Skýrsla forseta Bandalags íslenskra listamanna fyrir starfsárið 2024-2025
Lögð fram á aðalfundi 23. mars 2025
Stjórn Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) skipa formenn aðildarfélaga BÍL. Aðildarfélög BÍL eru sextáns talsins og á árinu urðu formannsskipti hjá Félagi leikskálda og handritshöfunda þar sem Sveinbjörn I. Baldvinsson tók við keflinu af Margréti Örnólfsdóttur og hjá Samtökum kvikmyndaleikstjóra tók Hrönn Sveinsdóttir við af Ragnari Bragasyni. Stjórn BÍL þakkar Margréti Örnólfsdóttur og Ragnari Bragasyni fyrir gjöfult samstarf.
Eftirfarandi eru aðildarfélög BÍL og formenn þeirra:
1 Arkitektafélag Íslands; AÍ
Formaður: Sigríður Maack
2 Danshöfundafélag Íslands; DFÍ
Formaður: Katrín Gunnarsdóttir
3 Fagfélag Klassískra söngvara á Íslandi; KLASSÍS
Formaður: Þóra Einarsdóttir
4 Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH
Formaður: Gunnar Hrafnsson
5 Félag íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum; FÍL
Formaður: Birna Hafstein
6 Félag íslenskra listdansara; FÍLD
Formaður: Lilja Björk Haraldsdóttir
7 Félag íslenskra tónlistarmanna, Klassísk deild FÍH; FÍT
Formaður: Margrét Hrafnsdóttir
8 Félag kvikmyndagerðarmanna; FK
Formaður: Steingrímur Dúi Másson
9 Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB
Formaður: Eva Signý Berger
10 Félag leikskálda og handritshöfunda; FLH
Formaður: Sveinbjörn I. Baldvinsson
11 Félag leikstjóra á Íslandi; FLÍ
Formaður: Ólafur Egill Egilsson
12 Félag tónskálda og textahöfunda; FTT
Formaður: Bragi Valdimar Skúlason
13 Rithöfundasamband Íslands; RSÍ
Formaður: Margrét Tryggvadóttir
14 Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM
Formaður: Anna Eyjólfsdóttir
15 Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL
Formaður: Hrönn Sveinsdóttir
16 Tónskáldafélag Íslands; TÍ,
Formaður: Páll Ragnar Pálsson
Forseti BÍL situr fyrir hönd BÍL í Norræna listamannaráðinu Nordisk Kunstnerråd og er fulltrúi ráðsins í stjórn Circolo Scandinavo. Stjórn BÍL hefur skipt með sér verkum á árinu þannig að Margrét Tryggvadóttir formaður Rithöfundasambandsins hefur gegnt starfi ritara og Gunnar Hrafnsson formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna – FÍH er gjaldkeri. Það er hins vegar fjármálastjóri FÍH, Lúðvík Júlíusson sem annast bókhald BÍL og skil á uppgjöri til endurskoðandans Helgu Þorsteinsdóttur. Skoðunarmenn reikninga 2024 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.
Stjórn BÍL kom saman tólf sinnum á árinu. Stjórnin hélt tíu stjórnarfundi á starfsárinu, auk tveggja samráðsfunda. Einnig var haldinn kosningafundur í samstarfi við Listaháskóla Íslands. Þar að auki voru reglulega vinnufundir með Lilju Alfreðsdóttur, Menningar- og viðskiptaráðherra og eftir kosningar með Loga Einarssyni Menningar- nýsköpunar- og háskólaráðherra. Þá átti stjórn BÍL samráðsfund með Einari Þorsteinssyni þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, Kristínu Eysteinsdóttur rektor Listaháskóla Íslands og tvo samráðsfundi með Stjórn listamannalauna ásamt starfsfólki Rannís.
1 Listamannalaun
Starfslaun listamanna hafa í meira en heila öld verið hornsteinn hins opinbera stoðkerfis við listgreinar á Íslandi. Á 20. öldinni og liðnum áratugum hafa margvíslegar breytingar verið gerðar á kerfinu, nýir sjóðir verið stofnaðir og fjöldi og fjárhæðir starfslauna tekið breytingum. Það er eðlilegt að kerfið endurspegli á hverjum tíma þann tíðaranda sem er við lýði í íslensku þjóðfélagi. Með þeim hætti stuðlar kerfið best að því markmiði eða hlutverki sem listamannalaunum er ætlað: Að efla listsköpun í landinu.
