Skýrsla stjórnar FLÍ starfsárið 2019 – 2020

Í stjórn FLÍ á starfsárinu sátu Kolbrún Halldórsdóttir formaður, Ástbjörg Rut Jónsdóttir gjaldkeri og Tryggvi Gunnarsson ritari. Varamenn í stjórn voru Agnar Jón Egilsson, Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir og Harpa Arnardóttir. Stjórn hélt alls 7 fundi á starfsárinu, á tímabilinu frá framhaldsaðalfundi 7. október 2019 og fram að aðalfundi 22. júní 2020, og eru fundargerðir vistaðar í stafrænni skjalageymslu félagsins, auk þess sem þær eru aðgengilegar félagsmönnum á aðalfundi félagsins.

 

Nýir félagar á árinu

Þrír leikstjórar sóttu um félagsaðild á þessu starfsári (frá aðalf. 2019 og til aðalf. 2020) og voru umsóknir þeirra jafnharðan afgreiddar á stjórnarfundum. Þeir félagar sem bættust í félagatal FLÍ frá síðasta aðalfundi eru: Aron Martin Ásgerðarson, Stefán Ingvar Vigfússon og Íris Stefanía Skúladóttir. Um þessar mundir eru skráðir 104 félagar í félagatal FLÍ, 27 af þeim eru 67 ára og eldri.

 

Samningamál

Til grundvallar starfi stjórnar á starfsárinu hefur legið starfsáætlun samþykkt á framhaldsaðalfundi 7. október 2019. Tekist hefur að þoka áfram nokkrum fjölda mála, endurnýjaðir samningar við samningsaðila FLÍ hafa þar vegið þyngst. Í því sambandi ber að geta þeirra sjónarmiða sem samninganefnd FLÍ hefur reynt að ná fram varðandi aðstoðarleikstjóra og dramatúrga, en í starfsáætlun er getið um þau áform að ræða við yngri kynslóð leikstjóra um skynsamlega nálgun við kjaramál tengd þessum störfum. Samninganefndin hefur lagt góðan grunn að því samtali með því að berjast fyrir bókunum starfskjör aðstoðarleikstjóra og dramatúrga, sem lið í þeim áformum að lyfta þessum störfum og um leið auka fagmennsku við uppsetningu leiksýninga hjá samningsaðilum FLÍ. Samninganefndina hafa skipað þau Páll Baldvin Baldvinsson, Hjálmar Hjálmarsson og Ástbjörg Rut Jónsdóttir, en Hjálmar baðst undan setu í nefndinni þegar leið á starfsárið og hefur formaður félagsins hlaupið í skarðið eftir því sem þörf hefur verið.

 

Leikfélag Reykjavíkur

Í janúar var undirritaður nýr samningur við Leikfélag Reykjavíkur, og byggja launatölur samningsins á svokölluðum lífskjarasamningum, sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði á vordögum 2019. Samningurinn er heildarsamningur þar sem náðust fram nokkur nýmæli auk þess sem honum fylgja bókanir um hlutverk leikstjórans, um verktöku, störf dramatúrgs og aðstoðarleikstjóra, ásamt bókun um höfundarréttarsamninga fyrir samsköpunarverk. Samningurinn gildir til 1. nóvember 2022.

 

Þjóðleikhúsið

Í byrjun maí var undirritað samkomulag við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna starfa leikstjóra við Þjóðleikhúsið. Það felur í sér launahækkanir sem eru í samræmi við lífskjarasamningana frá vorinu 2019. Þó náðist fram hækkun á framlagi atvinnurekanda í styrktarsjóð BHM og það nýmæli að frá september 2020 greiðir atvinnurekandi 0,7% af launum í Starfsþróunarsetur háskólamanna hjá BHM, sem gerir kleift að sækja um fjárstuðning til starfsþróunar og endurmenntunar. Viðræður við Þjóðleikhúsið um breytingar á stofnanasamningi standa enn yfir, en þar munu verða sérstakar bókanir um störf dramatúrga og aðstoðarleikstjóra, ásamt skilgreiningum á hlutfalli höfundaréttar leikstjóra í samsköpunarverkefnum.

 

Menningarfélag Akureyrar

Nú er það Menningarfélag Akureyrar sem gerir samninga um störf leikstjóra hjá Leikfélagi Akureyrar. Til grundvallar nýjum samningi FLÍ við MAK liggur samningurinn við Leikfélag Reykjavíkur frá því í janúar og hafa viðræður gengið vel. Allt sem náðist í samningunum við LR fer inn í nýjan samning við MAK og telst samningaviðræðum lokið. Samningurinn verður undirritaður á næstu dögum.

