varamaður: Starkaður Sigurðsson

Dagur Kári Pétursson, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra – SKL

Varamaður: Ása Helga Hjörleifsdóttir

Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður Tónskáldafélags Íslands – TÍ

Varamaður: Þuríður Jónsdóttir

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Félags leikstjóra á Íslandi – FLÍ (tók við af Páli Baldvini Baldvinssyni á haustmánuðum)

Rebekka Ingimundardóttir, formaður Félag leikmynda og búningahöfunda – FLB

 

Margrét Örnólfsdóttir hefur gengt starfi ritara stjórnar, Gunnar Hrafnsson hefur sinnt stöðu gjaldkera. Lúðvík Júlíusson hefur séð um bókhald Bandalagsins og endurskoðandi er Helga Þorsteinsdóttir. Skoðunarmenn reikninga 2019 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.

 

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (janúar 2020)

 

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Rvk.

Áheyrnarfulltrúi: Erling Jóhannesson

Varamaður: Anna Eyjólfsdóttir

 

Fulltrúar BÍL í faghópi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs

Formaður: Pétur Grétarsson, tónlistarmaður

Varamaður: Helga Þórarinsdóttir, tónlistarmaður

Magnús Þór Þorbergsson, sviðslistamaður

Varamaður: María Ellingssen, leikari/leikstjóri

Sólveig Pálsdóttir, rithöfundur

Varamaður: Sigurlín Bjarney Gísladóttir, rithöfundur

Sigtryggur Baldvinsson, myndlistarmaður

Varamaður: Ástríður Magnúsdóttir, myndlistarmaður

Kvikmyndaráð

Bergsteinn Björgúlfsson – 29.11.19–29.11.23

Varamaður: Sigríður Rósa Bjarnadóttir

 

Fulltrúaráð Listahátíðar

Erling Jóhannesson

 

Stjórn listamannalauna

Hlynur Helgason

Varamaður: Hlín Gunnarsdóttir

 

Stjórn Skaftfells

Anna Eyjólfsdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Fagráð Íslandsstofu

Erling Jóhannesson

List án landamæra                 

Margrét Pétursdóttir

 

Listráð Hörpu

Ásmundur Jónsson

 

Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis

Páll Baldvin Baldvinsson – 09.10.17

Varamaður: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

 

Höfundarréttarráð

Erling Jóhannesson – 01.08.18–01.08.22

                                                     

 Sérfræðinganefnd KKN

Signý Pálsdóttir                  (verkefni)                  jan. 2017–jan. 2020

Sigtryggur Magnason (ferðastyrkir)                   jan. 2017–jan. 2020

 

Stjórn Barnamenningarsjóðs

Áslaug Jónsdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Starfshópur um málverkafalsanir

Jón B. Kjartanss. Ransu ­ – okt. 2014

Varamaður: Kolbrún Halldórsdóttir

                                   

Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

Erling Jóhannesson

 

List fyrir alla – samráðshópur                  

Hildur Steinþórsdóttir

Felix Bergsson

 

List fyrir alla – valnefnd                 

Agnes Wild – vor 2017

Áslaug Jónsdóttir

Varamaður: Benedikt Hermannsson                 

 

Austurbrú – fagráð menningar                 

Hlín Pétursdóttur Behrens – maí 2019.

 

Menningarsjóður Guðjóns Samúelssonar

Erling Jóhannesson

 

Nordisk kunstnerrad

Erling Jóhannesson

Starfsemi stjórnar

 

Stjórnin hélt 10 stjórnarfundi á árinu 2019. Flestir fundir stjórnar eru haldnir í Iðnó en stjórn hefur á þessum vetri haldið reglulega fundi „heima í héraði“ mismunandi aðildarfélaga. Það gefur félögunum bæði tækifæri á kynnast starfsemi einstakra félaga betur og eins að sjá hvernig félögin hafa byggt upp starfsumhverfi sitt og við hvað þau eru að fást frá degi til dags.

Einn stjórnarfundur var opinn fundur þar sem farið var yfir, þá nýsamþykkta, tilskipun Evrópusambandsins um breytingar á höfundaréttarlögum. Á fundinn var boðið bæði sérfræðingi í höfundarétti og fulltrúum stjórnmálaflokka, bæði þeim sem höfðu lýst yfir ánægju með niðurstöðu Evrópusambandsins sem og fulltrúum flokka sem lýst höfðu yfir andstöðu og því að þeir myndu leggjast í málþóf ef og þegar tilskipunin yrði innleidd. Þetta mál hefur verið mikið báráttumál ýmissa félaga sem fara með höfundarétt sinna félagsmanna og því mikilvægur áfangi. Áhyggjur pólitískra flokka sem fullyrða að þetta muni hamla lýðræðislegri umræðu eða jafnvel þrengja að málfrelsi, vísa listamenn til föðurhúsanna – að greiða fyrir afnot af höfundavörðu efni listamanna er jafnsjálfsögð krafa og að greitt sé gjald fyrir afnot af auðlindum, og stjórnmálhreyfingar sem berjast fyrir sjálfsögðu auðlindagjaldi en gegn jafnsjálfsögðum höfundréttargreiðslum geta ekki talist trúveðug eða samkvæmar sjálfum sér. Almennt er það áhugi forseta að opnir fundir stjórnar um ýmis mál megi vera fleiri og tíðari.

Einn opinn fundur var í samstarfi við Rannís um sjóðakerfi Evrópu, Creative Europe. Listþing stóð til að halda í haust en vegna skipulags og tímaskorts frummælenda frestaðist það fram yfir áramót og verður því af þessum sökum gerð skil að ári. Æskilegt væri að haustþing væri á hverju ári, þau mega vissulega vera misumfangsmikil en fullt tilefni er til að hittast öll reglulega og hlusta hvert á annað.

 

Unnið hefur verið að því að útbúa starfsreglur stjórnar og er þeirri vinnu að ljúka núna þessa dagana. Það er gert til að skýra hlutverk bæði stjórnar og ekki síður forseta, svo umboð hans sé skýrara og styrkara. Það var á starfsáætlun síðasta árs að skýra verksvið stjórnar og forseta svo ákvarðanir og gjörðir forseta hvíldu á tryggara umboði.

 

Samtal við ríkisvaldið

 Samtal við ríkisvaldið er vissulega fyrirferðamesta verkefni BÍL og snýst um margþætta hluti, bæði á vettvangi samráðsgáttar og beint samtal við ráðuneyti menningarmála um hvaðeina sem lýtur að umhverfi listgreinanna. BÍL skilar inn umsögnum um fjámálaáætlun og fjárlagafrumvarp og í umsögnum um bæði þessi lykilverkfæri stjórnsýslunnar hamrar Bandalagið á grunnþætti starsfumhverfis listamanna sem er starfslaunaumhverfið. Starfslaunin eru grunnþáttur í launa- og starfskjörum sjálfstætt starfandi listamanna. Kjörin sem starfslaunin mynda eru ekki eingöngu talningin á krónunum sem detta í vasa þeirra sem hljóta náð fyrir augum úthlutunarnefnda, heldur eru þessi kjör nánast eins og glerþak yfir öllum samningum við listamenn. Jafnvel stofnanir sem heyra beint undir rekstur hins opinbera hika ekki við að bjóða listamönnum upp á kjör starfslaunaumhverfisins, því er gríðarlega mikilvægt að brjóta þetta glerþak.

Í lok árs var samráðsfundur stjórnar BÍL og ráðherra. Á fundinum lagði BÍL fram skjal sem byggði á vinnu stjórnar frá hausti 2018 um eflingu starfsalauna og verkefnasjóða. Þetta var meginmál fundarins, en stjórnin hafði sammælst um að leggja mestan þunga á þessi mál. Niðurstaða fundarins varð að ráðuneytið skyldi hefja vinnu við að efla, í fyrstu umferð, starfslaunin og starfshópi með fulltrúum BÍL og embættismönnum ráðuneytisins falið að leggja fram tilllögur á grunni forvinnu BÍL. Sú vinna er núna í gangi.

Önnur mál sem tekin voru upp við ráðherra og vert að velta vöngum yfir voru t.d. keðjuábyrgð stofnana og sjóða sem njóta opinbers fjármagns, s.s. eins og RÚV, sem útvistar verkefnum og brýtur svo samninga á listamönnum með því að gangast ekki við ábyrgð á samningum verktaka sinna. Þetta er alþekkt aðferð og orðin æ algengari við framleiðslu menningarefnis. Sambærilegt er að FÍL hefur kallað eftir ábyrgð Reykjavíkurborgar í samningum við dansara við Borgarleikhúsið, en þar vísar borgin á Leikfélag Reykjavíkur. Er það krafa allra listamanna að stofnanir og verkefni sem að svo stórum hluta eru fjármögnuð af opinberu fé virði samninga. Á nýafstöðnum formannafundi norrænna systursamtaka okkar kom fram að þessi aðferðarfræði er ekki bundin við Ísland. Föstum samningum listamanna við stofnanir hefur fækkað verulega, lausir samningar og tímabundnar ráðningar eru orðnar mun algengari með tilheyrandi upplausn í samningum og réttindum.

Listdansnám hefur verið í upplausn vegna skorts á lagaramma utan um framkvæmd þess. Fjármagnið sem listdansskólarnir fá frá ráðuneytinu vegna samninga um dansnám á framhaldsskólastiginu ber uppi rekstur þeirra að mestu leyti, og gerir þeim kleift að halda úti grunnnáminu. Verði breyting á því fyrirkomulagi er grunnnámið í hættu og framtíð dansnáms gæti bókstaflega fjarað út. Unnið er, í samtali skólana og ráðuneytisins, að lausn á þessu. Á sama tíma varð Dansverkstæði að veruleika og hefur íslenskur listdans með því eignast vísan samastað, ánægjulegur áfangi og sú uppbygging, ásamt vonandi lausn álistdansnáminu, mun verða listdansi á Íslandi mikil lyftistöng, svo ekki sé talað um ef fljótlega verður farið að huga að danshúsi.

Málefni Listskreytingasjóðs hefur valdið listamönnum og þá sérstaklega myndlistarmönnum þykkju og þunga. Í síðustu fjárlögum var framlag til Listskreytingasjóðs þurrkað út. Vægast sagt vanhugsuð hugmynd og lítilsvirðing við stóran hluta myndlistararfs þjóðarinnar. BÍL mótmælti þessu í erindum til ráðuneytisins og í umsögnum. Hafi það verið hugmynd ráðuneytisins að breyta fyrirkomulagi Listskreytingasjóðs um innkaup á myndlist í opinberar stofnanir þá þarf að gera það með einhverjum hætti, í það minnsta þarf ríkið að hafa skilningi á eigin fyrirkomulagi. Því við þessa útstrikun á fjárlögum var á einu augabragði eitt stærsta listaverkasafn þjóðarinnar eftirlits- og umsýslulaust. Listaverk sem eru í eigu ríkisins og í umsýslu sjóðsins hanga í mörgum stofnunum víða um landið og í fórum þess má finna verk eftir helstu myndlistarmenn þjóðarinnar áratugi aftur í tímann. Þessi umgengni er vanvirðing og niðurlægjandi. SÍM og ráðuneytið hafa náð saman um að fjármagna í það minnsta umsýslu og skráningu.

 

Samráðsgátt og umsagnir

 Að viðbættum umsögnum um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp veitti BÍL umsagnir um nokkurn fjölda mála á árinu 2019. Varðandi mál sem koma beint að starfsumhverfi listamanna hefur það verið vinnuregla að vera í nánu samtali við þá listgrein sem mest á undir í viðkomandi lagabreytingum, s.s eins og við endurskoðun sviðslistalaga sem samþykkt voru nýlega og eða frumvarp um bókaútgáfu og frumvarp til þingsályktunar um eflingu íslenskunnar. Í grunninn er útgangspunktur BÍL að verja hagsmuni listamanna í viðkomandi frumvörpum sem og að standa vörð um orðfæri og stöðu listarinnar. Þessar umsagnir eru aðgengilegar á vef Alþingis. Það er tilefni til að benda á að t.d. í tilfelli þingsályktunar um eflingu íslenskunnar er sneitt fram hjá listrænni og skapandi umgengi við tungumálið. Þrátt fyrir ábendingu frá BÍL var engu breytt í þeim texta en áhersla ályktunarinnar er að ungt fólk þurfi að ná tökum á lestri á skýrslum og rannsóknartextum og færni í stofnanamáli. Á meðan við vitum að lifandi tunga snýst um að hafa vald á fjölbreytileika tungumálsins og íslenskunni sem skapandi verkfæri – að færa allan skilning svona upp að yfirborði tungumálsins grynnkar skilning og gerir tungumálið fátæklegra. Þetta er eitt lítið dæmi um þá baráttu sem listamenn verða sífellt að heyja.

 

Miðstöð menningarmála

 Í upphafi síðasta árs skipaði Menningar- og menntamálaráðherra starfshóp um stofnun Miðstöðvar menningarmála. Eins og fram kom á aðalfundi 2019 þurfti BÍL að beita sér til að fá aðgang að þeirri vinnu. Á þeim tímapunkti stóð til að kanna grundvöll fyrir stofnun miðstöðvar menningar og listgreina, en nálgunin var framhald af hugmyndum um sameiningu kynningarmiðstöðva. Svo yfirgripsmikil stofnun getur ekki verið framkvæmd út frá þröngu sjónarhorni kynningarmiðstöðva og fékk BÍL hópinn stækkaðann til þess að fá víðara sjónarhorn á þessa stofnun eða miðstöð. Í upphafi var kannski ekki alveg ljóst hvert þessi vinna myndi leiða. Niðurstaða vinnunar var síðan kynnt ráðherra síðastliðið haust og þar kom skýrt fram að stofnun sem þessi væri gríðarlega yfirgripsmikil, starf nefndarinnar dró upp mynd af stórum málflokki – sem ef vel ætti að vera krefðist sjálfstæðs ráðuneytis. Útfærsla þessarar stofnunar komst ekki lengra í bili, en þessi vinna skilaði ágætri yfirsýn og hefur verði samtalinu um skipan menningarmála mjög gagnleg. Það er hægt að merkja meiri skilning á þeim fjölbreytileika sem umhverfi listarinnar og menningin endurspeglar. Skilningur á því að akurinn sé víðáttumeiri og fjölbreyttari en svo að hægt sé með einföldum hætti að steypa allt umhverfið í stjórnsýslulegt mót með ákvörðunum ofan frá. Þegar að því kemur að menning og listir eignast sitt sjálfstæða ráðuneyti þarf það að vaxa upp frá grunninum, vera endurspeglun á þessu skapandi umhverfi sem er auðlind framtíðarinnar – grundvöllur atvinnulífs í sjálfbærum samfélögum framtíðarinnar.

Það sem eftir stendur af ákvörðunum í kjölfar þessarar vinnu um miðstöð menningarmála, og komið er í framkvæmd, er starfshópur um eflingu og endurskoðun starfslauna. Einnig er á borði ráðuneytisins hugmynd um samstarfsvettvang skapandi greina sem er hugmynd um vettvang atvinnulífs og skapandi greina. Ekki er vitað á þessari stundu hvernig það verkefni er hugsað.

En aðeins um form samtalsins við hið opinbera. Þetta reynir oft á þolrifin og virkar seint og þungt í vöfum. Við búum við kerfi þar sem búið er að koma fyrir dreka á gullforðanum sem gegnir nafninu LOF, sem er stytting á Lög um opinber fjármál. þessum dreka verður ekki haggað nema eftir mjög fyrirfram skýrum leikreglum. Jafn mikilvægt og það er að kunna skil á þeim leikreglum, þá er ekki síður mikilvægt að vernda orðfæri listarinnar og skapa því stöðu sem sjálfsögðu verkfæri í umhverfi stjórnsýslunnar. Það er jú fyrir listina sem við erum að berjast.

Reykjavíkurborg

 Eins og oft hefur komið fram hefur samtal borgarinnar og listamanna verið með miklum ágætum. BÍL hefur þó ítrekað haldið fram þeirri kröfu að fá aftur tvo áheyrnarfulltrúa í Menningar- íþrótta- og tómstundaráði sem var fyrirkomulag síðastu kjörtímabila. Þessari kröfu hefur verið fylgt eftir á samráðsfundum og í erindum inn á borð nefndarinnar.

Borgarstjóri og forseti BÍL undirrituðu nýjan samstarfssamning til þriggja ára á vormánuðum á sömu nótum áður. Ekki hefur tekist að fá upphæðina hækkaða á samningnum umfram vísitölu.

Samráðsfundur var haldinn með borginni og stjórn BÍL að venju í Höfða 4. desember. Þar reifaði stjórn BÍL þau atriði sem á umhverfi listanna hvíla. Fyrirkomulag úthlutana er til mikillar fyrirmyndar hjá Reykjavíkurborg, þar sem BÍL skipar faghópinn sem fer með ráðgefndi hlutverk um úthlutun styrkja til verkefna, fyrirkomulag sem nýtur trausts þvert á pólitískar línur. Auglýst var eftir umsóknum í Borgarhátíðarsjóð og nefnd skipuð til að fara yfir þær umsóknir. Í upphafi var ekki hægt að skilja það upplegg öðruvísi en svo að faghópur BÍL hefði ábyrgð á því verkefni en þegar til kom varð sú nefnd skipuð pólitískum fulltrúum, fulltrúa verslunar og þjónustu, fulltrúa ferðaþjónustunnar og svo einum fulltrúa BÍL. Það er full ástæða til að hafa af þessu nokkrar áhyggjur því þær hátíðir sem sækja um að fá stöðu sem borgarhátíðir eru nánast undantekningarlaust menningar- og listahátíðir. Áhyggjur segi ég, því þetta snýst um trúverðugleika borgarinnar sem menningarborgar – verði sjónarmið verslunar og ferðamennsku að mælikvarða fyrir gildi listahátíða er hætta á því að trúverðugleiki borgarinnar sem raunverulegs suðupottar listsköpunar þynnist út.

BÍL lagði áherslu á endurnýjun menningarstefnu borgarinnar. Menningarstefna Reykjavíkurborgar, sem rennur út á þessu ári, hefur reynst gott verkfæri í samskiptum og samtali listamanna og embættismanna. BÍL lýsti yfir ánægju með þessa framsetningu menningarstefnunnar og framkvæmdaáætlunar sem byggir á henni. Menningarstefnan er hugmyndafræðilegri, fyrir vikið langlífari og nokkurskonar manifesto um stöðu listgreina í samfélagsgerðinni. Það væri nánast hægt að framlengja stefnunni með endurskoðun, það er mikilvægt að hún sé í gildi og BÍL lýsti yfir vilja til að taka þátt í því samtali.

Kvikmyndaborgin Reykjavík er kannski öllu fyrirferðameira hugtak þessi misserin en t.d. Bókmenntaborgin eða Tónlistarborgin. Það helgast af því að fyrir dyrum eru Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, næstkomandi haust, samstarfsverkefni Menntamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Það er ástæða til að nefna það að á sama tíma skuli starfsemi Bíó Paradísar vera í hættu vegna húsnæðismála. Bíó Paradís er dæmi um verkefni sem sprottið er af frumkvæði eldhuga í “bransanum”, vettvangur þar sem listsköpun og menning hefur náð að tengja saman ólíka hópa, fyrir utan að verða lykill umhverfis grasrótar íslenskrar kvikmyndagerðar. Menningarumhverfi er mjög viðkvæmt. Þegar við höfum náð ákveðnum árangri á einhverju sviði, lyft gólfinu í einhverri grein er mikilvægt að verja það. Í stærri samfélögum má reikna með því að aðrir geti tekið við keflinu eða fyllt í tómið sem mögulega myndast hætti starfsemi einhverra hluta vegna. En vegna smæðar og hversu árangur er oft bundinn einstaklingum og eldhugum í ákveðnum greinum er hættan meiri og skaðinn getur haft alvarlegri afleiðngar, við verðum því að verja árangur okkar.

Hagtölur

Í stjórnarsáttmála ríkistjórnar var ákvæði um skráningu hagvísa lista og skapandi greina, sem hefur verið mikið baráttumál BÍL til margra ára. Sú vinna er hafin hjá Hagstofu Íslands og eignuðumst við okkar fyrstu opinberu hagtölu síðastliðið haust, um fjölda starfa í listgreinum, beinum og afleiddum. Forseti hefur flaggað hagtölunni við hvert tækifæri eins og stolt foreldri með ungbarnið sitt og fyrstu tönnina. Hagfræðin er gríðarlega gott verkfæri til samtals út fyrir akur okkar listamanna en við vitum að hagtölur mæla eingöngu afleiður listsköpunar. Á samráðsfundum BÍL við Hagstofuna hefur það verið áhersluatriði að greiningin og mælingin nái niður í grunninn – það er einfalt að ná til stofnana, ná utan um sölu og dreyfingu, en til þess að tölurnar séu lýsandi fyrir umhverfið í heild þarf að ná til listsköpunarinnar sjálfrar sem að langmestu leyti er unnin af einyrkjum, utan við strúktúr stofnana og framleiðenda.

Skattlagning höfundagreiðslna

 Sá áfangi náðist á síðastliðnu ári að skattlagning höfundréttargreiðslna flokkast hér eftir sem fjármagnstekjur og bera því lægri skatt en almennar tekjur. Barátta sem lengi hefur verið háð og gleðilegur áfangi.

Bakland LHÍ

 Stjórn BÍL barst á árinu beiðni um að ganga til liðs við Bakland Listaháskóla Íslands. Að svo stöddu var ákvörðun stjórnar að sitja hjá þar sem flest aðildarfélögin eiga í kjarabaráttu við stjórn skólans og var það álit stjórnar að þarna stönguðust á hagsmunir – að BÍL í umboði aðildarfélaga sinna væri þannig komið beggja vegna borðs. BÍL hefur líka verið þeirrar skoðunar að rekstrarform LHÍ sé bókstaflega rangt! Að eini listaháskólinn á Íslandi skuli vera settur út fyrir garð í samfélagi íslenskra háskóla með allt öðru rekstrarfyrirkomulagi og ríkið hafni með því rekstrarábyrgð íslensks listnáms á háskólastigi.

Lokaorð

 Við erum að upplifa nokkuð sérstaka tíma. Í fyrsta sinn er meirihluti landsmanna fylgjandi starfslaunum listamanna, samkvæmt mælingum, og í sumum hópum mælist mikill meirihluti jákvæður í garð listamannalauna. Þetta er vissulega jákvætt fyrir listamenn og störf þeirra eru að verða stærri og sjálfsagðari hlutur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Það er vissulega arfleið baráttu frumkvöðla, fyrri kynslóða listamanna sem ruddu braut, menntunar og sjálfsmyndar listarinnar í nýju samfélagi. En við höfum eignast nýja kynslóð sem hefur tekið við keflinu full sjálfstrausts og örlát á listfengi sitt og hefur gefið okkur nýja og sterka rödd í alþjóðlegu umhverfi listarinnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ársskýrsla FÍLD starfsárið 2019-2020

Stjórn FÍLD:

Formaður: Irma Gunnarsdóttir.
Gjaldkeri: Guðmundur Helgason.
Ritari: Guðmunda Pálmadóttir.
Meðstjórnandi: Bryndís Einarsdóttir. Meðstjórnandi: Ingunn Elísabet Hreinsdóttir. Varamaður: Valgerður Rúnarsdóttir. Varamaður: Sigrún Ósk Stefánsdóttir.

Bryndís flutti erlendis í september 2019. Sigrún Ósk hefur gengt starfi meðstjórnanda síðan.

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum stofnunum/bandalögum:

Bandalag Íslenskra Listamanna: Irma Gunnarsdóttir.
Íslenski Dansflokkurinn: Anna Norðdahl. Varamaður: Guðmundur Helgason. Sviðslistasamband Íslands: Irma Gunnarsdóttir. Varamaður: Guðmundur Helgason. Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík: Irma Gunnarsdóttir. Varamaður: Ólöf Ingólfsdóttir. Gríman – Íslensku Leiklistarverðlaunin: Einn fulltrúi í Grímunefnd.

Aðalfundur FÍLD var haldinn 27.janúar 2019. Irma Gunnarsdóttir var endurkjörin sem formaður. Fráfarandi stjórnarmeðlimir voru Hildur Ólafsdóttir ritari, Anna Norðdahl meðstjórnandi og Guðrún Selma Sigurbjörnsdóttir varamaður. Núverandi stjórn þakkar þeim fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins.

Stjórn FÍLD fundaði að jafnaði með eins mánaðar millibili á árinu. Utan þess var fjallað um mál sem hæst báru hverju sinni í gegnum tölvupóst, síma og facebooksíðu stjórnar. Stjórn fundaði einnig nokkrum sinnum með skólastjórnendum listdansskólanna, sérfræðingum menntamálaráðuneytisins og skólastjórnendum MH vegna stöðu framhaldsskólastigs í listdansi en samningar vegna kennslu á framhaldsskólastigi eru lausir frá 1.júlí 2020.

Kjaramál dansara og danshöfunda

FÍLD hefur átt í góðu samstarfi við FÍL – stéttarfélag sviðslistafólks síðastliðið ár.     Birna Hafstein formaður FÍL hefur sýnt kjarabaráttu dansara mikinn stuðning á árinu og hefur hún beitt sér af fullum krafti f.h. dansara í kjarabaráttu við ríkið og stofnanaleikhúsin. Einnig má finna fyrir samstöðu með dönsurum meðal sviðslistafólks innan FÍL en til marks um samstöðuna sendi aðalfundur FÍL frá sér ályktun til stofnannaleikhúsanna þar sem krafist er að dansarar og danshöfundar fái greitt fyrir sína vinnu í leikhúsunum skv. lögbundnum kjarasamningum, líkt og aðrar stéttir leikhúsanna.

Sviðslistafélögin FÍLD, FÍL, DFÍ og SL ásamt Dansversktæðinu tóku höndum saman á árinu og mynduðu þrýstiafl til stuðnings kjarabaráttu dansara. Sent var bréf til stjórnenda stofnanaleikhúsanna þar sem þrýst var á um úrbætur og krafist launajafnréttis. Það er óþolandi að danslistarfólk skuli ekki búa við sömu kjör og sambærilegar stéttir í leikhúsunum. Ályktanir og ákall um að dansarar og danshöfundar fái lögbundna kjarasamninga hafa einnig verið sendar til kjara- og mannauðssýslu ríkisins en það er í höndum þeirra að lögbinda kjarasamninga við stofnanaleikhúsin fyrir danslistarfólk. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að samningarnir líti dagsins ljós. Baráttan heldur áfram af fullum krafti. Við krefjumst réttlætis og jafnréttis!

FÍLD á vettvangi BÍL

Formaður FÍLD sækir mánaðarlega stjórnarfundi BÍL og er þar talsmaður listdansmála. BÍL starfar skv. starfsáætlun stjórnar þar sem áhersla er á samtal og samráð um málefni listamanna og listgreina við aðila sem stýra málaflokknum hjá ríki og borg. Samráðsfundur BÍL með menntamálaráðherra og sérfræðingum ráðuneytisins var haldinn í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í lok nóvember og samráðsfundur með borgarstjóra og fulltrúum borgarinnar fór fram í byrjun desember í Höfða. Á báðum þessum fundum vakti undirrituð athygli ráðamanna á bágborinni stöðu listdansnáms í menntakerfinu sem og óviðunandi kjörum danslistarfólks í stofnannaleikhúsunum.

FÍLD hefur unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að vekja athygli ráðamanna á stöðu listdansnáms í menntakerfinu en því miður þokast málin hægt áfram. Á umræddum fundum benti undirrituð á stöðu listdansnámsins í stjórnsýslunni og því hróplega misræmi sem blasir við í styrkveitingum með listnámi frá ríki og borg. Ítrekað hefur FÍLD kallað eftir reglugerð utan um listdansnám skv. aðanámsskrá og var enn og aftur vakin athygli á málinu á báðum þessum fundum. Vegna skorts á lagaumgjörð utan um listdansnám sér borgin sér ekki fært að greiða með grunnnáminu að svo stöddu en borgarstjóri lýsti yfir áhuga á að gera þríhliða samning um kennslu grunnnáms í listdansi með ríki, borg og listdansskólum þegar lagaumgjörð þess efnis kemur frá ríkinu. Málið liggur nú hjá menntamálaráðherra og mun FÍLD halda áfram að ýta á eftir málum.

Á báðum þessum samráðsfundum voru kjör listafólks rædd. BÍL fer fram á að fjöldi starfslauna listamanna verði hækkaður sem og að starfslaunin sjálf verði hækkuð í takt við almenna launaþróun í landinu. Á fundi með borgarstjóra töluðu formenn FÍL og FÍLD fyrir bættum kjörum danslistarfólks. Vakin var athygli á að jafnlaunastefna Reykjavíkurborgar er virt að vettugi í Borgarleikhúsinu þar sem kjör danslistarfólks í Borgarleikhúsinu eru ekki sambærileg kjörum annarra stétta sviðslistafólks í húsinu. Spurningu var varpað fram til borgarstjóra um jafnlaunastefnu borgarinnar og hvort hún eigi ekki við um allar stofnanir borgarinnar ? Borgarstjóri gat ekki svarað f.h. Borgarleikhússins þar sem um sjálfseignastofnun er að ræða sem rekin er af LR en ekki borginni.

 

Þó alltaf megi gera betur þá ber að þakka þau framfaraskref sem tekin eru. Formaður FÍLD þakkaði borginni fyrir stuðning við Dansverkstæðið á árinu og einnig fyrir að gera Reykjavík dansfestival að einni af sex borgarhátíðum Reykjavíkur næstu þrjú árin. Stuðningur borgarinnar í þeim efnum er þakkarverður og til mikilla bóta fyrir sjálfstætt starfandi danslistarfólk.

FÍLD á vettvangi SSÍ

Nokkrir fundir voru haldnir á árinu hjá Sviðslistarsambandi Íslands og mætti formaður á fundina f.h. FÍLD. Skipað var í Grímunefnd á vordögum fyrir yfirstandandi leikár auk þess sem fundað var um framkvæmd Grímunnar og regluverk hennar. Gríman sjálf fór svo fram í byrjun júní með pompi og prakt og var uppskera danslistarinnar ríkuleg.

Frumvarp til laga um sviðslistir var samþykkt á alþingi þann 17.desember. Starfsemi Íslenska dansflokksins er nú loks bundin í lög, bravó!

Formaður FÍLD ásamt formönnum aðildarfélaga SSÍ sátu samráðsfundi á vegum SSÍ á árinu þar sem frumvarp til laga um sviðslistir var rætt. Frumvarpið fór í gegnum nokkrar breytingatillögur þar til að það var að lokum samþykkt á alþingi í lok árs. Með nýju sviðslistalögunum er kominn sambærilegur lagarammi utan um sviðslistir eins og t.d. til er fyrir bókmenntir, myndlist og tónlist. Helstu nýmæli í lögunum er að í fyrsta sinn er lögfest ákvæði um Íslenska dansflokkinn. Það er mikið fagnaðarefni að ný sviðslistalög nái yfir starfsemi Íslenska dansflokksins og er staða dansflokksins nú betur tryggð til framtíðar en áður. Af lögunum er ljóst að litið er svo á að Íslenski dansflokkurinn sé sjálfstæð listastofnun líkt og Þjóðleikhúsið. Vonandi verða lögin til þess að Íslenski dansflokkurinn fái viðunandi vinnuaðstöðu í náinni framtíð. Vonandi verða nýju lögin til þess að danshús rísi á Íslandi í náinni framtíð en lagarammi Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins er áþekkur. Aðstöðumismunur þessara ríkisstofnanna er hinsvegar áberandi mikill.