Þann 22. júní 2024 samþykkti Alþingi breytingu á lögum nr 57/2009 um listamannalaun sem fólu í sér fjölgun á starfslaunamánuðum úr 1.600 í 2.490 sem mun vera framkvæmt á fjórum árum. Ásamt því voru tveir nýir sjóðir stofnaðir: Launasjóður kvikmyndahöfunda og Vegsemd, sjóður listamanna 67 ára og eldri.
Stjórn BÍL fagnar þessum breytingum en bendir á að breytingarnar hafa ekki verið fjármagnaðar að fullu til næstu ára. Því er mikilvægt að fylgja þessu eftir og tryggja að núverandi ríkisstjórn haldi áformunum óbreyttum, ásamt því að stjórn BÍL mun vinna að hækkun mánaðarlauna listamanna og fjölgun úthlutaðra mánaða.
2 Þjóðarópera
Stjórn BÍL hefur verið virkur þátttakandi við undirbúning lagasetningar um Þjóðaróperu og lagt áherslu á að samráð og fagmennska séu höfð að leiðarljósi við vinnuna. Frumvarp var lagt fram á Alþingi í mars 2024 sem var niðurstaða víðtæks samtals við alla hlutaðeigandi aðila. Því miður náðist ekki að afgreiða frumvarpið fyrir sumarfrí og taldi fráfarandi ráðherra Lilja Alfreðsdóttir að of áhættusamt væri að leggja fram frumvarp um starfslaun listamanna á sama tíma og frumvarp um Þjóðaróperu. Líkt og kunnugt er var ríkisstjórnarsamstarfinu slitið s.l. haust og ný ríkisstjórn tók við.
Nýr ráðherra menningarmála Logi Einarsson hefur haldið áfram með málið og var frumvarpið lagt fram til Alþingis að nýju þann 18. mars s.l. Í frumvarpinu hafa verið gerðar smávegis breytingar sem ríma við áherslur núverandi ríkisstjórnar. Frumvarpið hlaut jákvæða umræðu sem er gleðiefni fyrir stjórn BÍL og alla þá sem hafa unnið hörðum höndum að frumvarpinu. Ég vil nota tækifærið og þakka Finni Bjarnasyni verkefnastjóra undirbúningsnefndar um stofnun Þjóðaróperu, formanni nefndarinnar, Þórunni Sigurðardóttir og öðrum stjórnarmeðlimum fyrir gjöfult og mikilvægt starf í þágu lista á Íslandi.
3 Samráðsfundur með Kristínu Eysteinsdóttur rektor Listaháskóla Íslands
Þann 7. ágúst 2024 var haldinn samráðsfundur með Kristínu Eysteinsdóttur rektor Listaháskóla Íslands. Rektor greindi stjórn BÍL frá greiningarvinnu og stefnumótun sem staðið hefur yfir síðasta árið en sú vinna endurspeglast í nýrri stefnu Listaháskólans sem var kynnt fyrir almenningi þann 3. október 2024. Rektor tilkynnti stjórn BÍL að skólinn vilji þróa listkennslunám á BA stigi og ítrekaði að það væri ekki að fara leggja niður tónlistarkennaranám en að námið sé í endurskoðun sem mun standa í vetur og að viðræður við tónlistarskólana séu í gangi.
