Stjórn BÍL hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu, auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir um afmörkuð málefni, t.d. málefni Ríkisútvarpsins, fjárlagafrumvarpið 2014 og listamannalaun.
Aðildarfélög BÍL eru fjórtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum þeirra stjórnarmanna, sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:
Arkitektafélag Íslands, AÍ, – formaður: Sigríður Ólafsdóttir (varamaður Hrólfur Karl Cela)
Félag íslenskra leikara; FÍL, – formaður: Randver Þorláksson
Félag íslenskra listdansara; FÍLD, – formaður: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir (varamenn Tinna Grétarsdóttir og Hjördís Lilja Örnólfsdóttir)
Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT, – formaður: Nína Margrét Grímsdóttir/Gunnar Guðbjörnsson (varamenn Hallveig Rúnarsdóttir og Margrét Bóasdóttir)
Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH, – formaður: Björn Th. Árnason
Félag kvikmyndagerðarmanna FK, – formaður: Hrafnhildur Gunnarsdóttir (varamaður Anna Þóra Steinþórsdóttir)
Félag leikstjóra á Íslandi FLÍ, – formaður: Jón Páll Eyjólfsson (varamaður Gunnar Gunnsteinsson)
Rithöfundasamband Íslands RSÍ, – formaður: Kristín Steinsdóttir (varamenn Jón Kalmann Stefánsson og Sölvi Björn Sigurðsson)
Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM, – formaður: Hrafnhildur Sigurðardóttir
Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL, – formaður: Ragnar Bragason
Tónskáldafélag Íslands; TÍ, – formaður: Kjartan Ólafsson (varamaður Hildigunnur Rúnarsdóttir)
Félag tónskálda og textahöfunda; FTT, – formaður: Jakob Frímann Magnússon
Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB, – formaður: Rebekka Ingimundardóttir
Félag leikskálda og handritshöfunda; – formaður: Hávar Sigurjónsson/Margrét Örnólfsdóttir

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2014):

Menningar- og ferðamálaráð (áheyrnarfulltrúar):
Kolbrún Halldórsdóttir/Pétur Gunnarsson
Hrafnhildur Sigurðadóttir/Erla Þórarinsdóttir

Fulltrúar í faghópi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur 2013:
Gunnar Hrafnsson tónlistarmaður, formaður
Randver Þorláksson leikari
Valdís Óskarsdóttir kvikmyndaleikstjóri
Ólöf Nordal myndlistarmaður
Magnea J. Matthíasdóttir rithöfundur og þýðandi

Fagráð Austurbrúar:
Kolbrún Halldórsdóttir kjörin á stofnfundi 8. maí 2012

Kvikmyndaráð:
Kristín Jóhannesdóttir febrúar 2013 – febrúar 2016
Bergsteinn Björgúlfsson varamaður

Stjórn Barnamenningarsjóðs:
Gunnar Gunnsteinsson 15.10.2013 – 14.10.2015
Kristín Mjöll Jakobsdóttir varamaður

Fulltrúaráð listahátíðar:
Kolbrún Halldórsdóttir

Stjórn listamannalauna:
Margrét Bóasdóttir 10.10.2012 til 01.10.2015
Randver Þorláksson varamaður

Stjórn Skaftfells :
Hrafnhildur Sigurðardóttir
Ásta Ólafsdóttir, varamaður

Menningarfánaverkefni Reykjavíkur:
Karen María Jónsdóttir

List án landamæra:
Edda Björgvinsdóttir

Fulltrúi í starfshóp um menningu barna og ungmenna:
Agnar Jón Egilsson frá júní 2013
Oddný Sen varamaður

Stjórn Gljúfrasteins:
Kolbrún Halldórsdóttir 23. apríl 2012 – 22. apríl 2016

Umsagnarnefnd heiðurslauna Alþingis:
Pétur Gunnarsson 17. des. 2012

Forseti BÍL var fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Íslandsstofu til ágústloka þegar nýr ráðherra skipaði nýja stjórn, en að beiðni formanns hinnar nýju stjórnar gegnir forseti árfarm formennsku í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Forseti BÍL er fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Listaháskóla Íslands, formaður þar síðan 16. desember 2011. Forseti BÍL átti á árinu sæti í starfshópi á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um fyrirkomulag verkefnasjóða og kynningarmiðstöðva á listasviðinu. Þá sat forseti í ráðgjafarhópi SSH – Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vegna sóknaráætlunar 20/20. Forseti BÍL hefur gegnt starfi forseta ECA – European Council of Artists síðan í árslok 2011 og situr í norræna listamannaráðinu Nordisk Kunstnerråd. Fyrir hönd ECA tekur hún þátt í starfi European Creative Alliance um höfundarréttarmál listamanna og er fulltrúi Nordisk Kunstnerråd í stjórn Norrænu menningarmiðstöðvarinnar Circolo Scandinavo í Róm. Önnur trúnaðarstörf forseta eru eftirfarandi: forseti er formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands, kjörin af fulltrúaráði safnsins, hún er fulltrúi í framkvæmdanefnd vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna, kjörin á fundi forseta Alþingis í september, hún er fulltrúi BÍL í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar og í úthlutunarnefnd námsmannastyrkja Landsbanka Íslands -Námunnar. Þá er hún er ritari í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi, í samninganefnd félagsins síðan 2011.

Stjórn BÍL hefur skipt með sér verkum á árinu þannig að Randver Þorláksson formaður Félags íslenskra leikara hefur gegnt hlutverki gjaldkera og Hrafnhildur Sigurðardóttir formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna hefur sinnt starfi ritara. Nú verður breyting á, þar sem Randver hverfur nú til annarra starfa og mun Hrafnhildur taka við hlutverki gjaldkera en nýr formaður Félags leikskálda og handritshöfunda, Margrét Örnólfsdóttir, taka við starfi ritara.

BÍL – ráðgjafi stjórnvalda í málefnum listanna
Bandalag íslenskra listamanna hefur um árabil sinnt ráðgjafarstarfi við stjórnvöld, jafnt ráðamenn ríkis sem Reykjavíkurborgar. Um þá þjónustu hafa verið gerðir samningar, sem tilgreina hlutverk og skyldur BÍL gegn rekstarframlagi sem gengur til rekstrar Bandalagsins. Samningur BÍL við Reykjavíkurborg var endurnýjaður á árinu og gildir til loka árs 2015. Árlegt framlag borgarinnar til starfsemi BÍL á samningstímanum er kr. 1.060.000.- Samningur BÍL við mennta- og menningarmálaráðuneytið rann út í árslok 2013. Á samráðsfundi BÍL og menntamálaráðherra sl. vor hafði ráðherra góð orð um að reynt yrði að hækka árlegt framlag til BÍL í nýjum samningi, sem hefur því miður ekki gengið eftir, því í drögum að nýjum samningi, sem nú liggur fyrir, tilbúinn til undirritunar, gerir ráðuneytið ráð fyrir óbreyttri upphæð framlagsins til næstu þriggja ára eða kr. 2.400.000.- á ári fram til 2016.