 

Barnamenningarhátíð 2019                                                                              Árleg hátíðarsýning FÍLD á opnunardegi hátíðarinnar

Félag íslenskra listdansara stóð fyrir hátíðarsýningu í samstarfi við Barnamenningarhátíð þann 9.apríl og var sýningin, líkt og undanfarin ár, liður í opnunardegi hátíðarinnar. Listdansskólum innan FÍLD var boðin þátttaka í sýningunni og var þátttaka skólanna mjög góð en um 250 nemendur tóku þátt í sýningunni. Stjórnendur Barnamenningarhátíðar voru mjög ánægðir með dansviðburðinn í ár sem og undanfarin ár og er óhætt að segja að sýningin sé mikil lyftistöng fyrir skólasamfélag listdansskólanna. Forsvarsmenn Barnamenningarhátíðar hafa óskað eftir áframhaldandi samstarfi við FÍLD vegna komandi hátíðar. FÍLD endurtekur því leikinn, blásið verður til dansveislu á opnunardegi Barnamenningarhátíðar, þann 21.apríl næstkomandi. Stjórnendur listdansskóla eru beðnir um að tilkynna þátttöku skóla á netfangið formadur@dance.is fyrir 25.mars næstkomandi.

Nýstúdent af listdansbraut MH fékk viðurkenningu frá FÍLD fyrir framúrskarandi námsárangur í listdansgreinum
  

Á vordögum fór fram útskrift frá MH að venju. Á undanförnum árum hafa dansnemar listdansskólanna útskrifast þaðan með stúdentspróf af listdansbraut. Fjölmörg fagfélög veita nýstúdentum bókarverðlaun og viðurkenningar fyrir námsárangur á stúdentsprófi og hefur FÍLD nú veitt slík verðlaun í þrígang, við útskriftir á árunum 2017, 2018 og 2019. Það var Rebekka Sól Þórarinsdóttir nýstúdent af listdansbraut MH sem hlaut viðurkenningu FÍLD síðastliðið vor. Fékk hún ævisögu Helga Tómassonar að gjöf fyrir framúrskarandi námsárangur í listdansgreinum og heillaóskir frá félaginu.

Formleg opnun Dansverkstæðisins fór fram 30.ágúst.

Starfsemi Dansverkstæðisins fór vel af stað í nýja húsnæðinu að Hjarðarhaga 47. Formleg opnun fór fram í lok sumars þar sem fjölmargir heiðruðu samkomuna með nærveru sinni, þar á meðal Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. FÍLD færði Dansverkstæðinu ævisögu Helga Tómassonar og blóm í innflutningsgjöf með heillaóskum frá félaginu. Verkefnastjórar Dansverkstæðisins kynntu metnaðarfulla dagskrá vetrarins, boðið var upp á léttar veitingar og í boði var dagskrá með ýmsum dansuppákomum. Opnunarhátíðin heppnaðist mjög vel og er ánægjulegt að sjá starfsemi Dansverkstæðisins blómstra í nýju húsakynnunum.

Framhaldsskólastig í listdansi

Á árinu vann undirrituð að nýjum brautar- og áfangalýsingum fyrir Listdansbraut MH en uppfæra þurfti eldri námslýsingar úr aðalnámsskrá til samræmis við gildandi viðmið hjá Menntamálastofnun fyrir nám á framhaldsskólastigi.

Nýjar brautar- og áfangalýsingar voru unnar fyrir menntamálaráðuneytið og MH í samstarfi við skólastjórnendur listdansskólanna og er almenn ánægja meðal skólastjórnenda hvernig til hefur tekist. Búið er að endurskoða námið og aðlaga það betur að þörfum listdansnema. Nýju náms- og brautarlýsingarnar eru nú í staðfestingarferli hjá Menntamálastofnun en stefnt er að því að hefja kennslu samkvæmt þeim haustið 2020 ef samningar nást við ríkið um kennsluna.

Hvernig samið verðu við listdansskólanna á vordögum 2020 er óljóst að svo stöddu en samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál þarf öll aðkeypt þjónusta ríkisins að fara í opinbert útboð og fellur starfsemi listdansskólanna undir þau lög. Listdansskóli Íslands, Danslistarskóli JSB og Klassíski Listdansskólinn hafa lýst yfir áhuga á að bjóða í námið sameiginlega og hafa listdansskólarnir lagt fram tillögur til ráðuneytisins þess efnis. Tillögurnar eru nú til skoðunar hjá menntamálaráðuneytinu og vonum við að ráðherra taki tillögunum vel. Farið er fram á aukið fjárframlag með náminu en hvernig útboði á listdansnámi verður nákvæmlega háttað veit enginn.

 

Eins og fram hefur komið þá hefur FÍLD gagnrýnt lagaumhverfi listdansnámsins harðlega en formaður skrifaði m.a. grein í Morgunblaðið á haustmánuðum sem varpar ljósi á það misrétti sem listgreinin býr við er kemur að styrkveitingum með náminu frá ríki og borg. Hvernig ráðherra mun bregðast við öllum ábendingunum frá FÍLD verður bara að koma í ljós. Við vonum að hún taki ábendingum okkar vel og leggi sitt af mörkum til að bæta stöðu listdansnámsins í menntakerfinu.

Undankeppni Dance World Cup fór fram á Íslandi í fyrsta sinn þann 30.mars á Stóra sviði Borgarleikhússins

Einn af stærstu dansviðburðum dansnema á árinu var undankeppni Dance World Cup. Þátttakan í keppninni fór fram úr björtustu vonum og var magnað að fylgjast með fjölda dansnema frá dansskólum víðsvegar að af landinu spreyta sig í fjölbreyttum keppnisflokkum keppninnar. Stjórn FÍLD lagði sitt að mörkum og hjálpaði til við undirbúning og skipulag keppninnar en umboðsaðili og aðalskipuleggjandi keppninnar á Íslandi, Chantelle Carey, óskaði eftir aðstoð frá stjórn FÍLD. Keppnin tókst í alla staði vel. Fjöldi íslenskra dansnema náði að vinna sér inn þátttökurétt í aðalkeppninni en ríflega 150 keppendur frá Íslandi tóku þátt í aðalkeppni DWC sem fram fór í Braga í Portúgal síðastliðið sumar. Skemmst er frá að segja að íslensku keppendurnir voru landi og þjóð til sóma og komu reynslunni ríkari heim. Undankeppni DWC í ár fer fram þann 9.febrúar næstkomandi á Stóra sviði Borgarleikhússins og verður gaman að fylgjast með afrekum nemenda á sviðinu í ár. Hlökkum til!

 

SÓLÓ undankeppni Stora Daldansen

fór fram á Nýja sviði Borgarleikhúsins sunnudaginn 20.október

 

FÍLD hefur á undanförnum árum staðið fyrir SÓLÓ undankeppni í klassískum listdansi fyrir aðalkeppnina Stora Daldansen. Undankeppnin er mikil lyftistöng fyrir klassíska listdansinn hérlendis og er hún mikilvægur vettvangur fyrir íslenska listdansnema til þess að spreyta sig á krefjandi sólóhlutverkum klassískra ballettverka. Þátttökurétt í undankeppnina hafa 16 ára og eldri listdansnemar í listdansskólum innan Félags íslenskra listdansara. Alls tóku 14 nemendur þátt í keppninni í ár og var almenn ánægja með hvernig til tókst. Mjög gaman var fyrir nemendur að fá tækifæri til að spreyta sig á Nýja sviði Borgarleikhússins og var umgjörð keppninnar til fyrirmyndar. Þær Ásdís Karen Árnadóttir úr Klassíska Listdansskólanum og Bergþóra Sigurðardóttir og Dagný Björk Harðardóttir úr Listdansskóla Íslands urðu hlutskarpastar í keppninni í ár og munu þær keppa fyrir Íslands hönd í aðalkeppninni sem haldin verður í Falun í Svíþjóð dagana    1.-4.apríl næstkomandi.

 

 

 

Mikil gróska og frábært dansár að baki

Það er heilmikil gróska og gerjun í gangi í íslensku danssamfélagi og má segja að danslistin teygi anga sína í allar áttir þessa dagana. Þrátt fyrir fjárskort og brothætt starfsumhverfi listdansskólanna er skólasamfélag listdansins sterkt og íslenskir dansnemar hafa mun fleiri tækifæri nú en áður.

Íslenski dansflokkurinn átti frábært ár og er að slá í gegn erlendis en starfsemi flokksins teygir sig langt útfyrir landssteinana. Starfsumhverfi sjálfstætt starfandi dansara á Íslandi er frekar erfitt en þó hefur aðstaðan lagast til muna með tilkomu Dansverkstæðisins. Boðið er upp á morguntíma á hagstæðu verði og frábæra starfsaðstöðu en styrkveitingar til danslistarfólks úr verkefnasjóðum og starfslaunasjóðum sviðslista eru alltof takmarkaðar, því þarf að breyta. Höldum áfram að skapa okkar dansumhverfi og gefumst ekki upp þótt á móti blási. Það er enginn sem skapar danslistinni farveg í landinu nema við sjálf. Nýtt ár felur í sér nýjar áskoranir, tökum fagnandi á móti 2020!

 

Að lokum,

FÍLD opnaði nýja heimasíðu á árinu og er slóðin www.felagislenskralistdansara.com . Ólöf Ingólfsdóttir hannaði síðuna fyrir FÍLD og er heimasíðan mjög vel heppnuð. Umsjónarmaður síðunnar er Sandra Ómarsdóttir. Ég vil hvetja ykkur öll til að senda mynd af ykkur á netfangið dance@dance.is vegna uppfærslu á félagatali. Allir félagsmenn eru tilgreindir í félagatali á heimasíðunni. Athugið að ef smellt er á nöfn félagsmanna opnast gluggi með mynd af viðkomandi og tengslaupplýsingum þ.e. hjá þeim sem sent hafa inn portrait mynd af sér og tengslaupplýsingar. Fréttasíðan á vefnum okkar er heldur fátækleg og vil ég hvetja félagsmenn til að nýta sér vefinn með því að senda fréttatilkynningar af dansviðburðum eða öðru fréttnæmu á netfangið dance@dance.is . FÍLD er einnig með facebooksíðu og deilir þar danstengdu efni.

Dags. 20.01 2020

f.h. stjórnar

Irma Gunnarsdóttir                                                                                         formaður FÍLDæsins﷽﷽﷽﷽﷽taðan lagast til muna með tilkomu Dansverkstlegt er að knar eru af borginniiðruðu samkomuna með nærveru sinni, þar

Ársskýrsla Stjórnar BÍL starfsárið 2018

Sjórn Bandalags íslenskra listamanna hélt 10 stjórnarfundi á árinu. Stjórn BÍL er skipðu formönnum aðildarfélaga bandalgsins. Eftirtaldi skipuðu stjórn bandalagsins í umboði sins félaga á árinu og í kjölfarið er listi þeirra einstaklinga sem tóku að sér trúnaðarstörf á þess vegum

 • Arkitektafélag íslands; AÍ – Helgi Steinar Helgason, formaður
 • Danshöfundafélag Íslands; DFÍ – Katrín Gunnarsdóttir, formaður, varamaður Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir
 • Félga íslenskra Hljómlistamanna; FÍH – Gunnar Hrafnsson, formaður, tók við af Birni Th Árnasyni haustið 2018.
 • Félag Íslenskra leikara; FÍL – Birna Hafstein, formaður
 • Félag íslenskra listdansara; FÍLD – Irma Gunnarsdóttir, formaður, varamaður Guðmundur Helgason/Anna Norðdahl
 • Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT – Hlín Pétursdóttir Behrens, formaður, varamaður Hallveig Rúnarsdóttir
 • Félag kvikmyndagerðarmanna; FK – Fahad Jabali, formaður, varamenn: Anna
 • Þóra Steinþórsd / Jóhannes Tryggvas.
 • Félag leikmynda og búningahöfunda ; FLB – Rebekka Ingimundardóttir, formaður.
 • Félag leikskálda og handritshöfunda; FLH – Margrét Örnólfsdóttir, forrmaður, varamaður: Salka Guðmundsdóttir/Huldar Breiðfjörð
 • Félag tónskálda og textahöfunda; FTT – Bragi Valdimar Skúlason, formaður
 • Rithöfundasamband Íslands; RSÍ formaður Karl Ágúst Úlfsson , formaður, Tók við af Kristínu Helgu Gunnarsdóttur á vormánuðum, varamaður Vilborg Davíðsdóttir
 • Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM – Anna Eyjólfsdóttir, formaður, Tók við af Jónu Hlíf á vormánuðum, varamaður Starkaður Sigurðsson
 • Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL – Dagur Kári Pétursson, formaður, tók við af Friðriki Þór Friðrikssyni á vormánuðum.
 • Tónskáldafélag Íslands; TÍ, – Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður, varamaður: Þuríður Jónsdóttir

Stjórnin hefur skipt með sér verkum með þeim hætti að Margrét Örnólfsdóttir hefur gengt starfi ritara stjórnar, Björn Th Árnason stöðu gjaldkera þar til hann lét af störfum á haustmánuðum og við tók Gunnar Hrafnsson. Friðgeir Kristinsson hefur séð um bókhald Bandalagsins og endurskoðandi er Helga Þorsteinsdóttir. Skoðunar menn reikninga 2018 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.

 Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2019)

Menningar- íþrótta og tómstundaráð Rvk.

 • Erling Jóhannesson Áheyrnarfulltrúi
  • Birna Hafstein                   varamaður
  • Bragi Valdimar Skúlason varamaður

Fulltrúar BÍL í faghóp menningar-íþrótta og tómstundaráðs.

 • Hávar Sigurjónsson – leikstjóri/leikskáld formaður
  • Varamaður: María Ellingssen Leikari/leikstjóri
 • Pétur Grétarsson – Tónlistarmaður
  • Varamaður: Helga Þórarinsdóttir – Tónlistarmaður
 • Sólveig Pálsdóttir – Rithöfundur
  • Varamaður: Sigurlín Bjarney Gísladóttir -Rithöfundur
 • Ástríður Magnúsdóttir – Myndlistarmaður
  • Varamaður: Sigtryggur Baldvinsson – Myndlistarmaður

Kvikmyndaráð

 • Margrét Örnólfsdóttir 10. 2016 – 14. 10. 2019
  • Bergsteinn Björgúlfsson varamaður

 Fulltrúaráð listahátíðar

 • Erling Jóhannesson

Stjórn listamannalauna

 • Hlynur Helgason   10.2015 – 10.10.2019
  • Hlín Gunnarsdóttir varamaður

Stjórn Skaftfells

 • Anna Eyjólfsdóttir
  • Erling Jóhannesson varamaður

Fagráð Íslandsstofu

 • Erling Jóhannesson

List án landamæra                 

 • Margrét Pétursdóttir – tók við af Eddu Björgvinsdóttur á miðju sumri 2019

Listráð Hörpu

 • Ásmundur Jónsson

Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis

 • Páll Baldvin Baldvinsson 10.2017
  • Þórunn Gréta Sigurðardóttir varamaður

Höfundarréttarráð

 • Erling Jóhannesson   08.2018 – 01.08.2022

Sérfræðinganefnd KKN

 • Signý Pálsdóttir (verkefni)                  2017 – jan. 2020
 • Sigtryggur Magnason (ferðastyrkir) 2017 – jan. 2020

Stjórn Barnamenningarsjóðs

 • Áslaug Jónsdóttir
  • Erling Jóhannesson, varamaður

Starfshópur um málverkafalsanir

 • Jón B. Kjartanss. Ransu 2014
  • Kolbrún Halldórsdóttir varamaður

Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

 • Erling Jóhannesson

„List fyrir alla“ – Samráðshópur                  

 • Hildur Steinþórsdóttir
 • Davíð Stefánsson

„List fyrir alla“ – Valnefnd                 

 • Agnes Wild vor 2017
 • Áslaug Jónsdóttir
 • Benedikt Hermannsson, varamaður

Austurbrú – fagráð menningar                 

 • Tinna Guðmundsdóttir. okt 2018.

 Starfshópur mmrn um starfsemi miðstöðva listgreina og hönnunar

 • Kolbrún Halldórsdóttir 2017

Menningarsjóður Guðjóns Samúelssonar

 • Erling Jóhannesson

Nordisk kunstnerrad

 • Erling Jóhannesson

Samstarfið við stjórnvöld

Samtal Bandalags íslenskra listamanna við ráðuneyti Menningarmála fór nokkuð brösulega af stað í byrjun árs. Helgaðist það af ýmsu. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var nýtekin við og greinilegt að að margir enda voru óhnýttir í upphafi, auk þess sem mikið álag var á ráðuneytinu vegna stöðu grunnskólakennara. Fyrsti fundur með embættismönnum ráðuneytisins náðist ekki fyrr en í lok mars. Á þeim fundi var gengið eftir frágangi samnings við BÍL, sem hafði staðið óendurnýjaður frá jan. 2017 en samnignurinn lá tilbúinn, en ósamþykktur í fjármálaráðuneyti. Á þessum fundi var ákveðið að fresta afgreiðslu samráðsfundar ráðuneytisins og stefna frekar á samtal og þátttöku ráðuneytisins í Listþingi á haustmánuðum, var það í samræmi við málflutning innan stjórnar BÍL um að þrengja baráttumál bandalagsins og einbeita sér að samtali við ráðuneytið um launasjóðin og starfskjör greinarinnar. Ráðuneytið hét því að ganga frá samningnum við BÍL eins fljótt og auðið væri. Ráðuneytið bar fyrir sig nýjum lögum um opinber fjármál sem væru að valda þessu töfum á samningi. Samningurinn var svo tilbúin til undirritunar á á Listþinginu en Ráðuneytið hóf engu að síður að greiða út samkvæmt óundirrituðum samningi fyrr.

Barnamenningarsjóður

Barnamenningarsjóður var stofnaður með lúðrablæstri á Þingvöllum í sumar, og hafa menn oft blásið í lúðra af minna tilefni en. Barnamenningarsjóður er hýstur í forsætisráðuneytinu og á BÍL fulltrúa í stjórn hans og hefur tekið þátt í mótun verklagsreglna sjóðsins. Sjóðurinn er stofnaður og fjármagnaður til fimm ára, en vonandi er þetta bara upphafið af myndarlegu og farsælu barnamenningarstarfi sem verði langlíft, en ljúki ekki bara í átaks lok.

Listþing

Var haldið laugardaginn 24.november. Í upphafi var stefnt að því að hafa það í kring um 90 ára afmæli BÍL sem var í september. En vegna dráttar á samningum við Menningar- og menntamálaráðuneytið frestaðist þetta fram úr hófi og var ekki haldið fyrr en 24. November. Uppleggið á þinginu var að safna í sarp hugmyndum listamanna um starfslaunin og verkefnasjóðina. Fámennt var á þinginu um fjörtíu mans skráðir og misvel mætt eftir greinum. Verið er að fylla upp í þau göt í eftirvinnlsu þingsins svo við getum kortlagt kröfur okkar og byggt undir samtali við hið opinbera. Það er afgerandi samhljómur meðal listamanna að starfslaunaumhverfið sé komið að þolmörkum og verulega þurfi að gefa í. Eins og fyrr segir voru starfsmenn ráðuneytisins þátttakendur í þinginu. Fyrir liggur að draga saman niðurstöðu þessara gagna og vonandi verða þau okkur vopn í baráttunni fyrir bættu umhverfi listamanna.

Samráðsgáttin og umsagnir.

BÍL veitti umsögn um alls 10 þingmál, frumvörp til laga og þingsályktanir á árinu. Starfsárið hófst á rýni á fjármáláætlun ríkisstjórnarinnar sem leggja þarf fram samkvæmt lögum um opinber fjármál. Erfitt er að greina fjármálaáætlun því hún tekur bara til stóru myndarinnar, en tækifærið er engu að síður gott til að brýna áherslumálin og BÍL lagði mesta áherslu á aukið fjármagn til starfslauna- og verkefnasjóða í gagnrýni sinni. Í kjölfarið fékk forseti fundi bæði með Allsherjarnefnd og menntamálanefnd og Efnahagsnefnd. Þar sem fékkst góður timi til að fara yfir stöðuna í starfsumhvefi listamanna. Vonast er til að framhald verði á þessu samtali í kjölfar nýrrar umsagnar um fjárlög 2019 og tilvonandi fjármálaáætlunar sem von er á með vorinu.

Stærsta umsögni BÍL er að sjálfsögðu umsögn þess um fjárlagafrumvarpið 2019 og í anda gagnrýni BÍL á fjármálaáætlunina var mest áhersla lögða á starfskjörin og Þetta hefur verið rauður þráðurinn í gegn um allan málflutning Bandalagsins við hið opinbera á árinu að veik staða launasjóðakerfisins sé orðin grafalvarleg. Umfram það var gerð alvarleg athugasemd við niðurskurð sem birtist í frumvarpinu til einstakra liða eins og ÍD og myndskreytingasjóð sem bókstaflega er núllaður eftir gríðarlega varnarbaráttu frá hruni. Umsögn BÍL um fjárlögin er aðgengileg á heimasíðu bandalagsins.

Varðandi samráðsgáttinina þá hefur hún að mörgu leyti verið nytsamleg til að fylgjast með og vakta frumvörp og þingmál sem ekki er óskað beinlínis eftir umsögnum, en það hefur borið við að þangað rata frumvörp sem engan vegin eru kominn á þann stað að vera umsagnarhæf. Samráðsgáttin er ekki fyrirkomulag sem getur samið frumvörp, það getur í besta falli sniðið smávægilega galla af frumvörpum, Á fundi forseta með Alsherjarnefnd var því komið á framfæri að þetta væri full verkfræðileg nálgun á samtali og oft ekki sýnilegt hvernig frumvörpin væru samin og af hverjum eða hvaða þekking lægi til grundavallar, augljósasta dæmið er sviðslistalögin sem hafnað var bókstaflega í heild sinni.

Lýsa fundur fólksins

BÍL tók þátt í Lýsu fundi fólksins á Akureyri á haustdögum. Bandalagið fór norður og Gjörningaklúbburinn flutti samstarfi við Listarsafn Akyreyrar gjörninginn AquaMaría og í kjölfarið voru umræður um listina, með þatttöku Fulltrúa listamanna, þingmans og forstjóra Listasafns Akureyrar. Samtal á forsendum listarinnar um listina. BÍL mun endurskoða þátttöku sína í þessum viðburði fyrir næstu umferð.

Reykjavíkurborg

Áætluðum samráðsfundi Reykjavíkurborgar og BÍL sem var samkvæmt hefð á daskrá á vormánuðum var frestað fram á haust af þeirri einföldu ástæðu að hann hefði annars verið nánast beint ofan í sveitastjórnarkosningar. Fundurinn var á nokkuð jákvæðum nótum og komust margar athugasemdir til skila, s.s. athugasemdir um skort á minni tónleikastöðum, rekstur Hörpunar og hversu íþyngjandi hann er tónlistarmönnum. Grunnmenntun í Dansi sem en er óleyst mál á milli sveitastjórna og ríkis og var biðlað til Boraginnar að höggva á þann hnút. Nýr meirihluti tók við í Borginni og nokkur uppstokkun var í stjórnsýslu menningarmála. Hið gamla menningar- og ferðamálaráð var lagt niður en í staðin tekið upp menningar- íþrótta- og tómstundaráð. Fundum fækkað og áheyrnarfulltrúum BÍL fækkað í einn. BÍL mótmælti þessu formlega. Þrátt fyrir þessar breytingar hefur Borgin haldið sig almennt við ferla í ákvörðunartökum á menningarsviðinu, sem að stórum hluta hafa verið mótaðir af samtali við listamenn. Ekki er hægt að merkja á samkiptum annað en vilja Borgarinnar til halda sínu striki og þiggja ráðgjöf sérfræði þekkingar BÍL í list og menningaruppbyggingu Borgarinnar. Enda listsköpun og menning helsta vörumekri hennar. Nýr samstarfssamningur við Borgina liggur nú á borðinu til undirskriftar.

Íslandsstofa

BÍL á fulltrúa í fagráði skapandi greina Íslandsstofu, enþá. Enginn veit hver afdrif þess verða í nýju fyrirkomulagi Íslandsstofu. Í fagráðinu sitja félagar okkar í kynningarmiðstöðvunum og eru Íslandsstofu til ráðgjafar um menningartengda hluti í sjálfsmynd þjóðarinnar. Með breyttu fyrirkomulagi er ekki vitað um afdrif skapandi greina í þessu umhverfi, en BÍL hefur gert kröfu um að eiga fulltrúa í hinu nýja viðskiptaráði íslandsstofu. Meðan listin á ekki stól við þetta borð munu okkur ekki takast að gera listina og skapandi greinar að einum af frumþáttunum í kynningu og sjálfsmynd landsins út á við. Þegar þetta er skrifað er ekki búið að opinbera fulltrúar Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en Utanríkisráðuneytið brást vel við og hefur þegar útnefnt tvo í ráðið úr hópi skapandi greina.

Alþjóðlegt samstarf

Einn fundur var haldin í Osló á vegum norrænu samtaka listamanna. Megin áhyggjuefni norræanna kollega okkar er nokkuð agressivur niðurskurður til menningarmál í bæði Danmörku og Svíþjóð. Það hangir saman við pólitíska hugmyndafræði og menningin virðist eiga undir högg að sækja, alvarlegur niðurskurður á stofnunum og fjármagni til starfsemi. Á vormánuðum barst BÍL erindi um þátttöku í samnorrænu verkefni undir forystu Dansk kunstnerrad sem ber heitið “Nordiske kunstnere med flerkulturel baggrund” Eftir nokkuð brokkgenga byrjun þar sem BÍL þurfti að gera athugasemdir við samtal DK við ráðuneyti menningarmála á Íslandi framhjá BÍL var þessu verkefni landað og Hlín Behrens stjórnar Íslenska hluta verkefnisisn. Circolo Scandinavo, sem BÍL á aðkomu að í gegn um norrænu samtök listamanna, hefur átt í nokkurum fjárhagsvandræðum og verið í herferð til að tryggja áframhaldandi rekstur þessa merkilag og sögufræga húss í Róm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur verið fulltrúi Nordisk kunstnerrad í stjórn en lætur nú af störfum, sem fulltrúi þess og ráðið hefur tilnefnt Miu Törnkvist frá Svíþjóð í hennar stað. Kolbrún hefur þó ekki sagt skilið við Sircolo og býður sig fram til almennrar stjórnarsetu, þar sem reynsla hennar af þessu starfi mun nýtast vel og tengja okkur hérna á Íslandi áfram við þetta sögufræga hús.

Sameining kynningarmiðstöðva

Skömmu fyrir jól boðaði Mennta- og menningarmálaráðherra til kynningarfundar á starfi nefndar um sameiningu kynningarmiðstöðva. Forseti var boðaður á þann fund sem fulltrúi BÍL. Fulltrúi BÍL í nefndinni sem situr þar á grundvelli skipunarbréfs frá ráðherra, var ekki boðaður, svo það er ekki hægt annað en gera alvarlegar athugasemdir við það.

Í ljós kom á fundinum að tillögurnar voru ansi umfangsmeiri en lagt var upp með, því eðlilegt að forseti sé boðaður á kynninguna. Ráðherra kynnt hugmyndir sínar um stofnun menningarmiðstöðvar, einhverskona stofnun í stjórnsýslunni til þess að styrkja stjórnsýslulega stöðu listarinnarog lagði ráðherra til að stofnaður yrði starfshópur til að útfæra hugmyndirnar betur

BÍL sendi inn umsögn um það strax 4. janúar og í grunnin er BÍL nokkuð jákvætt gagnvart þessari vinnu enda verið baráttu mál BÍL til margra ára að sérstök stjórnsýsla sé næsta skref í uppbyggingu umhverfisins. Listin muni ekki ná póltiskri stöðu fyrr og við fetum okkur í áttina að stöfnun sérstaks ráðuneytis lista og menningar og á meðan það er of stór biti að kyngja fyrir ráðamenn er skynsamlegt að kjarna srjórnsýsluna með þessum hætti.

Formlegt svar eða viðbragð barst ekki úr ráðuneytinu vegna umsagnarinnar. Nefndin hefur verið skipuð og formlega upplýst um hverjir sætu í henni í þessari viku. sitja þrír fulltrúar miðstöðva og tveir frá ráðuneyti. Þegar þessi skýrsla er skrifuð er BÍL að bregðast við þessu.

Þegar BÍL sendir inn sína umsögn taldi það að sjálfgefið væri að þessi vinna yrði opnuð og umhverfið allt myndi koma að borðinu, þar sem tillögurnar ná langt út fyrir starfssvið kynningarmiðstöðva, að halda þessari vinnu áfram á forsendum þeirra eru gríðarleg vonbryggði, Svona vinna felur í sér mikla breytinga á starfsumhverfi og er mjög stefnumótandi, því verður það fólk sem valið er til þessarar vinnu að endurspegla breiðara útsýni en næst út um þennan þrönga glugga kynningarmiðstöðva. Þetta mál ratar allt inn í þessa skýrslu þar sem það á upphaf sitt á síðasta ári en er í rauninni að gerast þessa dagana.

Samstarfsyfirlýsing við Kína

Þann 1. Júní undirrtitaði BÍL samning um samstarf við CLFAC (China federation of liberty and art circles) samningurinn var undirritaður í Snorrabúð tónleikasal Söngskólans í Reykjavík. Samningurinn felur í sér viljayfirlýsingu um samstarf listamanna þjóðana og að samtökin greiði fyrir þeirri samvinnu.

Lokaorð

Við erum að ljúka nokkuð merkilegu ári, listamenn okkar hafa margi hverjir verið að blómstra og uppskera alþjólega í nánast öllum greinum. Tónlist, flutningi og tónsmíðum. Myndlist, leikhúsi, skáldskap og kvikmyndum. Varla hefur liðið vika án þess að okkur hafi borist fréttir af velgengni og verðlunum kollega okkkar í öllum greinum. En þetta gerðist ekki á einni nóttu og ekki í tómarúmi. Við erum að uppskera, eignast kynslóð vel menntaðra listamann sem hafa alist upp við sterkar fyrirmyndir, sjálfsagt og eðlilegt samtal á milli listgreina, kynslóða, samtímalistar sem og klassískra greina. Þetta er árangur uppbyggingar, Velgnegni þessara einstaklingar er hluti af breiðu og sterku samfélagi listamanna og til þess að við höldum áfram að uppskera þurfum við að rækta þann garð, garð frumsköpunar, þekkingar í list og verkgreinum.

Forseti er að ljúka sínu fyrsta ári og í upphafi skal það viðurkennt að hann hefur gefið umræðunni soldið lausann tauminn í þeim tilgangi að finna hvar hitinn er mestur og eins og fram kemur svo oft hér að ofan snýr það að launasjóðunum og kjörum. Það er því forgangsatriði og það er líka óaðskiljanlegur og líklega einn þýðingarmesti þátturinn í þessu umhverfi sem ég tala hér um að ofan. Starfslaunin eru til þess gerð hægt sé að sinna frumsköpuninn tryggja að listamenn séu úti á akrinum að yrkja. Það er ástæða til að nefna þetta í þessum lokaorðum því það má allveg merkja tilhneigingu stjórnvalda til að stýra fjármagni inn í greinina ofar í fæðukeðjunni inn í þá þætti sem tilheyra markaðshlutanum og vonast til þess að ágóðinn seytli niður til listamanna. Þetta er kanski tíðarandi stjórnmálann eða kann að vera afleiðing af því að orðræða skapandi greina nær betur til stjórnmálamanna, með fullri virðingu fyrir því ágæta hugtaki. Að fjármagn sett inn í kynningar og útgáfur skili brauðmolum niður í svörðinn. Við þurfum að styrkja orðræðuna um listina við meigum ekki tapa því tungumáli, en gróðurinn sprettu upp og því þarf að yrka í svörðinn. Annars munu komandi kynslóðir ekki taka á móti verðlaunum.

