Author Archives: vefstjóri BÍL

Yfirlýsing um stofnun þjóðaróperu

Í ljósi fréttaflutnings af málefnum Íslensku óperunnar og umræðum um kjaramál óperusöngvara og annarra listamanna sem þar starfa, vill stjórn Bandalags íslenskra listamanna koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld og fjölmiðla.

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna telur að stjórnvöldum beri að búa óperustarfsemi á Íslandi sömu umgjörð og rekstrarskilyrði og öðrum opinberum sviðslistastofnunum. Slíkt verður einungis tryggt með því að stofna þjóðaróperu með stoð í lögum um sviðslistir nr. 165/2019. Lagagrundvöllur þjóðaróperu þarf að vera sambærilegur þeim sem gildir um Þjóðleikhús og Íslenska dansflokkinn, þar sem hlutverkið er skýrt og fagmennska tryggð.

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna telur það löngu tímabært að koma óperustarfsemi á traustan kjöl opinbers rekstrar, enda ljóst að rekstrarform einkaréttarlegs eðlis hentar ekki jafn viðamikilli menningarstarfsemi og hér um ræðir.

Stjórn BÍL er þess sannfærð að stofnun þjóðaróperu yrði mikið gæfuspor sem tryggt geti heilbrigt starfsumhverfi fyrir óperusöngvara og aðra listamenn sem koma að óperuflutningi á Íslandi.

Virðingarfyllst

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna

 

Könnun í samstarfi við BHM

Bandala íslenskra listamanna efnir til könunar í samstarfi við BHM til að kanna stöðu listamanna í úrræðum Vinnumálastofnunar. Margir innan okkar banda glíma við algjöran aflabrest og listamenn hafa reynt það í þessu ástandi hversu hefðbundin úrræði atvinnubótaréttar ná ekki til þeirra. Þessi könnun er til þess ger að reyna að ná utan um umfang þessa vanda. Hér er linkur á könnunina:

Link: https://outcomesurveys.com/surveys/c934151c-e8ff-4877-9fd1-7eb45b12c198/f6dfbc32-0eab-4220-a384-f3a8f7c46165

Könnunin verður opin fram að helgi og við biðjum alla að bregðast sem best við svo við fáum sem besta muynd af umfangi vandans.

Stuðningsyfirlýsing við Leiklistar- og kvikmyndaháskólann í Búdapest

Bandalag íslenskra listamanna og Sviðslistasamband Íslands lýsir yfir stuðningi við nýlegar aðgerðir nemenda og kennara við Leiklistar- og kvikmyndaháskólann í Búdapest (SZFE). Boðuð endurskipulagning ungverskra stjórnvalda á skólanum felur í sér að hvorki nemendur, kennarar né annað starfsfólk hefur nokkra aðkomu að stefnumótun og fjármálum skólans, sem setur alvarlegar skorður við sjálfstæði stofnunarinnar og akademískt frelsi. Við tökum undir áhyggjur nemenda og kennara af sjálfstæði skólans og hvetjum stjórnvöld í Ungverjalandi til að endurskoða ákvörðun sína, enda eru sjálfstæðar mennta- og menningarstofnanir meðal hornsteina lýðræðisins.

Statement of Solidarity with the University of Theatre and Film, Budapest

The Federation of Icelandic Artists and Performing Arts Iceland expresses solidarity with the current actions of students and teachers at the University of Theatre and Film, Budapest (SZFE). The recent restructuring of SZFE’s administration entails that neither students nor academic staff have any direct influence on the university’s matters of policy and finances, which severely undermines the its autonomy and academic freedom. We share the students’ and teachers’ grave concerns regarding the autonomy of the institution and strongly encourage the Hungarian authorities to reconsider their decision, as autonomous institutions of education and culture are among the foundations of democracy.

Opið bréf vegna stöðu listamanna COVID haustð 2020

Reykjavík 12. Ágúst 2020

 

Opið bréf Bandalags íslenskra listamanna

Vegna COVID – haustið 2020

Haustið markar jafnan upphaf starfsárs flestra listamanna – sýningarýmin, tónleikastaðirnir, leikhúsin og menningarstofnanir opna og hefja starfsemi sína. Síðastliðið vor litum við listamenn með nokkurri eftirvæntingu til þessa hausts. Í huga okkar, og flestra landsmanna, var þessi vísindaskáldsögulegi veruleiki sem við vorum þá að upplifa eingöngu tímabil, og það stutt tímabil. Allar aðgerðir stjórnvalda miðuðu að því að að innan skamms kæmist líf okkar aftur í fyrra horf og að lendingin handan þessarar hindrunar yrði sem mýkst og við gætum spyrnt frá af endurnýjuðum krafti þegar rofaði til í kófinu. Listamenn hafa þetta sumarið aðlagað starf sitt því ástandi, frestað viðburðum eða fellt niður og reynt eftir fremsta megni að sýna ábyrgð. Listamenn hafa ekki farið fram á undanþágur eða að horn regluverksins væru rúnuð af með einhverjum hætti til að halda úti listsköpun. Listamenn hafa einfaldlega beðið þolinmóðir og treyst því að með skynsemi munum við komast sem fyrst fyrir vind og geta tekið upp fyrri störf.

Við getum vissulega yljað okkur við verk genginna kynslóða og ólíkt flestum mannana verkum er listin eilíf og því af nógu af taka, en listin í samtímanum, hér og nú, er sú sem skiptir okkur máli. Það er hún sem bindur okkur saman, skilgreinir okkur sem manneskjur, tengir okkur og vekur með okkur gleði. Listin er ein grunnstoð samfélagsins.

Samfélagslegt gildi og hlutverk listarinnar er vissulega mjög mikilvægt en efnahagslegur skaði af þessu ástandi er ekki síður gríðarlegur. Tæplega 8% vinnandi fólks í landinu vinnur við listsköpun og skapandi greinar. Mörg þeirra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á starfi listamanna róa nú lífróður til að halda rekstri sínum gangandi. Listamenn sjálfir hafa fengið að reyna á eigin skinni hversu regluverk vinnumarkaðarins er þeim óhagstætt og hvernig úrræðin gagnast þeim ekki til jafns við aðra á vinnumarkaði. Svo nú þegar listamenn voru að vonast til að geta farið að reima á sig skóna og hefja störf blasir við sá veruleiki að næstu mánuðir, jafnvel ár, verði alvarlega skilyrtir af reglum sem hindrar allt þeirra starf. Þetta er grafalvarleg staða fyrir listamenn og fjölskyldur þeirra, sem beðið hafa þolinmóð eftir því að geta hafið störf að nýju.

Listamenn geta illa haft skoðun á því hvort ákvarðanir um opnun landamæra eða tilslakanir í ferðaþjónustu, félags- eða íþróttastarfi séu æskilegar út frá efnahagslegu- eða lýðheilsusjónarmiði. Undanþágur  um nálægðartakmarkanir er þó jafn sjálfsagt að veita listamönnum sem íþróttamönnum, því slík undanþága  er forsenda vinnu margra greina, sérstaklega sviðlista og tónlistarmanna. Listamenn eiga heimtingu á að störf þeirra séu metin að jöfnu í heildarmyndinni og við ákvarðanir í þessum efnum. Hæfileikar, menntun og þekking þessa fólks leggur þau verðmæti til samfélagsins að það er sjálfsögð krafa að það framlag sé tekið inn í reikninginn við ákvarðanir í framhaldinu. Á þessari stundu er erfitt að átta sig á hvort þeirri kröfu ber að beina til pólitískra valdhafa eða þeirra sem fara með ráðgjöf í sóttvörnum.

Rætt hefur verið um samstarfsvettvang vegna ástandsins þar sem ákvarðanir verði teknar og aðgerðir skipulagðar. Það er mikilvægt að allar stoðir samfélagsins séu hluti af þeim vettvangi, menning og listsköpun, bæði sem drifkraftur sjálfsmyndar okkar, en ekki síður sem gríðarlega stór atvinnugrein með miklum efnahagslegum áhrifum hlýtur að vera partur af þeim vettvangi.

Virðingarfyllst

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna

Ársskýrsla stjórnar FLÍ starfsárið 2019-20

 

 

Skýrsla stjórnar FLÍ starfsárið 2019 – 2020

Í stjórn FLÍ á starfsárinu sátu Kolbrún Halldórsdóttir formaður, Ástbjörg Rut Jónsdóttir gjaldkeri og Tryggvi Gunnarsson ritari. Varamenn í stjórn voru Agnar Jón Egilsson, Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir og Harpa Arnardóttir. Stjórn hélt alls 7 fundi á starfsárinu, á tímabilinu frá framhaldsaðalfundi 7. október 2019 og fram að aðalfundi 22. júní 2020, og eru fundargerðir vistaðar í stafrænni skjalageymslu félagsins, auk þess sem þær eru aðgengilegar félagsmönnum á aðalfundi félagsins.

 

Nýir félagar á árinu

Þrír leikstjórar sóttu um félagsaðild á þessu starfsári (frá aðalf. 2019 og til aðalf. 2020) og voru umsóknir þeirra jafnharðan afgreiddar á stjórnarfundum. Þeir félagar sem bættust í félagatal FLÍ frá síðasta aðalfundi eru: Aron Martin Ásgerðarson, Stefán Ingvar Vigfússon og Íris Stefanía Skúladóttir. Um þessar mundir eru skráðir 104 félagar í félagatal FLÍ, 27 af þeim eru 67 ára og eldri.

 

Samningamál

Til grundvallar starfi stjórnar á starfsárinu hefur legið starfsáætlun samþykkt á framhaldsaðalfundi 7. október 2019. Tekist hefur að þoka áfram nokkrum fjölda mála, endurnýjaðir samningar við samningsaðila FLÍ hafa þar vegið þyngst. Í því sambandi ber að geta þeirra sjónarmiða sem samninganefnd FLÍ hefur reynt að ná fram varðandi aðstoðarleikstjóra og dramatúrga, en í starfsáætlun er getið um þau áform að ræða við yngri kynslóð leikstjóra um skynsamlega nálgun við kjaramál tengd þessum störfum. Samninganefndin hefur lagt góðan grunn að því samtali með því að berjast fyrir bókunum starfskjör aðstoðarleikstjóra og dramatúrga, sem lið í þeim áformum að lyfta þessum störfum og um leið auka fagmennsku við uppsetningu leiksýninga hjá samningsaðilum FLÍ. Samninganefndina hafa skipað þau Páll Baldvin Baldvinsson, Hjálmar Hjálmarsson og Ástbjörg Rut Jónsdóttir, en Hjálmar baðst undan setu í nefndinni þegar leið á starfsárið og hefur formaður félagsins hlaupið í skarðið eftir því sem þörf hefur verið.

 

Leikfélag Reykjavíkur

Í janúar var undirritaður nýr samningur við Leikfélag Reykjavíkur, og byggja launatölur samningsins á svokölluðum lífskjarasamningum, sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði á vordögum 2019. Samningurinn er heildarsamningur þar sem náðust fram nokkur nýmæli auk þess sem honum fylgja bókanir um hlutverk leikstjórans, um verktöku, störf dramatúrgs og aðstoðarleikstjóra, ásamt bókun um höfundarréttarsamninga fyrir samsköpunarverk. Samningurinn gildir til 1. nóvember 2022.

 

Þjóðleikhúsið

Í byrjun maí var undirritað samkomulag við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna starfa leikstjóra við Þjóðleikhúsið. Það felur í sér launahækkanir sem eru í samræmi við lífskjarasamningana frá vorinu 2019. Þó náðist fram hækkun á framlagi atvinnurekanda í styrktarsjóð BHM og það nýmæli að frá september 2020 greiðir atvinnurekandi 0,7% af launum í Starfsþróunarsetur háskólamanna hjá BHM, sem gerir kleift að sækja um fjárstuðning til starfsþróunar og endurmenntunar. Viðræður við Þjóðleikhúsið um breytingar á stofnanasamningi standa enn yfir, en þar munu verða sérstakar bókanir um störf dramatúrga og aðstoðarleikstjóra, ásamt skilgreiningum á hlutfalli höfundaréttar leikstjóra í samsköpunarverkefnum.

 

Menningarfélag Akureyrar

Nú er það Menningarfélag Akureyrar sem gerir samninga um störf leikstjóra hjá Leikfélagi Akureyrar. Til grundvallar nýjum samningi FLÍ við MAK liggur samningurinn við Leikfélag Reykjavíkur frá því í janúar og hafa viðræður gengið vel. Allt sem náðist í samningunum við LR fer inn í nýjan samning við MAK og telst samningaviðræðum lokið. Samningurinn verður undirritaður á næstu dögum.