Árið litað af ríkisstjórnarskiptum
Eðli máls samkvæmt þá hafa stjórnvöld á hverjum tíma mikið um það að segja hvernig starfi BÍL vindur fram. Árið 2013 litaðist mjög af stjórnarskiptum, enda nýjir flokkar að taka við stjórnartaumum og eðlilegt að áherslubreytingar verði í mikilvægum málaflokkum. T.d. gaf ný ríkisstjórn út forsetaúrskurð um talsverðar breytingar á verkaskiptingu ráðuneyta, m.a. í menningargeiranum. En ríkisstjórnin gaf líka fyrirheit um samstarf við þjóðina, því í stjórnarsáttmála hennar segir að hún muni leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hafi íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Stjórn BÍL brást strax við stjórnarskiptunum og sendi forsætisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra bréf þar sem þau voru boðin velkomin til starfa, starfsemi heildarsamtaka listamanna var kynnt og óskað eftir fundum með ráðherrunum við fyrstu hentugleika. Nýr mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson brást hratt við, sömuleiðis atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir og fundaði stjórn BÍL með þessum ráðherrum í júní og júlí. Forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vísaði stjórn BÍL á mennta- og menningarmálaráðherra með erindið. Nánar verður sagt frá fundum stjórnar BÍL með ráðherrunum síðar í skýrslunni.

Fjárlagafrumvarpið 2014
Eðlilega fór mikið púður í það hjá stjórn BÍL á árinu að bregðast við fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það var lagt fram 1. október og olli miklum vonbrigðum í hópi listamanna. Samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir rúmlega 700 milljóna króna niðurskurði til verkefnatengdra sjóða á vettvangi lista og hönnunar og í raun horfið af þeirri braut sem mörkuð hafði verið á seinustu 2 – 3 árum um samspil verkefnatengdra sjóða við launasjóði listamanna. Þannig var hvergi að finna myndlistarsjóð, sem hafði verið samþykktur með myndlistarlögum 2012, ekki heldur útflutningssjóð íslenskrar tónlistar eða hönnunarsjóð sem höfðu verið settir á laggirnar með fjárlögum 2013. Kvikmyndasjóður varð verst úti af öllum sjóðunum, hann var skorinn niður um tæpar 400 milljónir. Skýringar ríkisstjórnarinnar á þessum mikla niðurskurði voru þær að fyrri ríkisstjórn hafi ætlað að fjármagna hækkun til listtengdu sjóðanna með „svokallaðri“ fjárfestingaráætlun, sem áætlað var að fjármagna með veiðileyfagjaldi og sölu ríkiseigna, en sú tekjuáætlun hafi ekki verið raunhæf. Það var því skammgóður vermir fyrir forseta BÍL þegar hann, á vordögum 2012, var kallaður á fund með „aðilum vinnumarkaðarins“ til að heyra boðskaðinn um fjárfestingaráætlun fyrri ríksstjórnar, en því var einmitt fagnað sérstaklega í ársskýrslu um störf BÍL 2012. En í ár, þ.e. 2013 kvað við þann tón í fjárlagafrumvarpinu að flest sem gert hafði verið ráð fyrir að kæmi til menningar og lista gegnum „svonefnda“ fjárfestingaráætlun fyrri stjórnar var strikað út, hið sama gilti reyndar ekki um fjárframlög hinnar „svonefndu“ fjárfestingaráætlunar til jarðgangagerðar, hafnarmannvirkja, undirbúnings stóriðjuframkvæmda eða endurnýjaðrar Vestmannaeyjaferju, en það er önnur saga….

Lokaðar dyr fjárlaganefndar
BÍL brást við þessum tíðindum fjárlagafrumvarpsins með erindi til fjárlaganefndar Alþingis þar sem þess var krafist að horfið yrði frá áformum um boðaðan niðurskurð og tilteknir liðir á listasviðinu hækkaðir um rúmar 700 milljónir króna. Þess var jafnframt óskað að fulltrúar BÍL fengju að heimsækja fjárlaganefnd þingsins, eins og hefð er fyrir, en viðbrögðin voru með eindæmum þar sem nefndin ráðlagði forystu heildarsamtaka listamanna að snúa sér til mennta- og menningarmálaráðuneytisins með erindi sitt, sem er í hæsta máta undarlegt þar sem ráðherrann, fulltrúi framkvæmdavaldisins, hafði afhent hinum þjóðkjörnu fulltrúum á Alþingi meðferð málsins. Stjórn BÍL háði talsverða baráttu við að ná eyrum þingmanna, sneri sér til einstakra fulltrúa í fjárlaganefnd og allsherjar- og menntamálanefnd, auk þess sem haft var samband við fulltrúa þingflokkanna, en strax var ljóst að það yrði þungur róður fyrir forystu listafólks að fá fjárlagafrumvarpinu breytt.

Baráttuteymi stofnað
Meðal þess sem BÍL stjórnin gerði til að varna því að niðurskurðaráformin næðu fram að ganga var að kalla saman baráttuteymi innan úr aðildarfélögunum, sem hittist á tveimur fundum í húsakynnum FÍH. Teymið, sem skipað var um 20 listamönnum úr ýmsum listgreinum, setti saman hugmyndir að baráttuaðferðum og aðgerðum til að ná fram breytingum. Meðal hugmyndanna var að vinna áfram með hugmyndina um líf án lista, sbr það sem gert var á listalausa deginum í nóvember 2011. Í framhaldinu ákvað stjórn BÍL að leita til kvikmyndagerðarmanna, leikara, leikmynda- og búningahöfunda o.fl. um gerð stiklu sem dreift yrði á vefnum í því augnamiði að vekja athygli fólks á baráttumálum listmanna. Stiklan var framleidd fyrir styrk frá menningarsjóði IHM og var frumsýnd í Kastljósi RÚV 9. desember. Stór hópur listmanna kom að gerð stiklunnar en það var Baldvin Z sem leikstýrði henni og gerði handritið í samvinnu við Óskar Jónasson, en Silja Hauksdóttir stýrði framkvæmd verkefnisins.
Stjórn BÍL mun áfram vinna úr hugmyndum baráttuteymisins, enda mun ekki af veita ef heldur fram sem horfir varðandi stuðning ríkisins við verkefnasjóði listgreinanna og aðra sjóði sem styðja við listir og menningu. Þar má t.d. nefna bókasafnssjóð höfunda, barnamenningarsjóð, listskreytingasjóð, menningarsamninga landshlutanna og safnlið mennta- og menningarmálaráðuneytis sem m.a. er ætlað að styðja við bakið á félagasamtökum á borð við BÍL.

Síðdegisboð í Iðnó
Það gekk illa að koma fjárlagafrumvarpinu til annarrar umræðu í þinginu og þegar það loks skilaði sér var ljóst að einu breytingarnar sem fjárlaganefnd hafði gert á þeim þáttum sem BÍL hafði gert athugasemdir við fólust í 10 milljóna króna hækkuðu framlagi til Kvikmyndamiðstöðvar og 20 milljónum í útflutningssjóð íslenskrar tónlistar. Þá ákvað stjórn BÍL að bjóða fulltrúum fjárlaganefndar og allsherjar- og menntamálanefndar í síðdegiskaffi í Iðnó til að sýna þeim fram á alvöru málsins fyrir listirnar og freista þess að ræða afleiðingar boðaðs niðurskurðar. Það boð var haldið 17. desember þegar annarri umræðu um fjárlög var um það bil að ljúka. Þeir þingmenn sem þáðu boðið voru Páll Valur Björnsson (menningarmálanefnd) og Brynhildur Pétursdóttir (fjárlaganefnd) frá Bjartri Framtíð, Bjarkey Gunnarsdóttir (fjárlaganefnd) frá VG, Vilhjálmur Árnason (menningarmálanefnd) frá Sjálfstæðisflokki og Líneyk Anna Sævarsdóttir (menningarmálanefnd) frá Framsókn. Guðbjartur Hannesson frá Samfylkingu sendi boð um forföll. Fundurinn fór hið besta fram og lagði stjórn BÍL mesta áherslu á að hverfa yrði frá 400 milljóna króna niðurskurði til kvikmyndasjóðs og að ófært væri að strika út með öllu til tveggja nýrra sjóða myndlistarsjóðs og hönnunarsjóðs. Þingmennirnir þökkuðu upplýsingarnar sem stjórn BÍL miðlaði þeim (og kaffið), en ekki voru þau bjartsýn á að breytingar gætu orðið á frumvarpinu úr því sem komið var.