 

Við verðum að rækta garðinn okkar.

Ársskýrsla forseta BÍL starfsárið 2017

Stjórn BÍL skipa formenn aðildarfélaga BÍL. Stjórnin hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu, auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir um afmörkuð málefni, sem gerð verður sérstaklega grein fyrir í skýrslu þessari. Aðildarfélög BÍL eru fimmtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum annarra stjórnarmanna sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:

 • Arkitektafélag Íslands; AÍ – formaður Aðalheiður Atladóttir / Helgi Steinar Helgason
 • Danshöfundafélag Íslands; DFÍ – formaður Katrín Gunnarsdóttir, varamaður Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir
 • Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH –formaður Björn Th. Árnason
 • Félag íslenskra leikara; FÍL – formaður Birna Hafstein, varamaður Erling Jóhannesson
 • Félag íslenskra listdansara; FÍLD – formaður Irma Gunnarsdóttir, varamaður Guðmundur Helgason / Anna Norðdahl
 • Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT – formaður Hlín Pétursdóttir Behrens, varamaður Hallveig Rúnarsdóttir
 • Félag kvikmyndagerðarmanna; FK – formaður Hrafnhildur Gunnarsdóttir / Fahad Jabali, varamenn: Anna Þóra Steinþórsd / Jóhannes Tryggvas.
 • Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB – formaður Rebekka Ingimundardóttir
 • Félag leikskálda og handritshöfunda; FL – formaður Margrét Örnólfsdóttir, varamaður: Salka Guðmundsdóttir
 • Félag leikstjóra á Íslandi; FLÍ – formaður Páll Baldvin Baldvinsson
 • Félag tónskálda og textahöfunda; FTT – formaður Jakob Frímann Magnússon / Bragi Valdimar Skúlason
 • Rithöfundasamband Íslands; RSÍ – formaður Kristín Helga Gunnarsdóttir, varamaður Bjarni Bjarnason / Vilborg Davíðsdóttir
 • Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM – formaður Jóna Hlíf Halldórsdóttir, varamaður Eirún Sigurðardóttir / Steingrímur Eyfjörð
 • Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL – formaður Friðrik Þór Friðriksson
 • Tónskáldafélag Íslands; TÍ – formaður Þórunn Gréta Sigurðardóttir, varamaður: Þuríður Jónsdóttir

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2018):
Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir
varamenn Bragi Valdimar Skúlason og Birna Hafstein

Fulltrúar í faghópi MOFR 2017 :
Jón Bergmann Kjartans Ransu myndlistarmaður, form.
Sólveig Aðalsteinsdóttir myndlistarmaður, varam.
Lára Rúnarsdóttir tónlistarmaður
Hlín Pétursdóttir Behrens söngkona, varam.
Hávar Sigurjónsson rithöfundur og leikskáld
Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur, varam.
Erling Jóhannesson leikari
Aino Freyja Järvelä leikari
Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt fulltr. Hönnunarmiðst.

Kvikmyndaráð: Margrét Örnólfsdóttir
varamaður Bergsteinn Björgúlfsson

Fulltrúaráð Listahátíðar: Kolbrún Halldórsdóttir

Stjórn listamannalauna: Hlynur Helgason
varamaður Hlín Gunnarsdóttir

Stjórn Skaftfells:  Jóna Hlíf Halldórsdóttir
varamaður Kolbrún Halldórsdóttir

Fagráð Íslandsstofu í li stum og skapandi greinum: Kolbrún Halldórsdóttir

Menningarfánaverkefni Reykjavíkur:  Karen María Jónsdóttir

List án landamæra: Edda Björgvinsdóttir

Stjórn Gljúfrasteins: Kolbrún Halldórsdóttir

Listráð Hörpu: Ásmundur Jónsson

Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis: Páll Baldvin Baldvinsson
varamaður Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Höfundarréttarráð: Kolbrún Halldórsdóttir

Sérfræðinganefnd KKN  (verkefni):   Signý Pálsdóttir
(ferðastyrkir):  Sigtryggur Magnason

Starfshópur um málverkafalsanir: Jón B. Kjartanss. Ransu
varamaður Kolbrún Halldórsdóttir

Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins:  Kolbrún Halldórsdóttir

„List fyrir alla“ – samráðshópur:  Hildur Steinþórsdóttir og Davíð Stefánsson
„List fyrir alla“ – valnefnd:  Agnes Wild og Áslaug Jónsdóttir
varamaður  Benedikt Hermannsson

Austurbrú – fagráð menningar: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Starfshópur mmrn um starfsemi miðstöðva listgreina og hönnunar: Kolbrún Halldórsdóttir

Forseti BÍL situr fyrir hönd BÍL í Norræna listamannaráðinu Nordisk Kunstnerråd og er fulltrúi ráðsins í stjórn Circolo Scandinavo (varaforseti stjórnar síðan í mars 2015). Önnur trúnaðarstörf forseta eru eftirfarandi: forseti er fulltrúi BÍL í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar. Þá er hún ritari í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi. Á árinu var formlega lögð niður starfsemi ECA – European Council of Artists, en þar hafði forseti BÍL gengt embætti forseta síðan 2011.

Stjórn BÍL hefur skipt með sér verkum á árinu þannig að Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda hefur gegnt starfi ritara og Björn Th. Árnason formaður Félags íslenskra hljómlistamanna – FÍH er gjaldkeri. Það er hins vegar fjármálastjóri FÍH, Friðgeir Kristinsson sem nú annast bókhald BÍL og skil á uppgjöri til endurskoðanda Helgu Þorsteinsdóttur. Skoðunarmenn reikninga 2017 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.

Stjórn BÍL hefur komið saman til reglulegra funda 10 sinnum á árinu, þar að auki fundaði stjórnin með fulltrúum stjórnmálaflokkanna í aðdraganda þingkosninga og sat samráðsfundi með fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Einnig átti stjórn samráðsfund með stjórn listamannalauna og rektor Listaháskóla Íslands.

Starfið litað af stjórnmálaástandinu
Annað árið í röð einkenndist starf BÍL af atburðum á vettvangi stjórnmálanna, þar sem ríkisstjórnin Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem tók við völdum 11. janúar 2017, sprakk átta mánuðum síðar eða um miðjan september. Í kjölfarið var ákveðið að boða til nýrra kosninga og fóru þær fram 28. október eða réttu ári eftir að síðast var kosið. Ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók svo við völdum mánuði eftir kosningar 30. nóvember. Þá þegar var ljóst að annað árið í röð yrði fljótaskrift á afgreiðslu fjárlaga, en sú undarlega staða hafði komið upp ári áður að þing var kallað saman til að afgreiða fjárlög án þess að ný ríkisstjórn hefði verið mynduð. Fjárlagafrumvarpið 2018 kom fram í þinginu tveimur vikum eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafði verið mynduð, fyrsta umræða fór fram 15. des., önnur umræða 22. des. og þriðja ekki fyrr en milli jóla og nýárs. Fjárlög 2018 voru svo samþykkt 29. desember 2017 eða 15 dögum eftir að þau voru lögð fram. Það þarf vart að fjölyrða um hversu erfitt það var fyrir hagsmunasamtök á borð við BÍL að ná tali af fjárlaganefnd við þessar aðstæður, enda fór það svo að þó BÍL sendi inn efnismikla umsögn um frumvarpið, þar sem allur list- og menningargeirinn var undir að undanskildum söfnunum, þá fékkst ekki fundur með nefndinni og engin af breytingartillögum BÍL náði fram að ganga. En meira um það síðar í skýrslunni.

Samstarfið við landsstjórnina
Grunnstoð í samstarfi ríkisstjórnar og BÍL er stefna stjórnvalda í málefnum lista og menningar eins og hún birtist í stjórnarsáttmála og þingmálum ríkisstjórnar á hverjum tíma. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var talsvert fjallað um eflingu skapandi greina, en þegar grannt var skoðað náðu þau áform einungis til nýsköpunar og þróunar í tæknigreinum og þekkingariðnaði, listir voru nefndar á einum stað í sáttmálanum, það var í kaflanum um menntamál. Þetta olli stjórn BÍL nokkrum áhyggjum, ekki síst vegna þess að fundað hafði verið með fulltrúum flokkanna í aðdraganda þingkosninga um málefni lista og menningar þar sem sett voru á dagskrá helstu áherslumál BÍL. Þegar þessar áherslur ríkisstjórnarinnar voru ljósar óskaði stjórn BÍL eftir fundum með þeim ráðherrum sem skv. forsetaúrskurði höfðu á sínu forræði mál tengd listum og menningu. Samráðsfundur með mennta- og menningarmálaráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni var haldinn 16. maí, fundur með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Jóni Gunnarssyni fór  fram 24. maí, fundur með fjármálaráðherra 12. júní og fundað var með ráðherra nýsköpunar, ferðamála og hönnunar Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur 30. ágúst. Engin viðbrögð bárust við beiðni BÍL um fund með utanríkisráðherra Guðlaugi Þ. Þórðarsyni. Minnisblöð sem lágu til grundvallar samtalinu við þessa ólíku ráðherra eru öll aðgengileg á heimasíðu BÍL.

Samningsbundinn samráðsfundur og endurnýjun samnings
Eðli máls samkvæmt er samráðsfundur BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra sá sem mest er lagt í, enda er ákvæði um hann bundið í samstarfssamning þessara aðila og til hans mæta allir helstu samstarfsmenn ráðherrans á málasviðinu, þ.m.t. allir starfsmenn menningarskrifstofu ráðuneytisins og fulltrúar fjármálaskrifstofu. Um leið og ríkisstjórn hafði verið mynduð óskaði stjórn BÍL eftir að samráðsfundinum með nýjum mennta- og menningar-málaráðherra (KÞJ, erindi 19. janúar) yrði flýtt, í ljósi þeirrar óvissu sem hafði ríkt um forystu í málaflokknum frá þingkosningum haustið 2016. Við þeirri málaleitan fékkst það svar (8. febrúar) að til fundarins yrði boðað í apríl. Það voru stjórn BÍL nokkur vonbrigði ekki síst í ljósi þess að samstarfssamningur BÍL við ráðuneytið hafði runnið út um áramótin 2016/2017 og ekkert bólaði á nýjum samningi, þrátt fyrir eftirgangsmuni allt frá haustdögum 2016. Þegar staðið hafði í stappi við menningarskrifstofu ráðuneytisins um nokkurra mánaða skeið ritaði stjórn BÍL ráðherra bréf (18. mars) með ósk um að hann beitti sér í málinu og tryggði endurnýjun samningsins til næstu þriggja ára. Þá komst loks hreyfing á málið og var farið að vinna texta samningsins, sú vinna stöðvaðist þó óvænt þann 8. apríl þegar ráðuneytið tilkynni BÍL að „vegna flókinna samningsskilyrða eftir samþykkt laganna um opinber fjármál yrði samningurinn hafður til eins árs“.  Stjórn BÍL gat ekki fallist á þetta og ritaði ráðherra á ný (18. apríl) og óskaði eftir tafarlausri lausn á málinu, enda hafði BÍL þá ekki fengið greitt framlag til rekstrar í rúmlega hálft ár. Þegar kom að samráðsfundinum, sem á endanum var ekki haldinn í apríl heldur 16. maí, þá var BÍL enn án samnings við ráðuneytið. Það fór þó á endanum svo að í lok samráðsfundarins var samningurinn lagður fram og ljóst að breytingatillögur BÍL á orðalagi samingsins höfðu náð fram að ganga, en samningurinn skyldi renna út 31. desember 2017 eða 7 ½ mánuði eftir undirritun. Þetta voru mikil vonbrigði ekki síst í ljósi þess að í hönd fór nítugasta afmælisár BÍL (2018) en fyrsti samstarfssamningurinn var einmitt undirritaður þegar haldið var upp á 70 ára afmælið (1998), svo stjórn BÍL hafði gert sér vonir um að ráðherra og ráðuneyti myndu sýna starfi BÍL meiri skilning á þeim  tímamótum sem framundan eru í starfi heildarsamtaka listafólks á Íslandi.

Megináherslur BÍL á samráðsfundinum
Í minnisblaði BÍL fyrir fundinn var áhersla lögð á innleiðingu menningarstefnunnar sem Alþingi samþykkti vorið 2013 sem enn hefur ekki verið innleidd með neinum formlegum hætti. Spurt var hvort líta mætti á fjármálaáætlun ríkis-stjórnarinnar 2018 – 2022 sem aðgerðaáætlun í því skyni að innleiða menningarstefnuna, enda ýmis metnaðarfull áform að finna í fjármálaáætluninni, en gallinn var sá að þau áform voru ekki fjármögnuð að neinu leyti í nýjum fjárlögum og ekki heldur í áætluninni sjálfri. Þá var spurt út í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem gerði ráð fyrir innviðauppbyggingu í þágu kraftmikils atvinnulífs um allt land, sameiginlegri stefnu um málefni höfuðborgarsvæðisins, eflingu skapandi greina og auknum hlut lista og menningar í skólastarfi. Allt verkefni sem Bandalagið hefur vakið máls á við stjórnmálamenn gegnum tíðina og er reiðubúið að styðja. Því óskaði stjórn BÍL eftir áætlun um efndir þessara áforma en lýsti jafnframt áhyggjum yfir augljósri fjarveru listanna, ekki síst úr menginu „skapandi greinar“.

Enn sem áður lagði BÍL til að skráning tölfræði lista og menningar verði með svipuðum hætti og á öðrum Norðurlöndum, að hlutur listrannsókna verði viðurkenndur undir hatti Vísinda og tækniráðs og að menningarsamningar ríkisins undir sóknaráætlun landshlutanna verði virkjaðir á ný.. Önnur atriði sem BÍL vakti máls á tengdust baráttumálum einstakra listgreina, til dæmis má nefna átak SÍM „Borgum myndlistarmönnum“ og ákall um endurreisn Listskreytingasjóðs, kröfu sviðslistafélaganna um Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, áralanga baráttu dansara fyrir stefnu í málefnum listdanskennslu á grunn- og framhaldsstigi, kröfuna um uppbyggingu skólabókasafna, starfið á vettvangi verkefnisstjórnar um málefni kvikmyndageirans þ.m.t. um nám í kvikmyndagerð og þverfaglegt samráð um málefni menningar og ferðaþjónustu.

Loks var minnt á þrjú mikilvæg atriði sem BÍL hefur oft tekið upp við stjórnvöld og vill gjarnan eiga samstarf um;

-sanngjarna skattlagningu höfundarréttargreiðslna, að þær verði skattlagðar með sama hætti og fjármagnstekjur

-að nákvæm grein verði gerð fyrir stöðu og fjárþörf helstu menningarstofnana og sjóða sem starf listamanna grundvallast á, með það að markmiði að fullfjármagna geirann og

-að ráðist  verði í nauðsynlegar úrbætur á stjórnsýslu málaflokksins þannig að ráðuneytin fimm, sem nú fara með tiltekna þætti hennar, stofni formlegan samstarfsvettvang í þágu bættrar stjórnsýslu lista og menningar a.mk. þar til hugmyndir BÍL um sjálfstætt ráðuneyti menningar ná fram að ganga.

Sjónarmið ráðherra á samráðsfundinum
Í fundargerð samráðsfundarins koma fram sjónarmið ráðherra og til að stikkla á stóru má nefna eftirfarandi atriði:

Ráðherra þykir málefnasviðið einkennast af fjölda smárra og stórra eininga, ótrúlega mörgum sjóðum og mismunandi verkefnum stórum og smáum. Hann muni setja af stað vinnu við forgangsröðun og nefnir í því sambandi stöðu íslenskrar tungu og máltækniverkefnið, ásamt málefnum bókaútgáfu og bókmenningar. Þá lýsir hann áhuga á  hugmyndum SÍM sem koma fram í átaksverkefninu „Borgum myndlistarmönnum“ en af málefnum tónlistar sýnist honum nauðsynlegt að kanna möguleika á sameiningu tónlistartengdra sjóða, raunar vill hann skoða sameiningar stofnana og sjóða á sviði menningar og lista almennt. Skv. nýlegu svari hans við fyrirspurn á Alþingi séu sjóðir ætlaðir listsköpun 17 talsins að launasjóðunum meðtöldum og hann telji skynsamlegra að einfalda kerfið fremur en að flækja það, með það að markmiði að fjármunirnir nýtist sem best. Hann hafi ekki í hyggju að skerða fjárveitingarnar heldur einungis að endurskipuleggja kerfið.

Talsverð áhersla var lögð á að útskýra breytt vinnubrögð vegna nýrra laga um opinber fjármál, þannig þurfi stjórnvöld að marka stefnu til fimm ára í senn og mikil áhersla sé lögð á skýrslugjöf ráðherra til Alþingis þar sem greint verði frá fjárveitingum til einstakra ríkisaðila og verkefna og metinn ávinningur af ráðstöfun fjárveitinga með tilliti til settra markmiða. Verklag sem þetta kalli á allt aðra hugsun og muni bæta verulega vinnuna við fjárlagagerð. Þá greindi hann fundinum frá því að ástæða þess að ekki hafi verið hægt að gera þriggja ára samning við Bandalags íslenskra listamanna að þessu sinni væri sú að fjármálaráðuneytið hafi ekki samþykkt samninginn með tilliti til nýrra laga.

Ráðherra svaraði því til varðandi stjórnsýslu lista- og menningar að vissulega væri samráð milli ráðuneyta og við sveitarstjórnarstigið mikilvægt til að fylgja eftir hinum ýmsu verkefnum en engar ákvarðanir hafi verið teknar um stórfelldar breytingar á núverandi fyrirkomulagi og til að taka af allan vafa, þá stæði ekki til að brjóta upp skiptingu stjórnarráðsins með því að stofna annað ráðuneyti og bað fundarmenn að eyða ekki talanda og orku í að ræða það fram og til baka (tilvitnun í fundargerð samráðsfundar 16. maí 2017).

Það var mat stjórnar BÍL að árangur þessa fundar hafi ekki verið mikill, enda einungis tvær vikur eftir af vorþingi. Svo fór sem fór um haustið; þegar haldnir höfðu verið þrír fundir á haustþingi, slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu og boðað var til kosninga á ný.

Þingkosningar 2017
Annað árið í röð undirbjó BÍL samtal við frambjóðendur stjórnmálaflokkanna í aðdraganda Alþingiskosninga. Í þetta sinn voru ekki haldnir málefnafundir með fulltrúum hvers flokks fyrir sig, heldur var skipulagður einn fundur þar sem óskað var eftir þátttöku talsmanna flokkanna í málefnum lista og menningar. Eftirtaldir flokkar sendu þátttakendur til fundarins; frá Bjartri framtíð – Guðlaug Kristjánsdóttir, frá Framsóknarflokki – Lárus Lárusson, frá Pírötum – Snæbjörn Brynjarsson, frá Samfylkingu – Margrét Tryggvadóttir, frá Sjálfstæðisflokki – Vilhjálmur Bjarnason, frá Viðreisn -Páll Rafnar Þorsteinsson og frá Vinstri-grænum – Halla Gunnarsdóttir. Stjórn BÍL ákvað að byggja samtalið á því sem rætt hafði verið í aðdraganda kosninganna 2016 en fækkaði áherslupuntum í minnisblaðinu sem lá til grundvallar úr tíu (2016) í þrjú. Fundurinn var haldinn 9. október í húsnæði FÍH við Rauðagerði og í aðdraganda hans voru þeim sem höfðu tilkynnt þátttöku sendar eftirfarandi spurningar:

Hver er afstaða þins flokks til eftirfarandi mála:

 1. Sjálfstætt ráðuneyti lista og menningar og ef það nær ekki fram að ganga þá áætlun um samræmda stjórnsýslu í málefnum lista og skapandi greina með formlegum samráðsvettvangi þeirra ráðuneyta sem sinna málefnum hins skapandi geira.
 2. Formlegt samstarf um stefnumótun í málefnum lista og menningar til 2022, sbr. tillögur í sóknaráætlun BÍL frá 2015 og áform stjórnvalda í fjármálaáætlun 2018 – 2022, með megináherslu á eflingu máttarstólpa í list- og menningartengdu starfi jafnt stofnanir, sjóði og einstök verkefni.
 3. Skatthlutfall tekna vegna höfundagreiðslna verði hið sama og vegna annarra eignatekna t.d. fjármagnstekna, enda er höfundaréttur eignarréttur og því um sambærilegar greiðslur að ræða.

Svör stjórnmálamannanna voru nokkurn vegin á einn veg, þeir sýndu kröfu BÍL um sameinaða stjórnsýslu málefna lista og menningar skilning og höfðu ýmsar vangaveltur um úrbætur í þeim efnum. Þá töldu allir sem einn mikilvægt að stjórnvöld hefðu náið og gott samráð við geirann við stefnumótun, og allir lýstu sig reiðubúna til að tryggja sanngjarnari skattlagningu höfundarréttargreiðsla. Svo segja má að niðurstaða fundarins hafi verið jákvæð og nú heyri það upp á stjórn BÍL að fylgja þessum málum eftir við nýtt Alþingi sem kosið var 28. október.

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar
Niðurstaða kosninganna var sú að fyrri ríkisstjórn missti meirihluta sinn og mánuði eftir kosningar var ný ríkisstjórn mynduð undir forystu Vinstri-grænna, með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Endurnýjun var mikil í þingliðinu, annað árið í röð, þó ekki eins mikil og í kosningunum árið áður þegar yfir 50% þingmanna voru nýir, nú komu 19 nýir til leiks, en helmingur þeirra hafði setið áður á þingi um lengri eða skemmri tíma.

Það heyrir til tíðinda að listanna, listamanna og listnáms er getið með einhverjum hætti átta sinnum í stjórnarsáttmála Vinstri-grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Af innihaldi hans hljóta eftirfarandi efnisþættir að teljast markverðastir fyrir listageirann:

 • Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi. Þess vegna skiptir máli að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Hlutverk stjórnvalda er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs. Unnin verður aðgerðaáætlun á grundvelli samþykktrar menningarstefnu.
 • Ríkisstjórnin ætlar að leggja sérstakra áherslu á listnám og aukna tækniþekkingu sem gera mun íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu.
 • Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins fyrir árið 2020 og Norðurlanda árið 2025 í samræmi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs sem mun skipta sköpum fyrir bæði kennslu og rannsóknir í íslenskum háskólum. Unnið verður að lausn á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands á kjörtímabilinu.
 • Hugað verður að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla. Fyrsta skref verður að afnema virðisaukaskatt á bókum. Ráðist verður í gerð hagvísa fyrir menningu, listir og skapandi greinar. Áfram verður unnið að því að efla skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg á Íslandi. Höfundagreiðslur sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta verða skattlagðar sem eignatekjur. Áfram verður unnið að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna.
 • Lögð verður áhersla á þátt hins opinbera í að auka kraft og fjölbreytni atvinnulífs um land allt og mikilvægi þess að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum. Þeim munu fylgja nýjar kröfur um menntun og hæfni starfsfólks og að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum, þ.m.t. hjá hinu opinbera og í rótgrónum greinum.
 • Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs mun renna til verkefna á þessu sviði.
 • Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki á fjölbreyttum málasviðum sem mikilvægt er að styðja við.

Umsögn BÍL um fjárlög 2018
Löng hefð er fyrir því að stjórn BÍL gefi fjárlaganefnd Alþingis umsögn um þá liði fjárlaga er varða listir og menningu. Framsetning umsagnarinnar hefur þróast þannig á undanförnum árum að ekki einasta er horft til stöðu launasjóða listamanna og verkefnatengdra sjóða heldur er horft til heildarmyndarinnar og skoðuð fjármögnun ríkisins á lykilstofnunum sem telja verður burðarstoðir í starfsumhverfi listafólks.  Mikilvægt samstarf hefur því skapast við list- og menningartengdar stofnanir ríkisins við gerð umsagnarinnar með það sameiginlega markmið að leiðarljósi að beina sjónum þingmanna að afkomu listageirans í heild sinni. Í þessu samstarfi felst að stjórn BÍL talar óbeint máli stofnananna á vettvangi fjárlaganefndar, en forstöðumenn stofnananna reka sín mál frekar á vettvangi ráðuneytanna. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og verið litið svo á að það sé hagur beggja, stofnananna og sjálfstæða geirans.

Megininntak umsagnar BÍL við fjárlögin á seinustu árum hefur verið það að list- og menningargeirinn sé sárlega undirfjármagnaður og hafi verið það um margra ára skeið. Rökstuðningurinn er helst sá að niðurskurður opinberra fjárframlaga til bæði sjóða og stofnana á listasviðinu í kjölfar efnahagshrunsins hafi ekki skilað sér nema að litlu leyti til baka. Einnig bendir BÍL á að á árunum fyrir hrun hafi stjórnvöld þegar verið farin að draga úr fjárframlögum til menningarstofnana og talið það réttlætanlegt í ljósi þess að einkaaðilar og fyrirtæki á markaði höfðu á þeim tíma komið með umtalsvert fjármagn inn í geirann.  Því er það mat BÍL að hraustlegrar leiðréttingar sé þörf á opinberum framlögum til list- og menningartengdra stofnana, launasjóða listafólks og verkefnasjóða. Slík leiðrétting sé forsenda þess að starfskjör listafólks lagist og störfum í listageiranum fjölgi. Það verður að segjast um þennan rökstuðning BÍL að hvergi í opinbera kerfinu er aðgengilegt talnaefni sem staðfestir þessar fullyrðingar eða hrekur, sem undirstrikar þörfina fyrir opinbera menningartölfræði. Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið er aðgengileg á vef  BÍL.

Vinnulag við fjárlagagerðina
Á síðustu árum, eða allt frá 2013, hefur fjárlaganefnd Alþingis látið sér nægja að taka við umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið en ekki veitt okkur beina áheyrn, eins og tíðkast hafði um langt árabil þar áður, þrátt fyrir það óskar stjórn BÍL árlega eftir fundi með nefndinni eða fulltrúum hennar. Það var einnig gert nú, en eins og fram kemur framar í ársskýrslunni, var þeirri beiðni ekki sinnt og er það fimmta árið í röð sem nefndin neitar BÍL um fund. Þegar endanleg afgreiðsla fjárlaga lá fyrir, sendi stjórn BÍL formanni fjárlaganefndar erindi og óskaði eftir áheyrn um niðurstöðu fjárlaga, og til að ræða stöðu listanna og helstu menningarstofnana með tilliti til þess hversu lengi þessi viðkvæmi geiri hefur verið undirfjármagnaður. Það sem olli þó mestum kurr í baklandi listafólks var sú niðurstaða nefndarinnar að bæta 150 milljónum við málaflokkinn „listir og menning“ og úthluta af eigin hvötum og geðþótta til nokkurra list- og menningartengdra verkefna (eitthvað á annan tug verkefna), eftir því sem best var vitað án verklagsreglna og án þess að auglýsa eftir umsóknum. Slík vinnubrögð eru ófagleg með öllu og voru formlega aflögð 2012 í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sbr. frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis 15.11.2013 og reglur mmrn. um úthlutun styrkja útg. 10.10.2014.

Þann 17. janúar sl. hitti forseti BÍL formann og 1. varaformann fjárlaganefndar á fundi, þá Willum Þór Þórsson og Harald Benediktsson. Á fundinum voru ofangreind málefni rædd ásamt almennum vandkvæðum við innleiðingu nýju laganna um opinber fjármál, t.d. benti forseti á að ársfjórðungsskýrslur ráðherra hafi ekki enn litið dagsins ljós og komið á þriðja ár frá því lögin tóku gildi, yfirlit fylgiritsins hafi enn ekki verið uppfært þó tveggja vikna fresturinn frá samþykkt fjárlaga sé liðinn auk þess sem ekkert hafi heyrst af ráðstöfun varasjóða lista og menningar 2016 eða 2017. Þessum sjónarmiðum BÍL var að mestu leyti vel tekið af þingmönnunum tveimur og því lofað af formanninum að BÍL fengi annað tækifæri síðar á vorþinginu til að halda þessu samtali áfram og ræða framtíðarsamskipti BÍL og nefndarinnar.

Varðandi fylgirit fjárlagafrumvarps 2018, sem nefnt er hér að framan, þá er það lykilgagn þeirra sem fylgjast vilja með opinberum fjármálum, þar sem einungis stærstu drættir fjárlaga koma fram í sjálfum frumvarpstextanum eftir að ný lög um opinber fjármál gengu í gildi 01.01.2016. Sá kafli fylgiritsins, sem fjallar um menningu og listir hefur verið ófullkominn að því leyti að í flestum tilfellum eru þar einungis birtar samtölur liða, en sundurliðanir eru af skornum skammti. Þetta hefur reynst BÍL bagalegt í allri vinnu með fjárlagafrumvarpið, einkum vegna fjárlagaársins 2018 þar sem ráðuneytið lét undir höfuð leggjast að birta nauðsynlega sundurliðun á vefsíðu sinni, nokkuð sem hafði verið gert samviskusamlega árið áður. Vegna þessarar tregðu við að afla upplýsinga og vegna þess dráttar sem orðið hefur á uppfærslu fylgiritsins hefur stjórn BÍL ritað bréf til skrifstofustjóra opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneyti, sem á endanum ber ábyrgð á uppfærslu fylgiritsins. Svar við því erindi hefur ekki borist þegar þetta er ritað. Ljóst er að ástandið sem kallað var „ófremdarástand“ í ársskýrslu forseta BÍL 2016 hefur ekki lagast og erfiðleikar stjórnsýslunnar við að innleiða ný lög um opinber fjármál koma víða niður. 

Samstarfssamningurinn 2018 – 2020
Svo sem að framan greinir þá fékkst samstarfssamningur BÍL og ráðuneytisins ekki framlengdur á síðasta ári nema til ársloka 2017, en samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir því að gert sé viðvart fyrir lok september óski annar hvor samningsaðila eftir því að samningurinn verði endurnýjaður. Eftir þessu ákvæði var farið og óskaði stjórn BÍL eftir endurnýjun samningsins 13. september. Vel var brugðist við og forseti boðaður til fundar í ráðuneytinu 5. október til að ræða inntak nýs samnings. Fundinn sátu tveir embættismenn menningarskrifstofu ásamt skrifstofustjóra og á fundinum kom fram að ráðuneytið myndi leggja til að þriggja ára samningur yrði gerður við BÍL og árleg upphæð myndi hækka nokkuð frá því sem nú er (upphæðin 2017 var 4,5 millj.). Þ. 4. desember ítrekaði BÍL erindið þar sem ekkert hafði heyrst frá ráðuneytinu í tvo mánuði. Viðbrögð voru engin, þá var aftur send ítrekun 19. desember, sem varð til þess að svar barst um að nú myndu samningsdrög berast „alveg á næstunni“. Síðasta vinnudag ársins, föstudaginn  29. desember, hafði ekkert svar borist og var þá send ítrekun og afrit af samskiptunum á ráðuneytisstjóra. Skömmu eftir áramót þ. 5. janúar bárust loks samningsdrög, sem ollu verulegum vonbrigðum þar sem árleg hækkun, sem okkur hafði áður verið tjáð að yrði rífleg, var einungis kr. 500.000.-. Viðbrögð BÍL við þeim pósti voru eðlilega nokkuð afundin. Þá barst um hæl afsökunarbeiðni og sagt að mistök hafi orðið í ritun samningsdraganna og lofað leiðréttingu, sem barst svo 8. janúar. Þar var staðfest að árlegt framlag ráðuneytisins yrði 6 milljónir, sem sagt  hækkun um 1,5 milljón á ári fram til 2020. Stjórn BÍL þakkaði fyrir það en gerði þó nokkrar athugasemdir við texta samningsdraganna, sérstaklega við þá tillögu ráðuneytisins að þrengja málasviðið sem samningurinn og þar með ráðgjöf BÍL næði til. Við þeim tillögum hafa ekki borist formleg viðbrögð, en samtalið við ráðuneytið stendur yfir og vonir standa til að nýr samningur verði undirritaður áður en kemur að aðalfundi BÍL 17. febrúar.