 

Íslenska óperan

FLÍ hefur lengi leitað eftir því að gerður verði samningur um störf leikstjóra hjá Íslensku óperunni, það hefur ekki reynst auðsótt fram að þessu en nú hefur sá árangur náðst að samningaviðræður eru hafnar og bindur stjórn vonir við að hægt verði að ganga frá samningi við ÍÓ fyrir haustið. Rétt er að greina hér frá samstarfi fagfélaga í sviðslistum og tónlist, sem staðið hefur allt undangengið starfsár, og sprottið er af óánægju listamanna sem starfað hafa fyrir Íslensku óperuna undanfarið. Málið snertir bæði kjaramál og aðkomu fagfélaganna að nýstofnuðu fulltrúaráði ÍÓ. Hafa félögin átt í samskiptum við mennta- og menningarmálaráðuneytið af þessum sökum og freistað þess að fá skýringar á tilteknum þáttum í rekstri ÍÓ, m.a. stofnun fulltrúaráðsins, breyttu stjórnarfyrirkomulagi og áformum um endurnýjun samnings ráðuneytisins við ÍÓ.

 

Ríkisútvarpið ohf

Langtum erfiðasti samningsaðili félagsins er Ríkisútvarpið ohf. Þar á bæ hefur ekki verið vilji til að endurnýja samninga við leikstjóra og raunar gildir það sama um öll félög sem semja fyrir hönd listamanna við stofnunina, þau eru öll með útrunna samninga. Nú hafa formenn þessara félaga ákveðið að setjast niður og skoða hvort möguleiki sé á að sameina kraftana, þ.e. leita eftir sameiginlegum viðræðum við RÚV. Slíkt gæti aukið þrýstinginn á forsvarsmenn RÚV og með góðum vilja mætti hugsa sér að á endanum næðist að skilgreina sambærilegan starfsgrundvöll þeirra listamanna sem koma til starfa hjá RÚV tímabundið eða til lengri tíma. Þessar hugmyndir eru einungis á umræðustigi enn sem komið er, en augljós vilji formanna félaganna að velta upp þessum möguleika.

 

Félagsgjöld

Í starfsáætlun ársins er fjallað um félagsgjöld og fyrirkomulag innheimtu þeirra. Þetta atriði hefur verið til umaræðu á stjórnarfundum og á grundvelli laga félagsins ákvað stjórn að innheimta lágmarksfélagsgjaldið fyrir aðalfund með gjalddaga 4. maí og eindaga 4. júní, svo uppfyllt séu skilyrði 7. og 10. gr. laganna, sem kveða á um það að félagsmaður sem ekki greiðir gjaldfallin félagsgjöld sín fyrir aðalfund teljist ekki lengur fullgildur félagi, heldur aukafélagi og hafi því ekki atkvæðisrétt á aðalfundi. Þá hefur stjórn ákveðið að heimila félögum að dreifa greiðslum lágmarksfélagsgjaldsins og hefur félögum verið kynnt sú ákvörðun, einungis þarf að hafa samband við gjaldkera til að fá greiðslunni skipt upp í 2 – 4 greiðslur. Slík skipting gjaldsins hefur þó engin áhrif á réttindin sem skapast, því félagsskírteinin verða send út strax við fyrstu greiðslu og eigi síðar en 1. ágúst. Loks staðfesti stjórn eldri ákvörðun um að leggja ekki dráttarvexti á ógreidd lágmarksfélagsgjöld, allt til hagsbóta fyrir félaga. Annað sem stjórn hefur tekist á við á tímabilinu frá síðasta aðalfundi, er lagabreytingin sem samþykkt var á þeim fundi, þar sem ákveðið var að innheimta lágmarksfélagsgjald af öllum félögum, líka þeim sem eru 67 ára og eldri. Sú ákvörðun mæltist einkar illa fyrir hjá félögum í þeim aldurshópi og óskaði nokkur fjöldi þeirra að ganga frekar úr félaginu en að fara að greiða félagsgjaldið núna. Þetta leiddi til þess að stjórn leggur fram breytingu inntaki lagaákvæðisins á þessum aðalfundi.