 

Íslenska óperan

FLÍ hefur lengi leitað eftir því að gerður verði samningur um störf leikstjóra hjá Íslensku óperunni, það hefur ekki reynst auðsótt fram að þessu en nú hefur sá árangur náðst að samningaviðræður eru hafnar og bindur stjórn vonir við að hægt verði að ganga frá samningi við ÍÓ fyrir haustið. Rétt er að greina hér frá samstarfi fagfélaga í sviðslistum og tónlist, sem staðið hefur allt undangengið starfsár, og sprottið er af óánægju listamanna sem starfað hafa fyrir Íslensku óperuna undanfarið. Málið snertir bæði kjaramál og aðkomu fagfélaganna að nýstofnuðu fulltrúaráði ÍÓ. Hafa félögin átt í samskiptum við mennta- og menningarmálaráðuneytið af þessum sökum og freistað þess að fá skýringar á tilteknum þáttum í rekstri ÍÓ, m.a. stofnun fulltrúaráðsins, breyttu stjórnarfyrirkomulagi og áformum um endurnýjun samnings ráðuneytisins við ÍÓ.

 

Ríkisútvarpið ohf

Langtum erfiðasti samningsaðili félagsins er Ríkisútvarpið ohf. Þar á bæ hefur ekki verið vilji til að endurnýja samninga við leikstjóra og raunar gildir það sama um öll félög sem semja fyrir hönd listamanna við stofnunina, þau eru öll með útrunna samninga. Nú hafa formenn þessara félaga ákveðið að setjast niður og skoða hvort möguleiki sé á að sameina kraftana, þ.e. leita eftir sameiginlegum viðræðum við RÚV. Slíkt gæti aukið þrýstinginn á forsvarsmenn RÚV og með góðum vilja mætti hugsa sér að á endanum næðist að skilgreina sambærilegan starfsgrundvöll þeirra listamanna sem koma til starfa hjá RÚV tímabundið eða til lengri tíma. Þessar hugmyndir eru einungis á umræðustigi enn sem komið er, en augljós vilji formanna félaganna að velta upp þessum möguleika.

 

Félagsgjöld

Í starfsáætlun ársins er fjallað um félagsgjöld og fyrirkomulag innheimtu þeirra. Þetta atriði hefur verið til umaræðu á stjórnarfundum og á grundvelli laga félagsins ákvað stjórn að innheimta lágmarksfélagsgjaldið fyrir aðalfund með gjalddaga 4. maí og eindaga 4. júní, svo uppfyllt séu skilyrði 7. og 10. gr. laganna, sem kveða á um það að félagsmaður sem ekki greiðir gjaldfallin félagsgjöld sín fyrir aðalfund teljist ekki lengur fullgildur félagi, heldur aukafélagi og hafi því ekki atkvæðisrétt á aðalfundi. Þá hefur stjórn ákveðið að heimila félögum að dreifa greiðslum lágmarksfélagsgjaldsins og hefur félögum verið kynnt sú ákvörðun, einungis þarf að hafa samband við gjaldkera til að fá greiðslunni skipt upp í 2 – 4 greiðslur. Slík skipting gjaldsins hefur þó engin áhrif á réttindin sem skapast, því félagsskírteinin verða send út strax við fyrstu greiðslu og eigi síðar en 1. ágúst. Loks staðfesti stjórn eldri ákvörðun um að leggja ekki dráttarvexti á ógreidd lágmarksfélagsgjöld, allt til hagsbóta fyrir félaga. Annað sem stjórn hefur tekist á við á tímabilinu frá síðasta aðalfundi, er lagabreytingin sem samþykkt var á þeim fundi, þar sem ákveðið var að innheimta lágmarksfélagsgjald af öllum félögum, líka þeim sem eru 67 ára og eldri. Sú ákvörðun mæltist einkar illa fyrir hjá félögum í þeim aldurshópi og óskaði nokkur fjöldi þeirra að ganga frekar úr félaginu en að fara að greiða félagsgjaldið núna. Þetta leiddi til þess að stjórn leggur fram breytingu inntaki lagaákvæðisins á þessum aðalfundi.

 

Ný sviðslistalög

Á árinu fögnuðu þau sem starfa innan sviðslista á Íslandi nýjum sviðslistalögum sem samþykkt voru á Alþingi 17. desember 2019 og taka gildi 1. júlí nk. Má segja að mikið hafi mætt á forystu sviðslistafólks meðan lögin voru að fara gegnum þingið, því þó að í frumvarpinu hafi margt verið til bóta þá voru þar líka atriði sem samstaða var um meðal félaganna að þyrfti að breyta. Umsagnir félaganna voru undirbúnar á samráðsfundum og voru allar nokkuð samhljóða. Með í því samráði voru fulltrúar Sjálfstæðu leikhúsanna. Þegar gestir höfðu verið kallaðir fyrir allsherjar- og menntamálanefnd þingsins og álit nefndarinnar lá fyrir kom í ljós að vel hafði verið hlustað á ábendingar fagfélaganna og SL. Flestar tillögur okkar skiluðu sér í endanlegan lagatexta, t.d. sú sem varðar fyrirkomulag tilnefninga faggeirans í þjóðleikhúsráð og listdansráð, tillögur um tilnefningar í sviðslistaráð og tillögur um fyrirkomulag sviðslistasjóðs. Þá var einnig lögð sú skylda á herðar mennta- og menningarmálaráðherra að setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista og stofna nefnd sem falið verður að gera tillögur um stofnun þjóðaróperu.

 

SAFAS – Samráðsvettvangur fagfélaga í sviðslistum innan SSÍ

Mikilvægt ákvæði var sett í frumvarp að nýjum sviðslistalögum, sem gerði ráð fyrir að fagfélög í sviðslistum fái að tilnefna meiri hluta fulltrúa í bæði þjóðleikhúsráð og listdansráð. Hins vegar var ekki tekið fram hvaða sviðslistafélög væri átt við eða nokkuð annað er varðaði framkvæmd þessara tilnefninga. Í umsögnum fagfélaganna til þingnefndarinnar var þess óskað að tekið yrði fram í lagatextanum að það væru fagfélög innan Sviðslistasambands Íslands, sem hefðu þetta hlutverk. Við því var orðið og því nauðsynlegt fyrir þau félög að stofna með sér formlegan vettvang sem tæki að sér að tilnefna þrjá fulltrúa í þjóðleikhúsráð til fimm ára og þrjá til vara, tvo fulltrúa í listdansráð til fimm ára og tvo til vara og loks tvo fulltrúa í sviðslistaráð til þriggja ára og tvo til vara. Þegar þetta lá ljóst fyrir gengu fagfélögin innan Sviðslistasambandsins, sem eru sjö talsins, í það að stofna með sér formlegan vettvang, sem tæki að sér þetta hlutverk ásamt því að styðja við sameiginleg hagsmunamál félaganna í þágu aukinnar fagmennsku í sviðslistum. Vettvangurinn var stofnaður 28. maí sl. með undirritun stofnyfirlýsingar og í framhaldinu var unnið að tilnefningum í ráðin þrjú, sem lokið var 9. júní sl. Þar með er uppfyllt ákvæði í starfsáætlun FLÍ sem kveður á um samráðsnefnd Sviðslitasambandsins.

 

Tilnefningar í ráðin þrjú

Á fundi SAFAS 5. júní sl. var fjallað um tilnefningar í þau ráð sem getið er í nýju sviðslistalögunum, þ.e. þjóðleikhúsráð, listdansráð og sviðslistaráð. Formenn sex félaga sátu fundinn, formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði sendi fundinum þau skilaboð að stjórn hans teldi eðlilegt að þau héldu sig til hlés í þessari fyrstu tilnefningu fulltrúa og þau myndu styðja þær tillögur sem hin félögin sex kæmu sér saman um. Nokkur fjöldi nafna var lagður fram og var talsvert um að sömu nöfnin væru nefnd af ólíkum stjórnum. Formennirnir ræddu sig svo að niðurstöðu og samþykktu samhljóða að senda eftirfarandi tilnefningar til mennta- og menningarmálaráðherra sem skipar í ráðin:

Sviðslistráð (þrjú ár):

Aðalmenn: Agnar Jón Egilsson – Vigdís Másdóttir

Varamenn: Hjálmar Hjálmarsson – Karen María Jónsdóttir (sem eiga líka sæti í úthlutunarnefnd launasjóðs sviðslistafólks)

Listdansráð (fimm ár):

Aðalmenn: Ólöf Ingólfsdóttir – Guðmundur Helgason

Varamenn: Katrín Johnson – Ólafur Darri

Þjóðleikhúsráð (fimm ár):

Aðalmenn: Sjón – Kolbrún Halldórsdóttir– Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir

Varamenn: Sigmundur Örn Arngrímsson – Ragnheiður Maísól Sturludóttir- María Ellingsen

 

Starfandi leikstjórar

Fyrri formaður FLÍ var iðinn við að halda utan um fjölda þeirra félagsmanna sem störfuðu á samningum félagsins og ekki ástæða til annars en að halda því starfi áfram. En það er af ýmsum ástæðum sem þessu starfi hefur verið vikið til hliðar síðastliðið starfsár, nægir þar að nefna tímafreka vinnu við að bregðast við stöðvun allra viðburða á vettvangi sviðslista af völdum heimsfaraldurs covid-19, sem nánar verður fjallað um síðar í skýrslu þessari. En af þessum sökum leggur stjórn til að á komandi leikári verði stjórn falið það verkefni að fylgjast vel með því hvaða leikstjórar starfa hjá samningsaðilum FLÍ og ganga eftir skilum á samningum og félagsgjöldum til félagsins. Markmiðið með slíku starfi er að hafa yfirsýn yfir störf þau sem eru í boði fyrir félagsmenn ásamt því að tryggja að greiðslur af launum þeirra skili sér í félagssjóð, sem stendur undir rekstri félagsins, en ekki síður til að tryggja eftirfylgni þeirra ákvæða samninga er varða kjör leikstjóra.

 

Heimsfaraldur covid-19

Heimsfaraldur kórónuveirunnar og covid-19 sjúkdómsins, sem braust út um mánaðamót feb./mars, hefur óhjákvæmilega haft mikil áhrif á sviðslistirnar ekki síður en aðrar atvinnugreinar. Með góðum rökum má jafnvel halda því fram að faraldurinn hafi haft meiri áhrif á sviðslista- og tónlistarfólk en fólk í ýmsum öðrum atvinnugreinum, í ljósi samkomubanns sem sett var á hér á landi 15. mars sl. Mikill tími forsvarsmanna fagfélaga þessara greina hefur því farið í að bregðast við þeim neikvæðu áhrifum sem félagsmenn hafa orðið fyrir. Það hefur verið gert í þéttu samstarfi félaganna með þátttöku BÍL – Bandalags íslenskra listamanna og BHM. Samskiptin hafa bæði verið við fulltrúa ríkisvaldsins, ríkisstjórn og Alþingi, og stofnanir á vegum þess, t.d. Vinnumálastofnun. Fylgst hefur verið með aðgerðum stjórnvalda, sem öllum hafa fylgt frumvörp til lagabreytinga af ýmsu tagi, og hafa fagfélög listamanna gefið umsagnir um þau til að freista þess að sníða úrræðin að þörfum listafólks, sem oft er í blandaðri starfsemi, þ.e. að hluta launþegar og að hluta í sjálfstæðri starfsemi. Einnig er algengt meðal listafólks að það geri upp opinber gjöld, skatt og tryggingagjald, einu sinni á ári, sem allt gerir það að verkum að það fellur illa að kerfi Vinnumálastofnunar. Þetta hefur gert stofnuninni erfitt fyrir við að sinna þörfum listafólks, enda hefur álagið á stofnunina farið langt fram úr því sem ætlað var, og þrátt fyrir það að bæði þingmenn og ráðherrar hafi tjáð forsvarsmönnum listafólks að úrræðin eigi að henta okkar fólki og Vinnumálastofnun eigi að laga sig að þeim vilja stjórnvalda, þá eru síðustu skilaboð stofnunarinnar þau að umsækjendur sem ekki falla að kerfinu þurfi að bíða fram á haustið eftir úrlausn. Þetta er að sjálfsögðu óásættanlegt, en lítið sem hægt er að gera umfram það sem reynt hefur verið og enn er verið að vonast til að einhverju verði þokað á næstu vikum, án þess að nokkuð verði fullyrt um að það gangi eftir.

