Í dag sendi stjórn BÍL allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis svohljóðandi umsögn um frumvarp mennta- og menningarmálaráðerra um RÚV ohf en málið lýtur að vali stjórnar RÚV:

Stjórn BÍL hefur ævinlega látið sér annt um Ríkisútvarpið og lítur á stofnunina sem eina af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er því mikilvægt að allt lagaumhverfi RÚV ohf sé til þess fallið að auðvelda stofnuninni að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Á síðasta þingi samþykktu þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokks nýja löggjöf um Ríkisútvarpið. Sú lagasmíð hafði verið lengi í undirbúningi og á endanum náðist um hana nokkuð góð sátt, enda höfðu flestir, sem láta sig málefni stofnunarinnar varða, komið með einhverjum hætti að málum.

Stjórn BÍL furðar sig á fram komnu frumvarpi, þar sem í engu er tekið mið af því breytta hlutverki stjórnar RÚV ohf, sem nýju lögin gera ráð fyrir. Það hlutverk er ekki sambærilegt við hlutverk stjórnar samkvæmt eldri lögum nr. 06/2007, þar sem hlutverkið er einungis rekstrarlegs eðlis, en í nýju lögunum nr. 23/2013 er hlutverkið í mun meira mæli dagskrárlegs eðlis. Það að skipa pólitíska stjórn með slíkt hlutverk er fáheyrt og brýtur í bága við öll megin sjónarmið í nágrannalöndum okkar, þar sem áhersla er lögð á eldvegg milli hins pólitíska valds og dagskrárvalds ríkisfjölmiðils. Það sjónarmið, hins vegar, að efla dagskrárlegt vald stofnunarinnar er komið til af þeirri þörf að stofnunin standi sterk faglega og að stjórn hennar sé komin undir hæfum einstaklingum á fjölbreytilegum sviðum menningar, en ekki bara einum útvarpsstjóra. Stjórn BÍL hvetur allsherjar- og menntamálanefnd til að bera þá aðferð sem frumvarpið mælir fyrir um, við fyrirkomulag á vali stjórnar í sambærilegum miðlum á Norðurlöndunum og í Bretlandi, áður en nefndin veitir málinu brautargengi.

Þá vekur stjórn BÍL athygli nefndarinnar á því að hugmyndafræði nýju laganna gengur út á að valnefndin komi sér saman um fimm fulltrúa í stjórn RÚV ohf. Það gætti misskilnings hvað þetta varðar í ræðum þingmanna við fyrstu umræðu um málið, þar sem látið var í veðri vaka að BÍL myndi skipa einn stjórnarmann, Samstarfsnefnd háskólanna einn stjórnarmann og Allsherjar- og menntamálanefnd þingsins myndi skipa þrjá stjórnarmenn. Slík aðferðafræði fer ekki saman við þá röksemdafærslu sem lesa má úr greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 23/2013. Einnig er rétt að geta þess að með því að fara að tillögu ráðherrans er fulltrúi starfsmanna , sem lengi hafa óskað eftir því að sjónarmið þeirra heyrist við stjórnarborð stofnunarinnar, þurrkaður út með öllu. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið hvetur stjórn BÍL allsherjar- og menntamálanefnd til að hverfa frá því að grípa inn í löggjöfina eins og Alþingi samþykkti hana á síðasta þingi og leyfa þeirri hugmyndafræði, sem lögin byggja á, að ganga í gildi. Hún er prófsteinn á það hvort þjóðinni á að lánast að standa vörð um ríkisútvarp í almannaþágu og hvort okkur lánast að skipa faglega stjórn þessarar mikilvægu menningarstofnunar.