Lokaniðurstaða fjárlaga
Aðfararnótt 18. desember bárust svo þær fréttir frá Alþingi að meirihlutinn í fjárlaganefnd hefði ákveðið að hverfa frá því að strika myndlistarsjóð og hönnunarsjóð út úr fjárlögum ársins 2014 og var veitt 25 milljónum í hvorn sjóð, en þeir höfðu til ráðstöfunar 45 milljónir hvor á fjárlagaárinu 2013. Þar með hafði verið horfið frá hluta niðurskurðarins, eða 80 milljónum króna, en eftir situr niðurskurður upp á 626 milljónir. Þar munar mest um niðurskurðinn til Kvikmyndasjóðs, sem er tæpar 400 milljónir. Það er því ljóst að mikið bakslag hefur orðið í fjárframlögum til list- og menningartengdra sjóða á fjárlögum ríkisins milli áranna 2013 og 2014. Slíkt er í hróplegu ósamræmi við niðurstöður starfshóps um sjóðina, sem skilaði ráðherra skýrslu sinni á árinu. Stjórn BÍL mun því þurfa að beita sér áfram í baráttunni fyrir bættum skilningi stjórnvalda í aðdraganda þess að næstu fjárlög verði unnin.

Launasjóðir listamanna
Þrátt fyrir niðurskurð til verkefnatengdu sjóðanna hafa stjórnvöld staðið vörð um launasjóðina, þannig hafa þeir haldið verðgildi sínu og hækkað í samræmi við verðlag eins og lög gera ráð fyrir. Í upphafi árs 2014 nemur mánaðargreiðslan úr sjóðunum kr. 310.913.- Greiðslur úr launasjóðunum eru verktakagreiðslur svo það kemur í hlut listamannanna að standa skil á launatengdum gjöldum (framlagi í lífeyrissjóð, tryggingargjaldi o.s.frv.). Stjórn BÍL hefur á undanförnum árum fundað með stjórn listamannalauna um málefni sjóðanna og mögulega þróun þeirra. Slíkur fundur var haldinn 27. janúar sl. Á þeim fundi var rætt um reynsluna af breytingunum 2012 þegar sjóðirnir voru opnaðir fyrir þverfaglegum umsóknum. Einnig var reynslan af flutningi umsýslu sjóðanna til RANNÍS rædd og reynslan af breyttum dagsetningum á umsóknarfresti og úthlutun í byrjun janúar. Þá var fjallað um hæfi og vanhæfi nefndarmanna í úthlutunarnefndum sjóðanna og áréttað mikilvægi þess að aðildarfélög BÍL komi á framfæri við stjórn listamannalauna því sem félögin telja að betur megi fara í framkvæmd og umsýslu. Þá nefndi stjórn listamannalauna nokkur atriði sem óskað var eftir að tekin yrðu til umræðu í aðildarfélögum BÍL og á vettvangi stjórnar BÍL. Málefni sjóðanna verða því til áframhaldandi umfjöllunar á vettvangi BÍL á næstunni, meðal annars möguleg þriggja ára áætlun um eflingu sjóðanna sambærileg þeirri sem rann sitt skeið á enda 2012.
Síðar í skýrslu þessari verður vikið að stuðningi Reykjavíkurborgar við list- og menningartengd verkefni.

Samráðsfundur BÍL og menningarmálaráðherra
Árlegur samráðsfundur stjórnar BÍL og mennta- og menningarmálaráðherra var haldinn í ráðherrabústaðnum 26. mars. Umræðurnar á fundinum lituðust nokkuð af því að stutt var til kosninga og óvissa með áframhaldandi veru Katrínar Jakobsdóttur á ráðherrastóli. Þau mál sem stjórn BÍL lagði áherslu á að ræða við ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins voru málefni starfslaunasjóðanna og þróun fjárframlaga til listgreinanna, almennt starfsumhverfi starfandi listamanna, myndlistartengdar gjaldskrár, uppbygging danslistarinnar, samkomulag um aukin framlög til kvikmyndagerðar, kvikmynda- og myndlæsi, málefni tónlistarskólanna, málefni listtengdra safna þ.á.m. safns Ríkisútvarpsins, framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands, akademía listamanna og heiðurslaun ásamt fjárhagslegri afkomu BÍL. Minnisblað stjórnar BÍL er aðgengilegt á heimasíðu BÍL.
Ráðherrann lagði mesta áherslu á árangurinn sem náðst hefði á Alþingi með samþykkt nýrra laga á vettvangi lista og menningar, s.s. ný lög um Ríkisútvarpið, safnalög, lög um menningarminjar, bókasafnalög, myndlistarlög og bókmenntalög. Þá þakkaði hún BÍL fyrir þátttökuna í undirbúningi menningarstefnu, sem Alþingi samþykkti 6. mars 2013. Einnig lagði ráðherra áherslu á mikilvægi þess að áfram verði haldið á braut kortlagningar skapandi atvinnugreina og upplýsti að ráðuneytið væri að vinna með Hagstofu Íslands að því að bæta upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun um þætti sem heyra undir ráðuneytið. Þá gaf ráðherra BÍL góðar vonir um að horft yrði til mikilvægs ráðgjafarhlutverks BÍL þegar samningurinn milli BÍL og ráðuneytisins yrði endurnýjaður á árinu. Það kemur fram hér að framan að sú von hennar gekk ekki eftir að sinni.