 

Fjárhagsstaða

Staða fjármála félagsins er svipuð og verið hefur síðustu ár, þ.e. eignastaðan er góð, en þó er sífellt gengið á eigið fé, sem endurskoðendur hafa kvatt stjórn til að taka á, en til þess eru engin önnur tól en að hækka félagsgjöld, sem stjórn hefur metið óframkvæmanlegt. Þegar þetta er ritað hefur ekki verið gengið endanlega frá ársreikningum og því ekki hægt að rita kafla um fjárhagsstöðu félagsins með réttu talnaefni. Því er brugðið á það ráð að gefa félagsmönnum mynd af stöðunni með því að birta kafla úr ársskýrslu 2016 (sem var einnig birtur í skýrslunni fyrir starfsárið 2018-2019), en þar getur að líta útskýringar á stöðunni sem hefur lítið breyst, þó tölurnar kunni að vera aðrar:

“Á aðalfundi FLÍ 2015 kom fram að fjárhagsstaða félagsins hefur farið versnandi á síðustu árum. Fyrst kom hrunið, sem veikti eignastöðuna nokkuð og við það bættist fremur lág ávöxtun á sjóðum félagsins eftir hrun. Svo hefur það haft áhrif að ákvörðun var tekin 2014 um að auka greiðslur til stjórnar félagsins vegna aukins álags af veru félagsins í BHM. Þá hefur það líka áhrif að á síðustu þremur árum hefur verið gerð gangskör að því að endurnýja alla samninga félagsins og hefur samninganefnd FLÍ fengið greitt fyrir fundarsetur. Af þessum ástæðum var ákveðið á aðalfundi 2015 að hækka lágmarksgjald það sem félagar greiða til félagsins úr kr. 15.000.- í kr. 24.000.- […] Niðurstaða rekstrarins 2015 er sú að tapi hefur nú verið snúið í hagnað, þ.e. á árinu er tekjuafgangur að upphæð kr. 949.471.- en á árinu 2014 tapaði félagið tæpum 3,7 milljónum króna. Staðan er þó ekki betri en svo að fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld er staðan neikvæð sem nemur kr. 1.390.654.- Þetta þýðir að tekjur félagsins duga ekki fyrir nema broti af rekstrinum og að ávöxtun sjóða félagsins, sem nam kr. 2.559.257.- er það sem heldur heildarniðurstöðunni réttu megin við núllið. Vegna taps áranna 2013 og 2014 benda endurskoðendur félagsins stjórn á það í áritun sinni að nauðsynlegt sé að brugðist verði við ójöfnuðu eigin fé, sem var í árslok tæpar 4,7 milljónir króna. Eiginfjárstaðan er þó eilítið betri en 2014, hún er nú jákvæð sem nemur 22,7 milljónum króna (var 22,0 árið 2014). Ástæður neikvæðrar rekstrarstöðu FLÍ eru þær hversu fáir félagar greiða gjöld til félagsins. Á árinu voru 104 félagar á félagaskrá, af þeim greiddu einungis 7 félagar gjöld til félagsins alla mánuði ársins. 13 greiddu flesta mánuði ársins. Á fyrstu mánuðum ársins 2016 eru einungis 19 félagar að skila gjöldum gegnum innheimtukerfi BHM. Við þetta bætist að 39 félagar eru 60 ára og eldri, en samkvæmt lögum FLÍ eru þeir undanþegnir félagsgjaldi. Sumir þeirra eru þó að greiða af launum sem þeir afla fyrir verkefni sem unnin eru á samningum félagsins. Af 104 skráðum félögum 2015 voru 15 sem hvorki greiddu lágmarksfélagsgjaldið né af launum sínum gegnum BHM. Það hefur verið meginmarkmið stjórnar síðan að halda í horfinu og freista þess að reka félagið án þess að ganga á eignir félagsins, en það er erfitt. Mun gjaldkeri gera grein fyrir stöðu félagsins á fundinum.“

Tekið skal fram að seinagangurinn við að ganga frá ársreikningunum skrifast að hluta á endurskoðunarskrifstofu félagsins, engu að síður þarf stjórn að taka sig á hvað varðar skil á reikningum, þar sem sambærileg staða hefur komið upp oftar en einu sinni undanfarin ár.

 

BHM – Bandalag háskólamanna

Síðan covid-19 falaldurinn skall á hefur BHM verið virkur aðili í samtalinu við stjórnvöld um úrræði til handa félagsmönnum aðildarfélaganna. Formenn fagfélaga listamanna hafa tekið þátt í því samtali, svo sem að framan greinir. Annað sem hefur útheimt vinnu á árinu er að ræða tillögur starfshóps innan BHM um hækkuð félagsgjöld að Bandalaginu. Tillaga hópsins hentar listamannafélögunum í BHM afar illa, þar er um að ræða FLÍ, FÍL, FÍH og SÍM, og hafa formenn þessara félaga fundað með fulltrúum starfshópsins og með forystu BHM til að freista þess að afstýra því að tillagan verði samþykkt. Nú er staðan sú að afgreiðslu tillögunnar hefur verið frestað til framhaldsaðalfundar BHM sem haldinn verður 9. september nk. og binda formenn listamannafélaganna vonir við að þar verði hægt að leggja fram breytingartillögu sem verði okkar félögum í hag. Fundum um málið verður fram haldið á næstunni. Aðrir þættir í starfi BHM hafa verið á vettvandi sjúkrasjóðs BHM, en nú hafa komið í ljós vankantar á réttindum fólks, sem greiðir reglulegt mánaðagjald í sjóðinn, en getur ekki sýnt fram á samsvarandi launatekjur. Reglur sjóðsins kveða á um það að sjóðsaðild byggist á því að greitt sé lögákveðið, kjarasamningsbundið eða ráðningarsamningsbundið sjúkrasjóðsframlag 1% af heildarlaunum, sem þýðir að sá sem sækir um stuðning frá sjóðnum þarf að sýna fram á samræmi milli heildarlauna og greiðslunnar í sjóðinn. Þetta er ekki í samræmi við skilning forystu listamannafélaganna sem áttu þátt í að koma félögunum undir regnhlíf Bandalagsins. Á þeim tíma teljum við að það hafi verið sameiginlegur skilningur að listamönnum með óreglulegar tekjur væri heimilt að standa skil á greiðslum í sjóðinn, þótt engar eða minni tekjur lægju þar að baki. Nú standa mál þannig að FÍH hefur tekið að sér að reka mál fyrir dómi, sem myndi geta hnekkt niðurstöðu sjóðsstjórnarinnar í máli tiltekins félagsmanns þess félags. Einnig er í undirbúningi að formenn listamannafélaganna fundi með fulltrúum sjóðsstjórnarinnar. Loks má geta þess að formaður FÍH hefur tekið sæti í starfshópi sem undirbýr nýja stefnumótun fyrir BHM og mun þar halda fram sértækum þörfum félaga listamannafélaganna. Gert er ráð fyrir að fjallað verði um tillögu hópsins á framhaldsaðalfundi BHM 9. sept. nk.

 

IHM – Innheimtumiðstöð rétthafa

Í apríl sl. framkvæmdi fyrirtækið Maskína viðamikla könnun fyrir IHM þar sem kannað var umfang eintakagerðar til einkanota meðal Íslendinga. Könnunin er gerð til að fylgja eftir fyrri könnun, sem framkvæmd var í maí 2018 og er hún að norskri fyrirmynd eins og sú fyrri. Ástæður þess að ný könnun var sett af stað má rekja til þess að niðurstöður þeirrar fyrri þóttu ekki í samræmi við íslenskan veruleika og samþykkti fulltrúaráð IHM því að láta framkvæma nýja könnun. Hún hafði að geyma 23 spurningar sem skiptust þannig:

 1. a) 1-7 um hljóð- og hljóðverk, t.d. tónlist, útvarpsdagskrá, hljóðbækur etc.
 2. b) 8-16: um kvikmyndir, sjónvarpsefni og annað myndefni, sem nálgast má af Internetinu, hörðum drifum, geisladiskum, DVD-diskum eða af tölvuskýi
 3. c) 17-23: um texta og myndir, t.d. úr bók, tímariti/vikutímariti, dagblaði, netmiðli, öðrum stöðum á netinu, nótnablöðum, söngtexta eða örðum tegundum útgefinna texta.

Það voru 1562 sem fengu könnunina og var svarhlutfallið misjafnt eftir spurningum, en talið að það hafi verið tæplega 92% að meðaltali. Þegar niðurstöðurnar lágu fyrir var ljóst að þær voru ekki til að leysa ágreining um hlutfallsskiptingu rétthafagreiðslna, sem er orðinn ansi langvinnur og erfiður úrlausnar, svo líkurnar aukast á því að kalla verði saman gerðadóm til að skera úr um skiptingu greiðslnanna. Til glöggvunar þá eru verkefni IHM skv. gildandi samþykktum eftirfarandi:

Innheimta, umsýsla og úthlutun fjármuna á grundvelli þeirra fjárhagslegu réttinda sem undir samþykktir þessar falla eða hafa verið framseld IHM með samkomulagi við aðra rétthafa en sem aðild eiga að IHM, nánar tiltekið er um eftirfarandi fjárhagsleg réttindi að ræða: a) Bætur vegna eftirgerðar verka til einkanota skv. 3. mgr. 11.gr. höfundalaga nr. 73/1972. b) Endurvarp á óbreyttu útvarps- og sjónvarpsefni til almennings um kapalkerfi samtímis hinni upphaflegu útsendingu sbr. 23. gr. a. í höfundalögum nr. 73/1972. c) Ólínulegt endurvarp útvarps- og sjónvarpsefnis til almennings, þ.m.t. vegna heimildar til að nálgast verndað efni á mismunandi tímum og með mismunandi móttökutækjum. d) Endurnot og endurútsendingar eldra efnis úr safni útvarpsstöðva sbr. 23. gr. b höfundalaga nr. 73/1972. e) Önnur innheimta og umsýsla fyrir aðildarfélög IHM og/eða aðra rétthafa, sem samtökunum hefur verið falið með sérstökum samningum þar að lútandi.

Samkvæmt gildandi hlutfallsskiptingu tekur FLÍ á móti 2,5% heildargreiðslna f.h. félagsmanna FLÍ. Þeim fjármunum er svo úthlutað skv. auglýsingu til þeirra leikstjóra sem gera tilkall til greiðslna. Við síðustu tvær útborganir hefur IHM haldið eftir 20% af greiðslunum í von um að samið verði um nýja hlutfallsskiptingu. Stjórn FLÍ taldi skynsamlegt að bíða með að auglýsa eftir kröfum frá félagsmönnum sínum þar til heildargreiðsla hefði borist. Nú er ljóst að það dregst enn lengur en ráð hafði verið fyrir gert, sem kallar á það að stjórn FLÍ auglýsi eftir umsóknum frá þeim rétthöfum, sem eiga tilkall til greiðslna vegna 2017 og 2018. Það verður gert í framhaldi af þessum aðalfundi.

 

 

 

Sviðslistasamband Íslands

Eftir covid-19 faraldur og samkomubann, voru áhöld um það hvort halda ætti Grímuhátíð í vor, af augljósum ástæðum. Fresta hafði þurft nokkrum fjölda frumsýninga auk þess sem meðlimir í Grímunefndinni náðu ekki að sjá allar sýningarnar fyrir samkomubann. Loks var ákveðið að halda hátíðina og veita Grímuverðlaun 2020, en sýningarnar í „pottinum“ voru mun færri en stefnt hafði verið að, þær einskorðuðust við þær sýningar sem meirihluti nefndarinnar hafði náð að sjá. Hátíðin var haldin 15. júní sl. og var hún með nokkuð öðru sniði en vanalega, t.d. fengu Heimilistónar það hlutverk að tengja saman atriðin og kynna nánast öll verðlaunin, fyrir vikið þéttist dagskráin og varð heilsteyptari. Grímunefndinni var boðið í teiti á vegum SSÍ 5. júní og henni þakkað fyrir störfin, ný Grímunefnd hefur svo verið valin til að sinna verkefninu fyrir leikárið 2020 – 2021. Innan SSÍ stendur nú yfir vinna við endurskoðun fyrirkomulags Grímunnar, svo vænta má frekari breytinga á hátíðinni næsta vor.