Nýr mennta- og menningarmálaráðherra
Þann 4. desember, tíu og hálfum mánuði eftir að stjórn BÍL hafði boðið velkominn til starfa Kristján Þór Júlíusson, var ritað annað samskonar bréf það sem mennta- og menningarmálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar, Lilja Alfreðsdóttir, var boðin velkomin til starfa og þess óskað, í ljósi þess að annað árið í röð væri skipt um ráðherra á miðjum vetri, að flýtt yrði árlegum samráðsfundi stjórnar BÍL með ráðherra og hennar starfsliði. Erindið var ítrekað 11. janúar og óskaði ráðherra þá eftir að hitta forseta BÍL með það að markmiði að kynna sér störf og sjónarmið BÍL áður en hinn samningsbundni samráðsfundur yrði haldinn. Á þeim fundi, sem haldinn  var 24. janúar, voru ráðherra afhent helstu gögn um starfsemi BÍL, ársskýrslu og ársreikninga 2016, ásamt starfsáætlun og tillögu BÍL að sóknaárætlun í listum og skapandi greinum frá 2015.  Einnig umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2018 og hugmyndir BÍL um skráningu tölfræði menningar. Þá gerði forseti ráðherra grein fyrir tregðunni við að fá nýjan þriggja ára samstarfssamning og kynnti jafnframt athugasemdirnar sem stjórn BÍL hefur gert við orðalag samningsdragana og þrengingu málasviðsins. Ráðherra lét í ljósi vilja til að flýta samráðsfundi BÍL og er þess að vænta að dagsetning hans verði ákveðin á næstunni.

Samráðsfundir með öðrum ráðherrum
Á seinustu árum hefur BÍL sóst eftir formlegum fundum með fleiri ráðherrum en mennta- og menningarmálaráðherra, þ.e. þeim ráðherrum, sem samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna, hafa skilgreint hlutverk gagnvart einhverjum þáttum lista og hönnunar.

 • Þetta eru utanríkisráðherra, sem fer með málefni tengd kynningu á Íslandi og því sem íslenskt er, m.a. með starfi sendiráða Íslands erlendis og Íslandsstofu, sem annast kynningarmál erlendis og markaðsetningu landsins, m.a. kynningu á list og menningu skv. lögum um stofnunina.
 • Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sem fer með málefni nýsköpunar, hönnunar og hönnunarstefnu, endurgreiðslur á sviði kvikmyndagerðar og tónlistarupptöku, ásamt hugverkastefnu á sviði iðnaðar.
 • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en undir hann heyra menningarsamningar landshlutasamtaka sveitarfélaga og Byggðastofnun sem fer með málefni samninganna. Raunar hafa menningarsamningarnir verið felldir inn í „uppbyggingarsjóði“ landsbyggðarinnar en eru þó fjármagnaðir af fjárlagalið mennta- og menningarmálaráðuneytis.
 • Fjármálaráðherra, sem hefur með framkvæmd laganna um opinber fjármál að gera, framsetningu fjármálaáætlunar og ber ábyrgð á framsetningu fjárlagafrumvarpsins.

Á nýliðnu starfsári tóku eftirtaldir ráðherrar þessara málaflokka á móti fulltrúum stjórnar BÍL: Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðar og nýsköpunarráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, öll úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Síðan ný ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tók við hafa fultrúar BÍL fundað með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Minnisblöð frá öllum þessum fundum eru aðgengileg á vefsíðu BÍL.

Samstarfið við menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
Samstarf BÍL og MOFR hefur verið í föstum skorðum síðasta árið, BÍL á tvo áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins og leggur til fjóra af fimm fulltrúum í faghóp ráðsins, sem hefur það hlutverk að gera tillögur um úthlutun styrkja til list- og menningartengdra verkefna, bæði til einstakra verkefna en tekur líka þátt í vinnunni við útnefningu borgarhátíða og langtímasamninga. Reykjavík hefur verið að auka stuðning sinn við list- og menningartengd verkefni. Í ár fjallaði faghópurinn um 179 umsóknir sem í heildina hljóðuðu upp á 282 m.kr. en úthlutað var til 103 verkefna rúmum 66 m.kr. – 8 listhópar, hátíðir og samtök fengu nýjan samning við borgina til þriggja ára en fyrir voru 20 hópar með samninga í gildi og Gjörningaklúbburinn var útnefndur listhópur Reykjavíkur 2018.

Á árinu lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina í menningar- og ferðamálaráði fram tillögu þess efnis að tveir ráðsmenn fengju aðkomu að fundum faghópsins sem fjallar um umsóknir um list- og menningartengda styrki og gerir tillögur til ráðsins um úthlutun. Stjórn BÍL var beðin um umsögn um tillöguna og mælti ekki með samþykkt hennar enda færi slík breyting gegn menningarstefnu borgarinnar þar sem áskilin er vönduð stjórnsýsla og áhersla lögð á samstarf út á við og inn á við. Fyirkomulagið byggi líka á reglunni um „hæfilega fjarlægð“ og standist ákvæði menningarstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2013 þar sem fjalllað er um faglega úthlutun til menningarstarfs sem byggi á vönduðu jafningjamati. Þess utan eigi ráðsmenn góðan aðgang að faghópnum sem fundar með ráðinu öllu um niðurstöðu sína áður en ráðið afgreiðir hana formlega. Það fór svo að ráðið felldi tillöguna.

Síðla árs var gengið frá því að borgin tæki virkan þátt í að bæta úr húsnæðisvanda Dansverkstæðisins með því að leigja húsnæði við Hjarðarhaga, sem gert verður upp svo það henti þörfum starfseminnar. Einnig voru á árinu gerðir nýir samstarfssamningar við Nýlistasafnið og Kling og Bang, en bæði söfnin hafa fengið góða aðstöðu í endurbyggðu Marshallhúsi á Granda. Það sem þó verður að telja til mestra tíðinda á list- og menningarsviðinu og er til vitnis um gott samstarfi borgar og BÍL, er sú niðurstaða Borgarráðs að auka fjárveitingar til Listasafns Reykjavíkur til að tryggja sanngjarnar greiðslur til myndlistarmanna sem sýna í safninu og samþykkja verklagsreglur þar um. Þriggja manna starfshópur á vegum borgarinnar vann tillögu að verklagsreglunum, í honum sátu Ólöf K. Sigurðardóttir safnstjóri Listasafnsins, Signý Pálsdóttir skrifstofustjóri menningar á menningar- og ferðamálasviði og Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL. Þannig hefur Reykjavíkurborg nú gengið fram fyrir skjöldu og brugðist við kalli SÍM sem hefur af miklum krafti  haldið úti baráttu undir slagorðinu „Borgum myndlistarmönnum“. Líklegt er að nú verði pressan á ríkið aukin og einnig má telja líklegt að önnur listasöfn á vegum sveitarfélaga fylgi fordæmi borgarinnar á næstunni.

Eitt af nýmælum í stjórnsýslu borgarinnar, í þágu opinnar stjórnsýslu, er að nú hefur verið opnaður aðgangur að fundargerðum af ölllum sviðum og í öllum málaflokkum, þannig að fundargerðir menningar- og ferðamálaráðs eru nú aðgengilegar á vefnum.

Samráðsfundur með borgarstjóra
Árlegur samráðsfundur BÍL og borgarstjóra var haldinn í Höfða 8. maí og lagði BÍL upp með að ræða nokkur afmörkuð atriði menningarstefnu Reykjavíkur ásamt atriðum úr menntastefnu er varða listmenntun. Til grundvallar umræðunni lágu skilgreindar aðgerðir sem finna má í aðgerðaáætlun menningarstefnu borgarinnar:

1.kafli – aðgerð í farvegi: Reykjavíkurborg hvetur til og hefur samstarf um rannsóknir á hagrænum áhrifum menningar og skapandi greina. Til framtíðar verði hagræn, menningarleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif metin, vægi hvers þáttar og samspil þeirra á milli.

BÍL telur að grundvallaratriði í kortlagningu á áhrifum lista og menningar í borginni sé að gera úttekt á þróun framlaga til lista og menningar. Greina þarf hvernig framlög hafa skipst milli stofnana og sjálfstæðrar starfsemi, milli hópa og einstakra listamanna, milli hátíða og annars konar verkefna. BÍL telur frekari rannsóknir á vægi greinanna byggja á slíkri kortlagningu og að miða beri úttektina við árabilið 2009 – 2016.

 1. kafli – 5 ára áætlun: Verklagsreglur fyrir menningarstofnanir Reykjavíkurborgar mótaðar í samvinnu forstöðumanna þeirra og Bandalags íslenskra listamanna sem miða að því að réttur listamanna til launa fyrir vinnuframlag sitt sé virtur og höfundaréttur þeirra hafður í hávegum.

Þessu ákalli var svarað með auknum fjármunum til Listasafns Reykjavíkur og verklagsreglum um greiðslur til myndlistarmanna (sjá framar í skýrslu þessari).

 1. kafli – 5 ára áætlun: Hvatt til áherslu á menningaruppeldi með því að efla fræðslustarfsemi menningarstofnana borgarinnar og að auka samstarf listamanna og skólafólks innan grunnskólans í nánu samstarfi við skóla- og frístundasvið.

Hér er lögð áhersla á samstarf listamanna og skólafólks og BÍL hvatti borgaryfirvöld til að tengjast langþráðu verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins „List fyrir alla“ með það að markmiði að reikvísk grunnskólabörn og kennarar þeirra fái notið þess sem verkefnið hefur að bjóða.

Stefna um tónlistarfræðslu – Tillögur starfshóps maí 2011: Tónlistarnám í Reykjavík tekur mið af þremur meginmarkmiðum aðalnámskrár tónlistarskóla: Uppeldislegum markmiðum, leikni- og skilningsmarkmiðum og samfélagslegum markmiðum. […] Gæðaviðmið taka mið af viðurkenndum gæðastuðlum, s.s. aðalnámskrá og öðrum sambærilegum alþjóðlegum viðmiðum. […] Reykjavíkurborg greiðir framlag til tónlistarkennslu samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla 75/1985.

Varðandi þennan þátt þá hvatti BÍL borgaryfirvöld til að nýta svigrúmið, sem skapast með stofnun menntaskóla tónlistarinnar og breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, til að endurreisa kerfið og slá öflugum stoðum undir starfsemi þeirra skóla sem starfa innan þess. Mikilvægt er að greiðslur borgarinnar til skólanna haldist í hendur við umsamin laun og að skólunum sé gert kleift að standa við ákvæði um bóklega kennslu og samspil meðfram einkakennslu svo sem námskrá kveður á um.

 1. kafli – Aðgerðir í farvegi: Fjölbreytt aðstaða til listsköpunar, listflutnings, sýninga og annarrar menningarstarfsemi hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu borgarinnar eða annarra. Auk nýrra möguleika til aðstöðu gætu ýmis opin rými borgarinnar einnig komið til móts við þarfir listalífsins.

Í ljósi þessa hvatti BÍL borgaryfirvöld til að taka þátt í að leysa húsnæðisvanda Dansverkstæðis, sem þau og gerðu fyrir árslok (sjá framar í skýrslu þessari) en einnig var minnt á framtíðarmarkmið danslistarinnar, þ.e. stofnun Danshúss í Reykjavík.

 1. kafli – 5 ára áætlun: Aukin aðkoma listamanna að skipulagi og mótun mannvirkja á vegum borgarinnar, í samræmi við markmið í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, ásamt áherslu á samþættingu lista við skipulag hverfa utan miðborgarinnar.

Stjórn BÍL ítrekaði fyrri athugasemdir sínar varðandi þörfina á fleiri opnum samkeppnum um arkitektúr og skipulag ásamt ákalli um aukna fagmennsku við framkvæmd þeirra.

 1. kafli – 5 ára áætlun: Tekið verði mið af 14. grein myndlistarlaga nr. 64/ 2012 um framlag til listaverka í nýbyggingum þar sem verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar.

Myndlistarlög mæla fyrir um að opinberar byggingar ásamt umhverfi þeirra, svo og önnur útisvæði í opinberri eigu, séu fegruð með listaverkum og að verja eigi a.m.k. 1% af heildarbyggingarkostnaði nýbygginga til að uppfylla þessa lagaskyldu. Þá er í lögunum ákvæði um að Alþingi veiti árlega fé í listskreytingasjóð til listaverka í opinberum byggingum (ríkis og sveitarfélaga) sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999.  Staðreyndin er sú að ríkið hefur forsómað Listskreytingasjóð síðustu sex árin, þar sem framlagið til hans var skorið eftir hrun úr kr. 7,1 milljón 2010 í 1,5 milljónir, sem gerir sjóðnum ókleift að starfa. SÍM, AÍ og BÍL hafa gert alvarlegar athugasemdir við þessa niðurstöðu ríkisins í sjö ár og leggja nú til við borgaryfirvöld að þau gangi í lið með listamönnum og kanni hvernig borgin sinnir þeirri lagaskyldu sem á henni hvílir, með það að markmiði að auka hlut myndlistar í opinberum byggingum og umhverfi þeirra. Slíkar aðgerðir myndu auka þrýsting á ríkið og vonandi auka það fjármagn sem Alþingi ákvarðar Listskreytingasjóði í fjárlögum framtíðarinnar.

Stjórn BÍL fagnaði á fundinum nýrri aðgerðaáætlun á grundvelli ferðamálastefnu Reykjavíkur, en BÍL hefur um árabil lagt áherslu á aukið samtal ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina, m.a. með starfi innan Íslandsstofu en einnig innan menningar- og ferðamálaráðs þar sem áheyrnarfulltrúar BÍL hafa tök á að koma með tillögur og sjónarmið. Þá hvatti stjórn BÍL borgaryfirvöld til að þrýsta á ríkið og Hagstofu Íslands varðandi skráningu talnaefnis tengt þeim atvinnugreinum sem styðja við ferðaþjónustuna þ.m.t. listir og skapandi greinar.

Launasjóðirnir
Úthlutun úr launasjóðunum fór fram 1600 mánaðalaun til úthlutunar úr launasjóðum listamanna. Sótt var um 9.053 mánuði, svo munurinn er 7.453  mánuðir! Í þetta sinn var ekki úthlutað neinum ferðastyrkjum. Alls bárust 852 umsóknir um starfslaun frá einstaklingum og hópum. Umsækjendur voru samtals 1.529. Úthlutun fengu 370 listamenn. 2016 setti BÍL fram ákall til stjórnvalda, og raunar til stjórnmálaflokkanna sem rætt var við í aðdraganda þingkosninga það ár, um að gerð yrði þriggja ára áætlun um fjölgun mánaðarlauna í starfslaunasjóðum listamanna, þ.e. að þeim fjölgi úr 1600 í 2000 á þremur árum og um hækkun mánaðarlegrar greiðslu úr 350 þús. í 450 þús. strax 2017. Að auki yrði gerð áætlun um eflingu verkefnatengdra sjóða, ekki síst kvikmyndasjóðs og sviðslistasjóðs. Þessu ákalli var ekki sinnt af síðustu ríkisstjórn, en mögulega eru hagfelldari skilyrði uppi núna, þar sem ný ríkisstjórn heitir því í stjórnarsáttmála að efla bæði starfslaunasjóðina og verkefnatengda sjóði. Rétt er að taka fram að mánaðargreiðsla úr launasjóðunum um þessar mundir er kr.  377.402.-, framreiknað væru 450 þúsundirnar því rúmlega 485 þúsund.  Greiðslurnar úr launasjóðunum eru verktakagreiðslur, svo þegar skoðað er hver launaliðurinn er í mánaðagreiðslu að upph. kr. 377.402.- , ef gert er ráð fyrir að 32% greiðslunnar fari í launatengd gjöld, er niðurstaðan tæpl. 256.633.- fyrir skatt. Það þarf ekki að fjölyrða um það hvort einhverri annarri háskólamenntaðri stétt í landinu sé boðið upp á sambærileg kjör. Til áréttingar má geta þess að árlega brautskráir Listaháskóli Íslands 110 – 120 með bakkalár- eða meistaragráðu í listum og hönnun. Það segir sig sjálft að krafa BÍL um áætlun um eflingu launasjóðanna er bæði eðlileg og sanngjörn.

Í mars hélt stjórn BÍL samráðsfund með stjórn listamannalauna og ræddi málefni sjóðanna og framtíðarþróun. Voru fundarmenn sammála um að halda áfram baráttunni fyrir því að launasjóðir listafólks á Íslandi verði fjármagnaðir með sambærilegum hætti og gert er á hinum Norðurlöndunum. Til þess að svo megi verða þarf að gera samanburð á kerfum landanna, sem BÍL hefur því miður ekki fengið ráðuneyti mennta- og menningar til að framkvæma, þrátt fyrir nokkrar tilraunir í þá átt. Stjórn BÍL telur að með samstilltu átaki og samstarfi við stjórn listamanna launa megi færa sönnur á það hversu undirfjármagnað okkar launasjóðakerfi er og hvernig okkar launasjóðir hafa átt undir högg að sækja, sem er alls ekki raunin á hinum Norðurlöndunum. Í ljósi þess að stjórnvöld virðast loks hugsa sér til hreyfings í þessum efnum er mikilvægt að málefnanlegt samtal eigi sér áfram stað milli stjórnar BÍL og stjórnar listamannalauna.

Á vettvangi samstarfs regnhlífarsamtaka listamanna á Norðurlöndunum verður áfram þrýst á um að gerður verði yfirgripsmikill og marktækur samanburður á starfskjörum listamanna í löndunum fimm og á sjálfstjórnarsvæðunum. Þessi brýna þörf var aðalumræðuefni samráðsfundar Norræna listamannaráðsins (Nordisk Kunstnerråd) sem haldinn var í Stokkhólmi 20. mars 2017 en næsti fundur í þessu norræna samstarfi verðu haldinn í Osló 23. mars nk.

Heiðurslaun Alþingis
Um miðjan ágúst sagði Pétur Gunnarsson rithöfundur sig frá setu í umsagnarnefnd heiðurslauna Alþingis, en hann hafði verið skipaður í nefndina af hálfu BÍL í desember 2012. Skipan Péturs hafði verið með fyrirvara, sem forseta Alþingis var gerð grein fyrir, þess efnis að stjórn BÍL felli sig ekki við fyrirkomulagið á heiðurslauna-útdeilingum Alþingis, telji annmarka á lögunum frá 2012 og tilefni sé til að eiga samtal um breytingar á inntaki og framkvæmd. Meðal þess sem Pétur gerði stjórn BÍL grein fyrir þegar hann sagði sig frá setu í nefndinni var t.d. að nefndin var einungis kölluð saman einu sinni á tímabilinu sem skipan Péturs stóð, þ.e. 21. desember 2016  og var gert að skila umsögn sinni um tillögur sem óljóst var hvernig voru til komnar fyrir kl. 19:00 þann sama dag. Pétur sendi stjórn BÍL hugleiðingar sínar um heiðurslaunin og „Íslenska akademíu“, sem lýst er í ályktun aðalfundar BÍL 2012. Hugleiðingar Péturs eru aðgengilegar á vef BÍL. Niðurlag þeirra hefur að geyma eftirfarandi hugmynd:  Á komandi ári eru 100 ár liðin síðan Ísland hlaut sjálfstæði. „Íslensk akademía“ væri verðug gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín af því tilefni. Það kann að vera fullt tilefni til að ræða þessi mál við nýjan forseta Alþingis, þar sem samtalið við fyrverandi forseta skilaði engu.

Listmenntun
Eitt af meginmarkmiðum opinberrar menningarstefnu (frá 2013) er að efla listfræðslu og listkennslu í skólakerfinu öllu, m.a. með því að byggja áfram upp háskólanám í listum og efla rannsóknir á sviði menningar og lista. Þrátt fyrir þessa áherslu hefur BÍL ekki tekist að fá sérstakt samtal við menntamálaráðherra síðustu tveggja ríkisstjórna um listmenntun, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þó verður að þakka það sem vel er gert og á aðalfundi BÍL 2017 var sérstaklega fagnað þeim áfanga að stofnaður hafði verið framhaldsskóli á sviði tónlistarinnar með samningi við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík, einnig höfðu verið gerðar nokkrar breytingar á samkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna sem lengi hafði verið knúið á um. Það breytir ekki því að langt er í land með að tryggja öllum börnum á öllum skólastigum hvar sem er á landinu nægilega kennslu í listum og öðrum skapandi greinum.

Í kaflanum um menntamál í menningarstefnunni er því heitið að öll skólastig verði efld í þágu þess háleita markmiðs að listir og menning séu meðal þess sem skiptir sköpum fyrir uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða í landinu. Í því sambandi hefur BÍL spurt: Hvernig má þá skýra skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart háskólamenntun í listum, sem einungis er hægt að stunda gegn háum skólagjöldum, auk þess sem aðstaðan sem listnemum er búin óviðunandi aðstaða í ónýtu húsnæði? Baráttan fyrir bættri aðstöðu Listaháskóla Íslands hefur staðið árum saman, eiginlega allt frá stofnun skólans, og BÍL hefur beitt sér í samtali við stjórnvöld, en það er ekki fyrr en núna, þegar heilbrigðisyfirvöld hafa beinlínis lokað stærstum hluta af húsnæði skólans við Sölvhólsgötu, sem virðist hilla undir aðgerðir til að laga það versta. Enn hafa stjórnvöld ekki lagt fram hugmyndir um fjármögnun framtíðarhúsnæðis fyrir skólann. Ekki hefur heldur mótuð stefna um rannsóknir í listum eða ákveðið með hvaða hætti hlutur lista innan Vísinda- og tækniráðs verði aukinn. Ekki bólar heldur á fjármagni á fjárlögum sem tryggir að rannsóknarþátturinn í starfsemi Listaháskóla Íslands sé fjármagnaður með sama hætti og innan annarra háskóla. Og ekki hefur verið tekin ákvörðun um með hvaða hætti háskólanámi í kvikmyndagerð verður komið á legg.

BÍL hefur lagt sig fram við að beina sjónum ráðamanna, bæði ríkis og sveitarfélaga, að þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að efna fyrirheit um að námi í listdansi verði eflt og fái staðið jafnfætis tónlistarnámi í skólakerfinu. Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins við skólana um kennslu á framhaldsstigi rennur út í lok þessa skólaárs og erfitt hefur verið að fá svör frá ráðuneytinu um áform þeirra í framhaldinu. Úttekt skólanna stendur yfir og þrýst er á ráðuneytið um að eyða óvissu um rekstrarskilyrði þeirra. Annað atriði sem mikilvægt er að lokið verði við í mennta- og menningarmálaráðuneyti er að semja reglugerð um fjármögnun og skipan nám í listdansi sem geri viðurkenndum dansskólum kleift að sinna starfi sínu af þeim myndugleik sem efni standa til. Í því sambandi hafa fagfélög dansgeirans verið í samtali við samtök sveitarfélaga og reyna nú til þrautar að fá ráðuneytið með í það samtal. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og samstöðu BÍL, Félags íslenskra listdansara og Danshöfundafélags Íslands, hefur því miður ekki enn tekist að vekja stjórnvöld af dvala í málefnum danslistarinnar, en vonir standa til að hreyfing komist á málin með vorinu.

Umsagnir um þingmál
BÍL fékk þrjú þingmál til umsagnar á árinu;

 • þingsályktunartillögu um minningu tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar, landsbókavarðar og þjóðsagna-safnara, þar sem lagt er til að gerðar verði tvær lágmyndir af Jóni og haldin ráðstefna um störf hans. Umsögn BÍL var á þá leið að mikilvægt sé að vinna tillögur af þessu tagi í samstarfi við þá aðila sem gert er ráð fyrir að framkvæmi þær, í þessu tilfelli Háskóla Íslands og Landsbókasafn, en hvergi er tekið fram í tillögutexta að slíkt samráð hafi farið fram. Þá dró BÍL í efa að kostaðarmatið sem lá til grundvallar tillögunni væri alls kostar rétt. Loks stakk BÍL upp á því að allsherjar- og menntamálanefnd hugaði að því hvort sagan hafi að geyma upplýsingar um merkiskonu, sem mögulega mætti minnast með svipuðum hætti til að vega upp á móti þeim kynjahalla sem viðgengst í opinberum ákvörðunum um að gerðar séu lágmyndir, brjóstmyndir og styttur af körlum sögunnar. Málið náði ekki fram að ganga.
 • frumvarp um að 95. grein almennra hegningarlaga falli brott, en greinin fjallar um viðurlög við móðgun við erlenda þjóðhöfðingja, smánun þjóðartákna á borð við fána og eignaspjöll á sendiráðum og lóðum þeirra. Stjórn BÍL taldi rétt að mæla með samþykkt frumvarpsins, í ljósi þess að BÍL er málsvari tjáningarfrelsis og á aðild að alþjóðlegu samtökunum ARTSFEX sem helga sig baráttunni fyrir tjáningarfrelsi listamanna um heim allan. Málið náði ekki fram að ganga.
 • þingsályktunartillögu um framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskóla Íslands. Í samræmi við stefnu BÍL í málefnum listmenntunar á háskólastigi og áralanga þátttöku í baráttu LHÍ fyrir viðunandi húsnæði fyrir allar deildir skólans, mælti stjórn BÍL með samþykkt tillögunnar. BÍL rökstuddi þá afstöðu sína m.a með því að vitna til menningarstefnu samþykktir á Alþingi 2013 og leyfði sér að gagnrýna stjórnvöld fyrir að leggja fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára án þess að gera ráð fyrir fjármunum til úrbóta á húsnæði LHÍ. Tillagan náði ekki fram að ganga.

Samhent stjórnsýsla – samráðsgátt
Á undanförnum árum hefur stjórn BÍL lagt hart að stjórnmálamönnum að bæta stjórnsýslu lista og menningar, bæði vegna þess hversu dreifður málaflokkurinn er orðinn um stjórnkerfið, en ekki síður vegna ónógra samskipta og erfiðleika við að fá svör við innsendum erindum. Það sem stjórn BÍL hefur talið að bæta myndi ástandið er sjálfstætt ráðuneyti menningar að norrænni fyrirmynd, en þangað til slík ákvörðun verður tekin þyrfti að gera áætlun um samræmda stjórnsýslu í málefnum lista, menningar og skapandi greina með formlegum samráðsvettvangi þeirra ráðuneyta sem sinna málefnum hins skapandi geira. Mikilvægt er að halda þessari hugmynd vakandi enda er hún í samræmi við niðurstöðu rannsókna sem gerðar hafa verið innan stjórnsýslufræða og skýrslur sem stjórnvöld hafa látið vinna á undanförnum árum, sérstaklega má nefna skýrslu starfshóps um samhenta stjórnsýslu frá desember 2010. En til að því sé til haga haldið sem vel er gert skal hér vakin athygli á nýung í kynningu á lagafrumvörpum sem eru í vinnslu í ráðuneytunum. En nýverið var opnuð „samráðsgátt“ á heimasíðu stjórnarráðsins, þar sem kynnt eru stjórnarfrumvörp sem eru í undirbúningi og til stendur að leggja fyrir Alþingi. Þar eru einnig kynntar breytingar á reglugerðum sem ráðherrar hyggjast gera. Gegnum þessa samráðsgátt er hægt að senda inn athugasemdir og hugmyndir, sem gætu ratað inní frumvörpin þegar þau verða lögð fram í endanlegri mynd. Ástæða er til að þakka þetta framtak og hvetja fagfélög listafólks til að fylgjast vel með „gáttinni“. Um þessar munir eru þar í kynningu 3 lagafrumvörð sem varða listir og menningu; drög að frumvarpi til breytingar á kvikmyndalögum, frumvarp um skil á menningarverðmætum til annarra landa og frumvarp um sameiginlega umsýslu höfundaréttar. Þá er von á að kynnt verði frumvarp til nýrra sviðslistalaga innan skamms. https://samradsgatt.island.is/

List um allt land
Leiklistarhátíðin ACT ALONE og BÍL leiddu saman hesta sína í ágúst og héldu málþing um atvinnutækifæri listamanna utan höfuðborgarinnar. Málþingið var haldið í tengslum við hátíðina sem fram fór á Suðureyri við Súgandafjörð  föstudaginn. Frummælendur voru þau Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar, Karna Sigurðardóttir forstöðumaður​ Menningarstofu Fjarðabyggðar og  Einar Þór Gunnlaugsson leikstjóri. Þá var  boðið upp á pallborðsumræður um inntak málþingsins, þar tóku þátt Teitur Björn Einarsson alþingismaður og Elfar Logi Hannesson leikari og stjórnandi hátíðarinnar Act Alone. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar Gísli H. Halldórsson setti málþingið og forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir var fundarstjóri. Segja má að málþingið hafi heppnast vel og fékk það talsverða umfjöllun í landsbyggðatengdum fjölmiðlum, en erfiðara var að vekja áhuga annarra fjölmiðla. Ástæður þess kunna að vera skortur á skilningi á mikilvægi þess að listir á atvinnugrundvelli fái þrifist utan höfuðborgarsvæðisins, en eitt af mikilvægum verkefnum BÍL er að freista þess að vekja áhuga fjölmiðla á málefnum listanna í víðum skilningi.

Úr kynningartexta málþingsins: Þegar fjallað er um atvinnulífið í opinberum skýrslum eða rannsóknum félagsvísindanna koma oftar en ekki í ljós veikleikar sem flestir virðast sammála um að þurfi að lagfæra. Meðal þeirra er áberandi einhæfni atvinnulífsins, sérstaklega á dreifbýlli svæðum, og lögð er áhersla á mikilvægi þess að aukið verði við fjölbreytnina, enda almennt talið að kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf sé grundvöllur þess að ungt fólk vilji setjast að á landsbyggðinni. En viðleitni stjórnvalda til að hafa áhrif á kraftinn og fjölbreytnina í atvinnulífinu hefur ekki skilað ásættanlegum árangri fram til þessa. Ýmsar leiðir til úrbóta hafa verið kannaðar og undanfarið hefur mátt greina sameiginlegar áherslur stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, þar sem horft hefur verið til möguleika nýsköpunar, rannsókna og þróunar. Í því sambandi er oftar en ekki vísað til þess geira atvinnulífsins sem kallaður hefur verið „skapandi greinar“. Listamenn hafa staldrað við framsetningu stjórnvalda á hugmyndum um eflingu „skapandi greina“ og telja oft á tíðum óljóst hvort listir tilheyri því mengi sem þar er vísað til, enda virðist áherslan oft vera á framleiðslu eða þjónustu sem andlag viðskipta.

Lifað af listinni – málþing um höfundarréttarstefnu
BÍL gekkst fyrir þriðja málþinginu um höfundarrétt, í samstarfi við Höfundaréttarráð, STEF, RSÍ, IHM og Myndstef, og var í þetta sinn fjallað um þörfina á opinberri stefnu í málefnum höfundarréttar. Málþingið var haldið í Norræna húsinu 22. september og var fundarstjóri Rán Tryggvadóttir formaður Höfundaréttarráðs. Kveikjan að málþinginu var sú að haustið 2014 skipaði ráðherra iðnaðar- og viðskipta starfshóp sem fékk það verkefni að móta framtíðarsýn um hugverkaréttindi á Íslandi. Hópurinn skilaði tillögu að fullbúinni stefnu um hugverkaréttindi og var hún gefin út í júní 2016 sem opinber Hugverkastefna 2016-2022 undir heitinu „Hugverkaréttindi sem verðmæti og viðskiptatæki“.

