Bandalag íslenskra listamanna lýsir vonbrigðum með framkomið frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, sem ætlað er að breyta nýjum lögum um Ríkisútvarpið – fjölmiðil í almannaþágu. Það er mat BÍL að frumvarpið stefni í hættu áformum um eflingu hins lýðræðislega, menningarlega og samfélagslega hlutverks RÚV.

Samkvæmt þeim lögum, sem Alþingi samþykkti 13. mars sl., og samþykkt var af þingmönnum allra flokka nema Sjálfstæðisflokks, er gert ráð fyrir fjölgun stjórnarmanna og talsverðum breytingum á fyrirkomulagi við val stjórnarinnar. Með því að hverfa frá hugmyndum nýju laganna um valnefnd er horfið frá eftirsóknarverðri aðferð við val stjórnarmanna, sem byggir á valddreifingu í þágu almannahagsmuna. Lögin gera ráð fyrir aðkomu BÍL og samstarfsnefndar háskólanna, auk þess sem þau færa starfsmönnum stofnunarinnar fulltrúa í stjórn. Rökin fyrir þessum breytingum voru þau að með þátttöku fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna í valnefnd verði tryggt að fulltrúi með þekkingu á menningarmálum verði valinn í stjórn. Á sama hátt er talið að fulltrúi samstarfsnefndar háskólanna sjái til þess að í stjórn veljist fulltrúi með þekkingu á fjölmiðlamálum. (tilvitnun í upphaflegt frumvarp að núgildandi lögum)

Með nýju frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra yrði horfið frá þeirri mikilvægu breytingu að skapa fjarlægð við hið pólitíska vald á Alþingi. Þess í stað yrðu pólitísk tengsl stjórnarmanna fest í sessi með afgerandi hætti þar sem þeim væri ætlað að endurspegla valdahlutföllin á Alþingi. Slíkt væri mikil öfugþróun og í hróplegu ósamræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Það sem gerir tillögur mennta- og menningarmálaráðherra enn verri, er að hlutverk stjórnar samkvæmt nýju lögunum er talsvert breytt og víðfeðmara en samkvæmt eldri lögum. Sú sjö manna stjórn sem kosin yrði skv. tillögum ráðherrans hefði því mun breiðara hlutverk en tíðkast hefur til þessa. Þannig væri hætta á íhlutun frá pólitískt skipuðum stjórnarmönnum um innri mál RÚV mun meiri en verið hefur á grundvelli eldri laga.

Það er sannfæring stjórnar Bandalags íslenskra listamanna að ljúka þurfi innleiðingu hins nýja fyrirkomulags við val á stjórn RÚV, í því felist fjölmörg tækifæri til aukinnar fagmennsku við stjórn þessarar mikilvægu menningarstofnunar. Því skorar BÍL á ráðherra mennta- og menningarmála að draga fram komið frumvarp til baka.