 

BÍL – Bandalag íslenskra listamanna

Samstarf fimmtán fagfélaga listamanna innan BÍL hefur litast mjög af covid-19 faraldrinum, en þó hefur stjórn hist á reglulegum fundum. Meðal þess sem BÍL hefur sinnt á starfsárinu er samtalið við stjórnvöld um covid-19 áhrifin og einnig samtalið við Hagstofu Íslands um tölfræði menningar og lista. Það verkefni var sett á laggirnar af stjórnvöldum með sáttmála núverandi ríkisstjórnar. Þeim sem starfa í lista- og menningargeiranum finnst verkinu hafa miðað nokkuð hægt, en 5. júní sl. barst greinargerð frá Hagstofunni með upplýsingum um stöðu verkefnisins. Þar kemur fram hversu umfangsmikið og flókið verkefnið er í raun, en jafnframt að upplýsingar innan úr geiranum sjálfum skipti verulegu máli í framvindu þess. Það er því mikilvægt að halda góðum tengslum við Hagstofuna í þessu viðamikla og mikilvæga verkefni. Hér er einnig rétt að geta um listaþing, sem BÍL gekkst fyrir í Hörpu 11. janúar sl. þar sem fjallað var um „Tungutak listarinnar og tungutakið um listina“. Var málþingið vel sótt og ágætar umræður urðu um málefnið, sérstaklega skemmtilegt var að heyra listamenn úr ólíkum listgreinum bera saman umfjöllun um greinarnar í fjölmiðlum og var það mál manna að gagnlegt væri að skiptast á skoðunum innanvert í listageiranum í tiltölulega öruggu rými.

 

Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista

Eins og fram kemur hér að framan þá náðist sá árangur í nýjum sviðslistalögum að ráðherra er gert skylt að stofna Kynningarmiðstöð sviðslista, en í ársskýrslu stjórnar FLÍ var farið yfir stöðu mála eftir að tveir starfshópar höfðu freistað þess að móta stefnu um miðstöðvar lista og hönnunar án sýnilegs árangurs. Hefur Sviðslistasamband Íslands haft forystu við að þrýsta á ráðuneytið um stofnun miðstöðvarinnar og er að vænta frekari frétta af málinu þegar lögin hafa gengið í gildi 1. júlí nk.

 

Menningarsjóður

Frá því í október 2019 hefur einungis einn félagi hlotið styrk úr Menningarsjóði félagsins, Andrea Vilhjálmsdóttir. Stjórn Menningarsjóðsins ákvað að auglýsa enga úthlutun sl. vor vegna covid-19, enda ekki líklegt að nokkrir félagar hyggi á ferðalög fyrr en með haustinu. Ekki var heldur úthlutað ferðastyrkjum úr Talíu á tímabilinu.

 

NSIR og norrænt menningarsamstarf

Áform voru uppi um að formenn systursamtaka FLÍ hittust á fundi í Osló í júní, en ekkert varð af því vegna heimsfaraldursins og til athugunar er að hittast með haustinu. Annars er það að frétta af norrænu menningarsamstarfi að það hefur stöðvast að miklu leyti vegna faraldursins og munu Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin taka afleiðingarnar og möguleg úrræði til umfjöllunar í haust. FLÍ mun fylgjast vel með því sem þar verður ákveðið, m.a. í tengslum við rekstur Norrænu residensíunnar í Róm, Circolo Scandinavo, sem tæmdist í mars sl. og hyggst ekki taka á móti listamönnum á ný fyrr en í haust. Rekstrarstaða residensíunnar verður því ekki ljós fyrr en með haustinu.

 

Skrifstofa FLÍ

Félagið leigir skrifstofuaðstöðu af Félagi íslenskra leikara að Lindargötu 6, en í ljósi þess hversu lítið aðstaðan nýtist félaginu hefur það tíðkast að leigja hana út til sviðslistamanna sem vantar vinnuaðstöðu, með það í huga að lækka rekstrarkostnað félagsins. Leikhópurinn Sómi þjóðar hefur leigt aðstöðuna síðustu mánuði og mun gera það áfram út árið.

 

Starfsáætlun 2020 – 2021

 • Stjórn setur sér starfsreglur, skiptir með sér verkum og deilir ábyrgð af starfinu. Slíkar reglur gætu m.a. kveðið á um dagskrá og fjölda stjórnarfunda, utanumhald stjórnarsamþykkta, þátttöku varamanna í stjórnarstörfum, skil á upplýsingum um einstaka þætti starfsins og reglulegar upplýsingar til félagsmanna um það helsta í starfinu s.s. upplýsingar um samningsbundnar launahækkanir.
 • Endurnýja heimasíðu félagsins og auka umferð um hana, m.a. með því að miðla þar upplýsingum um störf stjórnar og hvetja félaga til að uppfæra upplýsingar um sig á rafrænu félagatali. Einnig að virkja félaga til að deila skoðunum sínum og áhugaverðu efni á fb-síðu félagsins.
 • Halda skrá yfir verkefni félagsmanna hjá samningsaðilum FLÍ, með það að markmiði að tryggja samningsbundin réttindi og skil á félagsgjöldum, sem standa undir rekstri FLÍ.
 • Vinna upplýsingar fyrir leikstjóra sem kjósa að starfa sem verktakar, þar sem fram koma hlutfallstölur sem rétt er að miða við þegar verktakaálag er reiknað, ásamt áminningu um að standa skil á gjöldum til FLÍ til varðveislu félagsréttinda.
 • Samtal við yngri félaga í FLÍ um störf og starfskjör leikstjóra, aðstoðarleikstjóra og dramatúrga með það að markmiði að styrkja kjörin og auka fagmennsku í listgreininni.
 • Kanna áhuga félagsmanna á frekara samtali um fagmennsku í leikstjórn og í sviðslistum almennt, t.d. með því halda úti virkum hópum á samfélagsmiðlum eða með málþingum, mögulega í samstarfi við stofnanir í geiranum.
 • Hefja viðræður við Sjálfstæðu leikhúsin og Bandalag íslenskra leikfélaga um launaviðmið og önnur starfskjör leikstjóra.
 • Gera könnun á eftirlaunastöðu félagsmanna og lífeyrisréttindum, leita eftir samstafi við önnur stéttarfélög listamanna t.d. FÍL, FÍH og SÍM. Verkefnið gæti mögulega hentað sem samstarfsverkefni undir hatti BÍL.
 • Kanna leiðir til að tryggja kjör og réttindi erlendra leikstjóra sem ráðnir eru til starfa hjá íslenskum leikhússtofnunum, t.d. með því að útbúa bréf með útdrætti um helstu samningskjör og senda þeim. Einnig með samtali við systurfélög á Norðurlöndunum.

 

LISTIN: AÐ MUNA — Hugleiðing á alþjóðlegum degi listarinnar árið 2020 eftir Sjón

Hver ertu? Hvaðan kemurðu? Hvert ætlarðu?

Þessar þrjár spurningar liggja til grundvallar mannlegri tilveru og því hljóta þær einnig að vera helsta viðfangsefni allra lista. Yfirleitt hvíla þær í djúpinu og þorri almennings þarf ekki hefja daginn á því að spyrja þeirra, þarf ekki að staldra við um hádegið og spyrja þeirra aftur, né þarf hann að spyrja þeirra fyrir svefninn. Hversdagurinn er þá stöðugur og hver iðjar við sitt. Samfélagið tifar áfram í sínum brokkgenga takti, með þeim friði og hvíld sem bjóðast og þeim rökræðum og átökum sem eðlileg eru, og engin krefjandi ástæða er til þess að þreyta sig á heilabrotum um þessar gömlu tilvistarspurningar. Við lifum með þeim jafn auðveldlega og við bægjum frá okkur meðvitundinni um dauðleika mannsins.

Um leið eru þær allt í kringum okkur frá morgni til kvölds. Það ómar af þeim í allri tónlist, við sjáum fólk á valdi þeirra í kvikmyndum og leikritum, lesum þær úr ljóðum og sögum, þær eru í þögninni milli ramma teiknimyndasögunnar, við erum umlukin þeim í verkum fatahönnuða og arkitekta, berum þær á fingrum okkar og berum þær að vörum okkar, við fylgjum þeim í hreyfingum dansarans og greinum mark þeirra á efniviði myndlistarmannsins, svo fáein dæmi séu tekin. Því listafólk kemst aldrei undan spurningunum þremur. Og tilraunir þess til að svara þeim eru jafn bundnar í verk þess og mannlífið sem þau eru hluti af. Þannig geyma öll listaverk minningu um hvernig það var að vera manneskja á þeim tíma sem þau voru sköpuð.

Svo haldið sé áfram með spurningar. Ein af þeim spurningum sem oft eru uppi þegar listirnar eru annars vegar er sú hvers virði þær séu í mannlegu samfélagi. En þvert á það sem maður gæti haldið þá er það listafólkið sjálft sem spyr hennar oftar en nokkrir aðrir. Glíman við efann um eigin tilgang og ágæti er eitt helsta eldsneyti þeirra sem fást við að skapa. Ég held því að margt listafólk sé snortið af hversu mikið hefur verið leitað í verk þess til afþreyingar og andlegs styrks á þeim erfiðleikadögum sem við lifum núna — að landsmenn mundu að þar var sjóður sem mátti sækja í.

Þegar hættan líður hjá verður það meðal annars í hreyfingum dansarans sem við munum þekkja aftur innilokunina, í hraða tölvuleiksins sem við rifjum upp óttann, í söngröddinni sem við syrgjum þá sem létust, í ljóðinu sem við finnum vonina.

Listirnar munu áfram hjálpa okkur að muna hvaðan við komum, hver við erum og hvert við ætlum. Þær eru sameiginlegt minni okkar um hvað það er að vera sú brothætta og sí spyrjandi lífvera, manneskjan.

Samþykktir Aðalfundar

Það hefur dregist að birta samþykktir aðalfundar BÍL  sem haldinn var 29. febrúar. Ástæður þess eru einfaldar, skömmu eftir aðalfund og í því ferli að ganga frá gögnum fundarins brast á með samkomubanni og starfsumhverfi listamanna umbreyttist á einni nóttu og stjórnarmenn hafa verið róið lífróðri til bjargar störfum og kjörum listamanna í landinu,  Þvi birtast þær fyrst núna.

Laugardaginn 29. febrúar hélt Bandalag íslenskra listamanna aðalfund sinn í Iðnó. Aðalfund BÍL sitja fulltrúar samtaka listamanna í landinu, alls 15 talsins.

Á fundinum voru samþykktar ályktanir sem félög listamanna vilja beina til ráðamanna er varða umhverfi listgreina og listmenntunar í landinu.

1. Endurskipulagning Mennta- og menningarmálaráðuneytis

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020 vekur athygli á þeirri stöðu sem nýleg úttekt á starfsháttum og skipulagi mennta- og menningarmálaráðuneytisins dregur upp. Af henni má álykta að verulega skorti á fagmennsku og skilvirkni í afgreiðslu mála í þeim veigamiklu málaflokkum sem á hendi ráðuneytisins eru. Fundurinn hvetur til að nýtt skipurit leiði til gagngerrar endurskoðunar á stjórnsýslu lista og menningarmála, í anda gagnsæis og skilvirkni. Í því sambandi minnir fundurinn á þá kröfu Bandalags íslenskra listamanna að komið verði á fót sjálfstæðu menningarráðuneyti sem leiði fram nýja skipan menningarmála, einkum í ljósi þeirra stórvægilegu verkefna sem ráðuneyti menntamála þarf að taka til á komandi áratugum.

2. Innviðauppbygging næstu tíu ára

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020 beinir því til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að í nýbirtum áætlunum um stórsókn í enduruppbyggingu innviða verði ekki litið framhjá áralangri vanrækslu á nauðsynlegri fjárfestingu í menningarstofnunum þjóðarinnar, sem að auki hafa verið undirfjármagnaðar til margra ára. Við hreykjum okkur gjarna af árangri listamanna okkar á erlendri grund, en mikilvægastur er vettvangurinn heimavið, þar verða þau verðmæti til sem berast jafn víða og raun ber vitni. Mikilvægur hluti þess vettvangs eru stofnanir okkar, sem vegna aðstöðuleysis eru flestar illa í stakk búnar að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Því er mikilvægt að hlutur lista- og menningarstofnana í endurnýjun innviða verði ekki fyrir borð borinn.

