Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL ritar grein í nýjasta hefti tímarits SÍM – STARA 2. tbl. 2017:
Nú eru liðnir rúmir 20 mánuðir síðan lög nr. 123/2015 um opinber fjármál voru samþykkt á Alþingi. Lögin breyta í grundvallaratriðum framsetningu fjáragafrumvarpsins og því sjónarmiði verður lýst í þessari grein að breytingin geri almenningi og ýmsum hagsmunaaðilum mun erfiðara fyrir við að kynna sér það sem liggur að baki fjárlögum ríkisins en var í tíð eldri laga um ríkisfjármál. Það stríðir gegn einu af yfirlýstum markmiðum laganna, sem er að tryggja virkt eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár.
Bandalag íslenskra listamanna hefur það hlutverk að gæta hagsmuna listamanna og hefur í því augnamiði sérhæft sig í að skoða fjárlög íslenska ríkisins m.t.t. framlaga til lista og menningar. Í því sambandi hefur BÍL átt árleg samskipti bæði við fjárlaganefnd Alþingis og við framkvæmdavaldið um mikilvægi þess að opinber framlög til list- og menningartengdra stofnana, sjóða og verkefna séu með þeim hætti að áform um eflingu lista og menningar gangi eftir. Umsagnir BÍL til fjárlaganefndar má finna á heimasíðu BÍL.
Áform um öfluga list- og menningartengda starfsemi eru ekki einasta hagsmunamál listamanna og félaga þeirra, heldur koma þau skýrt fram í menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013. Það atriði stefnunnar sem BÍL leggur mesta áherslu á varðar mikilvægi fjölbreytts listalífs og frumkvæðis á vettvangi listsköpunar. Til að þessir eiginleikar sköpunar fái notið sín í raun þurfa fjárframlög ríkisins til list- og menningarstofnana að endurspegla áformin, en ekki síður þarf að sinna af afli starfsemi utan stofnana, sem fjármögnuð er að stórum hluta gegnum opinbera sjóði og skilgreind verkefni.
Hvort tveggja á heima í fjárlögum íslenska ríkisins; framlög til stofnana, sem byggja framboð sitt á listviðburðum á framlagi listamana, og framlög til list- og meningartengdra sjóða þar sem listamenn sækja um starfslaun eða framlög til tilgreindra verkefna. Flestir sjóðirnir eru lögbundnir, t.d. starfslaunasjóðir listamanna, myndlistarsjóður, tónlistarsjóður, kvikmyndasjóður, bókasafnssjóður höfunda o.fl. Kerfi þetta er sambærilegt við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar og ekkert alvarlegt að athuga við uppbyggingu þess eða hugmyndafræði, hins vegar hefur kerfinu verið haldið í spennitreyju takmarkaðra fjárframlaga allt of lengi.
Því hefur verið haldið fram af ábyrgum aðilum í stjórnkerfinu að framlög til lista og menningar hafi verið skorin um a.m.k. 20% eftir hrunið 2009 og hagsmunaaðilar innan listgreinanna hafa haldið því fram að niðurskurðurinn hafi ekki enn verið bættur nema að litlu leyti. Því sjónarmiði hefur ekki verði andmælt af stjórnvöldum. Að vísu má halda því fram að erfitt sé að afla upplýsinga um tölfræði lista og menningar þar sem henni er illa sinnt af opinberum aðilum á borð við stjórnarráðið og Hagstofu Íslands. Þar er gríðarlegt verk að vinna sem stjórnvöld og listamenn eru sammála um án þess að það hafi skilað sér í nægilega afgerandi aðgerðum stjórnvalda eða að fjárframlög hafi fylgt þeim vilja til úrbóta sem stjórnvöld hafa þó látið í veðri vaka.
Nýju lögin um opinber fjármál tóku gildi 1. janúar 2016 og þó markmiðið með þeim sé bætt stefnumótun til lengri tíma og tímasett töluleg markmið í fjármálum hins opinbera og efnahagsmálum almennt, þá hefur ekki tekist sérlega vel til með framsetningu þess hluta fjármálaáætlunar eða frumvarps til fjárlaga sem lítur að listum og menningu. Í fyrsta lagi eru áformin um eflingu lista og menningar, sem sett eru fram í fjármálaáætlun 2018 – 2022, ekki fjármögnuð að neinu marki í frumvarpi til fjárlaga 2018 auk þess sem upplýsingar um upphæðir til smærri stofnana, sjóða og tilgreindra verkefna, sem fram koma í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu eru svo gloppóttar að furðu sætir. Þegar rennt er yfir yfirlitin í fylgiritinu virðist sem í tilfelli lista og menningar séu þau gloppóttari en í öðrum málaflokkum. Í öllu falli þá gagnast engan veginn þeim hagsmunaaðilum sem vilja veita stjórnvöldum hið virka eftirlit, sem skrifað er inn í lög um opinber fjármál.
Breytingarnar sem nýju lögin um opinber fjármál hafa í för með sér snerta Alþingi, ráðuneyti, stofnanir og almenning, og eru breytingarnar svo umfangsmiklar að líklegt er að þær þurfi nokkurn aðlögunartíma, en það er óásættanlegt að grundvallarupplýsingar um þennan brotakennda og viðkvæma málaflokk listir og menning skuli ekki betur framsett en raun ber vitni. Það hlýtur að vera krafa hagsmunafla listamanna að úr þessu verði bætt á næstu vikum og hefur BÍL þegar sent erindi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem óskað er upplýsinga um sundurliðun, sem ætti að vera til staðar í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu en er þar ekki. Þessi skilaboð eru einnig ætluð fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem hefur haft yfirumsjón með innleiðingu laganna og lýsir því yfir í texta fjárlagafrumvarps 2018 (bls. 80) hversu víðtækt samráð þurfi að hafa við innleiðingu laganna um opinber fjármál ef vel eigi að takast. Bandalag íslenskra listamanna skorast ekki undan þeirri áskorun, við svörum erindum á netfanginu bil@bil.is