Á fundinum var einnig rætt um starfskjör kennara við Listaháskóla Íslands og tilkynnti rektor stjórn BÍL að eitt af stóru markmiðunum væri að taka til í kjarasamningsmálum kennara. Rektor benti á að það væri ekki æskilegt að stjórnendur skólans væru að leiða kjaraviðræður og myndi vilja tryggja armslengd og fá SA til að sitja við samningaborðið. En fyrsta skrefið væri að ákveða hvaða stéttarfélög starfsmenn skólans eiga að vera í. Rætt var um afnám skólagjalda og fær skólinn sama fjármagn frá ríkinu og frá skólagjöldum áður. Listaháskólinn fengu 100% fleiri umsóknir en gátu aðeins fjölgað nemendum um 16,5%. Í lok fundar var rætt um möguleika á fjarkennslu og samstarf við Háskólann á Akureyri en stjórn BÍL telur að það sé mikilvægt að nemendur út á landi sem eiga ekki kost á að flytja til Reykjavíkur geti stundað listnám á háskólastigi. Skapandi hugsun er grundvallarstoð framfara í nútímasamfélagi og er listnám tækifæri til að stækka nýsköpunarlandslagið á Íslandi. Með listnámi á háskólastigi á Akureyri mun koma samfélagslegur slagkraftur, grasrótin mun eflast og menningarstigið hækka með aukinni fagmennsku. Eftir fundinn sótti Listaháskólinn um styrk fyrir aukið aðgengi að listnámi í samstarfi við Háskólann á Akureyri og hlaut 29,3 milljónir. Verkefnið miðar að því að auka aðgengi að listnámi utan Reykjavíkur, auka sveigjanleika námsins og möguleika nemenda til þess að móta eigin áherslur.
4 Framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi
Þann 3. október 2024 hélt Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar og viðskiptaráðherra Málþing um framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi. Þar voru kynntar niðurstöður skýrslu, haldin erindi um skapandi greinar og pallborðsumræður. Forseti BÍL var með erindið „Virði og virðismat í skapandi greinum“ sem endaði í grein sem mun birtast á næstu dögum í tímaritinu Vísbending – vikurit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun.
Höfundur skýrslunnar er Ágúst Ólafur Ágústsson. Þótt um hálft ár sé liðið frá því hún kom út, og stjórnarskipti hafi farið fram, eru niðurstöður hennar enn áhugaverðar og mikilvægar. Skýrslan mun vafalítið þjóna menningu og samtalinu um hagrænt gildi hennar um komandi ár. Það var löngu tímabært að hægt yrði að fjalla um menningu og listir út frá tölulegum forsendum og vísa til opinberra upplýsinga um hagræn áhrif menningar hér á landi. Eftir þessu hefur verið kallað í mörg ár. Niðurstöðurnar eru almennt jákvæðar og varpa ljósi á mikilvægi menningar og lista fyrir hagkerfið í heild. Skýrslunni fylgja fjölmargar tillögur um menningargeirann, sem benda til að vinnsla skýrslunnar hafi verið vönduð.
Við lok málþingsins undirritaði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri undir þjónustusamning um miðlun hagtalna um menningu og skapandi greinar. Markmiðið með samningnum er að efla hagskýrslugerð um félagsleg og efnahagsleg áhrif þessara greina sem gegna lykilhlutverki í velsæld, atvinnu- og verðmætasköpun. Reglubundnar hagtölur um menningu og skapandi greinar varpa ljósi á þróun atvinnuvegarins og gagnast stjórnvöldum við ákvarðanatöku og stefnumótun. Með þessu skrefi vilja stjórnvöld og Hagstofan auka sýnileika greinarinnar og efla skilning á mikilvægi menningar og skapandi greina fyrir samfélagið. Stjórn BÍL hefur kallað eftir þessari samantekt í mörg ár og fagnar því að loksins verður hægt að varpa betra ljósi á þessa mikilvægu atvinnugrein fyrir atvinnulífið og þjóðfélagið í heild.
5 Kosningafundur – Setjum menninguna á dagskrá
Þann 17. nóvember 2024 hélt BÍL ásamt Listaháskóla Íslands kosningafund þar sem öllum stjórnmálaflokkum var boðið til pallborðsumræðu um listir og menningu ásamt því að gefa fundargestum tækifæri að ræða við frambjóðendur um stefnumál þeirra í málaflokknum. Fundarstjóri var Vigdís Jakobsdóttir, menningarráðgjafi og leikstjóri og var fundinum streymt beint á Vísir.is. Fundurinn var ágætlega sóttur en um 100 manns mættu í sal en 1136 horfðu á fundinn í gegnum streymi samkvæmt Vísi.