3.Listasafn Íslands

Í ljósi þeirrar hvatningar til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að stofnanir menningar og listgreina fái endurreisn í áætlunum um uppbyggingu innviða, vill BÍL að sett verði sem fyrst af stað áætlun um nauðsynlegar framkvæmdir til lausnar á húsnæðisvanda Listasafns Íslands. Listasafnið hefur búið við óviðunandi húsnæði um árabil, sem dugar hvorki til sýningahalds né varðveislu á myndlistararfi þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að hefja strax vinnu við úrbætur svo safnið geti endurspeglað hið öfluga umhverfi sem íslenskur myndlistaheimur er.

 4. Listaháskóli íslands – LHÍ

Bandalag íslenskra listamanna vill líka benda á þá staðreynd að enn á eftir að koma Listaháskóla Íslands undir þak. Allt frá stofnun skólans 1998 hafa stjórnvöld haft uppi áform um að koma allri starfseminni fyrir undir einu þaki, án þess að þau áform næðu fram að ganga. Nú verður vart lengur við það unað að sú stofnun sem ein sinnir menntun í listgreinum á háskólastigi, stundar listrannsóknir og vinnur að eflingu listmennta meðal almennings, skuli þurfa að sætta sig við að starfa á fjórum stöðum í borginni og víða í húsnæði sem ekki er boðlegt til að sinna sérhæfðu hlutverki sínu. Nú er lag að ljúka því verki. BÍL hefur auk þess verið þeirrar skoðunar að rekstrarform LHÍ sé bókstaflega rangt, að eini listaháskólinn Íslandi skuli settur út fyrir garð í samfélagi íslenskra háskóla, með allt öðru rekstrarfyrirkomulagi. Með því fríar ríkið sig ábyrgð á listnámi á háskólastigi.

5. Staða Hörpu

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020 beinir til borgarstjórnar Reykjavíkur og ríkisstjórnar Íslands að fundinn verði nýr grundvöllur fyrir rekstri tónlistarhússins Hörpu. Ef fram fer sem horfir er rekstur Hörpu drepinn í dróma rangs og óskynsamlegs samkomulags eigenda um rekstur hússins. Sú krafa eigenda að húsið sé sjálfbært, eða rekið með hagnaði, hamlar allri eðlilegri starfsemi stofnunar sem þessarar. Fundurinn telur nauðsynlegt að tryggja húsinu rekstarumhverfi sem hæfir svo því menningarhlutverki sem til var stofnað.

6. Listnám

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að efla til muna listnám í grunnskólum landsins. Síðustu áratugi hefur það verið markmið við hverja endurskoðun námskrár grunnskóla að efla listnám. Reyndin er hins vegar sú, að á sama tíma hefur verulega dregið úr þeim tíma sem varið er til listnáms í grunnskólum og víða á landsbyggðinni er nú orðið engum tíma varið til listnáms í efri bekkjum grunnskóla, góð lisgreinakennsla er einn mikilvægast þáttur í menningarlegu uppeldi ungmenna. Bandalagið leggur mikla áherslu á að þessari þróun verði snúið við strax; að ráðuneytið leggi sig allt fram við að skapa aðstæður fyrir eflingu listnáms í öllum grunnskólum landsins.

7. Bíó Paradís

Bandalag íslenskra listamanna lýsir yfir áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem framtíð Bíó Paradísar er komin í. Bíó Paradís hefur skapað sér sérstöðu í menningarlífi borgarinnar sem vettvangur frumkvöðla og grasrótar íslenskrar kvikmyndagerðar. Bíó Paradís er eina kvikmyndahúsið hér á landi sem rekið er sem „Art House“ kvikmyndahús. Tilgangur slíkra húsa er að sýna og sinna kvikmyndaforminu á mun breiðari grunni en almennt gerist. Þetta hefur tekist með miklum ágætum í Bíó Paradís og fullyrða má að í dag sé Bíó Paradís einn heitasti reiturinn í menningarlífi borgarinnar. Það sem skapar þessa óvissu um framtíð kvikmyndahússins eru hagsmunir og verðmætamat, krafa um peninga og arð af fasteignum. Hin raunverulegu verðmæti verða til í starfseminni, mannlífinu sem umhverfi kvikmyndalistarinnar hefur skapað innan veggja kvikmyndahússins. Sú starfsemi á eftir að skila okkur umtalsvert meiri arði í framtíðinni. Að bera ekki skynbragð á þau verðmæti ber vott um mikla skammsýni. Stjórn Bandalags íslenskra listamanna skorar því á stjórnvöld að leita allra leiða til að tryggja framtíð Bíó Paradísar.

 

 

 

ÁRSSKÝRSLA STJÓRNAR BÍL STARFSÁRIÐ 2019

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna starf og trúnaðarstörf

Sjórn Bandalags íslenskra listamanna hélt 10 stjórnarfundi á árinu. Stjórn BÍL er skipuð formönnum aðildarfélaga bandalagsins. Eftirtalin skipuðu stjórn BÍL í umboði síns félags á árinu og í kjölfarið er listi þeirra einstaklinga sem sinntu trúnaðarstörfum fyrir Bandalagið á liðnu ári.

Karl Kvaran, formaður Arkitektafélags Íslands – AÍ (tók við af Helga Steinari Helgasyni í upphafi árs)

Katrín Gunnarsdóttir, formaður Danshöfundafélags Íslands – DFÍ

Varamaður: Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir

Gunnar Hrafnsson, formaður Félgs íslenskra hljómlistamanna –FÍH

Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara – FÍL

Irma Gunnarsdóttir, formaður Félags íslenskra listdansara – FÍLD

Varamaður: Guðmundur Helgason / Anna Norðdahl

Hallveig Rúnarsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna – FÍT (tók við af Hlín Pétursdóttur Behrens á vormánuðum)

Sigríður Rósa Bjarnadóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna – FK (tók við af Fahad Jabali á miðju ári)

Varamenn: Anna Þóra Steinþórsdóttir / Jóhannes Tryggvason

Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félag leikskálda og handritshöfunda – FLH

Varamaður: Huldar Breiðfjörð

Bragi Valdimar Skúlason, formaður Félag tónskálda og textahöfunda – FTT

Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands – RSÍ

Varamaður: Vilborg Davíðsdóttir

Anna Eyjólfsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna – SÍM

Varamaður: Starkaður Sigurðsson

Dagur Kári Pétursson, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra – SKL

Varamaður: Ása Helga Hjörleifsdóttir

Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður Tónskáldafélags Íslands – TÍ

Varamaður: Þuríður Jónsdóttir

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Félags leikstjóra á Íslandi – FLÍ (tók við af Páli Baldvini Baldvinssyni á haustmánuðum)

Rebekka Ingimundardóttir, formaður Félag leikmynda og búningahöfunda – FLB

 

Margrét Örnólfsdóttir hefur gengt starfi ritara stjórnar, Gunnar Hrafnsson hefur sinnt stöðu gjaldkera. Lúðvík Júlíusson hefur séð um bókhald Bandalagsins og endurskoðandi er Helga Þorsteinsdóttir. Skoðunarmenn reikninga 2019 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.

 

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (janúar 2020)

 

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Rvk.

Áheyrnarfulltrúi: Erling Jóhannesson

Varamaður: Anna Eyjólfsdóttir

 

Fulltrúar BÍL í faghópi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs

Formaður: Pétur Grétarsson, tónlistarmaður

Varamaður: Helga Þórarinsdóttir, tónlistarmaður

Magnús Þór Þorbergsson, sviðslistamaður

Varamaður: María Ellingssen, leikari/leikstjóri

Sólveig Pálsdóttir, rithöfundur

Varamaður: Sigurlín Bjarney Gísladóttir, rithöfundur

Sigtryggur Baldvinsson, myndlistarmaður

Varamaður: Ástríður Magnúsdóttir, myndlistarmaður

Kvikmyndaráð

Bergsteinn Björgúlfsson – 29.11.19–29.11.23

Varamaður: Sigríður Rósa Bjarnadóttir

 

Fulltrúaráð Listahátíðar

Erling Jóhannesson

 

Stjórn listamannalauna

Hlynur Helgason

Varamaður: Hlín Gunnarsdóttir

 

Stjórn Skaftfells

Anna Eyjólfsdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Fagráð Íslandsstofu

Erling Jóhannesson

List án landamæra                 

Margrét Pétursdóttir

 

Listráð Hörpu

Ásmundur Jónsson

 

Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis

Páll Baldvin Baldvinsson – 09.10.17

Varamaður: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

 

Höfundarréttarráð

Erling Jóhannesson – 01.08.18–01.08.22

                                                     

 Sérfræðinganefnd KKN

Signý Pálsdóttir                  (verkefni)                  jan. 2017–jan. 2020

Sigtryggur Magnason (ferðastyrkir)                   jan. 2017–jan. 2020

 

Stjórn Barnamenningarsjóðs

Áslaug Jónsdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Starfshópur um málverkafalsanir

Jón B. Kjartanss. Ransu ­ – okt. 2014

Varamaður: Kolbrún Halldórsdóttir

                                   

Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

Erling Jóhannesson

 

List fyrir alla – samráðshópur                  

Hildur Steinþórsdóttir

Felix Bergsson

 

List fyrir alla – valnefnd                 

Agnes Wild – vor 2017

Áslaug Jónsdóttir

Varamaður: Benedikt Hermannsson                 

 

Austurbrú – fagráð menningar                 

Hlín Pétursdóttur Behrens – maí 2019.

 

Menningarsjóður Guðjóns Samúelssonar

Erling Jóhannesson

 

Nordisk kunstnerrad

Erling Jóhannesson

Starfsemi stjórnar

 

Stjórnin hélt 10 stjórnarfundi á árinu 2019. Flestir fundir stjórnar eru haldnir í Iðnó en stjórn hefur á þessum vetri haldið reglulega fundi „heima í héraði“ mismunandi aðildarfélaga. Það gefur félögunum bæði tækifæri á kynnast starfsemi einstakra félaga betur og eins að sjá hvernig félögin hafa byggt upp starfsumhverfi sitt og við hvað þau eru að fást frá degi til dags.

Einn stjórnarfundur var opinn fundur þar sem farið var yfir, þá nýsamþykkta, tilskipun Evrópusambandsins um breytingar á höfundaréttarlögum. Á fundinn var boðið bæði sérfræðingi í höfundarétti og fulltrúum stjórnmálaflokka, bæði þeim sem höfðu lýst yfir ánægju með niðurstöðu Evrópusambandsins sem og fulltrúum flokka sem lýst höfðu yfir andstöðu og því að þeir myndu leggjast í málþóf ef og þegar tilskipunin yrði innleidd. Þetta mál hefur verið mikið báráttumál ýmissa félaga sem fara með höfundarétt sinna félagsmanna og því mikilvægur áfangi. Áhyggjur pólitískra flokka sem fullyrða að þetta muni hamla lýðræðislegri umræðu eða jafnvel þrengja að málfrelsi, vísa listamenn til föðurhúsanna – að greiða fyrir afnot af höfundavörðu efni listamanna er jafnsjálfsögð krafa og að greitt sé gjald fyrir afnot af auðlindum, og stjórnmálhreyfingar sem berjast fyrir sjálfsögðu auðlindagjaldi en gegn jafnsjálfsögðum höfundréttargreiðslum geta ekki talist trúveðug eða samkvæmar sjálfum sér. Almennt er það áhugi forseta að opnir fundir stjórnar um ýmis mál megi vera fleiri og tíðari.

Einn opinn fundur var í samstarfi við Rannís um sjóðakerfi Evrópu, Creative Europe. Listþing stóð til að halda í haust en vegna skipulags og tímaskorts frummælenda frestaðist það fram yfir áramót og verður því af þessum sökum gerð skil að ári. Æskilegt væri að haustþing væri á hverju ári, þau mega vissulega vera misumfangsmikil en fullt tilefni er til að hittast öll reglulega og hlusta hvert á annað.

 

Unnið hefur verið að því að útbúa starfsreglur stjórnar og er þeirri vinnu að ljúka núna þessa dagana. Það er gert til að skýra hlutverk bæði stjórnar og ekki síður forseta, svo umboð hans sé skýrara og styrkara. Það var á starfsáætlun síðasta árs að skýra verksvið stjórnar og forseta svo ákvarðanir og gjörðir forseta hvíldu á tryggara umboði.

