Í dag bauð stjórn BÍL nýráðnum dagskrárstjórum Ríkisútvarpsins til fundar í Iðnó, þeim Margréti Marteinsdóttur og Skarphéðni Guðmundssyni. Markmið fundarins var að bjóða þau velkomin til starfa, fá að heyra sjónarmið þeirra og áform, ásamt því að kynna fyrir þeim helstu áherslur BÍL í málefnum RÚV. Stjórn BÍL lagði fram minnisblað á fundinum, sem einnig var inngangsávarp forseta:

Ríkisútvarpið er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og að þeirri stofnun verður aldrei nógu vel búið. Á RÚV hvílir sú skylda að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Það hefur RÚV svo sannarlega gert með vandaðri dagskrá í gegnum tíðina. Nægir að nefna afbragðsgott Útvarpsleikhús á sunnudögum, Kilju og Djöflaeyju – þáttagerð sem fangar listirnar og miðlar til þjóðar. Landinn og fleiri góðir þættir halda utan um mannlífið. Þannig ber að þakka margt gott sem daglega er gert í þessari menningarstofnun.

Tengsl við nágrannalöndin í norðrinu eru ræktuð með kaupum á skandinavísku efni og mætti auka hlut þess í dagskránni til muna til mótvægis við ódýrt og verksmiðjuframleitt léttmeti sem hefur djúpstæð og mótandi áhrif á samfélög.

Árum saman hafa listamenn og aðrir fulltrúar skapandi atvinnugreina kvartað undan því að það vanti leikið, innlent efni í sjónvarpsefni. Það er enda sá spegill sem við erum þakklátust fyrir og mótar þjóðarvitund og samkennd. Þarna þarf að lyfta Grettistaki og tíminn flýgur frá okkur. Kynslóðir alast upp við að spegla sig í erlendum veruleika. Það getur ekki verið markmið RÚV og vissulega er það ekki hlutverk stofnunarinnar.

Um hverja helgi eru glötuð tækifæri í stærstu skólastofu landsins. Á laugardags- og sunnudagsmorgnum frá 8:00 – 11:00 sitja þúsundir barna, mörg eftirlitslaus, yfir sjónvarpinu. Þarna væri hægt að leggja dásamlega hluti inn, leyfa íslenskri æsku að spegla sig í íslenskum veruleika, leggja inn orð og myndir, leik og dans, skemmtilega og skapandi hluti. Samstarf við grunnskóla og skapandi greinar væri borðleggjandi.

Og víkjum þá að hornsteini stofnunarinnar, sem þó hefur virst vera olnbogabarn til skamms tíma, Rás eitt. Þar fækkar í starfsliðinu. Dagskrárgerðarmenn Rásar eitt vinna stórkostlegt starf við þröngan kost. Þar hefur mátt ganga að gæðaefni vísu en hlustandinn finnur sárlega fyrir því þegar kreppir að. Nú kveður svo rammt að endurtekningum að þeir sem mest hlusta eru farnir að ókyrrast all verulega. Fjárhagi er kennt um, en að sjálfsögðu snýst þetta allt um forgangsröðun og mætti halda að Rás eitt ræki lest.

Til að efla menningarhlutverk RÚV væri þjóðráð að stofna sérstaka menningarfréttadeild, sambærilega við íþróttafréttadeild, eins og þekkist á ýmsum stöðvum sem við berum okkur saman við- BBC og norðurlandastöðvarnar. Þær hafa á að skipa sérstökum menningarfréttamönnum sem dreifa sér um dagskrána í útvarpi og sjónvarpi. Þannig fengi menningarlífið í landinu þann sess sem því ber að kveldi dags og stofnunin endurspeglar samninginn við þjóð sína og menningarlegan metnað.

Í hnotskurn er afstaða BÍL sú að RÚV sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og það sé nauðsynlegt að stofnunin fái sinnt lögbundnu hlutverki sínu af metnaði. BÍL telur það sameiginlegt hagsmunamál listamanna og stjórnenda RÚV að vel sé að RÚV búið, faglegur metnaður sé þar í hávegum hafður og innlend dagskrárgerð verði efld á öllum rásum útvarps og sjónvarps.

Um leið og stjórn BÍL býður nýja dagskrárstjóra velkomna til starfa og óskar þeim heilla í starfi, bjóðum við fram krafta okkar til liðsinnis við framtíðarstefnumótun og uppbyggingu kraftmikillar dagskrár RÚV.