Í dag fundaði stjórn BÍL með skóla- og frístundaráði Reykjavíkur. Tilgangur fundarins var að efna til samtals milli stjórnmálamanna, embættismanna sviðsins og listamanna um það sem betur mætti fara í listmenntun og listuppeldi skólabarna í Reykjavík. Minnispunktar þeir sem hér fara á eftir eru byggðir á reynslu listamanna af starfi með kennurum og nemendum í grunnskólum borgarinnar, ekki síst í gegnum verkefni á borð við Tónlist fyrir alla, Skáld í skólum og Litróf listanna. Einnig er sótt í ýmsar skýrslur um list- og menningarfræðslu og stefnumótun stjórnvalda í menntamálum (sjá upptalningu aftast í skjalinu). Ein norsk skýrsla um “Skólasekkinn” hefur einnig verið höfð til hliðsjónar við gerð þessa minnisblaðs.

Eftirfarandi punktar voru grundvöllur umræðunnar á fundinum:

Tónlist fyrir alla
Verkefni, sem hófst 1995 fyrir tilstilli Norðmanna, sem gáu íslenskum grunnskólum peningaupphæð í tilefni lýðveldisafmælisins 1994, sem skyldi notuð til að efla tónlistar- og menningarstarf í grunnskólum. Gert var ráð fyrir að íslensk stjórnvöld kæmu með fjármuni á móti til að tryggja að sem flest grunnskólabörn á landinu fengju notið gjafarinnar. Fyrst eftir að Tónlist fyrir alla fór af stað tóku sveitarfélögin virkan þátt í eflingu þess en á seinni árum hefur dregið úr möguleikum skólanna til að taka þátt. Síðan 1999, þegar þjóðargjöf Norðmanna naut ekki lengur við, hefur upphæðin á fjárlögum ríkisins dregist jafnt og þétt saman og síðustu tvö ár hefur fjárframlag til verkefnisins verði þurrkað út úr fjárlagafrumvarpinu, en verið sett inn milli umræðna m.a. fyrir þrýsting frá BÍL. Á fjárlögum ársins 2013 nemur framlag til verkefnisins kr. 6 milljónum og engin fyrirheit eru um áframhaldandi stuðning ríkisins við verkefnið. Fjöldi árlegra tónleika hefur verið á bilinu 80 til 330 í fjölda skóla vítt og breitt um landið fyrir tugþúsudir barna. Skólar á höfuðborgarsvæðinu hafa alltaf sýnt verkefninu mikinn áhuga, en á síðustu árum hefur þrengri fjárhagur skólanna haft merkjanleg áhrif. Nýlega var verkefninu skipuð ný stjórn, sem hefur valið 7 tónlistarhópa til að vinna að tónleikum í skólum á yfirstandandi og næsta skólaári.

Skáld í skólum
Bókmenntaverkefnið Skáld í skólum hóf göngu sína haustið 2006 og er hluti af starfsemi Höfundamiðstöðvar Rithöfundasambands Íslands, sem hefur um langt árabil unnið að skipulagningu höfundaheimsókna í skóla landsins. Verkefnið náði strax að festa sig í sessi þar sem grunnskólarnir tóku því fagnandi. Eftirspurn hefur farið vaxandi ár frá ári og stöðug þróunarvinna á sér stað en alls hafa rúmlega 30 mismunandi dagskár verið kynntar og fluttar í rúmlega hundrað skólum. Á liðnu ári hófst samstarf við Reykjavík Bókmenntaborg sem reiknað er með að haldi áfram og ýti enn frekar undir þann vaxtarsprota sem verkefninu er ætlað að vera. Skáld í skólum nýtur nú fjárhagsstuðnings frá menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg, en hefur einnig hlotið þróunarstyrki frá ýmsum menningarsjóðum. Með árlegum stuðningi ríkis og borgar er hægt að bjóða skólunum fjölbreyttar og spennandi rithöfundaheimsóknir á viðráðanlegu verði.

Litróf listanna
Árið 2007 hafði BÍL frumkvæði að verkefninu Litróf listanna, sem þróað var í samstarfi við Hlíðaskóla, móðurskóla í listum. Verkefnið byggði m.a. á fyrirmynd frá Norðmönnum “Den Kulturelle Skolesekken” og gerði ráð fyrir heimsóknum listamanna í grunnskólana þar sem boðið var upp á listviðburði af ýmsu tagi. 7 grunnskólar í Reykjavík voru heimsóttir á einu skólaári. Vandað var til allrar framkvæmdar verkefnisins, það unnið í samstarfi listafólks og skólafólks, tekið var tillit til nýjunga og þarfa í skólastarfi og gert ráð fyrir eftirfylgni af halfu kennara með því að listviðburðunum fylgdi kennsluefni. Lokaskýrsla verkefnisins kom út á vordögum 2009 og voru allir þátttakendur sammála um mikilvægi þess að verkefnið yrði þróað áfram. Af því hefur þó ekki orðið vegna erfiðleika við að fjármagna verkefnið.