 

Samtal við ríkisvaldið

 Samtal við ríkisvaldið er vissulega fyrirferðamesta verkefni BÍL og snýst um margþætta hluti, bæði á vettvangi samráðsgáttar og beint samtal við ráðuneyti menningarmála um hvaðeina sem lýtur að umhverfi listgreinanna. BÍL skilar inn umsögnum um fjámálaáætlun og fjárlagafrumvarp og í umsögnum um bæði þessi lykilverkfæri stjórnsýslunnar hamrar Bandalagið á grunnþætti starsfumhverfis listamanna sem er starfslaunaumhverfið. Starfslaunin eru grunnþáttur í launa- og starfskjörum sjálfstætt starfandi listamanna. Kjörin sem starfslaunin mynda eru ekki eingöngu talningin á krónunum sem detta í vasa þeirra sem hljóta náð fyrir augum úthlutunarnefnda, heldur eru þessi kjör nánast eins og glerþak yfir öllum samningum við listamenn. Jafnvel stofnanir sem heyra beint undir rekstur hins opinbera hika ekki við að bjóða listamönnum upp á kjör starfslaunaumhverfisins, því er gríðarlega mikilvægt að brjóta þetta glerþak.

Í lok árs var samráðsfundur stjórnar BÍL og ráðherra. Á fundinum lagði BÍL fram skjal sem byggði á vinnu stjórnar frá hausti 2018 um eflingu starfsalauna og verkefnasjóða. Þetta var meginmál fundarins, en stjórnin hafði sammælst um að leggja mestan þunga á þessi mál. Niðurstaða fundarins varð að ráðuneytið skyldi hefja vinnu við að efla, í fyrstu umferð, starfslaunin og starfshópi með fulltrúum BÍL og embættismönnum ráðuneytisins falið að leggja fram tilllögur á grunni forvinnu BÍL. Sú vinna er núna í gangi.

Önnur mál sem tekin voru upp við ráðherra og vert að velta vöngum yfir voru t.d. keðjuábyrgð stofnana og sjóða sem njóta opinbers fjármagns, s.s. eins og RÚV, sem útvistar verkefnum og brýtur svo samninga á listamönnum með því að gangast ekki við ábyrgð á samningum verktaka sinna. Þetta er alþekkt aðferð og orðin æ algengari við framleiðslu menningarefnis. Sambærilegt er að FÍL hefur kallað eftir ábyrgð Reykjavíkurborgar í samningum við dansara við Borgarleikhúsið, en þar vísar borgin á Leikfélag Reykjavíkur. Er það krafa allra listamanna að stofnanir og verkefni sem að svo stórum hluta eru fjármögnuð af opinberu fé virði samninga. Á nýafstöðnum formannafundi norrænna systursamtaka okkar kom fram að þessi aðferðarfræði er ekki bundin við Ísland. Föstum samningum listamanna við stofnanir hefur fækkað verulega, lausir samningar og tímabundnar ráðningar eru orðnar mun algengari með tilheyrandi upplausn í samningum og réttindum.

Listdansnám hefur verið í upplausn vegna skorts á lagaramma utan um framkvæmd þess. Fjármagnið sem listdansskólarnir fá frá ráðuneytinu vegna samninga um dansnám á framhaldsskólastiginu ber uppi rekstur þeirra að mestu leyti, og gerir þeim kleift að halda úti grunnnáminu. Verði breyting á því fyrirkomulagi er grunnnámið í hættu og framtíð dansnáms gæti bókstaflega fjarað út. Unnið er, í samtali skólana og ráðuneytisins, að lausn á þessu. Á sama tíma varð Dansverkstæði að veruleika og hefur íslenskur listdans með því eignast vísan samastað, ánægjulegur áfangi og sú uppbygging, ásamt vonandi lausn álistdansnáminu, mun verða listdansi á Íslandi mikil lyftistöng, svo ekki sé talað um ef fljótlega verður farið að huga að danshúsi.

Málefni Listskreytingasjóðs hefur valdið listamönnum og þá sérstaklega myndlistarmönnum þykkju og þunga. Í síðustu fjárlögum var framlag til Listskreytingasjóðs þurrkað út. Vægast sagt vanhugsuð hugmynd og lítilsvirðing við stóran hluta myndlistararfs þjóðarinnar. BÍL mótmælti þessu í erindum til ráðuneytisins og í umsögnum. Hafi það verið hugmynd ráðuneytisins að breyta fyrirkomulagi Listskreytingasjóðs um innkaup á myndlist í opinberar stofnanir þá þarf að gera það með einhverjum hætti, í það minnsta þarf ríkið að hafa skilningi á eigin fyrirkomulagi. Því við þessa útstrikun á fjárlögum var á einu augabragði eitt stærsta listaverkasafn þjóðarinnar eftirlits- og umsýslulaust. Listaverk sem eru í eigu ríkisins og í umsýslu sjóðsins hanga í mörgum stofnunum víða um landið og í fórum þess má finna verk eftir helstu myndlistarmenn þjóðarinnar áratugi aftur í tímann. Þessi umgengni er vanvirðing og niðurlægjandi. SÍM og ráðuneytið hafa náð saman um að fjármagna í það minnsta umsýslu og skráningu.

 

Samráðsgátt og umsagnir

 Að viðbættum umsögnum um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp veitti BÍL umsagnir um nokkurn fjölda mála á árinu 2019. Varðandi mál sem koma beint að starfsumhverfi listamanna hefur það verið vinnuregla að vera í nánu samtali við þá listgrein sem mest á undir í viðkomandi lagabreytingum, s.s eins og við endurskoðun sviðslistalaga sem samþykkt voru nýlega og eða frumvarp um bókaútgáfu og frumvarp til þingsályktunar um eflingu íslenskunnar. Í grunninn er útgangspunktur BÍL að verja hagsmuni listamanna í viðkomandi frumvörpum sem og að standa vörð um orðfæri og stöðu listarinnar. Þessar umsagnir eru aðgengilegar á vef Alþingis. Það er tilefni til að benda á að t.d. í tilfelli þingsályktunar um eflingu íslenskunnar er sneitt fram hjá listrænni og skapandi umgengi við tungumálið. Þrátt fyrir ábendingu frá BÍL var engu breytt í þeim texta en áhersla ályktunarinnar er að ungt fólk þurfi að ná tökum á lestri á skýrslum og rannsóknartextum og færni í stofnanamáli. Á meðan við vitum að lifandi tunga snýst um að hafa vald á fjölbreytileika tungumálsins og íslenskunni sem skapandi verkfæri – að færa allan skilning svona upp að yfirborði tungumálsins grynnkar skilning og gerir tungumálið fátæklegra. Þetta er eitt lítið dæmi um þá baráttu sem listamenn verða sífellt að heyja.

 

Miðstöð menningarmála

 Í upphafi síðasta árs skipaði Menningar- og menntamálaráðherra starfshóp um stofnun Miðstöðvar menningarmála. Eins og fram kom á aðalfundi 2019 þurfti BÍL að beita sér til að fá aðgang að þeirri vinnu. Á þeim tímapunkti stóð til að kanna grundvöll fyrir stofnun miðstöðvar menningar og listgreina, en nálgunin var framhald af hugmyndum um sameiningu kynningarmiðstöðva. Svo yfirgripsmikil stofnun getur ekki verið framkvæmd út frá þröngu sjónarhorni kynningarmiðstöðva og fékk BÍL hópinn stækkaðann til þess að fá víðara sjónarhorn á þessa stofnun eða miðstöð. Í upphafi var kannski ekki alveg ljóst hvert þessi vinna myndi leiða. Niðurstaða vinnunar var síðan kynnt ráðherra síðastliðið haust og þar kom skýrt fram að stofnun sem þessi væri gríðarlega yfirgripsmikil, starf nefndarinnar dró upp mynd af stórum málflokki – sem ef vel ætti að vera krefðist sjálfstæðs ráðuneytis. Útfærsla þessarar stofnunar komst ekki lengra í bili, en þessi vinna skilaði ágætri yfirsýn og hefur verði samtalinu um skipan menningarmála mjög gagnleg. Það er hægt að merkja meiri skilning á þeim fjölbreytileika sem umhverfi listarinnar og menningin endurspeglar. Skilningur á því að akurinn sé víðáttumeiri og fjölbreyttari en svo að hægt sé með einföldum hætti að steypa allt umhverfið í stjórnsýslulegt mót með ákvörðunum ofan frá. Þegar að því kemur að menning og listir eignast sitt sjálfstæða ráðuneyti þarf það að vaxa upp frá grunninum, vera endurspeglun á þessu skapandi umhverfi sem er auðlind framtíðarinnar – grundvöllur atvinnulífs í sjálfbærum samfélögum framtíðarinnar.

Það sem eftir stendur af ákvörðunum í kjölfar þessarar vinnu um miðstöð menningarmála, og komið er í framkvæmd, er starfshópur um eflingu og endurskoðun starfslauna. Einnig er á borði ráðuneytisins hugmynd um samstarfsvettvang skapandi greina sem er hugmynd um vettvang atvinnulífs og skapandi greina. Ekki er vitað á þessari stundu hvernig það verkefni er hugsað.

En aðeins um form samtalsins við hið opinbera. Þetta reynir oft á þolrifin og virkar seint og þungt í vöfum. Við búum við kerfi þar sem búið er að koma fyrir dreka á gullforðanum sem gegnir nafninu LOF, sem er stytting á Lög um opinber fjármál. þessum dreka verður ekki haggað nema eftir mjög fyrirfram skýrum leikreglum. Jafn mikilvægt og það er að kunna skil á þeim leikreglum, þá er ekki síður mikilvægt að vernda orðfæri listarinnar og skapa því stöðu sem sjálfsögðu verkfæri í umhverfi stjórnsýslunnar. Það er jú fyrir listina sem við erum að berjast.

Reykjavíkurborg

 Eins og oft hefur komið fram hefur samtal borgarinnar og listamanna verið með miklum ágætum. BÍL hefur þó ítrekað haldið fram þeirri kröfu að fá aftur tvo áheyrnarfulltrúa í Menningar- íþrótta- og tómstundaráði sem var fyrirkomulag síðastu kjörtímabila. Þessari kröfu hefur verið fylgt eftir á samráðsfundum og í erindum inn á borð nefndarinnar.

Borgarstjóri og forseti BÍL undirrituðu nýjan samstarfssamning til þriggja ára á vormánuðum á sömu nótum áður. Ekki hefur tekist að fá upphæðina hækkaða á samningnum umfram vísitölu.

Samráðsfundur var haldinn með borginni og stjórn BÍL að venju í Höfða 4. desember. Þar reifaði stjórn BÍL þau atriði sem á umhverfi listanna hvíla. Fyrirkomulag úthlutana er til mikillar fyrirmyndar hjá Reykjavíkurborg, þar sem BÍL skipar faghópinn sem fer með ráðgefndi hlutverk um úthlutun styrkja til verkefna, fyrirkomulag sem nýtur trausts þvert á pólitískar línur. Auglýst var eftir umsóknum í Borgarhátíðarsjóð og nefnd skipuð til að fara yfir þær umsóknir. Í upphafi var ekki hægt að skilja það upplegg öðruvísi en svo að faghópur BÍL hefði ábyrgð á því verkefni en þegar til kom varð sú nefnd skipuð pólitískum fulltrúum, fulltrúa verslunar og þjónustu, fulltrúa ferðaþjónustunnar og svo einum fulltrúa BÍL. Það er full ástæða til að hafa af þessu nokkrar áhyggjur því þær hátíðir sem sækja um að fá stöðu sem borgarhátíðir eru nánast undantekningarlaust menningar- og listahátíðir. Áhyggjur segi ég, því þetta snýst um trúverðugleika borgarinnar sem menningarborgar – verði sjónarmið verslunar og ferðamennsku að mælikvarða fyrir gildi listahátíða er hætta á því að trúverðugleiki borgarinnar sem raunverulegs suðupottar listsköpunar þynnist út.

BÍL lagði áherslu á endurnýjun menningarstefnu borgarinnar. Menningarstefna Reykjavíkurborgar, sem rennur út á þessu ári, hefur reynst gott verkfæri í samskiptum og samtali listamanna og embættismanna. BÍL lýsti yfir ánægju með þessa framsetningu menningarstefnunnar og framkvæmdaáætlunar sem byggir á henni. Menningarstefnan er hugmyndafræðilegri, fyrir vikið langlífari og nokkurskonar manifesto um stöðu listgreina í samfélagsgerðinni. Það væri nánast hægt að framlengja stefnunni með endurskoðun, það er mikilvægt að hún sé í gildi og BÍL lýsti yfir vilja til að taka þátt í því samtali.