Partur af því að auglýsa fundinn var að hvetja félagsmenn aðildarfélaga BÍL til að birta sjálfsmynd á samfélagsmiðlum með texta þar sem BÍL bendir á að menning og listir séu félagslegir margfaldarar og að þær stuðli að bættri samfélagsvelferð, auki samheldni, lífsgæði og hamingju. Það tókst vonum framar og náði mjög góðri dreifingu og fór ekki fram hjá stjórnmálaflokkunum. Með samtakamætti er hægt að hafa áhrif. Það tókst að setja menninguna á dagskrá og við fengum gott veganesti og staðfestingar frá stjórnmálaflokkunum.
Eftir fundinn var hönnunarstofan Brandenburg fengin til þess að vinna úr JÁ/NEI spurningum sem beint var til frambjóðenda og var svörunum dreift á samfélagsmiðlum.
Stjórn BÍL þakkar undirbúningsnefnd BÍL og Listaháskóla Íslands fyrir frábært samstarf.
6 Samráðsfundur með Einari Þorsteinssyni borgarstjóra Reykjavíkur.
Þann 4. desember var samráðsfundur með Einari Þorsteinssyni borgarstjóra Reykjavíkur.
Fundurinn byggir á samstarfssamningi BÍL og Reykjavíkurborgar, en samkvæmt honum veitir BÍL borgaryfirvöldum faglega ráðgjöf um menningu og listir og er tilgangur samningsins að auka fagmennsku í málaflokki menningar og listsköpunar í Reykjavík.
Fundurinn var vel sóttur og sátu fundinn ásamt borgarstjóra Steinþór Einarsson, starfandi sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkur, Arnfríður Rúna Valdimarsdóttir, skrifstofustjóri menningarborgar og Inga María Leifsdóttir, verkefnastjóri.
Stjórn BÍL lagði áherslu á að ræða um Reykjavík sem borg þar sem listafólki þykir gott að búa og starfa í en það er eitt af leiðarstefunum í Menningarstefnu Reykjavíkurborgar sem rann út árið 2023. Því miður hefur hverju rýminu á fætur öðru verið lokað á undanförnum tveimur áratugum, ýmist vegna ferðaþjónustu, hertra öryggisstaðla eða skorts á fjármagni, og stendur grasrótarstarfsemi í tónlist, myndlist og sviðslistum frammi fyrir húsnæðisskorti. BÍL kallar eftir því að Reykjavíkurborg skoði heildrænar lausnir fyrir vinnuaðstöðu fyrir listamenn, bæði rými fyrir listsköpun, æfingar, tónleika, sýningar og hvers konar miðlun listaverka og menningararfs.
Stjórn BÍL fagnar því að Vigdís Jakobsdóttir hefur verið ráðin af ríki og borg til þess að kortleggja húsnæðismál fyrir sviðslistir og tónleikastaði en BÍL hefur bent borgarstjórn á að það er einnig mikilvægt að kortleggja vinnustofur fyrir myndlistarmenn. Um þessar mundir eru um 140 listamenn að missa vinnustofuhúsnæði á Ægisgötu 7 og Seljavegi 32.
Á fundinum voru mörg mikilvæg málefni tekin fyrir en hér er stiklað á stóru:
Menningarstefna Reykjavíkurborgar 2030
Mikilvægt er að vinna að nýrri Menningarstefnu með aðgerðaráætlun og BÍL er til í að koma að þeirri vinnu, ef óskað er eftir því.
Menningarstyrkir úr Borgarsjóði
Stjórn BÍL telur mikilvægt að sjóðurinn stækki og taki mið af núverandi samfélagsgerð. Menningarstyrkur Reykjavíkurborgar er mikilvæg undirstaða listrænnar starfsemi í Reykjavíkurborg. Menningarstyrkirnir eru fjárfesting, ein sú allra verðmætasta, fjárfesting sem styður að bættri samfélagsvelferð og mikilvæg forsenda grósku og nýsköpunar í menningarlífi borgarinnar.