Það er mat Höfundaréttarráðs og samstarfshóps höfundarréttarsamtaka að nauðsynlegt sé að halda áfram á þessari braut og hefja vinnu við að móta svipaða framtíðarsýn um höfundarétt. Fyrirkomulag málþingsins var þannig að haldin voru tvö innlegg um grundvallaratriði höfundaréttarstefnu og leitað rökstuðnings fyrir mikilvægi slíkrar stefnu, auk þess sem kynnt var vinnan við hugverkastefnuna. Síðan var boðið upp á vinnu í hópum, þar sem þátttakendur skiptu sér á borð eftir listgreinum og gafst kostur á að setja sitt mark á væntanlega stefnu, bæta við rökstuðningi og sjónarmiðum. Markmiðið var að málþingið skilaði efniviði sem Höfundaréttarráð gæti byggt á endanlega tillögu að Höfundaréttarstefnu 2018 – 2024. Greinargerð málþingsins, sem m.a. hefur að geyma efniviðinn sem varð til í hópavinnunni, var sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu í lok nóvember og er aðgengileg á vefsíðu BÍL.

Staða fagfélaga listafólks innan BHM
Í maí hafði stjórn BÍL frumkvæði að því að haldinn var fundur með formanni og framkvæmdastjóra BHM um stöðu fagfélaga listafólks innan samtakanna. Þær Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM og Erna Guðmundsdóttur framkvæmdastjóri upplýstu fundarmenn um að staða félaganna innan BHM væri nokkuð mismunandi, að hluta til vegna þess að sum félögin hafa átt aðild að BHM lengur en önnur, en mikilvægt væri að hefja vinnu við að jafna þessa stöðu með einhverju móti. Áhugi var meðal félaganna að halda þessari umræðu áfram og kanna þá hvort mögulegt væri að félögin fengju til liðs ráðgjafa til leiðsagnar, sem launaður yrði gegnum starfsþróunasetur BHM. Könnun á því er ekki lokið og óvíst hvernig mál þróast, en þó er mikilvægt að finna áhuga hjá forystu BHM á því að styrkja stöðu fagfélaga listafólks innan heildarsamtaka háskólamenntaðs launafólks.

BÍL og utanríkismálin
BÍL á ekki í miklu beinu erlendu samstarfi ef undan er skilið samstarfið við norrænu systursamtökin: Dansk Kunstnerråd, KLYS í Svíþjóð, Kunstnernettverket í Noregi, Forum Artis í Finnlandi, Lisa í Færeyjum, Sámi Dáiddárráðði í Samalandi og Grønlandsk Kunstnerråd. BÍL átti aðild að ECA – European Council of Artists, sem voru samtök sem stofnuð voru 1995 fyrir danskt frumkvæði, en smám saman dvínaði þörfin fyrir það samstarf og endaði með því að þau voru formlega lögð niður á síðasta ári. Forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir var forseti samtakanna síðustu árin eða frá 2011.

Þau málefni lista og menningar er helst varða erlent samstarf og utanríkismál tengjast starfi Íslandsstofu og kynningarmiðstöðvum lista og hönnunar. Frá því Íslandsstofa var stofnuð og stofnuð fagráð innan hennar hefur BÍL átt fulltrúa í fagráði um listir og skapandi greinar. Starf fagráðanna hefur þróast talsvert og smám saman opnast samstarfsmöguleikar við önnur fagráð, ekki síst fagráð ferðaþjónustunnar. Nú stendur til að breyta lögunum um Íslandsstofu og skv. frumvarpi sem hefur verið til kynningar á heimasíðu utanríkisráðuneytis verða fagráðin lögð niður. Það hefur ekki lagst vel í forstöðumen kynningarmiðstöðvanna sem eru hryggjarstykkið í fagráði lista og skapandi greina. Á fundi forseta BÍL með utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni um miðjan janúar sl. voru áhyggjur geirans af þessum breytingum reifaðar. Þar var lögð áhersla á hlut listanna í ímynd Íslands og þann veigamikla þátt sem þær leika sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Í fagráði lista og skapandi greina koma saman þeir aðilar sem skipuleggja þátttöku íslenskra listamanna og hönnuða í hátíðum, messum og kaupstefnum lista- og menningargeirans, innan lands sem utan. Einnig sitja í fagráðinu fulltrúar þriggja ráðuneyta sem koma að málefnum lista og menningar (utn, mrn og anr). Þannig hefur fagráðið um átta ára skeið greitt fyrir samstarfi listageirans og opinberra aðila, enda fundar það reglulega og er upplýst um starfsáætlanir kynningarmiðstöðvanna, sem tryggir að stuðningur Íslandsstofu við kynningu lista og menningar á erlendri grund er á forsendum miðstöðanna, sem enda búa yfir sérfræðikunnáttu og fagþekkingu geirans. Það er mat stjórnar BÍL að uppbygging fagráða Íslandssofu sé enn í mótun og þurfi lengri tíma til að festast í sessi. Stjórnin leyfði sér því á fundinum með ráðherra að vara við áformum um að leggja fagráðin niður og hvatti þess í stað til að samtal list- og menningargeirans við fulltrúa stjórnvalda yrði eflt enn frekar t.d. með því að stofna á ný embætti menningarfulltrúa utanríkisráðuneytisins, en slík staða er ekki skilgreind innan ráðuneytisins um þessar mundir. Þá hvatti stjórn BÍL ráðherra til að leggjast á sveif með kynningarmistöðvunum, efla fjárhagsgrundvöll þeirra og gera þær að virkari þátttakanda í utanríkisstefnu stjórnvalda.

Kínversk sendinefnd á ný
Sumarið 2016 tók BÍL á móti opinberri sendinefnd kínverskra listamanna undir hatti CFLAC – China Federation of Literary and Art Circles. BÍL bauð til fundar í Iðnó þar sem ræddir voru möguleikar á auknum samskiptum listamanna frá þessum löndum, en eins og kunnugt er þá er mikill áhugi á Íslandi í Kína og fjöldi kínverskra ferðamanna hér vex hratt. Nú hefur borist nýtt erindi frá CFLAC, sem hyggst koma með sendinefnd til Íslands í júní og býður m.a. til tónleika í Hörpu. Þess hefur verið óskað að BÍL hitti sendinefndina og að undirrituð verði viljayfirlýsing um frekara samstarf. Ekki er ólíklegt að ítrekuð verði ósk um þátttöku Íslands í listahátíð í Kína 2019, 11th China International Folk Arts Festival (eða einhverri annarri sambærilegri hátíð) og boð til forseta BÍL um að heimsækja Kína. Slíkt boð var þegið 2016, en með þeim fyrirvara þó að tækist að fjármagna slíka ferð.

BÍL 90 ára
Bandalag íslenskra listamanna á 90 ára afmæli í ár 2018, það var stofnað 6. september 1928 og er elsta starfandi listamannasamband á norðurlöndunum. Stjórn BÍL hefur reifað hugmyndir að viðburðum af þessu tilefni, m.a. þá hugmynd að halda „Listamannaþing“ í anda hins sögufræga þings sem BÍL hélt síðla í nóvember 1942. Það stóð í 8 daga og afgreiddi, með afar vönduðum hætti, fjölda harðorðra ályktana um stöðu og starfskjör listamanna. Blöðin fjölluðu í löngu máli um ályktanirnar og var sérstaklega fjallað um hversu litla virðingu ríkisstjórnin sýndi þinginu, með því að einungis einn ráðherra var viðstaddur setningu þess, það var menntamálaráðherra. Í þessu sambandi hefur stjórn BÍL rætt mögulega skráningu sögu Bandalagsins í tilefni afmælisins, sem mögulega væri hægt að framkvæma í áföngum á næstu 10 árum, þannig að hún teldist fullbúin á 100 ára afmælinu. Slíka sagnaritun mætti  vinna með ýmsum hætti, t.d. með því að hugsa hana sem vefútgáfu, sem hægt  væri að prjóna við eftir því sem fjármunir og starfskraftar leyfa. Þá hefur einnig verið orðað hvort BÍL geti með einhverjum hætti tengt 90 ára afmælið við hátíðarhöldin í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands, sem standa munu allt árið.

Harpa
Af öðrum málum sem BÍL sinnti á starfsárinu má nefna málefni Hörpu, en í Listráði Hörpu sitja formenn allra fjögurra fagfélaga tónlistarmanna auk Ásmundar Jónssonar sem er fulltrúi BÍL og formaður ráðsins. Innan ráðsins hefur verið kallað eftir því að skerpt verði á hlutverki þess, það virkjað betur og fái meira að segja um fyrirkomulag starfsemi tónlistarhússins. Snemma árs kom nýr forstjóri til starfa í Hörpu, Svanhildur Konráðsdóttir, og í júní funduðu forseti BÍL og fulltrúi BÍL í listráðinu með henni til að freista þess að koma hreyfingu á stefnumótunarvinnu og setningu starfsreglna fyrir listráðið. Til að hreyfa þessum málum þarf atbeina stjórnar Hörpu, en þar hafa verið nokkuð tíð mannaskipti og á endanum var talið ráðlegt að bíða með fundahöld þar til ljóst yrði hvernig ný ríkisstjórn myndi skipa málum varðandi Hörpu, bæði hvað varðar stjórnarmenn en ekki síður varðandi rekstrargrundvöllinn. Á fjárlögum 2018 voru gerðar ráðstafanir til að rétta fjárhagsstöðu Hörpu að einhverju marki og raunar var einnig bætt við framlagið 2017, í heildina nam viðbótin 2 x 243 milljónum króna. Það má sjá á ummælum meiri hluta fjárlaganefndar í nefndaráliti með fjárlögum 2018 að aukið framlag er ekki óumdeilt, þar segir:

Framlög til menningarmála hafa á undanförnum árum aukist nokkuð. Í fjárlagafrumvarpinu er til að mynda veruleg hækkun á framlagi til Hörpu í Reykjavík sem er mikilvæg menningarbygging. Það er álit meiri hlutans að rýna verði rekstur hússins og mögulega endurskoða tekjugrunn. Á það er bent að meðan framlög hækka jafn ríflega og raunin er, þá er á sama tíma ekki það sama um menningarmál annars staðar á landinu að segja. Við ákvörðun um byggingu Hörpu var horft til eflingar á menningarlífi víða um land og ætlunin var að styðja við menningarhús eða -sali. Vegna efnahagshruns var þeim áætlunum slegið á frest. Því er mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðherra marki stefnu um framtíð þeirra áætlana. Enn hefur ekki verið lokið við menningarsali eða hús á Sauðárkróki, Egilsstöðum og Selfossi. Víðar voru áætlanir um stuðning við minni áform. Það er því eindreginn vilji meiri hlutans að samhliða stórhækkuðum framlögum til Hörpu verði tekin ákvörðun um framtíð þessara áforma.

Varðandi áformaðan fund formanns listráðs Hörpu og forseta BÍL með stjórnarformanni og forstjóra Hörpu, þá er hann enn á dagskránni en hefur ekki verið dagsettur.

Ný stefna RÚV, Iðnó og meiri Lennon
BÍL hefur gegnum tíðina litið á Ríkisútvarpið sem eina af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og hafa þau sjónarmið m.a. komið fram í umsögn BÍL um fjárlög, en einnig hefur stjórn BÍL fundað reglulega með útvarpsstjóra og hans nánasta samstarfsfólki um menningarhlutverk RÚV og skyldur þess við listirnar í landinu. Í maí sl. var kynnt ný stefna RÚV „RÚV okkar allra – Til framtíðar“ og á grunni hennar aðgerðaáætlun. Opinn kynningarfundur var haldinn og stefnunni dreift á vef RÚV. Þegar líða tók á árið mat stjórn BÍL það svo að fresta bæri árlegum samráðsfundi með útvarpsstjóra í ljósi þess að treglega hefur gengið í samningamálum Ríkisútvarpsins og fagfélaga listafólks, en stjórn BÍL hefur einungis haft sjónarmið um stóru drættina í stefnu RÚV en gætt þess að blanda sér ekki með beinum hætti í þætti er varða kaup og kjör listamanna eða samningsmarkmið fagfélaganna. BÍL bíður því átekta með samráðsfund þar til ljóst verður hvort úr samningamálum rætist.

Þann 1. október var skipt um rekstraraðila í Iðnó og kvaddi stjórn BÍL Möggu Rósu af alúð og þakkaði henni áralangt samstarf, góðan stuðning og endalaust dekur við stjórn og forseta. Óhjákvæmilega verða einhverjar breytingar með nýjum rekstraraðilum, sem eru Gómsætt ehf, þeir sömu og reka Bergsson Mathús. BÍL væntir góðs af samstarfinu við nýja rekstraraðila og hafa þeir lýst vilja til að hýsa áfram stjórnarfundi BÍL og aðalfund, en rýmið sem BÍL hafði til umráða í risinu hefur verið sett undir annað. Því hafa Þjóðskjalasafni verið afhent þau gögn sem þar höfðu safnast fyrir síðustu árin og bíður það fræðimanna framtíðarinnar að fara í gegnum söguna sem þar hefur verið komið fyrir.

Oft koma góðar hugmyndir upp á fundum stjórnar BÍL sem eru þess virði að þeim sé haldið vakandi. Ein slík kom inn á borð stjórnar frá áhugsömum Lennon-aðdáanda, sem vill hvetja BÍL til að beita sér fyrir því að friðarsúla Yoko Ono í Viðey verði betur nýtt, en nú er gert, bæði í þágu lista og menningar en líka sem aðdráttarafl fyrir  ferðamenn. Slíkt mætti t.d. gera með því að kynna hugmyndirnar að baki friðarsúlunni og störf Yoko og Johns að friðarmálum fyrir áhugasömum Íslendingum á öllum aldri, en einnig mætti nýta hana sem vettvang til að fjalla um framlag þessara merku listamanna Yoko og Johns til heimsmenningarinnar. Hugmyndinni hefur verið komið á framfæri við nýjan sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur Örnu Schram og Guðbrand Benediktsson forstöðumann Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem hefur yfirumsjón með allri starfsemi í Viðey, en það bíður nýs forseta að fylgja henni eftir á þeim vettvangi.

Lokaorð
Nú er komið að tímamótum hjá þeim forseta sem þetta ritar, því eftir átta ára starf í þágu BÍL skal nú þakkað fyrir sig og haldið á önnur mið, en baráttumálin á vettvangi BÍL verða þau sömu:

 • Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti – öflugur talsmaður lista og menningar í ríkisstjórn.
 • Listamannalaun – áætlun um fjölgun mánaðarlauna og hækkun mánaðargreiðslna.
 • Menningartölfræði – regluleg skráning upplýsinga um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífi og framlagi greinanna til þróunar efnahagslífsins, með sambærilegum hætti og aðrar atvinnugreinar eru skráðar.
 • Menningarstefna – aðgerðaáætlun á grundvelli menningarstefnu með tímasettum markmiðum.
 • Listaháskóli Íslands –fullfjármögnuð starfsemi skólans og bindandi áætlun um hvar og hvernig hann verður byggður upp til frambúðar.
 • Listmenntun – alvöru átak verði gert til að auka hlut listmenntunar í skólakerfinu, stefnumótun varðandi grunn- og framhaldsnám í listgreinunum, verkefnið „list fyrir alla“ vaxi og dafni.
 • Rannsóknir í listum – viðurkenna hlut rannsókna í listum, efla hlut þeirra innan Vísinda- og tækniráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar og fjármagna rannsóknarþátt Listaháskólans til jafns við aðra háskóla.
 • Miðstöðvar lista og skapandi greina – stofna sviðslistamiðstöð og vinna langtímaáætlun um kynningu á listum og skapandi greinum utan landssteinanna í samstarfi við miðstöðvarnar, tryggja rekstargrundvöll þeirra og styrkja rödd þeirra innan utanríkisþjónustunnar.
 • Starfsumhverfi listamanna – fjölgun atvinnutækifæra listamanna, öflugri menningarstofnanir og skattprósenta á greiðslum til rétthafa fylgi skattprósentu fjármagnstekna.
 • Menningarsamningar við landshlutasamtök – koma samningunum aftur undir stjórnsýslu menningarmála og byggja upp raunhæf atvinnutækifæri fyrir listafólk á landsbyggðinni.
 • Fagleg úthlutun fjármuna til lista og menningar – á grundvelli samninga og sjóða þar sem faglega skipaðar úthlutunarnefndir gera tillögur um úthlutun á grunni jafningjamats.

Ársskýrsla FÍLD 2017-2018

Ársskýrsla FÍLD 2017-2018

ÁRSSKÝRSLA STJÓRNAR SÍM 2016 – 2017

STJÓRNAR-, SAMBANDSRÁÐS- OG RÁÐSTEFNUR SÍM
Stjórn SÍM frá síðasta aðalfundi 14. apríl 2016:
Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður, Eirún Sigurðardóttir varaformaður, Erla Þórarinsdóttir ritari, Steingrímur Eyfjörð og Sindri Leifsson meðstjórnendur, Helga Óskarsdóttir og Klængur Gunnarsson varamenn. Stjórnarfundir voru 10 talsins, þar með taldir tveir sambandsráðsfundir. Jafnframt voru haldnar tvær ráðstefnur og staðið fyrir opnu húsi vegna 10 ára afmælis Listamannahússins á Seljavegi 32.

Á þessum aðalfundi lýkur kjörtímabili Erlu Þórarinsdóttur, Sindra Leifssonar og Helgu Óskarsdóttur og er þeim þakkað fyrir vel unnin störf í þágu SÍM.

Þrír aðilar buðu sig fram til stjórnarsetu fyrir árið 2017 – 2019. Það eru Anna Eyjólfsdóttir, Starkaður Sigurðarson og Erla Þórarinsdóttir í sæti varamanns. Þar sem ekki bárust fleiri framboð, telst stjórnin sjálfkjörin og bjóðum við þau velkomin til starfa.

Meginverkefni stjórnar SÍM er að vera málsvari myndlistarmanna, vinna að bættum kjörum listamanna og efla þannig myndlist sem faggrein, auk þess að sinna öðrum hagsmunamálum, þ.m.t. rekstri vinnustofa. Á yfirstandandi starfsári hefur stjórn SÍM lagt áherslu á ráðstefnu í tengslum við herferðina “VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM”. Tilgangur ráðstefnunnar og herferðarinnar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna.

Félagsmenn SÍM eru nú 797 og hefur þeim fjölgað um 22 frá síðasta aðalfundi.

Á starfsárinu 2016-2017 hefur stjórn SÍM unnið að eftirfarandi verkefnum:

 VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM
Herferðin “VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM” var formlega sett af stað 20. nóvember 2015 í Norræna húsinu. Tilgangur hennar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Þungamiðja herferðarinnar er samningur um þátttöku og framlag listamanna til sýningarhalds.

KYNNING Á FRAMLAGSSAMNINGNUM
Formaður SÍM hélt á árinu kynningar fyrir þau sveitarfélög sem reka listasöfn, þar sem m.a. var farið yfir drögin að Framlagssamningnum, fyrirmyndir og reiknireglur. Það gekk nokkuð treglega að fá svör frá sveitarfélögunum framan af, en eftir að fundir með bæjarstjórum Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar komust á dagskrá, komst hreyfing á málin. Í kjölfar fundar með bæjarstjóra Hafnarfjarðar fékk formaður SÍM formlegt boð um að kynna drög að Framlagssamningnum fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þann 11. ágúst 2016. Sú kynning gekk vonum framar og átti sinn þátt í því að Hafnarborg fékk auka milljón í fjárveitingu til að greiða myndlistarmönnum. Eftir fundinn fékk SÍM sent álit frá bæjarráði Hafnarfjarðar um að ráðið teldi að næstu skref varðandi greiðslur safna til myndlistarma-nna beri að stíga á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaganna og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sendi erindi þess efnis í ágúst 2016 til Sambands íslenskra sveitarfélaga, en því erindi hefur enn ekki verið svarað.

Fundur með bæjarstjóra Kópavogs gekk síður vel en í kjölfar hans fékk formaður SÍM tækifæri til að kynna drög að Framlagssamningnum fyrir Lista- og menningarráði Kópa-

vogs, þann 12. ágúst 2016. Eftir þá kynningu óskaði ráðið eftir því að listrænn stjórnandi Gerðarsafns, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, skilaði greinargerð varðandi hennar sýn á tillögur SÍM. Formaður SÍM hefur óskað eftir að fá afrit af greinargerðinni en ekki fengið.

Þann 8. september 2016 var haldin kynning á drögum að Framlagssamningi fyrir Akur-eyrarstofu. Kynningin gekk vonum framar og voru allir sammála um að greiða þurfi myndlistarmönnum strax og leist þeim mjög vel á Framlagssamninginn og töldu hann mjög sanngjarnan. Því miður fékk Listasafnið á Akureyri þó ekki auka fjárveitingu til að byrja að greiða eftir samningnum fyrir sýningardagskrána 2017. Mögulega hefði þurft að fylgja

málinu betur eftir með formlegri beiðni frá Listasafninu á Akureyri um auka fjárveitingu til þess að byrja að greiða myndlistarmönnum.

Formaður SÍM hefur einnig boðið sveitarfélögunum sem reka Listasafn Árnesinga og bæjarstjórn Reykjanesbæjar ásamt Valgerði Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa Reykjanesbæjar, upp á kynningu á drögum að Framlagssamningnum en ekki fengið svör við þeim boðum.

 REIKNIVÉL
Stjórn SÍM réð Þránd Arnþórsson, kerfisfræðing, til að setja upp reiknivél á heimasíðu SÍM til að reikna út þóknun til listamanna ef greitt væri eftir Framlagssamningnum. Er það von stjórnar SÍM að hagsmunaaðilar og myndlistarmenn nýti sér reiknivélina í undirbúningi fyrir sýningarhald, þrátt fyrir að Framlagssamningurinn hafi formlega ekki tekið gildi.

UNDIRSKRIFTARSÖFNUN
Í tengslum við Dag myndlistar setti SÍM af stað undirskriftasöfnun í október 2016, þar sem SÍM skoraði á tilvonandi ríkisstjórn og Samband íslenskra sveitarfélaga að veita aukið fjármagn til listasafna á Íslandi sem fjármögnuð væru af opinberum aðilum. Aukið fjármagn er undirstaða þess að söfnin sjái sér fært að greiða þóknun til listamanna skv. Framlagssamningnum. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir formanns SÍM til mennta- og menningarmálaráðuneytisins um fund, bæði í gegnum tölvupóst og síma, hefur enn ekki tekist að koma á fundi til að afhenda listann.

 FUNDIR MEÐ HELSTU SAFNSTJÓRUM LANDSINS
Formaður SÍM boðaði til fundar með þeim safnstjórum sem unnu að Framlagsssamningum með SÍM, þann 31. ágúst 2016, til þess að ræða næstu skref og óska eftir samvinnu. Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og Ágústa Kristófersdóttir, safnstjóri Hafnarborgar, hafa látið í ljós óánægju með Framlagssamninginn. Niðurstaða fundarins var að safnstjórarnir myndu funda og koma síðan skriflegum athugasemdum við Framlagssamninginn til stjórnar SÍM. Í kjölfar þess og eftir að tekið hefði verið tillit til þeirra athugasemda yrðu næst skref að söfnin myndu óska eftir auka fjárveitingu til þess að greiða eftir Framlagssamningnum fyrir sýningardagskrá 2017. Formlegar athugasemdir hafa þó enn ekki borist frá Safnstjórunum. Eina safnið sem á síðasta ári óskaði eftir aukafjárveitingu vegna greiðslu þóknana samkvæmt Framlagsssamningnum var Nýlistasafnið.

Þann 30. janúar 2017 barst formanni SÍM fundarboð frá Hlyni Hallssyni, safnstjóra Listasafnsins á Akureyri og Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, til að ræða næstu skref og tillögur um breytingar á Framlagssamningnum. Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, sat fundinn ásamt Eirúnu Sigurðardóttur, varaformanni SÍM og Erlu Þórarinsdóttur. Ásdísi Spanó var fundarritari. Formaður SÍM lýsti yfir vonbrigðum sínum með að ekkert listasafn fyrir utan Nýlistasafnið hefði óskað eftir aukafjárveitingu 2017 til þess að greiða eftir Framlagssamningnum. Niðurstaða fundarins var að safnstjórarnir fundi saman og sendi frá sér breytingartillögur vegna Framlagssamningsins fyrir 15. mars 2017. Stjórn SÍM hefur ekki fengið svarbréf frá safnstjórunum, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.

MENNINGAR- OG FERÐAMÁLASVIÐ REYKJAVÍKURBORGAR – FRAMLAGSSAMNINGURINN
Stjórn SÍM barst bréf frá Borgarráði Reykjavíkurborgar þann 12. febrúar 2016 þar sem óskað er eftir fundi með Menningar- og ferðamálasviði og SÍM til að finna sanngjarna þóknun til listamanna. Formaður SÍM átti í kjölfarið fund með Svanhildi Konráðsdóttur, sviðsstjóra Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, þann 8. desember 2016. Niðurstaða fundarins var að Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, sendi SÍM formlegar athugasemdir við drögin að Framlagssamningnum og Svanhildur Konráðsdóttir hugðist í kjölfar þess óska eftir fundi með ráðherra. Svanhildur hefur jafnframt bent á að til að ná árangri í málinu þurfi að liggja fyrir samningur sem allir eru sáttir við. Þann 11. janúar 2017 bárust formlegar athugasemdir frá Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur. Hennar athugasemdir fólust í eftirfarandi atriðum:

 • Hún telur að grunnur útreikninga á þóknun skuli vera umfang sýninga en ekki tímalengd þeirra.
 • Hún bendir á að það gætu myndast miklar sveiflur á milli ára, þar sem þóknunin fer eftir sýningardagskrá hvers árs. Vegna þess þurfi söfnin að hafa aðgengi að einhverskonar sjóði eða annarri fjármögnun.
 • Hún telur að lykilatriðið til að ná árangri sé að mennta- og menningarmálaráðuneytið og Listasafn Íslands, sem höfuðsafn myndlistar í landinu, komi með markvissum hætti að úrlausn viðfangsefnisins og að skoðað verði til hlítar hvort ráðuneytið hyggist standa að stofnun miðlægs þóknunarsjóðs sem söfnin geti sótt í eftir þörfum og komið til móts við sjálfsagða kröfu listmanna um sanngjarna þóknun.
 • Hún tekur fram að til þess að finna raunhæfan grunn þóknunar sé mikilvægt að umræðu um innihald samningsins verði fundinn skýr farvegur og að ráðuneyti menningarmála setji af stað formlegt samtal sem hafi það markmið að finna leið, sem bæði er ásættanleg fyrir listamenn og jafnframt þannig að þeir sem ábyrgir eru fyrir rekstri safnanna geti skuldbundið söfnin til framtíðar. Þannig mætti sjá fyrir sér að eigendur safnanna ábyrgist að greiða vinnulaun fyrir uppsetningartímann en að þóknunarsjóður fjármagni þann þátt.

Stjórn SÍM tekur undir þau atriði sem snúa að stofnun miðlægs þóknunarsjóðs til að draga úr sveiflum á útreikningi þóknana á milli ára. Stjórn SÍM telur einnig heppilegt að ráðuneyti menningarmála leiði samtalið milli myndlistarmanna annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Stjórn SÍM hefur hins vegar bent á að Framlagssamningurinn takmarkar ekki að greitt sé fyrir sýningarhald eftir umfangi sýninga. Framlagssamningurinn felur í sér útreikning á lágmarks þóknunum vegna vinnu við sýningarhald. Þar sem umfang sýninga er mismikið er ekki óeðlilegt að tekið sé tillit til þess í ofanálag við útreikning á þóknunum vegna sýninga.

Stjórn SÍM hefur ekki svarað formlega ofangreindum athugasemdum, m.a. vegna fyrrnefnds fundar með safnstjórum þann 30. janúar 2017 og umræðna um breytingartillögur safnstjóra sem liggja áttu fyrir 15. mars 2017. Ofangreindum athugasemdum verður því svarað í maí næstkomandi.

 ÞÓKNUNARSJÓÐUR
BÍL, Bandalag íslenskra listamanna, óskaði eftir því við fjárlaganefnd Alþingis í umsögn sinni við fjárlagafrumvarp vegna ársins 2017, að í samræmi við átakið “Við borgum myndlistarmönnum” verði framlagið til þeirra safna og sýningarýma sem reka söfn, aukið um 100 milljónir kr. Önnur leið væri að stofna sérstakan þóknunarsjóð myndlistarmanna með sjálfstæðri úthlutunarnefnd. Til viðbótar við þetta er nauðsynlegt að framlag til Myndlistarsjóðs verði hækkað í 100 milljónir króna.

SKREF Í RÉTTA ÁTT
Skaftfell, Myndlistarmiðstöð Austurlands, hefur sent boðsbréf til nokkurra félagsmanna SÍM vegna sýningarhalds og er í þeim sérstaklega tekið fram að borgað verði eftir Framlagssamningnum. Einnig hefur Listasafn ASÍ kallað eftir tillögum frá myndlistarmönnum sem vilja koma til greina við val á verkum til innkaupa fyrir safnið og vegna sýningarhalds. Listasafn ASÍ tekur fram í auglýsingum vegna þessa að greiðslur verða byggðar á Framlagssamningi SÍM.

Út frá upplýsingum frá Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafninu á Akureyri, Listasafni Árnesinga, Listasafni Reykjanesbæjar, Hafnarborg og Gerðarsafni, er jafnframt ljóst að kostnaður vegna launa til listamanna eykst árið 2017, miðað við síðasta ár. Óskað var eftir upplýsingum frá söfnunum um hver kostnaður yrði ef farið væri eftir Framlagssamningnum, miðað við sýningardagskrá 2017, auk upplýsinga um hvað áætlað er að greiða listamönnum sem sýna á árinu. Fram kom að áætlað er að greiða samtals kr. 12.038.400. á árinu, sem yrði rúmlega 25% hækkun milli ára. Slíkar breytingar eru jákvæðar og skref í rétta átt. Ef launakostnaður safnanna hækkar áfram með sama hætti milli ára, yrðu greiddar þóknanir frá söfnunum í samræmi við Framlagssamninginn eftir fimm ár. Við myndlistarmenn verðum að trúa að hægt sé að reka smiðshöggið og ná þessum breytingum í gegn.