Kvikmyndaborgin Reykjavík er kannski öllu fyrirferðameira hugtak þessi misserin en t.d. Bókmenntaborgin eða Tónlistarborgin. Það helgast af því að fyrir dyrum eru Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, næstkomandi haust, samstarfsverkefni Menntamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Það er ástæða til að nefna það að á sama tíma skuli starfsemi Bíó Paradísar vera í hættu vegna húsnæðismála. Bíó Paradís er dæmi um verkefni sem sprottið er af frumkvæði eldhuga í “bransanum”, vettvangur þar sem listsköpun og menning hefur náð að tengja saman ólíka hópa, fyrir utan að verða lykill umhverfis grasrótar íslenskrar kvikmyndagerðar. Menningarumhverfi er mjög viðkvæmt. Þegar við höfum náð ákveðnum árangri á einhverju sviði, lyft gólfinu í einhverri grein er mikilvægt að verja það. Í stærri samfélögum má reikna með því að aðrir geti tekið við keflinu eða fyllt í tómið sem mögulega myndast hætti starfsemi einhverra hluta vegna. En vegna smæðar og hversu árangur er oft bundinn einstaklingum og eldhugum í ákveðnum greinum er hættan meiri og skaðinn getur haft alvarlegri afleiðngar, við verðum því að verja árangur okkar.

Hagtölur

Í stjórnarsáttmála ríkistjórnar var ákvæði um skráningu hagvísa lista og skapandi greina, sem hefur verið mikið baráttumál BÍL til margra ára. Sú vinna er hafin hjá Hagstofu Íslands og eignuðumst við okkar fyrstu opinberu hagtölu síðastliðið haust, um fjölda starfa í listgreinum, beinum og afleiddum. Forseti hefur flaggað hagtölunni við hvert tækifæri eins og stolt foreldri með ungbarnið sitt og fyrstu tönnina. Hagfræðin er gríðarlega gott verkfæri til samtals út fyrir akur okkar listamanna en við vitum að hagtölur mæla eingöngu afleiður listsköpunar. Á samráðsfundum BÍL við Hagstofuna hefur það verið áhersluatriði að greiningin og mælingin nái niður í grunninn – það er einfalt að ná til stofnana, ná utan um sölu og dreyfingu, en til þess að tölurnar séu lýsandi fyrir umhverfið í heild þarf að ná til listsköpunarinnar sjálfrar sem að langmestu leyti er unnin af einyrkjum, utan við strúktúr stofnana og framleiðenda.

Skattlagning höfundagreiðslna

 Sá áfangi náðist á síðastliðnu ári að skattlagning höfundréttargreiðslna flokkast hér eftir sem fjármagnstekjur og bera því lægri skatt en almennar tekjur. Barátta sem lengi hefur verið háð og gleðilegur áfangi.

Bakland LHÍ

 Stjórn BÍL barst á árinu beiðni um að ganga til liðs við Bakland Listaháskóla Íslands. Að svo stöddu var ákvörðun stjórnar að sitja hjá þar sem flest aðildarfélögin eiga í kjarabaráttu við stjórn skólans og var það álit stjórnar að þarna stönguðust á hagsmunir – að BÍL í umboði aðildarfélaga sinna væri þannig komið beggja vegna borðs. BÍL hefur líka verið þeirrar skoðunar að rekstrarform LHÍ sé bókstaflega rangt! Að eini listaháskólinn á Íslandi skuli vera settur út fyrir garð í samfélagi íslenskra háskóla með allt öðru rekstrarfyrirkomulagi og ríkið hafni með því rekstrarábyrgð íslensks listnáms á háskólastigi.

Lokaorð

 Við erum að upplifa nokkuð sérstaka tíma. Í fyrsta sinn er meirihluti landsmanna fylgjandi starfslaunum listamanna, samkvæmt mælingum, og í sumum hópum mælist mikill meirihluti jákvæður í garð listamannalauna. Þetta er vissulega jákvætt fyrir listamenn og störf þeirra eru að verða stærri og sjálfsagðari hlutur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Það er vissulega arfleið baráttu frumkvöðla, fyrri kynslóða listamanna sem ruddu braut, menntunar og sjálfsmyndar listarinnar í nýju samfélagi. En við höfum eignast nýja kynslóð sem hefur tekið við keflinu full sjálfstrausts og örlát á listfengi sitt og hefur gefið okkur nýja og sterka rödd í alþjóðlegu umhverfi listarinnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dagskrá Aðalfundar BÍL 2020

 1. janúar síðastliðinn var aðildarfélögum BÍL sent fundarboð aðalfundar 2020. Fundurinn verður haldin í Iðnó laugardaginn 29. Febrúar og hefst klukkan 14:00.

Dagskrá:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
 3. Fundargerð síðasta aðalfundar
 4. Skýrsla forseta um starf BÍL 2019
 5. Ársreikningar 2019
 6. Lagabreytingar
 7. Kosning forseta
 8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 9. Starfsáætlun 2020
 10. Önnur mál

 

Ekki liggja fyrir fundinum neinar tillögur að lagbreytingu.

Aðalfund BÍL fer fram skv. lögum Bandalagsins, sem eru aðgengileg á heimasíðunni. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag fer með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Allir félagsmenn hafa seturétt á aðalfundi og er hvatt til þess að aðildarfélögin augýsi og hvetji félagsmenn til að mæta.

Samkvæmt lögum BÍL skal á aðalfundi annað hvert ár kjósa forseta og skoðunarmenn reikninga. Framboð/tillögur til þessara embætta þurfa að hafa borist stjórn eigi síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund.

Ársskýrsla FÍLD starfsárið 2019-2020

Stjórn FÍLD:

Formaður: Irma Gunnarsdóttir.
Gjaldkeri: Guðmundur Helgason.
Ritari: Guðmunda Pálmadóttir.
Meðstjórnandi: Bryndís Einarsdóttir. Meðstjórnandi: Ingunn Elísabet Hreinsdóttir. Varamaður: Valgerður Rúnarsdóttir. Varamaður: Sigrún Ósk Stefánsdóttir.

Bryndís flutti erlendis í september 2019. Sigrún Ósk hefur gengt starfi meðstjórnanda síðan.

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum stofnunum/bandalögum:

Bandalag Íslenskra Listamanna: Irma Gunnarsdóttir.
Íslenski Dansflokkurinn: Anna Norðdahl. Varamaður: Guðmundur Helgason. Sviðslistasamband Íslands: Irma Gunnarsdóttir. Varamaður: Guðmundur Helgason. Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík: Irma Gunnarsdóttir. Varamaður: Ólöf Ingólfsdóttir. Gríman – Íslensku Leiklistarverðlaunin: Einn fulltrúi í Grímunefnd.

Aðalfundur FÍLD var haldinn 27.janúar 2019. Irma Gunnarsdóttir var endurkjörin sem formaður. Fráfarandi stjórnarmeðlimir voru Hildur Ólafsdóttir ritari, Anna Norðdahl meðstjórnandi og Guðrún Selma Sigurbjörnsdóttir varamaður. Núverandi stjórn þakkar þeim fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins.

Stjórn FÍLD fundaði að jafnaði með eins mánaðar millibili á árinu. Utan þess var fjallað um mál sem hæst báru hverju sinni í gegnum tölvupóst, síma og facebooksíðu stjórnar. Stjórn fundaði einnig nokkrum sinnum með skólastjórnendum listdansskólanna, sérfræðingum menntamálaráðuneytisins og skólastjórnendum MH vegna stöðu framhaldsskólastigs í listdansi en samningar vegna kennslu á framhaldsskólastigi eru lausir frá 1.júlí 2020.

Kjaramál dansara og danshöfunda

FÍLD hefur átt í góðu samstarfi við FÍL – stéttarfélag sviðslistafólks síðastliðið ár.     Birna Hafstein formaður FÍL hefur sýnt kjarabaráttu dansara mikinn stuðning á árinu og hefur hún beitt sér af fullum krafti f.h. dansara í kjarabaráttu við ríkið og stofnanaleikhúsin. Einnig má finna fyrir samstöðu með dönsurum meðal sviðslistafólks innan FÍL en til marks um samstöðuna sendi aðalfundur FÍL frá sér ályktun til stofnannaleikhúsanna þar sem krafist er að dansarar og danshöfundar fái greitt fyrir sína vinnu í leikhúsunum skv. lögbundnum kjarasamningum, líkt og aðrar stéttir leikhúsanna.

Sviðslistafélögin FÍLD, FÍL, DFÍ og SL ásamt Dansversktæðinu tóku höndum saman á árinu og mynduðu þrýstiafl til stuðnings kjarabaráttu dansara. Sent var bréf til stjórnenda stofnanaleikhúsanna þar sem þrýst var á um úrbætur og krafist launajafnréttis. Það er óþolandi að danslistarfólk skuli ekki búa við sömu kjör og sambærilegar stéttir í leikhúsunum. Ályktanir og ákall um að dansarar og danshöfundar fái lögbundna kjarasamninga hafa einnig verið sendar til kjara- og mannauðssýslu ríkisins en það er í höndum þeirra að lögbinda kjarasamninga við stofnanaleikhúsin fyrir danslistarfólk. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að samningarnir líti dagsins ljós. Baráttan heldur áfram af fullum krafti. Við krefjumst réttlætis og jafnréttis!

FÍLD á vettvangi BÍL

Formaður FÍLD sækir mánaðarlega stjórnarfundi BÍL og er þar talsmaður listdansmála. BÍL starfar skv. starfsáætlun stjórnar þar sem áhersla er á samtal og samráð um málefni listamanna og listgreina við aðila sem stýra málaflokknum hjá ríki og borg. Samráðsfundur BÍL með menntamálaráðherra og sérfræðingum ráðuneytisins var haldinn í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í lok nóvember og samráðsfundur með borgarstjóra og fulltrúum borgarinnar fór fram í byrjun desember í Höfða. Á báðum þessum fundum vakti undirrituð athygli ráðamanna á bágborinni stöðu listdansnáms í menntakerfinu sem og óviðunandi kjörum danslistarfólks í stofnannaleikhúsunum.

FÍLD hefur unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að vekja athygli ráðamanna á stöðu listdansnáms í menntakerfinu en því miður þokast málin hægt áfram. Á umræddum fundum benti undirrituð á stöðu listdansnámsins í stjórnsýslunni og því hróplega misræmi sem blasir við í styrkveitingum með listnámi frá ríki og borg. Ítrekað hefur FÍLD kallað eftir reglugerð utan um listdansnám skv. aðanámsskrá og var enn og aftur vakin athygli á málinu á báðum þessum fundum. Vegna skorts á lagaumgjörð utan um listdansnám sér borgin sér ekki fært að greiða með grunnnáminu að svo stöddu en borgarstjóri lýsti yfir áhuga á að gera þríhliða samning um kennslu grunnnáms í listdansi með ríki, borg og listdansskólum þegar lagaumgjörð þess efnis kemur frá ríkinu. Málið liggur nú hjá menntamálaráðherra og mun FÍLD halda áfram að ýta á eftir málum.

Á báðum þessum samráðsfundum voru kjör listafólks rædd. BÍL fer fram á að fjöldi starfslauna listamanna verði hækkaður sem og að starfslaunin sjálf verði hækkuð í takt við almenna launaþróun í landinu. Á fundi með borgarstjóra töluðu formenn FÍL og FÍLD fyrir bættum kjörum danslistarfólks. Vakin var athygli á að jafnlaunastefna Reykjavíkurborgar er virt að vettugi í Borgarleikhúsinu þar sem kjör danslistarfólks í Borgarleikhúsinu eru ekki sambærileg kjörum annarra stétta sviðslistafólks í húsinu. Spurningu var varpað fram til borgarstjóra um jafnlaunastefnu borgarinnar og hvort hún eigi ekki við um allar stofnanir borgarinnar ? Borgarstjóri gat ekki svarað f.h. Borgarleikhússins þar sem um sjálfseignastofnun er að ræða sem rekin er af LR en ekki borginni.

 

Þó alltaf megi gera betur þá ber að þakka þau framfaraskref sem tekin eru. Formaður FÍLD þakkaði borginni fyrir stuðning við Dansverkstæðið á árinu og einnig fyrir að gera Reykjavík dansfestival að einni af sex borgarhátíðum Reykjavíkur næstu þrjú árin. Stuðningur borgarinnar í þeim efnum er þakkarverður og til mikilla bóta fyrir sjálfstætt starfandi danslistarfólk.

