Mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir boðaði stjórn BÍL til árlegs samráðsfundar í dag. Hér fer á eftir minnisblað BÍL, sem lagt var fram á fundinum:

Starfslaunasjóðir listamanna og verkefnasjóðir
Nýskipaður starfshópur um verkefnasjóði hefur það mikilvæga hlutverk að skoða uppbyggingu verkefnatengdra sjóða á sviði lista og menningar. Þar gefst kærkomið tækifæri til að skoða m.a. hugmyndir um nýjan sviðslistasjóð og kanna kosti og galla þess að koma á svipuðu fyrirkomulagi varðandi sviðslistir og gildir um stuðning við framleiðslu kvikmynda gegnum Kvikmyndasjóð. Einnig þarf að skoða nýja sjóði myndlistar og hönnunar og leita leiða til að draga úr umsýslukostnaði sjóðanna. Þá þarf að tryggja að Bókasafnssjóður höfunda og Bókmenntasjóður verði efldir áfram, en framlag til þeirra stóð lengi í stað þar til núna á yfirstandandi fjárlagaári.
Samhliða eflingu verkefnatengdra sjóða er mikilvægt að stjórnvöld geri áætlun um fjölgun mánaðalauna í launasjóðum listamanna á næstu árum auk þess sem brýnt er að endurskoða upphæð mánaðalaunanna og möguleikann á að fólk eigi val um verktakagreiðslur eða launagreiðslur.

Upplýsingar um þróun fjárframlaga
Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi opinbers stuðnings við listir og menningu á síðustu tveimur árum. BÍL hefur hvatt til þeirra breytinga og stutt þær. Nú er hins vegar svo komið að nánast ómögulegt er að gera samanburð á framlögum stjórnvalda til sjálfstæðrar starfsemi listafólks frá einu ári til annars. Brýnt er að ráðuneytið bæti úr þessum ágalla og gefi reglulega út talnaefni sem sýni með skilmerkilegum hætti þróun opinbers stuðnings við listir og menningu. Meðan talnaefni af þessu tagi er ekki aðgengilegt er tilhneiging til að stýra fjárveitingum til stórra verkefna, sem stjórnvöld hafa styrkt í áraraðir t.d. þátttaka Íslands í Feneyjatvíæringnum, inn í verkefnatengda sjóði á borð við Myndlistarsjóð. Slíkt getur varla verið meiningin með stofnun Myndlistarsjóðs, enda væri þá helmingur sjóðsins á hverju ári eyrnamerktur Feneyjatvíæringnum.

Myndlistartengdar gjaldskrár
Mikilvægt er að tryggja myndlistarmönnum og myndhöfundum greiðslur fyrir að sýna í söfnum og galleríum, sem rekin eru með opinberum stuðningi, enda óásættanlegt að allir sem starfa við uppsetningu og frágang sýninganna fái greiðslur nema listamaðurinn. BÍL hvetur stjórnvöld til að fara að dæmi Svía og gera samning við myndhöfunda um samningseyðublað og gjaldskrá vegna sýningarhalds og greiðslu kostnaðar.
Einnig er mikilvægt að stjórnvöld semji við myndlistarmenn um höfundarréttarþóknun vegna útlána safna á verkum úr safneign. Hraða þarf gerð slíks samnings við Myndstef á grundvelli 25.gr. höfundalaga, en Myndstef hefur þegar sent ráðuneytinu drög að slíkri gjaldskrá.

Uppbygging danslistarinnar
Mikilvægt er að ráðherra hlutist til um grunnmenntun í listdansi á Íslandi og ákveði með hvaða hætti þróa skuli enn frekar háskólanám í greininni. Kallað hefur verið eftir því að fram fari gæðamat á starfsemi listdansskóla í landinu (þeirra sem kenna samkvæmt námsskrá) og er þörf á atbeina ráðherra í þeim efnum. Grunndeildir þessara skóla hafa undanfarin ár aðeins fengið málamyndagreiðslur frá ríkinu þar sem ekki hefur samist um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. BÍL hvetur stjórnvöld til að tryggja farsæla niðurstöðu þeirra viðræðna hið snarasta.
Þá ítrekar BÍL fyrri sjónarmið um þörfina á að efla danslistina svo hún hljóti sambærilegan sess og aðrar listgreinar og hvetur stjórnvöld til að styðja hugmyndaríkt og kraftmikið danssamfélagið m.a. með því að tvinna saman starfsemi Íslenska dansflokksins og Dansverkstæðis í Danshúsi, eins og kallað er eftir í dansstefnu FÍLD 10/20.

Aukin framlög til kvikmyndagerðar
BÍL fagnar hækkun opinberra framlaga til kvikmyndagerðar með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, en fer þess á leit við stjórnvöld að þau tryggi áframhaldandi stuðning við greinina með því að setja hækkanirnar inn í gildandi samkomulag við kvikmyndagerðarmenn. Mikil uppbygging stendur nú yfir, en til að koma í veg fyrir áfall á borð við það sem greinin varð fyrir 2010 þarf að endurnýja gildandi samkomulag við greinina, sem tryggir stöðugleika og áframhaldandi öflugan stuðning.

Kvikmynda- og myndmiðlalæsi
Í samræmi við endurnýjaðar námsskrár ber stjórnvöldum að tryggja kennslu í kvikmynda- og myndmiðlalæsi í grunn og framhaldsskólum. Myndmál er orðið jafn mikilvægt og ritmál í nútímasamfélagi og því mikilvægt að börn og ungmenni fái tæki til að meta og greina. Gríðarleg þörf er fyrir námsefni, bæði til að mennta kennara og nemendur til að við náum að fylgja þróuninni í nágrannalöndum okkar. Heimili kvikmyndanna í Bíó Paradís er kjörinn samstarfsaðili um slík markmið.

