Í dag áttu fulltrúar BÍL fund með iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiði Elíun Árnadóttur. Fór fundurinn hið besta fram og vour umræður líflegar. Hér fylgir minnisblað það sem BÍL lagði fram á fundinum, þar sem getið er um þau mál er helst bar á góma:
Bandalag íslenskra listamanna er samstarfsvettvangur 14 fagfélaga listafólks. Innan vébanda fagfélaganna eru um 4000 listamenn. Bandalagið er stjórnvöldum til ráðgjafar í málefnum lista og skapandi greina. Um þá ráðgjöf er í gildi samstarfssamningur við mennta- og menningarráðuneytið. Þá veitir BÍL Alþingi umsagnir um mál á vettvangi lista og menningar. BÍL var stofnað 1928 og hefur því starfað að hagsmunamálum listamanna óslitið í 85 ár.
Þverfagleg stjórnsýsla skapandi greina
Stefnumótun í málefnum skapandi atvinnugreina hefur verið unnin í samstarfi nokkurra ráðuneyta. Stærsta verkefnið var unnið á árabilinu 2010 – 2012 í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Einnig tók Íslandsstofa virkan þátt í verkefninu.
Tvær skýrslur hafa verið unnar í tengslum við verkefnið:
Skapandi greinar – Sýn til framtíðar í september 2012, úttekt á stöðu greinanna og tillögur um bætt starfsumhverfi: http://www.menntamalaraduneyti.is/utgafuskra/
og Hagræn áhrif skapadi greina- Desember 2010
http://www.uton.is/frodleikur/skyrsla-um-kortlagningu-a-hagraenum-ahrifum-skapandi-greina
Skýrslurnar tengjast og sýna nniðurstöður að heildarvelta skapandi greina hafi verið 189 ma.kr. árið 2009. Þar af var hluti ríkis og sveitarfélaga um 13% sem er sambærilegt við önnur lönd. Ársverk við skapandi greinar voru um 9.400 talsins árið 2009 og voru flest árið 2008, eða rúmlega 10.000. Stöðug aukning var í fjölda ársverka skapandi greina á árabilinu 2005-2008.
Bíl leggur áherslu á að verkefninu verði haldið áfram og stjórnvöld bregðist við tillögum skýrslunnar frá 2012.
Hönnunarstefna
Í ársbyrjun 2011 setti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti ásamt mennta- og menningarmálaráðuneyti á laggirnar stýrihóp til að vinna tillögu að hönnunarstefnu 2013 – 2018:
http://www.honnunarmidstod.is/media/PDF/HONNUNARSTEFNA_LOKATILLAGA.pdf
Tillagan er enn í umfjöllun innan stjórnkerfisins og hefur ekki verið lögð fram endanleg stefna af hálfu stjórnvalda. BÍL er ekki kunnugt um hvar málið er statt, en leggur áherslu á mikilvægi þess að stefnan verði formlega samþykkt og gerð verði áætlun um framkvæmd hennar.
Menningarstefna í mannvirkjagerð
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (2003 – 2007) lét vinna menningarstefnu í mannvirkjagerð og gaf hana út í veglegu 52ja bls riti í apríl 2007:
http://www.menntamalaraduneyti.is/nyrit/nr/4059
Mikilvægt er að allir ráðherrar og ráðuneyti fylgi þeirri stefnu vel eftir, því hún nær yfir allar opinberar byggingar og er enn í fullu gildi.
Íslandsstofa
Íslandsstofa var stofnuð á grunni Útflutningsráðs með aðkomu Samtaka atvinnulífsins. Undir hatti Íslandsstofu starfar fagráð lista og skapandi greina. Í því eiga sæti fulltrúar allra miðstöðva listgreina og hönnunar (Kvikmyndamiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Miðstöð íslenskra bókmennta, Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, Úttón / Tónverkamiðstöð, Icelandic Gaming Industry og Hönnunarmiðstöð. Einnig eiga þrjú ráðuneyti fulltrúa í fagráðinu; atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarráðuneyti ásamt utanríkisráðuneyti. Verkefni fagráðsins er að vera Íslandsstofu til ráðuneytis við stefnumótun og áherslur í málefnum lista og skapandi greina í tengslum við þau verkefni sem Íslandsstofna sinnir, þar skiptir ferðaþjónustan miklu máli, enda eru listir og menning í öðru sæti yfir ástæður þessað erlendir ferðamenn heimsækja Ísland, næst á eftir náttúru landsins. Þá hefur fagráðið átt þátt í því að miðla upplýsingum um hátíðir og menningartengda viðburði, t.d. til sendiskrifstofa Íslands erlendis. Um þessar mundir er unnið að því að auka tengsl fagráða innbyrðis, sérstaklega milli fagráða ferðaþjónustu og skapandi greina.