Starfshópur um verkefnasjóði á listasviði
Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði starfshóp um verkefnasjóði og kynningarmiðstöðvar á listasviðinu í febrúar og var forseti fulltrúi BÍL í hópnum. Starf hópsins byggði að miklu leyti á því sem segir í hinni nýju menningarstefnu Alþingis að framlög ríkisins til verkefna á sviði menningarmála skuli fara í gegnum lögbundna sjóði með faglegum úthlutunarnefndum sem byggja úthlutun á vönduðu jafningjamati. Í stjórnum sjóða séu viðhafðir góðir stjórnunarhættir, regla um hæfilega fjarlægð virt og almennum hæfisreglum fylgt. Starfslaunasjóðir og verkefnasjóðir verði vel skilgreindir og endurspegli fjölbreytni og þróun menningarlífsins, m.a. er varðar samstarfsverkefni. Hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra með tillögum að aðgerðum í lok apríl og var þess óskað að fagfélög listamanna og miðstöðvar listgreina og hönnunar fjölluðu um tillögurnar og sendu viðbrögð sín til ráðuneytisins um haustið.
Í lok október höfðu ráðuneytinu borist viðbrögð frá fjórum aðilum ( Hönnunarmiðstöð, Miðstöð íslenskra bókmennta, Leiklistarsambandi Íslands og stjórn hönnunarsjóðs). Niðurstaða menningarskrifstofu ráðuneytisins, á grundvelli umsagnanna, er sú að áfram verði haldið með áform um að Rannís annist umsýslu verkefnatengdu sjóðanna, en að miðstöðvarnar sjái um ráðgjöf og kynningu, því sé ekki grundvöllur fyrir hugmyndinni um sameiginlega umsýslu- og þjónustumiðstöð eða að stofnað verði sameiginlegt listráð. Þá sé ekki grundvöllur til að miðstöðvarnar flytji í sameiginlegt húsnæði að öllu óbreyttu. Hvorki skýrsla hópsins eða niðurstöður menningarskrifstofu ráðuneytisins hafa verið birtar opinberlega en stjórnir aðildarfélaga BÍL hafa aðgang að skýrslunni og geta haldið áfram að fjalla um þá þætti sem snúa að hverju og einu félagi. Framhald málsins kemur líklega ekki í ljós fyrr en á samráðsfundi BÍL með nýjum mennta- og menningarmálaráðherra undir vor.

Umsagnir um þingmál
BÍL tekur virkan þátt í vinnu við lagasetningu með því að veita Alþingi umsagnir um mál á vettvangi lista og menningar. Á árinu hefur BÍL fjallað um þrjú mál, um tillögu þingsályktunar um menningarstefnu, sem samþykkt var á Alþingi 6. mars 2013 og kom BÍL að vinnunni við hana á ólíkum stigum, m.a. með því að sækja ráðstefnur ráðuneytisins Menningarlandið, ein ein slík var haldin á árinu að Kirkjubæjarklaustri og var forseti BÍL með erindi þar um faglega úthlutun opinbers fjármagns til lista og menningar. Annað málið var svo frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf – fjölmiðil í almannaþágu, þar sem lögð var til breyting á fyrirkomulagi við val stjórnar. Um það mál verður fjallað nánar í sérstökum kafla um Ríkisútvarpið í skýrslu þessari, en umsögn BÍL er að finna á heimasíðu BÍL . Þriðja málið var frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, en það mál varðaði notkun á þjóðfánanum til merkingar á íslenskri hönnun og framleiðsluvörum. BÍL tók í umsögn sinni mið af umsögn Hönnunarmiðstöðvar um málið og varaði við tilteknum ákvæðum frumvarpsins, í ljósi þess að þau gætu orðið til þess að þrengja möguleika íslenskra fyrirtækja til að merkja vörur sínar með fánanum.
Þá hefur stjórn BÍL um þessar mundir til umfjöllunar þrjú þingmál: tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára, tillögu til þingsályktunar um ráðstafanir gegn málverkafölsunum og tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.
Allar umsagnir BÍL til Alþingis eru aðgengilegar á vefsíðu BÍL www.bil.is

Ríkisútvarpið
Málefni Ríksútvarpsins voru talsvert á dagskrá BÍL á árinu. Síðla árs 2012 voru þau Margrét Marteinsdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson ráðin dagskrárstjórar hljóðvarps og sjónvarps og óskaði stjórn BÍL fljótlega eftir að þau kæmu til fundar við stjórn BÍL til að ræða hagsmunamál listamanna í tengslum við Ríkisútvarpið. Sá fundur var haldinn 11. mars og lagði stjórn BÍL fram minnisblað til grundvallar umræðunni, minnisblaðið er aðgengilegt á heimasíðu BÍL. Á fundinum lagði stjórn BÍL áherslu á kröfur listamanna um að leiknu innlendu efni verði gert hærra undir höfði í dagskrá sjónvarps, að niðurskurði olbogabarnsins Rásar 1 verði hætt, meiri metnaður verið lagður í dagskrárefni fyrir börn og ungmenni og stofnuð verði sérstök menningarfréttadeild (sambærileg við íþróttafréttadeild). Fundurinn var málefnanlegur í alla staði og í lok hans var ákveðið að halda áfram skoðanaskiptum um dagskrármál Ríkisútvarpsins milli þessara aðila. Það hefur að vísu ekki gengið eftir enda leið ekki langur tími þar til Margrét Marteinsdóttir sagði starfi sínu lausu og í kjölfarið tilkynnti útvarpsstjóri að skorið yrði niður í rekstri stofnunarinnar um 500 milljónir og 60 starfsmönnum yrði sagt upp. Strax fengu 39 starfsmenn uppsögn og var stór hluti þeirra dagskrárgerðarmenn rásar 1 og rásar 2. Eftirleikinn þarf ekki að rekja frekar hér að öðru leyti en því að aðgerðirnar vöktu gríðarleg viðbrögð, baráttuhópur var stofnaður til varnar atlögunni að menningarhlutverki Ríkisútvarpsins, mótmæli voru við útvarpshúsið í Efstaleiti, fjölmennur baráttufundur var haldinn í Háskólabíói og loks voru mennta- og menningarmálaráðherra afhentar rúmlega tíu þúsund undirskriftir þar sem þess var krafist að uppsagnirnar yrðu dregnar til baka og horfið yrði frá niðurskurði til stofnunarinnar. BÍL lagði baráttunni lið og undirrituðu formenn allra aðildarfélaga opinbera áskorun til stjórnvalda um málið. Þá barst liðsauki frá systursamtökum okkar á Norðurlöndunum, sem sendu stjórn Ríkistútvarpsins og íslenskum stjórnvöldum ályktun þar sem mótmælt var niðurskurðinum og aðferðum við brottrekstur dagskrárgerðarmanna. BÍL mun áfram leggja sitt af mörkum til að ná fram breytingum sem eflt geta menningarhlutverk Ríkisútvarpsins eins og boðað var á fundi stjórnar BÍL með dagskrárstjórunum í mars.