UMFJÖLLUN VEGNA HERFERÐARINNAR „VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM“
Formaður SÍM fór í allmörg viðtöl á árinu 2016 vegna kjarabaráttu myndlistarmanna. Fréttablaðið birti heilsíðuviðtal 15. október 2016 um stöðu myndlistarmanna og herferðina „Við borgum myndlistarmönnum“. Víðsjá var með heilan þátt tileinkaðan kjaramálum myndlistarmanna. Einnig birtust viðtöl í Hús & Hillbilly og tímaritinu BILDPUNKT sem IG Bildende Kunst í Vín gefur út. Eftir að viðtalið birtist í Hús & Hillbilly hafði Svandís Svavarsdóttir, alþingismaður, samband við formann SÍM, sem síðar leiddi til þess að Svandís sendi fyrirspurn á Alþingi til Kristjáns Þórs Júlíussonar, mennta- og menningarmálaráðherra varðandi herferðina „Við borgum myndlistarmönnum“

RÁÐSTEFNAN „SVONA VERÐUR FRAMTÍÐIN, HVERNIG KOMUMST VIÐ ÞANGAÐ?“
Stjórn SÍM hóf undirbúning ráðstefnunnar „Svona verður framtíðin, hvernig komumst við þangað?“ haustið 2016. Ráðstefnan fór fram 21. apríl sl. í Rúgbrauðsgerðinni. Á ráðstefnunni var farið yfir stöðu myndlistarmanna á Íslandi, mannréttindi í tengslum við kjarabaráttu myndlistarmanna og litið var til nágrannaríkjanna til samanburðar við stöðuna hér á landi. Fundarstjóri var Vilhelm Anton Jónsson og fyrir utan formann SÍM héldu Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur, Hilde Tordal, formaður NBK og Hege Imerslun, framkvæmdastjóri hjá Bildende Kunstneres, erindi. Styrmir Örn Guðmundsson og Ásta Fanney Sigurðardóttir, myndlistarmenn, héldu gjörning. Ráðstefnan endaði á námskeiði í grunnatriðum í samningatækni, leiðbeinandi var Ingvar Sverrisson, en hann hefur rekið sjálfstætt ráðgjafarfyrirtæki um langt skeið og aðstoðað fjölda fyrirtækja og félagasamtaka í samningaviðræðum. Auður Aðalsteinsdóttir mun rita „fundargerð“ eða þanka sína um umræðurnar og mun SÍM deila þeim til félagsmanna. Ráðstefnan var vel sótt og er það von stjórnar SÍM að ráðstefnan hafi aukið þekkingu félagsmanna á kjarabaráttu okkar og aukið sjálfstraust þeirra til samningagerða.

FUNDUR FÓLKSINS
Annað árið í röð var Fundur fólksins haldinn í Vatnsmýrinni. Sú nýlunda var þetta árið að samtökin Almannaheill – samtök þriðja geirans önnuðust framkvæmd fundarins í samstarfi við Norræna húsið, með stuðningi velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Tilgangur fundarins var sem áður að skapa vandaðan vettvang þar sem boðið er til samtals milli almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka, með það að markmiði að auka traust og skilning á milli ólíkra afla sem bera uppi og móta samfélagið.

Þegar undirbúningur hófst snemma vors vissu menn ekki um væntanlegar vendingar í pólitíkinni, en þegar ljóst var að kosningabarátta flokkanna vegna Alþingiskosninga væri að hefjast um líkt leyti, má segja að upplegg fundarins hafi farið að snúast um þær. Þá áttuðu frambjóðendur sig á mikilvægi þess að þeir tækju virkan þátt í fundarstörfum í Vatnsmýrinni þessa helgi 2. og 3. september og er mögulegt að það hafi átt sinn þátt í því hversu almenn þátttaka þeirra var í málstofum fundarins.

SÍM tók virkan þátt í samstarfi við BÍL vegna fundarins, en BÍL skipulagði fjórar málstofur, auk þess að taka þátt í tveimur málstofum með höfundarréttarsamtökum. Málstofur BÍL voru þessar; Listamenn eru líka „aðilar vinnumarkaðarins“, Hvar er menningarstefna stjórnmálaflokkana?, Sýnileiki lista í fjölmiðlum og Samspil lista og ferðaþjónustu. Og í samvinnu við höfundarréttarsamtök voru málstofurnar Kassettugjaldið – Framtíð höfundaréttar og Lifað af listinni – Samtal um höfundarrétt. Málstofurnar voru allar vel sóttar og fjörugar umræður spruttu um málefnin. 

RÁÐSTEFNAN „HVERNIG METUM VIÐ HIÐ ÓMETANLEGA? TRÚ OG LÍFSSKOÐANIR“
Guðbrandsstofnun, í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, Siðmennt, Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga og Sálfræðingafélag, standa fyrir ráðstefnu um gildi trúar og lífsskoðana. Ráðstefnan verður haldin á Hólum dagana 4. til 6. maí 2017, en undirbúningur hefur staðið yfir frá hausti 2016. Formaður SÍM fór á fjóra undirbúningsfundi ásamt því að funda með listamönnunum sem taka þátt í ráðstefnunni fyrir hönd SÍM. Stjórn SÍM bað Ósk Vilhjálmsdóttur, Unndór Egil Jónsson, Eirúnu Sigurðardóttur og Karlottu Blöndal að taka þátt í ráðstefnunni. SÍM greiðir þóknun fyrir flutt erindi en ferðakostnaður og uppihald fyrir þátttakendur eru greidd af skipuleggjendum.

STARA / VEFRIT & ÚTGÁFA SÍM
STARA er rit Sambands íslenskra myndlistarmanna og leitast við að efla umræðu og þekkingu á myndlist ásamt því að segja frá starfsemi SÍM. STARA, sem er birt bæði á íslensku og ensku á heimasíðu SÍM, höfðar jafnt til fagfólks sem og áhugafólks um myndlist. Útgáfur STARA voru tvær á árinu, 6. tbl. kom út 22. október 2016 á opnu húsi á Seljaveginum og 7. tbl. kom út 29. apríl 2017 á aðalfundi SÍM. Íslenski hlutinn var prentaður út í 500 eintökum og dreift frítt. Hægt er að nálgast STARA á heimasíðu SÍM og timarit.is.

Ritnefnd STARA skipa Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, Elísabet Brynhildardóttir, hönnuður og myndlistarmaður, Jón B. K. Ransu, myndlistarmaður, Auður Aðalsteinsdóttir, doktor í bókmenntafræði, og Margrét Elísabet Ólafsdóttir, doktor í list- og fagurfræði og lektor við Háskólann á Akureyri. STARA er að hluta til fjármagnað af auglýsingatekjum og er það von stjórnar SÍM að í framtíðinni muni auglýsingatekjur aukast og bera hluta af kostnað blaðsins.

DAGUR MYNDLISTAR 2016
Dagur myndlistar var árið 2016 ívið lengri en verið hefur, enda náði dagskrá hans yfir heilan mánuð. Tekin var sú ákvörðun í upphafi árs að teygja úr deginum og Dagur myndlistar varð því árið 2016 að verkefninu Dagur myndlistar – allan október. Berglind Helgadóttir, verkefnastjóri, var með sambærilegar áherslur og fyrir árið 2016 en þó í pólitískari kantinum, enda voru kosningar í lok október. Helstu áherslur hennar voru þó að efla vitund almennings á fagstarfi myndlistarmannsins og auka aðgengi að upplýsingum um myndlist til að bæta þekkingu á faginu. Með Degi myndlistar er leitast við að efla myndlistarhugsun og stuðla að dreifingu og aðgengi myndlistar svo almenningur geti bæði skilið og nýtt sér hana til að auðga líf sitt með ýmsum hætti. Skapandi og gagnrýnin hugsun eru hornsteinar listar og umfram allt jákvæðir eiginleikar í samfélagi manna.

Í tilefni daganna opnuðu listamenn vinnustofur sínar, skólakynningar voru haldnar í skólum víðsvegar um landið, greinar sem varða myndlistarvettvanginn skrifaðar, listamenn greindu frá sínum hversdegi á samfélagsmiðlinum Snapchat. Borgarbókasafnið vakti athygli á Artóteki og myndlistarbókum í safnkosti sínum.

Hápunktur Dags myndlistar var 10 ára afmæli listamannahússins á Seljavegi, sem var haldinn hátíðlegur þann 22. október. Veitingarnar voru töfraðar fram af Brynhildi Þorgeirsdóttur og Steinunn Eldflaug þeytti skífum. Heilmargar vinnustofur voru opnar á öllum hæðum hússins og fjölmargir lögðu leið sína í húsið til að skoða og njóta. Stjórn SÍM þakkar listamönnunum fyrir þátttökuna og fyrir að gera daginn ógleymanlegan.

Í heildina tókst vel til með Dag myndlistar árið 2016. Verkefnið var stækkað með breytingum á tímalengd þess og þannig fengu hefðbundnir dagskrárliðir meira andrými. Tilraun þessi staðfesti að með því að leggja heilan mánuð undir Dag myndlistar, í stað eins dags, er hægt að ná meiri árangri í að vekja athygli á starfi myndlistarmannsins og myndlist sem faggrein.

Stjórn SÍM þakkar öllum þeim sem tóku þátt í Dögum myndlistar og Berglindi Helgadóttur verkefnastjóra fyrir vel unnin störf seinustu tvö ár en hennar tímabili sem verkefnisstjóra er lokið.

ARTÓTEK
Artótekið, sem er samstarfsverkefni SÍM og Borgarbókasafnsins, var stofnað 2004. Nýlega tók SÍM yfir rekstur og bókhald Artóteksins en Borgarbókasafnið sér um, eftir sem áður, hýsingu, kynningu og sýningarhald.

Í Artótekinu er til leigu og sölu myndlist eftir félagsmenn SÍM. Markmiðið með Artótekinu er að kynna notendum Borgarbókasafns og öðrum íslenska samtímalist og gefa þeim kost á að leigja eða eignast listaverk á einfaldan hátt.

Borgarbókasafnið og SÍM vinna nú að því í sameiningu að efla starfsemi Artóteksins, fjölga lánþegum/kaupendum með markvissri kynningu og tryggja gott úrval og eðlilega endurnýjun verka. Ný vefsíða Artóteksins, www.artotek.is, var sett í loftið á síðasta ári og eru félagsmenn hvattir til að vera virkir á facebooksíðu Artóteksins og nota myllumerkin #artotekid og #borgarbokasafnid.

UMM / ARKÍV.IS
SÍM hefur umsjón með og rekur umm.is – Upplýsingavef um myndlist og myndhöfunda á Íslandi – en vefurinn er byggður á gögnum frá Upplýsingamiðstöð myndlistar sem starfrækt var um 10 ára skeið með stuðningi íslenska ríkisins. Gagnagrunnurinn er gríðarlega stór og margþættur og hefur reynst ómissandi fyrir ýmsar menningarstofnanir, myndlistarmenn, fræðimenn, kennara og erlenda sýningarstjóra.

UMM hefur ekki verið uppfærð í mörg ár og var kefið (Dísill) úrelt. Stjórn SÍM reyndi að fá styrki frá ríkinu 2015 og samfélagssjóði Landsbankans 2016 en því miður var umræddum umsóknum báðum svarað neitandi. Stjórn SÍM hefur tekið þá ákvörðun að ráðast í það stóra verkefni að uppfæra gagnagrunninn árið 2017 og mun hann síðan fá nýtt nafn „ARKÍV“. Stefnt er því að kynna nýju síðuna í október 2017 eða á Degi myndlistar, ásamt útgáfu á kynningarbæklingi. Stjórn SÍM hefur ráðið Þránd Arnþórsson, kerfisfræðing, til þess að uppfæra gagnagrunninn og Elísabetu Brynhildardóttur, myndlistarmann, til að sjá um útlit síðunnar og hönnun á kynningarbæklingi. Einnig hefur SÍM fengið starfsmann í sex mánuði í gegnum átak Vinnumálastofnunar til að vinna í gagnagrunninum.

DÓMSMÁL VEGNA LAUNAKRAFNA FYRRVERANDI FORMANNS SÍM
Þann 24. júlí 2014 fékk SÍM bréf frá VR þar sem þess er krafist að SÍM borgi fráfarandi formanni félagsins, Hrafnhildi Sigurðardóttur, full laun fyrir aprílmánuð 2014 að frádregnum launum sem hún hafði þegar fengið greidd vegna sama mánaðar, auk fullra launa vegna maí-, júní- og júlí vegna uppsagnarfrests, auk orlofs og desemberuppbóta skv. kjarasamningi VR. Til frádráttar komi greiðslur sem þegar höfðu verið greiddar vegna launa, orlofs og uppbóta. VR gerði þá kröfu að SÍM greiði Hrafnhildi kr. 1.674.481 fyrir utan dráttarvexti og kostnað vegna málsins. Stjórn SÍM hélt félagsfund þann 22. ágúst 2014 vegna kröfu fyrrverandi formanns. Á fundinum var stjórn falið að ráða lögmann til þess að svara kröfu VR. Stjórn SÍM réð Ástráð Haraldsson, hæstaréttarlögmann hjá Mandat lögmannsstofu og sérfræðing í vinnurétti, starfsmannarétti og félagarétti. VR stefndi SÍM fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir hönd Hrafnhildar og var málið þingfest 30.júní 2016. Aðalmeðferð málsins var síðan rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 23. apríl 2017. Ástráður Haraldsson fékk Jónu Hlíf Halldórsdóttur, formann SÍM, Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur, framkvæmdastjóra SÍM, Hlyn Hallsson og Áslaugu Thorlacius, fyrrverandi formenn SÍM, til að bera vitni í málinu. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur mun liggja fyrir á næstu dögum og er það áhyggjuefni stjórnar SÍM að ef málið tapast þá mun það hafa verulegar afleiðingar fyrir fjárhag sambandsins, sem mögulega þarf að mæta með hækkun félagsgjalda og hækkun á leigu vinnustofa. Krafan gæti endað í 6 milljónum með dráttarvöxtum og málskostnaði.

AÐALFUNDUR IAA
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM, fóru á aðalfund IAA (Alþjóðasamtaka myndlistarmanna) sem var haldinn í Berlín dagana 4. til 6. nóvember 2016. Flest aðildarfélög IAA standa í ströngu vegna sömu hagsmunabaráttu og SÍM, að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar og vakti barátta SIM verðskuldaða athygli fundargesta.

SKRIFSTOFA SÍM
Á skrifstofu SÍM starfa nú 5 starfsmenn í þremur stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri, Hildur Ása Henrýsdóttir, skrifstofustjóri, Fríða Britt Bergsdóttir, bókari, Birta Rós Brynjólfsdóttir, umsjónarmaður gestavinnustofa og Friðrik Weisshappel, umsjónarmaður fasteigna.

VINNUSTOFUR SÍM
SÍM er með sex vinnustofuhús á leigu og framleigir til félagsmanna sinna, í þessum húsum eru samtals 153 vinnustofur og 2 verkstæði, annað er rekið af Textilfélaginu og hitt af Leirlistarfélaginu. Vinnustofuhús SÍM eru við Seljaveg 32, Nýlendugötu 14 og á Korpúlfsstöðum í Reykjavík, að Lyngási 7 í Garðabæ og Auðbrekku 1 og Auðbrekku 14 í Kópavogi. Í Auðbrekku 1 eru auk þess geymslur fyrir félagsmenn. Því miður missum við Nýlendugötu 14 í maí á næsta ári og okkur hefur ekki tekist að finna hentugt húsnæði fyrir vinnustofur í miðbænum.

Vinnustofurnar eru alltaf allar í útleigu og langur biðlisti ef eitthvað losnar. Félagsmenn geta farið á biðlista og ganga þá fyrir ef vinnustofa losnar.

SÍM SALURINN
SÍM salurinn, sem staðsettur er í höfuðstöðvum SÍM í Hafnarstræti 16, stendur félags-

mönnum til boða til sýningarhalds og annarra viðburða. Auglýst er eftir umsóknum um sýningar félagsmanna í Salnum einu sinni á ári og standa sýningarnar yfir í um þrjár vikur, en í lok hvers mánaðar eru samsýningar gestalistamanna SÍM.

Sýningarnar hafa verið vel sóttar og hægt er að fylgjast með því hvað er á dagskrá bæði á heimasíðu SÍM og Facebook-síðu félagsins.

Árið 2016 voru eftirtaldir félagsmenn með sýningu í SÍM Salnum:

Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir, Katrín

Eyjólfsdóttir, Una Björg Magnúsdóttir, Sölvi Dúnn Snæbjörnsson, Beate Körner, Inga Huld Tryggvadóttir, Baldur Geir Bragason, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Helga Sif Guðmundsdóttir, Arnar Ómarsson, Kristín Rúnarsdóttir og Valgarður Gunnarsson.

Aðventusýningin Kanill, með verkum félagsmanna, var svo haldin í desember við góðar undirtektir.

GESTAVINNUSTOFUR SÍM í REYKJAVÍK
Alls dvöldu 144 erlendir listamenn í gestavinnustofum SÍM árið 2016. Á Seljaveginum eru 11 herbergi fyrir listamenn ásamt úrvali af vinnustofum, en bætt var við tveimur herbergjum ásamt sameiginlegri vinnustofu í júlí 2016. Á Korpúlfsstöðum eru 3 herbergi ásamt góðum vinnustofum. Listamenn geta dvalið frá einum mánuði upp í þrjá og hefur það færst í vöxt að listamenn dvelji lengur en í einn mánuð í Reykjavík. Í byrjun hvers mánaðar er hópurinn með listamannaspjall í SÍM salnum og eru allir velkomnir. Í lok hvers mánaðar býðst gestalistamönnunum að vera með samsýningu í SÍM salnum og standa þessar sýningar í tvo daga. Gestum á þessar sýningar fer fjölgandi ár frá ári enda hafa þær verið mjög fjölbreyttar og oft nýstárlegar.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar leitaði eftir samstarfi við SÍM í lok síðasta árs við að bjóða erlendum sýningarstjórum að koma og dvelja í gestavinnustofu hér á landi í allt að tvær vikur. Stjórn SÍM tók því fagnandi og er áætlað að bjóða tveimur sýningarstjórum til landsins á þessu ári. KÍM sér um að koma viðkomandi til landsins og SÍM leggur til húsnæði. Sýningarstjórarnir fara í vinnustofuheimsóknir til listamanna og halda fyrirlestur í SÍM salnum þar sem þeir kynna sig og sín störf. Þýsk-ameríski sýningarstjórinn Annabelle von Girsewald var sú sem reið á vaðið í þessu samstarfsverkefni KÍM og SÍM og dvaldi hún á Íslandi í tvær vikur í janúar og fór á þeim tíma í vinnustofuheimsóknir til tuttugu listamanna og undirbjó verkefni sem hún mun vinna með hópi listamanna hér á landi og öðrum erlendis á næstu misserum. Er það von stjórnar SÍM að félagsmenn hafi átt gott samtal við Annabelle og að þetta opni fyrir þeim tækifæri að nýjum og spennandi verkefnum.

SÍM átti í vinnustofuskiptum við Vaanta í Finnlandi og fór Hildur Ýr Jónsdóttir á vegum SÍM til Finnlands í september 2016.

GESTAVINNUSTOFUR SÍM Í BERLÍN
SÍM hefur rekið gestaíbúð í Berlín fyrir félagsmenn sína frá árinu 2010. Gestaherbergin eru tvö, Askja og Hekla og þeim fylgir sameiginlegt eldhús og bað. Félagsmenn geta sótt um að dvelja í íbúðinni í einn mánuð í senn. Gestaíbúðin er staðsett í Friedrichshain sem tilheyrði áður gömlu Austur-Berlín. Í hverfinu býr fjöldi listamanna og hönnuða og það er iðandi af mannlífi, skemmtilegum hönnunarbúðum, kaffihúsum og veitingastöðum.

Stjórn SÍM ákvað að setja af stað tilraunaverkefni til tveggja ára og bjóða tveimur ungum félagsmönnum að dvelja frítt í gestavinnustofu SÍM í Berlín á hverju ári. Stjórn SÍM óskar Heiðdísi Hólm og Loga Leó Gunnarssyni til hamingju með mánaðar dvalarstyrk í gestavinnustofu SÍM í Berlín. Heiðdís og Logi munu segja frá dvöl sinni í STARA ásamt því að gefa lesendum innsýn í listsköpun sína.

Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestaíbúðinni þegar pláss leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

Starfsárið 2016 – 2017 var bæði viðburðaríkt og krefjandi. Þess má geta að formaður SÍM tók sæti í stjórn Listahátíðar til tveggja ára, kosin af fulltrúaráði Listahátíðar. Stjórn SÍM þakkar öllum nefndarmönnum sem hafa unnið gott starf fyrir SÍM á árinu og öllum þeim sem hafa komið að þeim mikilvægu verkefnum sem SÍM hefur unnið að.

Fyrir hönd stjórnar,
Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Ársskýrsla FÍLD 2016 – 2017

Stjórn FÍLD var þannig skipuð:
Arndís Benediktsdóttir, formaður
Heba Eyr Keld, varaformaður
Kara Hergils/Tinna Grétarsdóttir, gjaldkeri
Halla Þórðardóttir, ritari
Guðmundur Helgason, meðstjórnandi
Varamenn stjórnar: Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og Bryndís Einarsdóttir

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum ráðum og stjórnum:
Bandalag íslenskra listamanna: Guðmundur Helgason
Íslenski dansflokkurinn: Marta Nordal (Varamaður: Stefán Jónsson)
Sviðslistarsamband Íslands: Arndís Benediktsdóttir
Fulltrúaráð listahátíðar í Reykjavík: Kara Hergils
Gríman – Íslensku Sviðlistarverðlaunin: Einn fulltrúi (og einn varamaður)

Aðalfundur félagsins 2016 var haldinn 10.janúar og voru þá skipti á stjórnarmeðlimum. Ásgeir Helgi Magnússon lét af formannastörfum eftir eitt ár vegna anna og tók Arndís Benediktsdóttir við til eins árs. Katrín Ingvadóttir hætti sem varaformaður og tók Heba Eir Keld við til tveggja ára. Kara Hergils tók við gjaldkerastarfinu af Tinnu Grétarsdóttur til tveggja ára (skiptin hafa þó ekki formlega átt sér stað en Kara hefur samt sem áður tekið þátt í stjórnarstörfum). Guðmundur Helgason kom inn í stjórn sem meðstjórnandi  til eins árs í stað Lovísu Gunnarsdóttur sem tók sæti varamanns.

Nýja stjórnin byrjaði með miklum eldmóð og fundaði reglulega. Þau byrjuðu að skoða stöðu félagsins, kynna sér málefnin og forgangsraða. Vefsíðan dance.is og facebook hópurinn “Fíld félagsmenn” var áhugaefni og var reynt að uppfæra þá liði og hreinsa. Það þyrfti að vinna mun betur í því og leggur stjórn til að annar meðstjórnandi taki að sér að halda um þessar síður þar sem sá aðili er einnig virkur á stjórnarfundum.

Fyrir utan hefðbundna stjórnarfundi sækja stjórnarmeðlimir fundi í fulltrúaráði SSÍ og Listahátíðar í Reykjavík og mánaðarlega stjórnarfundi BÍL.
Á liðnu starfsári hafa ófá mál verið á döfinni hjá félaginu auk þess sem félagar hafa leitað til stjórnar með hagsmuna og réttindamál.

Barnamenningarhátíðin var haldin 21.-26. apríl í glæsilega Eldborgarsal Hörpu. Þetta er í fimmta sinn sem þessi hátið var haldin og erum við stolt að taka að okkur opnunarkvöldið. Fíld var í góðu sambandi við hátíðarstjórnendur, skólana sem tóku þátt og skipulögðu allt sem við kom kvöldinu. Kara Hergils stóð sig reglulega vel þar og gékk hátiðin glimrandi vel. Í ár verður opnunardagur Barnamenningarhátíðarinnar 25.apríl og hefur Harpa Rut verkefnastjóri Barnamenningar nú þegar haft samband og lýst því hversu mikilvægur liður við erum orðin í hátíðinni.

Sviðslistasamband Íslands (SSÍ) endurskoðuðu heildarfyrirkomulag Grímunar. Núna virkar það þannig að aðeins 9 aðilar skipa Grímunefnd og þurfa þessir aðilar að sjá allar sýningar yfir árið. Funda þessir 9 svo saman þar sem þeir geta rökrætt sínar ákvarðanir um verkin og samræmt þannig betur ákvarðanir sínar. Haldnir eru 2 fundir til að ræða tilnefningar og síðan er kosið fyrst innan nefndar og svo er seinni kosningin opin þeim sem tryggja sér atkvæðisrétt.
Fíld er með einn meðlim og Danshöfundarfélagið annan
Félag íslenskra leikara (FÍL): 2
Félag leikstjóra á Íslandi (FLÍ): 1
Félag leikmynda- og búningahönnuða 1
Félag leikskálda og handritshöfunda (FLH): 1
Félag tæknimanna í rafiðnaði (FTR): 1
Stjórn Sviðslistasambands Íslands (SSÍ): 1

Um vorið 2016 var haft samband við Fíld frá dansara Mamma Mía. Sá dansari hafði áhyggjur af samningi sínum við Borgarleikhúsið og vildi fá aðstoð. Arndís fór á fund með þeim dansara og var málið alvarlegt þar sem þessir samningar reyndust vera ólöglegir. Enn og aftur erum við “dansarar” að fá svona óviðeigandi viðurkenningu. Þetta mál var í vinnslu til lok ágúst. Margir fundir voru haldnir til að vinna úr þessu, til að mynda við fleiri dansara, Borgarleikhússtjóra og framkvæmdastjóra, lögfræðing BHM, Fíl og fl.

Einnig sendi Fíld formlegt bréf til Borgarleikhússtjóra þar sem hún var vinsamlegast beðin um að svara dönsurum eftir langan biðtíma eftir svari um framtíð þeirra í sýningunni. Að lokum voru gerðir nýjir samningar þar sem þau fengu betri kjör en voru samt sem áður langt fyrir neðan leikaralaunin. Þetta er mál sem minnir okkur á hversu mikilvægt það er að Fíld nái samningum við leikhúsin í framtíðinni.

Árlega Sólókeppnin var haldin 16. október síðastliðinn. Alls tóku 9 dansarar þátt og gekk keppnin vonum framar. Guðbjörg Astrid Skúladóttir var búin að bjóða fram húsnæði Klassíska Listdansskólans fyrir keppnina þar sem að síðastliðin ár hefur keppnin verið haldin í Listdansskóla Íslands. Því miður kom upp sú staða rétt fyrir keppnina að ekki var hægt að halda hana þar og hún því færð í Listdansskóla Ísland og þurfti því að leigja áhorfendapalla. Listdansskóli Íslands lagði út fyrir þeim kostnaði ásamt ýmsu öðru smálegu. Þær þrjár sem voru valdar til að fara út til Falun stunda nú æfingar á fullu en keppnin fer fram 17.-18. mars næstkomandi.

Á starfsárinu 2015-2016 var unnið flott verkefni þar sem Fíld meðlimir fengu aðgang að BHM. Hér er smá klausa sem fram kom í ársskýrslunni það árið:

“Allir sjálfsstættstarfandi dansarar geta greitt í BHM ef þeir kjósa svo og notið þeirra fríðinda sem þar bjóðast. Sem stendur greiða fjórir félagar í BHM. Aðildagjöld FÍLD að Bandalagi háskólamanna er 150.000 og það er nokkuð ljóst að það er félaginu þungur baggi að halda uppi þessari þjónustu ef ekki fleiri félagar kjósa að nýta sér hana”.

Ákveðið var fyrir starfsárið 2016-2017 að sjá hvernig þetta mál myndi þróast og hvort fleiri meðlimir myndu nýta sér þetta. Að okkar bestu vitund eru enn aðeins fjórir meðlimir að greiða, því er þetta mikilvægt mál sem framtíðar stjórn þarf að skoða vel.

Staða Listdansskólanna hefur lítið breyst á þessu ári.

SSÍ boðaði til fundar í desembermánuði. Á þeim fundi sátu formenn Fíld, DFÍ, FÍL, FLÍ og RSÍ. Var lögð sú tillaga að búa til regnhlífasamtök fyrir fagfélögin til að auðvelda til að mynda samningsviðræður við opinberar stofnanir.  Félagsmenn hefðu aðgang að alls kyns sjóðum, gætu leitað til einstaklinga sem væru á launum samtakanna og fl. Ársgjaldið yrði í það minnsta 24.þúsund á ári, töluverð hækkun fyrir Fíld meðlimi en myndi hugsanlega veita þeim betri kjör en þau hafa í dag.
Einnig hefur Birna Hafsteins (FÍL) lýst eftir áhuga að fá sjálfstætt starfandi dansara aftur inn í FÍL og berjast fyrir betri samningum fyrir þá hjá opinberu leikhúsunum. Nú er það í okkar höndum að sameinast og finna þá bestu leið fyrir félagið okkar.

Formaður Félags íslenskra listdansara,
Arndís Benediktsdóttir

ÁRSSKÝRSLA FLB 2016

Stjórn FLB var þannig skipuð:
Rebekka A. Ingimundardóttir formaður (síðan 2011)
Þorvaldur Böðvar Jónsson ritari (síðan 2011)
Úlfur Grönvold gjaldkeri. (síðan 2011)
Þórunn María Jónsdóttir (síðan 2012)
Þórunn S Þorgímsdóttir varamaður(síðan 2016)

Félagar í FLB voru 67 talsins í árslok 2016 en þó ekki allir fast starfandi við fagið. Stjórnin vinnur jafnt og þétt að því að kynna félagið fyrir nýjum félagsmönnum og var ein ný umsókn samþykkt árið 2016. Félagsmönnum hefur fjölgað um meira en helming á síðustu 6 árum. FLB er fagfélag leikmynda- og búningahöfunda og er sameiginlegur vettvangur til að örva samstarf og kynningu á verkum félagsmanna sem og standa vörð um réttindamál þeirra.

Félagið á fulltrúa í eftirtöldum stjórnum, félögum og stofnunum:
Bandalagi íslenskra listamanna: Rebekka A. Ingimundardóttir
Sviðslistasambandi Íslands: Rebekka A. Ingimundardóttir
Leikminjasafni Íslands: Hlín Gunnarsdóttir, varamaður Egill Ingibergsson
Grímunni, íslensku leiklistarverðlaunin: Rebekka A. Ingimundardóttir
Myndstefi: Þórunn María Jónsdóttir.

Á starfsárinu 2016 – 2017 mun stjórn FLB leggja áherslu á að gera starf leikmynda- og búningahöfunda sýnilegra. Stefnt er á áframhaldandi umræður og vakningu meðal félagsmanna.

Vorið 2011 tók stjórnin upp svokallaða símenntunarstefnu en tilgangurinn með henni er að bjóða upp á kynningar, fyrirlestra og námskeið sem gætu reynst félagsmönnum gagnleg í sinni sköpun og vinnu. Framundan, á árinu 2017, er fyrirlestur um öryggismál á vinnustöðum. Einnig stendur til að bjóða félagsmönnum á sýninguna Fórn, sem sýnd verður í Borgarleikhúsinu í vor, með leiðsögn og kynningu á vinnslu verksins.

Heiðursfélögum FLB fer fjölgandi. Heiðurfélagi FLB er sæmdur Stór Yddarakrossi en það er heiðursorða sem afhent er við hátíðlega athöfn á aðalfundi. Stjórn FLB vinnur að krýningu verðandi heiðursfélaga á árinu 2017. Heiðursfélagar FLB til þessa eru: Sigurjón Jóhannsson Steinþór Sigurðsson og Messíana Tómasdóttir. Einn heiðursfélagi Jón (Mínus) Þórisson lést á árinu, þ. 1. janúar 2016.