Tónlistarmenntun
BÍL minnti borgarstjóra á ályktun sem send var Reykjavíkurborg þann 27. ágúst 2024. Í ályktuninni var áhyggjum stjórnar BÍL af stöðu tónlistarskólanna í Reykjavíkurborg lýst þar sem við vörum við þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum árum er kemur að rekstri tónlistarskólanna. Þörf er á viðsnúningi og viðspyrnu til að styrkja stöðu þeirra. Vegna aðhalds- og niðurskurðarkrafna hafa aldurstakmörk verið sett á nemendur tónlistarskóla í Reykjavík. Fyrir utan að vekja upp spurningar um jafnræðisreglur hefur þessi aðgerð þegar haft áhrif á fjölda nemenda í skólum. Borgarstjóri benti á að grunnhugsunin sé að borgin fjármagni ekki tónlistarnám fullorðinna og að það sé ekki lögbundin þjónusta.
Gervigreind
Rætt var um tilkomu gervigreindar og benti BÍL á að það er mikilvægara en nokkru sinni að halda í mennskuna og mannúðina, bæði í samfélaginu og innra með okkur og þar gegnir listin einmitt lykilhlutverki. Það felast bæði tækifæri og áskoranir í notkun gervigreindar og er mikilvægt að Reykjavíkurborg sé meðvituð um að þegar teknar eru ákvarðanir um að nota gervigreind í auglýsingagerð þá eru listamenn og hönnuðir að missa atvinnutækifæri. Reykjavíkurborg á að vera leiðandi þegar kemur að frumsköpun og styðja við atvinnutækifæri listamanna og hönnuða. Borgarstjóri taldi mikilvægt að yfirstjórn ávarpi þessa þróun og tæki afstöðu til málsins, bæði inn á við og út á við.
Leikfélag Reykjavíkur
Stjórn BÍL lýsti yfir áhyggjum að ekki hafði enn náðst að semja við LR vegna leikara, danshöfunda og dansara við Borgarleikhúsið. Um er að ræða fámennan hóp í viðkvæmri stöðu og við skoruðum á borgarstjóra að ræða við stjórn LR þannig að leikarar, dansarar og danshöfundar stæðu jafnfætis listrænum stjórnendum. Borgarstjóri benti á að Leikfélagið sé sjálfseignarstofnun og að borgin komi ekki að kjaraviðræðum, en hann sagði mikilvægt að störf listamanna séu metin að verðleikum og að samstarf við leikfélagið þarfnaðist endurskoðurnar ef það væri ekki að standa sig í þessum efnum.
7 Samráðsfundir með stjórn listamannalauna
Þann 11. september 2024 var samráðsfundur með stjórn listamannalauna og starfsfólki Rannís þar sem rætt var um endurgjöf/ákvörðunartexta til umsækjenda um starfslaun listamanna. Stjórn listamannalauna taldi heppilegt að hafa framkvæmdina þannig að umsækjendur fengju ítarlegra svarbréf en verið hefur með stuttri endurgjöf. Ekki voru allir sammála um gildi hugmyndarinnar, enda skiptir útfærslan höfuðmáli. Úthlutun fór fram í byrjun desember og var því miður ósamræmi á milli listgreina um útfærslu á endurgjöfinni. Myndlistarmenn fengu talsvert ítarlegri endurgjöf en aðrir listamenn, og þótti sumum hún óvægin. Mikil óánægja skapaðist á meðal myndlistarmanna vegna þess. Flestir sem fengu svör frá öðrum sjóðum voru ánægðir með ákvörðunartextann og fögnuðu því að fá „endurgjöf“ sem var jákvæð og hvetjandi.
Haldinn var annar samráðsfundur 15. janúar 2025 til þess að ræða hvernig til tókst um framkvæmdina og læra af ferlinu og kom fram á þeim fundi að stjórn listamannalauna væru í raun ekki að tala um endurgjöf heldur samræmda ákvörðunartexta. Slíkir textar hafi alltaf verið unnir af úthlutunarnefndunum en hafa ekki verið birtir fyrr en nú. Stjórn listamannalauna var sammála að betur hefði farið ef samræmi hefði ríkt á milli ákvörðunartexta á milli launasjóða. Rætt var um siðareglur fagfélaganna varðandi úthlutunarnefndir launasjóðanna. Í kjölfarið sendi forseti BÍL siðareglur BÍL sem voru samþykktar árið 2016 til stjórnar og óskaði eftir því að aðildarfélögin feli stjórnum og úthlutunarnefnd launasjóðanna að starfa í samræmi við reglurnar.
