Til: Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis

Efni: Umsagnarbeiðni frá Alþingi vegna frumvarps til laga um breytingu á myndlistarlögum, nr. 64/2012.

Vísað er til umsagnarbeiðni frá Alþingi, dags. 16. október s.l., vegna frumvarps fimm 
þingmanna um breytingu á myndlistarlögum, nr. 64/2012. Bandalag íslenskra listamanna þakkar fyrir tækifærið á að veita umsögn um frumvarpið.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að frumvarpið hafi verið lagt fram á síðasta 
löggjafarþingi en ekki hlotið afgreiðslu. Að mati Bandalags íslenskra listamanna kunna að vera ástæður fyrir því, sem heppilegt er að skoða betur.

Að mati Bandalags íslenskra listamanna er frumvarpið illa ígrundað og ætti af þeim sökum ekki að hafa verið lagt fram. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að felld verði niður sú lágmarksfjárhæð sem veitt hefur verið til opinberrar listskreytingar um árabil hér á landi. Um er að ræða ákvæði sem byggir á hefð sem fjármagnað hefur mörg af eftirminnileg listaverk í opinberum byggingum hér á landi, hvort sem litið er til sjúkrahúa, háskóla eða annarra 
opinberra bygginga sem reistar hafa verið á kostnað íslenska ríkisins. Um er að ræða 
grundvallarákvæði sem stuðlað hefur að framgangi listsköpunar í opinberum rýmum allt frá árinu 1982. Hvers vegna þetta er rétti tíminn til að afnema umrætt ákvæði úr íslenskum lögum er umsagnaraðilum hulið, enda lítið um það fjallað í greinargerð frumvarpsins.

Til marks um það hve knappur texti greinargerðarinnar er má nefna að þar er í engu tekið tillit til óbeinna afturvirkra áhrifa laganna og réttmætra væntinga listafólks sem nú þegar tekur þátt í samkeppnum sem tengjast listsköpun í opinberu rými. Líkt og höfundum frumvarpsins er líklega þegar ljóst, eða er í lófa lagið að átta sig á, er samkvæmt fjárlögum ársins þegar gert ráð fyrir að veita talsverðu fjármagni til nýbygginga á vegum ríkisins. Þó er óljóst af efni frumvarpsins hvernig meðhöndla skuli þau mál sem þegar eru í farvegi, t.a.m. í 
gegnum samkeppnir vegna opinberra rýma eða þar sem fjárhagsáætlanir gera ráð fyrir 
fjárfestingum í listaverkum. Þó hefði verið hægðarleikur að vinna að slíkum álitaefnum 
samhliða gerð fjárlaga, ef raunverulegur vilji stæði að baki frumvarpinu.

Það er mat Bandalags íslenskra listamanna að þær hugmyndir sem frumvarpið leggur fram séu úreltar í íslensku samfélagi. Gæði listaverka eru aldrei byggð eingöngu á huglægu mati, að því leyti til að fagurfræðilegt mat séu einungis persónuleg skoðun hvers og eins. 
Ritskoðun á list í ríkjum þar sem lýðræði og frelsi á undir högg að sækja, fjárhagslegt mat á gildi listaverka og listrænt mat sem ýmist er unnið í söfnum, meðal listfræðinga, í galleríum, hjá söfnurum, listunnendum eða í krafti listsögunnar – allir þessir þættir hafa margdæmt þetta álit um persónulega skoðun hvers og eins úr leik. Listrænt gildi verka er æðra og annars eðlis en fjárhagslegt gildi eða stjórnmálaleg staða hversdagsins. Þetta er staðreynd, sem gengur gegn hugmyndafræði frumvarpsins.

Þá bendir Bandalag íslenskra listamanna á að sú reikniregla sem vísað er til í frumvarpinu, þ.e. um lágmarksframlag til listskreytinga upp á 1% af byggingarkostnaði, hefur verið lögfest allt frá árinu 1982. Lögfestingunni var ætlað að taka á álitaefnum um það hversu mikið ætti að verja til listskreytinga í mörgum, flóknum álitaefnum tengt hverri opinberri framkvæmd fyrir sig. Vandséð er hvernig sú lausn að fella lágmarksfjárhæðarmarkið niður muni leiða til þess að auðvelda framkvæmd listskreytinga til framtíðar litið, sem nógu erfið var fyrir, enda engir mælikvarðar í frumvarpinu um það hvað stuðst skuli við við listskreytingar í opinberum byggingum ef til samþykktar frumvarpsins kæmi.

Sú listskreyting sem þegar fer fram á vegum ríkisins í opinberum rýmum skilar nú þegar margvíslegum árangri að mati sérfræðinga í heilbrigðiskerfinu líkt og lýst er í umsögn 
Sambands íslenskra myndlistarmanna í umsögn við frumvarpið.

Af þessum sökum lýsir stjórn BÍL yfir andstöðu við þetta frumvarp.

Stjórn BÍL lýsir sig að sama skapi reiðubúið að veita þeim þingmönnum sem lagt hafa fram frumvarpið leiðsögn um listskreytingu í opinberu rými sem unnin hefur verið hér á landi á undanförnum árum.