Reykjavík í janúar 2017,

Rebekka A. Ingimundardóttir, formaður FLB

Skýrsla forseta BÍL á aðalfundi 2017

Stjórn BÍL hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu, auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir um afmörkuð málefni. Aðildarfélög BÍL eru fimmtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum annarra stjórnarmanna sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:

Arkitektafélag Íslands; AÍ– formaður Aðalheiður Atladóttir, varamaður Helgi Steinar Helgason

Danshöfundafélag Íslands; DHÍ – formaður Katrín Gunnarsdóttir

Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH–formaður Björn Th. Árnason

Félag íslenskra leikara; FÍL– formaður Birna Hafstein

Félag íslenskra listdansara; FÍLD– formaður Arndís Benediktsdóttir, varamaður Guðmundur Helgason

Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT– formaður Hlín Pétursdóttir Behrens, varamaður Hallveig Rúnarsdóttir

Félag kvikmyndagerðarmanna; FK– formaður Hrafnhildur Gunnarsdóttir

Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB– formaður Rebekka Ingimundardóttir, varamaður Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir

Félag leikskálda og handritshöfunda; FLH– formaður Margrét Örnólfsdóttir, varamaður Ármann Guðmundsson

Félag leikstjóra á Íslandi; FLÍ– formaður Sara Martí Guðmundsdóttir / Páll Baldvin Baldvinsson

Félag tónskálda og textahöfunda; FTT– formaður Jakob Frímann Magnússon, varamaður Bragi Valdimar Skúlason

Rithöfundasamband Íslands; RSÍ– formaður Kristín Helga Gunnarsdóttir, varamaður Vilborg Davíðsdóttir

Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM– formaður Jóna Hlíf Halldórsdóttir, varamaður Eirún Sigurðardóttir

Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL – formaður Friðrik Þór Friðriksson

Tónskáldafélag Íslands; TÍ,– formaður Þórunn Gréta Sigurðardóttir, varamenn Páll Ragnar Pálsson og Þuríður Jónsdóttir

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2017):
Menningar- og ferðamálaráð                 Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir Reykjavíkur
Varamenn                                                   Jakob Frímann Magnússon og Birna Hafstein

Fulltrúar í faghópi MOFR 2016

Bragi Valdimar Skúlason tónlistarmaður, formaður
Jón Bergmann Kjartans Ransu myndlistarmaður
Þóra Karítas Árnadóttir leikari
Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur
Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt (fulltr.Hönnunarmiðst.)

Kvikmyndaráð                                               Margrét Örnólfsdóttir
Varamaður                                                      Bergsteinn Björgúlfsson

Fulltrúaráð Listahátíðar                             Kolbrún Halldórsdóttir

Stjórn listamannalauna                               Hlynur Helgason
Varamaður                                                     Hlín Gunnarsdóttir

Stjórn Skaftfells                                            Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Varamaður                                                    Kolbrún Halldórsdóttir

Fagráð Íslandsstofu í                                    Kolbrún Halldórsdóttir
listum og skapandi greinum

Menningarfánaverkefni Rvíkur                  Karen María Jónsdóttir

List án landamæra                                         Edda Björgvinsdóttir

Stjórn Gljúfrasteins                                       Kolbrún Halldórsdóttir

Umsagnarnefnd                                              Pétur Gunnarsson
vegna heiðurslauna Alþingis

Höfundarréttarráð                                         Kolbrún Halldórsdóttir

Sérfræðinganefnd KKN                               Margrét Jónasdóttir    jan.2014 – jan.2017
(ferðastyrkjanefnd)

Starfshópur um                                             Jón B. Kjartanss. Ransu
málverkafalsanir                                           Kolbrún Halldórsdóttir  varamaður

Samstarfshópur um                                      Kolbrún Halldórsdóttir
sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

Samráðshópur „List fyrir alla“                 Hildur Steinþórsdóttir og Davíð Stefánsson

Forseti BÍL var fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Listaháskóla Íslands til nóv. 2016, formaður þar síðan 16. desember 2011. Forseti BÍL hefur gegnt starfi forseta ECA – European Council of Artists síðan í árslok 2011 og situr í norræna listamannaráðinu Nordisk Kunstnerråd. Fyrir hönd ECA tekur hún þátt í starfi European Creative Alliance um höfundarréttarmál listamanna og er fulltrúi Nordisk Kunstnerråd í stjórn Norrænu menningarmiðstöðvarinnar Circolo Scandinavo í Róm, varamaður stjórnar CS síðan á aðalfundi 2015. Önnur trúnaðarstörf forseta eru eftirfarandi: forseti er fulltrúi BÍL í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar. Þá er hún ritari í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi.

Stjórn BÍL hefur skipt með sér verkum á árinu þannig að Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda hefur gegnt starfi ritara og Björn Th. Árnason formaður Félags íslenskra hljómlistamanna – FÍH er gjaldkeri. Það er hins vegar fjármálastjóri FÍH, Friðgeir Kristinsson sem nú annast bókhald BÍL og skil á uppgjöri til endurskoðanda Helgu Þorsteinsdóttur. Skoðunarmenn reikninga hafa verið Ragnheiður Tryggvadóttir og Sigurgeir Sigmundsson og eru þau kjörin á aðalfundi til tveggja ára í senn, nú fram að aðalfundi 2018.

Stjórn BÍL hefur komið saman til reglulegra funda 10 sinnum á árinu, þar að auki hélt stjórnin samráðsfund með útvarpsstjóra Magnúsi Geir Þórðarsyni og annan fund með forsvarsmönnum RÚV um nýjan menningarvef stofnunarinnar. Þá var stjórn BÍL boðið til fundar við Fríðu Björk Ingvarsdóttur rektor Listaháskóla Íslands um málefni skólans og einn fundur var haldinn með nýrri stjórn Listamannalauna.

Starfið í hnotskurn og staðan í dag
Starf BÍL 2016 einkenndist nokkuð af atburðum stjórnmálanna eftir að forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér 5. apríl og tilkynnt var í kjölfarið að kosningum til Alþingis yrði flýtt. Þá var ljóst að barátta hagsmunasamtaka listamanna, og annarra sem berjast fyrir bættum hag skapandi atvinnugreina, myndi á árinu hverfast um baráttumál í aðdraganda kosninga. Þannig snerist undirbúningur þátttöku BÍL í Fundi fólksins í september upp í skipulagt samtal okkar við stjórnmálaflokkana um helstu baráttumál listamanna. Til að skerpa þá umræðu var tekið upp samstarf við önnur hagsmunasamtök, m.a. samtök í málefnum höfundarréttar og samstarfsvettvang Samtaka iðnaðarins um málefni skapandi greina X-hugvit. Einnig skipulagði stjórn BÍL málefnafundi með öllum stjórnmálaflokkum sem líklegir voru til að fá menn kjörna á þing.

Kosningar til Alþingis fóru fram 29. október 2016 og svo sem kunnugt er þá dróst á langinn að tækist að mynda ríkisstjórn. Það óvenjulega ástand skapaðist að Alþingi var kallað saman til að afgreiða fjárlög áður en ný ríkisstjórn hafði verið mynduð. Þar sem eitt af mikilvægari verkefnum BÍL á hverju ári er umræða um fjárlög, jafnt innanvert í listageiranum sem og við stjórnvöld beint með umsögn til fjárlaganefndar, bitnaði sú staða sem uppi var á efnislegri umræðu um málefni fjárlaganna. Nærri helmingur þingmanna höfðu aldrei setið á þingi og fjárlaganefnd hleypti engum að sér, því fékk efnismikil ellefu blaðsíðna umsögn BÍL, sem send var þinginu, enga umfjöllun. Eiginlega má með nokkrum rökum halda því fram að fjárlög hafi verið samþykkt af nýkjörnu þingi án þess að eiginleg umræða um efnisþætti frumvarpsins færi fram. Í ofanálag var nú í fyrsta sinn unnið samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál (samþ. í des. 2015), sem mæla fyrir um umtalsverðar breytingar á framsetningu fjárlaga. Það má til sanns vegar færa að þetta aukna flækjustig fjárlagavinnunnar hafi leitt til þess ófremdarástands sem við glímum nú við í kjölfarið, a.m.k. við sem störfum að listum og menningu, að enn hefur ekki verið tilkynnt um fjárveitingar hins opinbera til mikilvægra sjóða og annarra útgjaldaliða í menningargeiranum, það á t.d. við um samstarfssamning BÍL við ráðuneytið, sem vikið verður betur að síðar í skýrslu þessari.

Þann 10. janúar sl. var loks tilkynnt að ný ríkisstjórn hefði tekið við völdum og málefni lista og menningar í þeirri stjórn voru falin Kristjáni Þór Júlíussyni, sem í fyrri ríkisstjórn hafði stýrt heilbrigðismálum. Stjórn BÍL lét það verða sitt fyrsta verk að senda nýjum ráðherra bréf með heillaóskum þar sem þess var óskað að flýtt yrði samráðsfundi BÍL með ráðherra og menningarskrifstofu ráðuneytisins, í því augnamiði að kynna nýjum ráðherra helstu baráttumál listamanna í landinu. Svar barst frá ráðuneytinu fyrir tveimur dögum, þess efnis að því miður væri ekki hægt að verða við ósk BÍL um að flýta fundinum, hann verði því boðaður í apríl.

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar mun eðlilega liggja til grundvallar samtalinu sem BÍL tekur við stjórnvöld á næstunni og því mikilvægt að aðildarfélög BÍL séu vel að sér um þau atriði yfirlýsingarinnar er varða listir og menningu. Raunar kemur hugtakið „listir“ einungis einu sinni fyrir í yfirlýsingunni, í kaflanum um menntamál en þar segir: Menntakerfið gegnir lykilhlutverki við að búa landsmenn undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og þekking, menning, listir, nýsköpun og vísindi skipta sköpum við uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða. Í framhaldinu er sagt að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld, sem er ánægjulegt ef það gengur eftir. Því BÍL hefur frá stofnun Listaháskóla Íslands lagt þunga áherslu á eflingu háskólanáms í listum, ekki síst með tilliti til húsnæðismála skólans og rannsókna í listum og hönnun, reyndar án mikils sýnilegs árangurs fram til þessa.

Í kafla stefnuyfirlýsingarinnar um menningu er talsverð áhersla lögð á mikilvægi skapand greina og þó ekki sé ljóst hvaða merking lögð er í hugtakið þá bendir margt til þess að þar sé frekar um að ræða nýsköpun og þróun sem sé líkleg til að auka verðmætasköpun og efla samkeppnishæfni. t.d. í tækni- og hugbúnaðargeiranum, en listir og menningu.  Til marks um það má nefna framsetningu í inngangi yfirlýsingarinnar, þar sem segir að mikilvægt sé að treysta samkeppnishæfni Íslands og að ríkisstjórnin muni stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt. Baráttan fyrir auknum skilningi á starfsumhverfi listamanna og uppbyggingu öflugra opinberra menningarstofnana virðist því ætla að halda áfram þrátt fyrir áform um uppbyggingu skapandi greina í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og það hlutverk þurfa aðildarfélög BÍL að axla hér eftir sem hingað til.

Samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið
Samkvæmt samningi BÍL við yfirvöld menningarmála er meginmarkmið samstarfsins að BÍL og ráðuneytið standi saman að mörkun og eftirfylgni stefnu á sviði menningarmála. Í því skyni styður ráðuneytið við starfsemi BÍL með árlegu fjárframlagi, undirbýr árlegan samráðsfund með ráðherra menningarmála um málefni lista og menningar, auk þess sem BÍL er gert að vera ráðgjafi ráðuneytisins í tilteknum list- og menningartengdum málum (eftir því sem eftir því er kallað). Þá gerir samningurinn ráð fyrir því að BÍL annist tengsl við systurstofnanir erlendis og taki þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði lista (eftir því sem aðstæður leyfa).

Fyrsti samningurinn sem gerður var um þetta samstarf er frá árinu 1998 en það ár fagnaði BÍL 70 ára afmæli sínu. Sú forysta BÍL sem nú leiðir starfið hefur ekki upplýsingar um upphæð ríkisframlagsins það ár, en 10 árum síðar eða árið 2008 nam framlagið 2,3 milljónum króna. Svo kom hrunið…..  og 2010 var framlagið lækkað í 1,8 en náði aftur sínum fyrri styrk 2011 fór þá í 2,4 milljónir, 2014 hækkaði það svo í 3 milljónir og 2015 og 2016 hefur það verið 3,5 milljónir.

Um þessar mundir er Bandalagið samningslaust og hefur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki getað fengið ráðuneytið til að leggja fram drög að nýjum samningi til næstu þriggja ára. Ástæðurnar sem gefnar eru tengjast breytingu laga um opinber fjármál (des. 2015), sem mæla fyrir um umtalsverðar breytingar á framsetningu fjárlaga. Skv. fylgiriti með fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að Bandalag íslenskra listamanna fái nýjan saming til 2019 og skv. honum verði árlegt framlag 4 milljónir króna, sem er einni milljón króna lægri upphæð en það sem BÍL óskaði eftir, en þetta höfum við ekki fengið staðfest hjá ráðuneytinu.

Samráðsfundur með menningarmálaráðherra
Árlegur samráðsfundur stjórnar BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, fór fram 26. apríl og var ákveðið að senda ekki hefðbundið minnisblað sem grundvöll samráðsins, heldur voru settar fram spurningar sem byggðu á fundargerðum síðustu samráðsfunda og óskað svara við þeim. Spurningarnar voru á borð við þessar:

 • Hvers er að vænta um fjárframlög til lista og menningar í 5 ára áætlun í ríkisfjármálum sem áskilin er í lögum um opinber fjármál?
 • Hvað hefur áunnist í skráningu tölulegra upplýsinga um listir og menningu frá því Menningarlandið 2015 var haldið?
 • Má hugsa sér að ráðuneytið gangist fyrir ráðstefnu á grunni nýlegrar alþjóðlegar kortlagningar skapandi greina og láti vinna samanburð á stöðu skapandi greina hér á landi og í nágrannalöndum okkar?
 • Hvað líður áætlun um eflingu launasjóða listamanna, sem BÍL hefur kallað eftir síðan 2012?
 • Hvar er að frétta af áformum stjórnvalda um að gera menningararfinn aðgengilegan í stafrænu formi, og hvað líður samningum við höfundarétthafa um slíkt aðgengi á öllum sviðum menningararfs?
 • Hver er afstaða ráðherra til málefna tengdum höfundarrétti t.d. um greiðslur til höfunda af kvikmyndum og tónlist sem eru til útláns á bókasöfnum?
 • Mætti auka áhrif lista og menningar á markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna og skýra aðkomu menningargeirans að Stjórnstöð ferðamála og framkvæmd ferðamálastefnu til 2020?
 • Þá var spurt um menningarsamninga við landshlutasamtök sveitarfélaga, sem hafa verið innlimaðir í uppbyggingarsamninga sem Byggðastofnun annast undir hatti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra (núna ráðherra sveitarstjórna og samgöngumála) m.a. hvort ráðuneytið væri tilbúið að beita sér í þágu list- og menningartengdrar starfsemi á landsbyggðinni með því að endurheimta yfirráð yfir samningunum?
 • Þá var komið að miðstöðvum lista og hönnunar og spurt hvort til stæði að styrkja rekstrargrunn þeirra í samræmi við menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013?
 • Og ítrekaðar voru óskir BÍL um tillögur um samræmda stjórnsýslu lista og skapandi greina og spurt hvort til greina komi að ráðherra setji á laggirnar starfshóp í félagi við BÍL í þessu skyni?
 • Loks óskaði stjórn BÍL viðbragða af hálfu ráðherra við þeirri sjálfsögðu kröfu listamanna að fyrir verkefni, sem stofnað er til af menningar- og listastofnunum sem reknar eru að stærstum hluta fyrir opinbert fé, sé greitt samkvæmt þeim lágmarkssamningum sem í gildi eru um viðkomandi störf.

Ekki fengum við svör við þessum spurningum á fundinum og erfiðlega gekk að fá fundargerð fundarins í hendur, hún barst þó með eftirgangsmunum 9. september og í framhaldinu sendi stjórn BÍL erindi til ráðuneytisins um frekari eftirfylgni nokkurra verkefna sem ráðuneytið vinnur að tengt listum og menningu, t.d. varðandi

 • starfshóp um kortlagningu sóknartækifæra íslenskrar tónlistar, kortlagningu viðskipta- og stuðningskerfis tónlistarinnar og styrkingu innviða í tónlistartengdri starfsemi
 • verkefnastjórn átaks í að efla hlut kvenna í íslenskri kvikmyndagerð og gerð tillagna um kvikmyndanám í grunn- og framhaldskólum
 • framvindu samstarfs ríkis og sveitarfélaga um menningarmál í landshlutunum; skýrslu frá stýrihóp stjórnarráðsins um byggðamál
 • skýrslu um niðurstöður ráðstefnunnar Menningarlandið 2015
 • viðbrögð við ábendingum BÍL varðandi skilgreint hlutverk lista- og menningargeirans í markaðssetningu Íslands sem ákjósanlegs áfangastaðar ferðamanna, í ljósi endurnýjaðs samnings um verkefnið Ísland allt árið
 • skilagrein samstarfshóps skapandi greina, sem starfar á grundvelli skýrslunnar „Skapandi greinar – sýn til framtíðar“. Í skilagreininni mun vera fjallað um hagtölur greinanna og stuðningskerfi í formi sjóða og kynningarmála, ásamt menntunarmálum
 • upplýsingar um norræn þekkingarmiðstöð um menningartölfræði og menningarrannsóknir, sbr. ákvörðun ráðherrafundar 28. október 2015
 • stöðu vinnunnar við innleiðingu og framkvæmd ályktunar Alþingis um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi frá 2014.

Svör við þessu erindi hafa nú borist og hyggur stjórn BÍL á frekari eftirfylgni þeirra mála sem þarna er fjallað um. Það sem ekki náðist að gera á árinu, þrátt fyrir ítrekaðar óskir BÍL var að halda samráðsfund með ráðherra í tengslum við aðkallandi úrbætur í listmenntun á öllum skólastigum. Það er mjög miður, sérstaklega í ljósi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum um mikilvægi listnáms, að það sé gert aðgengilegt og viðurkennt.

Um svipað leyti og samráðsfundurinn var haldinn með mennta- og menningarmálaráðherra óskaði stjórn BÍL eftir fundi með fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni um fjármögnun list- og menningartengdrar starfsemi en aldrei barst svar við þeirri ósk.

Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarp 2017
Eins og að framan greinir þá kalla ný lög um opinber fjármál á nýja nálgun í samtali BÍL við ríkisvaldið, aðallega vegna þess að nýju lögin gera ráð fyrir að ábyrgðin á skiptingu fjárframlaga á einstök „viðföng“ innan málaflokka hvíli í ríkari mæli á ráðherra viðkomandi málaflokks en ábyrgð þingsins og þar með fjárlaganefndar mun hverfast um „stóru línurnar“, þ.e. heildarfjárframlög til einstakra málaflokka. Til grundvallar þessu starfi þings og framkvæmdavalds eiga að liggja tvær áætlanir, a) fjármálastefna til fimm ára og b) fjármálaáætlun sem lögð er fyrir þingið á hverju ári. Í ljósi þess að nýafstaðnar þingkosningar fóru fram að hausti gafst nýrri ríkisstjórn ekki tími til að vinna þessar áætlanir, svo fjárlögin 2017 eru í raun grundvölluð á stefnu ríkisstjórnarinnar sem féll í kosningunum. Þetta á eftir að seinka því að áherslur nýrrar ríkisstjórnar sjáist í reynd.

Í ljósi þessa nýja fyrirkomulags ákvað stjórn BÍL að horfa vítt yfir málaflokkinn „listir og menning“ í umsögn sinni og gefa þannig nýjum þingmönnum og nýrri ríkisstjórn, sem er áfram um að efla „skapandi greinar“, einhverja tilfinningu fyrir því starfsumhverfi listamanna og tengslum þess (og afkomu listamanna) við stórar menningarstofnanir reknar fyrir opinbert fé sem þeim er markað í fjárlögum. Með því að vekja athygli fjárlaganefndar á þessum tengslum taldi stjórn BÍL sig hafa fengið kærkomið tækifæri til að varpa ljósi á mikilvægi þess að menningarstofnunum í eigu þjóðarinnar sé gert kleift að standa undir hlutverki sínu með reisn og skapa umhverfi fyrir framsækna listsköpun um leið og sígildri list og menningu er sinnt af alúð.

Í umsögninni var fjallað um eftirtaldar stofnanir, allt unnið í samstarfi við forstöðumenn þeirra hverrar og einnar:  Harpa, Íslenski dansflokkurinn, Íslenska óperan, Listasafn Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsið, Ríkisútvarpið, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, Tónverkamiðstöð og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista. Þá var fjallað ítarlega um launasjóði listamanna og verkefnatengdu sjóðina auk þess sem rík áhersla var lögð á kröfu BÍL um sjálfstætt ráðuneyti menningarmála. Loks var fjallað um menntun á vettvangi listanna með áherslu á þörfina fyrir fullfjármagnað háskólanám í listum, skort á fjárframlögum til rannsókna og bráðnauðsynlega uppbyggingu húsnæðis fyrir Listaháskóla Íslands.

Auðvitað var það von stjórnar BÍL að umsögnin vekti einhverja athygli stjórnmálamanna og að einhverra viðbragða yrði að vænta, mögulega að einhverjar breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu milli umræðna, en því var ekki að heilsa svo nokkru næmi. 50 milljónum var bætt í málaflokkinn við aðra umræðu: 15 m. til Snorrastofu, 21 m. til Borgarleikhússins og 14 m. til ýmissa smærri styrkja á málefnasviðinu. Niðurstaða fjárlaga varð sú að heildarhækkun framlaga til málefna safna var 4,8%, til menningarstofnana 7,2% og til menningarsjóða 4,6%. Það er því ljóst að umræða um þróun opinberra fjárframlaga til lista og menningar þarf að halda áfram og mikilvægt að BÍL verði leiðandi í þeirri umræðu. Því er raunar við að bæta að Listaháskóli Íslands fékk 110 milljóna króna hækkun á sínu framlagi, sem kom vegna ákvörðunar Alþingis um styrkingu háskólastigsins. Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2017 er aðgengileg á vef BÍL.

Samstarfið við Reykjavíkurborg
Samstarf BÍL og menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur er með ágætum, t.d. var horfið frá hugmyndum um að fækka áheyrnarfulltrúum BÍL á fundum menningar- og ferðamálaráðs, en tillaga þess efnið hafði komið upp sem liður í sparnaði MOFR 2016. Áralöng hefð er fyrir tveimur áheyrnarfulltrúum BÍL í ráðinu, en það fundar tvisvar í mánuði. Þá eiga BÍL og borgin samstarf gegnum faghóp um úthlutun styrkja til list- og meningartengdra verkefna ár hvert. Þess utan hittir stjórn BÍL borgarstjóra Dag B. Eggertsson á árlegum samráðsfundi, sem í þetta sinn var haldinn 23. maí í Höfða. Til grundvallar fundinum lágu óskir BÍL um áframhaldandi þróun fyrirkomulags styrkjaúthlutana til list- og menningartengdra verkefna í Reykjavík, um að kannað verði af alvöru hvort ekki megi auglýsa eftir umsóknum um styrki tvisvar á ári, þannig að úthlutun fari fram í upphafi árs og aftur að vori. Borgaryfirvöld hafa ekki talið fjárhagslegt svigrúm til að verða við þessum óskum, en til marks um þröngan fjárhag borgarinnar þá hafa skyndistyrkir menningar- og ferðamálaráðs verið skornir alfarið niður auk þess sem styrkjapotturinn í upphafi árs 2016 var lækkaður umtalsvert. Sá niðurskurður kom þó að mestu til baka í ár (2017) með því að Borgarhátíðasjóður var formgerður og efldur, auk þess sem borgin hefur sett aukna fjármuni í rekstur Tjarnarbíós og Bíó Paradísar. Þá hefur borgin bætt við framlög til Nýlistasafnsins, Kling og Bang og Hönnunarmiðstöðvar. Allt eru þetta afar jákvæðar breytingar, en það sem enn má lagfæra er t.d. að komið verði í framkvæmd ákvæði sem er í menningarstefnu borgarinnar um  verklagsreglur um að réttur listamanna til launa fyrir vinnuframlag verði virtur. Stjórn BÍL hvatti borgarstjóra til að hefja tafarlaust vinnu við gerð samnings við myndlistarmenn á grundvelli vinnu starfshóps SÍM um málið. Undirtektir við þá kröfu hafa verið fremur dræmar.

Málefni hönnunar og arkitektúrs voru rædd og gagnrýnd framkvæmd borgarinnar á forvali, sem undanfara samkeppnisverkefna, lögð áhersla á mikilvægi þess að halda fleiri opnar samkeppnir og að verðlaunafé í slíkum keppnum verði hækkað svo það nægi a.m.k. fyrir vinnu við tillögugerðina.

Þá voru málefni listskreytinga í opinberum byggingum og á útisvæðum í opinberri eigu rædd. Upplýst var um baráttu BÍL fyrir endurreisn Listskreytingasjóðs og borgaryfirvöld hvött til að ganga í lið með listamönnum og arkitektum hvað þetta varðar. Í því sambandi lagði stjórn BÍL til að borgin léti fara fram könnun á því hvernig sinnt er þeirri lagaskyldu sem á henni hvílir skv. myndlistarlögum um aukinn hlut myndlistar í opinberum byggingum og umhverfi þeirra. Slíkar aðgerðir myndu þrýsta á ríkið um að setja aukið fé í Listskreytingasjóð. BÍL er ekki kunnugt um að slík könnun sé í gangi, en mun fylgja málinu eftir.

Þá var staða skólabókasafna í borginni rædd og undirstrikað mikilvægi þess að skólabókasöfnin í bókmenntaborg UNESCO standi undir nafni og sé gert kleift að sinna þjóðarátaki í læsi, sem ætlað er að tryggja að hér vaxi úr grasi kynslóðir, sem geta tjáð sig, lesið og nýtt móðurmálið til sköpunar. BÍL hvatti einnig til þess að borgaryfirvöld tengdust  verkefninu „list fyrir alla“ og gengju fram fyrir skjöldu sem fyrirmynd annarra sveitarfélaga í landinu með því að efla samstarf skólanna við listamenn og bjóða grunnskólanemum upp á list- og menningartengda viðburði í hæsta gæðaflokki. Þá var tónlistarmenntun rædd og mikilvægi listuppeldis almennt.

Öflugra samtal ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina var tekið til umræðu og hefur verið rætt áfram þar sem  nú stendur yfir endurskoðun ferðamálastefnu borgarinnar. Í því sambandi hefur stjórn BÍL hvatt Reykjavíkurborg til að þrýsta á ríkið (Hagstofu Íslands) um skráningu talnaefnis í tengslum við skapandi atvinnugreinar, enda vega þær greinar þungt í auknum straumi ferðamann til landsins.

Annars var borgaryfirvöldum þakkað það sem vel hefur verið gert í málefnum lista og menningar upp á síðkastið og hvatt til þess að stjórnendur borgarinnar taki hlutverk sitt sem fyrirmynd annarra sveitarfélaga alvarlega, með því að miðla þeim árangri sem náðst hefur í verklagi áfram á vettvangi Samtaka sveitarfélaga. Eitt það mikilvægasta sem koma þarf á framfæri hvað árangur MOFR varðar er aðferðafræði við stefnumótun og innleiðingu stefnu, sem sjá má af menningarstefnu Reykjavíkur og aðgerðaáætlun á grunni hennar. Sama aðferðafærði er viðhöfð í stefnu sviðsins varðandi ferðaþjónustu í borginni. Eitt af markmiðum BÍL á komandi starfári er einmitt að koma aðferðum af þessu tagi á framfæri við stjórnendur menningarmála í öðrum sveitarfélögum.

Fundur fólksins 2016
Annað árið í röð var haldinn Fundur fólksins í Vatnsmýrinni. Sú nýlunda var þetta árið að samtökin Almannaheill – samtök þriðja geirans önnuðust framkvæmd fundarins í samstarfi við Norræna húsið, með stuðningi velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Tilgangur fundarins er sem áður, að skapa vandaðan vettvang þar sem boðið er til samtals milli almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka með það að markmiði að auka traust og skilning á milli ólíkra afla sem bera uppi og móta samfélagið.

Þegar undirbúningur hófst snemma vors vissu menn ekki um væntanlegar vendingar í pólitíkinni, en þegar ljóst var að kosningabarátta flokkanna vegna Alþingiskosninga væri að hefjast um líkt leyti, má segja að upplegg fundarins hafi farið að snúast um þær. Þá áttuðu frambjóðendur sig á mikilvægi þess að þeir tækju virkan þátt í fundarstörfum í Vatnsmýrinni þessa helgi 2. og 3. september og er líklegt að það hafi átt sinn þátt í því hversu almenn þátttaka þeirra var í málstofum fundarins.

BÍL tók virkan  þátt í fundinum og skipulagði fjórar málsstofur, auk þess að taka þátt í tveimur málstofum með höfundarréttarsamtökunum. Málstofur BÍL voru þes:sar Listamenn eru líka “aðilar vinnumarkaðarins“, Hvar er menningarstefna stjórnmálaflokkanna?, Sýnileiki lista í fjölmiðlum og Samspil lista og ferðaþjónustu. Og í samvinnu við höfundarréttarsamtökin voru málstofurnar Kasettugjaldið – Framtíð höfundaréttar og Lifað af listinni – Samtal um höfundarrétt. Málstofurnar voru allar vel sóttar og fjörugar umræðu spruttu um málefnin.

Það sem BÍL gerði svo í framhaldinu var tvennt, annars vegar fór stjórn í markvissa vinnu við að undirbúa frekara samtal við stjórnmálaflokkana í aðdraganda kosninga um málefni lista og menningar og hins vegar hélt vinna höfundarréttarsamtakanna áfram við að þrýsta á um úrbætur varðandi IHM-gjöldin og eintakagerð til einkanota.

Samtal við stjórnmálaflokkana
Í aðdraganda Alþingiskosninga boðaði stjórn BÍL fulltrúa þeirra stjórnmálaflokka sem sýnt var að fengju menn kjörna á þing, til fundar þar sem rædd voru helstu baráttumál BÍL um þessar mundir. Fulltrúunum var afhent skjal með helstu áherslumálum BÍL;

 • Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti – talsmaður lista og menningar í ríkisstjórn.
 • Listamannalaun – þriggja ára áætlun um fjölgun mánaðarlauna, úr 1600 í 2000 og hækkun mánaðarlegrar greiðslu úr 350 þús. í 450 þús. 2017. Einnig að gera áætlun um eflingu verkefnatengdra sjóða, ekki síst kvikmyndasjóð og sviðslistasjóð.
 • Menningartölfræði – regluleg skráning upplýsinga um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífi og framlagi greinanna til þróunar efnahagslífsins, með sambærilegum hætti og aðrar atvinnugreinar eru skráðar.
 • Menningarstefna – aðgerðaáætlun á grundvelli menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013, með tímasettum markmiðum.
 • Listaháskóli Íslands – áríðandi að fullfjármagna starfsemi skólans og ákveða hvar byggja á skólann upp til frambúðar.
 • Rannsóknir í listum – viðurkenna þarf hlut rannsókna í listum, efla hlut þeirra innan Vísinda- og tækniráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar og fjármagna rannsóknarþátt Listaháskólans til jafns við aðra háskóla.
 • Miðstöðvar lista og skapandi greina – stofna sviðslistamiðstöð og vinna langtímaáætlun um kynningu á listum og skapandi greinum utan landssteinanna í samstarfi við miðstöðvarnar, tryggja rekstargrundvöll þeirra og styrkja rödd þeirra innan utanríkisþjónustunnar.
 • Starfsumhverfi listamanna – lagaskylda hvílir á stjórnvöldum að tryggja höfundum til frambúðar sanngjarna þóknun vegna eintakagerðar til einkanota. Einnig þarf að finna leiðir til lækka skattprósentu á greiðslum til rétthafa, að hún fylgi skattprósentu fjármagns- og leigutekna.
 • Öflugri menningarstofnanir og söfn – með áherslu á að söfn og sýningarsalir sem njóta opinbers stuðnings greiði myndlistarmönnum með sama hætti og í nágrannalöndunum.
 • Menningarsamningar við landshlutasamtök – koma samningunum aftur undir stjórnsýslu menningarmála (heyra nú undir landbúnaðarráðuneytið…. Eða sennilega samgönguráðuneytið eftir að ný ríkisstjórn tók við), tryggja faglega úthlutun fjármuna á grundvelli samninganna og byggja upp raunhæf atvinnutækifæri fyrir listafólk á landsbyggðinni.