Tvö bréf bárust til stjórnar BÍL eftir úthlutun listamannalauna. Annað bréfið var frá hópi listamanna sem bendir á að það vanti upp á gagnsæi þegar kemur að tölfræði um listamannalaun og telur að það sé erfitt að greina ýmsa þætti varðandi úthlutun sem veita ætti upplýsingar um, svo sem búsetu listafólks, kynhneigð þeirra, kynþátt, fötlun og kynvitund. Með þessu bréfi var það von þessa listahóps að úthlutunarnefnd næsta árs leggi sig fram við að styðja við þann breiða og hæfileika hóp myndlistarfólks sem starfar á Íslandi og leggi sig fram við að hleypa fjölbreyttari röddum að. Þannig muni úthlutunin endurspegla samfélagið og að kerfið sem nefndin starfar eftir sé gagnsætt og sanngjarnt. Seinna bréfið var frá nafnlausum aðilum og tilgangur bréfsins var að benda á langvarandi skekkju við úthlutun starfslauna myndlistarmanna. Stjórn BÍL tók bréfin til umfjöllunar og þakkaði fyrir erindin.
8 Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins fyrir árin 2025-2029
Forseti BÍL fékk boð um að taka þátt í tveggja tíma vinnustofu á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vegna endurskoðunar sóknaráætlunar fyrir höfuðborgarsvæðið. KPMG ráðgjöf hélt utan um verkefnið og framgang þess. Á vinnufundinum var áhersla á að móta áherslur og markmið og voru lögð fram drög að verkefnum sóknaráætlunar fyrir höfuðborgarsvæðið 2025-2029. Málaflokkarnir voru þrír: „Samgöngur og umhverfismál“, „Atvinna og nýsköpun“ og „Velferð og samfélag“. Í fundarboðinu kom fram að samráðsvetttangurinn myndi samanstanda af kjörnum fulltrúum frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúum stofnana, atvinnulífs, menningarlífs og fræðasamfélagsins.
Þann 21. janúar bauðst BÍL að senda umsögn í Samráðsgátt vegna draga að sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins og fékk þá tækifæri að koma að skriflegum athugasemdum. Í umsögn BÍL komu fram vonbrigði stjórnar með að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki gefið menningu, menningarstefnum og menningarstofnunum meiri gaum og að sóknaráætlunin endurspegli ekki þau tækifæri sem felast í listum og menningu hér á landi. BÍL sendi frá sér mjög ítarlega umsögn þar sem við óskuðum eftir sérkafla í sóknaráætluninni um menningarmál þar sem fram koma eftirfarandi markmið og mælikvarði árangurs.
Markmið 1) Stuðla að bættri samfélagsvelferð og auknum lífsgæðum.
Markmið 2) Auka samheldni og skapa þetta mikilvæga undirliggjandi efni sem veitir fólki þá tilfinningu að það tilheyri samfélagi.
Mælikvarðar árangurs:
Aukin virkni í menningu og listum
Bætt aðgengi að menningu og listum
Framboð á vönduðu húsnæði aukið og efling skólastarfs
Mikilvægt er að fylgja málinu eftir og mun stjórn BÍL óska eftir fundi með Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu næstkomandi haust.
9 Stuðningsyfirlýsingar / Tjáningarfrelsi og höfundarréttur
Listamennirnir Oddur Eysteinn Friðriksson og Dóra Jóhannesdóttir leituðu til stjórnar BÍL á starfsárinu og óskuðu eftir stuðningi. Mál Odds hefur verið áberandi í flestum fjölmiðlum landsins og mörgum erlendum fjölmiðlum. Fyrirtækið Samherji höfðaði mál gegn Oddi vegna gjörningalistaverksins „We’re SORRY“ en listaverkið innihélt vefsíðu með afsökunarbeiðni sem Oddur gerði og lét líta út fyrir að vera á vegum Samherja. Samherji óskaði eftir því að Oddur tæki vefsíðuna niður, afhenti fyrirtækinu lén hennar og gerði grein fyrir því að síðan hefði verið ósönn ásamt því að eyða öllum gögnum tengdum listaverkinu. Stjórn BÍL lýsti yfir eindregnum stuðningi við baráttu gjörningalistmannsins ODEE fyrir tjáningarfrelsi sínu og skoraði stjórn BÍL á Samherja að virða tjáningarfrelsi listamannsins og falla frá málsókninni.