 

Ný sviðslistalög

Á árinu fögnuðu þau sem starfa innan sviðslista á Íslandi nýjum sviðslistalögum sem samþykkt voru á Alþingi 17. desember 2019 og taka gildi 1. júlí nk. Má segja að mikið hafi mætt á forystu sviðslistafólks meðan lögin voru að fara gegnum þingið, því þó að í frumvarpinu hafi margt verið til bóta þá voru þar líka atriði sem samstaða var um meðal félaganna að þyrfti að breyta. Umsagnir félaganna voru undirbúnar á samráðsfundum og voru allar nokkuð samhljóða. Með í því samráði voru fulltrúar Sjálfstæðu leikhúsanna. Þegar gestir höfðu verið kallaðir fyrir allsherjar- og menntamálanefnd þingsins og álit nefndarinnar lá fyrir kom í ljós að vel hafði verið hlustað á ábendingar fagfélaganna og SL. Flestar tillögur okkar skiluðu sér í endanlegan lagatexta, t.d. sú sem varðar fyrirkomulag tilnefninga faggeirans í þjóðleikhúsráð og listdansráð, tillögur um tilnefningar í sviðslistaráð og tillögur um fyrirkomulag sviðslistasjóðs. Þá var einnig lögð sú skylda á herðar mennta- og menningarmálaráðherra að setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista og stofna nefnd sem falið verður að gera tillögur um stofnun þjóðaróperu.

 

SAFAS – Samráðsvettvangur fagfélaga í sviðslistum innan SSÍ

Mikilvægt ákvæði var sett í frumvarp að nýjum sviðslistalögum, sem gerði ráð fyrir að fagfélög í sviðslistum fái að tilnefna meiri hluta fulltrúa í bæði þjóðleikhúsráð og listdansráð. Hins vegar var ekki tekið fram hvaða sviðslistafélög væri átt við eða nokkuð annað er varðaði framkvæmd þessara tilnefninga. Í umsögnum fagfélaganna til þingnefndarinnar var þess óskað að tekið yrði fram í lagatextanum að það væru fagfélög innan Sviðslistasambands Íslands, sem hefðu þetta hlutverk. Við því var orðið og því nauðsynlegt fyrir þau félög að stofna með sér formlegan vettvang sem tæki að sér að tilnefna þrjá fulltrúa í þjóðleikhúsráð til fimm ára og þrjá til vara, tvo fulltrúa í listdansráð til fimm ára og tvo til vara og loks tvo fulltrúa í sviðslistaráð til þriggja ára og tvo til vara. Þegar þetta lá ljóst fyrir gengu fagfélögin innan Sviðslistasambandsins, sem eru sjö talsins, í það að stofna með sér formlegan vettvang, sem tæki að sér þetta hlutverk ásamt því að styðja við sameiginleg hagsmunamál félaganna í þágu aukinnar fagmennsku í sviðslistum. Vettvangurinn var stofnaður 28. maí sl. með undirritun stofnyfirlýsingar og í framhaldinu var unnið að tilnefningum í ráðin þrjú, sem lokið var 9. júní sl. Þar með er uppfyllt ákvæði í starfsáætlun FLÍ sem kveður á um samráðsnefnd Sviðslitasambandsins.

 

Tilnefningar í ráðin þrjú

Á fundi SAFAS 5. júní sl. var fjallað um tilnefningar í þau ráð sem getið er í nýju sviðslistalögunum, þ.e. þjóðleikhúsráð, listdansráð og sviðslistaráð. Formenn sex félaga sátu fundinn, formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði sendi fundinum þau skilaboð að stjórn hans teldi eðlilegt að þau héldu sig til hlés í þessari fyrstu tilnefningu fulltrúa og þau myndu styðja þær tillögur sem hin félögin sex kæmu sér saman um. Nokkur fjöldi nafna var lagður fram og var talsvert um að sömu nöfnin væru nefnd af ólíkum stjórnum. Formennirnir ræddu sig svo að niðurstöðu og samþykktu samhljóða að senda eftirfarandi tilnefningar til mennta- og menningarmálaráðherra sem skipar í ráðin:

Sviðslistráð (þrjú ár):

Aðalmenn: Agnar Jón Egilsson – Vigdís Másdóttir

Varamenn: Hjálmar Hjálmarsson – Karen María Jónsdóttir (sem eiga líka sæti í úthlutunarnefnd launasjóðs sviðslistafólks)

Listdansráð (fimm ár):

Aðalmenn: Ólöf Ingólfsdóttir – Guðmundur Helgason

Varamenn: Katrín Johnson – Ólafur Darri

Þjóðleikhúsráð (fimm ár):

Aðalmenn: Sjón – Kolbrún Halldórsdóttir– Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir

Varamenn: Sigmundur Örn Arngrímsson – Ragnheiður Maísól Sturludóttir- María Ellingsen

 