Breytt lög um Ríkisútvarpið
Frumvarp til laga um Ríkisútvarp, fjölmiðil í almannaþágu, hafði verið til umfjöllunar á Alþingi frá því vorið 2012 og varð það að lögum vorið 2013 með 35 atkvæðum allra flokka nema Sjálfstæðisflokks. Með lögunum var breytt fyrirkomulagi stjórnarkjörs Ríkisútvarpsins, þannig var horfið af braut pólitískt skipaðrar stjórnar en þess í stað kveðið á um að sérstaklega skipuð fimm manna valnefnd skipaði fimm af sjö stjórnarmönnum. Mennta- og menningarráðherra átti að skipa einn stjórnarmann og starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins einn. Í valnefndina átti að skipa einn fulltrúa tilnefndan af Bandalagi íslenskra listamanna, einn tilnefndan af Samstarfsnefnd háskólastigsins og þrjá skv tilnefningu allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Þ. 9. apríl óskaði menntamálaráðuneytið eftir tilnefningu BÍL í valnefndina og tilnefndi stjórn BÍL forseta Kolbrúnu Halldórsdóttur og Björn Th. Árnason formann FÍH til vara. Samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefndi Ólaf Þ. Harðarson prófessor og Ragnheiði Skúladóttur leikhússtjóra LA til vara. Allsherjar- og menntamálanefnd þingsins kláraði hins vegar ekki að tilnefna sína þrjá fulltrúa í nefndina og var hún því aldrei skipuð.
Að loknum kosningum til Alþingis var kallað saman sumarþing og eitt af fyrstu málum þess var frumvarp nýs mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssonar, um breytingu á skipan stjórnar Ríkisútvarpsins. Frumvarpið gerði ráð fyrir því að horfið yrði til fyrra horfs varðandi val í stjórn Ríkisútvarpsins og voru rök ráðherra þau það fyrirkomulag að fela valnefnd að tilnefna fimm af sjö stjórnarmönnum í stjórn Ríkisútvarpsins væri ólýðræðislegt og ógagnsætt; valnefndin bæri enga ábyrgð gagnvart kjósendum og engin trygging væri fyrir því að nýtt fyrirkomulag stuðlaði að því að Ríkisútvarpið þjónaði lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum íslensks samfélags (orðalag frumvarpsins). Stjórn BÍL mótmælti breytingunum með formlegum hætti við Alþingi og krafðist þess að sú hugmyndafræði sem lögin byggðu á fengi að ganga í gildi, hún væri prófsteinn á það hvort þjóðinni ætti að lánast að standa vörð um ríkisútvarp í almannaþágu með faglega skipaðri stjórn. Sjá umsögn BÍL til þingsins á heimasíðu.
Í ræðustóli Alþingis lýsti ráðherann þeirri skoðun sinni að það væri mikil bjartsýni að halda að valnefnd af þessu tagi yrði eitthvað ópólitísk og upplýsti í því samhengi að stjórn Bandalags íslenskra listamanna hefði skipað fyrrverandi þingmann Kolbrúnu Halldórsdóttur sinn fulltrúa í nefndina.
Málið varð umdeilt á þinginu og ályktaði stjórn BÍL gegn því og hvatti ráðherrann til að draga frumvarpið til baka. Frumvarpið var að lokum samþykkt með þeirri breytingu að stjórn Ríkisútvarpsins yrði skipuð níu fulltrúum kjörnum af Alþingi í stað sjö. Í kjölfarið kaus Alþingi nýja stjórn Ríkisútvarpsins sem ætlað var að endurspegla þingstyrk flokkanna á Alþingi. Það gekk að vísu ekki alveg eftir þar sem einn stjórnarþingmaður greiddi atkvæði með lista stjórnarandstöðunnar, sem gerði það að fulltrúi Pírata, Pétur Gunnarsson rithöfundur og fyrrum ritari stjórnar BÍL, var valinn til setu í stjórninni. Hann var að vísu felldur út úr henni eftir nokkurra mánaða setu þar sem nú í janúar var aftur kosin ný stjórn og þá skiluðu sér öll atkvæði stjórnarþingmanna. Því endurspeglar núverandi stjórn Ríkisútvarpsins þingsstyrk Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem eiga sex fulltrúa í stjórninni á móti þremur fulltrúum stjórnarandstöðunnar.

Samstarf við miðstöðvar listgreina og hönnunar
Í erindum sínum til fjárlaganefndar Alþingis og í samtölum við ráðamenn hefur BÍL lagt áherslu á að mennta- og menningarmálaráðuneytinu verði gert það kleift að viðhalda samningum við miðstöðvar listgreina og hönnunar enda gegna þær lykilhlutverki í kynningu lista og menningar jafnt innanlands sem á erlendri grund, m.a. með því að veita faglega ráðgjöf ráðuneytum, sveitarfélögum, sendiskrifstofum Íslands, Íslandsstofu og markaðsskrifstofum útflutningsfyrirtækja. Reyndar hefur nú verið ákveðið að hinn nýji hönnunarsjóður verði vistaður undir hatti atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis þó gert sé ráð fyrir nánu samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, og raunar fleiri ráðuneyti, um framkvæmd nýrrar hönnunarstefnu, sem undirituð var við athöfn í atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti 30. janúar sl. Unnið hefur verið að stefnunni síðan 2011 og verður nú settur á laggirnar stýrihópur sem fær það verkefni að framfylgjastefnunni og þróa hana áfram.
Í gengum fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum hefur samstarf BÍL við miðstöðar listgreina og hönnunar aukist, sem skilar sér t.d. í góðu upplýsingaflæði frá miðstöðvunum til einstakra aðildarfélaga BÍL. Þá eru Samtök skapandi greina stofnuð af forstöðumönnum miðstöðvanna og er forseti BÍL í góðu sambandi við þau.

Skapandi greinar – Sýn til framtíðar
Eftir alvarlegan niðurskurð á framlögum ríkisins til lista og skapandi greina kom það nokkuð á óvart að heyra forsætisráðherra boða sérstaka sókn í málefnum greinanna í áramótaræðum. En BÍL mun ekki liggja á liði sínu nú fremur en endranær heldur halda áfram að þrýsta á um aðgerðaáætlun á grunni skýrslunnar frá 2012 „Skapandi greinar – Sýn til framtíðar“. Eftir því sem næst verður komist þá mun samráðsvettvangur ráðuneytanna, sem mælt er fyrir um í skýrslunni, hafa verið setur á laggirnar og heyrst hefur að hann hafi komið saman tvisvar eða þrisvar síðan haustið 2012, en það eru óstaðfestar fregnir. Það er alveg ljóst að stjórnvöld þurfa að taka sig á í því að opna stjórnsýsluna fyrir aðkomu hagsmunaaðila á borð við BÍL. Skýrslan frá 2012 er leiðarljós um bætt starfsumhverfi skapandi greina og leggur upp hugmyndir fyrir stjórnvöld um það hvernig nýta megi þau tækifæri sem til staðar eru, efla rannsóknir, menntun og stefnumótun, og styðja við útflutningsstarfsemi greinanna. Forseti BÍL átti sæti í starfshópnum sem vann skýrsluna og stjórn telur ekkert hamla því að unnið verði í anda hennar annað en vilja stjórnvalda.
Til upprifjunar á tillögum skýrslunnar þá er hér kafli úr skýrslu forseta BÍL frá aðalfundi 2013: Megintillögur skýrslunnar ganga út á að stjórnskipuleg ábyrgð skapandi greina verði skýr, samráð við skapandi geirann verði styrkt og upplýsingaflæði aukið. Áhersla er lögð á það að ráðuneytin auki þekkingu sína á geiranum og að innan ráðuneytanna verði til sérfræðingar, sem hafi það skilgreinda hlutverk að sinna skapandi atvinnugreinum. Lagt er til að settur verði á stofn þverfaglegur hópur ráðuneyta og geirans, sem fái það hlutverk að vinna að samræmdri uppbyggingu greinanna á grundvelli skýrslunnar. Í skýrslunni eru einnig tillögur um styrkingu miðstöðva lista og hönnunar, þær verði miðstöð þekkingar á geiranum og virki sem brú milli stjórnsýslunnar og þeirra sem starfa innan geirans. Þá er lögð áhersla á að skapandi greinar verði skilgreind stærð í þjóðhagsreikningum og að söfnun tölulegra upplýsingar verði stórefld t.a.m. undir hatti Hagstofunnar. Einnig að ríki og sveitarfélög samræmi skráningu sína og upplýsingagjöf um tölfræði greinanna, t.d. upplýsingar um fjárhagslegan stuðning en ekki síður um framlag greinanna til hagkerfisins. Í skýrslunni er lögð mikil áhersla á fagmennsku í framlögum opinberra styrkja til skapandi greina og sérstök áhersla lögð á frumsköpun. Undir frumsköpun falla störf listamanna, sem eru bæði hluti af skapandi atvinnugreinum en líka sjálfstæð starfsemi, sem ekki er heppilegt að hneppa um of í bönd stjórnsýslulegs aga.