FÍLD á vettvangi SSÍ

Nokkrir fundir voru haldnir á árinu hjá Sviðslistarsambandi Íslands og mætti formaður á fundina f.h. FÍLD. Skipað var í Grímunefnd á vordögum fyrir yfirstandandi leikár auk þess sem fundað var um framkvæmd Grímunnar og regluverk hennar. Gríman sjálf fór svo fram í byrjun júní með pompi og prakt og var uppskera danslistarinnar ríkuleg.

Frumvarp til laga um sviðslistir var samþykkt á alþingi þann 17.desember. Starfsemi Íslenska dansflokksins er nú loks bundin í lög, bravó!

Formaður FÍLD ásamt formönnum aðildarfélaga SSÍ sátu samráðsfundi á vegum SSÍ á árinu þar sem frumvarp til laga um sviðslistir var rætt. Frumvarpið fór í gegnum nokkrar breytingatillögur þar til að það var að lokum samþykkt á alþingi í lok árs. Með nýju sviðslistalögunum er kominn sambærilegur lagarammi utan um sviðslistir eins og t.d. til er fyrir bókmenntir, myndlist og tónlist. Helstu nýmæli í lögunum er að í fyrsta sinn er lögfest ákvæði um Íslenska dansflokkinn. Það er mikið fagnaðarefni að ný sviðslistalög nái yfir starfsemi Íslenska dansflokksins og er staða dansflokksins nú betur tryggð til framtíðar en áður. Af lögunum er ljóst að litið er svo á að Íslenski dansflokkurinn sé sjálfstæð listastofnun líkt og Þjóðleikhúsið. Vonandi verða lögin til þess að Íslenski dansflokkurinn fái viðunandi vinnuaðstöðu í náinni framtíð. Vonandi verða nýju lögin til þess að danshús rísi á Íslandi í náinni framtíð en lagarammi Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins er áþekkur. Aðstöðumismunur þessara ríkisstofnanna er hinsvegar áberandi mikill.

 

Barnamenningarhátíð 2019                                                                              Árleg hátíðarsýning FÍLD á opnunardegi hátíðarinnar

Félag íslenskra listdansara stóð fyrir hátíðarsýningu í samstarfi við Barnamenningarhátíð þann 9.apríl og var sýningin, líkt og undanfarin ár, liður í opnunardegi hátíðarinnar. Listdansskólum innan FÍLD var boðin þátttaka í sýningunni og var þátttaka skólanna mjög góð en um 250 nemendur tóku þátt í sýningunni. Stjórnendur Barnamenningarhátíðar voru mjög ánægðir með dansviðburðinn í ár sem og undanfarin ár og er óhætt að segja að sýningin sé mikil lyftistöng fyrir skólasamfélag listdansskólanna. Forsvarsmenn Barnamenningarhátíðar hafa óskað eftir áframhaldandi samstarfi við FÍLD vegna komandi hátíðar. FÍLD endurtekur því leikinn, blásið verður til dansveislu á opnunardegi Barnamenningarhátíðar, þann 21.apríl næstkomandi. Stjórnendur listdansskóla eru beðnir um að tilkynna þátttöku skóla á netfangið formadur@dance.is fyrir 25.mars næstkomandi.

Nýstúdent af listdansbraut MH fékk viðurkenningu frá FÍLD fyrir framúrskarandi námsárangur í listdansgreinum
  

Á vordögum fór fram útskrift frá MH að venju. Á undanförnum árum hafa dansnemar listdansskólanna útskrifast þaðan með stúdentspróf af listdansbraut. Fjölmörg fagfélög veita nýstúdentum bókarverðlaun og viðurkenningar fyrir námsárangur á stúdentsprófi og hefur FÍLD nú veitt slík verðlaun í þrígang, við útskriftir á árunum 2017, 2018 og 2019. Það var Rebekka Sól Þórarinsdóttir nýstúdent af listdansbraut MH sem hlaut viðurkenningu FÍLD síðastliðið vor. Fékk hún ævisögu Helga Tómassonar að gjöf fyrir framúrskarandi námsárangur í listdansgreinum og heillaóskir frá félaginu.

Formleg opnun Dansverkstæðisins fór fram 30.ágúst.

Starfsemi Dansverkstæðisins fór vel af stað í nýja húsnæðinu að Hjarðarhaga 47. Formleg opnun fór fram í lok sumars þar sem fjölmargir heiðruðu samkomuna með nærveru sinni, þar á meðal Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. FÍLD færði Dansverkstæðinu ævisögu Helga Tómassonar og blóm í innflutningsgjöf með heillaóskum frá félaginu. Verkefnastjórar Dansverkstæðisins kynntu metnaðarfulla dagskrá vetrarins, boðið var upp á léttar veitingar og í boði var dagskrá með ýmsum dansuppákomum. Opnunarhátíðin heppnaðist mjög vel og er ánægjulegt að sjá starfsemi Dansverkstæðisins blómstra í nýju húsakynnunum.

Framhaldsskólastig í listdansi

Á árinu vann undirrituð að nýjum brautar- og áfangalýsingum fyrir Listdansbraut MH en uppfæra þurfti eldri námslýsingar úr aðalnámsskrá til samræmis við gildandi viðmið hjá Menntamálastofnun fyrir nám á framhaldsskólastigi.

Nýjar brautar- og áfangalýsingar voru unnar fyrir menntamálaráðuneytið og MH í samstarfi við skólastjórnendur listdansskólanna og er almenn ánægja meðal skólastjórnenda hvernig til hefur tekist. Búið er að endurskoða námið og aðlaga það betur að þörfum listdansnema. Nýju náms- og brautarlýsingarnar eru nú í staðfestingarferli hjá Menntamálastofnun en stefnt er að því að hefja kennslu samkvæmt þeim haustið 2020 ef samningar nást við ríkið um kennsluna.

Hvernig samið verðu við listdansskólanna á vordögum 2020 er óljóst að svo stöddu en samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál þarf öll aðkeypt þjónusta ríkisins að fara í opinbert útboð og fellur starfsemi listdansskólanna undir þau lög. Listdansskóli Íslands, Danslistarskóli JSB og Klassíski Listdansskólinn hafa lýst yfir áhuga á að bjóða í námið sameiginlega og hafa listdansskólarnir lagt fram tillögur til ráðuneytisins þess efnis. Tillögurnar eru nú til skoðunar hjá menntamálaráðuneytinu og vonum við að ráðherra taki tillögunum vel. Farið er fram á aukið fjárframlag með náminu en hvernig útboði á listdansnámi verður nákvæmlega háttað veit enginn.

 

Eins og fram hefur komið þá hefur FÍLD gagnrýnt lagaumhverfi listdansnámsins harðlega en formaður skrifaði m.a. grein í Morgunblaðið á haustmánuðum sem varpar ljósi á það misrétti sem listgreinin býr við er kemur að styrkveitingum með náminu frá ríki og borg. Hvernig ráðherra mun bregðast við öllum ábendingunum frá FÍLD verður bara að koma í ljós. Við vonum að hún taki ábendingum okkar vel og leggi sitt af mörkum til að bæta stöðu listdansnámsins í menntakerfinu.

Undankeppni Dance World Cup fór fram á Íslandi í fyrsta sinn þann 30.mars á Stóra sviði Borgarleikhússins

Einn af stærstu dansviðburðum dansnema á árinu var undankeppni Dance World Cup. Þátttakan í keppninni fór fram úr björtustu vonum og var magnað að fylgjast með fjölda dansnema frá dansskólum víðsvegar að af landinu spreyta sig í fjölbreyttum keppnisflokkum keppninnar. Stjórn FÍLD lagði sitt að mörkum og hjálpaði til við undirbúning og skipulag keppninnar en umboðsaðili og aðalskipuleggjandi keppninnar á Íslandi, Chantelle Carey, óskaði eftir aðstoð frá stjórn FÍLD. Keppnin tókst í alla staði vel. Fjöldi íslenskra dansnema náði að vinna sér inn þátttökurétt í aðalkeppninni en ríflega 150 keppendur frá Íslandi tóku þátt í aðalkeppni DWC sem fram fór í Braga í Portúgal síðastliðið sumar. Skemmst er frá að segja að íslensku keppendurnir voru landi og þjóð til sóma og komu reynslunni ríkari heim. Undankeppni DWC í ár fer fram þann 9.febrúar næstkomandi á Stóra sviði Borgarleikhússins og verður gaman að fylgjast með afrekum nemenda á sviðinu í ár. Hlökkum til!

 

SÓLÓ undankeppni Stora Daldansen

fór fram á Nýja sviði Borgarleikhúsins sunnudaginn 20.október

 

FÍLD hefur á undanförnum árum staðið fyrir SÓLÓ undankeppni í klassískum listdansi fyrir aðalkeppnina Stora Daldansen. Undankeppnin er mikil lyftistöng fyrir klassíska listdansinn hérlendis og er hún mikilvægur vettvangur fyrir íslenska listdansnema til þess að spreyta sig á krefjandi sólóhlutverkum klassískra ballettverka. Þátttökurétt í undankeppnina hafa 16 ára og eldri listdansnemar í listdansskólum innan Félags íslenskra listdansara. Alls tóku 14 nemendur þátt í keppninni í ár og var almenn ánægja með hvernig til tókst. Mjög gaman var fyrir nemendur að fá tækifæri til að spreyta sig á Nýja sviði Borgarleikhússins og var umgjörð keppninnar til fyrirmyndar. Þær Ásdís Karen Árnadóttir úr Klassíska Listdansskólanum og Bergþóra Sigurðardóttir og Dagný Björk Harðardóttir úr Listdansskóla Íslands urðu hlutskarpastar í keppninni í ár og munu þær keppa fyrir Íslands hönd í aðalkeppninni sem haldin verður í Falun í Svíþjóð dagana    1.-4.apríl næstkomandi.

 

 

 

Mikil gróska og frábært dansár að baki

Það er heilmikil gróska og gerjun í gangi í íslensku danssamfélagi og má segja að danslistin teygi anga sína í allar áttir þessa dagana. Þrátt fyrir fjárskort og brothætt starfsumhverfi listdansskólanna er skólasamfélag listdansins sterkt og íslenskir dansnemar hafa mun fleiri tækifæri nú en áður.

Íslenski dansflokkurinn átti frábært ár og er að slá í gegn erlendis en starfsemi flokksins teygir sig langt útfyrir landssteinana. Starfsumhverfi sjálfstætt starfandi dansara á Íslandi er frekar erfitt en þó hefur aðstaðan lagast til muna með tilkomu Dansverkstæðisins. Boðið er upp á morguntíma á hagstæðu verði og frábæra starfsaðstöðu en styrkveitingar til danslistarfólks úr verkefnasjóðum og starfslaunasjóðum sviðslista eru alltof takmarkaðar, því þarf að breyta. Höldum áfram að skapa okkar dansumhverfi og gefumst ekki upp þótt á móti blási. Það er enginn sem skapar danslistinni farveg í landinu nema við sjálf. Nýtt ár felur í sér nýjar áskoranir, tökum fagnandi á móti 2020!

 

Að lokum,

FÍLD opnaði nýja heimasíðu á árinu og er slóðin www.felagislenskralistdansara.com . Ólöf Ingólfsdóttir hannaði síðuna fyrir FÍLD og er heimasíðan mjög vel heppnuð. Umsjónarmaður síðunnar er Sandra Ómarsdóttir. Ég vil hvetja ykkur öll til að senda mynd af ykkur á netfangið dance@dance.is vegna uppfærslu á félagatali. Allir félagsmenn eru tilgreindir í félagatali á heimasíðunni. Athugið að ef smellt er á nöfn félagsmanna opnast gluggi með mynd af viðkomandi og tengslaupplýsingum þ.e. hjá þeim sem sent hafa inn portrait mynd af sér og tengslaupplýsingar. Fréttasíðan á vefnum okkar er heldur fátækleg og vil ég hvetja félagsmenn til að nýta sér vefinn með því að senda fréttatilkynningar af dansviðburðum eða öðru fréttnæmu á netfangið dance@dance.is . FÍLD er einnig með facebooksíðu og deilir þar danstengdu efni.

Dags. 20.01 2020

f.h. stjórnar

Irma Gunnarsdóttir                                                                                         formaður FÍLDæsins﷽﷽﷽﷽﷽taðan lagast til muna með tilkomu Dansverkstlegt er að knar eru af borginniiðruðu samkomuna með nærveru sinni, þar

Page 1 of 4112345...102030...Last »