Starfandi leikstjórar

Fyrri formaður FLÍ var iðinn við að halda utan um fjölda þeirra félagsmanna sem störfuðu á samningum félagsins og ekki ástæða til annars en að halda því starfi áfram. En það er af ýmsum ástæðum sem þessu starfi hefur verið vikið til hliðar síðastliðið starfsár, nægir þar að nefna tímafreka vinnu við að bregðast við stöðvun allra viðburða á vettvangi sviðslista af völdum heimsfaraldurs covid-19, sem nánar verður fjallað um síðar í skýrslu þessari. En af þessum sökum leggur stjórn til að á komandi leikári verði stjórn falið það verkefni að fylgjast vel með því hvaða leikstjórar starfa hjá samningsaðilum FLÍ og ganga eftir skilum á samningum og félagsgjöldum til félagsins. Markmiðið með slíku starfi er að hafa yfirsýn yfir störf þau sem eru í boði fyrir félagsmenn ásamt því að tryggja að greiðslur af launum þeirra skili sér í félagssjóð, sem stendur undir rekstri félagsins, en ekki síður til að tryggja eftirfylgni þeirra ákvæða samninga er varða kjör leikstjóra.

 

Heimsfaraldur covid-19

Heimsfaraldur kórónuveirunnar og covid-19 sjúkdómsins, sem braust út um mánaðamót feb./mars, hefur óhjákvæmilega haft mikil áhrif á sviðslistirnar ekki síður en aðrar atvinnugreinar. Með góðum rökum má jafnvel halda því fram að faraldurinn hafi haft meiri áhrif á sviðslista- og tónlistarfólk en fólk í ýmsum öðrum atvinnugreinum, í ljósi samkomubanns sem sett var á hér á landi 15. mars sl. Mikill tími forsvarsmanna fagfélaga þessara greina hefur því farið í að bregðast við þeim neikvæðu áhrifum sem félagsmenn hafa orðið fyrir. Það hefur verið gert í þéttu samstarfi félaganna með þátttöku BÍL – Bandalags íslenskra listamanna og BHM. Samskiptin hafa bæði verið við fulltrúa ríkisvaldsins, ríkisstjórn og Alþingi, og stofnanir á vegum þess, t.d. Vinnumálastofnun. Fylgst hefur verið með aðgerðum stjórnvalda, sem öllum hafa fylgt frumvörp til lagabreytinga af ýmsu tagi, og hafa fagfélög listamanna gefið umsagnir um þau til að freista þess að sníða úrræðin að þörfum listafólks, sem oft er í blandaðri starfsemi, þ.e. að hluta launþegar og að hluta í sjálfstæðri starfsemi. Einnig er algengt meðal listafólks að það geri upp opinber gjöld, skatt og tryggingagjald, einu sinni á ári, sem allt gerir það að verkum að það fellur illa að kerfi Vinnumálastofnunar. Þetta hefur gert stofnuninni erfitt fyrir við að sinna þörfum listafólks, enda hefur álagið á stofnunina farið langt fram úr því sem ætlað var, og þrátt fyrir það að bæði þingmenn og ráðherrar hafi tjáð forsvarsmönnum listafólks að úrræðin eigi að henta okkar fólki og Vinnumálastofnun eigi að laga sig að þeim vilja stjórnvalda, þá eru síðustu skilaboð stofnunarinnar þau að umsækjendur sem ekki falla að kerfinu þurfi að bíða fram á haustið eftir úrlausn. Þetta er að sjálfsögðu óásættanlegt, en lítið sem hægt er að gera umfram það sem reynt hefur verið og enn er verið að vonast til að einhverju verði þokað á næstu vikum, án þess að nokkuð verði fullyrt um að það gangi eftir.

 

Fjárhagsstaða

Staða fjármála félagsins er svipuð og verið hefur síðustu ár, þ.e. eignastaðan er góð, en þó er sífellt gengið á eigið fé, sem endurskoðendur hafa kvatt stjórn til að taka á, en til þess eru engin önnur tól en að hækka félagsgjöld, sem stjórn hefur metið óframkvæmanlegt. Þegar þetta er ritað hefur ekki verið gengið endanlega frá ársreikningum og því ekki hægt að rita kafla um fjárhagsstöðu félagsins með réttu talnaefni. Því er brugðið á það ráð að gefa félagsmönnum mynd af stöðunni með því að birta kafla úr ársskýrslu 2016 (sem var einnig birtur í skýrslunni fyrir starfsárið 2018-2019), en þar getur að líta útskýringar á stöðunni sem hefur lítið breyst, þó tölurnar kunni að vera aðrar:

“Á aðalfundi FLÍ 2015 kom fram að fjárhagsstaða félagsins hefur farið versnandi á síðustu árum. Fyrst kom hrunið, sem veikti eignastöðuna nokkuð og við það bættist fremur lág ávöxtun á sjóðum félagsins eftir hrun. Svo hefur það haft áhrif að ákvörðun var tekin 2014 um að auka greiðslur til stjórnar félagsins vegna aukins álags af veru félagsins í BHM. Þá hefur það líka áhrif að á síðustu þremur árum hefur verið gerð gangskör að því að endurnýja alla samninga félagsins og hefur samninganefnd FLÍ fengið greitt fyrir fundarsetur. Af þessum ástæðum var ákveðið á aðalfundi 2015 að hækka lágmarksgjald það sem félagar greiða til félagsins úr kr. 15.000.- í kr. 24.000.- […] Niðurstaða rekstrarins 2015 er sú að tapi hefur nú verið snúið í hagnað, þ.e. á árinu er tekjuafgangur að upphæð kr. 949.471.- en á árinu 2014 tapaði félagið tæpum 3,7 milljónum króna. Staðan er þó ekki betri en svo að fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld er staðan neikvæð sem nemur kr. 1.390.654.- Þetta þýðir að tekjur félagsins duga ekki fyrir nema broti af rekstrinum og að ávöxtun sjóða félagsins, sem nam kr. 2.559.257.- er það sem heldur heildarniðurstöðunni réttu megin við núllið. Vegna taps áranna 2013 og 2014 benda endurskoðendur félagsins stjórn á það í áritun sinni að nauðsynlegt sé að brugðist verði við ójöfnuðu eigin fé, sem var í árslok tæpar 4,7 milljónir króna. Eiginfjárstaðan er þó eilítið betri en 2014, hún er nú jákvæð sem nemur 22,7 milljónum króna (var 22,0 árið 2014). Ástæður neikvæðrar rekstrarstöðu FLÍ eru þær hversu fáir félagar greiða gjöld til félagsins. Á árinu voru 104 félagar á félagaskrá, af þeim greiddu einungis 7 félagar gjöld til félagsins alla mánuði ársins. 13 greiddu flesta mánuði ársins. Á fyrstu mánuðum ársins 2016 eru einungis 19 félagar að skila gjöldum gegnum innheimtukerfi BHM. Við þetta bætist að 39 félagar eru 60 ára og eldri, en samkvæmt lögum FLÍ eru þeir undanþegnir félagsgjaldi. Sumir þeirra eru þó að greiða af launum sem þeir afla fyrir verkefni sem unnin eru á samningum félagsins. Af 104 skráðum félögum 2015 voru 15 sem hvorki greiddu lágmarksfélagsgjaldið né af launum sínum gegnum BHM. Það hefur verið meginmarkmið stjórnar síðan að halda í horfinu og freista þess að reka félagið án þess að ganga á eignir félagsins, en það er erfitt. Mun gjaldkeri gera grein fyrir stöðu félagsins á fundinum.“

Tekið skal fram að seinagangurinn við að ganga frá ársreikningunum skrifast að hluta á endurskoðunarskrifstofu félagsins, engu að síður þarf stjórn að taka sig á hvað varðar skil á reikningum, þar sem sambærileg staða hefur komið upp oftar en einu sinni undanfarin ár.

 