Dóra Jóhannesdóttir óskaði eftir stuðning frá BÍL vegna umsóknar hennar um gjafsókn í máli hennar á hendur framleiðslufyrirtækisins Glass River vegna meintra brota fyrirtækisins gegn sæmdarrétti og höfundarrétti vegna verkefnisins Húsó. Stjórn BÍL varð við þeirri beiðni en tók skýrt fram að stjórn BÍL væri ekki að taka afstöðu í máli Dóru gegn Glass River, enda hvorki úrskurðaraðili né dómstóll.
Stjórn BÍL bendir á að það er ófrávíkjanleg regla að virða skuli höfundarétt og sæmdarrétt og að listafólk ætti alls staðar að vera frjálst til að skapa þau verk sem það vill, hafa frelsi til að tjá sig án ótta við ritskoðun og kúgun og hafa frelsi til að skapa óræð listaverk sem breyta samfélaginu.
10 Samstarfssamningar við ríki og borg
Gengið var frá samningi við ráðuneyti menningar og viðskipta þann 23. janúar 2025. Samningurinn gildir til loka árs 2026. Samningurinn er til þriggja ára og kveður á um samstarf ráðuneytisins og ráðgjöf BÍL til handa ráðuneytinu um málefni listamanna og menningar. Á grunni þessa samnings eiga fulltrúar stjórnar BÍL reglulega fundi með ráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins þar sem farið er yfir stöðu þeirra mála er varða listamenn og umhverfi listarinnar. Slíkir fundir voru alls fjórir á síðasta ári.
Forseti BÍL fundaði með Arnfríði Valdimarsdóttur (Öddu Rún) skrifstofustjóra menningarborgar til að ræða um þjónustusamning við Reykjavík fyrir árið 2024 og óskaði eftir þriggja ára samningi. Þann 13. desember 2024 samþykkti Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð að gera tveggja ára þjónustusamning við BÍL með hækkun á milli ára sem tekur mið af verðlagsbreytingum. Ekki hefur verið undirritaður nýr þjónustusamningur síðan 2023 en forseti BÍL hefur óskað eftir að gengið verði frá þjónustusamningi við fyrsta tækifæri.
11 Önnur mál
Um haustið 2024 sendi stjórn BÍL frá sér áskorun til allra fjölmiðla um að auka umfjöllun um menningu og listir. Menningarumfjöllun hefur aldrei verið mikilvægari en nú. Minni umfjöllun verður til þess að færri sæki menningarviðburði, kaupi bækur eða njóti menningar á annan hátt. Áskorun leiddi til þess að Morgunblaðið tók viðtal við forseta vegna málsins.
Þann 11. febrúar sl. sendi forseti BÍL frá sér grein til stuðnings kjarabaráttu Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum vegna kjara leikara, danshöfunda og dansara í Borgarleikhúsinu. Það er ánægjulegt að segja frá því að skrifað var undir samninga 18. mars sl. og endar samantekt þessarar ársskýrslu á þeim góðum fréttum.
12 Niðurlag
Þetta fyrsta starfsár mitt sem forseti BÍL var bæði lærdómsríkt og viðburðaríkt með skemmtilegum og krefjandi verkefnum. Alls sat ég sem forseti BÍL rétt tæplega 100 fundi með formönnum innan vébanda BÍL, samstarfsaðilum og með ýmsum hagsmunaaðilum. Meðal annars átti ég fund með menningarfulltrúum landshlutasamtaka sem var góður og árangursríkur. Fundurinn varð til þess að stjórn BÍL send frá sér erindi til allra framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna um möguleika á faglegri aðkomu BÍL við úthlutun styrkja úr uppbyggingarsjóðum á landsbyggðinni. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa óskað eftir faglegri aðkomu frá BÍL, sem er ánægjulegt.