Að loknum kosningum sendi BÍL svo erindi til þingflokksformanna allra þingflokka með óskum um gott samstarf við heildarsamtök listamanna á kjörtímabilinu framundan og upplýsingar um helstu áherslumál BÍL. Í því sambandi var undirstrikuð niðurstaða BÍL af langri umræðu og þátttöku í margháttaðri vinnu við stefnumótun í list- og menningar-geiranum, um að nauðsynlegt sé að efla stjórnsýslulega stöðu lista og menningar með því að stofna sjálfstætt menningar-málaráðuneyti og til frekari glöggvunar fylgdu erindinu greinar forseta BÍL um það mál og um Menningar-stefnu – Vegvísi stjórnvalda. Þá fylgdi líka starfsáætlun stjórnar BÍL 2016. Þingmenn ættu því að vera vel upplýstir um helstu áherslur í starfi BÍL og munu vonandi bregðast vel við þegar bankað verður á dyr þeirra nú á næstunni með það að markmiði viðhalda samtalinu.

Listamannalaun – Reglur um úthlutnarnefndir
Í framhaldi af vinnu starfshóps um málefni listamannalauna og starfa úthlutunarnefnda samþykkti stjórn BÍL í mars  að beina því til aðildarfélaga sinna að farið verði að ábendingum starfshópsins um verklag við skipan fulltrúa í úthlutunarnefndir og taki afstöðu til þess hvort tilnefningarnar skuli vera á hendi stjórna félaganna eða hvort skipuð verði sérstök uppstillingarnefnd sem fái það hlutverk að gera tillögur að fulltrúum í viðkomandi nefnd. Aðferðin við tilnefningarnar hljóti síðan staðfestingu á aðalfundi eða formlega boðuðum félagsfundi. Þá samþykkti stjórn siðareglur, sem lagt var til að aðildarfélögin setji sér og feli stjórnum fagfélaganna og úthlutunarnefndum launasjóðanna að starfa eftir. Í framhaldinu var þess óskað að ráðuneytið kallaði eftir tilnefningunum á fyrsta ársfjórðungi hvers árs til að tryggja vandaða málsmeðferð hjá félögunum við tilnefningu fulltrúa í nefndirnar.

Tillaga að siðareglum sem stjórn sendi aðildarfélögum BÍL er svohljóðandi:

Í úthlutunarnefndum launasjóða listamanna geta setið bæði félagsmenn og sérfræðingar í þeirri listgrein sem um ræðir.

 • Nefndarmenn sækja ekki um listamannalaun sjálfir það ár sem þeir eiga sæti í úthlutunarnefnd.
 • Stjórnarmenn í fagfélögum listamanna er taka ekki sæti í úthlutunarnefndum launasjóðanna.
 • Stjórnum fagfélaga listamanna er óheimilt að hafa afskipti af starfi úthlutunarnefnda.
 • Stjórnir og uppstillingarnefndir eru bundnar trúnaði um störf sín til að tryggja starfsfrið úthlutunarnefnda.
 • Um hæfi og vanhæfi nefndarmanna í úthlutunarnefndum gilda reglur stjórnsýslulaga [nr. 37/1993; 3. gr., tl. 1. og 2.]. Hafa ber í huga að vanhæfi í einu máli skapar vanhæfi í öllum og skal þá skipta út nefndarmanni.
 • Samkvæmt lögum um listamannalaun [57/2009; 14. gr.] eru ákvarðanir úthlutunarnefndar endanlegar á stjórnsýslustigi. Nefndarmenn í úthlutunarnefndum eru bundnir trúnaði um störf sín.
 • Við skipun í úthlutunarnefndir ber að horfa til þess að nefndarmenn hafi góða þekkingu og yfirsýn sem ætti að tryggja að úthlutanir launa dreifist þannig að nýtist heildarsviði viðkomandi listgreinar.

Þörfin fyrir eflingu launasjóðanna
Árið 2016 voru 1606 mánaðalaun til úthlutunar úr launasjóðum listamanna. Sótt var um 11.380 mánuði,  sem er rúmlega 20% aukning frá 2015. Munurinn er 9.775 mánuðir ! 946 umsóknir bárust um starfslaun og ferðastyrki frá 1581 umsækjanda (einstaklingar og hópar). Úthlutað var til 378 listamanna (þar af 78 í 14 sviðslistahópum). Munurinn er 1.203 einstaklingar! Árlega brautskráir Listaháskóli Íslands 110 – 120 með bakkalár- eða meistaragráðu í listum og hönnun. Það segir sig sjálft að krafa BÍL um áætlun um eflingu launasjóðanna er bæði eðlileg og sanngjörn. Óskirnar ganga út á það að launamánuðum verði fjölgað í a.m.k. 2000 á næstu þremur árum og upphæðin verði hækkuð og taki mið af meðallaunum félaga í BHM. Áformaður er fundur stjórnar BÍL með stjórn listamannalauna til að ræða þessi mál og önnur sem lúta að starfslaununum, en síkur fundur er orðinn árviss í dagatali stjórnar BÍL.

Samanburður á stuðningskerfi Norðurlandanna
Á vordögum var sent erindi í ráðuneyti mennta- og menningar til að grennslast fyrir um möguleikann á því að ráðuneytið aflaði gagna um stuðningsumhverfi lista á Norðurlöndunum með það að markmiði að bera saman við kerfið okkar. Því miður kom neikvætt svar frá ráðuneytinu, en þó var opnað á þann möguleika að ráðuneytið gæti veitt BÍL styrk til að gera svona samanburð. Stjórn hefur enn sem komið er ekki gert áætlun um slíkt starf en er sannarlega áhugasöm um að skoða hvað með hvaða hætti slíkt verkefni yrði best framkvæmt. Þetta er dæmigert verkefni sem BÍL þyrfti að hafa bolmagn til að fara í og þar erum við raunar á sama báti og norræn systursamtök okkar, sem ekki hafa heldur fengið skilning ráðamanna sinna til að fara í verkefni af þessu tagi. Málið verður tekið upp á vorfundi formanna systursamtakanna sem fer fram í Stokkhólmi í mars 2017.

Listir á landsbyggðinni
Hér að framan og í fyrirliggjandi tillögu að starfsáætlun BÍL fyrir 2017 er nokkur áhersla lögð á uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir listamenn á landsbyggðinni, eða öllu heldur á mikilvægi þess að samfélög utan höfuðborgarsvæðisins fái notið slíkrar fjölbreytni í atvinnulífi sem frjótt listalíf atvinnumanna hefur í för með sér. Eftir að umsögn BÍL um fjárlög 2017 var gerð opinber á vefsvæði BÍL og á vef Alþingis, bárust viðbrögð frá listamönnum og menningarstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. frá Ísafirði og Akureyri, þar sem gerð var athugasemd við það að ekki skyldi nefnt í umsögninni hversu illa stjórnvöld sinna uppbyggingu menningarstofnana og listastarfsemi atvinnufólks á landsbyggðinni. BÍL brást að sjálfsögðu vel við þessum ábendingum og í kjölfar þeirra var efnt til funda um málið. Akureyrarstofa bauð forseta BÍL til fundar í Hofi 11. janúar sl. þar sem forsvarsmenn Akureyrarstofu, Hofs, Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands báru saman bækur og stilltu saman strengi. Einnig hélt forseti fund með fyrrv. menningarfulltrúa Eyþings (sem nú er almennur starfsmaður Eyþings eftir að menningarsamningarnir voru felldir inn í uppbyggingasamninga landshlutasamtakanna og ríkisins). Þá var haldinn fundur í Reykjavík með eina atvinnuleikhúsinu á Vestfjörðum, Kómedíuleikhúsinu, um sama efni og komu sömu áhyggjur fram þar. Fundir þessir voru afar gagnlegir og munu störf BÍL að þessum mikilvægu málum á næstunni taka mið af því sem þar var rætt.

Hagstofan og eilífðarbaráttan um menningartölfræði
Segja má að barátta BÍL fyrir því að íslensk stjórnvöld skrái tölfræði lista og menningar með sama hætti og tölfræði annarra atvinnugreina, hefur nú staðið í a.m.k. 7 ár án mikils árangurs. Þegar fyrsta skýrsla um tölfræði menningar kom út í desember 2010 var því heitið að unnið yrði áfram á grundvelli hennar að skráningu helstu hagstærða í tengslum við skapandi greinar. Allan þennan tíma hefur BÍL þrýst á um efndir en ekki haft árangur sem erfiði. Í þessum tilraunum okkar höfum við átt samleið með miðstöðvum lista og skapandi greina, sem m.a. sitja saman í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Við höfum verði í beinu sambandi við Hagstofu Íslands, sem að okkar mati er sú stofnun sem ætti að hafa þetta hlutverk með höndum, en það eina sem Hagstofan hefur gert nýtt í þessum efnum er að hefja reglulega birtingu tölfræði yfir launþega sem starfa í skapandi greinum, sem hluta af úttekt sinni á starfaflokkun og fjölda launþega í landinu. Auðvitað er þetta gott svo langt sem það nær, en gerir satt að segja lítið gagn, þar sem alkunna er að algengasta rekstrarform þeirra sem starfa í menningu, listum og örðum skapandi atvinnugreinum er verktaka í einhverju formi.  Hagstofan ber því við að hún hafi ekki fjármagn til að gera meira eins og sakir standa og þó mennta- og menningarmálaráðherra hafi reynt að segja þeim að breyta forgangsröðun sinni, þá hefur það því miður ekki skilað miklu enn sem komið er. Vonir standa þó til að aukinn þrýstingur, á að almennileg menningartölfræði líti dagsins ljós, muni á endanum skila árangri.

Höfundarréttarmál
Eitt af stóru málunum sem BÍL glímdi við á árinu voru málefni höfundarréttar og löngu tímabærar breytingar á löggjöf um höfundarrétt. Til að þrýsta á um afgreiðslu málanna tóku höfundarréttarsamtök upp samstarf og tók BÍL þátt í því. Meðal þess sem félögin lögðu krafta sína í var að halda málþing um höfundarrétt undir yfirskriftinni Lifað af listinni – skapandi samtal listamanna og þingmanna um höfundarrétt. Þau sem að málþinginu stóðu voru auk BÍL, FJÖLÍS, STEF, MYNDSTEF og IHM. Flutt voru framsöguerindi sem tengdust fjórum frumvörpum um höfundarrétt og í lokin var þingmönnum allra þingflokka á Alþingi boðið að taka þátt í umræðum um inntak framsöguerindanna. Allir þingflokkarnir sendu fulltrúa og tókst að gera málunum góð skil. Málþinginu var streymt í beinni útsendingu og er upptakan enn aðgengileg á vefnum www.netsamfelag.is

Á vorþingi 2016 voru þrjú af frumvörpunum samþykkt;

 • frumvarp um munaðarlaus verk sem gerir söfnum og opinberum stofnunum kleift að varðveita og miðla til almennings verkum sem ekki finnst höfundur að eða ekki eru lengur í höfundaréttarvernd,
 • frumvarp um lengingu verndartíma hljóðrita sem færir réttindi flytjenda og útgefanda nær réttindum höfunda með lengingu verndartíma hljóðrita í 70 ár frá útgáfudegi og tryggir um leið rétt flytjenda til greiðslu gagnvart útgefendum og auðveldar endurútgáfu hljóðrita sem ekki hafa fengist á markaði lengi,
 • frumvarp um endurskoðun tiltekinna ákvæða er varða samningskvaðir, sem fyrst og fremst eru til þess ætluð að auka aðgengi notenda eins og t.d. útvarps- og sjónvarpsstöðva að höfundaréttarvörðu efni með því að auðvelda þeim gerð heildarsamninga við rétthafa.

Fjórða frumvarpið, um eintakagerð til einkanota, kom ekki fram á vorþinginu, en það var frumvarpið sem höfundar og eigendur flutningsréttar höfðu lagt mesta áherslu á og varðaði hagsmuni þeirra mestu. Ákváðu þá rétthafasamtökin að nota sér Fund fólksins, sem haldinn var fyrstu helgina í september, til að þrýsta enn frekar á stjórnvöld, sérstaklega mennta- og menningarmálaráðherra að leggja það frumvarp fram. Um miðjan september kom það svo fram í þinginu í nokkuð öðrum búningi en vænst hafið verið því ráðherra lagði til að stofnaður væri nokkurs konar sjóður, sem fengi ákveðið framlag á fjárlögum ár hvert, og væri honum ætlað að greiða sanngjarnar bætur til höfunda miðað við hlutfall af tollverði ýmissa stafrænna upptökumiðla og -tækja sem nýta má til að gera eintök af höfundaréttarvörðu efni til einkanota. En eins og kunnugt er þá hafði gjaldstofn sá sem stóð undir þessu endurgjaldi samkvæmt eldri lagaákvæðum, úrelst með árunum vegna tæknibreytinga og á endanum bárust nær engar greiðslur til rétthafa vegna þessarar notkunar.

Frumvarpið varð að lögum 11. október, tveimur dögum fyrir þingslit. Með þessari lagasetningu fylgdu 234 milljóna króna framlag á fjárlögum 2017 sem greitt verður út til rétthafa. Í framhaldinu hefur farið af stað vinna innan IHM við að endurskilgreina hlutfallsskiptingu fjármunanna milli ólíkra rétthafa, þeirri vinnu er ekki lokið.

Varðandi áframhaldandi samstarf rétthafasamtakanna, þá voru félögin sammála um að mikilvægt væri að halda því áfram og eru uppi áform um að halda málþing um einhverja þætti höfundarréttarmála árlega í samstarfi þessara aðila.

Umsagnir um þingmál
BÍL fékk einungis þrjú mál til umsagnar frá Alþingi fyrir utan málin um höfundarrétt. Það voru þingmannamál um lýðháskóla, sem ekki var tekið til afgreiðslu í þinginu og annað um virðisaukaskatt á íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Það mál var tekið fyrir en í því var lagt til að þjónusta og vörusala íþrótta- og æskulýðsfélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi þeirra verði undanþegin virðisaukaskatti. Einnig að íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt vegna tilgreinds kostnaðar við íþróttamannvirki á árinu 2016  Efnahags- og viðskiptanefnd þingsins afgreiddi það með því að senda það til ríkisstjórnarinnar, til skoðunar í starfshóp um endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt og vörugjöld með þeim skilaboðum skoða bæri málið í víðara samhengi, t.d. hvað varðar virðisaukaskatt af bókum, tónlist og starfsemi efnisveitna. Ekki höfum við fréttir af gangi vinnunnar í starfshópnum, en rétt að við höldum vöku okkar og spyrjumst fyrir um það.

Þriðja málið sem BÍL fékk til umsagnar varðaði Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og þær viðamiklu breytingar sem  verið er að gera á lífeyrissjóðakerfi landsmanna með jöfnun réttinda opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði. Umsögn BÍL studdist við viðbrögð formanna fagfélaga listamanna sem aðild eiga að BHM, en þeir hafa tekið þátt í umfjöllun málsins á þeim vettvangi og ýmist setið hjá við atkvæðagreiðslur eða látið bóka andmæli vegna vísbendinga um að breytingarnar þýði réttindaskerðingu sérstaklega fyrir nýja félaga. BÍL studddist í umsögn sinni við skýrslu Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem telur vafa leika á því að A-deild LSR hafi fjármagn til að greiða núverandi sjóðsfélögum skv. núverandi kjörum og að ekki sé tryggt að sjóðsfélagar haldi öllum réttindum sem þeir hafa átt fram að þessu. Meðan þessi vafi er uppi, geta aðildarfélög BÍL ekki mælt með að málið verði samþykkt óbreytt. Eftir langa og stranga umfjöllun í þinginu var frumvarpið samþykkt sem lög og voru ýmsir fyrirvarar við málið, m.a. þeir sem BÍL setti fram í umsögn sinni og fór á endanum svo að 14 þingmenn greiddu atkvæði gegn málinu og 8 sátu hjá.

Þá er rétt að geta þess hér að á árinu varð talsverður árangur af baráttu tónlistarmanna fyrir eflingu tónlistarinnar. Stofnaður var nýr sjóður, hljóðritasjóður, sem ætlað er að auðvelda tónlistarmönnum hljóðritun verka sinna og einnig voru sett lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

Niðurstaða starfshóps um Listahátíð í Reykjavík
Starfshópurinn hóf störf strax eftir áramótin 2016 og hittist á 10 fundum á árinu. Fulltrúar í hópnum voru Þórunn Sigurðardóttir og Margrét M. Norðdahl úr stjórn Listahátíðar, Svanhildur Konráðsdóttir sviðsstjóri hjá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkur, Ásta Magnúsdóttir  ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og forseti BÍL Kolbrún Halldórdóttir. Meðal þess sem var til skoðunar í hópnum voru fjármál og framkvæmd hátíðarinnar, endurnýjun samninga við stjórnvöld (ríki og borg) en mestur þungi var á undirbúningi stefnumótunar. Hópurinn lagði til að farið yrði í stefnumótunarvinnu á grundvelli ákvörðunar um að Listahátíð yrði tvíæringur og var fjölmennur stefnumótunarfundur haldinn 3. nóvember. Niðurstöðu þeirrar vinnu er að vænta alveg á næstunni.

Listaháskóli Íslands
Samráðsfundur rektors LHÍ og stjórnar BÍL var haldinn 22. september þar sem farið var yfir stefnumótun skólans og áform um 5 ára aðgerðaáætlun á grundvelli stefnunnar, en í síðustu úttekt gæðaráðs íslenskra háskóla 2015 fékk LHÍ hæstu mögulega einkunn, sem sýnir að skólinn stendur faglega vel að vígi en það sama verður ekki sagt um fjárhagsstöðuna eða stöðuna í húsnæðismálum hans. Á yfirstandandi ári kennir skólinn 446 nemendum, sem eru tæplega 70 fleiri en kennt var 2007, en upphæðin sem fæst gegnum fjárlög til kennslunnar er hin sama á núvirði. Á tímabilinu var bætt við meistaranámsbrautum í hönnun og myndlist, listkennslu og tónlist, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að auka skilning stjórnvalda á stöðunni þá hefur framlag ríkisins ekki aukist í takt við aukið umfang námsins.  Stöðugildi fastráðinna starfsmanna voru 88 um áramót og hafa ekki aukist nema um 2 síðan 2007. Launakostnaður er tæplega 70% af rekstrarkostnaði og húsnæðiskostnaður losar 20%. Ríkissjóður fjármagnar rekstrarkostnað að 78% og skólagjöld dekka 20%. Rektor telur að það orki tvímælis að listnám á háskólastigi skuli ekki standa til boða nema gegn skólagjöldum ólíkt öðru háskólanámi í landinu og beindi þeim skilaboðum til BÍL að skoða hvort slíkur aðstöðumunur háskólanema sé ásættanlegur.

Hlutfall rannsókna af heildarframlagi hins opinbera er 8,6% 2016, var 5,7% 2015, en skólinn er bundinn að lögum til að sinna rannsóknum, án þess að það starf hafi fengist viðurkennt í auknum framlögum hins opinbera. Annað virðist gilda um aðra háskóla, en hlutfall rannsókna af heildarframlagi til annarra háskóla er sem hér segir: HÍ 39,6%, HA 35,5%, Háskólinn að Hólum 36,6%, Hvanneyri 40%, HR 19,3% og Bifröst 20,5%. Vegna þessara lágu framlaga til rannsókna, þarf LHÍ að taka af öðru rekstrarfé sínu og greiða með rannsóknunum í stað þess að þær séu fjarmagnaðar af ríkinu líkt og hjá öðrum. Rekstrarstaða skólans er ekki góð og húsnæðismálin eru í ólestri sem fyrr. Þó er rétt að segja frá því að stjórnvöld sýndu vilja til að rétta fjárhaginn af að ákveðnu marki með því að framlagið til skólans á fjárlögum 2017 hækkaði um rúmar 100 milljónir eða í kr. 1.088.900.000 sem ætti að nægja til að koma rekstrinum í jafnvægi, en ekkert umfram það. Vegna nýju framsetningarinnar á fjárlögunum er ekki hægt að sjá hversu hátt hlutfall þessa framlags er ætlað til kennslu og hvað til rannsókna.

Í lok árs var skipt um fulltrúa mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn skólans svo forseti BÍL og Markús Þór Andrésson hafa lokið stjórnarsetu sinni. Nýjir fulltrúar ráðherra í stjórninni eru Magnús Ragnarsson og Áslaug Friðriksdóttir.

Aðrir þættir er varða listmenntun á árinu eru helst þeir að gerður var samingur við FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík um stofnun og rekstur framhaldsskóla á sviði tónlistar. Einnig voru gerðar nokkrar breytingar á lögum um tónlistarnám og nýtt samkomulag  var gett milli ríkisins og sveitarfélaganna. Þarna hefur orðið langþráður árangur, sem BÍL fagnar og mun nú fylgja því eftir að samskonar úrbætur verði gerðar hvað varðar dansmenntun í landinu.

Ríkisútvarpið
Í október var haldinn samráðsfundur stjórnar BÍL og útvarpsstjóra Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Þar var farið yfir atriði í þjónustusamningi RÚV og ríkisins og lögð áhersla á kröfur kvikmyndagerðarmanna varðandi áform RÚV um að efla framleiðslu og sýningu leikins efnis í sjónvarpi. Útvarpsstjóri gerði grein fyrir erfiðri rekstrarstöðu stofnunarinnar og telur að ekki muni úr rætast fyrr en ríkisvaldið ákveður að taka yfir 3,2 milljarða lífeyrisskuldbindingar RÚV. Ákvörðun stjórnvalda um lækkun útvarpsgjalds úr kr 19.400.- í kr. 16.400.- kemur illa niður á stofnuninni. Gjaldið hér var fyrir lækkunina það lægsta pr. íbúa á Norðurlöndunum. Stofnunin hefur þurft að fækka starfsmönnum um 35% á síðustu 5 árum, sem hefur gert erfitt að hlífa  dagskránni við niðurskurði, en þó hefur það verði í forgangi, að sögn útvarpsstjóra, að láta hann bitna sem minnst á framleiðslu leikins efnis. Þar eru menn að reyna af veikum mætti að blása til sóknar og var útvarpsstjóri bjartsýnn á að það myndi takast , t.d. nefndi hann áformaðar breytingar á umfjöllun um listir og menningu, en í bígerð er að stofna sterka menningarritstjórn til að tryggja breiða og ítarlega umfjöllun um menningarmál í miðlum RÚV, en þó þannig að gætt sé dreifingar efnis, fjölbreytni sé gætt og tryggt að skírskotað verði til ólíkra hópa listamanna og listunnenda. Þá eru uppi áform innan RÚV að efla safnastarfið og vefinn, sérstaklega m.t.t. umfjöllunar um listir og menningu. Ráðinn hefur verið sérstakur ritstjóri sem starfa mun með menningarritstjórninni. Hann heitir Davíð Kjartan Gestsson og er langt kominn með að útfæra nýja vefinn rúv.menning, sem ætlunin er að frumsýna innan skamms. Í desember sl. bauð dagskrárstjóri Rásar 1, Þröstur Helgason, stjórn BÍL til fundar við þá Davíð Kjartan, þar sem rætt var um nýja veginn og lýst vilja til samstarfs við BÍL um þróun menningarumfjöllunar í RÚV.

Fagfélög listamanna standa um þessar mundir í viðræðum við RÚV um kaup og kjör, en endurnýjun samninga við RÚV hefur gengið hægt. BÍL hefur ekki beina aðkomu að þeim þætti mála, en stjórn BÍL leggur sig fram við að finna skapandi leiðir að þeim markmiðum að listamenn, höfundar og flytjendur, fái sanngjarnar greiðslur fyrir störf sín hjá RÚV, enda hafa listamenn ævinlega litið á RÚV sem eina af mikilvæustu opinberu burðarstoðum lista og menningar í landinu.

Kínversk sendinefnd
BÍL tók 20. júní á móti opinberri sendinefnd Kínverskra listamanna á fundi í Iðnó. Þar kom m.a. fram ósk um þátttöku Íslands í listahátíð í Kína 2019, 11th China International Folk Arts Festival og var forseta BÍL boði að koma til Kína í kynningar- og undirbúningsheimsókn. Boðið hefur verið þegið, en með þeim fyrirvörum þó að takist að fjármagna ferð forseta, og vonandi heillar sendinefndar BÍL, til Kína. Áform eru uppi um að sækja um ferðastyrki til að af heimsókninni geti orðið.

Listirnar í forgang
Það er margt sem stjórn BÍL hefur rætt á árinu í tengslum við stöðu listanna í samfélaginu og eru allir sammála um að BÍL hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að styrkja stöðu þeirra og breikka umræðuna. Það er hins vegar ekki augljóst með hvaða hætti það verður best gert. Ein aðferð er að fara í spor SÍM og útvíkka herferðina sem SÍM setti af stað 2014 „Borgum myndlistarmönnum“. Hún hefur haldið áfram og þróast nokkuð þó ekki sé sýnilegur árangur af henni enn annar en kannski sá að umræðan hefur teygt sig yfir í aðrar listgreinar. Á nýafstöðnum stefnumótunar-fundi um Tónlistarborgina Reykjavík var t.d. mikil áhersla á að tónlistarmönnum sé greitt fyrir að koma fram á hátíðum sem borgin efnir til eða stendur að með einhverjum hætti.

Innan stjórnar BÍL hefur talsvert verið um það rætt með hvaða hætti best sé að nálgast umræðuna um kjaramál listamanna án þess að upphrópanir um listamannalaun leggi hana undir sig. Ein leiðin er taka þátt í opinberri umræðu um uppbyggingu „skapandi greina“ og tryggja að listirnar verði með í því mengi. Í þeim efnum þarf að efla samráð BÍL innan atvinnulífsins ekki síður en á vettvangi stjórnmálanna, eins og tillaga stjórnar BÍL að starfsáætlun 2017 ber með sér.

Einnig er ljóst að berjast þarf áfram fyrir sterkari stöðu listanna í stjórnkerfinu, sem BÍL hefur gert með því að setja fram kröfu um sjálfstætt menningarmálaráðuneyti. Til marks um veika stöðu listanna í stjórnkerfinu, jafnvel innan menningarmálaskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytis, er saga starfshóps um aðgerðir gegn málverka-fölsunum, sem nefndur var í síðustu ársskýrslu forseta BÍL. Hópurinn var settur á laggirnar haustið 2014 á grundvelli tillögu Alþingis og var ætlað að vinna tillögur gegn málverkafölsunum, sem höfðu haft veruleg neikvæð áhrif á markað með íslensk málverk. BÍL átti aðild að vinnunni, fulltrúi BÍL í hópnum er Jón B. K. Ransu myndlistarmaður. Það liðu margir mánuðir áður en hópurinn var formlega skipaður, það gerðist ekki fyrr en í febrúar 2015 og þó búið væri að skipa hann þá var hann ekki kallaður saman fyrr en í lok september 2015. Þá voru haldnir nokkrir fundir og fram á haustið 2016 þegar hópurinn skilaði af sér tillögum til ráðherra. En ráðuneytið hefur ekki enn séð ástæðu til að birta tillögurnar eða greinargerð hópsins, svo formlega hefur hann ekki enn lokið störfum…

En þrátt fyrir mótbyr á ýmsum sviðum telur stjórn BÍL ekki eftir sér að bretta upp ermar í baráttunni, og kappkostar að heyja málefnanlega og yfirvegaða baráttu fyrir málefnum listanna hvar sem því verður við komið. Ýmis jákvæð teikn eru á lofti um að slík nálgun skili á endanum góðum árangri. T.d. var óskað eftir liðsinni BÍL af hálfu Guðbrandsstofnunar, sem er samvinnuverkefni Háskólans á Hólum, Háskóla Íslands og þjóðkirkjunnar, þegar blásið var til tveggja daga ráðstefnu 31. mars og 1. apríl, undir yfirskriftinni „Hvernig metum við hið ómetanlega“ og var umfjöllunarefni Menningin. Þar flutti forseti BÍL fyrirlestur um sjálfbæra þróun og menningu, fjöldi listamanna tók þátt bæði með listflutningi og framlagi í formi fyrirlestra og var mál manna að þarna hafi verið byggðar brýr til aukins skilnings milli manna og málefna.

Svo má nefna árangur af starfi BÍL í þágu listmenningar í skólum, en við höfum tekið virkan þátt í uppbyggingu verkefnisins „List fyrir alla“ sem rekið er af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er ætlað að standa að og halda utan um vandaða listviðburði sem skólum um land allt býðst að kaupa inn á viðráðanlegu verði. Verkefnisstjóri er Elfa Lilja Gísladóttir og á BÍL tvo fulltrúa í samráðshópi verkefnisins, þau Hildi Steinþórsdóttur kennara hönnunar og sjónlista og Davíð Stefánsson rithöfund.

Loks er rétt að geta þess að nýr forseti lýðveldisins Guðni Th. Jóhannesson sá ástæðu til að sæma forseta BÍL riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag ásamt 12 öðrum góðborgurum, sem nánast allir fengu viðurkenninguna fyrir störf að listum og menningu.

Verkefnin framundan
Eru þau sömu og áður, stjórn BÍL hefur hug á að halda málþing undir yfirskriftinni „Heilbrigt hagkerfi skapandi greina“, í framhaldi af því sem sagt hefur verið hér um kjör listamanna og stöðu listanna í samfélaginu.

Þá hefur stjórn hugmyndir um að efla samráð vítt og breitt um samfélagið, ekki síst við stofnanir á borð við Hagstofu Íslands um tölfræði lista og skapandi greina. Slíkt samstarf gæti mögulega skilað eflt samstöðu um nauðsyn þess að greina þróun opinberra fjárveitinga til listageirans og bera hana saman við stefnumótun stjórnvalda í málaflokknum. Sömuleiðis þarf að efla möguleika íslenskra listamanna á að bera saman þátttöku hins opinbera í listum og menningu hér á landi og í helstu nágrannalöndum okkar. Þá má líka nefna áform stjórnar BÍL um virkara samráð við samtök sveitarfélaga við uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir listamenn á landsbyggðinni og skilvirkara starfsumhverfi utan höfuðborgarsvæðisins.

Kynning lista og menningar  á erlendri grund er líka á dagskrá stjórnar og mun í því sambandi verða fylgst vel með þróun Norrænu menningarhátíðarinnar á vegum Norrænu ráðherrannefndarinnar í London í samstarfi við South Bank Centre.  Virkara samtal við ferðaþjónustuna og stjórnvöld um hlut lista og menningar í auknum straumi ferðafólks til Íslands er eitt af áherslumálunum og mikilvægi þess að listir og menning fái sess innan ferðamálastefnu landsins.

Loks er rétt að geta um mikilvægi þess að ný stefna Vísinda- og tækniráðs nái til listrannsókna. Þetta atriði var líka nefnt á þessum stað í ársskýrslu BÍL 2016, en staðan í þessum málum er ekki góð. Ný stefna Vísinda og tækniráðs 2017 – 2019 hefur nefnilega ekki enn litið dagsins ljós, en vonandi er unnið að henni af kappi í kerfinu. Það er afar mikilvægt fyrir þróun listanna að sú nýja stefn nái með skýrum hætti til rannsóknarstarfs í listum og menningu, slíkt væri viðurkenning á mikilvægi listanna í ýmsu tilliti, t.d. á akademískri stöðu listanna og á menntunarstigi listamanna. Þannig myndu stjórnvöld sýna vilja til þess að listirnar eigi að vera hluti þess samkeppnishæfa atvinnulífs um land allt sem yfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar gengur í stórum dráttum út á.

Page 1 of 712345...Last »