Tónlistarskólarnir
BÍL hefur fylgst náið með framvindunni í málefnum tónlistarskólanna og tónlistarmenntunar á Íslandi. Í feberúar 2011 sendi aðalfundur BÍL frá sér harðorðaða ályktun (sjá heimasíðu https://bil.is/alyktun-bil-um-tonlistarmenntun) þar sem skorað var á yfirvöld skólamála hjá ríki og sveitarfélögum að standa vörð um tónlistarskólana í landinu og á vordögum 2011 fagnaði BÍL samkomulaginu sem þessir aðilar gerðu með sér um skiptingu kostnaðar við tónlistarnám. En samkomulagið virðist ekki hafa skilað því sem til var ætlast og í ársskýrslu BÍL fyrir starfsárið 2011 segir: Á vordögum var undirritað samkomulag milli ríkis og borgar þar sem ríkið ákvað að leggja árlega fram 480 m.kr. vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum, á móti skuldbundu sveitarfélögin sig til að taka yfir ný verkefni frá ríki sem nemur 230 m.kr. Samkomulagið átti því að skila 250 m.kr inn í tónlistarskólana, til viðbótar við það sem áður var greitt til þeirra. Því miður hefur þetta ekki dugað til að tryggja rekstrargrundvöll skólanna vegna enn frekari niðurskurðar í rekstri sveitarfélaganna.
BÍL leggur áherslu á mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög finni leiðir til að ná markmiðum samkomulagsins frá 2011 og er reiðubúið að leggja aðilum lið við leit að lausnum.

Dansskólarnir
BÍL hefur lagt sig fram við að beina sjónum ráðamanna að mikilvægi danskennslu meðal barna og ungmenna. Dansnám fer að mestu fram í einkareknum skólum, sem hafa að mörgu leyti svipaða stöðu og tónlistarskólarnir, þó um danskennsluna gildi engin lög sambærileg við lög um stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985. Dansarar og danskennarar hafa gert sér vonir um að stjórnvöld taki til skoðunar aukinn stuðning við danskenslu. Menntamálayfirvöld hafa haft góð orð um að farið verði í nauðsynlega vinnu við það verkefni þegar málefni tónlistarskólanna verði komin í farsælan farveg. Það er mat BÍL að borgaryfirvöld þurfi einnig að skoða stöðu dansskólanna í borginni og móta stefnu um samstarf við þá.

Skólasýningar í Bíó Paradís
Nú þegar að Bíó Paradís er á þriðja starfsári hefur enn ekki tekist að uppfylla stefnumörkum Menntamálaráðuneytisins fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu þar sem stefna ber að innleiðingu kvikmyndalæsis í námskrá grunnskóla. Þar er bent á að myndlæsi sé forsenda skilnings fjölmiðlum og ýti undir gagnrýna hugsun. Heimili Kvikmyndanna – Bíó Paradís hefur boðið uppá kennslustundir í kvikmyndalæsi undir handleiðslu Oddnýjar Sen kvikmyndafræðings síðan 2010 fyrir einn styrk upp á 300 þúsund. Á þeim tíma hafa 52 skólasýningar fyrir grunnskólabörn verið haldnar í Bíó Paradís og þær hafa sótt 5964 börn. Þó það sé yfirlýstur vilji Heimilis Kvikmyndanna að stuðla að kvikmyndafræðslu fyrir börn og unglinga, þá er ljóst eftir starfið síðustu tvö ár, að því miður verður ekki hægt að halda slíkum sýningum áfram án samkomulags eða þjónustusamnings við Reykjavíkurborg og nærliggjandi sveitarfélög þar sem að Bíó Paradís er rekið með halla. Það er einlæg ósk okkar að leitað verði allra leiða til að ná samkomulagi við Reykjavíkurborg til að geta haldið þessu mikilvæga starfi áfram.

Tillögur Anne Bamford
BÍL hefur tekið þátt í nokkrum fjölda stefnumótunarfunda á vegum opinberra aðila þar sem tillögur skýrslu Anne Bamford List- og menningarfræðsla á Íslandi (2009) hafa verið til umfjöllunar og þær jafnan verið taldar mikilvægar fyrir eflingu listmenntunar í íslenskum skólum. BÍL tekur undir mikilvægi þess að tillögum skýrslunnar verði hrint í framkvæmd og leggur áherslu á samstarf ríkis og sveitarfélaga við þá vinnu. Skólayfirvöld í Reykjavík gætu tekið frumkvæði í eftirfylgni tillagnanna m.a. með því að innleiða tiltekna þætti þeirra sem allra fyrst, t.d. með því að auka möguleika barna með sérþarfir á listfræðslu og námi gegnum listir, með því að þróa aðferðir til að meta gæði listfræðslu og safna upplýsingum um vel heppnuð verkefni innan reykvískra grunnskóla þar sem listir hafa verið notaðar með beinum hætti við kennslu almennra námsgreina.