Fundað með ráðherrum nýrrar ríkisstjórnar
Eins og fram kemur framar í skýrslu þessari þá fundaði stjórn BÍL með mennta- og menningarráðherra og hans fólki í byrjun júlí um megináherslur í verkefnum og starfsáætlun BÍL. Á fundinum var lagt fram minnisblað sem aðgengilegt er á heimasíðu BÍL. Ráðherrann sérstakan áhuga á málefnum tengdum námi í kvikmyndagerð á háskólastigi og málefnum tengdum nýju tónlistarhúsi Hörpu. Einnig var nokkuð rætt um málefni Listaháskóla Íslands og mikilvægi þess að hann fengi langþráða úrlausn í húsnæðismálum, en innan ráðuneytisins er nú starfandi starfshópur sem fékk það hlutverk að leggja mat á fýsileika framtíðaruppbyggingar skólans annað hvort við Sölvhólsgötu eða í Laugarnesi.
Þá funduðu fulltrúar stjórnar með Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra atvinnu og nýsköpunar 22. ágúst, minnisblað sem lagt var fyrir þann fund er aðgengilegt á heimasíðu BÍL. Ragnheiður Elín sýndi mikinn áhuga á skapandi atvinnugreinum og lýsti yfir vilja til samstarfs við að koma í framkvæmd hugmyndum skýrslunnar um greinarnar frá 2012. Lögðu fulltrúar stjórnar BÍL áherslu á mikilvægi heildstæðs rannsóknarumhverfis um greinarnar og að haldið verði áfram að rannsaka hagræn áhrif þeirra t.d. veltu, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu. Skoða þurfi samspili atvinnutengdra rannsókna og rannsókna innan háskólanáms í listum og skapandi greinum. Einnig var rætt um hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar í uppbyggingu atvinnutækifæra innan greinanna og lögð áhersla á að efla þurfi RANNÍS svo þar verði nægileg þekking á þörfum skapandi greina, þar þurfi t.d. að skoða mælistikur sem henta við mat á umsóknum frá fólki í skapandi greinum. Þá var lögð áhersla á mikilvægi þess að byggja upp atvinnutækifæri fyrir skapandi fólk utan þéttbýliskjarnans á höfuðborgarsvæðinu, í því sambandi gegndu menningarsamningar landshlutanna lykilhlutverki. Loks voru ítrekuð sjónarmið BÍL varðandi skattaumhverfi listamanna, virðisaukaskatt og nauðsyn á skattalegri hvatningu til einkaaðila til að fjárfesta í listageiranum. Fulltrúi skapandi atvinnugreina í ráðuneytinu Helga Haraldsdóttir sat einnig fundinn og í framhaldi funduðu forseti og Helga sérstaklega um mikilvægustu skrefin í innleiðingu þeirrar stefnu sem lögð er til í skýrslunni.
20. október átti forseti BÍL svo fund með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála, ásamt ráðuneytisstjóra og fulltrúa sveitarstjórnarmála í ráðuneytinu. Þar var farið yfir þátt BÍL í uppbyggingu Austurbrúar, sameinaðaðrar stoðstofnunar á vettvangi sveitarfélaga á Austurlandi, en bæði BÍL og Listaháskóli Íslands eru stofnaðilar að Austurbrú og eiga fulltrúa í fagráði stofnunarinnar. Á fundinum lagði forseti áherslu á mikilvægi þess að listafólk ætti þátt í að styrkja list- og menningartengda starfsemi á landsbyggðinni og hældi hugmyndunum að baki Austurbrú. Verkefnin framundan væru ærin, t.d. að tryggja faglega úthlutun fjármuna úr menningarsamningum landshlutanna og marka skýra stefnu í uppbyggingu atvinnutækifæra á vettvangi lista- og menningar í landshlutunum. Skynsamlegt væri að hafa vel heppnaðar breytingar hjá Reykjavíkurborg í huga og vísaði forseti í því sambandi á reynslu af starfinu í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur þar sem BÍL hefur komið að málum sem ráðgjafi.

Samstarf BÍL og Reykjavíkurborgar
Fremst í skýrslu þessari er getið um samstarfssamning BÍL og Reykjavíkurborgar, en samningur BÍL við borgina var endurnýjaður á árinu og gildir til loka árs 2015. Árlegt framlag borgarinnar til starfsemi BÍL á samningstímanum er kr. 1.060.000.- Stjórn BÍL hafði óskað eftir hækkun úr kr. 900.000.- á síðasta samningstímabili (hafði verið 1.000.000.- á árabilinu 2007-2009) í kr. 1.800.000.- Beiðnin fór fyrir borgarráð, sem samþykkti að hækka árlegt framlag lítillega eða í kr. 1.060.000.- fyrir tímabilið 2013 – 2015. Niðurstaðan olli að sjálfsögðu nokkrum vonbrigðum, en fátt sem hægt er að gera annað en undirbúa samtal við nýja borgarstjórn að loknum kosningum í vor. Samningurinn var undirritaður á árlegum samráðsfundi borgarstjóra með stjórn BÍL, sem haldinn var í Höfða 29. maí. Málefnin sem stjórn BÍL lagði mesta áherslu á í minnisblaði sem lagt var fyrir fundinn voru stefnumótun og framtíðarsýn fyrir tónlistarhúsið Hörpu, stefna bókmenntaborgar UNESCO, málefni tónlistarskólanna í borginni, uppbygging danslistarinnar og málefni Tjarnarbíós. Minnisblaðið í heild sinni er aðgengilegt á heimasíðu BÍL.

Samstarfið við Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
Forseti BÍL og formaður SÍM sátu fundi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur á árinu, sem áheyrnarfulltrúar, seinni hluta ársins tók Erla B. Þórarinsdóttir, varamaður Hrafnhildar Sigurðardóttur einnig þátt í starfinu. Stuðningur borgarinnar við list- og menningartengd verkefni hækkaði um tæpar 7 milljónir frá fyrra ári úr kr. 60.360.000.- í kr. 67.200.000.- Ráðgefandi faghópur um styrki skipaður fulltrúum BÍL hafði 175 umsóknir til umsóknar og úthlutaði menningar- og ferðamálaráðs á grundvelli tillagna hópsins í janúar sl. Þá fengu tónlistarhátíðirnar Sónar Reykjavík, Reykjavík Midsummer Music og Tectonics tónlistarhátíðin þriggja ára samning við Reykjavíkurborg, og bætast þær við hinar tíu hátíðirnar sem þegar hafa sambærilega samninga við borgina. Stuðningur við hátíðirnar nemur 35,5 m.kr. 2014. Stærstu styrkir til eins árs voru vegna Kvikmyndahátíðar í Reykjavík 2014, 8 m.kr. og Kammersveitar Reykjavíkur, Stórsveitar Reykjavíkur og Caput, sem hljóta 1,8 m. hver. Það vakti nokrrar deilur að RIFF kvikmyndahátíðin skyldi ekki fá áframhaldandi samstarfsamning við borgina en þess í stað gerður samningur við aðra aðila um kvikmyndahátíð. Var allur faghópur BÍL kallaður fyrir menningar- og ferðamálaráð til að rökstyðja tillögu þessa og fór á endanum svo að fulltrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu sátu hjá við þann hluta tillögunnar sem varðaði kvikmyndahátíðina. Í framhaldinu hefur orðið nokkur fjölmiðlaumfjöllun um málið. Stjórn BÍL hefur ekki tekið afstöðu til málsins að öðru leyti en því að lýsa yfir fullt trausti á mat faghópsins á umsóknum þeim er bárust.

