Systursamtök Bandalags íslenskra listamanna á Norðurlöndum sendu í dag mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni og formanni stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. Ingva Hrafni Óskarssyni yfirlýsingu vegna nýlegra aðgerða stjórnenda Ríkisútvarpsins, sem vega að grunnstoðum þeirrar merku menningarstofnunar sem Ríkisútvarpið er. Yfirlýsingunni hefur verið komið á framfæri við fjölmiðla. Hún birtist hér í íslenskri þýðingu:

Systursamtök Bandalags íslenskra listamanna á Norðurlöndum lýsa þungum áhyggjum vegna þeirra gagngeru breytinga sem gerðar hafa verið á almannaþjónustu Ríkisútvarpsins á Íslandi – RÚV.

Uppsagnir 39 starfsmanna af tónlistar- og menningarsviðum stofnunarinnar, munu hafa alvarlegar afleiðingar á dagskrána og draga úr gæðum hennar. Ráðstafanir þær sem gripið hefur verið til eru ekki einungis til komnar vegna erfiðrar fjárhagsstöðu heldur bera þær vott um forgangsröðun stjórnenda Ríkisútvarpsins.

Séð að utan standa listir og menning á Íslandi í miklum blóma. Tjáningin er kraftmikil og vitnar um stolt þeirra sem trúað er fyrir dýrmætri norrænni tungu. Útvarp í almannaþágu ætti að standa vörð um slíkan auð.

Ríkisútvarpið hefur gegnt mikilvægu hlutverki í lista- og menningarlífi Íslendinga í meira en 80 ár. Við erum sannfærð um að á tímum efnahagslegra þrenginga skiptir virkur stuðningur við skapandi starf innan menningarstofnana meira máli en nokkru sinni. Félagar okkar í Bandalagi íslenskra listamanna (BÍL) líta á Ríkisútvarpið sem máttarstólpa listar og menningar og hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem RÚV stendur frammi fyrir. Við lýsum fullum stuðningi við þeirra mikilvægu baráttu.

Virðingarfyllst,

Henrik Petersen, forseti Bandalags danskra listamanna, Danmörku
Bárður í Baiansstovu, forseti Bandalags færeyskra listmanna (LISA), Færeyjum
Ilkka Niemeläinen, forseti Samstarfsnefndar listamanna – Forum Artis, Finnlandi
Leif Saandvig Immanuelsen, forseti Listamannasamtaka Grænlands (EPI), Grænlandi
Anders Hovind, varaforseti Félags norskra hljómlistarmanna, Noregi
Brita Kåven, framkvæmdastjóri Bandalags samískra listamanna, Samalandi
Mats Söderlund, forseti Samstarfsnefndar listamanna og rithöfunda (KLYS), Svíþjóð