Tónlistarskólarnir
Listafólk vænti mikils af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga, sem gert var í maí 2011. Nú er ljóst að vankantar eru á framkvæmd samkomulagsins. Stjórn BÍL hvetur yfirvöld til að skoða vel ábendingar skólastjóra tónlistarskólanna í Reykjavík, sem telja að aðferð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við skiptingu framlaganna sé ábótavant, framlagið þurfi að taka mið af raunkostnaði skólanna svo þeir geti áfram boðið upp á nám sem stenst gæðakröfur og námsskrá.

Safnamál;
Áríðandi er að gera átak í safnastarfi tengt listum og skapandi greinum. Gera þarf úttekt á stöðu þeirra safna sem um ræðir, tryggja tengsl þeirra við geirann, höfuðsöfn og háskólaumhverfið.
Kvikmyndasafn. Nú eru framköllunarverkstæði í Evrópu að hætta störfum, þá er hætt við að frumgerðir margra íslenskra kvikmynda glatist. Mikilvægt er að bregðast hratt við til að bjarga þeim og koma þeim á stafrænt form til varðveislu. Þær 10 milljónir sem tilgreindar eru í samkomulagi greinarinnar við stjórnvöld til stafrænnar yfirfærslu duga skammt. BÍL leggur til að Kvikmyndamiðstöð og Kvikmyndasafni verði falið að gera áætlun um með hvaða hætti sé hægt að bjarga þessum verðmætum og tryggja varðveislu kvikmyndarfsins til frambúðar.
Leikminjasafn. Opinber framlög til Leikminjasafns hafa dregist saman og eru nú mun lægri en til sambærilegra safna. Stjórnendur safnsins hafa gert sér vonir um að koma safninu fyrir í húsnæði Loftskeytastöðvarinnar við Brynjólfsgötu og í tengslum við það unnið að því að stofna hollvinasamtök til að efla fjárhagsgrundvöll safnsins. Atbeina ráðherra þarf til að þær áætlanir geti gengið eftir.
Safn RÚV. Mikilvægt er að tryggja skráningu þess menningararfs sem safn RÚV hefur að geyma. Safnið þarf að vera aðgengilegt og að stunda öfluga miðlun þessa mikilvæga arfs. Slík miðlun getur farið fram í samstarfi við Landsbókasafn og önnur söfn tengd listum og skapandi greinum.

Framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskóla Íslands
Þegar LHÍ var stofnaður, fyrir nær 15 árum, var stefnt að því að Íslendingar eignuðust öfluga menntastofnun á sviði æðri mennta á sviði lista, þar sem samlegð listgreinanna myndi móta námið og gera útkomuna sérstaka. Þessi áform hafa ekki gengið eftir, enn er skólinn til húsa á þremur stöðum í borginni. Það skiptir þróun listmennta í landinu gríðarlega miklu máli að stjórnvöld taki ákvörðun um framtíðarstaðsetningu Listaháskóla Íslands og geri tafarlaust áætlun um byggingu framtíðarhúsnæðis.

Akademía og heiðurslaun
Sjónarmið BÍL um akademíu listamanna eru þau sömu og áður. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji þá grunnhugmynd að reynsla og færni eldri listamanna, þeirra sem á hverjum tíma njóta heiðurslauna Alþingis, verði nýtt með skipulögðum hætti og að þeim verði falin ábyrgð á að velja nýja meðlimi akademíunnar. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að loksins skuli hafa verið sett lög um heiðurslaun listamanna (lög nr. 66/2012), en mikilvægt er að breyta þeim lagaramma sem fyrst, þannig að fagleg sjónarmið ráði því hverjir njóta heiðurslauna en ekki pólitísk.

Starfsumhverfi skapandi greina
BÍL fagnar því að Alþingi skuli hafa samþykkt menningarstefnu þá sem ráðherra lagði fram í haust og að nú skuli búið að stofna teymi innan stjórnsýslunnar sem vinnur að bættu starfsumhverfi skapandi greina á grundvelli skýrslunnar Skapandi greinar; sýn til framtíðar. Þá er hönnunarstefna í burðarliðnum og breyting á lagaumhverfi sviðslista. Í því sambandi vill BÍL undirstrika mikilvægi þess að Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista verði komið á legg í samstarfi við Leiklistarsambandið.
Mikilvægt að ráðuneytið geri áætlun um eftifylgni þeirrar stefnumótunar sem unnið hefur verið að. Það á einnig við um stefnu í markaðssetningu lista og skapandi atvinnugreina á erlendri grund gegnum miðstöðvar listgreina/hönnunar og Íslandsstofu. Í áætlanagerð Íslandsstofu þarf að vera skýrt hversu miklum fjármunum skuli varið til lista og menningar og að fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum hafi áhrif á forgangsröðun og skiptingu fjármuna á einstök verkefni. Mikilvægt er að fulltrúi ráðuneytisins í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum beiti sér í þeim efnum.

Fjárhagsleg afkoma BÍL
Ríkið hefur stutt starfsemi BÍL með rekstrarframlagi, sem hefur skipt sköpum varðandi vinnu að hagsmunamálum listamanna. Í ár er framlagið kr. 2,4 milljónir og er það svipuð upphæð og var fyrir efnahagshrunið 2008. Það er mikilvægt fyrir störf BÍL að framlag opinberra aðila haldi verðgildi sínu frá ári til árs, því er þess óskað að framlagið 2014 verði sambærilegt að verðgildi og var fyrir hrun. Minnt er á að BÍL samanstendur af 14 fagfélögum listafólks, sem hafa innan sinna vébanda um 4 þúsund listamenn og BÍL er einn af lykilráðgjöfum stjórnvalda á sviði lista og menningar.