Samstarf við mennta- og frístundaráð
Í janúar 2013 fundaði stjórn BÍL með mennta- og frístundaráði og starfsfólki sviðsins um málefni listtengdrar menntunar í grunnskólum borgarinnar, sjálfstætt starfandi listaskólum og möguleika á meira samstarfi menntayfirvalda og listamanna við innleiðingu ákvæða nýrrar námsskrár. Minnisblað frá fundinum er aðgengilegt á heimasíðu BÍL. Áframhald verður á þessu starfi í nánustu framtíð og er nú í undirbúningi vinnufundur á sviðinu með þeim aðilum úr hópi listamanna sem mesta reynslu hafa af stafi listafólks í skólum. Þá er rétt að geta um starfshóp sem settur var á laggirnar á árinu og er ætlað að gera tillögur um innleiðingu stefnu um barna- og ungmennamenningu skv. menningarstefnu Alþingis sem fyrr er getið. Fulltrúi BÍL í þeim hópi er Agnar Jón Egilsson leikstjóri og varamaður hans Oddný Sen kvikmyndafræðingu. Elfa Lilja Gísladóttir, frakvæmdastjóri verkefnisins Tónlist fyrir alla stýrir starfi hópsins.

Samstarf við SSH – Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Undanfarið hafa Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu unnið að bættri stefnu í menntamálum með það að markmiði að auka gæði skólastarfs. Í október var BÍL boðið að senda fulltrúa til vinnufundar um stefnuna og tilnefndi stjórn BÍL Irmu Gunnarsdóttur dansara og Pamelu de Sensi flautuleikara sína fulltrúa. Um 90 sérfræðingar sem tengjast skólamálum sátu fundinn. Irma skilaði stjórn BÍL minnisblaði um fundinn þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að sjónarmið listkennslu séu rædd á svona sameiginlegum vettvangi en jafnframt að hlutverk listafólks sé að færa umræðuna inn á það spor að listkennsla eigi að vera sjálfsagður hluti skólastarfs á öllum skólastigum en ekki einungis rekið sem „þróunarverkefni“ um stundarsakir. Mikið þurfi að breytast ef ná eigi fram markmiðum í listgreinahluta nýrrar aðalnámsskrár, til þess þurfi fleira fagfólk í listkennslu inn í skólanna, auka þurfi víðsýni og svigrúm í listkennslu og tryggja hlut fleiri listgreina í kennslunni. Ákveðin hefð sé fyrir kennslu í tónmennt, myndmennt og textílhönnun, en aðrar greinar standi veikar að vígi, t.d. dans og leiklist. Irma telur mikilvægt að BÍL komi áfram að vinnu við innleiðingu framtíðarstefnu í menntamálum og leggi í því sambandi áherslu á að komið verði á fót þróunarverkefnum til lengri tíma, t.d. tveggja til þriggja ára.

Saga Bandalags íslenskra listamanna
Í nokkurn tíma hefur Ingunn Þóra Magnúsdóttir sagnfræðingur unnið að ritun sögu BÍL. Sl. tvö ár hefur hún lagt hart að BÍL að taka verkefnið upp á sína arma og koma því á endapunkt með því að standa formlega að útgáfu þess. Vegna veikrar fjárhagsstöðu hefur BÍL ekki bolmagn til að standa straum af kostnaði við útgáfuna og styrkir til að gefa út rit af þessu tagi eru af skornum skammti. Þó hefur forseti BÍL lagt í nokkra vinnu við að kanna möguleika varðandi útgáfu. Síðla árs 2012 fór stjórn BÍL þremur velviljuðum sérfræðingum að lesa yfir handritið að verkinu og í framhaldinu vann Ingunn Þóra lokagerð handrits sem forseti hefur undanfarið sýnt bókaútgefendum. Það er ljóst að nokkur vinna er eftir áður en verkið er tilbúið til útgáfu, þar má nefna myndasöfnun og myndritstjórn auk þess sem sérfræðingar telja að lokaspretturinn verði ekki unninn án þess að fá góðan ritstjóra til að fylgja því í höfn, en slík vinna gæti tekið þrjá mánuði. Þeir bókaútgefendur sem skoðað hafa verkið áætla að kostnaður við útgáfu af þessu tagi, sem yrði rík af myndefni, myndi kosta hátt í 8 milljónir króna. Slík upphæð er ekki á færi BÍL að reiða fram og stjórn BÍL er það til efs að hægð verði að safna „áskrifendum“ úr hópi listamanna eða menningarstofnana sem nægði til að standa undir þeim kostnaði. Þetta hefur leitt til þess að forseti hefur, í samráði við Ingunni Þóru, átt samtöl við sérfræðinga í menningarmiðlun við Háskóla Íslands, með það í huga að verkið verði gefið út með tilstuðlan meistaranema á því sviði, mögulega með því að brjóta það upp og auka vægi myndefnis, jafnvel að úr verði einhvers konar úrklippubók. Slíkt er ýmsum vandkvæðum bundið, bæði er verkið viðamikið og varla á færi eins meistaranema að vinna úr því nema að hluta. Í þessum samtölum kviknaði þó hugmynd um hvort ekki mætti skoða möguleikann á að breyta grunnhugmyndinni varðandi útgáfu bókar yfir í að koma efninu fyrir á sérstökum vef um sögu BÍL. Sú hugmynd er nú til skoðunar hjá kennara í vefhönnun á hugvísindasviði HÍ og þess vænst að einhverjar fréttir verði af málinu þegar líða tekur nær vori. Það er a.m.k. samdóma álit þeirra sem skoðað hafa handritið að þarna sé búið að safna saman svo miklu af dýrmætum heimildum að ekki sé forsvaranlegt að láta það fara í súginn.

Norræna menningarmálaáætlunin – Kultur Kontakt Nord
Það hefur verið nokkuð hljótt um Norrænu menningarmálaáætlunina þetta árið og BÍL ekki fregnað neitt sérstakt af störfum sérfræðingahópa áætlunarinar. Eini fulltrúi BÍL í sérfræðingahópum áætlunarinnar um þessar mundir er Gunnar Gunnsteinsson leikstjóri, en hann situr í sérfræðingahópi um ferðastyrki. BÍL stendur ekki að baki neinum fulltrúa í sérfræðingahópi um verkefnisstyrki, sem gerir tillögur um stærstu úthlutanirnar. . Í lok árs 2012 gekk mennta- og menningarmálaráðuneytið framhjá tillögum BÍL í þann hóp og skipaið Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóra varðveislu og stafrænnar endurgerðar hjá Landsbókasafni Íslands, í hópinn. Um þessar mundir er Gunnar Gunnsteinsson því eini fulltrúinn sem BÍL hefur átt þátt í að tilnefna í sérfræðingahópa Norrænu menningaráætlunarinnar KKN. Loks má geta þess að Ísland hefur ekki átt aðalfulltrúa í rekstrarstjórn KKN síðan í lok árs 2011, þegar Signý Ormarsdóttir menningarfulltrúi á Austurlandi hvarf af þeim vettvangi.
Stjórn BÍL hefur hvatt félaga sína til að fylgjast vel með málefnum KKN á heimasíðu áætlunarinnar og gegnum rafrænt fréttabréf, sem gefið er út reglulega.