BHM – Bandalag háskólamanna

Síðan covid-19 falaldurinn skall á hefur BHM verið virkur aðili í samtalinu við stjórnvöld um úrræði til handa félagsmönnum aðildarfélaganna. Formenn fagfélaga listamanna hafa tekið þátt í því samtali, svo sem að framan greinir. Annað sem hefur útheimt vinnu á árinu er að ræða tillögur starfshóps innan BHM um hækkuð félagsgjöld að Bandalaginu. Tillaga hópsins hentar listamannafélögunum í BHM afar illa, þar er um að ræða FLÍ, FÍL, FÍH og SÍM, og hafa formenn þessara félaga fundað með fulltrúum starfshópsins og með forystu BHM til að freista þess að afstýra því að tillagan verði samþykkt. Nú er staðan sú að afgreiðslu tillögunnar hefur verið frestað til framhaldsaðalfundar BHM sem haldinn verður 9. september nk. og binda formenn listamannafélaganna vonir við að þar verði hægt að leggja fram breytingartillögu sem verði okkar félögum í hag. Fundum um málið verður fram haldið á næstunni. Aðrir þættir í starfi BHM hafa verið á vettvandi sjúkrasjóðs BHM, en nú hafa komið í ljós vankantar á réttindum fólks, sem greiðir reglulegt mánaðagjald í sjóðinn, en getur ekki sýnt fram á samsvarandi launatekjur. Reglur sjóðsins kveða á um það að sjóðsaðild byggist á því að greitt sé lögákveðið, kjarasamningsbundið eða ráðningarsamningsbundið sjúkrasjóðsframlag 1% af heildarlaunum, sem þýðir að sá sem sækir um stuðning frá sjóðnum þarf að sýna fram á samræmi milli heildarlauna og greiðslunnar í sjóðinn. Þetta er ekki í samræmi við skilning forystu listamannafélaganna sem áttu þátt í að koma félögunum undir regnhlíf Bandalagsins. Á þeim tíma teljum við að það hafi verið sameiginlegur skilningur að listamönnum með óreglulegar tekjur væri heimilt að standa skil á greiðslum í sjóðinn, þótt engar eða minni tekjur lægju þar að baki. Nú standa mál þannig að FÍH hefur tekið að sér að reka mál fyrir dómi, sem myndi geta hnekkt niðurstöðu sjóðsstjórnarinnar í máli tiltekins félagsmanns þess félags. Einnig er í undirbúningi að formenn listamannafélaganna fundi með fulltrúum sjóðsstjórnarinnar. Loks má geta þess að formaður FÍH hefur tekið sæti í starfshópi sem undirbýr nýja stefnumótun fyrir BHM og mun þar halda fram sértækum þörfum félaga listamannafélaganna. Gert er ráð fyrir að fjallað verði um tillögu hópsins á framhaldsaðalfundi BHM 9. sept. nk.

 

IHM – Innheimtumiðstöð rétthafa

Í apríl sl. framkvæmdi fyrirtækið Maskína viðamikla könnun fyrir IHM þar sem kannað var umfang eintakagerðar til einkanota meðal Íslendinga. Könnunin er gerð til að fylgja eftir fyrri könnun, sem framkvæmd var í maí 2018 og er hún að norskri fyrirmynd eins og sú fyrri. Ástæður þess að ný könnun var sett af stað má rekja til þess að niðurstöður þeirrar fyrri þóttu ekki í samræmi við íslenskan veruleika og samþykkti fulltrúaráð IHM því að láta framkvæma nýja könnun. Hún hafði að geyma 23 spurningar sem skiptust þannig:

  1. a) 1-7 um hljóð- og hljóðverk, t.d. tónlist, útvarpsdagskrá, hljóðbækur etc.
  2. b) 8-16: um kvikmyndir, sjónvarpsefni og annað myndefni, sem nálgast má af Internetinu, hörðum drifum, geisladiskum, DVD-diskum eða af tölvuskýi
  3. c) 17-23: um texta og myndir, t.d. úr bók, tímariti/vikutímariti, dagblaði, netmiðli, öðrum stöðum á netinu, nótnablöðum, söngtexta eða örðum tegundum útgefinna texta.

Það voru 1562 sem fengu könnunina og var svarhlutfallið misjafnt eftir spurningum, en talið að það hafi verið tæplega 92% að meðaltali. Þegar niðurstöðurnar lágu fyrir var ljóst að þær voru ekki til að leysa ágreining um hlutfallsskiptingu rétthafagreiðslna, sem er orðinn ansi langvinnur og erfiður úrlausnar, svo líkurnar aukast á því að kalla verði saman gerðadóm til að skera úr um skiptingu greiðslnanna. Til glöggvunar þá eru verkefni IHM skv. gildandi samþykktum eftirfarandi:

Innheimta, umsýsla og úthlutun fjármuna á grundvelli þeirra fjárhagslegu réttinda sem undir samþykktir þessar falla eða hafa verið framseld IHM með samkomulagi við aðra rétthafa en sem aðild eiga að IHM, nánar tiltekið er um eftirfarandi fjárhagsleg réttindi að ræða: a) Bætur vegna eftirgerðar verka til einkanota skv. 3. mgr. 11.gr. höfundalaga nr. 73/1972. b) Endurvarp á óbreyttu útvarps- og sjónvarpsefni til almennings um kapalkerfi samtímis hinni upphaflegu útsendingu sbr. 23. gr. a. í höfundalögum nr. 73/1972. c) Ólínulegt endurvarp útvarps- og sjónvarpsefnis til almennings, þ.m.t. vegna heimildar til að nálgast verndað efni á mismunandi tímum og með mismunandi móttökutækjum. d) Endurnot og endurútsendingar eldra efnis úr safni útvarpsstöðva sbr. 23. gr. b höfundalaga nr. 73/1972. e) Önnur innheimta og umsýsla fyrir aðildarfélög IHM og/eða aðra rétthafa, sem samtökunum hefur verið falið með sérstökum samningum þar að lútandi.