Segja má að Íslandsstofa sé tilraunaverkefni í lýðræðislegri stjórnsýslu, svo margir koma með beinum hætti að starfinu. Því er mikilvægt að ráðuneytin séu vakandi hvert fyrir sínum þætti í starfi Íslandsstofu, tryggi að starfsemin sé markviss og skili tilætluðum árangri. Slíkt er ekki endilega gert með sjálfstæðum átaksverkefnum með sjálfstæðar stjórnir á borð við verkefnið „Ísland allt árið“, heldur með breiðri aðkomu þeirra ólíku geira sem hlut eiga að máli.
Verkefnatengdir sjóðir
Skilagrein starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem fjallaði um fyrirkomulag verkefnatengdra sjóða og kynningarmiðstöðva á listasviðinu, hefur að geyma mikilvæga greiningu á stöðu verkefnatengdra sjóða og samspili þeirra við kynningarmiðstöðvarnar. Skýrslan er til umfjöllunar í geiranum og hafa hagsmunaaðilar frest til 15. september til að gera athugasemdir við tillögur starfshópsins.
Í nýsamþykktri menningarstefnu Alþingis á sviði lista og menningararfs segir í kafla um starfsumhverfi í menningarmálum: Framlög ríkisins til verkefna á sviði menningarmála fari í gegnum lögbundna sjóði með faglegum úthlutunarnefndum sem byggja úthlutun á vönduðu jafningjamati. Í stjórnum sjóð séu viðhafðir góðir stjórnunarhættir, regla um hæfilega fjarlægð virt og almennum hæfisreglum fylgt. Starfslaunasjóðir og verkefnasjóðir verði vel skilgreindir og endurspegli fjölbreytni og þróun menningarlífsins, m.a. er varðar samstarfsverkefni.
Gera má ráð fyrir að tillögur starfshópsins liggi fyrir í lok september nk.
Fjárfestingaráætlun
Með fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar voru sett fram áform um að auka framlög hins opinbera til sköpunar og vísinda. Áætlunin leiddi það af sér að Kvikmyndasjóður var tvöfaldaður, stofnaðir voru fjórir nýjir sjóðir Hönnunarsjóður, Myndlistarsjóður, Útflutningssjóður tónlistar og handverkssjóður. Þá var aukið í sjóði á sviði bókmennta, til starfsemi atvinnuleikhópa og framlag aukið í Tónlistarsjóð. Ráðherrar í nýrri ríkisstjórn hafa sagt að fjárfestingaráætlunin sé til endurskoðunar og hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur sagt að áætlunin sé í uppnámi. Þetta veldur BÍL áhyggjum.
Í heildina hljóða þeir liðir fjárfestingaráætlunarinnar, sem varða skapandi atvinnugreinar, upp á 720 milljónir króna, þar af eru 470 milljónir í Kvikmyndasjóði og 250 milljónir í aðra sjóði. Þessir fjármunir eru til staðar í fjárlögum 2013. Ef þeirra nýtur ekki við 2014 þá verður hrun í uppbyggingu greinanna.
Skráning tölulegra upplýsinga um skapandi greinar
Starfsáætlun BÍL 2013 gerir ráð fyrir átaki í skráningu tölulegra upplýsinga um listir og störf listafólks. BÍL er þegar í sambandi við Hagstofu Íslands og mun eiga aðkomu að sameiginlegu verkefni Evrópulanda, sem varðar skráningu tölulegra upplýsinga um skapandi atvinnugreinar.
BÍL leggur áherslu á að verkefni þetta fái brautargengi stjórnvalda og leitað verði leiða til að ljúka verkefninu þó ekki verði af áformuðum stuðningi ESB við verkefnið.
Tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi
Mikilvægt er að tryggja að þetta samstarf haldi áfram, enda hefur það skipt sköpum í viðleitni okkar við að laða erlend verkefni til landsins, þá hefur verkefnið skipt miklu máli fyrir eflingu greinarinnar og innlenda framleiðslu. Hins vegar verður að tryggja að þeir sem njóta endurgreiðslna fylgi lögum og reglum um vinnurétt. Staðfest hefur verið að dæmi séu um brot á lögum um vinnurétt og ófullnægjandi aðstæður á tökustað. Brýnt er að skerpa á reglum um greiðslur úr kerfinu svo komist verði fyrir slíkar aðstæður. Í síðustu útgáfu af lögunum kom inn ákvæði sem kveður á um að til að njóta endurgreiðslu þurfi framleiðslufyrirtæki að vera skuldlaus vegna framleiðslunnar og er það vel. Núverandi lög um endurgreiðslurnar eru tímabundin, gilda til 31.12.2016. mikilvægt er að stefna um framtíðarfyrirkomulag verði mótuð sem fyst og þá verði hugað að því sem betur má fara í núverandi fyrirkomulagi og framkvæmd.