Höfundarréttur
Forseti BÍL hefur, sem forseti European Council of Artists átt þess kost að taka þátt í starfi European Creative Alliance, sem er samstarsvettvangur um höfundarréttarmál myndaður af öllum stóru höfundarréttarsamtökum Evrópu. Hópurinn telur um 20 aðila og hefur komið saman reglulega frá upphafi 2013. Það verkefni sem hópurinn leggur mesta áherslu á um þessar mundir er að uppfræða frambjóðendur til Evrópuþingsins um höfundarréttarlega hagsmuni listamanna, en í vor verða kosningar til Evrópuþingsins og fara sterkir hópar hagsmunaaðila nú mikinn til að sannfæra frambjóðendur og þingmenn um að ómögulegt sé að hefta aðgengi almennings að höfundarréttarvörðu efni á netinu. Það er því við ramman reip að draga í þessari baráttu og mikilvægt að listafólk eigi sína málsvara við borið þar sem stefna í þessum margslnungna málaflokki er mótuð.

ECA – European Council of Artists
Forseti BÍL hefur nú starfað sem forseti ECA – European Council of Artists í tvö ár og er fátt að frétta af þeim samtökum annað en viðvarandi fjárskortur. ECA fékk því miður synjun á stuðningu úr Menningaráætlun ESB, en lögð hafði verið mikil vinna í umsókn samtakanna. Einkunnin sem ECA fékk fyrir umsóknina var að vísu mun hærri en síðast þegar sótt var um en nægði þó ekki til að tryggja stuðning. Þau verkefni sem hafa verið unnin á vetvangi ECA á árinu eru fyrst og fremst tengd höfundarréttarmálum þeim sem fyrr er getið og svo hefur ECA átt fulltrúa í viðræðum hagsmunaaðila innan ESB í tengslum við endurnýjaðar reglur sambandsins um svokallað fylgiréttargjald, sem er lögboðið gjald sem seljendum listaverka er gert að innheimta þegar um endursölu verka er að ræða. Chris Biddlecomb, fulltrúi í framkvæmdastjórn ECA hefur sinnt því starfi f.h. ECA.
Framkvæmdastjórn ECA mun á næstu vikum þurfa að taka ákvörðun um framtíð samtakanna, en skv lögum ECA þarf að halda aðalfund í síðasta lagi 9. maí nk. og mun þá skýrast hvort samtökin lifa áfram í einhverri mynd eða hvort þau verða hreinlega lögð niður.
ECA samstarfið hefur þó getið af sér hliðarverkefni sem tengist myndlist og starfsmaður ECA hefur annast. Þar er um að ræða samstarf norðurlandanna, Baltnesku landanna og Skotlands sem gengur út á það að breiða út þekkingu um MU-samninginn sænska, sem er lögbundinn í Svíþjóð og tryggir myndlistarmönnum greiðslur fyrir vinnu við að koma upp sýningum í söfnum og sýningarsölum, sem rekin eru fyrir opinbert fé. Í því verkefni nýtist undirbúningsvinna SÍM og samtaka myndlistarmanna á Norðurlöndunum og tekur formaður SÍM þátt í þeirri vinnu.

Listaháskóli Íslands – Samráðsvettvangur
Á árinu var starfandi starfshópur um aukin samskipti Listaháskóla Íslands við menningarstofnanir og starfandi listamenn. Vettvangurinn var settur á laggirnar að frumkvæði LHÍ, Félags um Listaháskóla og Bandalags íslenskra listamanna. Fulltrúar BÍL í starfshópnum voru Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Jón Páll Eyjólfsson. Hópurinn skilaði tillögum til stjórnar LHÍ 19. September og hafa þær verið til umfjöllunar hjá þeim aðilum sem áttu fulltrúa í hópnum síðan. Í desember sendi stjórn BIL stjórn Listaháskólans viðbrögð sín. Næstu skref í málinu verða tekin á næstunni þegar framkvæmdastjóri LHÍ, sem stjórnaði starfi hópsins, kallar aðila saman til fundar um mögulega framkvæmd, hlutverk og markmið formlegs samráðsvettvangs LHÍ.

Listahátíð í Reykjavík
Formenn aðildarfélaga BÍL eiga allir aðilda að fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík og kemur fulltrúaráðið saman til fundar árlega þar sem reikningar síðasta árs eru kynntir, rekstrarstaða og áform þeirrar hátíðar sem framundan er í það og það skiptið. Einatt þegar ársreikningar hátíðarinnar eru kynntir á fulltrúaráðsfundum hafa fulltrúar listamanna leitað upplýsinga um þann lið reikninganna sem gerir grein fyrir þóknunum til listamana enda hlutverk heildarsamtaka listafólks að fylgjast með kjörum þeirra á hverjum tíma. Á fulltrúaráðsfundi þeim sem haldinn var í Höfða 11. október 2013 vakti það athygli fulltrúa listamanna að liðurinn „Þóknun til listamanna“ í reikningum hátíðarinnar hafði lækkað um tæpl. 13,2 milljónir króna milli áranna 2011 og 2012; var kr. 22.010.242.- í reikningum 2011 en kr. 8.817.999.- í reikningum ársins 2012. Óskað var skýringa á þessari lækkun, en ekki fengust ásættanleg svör. Stjórn BÍL hefur því sent stjórnanda hátíðarinnar formlegt erindi þar sem óskað er upplýsingaum ástæður þess að þóknun til listamanna lækkaði um tæpl. 13,2 milljónir króna í reikningum Listahátíðar í Reykjavík milli hátíðanna 2011 og 2012. Svar hefur ekki borist.

Önnur störf forseta
Á árinu sinnti forseti fundum með Norrænu listamannasamtökunum, Nordisk Kunstnerråd, en þau funduðu í september í Stokkhólmi. Á þeim fundi var formlega gengið frá skipan forseta BÍL í stjórn Norrænu menningarstofnunarinnar í Róm, Circolo Scandiavo, en Nordisk kunstnerråd á þar einn fulltrúa. Nú í byrjun febrúar sat forseti sinn fyrsta stjórnarfund. Þá var forseti fulltrúi á Doxpro ráðstefnu kvikmyndagerðarmanna í heimildamyndageiranum, sem haldin var í tengslum við heimildamyndahátíð í St. Pétursborg í september. Forseti flutti þar erindi af sjónarhóli áhorfenda og unnenda heimildarmynda. Þá hefur forseti tekið þátt í fjölda funda hér innanlands á árinu og veitt ráðgjöf þeim sem leita vilja til heildarsamtaka listamanna. Starfið hefur verið afar gefandi og þótt stundum sé ansi hryssingslegur mótvindur þá eru ánægjustundirnar í starfinu fleiri en hinar. Til marks um það er metnaðarfull starfsáætlun sem stjórn BÍL leggur fyrir þennan fund og markað upphaf hins nýja starfsárs 2014.