Den Kulturelle Skolesekken
BÍL hefur fylgst náið með því hvernig frændur okkar Norðmenn hafa þróað samstarf listamanna og skóla gegnum verkefnið Den Kulturelle Skolesekken. Á fjárlögum norska ríkisins eru rúmlega 160 milljónir norskra króna ætlaðar í verkefnið, sem miðar að því að efla listuppeldi ungs fólks á skólaaldri (til 18 ára) með því að tryggja þeim fjölbreytt framboð list- og menningartengdra viðburða í tengslum við skólastarf. Verkefnið hefur þróast mjög mikið frá upphafi og ber síðasta skýrsla norska menningarmálaráðuneytisins um verkefnið það með sér að enn sé verið að betrumbæta framkvæmdina og vinnulagið. BÍL hvetur eindregið til þess að farið sé að fordæmi Norðmanna með því að koma á sambærilegu verkefni í íslenskum skólum. Íslenskt skólafólk þekkir vel til verkefnisins, hingað hafa komið norskir sérfræðingar til að uppfræða skólafólk um þróun þess, t.d. Jorunn Spord Borgen frá NIFU (Norsk Institutt for studier av Innovasjon, Forskning og Utdanning) 2009. Með því að byggja ofan á reynsluna af þeim verkefnum sem starfrækt hafa verið á Íslandi telur BÍL mikilvæg tækifæri geta falist í að skoða nánar aðferðir Norðmanna

Atriði sem lögð er áhersla á í Den Kulturelle Skolesekken:

  • Útfærsla og inntak verkefnisins þarf að taka mið af þeim námskrám sem stýra skólastarfi.
  • Verkefnið þarf að byggja á samskiptum skóla /kennara og menningarstofnana/listamanna
  • Nauðsynlegt er að takmarka áhrif stjórnmálamannanna við val listtengdra viðburða sem boðið er upp á undir hatti verkefnisins.
  • Gæði listviðburðanna þarf að meta í samhengi við möguleika kennara og nemenda á að nýta reynsluna áfram í skólastarfi.
  • Miða þarf við að nálgast nemandann bæði sem njótanda lista og líka sem skapandi einstakling.
  • Tryggja þarf samfellu í verkefnið, að það verði sjálfsagður hluti af skólastarfi meðan skólaskylda varir.
  • Til að auka fagmennsku verkefnisins (almennt) er nauðsynlegt að bæta skilning á alla kanta; ráðamenn þurfa að bera virðingu fyrir forræði skólanna á innra starfi og vali á verkefnunum, listamenn þurfa að bera virðingu fyrir skólastarfinu og nálgun kennaranna og skólarnir þurfa að bera virðingu fyrir sköpun listamannanna og virða aðferðir þeirra við miðlun verka sinna.
  • Í sameiningu þurfa ráðamenn og skólastjórnendur að treysta kennurum og listamönnunum til að finna aðferðir til að þróa þessi samskipti með það að markmiði að verkefnin skili enn meiri árangri fyrir nemendurna.
  • Taka þarf mið af niðurstöðu könnunar meðal nemenda 2009 um reynsluna af verkefninu; þeir segjast hafa lært að njóta lista en mikilvægasta reynslan sé af beinni þátttöku í verkefnum og vinnustofum (workshops).

Reykjavík 9. janúar 2013,
f.h. stjórnar BÍL – Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

 

Til grundvallar þessu minnisblaði liggja eftirtaldar skýrslur:
List- og menningarfræðsla á Íslandi (2009) e. Anne Bamford
útg. Mennta- og menningarmálráðuneytið
http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/5978

Aðalnámskrá grunnskóla (2011)
útg. Mennta- og menningarmálaráðuneytið
http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-grunnskola/

Litróf listanna – lokaskýrsla 2009
útg. Bandalag íslenskra listamanna
https://bil.is/wp-content/uploads/2009/10/Litr%C3%B3f-listanna-lokask%C3%BDrsla-09.pdf

Stefna Reykjavíkur í menntamálum (2008)
útg. Reykjavíkurborg
http://saemundarskoli.is/images/stories/file/Stefna_MSR_2008.pdf

Samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu (2011) http://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf/Samkomulag-um-um-stefnumorkun-fyrir-islenska-kvikmyndagerd-og-kvikmyndamenningu-arin-2012-2015.pdf

Menningarlandið 2010 – Niðurstöður
útg. Mennta- og menningarmáraráðuneytið
http://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf/Nidurstodur-Menningarlandid-2010.pdf

A Cultural Rucksack for the Future (2008)
útg. Norska menningarmálaráðuneytið
http://www.regjeringen.no/pages/2125405/PDFS/STM200720080008000EN_PDFS.pdf