Samkvæmt gildandi hlutfallsskiptingu tekur FLÍ á móti 2,5% heildargreiðslna f.h. félagsmanna FLÍ. Þeim fjármunum er svo úthlutað skv. auglýsingu til þeirra leikstjóra sem gera tilkall til greiðslna. Við síðustu tvær útborganir hefur IHM haldið eftir 20% af greiðslunum í von um að samið verði um nýja hlutfallsskiptingu. Stjórn FLÍ taldi skynsamlegt að bíða með að auglýsa eftir kröfum frá félagsmönnum sínum þar til heildargreiðsla hefði borist. Nú er ljóst að það dregst enn lengur en ráð hafði verið fyrir gert, sem kallar á það að stjórn FLÍ auglýsi eftir umsóknum frá þeim rétthöfum, sem eiga tilkall til greiðslna vegna 2017 og 2018. Það verður gert í framhaldi af þessum aðalfundi.

 

 

 

Sviðslistasamband Íslands

Eftir covid-19 faraldur og samkomubann, voru áhöld um það hvort halda ætti Grímuhátíð í vor, af augljósum ástæðum. Fresta hafði þurft nokkrum fjölda frumsýninga auk þess sem meðlimir í Grímunefndinni náðu ekki að sjá allar sýningarnar fyrir samkomubann. Loks var ákveðið að halda hátíðina og veita Grímuverðlaun 2020, en sýningarnar í „pottinum“ voru mun færri en stefnt hafði verið að, þær einskorðuðust við þær sýningar sem meirihluti nefndarinnar hafði náð að sjá. Hátíðin var haldin 15. júní sl. og var hún með nokkuð öðru sniði en vanalega, t.d. fengu Heimilistónar það hlutverk að tengja saman atriðin og kynna nánast öll verðlaunin, fyrir vikið þéttist dagskráin og varð heilsteyptari. Grímunefndinni var boðið í teiti á vegum SSÍ 5. júní og henni þakkað fyrir störfin, ný Grímunefnd hefur svo verið valin til að sinna verkefninu fyrir leikárið 2020 – 2021. Innan SSÍ stendur nú yfir vinna við endurskoðun fyrirkomulags Grímunnar, svo vænta má frekari breytinga á hátíðinni næsta vor.

BÍL – Bandalag íslenskra listamanna

Samstarf fimmtán fagfélaga listamanna innan BÍL hefur litast mjög af covid-19 faraldrinum, en þó hefur stjórn hist á reglulegum fundum. Meðal þess sem BÍL hefur sinnt á starfsárinu er samtalið við stjórnvöld um covid-19 áhrifin og einnig samtalið við Hagstofu Íslands um tölfræði menningar og lista. Það verkefni var sett á laggirnar af stjórnvöldum með sáttmála núverandi ríkisstjórnar. Þeim sem starfa í lista- og menningargeiranum finnst verkinu hafa miðað nokkuð hægt, en 5. júní sl. barst greinargerð frá Hagstofunni með upplýsingum um stöðu verkefnisins. Þar kemur fram hversu umfangsmikið og flókið verkefnið er í raun, en jafnframt að upplýsingar innan úr geiranum sjálfum skipti verulegu máli í framvindu þess. Það er því mikilvægt að halda góðum tengslum við Hagstofuna í þessu viðamikla og mikilvæga verkefni. Hér er einnig rétt að geta um listaþing, sem BÍL gekkst fyrir í Hörpu 11. janúar sl. þar sem fjallað var um „Tungutak listarinnar og tungutakið um listina“. Var málþingið vel sótt og ágætar umræður urðu um málefnið, sérstaklega skemmtilegt var að heyra listamenn úr ólíkum listgreinum bera saman umfjöllun um greinarnar í fjölmiðlum og var það mál manna að gagnlegt væri að skiptast á skoðunum innanvert í listageiranum í tiltölulega öruggu rými.

 

Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista

Eins og fram kemur hér að framan þá náðist sá árangur í nýjum sviðslistalögum að ráðherra er gert skylt að stofna Kynningarmiðstöð sviðslista, en í ársskýrslu stjórnar FLÍ var farið yfir stöðu mála eftir að tveir starfshópar höfðu freistað þess að móta stefnu um miðstöðvar lista og hönnunar án sýnilegs árangurs. Hefur Sviðslistasamband Íslands haft forystu við að þrýsta á ráðuneytið um stofnun miðstöðvarinnar og er að vænta frekari frétta af málinu þegar lögin hafa gengið í gildi 1. júlí nk.