Margt hefur áorkast á þessu starfstímabili og fundir með nýjum ráðherra menningarmála lofa góðu. Takast þarf á við bæði núverandi verkefni og ný verkefni af festu en með gleðina að leiðarljósi. Hlutirnir geta nefnilega gerst hratt líkt og þegar litlu mátti muna að Kvikmyndasjóður yrði skorinn niður með einu pennastriki. Sem betur fer náðist með seiglu kvikmyndagerðarmanna að fá 300 milljóna króna aukafjárveitingu í Kvikmyndasjóð fyrir árið 2025 og 100 milljóna aukafjárveitingu fyrir árið 2024. Baráttan krafðist mikillar vinnu fagfélaga kvikmyndagerðafólks en sigurinn vannst.
Ég hlakka til að halda áfram að vinna fyrir bættum kjörum og betra starfsumhverfi fyrir listamenn með góðri leiðsögn og styrk frá stjórn BÍL.
Ég þakka núverandi stjórn fyrir samstarfið á árinu. Sérstakar þakkir færi ég Erling fyrirrennara mínum sem forseta BÍL, Gunnari Hrafnssyni gjaldkera, Lúðvík bókara og Margréti Tryggvadóttur fyrir leiðsögnina og að vera til staðar þegar á reynir.
Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (í mars 2025)
Menningar- og íþróttasvið Reykjavíkur
Áheyrnarfulltrúi: Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Varaáheyrnarfulltrúi: Anna Eyjólfsdóttir
Fulltrúar í faghópi um styrki Menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs fyrir 2024
Aðalmaður: Elvar Bragi Kristjónsson
Varamaður: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir,
Aðalmaður: Helga Óskarsdóttir,
Varamaður: Starkaður Sigurðarson
Aðalmaður: Gunnar Andreas Kristinsson
Varamaður: Sólveig Arnarsdóttir
Aðalmaður: Margrét Bjarnadóttir
Varamaður: Bergur Ebbi Benediktsson
Kvikmyndaráð
Drífa Freyju-Ármannsdóttir
Varamaður: Benedikt Erlingsson
Fulltrúaráð Listahátíðar
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Varamaður: Margrét Örnólfsdóttir
Stjórn listamannalauna (2024-2027)
Kolbrún Ýr Einarsdóttir
Varamaður: Erling Jóhannesson
Stjórn Skaftfells
Anna Eyjólfsdóttir
Varamaður: Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Menningarfána verkefni Reykjavíkurborgar
Karen María Jónsdóttir
List án landamæra
Margrét Pétursdóttir
Varamaður: Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Stjórn Gljúfrasteins
Erling Jóhannesson
Menningarsjóður Guðjóns Samúelssonar
Erling Jóhannesson
Fagráð Sláturhússins á Egilsstöðum
Wioleta Anna Ujazdowska
Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis
Páll Baldvin Baldvinsson
Varamaður: Þórunn Gréta Sigurðardóttir
Höfundarréttarráð (2025 – 2028)
Mikael Lind
Varamaður: Margrét Tryggvadóttir
Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Barnamenningarmiðstöðvar
Vigdís Jakobsdóttir
Varamaður: Felix Bergsson
Samráðshópur List fyrir alla
Felix Bergsson og Hildur Steinþórsdóttir
Austurbrú – fagráð menningar
Hlín Pétursdóttir Behrens
Menningarfagráð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands
Eirún Sigurðardóttir
Fulltrúi BÍL í sjálfbærniráði
Erling Jóhannesson,
Varamaður: Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Fulltrúar í þriðju undirbúningsnefnd fyrir stofnun Þjóðaróperu
Þóra Einarsdóttir og Þórunn Gréta Sigurðardóttir
Valnefnd Kjarvalstofu í París
Sindri Freysson og Eirún Sigurðardóttir
Starfshópur sem skoðar leiðir til þess að auka þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífi, bæði hvað varðar aðgengi að listum og menningu og listsköpun
Helga Rakel Rafnsdóttir
Varamaður: Þórður Högnason