Menningarsjóður

Frá því í október 2019 hefur einungis einn félagi hlotið styrk úr Menningarsjóði félagsins, Andrea Vilhjálmsdóttir. Stjórn Menningarsjóðsins ákvað að auglýsa enga úthlutun sl. vor vegna covid-19, enda ekki líklegt að nokkrir félagar hyggi á ferðalög fyrr en með haustinu. Ekki var heldur úthlutað ferðastyrkjum úr Talíu á tímabilinu.

 

NSIR og norrænt menningarsamstarf

Áform voru uppi um að formenn systursamtaka FLÍ hittust á fundi í Osló í júní, en ekkert varð af því vegna heimsfaraldursins og til athugunar er að hittast með haustinu. Annars er það að frétta af norrænu menningarsamstarfi að það hefur stöðvast að miklu leyti vegna faraldursins og munu Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin taka afleiðingarnar og möguleg úrræði til umfjöllunar í haust. FLÍ mun fylgjast vel með því sem þar verður ákveðið, m.a. í tengslum við rekstur Norrænu residensíunnar í Róm, Circolo Scandinavo, sem tæmdist í mars sl. og hyggst ekki taka á móti listamönnum á ný fyrr en í haust. Rekstrarstaða residensíunnar verður því ekki ljós fyrr en með haustinu.

 

Skrifstofa FLÍ

Félagið leigir skrifstofuaðstöðu af Félagi íslenskra leikara að Lindargötu 6, en í ljósi þess hversu lítið aðstaðan nýtist félaginu hefur það tíðkast að leigja hana út til sviðslistamanna sem vantar vinnuaðstöðu, með það í huga að lækka rekstrarkostnað félagsins. Leikhópurinn Sómi þjóðar hefur leigt aðstöðuna síðustu mánuði og mun gera það áfram út árið.

 

Starfsáætlun 2020 – 2021

  • Stjórn setur sér starfsreglur, skiptir með sér verkum og deilir ábyrgð af starfinu. Slíkar reglur gætu m.a. kveðið á um dagskrá og fjölda stjórnarfunda, utanumhald stjórnarsamþykkta, þátttöku varamanna í stjórnarstörfum, skil á upplýsingum um einstaka þætti starfsins og reglulegar upplýsingar til félagsmanna um það helsta í starfinu s.s. upplýsingar um samningsbundnar launahækkanir.
  • Endurnýja heimasíðu félagsins og auka umferð um hana, m.a. með því að miðla þar upplýsingum um störf stjórnar og hvetja félaga til að uppfæra upplýsingar um sig á rafrænu félagatali. Einnig að virkja félaga til að deila skoðunum sínum og áhugaverðu efni á fb-síðu félagsins.
  • Halda skrá yfir verkefni félagsmanna hjá samningsaðilum FLÍ, með það að markmiði að tryggja samningsbundin réttindi og skil á félagsgjöldum, sem standa undir rekstri FLÍ.
  • Vinna upplýsingar fyrir leikstjóra sem kjósa að starfa sem verktakar, þar sem fram koma hlutfallstölur sem rétt er að miða við þegar verktakaálag er reiknað, ásamt áminningu um að standa skil á gjöldum til FLÍ til varðveislu félagsréttinda.
  • Samtal við yngri félaga í FLÍ um störf og starfskjör leikstjóra, aðstoðarleikstjóra og dramatúrga með það að markmiði að styrkja kjörin og auka fagmennsku í listgreininni.
  • Kanna áhuga félagsmanna á frekara samtali um fagmennsku í leikstjórn og í sviðslistum almennt, t.d. með því halda úti virkum hópum á samfélagsmiðlum eða með málþingum, mögulega í samstarfi við stofnanir í geiranum.
  • Hefja viðræður við Sjálfstæðu leikhúsin og Bandalag íslenskra leikfélaga um launaviðmið og önnur starfskjör leikstjóra.
  • Gera könnun á eftirlaunastöðu félagsmanna og lífeyrisréttindum, leita eftir samstafi við önnur stéttarfélög listamanna t.d. FÍL, FÍH og SÍM. Verkefnið gæti mögulega hentað sem samstarfsverkefni undir hatti BÍL.
  • Kanna leiðir til að tryggja kjör og réttindi erlendra leikstjóra sem ráðnir eru til starfa hjá íslenskum leikhússtofnunum, t.d. með því að útbúa bréf með útdrætti um helstu samningskjör og senda þeim. Einnig með samtali við systurfélög á Norðurlöndunum.